Þegar þú vaknar eftir Franzisku Moll

Page 1


Fyrsti dagur Hann er svo fallegur. Húðin flauelsmjúk á sofandi andlitinu. Varirnar rjóðar. Hárið úfið. Það umlykur andlitið eins og rammi um listaverk. Augun hreyfast undir augnlokunum. Þau hvarfla til og frá eins og þau leiti einhvers. Kannski leita þau mín. Ég er hér. Aðeins fáeinir millimetrar eru á milli nakinna líkama okkar. Ég finn hitann af húð hans. Andartaki áður en ég snerti hann fæ ég gæsahúð. Í hvert skipti. Líkamshár okkar strjúkast létt saman. Ég fæ hroll niður eftir bakinu. Þegar hann er liðinn hjá hjúfra ég mig upp að honum. „Góðan daginn,“ hvísla ég. Hann umlar, snýr sér undan, veit ekki enn að það er ég sem raska draumum hans. Ég sýni honum að hann hefur ástæðu til að koma yfir í heim vökunnar og vef handleggjunum utan um hann, þrýsti hnjánum í dældina í hnésbótinni sem bognir fætur hans bjóða. Tvær skeiðar sem hafa enga lyst á morgunmat. En það er áliðið. Of áliðið. „Skóli,“ hvísla ég. „Dornsted bíður.“ Hann umlar aftur, dregur koddann undan höfðinu og þrýstir honum yfir eyrað. Núna veit hann að þetta er ég. Héðan af er þetta leikur. Leikurinn okkar. Koddinn yfir eyranu þýðir að ég þarf að tjá mig skýrar. Hönd mín hvarflar niður eftir bakinu á honum. Hér er litla dældin þar sem húðin dökknar. Þar fyrir neðan er hún óslétt. Ég klíp fast. „Ái! Rassinn á mér! Ertu brjáluð! Ég fæ marblett!“ Hann lætur eins og hann sé meiddur en vill samt meira. Ég klíp hann aftur, aðeins ofar. „Já, brjáluð í þig,“ segi ég.


Og það er rétt. Sérstaklega á þessu andartaki. Svona andartök eru tíð. Þegar hann sefur. Þegar hann heldur að ég sé ekki að horfa á hann. Þegar ég virði hann fyrir mér úr fjarlægð. Á einni sekúndu kemur allt heim og saman. Þá er allt svo létt. Já, alveg satt, lífið er létt eins og fjöður sem ég blæs á undan mér. Hann snýr sér við. Hann stenst þetta ekki. Hann treður annarri hendinni með erfiðismunum undir mjöðmina á mér, sem er sokkin djúpt í dýnuna, hin kemur ofan frá. Hann hefur náð mér. Og vill ekki sleppa mér aftur. „Klukkan er orðin meira en hálfátta,“ segi ég. „Við erum semsagt búin að missa af fyrsta tíma.“ „Ekki ef við drífum okkur. Komdu. Við þurfum að fara í sturtu.“ „Ég vil hafa þig skítuga.“ Hann lyftir handleggnum á mér og borar nefinu í handarkrikann. „Ef mér skjátlast ekki grasserar einmitt núna alveg ömurleg maga-þarma-sýking. Jafnvel Dornsted hlýtur að skilja að ég þarf að vera hjá þér. Við erum semsagt veik.“ Hann geiflar sig í framan eins og hann verði þar með alvarlegur. „Hvað þú getur verið ljótur,“ segi ég. Og hann: „Ég myndi líka elska þig þótt þú værir ljót. Ljót. Kjánaleg. Jafnvel steindauð.“ „Og ég myndi líka elska þig þótt þú næðir stúdentsprófinu,“ segi ég, smeygi mér úr fangi hans og velti mér fram á rúmstokkinn. Ég dreg sængina með mér. Um leið og ég hverf inn á baðherbergið lít ég snöggt til baka. Morgunbirtan er aldrei eins falleg og þegar hún leikur um nakinn líkama hans. Hún myndar hóla og dali. Hún málar hann eins og listaverk. Kannski ætti ég að fara aftur upp í, bara augnablik. „Viltu leggjast nákvæmlega svona næst?“ spyr ég. „Af hverju?“


