Violet og Finch

Page 1


FINCH Ég er vaknaður aftur. Dagur 6 Er dagurinn í dag góður dagur til að deyja? Spyr ég mig á morgnana þegar ég vakna. Í þriðja tíma þegar ég reyni að halda augunum opnum á meðan herra Schroeder malar út í eitt. Við kvöldverðarborðið þegar ég rétti grænu baunirnar. Á nóttunni þegar ég ligg andvaka af því heilinn neitar að sofna vegna alls sem þarf að hugsa um. Er dagurinn í dag málið? Og ef ekki í dag – hvenær þá? spyr ég mig nú þar sem ég stend á mjórri syllu tuttugu metrum ofar jörðu. Ég er svo hátt uppi að ég er næstum hluti af himninum. Ég horfi niður á gangstéttina fyrir neðan og heimurinn hallast. Ég loka augunum og nýt þess að finna hvernig allt hringsnýst. Kannski læt ég verða af því í þetta sinn – læt loftið bera mig burt. Það verður eins og að fljóta í sundlaug, á reki uns ég finn ekki fyrir neinu. Ég minnist þess ekki að hafa klifrað hingað upp. Reyndar man ég nánast ekkert af því sem gerðist fyrir síðasta sunnudag, varla neitt sem af er þessum vetri. Þetta gerist í hvert skipti; ég dett út, vakna svo aftur. Ég er eins og gamli karlinn þarna með skeggið, Rip Van Winkle: Hér í dag, horfinn á morgun. Það mætti ætla að ég væri orðinn vanur en þetta skipti var það versta hingað til af því ég datt ekki út í nokkra daga eða eina eða tvær vikur – ég datt út yfir allar hátíðirnar, þ.e. þakkargjörð, jól og gamlárskvöld. Ég veit ekki alveg hvað var öðruvísi núna, en þegar ég vaknaði var ég dauðari en vanalega. Vakandi, jú, en algjörlega tómur, eins og einhver hefði sogað úr mér allt blóð. Í dag er sjötti vökudagurinn og fyrsta vikan mín í skólanum síðan fjórtánda nóvember. Ég opna augun og jörðin er þarna enn, hörð og endanleg. Ég er uppi í klukkuturni skólans, stend á syllu sem er um það bil tíu sentímetra breið. Turninn er frekar lítill, gólfplássið aðeins um metri á hverja hlið í kringum


sjálfa bjölluna og svo lága hlaðna steinhandriðið sem ég klifraði yfir til að komast hingað. Öðru hverju banka ég fætinum upp við handriðið til að minna mig á að það sé þarna. Ég teygi hendurnar út til hliðanna, eins og ég sé að fara með prédikun og þessi ekki-svo-stóri ömurlega glataði bær sé söfnuðurinn minn. „Dömur mínar og herrar,“ hrópa ég, „ég býð ykkur velkomin í fráfall mitt!“ Það mætti kannski frekar búast við að ég segði „líf“, þar sem ég er nývaknaður og allt, en það er bara þegar ég er vakandi sem ég hugsa um að deyja. Ég hrópa orðin eins og predikari af gamla skólanum, með höfuðsveiflum og drynjandi orðaflaumi, og missi næstum jafnvægið. Ég gríp í handriðið að baki mér, feginn að enginn virðist hafa tekið eftir þessu því það er auðvitað frekar erfitt að þykjast óttalaus þegar maður rígheldur í handrið eins og drukknandi maður. Ég, Theodore Finch, verandi andlega vanheill, ánafna hér með Charlie Donahue, Brendu Shank-Kravitz og systrum mínum allar mínar veraldlegu eigur. Allir aðrir geta f----- sér.“ Mamma kenndi okkur snemma að stafa þetta orð (ef við yrðum að nota það), en helst af öllu sleppa því alveg, og því miður hefur þetta tollað. Þótt bjallan sé búin að hringja eru enn nokkrir skólafélagar vafrandi um á lóðinni. Þetta er fyrsta vika seinni annar síðasta ársins og þeir eru strax farnir að láta eins og þeir séu nánast búnir og sloppnir héðan. Einn þeirra lítur í áttina til mín eins og hann hafi heyrt í mér en hinir ekki, annaðhvort vegna þess að þeir hafa ekki komið auga á mig eða þá þeir vita að ég er hérna og æi, þetta er bara hann Theodore frík. Svo snýr hann höfðinu frá mér og bendir upp í himininn. Fyrst held ég að hann sé að benda á mig en þá sé ég hana, stelpuna. Hún stendur steinsnar frá mér hinum megin á turninum, líka úti á syllunni, skollitað hárið bylgjast í golunni, pilsfaldurinn fýkur upp eins og fallhlíf. Þótt það sé janúar í Indianafylki er hún skólaus á sokkabuxunum, með stígvélin í annarri hendi og starir annaðhvort á fæturna á sér eða niður á jörðina – það er erfitt að sjá hvort. Hún virðist algjörlega stjörf.


