Hrollur 4: Draugaströndin

Page 1


Kafli 1 Ég man ekki hvernig við komumst í kirkjugarðinn. Ég man að himinninn varð dökkur – og svo vorum við bara allt í einu komin. Við systir mín, Tara, og ég gengum meðfram röðum af gömlum skökkum legsteinum; sprungnum og mosagrónum. Þótt það væri sumar lá rök og grá þoka yfir öllu og stafaði frá sér kulda. Það setti að mér hroll og ég vafði jakkanum þéttar utan um mig. „Bíddu, Tara!“ kallaði ég. Eins og vanalega hafði hún strunsað á undan. Hún er alltaf spennt fyrir kirkjugörðum. „Hvar ertu?“ öskraði ég. Ég pírði augun inn í gráa þokuna. Það grillti í skuggann af útlínum hennar aðeins framar þar sem hún stoppaði á nokkurra sekúndna fresti til að rannsaka legsteina. Ég las grafskriftina á steininum sem stóð uppréttur við fætur mér: Í minningu Jóns, sonar Daníels og Söru Smith, sem lést 25. mars 1766 12 ára og 22 daga gamall


Skrítið, hugsaði ég. Þessi krakki var á svipuðum aldri og ég þegar hann lést. Ég varð tólf ára í febrúar. Í sama mánuði og Tara varð ellefu. Ég hraðaði mér áfram og skimaði yfir legsteinana eftir systur minni. Hún var horfin inn í þykka þokuna. „Tara? Hvert fórstu?“ kallaði ég upp í napran vindinn. Rödd hennar sveif til mín. „Ég er hérna, Teitur.“ „Hvar?“ ég ruddist áfram í gegnum laufin og þokuna. Vindurinn þyrlaðist um mig. Lágt langdregið ýlfur hljómaði skammt undan. „Hlýtur að vera hundur,“ tuldraði ég. Trén hristu laufin sín framan í mig. Ég skalf. „Tei-tur.“ Rödd Töru hljómaði eins og hún væri langt, langt í burtu. Ég gekk aðeins lengra og stillti mér svo upp við háan legstein. „Tara! Bíddu! Reyndu að vera kyrr smástund!“ Ég heyrði annað langdregið ýlfur. „Þú ert að fara í vitlausa átt,“ kallaði Tara. „Ég er hérna.“ „Frábært. Takk kærlega,“ tuldraði ég. Hvers vegna gat ég ekki átt systur sem kaus hafnabolta fram yfir það að rannsaka gamla kirkjugarða?


Vindurinn framkallaði djúpt soghljóð. Hrúga af laufum, ryki og mold sveif framan í mig. Ég kreisti aftur augun. Þegar ég opnaði þau aftur sá ég hvar Tara kraup við litla gröf. „Ekki hreyfa þig,“ kallaði ég. „Ég er að koma.“ Ég skáskaut mér meðfram legsteinunum alveg upp að henni. „Það er farið að dimma,“ sagði ég. „Drífum okkur.“ Ég sneri mér við, steig eitt skref áfram – og eitthvað greip um ökklann á mér. Ég hljóðaði upp og reyndi að toga mig lausan. Gripið þéttist bara. Hönd. Hönd sem teygði sig upp úr grafarmoldinni. Ég rak upp skrækt öskur. Tara öskraði líka. Ég sparkaði fast og tókst að losa mig. „Hlauptu!“ æpti Tara. En ég var þegar rokinn af stað. Á meðan við Tara hrösuðum áfram í blautu grasinu tóku grænar hendur að spretta upp út um allt. Skellur! Smellur! Hvellur! Smellur! Handleggirnir spruttu upp allt í kring. Teygðu sig eftir okkur. Gripu í ökklana á okkur. Ég skaust til vinstri. Smellur! Ég vék mér til hægri. Skellur!


„Hlauptu, Tara! Hlauptu!“ kallaði ég til systur minnar. „Upp með hnén!“ Ég heyrði strigaskóna hennar trampa á jörðinni fyrir aftan mig. Síðan hljómaði óttaslegið öskur: „Teitur! Þau náðu mér!“ Ég greip andann á lofti og sneri mér við. Tvær stórar hendur höfðu vafið sig utan um ökklana á henni. Ég fylgdist stjarfur með systur minni berjast um. „Teitur – hjálpaðu mér! Þær vilja ekki sleppa!“ Ég dró djúpt andann og flýtti mér til hennar. „Gríptu í mig,“ leiðbeindi ég og rétti fram handleggina. Ég sparkaði í hendurnar tvær sem héldu henni. Sparkaði eins fast og ég gat. En þær högguðust ekki, vildu ekki sleppa takinu. „Ég – ég get ekki hreyft mig!“ vældi Tara. Moldin virtist iða undir fótum mér. Ég rýndi niður fyrir mig og sá fleiri hendur spretta upp á ógnarhraða allt um kring. Ég togaði harkalega í mittið á Töru. „Hreyfðu þig!“ öskraði ég viti mínu fjær. „Ég get það ekki!“ „Jú, þú getur það víst! Þú mátt ekki gefast upp!“ „Óóóóó!“ missti ég út úr mér þegar tvær hendur gripu um ökklana á mér. Þær höfðu náð mér líka.


