Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár
Myndir eftir Sigmund B. Þorgeirsson
Arndís Þó ra r i n sd ó t t i r 1
Arndís Þórarinsdóttir
Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár
Myndir eftir Sigmund B. Þorgeirsson
2
BÁL TÍMANS
Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár Texti © Arndís Þórarinsdóttir 2021 Myndir © Sigmundur B. Þorgeirsson 2021 Mál og menning Reykjavík 2021 Öll réttindi áskilin.
Gefin út í Reykjavík, bókmenntaborg UNESCO Kápuhönnun: Sigmundur B. Þorgeirsson Uppstilling kápu og umbrot: Emilía Ragnarsdóttir / Forlagið Letur í meginmáli: Parisine Plus Std 11 pt. Prentun: GPS Group, Slóveníu Bókin er gefin út í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Höfundur hlaut styrk frá Hagþenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, og Starfslaunasjóði sjálfstætt starfandi fræðimanna (styrktarnúmer: 2004-0124). Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem með ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar og útgefanda. ISBN 978-9979-3-4337-0 Mál og menning er hluti af www.forlagid.is
Forlaginu ehf.
3
Efnisyfirlit Upphafið ........................................ 5 Í kvenna höndum . . ......................... 15 Hólaskóli ...................................... 27 Loforð Magnúsar lögmanns ......... 39 Einnar sýslu virði . . ...................... 45 Árni ............................................... 57 Fallbyssuskothríð ........................ 71 Sjálfstæðisbaráttan ................... 83 Heimferð ....................................... 93 sögulok
.................................................... 103
Veruleiki og skáldskapur .......................... 112 Veraldarsaga og saga bókar ..................... 118
4
Upphafið um 1 3 3 0
g rumska þegar penninn snertir bókfellið í fyrsta sinn. Hlýjar hendur skrifarans fylla mig öryggi þegar hann dregur hvern stafinn á fætur öðrum á ljósan flötinn. Hann er að segja sögu. Hver lína segir mér eitthvað nýtt um fólk sem er löngu horfið. Hann skrifar um mann sem heitir Njáll og konuna hans sem heitir Bergþóra. Hann skrifar um besta vin Njáls, hann Gunnar, og konuna hans, sem heitir Hallgerður. Hann skrifar um börnin þeirra. Hann skrifar um bardaga og svik. Hann skrifar þangað til Gunnar og Njáll og Bergþóra eru öll dáin og ég er orðin margar blaðsíður. Þegar sögunni er lokið finnst mér ég skilja heiminn. Ég skil líka manninn. Skrifarann minn. Ég þekki hendurnar hans og ég þekki muldrið í honum, þegar hann grúfir sig yfir mig og pírir augun á gamla bók sem liggur ofar á púltinu. Þaðan hefur hann fengið þessa sögu. Söguna um Njál og Bergþóru og þau öll. Hann hefur verið í marga daga að skrifa þessa sögu.
