Þegar Margrét birtist, lafmóð eftir hlaupin, fann Anna Þóra aftur öryggið sem hún hafði haft fyrr um morguninn. Hún smeygði sér yfir til vinkonu sinnar þannig að nú stóðu þær saman öðrum megin við Dauðaholuna og stelpan hinum megin. „Ég vil semja við þig,“ sagði Anna Þóra borubrött. „Er ekki eitthvað annað sem ég get gefið þér svo þú farir í burtu og látir mig og mína í friði?“ Stelpan hló. „Gefið mér? Hvað ættirðu svosem að geta gefið mér? Ég fæ allt sem mig langar til af því sem þú átt. Og þú …“ hún benti á Margréti, „… þú gerðir stórkostleg mistök. Ég hef ekkert við þig að gera ef þú vilt aldrei, aldrei verða vinkona mín.“ Þetta síðasta sagði hún í hæðnistón. Anna Þóra leit á vinkonu sína, hvað hafði eiginlega farið fram á milli þeirra tveggja? Þá rétti stelpan fram höndina, benti með vísifingri á Margréti og sveiflaði fingrinum rólega fram og til baka. Og Margrét byrjaði að rugga til hliðanna í takt við hreyfingu fingursins! „Hættu þessu, ég vil ekki …“ Margrét var farin að rykkjast harkalega til hliðanna. „… þetta er sárt. Hættu. Þessu. Strax.“ Stelpan hló svo hátt að það bergmálaði í Rústunum. Anna Þóra reyndi að grípa í Margréti og halda henni kyrri en hristist fram og til baka með henni. Þá ákvað hún að reyna að stöðva stelpuna en komst ekki að henni með góðu móti án þess að detta sjálf ofan í Dauðaholuna.
Hún grátbað stelpuna að hætta þessu, hún skyldi gera það sem hún vildi. Tárin láku niður kinnarnar á henni en það var sama hvað hún sagði; stelpan hlustaði ekkert á hana en sagði aftur við Margréti: „Ég hef ekkert við þig að gera í mínu lífi ef þú ætlar að vera með uppsteyt. Þá ertu bara fyrir mér og betra að losna við þig strax.“ Margrét var farin að gráta. Hún sveiflaðist svo harkalega að höfuðið á henni rykktist í takt við hreyfingar fingursins á stelpunni sem glotti svo skein í gular oddhvassar tennur. Svo rétti hún fram hina höndina, rak fram vísifingur þeirrar handar og fór að snúa honum í hringi. Og nú fór Margrét að snúast í hringi. Í fyrstu hægt en svo urðu snúningarnir örari og hún snerist sífellt hraðar. Frá henni barst langt og átakanlegt sársaukavein. Hún snerist hraðar og hraðar og hraðar Margrét var farin að snúast svo hratt að það var ekki hægt að festa augun við neinar útlínur. Anna Þóra horfði skelkuð á vinkonu sína sem var orðin að óskýrri veinandi iðu. Stelpan lyfti höndunum upp. Iðan tókst á loft. Veinin urðu hærri og hærri. Stelpan lamdi höndunum á lær sér. Mjórri endi hringiðunnar skall í jörðina rétt við fætur hennar og efri hlutinn slengdist í sífellt stærri hringi og sogaðist svo niður í jörðina eins og vatn ofan í niðurfall á baðkari þegar tappinn er tekinn úr. Margrét var horfin.
1 Margrét vaknaði hægt til meðvitundar. Hún fann fyrir mjúkum, eftirgefanlegum mosanum undir helaumum líkamanum og skynjaði rakabólstrana sem heitur andardrátturinn myndaði í köldu andrúmsloftinu. Þrátt fyrir myrkrið á bak við augnlokin vissi hún að hún var ekki lengur stödd í Rústunum. Önnur lykt, önnur áferð og ekki svo mikið sem hundgá í fjarska eða tíst í fugli. Í kringum hana ríkti grafarþögn. Grafarþögn! Var hún kannski dáin? Margrét opnaði augun löturhægt. Blikkaði nokkrum sinnum. Engin breyting. Hún bar höndina hægt upp að auganu, snerti augnlokið og fann hvernig það lyftist og féll, augun voru opin. Það var bara umhverfið sem breyttist ekkert hvort sem hún opnaði eða lokaði augunum. Þokugrátt myrkur, skuggamyndir, útlínur, ljósfletir. Ofurvarlega settist hún upp og pírði augun út í móðuna. Smám saman fóru þau að greina umhverfið svo hún fór upp á hnén, setti svo undir sig fæturna og stóð óstyrk á fætur. Hún leit niður og sá skítugar skíðabuxur með stórri saumsprettu upp eftir skálminni og kuldaskó sem áttu lítið skylt við gerðarlega skóna sem hún hafði haft á fótunum þegar hún gekk að heiman fyrr um daginn. Hún hrökk við þegar hún rak augun í blóðugar hendurnar sem hvíldu á lúnum buxunum. Við nánari skoðun virtist blóðið hafa komið annars staðar frá. Það voru alla vega engin sár á höndunum.
