a R M a N N Ja K O B S S O N
ÞAU ÓTTAST MIG
∞ 1 ∞
Þau óttast mig. Með augun lukt heyri ég þau nálgast af lítt dulinni gætni. Síðan lýk ég þeim upp, hvessi glyrnurnar og gef frá mér eitthvað sem ég held að sé baul. Mér skilst á Finngeirsstaðafólkinu að í mér liggi ógnarraust, áþekkust ópi beint úr neðra. Hvað veit ég? Ég kann ekki tungu nautgripa þó að ég sýnist vera af því kyni. Hitt hef ég smám saman lært: að kveða við þannig að fólkinu á Finngeirsstöðum standi stuggur af hljóðunum. Það er rétt að vara þau við annað veifið, láta þau vita að ég er kominn hingað til að drepa. Dagarnir í fjósinu væru dauflegir ef ekki væri fyrir þennan leik og ánægjuna sem fylgir því að horfa á þau melta sannleikann en neita þó að trúa því sem blasir við. Það má lengi leika sér þannig: að vara fólk við og fylgjast síðan með ráðleysi þess. Vanmáttur þeirra er dægrastytting mín í skammdegissortanum. Kýr eru lítill félagsskapur fyrir elstu og vitrustu veruna í Álftafirði. Dungaður nautamaður hefur tekið eftir þessu: 7
Glæsir er alltaf einn, hefur hann sagt. Hann skeytir engu um hin nautin í fjósinu. Það er eins og hann sé af annarri tegund. Stundum eru nautamenn óhugnanlega skynugir. Ég er sannarlega af annarri tegund. Kýr eru óskemmtilegar skepnur. Mig grunar að allur dagur þeirra fari í að melta. Nautamaðurinn segir þær hafa fjóra maga. Það kom mér í opna skjöldu. Ég var aldrei við slátrun með heimafólki í Hvammi meðan ég lifði. Seinni konan mín var á hinn bóginn iðin við slíkt. Henni var margt til lista lagt þó að ég þyldi hana illa eftir fyrsta árið sem við vorum gift. En ég hefndi mín að lokum. Það hefði líklega dregið úr tilbreytingarleysinu að skilja mál þessara nautgripa. Ekki að þessar auðhumlur segi margt. Mestallan daginn tyggja þær og leysa vind. Því veldur væntanlega öll þessi magastarfsemi. Heil ævi sem snýst um það eitt að leysa vind. Og þetta á að vera heilagt dýr. Ég hef aldrei velt nautum neitt fyrir mér. Þau eru sögð skapill, stundum heimsk, stundum þrjósk. Ég verð ekki var við neitt af þessu. Þau eru löt og viðskotaill ef þau eru trufluð í iðjuleysi sínu. Annað veit ég ekki um nautgripi. Þið verðið að leita annað en til mín að fróðleik um naut. Og þó hef ég núna verið kálfur í fjóra vetur. En vitaskuld er ég ekkert naut. Ekki maður heldur. Ég er ekki einu sinni ég. Spurðu mig fremur hver ég var. Ekkert af þessu skil ég lengur. Þið skuluð ekki halda að skilningur manns á eigin tilvist glæðist eftir dauðann. Hann dofnar ef eitthvað er. Ég veit aðeins hver ég var og 8
þó varla. Ekki veitir af löngum vetrarnóttum í fjósi til að rifja það upp. Eitt veit ég þó. Ég veit til hvers ég er hérna. Ég er kominn hingað til að drepa. Það kann ég. Stundum talar fólk um öflugar afturgöngur. Það skilur fátt. Afturgöngur hafa ekkert afl nema til þess eins að tortíma og eyðileggja. Þær geta rænt lífi annarra en þær geta ekki veitt líf, hvorki sjálfum sér né öðrum. Afturgöngur skapa ekki. Þetta virðist mönnum torskilið. Margir halda að aðeins sumir séu skapandi. En allt fólk skapar. Það býr til börn, það býr til mat, það býr til alls konar smíðisgripi. Jafnvel þeir ónýtustu vinna við eitthvað. Sumir segja