Koparborgin

Page 1


1 Pietro horfði á fjarlæga ljósdeplana við hafnarbakkann synda fyrir augum sér á meðan hann beið eftir að deyja. Hann lá á þakinu á litla húsbátnum af því að inni voru allir dánir. Hann mundi ekki hvað hann hafði verið lengi veikur en þetta var önnur nóttin hans uppi á þakinu. Á næturnar var þægilega svalt og það róaði hann að horfa á ljósdeplana og reyna að telja þá, en á daginn lá hann og stiknaði og vatnsbrúsinn var löngu tómur. Eins og dáleiddur fylgdist hann með ljósinu á hafnarbakkanum hreyfast til og frá. Það hreyfðist miklu meira en síðustu nótt. Pietro ruglaðist stöðugt í talningunni en það skipti ekki öllu máli. Hann fylgdist með deplunum skipta sér upp í fjóra hópa sem tóku síðan að færast nær og nær. Hann sá þá ekki skýrt því það vætlaði enn blóð úr augunum á honum en þegar vindurinn færði honum lyktina af logandi eldi fann hann óttann læðast að sér. Pietro reisti sig upp og fannst hann um leið alltof berskjaldaður á þakinu, of sýnilegur. Ógleðin helltist yfir en hann togaði sig að þakbrúninni og lét sig detta niður á þilfarið. Hann horfði fullur löngunar á sjóinn en óttaðist að geta ekki synt, að hann myndi sökkva eins og steinn um leið og hann snerti vatnið. Pietro dró ermina fram, lagði lófann fyrir vitin og gekk inn í káetuna. Hann leit ekki í kringum sig en fór beint að litla hornborðinu, sópaði af því útsaumuðum dúknum og dauðum pottablómum og reyndi að toga


það á eftir sér út á þilfar. Það var svo þungt að hann varð að nota báðar hendur og hann gretti sig út af lyktinni. Fyrir innan hengið glitti í hjónarúmið, litla rúmið sem hann hafði deilt með bróður sínum og fætur undan teppi. Pietro lokaði augunum og togaði þrjóskur í borðið. Hann strandaði í dyrunum. Borðið var of breitt fyrir dyragættina. Með andköfum velti hann því á hvolf og hófst handa við að skrúfa fæturna af, einn í einu. Áreynslan hafði komið blóðinu aftur af stað, það fossaði úr munninum og nefinu og eyrun voru líka vot og klístruð. Síðan átti hann eftir að reisa borðplötuna upp á rönd, draga hana út og láta hana detta fram af borðstokknum. Hann lét sjálfan sig falla á eftir. Vatnið var svalandi. Þegar Pietro kom úr kafi heyrði hann kallað ekki langt frá og leit til hliðar. Við enda húsalengjunnar birtist árabátur. Allir mennirnir um borð huldu vit sín með stórri grímu sem minnti á fuglsgogg. Þeir sem ekki reru héldu á logandi kyndlum og báru þá upp að húsunum sem þeir sigldu framhjá. Hvenær sem bátsmennirnir sáu opnar dyr eða glugga fleygðu þeir eldinum inn. Pietro reyndi að halda sér sem mest í kafi og svamlaði í flýti undir staurana sem báru húsin uppi. Þrátt fyrir að rata vel út úr hverfinu fór hann ýmsar krókaleiðir til að halda sig undir húsunum og forðast húsbátana, sem ekkert skjól veittu. Það brakaði og brast í logandi húsunum yfir höfði hans og tvisvar heyrði hann hrópað á hjálp. Eldur blossaði upp í húsi beint á móti, fremri staurarnir létu undan og húsið hallaðist fram á við. Dyrnar opnuðust og alls konar


drasl rann út á pallinn og ofan í sjóinn. Stígvél, rugguhestur og fata full af hnífapörum og leirtaui. Þegar hann komst að útjaðri hverfisins blöstu ljósin á hafnarbakkanum við, ekki svo langt í burtu. Pietro vafði fótleggjunum utan um staur eins hússins og hélt sér dauðahaldi, þrátt fyrir að útundan sér sæi hann aðra sem syntu hiklaust til lands. En hann þorði ekki að sleppa takinu, ekki fyrr en eldurinn neyddi hann til þess, þá fyrst leyfði Pietro straumnum að bera sig að landi. Hann leit einu sinni til baka og sá ekkert nema eldtungurnar sem teygðu sig til himins og spegluðust í sjónum. Það var ekkert eftir af staurahverfinu. Aldan bar borðplötuna nær og nær hafnarbakkanum og með hverju augnablikinu varð Pietro hræddari. Á bryggjunni logaði bálköstur sem varpaði flöktandi bjarma á einbeittan múginn í landi og fólkið sem svamlaði örmagna um í sjónum. Í örvæntingu reyndi það að ná taki á bryggjustólpunum en um leið hljóp múgurinn til, vopnaður stikum, og ýtti fólkinu á kaf aftur. Manneskja með lítið barn í fanginu studdi sig við bryggjustólpa og reyndi að halda höfði barnsins upp úr vatninu. Samstundis dundu stafshöggin, hún sleppti takinu og höfuð hennar og barnsins hurfu undir vatnsborðið. Þrír stjakar gripu tækifærið og ýttu henni dýpra og dýpra. Þegar þeir loksins slepptu flaut manneskjan upp, faðmur hennar tómur. Lágur sigrihrósandi kliður fór um múginn á hafnarbakkanum en síðan varð aftur hljótt. Enn var verk að vinna. Pietro hafði séð nóg. Hann tróð marvaðann og reyndi að spyrna á móti öldunni sem bar hann æ nær skini kyndlanna. Það var engan tíma að missa, brátt myndu