Hún þreifaði aftan á höfðinu. Færði hendurnar upp á kollinn og fram á ennið … Áááiiii Henni dauðbrá við hvellt ópið. Hljóðið barst þó varla nema nokkra millímetra áður en það skall á þungri þokunni og lyppaðist niður, álíka kraftmikið og hvísl. Efst við hársrótina var skurður sem náði niður á mitt enni. Hún hafði greinilega verið sofandi/í yfirliði/dáin í einhvern tíma því blóðið umhverfis sárið var að mestu storknað og hrúður farið að myndast á brúnunum. Miðað við sársaukann sem skaust eins og ör í gegnum höfuðið var sárið þó langt frá því að vera gróið. Best að láta það alveg í friði. Það var ekki til neins að reyna að rýna inn í þétta þokuna. Skyggnið var varla nema hálfur metri. Hún lét sig síga aftur niður á raka jörðina, dró hnén alveg upp að höku og faðmaði þau fast. Það var gott að finna hitann frá eigin líkama. Heit tárin runnu niður kinnarnar, lentu á skíðabuxunum og láku svo áfram niður óhreinar skálmarnar. Hvar var hún eiginlega? Var hún á lífi eða var þetta dauðinn? Hvað hafði orðið um Önnu Þóru, var HÚN kannski dáin? Hafði stelpan sigrað og drepið þær báðar? Án þess að taka sérstaklega eftir því var Margrét lögst aftur niður í rakan og mjúkan mosann. Hún lá í hnipri á hliðinni, faldi aumt höfuðið í höndum sér og grét, hægum hljóðum tárum.
2 Það þýddi ekkert að reyna að halda í drauminn, um leið og hann losaði takið vissi Margrét að hún lá ekki í rúminu sínu og pabbi var ekki að kalla á hana í morgunmat. Ekkert hafði breyst frá því hún sofnaði; hún lá ennþá í rökum mosa, umhverfið jafn óskýrt og áður og einu hljóðin sem hún heyrði voru hennar eigin hjartsláttur og ör andardrátturinn. Möguleikarnir voru ekki margir. Eiginlega bara tveir. Hún gæti legið þarna áfram og vonað að eitthvað myndi breytast. Kannski var ennþá nótt, kannski hafði hún sofnað um nótt og vaknað aftur um nótt og kannski myndi allt líta betur út um leið og sólin kæmi upp. Kannski myndi þokunni létta og hún sæi skýrt og greinilega hvar hún var stödd. Kannski! Hinn möguleikinn var samt svo ógnvekjandi. Hana langaði hvorki að leiða hugann að honum né því hvernig hún hafði endað hér. Síðast þegar hún vissi af sér hafði hún verið á illa farinni steyptri stétt uppi í Rústum og allt á kafi í snjó. Núna var hún úti í snjólausri náttúrunni, það var frekar hlýtt og eitthvað sagði henni að hún væri langt frá öllum mannabyggðum. En hún hafði ekki ætlað sér að hugsa um þetta. Ekki strax. Fyrst þurfti hún að taka ákvörðun um hvort það væri skynsamlegra að bíða eftir hjálp eða taka ógnvænlegri kostinn sem var að halda af stað út í þokuna og mistrið og reyna að komast að því hvar hún var stödd.