„Segðu bara já. Leggðu á minnið hvernig þú liggur núna og leggstu svo alveg eins, ókei?“ „Ókei!“ Ég fer ekki upp í aftur. Ég fresta því til morguns. Augu mín hvarfla í hinn enda stofunnar. Hann lítur ekki í áttina til mín. Hann er að tala við Aron og líkamstjáningin er jafn lífleg og brosið er breitt. Ég átta mig ekki á því um hvað þeir eru að tala. Kannski um mig. Þetta eru örugglega sjö metrar. Hann er of langt í burtu. Ég á erfiðara með að einbeita mér þegar hann er langt frá mér. Svona lagað dettur engum í hug nema kennurum. „Hafið þið planað eitthvað?“ „Já, við ætlum út að borða. Þríréttað. Kertaljós. Kampavín.“ Súsanna brosir, reynir að samgleðjast mér en henni tekst það ekki alveg. Ég sé að hún á í einhverri baráttu. Hún hefur þráð þetta líka. Of lengi. „Heilt ár. Það er aldeilis … langt,“ segir hún og horfir ofan í stílabókina sína. Sem betur fer þarf hún að skrifa eitthvað niður. „Við erum gömul hjón.“ Ég reyni að segja eitthvað sem hressir hana við. „Í hverju ætlarðu að vera?“ „Mjög flegnum og stuttum kjól.“ Hún brosir breiðar. Hún er fegin að geta brosað. Hún getur meira að segja horft í augun á mér og sagt: „Þú átt svo gott.“ Ég yppi öxlum. Ég er næstum búin að segja: Þú finnur bráðum einhvern. Einhvern sem getur tekið þátt í draumum þínum. Einhvern sem stendur við hlið þér og blæs kvíðanum burt


þegar við förum öll út í lífið. Einhvern sem þú veist að þú vilt verða gömul og hrukkótt með. En ég segi: „Ertu búin?“ „Já.“ Hún réttir mér stílabókina aftur. Dornsted kemur inn í stofuna og lítur út fyrir að vilja helst af öllu fara út aftur. Hann hatar okkur. Hann starir örugglega á dagatalið á hverjum morgni og spyr sig hvenær þessu ljúki eiginlega. Það getur ekki verið langt þangað til. Hann er ellilegur. Eins og sá sem hefur elst einsamall. Hann heilsar ekki heldur gengur að töflunni og skrifar eina tölu svo ískrar undan krítinni. Fjórir. Hann horfir á okkur. Eins og við séum eitthvað sem hann feginn vildi geta gleymt. „Hvað táknar þessi tala, dömur mínar og herrar?“ Ekkert svar. Svo hann svarar sér sjálfur. „Þetta eru mánuðirnir sem þið eigið eftir til að ná einhverjum þroska.“ Hann bíður en enginn sýnir nein viðbrögð. „Þroska,“ endurtekur hann. „Er einhver hér líklegur til að ná honum á fjórum mánuðum?“ Enginn segir neitt. „Þá erum við sammála, aldrei slíku vant.“ Hann vill ekki að við kunnum vel við hann. Fyrir utan skugga skólabyggingarinnar er dagurinn sólríkur. „Hvernig er hægt að vera svona?“ Aron gerir andlitsvöðvana máttlausa og glápir út í tómið. Hann verður ótrúlega líkur honum. Hann getur meira að segja hermt eftir röddinni: „Það sem þið sjáið í andlitsdráttum mínum er þroski, dömur mínar og herrar. Uppþornaður, raunamæddur þroski. Nokkuð sem þið munuð aldrei öðlast.“ „Hann er fyrir löngu kominn fram yfir síðasta söludag,“ segir Súsanna. „Það ætti auðvitað að reka svona fólk.


