Kafli 1 Hún heitir Melanie. Nafnið er dregið af gömlu grísku orði og þýðir „svarta stúlkan“ en hún er reyndar svo ljós á hörund að henni finnst nafnið ekki endilega eiga sérstaklega vel við sig. Hún er mjög hrifin af nafninu Pandóra, en maður fær víst ekki að velja. Fröken Justineau úthlutar nöfnum af löngum lista; nýju börnin fá efsta nafnið á strákalistanum eða efsta nafnið á stelpulistanum og þannig er nú það, segir fröken Justineau. Það er orðið langt síðan það komu ný börn. Melanie veit ekki hvers vegna. Áður kom hellingur af börnum; í hverri viku eða hálfsmánaðarlega heyrðust raddir að næturlagi. Muldruð fyrirmæli, nöldur, stöku blótsyrði. Klefahurðir skelltust. Eftir dálítinn tíma, yfirleitt einn eða tvo mánuði, birtist svo nýtt andlit í skólastofunni – nýr strákur eða stelpa sem hafði ekki einu sinni lært að tala. En þau voru fljót að læra það. Einu sinni var Melanie sjálf ný, en það er erfitt að rifja það upp því það er svo langt síðan. Það var áður en orðin voru til; þá voru bara til hlutir án nafna og nafnlausir hlutir festast ekki í huganum. Þeir detta út og svo eru þeir horfnir. Núna er hún tíu ára og húð hennar er eins og á prinsessu í ævintýri, hvít sem mjöll. Þess vegna veit hún að hún verður falleg þegar hún verður fullorðin og prinsarnir slást um að fá að klifra upp í turninn hennar og bjarga henni. Auðvitað svo framarlega sem hún á turn. Þangað til á hún klefann, ganginn, skólastofuna og sturtuna.
Klefinn er lítill og ferkantaður. Í honum eru rúm, stóll og borð. Á grámáluðum veggjunum hanga myndir: stór mynd úr regnskógum Amazon og minni mynd af kisu að lepja mjólk úr skál. Stundum flytja liðþjálfinn og menn hans börnin á milli klefa og þess vegna veit Melanie að í sumum klefunum eru öðruvísi myndir. Einu sinni var hún með hest á engi og fjall með snjó á tindinum og henni þóttu þær fallegri. Fröken Justineau hengir upp myndirnar. Hún klippir þær úr gömlum tímaritum sem liggja í stafla í skólastofunni og festir þær á hornunum með litlum bláum klísturklessum. Hún sankar að sér bláa klístrinu eins og nirfill í sögu. Þegar hún tekur niður mynd eða hengir upp nýja skrapar hún alltaf upp hverja einustu ögn sem loðir við vegginn og bætir henni við litlu hnöttóttu kúluna af efninu sem hún geymir í skrifborðsskúffunni sinni. Þegar það er búið er það líka búið, segir fröken Justineau. Á ganginum eru tuttugu dyr vinstra megin og átján dyr hægra megin. Við báða enda eru líka hurðir. Önnur er máluð rauð og dyrnar liggja að skólastofunni – þess vegna kallar Melanie það skólastofuendann á ganginum. Hurðin hinum megin er úr ómáluðu gráu stáli og hún er rosalega þykk. Það er erfiðara að giska á hvert þær dyr liggja. Einu sinni þegar verið var að flytja Melanie aftur í klefann sinn var hurðin farin af hjörunum, einhverjir menn voru að bauka þar og hún sá að allt í kring um dyraumbúnaðinn voru margs konar lokur og hlutir sem stungust út, svo að það hlaut að vera afskaplega erfitt að opna þegar dyrnar voru lokaðar. Hinum megin við dyrnar var langur stigi með steinsteyptum þrepum sem lágu endalaust upp í móti. Hún átti ekki að sjá neitt af þessu og liðþjálfinn sagði: „Litla kvikindið er ekkert nema glyrnurnar“ um leið og hann ýtti stólnum hennar inn í klefann og skellti hurðinni aftur. En hún sá þetta og hún man það. Hún hlustar líka og af samræðum sem hún hefur hlerað gerir hún sér mynd í huganum af þessum stað út frá hugmyndum um