6
Margar vikur, held ég. Alltaf situr hann við allan daginn þar til hann er farinn að píra augun og kveinka sér þegar hann réttir úr loppnum fingrunum. En nú hefur hann skrifað, hægt og vandlega, Og lýk ég þar Brennu-Njáls sögu og hann ætlar ekki að skrifa meira í dag. Sagan af Gunnari og Njáli hefur átt hug minn allan en nú þegar ég hef drukkið í mig orðin og atburðina og tilfinningarnar finn ég vakna forvitni um umhverfi mitt. Ég þekki púltið og ég þekki gluggaboruna og ég þekki lampann, en annað þekki ég ekki. Stundum marrar í þiljuðu gólfinu og það er moldarlykt í loftinu. Hér eru önnur púlt og aðrar bækur liggja á þeim. „Er einhver þar?“ spyr ég út í tómið. Ég sé blöðin á hinum púltunum bærast. „Nú, nú, sú stóra er bara vöknuð,“ segir eitt handritið. „Þá verð ég víst send heim í Skálholt,“ heyrist í bókinni sem liggur með mér á púltinu. „Hvað meinarðu?“ spyr ég. „Ég er hér bara í heimsókn,“ segir gamla bókin. „Ég geymi söguna af Njáli og sonum hans. Nú hefur hún verið afrituð í þig og ég fer aftur heim.“ „Á ég þá líka að geyma söguna af Njáli?“ spyr ég spennt. „Er það mitt hlutverk?“ „Ekki bara hana,“ segir gamla handritið. „Hann hefur víst gaman af sögum, höfðinginn sem pantaði þig. Hann vill stærsta sagnahandrit á Íslandi. Þú verður ekki bara bók, þú verður bókasafn. Príorinn hefur pantað handrit af öllu Íslandi til þess að afrita í þig.“
7
Fleiri sögur? Fleira fólk eins og Hallgerður, kona Gunnars, og Skarphéðinn, sonur Njáls? Ég fyllist eftirvæntingu. „Hvað er príor?“ er samt fyrsta spurningin sem ég ber upp. Þetta orð stendur hvergi í mér og ég þekki það því ekki. „Príorinn stýrir öllu hér í klaustrinu,“ svarar gamla handritið. „Klausturbræðurnir vinna svo verkin. Til dæmis að skrifa þau handrit sem héðan eru pöntuð.“ Í þann mund heyrist hátt hljóð og ég hrekk í kút. „Hvað var þetta?“ spyr ég skelkuð. Það skrjáfar í blöðum gömlu bókarinnar þegar hún lítur í átt að dagsbirtunni sem berst inn um gluggann. „Þetta eru bara kálfarnir,“ segir hún róleg. „Þeir eiga seinna að verða að blöðum í þig.“ Ég skima líka út um gluggann. Kálfarnir þvælast í kringum mæður sínar og líta ekkert út eins og bókarblöð. „Kálfskinn er besta efnið í bók, ef hún á að endast,“ segir gamla bókin. „Endast?“ spyr ég, því ég veit enn fátt um veröldina, þótt ég viti að það hafi verið níðingsverk að brenna Bergþórshvol. „Bók sem er mikið lesin getur eyðilagst,“ segir handritið. „Blekið dofnar, blöðin vinda upp á sig. Þú ert heppin að verða til hér. Fólkið kann til verka. Blekið er soðið úr góðum jurtum og skinnið er verkað þangað til það er næstum því hvítt.“ Eyðilagst. Ég er ekki einu sinni fullkláruð en orðið heltekur mig engu að síður. Ég vil ekki eyðileggjast. Ég hef hlutverki að gegna.
8
Einhver þarf að lesa mig. Fullt af fólki þarf að lesa mig! Ég er mikilvægt handrit, ég finn það í hverri síðu! Þá er hnussað á næsta púlti. Hátt. „Sögur,“ segir handritið þar. „Sögur sem þjóna engum tilgangi. Ekki skil ég að príorinn hafi tekið í mál að setja saman þessa vitleysu, þótt honum sé borgað vel fyrir það. Við hér ættum heldur að einbeita okkur að því sem skiptir raunverulegu máli.“ „Ekki hlusta á Jónsbók,“ hvíslar gamla bókin sem kúrir upp við mig. „Hún er lögbók. Þær taka sig stundum dálítið hátíðlega.“ „Njáll var lögfróður maður!“ segi ég. „Lögbækur hljóta að vera mjög mikilvægar.