Kamilla Vindmylla og unglingarnir í iðunni

Page 1


1 Sólin var um það bil að setjast og málaði allt með appelsínugulu í kveðjuskyni. Tvær lóur kölluðust á í nálægu rjóðri og fleiri fuglar blönduðu sér í samræðurnar. Það var farið að hlýna aftur eftir harkalegan vetur. Lyktin af sumri lá í loftinu og lofaði öllu góðu. Þetta var eitt af þessum kvöldum þar sem það var eiginlega harðbannað að hanga inni. Kamilla Vindmylla hékk ekki inni þetta kvöldið en naut samt ekki sólarinnar eða fuglasöngsins. Hún hékk vissulega úti en hún hékk þar neðan úr reipi sem var hnýtt við svera trjágrein í annan endann og fæturna á henni sjálfri í hinn. Eitt og sér var það rækilega fúlt en verra var þó að Milla hékk beint yfir gryfju sem var iðandi af sporðdrekum. Svo ægilega svörtum að þeir minntu á lifandi myrkur. Líkt og það væri síðan ekki nógu ferlegt þá var búið að flétta dínamítstangir við hárið á henni. Kamilla var kölluð Vindmylla vegna þess að stundum virtist munnurinn á henni tengdur við vindmyllu í snarbrjáluðu roki. Þá þutu orðin frá henni líkt og snjóhríð þannig að maður þurfti að forða sér hið snarasta og leita skjóls í næstu mögulegu þögn. Núna sagði Milla þó ósköp fátt. Hún hékk með krosslagða handleggi og virtist alls ekki ánægð með


þessar aðstæður. Græna lopahúfan hennar hafði dottið af höfðinu og ofan í sporðdrekagryfjuna, húslyklarnir og síminn skriðu niður úr vösunum og fóru sömu leið. Sporðdrekarnir vissu ekki alveg hvernig þeir áttu að bregðast við þessum hlutum en réðust á þá bara til að vera vissir. Millu tókst naumlega að bjarga piparbrjóstsykrinum frá þessum sömu örlögum. Hún hélt þéttingsfast utan um bláa pokann og fór gætilega þegar hún mjakaði hendinni ofan í hann til að ná sér í brjóstsykur. „Þið getið gleymt því að komast í brjóstsykurinn,“ sagði hún við sporðdrekana sem iðuðu ögn hraðar í gryfjunni sinni þegar þeir heyrðu röddina í Millu. „Hvernig bragðast húslyklarnir mínir?“ spurði hún til að ögra þeim enn frekar. „Svo eruð þið líka með síma … þið getið kannski hringt og pantað kínamat … eða fleiri húslykla. Brjóstsykurinn er alla vega minn, bara svo það sé á tandurhreinu.“ Milla andvarpaði og fékk sér annan brjóstsykur. Það var lítið gagn í því að demba orðum yfir einhvern sem skildi ekkert hvað maður var að segja. Þá var skárra að nota munninn í að bryðja eitthvað bragðgott. Hún velti því fyrir sér hvað hún myndi frekar vilja gera á svona fallegu kvöldi í stað þess að hanga öfug yfir sporðdrekagryfju. Sund var það fyrsta sem henni datt í hug og númer tvö að finna upp nýjar fimleikaæfingar


með Kötlu. Að finna upp nýjar fimleikaæfingar með Kötlu … í sundi! „Reyndar væri flest skárra en þetta,“ tuldraði Milla við sjálfa sig og sporðdrekana fyrir neðan og missti um leið brjóstsykurinn út úr sér og ofan í gryfjuna. Hann límdist við halann á einum sporðdrekanna sem lét sér fátt um finnast og hélt áfram að iða með félögum sínum. „Þú kannt ekki gott að meta,“ sagði Milla og bjóst til að sækja sér nýjan brjóstsykur í pokann. Hún hætti snögglega við þegar hún fann að reipið kipptist til og sjálf færðist hún tveimur sentímetrum nær sporðdrekagryfjunni. Hún leit upp og sá að einn þráðurinn í reipinu hafði slitnað í sundur. „Alls ekki gott,“ hvíslaði Milla. Hún þorði varla að anda á meðan hlýr vindur ýtti dálítið við henni. „Þessi þráður var örugglega bara lélegri en hinir … er það ekki?“ spurði hún sjálfa sig. „Jú … tvímælalaust,“ svaraði hún sjálfri sér. Annar þráður slitnaði og Milla færðist tveimur sentímetrum neðar. Hún lokaði augunum. „Þessir tveir þræðir voru örugglega bara fúnir og illa festir en restin er í fínu lagi … sammála?“ spurði Milla sjálfa sig í annað sinn. „Alveg hjartanlega sammála,“ svaraði hún og æpti síðan hástöfum þegar reipið slitnaði algjörlega í tvennt. Tíminn getur stundum hagað sér furðulega. Á meðan Milla féll var eins og hann tæki að líða löturhægt. Það er


