Nóvember 1976 - sýnishorn

Page 1

Haukur I n g va r s s o n

n贸 v e m b e r

1976



I

Gamla settið Dagana áður en Ríkissjónvarpið hóf formlega útsendingar 30. september 1966 var undarlegur erill í Reykjavík. Þar mátti sjá karlmenn aka heim úr vinnu með ólundarsvip og konur rigsa um götur með kreppta hnefa djúpt í kápuvösunum. Það var ákveðin truflun sem raskaði geðprýði íbúanna og hún átti sér skýringu sem var einföld út af fyrir sig en margflókin í hinu stóra samhengi. Í stuttu máli önnuðu raftækjaversl­ anir ekki eftirspurn eftir sjónvarpstækjum og því óttuðust sumir að heyra aðeins af afspurn það sem aðrir hefðu séð. Tækjaleysið var aftur til komið vegna gjaldeyrishafta sem voru sett til að mæta vöruskiptahalla við útlönd, hann mátti svo rekja til rekstrarvanda sjávarútvegsfyrirtækja en eins og aldrei verður of oft kveðið þá var rót þess vanda tillitsleysi fiskanna í sjónum sem fylgja hafstraumum en ekki hæðum og lægðum í lífi manna og kvenna á þurru landi. Ef fréttist af nýjum sjónvarpstækjum í verslun brunaði fólk þangað með hanskahólfið troðfullt af peningaseðlum og næðu menn á staðinn áður en allt var selt gengu viðskiptin hratt fyrir sig, oftar en ekki úti á tröppum því prúðbúnir afgreiðslumenn­ irnir höfðu komist að raun um að það var betra að menn slægjust um tækin á götum úti en innan um varning í búð­ unum. Eftir að fyrsta útsendingin var afstaðin rjátlaðist æðið af borgarbúum enda höfðu allflestir náð sér í tæki með ein­ ~ 7 ~


hverjum ráðum. Eftir því sem árin liðu bárust sjónvarps­ bylgjurnar víðar um landið og æðið endurtók sig í hinum dreifðu byggðum uns svo var komið tíu árum síðar að ein­ ungis 450 sveitabæir náðu ekki útsendingum Ríkissjónvarps­ ins á Íslandi. Útbreiðsla sjónvarpsins hafði í för með sér mikið útstreymi gjaldeyris en það gerði marga íslenska stjórnmálamenn fjandsamlega í garð þessa tækis sem var í stöðugri framþróun með tilheyrandi endurbótum og nýjung­ um og þar af leiðandi enn meiri sóun gjaldeyris. Ef maður vill merkja breytingarnar sem tækið hefur haft á lífshætti fólks nægir að taka sér stöðu fyrir framan fjöl­ býlishús á vetrarkvöldi eins og þessu þegar snjór fellur ofan af svarbláum himninum og fylgjast með því sjónarspili þegar dimmir og íbúarnir kveikja ljósin inni hjá sér. Ein stofan er full af mjúkri rauðleitri birtu, þar blasa við bækur, málverk á veggjum og viðarhúsgögn, næsta stofa er undarlega lýst eins og fiskabúr og þar inni gefur að líta hitabeltisplöntur og nú­ tímalegt grænt veggfóður, þarna flögrar skuggi dansandi manneskju bak við hvít gluggatjöld og við keilulaga borð­ lampa í lítilli kytru situr maður og klórar sér í höfðinu með blýanti, kannski er hann að ráða krossgátu eða tefla bréfskák. En nú slokkna ljósin í mörgum íbúðum samtímis því klukk­ an er að verða átta, það eru að hefjast fréttir og þá kviknar á sjónvarpstækjunum sem varpa fölum tunglskinsbláma á snjóinn og þann sem stendur fyrir utan og horfir inn. Kona situr á hækjum sér við sjónvarp, skoðar takkana af kostgæfni eins og konfekt í kassa, velur loks einn sem henni líst á, ýtir: Og sjá; skjárinn stendur í ljósum logum en brenn­ ur ekki. Stofan fyllist messinggulri birtu svo konunni sortnar fyrir augum. Hún lokar þeim, opnar þau, blakar augnlokun­ um, fær sjónina aftur en það eina sem eftir lifir á skjánum er fölblár hringur sem dofnar hægt uns hann deyr út. ~ 8 ~


