-1„Væri ekki betra ef þú færir eitthvað innanlands? Kannski bara í Munaðarnes.“ Í rödd hans er áhyggjutónn sem ég veit að á ekki að fara í taugarnar á mér en gerir það samt. „Gutti minn, við erum búin að ræða þetta. Ég hringi reglulega og læt vita af mér.“ Hann faðmar mig og kyssir á kollinn. Tekur töskurnar og fer með þær út í bíl. Lækkar í útvarpinu og við hlustum á andardrátt hvort annars á meðan við keyrum til Keflavíkur. Hraunbreiðurnar eru guðdómlegar þegar sólin skín. „Ertu örugglega með allt?“ spyr Gutti og brosir til mín. Ég kinka kolli. Það er eins og hann hægi á sér eftir því sem flugstöðin nálgast. Eins og til þess að seinka því að kveðja mig. Það þykir mér vænt um. Hann fylgir mér inn í flugstöð, sér til þess að ég innriti mig og gengur með mér að rúllustiganum. Ég leyfi honum það þrátt fyrir að hafa ferðast mun meira en hann, leyfi honum að finnast hann vera að hugsa um mig og taka stjórnina. Hann tvístígur við rúllustigann en tekur svo þéttingsfast utan um mig. Heldur mér óþarflega lengi í faðmi sínum og strýkur niður eftir bakinu. Á meðan fer ég yfir í huganum hvort handfarangurinn minn sé örugglega löglegur. Hvort þar leynist nokkuð stórhættulegur vökvi sem getur ógnað þjóðaröryggi, til dæmis sjampó eða ilmvatn. Þegar hann losar takið finnst mér augu hans vera rök og hann hvíslar: „Komdu aftur heim, farfuglinn minn.“
Gluggasæti. Ég gleðst yfir því. Gott þegar lítið þarf til að gleðja mann og gott að gleðjast yfir höfuð þrátt fyrir vitneskjuna um hvað koma skal eftir ferðina. Íturvaxin hjón kjaga eftir ganginum og stoppa við mína sætaröð. Taka sér dágóða stund í að troða handfarangurstöskunni upp í hólfið, taka hana aftur niður því frúin þarf tímaritið sitt, troða henni aftur upp, taka hana aftur niður því það er jú gott að hafa tyggjó við höndina. Á endanum kemur flugþjónn og biður þau vinsamlegast að fá sér sæti. Frúin er nánast jafn breið og hún er há og maðurinn hennar kominn nokkra mánuði á leið. Hún hlammar sér másandi við hlið mér, reynir nokkrum sinnum að veiða beltið sitt undan stórum sitjandanum en gefst loks upp, hífir sig upp og fær karlinn til að tosa í beltið. Blásandi og másandi spennir hún sig og dæsir svo hátt þegar athöfninni er lokið. Veifar Nýju lífi eins og blævæng og svitinn perlar niður eftir gagnauganu og út á kinn. Ég halla mér lengra upp að glugganum, loka augunum og bíð eftir því að vélin fari af stað, auki hraðann og lyfti sér upp frá eyjunni sem ég ákaflega óumbeðið fæddist á. Furðuleg mistök lífsins að hafa plantað mér niður á eyland norður í rassgati þegar ég er miklu meira fyrir suðrænar slóðir á meginlandi með möguleikanum á því að pakka í skott og keyra út í buskann. Á Íslandi keyrir maður ekki út í buskann. Það er ekki hægt að tala um að keyra út í buskann á landi þar sem aldrei er hægt að komast meira en í nokkurra klukkustunda fjarlægð. „Íbbi minn, ég keypti Mygga til að við getum varist moskítóflugunum,“ segir frúin spennt.
„Ég ætla ekki að bera eitthvað svoleiðis á mig, vera allur klístraður og illa lyktandi,“ tautar hann á móti. „Láttu ekki svona, þú ferð nú ekki að láta bit skemma fyrir þér fríið,“ maldar frúin í móinn. Þögn. „Veistu að það eru bara kvenflugurnar sem bíta?“ bætir hún hressilega við. „Einhvern veginn kemur það mér furðu lítið á óvart,“ svarar hann og þau flissa bæði. Um mig fer hrollur. Frúin er í gulri skyrtu. Líkast til skyrta sem var einu sinni keypt í sólarlandaferð og eingöngu tekin upp fyrir slíkar ferðir. Enda fásinna að flagga slíkum flíkum í grámyglu Íslandsvetrar nema kannski ef flippnefnd starfsmannafélagsins bryddar upp á þeirri skemmtun að allir klæðist sumarfötum í febrúarskammdeginu. Hann er í buxum sem hægt er að renna skálmunum af og breyta í stuttbuxur. Sérlega hentugt þegar hann lendir í hitamollunni. Frúin blaðar í gegnum blævænginn sinn og án afláts sýpur hún hveljur og les upp staðreyndir fyrir mann sinn. Þegar ég er við það að sofna gólar hún upp: „Bogga, Bogga,“ og rauðhærður kollur sem svarar nafninu Bogga poppar upp í sætinu fyrir framan mig. Frúin heldur áfram og er greinilega mikið niðri fyrir: „Keyptir þú nokkuð blokk?“ „Ha?“ spyr Bogga. „Það stendur hérna í blaðinu að fólk eigi ekki að kaupa sólarblokk því það hindrar inntöku D-vítamíns.“ Ég halla aftur höfðinu að glugganum og bölva mér fyrir að hafa ekki pakkað eyrnatöppunum í handfarangur á meðan þær rökræða hvort Stína eigi að henda sólarvörninni sinni í þágu D-vítamínssöfnunar eða ekki.
