Hrollur: Sá hlær best, sem síðast hlær.

Page 1


Kafli 1 „Mmmmm! Mmmmm! Mmmmm!“ Krista reyndi hvað hún gat að ná athygli tvíburasystur sinnar. Linda leit upp úr bókinni sem hún var að lesa til að athuga hvað gengi á. Í stað þess að sjá fallegt andlit systur sinnar sá hún stóra bleika kúlu á stærð við höfuðið á Kristu. „Flott þessi,“ sagði Linda áhugalaus. Leiftursnöggt potaði hún í kúluna og sprengdi hana. „Hey!“ hrópaði Krista um leið og bleik tyggjókúlan sprakk yfir kinnar hennar og höku. Linda hló. „Náði þér.“ Krista greip reiðilega í bók Lindu og lokaði henni með skelli. „Úps, nú veistu ekkert hvar þú varst!“ sagði hún með uppgerðarhryllingi. Hún vissi að systir hennar þoldi ekki að ruglast í blaðsíðutalinu. Linda yggldi sig og þreif bókina aftur. Krista baslaði við að kroppa bleikt tyggjóið af andlitinu.


„Þetta var stærsta tyggjókúla sem ég hef blásið,“ sagði hún reiðilega. Tyggjóið var fast á hökunni. „Ég hef blásið miklu stærri kúlur en þetta,“ sagði Linda yfirlætislega. „Þið eruð ótrúlegar, báðar tvær,“ muldraði mamma þeirra um leið og hún gekk inn í herbergið og lagði snyrtilega samanbrotinn bunka af þvotti á rúmið hennar Kristu. „Metist þið meira að segja um tyggjó?“ „Við erum ekkert að metast,“ muldraði Linda. Hún sveiflaði ljósu taglinu til og sneri sér aftur að bókinni. Stelpurnar voru báðar með slétt ljóst hár. En Linda var með sítt hár sem var yfirleitt tekið saman í tagl og Krista var með mjög stutt hár. Þannig þekkti fólk tvíburana í sundur því að öðru leyti voru þær nánast alveg eins. Báðar voru með hátt enni og stór blá augu. Báðar fengu spékoppa þegar þær brostu. Báðar roðnuðu auðveldlega og þá birtust stórir bleikir deplar á fölum kinnum þeirra. Báðum fannst nefið á sér vera aðeins of breitt. Báðar vildu þær vera eilítið hávaxnari. Lísa, besta


vinkona Lindu, var næstum því sjö sentímetrum hærri þótt hún væri enn ekki orðin tólf ára. „Náði ég öllu?“ spurði Krista og nuddaði rauða og klístraða hökuna. „Ekki öllu,“ sagði Linda og leit upp. „Það er smá í hárinu á þér.“ „Æðislegt,“ muldraði Krista. Hún þuklaði á hárinu á sér en fann ekkert tyggigúmmí. „Náði þér aftur,“ sagði Linda og hló. „Þú ert svo einföld.“ Krista hvæsti reiðilega. „Hvers vegna ertu alltaf svona vond við mig?“ „Ég? Vond?“ Linda horfði sakleysislega á hana. „Ég er algjör engill. Spyrðu hvern sem er.“ Krista sneri sér pirruð að móður sinni, sem tróð sokkum í kommóðuskúffu. „Mamma, hvenær fæ ég mitt eigið herbergi?“ „Hinn tólfta aldrei,“ svaraði mamma og brosti. Krista stundi. „Þú segir þetta alltaf.“ Mamma hennar yppti öxlum. „Þú veist að við höfum ekkert aukapláss, Krista.“ Hún sneri sér að glugganum. „Þetta er fallegur dagur. Hvers vegna eruð þið inni?“ „Við erum engir smákrakkar, mamma,“ sagði Linda og ranghvolfdi augunum. „Við erum tólf