mennirnir með fuglsgoggana snúa aftur í land og króa hann af. Pietro sparkaði á móti straumnum en áttaði sig fljótt á því að ekki var lengur nein hjálp í borðplötunni, hún íþyngdi honum. Hann þorði ekki að líta aftur fyrir sig en fannst hann heyra gjálfrið í árum, hann sleppti borðplötunni í snarhasti og stakk höfðinu undir vatnsborðið. Það var of dimmt til að hann sæi svo mikið sem sínar eigin hendur, en hann tók stefnuna frá borginni, á eiðið sem lá út í gamla vitann. Pietro hafði oftsinnis synt til lands með hinum krökkunum, allt frá því hann var lítill, en nú fannst honum hann máttlausari en ungbarn, alltof máttlaus til að berjast á móti öldunum sem skullu á andlitinu þegar hann kom upp til að anda. Hann hafði ekki hugmynd um hvernig ferðinni miðaði, því í vitanum logaði ekkert ljós og hafði ekki gert í mörg ár. Í hvert skipti sem Pietro fór í kaf gat hann ekki varist þeirri tilfinningu að þótt hann hreyfði hendur og fætur sykki hann stjórnlaust í átt til botns. Honum brá því þegar hann rak allt í einu fótinn í stein og stakk höfðinu með andköfum upp úr sjónum. Hann var kominn upp í fjöru. Pietro vissi ekki hvort hann hafði náð út á eiðið eða ekki því það var kolniðamyrkur. En enginn beið hans, hann var óhultur. Hann reis á fætur og staulaðist áfram yfir sleipa, þangi vaxna steina, svo lengi að hann dró þá ályktun að þetta hlyti að vera eiðið sem lá út í vitann. Jafnvel þegar Pietro fann ekki lengur fyrir vatninu neyddi hann sig áfram. Það var að flæða að og hann vissi ekki hversu hátt vatnsborðið mundi ná. Loks gat hann ekki meira og hrundi niður milli tveggja steina. Brjóstkassinn gekk upp og niður af


mæði, hann hóstaði og það rann vatn og blóð úr nefinu á honum. Hann pírði augun, handan borgarinnar í austri litaði bleik slikja himininn. Það var farið að bjarma af degi. Hann hallaði sér aftur að steininum, dró andann djúpt og sneri baki í hafið. Því næst sofnaði hann. Þegar hann vaknaði var sólin í hádegisstað. Pietro stóð á fætur og verkjaði í allan líkamann. Hann þreifaði á vitum sér en þar var ekkert, ekkert blóð. Hins vegar svimaði hann af hungri en við því var ekkert að gera. Hann rétt gjóaði augunum í átt til hrörlegs vitans, gerði yfir sér gæfumerki og hélt svo í átt til borgarinnar. Fjaran var klettótt en hann var fljótur að finna gamla einstigið. Fyrir ofan var hrjóstrugt land, þar sem ekkert óx nema snöggt kjarr. Meðfram þjóðveginum stóðu enn yfirgefnir vinnuskúrar og fiskihjallar. Leiðin í borgina var löng og Pietro fannst húsin aldrei færast nær. Hann var svo þyrstur að hann drakk öðru hvoru úr skítugum skurði við veginn en vatnið var of gruggugt til að hann þyrði að drekka nægju sína. Sterk sólin skein beint ofan á kollinn svo hann skýldi sér með stórri þarablöðku og einbeitti sér að útlínum ystu húsanna. Hann vildi ekki hugsa svo hann einbeitti sér að því að telja; bugðurnar á veginum, mávana og sinn eigin hjartslátt. Síðan lagði hann þetta saman, dró frá og margfaldaði þar til hann endaði á fallegri tölu. Hann þurfti oft að stoppa til að hvíla sig en það kom ekkert blóð, enn var hann ekki með svo mikið sem blóðnasir. Það var langt liðið á daginn þegar Pietro kom að fyrstu tvílyftu húsunum og múrsteinslögðu götunum. Hann gekk varlega um, hér hafði enginn búið árum saman og dyr og gluggar göptu tómlega út á götuna.


