ÞÓRARINN LEIFSSON
S K Á L D Æ V I S A G A Ég flakkaði suður á veturna og norður á sumrin. Settist upp í bíla hjá ókunnugum og lét þá ráða hvert ég færi. Eða tók lest án þess að kaupa miða. Skipti ekki máli hver endastöðin var. Bara að ég hreyfðist. Kæmist sem lengst í burtu.
Í klóm lögreglunnar NÓVEmbER 1985, RONDA
Mjólkurkaffi og 103 brandí innan seilingar og ég nokkuð ánægður með sjálfan mig. Horfði á barþjóninn hella í glasið meðan hann opnaði og lokaði munninum hljóðlaust. Hægt látbragðið og sérkennilegur kækurinn leiddu hugann að gúbbífiski. Herra gúbbífiskur var að gefa mér eld í sígarettuna þegar einhver klappaði á öxlina á mér. „Komdu!“ sagði ókunnug rödd, rólega en ákveðið, á spænsku. Ég leit yfir öxlina. Löggan virtist hafa líkamnast úr reyknum á barnum. Ég svaraði engu heldur seig varlega
7
niður af stólnum, greip tuðruna og elti þjón réttvísinnar út á bílaplanið um leið og ég velti fyrir mér hver í dauðanum hefði sagt til mín. Við gengum beint í flasið á tveim félögum hans sem beindu að mér vélbyssum. Mér var umsvifalaust skellt með magann upp að bíl eins og í lélegri bíómynd. Ein löggan leitaði í vösunum og fann aleiguna: tvö hundruð peseta seðil og tíu sígarettur. Svo sneru þeir mér við. Sá sem hafði sótt mig inn á barinn hélt á skammbyssu sem hann stakk ákveðið í magann á mér þannig að ég hrasaði afturábak að bílnum. Hinir tveir munduðu vélbyssurnar, við öllu búnir. „Nombre?“ gjammaði löggan með byssuna. Furðulegt hvernig heilinn í mér virkaði. Stundum skildi ég heilu setningarnar á portúgölsku og spænsku, svo gat eitt lítið orð hökt í þýðingarvélinni í hausnum á mér og stöðvað allt – eins og prik í tannhjóli. Óttinn bræddi endanlega úr vélinni: Nombre? Hvað í fjandanum þýddi nombre? Átti ég að segja eitthvert númer? Kannski var þetta andstyggilegt afbrigði af rússneskri rúllettu. Hann myndi skjóta mig ef ég segði vitlaust númer. Ég gjóaði augunum niður á byssuna. Venjuleg sexhleypa eins og götulöggurnar báru. Máð trésköftin gægðust yfirleitt aftan úr þeim á barnum, eins og þeir væru með rotna banana í rassvösunum. Svitinn spratt fram á ennið þrátt fyrir kuldann. Spænskan mín var ekki upp á marga fiska þótt ég væri farinn að skilja ýmislegt. En nú reið á að bjarga sér. 8
„Jo … nó …“ byrjaði ég og sigldi í strand. Setningarnar vildu ekki út úr mér. Byssumaðurinn glotti illkvittnislega. Þetta var glott fertugs manns sem hefur tækifæri til að skjóta nítján ára ungling í magann eftir tuttugu ár í löggunni í afskekktu skítaskuði. Loksins á uppleið. Hann benti með vinstri hendi á bringuna á sér meðan hægri þrýsti byssunni lengra inn í naflann á mér. „Ég er Visente!“ Síðan benti hann á mig: „Tu nombre?“ Auðvitað! Nombre þýddi nafn. Ekki númer. Mér létti örlítið. Ég fann hvernig slaknaði á kjálkunum og brakaði í minnisstöðvunum. „Þórarinn Leifsson!“ tafsaði ég. Byssumaðurinn varð hvumsa og slakaði örlítið á byssuhendinni. „Documentos?