Hjólhesturinn 22. árg. 1. tbl. mars 2013

Page 1

FJALLAHJÓLAKLÚBBURINN Hjólhesturinn, 1. tölublað 22. árg. mars 2013 - Frítt

Hjólaráðstefnur Hagsmunabaráttan Tweed Ride skrúðreið um Reykjavík Pistlar og ferðasögur: Færeyjar, Þýskaland, Vestfirðir og Vesturland Reiðhjólið sem samgöngutæki - reynslusögur


Leiðarinn

Páll Guðjónsson

Forsíðumyndin var tekin síðastliðið sumar þegar stór hópur hjólaði prúðbúinn um borgina og sýndi þar og sannaði að hjólreiðar eru fyrir alla. Það er Fjallahjólaklúbburinn líka þó hann sé enn kenndur við þann fararskjóta sem best hentar í ferðalög um óbyggðir Íslands. Hjól félagsmanna eru jafn mismunandi og þeir eru margir svo enginn þarf að vera feiminn við að kíkja í heimsókn í klúbbhúsið eða skella sér í ferðirnar sem kynntar eru hér fyrir neðan. Fæst erum við að keppa né klæða okkur sérstaklega til að hjóla milli staða, það er lítil þörf á því. Ef maður

fer á sínum hraða kallar þetta hvorki á svita né tár heldur léttir hjólaferðin lund og örvar líkama og sál. Við höfum tekið saman ítarlegan fróðleik fyrir nýliða sem má bæði lesa á vef klúbbsins og á hjólreiðar.is. Þar eru aðgengilegar leið­ beiningar um hvernig best er að bera sig að í umferðinni, kveðnar niður þær mýtur sem fæla fólk frá því að hjóla og taldir upp ótal kostir hjólreiða. Hjólreiðar er einn öruggasti fararmáti sem völ er á og sá eini sem lengir lífið ef hann er notaður reglulega. Stígum á sveif með lífinu.

Þjálfun í samgönguhjólreiðum Fram að maí verður haldið áfram með hjólreiðaferðir frá Hlemmi á laugar­d ags­ morgnum. Að þeim standa Landssamtök hjólreiðamanna og Hjólafærni á Íslandi. Flesta laugardaga leiðir Árni Davíðsson, hjóla­færni­ kennari og formaður LHM, hópinn. Vikulegar upplýsingar birtast á Facebook undir hópnum Samgönguhjólreiðar. Mæting er milli 10:00 og 10:15 og er hjólað af stað kl. 10:15. Hjólaðar eru mis­munandi leiðir um borgina og höfuð­borgar­svæðið eftir rólegum götum í 1-2 tíma. Þeir sem vilja geta endað ferðina á kaffihúsi.

Þessar ferðir eru ekki ósvipaðar þriðju­ dags­­k völdferðum Fjallahjóla­k lúbbsins á sumrin en áherslan er hér á samgöngu­hjól­ reiðar í borginni og mikið lagt upp úr spjalli og rólegri ferð. Þriðjudagskvöldferðir ÍFHK Fyrsta ferðin verður farin 1. maí og síðan vikulega í allt sumar. Ferðirnar eru fjölskylduvænar, henta öllum og allir eru velkomnir. Hjóluð verður hæfilega löng kvöldferð um borgina og nágrenni. Mynd úr einni ferðinni 2012 - Hrönn

2


Klúbbhúsið Brekkustíg 2 Opið hús öll fimmtudagskvöld frá kl. 20, alltaf eitthvað í gangi. Viðgerðaraðstaða á neðri hæðinni, kaffi og spjall uppi. Fylgist með dagskránni á vef klúbbsins og skráið ykkur á póstlistan til að fá tilkynningar um viðburði sem oft eru skipulagðir með stuttum fyrirvara því við viljum hafa gaman af lífinu og skipuleggjum okkur ekki um of. Allir velkomnir, félagsmenn og aðrir.

Hjólhesturinn, fréttabréf ÍFHK 1. tölublað 22. árgangur, mars 2013 Útgefandi: Íslenski fjallahjólaklúbburinn. Pósthólf 1181. 121 Reykjavík. Klúbbhúsið, Brekkustíg 2, 101 Reykjavík. Netfang ifhk@fjallahjolaklubburinn.is Heimasíða: fjallahjolaklubburinn.is FB: facebook.com/fjallahjolaklubburinn Sími/Fax: 562-0099. Ábyrgðarmaður, ritstjórn og umbrot: Páll Guðjónsson. Próförk: Áslaug Ólafsdóttir Myndir flestar frá greinahöfundum. Forsíða, miðopna og fl.: Páll Guðjónsson Athugið: Skoðanir greina­höf­unda eru þeirra eigin og endurspegla ekki endilega skoðanir stjórnar eða annarra félaga Íslenska fjallahjólaklúbbsins

Afslættir til félagsmanna Allar helstu hjólaverslanir veita félags­mönnum ÍFHK veglegan afslátt gegn fram­vísun félags­ skírteinis og einnig tugir annarra aðila með útivistarvörur, ljósmynda­vörur, rafvörur, tónlist, málningu og m.fl. Skoðið listann á vef klúbbsins: fjallahjolaklubburinn.is Markmið félagsins er að auka notkun reiðhjóla og vinna að bættri aðstöðu hjólreiða­f ólks til samgangna þó við störfum undir þessu gamalgróna nafni. Náin samvinna er við Lands­samtök hjólreiðamanna en allir félagar ÍFHK, Hjólreiðafélagi Reykjavíkur og Hjóla­ mönnum eru jafnframt í LHM.

© 2013 Íslenski fjallahjólaklúbburinn. Vinsamlega getið um uppruna efnis ef þið vitnið í það eða endurbirtið efni.

Félagsgjaldið er aðeins 2000 kr. 3000 kr. fyrir fjölskyldur og 1000 kr. fyrir yngri en 18 ára. Það er auðvelt að ganga í klúbbinn. Kíkið á vefinn okkar, fyllið út formið og sendið okkur staðfestingu á borgun úr heimabankanum. 33


Ferðalög Fjallahjólaklúbbsins 2013 Ferðanefnd

Það verða margar spennandi ferðir á dagskránni 2013, bæði nýjar og gamlar. Ferðirnar verða auglýstar nánar á vef og póstlista ÍFHK þegar nær dregur ásamt öðru í fjölbreittri starfsemi klúbbsins.

14-16 júní. Snæfellsnes norðanvert Hjólaðar verða tvær dagleiðir, um Berserkjahraun og Vatnaleiðin, gamla og nýja. Gist á tjaldsvæðinu við Stykkishólm. Farið í sund eftir átökin á laugardegi.

18-19 maí: Eurovision - Nesjavallaferð Þessi rótgróna ferð verður endurvakin, nema nú er hjólað niður að Úlfljótsvatni á laugardegi, 50 km leið frá Reykjavík, Nesjavallaleið, upp að Henglinum, niður að Þingvallavatni og að Úlfljótsvatni, þar sem gist verður í bústöðum með heitum potti. Hjóluð sama leið til baka á sunnudeginum.

12-14 júlí: Kerlingafjöll - Setur Helgarferð með trússi. Mjög krefjandi fjallahjólaferð. Farið á föstudagskvöldi upp í Gíslaskála í Svartárbotnum á Kili. Hjólað fyrri daginn frá Gíslaskála upp í Kerlingafjöll. Þaðan norður fyrir Kerlingafjöll að skálanum Setur undir Hofsjökli um 45 km leið. Seinni daginn hjólað niður með Þjórsá í Gljúfurleit langleiðina niður í Hólaskóg, allt að 90km. Falleg, mjög krefjandi hjólaleið um sanda, hraun, gróðurvinjar og árvöð.

25 maí: Hafnarfjörður - óbyggðir Dagsferð. Hjólað verður frá Sundhöll Hafnarfjarðar eitthvað upp fyrir bæinn, að Hvaleyrarvatni og skoðaðir fáfarnir slóðar. Lengd ferðar fer eftir veðri og vindum og verður nokkuð byrjendavæn, búast má við allt að 50 km, 3-4 tímum. Svo verður endað í heitu pottunum í Sundhöll Hafnarfjarðar við Herjólfsgötu.

26-28 júlí: Þakgil og Þjórsárdalur Ekið til Víkur, þaðan sem ferðin hefst frá tjaldsvæðinu, rangsælis 40 km hring upp af bænum. Áð í Þakgili, síðan hjólaður stuttur spotti eftir árfarvegi Kerlingardalsár, landslagið er ákaflega fallegt á þessum slóðum, eins og bakgarðurinn á Þórsmörk. Gist á vel búnu tjaldsvæði í Vík. Næsta dag verður hjólað í Þjórsárdalnum, 20-40 km leið, fer eftir veðri, vindum og ástandi ferðalanga, hvaða dagleið verður fyrir valinu, en ekki ólíklegt að kíkt verði í Gjána eða hjólað í gegn um Þjórsárdalsskóg.

31.maí - 2 júní: Skorradalur Helgarferð. Hjólað í kring um Skorra­ dalsvatnið á laugardegi, gisting og nánari útfærsla ákveðin síðar. 40 km hringur, nokkuð auðveld hjólaleið, en á smá kafla þarf að leiða hjólin yfir grýttan mel. Þessa leið má finna í Hjólabók Ómars Smára, Vesturland.

4


11 ágúst: Uxahryggir - Dagsferð Farið verður á bílum að þjónustu­ miðstöðinni við Þingvallavatn. Þaðan verða fólk og reiðhjól trússuð upp eftir Uxahryggjavegi, þar verður hjólað fjarri almannaleiðum, og svo hjólað niður að þjónustumiðstöðinni og snæddur ís áður en fólk fer aftur í bæinn. 23-24 ágúst: Landmannalaugar - Hella Vinsælasta hjólaferðin okkar undanfarin ár. Endanleg útfærsla þetta árið liggur ekki fyrir, kannski verður farið uppeftir á föstudagskveldi og hjólað á laugardegi niður í Dalakofann, Krátatindsleið eða einhver önnur leið hjóluð að þessu sinni. Frá Dalakofa er svo hjólað niður að Hellu, skellt sér í sund og að því loknu keyrt í bæinn. 20 - 22 september: Þórsmörk - haustlitaferð. Hjólað inn í Bása og gist þar í skála Útivistar, farangur verður trússaður inneftir. Myndir : Páll Guðjónsson, Hrönn Harðardóttir og Jón Örn Bergsson.

5


Fréttapunktar af vettvangi LHM LHM hlýtur samgönguviðurkenningu Landssamtök hjólreiðamanna, Mannvit og Alta hlutu samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar sem veitt er í tengslum við evrópsku samgönguvikuna sem haldin er 16. – 22. september ár hvert. Dómnefndin byggir val sitt á árangri og aðgerðum sem m.a. draga úr umferð bíla og einfalda fólki að nýta sér virka ferðamáta m.a. hjóla og ganga. Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) eru heiðruð fyrir virka þátttöku og áhrif í að efla hjólreiðar á Íslandi. Samtökin hafa með ákaflega uppbyggilegum hætti unnið með Reykjavíkurborg. Nánar um val dómnefndar: „Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) hafa aðstoðað og unnið með Reykjavíkurborg í hjólreiðamálum í nokkrum verkefnum í um áratug m.a. við gerð Hjólreiðaáætlunar og hönnun hjóla­leiða. Í gegnum tíðina hefur LHM og aðildar­félög þess lagt fram mikla vinnu vegna samgöngu­ viku. LHM hafa fengið erlenda sérfræðinga til að miðla sýn og breiða út þekkingu frá löndum sem eru lengra komin en Íslendingar á einhverju sviði hjólreiða. Samtökin halda úti góðri vefsíðu og hafa tekið virkan þátt í opinberri umræðu um samgöngumál.“ Páll Guðjónsson

verið bent á af hálfu þeirra í umsögnum og á fundum með ríkisvaldinu. Skattlausar samgöngugreiðslur fyrir vistvæna fararmáta. Breytingar á lögum um tekjuskatt heimila nú launagreiðanda til að greiða starfs­­manni skatt­­­­l ausar samgöngugreiðslur fyrir að nýta sér óvélknúnar vistvænar sam­­göngur eða almenningssamgöngur til og frá vinnu. Skilyrði er að gerður sé samningur milli launa­­­­­g reiðanda og starfsmanns. Það er sam­ göngu­­samningur eins og þekkist nú í nokkuð mörgum fyrirtækjum. Upphæð sam­g öngu­­ greiðslunnar getur verið allt að 7.000 kr. á mánuði eins og fram kemur í skattmati ríkis­ skattstjóra fyrir tekjur manna árið 2013. Reiðhjól tollfrjáls frá 1. mars 2013 Breyting var gerð á tollalögum sem fellir niður tolla á reiðhjólum frá og með 1. mars 2013 en 10% tollur hefur verið á reiðhjólum frá löndum utan EES. Hjálmar og ljós á reiðhjól bera engan toll en áfram er 10% tollur á varahlutum og íhlutum á hjól eins og t.d. dekkjum, slöngum, hnökkum, teinum, gjörðum, gírum, bremsum o.s.frv. LHM mun áfram vinna að því að felldir verði niður tollar á þessum hlutum. Meðal annars er LHM aðili að vinnuhóp um áratug aðgerða í umferðaöryggismálum á vegum innanríkisráðuneytisins og þar er unnið að tillögum að niðurfellingu tolla á öryggisbúnaði eins og t.d. bremsum. -Árni Davíðsson

Skattar og tollar Alþingi samþykkti 28. desember s.l. breytingar á lögum um tvö mál sem lengi hafa verið baráttumál samtakanna og hefur ítrekað

