Hrollur: Hefnd garðdverganna

Page 1


Kafli 1 Smell, smell, smell. Borðtenniskúlan skoppaði yfir kjallaragólfið. „Jess!“ hrópaði ég og fylgdist með Mindý hlaupa á eftir henni. Þetta var heitt og klístrað júníkvöld. Fyrsti mánudagur í sumarfríi. Og Jói B. hafði náð enn einu snilldarhögginu. Það er ég. Jói B. Ég er tólf ára. Mér finnst fátt skemmtilegra en að smella kúlunni í smetti stóru systur minnar og láta hana elta. Ég spila ekki ódrengilega. Mér finnst bara gaman að sýna Mindý fram á að hún er ekki jafn frábær og hún heldur að hún sé. Það mætti ætla að við Mindý værum ekki alltaf sammála. Raunin er sú að ég er ólíkur öllum öðrum í fjölskyldunni. Mindý, mamma og pabbi eru öll ljóshærð, grönn og hávaxin. Ég er með brúnt hár. Ég er líka frekar lágvaxinn og kubbslegur. Mamma segir að ég sé ekki enn búinn að taka vaxtarkippinn.


Ég er semsagt tittur. Og það er frekar erfitt fyrir mig að sjá yfir netið á borðtennisborðinu. En ég get samt unnið Mindý með aðra höndina bundna fyrir aftan bak. Ég elska að vinna jafn mikið og Mindý hatar að tapa. Og hún spilar alls ekki drengilega. Í hvert sinn sem ég á góða sendingu segir hún að það teljist ekki með. „Jói, það er ekki í lagi að sparka kúlunni yfir netið,“ vældi hún um leið og hún sópaði kúlunni undan sófanum. „Láttu ekki svona!“ hrópaði ég. „Allir borðtennismeistarar gera þetta. Þeir kalla það fótboltaskellinn.“ Mindý ranghvolfdi risastórum grænum augunum. „Ómægad!“ tuldraði hún. „Ég á uppgjöf.“ Mindý er skrítin. Hún er trúlega skrítnasti fjórtán ára krakkinn í hverfinu. Af hverju segi ég það? Leyfðu mér að útskýra. Tökum herbergið hennar sem dæmi. Mindý raðar öllum bókunum sínum í stafrófsröð – eftir höfundum. Pældu í því.


Að auki fyllir hún út spjald fyrir hverja þeirra. Hún raðar spjöldunum í efstu skúffuna í skrifborðinu sínu. Hennar eigin einkaspjaldskrá. Ef hún gæti myndi hún eflaust skera ofan af bókunum svo þær yrðu allar í sömu stærð. Hún er fáránlega skipulögð. Hún raðar í fataskápinn sinn eftir litum. Fyrst eru öll rauðu fötin. Svo appelsínugulu. Þá gulu. Síðan koma græn, blá og fjólublá. Hún hengir fötin sín upp í sömu litaröð og regnboginn. Í kvöldmatnum borðar hún réttsælis af disknum sínum. Í alvöru! Ég hef fylgst með henni. Fyrst kartöflustöppuna. Síðan allar baunirnar. Og að síðustu kjöthleifinn. Ef hún finnur svo mikið sem eina baun í kartöflustöppunni fer hún yfir um! Skrítin. Mjög skrítin. Ég? Ég er ekki skipulagður. Ég er svalur. Ég er ekki alvarlegur eins og systir mín. Get verið frekar fyndinn og vinum mínum finnst ég æði. Öllum finnst það. Nema Mindý. „Svona, gefðu nú upp,“ kallaði ég til hennar. „Fyrir næstu aldamót.“