aðra staði sem hún hefur aldrei séð. Þessi staður er blokkin. Fyrir utan blokkina er herstöðin sem heitir Hótel Ekkó. Fyrir utan herstöðina er Sjötta umdæmi, London fimmtíu kílómetrum sunnar og Beacon sjötíu kílómetra þaðan – og ekkert handan við Beacon nema sjórinn. Megnið af Sjötta umdæmi er hreint en ekkert getur haldið því þannig nema brunasveitir með handsprengjur og eldvörpur. Melanie er nokkuð viss um að þetta sé tilgangurinn með herstöðinni. Þaðan eru sendar út brunasveitir til að útrýma ætum. Brunasveitirnar þurfa að fara mjög varlega því það eru enn margar ætur á sveimi. Ef þær fá veður af manni elta þær mann óravegu og þegar þær ná manni éta þær mann. Melanie er fegin að búa í blokkinni, á bak við þykku stálhurðina þar sem henni er óhætt. Beacon er allt öðruvísi en herstöðin. Hún er stór og mikil borg full af fólki, með húsum sem ná til himins. Sjórinn er á eina hlið og virkisgrafir og jarðsprengjusvæði á hinar þrjár og þess vegna komast æturnar ekki þangað. Í Beacon er hægt að lifa alla ævina án þess að sjá nokkurn tímann ætu. Og borgin er svo stór að það eru örugglega hundrað milljarðar manna sem búa þar saman. Melanie vonar að hún komist einhvern tímann til Beacon. Þegar verkefninu er lokið og þegar (þetta sagði doktor Caldwell einu sinni) allt verður klappað og klárt. Melanie reynir að ímynda sér þann dag: stálveggirnir leggjast saman eins og blaðsíður í bók og svo … eitthvað annað. Eitthvað annað fyrir utan, og þangað fara þau öll. Það er kvíðvænlegt. En alveg ótrúlegt! Inn um gráu dyrnar kemur liðþjálfinn á hverjum morgni og menn liðþjálfans og loks kennarinn. Þeir ganga eftir ganginum, framhjá dyrum Melanie, og bera með sér sterkan, ramman efnaþefinn sem er alltaf af þeim; það er ekki góð lykt en samt spennandi því hún merkir upphafið á nýjum skóladegi.
Þegar Melanie heyrir lokunum rennt frá og fótatakið nálgast hleypur hún að klefadyrunum og tyllir sér á tá til að gægjast út um litla gluggann með vírnetinu á hurðinni og sjá fólkið ganga framhjá. Hún kallar og býður góðan daginn en fólkið á ekki að svara og gerir það yfirleitt ekki. Liðþjálfinn og menn hans heilsa aldrei og ekki heldur doktor Caldwell eða herra Whitaker. Og doktor Selkirk flýtir sér alltaf framhjá og lítur aldrei í rétta átt svo að Melanie sér ekki framan í hana. En stundum veifar fröken Justineau Melanie eða fröken Mailer brosir snöggt og flóttalega til hennar. Kennari dagsins fer beint inn í skólastofuna en menn liðþjálfans byrja að opna klefadyrnar. Þeir eiga að fara með börnin inn í skólastofuna og eftir það fara þeir aftur. Þeir fylgja föstum starfsreglum og þetta tekur langan tíma. Melanie heldur að aðfarirnar hljóti að vera eins hjá öllum börnunum en hún veit það auðvitað ekki fyrir víst því það gerist allt inni í klefunum og eini klefinn sem Melanie sér inn í er klefinn hennar. Fyrst lemur liðþjálfinn á allar dyr og kallar að börnin eigi að vera tilbúin. Hann kallar yfirleitt „flutningar!“ en stundum bætir hann við fleiri orðum: „Flutningar, litlu andskotarnir ykkar!“ eða „Flutningar! Gerið ykkur klár!“ Stórt og örótt andlit hans fyllir upp í vírgluggann og hann horfir illúðlega á mann til að fullvissa sig um að maður sé kominn fram úr og á fætur. Og Melanie man að einu sinni hélt hann ræðu – ekki fyrir börnin heldur mennina sína. „Sumir ykkar eru nýir. Þið vitið ekki hvern fjandann þið hafið tekið að ykkur og þið vitið ekki hvar í andskotanum þið eruð. Þið eruð skíthræddir við þessi litlu djöfulsins viðrini, ekki satt? Jæja, það er gott. Hangið í þeim ótta eins og sáluhjálpinni ykkar. Því hræddari sem þið eruð því minni líkur eru á því að þið klúðrið málunum.“ Svo öskraði hann: „Flutningar!“ sem var gott, því Melanie var ekki viss hvort þetta væri flutningakallið eða ekki.