6


Þrjár hjólaráðstefnur á tveim árum Hjólað til framtíðar var yfirskrift þriðju ráðstefnunnar um málefni hjólandi vegfarenda á síðustu tveim árum. Áherslan var á það sem efst ber á baugi í heimi hjólavísindanna og reynslu þeirra sem hafa eflt hjólreiðar í sínu nærumhverfi. Tækifæri í hjólaferðamennsku á Ísland, hét málþing haldið var í febrúar 2012. Það var liður í verkefninu Hjólaleiðir á Íslandi og fjallaði um tækifærin sem fólgin eru í hjólaferðamennsku á Íslandi, hver staðan er og hvað við þurfum að gera til að geta nýtt þessi tækifæri. Undirbúningsvinna er þegar hafin fyrir næstu hjólaráðstefnu á Samgöngu­viku næsta september, þar verður fjallað um rétt barna til hjólreiða. Það má hlusta á alla fyrirlestrana og skoða glærurnar á vef Landssamtaka hjólreiða­manna lhm.is svo við fjöllum ekki ýtarlega um þær í þessu blaði en endum á því að vitna í loka erindi ráðstefnunnar um rannsóknir þar sem Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík sagði eftirfarandi m.a.: Umræðurnar sem hér eru að eiga sér stað eru gríðarlega mikilvægur drifkraftur í því að koma hlutum áfram. Tregðulögmál Newtons á ekki síður við í mannlegu samfélagi heldur um efnisheiminn. Að svo fremi sem enginn kraftur verki á hegðun fólks þá heldur hún áfram óbreyttri stefnu. Því að hluti af því sem við erum að fjalla um í dag er hvernig þessi umræða getur fengið fólk til að breyta sinni hegðun og skoða nýja valkosti. En sem fulltrúi akademíska samfélagsins langar mig kannski líka til að taka undir þessi sjónarmið sem hafa komið hér fram varðandi þörf á rannsóknum. Því það að breyta sam­ göngu­máta og eiga við alla þá þætti sem þar koma að, mannlega þáttinn, umhverfisþáttinn, tækni­þáttinn, skipulagsþáttinn, allt þetta og það þarf líka að líta til þess að ná utan um heildar­ myndina. Og til þess eru vísindalegar rannsóknir einstaklega vel til fallnar.

Þannig að það að skoða spurningar eins og með ímyndina, hvað er það sem fær fólk til að ákveða eitt eða annað. Hvernig tengist það við þá hvata sem hægt er að setja fram til þess að ákvarðanir séu teknar með sam­félagsleg markmið og samræmist við þau? Þannig að það eru ýmsar spurningar sem eru áleitnar og ég vona að þessar rannsóknir sem þegar hafa komið fram og þær spurningar sem vakna í fram­haldi af því hvetji til þess að við beitum í enn ríkari mæli vísindalegum vinnubrögðum til að komast að niðurstöðum um um alla þá þætti sem tengjast hjólreiðum. Því umræðan eru jú mjög þörf og hún er hluti af því að koma hugsunum af stað. Það er gott að byggja á vísindalegri þekkingu. Og það sem er einn af kostunum við vísindalega þekkingu er að niðurstaðan brýtur oft gegn því sem er viðhöfð venja og þá er gott að standa traustum fótum þegar maður heldur því fram. Páll Guðjónsson Aðild að LHM LHM hefur frá stofnun unnið mikið starf til eflingar hjólreiða ásamt öðrum hjól­r eiðafélögum. Við viljum gjarnan fá áhugasama einstaklinga og félög til liðs við okkur til að efla hjólreiðar á Íslandi. Félög og einstaklingar geta sótt um aðild að samtökunum með því að senda bréf á póst­fang samtakanna eða með tölvupósti á lhm@lhm.is. Einstaklingar geta einnig fylla út umsóknarform frá vef LHM. Nánari upp­ lýsingar eru á vef samtakanna www.LHM.is.. Árni Davíðsson 7


Rannsókn og kvenna hjólahvatning í Reykjavík;

Fröken Reykjavík hjólar Sesselja Traustadóttir

Samgönguhjólreiðar nefnist fyrirlestur sem fluttur verður á nokkrum völdum kvenna­ vinnu­stöðum borgarinnar og einnig verður á dagskrá nokkurra valinna leik- og grunnskóla borgarinnar í vor ástands­skoðun reið­hjóla með Dr. Bæk og leiðsögn í hjólfærni á götum úti. Ástæðan? Samþykkt Borgarráðs frá 8. mars s.l. þegar ferðavenjukannanir í borginni voru kynntar og í ljós kom mikill munur milli kynja á meðal þeirra sem hjóla árið um kring; 17% karlmenn en aðeins 8% konur. Þar sem þetta bar við á Alþjóðadegi kvenna, var ákveðið að reyna markvisst að breyta þessum kynjamun. Borgin ákvað að einbeita sér að kvenna­ vinnu­stöðum borgarinnar og leitaði eftir því við Hjólafærni á Íslandi að móta efni sem gæti haft áhrif á virkar samgöngur kvenna; dregið úr notkun einkabílsins og hvatt konur til þess að hjóla meira í og úr vinnu. Að auki ætlar borgin að leggja sig fram um að bæta aðstöðu við skólana með betri hjólastæðum, mögulegum búnings­herbergjum og hver veit nema boðnir verði samgöngusamningar hjá

Borginni einn góðan veðurdag? Framkvæmdastýra Hjólafærni var að leggja drög að rannsóknarverkefni í meistaranámi þegar Fröken Reykjavík hjólar varð til. Til þess að efla samlegðaráhrif hjólahvatningarinnar óskaði hún eftir að fá að sníða rannsókn sína að verkefninu og mun gera það með saman­ burðar­rannsókn. Þannig verða starfsmenn 20 leik- og grunnskóla beðnir um að svara nokkrum spurningum í febrúar 2013 og aftur í október sama ár. Í millitíðinni fær helmingur skólanna hjólahvatninguna. Með rannsókninni verður leitast við að greina hvort merkjanleg breyting á samgönguvenjum kvenna fylgi fræðslu eins og Hjólafærni hefur skipulagt umfram þær sem ekki njóta þessarar fræðslu. Ef niðurstöður lofa góðu, ættum við að horfa til framtíðar og stefna á frekara fræðslu­ starf af þeim toga sem hér er nefnt. Það er mikilvæg fjárfesting fyrir allt þéttbýli að efla almennar hjólreiðar; það kemur öllum til góða og verður líka skemmtilegt að segja frá í framtíðinni. 8


Á meðal farfuglanna: Dr. Bæk sem vorboðinn ljúfi Í slopp með rannsóknarspjald, skrúfjárn í annarri og pumpuna í hinni, hefur Dr. Bæk birst meðal Íslendinga frá því á vordögum 2008. Hugmyndin var fengin að láni frá vinum vorum Bretum og Doktorinn fæddist á Umhverfisráðstefnu sem haldin var í Perlunni á Degi Umhverfisins þá um vorið. Frá þeim tíma hefur Dr. Bæk verið vinsæll á vinnustöðum þar sem hann skoðar hjól starfsmanna, pumpar og smyr og ráðleggur hjól­r eiðamönnum varðandi gott ástand reið­hjóla. Doktorinn vottar ástand hjólsins og smellir að lokum límmiða á stellið sem innsiglar skoðunina. Dr. Bæk er einnig eftirsóttur á vorhátíðum skóla, fyrirtækja og stofnana. Þeir sem sinna starfi Doktorsins eru nokkrir laghentir félagsmenn Íslenska fjalla­ hjóla­klúbbsins. Á vordögum verður haldið náms­keið fyrir nýja Doktora, sem opið er öllum þeim sem hafa áhuga á að starfa í fram­varðasveit Dr. Bæk. Námskeiðið verður auglýst þegar nær dregur á póstlista ÍFHK. Hjólafærni á Íslandi sér um bókanir fyrir heimsóknir Dr. Bæk. Nánar má fræðast um starf Dr. Bæk og Hjólafærni á heimasíðunni www.hjolafaerni.is

Viðurkenning fyrir afburða hjólaeflingu; Hjólaskálin í Fossvogsskóla 2012 Það voru stoltir starfsmenn og nemendur Foss­vogsskóla sem komu á sviðið í Iðnó á Hjólum til framtíðar 2012 og tóku á móti viður­k enningu úr hendi Borgarstjóra; Hjólaskálin 2012 fyrir afburða eflingu hjólreiða í daglegu lífi og starfi skólans. Fossvogsskóli býr að langri hefð fyrir öflugri hjólamenningu. Það hafa skipst á skin og skúrir í gegnum árin og þrátt fyrir erfiða hjólatengda atburði, hefur aldrei verið fallið frá því að nemendur séu ævinlega velkomnir á hjóli í skólann. Í mörg ár hefur viðmið skólans verið að nemendur í 1. bekk, séu hvattir til að koma á hjóli í skólann fyrsta vorið sitt í skólanum. Hjólafærni hefur verið kennd í skólanum frá haustdögum 2009. Þannig hafa allir nemendur í 6. og 7. bekk skólans komið á lítið verkstæði sem útbúið var sérstaklega fyrir hjóla­viðgerðakennslu, og fengið þar leiðsögn í að gera við sprungið dekk og skipta um bremsu­púða. Síðan eru tveir útitímar þar sem farið er yfir ýmis konar stillingar á hjálmum og stelli, bremsum og gírum. Nokkrir vinsælir hjóla­leikir eru stundaðir þar sem lagt er upp með að sleppa höndum og líta aftur fyrir sig. Einnig er farið vel yfir samvinnu á stígum á milli annarra vegfarenda hjólandi og gangandi og að lokum er staðsetning hjólandi á umferðargötu skoðuð. Á hverju vori gerast svo nemendur í 7. bekk aðstoðarkennarar annarra starf­s­manna

Árni og Sesselja við setningu Hjólað í vinnuna. Þau mættu að sjálfsögðu með pumpur og olíu á hjólin og yfirfóru nokkur hjól. 9


gefist vel og allir notið öndvegis hreyfingar. Skóla­stjórinn átti síðan jólaskreytingu ársins 2012, þegar hann vafði jólaseríum utan um gamlan racer og hengdi upp í námsveri Foss­vogsskóla – svo að blasti við hjólandi vegfarendum um Fossvoginn. Auk þess vafði hann seríum utan um ótal gjarðir og hengdi upp í gluggana við inngang skólans. Það voru regluleg hjólajól í Fossvogsskóla 2012.

og foreldra skólans, þegar Hjóla­d agarnir eru. Þá eru 7 stöðvar opnaðar; hjálma­stöðin, hreinsistöðin, pumpu- og smur­s töðin, þrautastöðin, leikjastöðin, ferðastöðin og ástandsskoðunarstöðin hjá Dr. Bæk. Þar eru hjólin yfirfarin samkvæmt ástands­skoðunar­ vottorði Dr. Bæk og að lokum er lím­m iði settur á hvert skoðað hjól. Allir nemendur skólans eru hvattir til þess að koma með hjólin sín og það tekur tvo daga að koma öllum að á öllum stöðvum. Þetta er á meðal fastra liða á skóladagatali Fossvogsskóla. Um nokkurt skeið hefur íþróttakennari skólans staðið fyrir hjólafrímínútum að hausti. Þá eru nemendur hvattir til að koma í rösklegar hjólaferðir í löngu frímínútunum. Það hefur

Hjólað í skólann Skólahjólakeppni nemenda og starfs­ manna í framhaldsskólum á Íslandi er fastur liður í Evrópsku samgönguvikunni 16. – 22. september: Það er komið að því; framhaldsskólar á Íslandi eru farnir að keppa sín á milli í Hjólað í skólann! Fyrsta keppnin fór fram í Evrópsku samgönguvikunni 2012, smá í sniðum þar sem áhersla var lögð á að nemendur kæmu á hjóli í skólann einn dag vikunnar og hver skóli sendi inn hjólamynd. Verðlaun í boði Landlæknis voru 50.000 kr. til hjólaframkvæmda við skólann og féllu þau í hlut Framhaldsskólans á Húsavík. Bæði þótti dómnefndinni myndin skemmtileg en ekki síður gladdi það nefndina að nemendur höfðu sjálfir frumkvæði að því að loka hreinlega bílastæði skólans heilan dag! Framundan er stefnt að því að keppnin verði árviss í Evrópsku samgöngu­vikunni, sem fer fram 16. - 22. september ár hvert og á að ná 10


yfir þá 5 virku daga sem rúmast innan vikunnar. Hjólað í skólann er samstarfsverkefni Hjóla­færni á Íslandi, ÍSÍ almennings­íþrótta­ sviðs, Heilsueflandi framhaldsskóla hjá Land­ lækni, Evrópsku samgönguvikunnar/Reykja­ víkur­­b orgar, Umferðastofu og Sam­b ands íslenskra framhaldsskólanema. Fleira viljum við gjarna gera í tengslum við framtakið. SÍF langar að gefa út tímarit um hjólreiðar og eins væri gaman ef sam­ göngu­könnun sem MK hefur lagt fyrir sína nemendur sl. ár, gæti orðið hluti af ferða­ venju­­könnunum í fleiri skólum. Einn framhaldsskóli á Íslandi virðist bera höfuð og herðar yfir aðra framhaldsskóla þegar snýr að reiðhjólanotkun nemenda. Þetta er Fjölbrautaskólinn í Ármúla. Þar hefur í nokkur ár verið boðið upp á áfangann Hjólað í skólann, sem gefur einingar og virkar með svipuðum hætti og samgöngusamningar fyrir­ tækja. Þátttaka í áfanganum vex með hverju ári og er sannarlega til eftirbreytni fyrir aðra skóla. Annað ánægjulegt og ábyrgt framtak skólans sem gaman er að segja frá er að þeir sem nota bílastæðin á landinu sem skólinn hefur til umráða, greiða fyrir afnot af þeim. Þetta er dýrt landrými á besta stað í bænum og hlýtur þetta að teljast ábyrg stjórnun fyrirtækis að kalla eftir eðlilegri lóðarleigu á landi sem stofnunin er ábyrg fyrir. Fyrir neðan er verðlaunamynd keppninnar frá Húsavík, til vinstri framlag MR og til hægri framlag FNV.