auðvitað ljómandi fínt þegar maður er að gera eitthvað rækilega hressandi og fjörugt en lítið í það varið á meðan maður hrynur á ógnarhraða ofan í sporðdrekagryfju. Atburðir undanfarinna daga skriðu í gegnum huga skelfingu lostinnar Millu á meðan hún fylgdist með svartgljáandi gryfjunni nálgast. Hvernig í óskapnaðinum tókst henni að koma sér út í þessa vitleysu? Hvar voru vinir hennar? Og … það sem skipti kannski mestu máli … hvernig berst maður við fjögur hundruð fimmtíu og níu sporðdreka með ekkert til að verja sig nema hálfan poka af piparbrjóstsykri? Ef ég hefði nú vitað að þetta færi svona, hugsaði Milla með sjálfri sér, þá hefði ég farið allt öðruvísi að þessu. Mér sem leið svo ágætlega fyrir bara tveimur dögum … fyrir tveimur dögum þegar ég labbaði heim úr skólanum og …


2 … sólin skein. Milla sparkaði á undan sér loftlausum fótbolta sem hún hafði fundið á heimleiðinni. Hún bjó til stóran stút á munninn og andaði frá sér. Það stóð ekki gufustrókur út úr henni eins og í gær. Milla brosti og pírði augun í átt að sólinni. „Bráðum kemur ekki betri tíð, því betri gæti tíðin ekki orðið … og svo eitthvað rosa-svaka-rækilega-bilað langt um súpur!“ raulaði Milla og lét töskuna hanga niður af olnbogunum þannig að hún straukst við hælana í hverju skrefi. Húfan var komin ofan í augu þannig að Milla sá nánast ekkert nema boltann á jörðinni fyrir framan sig. Hún sparkaði, hlustaði og reyndi síðan að rata beint á boltann án þess að fylgjast með því hvert hann færi. Hann fór ekki langt í hverju sparki enda þungur af loftleysinu. Milla elti boltann hröðum skrefum í nítugasta og sjöunda skipti en snarstoppaði þegar hún rak höfuðið í eitthvað mjúkt. Hún leit upp, dró húfuna frá augunum og horfði beint á rass í bláum gallabuxum. „Gaur … án djóks?“ sagði unglingsstrákurinn sem átti rassinn og leit á Millu með bæði augun galopin og munninn líka svo það færi alls ekki á milli mála hversu hneykslaður hann var yfir því að Milla skyldi ýta í rassinn á honum með höfðinu. Hann var með silfraðan


pinna fyrir ofan annað augað og litla kúlu í sama lit sem stakk sér út úr andlitinu, rétt fyrir ofan hökuna. Hann var í vínrauðri hettupeysu sem hefði passað betur á Millu og brúnum leðurjakka sem var ennþá minni en hettupeysan. Hann var með belti á gallabuxunum en Milla var viss um að það hlyti að vera gallað eða þá að strákurinn væri með vasana troðfulla af klinki því buxurnar virtust rétt naumlega ná að hanga uppi á mjöðmunum. Milla gat ekki stillt sig um að flissa þegar hún sá að efri helmingurinn af nærbuxunum hans var til sýnis á milli hettupeysunnar og buxnanna. Kannski hefði hún getað stillt sig ef nærbuxurnar hefðu ekki verið skreyttar með ljósbláum sæhestum sem allir höfðu sólgleraugu og stráhatt en sú var þó raunin og þess vegna tróð flissið hennar Millu sér út á milli fingranna þegar hún lagði lófann yfir munninn. „Hvað? Hérna … hefurðu aldrei séð nærbuxur áður eða ertu eitthvað skrýtin eða bæði?“ spurði unglingsstrákurinn og hvessti augun á Millu. Síðan sneri hann sér glottandi að stelpunum þremur sem stóðu umhverfis hann og yppti öxlum kæruleysislega. Hann var að vanda sig við að vera töff og hafði enga þolinmæði gagnvart litlum flissandi stelpum sem rákust í rassinn á honum.