Þegar liðþjálfinn segir „flutningar“ flýtir Melanie sér að klæða sig í hvíta skokkinn sem hangir á snaga við dyrnar, hvítar buxur af hillunni á veggnum og hvítu skóna sem standa undir rúminu hennar. Svo sest hún í hjólastólinn við rúmgaflinn eins og henni hefur verið kennt. Hún leggur hendurnar á armbríkurnar og setur fæturna á fótaplötuna. Hún lokar augunum og bíður. Hún telur á meðan hún bíður. Hún hefur þurft að telja hæst upp að tvö þúsund fimm hundruð tuttugu og sex; lægsta talan er eitt þúsund níu hundruð og einn. Þegar lyklinum er snúið í skránni hættir hún að telja og opnar augun. Liðþjálfinn kemur inn með byssuna sína og miðar henni á hana. Svo koma tveir af mönnum liðþjálfans inn og herða og festa ólarnar í stólnum um úlnliði og ökkla Melanie. Það er líka ól fyrir hálsinn á henni; þeir herða hana síðast, þegar ólarnar um hendur hennar og fætur eru kirfilega fastar, og þeir herða hana alltaf aftan frá. Ólin er hönnuð þannig að þeir þurfa aldrei að setja hendurnar fram fyrir andlitið á Melanie. Stundum segir Melanie: „Ég bít ekki.“ Hún segir þetta í gamni en menn liðþjálfans hlæja aldrei. Liðþjálfinn gerði það einu sinni, í fyrsta skipti sem hún sagði það, en það var ljótur hlátur. Og svo sagði hann: „Eins og við gæfum þér nokkurn tímann færi á því, dúllan þín.“ Þegar Melanie hefur verið tjóðruð föst við stólinn og getur ekki hreyft hendur eða fætur eða höfuð er henni ekið inn í kennslustofuna og komið fyrir hjá borðinu sínu. Þá er kennarinn kannski að tala við einhver af hinum börnunum eða skrifa eitthvað á töfluna en hún (eða hann, ef þetta er herra Whitaker, eini karlkynskennarinn) hættir oftast og segir: „Góðan daginn, Melanie.“ Þá vita börnin sem sitja alveg fremst í stofunni að Melanie er komin inn og geta líka boðið góðan dag. Fæst þeirra sjá hana koma því auðvitað sitja þau öll í sínum stól með hálsólarnar festar og geta ekki snúið höfðinu sérlega langt.
Þetta ferli – stól ekið inn, kennarinn býður góðan dag og svo heilsa hin börnin í kór – er endurtekið níu sinnum, því níu börn koma inn í skólastofuna á eftir Melanie. Ein þeirra er Anne sem var einu sinni besta vinkona hennar í bekknum og er það kannski enn, nema að síðast þegar börnin voru færð til (liðþjálfinn kallar það að „stokka spilin“) höfnuðu þær í sætum langt hvor frá annarri og það er erfitt að vera besta vinkona manneskju sem maður getur ekki talað við. Annar er Kenny sem Melanie kann illa við því hann kallar hana Melónu eða Me-Me-Me-Melanie til að minna hana á að einu sinni stamaði hún stundum í tímum. Þegar öll börnin eru komin í stofuna byrjar kennslustundin. Reikningur og stafsetning eru alla daga og á hverjum degi er líka upprifjunarpróf en aðrir tímar virðast ekki fara eftir neinni kennsluáætlun. Sumir kennarar lesa upphátt úr bókum og spyrja svo um textann sem þeir lásu. Aðrir láta börnin læra staðreyndir og dagsetningar og töflur og jöfnur og Melanie er mjög góð í því. Hún kann utan að alla kónga og drottningar í Englandi og hvenær þau ríktu, og allar borgir í Bretlandi og yfirborðsflatarmál þeirra og íbúafjölda og árnar sem renna í gegnum þær (ef það eru ár) og kjörorðin þeirra (ef þær eiga sér kjörorð). Hún veit líka hvað höfuðborgir Evrópu heita og íbúafjölda þeirra og árin þegar löndin voru í stríði við Breta, sem þau hafa flest einhvern tímann verið. Henni finnst ekkert erfitt að muna þetta allt saman; hún lærir það til að þurfa ekki að leiðast því leiðindi eru verri en næstum allt annað. Ef hún veit yfirborðsflatarmálið og heildarfjölda íbúa getur hún reiknað út meðaltalsþéttnistuðulinn í huganum og gert svo aðfallsgreiningu til að reikna hvað íbúarnir gætu verið margir eftir tíu, tuttugu, þrjátíu ár. Eitt er samt hálfgert vandamál. Melanie lærði allt um breskar borgir hjá herra Whitaker og hún er ekki viss um að hafa skilið allt rétt. Einn daginn þegar herra Whitaker hegðaði sér frekar undarlega og röddin var sleip og loðin sagði hann nefnilega
