„Ekki hægt að loka þessari bók.“ Der Spiegel
Hallgrímur Helgason
Konan við
1000° Herbjörg María Björnsson segir frá
Konan við 1000° Herbjörg María Björnsson segir frá ©Hallgrímur Helgason 2011 Kápuhönnun: Alexandra Buhl / Forlagið Mynd á kápu © Athina Strataki / Etsa / Corbis Ljósmynd af höfundi: Hari 2010 Umbrot: Einar Samúelsson / Hugsa sér! Letur í meginmáli: ITC Garamond 10,4/14 pt. Prentun: Oddi, umhverfisvottuð prentsmiðja Printed in Iceland JPV útgáfa · Reykjavík · 2011 Öll réttindi áskilin Bók þessa má eigi afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar og útgefanda. ISBN 978-9935-11-222-4 JPV útgáfa er hluti af www.forlagid.is
Forlaginu ehf.
Konan við 1000º er skáldsaga. Hún byggist að nokkru leyti á atburðum sem gerðust og fólki sem lifði og dó. Það skal þó áréttað að sagan er skáldskapur. Persónurnar Hans Henrik, Guðrún Marsibil og Herbjörg María eru skáldsagnapersónur. Höfundur biður lesanda að sýna kveikjum þeirra og fyrirmyndum nærgætni og blanda ekki raunverulegu hlutskipti þeirra saman við þau örlög sem hann hefur skáldað þeim. Sagnfræði er fræðandi saga. Skáldsaga er skálduð saga. - HH
1
ÁRGERÐ 1929 2009 Ég bý hér ein í bílskúr ásamt farandtölvu og gamalli handsprengju. Það er ósköp notalegt. Rúmið er sjúkrarúm en önnur húsgögn þarf ég ekki, nema klósett sem mér leiðist mikið að nota. Það er svo ári langt að fara; alla leið fram með rúminu og annað eins yfir í hornið. Via Dolorosa kalla ég veginn þann, sem ég má staulast þrisvar á dag eins og hver önnur gigtarvofa. Ég læt mig dreyma um að fá hingað bekken & þvaglegg en umsóknin er föst í kerfinu. Það er víða harðlífið. Hér er fátt um glugga en á tölvuskjánum birtist mér heimurinn. Póstar koma og fara og Fésbókin blessuð lengist sem lífið sjálft. Jöklar bráðna, forsetar dekkjast og fólkið grætur bíla og hús. En framtíðin bíður við farangursbandið, skáeygð og skælbrosandi. Já já, ég fylgist með því öllu af hvítri sæng. Hvar ég ligg eins og þarfalaust lík og bíð þess annaðhvort að deyja eða hún birtist með skammtinn sem framlengir lífið. Þær líta til mín tvisvar á dag, stúlkurnar frá Heimaþjónustu Reykjavíkur. Morgunvaktin er yndismær en síðdegisherfan er handköld bæði og andrömm, og tæmir öskubakka af tómri svipt. En láti ég aftur heimsaugað, slekk yfir mér lampaljós og leyfi haustmyrkrinu að fylla skúrinn, fæ ég greint þá frægu Friðarsúlu útum smáglugga hátt á vegg. Því nú er Lennon heitinn orðinn að ljósi uppi á Íslandi, líkt og skógarguð í ljóði eftir Óvíd, og lýsir 7
sundin svört um langar nætur. Ekkjan var svo elskuleg að stilla honum lóðréttum upp í mitt auga. Já, gott er að lúra við liðinn flamma. Auðvitað má segja að ég hírist hér í bílskúr eins og hver annar fornbíll sem lokið hefur sínu hlutverki og einhverntíma nefndi ég þetta við Gauja, en hann og Dóra eru hjónin sem leigja mér skúrinn á 65.000 Íslandskrónur á mánuði. Guðjón góður hló við og útnefndi mig Oldsmobile. Ég brokkaði inn á netið og fann þar mynd af Oldsmobile Viking árgerð 1929. Satt að segja vissi ég ekki að ég væri orðin svona fjári gömul. Hann var eins og örlítið