Svona kennarar ættu ekki lengur að fá að umgangast nemendur.“ „Veit einhver hvernig hann býr?“ spyr ég. „Hann hefur örugglega aldrei boðið neinum bekk heim til sín. Ég hef bara heyrt að hann búi einn. Ógiftur semsagt. Hver ætti líka að vilja svona uppvakning?“ „Hann er eiginlega brjóstumkennanlegur,“ segir Rico. Hann fær olnbogann á mér í síðuna. „Þú ert of góður fyrir þennan heim!“ „Ég sagði ekki að ég kenndi í brjósti um hann. Ég sagði bara að hann væri brjóstumkennanlegur.“ „Eigum við að gera eitthvað í dag?“ spyr Aron. „Við ætlum að vera heima,“ svara ég. „Kærustupör eru svo leiðinleg. Maður ætti aldrei að eiga kærustupör að vinum. Súsanna, hvað með þig?“ „Ég hef tíma.“ Aron tekur undir handlegginn á henni og leiðir hana burt. Hann sendir okkur augnaráð sem gæti eytt öllum kærustupörum í þriggja kílómetra radíus en áður en hann er kominn í hvarf hlær hann samt og kallar: „Ég elska ykkur, krakkar mínir, þótt þið séuð ömurleg frík! Farið vel með ykkur!“ „Við elskum þig líka, bjáninn þinn!“ æpir Rico og snýr sér að mér. „Hvað þýðir eiginlega farið vel með ykkur? Á ég að fara vel með mig? Og þú með þig? Eða við hvort með annað?“ „Maður segir bara svona.“ „Já, en af hverju segir maður svona? Það hlýtur að hafa einhverja merkingu. Ég meina, ég get ekki farið einhvern veginn með sjálfan mig. Ég get ekki skipt mér í tvennt. Annar hlutinn gerir eitthvað og hinn passar að sá fyrri geri ekki neina vitleysu?“


„Þá skulum við bara hafa það þannig að við förum vel hvort með annað, ókei?“ „Ókei.“ Ég ætla að beygja til hægri eins og venjulega. En Rico sleppir hendinni á mér. „Ég verð að fara heim í dag. Annars halda þau að eitthvað hafi komið fyrir mig.“ „Hringdu bara.“ „Í alvöru, Elena, foreldrar mínir vita líklega ekki lengur hvernig röddin í mér hljómar.“ „Ég sagði það líka: Hringdu í þau.“ Hann hristir höfuðið. „Komdu heldur með mér heim. Þau yrðu rosalega glöð að sjá þig aftur. Pabbi hélt því fram síðast að við værum örugglega ekki saman lengur og ég væri bara að þykjast vera með þér til að halda öllum rólegum.“ „Farðu á morgun.“ „Nei.“ Hann lítur undan. Ef hann liti ekki undan gæti hann ekki staðist freistinguna. Þannig er hann. Hann þarf að hafa mikið fyrir því að gera það sem hann langar ekki til. „Ég fer heim núna. Punktur! Og við sjáumst annað kvöld. Klukkan sjö.“ Hann ýtir mér frá sér til að komast örugglega burt. Ég vil ekki telja honum hughvarf þótt ég gæti það. Kannski hefur hann rétt fyrir sér. „Mér finnst þetta vera eins og ein vika. Tíminn hefur liðið svo hratt með þér,“ segir hann. „Mér finnst það eins og tíu ár,“ segi ég. „Ég get engan veginn munað hvernig lífið var án þín.“ „Skrítið. Tíminn er svo afstæður.“ Nú grípur hann í höndina á mér. Og það líður heil eilífð þangað til síðasti fingurinn fæst til að sleppa Rico aftur lausum og hleypa honum yfir götuna.


