Siðasti hlekkurinn

Page 1


Ekkert hefði getað fengið mig til að halda dagbók. Hlutirnir gerast. Tíminn líður. Lífið byrjar, rennur sitt skeið og tekur enda; og ekkert af merkingarleysinu batnar við að skrifa það niður og skoða það síðan eftir á. Og einn góðan veðurdag er öllu lokið, og ef ég veit eitthvað í minn haus þá veit ég það að þegar moldin skellur á kistulokinu yfir mér dettur ekki nokkrum lifandi manni í hug að lesa hvað ég var að aðhafast einhvern mánu­dag í mars. Ekkert hefði getað fengið mig til að halda dagbók. Nema eitt. Sú vissa að bráðlega verði enginn eftir til að lesa hana. Þriðjudagur, tuttugasti og fimmti nóvember. Það er snjór í lofti. Og skelfing í allra augum.


1 Maðurinn sem þeir skutu í húsasundinu dó of seint. Hann var rúmlega þrítugur, í gallabuxum, skyrtu og vindúlpu. Allt of lítið klæddur miðað við árstíma, en hann var tiltölu­lega hreinn og tiltölulega saddur – því höfðu þeir lofað honum og það höfðu þeir staðið við. En enginn hafði sagt honum hvað átti síðan að gerast. Og nú stóð hann hér. Hann hafði snarstansað lafmóður á milli húsveggjanna bak við gamla pósthúsið, og þunn og grá ský mynduðust og leystust upp í myrkrinu fyrir framan hann, í takt við andardráttinn. Hann reyndi að halda aftur af skelfingunni er hann sá að járnrimlahliðið við endann á stuttri þvergötunni var lokað. Sá möguleiki hafði alltaf verið fyrir hendi, og nú stóð hann þarna án nokkurrar undankomuleiðar meðan skrjáfið í endurskinsvestunum þremur nálgaðist að baki hans. Í rauninni hafði hann enn verið á lífi þegar fregnin barst með fréttaskeytaflaumnum til evrópsku morgunblaðanna stundarfjórðungi áður, þrjár stuttar línur um karlmann sem fundist hafði látinn í miðri Berlínarborg, klukkan rétt rúmlega fjögur aðfaranótt fimmtudagsins. Þess var ekki beinlínis getið að hann hefði verið heimilislaus og undir áhrifum, en sú tilfinning vaknaði engu að síður við lesturinn. Sú var líka meiningin. Ef ætlunin er að ljúga er best að halda sig við sannleikann. Vegna plássleysis átti að smeygja fréttinni inn í einn af smádálkunum, innan um aðrar ekki-fréttir. Það var ein af öllum varúðarráðstöfununum og líklega var engin þörf á henni. Smáskýring, ef svo færi að einhver óviðkomandi sæi þá lyfta upp líflausum skrokknum í myrkrinu, bera hann að sjúkrabílnum, ~ 9 ~


loka afturdyrunum með skelli og aka burt með bláa tilheyrandi snúningsljósinu í ískaldri súldinni. Ekki á sjúkrahús. Enda var svo sem ekkert sem hægt hefði verið að laga á sjúkra­ húsi. Í bílnum sátu þrír þöglir menn sem vonuðu að þeir hefðu komið nógu fljótt. Það höfðu þeir ekki gert.