“ Þetta orð skildi ég og rétti honum passann ofurvarlega úr innri vasanum á leðurjakkanum þar sem hann var ennþá eftir að lestarþjónninn hafði fengið að líta í hann áður en mér var hent út úr lestinni. Eins gott. Guð má vita hvað hefði gerst ef ég hefði þurft að teygja mig ofan í buxnastrenginn í leyniveskið eins og venjulega. Byssumaðurinn hefði fengið frábæra ástæðu til að skjóta mig. Hann hélt passanum upp að andlitinu með hægri hendinni meðan sú vinstri beindi hólkinum að mér. Nokkuð kæruleysislega, líkt og byssan væri leikfang en ekki hættulegt vopn. „Hu? Ísland? Hvað er nú það? Porarinn … Leifsson?“ Ég ansaði ekki, löngu orðinn vanur því að Spánverjar læsu þorn sem pé. 9
Mennirnir með vélbyssurnar fóru að ókyrrast. Tvístigu eins og vonsviknir veiðihundar. Ég var ekki alveg nógu hættulegt eintak. Annar þeirra opnaði bíldyrnar með lausu hendinni og teygði sig eftir talstöð. „Heyrðu, Visente. Eigum við ekki að hringja niður á stöð?“ Þetta skildi ég vel. Visente dæsti eins og frekur krakki sem er truflaður við leik. Tók við tækinu með semingi og þjösnaðist á takkaborðinu með þumalputta. Vægt suð heyrðist um leið og hann lyfti tækinu upp að kinninni og gelti inn í tólið: „Foringi! Við erum með grunsamlegan einstakling hérna. Gæti verið sá sem leitað er að. Skipti!“ „Ertu að meina liðhlaupann sem Kana… fíflin …“ ansaði þreytuleg rödd við undirleik suðsins í talstöðinni. Það voru einkennilegar þagnir inn á milli. „… voru að lýsa eftir? Talar hann … spænsku? Skipti!“ „Nei, foringi. Þykist að minnsta kosti ekki gera það. Gæti verið Kani.“ Auðvitað talaði ég ekki spænsku, eða íslensku ef því var að skipta, með hlaðna skammbyssu fyrir naflastreng. „Geturðu lýst honum fyrir mér?“ „Ljós yfirlitum, aðeins meira en meðalmaður á hæð, í gallabuxum, leðurjakka og strigaskóm sem eru við það að detta í sundur. Hann er með svefnpoka í töskudruslu; eitthvað af skriffærum, bókum og eins konar teikniblokk. Umrenningur, eða þykist vera það. Já og svo er hann snoðaður. Var ég búinn að segja það? Eins og hermaður. Skipti.“ 10
Daginn áður hafði ég farið til hárskera sem angaði af Óld spæs. Karlinn rúði af mér hárið og rakaði skeggið með gamaldags rakhníf sem hann brýndi á breiðu svörtu belti. Megnið af peningunum mínum fór í þessa dillu. „Hu…“ malaði röddin í talstöðinni. „Gæti verið annar liðhlaupinn. Hvað með vegabréfið? Er það í lagi? Skipti.“ „Já, ég held það. Íslenskt vegabréf. Skipti.“ „Ís… hvað?“ „Íslandía. Skipti!“ „Visente! Í guðanna bænum! … krrr … Hvaða asnastrik … eru nú þetta? Skipti!“ Það var eins og vélbyssumennirnir hefðu verið að bíða eftir þessari athugasemd. Þeir öxluðu hólkana tvíræðir á svip. Sá sem hafði rétt Visente talstöðina glotti skakkt út í annað, hinn hristi hausinn. „En foringi,“ emjaði Visente. „Hann er afar grunsamlegur. Skipti.“ Smástund leið áður en röddin svaraði, þreytulegri en áður: „Heyrðu mig nú … krrr … komdu með helvítið niður á stöð. Við skulum athuga hann betur. Skipti!“ Lögreglubíllinn ók ýlfrandi um rafmagnslausa borgina, blá ljósin blikkuðu frekjulega inn um glugga á búðum og veitingahúsum. Ég taldi í mig kjark til að spyrja lögguna sem sat við hliðina á mér um rafmagnsleysið. Þetta var unglingur, ekki mikið eldri en ég. Hann yppti öxlum áður en hann svaraði á bjagaðri ensku: „Þetta er ekki í fyrsta skipti sem rafmagnið fer hérna.“ 11