Innan úr íbúðinni berst skarkali: „Hvað gengur á?“ Það heyrist sturtað niður í snatri og svo kemur karlinn æðandi inn í stofuna heilagur og reiður með Tímann í handarkrik­ anum. „Ég ýtti á takkann og ætlaði að sjá fréttir og þá kom ljós, svo myrkur, síðan blár hringur og svo gerðist ekkert og það koma bara engar fréttir.“ „Hana!“ Karlinn bolar konunni í burtu, fórnar höndum og krýpur á kné frammi fyrir sjónvarpinu. Strýkur því varlega, leggur eyrað að hátalaranum og hlustar. Ýtir rofanum rólega inn. Ekkert gerist. Hann hækkar, fitlar við stillingarnar og vætir fingurgóm vísifingurs á tungunni, nuddar rofann með hon­ um. Blái hringurinn kemur aftur fram á skjáinn. Hann smá eykur hraðann, hamast uns takkinn gengur út og inn. Um tíma virðist hann ætla að ná að koma því til. Innan úr kass­ anum heyrist hósti, svo suð sem minnir á hryglukenndan andardrátt, meira suð og svo meira suð og svo ekkert suð og ekki neitt. Ekkert. Karlinn stynur og strýkur sjónvarpinu hér og þar flötum lófa á meðan hitinn frá lampanum deyr út. Það er búið. Hann rís upp og hnusar út í loftið og finnur lykt af svita: „Þú hefðir nú getað hjálpað henni mömmu þinni við að kveikja á tækinu, drengur! Þær hafa ekki gripsvit á svona löguðu.“ Hann beinir máli sínu til drengsins þó hann sjái hann ekki. Veit af honum á flökti um íbúðina. Konan stendur á miðju gólfinu, hún er í fjólubláum blómakjól úr rafmögnuðu gerviefni og með hvíta svuntu bundna um sig miðja. Hún er ósköp þrifaleg en pasturslítil og þó fyrst og fremst slitin og þreytuleg. Hendur hennar ~ 9 ~


hanga máttlausar niður með síðunum. Æðar í ýmsum tónum af bláu og rauðu kvíslast um handleggina. Eitthvað rennur upp fyrir henni, það kemur svipur á máttlaust andlitið og hún lyftir höndunum, opnar greiparnar fyrir augunum á sér og skoðar lófana vandlega: „Hvað hef ég gert?“ hvíslar hún. Karlinn hættir að vera heilagur og reiður á svipinn. Kannski man hann skyndilega eftir því að hann þvoði sér ekki um hendurnar. „Hvað hef ég gert?“ endurtekur hún og röddin titrar. Á veggnum fyrir aftan hana hangir útsaumuð mynd af ævintýralegri dís sem spinnur þráð. Hún er með gult hár, kjóllinn hennar rauður með himinbláum skreytingum, um mittið hefur hún gullbelti og um höfuðið hárband eins og hippi. Í myndina eru saumuð þessi orð: „Slegið hár og rjóðir vangar.“ „Þú drapst sjónvarpið, kona, þannig er það nú bara. Það verður ekki horft á dagskrána í kvöld.“ Það bráir af henni. Hún steinhættir við að fara að gráta. Hún missir ekki andlitið. Hún brotnar ekki saman. Hún hefur varnarræðu: „Það er nú kannski hægt að finna sér eitt­ hvað annað til að gera en horfa á þetta sjónvarp.“ „Ætli við getum ekki skemmt okkur við að glápa út um gluggana.“ Hann gengur út að glugga, stingur fingri milli tjaldanna og gægist út. Lætur eins og hann taki bakföll af hlátri og slær sér á lær. Svo snýr hann sér snöggt að konunni grafalvarlegur og öskrar: „Þetta er nú bara alveg met.“ Hann æðir í átt að henni, snarstansar og teygir álkuna fram, andar ótt og títt og hátt með nefinu sem nemur við gagnauga henn­ ar. Handleggirnir vísa aftur eins og stél. Það er ekki eins og flóðgáttir himinsins opnist en konan fer að gráta án þess að breyta um svip. Tárin trilla niður kinnarnar á henni. Höfuðið sígur fyrst niður á bringuna, ~ 10 ~


