ELDAR KVIKNA
Suzanne Collins
ELDAR KVIKNA
Guðni Kolbeinsson þýddi
Handa foreldrum mínum, Jane og Michael Collins og tengdaforeldrum mínum, Dixie og Charles Pryor
Eldar kvikna Titill á frummáli: Catching Fire © Suzanne Collins 2009 Íslensk þýðing © Guðni Kolbeinsson 2012 Hönnun kápu: Elizabeth B. Parisi Mynd á kápu © Tim O’Brien 2009 Uppstilling kápu: Jón Ásgeir Umbrot: GÞ / Forlagið Letur í meginmáli: Adobe Garamond Pro 11,3/15,3 pt. Prentun: Oddi, umhverfisvottuð prentsmiðja Gefin út í Reykjavík, bókmenntaborg UNESCO JPV útgáfa · Reykjavík · 2012 Öll réttindi áskilin. Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis þýðanda og útgefanda. ISBN 978-9935-11-273-6 JPV útgáfa er hluti af www.forlagid.is
Forlaginu ehf.
I. HLUTI
„NEISTINN“
1
1
Ég gríp báðum höndum utan um brúsann þótt ylurinn af teinu sé löngu horfinn í frostinu. Vöðvarnir í mér eru þandir til að vinna gegn kuldanum. Ef flokkur villihunda birtist á þessari stundu eru ekki miklar líkur á að ég næði að klifra upp í tré áður en þeir næðu mér. Ég ætti að standa upp, hreyfa mig og liðka alla liði. En þess í stað sit ég, hreyfingarlaus eins og kletturinn undir mér, meðan dögunin slær bjarma á skóginn. Ég get ekki barist gegn sólinni. Ég get bara horft hjálparvana á hana draga mig inn í daginn sem ég hef óttast mánuðum saman. Um hádegi verðum við öll í Sigurþorpi. Fréttamennirnir, tökuliðið, meira að segja Effie Trinket, fylgdarmaðurinn minn, þau koma öll frá Kapítól hingað í Tólfta umdæmi. Ég velti fyrir mér hvort hún verði enn með asnalegu, bleiku hárkolluna eða hvort hún skarti einhverjum öðrum ónáttúr legum lit í Sigurferðinni. Og það verða fleiri sem bíða. Starfs fólk sem sér mér fyrir öllum þörfum mínum á langri lestar ferðinni. Undirbúningsteymið sem snyrtir mig áður en ég kem fram opinberlega. Stílistinn minn, hann Sinna, sem hannaði glæsifötin sem fengu áhorfendur til að taka eftir mér á Hungurleikunum. 7
Ef ég fengi að ráða mundi ég reyna að gleyma Hungur leikunum. Aldrei minnast á þá. Láta sem þeir væru bara slæm ur draumur. En Sigurferðin gerir það ómögulegt. Fundinn er heppilegur tími fyrir hana mitt á milli hinna árlegu Leika og hún er aðferð Kapítól til að halda ógninni lifandi og yfir vofandi. Við erum ekki bara í umdæmi sem neyðist til að muna járngreipar Kapítól á ári hverju heldur erum við líka neydd til að halda upp á þær. Ég verð að ferðast milli umdæmanna, standa frammi fyrir fagnandi mannfjölda sem fyrirlítur mig innst inni, og horfa í augu ættingja barna sem ég hef drepið. Sólin ætlar greinilega að rísa svo að ég stend á fætur. Öll liðamót kvarta og ég hef verið svo lengi með náladofa í vinstri fætinum að ég þarf að ganga fram og aftur um stund til að koma blóðinu aftur á hreyfingu. Ég hef verið í skóginum í þrjá klukkutíma en ég hef ekki reynt að veiða neitt. Ég þarf þess heldur ekki. Það skiptir engu máli fyrir mömmu og Prim, litlu systur mína. Þær hafa efni á að kaupa kjöt af slátraranum þótt engri okkar þyki það jafnast á við villibráð. En besti vinur minn, Gale Hawthorne, og fjölskylda hans reiða sig á feng frá mér og ég get ekki brugðist þeim. Ég legg upp í hálfs annars tíma ferð til að huga að öllum snörunum mínum. Meðan við vorum í skóla höfðum við tíma síðdegis til að veiða og tína ber og jurtir og skipta síðan á feng okkar fyrir aðrar nauðsynjar. En núna er Gale farinn að vinna í kolanámunum og ég hef ekkert að gera allan daginn. Ég hef því tekið þetta að mér. Núna er Gale búinn að stimpla sig inn við námurnar og fara með hraðskreiðri lyftunni niður í iður jarðar og er farinn að hamra á einhverri kolaæðinni. Ég veit hvernig er umhorfs 8