Með venjulegri rödd, án predikunartónsins, segi ég, eins rólega og ég get: „Trúðu mér, það versta sem þú gerir er að horfa niður.“ Hún snýr höfðinu að mér, löturhægt, og ég þekki þessa stelpu, eða hef að minnsta kosti séð hana á göngunum. Ég stenst ekki mátið: „Kemurðu oft hingað? Af því þetta er eiginlega staðurinn minn og ég man ekki eftir að hafa séð þig hérna áður.“ Hún hlær hvorki né deplar augum, starir bara á mig gegnum klunnaleg gleraugu sem hylja næstum andlitið. Hún reynir að stíga til baka og fóturinn á henni rekst í steinriðið. Hún riðar og áður en hún fyllist ofsahræðslu segi ég: „Ég veit ekki hvað fékk þig hingað en í mínum augum er bærinn fallegri héðan og fólkið sýnist viðkunnanlegra og meira að segja þau verstu virðast í lagi. Nema Gabe Romero og Amanda Monk og hópurinn sem þú ert alltaf með.“ Hún heitir Violet eitthvað. Hún er klappstýruvinsæl – ein af þessum stelpum sem maður á síst von á að hitta á mjórri syllu í tuttugu metra hæð. Hún er falleg bak við ljótu gleraugun, næstum eins og postulínsdúkka. Stór augu, fallegt hjartalaga andlit, munnur sem langar að sveigjast í fullkomið lítið bros. Hún er stelpa sem er með strákum eins og Ryan Cross hafnaboltastjörnu og situr hjá Amöndu Monk og hinum drottningunum í matsalnum. „En svona í alvöru talað, við komum hvorugt hingað vegna útsýnisins. Þú heitir Violet, ekki satt?“ Hún blikkar augunum einu sinni og ég túlka það sem já. „Theodore Finch. Ég held að við höfum verið saman í stærðfræði í fyrra.“ Hún blikkar aftur. „Ég hata stærðfærði en það er ekki ástæðan fyrir því að ég er hérna. Ekki móðgast ef það er ástæðan fyrir því að þú ert hér. Þú ert örugglega betri en ég í stærðfræði, því nokkurn veginn allir eru betri en ég í stærðfræði en það er allt í lagi, ég þoli það alveg. Ég ber nefnilega af í öðrum mikilvægari hlutum; gítarspili, kynlífi og að valda föður mínum stöðugum vonbrigðum svo eitthvað sé nefnt. En heyrðu, það er víst satt að maður muni aldrei nota hana í lífinu. Stærðfræði, á ég við.“


Ég held áfram að tala en finn að ég er að missa dampinn. Í fyrsta lagi þarf ég að pissa svo orð mín eru ekki það eina sem er á iði. (Til minnis: Muna að pissa áður en maður gerir tilraun til að svipta sig lífi.) Í öðru lagi er að byrja að rigna, sem í þessu hitastigi mun líklega breytast í slyddu áður en droparnir snerta jörðina. „Það er að byrja að rigna,“ segi ég, eins og hún viti það ekki nú þegar. „Það má líklega færa rök fyrir því að regnið skoli burt blóðinu svo við verðum snyrtilegri klessa að þrífa en ella. Það voru samt þrifin sem fengu mig til að endurmeta stöðuna. Ég er ekkert voðalega hégómlegur en ég er mannlegur og ég veit ekki með þig en í jarðarförinni minni langar mig ekki að vera eins og ég hafi farið í gegnum trjákurlara.“ Hún skelfur eða titrar, ég sé ekki hvort, og ég mjaka mér rólega í áttina að henni, vona að ég hrapi ekki áður en ég næ til hennar því það síðasta sem mig langar er að gera mig að fífli fyrir framan þessa stelpu. „Ég hef látið skýrt í ljós að ég vil bálför en mömmu hugnast það ekki.“ Og pabbi mun gera hvað sem hún segir til að koma henni ekki enn meira úr jafnvægi en hann hefur þegar gert, fyrir utan að: Þú ert alltof ungur til að hugsa um þetta, þú veist að amma Finch varð níutíu og átta ára gömul, við þurfum ekki að ræða þetta núna, Theodore, ekki koma mömmu þinni úr jafnvægi. „Svo kistan verður opin í minni jarðarför, sem verður ekki falleg sjón ef ég stekk. Svo líkar mér reyndar ágætlega við andlitið á mér í heilu lagi, tvö augu, eitt nef, einn munnur og allar tennurnar, sem eru, ef ég á að vera hreinskilinn, eitt það laglegasta við mig.“ Ég brosi svo hún geti séð hvað ég á við. Allt þar sem það á að vera, að minnsta kosti á yfirborðinu. Fyrir neðan okkur kallar einhver: „Violet? Er þetta Violet þarna uppi?“ „Ó, guð,“ segir hún, svo lágt að ég heyri það varla. „Óguðóguðóguð.“ Vindurinn feykir pilsinu og hárinu og svo virðist sem hún muni fljúga á braut. Það berst kliður að neðan og ég öskra: „Ekki reyna að bjarga mér! Þú deyrð bara sjálf!“ Svo segi ég, mjög lágt, bara við hana: „Ég held að við ættum að gera þetta svona.“ Það eru bara þrjátíu sentímetrar á milli