kynbættur hestvagn. Ég hef legið hér í skúrnum ein átta ár og rúmföst allan tímann vegna lungnaþembunnar sem hefur fylgt mér þrefalt lengur. Ég má vart höfði snúa því minnsta hreyfing getur haft af mér andann svo liggur við köfnun sem er heldur óskemmtileg tilfinning, eða ami ógröfnum eins og sagt var í gömlu den. En þetta hef ég haft upp úr áratuga reykingum. Ég hef sogið sígarettur frá því vorið 1945 þegar sænskur vörtumaður kynnti mig fyrir þeirri dásemd. Og glóðin gleður enn. Súrefnisgleraugu voru mér boðin með tilheyrandi nasarörum og áttu að létta öndun en til að þiggja þann kút var mér uppálagt að láta af reykingum, „eldhættu vegna“. Mér var semsagt gert að velja á milli þeirra herramanna, Rússans Nikótíns og hins breska Oxygen lávarðar. Það var auðvelt val. Fyrir vikið dreg ég andann líkt og lestarvagn og klósettferðir halda áfram að vera mín dægrakvöl. En Lóu litlu rek ég þar glaða inn og nýt þess að heyra frá henni meybunið. Hún er aðstoðin mín. Heima í Svefneyjum var hellisskúti sem kallaður var Piltaskemma og hafði verið karlmannskamar um aldir. Leiðin þangað heitir Jarlakinn enda kallaðist það að flytja jarlinn að ganga örna sinna. Svona voru nú forfeðurnir fyndnir. Æ, ég veð úr einu í annað og eitt og annað í mig. Þegar maður hefur lifað heilt internet af atburðum, heilan skipsfarm af dögum, er lítil leið að sortera úr og muna eitt frá öðru. Það rennur allt í einn tímans graut. Annaðhvort man ég allt í einu eða ekki nokkurn skapaðan hlut. 8
O, jæja, það hrundi víst hjá þeim þjóðkerfið, blessuðum, nú er árið síðan. Hann Maggi minn fékk bankabrot í garðinn hjá sér, þræleflis bjarg í gegnum sólpallinn nýja og væna flís í framrúðu. En allt mun það víst huglægt vera. Hjúkkur og Dóra segja mér að borgin standi óbreytt eftir. Það sér víst ekki á Reykjavík, ólíkt Berlín eftir sitt hrun, hvar ég klöngraðist um í stríðslok, krakkans kona. Og veit ég ekki hvort er betra, að hrynja í raun eða á laun. En hitt veit ég að sjálfstraustið rauk úr Dundi mínum, eins og loft úr blöðru, við þessi ósköp öll, og var þó ekki mikið fyrir eftir að hans fyrrverandi hafði hamast á því við annan mann. Maggi vann í KB-bank og batt sitt gengi við logaflökt á tölvuskjá, eitthvert rauðlitað strik sem hann sýndi mér eitt sinn stoltur í bragði. Vissulega var það ekki bjarmalaust, og fallegt á við log í arni, en traust eftir því. Sjálf hafði ég tóma ánægju af Hruninu. Ég lá allt góðærið og lét græðgina í kringum mig hafa af mér allar fúlgur. Mér leiddist því ekki að sjá þær hverfa á bálið enda var mér þá loks orðið sama um peninga.Við eyðum lífinu í að leggja fyrir til ellinnar en síðan kemur hún og á sér enga eyðsludrauma, annan en þann að fá að míga liggjandi. Ég segi það ekki, sjálfsagt hefði verið gaman að versla sér þýskan pilt og láta hann standa hér hálfnakinn í kertaljósi og fara með Schiller fyrir aldrað koddaskass en nú er víst búið að banna alla holdverslun hér á landi, svo ekki þarf að sýta það. Ég á því ekkert nema nokkrar vikur eftir, tvö karton af Pall Mall, eina tölvu og eina handsprengju, og hef aldrei haft það betra.