Viรฐ vorum bรฆรฐi fรถst.


Kafli 2

„Teitur! Hvað er eiginlega að þér?“ spurði Tara. Ég blikkaði augunum. Tara stóð við hliðina á mér á stórgrýttri strandræmunni. Ég starði út yfir kyrrlátan hafflötinn og hristi höfuðið. „Vá, þetta var skrítið,“ tuldraði ég. „Það rifjaðist upp fyrir mér martröð sem ég fékk fyrir nokkrum mánuðum.“ Tara yggldi sig. „Af hverju núna?“ „Hún gerðist í kirkjugarði,“ útskýrði ég. Ég horfði yfir að pínulitla gamla kirkjugarðinum sem við vorum nýbúin að finna, við jaðarinn á furuskóginum. „Í draumnum skutust grænar hendur upp úr jörðinni og gripu um ökklana á okkur.“ „Viðbjóður,“ svaraði Tara. Hún strauk hártoppinn frá andlitinu. Ef hún væri ekki nokkrum sentímetrum hærri en ég værum við fullkomin systkinasamsetning. Sama stutta brúna hárið, sömu freknurnar þvert yfir nefið, sömu hnotubrúnu augun. Einn munur: Tara er með djúpa spékoppa þegar hún brosir en ekki ég. Guði sé lof.


Við gengum meðfram strandlengjunni í nokkrar mínútur. Stórir gráir steinar og rytjulegar furuhríslur náðu alla leið út í vatnið. „Kannski rifjaðist draumurinn upp fyrir þér núna af því að þú ert stressaður,“ sagði Tara hugsandi. „Þú veist. Yfir því að vera að heiman í heilan mánuð.“ „Já, kannski,“ samsinnti ég. „Við höfum aldrei áður verið svona lengi að heiman. En hvað gæti mögulega gerst hér? Brjánn og Agnes eru frábær.“ Brjánn Samson er fjarskyldur frændi okkar. Eða öllu heldur eldgamall fjarskyldur frændi. Að sögn pabba höfðu Brjánn og Agnes konan hans verið gömul þegar hann var krakki! En þau eru skemmtileg og mjög hress þrátt fyrir aldurinn. Svo við Tara urðum mjög spennt þegar þau buðu okkur að koma og verja síðasta mánuði sumarsins með þeim í gamla húsinu þeirra við sjóinn. Það hljómaði frábærlega – sérstaklega þar sem hinn möguleikinn var þrönga molluheita íbúðin okkar í New Jersey. Við höfðum komið með lestinni þá um morguninn. Brjánn og Agnes tóku á móti okkur á lestarstöðinni og svo keyrðum við meðfram furuskóginum í húsið þeirra. Eftir að við höfðum gengið frá dótinu okkar og borðað hádegismat – rjómalagaða sjávarréttasúpu


– spurði Agnes: „Jæja krakkar, viljið þið ekki skoða ykkur aðeins um? Hér er af nægu að taka.“ Og hér vorum við komin að skoða okkur um. Tara greip í handlegginn á mér. „Heyrðu, förum til baka og skoðum litla kirkjugarðinn!“ sagði hún áköf. „Ég veit ekki …“ Martröðin var enn óþarflega fersk. „Gerðu það. Það verða engar grænar hendur. Ég lofa. Og ég þori að veðja að við finnum flotta legsteina til að þrykkja.“ Tara er óendanlega spennt fyrir gömlum kirkjugörðum. Hún elskar allt sem er óhugnanlegt. Hún les mikið af bókum um dularfullar ráðgátur. Ótrúlegt en satt byrjar hún alltaf á að lesa síðasta kaflann. Tara verður að leysa ráðgátuna. Hún þolir ekki að vita ekki lausnina. Systir mín hefur óteljandi áhugamál en að þrykkja gamla legsteina er eitt af þeim skrítnustu. Hún límir þunnan pappír yfir grafskriftina og notar svo langhliðina á sérstökum vaxlit til að þrykkja stafina og munstrið yfir á pappírinn. „Hey! Bíddu,“ kallaði ég til hennar. En Tara var þegar lögð af stað eftir ströndinni, í átt að kirkjugarðinum. „Láttu ekki svona, Teitur,“ kallaði hún. „Ekki vera skræfa.“