„Jú … alveg helling sko,“ svaraði Milla, „ég á sjálf alveg troðfulla skúffu og mamma eitthvað svipað. Síðan sér maður þetta auðvitað voðalega mikið í búðunum … sérstaklega þegar maður er alls ekki að leita en þegar maður er síðan loksins í alvöru nærbuxnahugleiðingum þá er það algjörlega vonlaust mál að finna eitthvað sem maður gæti hugsað sér að kaupa. Þú veist hvað ég meina … er það ekki? Jú … það hlýtur að vera. Ég geri að minnsta kosti ráð fyrir því að það hafi verið eitthvað lélegt úrvalið þegar þú keyptir þessar. Keyptirðu þær kannski ekki sjálfur? Úff … ég skil þig. Ég á frænku sem heitir Fjóla … hún er sko hálfsystir hennar ömmu Emmu … og hún virðist halda að ég þvælist um berrössuð allan daginn og alla daga. Að minnsta kosti kemur hún aldrei í heimsókn öðruvísi en með þrjár til fimm og einu sinni SJÖ nýjar nærbuxur á mig. Ég er auðvitað þakklát fyrir hugulsemina en vandamálið er bara það að hún kaupir ekkert nema það sé rækilega bleikt og helst með einhyrningum hoppandi um á skýjabólstrum. Ég er sko orðin ellefu og rúmlega það … bleikt með einhyrningum er ekki alveg að virka lengur. En ég ætti kannski að vera þakklát fyrir að vera laus við ljósbláa sæhesta? Hvað segið þið stelpurnar annars? Er ekki bleikt með einhyrningum algjör vitleysa þegar maður er orðinn ellefu og rúmlega það?“ „OMG,“ svaraði ein unglingsstúlknanna.


„LOL,“ sagði næsta. „OMG … LOL,“ sagði sú þriðja. Unglingsstrákurinn sneri sér aftur að Millu. Hann var orðlaus en galopnaði þó bæði augu og munn líkt og fyrr til að sýna hneykslun sína. Hann var ekki vanur því að þurfa að yrða oftar en einu sinni á pirrandi krakka áður en þeir hypjuðu sig. „OMGLOL?“ spurði Milla og hallaði undir flatt, „hvað áttu við? Er þetta svona geimveruleikstal? Bíðið … leyfið mér að hugsa aðeins,“ bætti hún við og lokaði augunum einbeitt á svip. „SERBLÚBB GORGLÍ URGL,“ sagði hún síðan með þeirri dýpstu rödd sem hún gat framkallað. Það var ekkert sérstaklega djúpt og minnti helst á kvefaðan kálf en Milla gerði sitt besta líkt og alltaf. „Ætti ég kannski að ná í Jakob? Hann er vinur minn og elskar alla svona geimveruleiki. Fyrir honum eru geimverur reyndar enginn leikur heldur lífið sjálft þannig að maður þarf að fara gætilega til að móðga hann ekki þegar maður talar um þessa hluti við hann. Hann er til dæmis handviss um það þessa dagana að það sé yfirvofandi árás eða innrás eða bæði frá plánetunni Sloríu en lífverurnar þar eru einhver blanda af mönnum og marhnútum og þær girnast hafið okkar víst einhver lifandis ósköp. Ég veit hvað þið eruð að hugsa … ég er alltaf að segja Jakobi að hann eyði allt of miklum tíma á þessum útlensku geimveruspjallsíðum


og að þær geri hann algjörlega ruglaðan á endanum. Hann hlustar samt voða lítið og ef maður þjarmar of mikið að honum setur hann upp fýlusvip og fullyrðir að maður hafi verið heilaþveginn af óvininum í svefni.“ „Gaur! Án djóks!“ sagði unglingsstrákurinn ergilega, greip um hausinn á sér og fórnaði síðan höndum. „Ég veit!“ sagði Milla og fórnaði sínum eigin höndum, „það er alveg þrælmagnað að hann skuli láta svona ennþá. Orðinn ellefu ára og rúmlega það! Ég meina … það er ekki eins og ein einasta af þessum árásum eða innrásum sem hann hefur talað um í gegnum tíðina hafi nokkurn tíma átt sér stað í alvörunni!“ Unglingsstrákurinn leit á vinkonur sínar sem flissuðu og það gerði hann enn reiðari. Hann tók upp loftlausa boltann hennar Millu og virtist eiga í vandræðum með að ákveða hvort hann ætti frekar að sparka honum eins langt í burtu og hann gæti eða hreinlega kasta honum í hausinn á þessum masandi krakka sem hafði eyðilagt það fyrir honum að vera alvarlega töff fyrir framan stelpur. „Farðu varlega,“ sagði Milla og benti á boltann, „ég held að hann hafi rúllað í hundakúk áðan … og gæsakúk í næsta sparki þar á eftir.“ „Gaur!“ hvæsti unglingsstrákurinn, kastaði frá sér boltanum aftur, þurrkaði af lófunum í gallabuxurnar og