ára. Við erum of gamlar til að fara út að leika okkur.“ „Náði ég öllu?“ spurði Krista aftur og hélt áfram að kroppa bleikar tyggjóklessur af hökunni. „Láttu þetta bara eiga sig, þetta fer þér betur,“ sagði Linda. „Mikið vildi ég að þið væruð almennilegri hvor við aðra,“ dæsti mamma. Skyndilega heyrðist hvellt gelt af neðri hæðinni. „Yfir hverju er Pjakkur nú að æsa sig?“ sagði mamma ergilega. Litli svarti terríerinn var alltaf geltandi út af einhverju. „Hvernig væri nú að þið færuð með hann út að ganga?“ „Ég nenni því ekki,“ muldraði Linda með nefið ofan í bókinni. „Hvað með nýju fallegu hjólin sem þið fenguð í afmælisgjöf?“ sagði mamma og setti hendur á mjaðmir. „Hjólin sem þið gátuð ekki lifað án. Munið þið, þessi sem hafa staðið óhreyfð úti í bílskúr síðan þið fenguð þau.“ „Ókei, ókei. Óþarfi að vera kaldhæðin, mamma,“ sagði Linda og lokaði bókinni. Hún stóð upp, teygði úr sér og henti bókinni á rúmið sitt. „Eigum við?“ spurði Krista Lindu. „Eigum við hvað?“


„Að fara út að hjóla. Við gætum hjólað út á skólalóð og gáð hvort einhver sé þar.“ „Þú vilt bara gá hvort Robbi sé þar,“ sagði Linda og gretti sig. „Hvað með það?“ sagði Krista og roðnaði. „Svona, fáið ykkur nú frískt loft,“ hvatti mamma þær. „Ég ætla út í búð, sé ykkur á eftir.“ Krista rýndi í spegilinn á kommóðunni. Hún var búin að ná mesta tyggjóinu. Hún strauk stutt hárið aftur með báðum höndum. „Komdu, drífum okkur út,“ sagði hún. „Sú sem er síðust er fúlegg.“ Hún skaust út á ganginn og varð hálfu skrefi á undan systur sinni. Þær þeyttust út um bakdyrnar, Pjakkur geltandi á hæla þeim og sólin var hátt á lofti á heiðskírum himni. Loftið var kyrrt og þurrt. Það var eins og það væri sumar en ekki vor. Stelpurnar voru í stuttbuxum og ermalausum bol. Linda beygði sig til að opna bílskúrsdyrnar en stoppaði. Húsið við hliðina vakti athygli hennar. „Sjáðu, það eru komnir veggir,“ sagði hún við Kristu og benti yfir garðinn. „Þetta hús rís svo hratt. Það er ótrúlegt,“ sagði Krista og horfði í sömu átt og systir hennar.


Byggingarverktakar höfðu rifið gamla húsið um veturinn. Nýr grunnur var steyptur í mars. Linda og Krista höfðu skoðað hann þegar verktakarnir voru ekki á staðnum og reynt að átta sig á hvar herbergin ættu að vera. Og nú voru komnir veggir. Byggingin líktist skyndilega alvöruhúsi sem gnæfði upp úr háum timburstöflum, hrúgu af rauðbrúnni mold, haug af múrsteinum og alls konar vélsögum, verkfærum og tækjum. „Það er enginn að vinna í dag,“ sagði Linda. Þær gengu aðeins nær húsinu. „Hverjir heldur þú að flytji í húsið?“ velti Krista fyrir sér. „Kannski æðislega sætur strákur á okkar aldri. Kannski æðislega sætir tvíburastrákar!“ „Oj!“ Linda gretti sig. „Tvíburastrákar? Hversu glötuð geturðu eiginlega verið! Ég trúi ekki að við séum skyldar.“ Krista var vön kaldhæðni Lindu. Þær bæði elskuðu og hötuðu að vera tvíburar. Þær deildu nánast öllu; útliti, fötum og herbergi, og voru því nánari en flestar systur. En vegna þess hve líkar þær voru tókst þeim mjög oft að gera hvor aðra alveg snælduvitlausa.