Ég elti hana af ströndinni inn í litla skóginn sem ilmaði af furu. Kirkjugarðurinn var inni í skóginum miðjun, umvafinn hálfhrundum steinveggjum. Við tróðum okkur í gegnum þröngt op í veggnum sem lá inn í garðinn. Tara fór að rannsaka legsteinana. „Vá. Sumir legsteinarnir eru mjög gamlir,“ tilkynnti hún. „Sjáðu þennan hérna.“ Hún benti á lágan legstein. Á framhlið hans var grafin hauskúpa og út úr henni spruttu tveir vængir. „Þetta er dauðahöfuð,“ útskýrði systir mín. „Mjög fornt, púrítanskt tákn. Óhugnanlegt, ha?“ Hún las áletrunina: „Hér hvíla líkamsleifar Jóns Samsons, sem yfirgaf þetta jarðlíf hinn 18. mars 1642, á þrítugasta og áttunda aldursári.“ „Samson. Eins og við,“ sagði ég. „Vá. Ætli við séum skyld?“ Ég reiknaði lauslega í huganum. „Ef við erum skyld þá er Jón Samson langalangalangalangalanga-eitthvað. Hann dó fyrir meira en 350 árum.“ Tara var þegar komin yfir að næstu leiðum. „Hér er einn frá 1647 og annar frá 1652. Ég held ég hafi aldrei áður náð svona gömlu þrykki.“ Hún hvarf bak við háan grafstein.


Ég sá alveg hvar við kæmum til með að verja mánuðinum. Ég var samt kominn með alveg nóg af kirkjugörðum í bili. „Æi, komdu. Könnum ströndina, ha?“ Ég litaðist um eftir Töru. „Tara? Hvert fórstu?“ Ég gekk yfir að háa grafsteininum. Ekki þar. „Tara?“ Andvarinn frá sjónum hristi furugreinarnar fyrir ofan okkur. „Tara, hættu, ókei?“ Ég tók nokkur skref. „Þú veist að mér finnst þetta óþægilegt,“ sagði ég aðvarandi. Höfuðið á Töru skaust upp handan legsteins, um þremur metrum fjær. „Hvers vegna? Ertu hræddur?“ Ég var ekki sáttur við glottið á andlitinu. „Hver, ég!“ sagði ég. „Aldrei!“ Tara stóð á fætur. „Allt í lagi, skræfa. En ég ætla að koma hingað aftur á morgun.“ Hún elti mig út úr garðinum og yfir í grýtta fjöruna. „Hvað ætli sé hérna niðurfrá,“ sagði ég og tók stefnuna á sjávarmálið. „Heyrðu, sérðu þetta?“ Tara nam staðar og sleit upp örsmátt gult og hvítt villiblóm sem hafði sprottið á milli tveggja stórra steina. „Gullgin,“ tilkynnti hún. „Svolítið skrítið nafn á villiblómi, ha?“


„Mjög svo,“ samþykkti ég. Áhugamál númer tvö hjá Töru Samson: villiblóm. Hún safnar þeim saman og pressar í risastórri pappamaskínu sem kallast blómapressa. Tara gretti sig. „Hvað er nú að?“ „Við erum alltaf að stoppa. Mig langar að skoða mig um. Agnes sagði að það væri lítil strönd hérna niðurfrá þar sem við gætum synt ef við vildum.“ „Allt í lagi,“ svaraði hún og ranghvolfdi hnetubrúnu augunum. Við þrömmuðum áfram þar til við komum að lítilli sandströnd. Þar var samt eiginlega meira af grjóti en sandi. Ég horfði út á vatnið og kom auga á langan grjótgarð sem teygði sig út í hafið. „Til hvers ætli þetta sé,“ sagði Tara. „Þetta er til að halda ströndinni á sínum stað,“ útskýrði ég. Ég ætlaði að hefja ræðu til að útskýra strandrof þegar Tara greip andann á lofti. „Teitur – sjáðu! Þarna uppi!“ hrópaði hún. Hún benti á háan grjótbing handan grjótgarðsins við strandlengjuna. Þar hátt uppi, efst á breiðri syllu, kúrði stór og dimmur hellir. „Klifrum upp og skoðum,“ hrópaði Tara æst. „Nei, bíddu!“ Ég minntist þess sem mamma og pabbi höfðu sagt við mig um morguninn þegar við fórum um borð í lestina: Hafðu auga með Töru og