11


EFLA & hjólreiðar

Sverrir Jóhannesson og Árni Árnason Fyrir nokkrum árum fór ég að velta því fyrir mér hvort mögulegt væri að gera hjól­reiðar að alvöru samgöngumáta á milli Garða­bæjar og Reykjavíkur. Í mínum huga voru það bara brjálaðir menn eða íþróttahetjur sem létu sér detta í hug að fara þessa leið á reið­hjóli, hvað þá á hverjum degi og jafnvel líka yfir vetrar­ tímann. Ég veit ekki í hvaða flokk hjól­reiða­ manna ég flokkast en núna fer ég þessa leið á reið­hjóli nánast daglega án þess að finnast ég vera brjálaður eða íþrótta­hetja. Það hefur komið mér á óvart að þetta skuli vera hægt og að maður geti jafnvel haft gaman af þessu. Ástæðan fyrir því að ég fór að stunda hjól­ reiðar í meira mæli og að nota þær sem sam­ göngumáta til og frá vinnu var að fá meiri hreyfingu og líkamlega þjálfun sem vantaði mikið upp á síðustu ár. Aðrar ástæður eins og útivist, sport, sparnaður, umhverfisvernd, hvatning á vinnustað og fleira lágu einnig að baki en fyrst og fremst var það líkamsræktin og betri heilsa sem mér finnst vera mesti ávinningurinn auk þess að hafa gaman að því að takast á við nýjar áskoranir. Leiðin á milli Ásahverfis í Garðabæ og Höfða­bakka í Reykjavík er nokkuð auðveld yfir­­ferðar og einkennist af hlykkjóttum úti­ vistar­­stígum, gangstéttum og öllum gerðum af umferðargötum. Ekki er um aðskilda hjól­ reiðarstíga á þessari leið að ræða nema að mjög litlum hluta og má segja að maður sé þátt­takandi í allri þeirri umferðar­menningu og aðstæðum sem fyrir finnast á Höfuð­ borgar­s væðinu. Auðvelt er að velja um mismunandi leiðir en stundum finnst manni

samgönguhjólreiðar ekki passa inn í þessa blöndu útivistarsvæða og almennings­­­sam­gangna því reiðhjólið virðist oft á tíðum vera fyrir annari umferð. Samt sem áður hefur þetta nú gengið upp með sérstakri tillit­semi við gangandi veg­ farendur og svo aftur mikilli ákveðni og áræðni við ökutæki á umferðargötum. Stór partur af þessu er að vera vel sýnilegur og rétt staðsettur hvar sem maður fer. Aðstæður á vinnustað skipta miklu máli og ég efast um að ég myndi nenna að hjóla þessa vegalengd dagsdaglega ef ekki væru mjög góðar aðstæður hjá EFLU verk­fræði­ stofu þar sem ég starfa. Góð sturtu­­aðstaða, búnings­herbergi, hjólageymsla og líkams­­rækt ef menn vilja taka nokkrar lyftur eftir hjóla­ túrinn er fyrir hendi og er í raun forsenda fyrir þessum ferðamáta. Einnig er mikil­vægt að vera vel útbúinn og á góðu hjóli, sérstaklega yfir vetrartímann þegar veður eru válind og vindar blása en yfir sumartímann er þetta mun minna mál og í raun ekki þörf á sérstökum búnaði nema að hafa sæmilegt reiðhjól og góðan hjálm. Ávinningur af þessu brölti mínu kom fljótlega í ljós. Eftir 4-6 vikur fann ég fyrir meiri líkamlegum styrk sem var ekki vanþörf á eftir margra ára kyrrsetu. Þetta skilaði sér inn í daglegar athafnir og útivist þar sem allt varð mun léttara og ég gat framkvæmt hluti sem mér hafði ekki dottið í hug að gera áður. Auk þess bíður þetta upp á skemmtilegan félagsskap og möguleika á töluverðum sparnaði í rekstri heimilis. -Sverrir Jóhannesson 12


Það var um sumarið 2011 sem ég byrjaði að hjóla. Hafði náttúrulega hjólað sem barn og unglingur en ekkert síðan á háskóla­ árunum. En sem ég var að taka til í bíl­ skúrnum varð á vegi mínum hjólgarmur sem ég hafði bjargað í hús fyrir dóttur mína og hafði staðið úti og ryðgað í heilan vetur. Ég pumpaði lofti í dekkin og fór að hjóla um næstu götur í Garðabænum. Þetta var ótrúlega gaman en ég fann fljótt að mig vantaði betra hjól. Nú varð ekki aftur snúið. Ég keypti mér þokka­legt hybrid hjól og fór að hjóla sífellt lengri vegalengdir og það lá beint við að hjóla í vinnuna. Ég hafði hugleitt að taka þátt í átakinu „hjólað í vinnuna“ en ekki lagt í það; að hjóla alla leið úr Garðabæ var ekki á hvers manns færi - hélt ég. En nú fór ég að hjóla þessa 7 kílómetra á hverjum degi og þetta reyndist ekki vera neitt mál – fyrir karl sem er að nálgast sextugt, hvað þá fyrir þá sem yngri eru! Síðan í júlí 2011 hef ég hjólað í vinnuna nánast á hverjum degi, einnig yfir veturinn. Alls nærri 4 þúsund kílómetra. Í fyrravetur varð smá hlé í desember og janúar þegar skaflarnir voru sem hæstir, en annars er fátt sem stoppar kallinn. Veðrið á Íslandi er ekki jafn slæmt og margur hyggur og flesta daga er bara fínt að hjóla þótt veðrið sé kannski þannig að ekki sé gaman að standa og bíða eftir strætó. Það þekkja þeir sem hjóla að hreyfingin skapar varma og vellíðan í kroppinn þegar endorfínið flæðir um heilann. En það er mikilvægt að klæða sig rétt eftir veðri og hafa hjólið í lagi og rétt útbúið og auðvitað á nagladekkjum yfir veturinn. Talandi um endorfín, þá er gaman að segja frá því að ég skrái allar mínar ferðir í Endomondo og það gera einnig nokkrir vinnufélagar mínir. Það er skemmtilegur félagsskapur sem þannig myndast og alltaf gaman að bera saman bækur sínar og hvetja hverjir aðra. Á Eflu er stór og vaxandi hópur fólks sem hjólar reglulega í vinnuna. Við njótum góðs af fínni aðstöðu á vinnustaðnum,

þar sem sturtur, búningsklefar og hjólageymsla er eins og best verður á kosið og gætu önnur fyrirtæki tekið Eflu sér til fyrirmyndar í því, eins og ýmsu öðru. Áður en ég fór að hjóla gat ég ekki gert mér í hugarlund hvernig hægt væri að komast hjólandi þessa leið milli Hæðahverfis í Garðabæ og Höfðabakka. Enda er það þannig að á þessari 7 km leið sem liggur um þrjú sveitarfélög eru engin umferðar­mann­ virki ætluð hjólreiðum. Leiðin liggur um gangstéttir, göngustíga (oft ólýsta) ætlaða til útivistar, umferðargötur- og jafnvel yfir tún: Svo háttar til á einum stað að göngustígur fer yfir götu á hellulagðri gangbraut og endar þar, bók­staflega úti á túni. Á hluta leiðarinnar (um Stekkjar­bakka) er engin leið að hjóla án þess að vera úti á umferðargötu þar sem ekið er á 60 km hraða, oft af fjarska lítilli tillitssemi við hjólreiðamanninn. Margir bílstjórar eiga eitt og annað ólært í umgengni við hjólandi vegfarendur, en það lærist eftir því sem hjól­r eiða­m önnum fjölgar í umferðinni og öðlast þar sinn rétt. Og sjálfur veit ég að sá sem hefur hjólað í umferðinni verður betri bílstjóri fyrir vikið. Því fleiri sem fara út að hjóla því betra – það mælir allt með því: Betri umferðar­menning að ógleymdri hollustunni, hreyfingunni, orkusparnaðinum, umhverfinu, hagkvæmninni... Samgönguhjólreiðar eru fremur nýtt hugtak og ekki við því að búast að samgöngu­ mannvirkin verði til á einni nóttu, en víða væri hægt að bæta aðstæður til samgönguhjólreiða verulega með litlum tilkostnaði. Það er gleði­ efni að verið er að ráðast í lagningu hjólastíga og setja fé í framkvæmdir, en ég held að menn ættu kannski að huga að forgangsröðuninni og hvar raunverulega er brýnast að bæta úr. -Árni Árnason.

13


Hjólað um Þýskaland Grétar William Guðbergsson

Það var góður og hress hópur fólks úr Hjólarækt Útivistar mættur í flugstöðina til að fljúga út til Þýskalands í sex daga hjólatúr. 12. – 19. júní 2013. Farið var í loftið um klukkan hálf átta og lent í München um klukkan eitt að staðartíma. Eftir smásnarl á flugvellinum tók við um eins og hálfs klukkustundar lestarferð til bæjarins Herrsching við Ammersee-vatn. Þar tók á móti okkur íslenskt slagveður, sem sagt rok og rigning. Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir á hótelinu var farið út að kíkja á leiguhjólin sem við áttum að nota í ferðinni. Búið var að tjalda yfir þau svo við blotnuðum sem minnst við að skoða þau og prófa. Að kvöldverði loknum fóru sumir í göngutúr um bæinn áður en gengið var til náða.

lagast þegar liði á daginnn en nokkur vindur og smá rigning var þegar við lögðum í hann. Við fórum í gegnum nokkur bæversk þorp þar sem fjósin voru við þorpsgöturnar og maður horfði á afturendann á beljunum í gegnum gluggana þegar við fórum framhjá! Við stoppuðum í bæ sem heitir Eberfing til að fá okkur að borða á týpískum bæverskum matsölustað. Konan sem þjónaði til borðs var hin hressasta og með allt á hreinu hver átti að fá hvað þegar hún bar fram matinn. Eftir vel útilátna máltíð var haldið áfram og eftir um klukkustundar ferð komum við að jarðarberjaakri þar sem fólk var við berjatínslu. Við urðum einnig að stoppa þar til að gera hið sama. Eftir jarðarberja­tínslu og át var haldið áfram til Murnau en það tók innan við klukkustund að hjóla þangað og þar gistum við næstu nótt. Þegar við vorum rétt komin inn í bæinn byrjaði að rigna. Við vorum ágætlega staðsett undir tré þannig að við blotnuðum ekki mikið en fórum samt í regn­gallana. Sem betur fer stytti fljótlega upp. Hótelið sem við gistum á er með hjólaskýli til að geyma hjólin í sem er nokkuð algengt þarna

Fyrsti hjóladagur. Miðvikudagur 13. júní. Fórum á fætur um klukkan átta og eftir morgun­mat o.þ.h. gengum við frá farangrinum á hjólunum og lögðum af stað um klukkan hálf ellefu, aðeins seinna en áætlað var í upphafi. Það var vegna þess að veðrið átti að 14


úti. Hótelið bruggar einnig sinn eigin bjór á staðnum, en það er nokkuð algengt á þessum slóðum. Það kom okkur skemmtilega á óvart þegar við fórum að borða að matseðillinn okkar var á íslensku. Þetta kvöld, sem við vorum þarna, var landsleikur milli Þýskalands og Hollands í EM í fótbolta og það var búið að setja risaskjá í portið við hótelið og þar var margt um manninn. Nokkrir úr hópnum okkar horfðu líka á. Sem betur fer, fyrir okkur, unnu Þjóðverjar. Þar sem við létum gera appelsínugula boli á okkur fyrir ferðina hélt fólk að við værum Hollendingar og þurftum við stöðugt að leiðrétta fólk í ferðinni. Appelsínugult er nefnilega litur Hollands. Nokkur okkar höfðu engan áhuga á þessum blessaða fótbolta og fóru í smá bæjarrölt áður en við fórum að sofa. Þar sem Þjóðverjarnir höfðu unnið var töluvert fjör fyrir utan hótelið eftir leikinn. En það stóð

ekki mjög lengi yfir. Við hjóluðum tæpa 46 km á tæpum sjö tímum. Dagur þrjú: Annar hjóladagur. Fimmtudagur 14. júní. Þessi dagur rann upp bjartur og fagur og sólin skein í heiði…. eða öllu heldur á fjöll og það var heitt. Eftir morgunmat og áður en við fórum út var sólarvörn sett á andlitið, handleggi og fótleggi og ekki veitti af. Þennan dag átti einn í hópnum, hann Helgi, sextíu ára afmæli og var hjólið hans skreytt hátt og lágt með blöðrum, borðum og öðru skrauti. Það kom svolítið flatt upp á hann! Við lögðum af stað rúmlega níu. Þennan dag fórum við ekki eins mikið í gegnum sveitaþorp og daginn áður heldur meira í gegnum skóga, um dali og upp í fjöll. Hæst fórum við í meira en 900 metra hæð. Það er alveg magnað að vera í