þarna niðri. Á hverju ári í skólanum fór bekkurinn minn í skoðunarferð um námurnar. Þegar ég var lítil var það bara óþægilegt. Þröng göngin, vont loftið, kæfandi myrkur alls staðar. En eftir að pabbi og allmargir aðrir námumenn fórust í sprengingu gat ég varla fengið mig til að fara inn í lyftuna. Árleg ferðin varð gríðarlega kvíðvænleg. Tvívegis varð ég svo miður mín að mamma hafði mig heima af því að hún hélt að ég væri komin með flensu. Ég hugsa oft um Gale, sem í rauninni er ekki lifandi nema úti í skóginum, í fersku lofti, sólarbirtu og svalandi vatni. Ég veit ekki hvernig hann þolir þetta. Jú … reyndar veit ég það. Hann þolir þetta af því að það er leið til að afla matar handa móður hans, yngri bræðrum hans tveimur og systurinni. Og hér er ég með fullar hendur fjár, miklu meira en þarf til að fæða fjölskyldur okkar beggja en hann vill ekki þiggja einn skilding, hvað þá meira. Það er meira að segja erfitt fyrir hann að leyfa mér að færa þeim kjöt þótt hann hefði áreiðan lega séð mömmu og Prim fyrir fæðu ef ég hefði verið drepin á Leikunum. Ég segi honum að þetta sé greiði við mig því að ég verði brjáluð af að sitja iðjulaus allan daginn. Þrátt fyrir það kem ég aldrei með villibráð meðan hann er heima. Það er reyndar mjög auðvelt því að hann vinnur tólf tíma á dag. Núna sé ég Gale ekki nema á sunnudögum þegar við hittumst í skóginum til að veiða saman. Það eru enn bestu dagar vikunnar en engan veginn eins og áður meðan við gátum sagt hvort öðru allt. Leikarnir hafa meira að segja eyðilagt það. Ég vona enn að með tímanum fari okkur aftur að líða vel saman en hluti af mér veit að það verður aldrei. Það er engin leið til baka. 9
Gildrurnar gefa vel af sér – átta kanínur, tveir íkornar og bifur sem hafði synt inn í víragildru sem Gale fann upp og smíðaði. Hann er sannkallaður snörusnillingur, festir þær við sveigða teinunga sem kippa bráðinni svo hátt upp að rándýr ná ekki í hana, lætur þunga bjálka liggja á mjóum renglum sem rétt aðeins þarf að koma við til að bjálkinn detti, vefur tágakörfur sem fiskar synda inn í og komast svo ekki út. Á leið minni legg ég snörurnar á nýjan leik en veit að ég get aldrei jafnast á við Gale í því að jafnvægið sé rétt eða skynjað jafnvel og hann hvar bráðin fer yfir stíginn. Það er meira en reynsla, það er meðfædd gáfa. Eins og það að ég get skotið á dýr í nánast algeru myrkri og banað því með einni ör. Þegar ég kem að girðingunni kringum Tólfta umdæmi er sólin komin hátt á loft. Eins og ævinlega hlusta ég smástund en það heyrist ekkert suð sem gæfi til kynna að straumur væri á girðingunni. Enda þótt straumur eigi að vera á henni allan sólarhringinn er hann nánast aldrei til staðar. Ég smeygi mér gegnum gatið á girðingunni og er þá komin inn á Engið steinsnar frá heimili mínu. Gamla heimilinu mínu. Við fáum enn að halda því þar sem það er opinbert aðsetur mömmu og systur minnar. Ef ég dytti niður dauð á þessari stundu yrðu þær að snúa aftur þangað. En núna njóta þær báðar lífsins á nýja heimilinu í Sigurþorpi og ég er sú eina sem notar litla húsið þar sem ég ólst upp. Í mínum augum er það mitt raunverulega heimili. Ég fer þangað núna til að skipta um föt. Fer úr gamla leðurjakkanum hans pabba í fíngerðan ullarjakka sem mér finnst alltaf of þröngur yfir axlirnar. Fer úr mjúkum, slitnum veiðistígvélunum og í dýra vélsaumaða skó sem mömmu 10