Nú varð mamma að skera úr. Mamma sem hafði látist úr krabbameini þegar Margrét var átta ára og hún sótti enn styrk til í erfiðleikum. Og ef ekki núna, þá hvenær? Elsku mamma, hvort á ég að gera? Á ég að vera dugleg og bíða eins og þú hrósaðir mér fyrir þegar ég týndist í stóru húsgagnaversluninni eða á ég að vera hugrökk og halda af stað eins og þú hrósaðir mér fyrir þegar ég villtist á heimleið frá nýrri vinkonu? Hún lokaði augunum og andaði djúpt. Þetta var auðvitað engin spurning. Það var hæpið að nokkur fyndi hana hér þar sem enginn vissi hvar hún var stödd. Hún vissi það ekki einu sinni sjálf! Eina leiðin til að losna út úr þessum aðstæðum var að harka af sér, taka sig saman í andlitinu, taka á honum stóra sínum og hypja sig af stað. Vera hugrökk! Um leið og ákvörðunin hafði verið tekin hvarf óróleikinn að mestu og líðanin batnaði til muna. Margrét stóð á fætur, sneri sér rólega í hring og reyndi enn einu sinni að ná áttum en án mikils árangurs. Þegar hún var hálfnuð með hring númer tvö var hún ekki frá því að sæist eilítill munur á þokunni, þokumistrið framundan virtist örlítið þynnra þar en annars staðar. Það var ekki eftir neinu að bíða.
3 Margrét var varla lögð af stað þegar umhverfið breyttist svo mikið að henni fannst eins og hún hefði stigið gegnum dyr og inn í annan heim. Alltumlykjandi þokan vék fyrir svo skerandi birtu að hana logsveið í augun. Tilfinningin var líkust því að sofna í niðamyrkri og vakna upp við geisla frá vasaljósi beint í augun. Sama hvað hún reyndi að depla augunum og píra þau – birtan var henni ofviða. Hún lokaði augunum og fann hvernig þau aðlöguðust birtunni smám saman undir titrandi augnlokunum. Þegar augun opnuðust aftur mætti henni umhverfi sem hún kannaðist við. Í stað mjúka raka mosans áður stóð hún núna á steyptum velli sem minnti óneitanlega á leikvöllinn fyrir utan Rústirnar. Nema þessi völlur var heill og nýsteyptur. Það tók hana smástund að átta sig á því að himinninn var svartur, völlurinn ljós og byggingin í fjarska hvít og skær. Það var eins og hún væri stödd í negatífu; litaskalinn var allur öfugur. Eins og hún væri stödd í kvikmynd sem átti að gerast eftir kjarnorkustyrjöld. Allt skjannahvítt og flennibjart nema hvað hér og hvar liðu skuggar um eins og olíubrák á sólbjörtum öldutoppum. Byggingin framundan var líka kunnugleg. Fjölbýlishúsalengja, há og vegleg, sem teygði sig eftir öllum leikvellinum (því þetta var sannarlega leikvöllur sem hún stóð á). Með réttu hefði hún ekki átt
að vera svona lengi að átta sig á þessu en hugurinn streittist á móti upplýsingunum sem augun sendu. En það fór ekkert á milli mála. Þetta voru Rústirnar. Eða réttara sagt þá voru þetta blokkirnar í hæðinni ÁÐUR en þær lögðust í rúst. Hæðabyggð í öllu sínu veldi. Hvernig í ósköpunum hafði hún komist HINGAÐ! Margrét varð þurr í munninum og hendurnar skulfu þegar hún kreppti hnefana. Hún fann hvernig hjartað barðist í brjóstinu. Úr fjarska barst niður, vélarhljóð, kannski bíll? Eða þyrla? Kannski einhver að leita að henni? Margrét, þú ert ekki svona vitlaus hugsaði hún. Þú ert hvergi þar sem einhver gæti mögulega verið að leita að þér. Hún var ekki einu sinni viss um að hún vildi að einhver hérna væri að leita að sér. Hún horfði ráðvillt í kringum sig. Augun staðnæmdust við bygginguna og endalausar raðir af gluggum og svölum og útidyrum. Skyndilega læddist að henni svo skelfileg hugsun að ískaldur hrollur læddist niður eftir bakinu. Ætli það búi einhver hérna? Hjartað var við það að sprengja sér leið út úr brjóstinu þótt hún vissi ekki hvort það væri af spennu eða ótta. Ágengur niðurinn færðist nær. Ef einhver var á leiðinni var öruggara að leita skjóls og bíða átekta þangað til kæmi í ljós hver var að koma. Eina skjólið var yfirlýst fjölbýlishúsið fyrir framan hana. Margrét tók á sprett en var rétt lögð af stað þegar annar fóturinn flæktist í einhverju og hún steyptist fram fyrir sig. Hún rétt náði að bera fyrir sig höndina en datt svo harkalega á annað hnéð að hún óttaðist að hafa brotið eitthvað. Sársaukinn var svo mikill að hún hljóðaði upp yfir sig.