Hann hljóp að fyrsta vatnskrananum sem hann sá og lagðist af öllum sínum þunga á stórt járnhandfangið. Vatnspósturinn virkaði ennþá, fyrst skall vatnið grænleitt og illa lyktandi ofan í steinþróna en síðan fylltist hún af tæru vatni. Pietro svolgraði það í sig og síðan berháttaði hann. Hann þvoði sjálfan sig og fötin eins vel og hann gat. Blóðblettirnir og saltlyktin brennimerktu hann. Það var orðið hrollkalt en Pietro fór aftur í rennblaut fötin. Hann íhugaði að sofa um nóttina á götusteinunum en auðu húsin og gluggarnir fylltu hann óhug. Ógæfa fylgdi yfirgefnum húsum. Hann fann líka æ meira fyrir svengdinni þrátt fyrir að hafa fyllt magann af vatni. Það voru margir dagar síðan hann hafði borðað. Pietro hélt áfram eftir þröngum götunum og var ekki lengur viss um hvar hann væri staddur. En smám saman urðu húsin reisulegri, múrsteinarnir voru heilir og húsin hvítkölkuð. Í sumum gluggum logaði ljóstíra og hundar í bakgörðum geltu þegar hann gekk framhjá. Úr einum garðinum barst ekki hundsgelt heldur mannamál svo Pietro hikaði. Milli framhliðar hússins og þess næsta lá þröngt sund. Hann smeygði sér hljóðlega inn stíginn og þreifaði eftir garðveggnum þangað til hann fann fúna tréhurð undir lófunum á sér. Hann hallaði eyranu varlega upp að hurðinni og hlustaði á það sem fram fór fyrir innan. „Þú veist ekki einu sinni hvernig þessi pest er! Og það getur ekki verið að hún komi hingað. Þeir segja að það hafi verið kveikt í öllu draslinu og hverju mannsbarni með,“ sagði þungbúin karlmannsrödd. „Vættirnar veri þeim náðugar,“ bætti hann við.


„Sagt er að sumir þeirra hafi synt yfir og verið drekkt í höfninni,“ svaraði einhver þvermóðskufullt. „Einmitt. Drekkt–í–höfninni,“ sagði önnur og unglegri rödd. „Þeir komust ekki í land, geturðu ekki skilið það?“ „Og liggja núna rotnandi í vatninu! Hvernig dettur ykkur í hug að við séum örugg?“ „Og hvað, ertu vanur að fá þér sundsprett þarna niður frá? Eða vatnssopa? Það eru alltaf einhver lík í höfninni hvort eð er. Aldan skolar þeim burt á innan við viku og þangað til það gerist hafa allir vit á því að vera ekkert að flækjast þarna,“ svaraði yngsta röddin. „Ströndin er löng,“ þráaðist hinn við. „Hvernig veistu að enginn hafi sloppið?“ Pietro var kominn með dúndrandi hjartslátt og þrýsti eyranu fastar upp að hurðinni til að heyra betur. Um leið gerði hann sér grein fyrir því að dyrnar opnuðust inn í garðinn en ekki út úr honum. Hurðin lét undan með ískrandi marri, hann missti jafnvægið og hrundi eins og kartöflupoki inn í húsagarðinn og magalenti á hellusteinunum. Í garðinum sátu þrír menn í kringum lítinn varðeld og litu undrandi upp frá kartöflunum sem þeir voru að skræla. Svo tóku þeir að gjóa augunum hver á annan og herpa varirnar. Áður en Pietro hafði svo mikið sem áttað sig voru þeir farnir að flissa og síðan skellihlæja. Þrír tötralegir menn, öskrandi af hlátri, var það síðasta sem hann sá áður en leið yfir hann. Þegar hann rankaði við sér aftur var búið að leggja hann í grasið við hliðina á varðeldinum og honum var notalega hlýtt. Yfir eldinn höfðu mennirnir stillt upp