sögur, aðrir fara með kvæði. Sumir fá skrýtnar myndir á veggi. Gamalæra fóstran hans Þórodds bónda sem liggur í rúminu allan daginn skapar öðrum á heimilinu endalaus umræðuefni og skemmtan. Aðeins draugurinn getur ekkert skapað nema ótta hinna. Þau óttast mig en ekkert þeirra er nógu kjarkað til að viðurkenna það fyrir sjálfu sér eða öðrum. Kjarklaust fólk er gjarnan upptekið af því að leyna ótta sínum. Þeim mun blauðara, þeim mun minna lætur það á sér finna. En ég þekki lyktina, þekkti þefinn reyndar dável á meðan ég var enn í tölu lifenda. Enga lykt þekkir sá betur sem hefur starfað við skelfingu um langan aldur. Framliðnum er hún þó ennþá sterkari. Hún fyllir vitin í hvert sinn sem einhver heimamanna á Finngeirsstöðum kemur nálægt mér. 9
Nema hann. Ég finn engan óttaþef af honum. Getur verið að ótti hans sé lyktarlaus? Hvernig fer hann að því? Óttanum verður ekki stjórnað, hversu mjög sem reynt er. Þefurinn á að finnast. Ég ætti að þekkja hann. Ætli hann sé einfeldn ingur sem kann ekki að hræðast? Ég hef virt Þórodd Þorbrandsson fyrir mér á hverjum degi í næstum fjögur ár. Varlega, mjög varlega. Því að hann er sá sem gaf mér þetta nýja líf, hann ásamt Dungaði nautamanni. Það er vissara að ögra honum ekki svo rækilega að hann eigi engra kosta völ. Það er hættuspil að útrýma valkostum annarra. Manneskjur sem eiga engra kosta völ eru óútreiknanlegar. Að hinum sem eiga kosta völ má leika sér á ýmsa vegu því að það er lítill vandi að reikna þær út. Hegðun mannanna kemur mér ekki á óvart. Ég hef verið hér í heimi í rúma öld, fyrst rúma áttatíu vetur lifandi en síðan liðu mörg ár sem ég hef ekki tölu á; þá var ég dauður og þó ekki. Áður en ég hóf mitt nýja líf sem kálfurinn Glæsir. Ef ég þyrfti að kveða upp úr um það hér og nú, þá segði ég að Þóroddur óttist mig ekki. Ég sé engan ótta í augum hans þegar hann kemur og skoðar mig. Aðeins íbyggni. Ótta ætti ég nú að bera kennsl á, með alla mína reynslu í að vekja hann. Hann kemur í fjósið á hverjum einasta degi. Gera íslenskir bændur þetta yfirleitt? Aldrei sást ég í fjósinu í Hvammi. Ég hafði aldrei minnsta áhuga á kúm. Mér hefur hegnst fyrir það. Ætli núverandi ástand mitt sé framhald á bölvun guðanna? Það væri þeim líkt, þeim tröllum. Það hlægir mig að Íslendingar hafi nú kastað þeim í fossa og 10
falið þau í hellum. Látið fyrir róða þessar heiðnu óvættir sem hafa haft kynslóðirnar að leiksoppum allt frá dögum Ymis hins mikla. Þó að Hvítikristur reynist þeim varla betur. Ætli hann sé ekki Óðinn í nýju gervi og undir enn einu nafninu? Öll guð eru svikul. Guð eru eins og menn að því leyti. Þeim er ekki treystandi. Engu er treystandi nema tóminu sem bíður allra að lokum. Og þó. Einnig það hefur svikið mig. Í mínu tilviki lét það á sér standa. Nei, hann óttast mig ekki. Ég held fremur að hann elski mig. Það er engin óttalykt af honum en ég þekki lyktina af ástinni ekki jafn vel. Þessir kvenmenn sem ég átti elskuðu mig aldrei og þaðan af síður börnin sem þær þóttust hafa alið mér. Ekki unni sonur minn mér; það veit ég betur en ég kæri mig um að vita. Líklega var ég elskaður af móður minni en ég man þá tilfinningu ógreinilega. Endurminningin