2
FEU DE COLOGNE 2009 Handsprengjan er gamalt Hitlersegg sem mér áskotnaðist í seinna stríði og hefur fylgt mér yfir lífsins fljót og firði, gegnum öll mín hjónabönd súr og seig. Og hefði nú loks verið upplagt að nota 9
sér lífið án þess að eignast barn og hún vissi ekki lengur hvernig hún átti að halda áfram án þess. Þau voru búin að reyna allar náttúrulegar leiðir en annaðhvort náði eggið ekki að frjóvgast og festast eða þá að hún missti fóstrið á byrjunarstigi. Eftir átta vikur, eftir tíu vikur, eftir tólf vikur. – Því miður, sagði hjúkrunarkonan. – Það er enginn hjartsláttur. – Því miður, fóstrið er utanlegs. – Því miður. Hjartað hefur hætt að slá. Svarthvít mynd á skjá, engin hreyfing. Fósturlátin voru ástæðulaus. Óútskýrð endurtekin fósturlát. Það er til. Öll heimsins vítamín, algjör hvíld, dagleg hugleiðsla, fullkomið mataræði, ekkert dugði til að halda lífinu í þessum litlu fóstrum sem ekki náðu að vaxa og dafna. – Eins og að setja fræ í mold, sagði einn læknirinn. Það var engin huggun í því. Svana vorkenndi sér ekki. Hún var að vinna í málinu. Hún myndi finna leið. Hafliði vaknaði í fangaklefanum morguninn eftir með blóðið storknað í harða klessu á lærinu, buxurnar límdar við sárið. Um leið og hann hreyfði sig rifnaði ofan af og hann fann heitt blóðið vætla á ný. Hann kæmist ekki hjá því að fara upp á slysó. Fjandinn hafi það. Hann ætlaði að standa upp en verkjaði í fótinn. Lagðist aftur og hugsaði um strákinn. Máni var nýorðinn sjö ára. Þetta var smávesen, nú var það búið. Nú myndi hann standa sig.
10
væri lekkert að fara burt í búmmi og láta því eftir ryk og rúst til að sópast um eftir kjötflækjunum af mér. En þar til ég spring í loft upp leyfi ég mér að rifja upp líf mitt.
3
HR. BJÖRNSSON 1929 Ég fæddist haustið 1929 í ísfirskum blikkhjalli. Og var hengt á mig þetta sérkennilega nafn, Herbjörg María, sem fór mér ætíð svo illa, og sjálfu sér jafnframt. Hér blandaðist saman heiðnin og kristnin, líkt og olía og vatn, og slást þær systur í mér enn. Mamma vildi skíra mig í höfuðið á móður sinni Verbjörgu en amma mátti ekki heyra á það minnst. „Æ, farðu nú ekki að fara með barnið útí Sker.“ Að hennar sögn var verbúðarlífið bansans voslifnaður og bölvaði hún móður sinni fyrir að skíra sig í höfuð á þeirri skömm. Amma Verbjörg reri 17 vertíðir í Bjarneyjum og Oddbjarnarskeri, vetur, vor og haust, „í öllum þeim hlandgotuveðrum sem þeir hafa fundið upp í sævítinu sínu og var þó jafnan verra í landi“. Það var svo pabbi sem stakk upp á því, í bréfi vestur á Ísafjörð, að Verbjörg yrði Herbjörg, og ekki hefur mamma hatað hann meira en svo að hún hlýddi. Sjálf hefði ég kosið nafn langömmu minnar í móðurætt, hinnar miklu Blómeyjar Efemíu Bergsveinsdóttir úr Bjarneyjum. Hún var eina konan með því nafni í sögu Íslands þar til á tuttugustu öld að hún eignaðist loks nöfnur tvær, þá búin að liggja í fjarðarjörð í hálfa öld. Ein þeirra var veflistakona og bjó lengstum í skúrgarmi á Hellisheiði en hin Blómeyin dó frá okkur ung en lifir þó enn á innsta bæ í Augnbotnum og birtist mér stundum á skikanum sem skilur að draum og veru. Þá hefur Blómey lengi verið eftirlætis Breiðafjarðareyjan mín, þótt ekki hafi hún fundist enn. 11