finnst hæfa betur stúlku í minni stöðu. Ég geymdi bogann og örvarnar í holu tré í skóginum. Þótt tíminn líði hratt leyfi ég mér að sitja í eldhúsinu í nokkrar mínútur. Það ber með sér að enginn býr í húsinu: enginn eldur í stónni, enginn dúkur á borðinu. Ég sakna samt áranna sem við áttum hér. Við rétt skrimtum en ég vissi samt hvar ég átti heima og hvar minn staður var í þeirri þéttofnu flækju sem líf okkar var. Ég óska þess að ég gæti snúið aftur til þess tíma því að þegar ég hugsa til baka virðist hann svo öruggur miðað við nútímann þar sem ég er svo auðug og svo fræg og svo hötuð af yfirvöldunum í Kapítól. Væl við bakdyrnar vekur athygli mína. Ég opna þær og sé Fífil, úfna fressköttinn hennar Prim. Honum er næstum því jafnilla við nýja húsið og mér og fer alltaf þaðan þegar Prim er í skólanum. Við höfum aldrei verið sérstaklega hrifin hvort af öðru en núna eru þessi nýju tengsl á milli okkar. Ég hleypi honum inn, gef honum bita af bifurspiki og klóra honum meira að segja aðeins á milli eyrnanna. „Þú ert forljótur, veistu það?“ spyr ég. Fífill nuddar sér upp við höndina á mér til að fá meira klapp en við verðum að fara. „Komdu nú.“ Ég tek hann upp með annarri hendinni, gríp veiðipokann með hinni og ber hvorttveggja út á götu. Kötturinn stekkur niður og hverfur bak við runna. Skórnir kreppa að tánum þar sem ég geng eftir malborinni götunni. Ég fer gegnum sund og garða og kem að húsi Gales eftir nokkrar mínútur. Hazelle, móðir hans, sér mig gegnum gluggann þar sem hún stendur við eldhúsvaskinn. Hún þurrkar sér um hendurnar á svuntunni og hverfur til að koma út í dyr á móti mér. 11
Ég kann vel við Hazelle. Ber virðingu fyrir henni. Spreng ingin sem drap pabba varð manni hennar líka að bana og hún var ein eftir með þrjá stráka og nýfædda stelpu. Innan við viku eftir að hún ól barnið var hún komin á stjá að leita sér að vinnu. Námurnar komu ekki til greina þar sem hún þurfti að annast barnið en henni tókst að fá vinnu við þvotta fyrir nokkra kaupmenn í borginni. Þegar Gale, elsti strákurinn, var orðinn fjórtán ára var hann helsta fyrirvinna fjölskyld unnar. Hann var þá farinn að fá tessera sem tryggðu þeim svolítinn skammt af korni og olíu fyrir hvern miða með nafni hans í pottinum sem framlögin voru dregin úr. Auk þess var hann strax þá orðinn snjall gildruveiðimaður. En það dugði ekki til að sjá fyrir fimm manna fjölskyldu svo að Hazelle varð líka að strita við þvottabalann. Á veturna voru hendur hennar svo rauðar og sprungnar að það þurfti sáralítið til að færi að blæða úr þeim. Og þannig væri það enn ef hún notaði ekki smyrslin sem móðir mín býr til. En þau eru dugleg, Hazelle og Gale og drengirnir tveir, Rory tólf ára og Vikki sem er tíu, og stelpan, Pósý, sem er fjögurra ára, á aldrei að þurfa að skrá sig fyrir tesserum. Hazelle brosir þegar hún sér bráðina. Hún tekur bifurinn upp á rófunni og finnur hvað hann er þungur. „Við fáum góða kássu úr honum þessum.“ Öfugt við Gale hefur hún ekkert á móti því að þiggja kjöt af mér. „Góður feldur líka,“ svara ég. Það er notalegt að vera þarna með Hazelle að meta afraksturinn af veiðunum eins og við höfum alltaf gert. Hún gefur mér bolla af jurtatei og ég tek köldum fingrum utan um bollann og er henni þakklát.