Nokkrum löngum klukkustundum síðar stíg ég út úr prísundinni, komin á meginlandið og suðrænn miðnæturhiti tekur fagnandi á móti mér eins og gamall vinur.
-2Daginn eftir finn ég rétta rútu og fæ númerað sæti. Næstu klukkustundir verð ég farþegi númer 7A og gleðst aftur yfir því að fá gluggasæti. Gleðst enn meira þegar ég átta mig á því að rútan er lögð af stað án farþega númer 7B. Teygi úr mér og læt fara vel um mig. Í fljótu bragði sýnist mér ég vera eini útlendingurinn í rútunni. Spegilmynd mín horfir á mig í rúðunni og ég reyni að slétta úr úfnu hárinu. Ljós lubbinn lætur illa að stjórn. Bílstjórinn býður upp á mynd sem ég vona að sé ekki lýsandi fyrir ferðalag mitt, Titanic. Þegar Jack og Rose eru að kynnast nánar kemur nunna í fullum skrúða inn í rútuna og sest brosandi við hlið mér. Á sama tíma lauma Jack og Rose sér inn í bíl. Ég lít undan og svei mér þá ef ég roðna ekki smá. Nunnan bryður brjóstsykur og virðist niðursokkin í myndina. Gefur mér olnbogaskot með tvíræðu glotti þegar Rose smellir lófa sínum á móðuga bílrúðuna. Ég halla mér upp að glugganum og dotta. Titanic er byrjað að sökkva og ég dett aftur út. Ranka við mér þegar bílstjórinn leggur bílnum í borg og Titanic er enn að sökkva. Við stoppum í tuttugu og fimm mínútur og ég narta í óspennandi samloku og tek eftir því að nunnan fær sér bjór. Sem mér finnst ekki passa en skammast mín fyrir að dæma hana af klæðnaðinum. Rútan leggur stundvíslega af stað og nýir farþegar hafa bæst við, aðrir urðu eftir. Við keyrum rólega út frá rútustöðinni og ég horfi á eldri mann rogast með þrjá innkaupapoka. Hann missir jafnvægið og dettur kylliflatur, vörur úr einum pokanum dreifast fyrir
framan hann og nunnan skellir upp úr. Ég er farin að draga þá ályktun að nunnan sé bara óbreytt almúgafrú á leið í búningapartí. Hún fer út á næstu stöð. Næsta borg er minn áfangastaður og ég loka augunum þegar við keyrum inn í hana. Opna þau ekki aftur fyrr en rútan nemur staðar á umferðarmiðstöð borgarinnar. Finn töskuna mína og leigubíl. Bílstjórinn horfir líkast til undrandi á mig þar sem ég sit aftur í með augun klemmd saman meðan við keyrum út úr borginni og í átt að landamærunum, neita að fá smjörþefinn af stöðum sem ég á eftir að ganga til. Fyrir nokkrum dögum ákvað ég að gerast pílagrímur. Mig hafði reyndar lengi langað að ganga Jakobsveginn en efaðist um að ég væri í nógu góðu formi til þess. Það virtist algjör fásinna að ætla að ganga frá landamærum Frakklands og Spánar nánast út að Atlantshafi. Eftir að hafa horft á þætti þar sem Thor Vilhjálmsson brölti háaldraður um slóðir pílagríma hvarf sá efi. Ég hafði hins vegar aldrei tíma til að láta vaða. Nei, ég gaf mér raunverulega ekki tíma til að hefja ferðalagið. Fyrr en fyrir nokkrum dögum. Þá pantaði ég flug, keypti mér göngusandala og sólarvörn, allt á sama deginum. Þess fullviss að lífið biði ekki eftir mér og því væri enginn tími betri en núna til að leggja í hann. Leigubíllinn nemur staðar í landamærabæ sem samanstendur af örfáum húsum, kirkju og ráfandi pílagrímum. Ég borga farið, brosi þegar leigubílstjórinn réttir mér töskuna og rúlla henni upp að hótelinu. Í raun hefst pílagrímsganga mín ekki fyrr en á morgun. Þess vegna er ekki svindl að gista á hóteli í nótt. Á morgun mun ég hins vegar panta gistingu á bedda í sæluhúsi, eða