passaðu að hún gleymi sér ekki. „Það gæti verið hættulegt,“ sagði ég. Ég er jú, þrátt fyrir allt, stóri bróðir hennar. Fyrir utan að ég er skynsamari. „Láttu ekki svona,“ tuldraði hún og gretti sig. Tara hélt áfram eftir ströndinni í átt að hellinum. „Við getum allavega skoðað betur. Svo getum við spurt Brján og Agnesi á eftir hvort það sé óhætt eða ekki.“ Ég hélt á eftir henni. „Já, allt í lagi. Eins og fólk á tíræðisaldri sé alltaf að kanna hella.“ Þegar við nálguðumst vað ég að viðurkenna að hellirinn var æðislegur. Ég hafði aldrei áður séð svona stóran helli, nema kannski í gömlu skátablaði. „Ætli það búi einhver hérna,“ sagði Tara spennt. „Þú veist. Svona einbúi á ströndinni.“ Hún bjó til lúður með höndunum og kallaði: „Hallllóóó!“ Tara getur stundum verið svo mikill kjáni. Ég meina, ef þú byggir í helli og heyrðir einhvern hrópa „hallllóóó“ myndir þú þá svara? „Halllóóó!“ Hún gerði þetta aftur. „Förum,“ ítrekaði ég. Lágt og langdregið blístur braut sér leið innan úr hellinum. Við störðum hvort á annað.


„Vá! Hvað var nú þetta?“ hvíslaði Tara. „Kannski ugla?“ Ég kyngdi. „Ég held ekki. Uglur vaka bara á næturnar.“ Svo heyrðist það aftur. Langdregið blístur sem sveif djúpt úr iðrum hellisins. Við skiptumst á augngotum. Hvað gæti þetta verið? Refur? Sléttuúlfur? „Ég er viss um að Brjánn og Agnes eru farin að undrast um okkur,“ sagði Tara lágt. „Við ættum kannski að fara.“ „Já, endilega.“ Ég sneri mér við og lagði af stað en nam staðar þegar ég heyrði blaktandi hljóð. Það kom innan úr hellinum. Og varð sífellt háværara. Ég skýldi augunum og pírði upp í himininn. „Nei!“ Ég greip um handlegginn á Töru þegar risastór leðurblaka steypti sér yfir okkur, með augun glampandi rauð. Það stirndi á vígtennurnar þegar hún hvæsti árásargjörn.


Kafli 3 Leðurblakan sveif niður að okkur. Svo lágt að ég fann þegar hún blakaði vængjunum. Við Tara hrundum niður á harða jörðina. Ég huldi höfuðið með báðum höndum. Hjartað í mér barðist svo hratt að ég heyrði ekki vængjasláttinn. „Hey – hvert fór hún?“ heyrði ég að Tara öskraði. Ég gægðist upp, sá hvar leðurblakan hringaði sig upp í himininn. Ég horfði á hana þjóta framhjá og taka aðra dýfu. Skyndilega fór hún að snúast á fullu. Hún brotlenti á grjótinu rétt hjá okkur. Ég sá annan svartan vænginn bærast veiklulega í andvaranum. Ég prílaði varlega á fætur, hjartað enn á fullu. „Hvers vegna hrundi hún svona niður?“ spurði ég, titrandi röddu. Ég lagði af stað til hennar. Tara hélt aftur af mér. „Ekki koma við. Þú veist að leðurblökur geta borið hundaæði í fólk.“ „Ég ætla ekki að fara svo nálægt,“ sagði ég. „Mig langar bara að sjá aðeins betur. Ég hef aldrei séð alvöru leðurblöku í návígi.“ Það má víst segja að vísindi séu eitt af mínum áhugamálum. Mér finnst gaman að læra um alls konar dýr.