15


þessari hæð og hafa fjöll fyrir framan sig sem eru 1200–1300 metra há. Sem sagt yfir 2000 metra há fjöll. Ekki nóg með það heldur vaxa tré langt upp hlíðarnar. Til samanburðar má geta þess að það er nánast enginn gróður yfir 600 metra hæð hér á Íslandi! Í Eschenlohe var keypt kaka í tilefni afmælis Helga og voru 60 kerti sett á hana og blés hann á þau og slökkti á þeim öllum og fór létt með það. Þarna var kirkja ein skoðuð. Þetta er kaþólskt svæði þannig að kirkjurnar eru eftir því. Það er alveg merkilegt hvað þessar kaþólsku kirkjur geta verið íburðarmiklar „Hvað ætli margir hafi soltið vegna þessa“, sagði ein í hópnum. Næst lá leið okkar upp í fjallaskarð með nokkrum bröttum brekkum. En sem betur fer var sú brattasta niður í móti og þurftum við að „standa“ á bremsunum á leiðinni niður. Við borðuðum hádegisverð um klukkan tvö í Garmisch-Partenkirchen. Þar var einnig eitt hjól yfirfarið sem var með bilaða gíra. Í ljós kom að ekki var hægt að laga það þannig að það þurfti að fara á því biluðu til Mittenwald. Frá Garmisch-Partenkirchen var nokkuð löng en jöfn „þægileg“ brekka sem tók svolítið á hjá sumum. En erfiðasta brekkan var eftir, í blálokin að hótelinu. Það var aðeins einn sem náði að hjóla hana alla leið en það var erfiðisins virði. Þvílíkt hótel. Ekki aðeins að

hótelið sjálft er flott og með flottan garð, en útsýnið! Maður lifandi! Yfir bæinn og fjöllin í kring. Þarna var einnig læst hjólageymsla. Við komum frekar seint, upp úr hálf sjö, og átti maturinn að vera framreiddur korter yfir sjö, þannig að við þurftum að vera snögg í sturtu o.þ.h. fyrir matinn. Á þessum stað var einnig íslenskur matseðill og allar upplýsingar á morgunverðarhlaðborðinu einnig. Eftir matinn voru öll herbergin skoðuð, nema kannski eitt,. Ekkert þeirra var eins og flest voru með flott útsýni yfir bæinn. Í þessu eina herbergi sem við skoðuðum ekki var víst fólk sem við vissum ekki af. Við héldum að við værum ein á hótelinu. Þegar hér var komið sögu var orðið frekar áliðið og fórum við flest í háttinn. Við hjóluðum um 61,5 km á rúmlega níu og hálfum tíma. Heildarhækkun þennan dag var yfir 1.600 metrar! Dagur fjögur: Þriðji hjóladagur. Föstudagur 15. júní. Sólin skein glatt á Mittenwald þennan morgun. Eftir morgunmat o.þ.h. var lagt af stað í ferð dagsins um hálf tíu og stefnan tekin á Hinterautaldal, sem er í Austurríki. Það er nokkuð skrýtið að það er ekkert skilti eða neitt þess háttar sem segir að maður sé kominn til Austurríkis en við fengum SMS frá

16


símafyrirtækjunum um að við værum komin þangað. Á leiðinni til baka tókum við eftir smá skilti Þýskalandsmegin. Við komum við í búð í bænum Scharninitz og þar fengu sumir sér 80% Stroh. Það tók stundum aðeins í fótinn á leið inn dalinn, enda tæplega 300 metra hækkun. Á vegi okkar varð gangandi fólk, hjólandi fólk og einn gangandi sem dró kajak á eftir sér. Hann var á leið upp með ánni til að fara niður hana á bátnum. Við sáum hann síðan á ánni á leiðinni niður. Þetta átti að vera bíllaus leið en svo var nú ekki. Þó sýndist mér að bílarnir sem við sáum tengdust allir einhvers konar þjónustu á svæðinu. Auk þess var verið að laga veginn með alveg frábærum tækjum og gætu Íslendingar lært margt um hvernig á að laga malarvegi! Við enduðum ferðina við upptök árinnar Isar, þar eru uppsprettur og vatnið kemur upp úr jörðinni hér og þar. Þar var fyrir hópur kvenna með nokkur börn sem gengu þarna um hálf- eða allsnakin eins og ekkert væri sjálfsagðara. Nokkur okkar ræddu um að þetta hefði ekki gengið í US of A. Þar hefðu þær eflaust allar verið kærðar! Eftir að hafa staldrað við þarna í smátíma var farið til baka. Samkvæmt áætluninni átti að fara innar í dalinn en við ákváðum að stytta ferðina aðeins til að komast í kláf sem fer upp á bæjarfjall Mittenwalds, Karwenspize. Við vorum búin að ákveða að fara með kláfnum klukkan hálf fjögur en við vorum aðeins of mörg til að komast í kláfinn en starfsmennirnir voru svo elskulegir að fara sérferð með þau sem ekki komust í fyrri ferðina. Kláfurinn fer upp í 2244 m hæð og flestir gengu enn hærra eða upp í rúmlega 2370 m. Þau sem tóku seinni kláfinn höfðu ekki tíma til að fara þá leið, enda ekki mikill tími til stefnu þar sem við þurftum að ná síðasta kláfnum niður. En allir náðu samt töluverðri

stund þarna uppi, við myndatökur o.þ.h. áður en farið var niður. Þarna uppi gengum við á landamærum Þýskalands og Austurríkis. Sá sem sat við stjórn annars kláfsins á leiðinni niður var nokkuð hress og lá hann í einu horni kláfsins, eins og hann væri dauðadrukkinn að eigin sögn, við að taka myndir af hópnum. Þegar komið var niður fóru flest okkar niður í bæ til að skoða mannlífið áður en farið var upp á hótel. Eftir matinn fóru nokkrir aftur niður í bæ en flestir voru áfram á hótelinu og röbbuðu saman áður en farið var í háttinn. Þetta var sólríkur og heitur dagur þannig að sumir brunnu lítillega, en það var ekkert alvarlegt. Við hjóluðum rétt um 40 km á rúmlega níu og hálfum tíma þ.e. fyrir utan fjallið og bæjarferðina. Dagur fimm: Fjórði hjóladagur. Laugardagur 16. júní. Klukkan níu yfirgáfum við uppáhalds hótelið okkar í ferðinni og hófum ca 60 km ferð til Bad Töls. Sem betur fer var þetta að mestu niður í móti. Við byrjuðum á að stoppa við herstöð rétt utan við Mittenwald, fórum í gegnum þorpin Krun og Wallgau áður en við héldum inn dal sem áin Isar rennur eftir. Við komum að Sylvenstein – Stausee sem er manngert vatn eftir stíflugerð til að hafa hemil á flóðum í dalnum fyrir neðan. Við stoppuðum og áðum í hlíð við vatnið. Þar var vatnspóstur og fylltu allir vatnsbrúsana sína þar. Auk þess fóru nokkrir í fótabað. Ekki var það nú verra að geta sett hausinn undir bununa og kælt hann. Mikið var það nú gott að kæla sig aðeins. Reyndar vorum við búin að stoppa aðeins áður til að kæla á okkur tásurnar í Isar. Við héldum för okkar áfram og stoppuðum í bænum Winkel til að fá okkur ís enda orðið frekar heitt. Að ísáti loknu

17


héldum við áfram för okkar til Bad Töls, þar sem við áttum að gista. Á leiðinni þangað var fjöldi manns að sóla sig við ána og fólk og hundar að leika sér í henni og sigla niður hana. Við komum svo að hótelinu rúmlega fjögur. Það var um 32°C hiti yfir daginn og sól þannig að við vorum að stikna við matar­ borðið. Að áti loknu fór hópurinn niður í bæ, við Isar, þar sem búið var að koma upp sviði. „Stórhljómsveitin“ Rock offs spilaði þar fyrir dansi. Það voru samt ekkert margir að dansa, bara ein! Þau spiluðu samt ágætis lög, það máttu þau nú eiga. Seinna um kvöldið, þegar við vorum komin upp á hótel, kom hellidemba yfir bæinn. Eins gott að við vorum komin í hús. Við hjóluðum rúma 60 km á rúmum sjö tímum.

nokkuð greið. Við fórum að venju í gegnum nokkur sveitaþorp, skóga og ræktarlönd. Við stoppuðum á einu túni til að taka hópmynd. Þegar við komum að vatninu fórum við á mat­sölustað til að borða. Sá sem þetta skrifar hefur ekki séð eins út úr stressaðan þjón eins og á staðnum þar sem við borðuðum. Úff. Að áti loknu fórum við aðeins til baka, meðfram vatninu, að bænum Guðmundi. Hann heitir nú reyndar Gmund. Þar skiptist hópurinn. Annar hópurinn fór að rölta um tívolí sem var búið að koma upp í bænum en hinn fór að busla í vatninu. Næst á dagskrá var að skoða brugghús, bjórverksmiðju, í klaustri einu en brugghúsið var lokað þegar við komum þangað svo við fengum okkur ís og bjór sem þar var í boði. Þarna spilaði bæversk lúðrahljómsveit og var hún beðin um að spila afmælissönginn fyrir Bogga en hann kom aldrei að við töldum en svo kom í ljós að þeir eru með allt annan afmælissöng en við erum vön! Síðan skoðuðum við kirkjuna á staðnum. Þar var búið að kveikja á slatta af kertum og Boggi hélt að það hefði verið gert í tilefni afmælisins og ætlaði að blása á þau öll! Þegar við höfðum fengið nægju okkar þarna héldum við heim á hótel. Þangað komum við um klukkan hálf fjögur. Veðrið var fínt þennan dag, skýjað og hlýtt en það hékk yfir okkur eins og hann ætlaði að fara að rigna stóran hluta dagsins, en við vorum alveg búin undir það. Þegar við komum á hótelið voru þessi fínu mótorhjól í bílageymslunni þar

Dagur sex: Fimmti hjóladagur. Sunnudagur 17. júní. Það var skýjað þegar farið var á fætur. Ahhh gott. Enda nokkrir búnir að fá nóg af sólinni og hitanum daginn áður. Á meðan við borðuðum morgunmatinn létti til og sólin fór aðeins að skína en það var skýjað að hluta, þannig að það var ekki stanslaus sól. Þennan dag átti enn einn, hann Boggi, afmæli og ekki nóg með það hann og Rósa konan hans áttu brúðkaupsafmæli. Hann fékk því kúabjöllu að gjöf svo að Rósa myndi alltaf vita hvar hann væri! Við lögðum af stað klukkan níu í ferð dagsins til Tegernsee. Leiðin þangað var

18


sem við geymdum hjólin okkar. Þar af voru nokkrir Hallar, þ.e.a.s. HarleyDavidson-hjól. Eftir matinn fóru nokkur okkar í bæjarrölt og skoðuðu hluta bæjarins sem við vorum ekki búin að skoða áður en aðrir sátu og horfðu á fótboltaleik: Þýskaland – Danmörk. Líklega unnu Þjóðverjar miðað við lætin úti að leik loknum. Kannski hegðar fólk sér svona hvort sem landslið þeirra vinnur eða ekki. Við hjóluðum rúmlega 57 km á rétt rúmlega átta og hálfum tíma.

sem tók um fimmtán mínútur. Reyndar fóru sumir með leigubíl sem við tókum saman til að flytja hluta farangursins. Um leið og komið var á hótelið var farið í kalda sturtu, enda búið að vera heitt yfir daginn. Að því loknu var aðeins kíkt niður í bæ til að skoða mannlífið. Í bænum er stór gosbrunnur sem var mjög freistandi að hlaupa í gegnum, eins og sumir höfðu gert. Að þessu bæjarrölti loknu var farið á hótelið. Síðan var rokið af stað í kvöldmat sem var í garði einum skammt þar frá. Þar var búið að koma upp risaskjá í tilefni EM og þegar við komum að var verið að sýna einhvern EM-þátt sem væri ekki í frásögur færandi nema að hljómsveitin Of Monsters and Men var að spila. Eftir fínan mat sem var í boði var trítlað til baka á hótelið.

Dagur sjö: Sjötti og síðasti hjóladagur. Mánudagur 18. júní. Þegar við sátum og borðuðum morgun­ matinn komu gæjarnir á mótorhjólunum, sem var svo sem ekkert í frásögur færandi nema að einn þeirra var í Harley Davidsonbol merktum Íslandi og Reykjavík í bak og fyrir í orðsins fyllstu merkingu! Hann hafði komið hingað og ferðast um landið. Upp úr hálf níu lögðum við af stað og nú lá leiðin til München. Við stoppuðum í einni verslun til að kaupa nesti og vatn. Eftir að hafa hjólað nokkurn spöl stoppuðum við í skugga trjáa til að borða nestið sem við höfðum keypt enda orðið frekar heitt. Eftir um fimmtíu km leið komum við í úthverfi München og héldum áfram inn í borgina að aðal­ lestarstöðinni, Hauptbahnhof, þar sem við skiluðum hjólunum. Farangurinn var tekinn úr hjólatöskunum og settur í ferðatöskurnar í skyndi áður en við gengum að hótelinu,

Dagur átta: Heimferð. Þriðjudagur 19. júní. Upp úr klukkan tíu, að loknum morgun­ verði o.þ.h., röltum við á lestarstöð til að taka lest á flugvöllinn. Þó höfðu nokkur úr hópnum farið fyrr um morguninn í skoðunarferð um borgina og fóru þau beint á flugvöllinn að því loknu. Flugvélin fór í loftið rétt fyrir hálf þrjú að staðartíma og lenti hér heima um korter yfir fjögur. Þetta var mjög skemmtileg ferð, farin í samvinnu við Bændaferðir, og er fólk sem enn hefur ekki farið utan til að hjóla hvatt til að skella sér út sem fyrst. Þá er bara að hlakka til næstu ferðar! Er nokkuð mál að redda því?