„Það er enginn hérna. Skoðum nýja húsið,“ sagði Linda. Krista elti hana yfir lóðina. Íkorni sem var kominn hálfa leið upp í tré fylgdist tortrygginn með þeim. Þær fóru í gegnum op í limgerðinu milli lóðanna. Þær gengu framhjá timburstöflunum og stóra moldarbingnum og upp steyptar tröppurnar að húsinu. Þykkt plast var neglt fyrir opið þar sem útihurðin ætti að vera. Krista lyfti einu horninu á plastinu og þær smeygðu sér inn í húsið. Inni var dimmt og svalt og fersk timburlykt lá í loftinu. Gifsveggirnir voru tilbúnir en ómálaðir. „Farðu varlega,“ sagði Linda. „Naglar.“ Hún benti á stóra nagla sem lágu á víð og dreif um gólfið. „Ef þú stígur á nagla færðu stífkrampa og deyrð.“ „Þú yrðir ánægð með það,“ sagði Krista. „Ég vil ekki að þú deyir,“ svaraði Linda. „Bara fáir stífkrampa.“ Hún flissaði hæðnislega. „Haha,“ sagði Krista kaldhæðnislega. „Þetta hlýtur að vera stofan,“ sagði hún og gekk varlega í gegnum herbergið að arninum sem var á veggnum fjærst anddyrinu.


„Hér er hátt til lofts,“ sagði Linda og starði upp í loftið á dökka viðarbitana yfir höfðum þeirra. „Flott.“ „Þetta er stærra en stofan okkar,“ benti Krista á og horfði út um stóran gluggann og út á götuna. „Það er góð lykt hérna.“ Linda andaði djúpt. „Allt þetta sag. Það ilmar eins og furutré.“ Þær gengu í gengum holið og könnuðu eldhúsið. „Eru þessir vírar tengdir?“ spurði Krista og benti á knippi af svörtum rafmagnsvírum sem héngu niður úr bitunum í loftinu. „Prófaðu að snerta einn þeirra, þá kemstu að því,“ stakk Linda upp á. „Þú fyrst,“ skaut Krista til baka. „Eldhúsið er ekki mjög stórt,“ sagði Linda, beygði sig niður og horfði inn í götin fyrir eldhússkápana. Hún rétti úr sér og ætlaði að stinga upp á að þær könnuðu efri hæðina þegar hún heyrði hljóð. „Hvað?“ Augun glenntust upp af undrun. „Er einhver hérna inni?“ Krista stóð grafkyrr í miðju eldhúsinu. Þær hlustuðu báðar. Þögn.


Svo heyrðu þær hljóðlátt hratt fótatak. Nærri. Inni í húsinu. „Förum!“ hvíslaði Linda. Krista var þegar komin hálf undir plastið á leiðinni út um dyraopið. Hún hoppaði niður af útidyrapallinum og hljóp í áttina að lóðinni þeirra. Linda stoppaði neðan við tröppurnar og sneri sér að nýja húsinu. „Hey, sjáðu!“ kallaði hún. Íkorni kom stökkvandi út um glugga. Hann lenti á moldinni og hljóp strax á fleygiferð í átt að stóra hlyninum í garði systranna. Linda hló. „Þetta var bara íkorni.“ Krista stoppaði við runnana. „Ertu viss?“ Hún horfði hikandi á gluggana í nýja húsinu. „Þetta var frekar hávær íkorni.“ Þegar hún sneri sér frá húsinu varð hún hissa að sjá að Linda var horfin. „Hey, hvert fórstu?“ „Ég er hér,“ kallaði Linda. „Ég sé eitthvað!“ Það tók Kristu smástund að finna systur sína. Linda var hálffalin á bak við stóran svartan ruslagám hinum megin á lóðinni. Krista skýldi augunum með annarri hendi til að sjá betur. Linda var hálf ofan í ruslagámnum. Hún virtist vera að gramsa í ruslinu.


„Hvað er þarna ofan í?“ kallaði Krista. Linda henti hlutum til og frá og virtist ekki heyra í henni. „Hvað er þetta?“ kallaði Krista og tók nokkur hikandi skref í átt að ruslagámnum. Linda svaraði ekki. Svo dró hún eitthvað rólega upp úr gámnum. Hún lyfti því upp. Krista sá dökkhært höfuð, handleggi og fótleggi sem héngu líflausir. Höfuð? Handleggir og fótleggir? „Ó, nei!“ hrópaði Krista og greip fyrir andlitið á sér í hryllingi.