Mindý stóð sín megin við borðið og stillti vandlega af fyrir uppgjöf. Hún stendur alltaf á nákvæmlega sama staðnum. Með nákvæmlega jafn langt á milli fótanna. Það er komið far í gólfið. „Tíu-átta og gef upp,“ kallaði Mindý loks. Hún kallar alltaf stöðuna áður en hún gefur upp. Síðan sveiflaði hún handleggnum. Ég hélt spaðanum upp að munninum eins og hljóðnema. „Hún sveiflar handleggnum,“ þrumaði ég. „Múgurinn þagnar. Þetta er magnað augnablik.“ „Hættu að fíflast, Jói,“ hvæsti hún á mig. „Ég er að einbeita mér.“ Mér finnst svo gaman að látast vera íþróttaþulur. Það gerir Mindý alveg brjálaða. Mindý sveiflaði hendinni aftur. Hún skaut borðtenniskúlunni upp í loftið. Og … „Kónguló!“ öskraði ég. „Á öxlinni á þér!“ „Ojjjjj!“ Mindý sleppti spaðanum og lamdi ofsafengið á axlirnar á sér. Kúlan skoppaði á borðinu. „Náði þér!“ hrópaði ég. „Eitt stig fyrir mig!“


„Ekki séns!“ hrópaði Mindý reiðilega. „Þú ert algjör svindlari, Jói.“ Hún sléttaði vandlega yfir axlirnar á bleika bolnum sínum. Tók svo upp kúluna og sló henni yfir netið. „Ég er allavega fyndinn svindlari!“ svaraði ég. Ég sneri mér í heilhring og negldi boltann. Hann skoppaði einu sinni mín megin áður en hann sigldi yfir netið. „Brot,“ tilkynnti Mindý. „Þú ert alltaf að brjóta á andstæðingnum.“ Ég veifaði spaðanum til hennar. „Láttu ekki svona,“ sagði ég. „Þetta er leikur. Þetta á að vera gaman.“ „Ég er að vinna þig,“ svaraði Mindý. „Það er gaman.“ Ég yppti öxlum. „Hvað með það? Það er ekki aðalatriðið að vinna.“ „Hvar lastu það?“ spurði hún. „Í tyggjóbrandara?“ Síðan ranghvolfdi hún augunum aftur. Ég held að augun muni rúlla út úr höfðinu á henni einn daginn! Ég ranghvolfdi augunum líka – alla leið aftur í höfuð þangað til bara hvítan var sýnileg. „Gott bragð, ha?“


„Sætt, Jói,“ tuldraði Mindý. „Virkilega sætt. Passaðu þig bara. Einn daginn koma augun kannski ekki aftur niður. Sem væri framför!“ „Glataður brandari,“ svaraði ég. „Virkilega glataður.“ Mindý setti sig í stellingar. „Hún tekur sér stöðu,“ sagði ég í spaðann. „Hún er stressuð. Hún er …“ „Jói!“ hvæsti Mindý. „Hættu þessu!“ Hún kastaði borðtenniskúlunni upp í loftið. Hún sveiflaði spaðanum og – „Ógeðslegt!“ hrópaði ég. „Hvaða græna klessa er þetta sem lafir út úr nefinu á þér?“ Í þetta sinn lét Mindý sem hún heyrði ekki til mín. Hún smellti kúlunni yfir netið. Ég stakk mér fram og barði kúluna með spaðabroddinum. Hún skaust langt yfir netið og lenti í horni kjallarans. Á milli þvottavélarinnar og þurrkarans. Mindý skokkaði eftir kúlunni á löngum grönnum leggjunum. „Hey, hvar er Buster?“ kallaði hún. „Svaf hann ekki við hliðina á þurrkaranum?“


Buster er hundurinn okkar. Risastór svartur rottweiler með höfuð á stærð við körfubolta. Hann elskar að kúra á gamla svefnpokanum sem við geymum í einu horni kjallarans. Sérstaklega þegar við erum þar að spila borðtennis. Það eru allir hræddir við Buster. Í svona þrjár sekúndur. Svo fer hann að sleikja mann með löngu blautu tungunni sinni. Eða veltir sér á bakið og vill láta klóra sér á maganum. „Hvar er hann, Jói?“ Mindý beit í vörina. „Hann er hérna einhvers staðar,“ svaraði ég. „Hvers vegna hefurðu svona miklar áhyggjur af Buster? Hann er meira en fimmtíu kíló. Hann spjarar sig.“ Mindý gretti sig. „Ekki ef Mikael nær í skottið á honum. Manstu hvað hann sagði þegar Buster hakkaði í sig tómatplönturnar hans?“ Mikael er nágranni okkar. Buster elskar garðinn hans. Honum finnst notalegt að kúra í skugga risastóra álmtrésins þeirra. Og grafa litlar holur um allan garðinn þeirra. Og stundum stórar holur. Og smakka á grænmetinu þeirra.