okkar. „Fleygðu skónum þínum í átt að bjöllunni og gríptu svo í handriðið, fast, og þegar þú hefur náð góðu taki skaltu halla þér að því, lyfta svo hægri fætinum upp og yfir. Náðirðu þessu?“ „Ókei.“ Hún kinkar kolli og missir næstum jafnvægið. „Ekki kinka kolli.“ „Ókei.“ „Og hvað sem þú gerir, ekki fara í öfuga átt og stíga áfram í staðinn fyrir aftur á bak. Ég skal telja niður. Á þremur. Ókei?“ „Ókei.“ Hún fleygir stígvélunum í átt að bjöllunni og þau lenda með dynk. „Einn. Tveir. Þrír.“ Hún grípur í steininn, hallar sér upp að honum og lyftir svo hægri fætinum yfir þar til hún situr klofvega á steinriðinu. Hún starir niður á jörðina og ég sé að hún stirðnar aftur upp svo ég segi: „Gott. Frábært. Hættu bara að horfa niður.“ Hægt og rólega lítur hún á mig og teygir svo hægri fótinn niður á gólf turnsins. Þegar hann snertir segi ég: „Náðu nú vinstri fætinum yfir einhvern veginn. Ekki sleppa handriðinu.“ Hún skelfur svo mikið að ég heyri tennurnar í henni glamra en ég fylgist með þegar vinstri fóturinn sameinast þeim hægri og hún er örugg. Svo nú er ég einn eftir. Ég lít niður á jörðina í síðasta sinn, fram yfir fæturna á mér sem þurfa skó númer fjörutíu og sjö og virðast aldrei ætla að hætta að vaxa – í dag er ég í strigaskóm með sjálflýsandi reimum – fram hjá opnum gluggunum á fjórðu hæð, þriðju hæð, annarri, fram hjá Amöndu Monk sem gaggar eitthvað á tröppunum fyrir framan skólann, kastar til ljósu hárinu eins og smáhestur, með bækurnar yfir höfðinu þar sem hún reynir samtímis að daðra og verjast regninu. Ég lít fram hjá þessu og alla leið niður á jörðina, sem er orðin hál og rök og ég ímynda mér sjálfan mig liggja þar. Ég gæti tekið skrefið. Þessu væri lokið á nokkrum sekúndum. Enginn „Theodore frík“ framar. Enginn sársauki. Ekki neitt. Ég reyni að komast yfir þessa óvæntu truflun sem lífsbjörgin var og snúa mér aftur að verkefninu. Í örskotsstund finn ég … friðinn þegar


hugurinn þagnar, eins og ég sé þegar dauður. Ég er þyngdarlaus og frjáls. Enginn og ekkert að óttast, ekki einu sinni mig sjálfan. Rödd að baki mér segir: „Ég vil að þú grípir í steinriðið og þegar þú hefur náð taki skaltu halla þér að því og lyfta hægri fætinum upp og yfir.“ Rétt si svona finn ég augnablikið líða hjá, kannski var það þegar liðið hjá, og nú virðist þetta heimskuleg hugmynd nema kannski fyrir svipinn á Amöndu þegar ég sigli fram hjá. Ég hlæ við tilhugsunina. Ég hlæ svo mikið að ég dett næstum og það skelfir mig – skelfir mig hræðilega – og ég næ jafnvæginu og Violet grípur mig á sama tíma og Amanda lítur upp. „Viðrini!“ æpir einhver. Litli hópurinn hennar Amöndu flissar hæðnislega. Hún myndar lúður með höndunum og beinir honum upp í himininn. „Í lagi með þig, V?“ Violet heldur þétt um fæturna á mér og hallar sér yfir handriðið. „Ég er í lagi.“ Dyrnar að turnstiganum opnast og besti vinur minn, Charlie Donahue, birtist. Charlie er svartur. Ekki sjónvarpsþáttasvartur heldur svartsvartur. Hann sefur líka oftar hjá en nokkur annar sem ég þekki. Hann segir: „Það er pítsa í dag,“ eins og ég standi ekki á syllu uppi á sjöttu hæð með hendurnar útbreiddar og stelpu vafða um fótleggina á mér. „Af hverju drífurðu þig ekki bara og lýkur þessu af, viðrini?“ kallar Gabe Romero, betur þekktur sem Roamer, betur þekktur sem þöngulhaus, að neðan. Meiri hlátur. Af því ég á stefnumót við mömmu þína á eftir, hugsa ég en segi það ekki því það er frekar hallærislegt og svo myndi hann koma hingað og berja andlitið á mér í klessu og fleygja mér svo fram af og þá væri varla hægt að kalla þetta sjálfsvíg lengur. Þess í stað kalla ég: „Takk fyrir að bjarga mér, Violet. Ég veit ekki hvað ég hefði gert ef þú hefðir ekki komið. Ég væri líklega dauður.“ Síðasta andlitið sem ég sé fyrir neðan mig tilheyrir námsráðgjafanum mínum, herra Embry. Hann hvessir á mig augun og ég hugsa: Frábært. Bara frábært.