12
„Þegar ég kem aftur úr ferðinni var ég að hugsa um að taka Rory með mér stöku sinnum. Eftir skóla. Kenna honum að skjóta.“ Hazelle kinkar kolli. „Það væri gott. Gale ætlar sér það en hann hefur bara sunnudagana og ég held að hann vilji helst vera með þér þá.“ Ég ræð ekki við roðann sem streymir fram í vangana. Það er fáránlegt. Nánast enginn þekkir mig betur en Hazelle. Hún veit um böndin milli okkar Gales. Ég er viss um að fjöldi manns gerði ráð fyrir að á endanum mundum við gift ast, þótt ég sjálf hugsaði aldrei um neitt slíkt. En það var fyrir Leikana. Áður en hitt framlag okkar, Peeta Mellark, lýsti því yfir að hann væri brjálæðislega ástfanginn af mér. Ástar samband okkar varð lykilatriði í að lifa af á leikvanginum. Reyndar var það annað og meira í augum Peeta. Ég er ekki viss um hvað það var í mínum huga. En ég veit núna að það olli Gale bara sársauka. Brjóst mitt herpist saman þegar ég hugsa um það að í sigurferðinni verðum við Peeta aftur að láta sem við séum elskendur. Ég gleypi í mig teið þótt það sé of heitt og ýti stólnum frá borðinu. „Ég verð víst að fara. Laga mig til fyrir myndavél arnar.“ Hazelle faðmar mig. „Njóttu kræsinganna.“ „Ég geri það,“ segi ég. Næsti viðkomustaður er Rabbinn þar sem ég átti nær öll mín viðskipti hér áður. Fyrir löngu var húsið kolageymsla en þegar hætt var að nota það varð það miðstöð ólöglegra við skipta og þróaðist upp í blómlegan svartamarkað. Ef staður
13
inn dregur að sér afbrotafólk á ég vísast heima þar. Veiðar í skógunum kringum Tólfta umdæmi eru brot á að minnsta kosti tug lagagreina og varða dauðarefsingu. Þótt aldrei sé minnst á það á ég skuld að gjalda mörgum á Rabbanum. Gale sagði mér að Tólgar-Sae, gamla konan sem selur súpu, hefði sett af stað söfnun til að styrkja okkur Peeta á Leikunum. Söfnunin átti bara að vera á Rabbanum en margir aðrir heyrðu af henni og lögðu fram peninga. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það var mikið en verð á gjöfum á leikvanginum var óheyrilegt. En ég hef þá trú að þetta hafi skipt sköpum um hvort ég lifði eða dó. Það er enn furðulegt að opna dyrnar með tóman veiðipoka, hafa engan varning til að skipta en finna í staðinn þungan vasa fullan af peningum við mjöðmina. Ég reyni að koma við í eins mörgum sölubásum og ég get, dreifa innkaupum á kaffi, snúðum, eggjum, garni og olíu. Að síðustu kaupi ég þrjár flöskur af spíra af einhentri konu sem heitir Ripper. Hún lenti í námuslysi en var nógu klók til að finna leið til að lifa af. Spírinn er ekki handa fjölskyldu minni. Hann er handa Haymitch sem var ráðgjafi okkar Peeta á Leikunum. Haymitch er oftast nær skapvondur, ofbeldisfullur og drukkinn. En hann vann vinnuna sína – og meira en það – því að í fyrsta sinn í sögunni var tveimur framlögum leyft að vinna. Engu skiptir því hver Haymitch er, ég er líka skuldbundin honum. Og það verð ég alltaf. Ég kaupi spírann af því að fyrir nokkrum vikum varð hann áfengislaus og gat hvergi fengið það keypt og fráhvarfseinkennin voru skelfileg. Hann skalf og nötraði og æpti á eitthvað hræðilegt sem enginn sá nema
14
hann. Síðan hef ég verið með eins konar varaforða til taks ef ske kynni að skortur yrði á ný. Cray, foringi friðargæsluliðanna, grettir sig þegar hann sér mig með flöskurnar. Hann er roskinn maður með þunnt, silfurgrátt hár sem hann greiðir til hliðar fyrir ofan rauðleitt andlitið. „Þetta er of sterkt fyrir þig, stúlka mín.“ Hann ætti að vita það. Fyrir utan Haymitch drekkur Cray meira en nokkur sem ég hef hitt um dagana. „Mamma notar það í lyfin sín,“ segi ég kæruleysislega. „Ja, það drepur næstum hvað sem er,“ segir hann og skellir peningi á borðið fyrir flösku. Þegar ég kem að básnum hjá Tólgar-Sae herði ég mig upp í að setjast við borðið og panta súpu sem virðist vera úr einhvers konar graskerum og baunum. Friðargæsluliði sem heitir Daríus kemur og kaupir eina skál meðan ég er að borða. Hann er sá löggæslumaður sem ég kann einna best við. Hann er aldrei með neitt mikilmennskubrjálæði og oftast gamansamur. Hann er líklega á þrítugsaldri en lítur ekki út fyrir að vera miklu eldri en ég. Eitthvað við brosið og rautt hárið sem stendur út í allar áttir gerir hann strákslegan í útliti. „Átt þú ekki að vera í lestinni?“ spyr hann mig. „Ég verð sótt um hádegið,“ svara ég. „Ættirðu ekki að líta betur út?“ hvíslar hann hátt. Ég get ekki stillt mig um að brosa að stríðni hans þótt ég sé alls ekki í góðu skapi. „Kannski setja slaufu í hárið á þér eða eitthvað?“ Hann grípur í fléttuna á mér en ég hristi hann af mér. „Engar áhyggjur. Þegar þau hafa lokið sér af við mig verð ég óþekkjanleg,“ segi ég.