19


Tweed Ride skrúðreið um Reykjavík Myndir og texti: Páll Guðjónsson

„Hjólreiðar í klassískum klæðnaði“ var yfirskrift þessarar skemmtilegu hópreiðar um Reykjavík 16. júní 2012. „Árið 2009 tóku reiðhjólaáhugamenn í London sig saman og stóðu fyrir hóp­ hjólreiðum í borginni. Þessi viðburður var þó ekki bara til að koma saman og hjóla, heldur klæddu þáttakendur sig í klassísk föt og draktir í anda breskra hefðamanna og ‑kvenna. Hjólin sem hjólað var á voru á sama hátt klassísk og virðuleg borgarhjól. 2012 var komið að Reykjavík.“ Tweed Ride Reykjavik var skipulagt af tveimum áhugamönnum um klassískan

klæðnað og hjólreiðar, Alexander Schepsky og Jóni Gunnari Tynes Ólasyni. Þeir héldu síðan áfram á sömu braut og opnuðu stuttu seinna Reiðhjólaverzlunina Berlin með sömu áherslur á klassík, glæsileika og notagildi umfram sérútbúnað fyrir keppnisfólk. Áætlað að fara í aðra skrúðreið 1. júní en fylgist með dagatalinu á vef klúbbsins og skráið ykkur á póstlistann til að fylgjast með fréttum af hjólatengdum viðburðum því við leitumst við kynna alla hjólaviðburði hvort sem þeir tengjast klúbbinum eða ekki. Fleiri myndir frá þessum degi og mörgum öðrum á hjólreiðar.is - skoðið þann vef.

20


ra fyrir

ekki ba

laf贸lk

Rei冒hj贸

Snorrabraut 56

21


Brellurnar hjóla Vestfjarðahringinn Brot úr ferðasögu Brellnanna um Vestfirði sumarið 2011 Dagur tvö: Lögðum af stað frá Flókalundi kl. 8:30 og hjóluðum sem leið lá í Fjarðarhorn. Rokið var miklu minna en í gær en þó var ansi hvasst í fjörðunum og mótvindur inn firðina en lens út firðina...það var gott. Komum í Fjarðarhorn um 14:30. Mikið svakalega var gaman að hjóla niður Kletts­ hálsinn. Brunuðum eins og enginn væri morgun­dagurinn. Í Fjarðarhorni beið okkar kaffi og smurt brauð sem hún Sædís okkar litla, sæta var búin að útbúa fyrir okkur. Við fengum vind í bakið út Kollafjörðinn og það gerði okkur lífið auðvelt. Við enduðum í Bjarkalundi kl. 20:30 þar sem við borðuðum yndislega máltíð. Kolla og Oddur tóku á móti okkur og hvað haldið þið? Við fengum þrjú hús til að gista í, uppbúin rúm og handklæði. Við erum í skýjunum!!!! Á leiðinni fengum við upphringingu eins og í gær og í þessu símtali var okkur boðið að hver og ein okkar yrði nudduð af hinni elskulegu Sollu Magg vinkonu okkar. Ja hérna hér, þetta er nú ekki einleikið. Við þáðum það auðvitað og nú liggjum við í einu húsinu að borða nammi og drekka malt og ein og ein er tekin í nudd. Á meðan skrifum við hinar þetta hér og finnst við ótrúlega fyndnar og skemmtilegar en það er líklega vegna þess

Brellurnar er hópur kvenna sem flestar búa á Patreksfirði. Nafnið, sem rímar við gellurnar, er vísun í fjallið fyrir ofan þorpið Patreksfjörð. Brellurnar skipa Björg Sæmundsdóttir, Elín Krístín Einarsdóttir, Halldóra Birna Jónsdóttir, María Ragnarsdóttir, Salóme Þorbjörg Guðmundsdóttir og Sædís Eiríksdóttir. Þær hjóluðu 640 km. Vestfjarðahringinn sumarið 2011 til styrktar Fríðu Eyrúnu Sæmundsdóttur. Aldur Brellnanna er frá 25 – 52 ára eins og er og vonandi bætast fleiri í hópinn smátt og smátt. Sumarið 2012 bættust nokkrar konur í hópinn og Snæ­fells­nes­ hringurinn var hjólaður. Fríða tók ákvörðun um að prufa að hjóla hluta Snæfellsnesshringsins og fékk lánað tvímenningshjól hjá Blindrafélaginu. Það gekk mjög vel og í kjölfarið var hún hvött til þess að eyða hluta af söfnunarfénu til að kaupa sér nýtt tvímenningshjól. Nú er svo komið að Brellurnar eru búnar að panta sér ferð til Sardiníu á Ítalíu í október 2013 og munu hjóla þar í 10 daga. Sú ferðasaga verður skrifuð niður og mynduð til varðveislu og birtingar fyrir þá sem gætu haft gaman af. Við verðum a.m.k. sex konur og fimm hjól sem förum því Fríða ætlar með tvímenningshjólið. Lesa má allar dagbókarfærslurnar á vef klúbbsins fjallahjolaklubburinn.is en hér eru nokkur semmtileg sýnishorn: 22


að við erum svo þreyttar og það er kominn svefngalsi í kellur. Við fórum sem sagt alla suðurfirðina í dag og þrjár heiðar/hálsa. Þetta voru samtals 129,45 km. Vá hvað við erum ánægðar með það! Við bjuggumst ekkert endilega við að komast alla þessa leið í dag. Dagur þrjú: Vöknuðum í sól og blíðu í Bjarka­lundi og gengum frá, fórum yfir hjólin og fengum okkur morgunmat hjá Kollu í Bjarka­lundi. Það er skemmst frá því að segja að velvildin heldur áfram. Við þurftum ekki að borga krónu fyrir allt uppihaldið í Bjarkalundi. Við urðum enn og aftur orðlausar og fórum að gráta (samt aðeins í laumi). Oddur og Árni, vertar í Bjarkalundi, voru einnig svo frábærir að keyra bílinn fyrir okkur á Hólmavík þannig að við vorum allar sex að hjóla. Þá var ferðinni heitið á Hólmavík. Þröskuld­arnir voru „pís of pæ“. Sólin skein, okkur var heitt og við vorum í svaka stuði. En þegar Sammý vaknaði hafði hún fundið til í hnénu og það ágerðist eftir því sem leið á Arnkötludalinn. Æ, æ við hringdum í lækni sem var á Hólmavík en hann vildi ekkert við hana tala og sendi hjúkrunarfræðing á stofuna til að sinna henni. Hún sinnti henni mjög vel og lét hana fá góðar töflur og vafði á henni hnéð og sagði að hún mætti ekki hjóla meira þann daginn. Sammý keyrði því bílinn það sem eftir lifði dags. Hún þurfti ekkert að borga fyrir þá þjónustu sem heilsugæslan veitti henni, alveg hreint frábært! Steingrímsfjarðarheiðin var LÖNG OG KÖLD, úff! Við stoppuðum einu sinni uppi á heiðinni og fórum inn í bíl. Við hefðum ekki haft það af að stoppa án þess að hafa íverustað, það var svo kalt. Það gekk vel niður þó að það hafi verið mikill mótvindur og hliðarvindur á köflum. Við tókum hjólin upp á bílinn í Ísafirði sem er fyrsti fjörðurinn eftir Stein­g ríms­ fjarðarheiðina. Við hjóluðum til kl. 20:00 og höfðum þá hjólað 104 km.

Í Heydal var okkur tekið sem drottningum. Við komum inn í þennan líka flotta matsal sem er gömul uppgerð hlaða og fengum æðis­legan mat og frábæra þjónustu. Þegar að því kom að gera upp, hvað haldið þið? Við þurftum ekki að borga eina einustu krónu, fengum bæði mat og gistingu fría alveg eins og í Bjarkalundi og Flókalundi. Vá, hvað fólk er frábært. Í Heydal fengum við líka góða gesti. Börnin hennar Maju, Helga Sara vinkona Svanhvítar Sjafnar og Leif Halldór Arason mættu á svæðið og slógu í gegn með svaka flottu söngatriði sem þau höfðu mallað saman í bílnum á leiðinni frá Patreksfirði. Textinn er hér fyrir neðan og við hlógum og grétum þegar þau fluttu þetta fyrir okkur, dauðþreyttu konurnar. Á morgun setjum við stefnuna á Súðavík en það er ansi langt og við sjáum bara til hvernig veðrið verður. Dagur fjögur: ... Síðan hjóluðum við í Hest­ fjörð nánast án þess að stoppa. Þetta gekk með ólíkindum vel miðað við mótvindinn sem við fengum út firðina. 115 km takk fyrir, takk! Við erum alltaf að sjá það betur og betur að Vestfirðirnir eru fallegasti staður á jarðríki! Náttúran sem við fáum beint í æð þegar við hjólum svona úti er svo ótrúlega fjöl­breytt og falleg. Fuglalífið er dýrðlegt, litlu lömbin hoppa og skoppa í kringum okkur og mömmur þeirra jarma á þau; ,,passið ykkur á þessum gulu hættum!“. Við erum búnar að sjá fullt af litlum folöldum, seli, tófu, fálka og uglu og bíðum bara eftir því að sjá glitta í ísbjörn!

23


Framfarir í stígamálum en tregða á öðrum sviðum Páll Guðjónsson

Hjólastígar eiga sér ekki langa sögu á Íslandi. Í raun má sega að sú saga sé ekki hafin því ekki eru þeir komnir í umferðarlög enn. Fyrsti eiginlegi hjólastígurinn er líklega stuttur aðskildur hjólastígur á Laugavegi sem er ágætur svo langt sem hann nær, en er ekki einu sinni á milli tveggja gatnamóta. Löngu seinna komu hjólastígar í Lönguhlíð sunnan Hringbrautar. Þeir þóttu hin mesta furðusmíð þar sem tekið var tillit til flestra annarra en hjólandi sem vildu einsleita beina og greiða leið líkt og fyrir var á akgreininni sem fór undir þetta. Enda var ekki lagt upp í þessar framkvæmdir til að að mæta þörfum hjólandi, heldur til að hægja á bifreiðum. En tímarnir breytast og mennirnir með. Vonandi var tekið mark á gagnrýninni og ákveðið að gera betur þegar Reykja­ víkurborg lét útbúa Hjólreiða­á ætlun og Hönnunarleiðbeiningar fyrir hjóla­mann­virki sem bæði hafa markað tímamót. Nú er við völd fólk sem bæði segist vilja efla hjólreiðar og er tilbúið að leggja pening í framkvæmdir. Langt er komið með að leggja aðskilinn hjólastíg meðfram úti­vistar­­stígnum frá Ægis­ síðu, gegnum Foss­vog og upp að Elliðaám. Einnig standa yfir fram­k væmdir við sér hjólastíg frá Hlemmi, eftir Suður­landsbraut

og yfir nýjar brýr sem væntanlegar eru í haust yfir Elliðaár á Geirsnefi. Ýmislegt spennandi hefur sést á teikni­ borðinu, s.s. hjólastígur sitt hvoru megin Hofs­­vallagötu og Snorrabrautar, við Sund­ lauga­­veg og víðar. Nýjust eru áform um hjóla­ stíg sitt hvoru megin Hverfisgötu sam­hliða endur­n ýjun þar. Það verður að segjast að athuga­semdum LHM við teikningarnar fer fækkandi með hverri teikningunni enda er nú unnið eftir hönnunar­leiðbeiningunum góðu og hefur LHM beint því til annarra sveitafélaga á höfuð­borgar­svæðinu að taka þær upp. Í þeim er skilgreint hvenær þörf er á að­ skildum hjólastíg, hjólarein, merkingum með hjólavísum eða ekki eins og í 30 km hverfunum, það fer eftir umferðarþunga og hraða á akbraut auk umferðar gangandi á stígum. Suðurgata norðan Hringbrautar þótti of þröng fyrir umferð í báðar áttir og var gerð að einstefnugötu. Þó var ástæðulaust að banna hjólaumferð til norðurs og því útbúin sér hjólarein og akreinin til suðurs merkt með hjólavísum til að minna bílstjóra á að þeir deila akreininni með hjólandi umferð. Svipað fyrirkomulag upp Frakkastíg er nú á teikniborðinu.

24


að Breiðási (hvítt á korti). Vega­gerðin mun leggja fjármuni í fleiri stíga eftir að sveitarfélög hafa tekið endanlega ákvörðun, samkvæmt þessari frétt RÚV.