dálítið sem gerði Melanie áhyggjufulla. Hún hafði spurt hvort 1.036.900 væri heildaríbúafjöldi Birmingham að meðtöldum úthverfum eða bara miðhluti borgarinnar og þá sagði hann: „Hverjum er ekki sama? Ekkert af þessu drasli skiptir máli lengur. Ég sagði ykkur þetta bara af því að allar kennslubækurnar okkar eru þrjátíu ára gamlar.“ Melanie þráaðist við því hún vissi að Birmingham væri stærsta borg í Englandi, næst á eftir London, og hún vildi vera viss um að hún hefði nákvæmar tölur. „En manntalið frá –“ sagði hún. Herra Whitaker greip fram í fyrir henni. „Drottinn minn, Melanie, það skiptir engu máli. Það er liðin tíð! Það er ekkert þarna lengur. Ekki nokkur skapaður hlutur. Íbúatalan í Birmingham er núll.“ Það getur því hugsast, og reyndar er það mjög líklegt, að sum atriðin í einhverjum af listunum hennar Melanie þurfi að uppfæra. Börnin eru í tímum á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum, fimmtudögum og föstudögum. Á laugardögum eru þau læst inni í klefunum sínum allan daginn og þá er spiluð tónlist í kallkerfinu. Enginn kemur, ekki einu sinni liðþjálfinn, og tónlistin er of hávær til að hægt sé að tala saman. Fyrir löngu datt Melanie í hug að búa til tungumál sem notaði tákn í staðinn fyrir orð til að börnin gætu talað saman í gegnum litlu vírgluggana og það var gaman, en þegar hún spurði fröken Justineau hvort hún mætti kenna bekknum táknmálið sagði fröken Justineau nei, mjög hátt og hvasst. Hún lét Melanie lofa því að nefna táknmálið sitt ekki við neinn af hinum kennurunum og allra síst við liðþjálfann. „Hann er nógu ofsóknarbrjálaður fyrir,“ sagði hún. „Ef hann heldur að þið séuð að tala saman á bak við hann missir hann þá litlu vitglóru sem eftir er.“ Þess vegna fékk Melanie aldrei að kenna hinum börnunum að tala saman á táknmáli.
Laugardagar eru langir og leiðinlegir og erfitt að þrauka þá. Melanie segir sjálfri sér upphátt sumar af sögunum sem börnin fengu að heyra í tímum eða syngur stærðfræðisannanir eins og sönnunina um óendanlegan fjölda prímtalna í takt við tónlistina. Það er í lagi að tala og syngja upphátt því röddin heyrist ekki fyrir tónlistinni. Annars myndi liðþjálfinn koma og skipa henni að hætta. Melanie veit að liðþjálfinn er þarna líka á laugardögum, því einn laugardaginn þegar Ronnie barði á vírgluggann í klefanum sínum þangað til blæddi úr hendinni á henni og hún fór í klessu þá kom liðþjálfinn. Tveir af mönnunum hans voru í fylgd með honum og þeir voru allir þrír klæddir í fyrirferðarmikinn búning sem faldi andlitið á þeim og þeir fóru inn í klefa Ronnie og af hljóðunum að dæma giskaði Melanie á að þeir væru að reyna að binda hana niður í stólinn hennar. Hún giskaði líka á það út frá hljóðunum að Ronnie streittist á móti og gerði þeim erfitt fyrir, því hún hrópaði stöðugt og sagði: „Látið mig vera! Látið mig vera!“ Svo heyrðust skruðningar sem héldu áfram og áfram og einn af mönnum liðþjálfans æpti á meðan: „Jesús Kristur, ekki –“ og svo fóru aðrir líka að æpa og einhver sagði: „Taktu í hinn handlegginn á henni! Haltu henni!“ og svo varð allt aftur hljótt. Melanie vissi ekki hvað gerðist eftir þetta. Mennirnir sem vinna fyrir liðþjálfann gengu um og læstu öllum litlu hlerunum fyrir vírgluggunum svo að börnin sáu ekkert út. Þau voru læst inni allan daginn. Næsta mánudag var Ronnie ekki lengur í bekknum og enginn virtist vita hvað hefði orðið af henni. Melanie vill trúa því að einhvers staðar í herstöðinni sé önnur kennslustofa og Ronnie hafi verið send þangað og komi kannski aftur einn góðan veðurdag þegar liðþjálfinn stokkar spilin. En það sem hún heldur í raun og veru, þegar hún getur ekki varist því að hugsa um það, er að liðþjálfinn hafi farið burt með Ronnie til að refsa henni fyrir óþekktina og hann muni aldrei framar leyfa henni að sjá neitt af hinum börnunum aftur.