„Og veistu hvað verður í desert í fyrramálið?“ hrópa ég á eftir honum. „Nei, hvað?“ „Afmælis-Elena í náttkjól.“ „Hljómar girnilega.“ „Það er það líka.“ Ég kræki þumalfingrunum í beltislykkjurnar aftan á gallabuxunum mínum. Toga þær tveimur þremur sentimetrum neðar. Rétt svo að sést hvar rassaskoran byrjar. Ég veit að hann snýr sér við enn einu sinni og lítur til baka. Ég veit að ég lokka hann til baka með þessu. Til að fá síðasta kossinn. Ég þarf á þessum kossi að halda áður en ég get sleppt honum frá mér. Ég lít snöggt um öxl. Hann er farinn að hlaupa, setur upp sýningu, réttir út handleggina og lætur tunguna lafa eins og hungraður úlfur. Við sjáum hann bæði á sama andartaki. Í brot úr sekúndu stendur hann stjarfur, svo hverfur hann. Öruggir flutningar með okkur. Ég les hvern einasta bókstaf. Svo sé ég hann aftur. *** Manstu hvað þú varst brjálaður í mig? Þú hefðir getað fengið hvaða stelpu sem var en þú vildir mig. Þessa nýju. Einmitt af því að ég tók ekki eftir þér. Var það ekki þannig? Ég sá þig ekki og það kveikti í þér. Var það íþróttamannslega keppnisskapið? Í byrjun? Viðurkenndu það bara. Ég þoli það. Ég veit að það var ekki þannig til lengdar. Manstu hvað þú lagðir þig mikið fram? Dansaðir í kringum mig eins og geðsjúklingur í kringum saltstólpa. Ég var alveg stíf á meðan. Brandararnir streymdu út úr þér. Þú varst eiginlega alltaf hlæjandi. En ég þoldi ekki svona mikinn hlátur. Og hló ekki með í byrjun.


Ég man nákvæmlega á hvaða andartaki þú fattaðir þetta. „Þér finnst ég algert fífl, er það ekki?“ spurðir þú. Við stóðum við drykkjarsjálfsalann og ég fékk mér kjötseyði sem var svo ógeðslegt að ég skyrpti því strax aftur út úr mér. Fyrir framan tærnar á þér. „Já, mér býður líka við sjálfum mér,“ sagðir þú. Þá gat ég hlegið í fyrsta sinn. Fyrsta sinn eftir að ég kom hingað. Fyrsta sinn í heila eilífð. Þú hélst að þar með væri ísinn brotinn, var það ekki? Þannig ert þú. Þú heldur að allt sé svo einfalt. En það gekk ekki svo hratt. Ég sagði: „Fyrirgefðu en ég kæri mig ekkert um neina stráka í augnablikinu, gleymum þessu bara.“ Ég hélt að þar með hefði ég hrakið þig á flótta. Þannig er ég. Ég held að ég geti haldið fólki í hæfilegri fjarlægð. En þú sagðir dálítið fáránlegt. Þú sagðir: „Ég læt þér batna.“ Og ég hugsaði: Þvílíkur vitleysingur! Hvað heldur hann að hann sé? Sá er galinn! Ég skildi þetta ekki. En það var einmitt það sem gerðist. Þú lést mér batna. Síðar. Fyrst hélstu þig í hæfilegri fjarlægð. Þú fannst að þú þurftir að láta mig í friði til að eyðileggja ekki allt. Þú hafðir auga með mér úr fjarska. Ég fann fyrir augnaráði þínu á hnakkanum. Í tímum. Í frímínútum. Jafnvel stundum þegar ég lá ein í rúminu heima hjá mér. Hvort sem ég vildi það eða ekki. Og ég vildi það ekki. Ég hafði um annað að hugsa. Allt var nýtt. Ég þekkti ekki nokkurn mann. Ég þurfti að kynna mér aðstæður. Skilja hvernig þessi skóli ykkar virkaði. Vinna upp námsefni. Gera Súsönnu að vinkonu minni. En svo einn daginn, það var vetur og hafði snjóað, ég stóð hjá Súsönnu á ganginum og fann allt í einu að eitthvað vantaði. Ég skynjaði það í hnakkanum. Ég sneri mér við. Ég skimaði um allt. En þú varst hvergi. Og ekki heldur daginn eftir. Og ekki þann næsta. Óljós tilfinning hreiðraði um sig í