Í raun ættum við að fá að skírast til dauðans eins og lífsins. Og fá að velja okkur nafn til að bera í útför og um eilífð á krossi. Alveg sé ég það fyrir mér: Blómey Hansdóttir (1929-2009). Í þá daga hét heldur enginn tveimur nöfnum en móðir mín, allsgáfuð og yndisleg, fékk vitrun rétt fyrir fæðingu mína: Guðsmóðirin birtist henni í fjallaskál handan fjarðar, sat þar á klettakolli og var um það bil 120 metrar á hæð. Því var nafni hennar bætt við mitt og varð sjálfsagt einhver blessun af. Að minnsta kosti hef ég lafað upp á þann lífsins tind sem rúmdómsellin er. Maríunafnið mildar hörku Herbjargar en þó efast ég um að ólíkari konur hafi deilt saman ævi. Önnur bjargaði her manns um það sem hin gaf sínum guði og engum öðrum. Dóttir fékk ég ekki að heita eins og þó er réttur allra íslenskra kvenna heldur varð ég son að vera. Föðurættin mín, ráðherruð og sendiherruð í bak og fyrir, hafði forframast erlendis, þar sem enginn skilur annað en ættarnöfn. Þannig festist gjörvöll ættin við höfuð eins manns; við urðum öll að bera föðurnafn afa Sveins (sem á endanum varð fyrsti forseti Íslands). Það varð til þess að enginn náði að skapa sér eigið nafn, og því urðu ekki fleiri ráðherrar eða forsetar í þeirri ætt. Afi náði á tindinn og okkar hlutskipti, barna hans og barnabarna, var að trítla urðina niður. Það er erfitt að viðhalda metnaði þegar fólk er á sífelldri niðurleið. En sjálfsagt kemur að því að við náum niður á láglendið og leiðin liggi aftur upp á við fyrir Björnsson-fólkið. Heima í Svefneyjum var ég alltaf kölluð Hera en þegar ég kom með foreldrum mínum í fyrsta sinn til föðurfjölskyldunnar í Kaupmannahöfn, sjö ára gömul, átti jóska buskan Helle erfitt með framburðinn og kallaði mig ýmist „Herre“ eða „Den Lille Herre“. Þetta fannst Puta frænda (Sveini föðurbróður mínum) alveg sérlega fyndið og kallaði mig aldrei annað en Herru upp frá því. Á matmálstímum naut hann þess að kalla mig til borðs: „Herra Björnsson, gjörsovel!“ Mér sveið stríðnin í fyrstu, því ég var drengsleg í útliti, en nafnið festist og ég vandist því smám saman. Þannig gerðist það að ungfrúin varð Herra. 12
Hún var ekki lítil athyglin sem ég fékk út á það í litla skemmtistaðnum við sundin blá er ég birtist heima eftir langa utandvöl á sjötta áratugnum, ung og strolandi dama með varalit og worldly ways, eins og svolítil Marilyn með átján herra til reiðar, og þetta nafn sem var nánast eins og sviðsnafn. „Meðal gesta var einnig Frk. Herra Björnsson, sonardóttir forseta Íslands, sem vekur athygli hvar sem hún fer, fyrir hispursleysi og heimsmannslegt yfirbragð, en Herra er nýkomin heim eftir langa dvöl í New York og SuðurAmeríku.“ Þannig varð ólánsnafn til nokkurs láns.
4
LÓAN 2009 O, jæja. Hér kemur hún Lóa mín, hið unga skarn. Eins og hvítblómstrandi dalrós utan úr morgunmyrkrinu. „Góðan daginn, Herra mín. Hvernig hefurðu það í dag?“ „Æ, vertu nú ekki að kvelja mig með kurtheitum.“ Það er vart farið að grána af degi. Og grár skal hann verða eins og allir hans bræður. Daggry segir danskurinn. „Ertu löngu vöknuð? Búin að kíkja á fréttirnar?“ „Æ, já. Þeir halda áfram að velta, hrunmolarnir …“ Hún tekur af sér úlpu, sjal og húfu. Og dæsir. Kaldur skal hann vera, útnárans bjáninn, og gott að hírast hér inni, ein í bílskúr með hárkollu fyrir húfu og tölvu fyrir ofn. Væri ég kynglaður og sálhreinn sveinn myndi ég gera það fyrir sjálfan mig að kvænast þessari stúlku. Því hennar er gæskan og blíðan. Og himneskur kinnanna roði. Þær svíkja víst ekki sem síroðann bera. Sjálf var ég svikaföl frá fyrstu byrjun og sit nú hér nágul með grákollu á kistuhvítum serk. Eins og gyðingur í gasleysi. „Ertu ekki orðin svöng?“ spyr Lóan mín um leið og hún kveikir ljósið í eldakróknum og gumar sínum goggi um hillur og skáp. 13