Jafnvel ríkisvaldið/Vegagerðin sem fannst ekki í sínum verkahring að þjóna hjólandi um­f erð til skamms tíma er komin á fullt í framkvæmdir. Samkvæmt frétt RÚV 18/2/2013 ætlar Vegagerðin að setja 750 milljónir á þremur árum í gerð hjólreiðastíga á höfuð­borgar­ svæðinu og Suðurnesjum. Hún greiðir helminginn á móti sveitarfélögunum. Áætlunin hófst í fyrra en þá var byrjað á nokkrum hjólreiðastígum sem eru bleikir á kortinu fyrir ofan. Til dæmis var lagður stígur við Vesturlandsveg, bæði meðfram Grafar­holtshverfinu og svo frá Bauhaus að Mosfellsbæ. Ríflega tuttugu aðrir stígar eru á áætlun vegagerðarinnar. Stígarnir sem byrjað var á í fyrra, og er mörgum hverjum lokið, eru við Vestur­ landsveg, Suðurlandsbraut, Suður­strönd og Hafnar­fjarðar­veg til móts við Sunnu­hlíð. Á þessu ári verður haldið áfram með stíga við Vestur­­landsveg og auk þess lagðir stígar við Hafnar­­fjarðarveg nálægt Kópavogs­­g jánni, Reykja­nesbraut milli Linda og Mjóddar, frá Kaplakrika að Vífils­staða­vegi og við Bæjar­ hraun og Hvammabraut í Hafnarfirði (blátt á korti). Árið 2014 er svo gert ráð fyrir stíg frá Fjarðar­kaupum í Hafnarfirði að Engidal, meðfram Suður­b raut í sama bæ og svo meðfram Hafnar­fjarðarvegi, frá Arnarnesvegi

Hér er annað kort sem sýnir betur stíga sem Vegagerðin hefur eða mun styrkja. Í flestum tilfellum er um stíga fyrir bæði gangandi og hjólandi en ekki eiginlega hjólastíga. Neðst er svo kort frá Landslag ehf. sem sýnir að ýmsar metnaðarfullar hugmyndir að útivistarstígum eru í þróun. En þó hér sé horft á björtu hliðarnar eru ekki allir að ganga í takt til að efla hjólreiðar á Íslandi eins og sést þegar rennt er yfir stefnuog baráttumál LHM. (lhm.is/stefnumal) Má þar nefna að við mörg helstu gatnamót hefur verið komið fyrir grindum og könntum sem gera leiðin afar ógreiðfæra fyrir fólk sem hjólar með t.d. barnakerrur að ekki sé minnst á snjóruðningstæki. Framhald í næstu opnu:

25


Að kynnast landshluta Ómar Smári Kristinsson

Sumir draumar geta ræst ef heppni og vilji eru fyrir hendi. Einn af draumum mínum var að kynnast landshluta þeim sem ber nafnið Vesturland. Reyndar langar mig að kynnast landinu öllu, en Vesturland var efst á óskalistanum af eftirfarandi ástæðu: Ég er Sunnlendingur að ætt og uppruna og hef til margra ára stundað atvinnu á sunnlenska hálendinu. Nú er ég nýbúi á Vestfjörðum og hef komið mér þar vel fyrir. Líf mitt hefur að mestu farið fram á Suðurlandi og á Vestfjörðum, það eru mín heimasvæði en þar á milli liggur Vesturland. Ósjaldan hef ég farið þar í gegn og reynt eftir megni að þræða bakdyraleiðir og fá­farnari slóðir. Þannig hef ég reynt að útvíkka sjón­ deildar­hringinn og hef með því móti komið mér hjá því að aka þ j ó ð ve g n r. 1 , þar sem maður er hættulegur drag­bítur í um­ ferðinni með því einu að aka á löglegum hraða. Mikið

væri nú gaman að kynnast þessu millibilslandsvæði betur, hugsaði ég. Þá gerðust þeir ánægjulegu atburðir að ég hætti að vinna á fjöllum á sumrin, fékk hjóla­bakteríu og veitti henni útrás með því að skrifa Hjólabækur. Nú var hægt að hella sér í að þvælast um landið og skoða það – öðruvísi en með augnagotum útum bílrúður. Hjólaþörfinni svalaði ég á Vest­ fjörðum til að byrja með, og skrifaði mína fyrstu Hjólabók um þann stór­ gerða kjálka. Honum hyggst ég kynnast mun betur. Það gæfu­ríka samband er rétt að hefjast. En fyrst skyldi leggja restina af landinu undir dekk og Hjólabók númer tvö fjallaði um Vesturland. Ó, en sá munur að hafa tíma til að horfa í kringum sig. Að maður nú ekki tali um að heyra hljóð og finna margskonar lykt. Þetta var eiginlega ekki sami lands­hlutinn og sá sem ég þaut í gegnum á bílnum. Öll þau ósköp sem þar er hægt að finna ef tími er til og

26


Hjólastígar framhald: Viða eru umferðarstýrð umferðarljós sem ekki gefa hjólandi grænt ljós vegna skynjara sem ekki skynja annað en bíla þó gatnakerfið eigi augljóslega að þjóna öllum farartækjum. Fyrir Alþingi lig gur enn fr umvarp til nýrra umferðarlaga sem LHM hefur ár eftir ár gert alvarlegar athugasemdir við án þess að fá nein svör eða rökstuðning við helstu athuga­­semdirnar s.s. að ákveðin atriði verði raunverulega endurskoðuð við þessa endur­­­­s koðun umferðarlaganna. Þekking á málefnum hjólandi hefur vaxið mjög á undan­­förnum árum og full ástæða er til að ný umferðarlög endurspegli þá þekkingu en byggi ekki á gömlum úreltum gögnum. Lítið framboð er á almennilegum hjóla­ stæðum þó þau kosti lítið brot af því sem bíla­stæði kosta. Víða er einungis boðið upp á grindur þær sem í daglegu tali eru kallaðar gjarðabanar, sem hvorki styðja vel við hjólið né er hægt að læsa hjólinu með tryggum hætti. Reykja­víkurborg á þó góðan staðal um hjóla­ stæði með málmbogum sem uppfylla þau tvö skil­yrði góðra hjólastæða að styðja vel við hjólið og að hægt sé að læsa því með tryggum hætti við. Fyrir neðan má sjá falleg hjólastæði við Hótel Marina. En t.d. við Laugardalshöll er ekki að finna eitt einasta hjóla­stæði. Augljóslega myndi það þó minnka álagið á gatnakerfinu og bílastæðunum ef fólk í nágrenninu væri boðið velkomið á hjólum á viðburði þar.

réttur ferðamáti notaður. Hér kemur bein tilvitnun uppúr Hjólabókinni um Vesturland, því til sönnunar: „Það er nánast hægt að finna allt það á Vesturlandi sem einkennir íslenska náttúru og er eftirsóknarvert að upplifa: jökla, hraun og gíga, eyðisanda, heiðar, dali, gljúfur, allt frá seytlandi lækjum til stórfljóta, strendur af öllum mögulegum gerðum, sæbratta hamra, aflíðandi ása, rismikil fjöll, rennisléttar víðáttur, frjósöm landbúnaðarhéruð, þorp, bæi og býli, stöðuvötn, skóga, mýrar, móa, urðir, stórt og smátt, eiginlega flestallt sem augað girnist á þessu landi. Landshlutinn er auk þess ríkur af sögu og menningu, sem hægt er að kynnast og njóta á ýmsa vegu.“ Ég er aðeins einn maður og hjóla aðeins á einu hjóli í einu og þetta var aðeins eitt sumar (og fáeinar ferðir á öðrum árstímum). Það gefur því að skilja að þetta var ekki tæmandi athugun á landshlutanum. Reyndar gerðist það sama á Vesturlandi og á Vestfjörðum: Með því að skoða svo marga staði komst ég að því hversu marga staði aðra ég á eftir að skoða því er freistandi að trúa á fram­halds­líf. Þetta líf dugar enganveginn þeim sem langar að grandskoða landið sitt litla. Ferðalagið er rétt að hefjast. Það er eins gott að vera ekki að hugsa of mikið út fyrir landsteinana. Ljósmynd: Nína Ivanova. Höfundur í Klofningsskarði milli Fellsstrandar og Skarðsstrandar. Vestfjarðakjálkinn í fjarskanum.

27


Færeyjar

Haukur Eggertsson

Ferðalangar nýstignir á land í Þórshöfn

Síðla maímánaðar 2012 áskotnaðist okkur ákaflega ódýrt flugfar til Billund á Jótlandi. Þar sem systir mín býr í nágrenni Legóbæjarins og fjallvegir vanalega ekki opnir fyrr en löngu síðar á Íslandi, stóðumst við frúin ekki mátið að skella okkur í litla reisu, en ákváðum að taka hjólin okkar með svo við kæmumst einhvern tímann heim. Við lentum upp úr miðnætti 24. maí, og hjóluðum síðan nokkurn spöl að svokölluðu frumstæðu tjaldsvæði (primitive teltplads), þar sem tjalda má frítt í Danmörku og finna má á slóðinni naturkortet.dk. Hjóluðum við síðan í hálfan annan dag í hitabylgju um danska hjólastíga uns komið var til Hrossaness þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti í þrjár nætur. Þaðan héldum við svo norður á bóginn, klifum og hjóluðum á þrjá hæstu tinda Danmerkur á sama deginum og sjálft Himnabjargið á þeim næsta, inn á Herveginn svokallaða og síðan alla leið norður á Hjartarháls hvaðan Norræna var tekin til Færeyja á 6. degi frá Hrossanesi. Mig hafði alltaf lang að til að taka

Norrænu sem og að heimsækja Færeyjar og lét ég nú drauminn rætast. Siglt var á hálfu fjórða dægri til Færeyja og tekið land í Þórshöfn að morgni mánudagsins 4. júní. Á leiðinni er siglt meðfram suðurströnd Hjaltlands, en það undirbjó okkur ekki fyrir aðkomuna að Færeyjum, hversu stórfenglega þær rísa úr sænum. Eyjarnar eru sumar svo litlar og háar að maður skilur ekki hvernig þær geta haldið jafnvægi. Færeyjahluti þessarar reisu var að mestu leyti skipulagður í ferjunni, en þar var að finna bæklinga um ferjur, rútur og þyrlur. Eðli Færeyja er þannig að það er gjarnan bara einn vegur og botnlangar út frá honum, sem er ekki endilega það allra mest spennandi til hjólreiða og því geta aðrir samgöngumátar komið í góðar þarfir. Þórshöfn er vinalegur bær, sem hefur vaxið útfrá höfninni þannig að hann myndar einhvers konar skál utan um hana. Því er ekki alltaf skynsamlegast að fylgja styztu leið á korti þegar farið er á milli tveggja staða, því 28


Þyrlan góða að búa sig til lendingar að ef maður fer um miðjuna þarf maður að lækka sig um allt að hundrað metra. En ég hafði fengið augastað á þyrlunni og eftir að hafa skoðað elsta hluta bæjarins, Þinganes, með öllum sínum gömlu og fallegu byggingum og Skansinn og byrgt okkur upp af vistum, hringdi ég í flugfélagið og viti menn það var laust pláss út í Fugley, sem er norðvestasta eyjan, við þyrftum að vera mætt á þyrluflugvöllinn, sem er nokkuð fyrir utan Þórshöfn, eftir rúman klukkutíma. Eftir að hafa skoðað okkur um í trjágarði þeirra Færeyinga, en þeir eru líklega ennþá hrifnari af trjám en við Íslendingar, enda vaxa þau nánast hvergi nema í þessum garði, og séð kind í öðrum hverjum garði heimamanna, var haldið út á völl, en þyrluvöllurinn var bara pínulítill skúr sem stóð við lítinn malbikaðan blett og enginn á svæðinu. 15 mínútum fyrir brottför kom nokkuð geðstirður umsjónarmaður og var mjög hneykslaður á því að við létum okkur detta í hug að fara með reiðhjól í þyrluna og yfir höfuð að láta okkur detta það í hug að hjóla í Færeyjum, enda eingöngu brekkur að finna þar. Ég lét á mér skiljast að flugfélagið hafði samþykkt hjólin í ljósi þess að lítt var bókað í þyrluna og að ég hefði nú kynnst brekkum á hjólinu, enda ekki Dani. Borguðum við DKK 225 fyrir farið + 100 fyrir reiðhjólið, samtals um 7.000 íslenzkar krónur á mann, fyrir 20 mínútna þyrlutúr. Ekki eru Færeyjar tilkomuminni úr lofti en af sjó og stórkostleg strandbjörgin blöstu við okkur. Farið var yfir Austurey og millilent í Klakksvík á Borðey, þar sem farþegar komu

og fóru, uns haldið var yfir Svíney áður en lent var í bænum Hattarvík á Fugley. Hattarvík er hálfgerður eyðibær. Þarna hafa bara um sjö manns vetursetu en áður bjug gu þarna einhver hundruð manns. Mörg húsanna eru í niðurníðslu en öðrum er haldið við sem sumarhúsum brottfluttra Klakksvíkinga og Þórshafnarbúa. Þaðan héldum við 4 km langan vegaspotta sem þó tók okkur upp í um 300 m hæð áður en við renndum okkur alla leið niður í Kirkju, sem er hinn bærinn á eyjunni. Vegurinn var þó hvergi mjög brattur, sem er gott, sérstaklega þegar ferðast er með farangur, og grunaði mig að hann hefði verið hannaður af dönskum verkfræðingum sem kynnu illa við sig í halla. Í raun voru allir vegirnir sem við fórum um hannaðir á þennan hátt, þannig að þó að brekkur væru langar voru þær aldrei of brattar. Kirkja er eitthvað stærri en Hattarvík en að öðru leyti svipað fyrir henni komið. Þarna rákumst við á hóp fólks sem augljóslega var af sömu fjölskyldunni og þau einu sem höfðu vetursetu þarna, og ég gat ekki varist þeirri hugsun að fjölskyldumeðlimir gætu rakið sig saman á fleiri en einn veg. Ferjan, sem við ætluðum að taka var ókomin og þurftum við að bíða eftir henni í rúman hálftíma. Vont var í sjóinn og ferjan sveiflaðist því fram og aftur við hafnarbakkann. Þrír ferðamenn á efri árum voru um borð og einn þeirra hrasaði þegar hann steig úr ferjunni og sýndist lenda með fæturna á milli skips og bryggju sem skall í næstu andrá með látum á bakkann. Ég hélt að 29


þarna hefði ég orðið vitni að aflimun, en betur fór en á horfðist og maðurinn slapp með mar en var augljóslega nokkuð brugðið, eins og reyndar okkur sem urðum vitni að þessu. Nú var tekið til við að vippa farangri og hjólum um borð, sem var nokkur áskorun enda lyftist og seig ferjan vel á annan metra auk þess að kastast til og frá bakkanum í ölduganginum. En allt hafðist þetta nú fyrir rest. Var okkur nú tjáð að við hefðum verið skynsöm að fljúga til Hattarvíkur og hjóla þaðan til Kirkju, frekar en öfugt, því að báturinn hefði aldrei geta lagst að í Hattarvík í svona sjólagi. Skildi ég nú betur af hverju þyrlurnar eru reknar sem hluti af almenningssamgöngukerfinu, enda geta liðið dagar að ekki sé fært að lenda á sumum eyjanna fyrir brimi. Var nú Fugley kvödd. Komið var við í Svíney, þar sem vistum var skipað á bryggju en annað tekið um borð, en eftir ævintýrið við Kirkju vorum við ekkert að fara í land, enda nánast ekkert vegakerfi í Svíney. Þarna er þó miklu betri sjór en við Fugley, a.m.k. í þessari vindátt. Næst var tekið land í Hvannasundi, sem er eyði sem tengir saman