litlum potti og frá honum barst lykt af kartöflustöppu og steiktum pylsum. „Ertu vaknaður, greyið?“ spurði maðurinn sem virtist elstur. Það var sá sem fyrst hafði talað. „Já,“ ansaði Pietro. Hann mundi ekki hvenær hann hafði síðast sagt eitthvað og röddin hljómaði undarlega. Hann ræskti sig. „Eigið þið heima hérna?“ Röddin hljómaði ennþá jafnskrítin. „Nei, þetta hús er autt. Þangað inn skaltu ekki fara. Hvað heitirðu?“ Af einhverjum ástæðum ákvað hann að ljúga. „Davíð,“ muldraði hann. „En þið?“ Þeir kynntu sig og sá elsti hét Jafet, sá yngsti Cardo og sá þriðji, sem hafði svo ákaft tortryggt endalok plágunnar, var Nikulás. Jafet tók pottinn af eldstæðinu og hló þegar hann sá hvernig Pietro starði á matinn. „Bíddu rólegur, það þarf að kólna. Kemurðu langt að?“ „Já.“ „Ertu ofan úr sveitunum?“ Pietro horfði niður á hendur sér og svaraði: „Já.“ „Og hvað rekur þig hingað?“ spurði Nikulás, stakk skeið í pottinn og rétti Pietro hann. „Þar var ekkert nema mold,“ svaraði Pietro óskýrt, með munninn fullan af kartöflustöppu. „Og hér er ekkert nema tóm hús og draugar,“ sagði Cardo með fyrirlitningu. „Mannlaus höfn, rotnandi bátar og vitfirringar með fín ættarnöfn á bak við háa múra. Hvað ætlarðu að gera hérna?“ Pietro yppti öxlum og rétti Nikulási aftur skeiðina og pottinn.


„Vertu ekki að telja kjarkinn úr stráknum,“ ansaði Jafet önugur. „Það er nóg að gera fyrir krakka í borginni. Þau geta alltaf leitað skjóls í gamla Víxlarahúsinu.“ „Já, synd að maður skuli ekki vera tíu ára lengur,“ sagði Cardo. „Þá fengi maður kannski eitthvað að gera. Hvað ertu gamall?“ spurði hann Pietro. „Tólf. Hvað er Víxlarahúsið?“ spurði Pietro og vonaði að hann hljómaði nógu forvitinn. „Þú flýgur inn,“ sagði Jafet bjartsýnn og tók við kartöflupottinum af Cardo. Þeir létu matinn ganga og voru duglegir að rétta hann að Pietro. „Þú hlýtur að hafa búið langt upp með ánni fyrst þú hefur aldrei heyrt um gamla Víxlarahúsið.“ Pietro umlaði eitthvað og skóf síðustu dreggjarnar innan úr pottinum. Þetta hafði ekki verið mikið fyrir fjóra. „Það er gríðarstórt hús við glæsilegasta breiðstræti borgarinnar. Þar skiptu ríkir menn peningunum sínum þegar enn voru til peningar í þessari borg. En í meira en þrjár aldir hafa ekki búið aðrir en börn í húsinu og um leið og þau verða sextán vetra verða þau að fara. Þangað til standa þau saman og þangað geta öll börn farið sem strjúka að heiman eða missa foreldra sína. Einhvern veginn tekst þeim alltaf að þrauka, sama hversu hart er í ári.“ „Ég hef heyrt að það sé kominn nýr leiðtogi,“ sagði Nikulás annars hugar. „Mjög klár. Þau einbeita sér nú að vafasamari störfum.“ „Það eina sem vit er í,“ sagði Cardo, sem hafði vafið sig inn í teppi og teygði úr sér á jörðinni.


Jafet gróf í pokanum sínum eftir teppi, sem hann kastaði til Pietros. „Takk. Takk kærlega,“ muldraði hann og breiddi úr því á jörðina eins nálægt kulnandi glæðunum og hann gat, í von um að blaut fötin þornuðu. Síðan sofnaði hann rólegur út frá engisprettutísti og lágværu hvísli mannanna þriggja. Hann vaknaði úthvíldur og sólin vermdi á honum andlitið. En það var ekki það sem hafði vakið hann. „Þú hlýtur að hafa rekið þig í eitthvað í svefni, maður,“ heyrði hann Cardo segja undrandi. „Eilíft vesen er þetta með þig, Nikulás,“ nöldraði Jafet. „Ég veit það ekki,“ svaraði Nikulás hikandi, „mér finnst ég eitthvað svo slappur.“ Pietro settist upp án þess að þora að anda. Nikulás sat með lokuð augu, hallaði sér upp að veggnum og reigði höfuðið aftur á bak. Blóðið fossaði úr nefinu, niður í dökkt skeggið og skítuga treyjuna. Cardo reyndi árangurslaust að stoppa það með gömlum tóbaksklút. Bæði Jafet og Cardo litu við þegar þeir heyrðu í Pietro og Nikulás opnaði augun og pírði þau á hann. „Djöflar!“ æpti hann upp yfir sig. „Nú rennur það úr augunum á mér líka.“ Það var hræðsla í röddinni. Pietro steig á fætur og opnaði munninn en kom ekki upp orði. Á versta tíma fann hann kunnuglega tilfinningu og reyndi, árangurslaust, að sjúga upp í nefið. Blóðdropi féll á rykuga jörðina. Svo annar og annar og hann byrjaði að svima af ótta. „Strákurinn er líka með blóðnasir!“ gall í Cardo, sem lét tóbaksklútinn detta á jörðina og stökk í áttina að