Það mun vera á stjórnborða að sjá frá mínu sængurbreiða fleyi. „Er það ekki bara hafragrautur eins og venjulega?“ Þetta segir hún á hverjum morgni, um leið og hún beygir sig inn í ísskápsstubbinn sem Dóra gaf mér og heldur stundum vöku fyrir mér með ísköldu murri. Það verður að viðurkennast að hún er eilítið breiðbotna, hún Lóa litla, með fætur á við fertuga birkistofna. Líkast til þess vegna sem hún hefur ekkert fengið upp á sig, gauið, og býr enn barnlaus í móðurhúsum. Hver skilur karlmenn, að láta þennan góðleik og fríðleik hjá sér fara? Og alla þessa sléttu mjúku húð. „Jæja, hvað segirðu þá? Hvernig gekk hjá þér um helgina? Fékkstu upp á þig?“ segi ég upp úr tölvukrafsinu og kasta mæði. Fyrir lungnaþembuþegann er þetta heillöng setning. „Ha?“ spyr hún með bláhvíta mjólkurfernu í hendi, eins og sá fáviti sem hún getur ósjaldan verið. „Já. Fórstu ekki eitthvað út? Til að lyfta þér upp?“ spyr ég án þess að líta upp. Svei mér ef það er ekki komin dauðahrygla í röddina. „Út á lífið? Nei. Ég var bara að hjálpa mömmu. Hún er að skipta um gardínur í stofunni. Og svo fórum við saman austur, á sunnudeginum, ég meina í gær, að heimsækja ömmu. Hún býr á Hellu.“ „Þú verður nú að hugsa um sjálfa þig líka, Lóa mín.“ Ég geri mæðuhlé áður en ég held áfram. „Þú mátt ekki eyða æskunni í gamlar kellingar eins og mig. Fengitíminn líður fljótt.“ Svona þykir mér vænt um hana að ég legg þessi ósköp á talfæri, háls og lungu. Sviminn sem fylgir er líkastur flugnageri á bakvið augun og síðan setjast þær allar á sjóntaugina í sameinuðu átaki og kreista með sínum blýflugukrumlum. Æ æ, guðsins hamingja. „Fengitíminn?“ „Já. — Nei raskins, er hann nú að svara mér?“ „Hver?“ „Hann Bakari minn.“ „Bakari?“ „Já, hann heitir Bakari. Æ, nú er ég aldeilis búin að fýra upp í honum.“ 14
„Þú átt svo marga vini,“ segir hún og er nú farin að snuddast við vél og vask. „Já já, þeir eru orðnir vel yfir sjö hundruð.“ „Ha? Sjö hundruð …?“ „Já. Á Facebook.“ „Ert þú á Facebook? Ég vissi ekki að þú værir á Facebook. Má ég sjá?“ Hún kemur yfir mig ilmandi og ég kalla síðuna mína fram úr álfheimum netsins. „Vá. Flott mynd af þér. Hvar ertu eiginlega?“ „Þetta er í Bæres. Á balli.“ „Bæres?“ „Já, Buenos Aires.“ „Og hvað? Er þetta statusinn þinn? … is killing dicks? Ha, ha.“ „Já, það er drepur tittlinga á ensku. Það hljóp einhver óværa í augun á mér í gærkvöldi.“ „Ha, ha. En hér stendur bara að þú eigir hundrað fjörutíu og þrjá vini. Þú sagðir að þú ættir sjö hundruð.“ „Já, þetta er nú bara ég. Ég er með allrahanda síður.“ „Margar síður á Facebook? Má það?“ „Það er nú ekkert bannað í þessum heimi, held ég.“ Hún hváir glaðlega og fer aftur yfir í eldakrókinn. Undarlegt annars hve vel manni líður í návist starfandi fólks. Það gerir aristókrassið í manni. Ég er ættuð hálf úr sjó og hálf úr höll og varð því snemma klofglenna. Hin hádanska föðuramma mín var fyrirtaks þrælahaldari. En var þó duglegust sjálf. Hún var okkar fyrsta forsetafrú. Fyrir hverja veislu tvísté hún um borðsalinn, frá hádegi fram á kvöld, með vindling á vör og annan í hendi, og reyndi að muna eftir öllu og ráða fram úr sætaskipan. Ekkert mátti vanta, ekkert bregðast. Annars var úti um land og þjóð. Fengi ameríski sendiherrann fiskbein í góm var Marshall-hjálpin í hættu. Hún vissi sem var að samningaviðræður skipta litlu sem engu máli. „Det hele ligger på gaffelen!“ Afi hefði aldrei orðið forseti nema vegna ömmu Georgíu — og hefði einhver mátt segja honum það. Hún var hin sanna séntilkona; 15
lét öllum líða vel, háum jafnt sem lágum, hafði það sem danskurinn kallar takt og tone, og heillaði jafnt örlagabyttur sem Eisenhower. Hún var ágæt sú tímans stjórnviska sem valdi þessi hjón til að fara fyrir nýfæddu lýðveldi, hann íslenskur, hún dönsk. Það var í því einhver kurteisi gagnvart gömlu herraþjóðinni.Við slitum sambandinu við Dani en vorum enn í hjónabandi við þá.