Kafli 2 Barn? Krista missti andann og horfði með hryllingi þegar Linda lyfti því upp úr ruslagámnum. Hún sá andlit hans, starandi og frosið. Brúnt hárið stóð stíft upp úr höfðinu. Hann virtist vera í gráum jakkafötum. Handleggir og fótleggir dingluðu máttlausir. „Linda!“ hrópaði Krista, skelfingu lostin. „Er það – er hann … lifandi?“ Hjartað í Kristu hamaðist og hún tók á sprett í átt að systur sinni. Linda var með vesalinginn í fanginu. „Er hann lifandi?“ endurtók Krista lafmóð. Hún snarstansaði þegar systir hennar fór að hlæja. „Nei, ekki lifandi!“ kallaði Linda kát. Þá áttaði Krista sig á því að þetta var alls ekki barn. „Brúða!“ skrækti hún. Linda lyfti henni upp. „Búktalarabrúða,“ sagði hún. „Einhver hefur hent henni. Trúirðu því? Hún er í fínu standi.“


Það tók Lindu smástund að átta sig á því að Krista var lafmóð og eldrauð í framan. „Krista, hvað er að þér? Vá, hélstu að þetta væri alvörubarn?“ Linda hló hæðnislega. „Nei. Auðvitað ekki,“ fullyrti Krista. Linda lyfti brúðunni, skoðaði á henni bakið og leitaði að strengnum sem átti að toga í til að hreyfa á henni munninn. „Ég er alvöru barn,“ lét Linda brúðustrákinn segja. Hún talaði með skrækri rödd með samanbitnar tennur og reyndi að hreyfa ekki varirnar. „Heimskulegt,“ sagði Krista og ranghvolfdi augunum. „Ég er ekki heimskur. Þú ert heimsk!“ lét Linda brúðustrákinn segja hárri ískrandi röddu. Viðarvarirnar hreyfðust upp og niður með smelli þegar hún togaði í bandið á bakinu á brúðunni. Hún færði höndina til og fann hvernig hún gæti látið máluð augun hreyfast. „Hann er örugglega allur úti í pöddum,“ sagði Krista og gretti sig. „Hentu honum aftur, Linda.“ „Kemur ekki til greina,“ sagði Linda og strauk blíðlega yfir viðarhár brúðustráksins. „Ég ætla að eiga hann.“ „Hún ætlar að eiga mig,“ lét hún brúðuna segja.


Krista horfði full grunsemda á brúðuna. Brúnt hárið var málað á höfuðið. Blá augun hreyfðust bara til hliðanna og gátu ekki blikkað. Varirnar voru málaðar í skærrauðum lit og sveigðust upp í óhugnanlegt bros. Höggvið var upp úr neðri vörinni svo hún passaði ekki alveg við þá efri. Brúðan var í gráum tvíhnepptum jakkafötum yfir hvítan skyrtukraga. Kraganum fylgdi ekki skyrta. Í staðinn var bringa brúðunnar máluð hvít. Stórir brúnir leðurskór voru festir við endann á mjóum lafandi leggjunum. „Ég heiti Skellur,“ lét Linda brúðustrákinn segja og hreyfði glottandi munninn upp og niður. „Heimskulegt,“ endurtók Krista og hristi höfuðið. „Hvers vegna Skellur?“ „Komdu, ég skal skella einum á þig!“ lét Linda hann segja og reyndi að hreyfa ekki varirnar. Krista stundi. „Eigum við að hjóla út á skólalóð eða ekki, Linda?“ „Ertu hrædd um að greyið Robbi sakni þín?“ lét Linda Skell spyrja. „Láttu þetta ljóta drasl frá þér,“ endurtók Krista óþolinmóð.


