Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínvervudóttur, brot úr bókinni

Page 1

ENGLARYK

Guðrún Eva Míner vudóttir

„Guðrún Eva er einn okkar frjóasti og frumlegasti höfundur og hefur einstakt lag á því að sýna samskipti fólks í nýju og óvæntu ljósi.“ Friðrika Benónýs / Fréttablaðið (um Allt með kossi vekur)

ENGLARYK

Englaryk er sjöunda skáldsaga Guðrúnar Evu. Hún hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir þá síðustu, Allt með kossi vekur.


Mér finnst þetta bara tilgerðarlegt, sagði Anton og bergmálaði þannig skoðun foreldra eins vinar síns. Þetta var í fyrsta sinn sem hann tók sér þetta orð í munn og þótt hann væri ekki nema átta ára, að verða níu, hafði hann þó nokkurn skilning á hvað það þýddi; að það hafði eitthvað að gera með homma sem létu of hommalega, snobbaðar frúr sem voru stífar í framan, listamenn sem bjuggu til list sem enginn skildi. Mér er alveg sama um þetta, svo sem, en mér finnst hún vera tilgerðarleg, endurtók hann. Honum var þó greinilega allt annað en sama; örvæntingin skein úr svipnum og því hvernig hann sat, allur í keng. Hvernig sem hann reyndi gat hann ekki verið jafn svalur og eldri systkin hans tvö sem hvort á sinn hátt höfðu komið Snæfríði á óvart. Sigurbjartur virtist bæði hógvær og sjálfsöruggur, sjálfum sér nægur, ábyrgur og vænn. Hann var á hæð við föður sinn og röddin þegar orðin stöðug og djúp. Alma reyndist síðan vera – öfugt við ummæli Antons litla – fullkomlega hófstillt. Að minnsta kosti við fyrstu sýn. Klæðaburðurinn alveg eftir bókinni og eins og tíðkaðist hjá hennar aldurshópi; virðuleg og litlaus fullorðinsföt sem fengust gegn vægu verði hjá alþjóðlegum verslanakeðjum. Að undanskildu einstaka hliðarspori stúlknanna yfir í stíl sem áður hefði þótt ögrandi, jafnvel dræsulegur, en þótti nú ekkert tiltökumál eða í mesta lagi svolítið retró, eftir að klám varð svo sjálfgefið að það fór eiginlega úr tísku. Alma var líkamlega bráðþroska, í meðal23


lagi há með sítt ljósbrúnt hár sem hún greiddi í tagl hátt aftan á höfðinu. Ennið var kúpt, augun gráblá og svipurinn opinn og ákveðinn. Eldri bróðir hennar var svo snyrtilegur, með hvítan skyrtukragann upp úr tíglóttri peysunni, að faðir hans leit út eins og uppreisnargjarn unglingur við hlið hans, með sína úfnu frönsku liði og í svörtum en gránandi síðermabol. Jórunn var sú eina sem lét sig vanta á þennan fyrsta fund með fjölskylduráðgjafanum. Hún gat, að eigin sögn, ekki fengið sig lausa úr vinnunni sem hannyrðakennari grunnskólans í Stykkishólmi. Þú segir það, sagði Snæfríður og beindi orðum sínum til Antons. En hvað er tilgerð? spurði hún og svaraði sér sjálf: Tilgerð er það að draga ekki aðeins að sér áhrif úr eigin menningu og tíðaranda heldur líka úr óvæntum áttum. Hún lagði frá sér pennann og blokkina og stóð á fætur, tók sér stöðu fyrir aftan stólinn, spennti greipar og lét þær nema við hökuna. Sérkennileg líkamstjáning sem Pétri varð starsýnt á. Hann dró af henni þá ályktun að Snæfríður tilbæði vitsmunalegt tal af þessu tagi, líkt og faðir hans hafði gert, heilaga skilgreiningu hugtaka og nákvæmnislegar málalengingar. Frumlegir og forvitnir unglingar eru einmitt oft sakaðir um tilgerð því um leið og söguvitund þeirra eykst og vitneskja um heiminn verða þeir fyrir áhrifum og nota kannski orðalag sem þeim þykir flott en hljómar óeðlilega í nútímanum, sagði hún. Þeir klæða sig þá öðruvísi en aðrir eða finna sér áhugamál sem koma öðrum spánskt fyrir sjónir. Heh! heyrðist í Pétri. Ég var sjálf óskaplega tilgerðarleg, hélt Snæfríður áfram og tyllti höndunum á stólbakið. Ég gekk með vasaúr í keðju öll menntaskólaárin. Og nóbelskáldið okkar, Laxness, var tilgerðar24