Pietro. Pietro hörfaði en Cardo greip í hárið á honum og þefaði af hársrótinni. „Saltlykt!“ æpti hann. „Það er saltlykt af helvítis rottunni. Nýkominn úr sveitinni, einmitt það. Hann er einn af hyskinu utan af sjó og hann hefur tekið pláguna með sér!“ Nikulás fölnaði af skelfingu. „Þú laugst að okkur!“ hrópaði Jafet ásakandi. „Við gáfum þér að borða og þú laugst að okkur! Líttu bara á hann, þú hefur drepið hann.“ Nikulás var farinn að þylja bænir lágum rómi en röddin titraði og út um varir hans lak blóð. Pietro reyndi að segja eitthvað en var sem lamaður. Cardo hélt enn fast í hárið á honum með annarri hendi en með hinni dró hann upp hníf. „Réttast væri að skera þig á háls áður en þú hleypur út og smitar einhverja fleiri,“ hreytti hann út úr sér og otaði hnífnum að hálsinum á honum. Pietro fann blóðið leka niður hálsinn innanverðan, hann reigði aftur höfuðið og hrækti því svo á bringu mannsins. Cardo brá, hann missti hnífinn og sleppti Pietro svo harkalega að hann skall í jörðina. Pietro henti hnífnum eins langt og hann gat og klöngraðist á fætur. „Ef þú kemur nálægt mér hræki ég í augun á þér!“ æpti hann á Cardo og þekkti ekki sína eigin rödd. Cardo svaraði ekki, hann var of upptekinn við að rífa sig úr blóðblettaðri treyjunni. Hann reyndi ekki frekar að hjálpa Nikulási, sem sat nú yfirgefinn upp við garðvegginn. Nú fyrst tók Pietro eftir því að Jafet var ekki heldur hjá Nikulási. Pietro snarsnerist á hæli en það var of seint. Jafet stóð við garðshliðið.


„Við getum ekki leyft þér að fara út fyrir garðinn, strákur,“ sagði hann afsakandi. „Dauðinn er með þér.“ Hann tók upp sinn eigin hníf. Pietro leit örvæntingarfullur í kringum sig. Uppi við garðsvegginn stóð stórt og bolmikið eikartré. Án þess að hika hljóp hann að því og byrjaði að klifra upp eftir breiðum trjástofninum. Með reiðiópi þustu mennirnir á eftir honum og reyndu að grípa í fætur hans til að toga hann niður. Pietro gat ekki lengur varist með því að hrækja á þá en það varð honum til bjargar að mennirnir virtust ekkert áfjáðir í að snerta hann. Það var fálmað af hálfum huga í fætur hans en svo var hann kominn úr seilingarfjarlægð. Pietro vó sig á höndunum upp eftir trjástofninum og krafsaði með berum fótunum í börkinn. Loks var hann kominn nægilega hátt til að stíga út á brúnina á hrörlegum garðveggnum. Þetta hafði ekki tekið nema örskotsstund en mennirnir stóðu ekki lengur fyrir neðan tréð. Þeir voru komnir út úr garðinum, biðu hans á stígnum fyrir utan og töldu sig hafa króað hann af, hann væri kominn í sjálfheldu uppi á veggnum. En þar skjátlaðist þeim. Sá hluti veggjarins sem Pietro stóð á var samsíða stígnum og lá yfir að næsta garðvegg og svo þarnæsta og þannig koll af kolli meðfram allri götunni og yfir í aðra garða í öðrum götum. Veggbrúnin var í meira en þriggja metra hæð yfir jörðu, sums staðar þakin vafningsviði og víða hafði molnað úr múrhúðinni. Pietro hefði helst kosið að skríða þetta á fjórum fótum en þess í stað tók hann á rás og hálfhljóp af stað eftir mjóum veggnum, út úr borginni.