Sunnudagar eru eins og laugardagar að undanskildum matnum og sturtunni. Börnin eru sett í stólana sína strax um morguninn eins og það sé venjulegur skóladagur en með ótjóðraða hægri hönd og framhandlegg. Þeim er ekið inn í sturtuna, sem er innstu dyr til hægri, næstu dyr við ómáluðu stálhurðina. Í sturtuklefanum, sem er auður og með hvítum flísum, sitja börnin og bíða þangað til öllum hefur verið ekið inn. Þá koma menn liðþjálfans með matarskálar og skeiðar. Þeir setja skál með skeið í kjöltuna á þeim öllum. Í skálinni eru milljón maðkar, allir iðandi og skríðandi í einni kös. Börnin borða. Í sögunum sem þau lesa borða krakkar stundum annað – kökur og súkkulaði og pylsur og kartöflumús og franskar og brjóstsykur og spaghettí og kjötbollur. Börnin hérna borða bara maðka og bara einu sinni í viku því að – eins og doktor Selkirk útskýrði einu sinni þegar Melanie spurði – líkami þeirra er stórfenglega skilvirkur við lífræn efnaskipti prótína. Þau þurfa ekki neitt af þessum mat í bókunum, ekki einu sinni vatn að drekka. Þau fá öll efni sem þau þurfa úr möðkunum. Þegar þau eru búin að borða fjarlægja menn liðþjálfans skálarnar og fara út, loka dyrunum og harðlæsa þeim. Þá er niðamyrkur í sturtunni því þar eru engin ljós. Það fer að hvína í rörunum í veggjunum eins og einhver reyni að bæla niður hlátur og svo úðast efnablanda niður úr loftinu. Þetta eru sömu efnin og eru á kennurunum og liðþjálfanum og mönnum liðþjálfans, eða lyktin er að minnsta kosti eins, en þessi blanda er miklu sterkari. Fyrst svíður dálítið undan henni. Augun í Melanie verða þrútin, rauð og hálfblind. Efnið gufar samt fljótlega upp úr fötum og af húðinni og þegar þau hafa setið hálftíma í viðbót í þöglum, dimmum klefanum situr ekkert eftir nema lyktin og á endanum dofnar hún líka, eða að minnsta kosti
venjast þau henni svo að hún verður ekki lengur eins slæm, og þá bíða þau bara þegjandi eftir að dyrnar verði opnaðar aftur og menn liðþjálfans komi inn að sækja þau. Þannig er börnunum þvegið og þótt það væri ekki af neinu öðru nægir þetta til að sunnudagar eru líklega verstu dagar vikunnar. Besti dagur vikunnar er dagurinn þegar fröken Justineau kennir þeim. Það er ekki alltaf sama vikudag og sumar vikur kemur hún ekkert en alltaf þegar Melanie er ekið inn í kennslustofuna og sér fröken Justineau verður hún gagntekin af innilegri gleði, eins og hjartað hoppi úr brjóstinu og upp í himininn. Engum leiðist á dögum fröken Justineau. Melanie verður uppnumin af því einu að horfa á hana. Hún hefur gaman af að giska á hvernig fröken Justineau verður klædd og hvort hárið á henni verði uppsett eða slegið. Yfirleitt er það slegið og það er sítt og svart og mjög liðað svo að það minnir á foss. Stundum tekur hún það samt saman í hnút í hnakkanum, mjög fastan hnút, og það er líka gott því þá ber meira á andlitinu, næstum eins og hún sé musterisstytta og haldi uppi loftinu. Meysúla. Að vísu ber alltaf mikið á andliti fröken Justineau því það er svo yndislega dásamlegt á litinn. Það er dökkbrúnt eins og viðurinn í trjánum á regnskógamynd Melanie, þessum sem fjölga sér með