5
BAKARI 2009 Bakari Matawu býr í Harare, höfuðborg Ródesíu gömlu sem nú heitir Zimbabwe að sögn Wikipediu. Hann er þrítugur bensínburðarmaður, svartur eins og olía, með kinnbein eins og inúíti, og hjarta úr osti. Bakaradrengurinn er brjálsamur í þá gömlu sem ég er. Hann þyrstir í þessi fjörutíu krabbalegnu kíló af kvenholdi sem undirrituð telur. Nú skrifar hann, á ensku: „Halló Linda. Takk fyrir tölvupóstinn. Hann er góður. Þegar ég horfi á myndina af þér er hún góð. Andlit þitt er sem ísmoli. Það er gott að þú ert betri í fótbrot. Það er líka gott að fara burt úr borginni þegar svona er. Norðlægu augun þín fylgja mér sem ísblár köttur til vinnu á morgni. Peningasafn gengur vel. Ég náði í tvo dollara í gær og þrjá í fyrradag. Vonandi á ég nóg fyrir næsta sumar. Er þetta ekki svo kalt? Núna er ég búinn að segja strákunum á stöðin frá þér. Þeir eru allir sammála að þú ert fegurð. Einn sem kom á bíl sagðist muna eftir þér úr keppnin. Hann segir að Ísland konur er fallegar vegna þess að konur geymast best á köldum stað. Ást - Bakari.“ Hann er að safna sér fyrir farinu hingað upp. Ræfilstuskan. Og leggur hart að sér við íslenskunámið, hámar í sig frosin nafnorð 16
og beygir ískaldar sagnir eins og sterkur maður stál. Linda krefst þeirrar lágmarksviðleitni af vonbiðlum sínum að þeir læri málið og rekur nú heilan bréfaskóla sem teygir sig um allan heim. Allt fyrir Ísland. En Linda er semsagt Pétursdóttir og varð Ungfrú alheimur árið 1988. Í grallskap mínum notast ég við nafn hennar og andlit, eftir að hjúkrunardrengurinn Bóas (sem nú er farinn utan til náms) bjó til netfang handa mér: lindapmissworld88@gmail.com. Þaðan hef ég margar góðar sögur sem stytta mér haustkvöldin löng og myrk. Bakarinn er rómantískur í meira lagi en þó alveg laus við vestrænustu klisjurnar sem ég hef auðvitað þegið nóg af eftir 50 ár á alþjóðlegum ástarmarkaði. Um daginn skrifaði hann: „Þegar ástin er í burtu segjum við í mitt land að maður borðar blómin af söknuði. Og þetta geri ég nú fyrir þig, Linda. Ég borða fyrir þig rauða rós í dag, sem ég fann í Park. Í gær borða ég hvíta nellikku sem mamma fékk á markað. Á morgun borða ég sólblóm sem er hér í garði okkar.“ Það verður sárt er hann fréttir af andláti fegurðardrottningar, sem ég verð sjálfsagt að dikta upp fyrr eða síðar. Þá verða blóm og kransar snæddir í Harare.
6
HÖFÐABORG 1953 Ég var sjálf eitt sumar í Afríku, sem átti þó að heita vetur. Það gat verið kalt í Cape Town og aldrei hef ég séð jafn vindvaxin tré og á ströndunum þar, jafnvel ekki hér á sígnauðslandi. Satt að segja leið mér bölvanlega í Suður-Afríku, var allan tímann barmafull af samviskubiti gagnvart því svarta góða fólki sem landið byggir, því allir héldu auðvitað að ég, næpuhvít manneskjan, væri Búi, með sitt apartheid, og það þótt ég hafi aldrei ófríð verið. 17