Landnám - brot úr bókinni

Page 1


Landnám ævisaga Gunnars Gunnarssonar © Jón Yngvi Jóhannsson 2011 Mál og menning Reykjavík 2011 Öll réttindi áskilin. Hönnun kápu: Ragnar Helgi Ólafsson Ljósmynd á kápu: Lindegaard Ljósmynd af höfundi: Sigþrúður Gunnarsdóttir Umbrot: Guðmundur Þorsteinsson / Forlagið Letur á meginmáli: Adobe Garamond 11,5/14 pt. Prentun: Oddi, umhverfisvottuð prentsmiðja Bókin er gefin út með styrk frá Bókmenntasjóði Bók þessa má eigi afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar og útgefanda. ISBN 978-9979-3-3247-3 Mál og menning er hluti af www.forlagid.is

Forlaginu ehf.


Fljótsdalur – Vesturárdalur

1

Áður en Gunnar Gunnarsson náði fertugsaldri gat hann lesið eigin ævisögu á tveimur bókum. Um miðjan þriðja áratuginn komu út í Kaupmannahöfn tvær bækur á dönsku um ævi hans og verk, sú fyrri hét einfaldlega Gunnar Gunnarsson og var eftir ungt skáld, blaðamann og þýðanda að nafni Otto Gelsted. Sú síðari var eftir ungan fræði­ mann að nafni Kjeld Elfelt og skartaði undirtitlinum Et Essay: ritgerð, þótt hún væri raunar nokkru lengri í blaðsíðum talið en bók Gelsteds. Það hlýtur að hafa kitlað hégómagirnd ungs metnaðarfulls manns að geta gengið inn í bókabúðir Kaupmannahafnar og handfjatlað þessar bækur. Allir sem skrifa vilja láta taka eftir sér og minnast sín. Þegar farið er að skrifa ævisögur skálds hlýtur það að vekja þá tilfinningu að ódauðleikinn sé tryggður og þá skiptir litlu þótt höfundar bókanna hafi ekki skilið ævi og starf höfundarins á sama hátt og hann sjálfur, kannski var líka gott að vita til þess að ekki væru öll kurl komin til grafar, ekki öll leyndarmál orðin opinber.1 Báðar bækurnar rekja ævi og feril Gunnars Gunnarssonar til útgáfu­ dags. Þetta voru fyrstu bækurnar sem gefnar voru út um íslenskt skáld eða rithöfund að Snorra Sturlusyni einum undanskildum.2 Og höfund­ arnir höfðu úr töluverðum efniviði að moða. Þegar þarna var komið sögu á ferli Gunnars Gunnarssonar hafði hann sent frá sér vel á annan tug bóka, þegar hafði birst um hann og verk hans nokkur fjöldi ritgerða og greina auk urmuls blaðadóma í dönskum og íslenskum blöðum. Umræða um verk Gunnars var ekki einskorðuð við heimalönd hans tvö, Ísland og Danmörku. Bækur hans höfðu verið þýddar á hálfa tylft tungumála og þeim þýðingum fylgdu vitanlega ritdómar og margvís­ 7


Landnám – ævisaga Gunnars Gunnarssonar

Titilblað og teikning úr bók Ottos Gelsted frá 1926. Enginn íslenskur höfundur hafði áður verið viðfangsefni heillar bókar. Þegar hún kom út var Gunnar 37 ára gamall.

leg umfjöllun. Sjálfur hafði hann lagt drjúgan skerf til ævisögu sinnar með Fjallkirkjunni sem var að koma út um þetta leyti og fjölda smá­ greina og viðtala þar sem hann sagði dönskum lesendum sínum frá æsku sinni á Íslandi og þroskaárum í Danmörku. Þegar þeir Gelsted og Elfelt sögðu sögu Gunnars Gunnarssonar í fyrsta skipti á bók var mótuð ákveðin túlkun á ævi Gunnars sem síðan hefur verið ríkjandi. Sagan sem Gelsted og Elfelt segja og sem Gunnar segir sjálfur í Fjallkirkjunni og víðar er saga um paradísarmissi og paradísarheimt. Æskuparadís Gunnars er Fljótsdalurinn þar sem hann lifir áhyggjulaus með móður sinni, heimur þeirra er heill og fullkom­ inn og ekkert skilur þau að. Eftir dauða móðurinnar tekur við löng eyðimerkurganga þar sem Gunnar berst til frægðar og frama í heimi sem er honum um flesta hluti fjandsamlegur. Paradísarheimtin felst í persónulegum þroska og hjónabandi þar sem eiginkonan tekur stöðu móðurinnar sem viðfang ástarinnar. Þetta er rækilega undirstrikað í Fjallkirkjunni þar sem eiginkonan ber sama nafn og móðirin. Kjeld Elfelt orðar þetta svo að í verkum Gunnars séu þrjár aðalpersónur: móðirin, drengurinn og skáldið.3 Í lokaorðum bókar sinnar fjallar Otto Gelsted um það sem hann nefnir „Katastrofemotiv“ í verkum Gunnars, eða hörmungaminni. Og hann kemst að eftirfarandi niður­ stöðu: 8


