Stríð og kliður: Sverrir Norland

Page 1


(UPPHAF) Einu sinni, endur fyrir löngu, lenti ég í reynslu sem var algjör nýlunda fyrir mér á þeim tíma: fullkominni sköpunarstíflu. Ég var bjartsýnn og kappsamur – þetta var haustið 2016 – en nú gat ég skyndilega hvorki skrifað, teiknað né unnið úr nokkurri hugmynd. Ef ég spilaði á gítarinn minn plokkaði ég bara sömu stefin aftur og aftur, oftast í D-moll, „dapurlegustu tóntegund allra tóntegunda“, og konunni minni var tekið að blöskra andleysi mitt í eldhúsinu kvöld eftir kvöld: pastaskrúfur með engu. Ég hafði ekkert hugarflug lengur. Hvað amaði eiginlega að mér? Ég held að listsköpun verði alltaf að hefjast með einhvers konar lífsfögnuði (líka dapurleg list) og fljótlega rann upp fyrir mér hvers vegna ég var orðinn ófær um að sýna slíkan fögnuð í verki: ég var kominn með óbeit á mannkyninu. Arfleifð minnar stuttu ævi virtist vera gegndarlaus eyðing manna á lífríki jarðar og samt þrástöguðust leiðtogar þjóða og fjölmiðlar enn á þessu einkennilega orði sem rímar, kaldhæðnislega, við hamfarir. Ég lamaðist andlega. Til að hrista af mér slenið ákvað ég 7

StridOgKlidurB.indd 7

11/02/2021 14:44


að ekki væri lengur í boði að sitja heima eða á kaffihúsum og skrifa sögur – nei, ég yrði að gera eitthvað sem raunverulega skipti máli. Hvað gerir bókhneigð manneskja sem vill bjarga jörðinni og er á heimavelli í heimspekihugtökum frekar en verkfærakassa? Hún sækir í örvæntingu sinni um nám í flottustu háskólum heims. (Nema hvað?) Ég komst inn, meðal annars í auðlinda- og umhverfisfræði við Columbia-háskóla í New York (þar sem ég bjó á þessum tíma) og fékk brátt frá skólayfirvöldum fleðulegt bréf þar sem fram kom að ég væri snillingur, einn örfárra í heiminum með nógu vandaða heilastarfsemi til að ráða við námið hjá þeim, og hvort ég vildi nú vera svo vænn að leggja inn á þau 13 milljónir króna? Ehm, nei takk, skrifaði ég þeim og hætti við allt saman. Til að fá frið svo að ég gæti spáð í spilin flúði ég ásamt Cerise konunni minni og Ölmu litlu, sem nú var eins og hálfs árs gömul, til Mexíkó. (Nema hvað?) Þetta var veturinn 2018. Í nokkra mánuði keyptum við 17 krónu tacos af tannlausum níræðum konum í litlum fjallaþorpum og hugsuðum okkar gang. Vinkona ein kom okkur svo í samband við japanskan bónda sem ræktaði lífrænt grænmeti og allt í einu lognuðumst við út af örþreytt á kvöldin með kvak þúsund froska í eyrum, oft eftir eitt glas eða tvö af hrísgrjónavíni, í Toshigihéraði, hinum megin á hnettinum. Það var þar sem ég drap mig næstum. Sjáðu þetta fyrir þér: Hávaxinn skjannahvítur síðhærður sólbrunninn norrænn karlmaður í tilvistarkrísu brunar á stjórnlausum traktor niður hlykkjóttan sveitaveg í Japan og brátt verður augljóst að hann hefur misst vald á farartækinu. 8

StridOgKlidurB.indd 8

11/02/2021 14:44


Ó, nei, nú gerist það – ég dey! Skammt frá akrinum stóð hús aldraðra hjóna. Þau störðu óttaslegin á föla slánann geysast út í opinn dauðann á traktornum og æptu eitthvað sem ég skildi ekki. Ég hafði gleymt að gíra niður þegar ég hélt út á malbikaða veginn sem lá í hlykkjum og skrykkjum niður á við og varð sífellt krappari. Um leið og ég studdi fæti á bremsuna flaug ég af farartækinu. Ég hentist með armana eins og vindmylluspaða marga metra upp í loftið og stefndi út á hrísgrjónaakur hjónanna. Í endurminningunni gerist þetta í slow motion. Ég svíf í hringi og á eftir kemur traktorinn. Hann ber við sólu og varpar yfir mig dramatískum skugga sínum. Ég man að eftirfarandi þankar liðu um höfuðið á meðan ég sveif þarna um japanska sveitaloftið: Ókei, ég hef sennilega ekki hæfileika til að gerast bóndi. Ég er greinilega betri í að stýra penna en traktor. Ég neyðist því líklega – ef ég lifi þetta af – til að halda áfram að vera rithöfundur. (Fjandinn hafi það.) Um leið og ég hafði komist að þeirri niðurstöðu þaut titillinn á næstu bók í gegnum kollinn á mér: Stríð og kliður. Og svo varð allt svart.

9

StridOgKlidurB.indd 9

11/02/2021 14:44


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.