Viðey og Borðey. Þaðan héldum við um 8 km norður eftir Viðey út að Viðareiði en þar er að finna matsölustað sem ratað hefur inn í ferðamannabækur, auk fallegrar kirkju og prestseturs og 700 m lóðrétts strandbergs. En nú var farið að rigna og fáir á ferli. Ég sé þó einn mann á vappi í bænum og gef mig á tal við hann til að spyrja um hvar veitingarstaðurinn væri og hvort ekki mætti tjalda þarna. Þetta reyndist vera flæmskur ferða­langur sem var með hús á leigu ásamt tveimur félaga sinna. Þar sem þeir nýttu ekki öll herbergin bauð hann okkur gistingu sem við þáðum með þökkum í rigningunni. Við fórum því næst á veitingastaðinn og fengum okkur langvíu og fleira góðgæti áður við héldum heim í hús til Belganna þar sem okkur var boðið upp á öl og fórum því sæl í háttinn fyrstu nóttina okkar í Færeyjum. Morguninn eftir sást til sólar. Við kvöddum Belgana og héldum nú út að kirkjunni og síðan að höfninni en létum strandbergið eiga sig enda illfært þangað upp á hjólaskóm og eggjar út á bjargbrún. Þegar við nálguðumst Hvannasund á ný fórum við í gegnum regnskúr. Ég hjólaði í gegn en frúin stoppaði í honum miðjum til að fara í regngallann og fékk því á sig talsvert meira vatn. Við skoðuðum okkur nú um í Hvannasundi, snæddum nesti við kirkjuna, en alltaf var regnskúr þarna á ca. 100 m kafla í hlíðinni. Handan eiðisins yfir á Borðey er bærinn Norðurdepill og þangað héldum við

Þessari dýrategund brá fyrir endrum og eins í ferðinni

Lagt af stað inni í bústaði myrkursins 30


og síðan þrjá km að fyrstu göngunum, sem Færeyingar eru þekktir fyrir. Ólíkt íslenskum göngum voru þau algjörlega óupplýst. Við höfðum tekið með okkur höfuðljós og afturluktir, en ljósið mitt var ekki betra en það að biksvart malbikið gleypti ljósið og því ekkert að sjá nema ljósið í enda ganganna í um 2 km fjarlægð. Þetta var mjög skrýtið og einhvern veginn var tilfinningin eins og að synda, en jafnvægisskynið virkaði ekki sem skyldi þegar búið var klippa á hið sjónræna. Varð ég því að biðja frúna, sem var með nokkru betra ljós, að vera á undan og ég elti svo afturluktina hennar. En út komumst við í Árnafirði, en þar koma göngin út áður en þau fara að nýju inn í fjallið. Við vorum ljósinu fegin og ákváðum að skella okkur ofan í þorpið sem lá um 100 metrum fyrir neðan okkur. Þá byrjaði að rigna þannig að við leituðum okkur skjóls í kirkjunni og snæddum nesti þar í fordyrinu. Ekki slotaði rigningunni strax þannig að ég fór að fletta sálmabók og komst að því að nokkuð hefur ratað þangað af íslenzkum sálmum. En nú stytti upp, við héldum aftur upp að göngunum og skelltum okkur nú yfir á vesturströnd Borðeyjar. Þegar út var komið lá nú leiðin til norðurs um eiði

að bænum Haraldssundi sem er á austurströnd Konueyjar. Þar skildum við farangur eftir við gangamunna sem leiddi okkur yfir að vesturströnd sömu eyjar og að samnefndum fallegum bæ. Þaðan er magnað útsýni yfir austurströnd Karlseyjar. Skoðuðum við okkur um áður en haldið var til baka sömu leið og nú alla leið í Klakksvíkur sem er annar stærsti bær í Færeyjum og mikill útgerðarstaður. Þar er mikil kirkja sem við skoðuðum, en í loftinu í kirkjuskipinu hangir gamall prestsbátur og skírnafonturinn er mörg þúsund ára gamall hlautbolli sem er gjöf frá Danmörku. Við höfðum hugleitt að taka ferjuna yfir til Karlseyjar, sem er ein svokallaðra Norðureyja, en þar er bara einn 16 km langur vegur með fimm jarðgöngum eftir endilangri eyjunni allt norður að Tröllanesi. Hefðum við getað tekið strætisvagn til baka. En eitthvað stóðust strjálar ferjusiglingar og enn strjálli áætlunarakstur ekki betur á en að okkur sýndist sem að þetta myndi taka allan daginn. Auk þess hafði okkur tekist að skoða eyjuna nokkuð vel úr vestri og myndi standa slíkt til boða síðar úr austri. Var Karlsey því sleppt. Umferð hafði fram að þessu verið nánast hverfandi en nú fór hún að þyngjast.

Á meðan við héldum ennþá að þetta yrði auðvelt í Elduvík

31


Efasemdir farna að skjóta rótum Frá Klakksvík tókum við strætisvagn um neðansjávargöng yfir til Leirvíkur á Austurey. Þar skoðuðum við okkur um, snæddum nesti og héldum svo gömlu leiðina í vestur sem þræðir strandbjarg, með geysilegu útsýni og liggur framhjá einu volgrunni í Færeyjum. Þarna var mikið af sauðfé, eins og víðast annars staðar í Færeyjum og grasið svo vel nagað að þetta væri eins og á golfvelli ef ekki væri fyrir hallann, fuglaskít og lambaspörð. Hvergi sér þó í svörð enda næringin sem berst frá hafi og fuglum nóg til að halda grasinu þéttu og heilbrigðu þrátt fyrir áganginn. Nýja leiðin liggur auðvitað um göng, en þar sem við höfðum þegar hjólað í gegnum fjögur göng og ekið um ein, þá var gamla leiðin hinn augljósi og gleðilegasti kostur. Til móts við Fuglafjörð byrjaði nú að rigna þannig að við slepptum þeim bænum, enda úr leið. Haldið var suður á bóginn framhjá Götu og upp í 150 m hátt Götueiðið, en þar hætti að rigna á okkur. Síðan héldum við enn suður á bóginn, framhjá Søldarfirði og Runavík og fallegu Tóftavatninu og alla leið suður að Æðavík sem er syðsta ból á Austurey. Þar er tjaldstæði og vorum við einu gestirnir. Byrjaði að helli rigna þegar við komum á

svæðið þannig að úr varð að við gistum á gólfi í aðstöðuherbergi þarna. Komumst við jafnframt í langþráða þvottavél auk sturtu. Miðvikdagurinn rann upp nokkuð bjartari. Við skoðuðum okkur um í víkinni áður en haldið var aftur norður á bóginn, um Tóftir og þaðan aftur í Runavík. Þar skelltum við okkur í Bónus verzlun sem við höfðum séð síðasta kvöldið. Var úrvalið nú talsvert líkara dönskum matvöruverzlunum en íslenzkum, en þó var eitt og annað sem gladdi Íslendinginn. Vel birg héldum við nú enn norður, komum við á Lambaeiði en svo áfram norður meðfram Skálafirði, framhjá stærsta kúabúi þeirra Færeyinga, en þarna er eitt mesta sléttlendi Færeyja sem heitir Milli Fjarða. Fljótlega var beygt til hægri áleiðis til Önundarfjarðar og farið upp í rúmlega 260 m hæð áður en komið er til fjarðarins. Þar er að finna í flæðamálinu svokallaða ruggusteina, sem rugga og fljóta einhvern veginn í flæðamálinu, en þar sem það var fjara þegar við komum urðum við ekki vitni að þeim undrum. Nú tók við ævintýralegasti hluti ferðar­ innar, en áður en Ísland var yfirgefið hafði ég lagst yfir loftmyndir af eyjunum og séð að 32


Hlið fyrir lestuð reiðhjól hægt var að tengja tvo langa botnlanga með því að fara nokkuð ógreinilega götu, fyrst upp brekkurnar fyrir ofan bæinn og síðan um eyði til norðurs að Funningsfirði. Þaðan tók við gata undir hlíðum Skorartinds alla leið til Elduvíkur. Eftir að hafa skoðað snotran Önundarfjörðinn hjóluðum við áleiðis upp brekkuna á meðan vega gætti og leiddum síðan hjólin unz komið var í varpann á milli fjarðanna í um 130 m hæð. Þar gátum við hjólað aftur þegar dró úr hallanum. Fljótlega fór þó að þrengjast um okkur, stígurinn varð mjórri og brattara bæði fyrir ofan og neðan okkur. Kom nú í ljós að loftmyndir gefa ekki endilega glögga lýsingu á halla, en þarna vorum við á bergsyllum, einstigi, og bráður bani búinn, niður fertugan hamarinn, hverjum þeim sem villtist af leið. Urðum við nú að leiða hjólin, og stundum að hjálpast að þar sem gatan var tæpust, en ekki vildum við snúa við, eftir allt erfiðið að komast þarna og vonuðumst til að þetta tæki nú brátt enda. Þó var alltaf öðru hverju að finna sauðfé í bjarginu og einnig á götunni, en henni er sjálfsagt mest haldið við af umferð sauðfjár. Smásaman fór gatan að lækka og hlíðin að fletjast uns við gátum aftur sezt á hjólin

skammt undan Elduvík. Ég er viss um að ef við hefðum byrjað Elduvíkurmeginn hefðum við fljótt snúið við enda byrjaði tæpa gatan þar nokkuð fljótlega, en Önundarfjarðarmeginn þurftum við fyrst að erfiða með hjólin upp vegleysur og móa þannig að það hefði verið sálfræðilega miklu erfiðara að snúa við þeim megin frá, komin svo langt. En eftir á að hyggja var útsýnið stórkostlegt yfir hin tilkomumiklu strandbjörg Karlseyjar og Austureyjar, og reynslan nokkuð ævintýraleg. Er ég nokkuð viss um að við höfum verið fyrstu ferðalangarnir sem fóru þessa leið með reiðhjól, a.m.k. fulllestuð ferðahjól. Elduvík er fallegasta þorpið sem við heimsóttum í Færeyjum og er þó samkeppnin hörð. E.t.v. spilar þar inn í hve fegin við vorum þegar þorpið blasti loks við okkur. En nú var komið kvöld og við úrvinda. Við sáum konu tala við aðra konu í bíl og gáfum okkur fram við þær og spurðum hvort hægt væri að tjalda í þorpinu. Eru þið Íslendingar var spurt til baka á hinu ylhýra og meðgengum við. Þarna var þá kona sem hafði starfað í fiski á Íslandi og talaði lýtalausa íslenzku. Hún benti okkur á bæjarstjórann sem var þarna á vappi og hann sagði okkur að við mættum 33


tjalda hvar sem væri, og völdum við okkur því sléttan og fallegan reit við litla á sem rennur til sjávar í þorpinu. Þarna var meira að segja fyrirtaks salernisaðstaða fyrir ferðamenn. Á fimmtudagsmorguninn skoðuðum við þorpið og sérstæða lendingu í djúpri gjá eða skoru. Maður nokkur sem var að vinna að viðgerð á kirkjunni benti okkur á þennan „leynistað“ vestan bæjarins, en þar hafði aðstaðan til þess að komast í gjána verið betrumbætt fyrir stuttu því að von hafði verið á Margréti Þórhildi Danadrottningu, en planið breyttist, en stígurinn og tröppurnar eru þarna enn. Við kvöddum Eldufvík með trega og héldum nú inn með Funningsfirði uns komið var í samnefnt ljótt þorp í botni hans, þar var sögunarmylla, sem kom nokkuð spánskt fyrir sjónir í skóglausum eyjunum. Til gamans má einnig geta að þar tekur FARICE strengurinn land á leið sinni frá Íslandi. Var nú snúið út fjörðinn að vestanverðu í góðum byr uns komið var að þorpinu Funningi. Við fórum ekki ofan í þorpið, til þess hefðum við þurft að lækka okkur um einhverja tugi metra, en gátum virt það fyrir okkur af veginum fyrir ofan. Var nú lagt af stað áleiðis í Eiðisskarð,

sem er hæsti fjallvegur í Færeyjum í tæpum 400 m. Áður var þarna aðalvegurinn á milli Þórshafnar og Klakksvíkur, en nú er búið að bora göng í gegnum fjallið miklu sunnar, þannig að umferð var nánast hverfandi og hafði verið svo síðan við beygðum í átt að Önundarfirði. Að vísu ætluðum við ekki að fara um háskarðið í þetta skipti heldur beygja af leið í rúmum 300 metrum niður að bænum Gjá eða Gjógv, sem er víst borið fram svipaði og orðið brandari á engilsaxnesku. Hafði ég ætlað mér, i fyrsta skipti á erlendri grund, að stöðva bíl og láta hann flytja farangurinn a.m.k. upp að vegamótum og auka þannig á leti okkar, en enginn kom fyrr en við vorum komin rúmlega helminginn af hækkuninni. En við stöðvum bílinn samt. Karlinn var á leið í Gjá þannig að hann tók farangurinn alla leið, og sagði okkur að taka hann bara úr sendiferðabílnum þar sem honum yrði lagt á áberandi stað þegar við kæmum í þorpið. Varð það úr. Hjóluðum við því upp í Gjáarskarð, nokkuð léttari á okkur, og síðan niður aflíðandi brekkuna alla leið ofan í þorp, fundum farangurinn og skoðuðum helsta aðdráttarafl bæjarins sem er samnefnd gjá.