Mennirnir eltu hann og æptu: „Smitberi, smitberi!“ eins hátt og þeir gátu en göturnar og stígarnir á jörðu niðri enduðu oft í blindgötum, öfugt við vegginn sem hélt áfram endalaust, svo Pietro hristi þá fljótt af sér. En hann þorði hvorki að hægja á sér né fara niður á jörðina því hann trúði því ekki að þeir hefðu gefist upp. Líklegra var að þeir hefðu safnað liði til að elta hann uppi og drepa, rétt eins og gert hafði verið við fólkið í höfninni. Flestir garðarnir sem Pietro fór framhjá voru tómir og í niðurníðslu en í sumum hékk þvottur á snúru og stundum sá hann fólk sem starði undrandi á hann. Einhver hló og veifaði en Pietro tók ekki undir kveðjuna. Allt þetta fólk myndi ljóstra upp um hann ef það yrði spurt hvort það hefði séð lítinn strák með blóðnasir. Veggurinn leiddi ýmsar krókaleiðir en Pietro passaði sig alltaf að stefna út úr bænum. Hann kannaðist aftur við ysta hverfið en þar var veggurinn að hruni kominn svo hann neyddist til að hætta sér aftur niður á jafnsléttu. Hvergi sást til Cardos eða Jafets. Pietro var aftur kominn út á malarveginn sem lá út úr borginni, til baka í átt til vitans. Hann var ekki læknaður líkt og hann hafði haldið þegar hann vaknaði daginn áður, blóðið rann ört. Til þess að hann skildi ekki eftir sig auðrekjanlega blóðslóð fór Pietro úr treyjunni, kuðlaði henni saman og hélt upp að nefinu. Hann verkjaði í hálsinn og eyrun af ekka og beið eftir að gráturinn brytist út. Þegar ekkert kom fór hann að öskra. Hljóðið kom hálfkæft út í gegnum samankuðlaða treyjuna en hann sparkaði í steinana á veginum og öskraði; á mávana í loftinu, fiskihjallana og öldurnar.


Blóðið rann bara hraðar við áreynsluna, Pietro hætti að öskra og hristist af þurrum ekka. Hann hefði átt að láta sig sökkva í sjóinn, brenna á þakinu. Til hvers hafði þetta allt verið ef hann átti að deyja hvort sem var? Ég laug að þeim, hugsaði Pietro. Ég laug að þeim og ég drap þá. Hann skyldi aldrei aftur fara til byggða heldur fela sig og deyja einn. Þegar hann sneri sér við og horfði til borgarinnar virtist sem hópur fólks stæði við útjaðar hennar. Enn á ný var hann eltur. Pietro hljóp af stað en fann strax að hann kæmist ekki langt í þetta sinn. Þótt hann rétt silaðist áfram var hlaupastingurinn að gera út af við hann. Efst í lítilli brekku hrasaði hann og skall í jörðina. Pietro reisti sig upp og leit við. Það var ekki um að villast. Þetta var hópur fólks og það var með eld. Þó var bjartur dagur og engin þörf á ljósi. Hann flýtti sér áfram niður brekkuna og um leið og hann þóttist kominn í hvarf stundarkorn batt hann treyjuna fyrir andlitið og píndi sig til að taka sprett niður í stórgrýtta fjöruna, eins langt frá veginum og hann komst. Þar tróð hann sér milli tveggja stórra steina. Hann lá þar lengi án þess að heyra nokkuð, svo lengi að mæðin var horfin og legan milli steinanna orðin virkilega óþægileg. En þau fóru hraðar yfir en hann hafði gert, miklu hraðar. Fyrst heyrði hann hófatak nokkurra hesta sem staðnæmdust um stund uppi í brekkunni. „Áfram!“ var svo æpt. „Hann má ekki sleppa! Hinir geta leitað betur meðfram veginum á eftir.“ Síðan riðu þeir af stað á harðastökki. Pietro neyddi sjálfan sig til þess að bíða eftir að hófatakið þagnaði áður en hann gægðist upp á milli


steinanna. Enn var enginn í augsýn. Hann skildi treyjuna eftir, klöngraðist upp úr gjótunni og hálfhrasaði, hálfhljóp út í sjó. Hann lagðist á magann í fjöruborðinu og dró sig lengra út í eftir grýttum botninum. Honum fannst leitandi augu hvíla á sér allt þar til hann var kominn nógu djúpt út til þess að hann gæti synt í kafi. Pietro hafði synt meira en gengið um ævina en var nú orðinn svo þreyttur, þrátt fyrir hvíldina um nóttina, að hann þurfti að koma oft úr kafi til að draga andann. Í fyrstu leit hann í sífellu aftur fyrir sig en þegar hann sá loks stóran hóp fólks á veginum, með klæði bundin fyrir vitin og kyndla á lofti, þorði hann ekki að tefja lengur. Hann synti skáhallt í vesturátt og stefndi aftur að vitanum. Nú var háflóð og ógerningur að komast á fæti út í vitann. Pietro gat ekki annað en vonað að þangað kæmu þau ekki, að ógnin sem hvíldi á staðnum héldi þeim í burtu. Þrátt fyrir hafstraumana tókst honum að komast að hólmanum þar sem vitinn stóð en flóðið hafði nú skilið hann frá landinu. Pietro greip dauðahaldi í bjargið og hunsaði það þegar öldurnar slengdust yfir hann. Hann lét sig berast upp með háum öldutoppi og fikraði sig svo ofar, berir fæturnir runnu til á sleipu þangi og hann braut neglurnar á bjarginu, rispaði sig og skrámaði en að lokum komst hann upp á jafnsléttu. Vitinn gnæfði ógnandi yfir honum. Á hverri hæð voru fjórir litlir gluggar, sem vísuðu hver í sína höfuðátt, en á jarðhæð voru tveir gluggar sitthvorumegin við dyrnar. Öll efsta hæðin hafði hins vegar verið gerð úr dýru gleri sem nú var allt horfið. Pietro taldi hæðirnar, þær voru ellefu.