legasta ungmenni sem sögur fara af. Ég myndi segja að tilgerð hafi á sér óþarflega slæmt orð, ólíkt sérviskunni, en samt eru þær hér um bil það sama. Það má kannski segja að tilgerð sé verðandi sérviska. Bernsk sérviska. Anton kinkaði ringlaður kolli og fann dálítið til sín. Hann var ekki vanur því að vera tekinn svona alvarlega, að eitthvað sem hann sagði væri haft sem grundvöllur að umræðu sem þó snerist ekki um að betra hann sjálfan. Ég skil þig ekki alveg, sagði Sigurbjartur. Hver er þá munurinn á tilgerð og sérvisku? Snæfríður sleppti stólbakinu og gekk út að glugganum. Þetta var ávani sem þau áttu oft eftir að verða vitni að á komandi vikum og mánuðum. Hún sneri sér við og sagði: Ég myndi segja að tilgerð væri eitthvað sem við mátum við okkur en sérviska væri samofin persónu okkar. Alma sat þögul undir þessu. Hún var ekki það sem geðlæknastéttin kallaði mótíveruð en hún virtist heldur ekki ætla að vera með neinn mótþróa. Hún sat teinrétt í leðurhægindinu, eilítið upphafin á svip og Snæfríður sá eftir því að hafa beðið þau að mæta öll saman. Hún hefði átt að byrja á að tala við Ölmu, síðan móður hennar og þá fyrst verið reiðubúin að mæta öllu klaninu. Eins og sakir stóðu hafði hún heldur fátæklegar hugmyndir um hvað málið snerist og það fór auðvitað ekki fram hjá þeim, sérstaklega ekki Ölmu sem leyfði lækninum bara að rausa. Snæfríður gat vel skilið að hún væri að gera föður sinn brjálaðan. Áður hafði hún vafalaust dáð hann og jafnvel óttast svolítið en var nú búin að skipta honum út fyrir annan stærri og sterkari. Henni komu í hug viðvörunarorð Boulangers gamla um að láta ekki eftir sér að líta á skjólstæðinginn sem andstæðing. Geðlæknir og sá sem er til meðferðar hata hvor annan, hafði Bou25


langer sagt í einni af þrumuræðum sínum sem nemendur hans höfðu af svo mikla skemmtun: Þeir verða að hata hvor annan, annars virkar meðferðin ekki, en góður geðlæknir er ALLTAF, öllum stundum, meðvitaður um þessa háskalegu dýnamík og hefur sig yfir hana. Hún bað föðurinn og bræðurna að hinkra frammi á biðstofu á meðan hún ræddi einslega við stúlkuna. Þau stóðu öll upp nema Alma. Sigurbjartur tók í hönd Snæfríðar. Það var fínt að hitta þig en ég kem ekki aftur, sagði hann. Pétur ræskti sig. Þetta er ykkar vandamál, sagði Sigurbjartur og horfði stíft á Pétur sem leit á Snæfríði og spurði: Þarf hann að koma aftur? Ekki ef hann vill það ekki, svaraði Snæfríður. Hún lokaði ekki fyrr en þeir höfðu komið sér fyrir á biðstofunni og Pétur litið spyrjandi á hana upp úr tímariti sem hann hafði gripið af handahófi. Þá sneri hún sér aftur að stúlkunni og fann um leið til ótta, líkt og henni hefði verið fleygt fyrirvaralaust í próf eða upp á svið. Hún hafði enga hugmynd um hvað hún átti að segja; ekkert í menntun hennar eða reynslu hafði undirbúið hana fyrir Ölmu. Geðlækningar gengu jú um margt út á að takast á við afleiðingar ofbeldis og vanrækslu. En núorðið var fólk farið að vanda sig svo ákaft við að ala upp börnin sín og oft var eitthvað allt annað sem amaði að, eitthvað sem enginn kunni almennilega að bregðast við. Kollegar hennar úti í heimi skrifuðu um þetta lærðar greinar sem henni þóttu skondnar þar til hún fékk að reyna þetta á eigin skinni. Það færðist í aukana að unga fólkið sem hún fékk inn á gólf til sín væri lamað af ofrækslu en það átti heldur ekki við um þessa stúlku, enda var hún utan af landi – sveitabörn fengu enn að ganga svolítið sjálfala, reka sig á og finna sér farveg, án hvatningar og leiðbeininga við hvert fótmál. 26


Hún tók skrifblokkina og pennann og sett ist aftur. Alma var komin úr skónum og hafði dregið hafmeyjarlega undir sig fæturna svo að hnén slúttu fram af sessunni. Veistu hvers vegna þú ert hér? spurði Snæfríður. Já, svaraði hún og dró teygjuna úr hárinu svo að það féll laust um herðarnar, renndi henni síðan rauðri og glitrandi upp á úlnliðinn. Og hvers vegna er það, ef ég má spyrja? Vegna þess að ég segi sannleikann. Sannleikann um hvað? Um að ég hitti Jesú. En hann kom til mín, ég gat ekki að því gert. Mamma hefur alltaf sagt að ég ætti að segja frá öllu og segja satt en núna má ég það allt í einu ekki. Samt segi ég bara það sem ég veit að er satt. Ég veit til dæmis að þú ert barn ástarinnar og gleðinnar. Af því að við erum það öll. Þetta hljómar afskaplega vel, sagði Snæfríður. En þú trúir því ekki? Breytir það einhverju fyrir þig hvort ég mótmæli þér eða samþykki það sem þú segir? Hvað meinarðu? Hvort það setji blett á trú þína eða styrki hana. Hvort þú munir neita að koma hingað á stofuna til mín ef ég er ósammála þér. Nei, svaraði Alma eftir stutta umhugsun. Jesú talaði við mig, hvort sem þið eruð sammála því eða ekki. Ég hitti hann. Það er ekki hægt að stroka út það sem er búið að gerast. Nægir það þér þá að ég samþykki rétt þinn til að tala á þessum nótum? Að ég hlusti án þess að dæma? Alma grandskoðaði teygjuna á úlnliðnum á sér áður en hún renndi henni fram af hendinni og festi hárið aftur upp í tagl af hraðri fimi. Já, já, svarði hún. En ég bað ekki um að fá að koma hingað. Mér líður ekkert illa. 27


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.