Fljótsdalur – Vesturárdalur

Að því leyti sem Uggi er sami maður og Gunnar Gunnarsson er það kenning mín að í dauða móðurinnar eigi hörmungaminnið sem er svo algengt í verkum hans upphaf sitt. Dauði móðurinnar veitti sælu barn­ æskunnar náðarhöggið og varð að fyrirmynd allra þeirra áhrifamiklu hörmunga sem Gunnar Gunnarsson hefur sem rithöfundur látið persón­ ur sínar gangast undir, og þar með sjálfan sig.4

Þessi túlkun á lífi Gunnars hefur gengið aftur í flestu því sem skrifað er um ævi hans, jafnvel þannig að sömu tilvitnanirnar í Fjallkirkjuna eru lagðar til grundvallar þegar samband hans og móðurinnar er greint.5 Í þessum fyrstu ævisögum Gunnars er verkum hans fram á þriðja ára­ tuginn líka skipt í tímabil, fyrst kemur rómantíska æskuverkið Saga Borgarættarinnar, þá lífsskoðunar­ eða kreppusögurnar Ströndin, Varg­ ur í véum og Sælir eru einfaldir, og loks sjálfsævisagan sem birtist í Fjallkirkjunni. Einnig þessi túlkun á ævi Gunnars hefur orðið langlíf og í raun hefur lítt verið hróflað við þessari tímabilaskiptingu síðan. Sagan af Gunnari Gunnarssyni, íslenska sveitadrengnum sem varð mikilsvirtur rithöfundur í Danmörku og um Evrópu alla á fyrri hluta tuttugustu aldar, hefur verið sögð oft síðan. Bækurnar tvær sem komu út í Danmörku á þriðja áratugnum eru góð áminning um það að ævi­ saga skálds verður ekki sögð í eitt skipti fyrir öll og jafnframt að sagan af ævi manns er ekki endilega skrifuð þegar hann er allur. Ævisögur skálda eru margar og þær eru í sífelldri mótun allt frá því að þau stíga sjálf fram og taka að lýsa sjálfum sér. Það gera þau með verkum sínum en einnig með öðrum textum, í greinum, viðtölum og bréfum. Sú saga sem hér verður sögð tekur mið af þessu öllu. Hér verður sögð saga Gunnars Gunnarssonar og verka hans eftir bestu fáanlegu heimildum. Hún er ekki sögð hér í fyrsta sinn og hún verður ekki sögð í síðasta sinn. Ævisögur Gunnars eru margar og misítarlegar og þar birtast okk­ ur margvíslegar hugmyndir um manninn sjálfan og verk hans.6 Sá sem hér ritar tekur mið af þeim sögum sem áður hafa verið sagðar, stundum er ástæða til að taka undir þær en fyrst og fremst er þó nauðsynlegt að rýna í þær og skoða þær gagnrýnum augum.7 Allir sögumenn velja og hafna, segja frá einu en þegja yfir öðru, leggja áherslu á ákveðna at­ burði, hugsanir og tilfinningar en gera minna úr öðru. Þetta á jafnt við um fræðimenn og aðra. Fyrir því er löng hefð í íslenskum ævisögum að bera saman verk skálda og æviferil þeirra. Þessi aðferð á rætur sínar hjá upphafsmönn­ um nútíma bókmenntasöguritunar á nítjándu öld og barst hingað til 9