albergue eins og þau kallast, með öðrum sveittum pílagrímum. Konan í móttökunni er dásamlega móðurleg. Brjóst hennar virðast ná frá svuntustreng og upp undir höku. Eftir langt ferðalag langar mig helst til að hún knúsi mig og segi að næstu vikur eigi eftir að vera stórkostlegar. En ég legg það ekki í vana minn að flengjast upp í ókunnuga faðma og borga því gistinguna, fæ lykil og upplýsingar um morgunverð og kem mér upp á herbergi. Ég skipti um föt og hringi í símanúmer sem ég fann á netinu heima og vonast til að maður að nafni Jorge, sem auglýsti flutningsþjónustu fyrir ferðatöskur, starfi enn við það. Stuttu seinna er allt klappað og klárt. Skólaspænskan mín fleytti mér í gegnum símtalið og eftir því sem ég best veit kemur señor Jorge á morgun, sækir farangurinn og flytur hann á næsta gististað. Klukkan er að nálgast fjögur og alltaf fjölgar pílagrímum í bænum. Brjóstgóða konan í móttökunni sagði mér að fara í sæluhúsið hjá kirkjunni og útvega mér pílagrímsvegabréf. Þar réttir ung stúlka mér vegabréf. Ég merki við að tilgangur minn með göngunni sé andlegur. Get ekki merkt við trúarlegur, finnst of túristalegt að merkja við menningarlegur og út í hött að merkja við að gangan sé bara til að svala íþróttalegum þörfum mínum. Eins merki ég samviskusamlega við að ég muni fara leiðina fótgangandi. Í boði er, auk tveggja jafnfljótra, að fara hjólandi eða á hestbaki. Stúlkan gefur mér fyrsta stimpilinn í vegabréfið. Blár stimpill með mynd af pílagrími með staf og í kufli. „Þú þarft að fá að minnsta kosti tvo stimpla á hverjum degi,“ segir hún og réttir mér vegabréfið. „Líkt og til
staðfestingar að þú sért sannarlega að ganga leiðina. Þegar þú kemur til Santiago geturðu farið með útstimplað vegabréf á skrifstofu pílagríma, sem er rétt hjá dómkirkjunni. Þar færðu afhent skírteini til staðfestingar því að þú hafir gengið Jakobsveginn. Áður fyrr fékk fólk aflátsbréf frá kirkjunni en í dag er þetta víst aðeins viðurkenningarskjal.“ Hún brosir og ég finn hvernig keppnisskapið vex hjá mér. Tveir stimplar á dag. Markmið. Áður en ég yfirgef sæluhúsið kaupi ég líka ferðahandbók um Jakobsveginn. Í henni eru kort af veginum þar sem sjást hækkanir og kílómetrafjöldi milli þorpa. Einnig er heilmikill fróðleikur um postulann Jakob ásamt þeim dýrlingum sem tengjast stígnum og margt fleira áhugavert. Það er skýjað en samt vel heitt. Ég kaupi vatn og rölti á móti þeim sem lögðu af stað Frakklandsmegin og eru að skila sér niður hæðina. Þeir eru þreyttir en sælubrosið gerir lítið úr þreytunni. Nánast allir hafa hörpuskel hangandi utan á bakpoka sínum til merkis um að þeir séu pílagrímar. Allan daginn hafa þeir gengið upp á við til að komast yfir Pýreneafjöllin og eru þakklátir fyrir þá brekku niður í móti sem ég staulast nú rólega upp. Það er stuttur gangur upp að útsýnisstaðnum yfir fjallgarðinn sem ég rangnefndi á landafræðiprófi í grunnskóla. Af hverju eru ekki notaðar myndir við landafræðikennslu til að láta nemendur fá áhuga á að ferðast til þeirra landa sem þeir læra um? Landafræðibókin í grunnskóla var ekki með mörgum myndum, bara staðreyndum um atvinnuhætti, loftslag og hæðartölur. Nú þegar ég horfi yfir fjallgarðinn er mér skítsama um hve hár hæsti punkturinn er og hvernig loftslag er ríkjandi. Fallegt? Já. Einstakt? Nei.
Það eru fjöll víða og þessi eru ekkert meira sjarmerandi eða töfrandi en önnur fjöll. Ég splæsi þó í eina mynd til að minna mig á upphafið. Upphafið á hverju? Ferð minni í leit að sjálfri mér? Varla, því ég veit ekki til þess að ég hafi týnt mér. Ferð minni í leit að sátt? Kannski.