“ „Hlustaðu nú á mig,“ segir sú gamla. „Lögbækur geyma reglur um það hvernig heimurinn eigi að vera og hvað skuli gera þegar fólk hefur brotið af sér. En sögur af fólki, þær kenna mönnunum hvað er rétt og hvað sanngjarnt. Allir verða að vita það áður en þeir geta skilið lögbækur. Það skaltu muna. Þú gegnir líka mikilvægu hlutverki.“ „Sumar sögur þjóna tilgangi,“ segir ofurlítið handrit sem er líka verið að skrifa. „Kristilegar sögur af dýrlingum, til dæmis.“ „Ert þú kristileg saga af dýrlingi?“ spyr ég forvitin. „Ég segi söguna af heilagri Margréti og píslarvætti hennar er hún var gleypt af dreka en slapp samt lifandi úr kviði hans,“ segir litla handritið. „Vá!“ segi ég. „Það er rosalega spennandi!“ Bókin hnussar. „Sagan af Margréti er ekki skrifuð af því að
9
hún er spennandi heldur af því að Margrét var dyggðug og guðhrædd kona.“ „Ég skil,“ segi ég. „En þetta með drekann er samt mjög spennandi!“ Margrétar saga snýr upp á sig og hættir að tala við mig. Það er farið að birta og tveir klausturbræður koma gangandi og stilla sér upp við púltið mitt. Þetta eru skrifarinn minn og hann Kolbeinn sem er svo góður að teikna skrautlega stafi. Víða hefur skrifarinn minn skilið eftir eyður sem Kolbeinn mun svo mála fallega upphafsstafi í, nú þegar sagan hefur öll verið rituð. Nú velta þeir fyrir sér hvað taki við. „Ég legg til,“ segir Kolbeinn, „að við höfum Gauks sögu strax hér á eftir. Svo bindum við Njáls sögu og Gauks sögu saman og byrjum á nýrri bók, með sögu Egils Skallagrímssonar. Hinar sögurnar geta svo komið allar í þriðja bindinu. Þetta verður allt of þykkt ef allar sögurnar verða í einni bók.“
10
Skrifarinn minn samsinnir. „Við höfum samt ekki Gauks sögu hjá okkur,“ segir hann hægt. „Það er auðleyst!“ segir Kolbeinn. „Þú skilur bara eftir pláss. Príorinn fær Gauks sögu lánaða. Hann Ásgrímur á hana. Þangað til getur þú byrjað á Egils sögu.“ „Mér finnst samt Egils sögu-handritið okkar ekki nógu gott,“ muldrar skrifarinn minn. Hann er nákvæmur maður og vill að hlutirnir séu í lagi. „Það hefur verið stytt of mikið. Það vantar í það vísur. Ég veit að eintakið á Munkaþverá er betra. En það fæst ekki að láni.“ Ég gleðst yfir óánægju hans. Hann vill að ég verði eins vel gerð og hægt er. „Við ráðum fram úr því,“ segir Kolbeinn, léttur í bragði. „Ég veit að þú kannt söguna vel. Þú veist hvar vísurnar hafa verið felldar úr. Skrifaðu söguna eins og þú veist hana réttasta og hafðu eyður þar sem vísurnar eiga að vera. Svo sendum við handritið rakleitt á Munkaþverá og bróðir minn þar fyllir í götin. Það hlýtur að ganga, þótt ekki hafi þeir viljað senda okkur handritið hingað!“ Okkur skrifaranum mínum líst ekkert á þetta. Senda mig að heiman? Hluta af mér? En við skiljum að stundum þarf að gera eitthvað sem manni er óljúft. Hann Njáll mátti nú aldeilis reyna það. Svo hverfur gamla handritið af Njáls sögu af púltinu mínu og þangað kemur ný saga. Skrifarinn minn byrjar að afrita Egils sögu Skallagrímssonar. Hún er allt öðruvísi en sagan af Njáli og sonum hans! Ég drekk í mig blekið og orðin, allt þetta fólk sem var til fyrir
11