Í þetta sinn var engin þoka til að stöðva hljóðið, það ómaði hátt og bergmálaði um leikvöllinn, kastaðist á blokkina og endurkastaðist af tvöföldum krafti: Áááááááááá ÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁ ÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁ Smám saman dó hljóðið út og um leið var líkt og umhverfið héldi niðri í sér andanum. Svo barst þrusk og skrjáf úr öllum áttum og niðurinn, sem hafði þagnað ásamt öllu öðru, jókst og færðist óðfluga nær, og nær. Margrét starði óttaslegin í kringum sig. Leit svo upp í gluggana sem vissu út að leikvellinum en þar var ekkert að sjá. Reyndar sást hvergi inn um glugga því á suma glampaði eins og spegil en aðrir voru myrkir sem svarthol svo ekki sást móta fyrir gardínum, blómapotti eða neinu sem vanalega sást í gluggum íbúðarhúsa. Samt fannst henni eins og hún fyndi fyrir starandi augum. Margrét staulaðist á fætur og skjögraði af stað í átt að stigagangi sem merktur var 8. Hvað ef það væri læst? Átti hún þá að hringja á bjöllu? Vildi hún vita hver bjó þarna? Var einhver möguleiki að það væri venjuleg manneskja eins og hún? Hún bældi þessar hugsanir niður. Innst inni vissi hún vel að ef hún skoðaði aðstæður sínar of náið myndi eitthvað bresta í höfðinu á henni. Eina leiðin til að halda sönsum var að láta sem ekkert væri eðlilegra en að vera stödd í Hæðabyggð fyrir atburðinn þar sem litirnir minntu á bíómynd um kjarnorkustyrjöld. Skrjáfið og hljóðin í umhverfinu mögnuðust svo að hún var handviss um að eitthvað væri á eftir henni, hársbreidd frá því að gera hana að aðalrétti næstu máltíðar sinnar. Þetta var ekki lengur spurning um hvort skárra væri inni eða úti; sjálfsbjargarviðleitnin sendi hana í
loftköstum að dyrunum. Þar hikaði hún ekki í eina sekúndu heldur greip þéttingsfast í húninn, rykkti hurðinni upp og hentist inn í anddyrið. Margrét lokaði augunum og hallaði sér upp að útidyrunum meðan hún hugleiddi næsta skref. Andardrátturinn var slitróttur, hún reyndi að ná súrefninu ofan í sig en náði rétt nægilegu magni til að halda meðvitund. Hún dró andann djúpt, eins djúpt og hún mögulega gat, og leit í kringum sig. Á veggnum við dyrnar var gljáandi bronsplata með þrettán dyrabjöllum. Svo virtist sem allar íbúðirnar stæðu auðar því ekki ein einasta bjalla var merkt. Sama mátti segja um póstkassana, þeir voru með öllu ómerktir. Ekki svo mikið sem „Húsfélagið Hæðabyggð 8“. Fyrir ofan póstkassaröðina var stór gluggi en vegna myrkursins hinum megin sást ekkert inn um hann. Margréti brá við spegilmyndina sem blasti við henni í myrku glerinu. Uppglennt og starandi augu umvafin dökkum baugum. Niður eftir grútskítugum kinnunum lágu taumar eftir tárin og varirnar voru samanherptar. Á enninu var djúpur skurður, dökkt hárið í einni flókabendu og fötin svo illa farin og skítug að svo virtist sem hún væri klædd í gamlan skítugan hveitipoka. Það var nákvæmlega svona sem henni leið í raun og veru. Undir öllum uppgerðarmannalátunum og gervihugrekkinu. Hún sneri sér undan og starði á dyrnar sem lágu inn í stigaganginn. Hljóðin fyrir utan urðu sífellt háværari og það var ekki erfitt að ímynda sér hóp af trylltum uppvakningum eða varúlfum eða álíka hræðilegum mannætum rétt fyrir utan dyrnar. Margrét tók ákvörðun. Hún greip um húninn, sneri og ýtti.
Lágt kjökur slapp frá henni um leið og dyrnar opnuðust hljóðlaust inn í niðamyrkrið.