Violet hjálpar mér yfir steinriðið og niður á pallinn. Niðri er klappað, ekki fyrir mér, heldur fyrir Violet, hetjunni. Í návígi sé ég að húðin á henni er slétt og mjúk, fyrir utan tvær freknur á hægri kinninni, og augun eru grágræn, sem minnir mig á haustið. Það eru augun sem fanga mig. Þau eru stór og sláandi, eins og þau sjái allt. Þótt þau séu hlý eru þau samt kvik og svona ekkert-kjaftæði-augu, augu sem sjá í gegnum mann, það er greinilegt þrátt fyrir gleraugun. Hún er myndarleg og hávaxin, en ekki of hávaxin, með langa eirðarlausa leggi og sveigju í mjöðmum sem mér líkar. Of margar stelpur eru vaxnar eins og strákar. „Ég sat bara þarna,“ sagði hún. „Á handriðinu. Ég kom ekki hingað til að …“ „Leyfðu mér að spyrja þig að svolitlu. Heldurðu að það sé til fullkominn dagur?“ „Ha?“ „Fullkominn dagur. Frá upphafi til enda. Þegar ekkert hræðilegt eða sorglegt eða venjulegt gerist. Heldurðu að það sé mögulegt?“ „Ég veit það ekki.“ „Hefurðu átt þannig dag?“ „Nei.“ „Ekki ég heldur en ég er að leita að honum.“ Hún hvíslar: „Þakka þér, Theodore Finch.“ Hún teygir sig upp og kyssir mig á kinnina og lyktin af sjampóinu hennar minnir mig á blóm. Hún segir í eyrað á mér: „Ef þú segir einhvern tímann frá þessu þá drep ég þig.“ Með stígvélin í fanginu flýtir hún sér burt og inn úr rigningunni, í gegnum dyrnar að myrka og hrörlega stiganum sem liggur niður í einn af alltof björtu og fjölmennu skólagöngunum. Charlie horfir á eftir henni og þegar dyrnar lokast að baki henni snýr hann sér aftur að mér. „Gaur, af hverju gerirðu þetta?“ „Af því við deyjum hvort sem er öll einhvern tíma. Mig langar bara að vera viðbúinn.“ Að sjálfsögðu er þetta ekki ástæðan en þetta nægir honum. Sannleikurinn er sá að ástæðurnar eru mýmargar og flestar breytast daglega eins og þrettán fjórðubekkingarnir sem voru drepnir fyrr í vikunni þegar einhver andskotinn hóf skothríð í íþróttasalnum þeirra,


eða stelpurnar tvær, tveimur árum yngri en ég, sem dóu úr krabbameini, eða maðurinn sem ég sá sparka í hundinn sinn fyrir utan bíóið í verslunarmiðstöðinni, eða pabbi minn. Charlie hugsar það kannski en hann segir ekki „viðrini“, sem er ástæðan fyrir því að hann er besti vinur minn. Fyrir utan hvað ég kann vel að meta þetta við hann eigum við ekki margt sameiginlegt. Tæknilega séð er ég á skilorði þetta ár. Það er vegna smámáls í sambandi við skrifborð og kennaratöflu. (Það er mun dýrara að endurnýja kennaratöflu en maður myndi ætla.) Það tengist líka brotnum gítar á skólasamkomu á sal, ólöglegri notkun flugelda og kannski slagsmálum eða tvennum. Niðurstaðan er að ég neyddist til að samþykkja eftirfarandi: Vikulega ráðgjöf; meðaleinkunn yfir sjö og að taka þátt í að minnsta kosti einu tómstundaverkefni. Ég valdi hnýtingar af því þar er ég eini strákurinn með tuttugu þokkalega útlítandi stelpum, sem ég taldi nokkuð vænlegt til árangurs. Ég þarf líka að haga mér eins og maður, leika fallega með öðrum, forðast að fleygja skrifborðum sem og forðast allar „ofbeldisfullar uppákomur“. Og hvað sem ég geri verð ég alltaf, alltaf að passa hvað ég segi af því þar liggja víst upptök allra vandræðanna. Ef ég f---- einhverju upp héðan í frá þýðir það tafarlausan brottrekstur. Ég læt ritara námsráðgjafans vita af mér og sest á einn af hörðu tréstólunum þar til herra Embry er tilbúinn. Ef ég þekki Emma (eins og ég kalla hann í huganum) rétt vill hann vita hvað í andskotanum ég var að gera uppi í klukkuturninum. Ef ég er heppinn höfum við ekki tíma fyrir miklu meira en það. Nokkrum mínútum síðar veifar hann mér inn, hann er þéttvaxinn maður, sver eins og naut. Hann brosir til mín þegar hann lokar dyrunum. Hann sest niður, hallar sér fram á skrifborðið og starir á mig eins og ég sé sakborningur sem hann þurfi að buga. „Hvað í andskotanum varstu að gera uppi í klukkuturninum?“


