8 É
g var fjörutíu og átta ára gömul þegar ég hóf loks meðferð hjá geðlækni í rauðmáluðu bárujárnshúsi
við Suðurgötu í Reykjavík. Ég vissi að ég þyrfti að æfa mig í því að treysta einhverjum fyrir sjálfri mér og að það væri hluti af bataferlinu. Ég vissi líka að ég yrði að tala við karlmann, að það myndi gagnast mér betur en að tala við konu þar sem óttinn við karlmenn hefur alltaf verið svo sterkur; mér fannst ég ekki síst þurfa að yfir stíga þann ótta. Ég skoraði sjálfa mig á hólm. Það var ekki úr mér allur vindur. Ég vandaði mig við valið á trúnaðarmanni. Ég spurð ist fyrir um góða geðlækna mörgum árum áður en ég valdi mér lækni. Ég gat ekki komið mér í að taka upp símtólið til að panta tíma svo að lokum sendi ég honum bréf með fyrirspurn um hvort hann væri til í að taka mig að sér. Ég man hvar ég stóð í Breiðagerðisskóla, um kringd krökkum að leik í frímínútum, þegar læknirinn hringdi í mig í fyrsta sinn. Hann sagði að sér þætti það leitt að hann gæti ekki tekið mig að sér fyrr en eftir þrjár vikur. Ég var nýbúin að taka við skólastjórastöðu og sannfærði lækninn um að ég væri ekki í neinni ör væntingu; að ég hefði nóg að gera og að þrjár vikur væri alls ekki langur tími í mínum augum. Ég sagðist hafa í
~ 63
huga langtíma samtalsmeðferð án lyfjatöku, ef það gengi upp. Þegar ég mætti svo loks á geðlæknastofuna við Suður götu á sólríkum mánudagsmorgni kom ég ekki upp orði. Ég og vofan mín sátum saman í sófa á huggulegri stofu læknisins. Í fyrstu tímunum hélt hún þéttingsfast fyrir munn mér og nú þegar ég lít til baka sé ég að rétta leiðin var að sitja þarna sem lengst og koma sem oftast. Við geðlæknirinn vorum þrjóskari en vofan og fundum að lokum leið til að reka hana út í sameiningu. Það þurfti engin orð til að byrja með, bara vissu um að við gætum deilt þessari þungu, döpru þögn sem bjó í kjarna mínum. Þegar ég skrifaði bréf til læknisins og pantaði fyrsta tím ann upplýsti ég hann skriflega um brot af reynslu minni. Ég treysti mér ekki til að opna á vandann öðruvísi. Lækn irinn vissi því í hvaða tilgangi ég var mætt og einnig vissi hann að þolinmæði og traustið sem myndaðist á milli okkar í þögninni var það eina sem dugði. Ég borg aði lækninum lengi vel fyrir það eitt að sitja, hlusta á þögn mína og horfa á mig stara út um gluggann einu sinni í viku, klukkutíma í senn. Ég réð ferðinni í meðferð inni og því var það mitt að velja hvenær ég hæfi mál mitt. Þó kom að því eitt sinn er vofan sat með mér í húsinu við Suðurgötu að læknirinn rauf loks kæfandi þögnina. – Ég var að velta því fyrir mér hvort þú myndir kannski vilja koma tvisvar sinnum í viku? Þessi uppástunga var eins og blaut tuska í andlitið. Fannst honum ég þá svona klikkuð? Ég hugsaði með sjálfri mér hvort það gæti verið að lækninum þætti nota 64
~
Við Tjörnina í Reykjavík.
legt að þegja svona með mér tímunum saman en vofan áttaði sig fljótt á því að þetta var mótleikur og að hún yrði brátt skák og mát. – Þetta á eftir að taka langan tíma, bætti læknirinn við. Þegar ég lít til baka sé ég að hann hafði á réttu að standa. Ég fór löturhægt í gegnum fortíðina meðan læknirinn sýndi mér kærkomna þolinmæði. Meðferðin tók mig tæpan áratug. Fyrstu sjö árin hitti ég lækninn bæði á mánudögum og föstudögum en síðan einu sinni í viku eftir það. Ósjaldan vorkenndi ég honum að bíða eftir því að ég gæti komið orðum að því sem þurfti til að finna farveg út úr sálartetrinu og stundum kveið ég mjög fyrir að hitta hann. Mér fannst eins og ég hefði ekki neitt að segja og gat með engu móti búið mig undir tímana, vissi ekkert hvernig ég ætti að vera þegar ég settist í stólinn hjá honum. Undirmeðvitundin ólgaði stöðugt. Smátt og smátt kom eitthvað til að ræða um. Eitt brot. Ein minning. Ein mynd. Andartak. Lykt. Hljóð. Brak í stiga. Hleri sem féll. Það var meira en að segja það fyrir mig að draga myrkustu minningarnar upp úr undirvit undinni og færa þær í orð. Læknastofan er í sömu götu og kirkjugarðurinn þar sem afi er grafinn. Einn sólríkan mánudag þegar ég hafði þagað of lengi á læknastofunni stakk ég upp á því við lækninn að við fengjum okkur göngutúr í kirkjugarðinn. Þetta var ekkert annað en lúmsk leið til að forðast orðin en læknirinn samþykkti þó að rölta með mér út. Hann hefur eflaust verið að vonast eftir því að einhverjar til 66
~
finningar brytust fram við legstein afa míns, en mér datt ekki í hug að nokkuð slíkt gæti átt sér stað. Við gengum saman út Suðurgötuna og inn í garðinn og fundum þar leiði ömmu og afa. Beinin liggja þarna einhvers staðar grafin en holdið er horfið og orðið aftur að mold. Sumir segja að kisturnar hafi færst úr stað í jarðveginum, að þær hafi jafnvel ferðast alla leið niður að Tjörn. Það gerðist ekki neitt í heimsókn okkar í kirkjugarð inn. Eða jú, það gerðist reyndar eitt ógleymanlegt því að svanirnir á Tjörninni byrjuðu að syngja. Svo hátt að það lá við að þeir öskruðu. Ég er karamellumella! sagði ég eitt sinn við lækninn er ég sat í sófanum á stofunni hans. Ég trúði honum fyrir því að ég hefði ung að árum smíðað þetta nýyrði um sjálfa mig: Karamellumella! Hann horfði á mig með samúð og bað mig um að lofa sér því að uppnefna sjálfa mig aldrei með þessum hætti. Hann sagði að karamellu mella væri ósanngjarnt orð yfir barn sem hefur verið rænt sakleysi sínu og bannaði mér að vera svona hörð við sjálfa mig. Þann áratug sem meðferðin tók þurfti ég að láta útskýra ýmislegt fyrir mér svo að barnið innra með mér öðlaðist nýjan skilning og þyrði að vaxa úr grasi. Það tók mig tíma að læra að tala alltaf fallega til sjálfrar mín og finna að ég ætti það skilið. Ég var aldrei karamellumella!
~ 67