er dauf; hún er nánast horfin. Minningarnar verða smátt og smátt að engu, eins og allt annað. Það er annað sem ég hef lært á langri vist ofanjarðar en flestir neita að horfast í augu við: eyðingin er algjör. Hinir látnu lifa ekki í huga þeirra sem eftir lifa. Þeir lifa alls ekki, heldur hverfa. Nú eru allir horfnir sem ég sá á bernskuárum mínum. Hver einn og einasti. Ég þekki alls ekki það sem skín úr augum Þórodds Finngeirsstaðabónda þegar hann horfir á mig. Ég veit aðeins að það er hvorki uggur né ótti; frekar eitthvað sem líkist þrá. Eitt veit ég þó: hann er hinn góði andi Finngeirsstaða. Honum á ég líf mitt að launa. Ekki aðeins hefur hann gefið 11
mér þessar stundir sem hafa liðið síðan ég kom hingað og bjargað þannig lífi mínu, heldur er það líka honum að þakka að sumar þessar stundir hafa ekki verið jafn illar og myrkar og allar hinar. Einnig þannig hefur hann bjargað lífi mínu. Augu hans eru ástúðleg. Þegar hann er alvarlegur brosir hann samt. En best kann ég við þegar hann hlær. Hláturinn sprengist úr honum eins og korr úr helsærðum manni – en Þóroddur hlær vegna þess að hann lifir. Í dauðanum er enginn slíkur hlátur. Það ætti ég að vita. Hann er glettinn eins og ungmenni. Eini glettni stórbóndinn á Nesinu. Annars eru bændur hér brúnaþungir. Þeir ráða öllu og völdunum fylgir alvöruþungi. Aðeins hann virðist ósligaður af valdinu. Líklega var engin þörf fyrir hann í þessum mikla bræðrahóp. Þeir voru alls sex, Þorbrandssynir. Ég þarf líklega meiri tíma til að rifja upp hvað þeir hétu allir. Oft koma þeir Dungaður saman að skoða okkur gripina. Ég held að nautamaðurinn óttist mig ekki heldur. Mín tilgáta er að hann haldi að ég sé nautgripur. Líklega þekkir Dungaður nautin nógu vel til þess að vita að hann getur ekki þekkt þau. Milli manns og nauts getur aldrei ríkt neinn skilningur. Þeir eru rosknir menn sem hafa yndi af einföldum skemmtunum eins og að fara í fjósið einu sinni eða tvisvar á dag og ræða landsins gagn og nauðsynjar yfir baulunum. Þeir halda líklega að þeir séu einir. Þeir halda að enginn heyri tal þeirra. En ég heyri. Mennirnir halda margt og þeir halda sér í margt. En fyrr eða síðar rennur það allt úr greipum þeirra og þeir falla, falla. Niður í tómið. 12
Það er ekki gott að segja. Öðru hvoru skotra þeir augunum í átt til mín eins og þeir viti hver ég er. En þó geta þeir ekki vitað það. Mannfólkið hefur ekkert ímyndunarafl til að sjá fyrir sér að gamall langhorfinn granni hafi öðlast nýtt líf í líki kálfs. Jafnvel þótt menn gætu sér þess til hlytu þeir samstundis að bera brigður á eigin tilfinningu. Ekkert í kenningum Hvítakrists varpar ljósi á þvílíkt undur. Svo að ég viti. Raunar er ég lítt kunnugur himnakónginum og hans speki. Mér láðist að spyrja hann fregna af Jórsaladrottni áður en ég hjó af honum höfuðið, þennan eina munk sem ég hef sálgað. Það var snyrtilega gert; líklega eitt mitt besta víg. Ég get ekki hugsað til þess án þess að belja hátt af sigurgleði. Jafnvel við það tröllslega öskur hvika þeir ekki. Eru þeir svona óhræddir, báðir tveir? Þóroddur lítur aldrei niður. Ef marka má heimilisfólkið getur hann ekki litið niður án þess að í hálsinn hlaupi