Það sem mér líkar best við Emma er að hann er ekki bara fyrirsjáanlegur heldur er hann líka fljótur að koma sér að efninu. Ég er búinn að þekkja hann síðan á fyrsta ári. „Mig langaði að sjá útsýnið.“ „Ætlaðirðu að stökkva fram af?“ „Ekki á pítsudegi. Aldrei á pítsudegi, það er einn af bestu dögum vikunnar.“ Það er rétt að það komi fram að ég er snillingur í undanbrögðum. Svo mikill snillingur að ég gæti fengið fullan námsstyrk til að stúdera þau, en til hvers? Ég hef þegar öðlast fullkomið vald á faginu. Ég bíð eftir að hann spyrji um Violet en í staðinn segir hann: „Ég þarf að vita hvort þú hafir ætlað að skaða sjálfan þig. Mér er drullualvara. Ef Wertz skólastjóri fréttir af þessu verðurðu rekinn áður en þú nærð að segja „brottrekstur“. Fyrir utan að ef ég fylgi þessu ekki eftir og þú ákveður að fara aftur upp og stökkva fram af verð ég ákærður og, trúðu mér, miðað við launin sem ég fæ hef ég ekki efni á að standa í málaferlum. Þá skiptir ekki máli hvort þú stykkir fram af klukkuturninum eða Purina-turninum, hvort sem þú ert á skólalóðinni eða ekki.“ Ég strýk mér um hökuna eins og ég sé djúpt hugsi. „Purina-turninn. Áhugaverð hugmynd.“ Einu viðbrögð hans eru að píra á mig augun. Emmi trúir ekki á húmor frekar en aðrir í miðríkjunum, sérstaklega ekki þegar verið er að grínast með viðkvæm málefni. „Ekki fyndið, herra Finch. Þetta er ekkert gamanmál.“ „Nei, herra. Fyrirgefðu.“ „Þeir sem fremja sjálfsvíg hugsa yfirleitt ekki um þá sem þeir skilja eftir. Ekki bara foreldra sína og systkini heldur vini, kærustur, skólafélaga, kennara.“ Það gleður mig að hann virðist halda að það sé fullt, fullt af fólki sem reiðir sig á mig, þar á meðal ekki bara ein, heldur margar kærustur. „Ég var bara að fíflast. Ég er sammála að þetta hafi líklega ekki verið besta leiðin til að verja fyrsta tíma.“ Hann tekur upp skjalamöppu, smellir henni á borðið fyrir framan sig og flettir í gegnum hana. Ég bíð á meðan hann les og svo lítur hann aftur á


mig. Ég velti fyrir mér hvort hann sé að telja hvað eru margir dagar til sumars. Hann stendur upp, alveg eins og lögregla í sjónvarpsþætti, og gengur fram fyrir skrifborðið þar til hann gnæfir yfir mig. Hann hallar sér upp að borðinu með krosslagðar hendur og ég gái bak við hann í leit að tvístefnuspeglinum. „Þarf ég að hringja í mömmu þína?“ „Nei. Og aftur nei.“ Og aftur: Nei nei nei. „Sko, þetta var heimskulegt af mér. Mig langaði bara að vita hvernig það væri að standa þarna og horfa niður. Ég myndi aldrei stökkva niður úr klukkuturninum.“ „Ef þetta gerist aftur, ef þú svo mikið sem hugsar um þetta aftur, þá hringi ég í hana. Og þú ferð í eiturlyfjapróf.“ „Þakka þér fyrir umhyggjuna.“ Ég reyni að vera eins einlægur og ég get því ég vil síst af öllu að frekari athygli beinist að mér, fylgi mér um ganga skólans, um aðra hluta lífs míns. Og ég kann í raun og veru virkilega vel við Emma. „Og með eiturlyfin þá er engin ástæða til að eyða dýrmætum tíma. Í alvöru. Ekki nema sígarettur teljist með. Eiturlyf og ég? Ekki góð blanda. Trúðu mér, ég hef reynt það.“ Ég legg hendurnar í kjöltuna eins og stilltur strákur. „Og með klukkuturninn, þótt það hafi alls ekki verið það sem þú heldur get ég samt lofað þér að það mun ekki gerast aftur.“ „Rétt hjá þér, það mun ekki gerast aftur. Ég vil fá þig hingað tvisvar í viku. Þú mætir á mánudögum og föstudögum og spjallar við mig svo ég geti fylgst með því hvernig þú hefur það.“ „Með glöðu geði, – ég meina, ég, sko, hef virkilega gaman af spjallinu okkar – en ég er góður.“ „Þetta er ekki umsemjanlegt. Nú skulum við ræða aðeins um lok síðustu annar. Þú misstir fjórar, næstum fimm vikur úr skólanum. Mamma þín sagði að þú værir veikur, með flensu.“ Hann er reyndar að tala um systur mína, Kate, en veit það ekki. Það var hún sem hringdi í skólann þegar ég datt út af því mamma hefur nóg á sinni könnu. „Fyrst hún segir það eigum við þá nokkuð að rengja það?“