15
„Gott,“ segir hann. „Við skulum sýna svolítið umdæmisstolt til tilbreytingar, ungfrú Everdeen. Er það ekki?“ Hann lítur á Tólgar-Sae með gamansömum hneykslunarsvip og hristir höfuðið og gengur síðan til vina sinna. „Ég vil fá skálina aftur,“ kallar Tólgar-Sae á eftir honum en þar sem hún er hlæjandi er hún ekki mjög hörkuleg. „Ætlar Gale að fylgja þér á stöðina?“ spyr hún mig. „Nei, hann var ekki á listanum,“ svara ég. „En ég hitti hann á sunnudaginn var.“ „Ég hélt nú að hann kæmist á listann. Hann er nú einu sinni frændi þinn,“ segir hún þurrlega. Þetta er bara einn hluti enn af lyginni sem Kapítól hefur sett saman. Þegar við Peeta komumst í átta manna úrslit á Hungurleikunum sendu stjórnvöld fréttamenn til að fjalla um ævi okkar. Þegar þeir spurðu um vini mína bentu allir þeim á Gale. En það gekk ekki upp, miðað við ástarsambandið sem ég lék á leikvanginum, að Gale væri besti vinur minn. Hann var of myndarlegur, of karlmannlegur og alls ekki tilbúinn að brosa og leika einhvern ljúfling fyrir myndavélarnar. Við erum býsna lík ásýndum. Við erum með Æðarútlitið. Dökkt, slétt hár, dökk á hörund, með grá augu. Þess vegna gerði ein hver snillingur hann að frænda mínum. Ég vissi ekkert um það fyrr en við vorum komin heim og mamma sagði við mig á brautarpallinum: „Frændur þínir hlakka afskaplega mikið til að hitta þig.“ Þegar ég sneri mér við sá ég Gale og Hazelle og alla krakkana að bíða eftir mér og hvað gat ég gert annað en spilað með? Tólgar-Sae veit að við erum ekkert skyld en sumir sem hafa þekkt okkur árum saman virðast hafa gleymt því. 16
„Mikið hlakka ég til þegar þetta verður allt saman búið,“ hvísla ég. „Ég veit það,“ segir Tólgar-Sae. „En þú verður að ganga í gegnum þetta til enda. Eins gott fyrir þig að vera ekki of sein.“ Það byrjar að snjóa á leiðinni yfir í Sigurþorp. Þangað er tæpur kílómetri frá torginu í miðri borginni en þar er eins og maður sé kominn í annan heim. Byggðin kringum fallegt, grænt svæði þar sem blómstrandi runnar vaxa á stangli. Húsin eru tólf og hvert þeirra tíu sinnum stærra en húsið sem ég ólst upp í. Níu eru auð eins og þau hafa alltaf verið. Þau þrjú sem eru í notkun eru eign Haymitch, Peeta og mín. Húsin sem fjölskyldur okkar Peeta búa í eru hlýleg og lifandi. Ljós í gluggum, reykur liðast upp úr reykháfum, maískólfar, málaðir skærum litum, hafa verið festir á úti hurðirnar í tilefni af uppskeruhátíðinni sem er fram undan. En hús Haymitch virðist yfirgefið og vanhirt, þrátt fyrir um hyggjusemi umsjónarmannsins. Ég ýti á útihurðina og geng inn fyrir. Ég fitja óðara upp á nefið af viðbjóði. Haymitch neitar að hleypa neinum inn til að þrífa og stendur sig illa í því sjálfur. Í áranna rás hafði lykt af brennivíni og ælu, soðnu káli og brunnu kjöti, óhreinum fötum og músaskít blandast saman í stybbu sem er svo megn að ég fæ tár í augun. Ég veð gegnum hrúgur af matarumbúðum, brotnum glösum og beinum, þangað sem ég veit að Haymitch er. Hann situr við eldhús borðið með útbreidda handleggi og andlitið í brennivínspolli og hrýtur hástöfum. Ég gríp í öxlina á honum og hristi hann. „Upp með þig!“ segi ég hátt af því að mér hefur lærst að það er engin leið 17