mörg hundruð árum en er samt svo raunverulegt. Hvað svo? spyr ég skrifarann minn í hvert sinn sem hann staldrar við og hann brosir út í annað. Öðru hvoru finn ég að fjaðurstafurinn lyftist frá blaðinu, færist nokkrar línur niður síðuna, og heldur svo áfram. Þarna eru eyðurnar sem þarf að fylla inn í og minna mig á ferðalagið sem ég á fyrir höndum. Hún er einkennileg, tilfinningin, þegar þessi nýi hluti af mér er sendur burt og sá gamli verður eftir. Ég er á tveimur stöðum í einu. Mér er pakkað í kistil sem er reyrður á hest. Ég veit margt um hesta. Í sögunum mínum láta höfðingjar hestana sína stundum slást í hestaötum. Stundum fælast þeir líka og hlaupa jafnvel yfir menn sem þeir sjá ekki. Ég hef samt aldrei áður fundið lyktina af hesti eða fundið hann hreyfa sig. Þeir eru kátir, piltarnir sem fara með mig að Munkaþverá. Þeir eru að sendast með eitthvað fleira en mig. Það er kalt í veðri, bjart og mér heyrist á þeim að útsýni sé mikið til allra átta. Ég þekki mig illa hér um slóðir. Sögurnar mínar gerast báðar sunnar á landinu. Á Munkaþverá er mér vel tekið. Ég blæs upp af stolti þegar munkarnir þar þyrpast í kringum mig. Skrifarinn minn er greinilega þekktur hér og þeim finnst mikið til um mig. „Tveir dálkar!“ „Á virkilega að safna öllum þessum sögum?“ „Þessi verður lesin lengi!“ segja þeir, og ég trúi þeim. Þeir benda og strjúka og velta mér fyrir sér. Að endingu er ákveðið hver þeirra skuli skrifa inn vísurnar sem vantar í Egils sögu. Hann er gamall, skrifarinn sem tekur að sér verkið.
12
Hann letrar vísurnar með grænleitu bleki og hann vandar sig við verkið. Skrifarinn minn verður ánægður með það. Sumar eyðurnar tekst þó ekki að fylla. Langt kvæði Egils um besta vin sinn, Arinbjörn, er til dæmis ekki til hér. Daginn eftir geta piltarnir úr klaustrinu mínu haldið til baka. Þeir hlæja og gantast þegar þeir pakka niður í kistlana. „Hefur þú pláss hjá þér?“ spyr sá ljóshærði sem hafði mig hjá sér á leiðinni hingað. „Já!“ segir sá rauðhærði og stingur mér í kistil. Auðvitað spyr mig enginn hvar ég vilji vera. Ég hafði vanist mínum ljóshærða knapa og jarpa hestinum hans.
13
Það er myrkur í kistlinum mínum og ég hlusta lítið á samræður félaga minna fyrr en ég heyri hófatakið breytast. Þá veit ég að nú er komið að hættulegasta kafla ferðarinnar – þeir eru að ríða yfir ísi lagða á. „Þetta var leikur einn!“ hrópar sá rauðhærði og hinn rekur upp gleðióp svo bergmálar í fjöllunum yfir því að hafa sloppið yfir ísinn. Þeir eru þó ekki alveg komnir í land, því enn heyri ég skeifurnar skella á ísnum. Þeir hafa líka fagnað of snemma. Af því svo heyri ég hann. Brestinn. Bæði menn og hestar reka upp vein. Ísinn hefur gefið sig, líkt og jörðin undir Þangbrandi biskupi í Njáls sögu. Ég heyri ísinn brotna og menn og skepnur brjótast um á meðan ég skoppa í kistlinum. Að endingu er þögn. Ekkert heyrist nema þungur andardráttur hestsins og lág ekkasog frá rauðhærða knapanum. Eftir heila eilífð fer hesturinn aftur af stað. Og nú heyri ég bara hófatak í einum hesti. Þegar við komum heim í klaustrið segir sá rauðhærði söguna. Um það hvernig hestur og maður hurfu undir ísinn og komu ekki upp aftur. Nú mun ljóshærði pilturinn aldrei gera neitt fleira í lífinu. Hann mun aldrei verða mikill maður eins og þeir sem sögurnar í mér fjalla um. Skrifarinn minn sækir mig þegjandi í kistilinn. Það er þungt yfir öllum á ritstofunni.
14
Þegar ég er aftur komin á púltið mitt hugsa ég um það hversu naumlega ég slapp. Hve litlu mátti muna að ég væri í hinum kistlinum og væri núna djúpt undir ísnum. Á morgun mun skrifarinn minn halda áfram vinnu sinni. Enn eru margar sögur óskrifaðar.
15