Kafli 1 Sólin var um það bil að setjast og málaði allt með appelsínugulu í kveðjuskyni. Það var farið að verða hlýtt aftur eftir harkalegan vetur. Tvær lóur kölluðust á í nálægu rjóðri og fleiri fuglar tóku síðan þátt í samræðunni. Lyktin af sumri lá í loftinu og lofaði öllu góðu. Þetta var eitt af þessum kvöldum þar sem það var eiginlega harðbannað að hanga inni. Kamilla Vindmylla hékk ekki inni en naut samt ekki kvöldsólarinnar eða fuglasöngsins. Hún hékk nefnilega úr reipi sem var hnýtt við svera trjágrein í annan endann og fæturna á henni sjálfri í hinn. Eitt og sér var það rækilega fúlt en verra var það þó að Milla hékk beint yfir gryfju sem var iðandi af sporðdrekum. Svo ægilega svörtum að þeir minntu á lifandi myrkur. Líkt og það væri síðan ekki nógu ferlegt þá var búið að flétta dínamítstangir við hárið á henni. Kamilla var kölluð Vindmylla vegna þess að stundum virtist munnurinn á henni vera tengdur við
vindmyllu í snarbrjáluðu roki. Þá þutu orðin frá henni líkt og snjóhríð þannig að maður þurfti að forða sér hið snarasta og leita skjóls í næstu mögulegu þögn. Núna sagði Milla þó ósköp fátt. Hún hékk með krosslagða handleggi og virtist alls ekki ánægð með þessar aðstæður. Græna lopahúfan hennar hafði dottið af höfðinu ofan í sporðdrekagryfjuna, húslyklarnir og síminn skriðu niður úr vösunum og fóru sömu leið. Sporðdrekarnir vissu ekki alveg hvernig þeir áttu að bregðast við þessum hlutum en réðust á þá bara til að vera vissir. Millu tókst naumlega að bjarga piparbrjóstsykrinum frá þessum sömu örlögum. Hún hélt þéttingsfast utan um bláa pokann og fór gætilega þegar hún mjakaði hendinni ofan í hann til að ná sér í brjóstsykur. „Þið getið gleymt því að komast í brjóstsykurinn,“ sagði hún við sporðdrekana í gryfjunni sem iðuðu ögn hraðar þegar þeir heyrðu röddina í Millu, „hvernig bragðast húslyklarnir mínir?“ spurði hún til að ögra þeim enn frekar. „Svo eruð þið líka með síma … þið
getið kannski hringt og pantað kínamat … eða fleiri húslykla. Brjóstsykurinn er alla vega minn, bara svo það sé á tandurhreinu.“ Milla andvarpaði og fékk sér annan brjóstsykur. Það var lítið gagn í því að demba orðum yfir einhvern sem skildi ekkert hvað maður var að segja. Þá var skárra að nota munninn í að bryðja eitthvað bragðgott. Hún velti því fyrir sér hvað hún myndi frekar vilja gera á svona fallegu kvöldi í stað þess að hanga öfug yfir sporðdrekagryfju. Sund var það fyrsta sem henni datt í hug og síðan það að finna upp nýjar fimleikaæfingar með Kötlu. Að finna upp nýjar fimleikaæfingar með Kötlu … í sundi! „Reyndar væri flest skárra en þetta,“ tuldraði Milla við sjálfa sig og sporðrekana fyrir neðan sig og missti um leið brjóstsykurinn út úr sér og ofan í gryfjuna. Hann límdist við halann á einum sporðdrekanna sem lét sér fátt um finnast og hélt áfram að iða með félögum sínum. „Þú kannt ekki gott að meta,“ sagði Milla og bjóst til að sækja sér nýjan brjóstsykur í pokann. Hún
hætti snögglega við þegar hún fann fyrir því að reipið kipptist til og að sjálf færðist hún tveimur sentimetrum nær sporðdrekagryfjunni. Hún leit upp og sá að einn þráðurinn í reipinu hafði slitnað í sundur. „Alls ekki gott,“ hvíslaði Milla. Hún þorði varla að anda á meðan hlýr vindur ýtti dálítið við henni. „Þessi þráður var örugglega bara lélegri en hinir … er það ekki?“ spurði hún sjálfa sig. „Jú … tvímælalaust,“ svaraði hún sjálfri sér. Annar þráður slitnaði og Milla færðist tveimur sentimetrum neðar. Hún lokaði augunum. „Þessir tveir þræðir voru örugglega bara lélegri en allir hinir … sammála?“ spurði Milla sjálfa sig í annað sinn. „Alveg hjartanlega sammála,“ svaraði hún og æpti síðan hástöfum þegar reipið slitnaði algjörlega í tvennt. Tíminn getur stundum hagað sér furðulega. Á meðan Milla féll var eins og hann tæki að líða löturhægt. Það er auðvitað ljómandi fínt þegar maður er að gera eitthvað rækilega hressandi og fjörugt en lítið í það varið á meðan maður hrynur á ógnarhraða ofan í
sporðdrekagryfju. Atburðir undanfarinna daga skriðu í gegnum hugann á skelfingu lostinni Millu á meðan hún fylgdist með svartgljáandi gryfjunni nálgast. Hvernig í óskapnaðinum tókst henni að koma sér út í þessa vitleysu? Hvar voru vinir hennar? Og … það sem skipti kannski mestu máli … hvernig berst maður við fjögur hundruð fimmtíu og níu sporðdreka með ekkert til að verja sig nema hálfan poka af piparbrjóstsykri? „Ef ég hefði nú vitað að þetta færi svona,“ hugsaði Milla með sjálfri sér, „þá hefði ég farið allt öðruvísi að þessu. Mér sem leið svo ágætlega fyrir bara fjórum dögum síðan … fyrir fjórum dögum síðan þegar ég labbaði heim úr skólanum og …“