Í náttstað í Elduvík

34


Hún er ekki ósvipuð gjánni við Elduvík, nema að ganga má beint ofan í þessa á landenda hennar og því aðkoma öll þægilegri en við lendinguna í Elduvík. Þessar lendingar eru auðvitað bara fyrir smábáta og því er engin marktæk útgerð lengur frá þessum bæjum. Í gjánni var selur að synda, sem varð okkar ekki var í fyrstu, en skaust svo á brott á ógnarhraða, svona 2 m frá okkur. Eftir að hafa skoðað okkur um og heimsótt minningarreit um slysadauða bæjarbúa, héldum við að eina gististaðnum, rétt ofan bæjarins, þar sem við komumst að því hvenær myndi loka um kvöldið og spyrja til vegar yfir í Ambardal. Þangað héldum við fótgangandi upp með strandberginu til vesturs eftir tæpum götum og sneiddum hjá efsta hjallanum ofan í dalinn. Hann er nokkuð grösugur, en er hömrum girtur niður í sjó og því hefur þarna eingöngu verið selstaða í gegnum tíðina. Þarna er að finna hæsta frístandandi sædrang við Færeyjar, Búgvin, 188 m háan, en einnig má sjá Risann og Kerlinguna, tvo dranga nokkru fjær, norðan Eiðiskolls. Héldum við nú inn dalinn og um skarð til baka, náðum tímanlega í matinn, og spurðum eftir tjaldstæði sem við höfðum

séð merkt á sumum kortum. Staðarhaldarar könnuðust ekkert við tjaldstaðinn, sem hafði verið merktur nánast við hliðina á þeim og grunaði mig að þeir hefðu beitt sér fyrir því að samkeppnin liði undir lok. En veður var gott og við vildum tjalda þannig að við héldum inn dalinn þar sem tjaldstæðið hafði verið merkt, en fundum engin ummerki. Rákumst þar á bónda sem var gangandi á leið heim frá gegningum og spurðum hann hvort hann ætti þetta land. Hann sagðist eiga landið ögn ofar í dalnum, handan næsta grjótgarðs og þar væri okkur velkomið að tjalda; sem við og gerðum. Föstudagur rann upp í þoku og drunga. Við stoppuðum fyrsta bílinn sem var á sömu leið og við og konan svaraði auðvitað strax á íslenzku, enda hálfíslenzk og hafði dvalið löngum á Íslandi. Hún tók vel í að ferja farangurinn okkar upp í 400 m hátt Eiðisskarð undir hlíðum hæzta tinds Færeyja, Slættaratinds, en vegna skyggnis varð fljótlega ljóst að fyrirætlanir okkar um að ganga á þann tind myndu ekki ganga eftir þann daginn. En eftir hverja brekku upp tók önnur við niður, en vegna þess hversu hvasst var, máttum við þó ekki gefa fákunum alveg lausan tauminn. Komum við fyrst fram hjá uppistöðulóninu

Danskir, skv. kenningunni, verkfræðingar sáu til þess að það var alltaf þægilegur halli

35


Eiðisvatni sem sér nærsveitarmönnum fyrir rafmagni. Blöstu nú Risinn og Kerlingin aftur við okkur, en nokkuð nær og frá öðru sjónarhorni. Síðan komum við til bæjarins Eiðis. Þar versluðum við í matinn og ég gerði tilraun til að heimsækja þjóðháttasafn, en þar var víst bara opið eftir hádegi á miðvikudögum (eða eitthvað þessháttar) og gæfan ekki alveg með okkur. Var nú haldið suður með Sundinu á milli Austureyjar og Straumeyjar, í nokkrum mótvindi, unz komið var að brúnni yfir Atlantshafið, eins og þeir kalla hana. Þar vorum við aftur komin á aðalveginn og umferð talsverð. Fórum við yfir á Straumey og áfram 3 km í suður unz við beygðum til Hvalvíkur til norðvesturs og inn í Saksunardal. Þessi dalur er líkari íslenzkum dölum en aðrir dalir í Færeyjum, en þó er alltaf mjög stutt í klappirnar. Dalurinn er um 11 km langur að örþorpinu og prestsetrinu Saksun sem er einn fegursti staður í Færeyjum. Þarna var líka safn en það opnaði ekki fyrr en eftir miðjan júní. Þess í stað ræddum við við safnhaldarann, sem var á leið í gegningar, um sauðfjárbúskap þar og hér, og er margt á annan veg. Færeyingar taka t.d. fæstir fé sitt nokkurn tímann á hús, enda eiga þeir fæstir

slík hús. Eftir nestisstopp og myndatökur héldum við nú aftur upp dalinn, en þar þóttumst við hafa séð vænlegt tjaldstæði. Rigning næsta morguns tafði brottför okkar til hádegis en þá hjóluðum við áfram sömu leið til Hvalvíkur og síðan eftir aðalveginum um Húsavík og svo vestur með Kollafirði og inn Kollafjarðardal, framhjá veggöngum nokkrum en fara mátti hjáleið meðfram fög r u stöðuvatni og yfir að Vestmannasundi. Síðan framhjá þorpunum Leynum, Stykkinu og Kvívík upp í tæplega 300 m hæð unz við lækkuðum okkur aftur niður að virkjana- og útgerðarbænum Vestmanna, en þar á stærsti hluti vatnsorku Færeyinga uppruna sinn. Höfðum við ætlað að fara í kvöldsiglingu um hina rómuðu hamraströnd norður af Vestmanna, en auglýstar tímaáætlanir stóðust ekki. Þess í stað pöntuðum við fyrstu ferð næsta morgun og fórum að huga að tjaldstæðinu. Það reyndist eitt hið þokkalausasta tjaldsvæði sem ég hef heimsótt og ákváðum við að kanna einhverja ódýra gistingu í staðinn. Við verzluðum í matinn og hittum svo stráka á reiðhjóli og spurðum hvort þeir vissu um stað til að gista á, jafnvel tjalda. Það gerðu þeir og hjóluðu

Gjáin. Svona gjár og skorir einkenna landslag Færeyjum 36


með okkur aðeins upp í hlíðina þar sem finna mátti sléttan flöt á almenningi þar sem allur fjörðurinn blasti við okkur. Þetta var hið fegursta tjaldsvæði og stutt í salerni í kirkjugarði nokkrum þannig að þarna undum við okkur hið bezta. Sunnudagsmorguninn vorum við mætt niður á höfn á tilsettum tíma. Skipstjórinn hafði verið á báti frá Ísafirði og meðal annars komið á Hornstrandir en talaði ekki íslenzku að ráði. Þessi sigling var hin skemmtilegasta. Báturinn sigldi í gegnum göng og inn í hella, milli klettaþilja og lands, og á einum stað urðum við vitni að því þegar færeyskir bændur voru að flytja sauðfé í björg til sumardvalar; en svo gjörnýttar eru Færeyjar af sauðfé að smæsta bjargtorfa er nýtt þó svo að smalar og búsmali virtust lagðir í talsverða hættu. Þegar í land var komið brugðum við okkur á sögusafn (sem var opið) á meðan við biðum eftir strætisvagni sem myndi flytja okkur aftur sömu leið til Kollafjarðardals. Þaðan hjóluðum við síðan svokallaðan Eyjaveg sem tengir dalinn við Þórshöfn. Þetta var áður alfaraleið, 20 km löng sem fer upp í rúmlega 350 m hæð og fylgir fjallaheiðum alla leið niður í efstu hverfi Þórshafnar, en

nú fara aðrir en ferðamenn um göng. Þoka og rigningarsuddi var hins vegar á okkur og því minna útsýni en ella. Þarna hjóluðum við framhjá bækistöð setuliðs Dana á eyjunum, nokkuð smekklegri af herstöð að vera, og hefðum við getað tekið það fyrir fjallahótel ef ekki hefði komið til upplýsingaskilti. Í efstu hlíðum Þórshafnar er farfugla­ heimili. Þar komum við okkur fyrir áður en við héldum í gegnum Þórshöfn og yfir að Kirkjubæ, en þar eru rústir af fornri steindómkirkju. Gaman var að skoða rústirnar og nýju kirkjuna. Einhver norræn móttaka var í gangi og þekkti ég einhverja íslenzka stjórnmálamenn þó svo ég muni ekki lengur hverjir það voru. Við héldum síðan til baka sömu 12 km aftur á farfuglaheimilið. Þegar við vorum komin í úthverfi Þórshafnar stoppaði ég vegfaranda með hund til að spyrja hann hvar næsta matvöruverzlun væri. Þetta var þá Íslendingur sem hafði búið í Færeyjum í 20 ár og var farinn að tala með örlitlum hreim. Vísað hann okkur greiðlega til búðar og þaðan héldum við á farfuglaheimilið þar sem þvottur og búkar voru þvegnir. Mánudagsmorguninn notuðum við til að erindast í Þórshöfn og nágrenni en hittumst

Búgvin nær en Kerlingin og Risinn fjær 37


Í Saksun síðan niðri í bænum. Þar keypti ég þykka bók með færeyskum þjóðsögum og ævintýrum á nokkuð fornlegri færeysku og hef ég síðan þá tekið nokkrum framförum í málinu. Vandamálið með færeyskuna er að það þarf að læra nokkra samhljóða upp á nýtt og þá skilst þetta nokkuð vel. Lesmálið er hins vegar öllu einfaldara, svolítið eins og að krakki með takmarkaðan orðaforða hafi verið að skrifa textann með beygingar og málfræðivillum og nýyrðum þegar við á. Flestar færeysku sögurnar fjalla um landamerkjadeilur, enda hver spilda fullnýtt, og þjófnaði. Meira að segja huldufólkssögurnar fjalla um deilur um beit huldubúsmala á landi bænda. Svona breytir nábýlið áherslum þjóðsagnanna, annað en útilegumanna- og draugasögurnar okkar

sem þrífast betur í einangrun og víðáttu öræfanna. Reiðhjólaverzlun var heimsótt til að laga gírskiptingu frúarinnar og kaupa slöngu. Síðan var hjólað um borð og siglt áleiðis heim en siglingin um sund á milli rismikilla eyja héldu okkur uppi á dekki unz landsýn þraut. Við afköstuðum minna en við ætluðum okkur í upphafi, hefðum þurft aðra viku til, til að heimsækja Voga, Mykines, Dímona, Sandey og Suðurey, og verðum við því að snúa aftur við tækifæri; því eyjarnar kalla. Líklega er hvergi betra að vera Íslendingur en í Færeyjum. Furðumargir sem ég kom að tali við töluðu íslenzku, og allir aðrir sýndu okkur vinsemd og frændsemi. Matvöruverð er e.t.v. 30-50% hærra en í Danmörku, en ferðin var okkur ódýr enda allar nætur utan þeirrar

Það gat orðið hlýtt í meðvindi upp brekkur, en annars var lítil blíða í Færeyjum

38


Þýsk gæðahjól

Tri ehf. Suðurlandsbraut 32 104 Reykjavík

Munið afsláttinn ykkar hjá Fjallahjólaklúbbnum

Verslunin er opin:

www.tri.is

fyrstu (sem var frí) og síðustu í tjaldi. Allt sem við fórum, fyrir utan Elduvíkurævintýrið var á malbiki, enda tíðkast fjallahjól lítið í Færeyjum, og þrátt fyrir að hlíðarnar væru brattar, voru vegirnir í þægilega bröttum sneiðingum. Flesta dagana rigndi eitthvað, en við urðum alblaut bara einu sinni. Hins vegar var aldrei heiðskýrt þennan tíma sem við dvöldum þarna. Almannaréttur til að tjalda er ekki til staðar, enda mestallt land í einkaeigu. Þó fékkst alls staðar góðfúslegt leyfi til að tjalda þegar eftir var leitað og engin (kræsileg) skipulögð tjaldstæði á boðstólum. Erfitt getur þó verið að finna hallalausan þurran blett. Það kom mér hvað mest á óvart hvað lítið var af ferðamönnum í Færeyjum þennan fyrrihluta júnímánaðar. Það hélst e.t.v. í hendur við það hversu lítið ferðamönnum var beinlínis boðið upp á til afþreyingar. Við fengum auðvitað

Alla virka daga kl. 09:00 -18:00 Laugardaga kl. 10:00 -16:00

nóg að gera að kljást við brekkur þó svo að vegalengdir hefðu ekki verið langar. En maður er orðinn svo vanur ferðamannafarganinu hér á Íslandi að það er eins og að komast í frí í Færeyjum. Um hádegisbil á þriðjudegi komum við í land á Seyðisfirði. Á flugöld yrkja menn ekki lengur: ,,Úr útsæ rísa Íslandsfjöll“, en ég skildi nú Fagraskógarskáldið. Fjarðarheiðinn, 650 m.y.s. var miklu brattari en allt sem við kynntumst í Færeyjum og snjóaði á okkur á kafla. Á Egilsstöðum skildi ég við frúna sem flaug heim, en ég hélt áfram í rúman vikutúr sem leiddi mig um Eiðaþinghá, Hróarstungur, yfir Jökulsá á Brú á vaði skammt ofan ósa, Hellisheiði, Vopnafjörð, Bakkaflóa, Langanes út á Font, Þystilfjörð, Melrakkasléttu, Ásbyrgi og Reykjaheiði og ofan í Reykjahverfi unz ég varð mér úti um fari í bæinn á samferda.net 39


Back BackRoller Rollerclassic classic

Packman Packman

Ultimate Ultimate55

Back BackRoller Rollercity city

Down DownTown Town

Flight Flightbakpoki bakpoki

Transporter Transporter

Sölustaðir: Sölustaðir: Ellingsen EllingsenFiskislóð Fiskislóð11Reykjavík Reykjavík Kría KríaHólmaslóð Hólmaslóð44Reykjavík Reykjavík Útilíf ÚtilífHoltagörðum HoltagörðumReykjavík Reykjavík

Netverslun Netverslunmeðmeðútivistarbúnað útivistarbúnað

Framleitt Framleittí íÞýskalandi Þýskalandi

Smiðsbúð Smiðsbúð66Garðabæ Garðabæsími sími564 5645040 5040

www.hirzlan.com www.hirzlan.com


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.