Það er rétt að ég var veikur en það er ekki hægt að skýra veikindi mín með einhverju jafn einföldu og flensu. Mín reynsla er sú að fólk sýnir mun meiri samúð ef vanlíðanin er sjáanleg og í milljónasta skipti óskaði ég þess að ég hefði mislinga eða bólusótt eða einhvern auðskiljanlegan sjúkdóm til að auðvelda bæði mér og þeim hlutina. Hvað sem er væri betra en sannleikurinn. Ég lokaðist aftur. Ég varð tómur. Aðra mínútuna snarsnerist ég og þá næstu dróst hugur minn í hringi eins og gamall gigtveikur hundur sem reynir að leggjast niður. Og svo datt ég bara út og sofnaði, en ekki á sama hátt og maður sofnar á kvöldin. Meira eins og langur, dimmur, vita draumlaus svefn. Emmi pírir aftur augun og starir stíft á mig, reynir að láta mig svitna. „Og megum við gera ráð fyrir að þú mætir og haldir þig frá vandræðum þessa önn?“ „Algjörlega.“ „Og sinnir heimanáminu?“ „Já, herra.“ „Ég fæ hjúkrunarfræðinginn til að gera eiturlyfjaprófið.“ Hann rekur fingurinn út í loftið, bendir á mig. „Skilorð þýðir „tímabil þar sem hæfni viðkomandi er könnuð; tímabil sem nemandinn verður að bæta sig“. Flettu því upp ef þú trúir mér ekki og í guðanna bænum haltu þér á lífi.“ Það sem ég segi honum ekki er: Ég vil halda mér á lífi. Ástæðan er að miðað við þykktina á möppunni fyrir framan hann mun hann ekki trúa mér. Og annað sem hann myndi aldrei trúa: Ég berst við að halda mér hér í þessari ömurlegu, rugluðu veröld. Að standa á syllu á klukkuturninum snýst ekki um dauðann. Heldur um að vera við stjórn. Um að sofna aldrei aftur. Emmi stikar aftur fyrir skrifborðið og nær í bunka af bæklingnum Táningar í vanda. Svo segir hann mér að ég sé ekki einn og ég geti alltaf leitað til hans, dyr hans standi opnar, hann sé hér og við munum hittast á mánudaginn. Mig langar að segja að það sé ekki mikil huggun í því og biðja hann að taka því ekki illa. Í staðinn þakka ég honum, vegna dökkra bauganna undir augunum og reykingalínanna kringum munninn. Hann


kveikir sér örugglega í um leið og ég fer. Ég gríp bunka af bæklingum og gef honum frið. Hann minntist ekki einu orði á Violet og mér er létt.


Violet 154 dagar í útskrift Föstudagsmorgunn. Skrifstofa frú Marion Kresney námsráðgjafa. Hún er með lítil vingjarnleg augu og bros sem er of stórt fyrir andlitið. Samkvæmt skírteininu á veggnum á bak við hana hefur hún starfað við Bartlett High í fimmtán ár. Þetta er tólfti fundurinn okkar. Hjartað í mér hamast ennþá og hendurnar skjálfa eftir að hafa verið uppi á syllunni. Mér er ískalt og mig langar mest að leggjast út af. Ég bíð eftir að hún segi: Ég veit hvað þú varst að gera í fyrsta tíma, Violet Markey. Foreldrar þínir eru á leiðinni. Læknarnir eru tilbúnir að fylgja þér á næsta geðsjúkrahús. Við byrjum eins og alltaf. „Hvernig hefurðu það, Violet?“ „Fínt, en þú?“ Ég sit á höndunum á mér. „Ég hef það fínt. Tölum um þig. Mig langar að vita hvernig þér líður.“ „Ágætlega.“ Þótt hún hafi ekki minnst á þetta þýðir það ekki að hún viti ekki af þessu. Hún spyr nánast aldrei beint að neinu. „Hvernig sefurðu?“ Martraðirnar hófust mánuði eftir slysið. Hún spyr um þær í hvert sinn sem ég hitti hana því ég gerði þau mistök að segja mömmu og mamma sagði henni. Þetta er helsta ástæðan fyrir því að ég er hér og fyrir því að ég er hætt að segja mömmu nokkuð. „Ég sef ágætlega.“ Eitt má frú Kresney eiga og það er að hún er alltaf, alltaf með bros á vör, sama hvað. Ég kann vel að meta það. „Einhverjir slæmir draumar?“ „Nei.“ Fyrst skrifaði ég þá niður en ekki lengur. Ég man hvert smáatriði. Eins og þann sem mig dreymdi fyrir fjórum vikum þar sem ég var bókstaflega að bráðna. Í draumnum sagði pabbi: „Þú ert búin, Violet. Þú ert komin að


endimörkum. Öll höfum við einhver og þín eru núna.“ En ég vil það ekki. Ég fylgdist með fótunum á mér breytast í polla og hverfa. Næst voru það hendurnar. Það var ekkert sárt og ég man eftir að hafa hugsað: Mér ætti að standa á sama því það er enginn sársauki. Ég líð bara burt. En mér stóð ekki á sama um að útlim fyrir útlim yrði ég smátt og smátt ósýnileg áður en ég næði að vakna. Frú Kresney hagræðir sér í stólnum, brosið fast á andlitinu. Ég velti fyrir mér hvort hún brosi í svefni. „Tölum um framhaldsnám.“ Á sama tíma í fyrra hefði ég elskað að tala um framhaldsnám. Við Eleanor gerðum það stundum þegar mamma og pabbi voru farin að sofa. Við sátum úti ef það var nógu hlýtt, inni ef það var of kalt. Við ímynduðum okkur staðina sem við færum á og fólkið sem við myndum hitta, langt í burtu frá Bartlett, Indiana, íbúafjöldi 14983, þar sem okkur leið eins og geimverum frá fjarlægri plánetu. „Þú ert búin að senda umsóknir til UCLA, Stanford, Berkeley, Háskólans í Flórída, Háskólans í Buenos Aires, Norðurkarabíska háskólans og Háskólans í Singapúr. Þetta er mjög fjölbreyttur listi en hvað varð um háskólann í New York?“ Frá því sumarið fyrir sjöunda bekk hefur mig dreymt um að komast í ritlistarnámið í NYU, þökk sé heimsókn til New York með mömmu, sem er háskólaprófessor og rithöfundur. Hún vann lokaverkefnið sitt við NYU og við fjölskyldan vorum í borginni í þrjár vikur og hittum fyrrverandi kennara hennar og bekkjarfélaga; skáldsagnahöfunda, leikritaskáld, handritaskáld, ljóðskáld. Ég hafði ætlað mér að sækja um að fá forinngöngu í október. En þá varð slysið og ég skipti um skoðun. „Ég var of sein að skila umsókn.“ Skilafrestur fyrir umsóknir hafði runnið út fyrir sléttri viku. Ég fyllti út umsóknina, skrifaði meira að segja ritgerðina, en sendi ekki. „Tölum um skrifin. Tölum um vefsíðuna.“ Hún á við EleanorandViolet.com. Við Eleanor settum hana upp eftir að við fluttum til Indiana. Okkur langaði að gera veftímarit með tveimur (mjög) ólíkum sjónarhornum á tísku, útlit, stráka, bækur, lífið. Í fyrra