æðiverkur. Ég frétti að svona hefði það verið eftir bardagann í Vigrafirði; þá var ég dauður, afturgenginn, kveðinn niður en enn ekki tekinn að ganga aftur í annað sinn. Í þeirri rimmu fékk Þóroddur svo mikið sár aftan á hálsinn að hann hélt ekki höfði. Þegar sárið greri hallaðist höfuðið fram og hann krafðist þess að það yrði sett aftur. Síðan getur hann ekki litið niður sársaukalaust. Hann er dæmdur til að horfa fram á veginn, hvað sem bíður hans þar. Samt brosir hann ósnortinn. Bóndinn á Finngeirsstöðum hefur glímt við sársaukann og haft betur. Ég skil hvernig honum líður. Hef öðrum lengri reynslu af því að vera læstur inni í líkama sem er mér til ama. 13
Það ætti að hlægja mig að við Þóroddur urðum að lokum hvor sem annar. Hann með sinn háls og ég með minn fót. En hvernig sem á því stendur veitir það mér enga fró. Þegar hann kemur nálægt þefa ég af honum og sleiki klæði hans. Þá klappar hann mér. Sá kann að gæla við naut. Það er einkennilega notalegt jafnvel þótt þessi líkami sé ekki og verði aldrei minn; ég finn samt hversu vel hann klappar þó að ég finni sennilega aðeins dauft til þess unaðar sem sannur kálfur fyndi. Síðan horfumst við í augu. Augu hans eru dökk eins og myrkrið. Hver veit af hvaða skrælingjum þessir synir Þorbrands í Álftafirði eru komnir? Glæsir er orðinn mesti myndarkálfur, segir hann við Dungað. En horfir ekki á hann. Nei, hann horfist í augu við mig. Eða öllu heldur augu nautsins sem ég bý með. Eins og hann skilji allt. En hvernig gæti hann það? Það var mikil gæfa að við skárum hann ekki nýfæddan, bætir hann við. Ekki þykir fóstru þinni það, segir Dungaður. Nautamaðurinn er lágvaxinn og sver, dökkur yfirlitum. Hvikur sem ungmenni. Ekki man ég eftir honum á Finngeirsstöðum meðan ég bjó í Hvammi en á þeim dögum skeytti ég ekki um nautamenn. Ég gat ekki séð það fyrir að þeir yrðu í lykilhlutverki í lífi mínu. Fóstra mín er gamalær þó að oft hafi hún reynst sannspá forðum, segir Þóroddur. Mér stendur engin ógn af þessum kostagrip. Það hefði verið skömm að lóga honum, segir Dungaður. Hann er nú svo mikill sem tvöfalt eldri uxi. Verður holdugri með degi hverjum.
14
Konur skilja ekki búskap, sagði Þóroddur. Þær eru fullar af forneskju og tröllskap sem við höfum nú aflagt fyrir hið eina sanna guð, Hvítakrist. En ég fylgi ráðum Snorra fóstbróður míns sem segir jafnan: Ef við skelfumst ekki forneskjuna eyðum við henni, því að tröllskapurinn nærist á óttanum. Snorri goði er manna vitrastur, segir Dungaður. Ég hef aldrei hitt neinn honum djúpúðgari, segir Þóroddur. Ég hefði betur fylgt ráði hans forðum þegar ég lét setja höfuðið aftur. Höfuð þitt er þitt höfuð, segir Dungaður. Snorri hefði átt að taka af mér ráðin, sagði Þóroddur. Það hefði sparað mér mörg eymslin. Allt sér hann fyrir. Hann sá fyrir sigur Hvítakrists og hins nýja siðar, fyrstur manna hér á Nesinu. Og fáir unnu fleiri til fylgis við Maríuson en hann því að Snorri hefur lag á að vera jafnan þeim megin sem sigurinn er. Það vita allir og þess vegna fylgja menn honum gjarnan. Það er satt, segir Dungaður. Þið Þorbrandssynir hafið verið farsælir með hans fulltingi. Það er nú heldur. Við stóðum yfir höfuðsvörðum sjálfs Arnkels goða, hins mesta kappa sem Snæfellsnes hefur alið, segir Þóroddur. Þetta segir hann þó án belgings. Kannski finnur hann hin sönnu augu mín gaumgæfa sig á bak við deyfðarleg augu nautsins. Samræðurnar eru óvænt teknar að varða mig talsvert. Ekki mun mönnum þykja minna um vert, segir Dungaður, að þú bast enda á afturgöngur karls föður hans hérna um sumarið. Það var meira en Arnkell megnaði