Ellefu, hugsaði hann. Hverjum gat dottið í hug að hafa hæðirnar ellefu? og hann gerði ósjálfrátt gæfumerki á ennið á sér. Leiðin var löng en Pietro fór skríðandi. Ekkert beið hans og það var óþarfi að hætta á að leitandi augu í landi sæju til hans. Hann skreið hringinn í kringum vitann þar til byggingin skýldi honum fyrir ströndinni. Hann leit ekki í átt að sjónum heldur settist á hnén upp við vitann og hallaði enninu upp að veggnum. Sólin var í hádegisstað og Pietro var þakklátur fyrir að sitja í skugganum af vitanum. Hann svimaði og honum var flökurt. Til að þurfa ekki að hugsa lokaði hann augunum og taldi hvern andardrátt. Það leið á daginn og skuggi vitans mjakaðist áfram þangað til hann hafði skilið Pietro eftir í mildri kvöldsólinni. Það var farið að hvessa og skyndilega rankaði Pietro við sér. Dagurinn var liðinn, hann var stirður af náladofa og hafði hvað eftir annað ruglast í talningunni. Ætlar þetta að taka svona langan tíma, hugsaði Pietro og lagðist upp við vegginn, sem nú var útataður í rauðbrúnum rákum, flekkjum og fingraförum. Hann þreifaði varlega á andliti sínu, úr flestum skilningarvitum rann blóðið, hægt en stöðugt. Hann langaði að þvo sér í framan og enn meira í eitthvað að drekka. Þegar leið á kvöldið fékk hann hita, það suðaði fyrir eyrunum og hann kúgaðist stundum. Þess vegna tók hann varla eftir því að veðrið versnaði óðum. Það varð kaldara og hvassara og þykknaði upp, himinninn var orðinn svartskýjaður og þótt ekki sæjust enn eldingar drundu þrumur með reglulegu millibili.


Á miðnætti var komið kolniðamyrkur og það var svo hvasst að Pietro dró bolinn annars hugar upp fyrir haus til að skýla eyrunum en um leið beraði hann bakið, sem lá upp í gustinn sem kom utan af hafinu. Vindhviðurnar ráku hann að lokum í skjól hinum megin við vitann, þeim megin sem dyrnar voru. En það var lítið hald í því; himinninn lýstist upp í eldingu með ærandi hávaða og haglél brast á. Óveðrið var beint yfir honum. Pietro óttaðist þrumuveður eins og allir sem hann hafði þekkt. Í þeim bjuggu ill öfl. Hann vissi ekki hvort hann átti heldur að velja; skelfinguna fyrir utan eða ógnina sem bjó í yfirgefnum húsum, sér í lagi þessu. Hann stóð á fætur og rykkti í hurðarhúninn, bæði togaði og ýtti, en allt kom fyrir ekki. Í andartaksskini frá eldingu sá Pietro að henni hafði verið læst með þremur rammgerðum lásum úr kopar. Hann sleppti húninum eins og hann hefði brennt sig og um leið feykti vindurinn honum um koll. Elding þaut yfir himininn, þruman fylgdi samstundis og kornin í haglélinu sem dundi á hnakkanum á honum voru á stærð við steinvölur. Gluggarnir beggja vegna dyranna höfðu verið byrgðir með niðurnegldum hlerum en einn plankinn á hægri hleranum var laus. Pietro greip í lausa endann og hamaðist á honum, hann var máttfarinn en ofsahræddur og viðurinn fúinn. Plankinn brast í höndunum á honum, Pietro fleygði honum frá sér og reif burt hinar spýturnar. Fyrir innan hlerann var glerrúða, Pietro til mikillar undrunar. Án nokkurrar virðingar fyrir þessu dýra efni fór hann úr bolnum, vafði honum utan um höndina á sér og braut glerið í mél.