að vekja hann með neinni hógværð. Hroturnar þagna andar tak, eins og spyrjandi, en halda svo áfram. Ég hristi hann betur: „Upp með þig, Haymitch. Það er ferðadagur!“ Ég opna gluggann og anda hreinu útiloftinu að mér í djúpum sogum. Ég róta með fótunum í ruslinu á gólfinu, finn kaffibolla úr tini og fylli hann af vatni úr krananum. Það er ekki alveg dautt í eldstónni og mér tekst að blása í glæðurnar og kveikja í kolunum. Ég helli möluðu kaffi í ketilinn, nógu miklu til að kaffið verði sterkt og gott. Svo set ég hann á heita helluna. Haymitch er enn út úr heiminum. Þar sem ekkert annað virðist duga fylli ég fat af ísköldu vatni, helli því yfir hausinn á honum og stekk til hliðar. Dýrsleg kokhljóð heyrast frá honum. Hann stekkur á fætur, sparkar stólnum þrjá metra aftur á bak og dregur upp hníf. Ég hafði gleymt því að hann sefur alltaf með hann í hendinni. Ég hefði átt að taka hann af honum en ég hafði haft um margt að hugsa. Hann bölvar og sankar og heggur út í loftið nokkrum sinnum áður en hann áttar sig. Þá þurrkar hann sér í framan á skyrtuerminni og snýr sér að gluggasyllunni þar sem ég sit í hnipri ef ég skyldi þurfa að flýta mér út úr húsinu. „Hvað ertu að gera?“ hreytir hann út úr sér. „Þú baðst mig að vekja þig klukkutíma áður en myndavél arnar fara í gang,“ segi ég. „Ha?“ segir hann. „Þú baðst um það,“ ítreka ég. Hann virðist ráma eitthvað í þetta. „Af hverju er ég allur blautur?“
18
„Ég gat ekki vakið þig,“ segi ég. „Heyrðu, ef þú vildir láta dekra við þig hefðirðu átt að biðja Peeta.“ „Biðja mig um hvað?“ Um leið og ég heyri rödd hans finn ég að í maganum á mér verður til hnútur úr óþægilegum tilfinningum eins og sektarkennd, depurð og ótta. Og þrá. Ég verð víst að viðurkenna að það er svolítið af henni líka. En samkeppnin er of hörð til að þráin geti nokkurn tíma orðið ofan á. Ég horfi á Peeta ganga að borðinu. Sólskinið gegnum glugg ann glampar á nýjum snjó í ljósu hárinu. Hann er sterkur og heilbrigður að sjá, gjörólíkur veika, soltna stráknum sem ég þekkti á leikvanginum. Meira að segja heltin sést varla lengur. Hann leggur nýbakaðan brauðhleif á borðið og réttir Haymitch höndina. „Biðja þig um að vekja mig án þess að ég fengi lungna bólgu,“ segir Haymitch og réttir honum hnífinn. Svo fer hann úr óhreinni skyrtunni og í ljós kemur álíka óhreinn nærbolur. Svo þurrkar hann sér á þurru hlutunum. Peeta brosir og hellir brennivíni yfir hníf Haymitch úr flösku á gólfinu. Hann þurrkar af blaðinu á skyrtulafinu sínu og sker brauðið. Peeta sér okkur öllum fyrir nýbökuðu brauði. Ég veiði. Hann bakar. Haymitch drekkur. Við gætum þess öll að hafa nóg að iðja, hvert á sinn hátt, til að bæla niður allar hugsanir um tímann sem við vorum að keppa á Hungur leikunum. Peeta lítur ekki einu sinni á mig fyrr en hann hefur rétt Haymitch endann af brauðinu. „Vilt þú eina sneið?“ spyr hann. „Nei, ég borðaði á Rabbanum,“ segi ég, „en þakka þér fyrir