brjósti mínu. Það tók mig smátíma að átta mig á að það sem ég fann fyrir var söknuður. Ég saknaði þín og skildi ekki af hverju. „Hvar er hann eiginlega þessi þarna, æ hvað heitir hann aftur?“ spurði ég Súsönnu. Ég vissi alveg hvað þú hést. „Hann Rico?“ „Já hann.“ „Hann er í aukaleyfi.“ „Hvernig stendur á því?“ „Af því að pabbi hans styrkir skólann. Foreldrar Ricos eru mjög ríkir.“ Súsanna lyfti brúnum. „Ertu sem sagt spennt fyrir honum?“ „Ég veit það ekki.“ Ég vissi það ekki. „Reyndu þá að komast að því. Hann kemur aftur í næstu viku. Hann er einhvers staðar í Afríku. Góðgerðarstarfsemi. Pabbi hans er yfirlæknir á einhvers konar lýtalæknastöð. Hann hefur verið að lappa upp á afskræmd börn í Afríku. Rico fékk að gera heimildamynd um það. Sem skólaverkefni. Það var allavega opinbera ástæðan fyrir þessu aukaleyfi. Þú getur þá spurt hann út úr þegar hann kemur til baka.“ Að spyrja þig um Afríku, það var góð hugmynd. Þá gæti ég sagt þér eftir á að ég hefði bara haft áhuga á afskræmdu börnunum. Ekki þér. *** „Guð minn góður!“ öskrar hann og stekkur úr bílstjórasætinu á vörubílnum. Hann er ekki gamall. Með yfirvaraskegg. Með húðflúr á upphandleggnum. Hann hleypur framhjá mér. Stendur kyrr. Stynur. Grípur um höfuðið. „Andskotans djöfull! Nei. Nei. Nei.“ Víst. Hann krýpur. Stendur upp. Snýr sér til hálfs. Hikar. Dregur síma upp úr vasanum. Velur númer.


„Komið strax. Komið strax. Halló? Sjúkrabíl á …“ Hann snýr sér við. Leitar að einhverju. „Kastaníuveg.“ Það er röddin mín. „Kastaníuveg. … Strákur.“ Strákurinn minn. „Ég veit það ekki. Hann hreyfir sig ekki.“ Sefur. Síminn hverfur ofan í vasann. Hann snýr sér að mér. „Ég sá hann ekki. Hann var á leiðinni í hina áttina og svo allt í einu … Getur þú vottað það? Sástu það?“ Já. „Ég átti engan séns.“ Engan séns. „Af hverju sneri hann svona við …?“ Hann var að horfa á rassinn á mér. „Andskotans djöfull. Ég gat ekkert að þessu gert. Ég …“ Ég. „Þú sást þetta.“ „Já.“ „Og núna? Hvað gerum við núna?“ Við. Ég hreyfi mig. Vinstri fram. Hægri fram. Það er hægt. Ég get gengið. Svona lítur það út. „Læst hliðarlega? Hver fjárinn. Hvernig var þetta nú aftur?“ „Nei, ekki snerta hann.“ Hann sefur. „Nei, það er rétt, alltof hættulegt. Maður getur víst valdið meiri skaða eftir á en … Andskotans djöfull!“ Skaða. En það er ekkert blóð. Verður allt í lagi.


Já, allt í lagi. Sólin hún skín og í seglunum hvín. Höldum til hafs á ný. Burt. „Rico.“ „Ha? Þekkirðu hann?“ „Rico.“ Ég beygi mig niður að honum, held vanganum upp að nefinu á honum. „Rico. Einmitt. Ókei. Rico verður aftur … Hann verður aftur …“ Verður aftur. „Passaðu þig. Sjúkrabíllinn fer alveg að koma.“ Hann andar ekki. Sefur bara. En hann andar ekki.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.