Síðan hreinsaði hann burt stærstu brotin úr gluggasyllunni, lyfti sér upp og tróð sér inn um þröngan, háan gluggann. Hann skall í gólfið með höfuðið á undan og þorði ekki að hreyfa sig, ekki einu sinni til að sópa glerbrotunum undan sér eða hrista glermulninginn úr bolnum. Pietro þrýsti bara bakinu upp að veggnum, kreisti bolinn milli handanna og starði stjarfur inn í myrkt herbergið. Vindurinn blés inn um opinn gluggann og hrærði upp í stöðnuðu loftinu sem lyktaði af ösku. Öðru hvoru lýsti elding upp vistarveruna og í hvert skipti sá hann í nokkrar sekúndur stórt hringlaga herbergi og í miðju þess stóð voldugur hringstigi. Ummerki eldsvoðans sáust alls staðar. Óveðrið geisaði fyrir utan en Pietro var svo veikur að hann heyrði í því eins og hann væri á kafi í vatni, hann var kominn með háan hita og verkjaði í beinin. Andardrátturinn kom í hásum sogum, öðru hvoru svelgdist honum á blóðinu, sem rann nú ört, og hann kúgaðist. Verst af öllu yrði að deyja hér inni. Alla nóttina sameinuðust sótthitinn og myrkrið í að skapa honum ófreskjur, óhugnanlegar útlínur sem hann óttaðist að væru komnar nær í hvert skipti sem ný elding lýsti upp herbergið. Nóttin leið og það tók að birta en sótthitinn rénaði ekki. Þótt þrumuveðrinu slotaði gnauðaði vindurinn áfram af fullum þunga og það ýlfraði í brotnum glugganum. Gráleit birtan í herberginu jók enn á ótta Pietros og hann vissi ekki hvort væri verra; að stara á brunna innanstokksmunina eða loka augunum. Það var frekar eins og það hvessti en lægði og allt í einu fékk


Pietro fráleita hugmynd. Að ógnin kæmi ekki innan úr herberginu heldur að utan. Eins og einhver stæði fyrir utan gluggann fyrir ofan hann. Pietro bægði hugsuninni frá, nógu oft hafði ímyndunaraflið ært hann um nóttina. Veggurinn lá að baki honum, kaldur og traustur, og hann reyndi að róa sig. Þá var tekið í hurðina. Pietro missti andann og starði stirðnaður á húninn. Samstundis trylltist vindurinn og dundi kveinandi á vitanum. Þung högg buldu á hurðinni, högg sem engin mannleg vera réð við. Hurðin skalf og nötraði, það brast í henni og skyndilega hrökk hún upp á gátt og skall í vegginn, þumlungi frá hvirfli Pietros. Vindurinn æddi inn með hræðilegu væli og þeytti upp smárusli sem var ókennilegt af sóti og bruna, það hringsnerist inni í herberginu og lamdist á milli veggjanna. Inn kom kona. Hægum skrefum gekk hún inn í herbergið og starði beint fram fyrir sig. Föt hennar bifuðust ekki í vindinum sem hringsneri sorpinu í kringum höfuð hennar, niður á bakið lá eirrautt hár bundið í þykka fléttu. Hún staðnæmdist við rústir hringstigans. Að hún fari upp, fari upp, æpti eitthvað innra með Pietro. Eins og hún hefði heyrt til hans snerist konan á hæli og leit beint í augun á honum. Vindurinn ærðist, hár hennar losnaði úr fléttunni og þyrlaðist í kringum andlitið. Hún gekk í átt að Pietro og hélt áfram að bora sig inn í huga hans með uppglenntum grábláum augunum sem virtust uppspretta alls vindofsans. Pietro opnaði munninn í ópi sem ekki kom, greip krampakenndu taki um bolinn sem enn var vafinn um


hægri hönd hans, þrýsti honum að bringunni á sér og reyndi að reisa sig upp. En konan var komin nær, hún beygði sig niður með opinn munn og útrétta hönd. Pietro rétti bolinn upp fyrir sig með báðum höndum eins og sér til varnar en smávaxin höndin fór beint í gegnum hann og flíkin féll til jarðar í pörtum. Sjón hans rúmaði ekkert nema þetta rauða hár og grá augun. Útrétt höndin nam við andlit hans og snerti, með einum fingurgómi, svæðið á milli augabrúnanna. Líkami Pietros tók kipp, hann spenntist upp í boga með höfuðið keyrt aftur og hendur niður með síðum. Fingurinn þrýsti fastar, eitthvað kom við sálina í honum og Pietro sá heiminn gliðna í sundur fyrir augunum á sér.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.