15
sjálfur; Bægifótur lá ekki lengi kyrr þegar sonurinn var fallinn. Ég hræddist aldrei það tröll, segir Þóroddur. Ég fylgi Hvítakristi og óttast engar meinvættir. Þær heyra forneskjunni til. Þeir snúa báðir baki við mér. Vita ekki um hvað þeir tala. Bjargvættir mínar sem saman ákváðu að ég skyldi ekki skorinn þó að fóstran krefðist þess. Ég get ekki rannsakað svip þeirra; ég sé aðeins baksvipinn og hann veitir ófullnægjandi skilaboð um hjörtun og nýrun. En best gæti ég trúað að Þóroddur segði satt. Hann trúir sennilega á sigur Hvítakrists yfir forneskjunni. Það geri ég ekki.
∞ 2 ∞
Minn helsta óvin á bænum hef ég aldrei séð. Fóstran sú hin aldurstama kemur ekki í fjósið og sér aldrei nautin. En hún heyrir öskur nautsins. Þegar ég var borinn í annað sinn skildi ég ekki fyrst hvað hafði gerst. Ég hélt eitt andartak að ég hefði endurholdgast í líki manns. Það var ekki af ásettu ráði sem ég lét mig berast inn í þessa kú. Það eina sem ég vissi þegar þeir brenndu mig var að ég hugðist ekki hverfa þegjandi og hljóðalaust. Ég skyldi finna mér nýjan íverustað. Orðinn að ösku þótti mér í óðagotinu ég kominn inn í móðurlífið en ekki í kýrmaga. Vonbrigðin voru því allnokkur. Hvað getur kálfur afrekað? Maðurinn ræður 16
heiminum og naut hafa ekki sömu möguleika til að láta að sér kveða. Auðvitað kvað ég við hátt þegar það rann upp fyrir mér að þessi apalgrái griðungur sem Finngeirsstaðafólkið ræddi um fullt efa og óvissu væri enginn annar en ég. Ég leit við, sá þennan þykka ólánlega búk og skildi að ég væri á ný innilokaður í brynvörðum níðþungum líkam og þá gall ég við, án þess að fá nokkru um það ráðið. Engan grun hafði ég um að ég gæti gefið frá mér þvílík og önnur eins hljóð. Allir hrukku við. Húsfreyja varð föl sem gras. Aðeins Þóroddur bóndi sýndi engin merki þess að hafa heyrt hið tröllslega gól. Ég skildi strax þá að hér var kominn andstæðingur sem yrði ekki auðveldlega bugaður og einsetti mér að standa yfir höfuðsvörðum þessa manns. Þó að ég væri getulítill nautgripur. Ég átti þó ekki von á því að smám saman myndi mér falla best við hann af öllum lifandi mönnum sem ég hef hitt. Ég hafði verið snöggur að finna mér verk að vinna í þessum nýja ham en síðan læddist efinn hægt og rólega að mér og gerði sitt besta til að tæra viljann. Dungaður klappaði mér á síðuna og sagði: Þetta er kostagripur. Þá fnæsti ég af ískaldri hæðni en það skildu þeir ekki. Þeir skilja ekki grátt gaman þeirra vísu norna sem hafa skapað mér þessi örlög: að eyða heilli langri mennskri ævi sem ólögulegur maður. Gallaður. Til þess haltraði ég um heiminn í átta tigu ára að verða að lokum kostagripur af uxaætt. Bamlaður maður varð glæsilegt naut. Við verðum líklega öll að tröllum ef við lifum nógu lengi. Deyjum nógu illa. 17