síðan hvolfast axlirnar yfir höfuðið. Það er eins og hún vilji skríða inn í sjálfa sig en komist ekki lengra: „Af hverju lemurðu mig ekki bara?“ Karlinn hættir að anda með nefinu og allt í einu finnur hún heitan andardrátt úr munni hans á kinninni. Svona andaði hann líka þegar þau voru ung. Fyrst heitt með munninum, síðan ótt og títt með nefinu. Núna andar hann fyrst hátt með nefinu, síðan heitt með munnin­ um. Hún ætlar að teygja sig í hann en þá hörfar hann undan eins og nú geti hann ekki meir. Hún jafnar sig soldið áður en hún gengur hljóðum skrefum inn í eldhúsið og tekur sér stöðu við vaskinn. Horfir út. Vaskar upp. Konur og sniglar komast aldrei undan heimilum sínum sama hvernig þau skríða. Hún kveikir sér í, dregur ofan í sig, blæs frá sér, askar í vaskinn. Tíminn líður. Loftið þyngist og gránar. Allajafna sátu þau þrjú við tækið, drengurinn og karlinn í tveggja sæta sófa undir útsaumuðu myndinni af ljóshærðu dísinni við rokkinn. Konan á kolli skammt frá. Hún reykti í myrkrinu, reri fram og sötraði kaffi sem oft var bæði staðið og kalt. Hún smjattaði þegar hún drakk heitt, smáblés og hélt um bollann báðum höndum: „Sei, sei.“ Stundum var eins og hana skorti líkamlega nálægð. Þá reis hún upp og stóð þögul og álút álengdar. Horfði á myndina fyrir ofan sófann, skaut herðunum upp og pírði augun líkt og hún rýndi í eitthvað smátt. Hún ræskti sig aldrei en stundum fékk hún hóstaköst og kúldraðist saman eins og maður sem fær högg í magann. Á endanum rýmdu þeir til fyrir henni, þrýstu sér þétt að sófaörmunum svo hún gæti bakkað í plássið á milli þeirra eins og drekkhlaðinn pallbíll sem ýtir á undan sér breiðum afturenda í þröngt stæði. Heitur líkami hennar lagðist seig­ ~ 11 ~


fljótandi upp að þeim: „Sei, sei.“ Þannig leið kvöld eftir kvöld, karlarnir sperrtir í sófanum með krosslagðar hendur á brjósti og hún í keng á milli. Þegar þeir voru tveir í sófanum sátu þeir aldrei þétt. Konan stendur við vaskinn og blæs skýjabólstrum. Dreng­ urinn horfir úr gættinni á appelsínugula glóðina færast af einni sígarettu yfir á þá næstu. Í svefnherberginu háttar karl­ inn sig með djúpum andvörpum, klæðir sig í ljósblá náttföt með dökkbláum saumum á kraga og ermum, leggst í rúmið með blaðið. Honum virðist ganga illa að festa hugann við lesefnið, slekkur að endingu á leslampanum með tilþrifum. Snýr sér á allar hliðar með miklum byltum og segir svo stundarhátt: „Ætli það sé nokkuð annað að gera en tala við helvítið hann Batta á morgun? Ekki getur maður reiknað með því að þið dauðyflin hafið ofan af fyrir manni.“ Dreng­ urinn tvístígur. Það heyrist þrusk og konan spyr án þess að líta við: „Ertu þarna, Þóroddur minn?“ Hann lítur í kringum sig og veltir því fyrir sér hvort hann sé þarna eða ekki.

~ 12 ~


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.