19
samt.“ Röddin í mér er öðruvísi en hún á að sér, hún er svo formleg. Þannig hefur hún alltaf verið þegar ég hef talað við Peeta eftir að búið var að mynda ánægjulega heimkomuna og við gátum aftur tekið til við raunverulegt líf okkar. „Það var ekkert,“ segir hann stirðlega. Haymitch kastar skyrtunni í eina ruslahrúguna. „Brrr. Þið þurfið að ná upp heilmikilli hlýju áður en sýningin hefst.“ Þetta er vitaskuld rétt hjá honum. Áhorfendur eiga von á kærustuparinu sem sigraði á Hungurleikunum, ekki tveimur ungmennum sem geta varla horfst í augu. En ég segi bara: „Farðu í bað, Haymitch.“ Svo galopna ég gluggann, stekk til jarðar og geng yfir græna svæðið að húsinu mínu. Jörðin er orðin snæviþakin svo að fótspor mín sjást í snjón um. Ég stansa við útidyrnar til að þurrka vætuna af skónum áður en ég geng inn. Mamma hefur lagt nótt við dag að gera allt skínandi hreint fyrir myndavélarnar svo að ég má ekki spora fallegu gólfin hennar. Ég er varla komin inn fyrir þegar hún kemur á móti mér og grípur í handlegginn á mér eins og til að stöðva mig. „Bara róleg, ég fer úr þeim hér,“ segi ég og skil skóna eftir á mottunni. Mamma hlær, undarlegum, þvinguðum hlátri, og tekur veiðipokann, fullan af varningi, af öxlinni á mér. „Þetta er nú bara snjór. Var þetta góð gönguferð?“ „Gönguferð?“ Hún veit að ég hef verið úti í skógi hálfa nóttina. Svo sé ég manninn í eldhúsdyrunum á bak við mömmu. Strax og ég sé klæðskerasaumuð fötin og andlits drættina sem læknar hafa greinilega lagfært og gert lýtalausa
20
veit ég að hann er frá Kapítól. Eitthvað er að. „Þetta var nú líkara því að ég væri á skautum. Það er orðið flughált úti.“ „Það er kominn maður að hitta þig,“ segir mamma. Hún er einum of föl og ég heyri kvíðann sem hún reynir að fela. „Ég hélt þeir kæmu ekki fyrr en um hádegi.“ Ég þykist ekki taka eftir hvað hún er óstyrk. „Kom Sinna snemma til að hjálpa mér að taka mig til?“ „Nei, Katniss, það er –“ byrjar mamma. „Þessa leið, gerðu svo vel,“ segir maðurinn. Hann bendir inn eftir ganginum. Það er undarlegt að láta skipa sér fyrir á sínu eigin heimili en ég veit betur en að hafa orð á því. Um leið og ég geng af stað lít ég um öxl og brosi uppörvandi til mömmu. „Sjálfsagt einhver fleiri fyrirmæli varðandi ferð ina.“ Mér höfðu verið sendar alls kyns upplýsingar um ferða áætlunina og hvernig ætti að haga sér í hverju umdæmi. En meðan ég geng að vinnustofudyrunum, dyrum sem ég hef aldrei fyrr séð lokaðar, finn ég að hugurinn fer allur á ferð og flug. Hver er þarna? Hvað vilja þeir? Af hverju er mamma svona föl? „Gakktu inn,“ segir Kapítólmaðurinn sem hefur elt mig inn ganginn. Ég sný messingsnerlinum og geng inn fyrir. Ég finn undar lega samsetta lykt, af rósum og blóði. Smávaxinn, hvíthærður maður, sem mér finnst ég kannast eitthvað við, situr og les í bók. Hann lyftir fingri eins og til að segja: „Bíddu andartak.“ Svo snýr hann sér að mér og hjartað í mér drepur stall. Ég horfi í slönguaugu Snows forseta.
21