Landnám – ævisaga Gunnars Gunnarssonar

lands frá Danmörku þar sem einn glæsilegasti fulltrúi stefnunnar, Georg Brandes, starfaði fram á þriðja áratug tuttugustu aldar. Megin­ markmið hefðbundinna bókmenntaævisagna af þessu tagi var að leita „mannsins að baki verkunum“ og finna í skapferli hans og lífsreynslu skýringu á skáldskapnum. Það er aðeins að litlu leyti markmið þessarar bókar. Hér verður athyglinni beint að manninum fyrir framan verkin, þeirri mynd sem Gunnar sjálfur dró upp af eigin lífi, goðsögn hans um sjálfan sig og heiminn. Þessi saga birtist í mörgum formum, allir textar Gunnars og textar sem snerta hann að einhverju leyti mynda risavaxið textasafn sem höfundur þessarar bókar hefur leitað í, greint og túlkað. Enginn texti er án samhengis, persónulegs, sögulegs og bókmenntalegs. Það er hlutverk ævisöguritarans að setja þessa texta í samhengi og tengja þá saman, ekki aðeins að nota þá sem heimild um atburði, hvað gerðist, hvenær og hvernig. Bókmenntasaga, eins og öll saga, snýst ekki síst um samræðu við aðra fræðimenn og sagnaritara. Í íslenskum ævisögum skálda er sú samræða oft lítt sýnileg, falin í neðanmálsgreinum eða grafin djúpt undir yfirborði textans. Sú verður ekki raunin í þessari bók. Hér verð­ ur rökrætt við aðrar sögur af lífi Gunnars, bæði þær sem hann skrifaði sjálfur og þær sem aðrir hafa skrifað. Sagan sem Gunnar segir í Fjall­ kirkjunni, af leið sinni og Ugga frá einni paradís til annarrar, verður ekki endurtekin hér. En hún er verðugt viðfangsefni og fátt er mikil­ vægara í sögu Gunnars en það hvernig hann mótaði sjálfsmynd sína eftir þessari sögu. Þess vegna er líka nauðsynlegt að kanna þær þver­ sagnir, eyður og þagnir sem óhjákvæmilega eru stór hluti hennar. Gunnar sagði ekki alltaf satt og rétt frá eigin ævi og hann sagði aldrei frá öllu.

Gunnar og Uggi Gunnar Gunnarsson fæddist að Valþjófsstað í Fljótsdal 18. maí árið 1889. Aðeins rúmum mánuði áður, þann 9. apríl, höfðu gengið í hjóna­ band í Valþjófsstaðarkirkju þau Gunnar Helgi Gunnarsson og Katrín Þórarinsdóttir, foreldrar hans. Bæði voru þau vinnufólk; Gunnar Helgi var bróðir prestsins á staðnum, séra Sigurðar Gunnarssonar, en Katrín hafði komið að Valþjófsstað þremur árum áður sem vinnukona. Séra Sigurður gaf hjónin saman, eins og gefur að skilja. Hann á eftir að koma mikið við sögu Gunnars.8 10


Fljótsdalur – Vesturárdalur

Um fæðingu Gunnars eru litlar heimildir aðrar en kirkjubókin, enda ekki við því að búast. Fæðing barns er vissulega söguleg og ein­ stæð í augum aðstandenda og barnsins sjálfs síðar meir en börn fæðast á hverjum degi og ekki gott að vita hvert þeirra verði efni í sögu. Um aðra fæðingu og öllu sögulegri höfum við á hinn bóginn ríkari heim­ ildir. Einnig þar fæddist rauðhærður snáði í austfirskum dal, á lofti yfir gamalli stofu. Sá hét Uggi Greipsson og er aðalpersóna og sögu­ maður eins merkasta verks Gunnars, Fjallkirkjunnar. Ævi Ugga og ævi Gunnars svipar saman um flest þótt ekki sé hægt að reiða sig á Fjall­ kirkjuna um einstaka atburði eða einstaka persónur.9 En of margt er sameiginlegt með þeim Ugga og Gunnari til að hægt sé að líta á Fjall­ kirkjuna sem algeran skáldskap. „Leikur hugans að staðreyndum“ var sú einkunn sem Gunnar valdi sögunni eitt sinn, og hann gekkst líka við því í eftirmála við íslenska útgáfu sögunnar að í henni væri sums staðar „meira af sjálfsævisögu en til var ætlast“.10 Þegar leið á ævina átti hann jafnvel til að tala um Fjallkirkjuna í sömu andrá og eigið líf. Þegar sonardóttir Gunnars, Sesselja Katrín Gunnarsdóttir, var skírð vorið 1950 skrifaði hann Úlfi syni sínum til Danmerkur og sagði tíðindin á þennan hátt: „hún hlaut semsagt bæði nafn móður minnar og gælu­ nafn hennar í bókinni.“11 Í bréfasafni Gunnars á Landsbókasafni er líka að finna uppköst hans að svörum við spurningum blaðamanns

Valþjófsstaður um 1905. Bærinn er nokkuð breyttur frá því Gunnar fæddist þar, en miðhlutinn er eins og hann var vorið 1889. Enn í dag má sjá hleðslur úr bæjarhúsunum á Valþjófsstað.

11


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.