fræjum sem spíra hvergi nema í öskunni af skógareldum, eða eins og kaffið sem fröken Justineau hellir í bolla úr hitakönnunni sinni í frímínútum. Húðin er bara dekkri og fagurlitari en þetta tvennt, með fjölmörgum öðrum litbrigðum, og þess vegna er eiginlega ekki hægt að líkja henni við neitt. Það er bara hægt að segja að hún sé jafn dökk og húðin á Melanie er ljós. Og stundum er fröken Justineau með klút eða eitthvað slíkt yfir skyrtunni, bundinn um hálsinn og herðarnar. Þá daga finnst Melanie hún minna annaðhvort á sjóræningja eða eina af konunum í Hameln þegar flautuleikarinn kom. Konurnar í Hameln á myndinni í bók fröken Justineau voru flestar gamlar og bognar
en fröken Justineau er ung og ekkert bogin og mjög hávaxin og gullfalleg. Þess vegna er hún eiginlega líkari sjóræningja, bara ekki í háum stígvélum og ekki með sverð. Þegar fröken Justineau kennir er dagurinn fullur af undrum. Stundum les hún upp ljóð eða kemur með flautuna sína og leikur á hana eða sýnir börnunum myndir úr bók og segir þeim sögur af fólkinu á myndunum. Þannig heyrði Melanie söguna af Pandóru og Epimeþeifi og öskjunni sem var full af plágum og böli heimsins, því einn daginn sýndi fröken Justineau þeim mynd í bókinni. Myndin var af konu að opna öskju og alls konar hræðilegum hlutum sem komu úr henni. „Hver er þetta?“ spurði Anne fröken Justineau. „Þetta er Pandóra,“ sagði fröken Justineau. „Hún var alveg einstök kona. Allir guðirnir höfðu blessað hana og gefið henni gjafir. Nafnið hennar þýðir það – „stúlkan með allar náðargjafirnar“. Hún var sem sagt gáfuð og hugrökk og falleg og fyndin og allt annað sem við viljum vera. En hún hafði samt einn agnarlítinn galla og hann var sá að hún var mjög – og þá meina ég mjög – forvitin.“ Þegar hér var komið sögu hlustuðu öll börnin andaktug og nutu sögunnar og sögumaðurinn líka og á endanum fengu þau að heyra hana alla. Sagan hófst á stríði milli guða og Títana og endaði á því að Pandóra opnaði öskjuna og hleypti öllum skelfingunum úr henni. Melanie sagði að sér þætti ekki rétt að kenna Pandóru um það sem gerðist því þetta hefði verið gildra sem Seifur lagði fyrir dauðlega menn og hann hefði skapað hana eins og hann gerði af ásettu ráði, til þess eins að hún gengi í gildruna. „Látum það berast, systur!“ sagði fröken Justineau. „Karlar fá skemmtun, konur fá skell.“ Og svo hló hún. Melanie kom fröken Justineau til að hlæja! Þetta var afskaplega góður dagur, jafnvel þótt hún vissi ekki hvað hún hefði sagt svona fyndið.
Eini gallinn við daga fröken Justineau er hvað tíminn líður fljótt. Sérhvert augnablik er svo dýrmætt fyrir Melanie að hún deplar ekki einu sinni augunum; hún situr bara kyrr með galopin augu og drekkur í sig allt sem fröken Justineau segir og leggur það á minnið til að geta rifjað það aftur upp seinna, þegar hún er komin í klefann sinn. Og alltaf þegar hún getur spyr hún fröken Justineau að einhverju því það sem henni finnst mest gaman að heyra og muna er þegar rödd fröken Justineau segir nafnið hennar, Melanie, og segir það þannig að henni finnst hún vera mikilvægasta manneskjan í öllum heiminum.