Í fyrra gróf Buster upp hvern einasta kálhaus í garði Mikaels. Hann át líka stærsta kúrbítinn í eftirmat. Þetta er líklega ástæðan fyrir því að Mikael hatar Buster. Hann sagði að næst þegar hann fyndi Buster í garðinum sínum yrði hann notaður sem áburður. Pabbi og Mikael eru bestu garðyrkjumenn bæjarins. Þeir eru báðir sjúkir í garðyrkju. Algjörlega sjúkir. Mér finnst líka frekar gaman að grúska í garðinum. En ekki láta það fréttast. Vinum mínum finnst garðvinna vera fyrir fávita. Pabbi og Mikael eru alltaf í svakalegri samkeppni á árlegu garðyrkjusýningunni. Mikael landar vanalega fyrsta sætinu. En í fyrra unnum við pabbi bláa borðann fyrir tómatana okkar. Þá varð Mikael brjálaður. Andlitið á honum varð rautt eins og tómatur þegar nafn pabba var lesið upp. Þess vegna er Mikael harðákveðinn í að vinna í ár. Hann hóf að birgja sig upp af plöntufóðri og pöddueitri fyrir mörgum mánuðum.


Hann gróðursetti líka nokkuð sem enginn annar í North Bay ræktar; skrítnar appelsínugrænar melónur sem heita casaba-melónur. Pabbi segir að Mikael hafi gert mistök. Þessi casaba-tegund verði aldrei stærri en tenniskúla. Vaxtartímabilið í Minnesota sé of stutt. „Garðurinn hans mun tapa,“ lýsti ég yfir. „Tómatarnir okkar vinna pottþétt aftur í ár. Og þökk sé mínum sérstaka jarðvegi þá verða þeir á stærð við strandbolta!“ „Höfuðið á þér líka,“ hvæsti Mindý á móti. Ég rak út úr mér tunguna og gerði mig rangeygan. Það var ágætt svar. „Hver á uppgjöf?“ spurði ég. Mindý var svo lengi að ég var farinn að gleyma mér. „Ég á enn uppgjöf,“ svaraði hún og staðsetti fæturna vandlega. Fótatak truflaði okkur. Þungt, glymjandi fótatak í stiganum fyrir aftan Mindý. „Hver er þar?“ kallaði Mindý. Og þá birtist hann fyrir aftan hana. Augun ætluðu út úr höfðinu á mér. „Ó, nei!“ hrópaði ég. „Það er … Mikael!“



Kafli 2 „Jói!“ rumdi hann. Gólfið hristist þegar hann trampaði í áttina að Mindý. Allur litur rann úr andlitinu á Mindý. Hönd hennar greip svo fast um spaðann að hnúarnir hvítnuðu. Hún reyndi að snúa sér til að líta aftur fyrir sig en gat það ekki. Fæturnir voru frosnir í borðtennisfótsporunum. Hendur Mikaels krepptust í tvo risastóra hnefa og hann virtist virkilega, virkilega reiður. „Ég næ þér. Og núna mun ég vinna. Réttu mér spaða.“ „Fávitinn þinn!“ öskraði Mindý. „Ég – ég vissi að þetta væri ekki Mikael eldri. Ég vissi að þetta væri Mosi.“ Mosi er sonur Mikaels og besti vinur minn. Hann heitir líka Mikael en það kalla hann allir Mosa. Meira að segja foreldrar hans. Mosi er langstærstur af öllum í sjötta bekk. Og sterkastur. Fæturnir eru álíka sverir og trjábolir. Sömuleiðis hálsinn. Svo er hann mjög hávær. Alveg eins og pabbi hans.