„Ég er ekki ljótur,“ sagði Skellur með skerandi rödd Lindu og hreyfði augun til hliðanna. „Þú ert ljót!“ „Varirnar á þér hreyfast,“ sagði Krista við Lindu. „Þú ert lélegur búktalari.“ „Ég verð betri,“ fullyrti Linda. „Ætlarðu í alvöru að eiga hann?“ hrópaði Krista. „Ég er ánægð með Skell. Hann er krútt,“ sagði Linda og faðmaði brúðuna. „Ég er sætur,“ lét hún hann segja. „Og þú ert ljót.“ „Þegiðu,“ hreytti Krista í brúðuna. „Þegi þú!“ svaraði Skellur með skrækri rödd Lindu. „Af hverju ætlarðu að eiga hann?“ spurði Krista og elti systur sína í átt að götunni. „Ég hef alltaf verið hrifin af leikbrúðum,“ rifjaði Linda upp. „Manstu eftir strengjabrúðunum sem ég átti? Ég lék mér að þeim tímunum saman. Ég bjó til löng leikrit með þeim.“ „Ég lék mér líka að strengjabrúðunum,“ sagði Krista. „Þú flæktir bara strengina,“ sagði Linda og gretti sig. „Þú varst mjög léleg.“


„Hvað ætlarðu að gera við þessa brúðu?“ Krista heimtaði svar. „Ég veit það ekki. Kannski æfi ég atriði.“ Linda varð hugsi og færði Skell yfir á hinn handlegginn. „Ég get örugglega grætt á honum. Þú veist. Komið fram í barnaafmælum og svoleiðis. Haldið sýningar.“ „Til hamingju með afmælið!“ lét hún Skell segja. „Komdu með peningana!“ Kristu var ekki skemmt. Stúlkurnar gengu eftir götunni fyrir framan húsið þeirra. Linda var með Skell í fanginu og annan handlegginn á baki hans. „Mér finnst hann óhugnanlegur,“ sagði Krista og sparkaði steinvölu út á götu. „Þú ættir að setja hann aftur í ruslagáminn.“ „Ekki séns,“ sagði Linda ákveðin. „Ekki séns,“ lét hún Skell segja og hristi á honum höfuðið svo blá líflaus augun hreyfðust til og frá. „Ég set þig í ruslagáminn!“ „Skellur er aldeilis illkvittinn,“ sagði Krista og gretti sig framan í Lindu. Linda hló. „Ekki horfa á mig,“ stríddi hún. „Kvartaðu við Skell.“ Krista yggldi sig.


„Þú ert afbrýðisöm,“ sagði Linda. „Vegna þess að ég fann hann en ekki þú.“ Krista ætlaði að mótmæla en þá heyrðu þær raddir. Krista leit upp og sá Marshall-systkinin sem bjuggu neðar í götunni hlaupa í áttina til þeirra. Þetta voru sætir rauðhærðir krakkar sem Linda og Krista pössuðu stundum. „Hvað er þetta?“ spurði Anna og benti á Skell. „Kann hann að tala?“ spurði yngri bróðir hennar, sem hélt sig í öruggri fjarlægð, svipurinn á freknóttu andlitinu fullur efasemda. „Hæ, ég heiti Skellur!“ lét Linda brúðuna kalla til krakkanna. Hún hélt á Skelli með annarri hendi, lét hann sitja uppréttan og handleggir hans héngu niður með síðum. „Hvar fékkstu hann?“ spurði Anna. „Hreyfast augun í honum?“ spurði Benni, sem hélt sig enn í öruggri fjarlægð. „Hreyfast augun í þér?“ spurði Skellur Benna. Krakkanir hlógu. Benni gleymdi sér. Hann færði sig nær og tók í höndina á Skelli. „Ái! Ekki svona fast!“ gargaði Skellur. Benni saup hveljur og sleppti hendinni. Svo fengu þau Anna hláturskast.


„Hahahaha!“ Linda lét Skell hlæja, hallaði höfðinu á honum aftur á bak og galopnaði á honum munninn. Krökkunum fannst þetta sprenghlægilegt. Þau hlógu enn meira. Linda var ánægð með viðbrögðin og leit á systur sína. Krista sat á gangstéttarbrúninni niðurdregin á svip og hélt höfðinu í höndum sér. Hún er afbrýðisöm, áttaði Linda sig á. Krista sér hvað krakkarnir eru hrifnir af Skelli og ég fæ alla athyglina. Hún er rosalega afbrýðisöm. Ég ætla pottþétt að eiga Skell! sagði Linda við sjálfa sig og gladdist í laumi yfir sigrinum. Hún starði í skærblá augu brúðunnar. Henni brá svolítið við að brúðan virtist stara á móti, sólarljósið blikaði í augum hennar og brosið var breitt og íbyggið.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.