minntist Gemma Sterling, vinkona Eleanor (aðalstjarnan í vefþáttunum Rant), á síðuna í viðtali og fjöldi fylgjenda þrefaldaðist. Ég hef ekki snert síðuna síðan Eleanor dó, til hvers? Þetta var síða um systur. Fyrir utan að orðin mín dóu á sama augnabliki og við ruddumst gegnum vegriðið. „Mig langar ekki að tala um vefsíðuna.“ „Mér skilst að mamma þín sé rithöfundur. Hún hlýtur að geta gefið góð ráð.“ „Jessamyn West sagði: „Skáldskapur er svo erfiður að rithöfundar hafa þegar upplifað sitt helvíti á jörðu og munu því ekki hljóta frekari refsingu.““ Við þetta birtir yfir henni. „Finnst þér að það sé verið að refsa þér?“ Hún er að tala um slysið. Eða kannski á hún við veruna hérna á þessari skrifstofu, í þessum skóla, þessum bæ. „Nei.“ Finnst mér að það ætti að refsa mér? Já. Hvaða aðra ástæðu ætti ég að hafa fyrir því að klippa á mig topp? „Finnst þér þú bera ábyrgð á því sem gerðist?“ Ég toga í toppinn. Hann er skakkur. „Nei.“ Hún hallar sér aftur. Brosið sígur örlítið. Við vitum báðar að ég er að ljúga. Hvað ætli hún segði ef hún vissi að fyrir klukkutíma var ég töluð niður af syllu klukkuturnsins? Ég er orðin nokkuð viss um að hún veit það ekki. „Hefurðu keyrt eitthvað?“ „Nei.“ „Hefurðu farið upp í bíl með foreldrum þínum?“ „Nei.“ „En þau langar til þess að þú gerir það.“ Þetta er ekki spurning. Hún segir þetta eins og hún hafi rætt við annað þeirra eða bæði, sem hún hefur örugglega gert. „Ég er ekki tilbúin.“ Þetta eru töfraorðin þrjú. Ég hef komist að því að þau virka á nánast hvað sem er. Hún hallar sér fram. „Hefurðu spáð í að fara aftur á klappstýruæfingar?“ „Nei.“


„Nemendafélagið?“ „Nei.“ „Spilarðu enn á flautu í skólahljómsveitinni?“ „Ég er á aftasta púlti.“ Það hefur ekki breyst síðan slysið varð. Ég hef alltaf verið á aftasta púlti af því ég er ekkert sérstaklega góður þverflautuleikari. Hún hallar sér aftur. Eitt augnablik held ég að hún hafi gefist upp. Svo segir hún: „Ég hef áhyggjur af framförum þínum, Violet. Satt að segja ættirðu að vera komin lengra en þú ert. Þú getur ekki forðast bíla að eilífu, sérstaklega ekki núna um miðjan vetur. Ekki leyfa þér að staðna. Þú verður að muna að þú lifðir af og það þýðir …“ Ég mun aldrei komast að því hvað það þýðir því að um leið og ég heyri „lifðir af“ stend ég upp og geng út. Á leiðinni í tíma. Á ganginum. Að minnsta kosti fimmtán manns – suma þekki ég, aðra ekki, enn aðrir hafa ekki talað við mig svo mánuðum skiptir – stoppa mig á leiðinni í tíma til að segja mér hvað ég hafi verið hugrökk að koma í veg fyrir að Theodore Finch fremdi sjálfsmorð. Ein af stelpunum á skólablaðinu vill taka við mig viðtal. Theodore Finch er allra versti kosturinn af þeim sem ég hefði mögulega getað „bjargað“ því hann er goðsögn í skólanum. Ég þekki hann ekki vel en ég þekki til hans. Allir þekkja til hans. Sumir þola hann ekki af því þeim finnst hann skrítinn og hann lendir í slagsmálum og lætur reka sig úr skólanum og gerir það sem honum sýnist. Sumir dýrka hann af því hann er skrítinn og hann lendir í slagsmálum og lætur reka sig úr skólanum og gerir það sem honum sýnist. Hann spilar á gítar í fimm eða sex hljómsveitum og gaf út plötu í fyrra. En hann er frekar … öfgakenndur. Hann mætti til dæmis í skólann rauðmálaður frá toppi til táar og það var ekki einu sinni þemavika. Hann sagði einhverjum að hann væri að mótmæla kynþáttafordómum og öðrum að hann væri að mótmæla kjötáti. Á fyrsta ári mætti hann heilan mánuð með skikkju, braut kennaratöflu í tvennt með skrifborði og stal öllum krufningarfroskunum úr