„Komdu. Sjáðu bara,“ sagði ég og fikraði mig yfir slétta gráa hnullungana. „Farðu varlega, Teitur,“ sagði Tara aðvarandi. „Ef þú færð hundaæði kemurðu mér í vandræði.“ „Takk fyrir umhyggjusemina,“ tuldraði ég kaldhæðinn. Ég stoppaði rúman metra frá leðurblökunni. „Vá, ég trúi þessu ekki!“ hrópaði ég. Tara sprakk úr hlátri. Þetta var ekki leðurblaka. Þetta var flugdreki. Ég starði vantrúaður. Rauðu augun tvö sem höfðu virst svo ógnvekjandi voru máluð á pappír! Annar vængurinn hafði rifnað í tætlur þegar flugdrekinn brotlenti. Við beygðum okkur niður til að skoða skaðann. „Passið ykkur! Hann bítur!“ kallaði drengjarödd fyrir aftan okkur. Okkur Töru dauðbrá svo við hrukkum til baka. Ég sneri mér við og sá strák á okkar aldri sem stóð uppi á háum steini. Hann hélt á bandhnykli. „Ha-ha. Rosa fyndið,“ sagði Tara kaldhæðnislega. Strákurinn glotti en svaraði engu. Hann kom nær. Ég sá að hann var með freknur þvert yfir nefið alveg eins og ég og með svipað brúnt hár og ég. Hann sneri sér að steinhleðslunni og kallaði: „Ykkur er óhætt að koma núna.“


Tveir krakkar, stelpa á okkar aldri og lítill strákur, kannski fimm ára, klifruðu yfir hleðsluna. Litli strákurinn var með ljóst hár, blá augu og útstæð eyru. Hár stelpunnar var rauðleitt, hnýtt í tvær fléttur. Öll þrjú voru með eins freknur þvert yfir nefið. „Eruð þið öll í sömu fjölskyldunni?“ spurði Tara. Stærsti strákurinn, sá sem hafði komið fyrst, kinkaði kolli. „Já. Við erum öll úr Samsonfjölskyldunni. Ég heiti Samúel. Þetta er Lovísa og þarna er Natan.“ „Vá,“ sagði ég. „Við heitum líka Samson.“ Ég kynnti okkur Töru. Samúel virtist ekkert spenntur yfir því. „Það eru margir hér með eftirnafnið Samson,“ tuldraði hann. Við störðum hvert á annað í langan tíma. Þau virtust ekkert mjög vingjarnleg. Svo spurði Samúel óvænt hvort við vildum fara að fleyta kerlingar. Við eltum hann niður að sjávarmálinu. „Búið þið hérna nálægt?“ spurði Tara. Lovísa kinkaði kolli. „Hvað eruð þið að gera hérna?“ spurði hún. Hún hljómaði tortryggin. „Við erum í heimsókn hjá frændfólki í mánuð,“ svaraði Tara. „Þau heita líka Samson. Þau búa í litla húsinu handan vitans. Þekkirðu þau?“


„Auðvitað,“ ansaði Lovísa án þess að brosa. „Þetta er lítill staður. Hér þekkjast allir.“ Ég fann sléttan flatan stein og sveiflaði honum út á hafflötinn. Þrjú skopp. Ekki slæmt. „Hvað gerið þið ykkur til skemmtunar hérna?“ spurði ég. Lovísa horfði út á vatnið þegar hún svaraði. „Við tínum bláber, förum í leiki, förum niður að vatninu.“ Hún sneri sér að mér. „Af hverju spyrðu? Hvað gerðuð þið í dag?“ „Ekkert ennþá. Við vorum bara að koma hingað,“ svaraði ég. Ég glotti. „Nema við þurftum að verjast árásum frá illum flugdreka.“ Þau hlógu. „Ég ætla að þrykkja legsteina og safna villiblómum,“ sagði Tara. „Það eru nokkur svæði með virkilega fallegum blómum innar í skóginum,“ sagði Lovísa. Ég fylgdist með Samúel fleyta steini út á vatnið. Sjö skopp. Hann sneri sér glottandi að mér. „Æfingin skapar meistarann.“ „Það er erfitt að æfa sig í blokk,“ tuldraði ég. „Ha?“ sagði Samúel. „Við búum í Hoboken,“ útskýrði ég. „Í New Jersey. Það eru engar tjarnir í byggingunni sem við búum í.“


Tara benti í átt að hellinum. „Farið þið einhvern tíma þarna inn að skoða?“ spurði hún. Natan greip andann á lofti. Samúel og Lovísa urðu furðu lostin á svipinn. „Ertu að grínast?“ hrópaði Lovísa. „Við förum aldrei þangað,“ sagði Samúel lágt og skáskaut augunum á systur sína. „Aldrei?“ spurði Tara. Börnin þrjú hristu höfuðið. „Hvers vegna ekki?“ spurði Tara. „Hvað er málið?“ „Já,“ ítrekaði ég. „Hvers vegna farið þið ekki nálægt hellinum?“ Augu Lovísu stækkuðu. „Trúið þið á drauga?“ spurði hún.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.