gekk síðan ógnandi í átt að Millu, „þú ert í SVO vondum málum!“ „Afsakið!“ hrópaði Felix sem kom skokkandi í átt að Millu og unglingsstráknum. „Mig grunar að hér sé einhver misskilningur á ferð,“ bætti hann við og hallaði sér móður fram með hendur á lærum. „OMG, þessi er í jakkafötum,“ sagði ein unglingsstúlknanna og benti á Felix. Vinkonur hennar vissu ekki alveg hvernig þær áttu að bregðast við lafmóðum Felix í jakkafötum en flissuðu til öryggis. „Misskilningur? Hvernig misskilningur?“ spurði unglingsstrákurinn. Hann var frekar feginn að Felix skyldi koma og trufla því maður getur jú bara gengið ákveðið lengi með ógnandi tilburðum í átt að ellefu ára stelpu áður en maður þarf að gera eitthvað annað. Fyrir utan óvissuna með hvað þetta annað eigi svo að vera … „Misskilningurinn er nefnilega sá að þessi stelpa hérna,“ sagði Felix og benti á Millu, „hún er nefnilega skal ég þér segja … þannig er mál með vexti að … sjáðu til … sjaldgæfur hitabeltissjúkdómur! Einmitt! Og bráðsmitandi!“ Milla horfði hissa á Felix, laumaðist til að leggja hönd á enni sér og renndi síðan fingrum niður eftir hálsinum til að kanna hvort hann væri bólginn.


„Hæ Felix,“ sagði Milla hikandi og brosti vandræðalega til unglingsstráksins, „reyndar líður mér alveg sæmilega … ertu viss?“ „Bráðsmitandi!“ endurtók Felix með tilþrifum og stelpurnar hörfuðu nokkur skref aftur á bak á meðan strákurinn lagði hendurnar yfir munninn og nefið. „Hvernigbeltasjúkdómur?“ spurði hann kæfðum rómi. „Hitabeltissjúkdómur,“ svaraði Felix alvarlegur í bragði, „innfæddir kalla hann masaríu en á læknalatínu nefnist hann talarum sem vindmyllus … þið hafið kannski heyrt á hann minnst sem … uuu … málbeinsbólgu eða tungusturlun.“ „Ókei, gaur … komdu ekki nálægt mér,“ sagði unglingsstrákurinn við Millu, „ég þarf að gera alls konar hluti og nenni því núll að fá einhverja ruglaða pest!“ „Án djóks … frænka mín fékk svona,“ pískraði ein unglingsstúlknanna að vinkonum sínum, „missti röddina þegar hún var búin að tala um ilmvötn og garðyrkju án þess að stoppa í þrjár vikur eða eitthvað … hélt samt áfram að tala þótt það heyrðist ekkert … fattið þið?“ „Uuu … sjúkt,“ sagði önnur vinkonan. „Uuu … sjúkasta,“ sagði hin. „Ég kem henni í sóttkví hið snarasta,“ sagði Felix, greip um axlirnar á Millu og ýtti henni svo hratt á undan sér að hún átti í mestu vandræðum með að halda jafnvægi.


„Felix … hvað í óskapnaðinum?“ tautaði Milla á meðan hún hrasaði burt frá unglingahópnum, „ég var í miðri samræðu!“ „Hafið engar áhyggjur!“ hrópaði Felix yfir öxlina til unglinganna, „ég gæti þess að hún nái ekki að breiða út þessa plágu!“ „Vel gert, litli gaur … vel gert!“ kallaði unglingsstrákurinn á eftir þeim Felix og Millu en sneri sér síðan aftur að vinkonum sínum og vandaði sig áfram við að vera töff.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.