Mindý þolir Mosa ekki. Hún segir hann hann sé óheflaður ruddi. Mér finnst hann svalur. „Hey, Jói!“ kallaði Mosi. „Hvar er spaðinn minn?“ Upphandleggsvöðvar hans tútnuðu þegar hann teygði sig eftir mínum. Ég kippti hendinni aftur. En holdmikil hönd hans sló svo fast á öxlina á mér að höfuðið rúllaði næstum af. „Áiiii!“ gelti ég. Mosi hló digurbarkalega svo kjallaraveggirnir nötruðu. Endaði svo hláturinn með ropa. „Þú ert ógeðslegur, Mosi,“ emjaði Mindý. Mosi klóraði sér í dökkbrúnum broddaklipptum kollinum. „Æ, takk, Mindý.“ „Takk fyrir hvað?“ spurði hún. „Fyrir þetta.“ Hann teygði fram höndina og kippti spaðanum úr lófanum á henni. Mosi sveiflaði spaða Mindýjar ofsafengið í kringum sig. Hann var næstum búinn að henda ljósi neðan úr loftinu. „Tilbúinn í alvöruleik, Jói?“ Hann kastaði borðtenniskúlunni upp í loftið og sveigði kröftuglegan handlegginn. Vamm!


Boltinn skaust yfir herbergið. Skoppaði af tveimur veggjum og flaug aftur yfir netið í áttina til mín. „Brot!“ öskraði Mindý. „Þetta er ekki leyfilegt.“ „Svalt!“ hrópaði ég. Ég stakk mér eftir boltanum og rétt missti af honum. Mosi var ótrúlegur í uppgjöf. Mosi hamraði boltann aftur. Hann skaust yfir netið og small á bringunni á mér. Þvokk! „Hey!“ hrópaði ég. Ég nuddaði auman blettinn. „Gott skot, ha?“ hann glotti. „Já. En þú átt að skjóta í borðið,“ sagði ég. Mosi kýldi hnefanum út í loftið. „Jafn sterkur og ofurhetja!“ Mosi vinur minn er frekar hamslaus gaur. Mindý segir að hann sé algjört villidýr. Ég held að hann sé bara fullur af eldmóði. Ég gaf upp á meðan hann var enn að fagna. „Hey! Ekki sanngjarnt!“ sagði hann. Mosi réðst á borðið og barði boltann svo hann varð flatur eins og pínulítil hvít pönnukaka.


Ég urraði. „Þetta var kúla númer fimmtán í þessum mánuði,“ tilkynnti ég. Ég greip litlu hvítu pönnukökuna og henti henni í bláan plastkassa á gólfinu. Hann var yfirfullur af flötum borðtenniskúlum. „Hey! Ég held þú hafir slegið metið þitt!“ sagði ég. „Frábært!“ sagði Mosi. Hann stökk upp á borðtennisborðið og hoppaði upp og niður. „Ofur-Mosi!“ hrópaði hann. „Hættu, fávitinn þinn!“ öskraði Mindý. „Þú brýtur borðið.“ Hún huldi andlitið í lófunum. „Ofur-Mosi! Ofur-Mosi!“ sönglaði hann. Borðtennisborðið ruggaði. Síðan svignaði það undan þyngd hans. Hann var meira að segja farinn að fara í taugarnar á mér. „Mosi, farðu niður! Farðu niður!“ vældi ég. „Hver ætlar að neyða mig?“ sagði hann. Þá heyrðum við öll hávært og hvellt kraaaaaakkkk.

„Þú ert að brjóta borðið!“ öskraði Mindý. „Farðu niður!“ Mosi prílaði niður af borðinu. Hann skjögraði til mín með hendurnar framréttar eins og


uppvakningsskrímslið sem við höfðum séð í Uppvakningunum frá plánetu Núll í sjónvarpinu. „Ég

mun gjöreyða ykkur!“ Svo fleygði hann sér á mig. Um leið og hann skall á mér hrasaði ég og datt á rykugt steypugólfið. Mosi hoppaði ofan á magann á mér og negldi mig niður. „Segðu: Tómatar Mosa eru bestir!“ skipaði hann. Hann hossaði sér upp og niður á bringunni á mér. „Moo-Mosi,“ kveinaði ég. „Tómat … ég get … ekki … andað … í alvöru … hjálp.“ „Segðu það!“ skipaði Mosi. Hann setti sterklegar hendurnar utan um hálsinn á mér. Og kreisti. „Aaaagggghhh.“ Ég kúgaðist. Ég gat ekki andað. Ég gat ekki hreyft mig. Höfuð mitt valt til hliðar. „Mosi!“ heyrði ég Mindý öskra. „Slepptu honum! Slepptu honum! Hvað hefurðu gert?“


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.