náttúrufræðistofunni og hélt athöfn áður en hann jarðaði þá á íþróttavellinum. Hin mikla Anna Faris sagði einu sinni að besta leiðin til að lifa af menntaskóla væri að „láta lítið fyrir sér fara“. Finch gerir akkúrat öfugt við það. Ég mæti fimm mínútum of seint í rússneskar bókmenntir þar sem frú Mahone og hárkollan hennar setja okkur fyrir tíu síðna ritgerð um Karamazov-bræðurna. Allir stynja nema ég því þrátt fyrir viðleitni Kresney er ég afsökuð, vegna sérstakra aðstæðna. Ég hlusta ekki einu sinni þegar hún útlistar hvað hún vill, toga bara í spotta á pilsinu. Ég er með höfuðverk. Líklega út af gleraugunum. Eleanor var með verri sjón en ég. Ég tek gleraugun af mér og legg þau á borðið. Þau voru töff á henni. Þau eru ljót á mér. Passa sérstaklega illa við toppinn. En ef ég er nógu lengi með gleraugun líkist ég henni kannski. Sé það sem hún sá. Get verið við báðar á sama tíma svo enginn þurfi að sakna hennar, allra síst ég. Sumir dagar eru góðir, aðrir slæmir. Ég fæ næstum samviskubit yfir því að þeir skuli ekki allir vera slæmir. Eitthvað kemur að mér óvarri – sjónvarpsþáttur, fyndinn brandari frá pabba, athugasemd í tíma – og ég hlæ eins og ekkert hafi komið fyrir. Er venjuleg, hvað svo sem það þýðir. Suma morgna vakna ég og syng meðan ég hef mig til. Eða ég hækka í tónlistinni og dansa. Flesta daga geng ég í skólann. Stundum fer ég á hjólinu og þá blekkir hugurinn mig öðru hverju og mér finnst ég vera venjuleg stelpa úti að hjóla. Emily Ward potar í bakið á mér og réttir mér miða. Þetta er gamaldags miði, rifinn út úr stílabók, af því frú Mahone tekur af okkur símana við upphaf hvers tíma. Er satt að þú hafir komið í veg fyrir að Finch dræpi sig? xRyan. Það er bara einn Ryan í stofunni – sumir halda því fram að það sé bara einn Ryan í öllum skólanum, jafnvel í heiminum – og það er Ryan Cross. Ég lít upp og beint í augun á honum, tveimur röðum frá. Hann er of myndarlegur. Breiðar axlir, gullbrúnt hár, græn augu og nógu mikið af freknum til að auðvelt sé að nálgast hann. Hann var kærasti minn þar til í desember en núna erum við í pásu.


Ég læt miðann bíða á borðinu í fimm mínútur áður en ég svara. Skrifa svo: Ég var bara þarna fyrir tilviljun. xV. Innan við mínútu síðar fæ ég miðann aftur en í þetta sinn opna ég hann ekki. Ég velti fyrir mér hversu margar stelpur yrðu himinlifandi yfir miða frá Ryan Cross. Violet Markey síðasta sumars hefði verið ein þeirra. Þegar bjallan hringir hinkra ég. Ryan dokar við til að sjá hvað ég ætla að gera en þegar ég sit bara kyrr sækir hann símann sinn og fer. „Já, Violet?“ segir kennarinn. Áður voru tíu blaðsíður ekkert mál. Kennarinn bað um tíu og ég skrifaði tuttugu. Ef hann vildi tuttugu skilaði ég inn þrjátíu. Ég var best í því að skrifa, betri en í að vera dóttir eða kærasta eða systir. Að skrifa var ég. Núna er það eitt af því sem ég get ekki gert. Ég þarf nánast ekki að segja neitt, ekki einu sinni „ég er ekki tilbúin“. Þetta er í hinum óskrifuðu reglum lífsins, undir: Hvernig á að koma fram við nemendur sem missa ástvin og eiga enn erfitt níu mánuðum síðar. Frú Mahone andvarpar og réttir mér símann. „Skilaðu mér blaðsíðu eða efnisgrein, Violet. Gerðu bara þitt besta.“ Sérstakar aðstæður koma til bjargar. Ryan bíður fyrir utan kennslustofuna. Ég sé hvernig hann reynir að átta sig á þessari þraut svo hann geti leyst hana og breytt mér aftur í skemmtilegu kærustuna. Hann segir: „Þú ert virkilega sæt í dag.“ Hann er nógu almennilegur til að stara ekki á hárið á mér. „Takk.“ Yfir öxlina á Ryan sé ég Theodore Finch spígspora hjá. Hann kinkar til mín kolli eins og hann viti eitthvað sem ég veit ekki og heldur áfram.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.