~ 10 ~


2 Lögregluþjónarnir höfðu aðeins verið nokkrar sekúndur að brjóta sér leið inn um fallegu vængjadyrnar að stigaganginum, mölva rúðurnar í blýumgerðinni og opna innan frá. Rimlagrindin fyrir innan tók hins vegar sinn tíma. Þetta var þykk og örugglega rándýr öryggisgrind, harðlæst, og það eina sem hindraði þá í að komast inn og hjálpa manninum sem þeim var sagt að væri í íbúðinni. Ef hann var þá enn á lífi. Það hafði verið hringt á lögreglustöðina í Norrmalm nokkru eftir hádegi, og nokkur tími hafði liðið á meðan vaktin reyndi að átta sig á hvort konan sem hringdi væri áreiðanleg og edrú og meinti það sem hún sagði. Þekkti hún manninn? Já, það gerði hún. Gat ekki verið að hann væri einhvers staðar annars staðar? Nei, það var óhugsandi. Hversu lengi hafði hún saknað hans? Ekki mjög lengi, þau höfðu talað saman í síma í gærkvöldi og hann hafði verið lágstemmdur og talað um allt annað. Og það hafði gert hana óttaslegna – hún vissi hvar hún hafði hann þegar hann kvartaði, en nú hafði hann verið hugrakkur og reynt að virðast jákvæður og hún hafði ekki almennilega getað áttað sig á ástæðu þess. Það var eins og hann væri að fela eitthvað. Og þegar hún hringdi svo í hann í morgun og hann svaraði ekki hafði grunurinn lostið hana rétt eins og hnefahögg. Í þetta skiptið hafði hann látið verða af því í raun og veru. Konan hafði verið skýr og nákvæm, og þegar lögregluþjónninn á símaborðinu hafði loks látið sannfærast kallaði hann út bæði lögreglu- og sjúkrabíl og svaraði síðan næsta símtali eins og ekkert hefði ískorist. ~ 11 ~


Fyrstu lögregluþjónarnir sem mættu á staðinn staðfestu án tafar að konan gæti haft rétt fyrir sér. Dyrnar voru læstar. Fyrir innan þær grillti í rimlagrindina eins og óljóst víravirki gegnum litaðar rúðurnar. Og einhvers staðar inni í húsinu mátti heyra klassíska músík í útvarpstæki ásamt gutli í vatni sem flæddi ofan í yfirfullt baðkar. Það var mikið óheillamerki. Christina Sandberg stóð neðst í skrautlegum stigaganginum, rýndi gegnum svartlakkaða stálgrindina sem umlukti lyftupallinn og skimaði í ofvæni eftir minnstu hreyfingu við dyrnar á íbúðinni sem hafði eitt sinn verið hennar eigin. Gulir brennandi málmspænir skutust af slípirokk lásasmiðsins er hann sargaði í sundur fjárans rimlahliðið sem hún hafði alltaf verið á móti þar til hún neyddist til að sætta sig við það, eftir kvöldið þegar allt hafði breyst. Þau höfðu látið setja það upp sér til verndar. Og í dag átti hann kannski eftir að deyja út af því. Hefði hún ekki skolfið svona af einskærri skelfingu væri hún nú örugglega skjálfandi af hamslausri reiði. Fyrir aftan lásasmiðinn stóðu fjórir lögregluþjónar og tvístigu í ofvæni eftir að geta aðhafst eitthvað, og að baki þeirra tveir álíka eirðarlausir bráðaliðar úr sjúkrabílnum. Í fyrstu höfðu þeir kallað til hans – „William“, höfðu þeir hrópað, „William Sandberg!“ – en þeir höfðu ekki fengið neitt svar og að lokum höfðu þeir gefist upp og þagnað og hleypt slípirokkn­um að. Og það eina sem Christina gat gert var að horfa á. Hún hafði verið síðust á staðinn. Hún hafði smeygt sér í gallabuxur og mokkakápu, sett daufgula lokkana í tagl og rokið út í bílinn, þótt hún hefði ekki ætlað að nota hann fram að helgi og þess vegna lagt honum á götu sem yrði ekki hreinsuð fyrr en í næstu viku. Þá þegar hafði hún margsinnis reynt að hringja í hann, fyrst um leið og hún fór fram úr, síðan á leiðinni í sturtuna og svo ~ 12 ~


strax aftur, áður en hún gaf sér tóm til að þurrka hárið. Þá hafði hún hringt í lögregluna og það hafði tekið heila eilífð að fá þá til að trúa því sem hún vissi þá þegar. Því sem hún hafði vitað innst inni um leið og hún vaknaði en reyndi að bægja frá sér á sama hátt og samviskubitinu sem helltist alltaf yfir hana um leið og hún heyrði í honum. Í rauninni hataði hún sjálfa sig fyrir að halda enn sambandi við hann. Þetta hafði reynst honum erfiðara en henni, ekki út af því að sorgin væri henni eitthvað léttari, heldur vegna þess að hann hafði ekki bælt hana niður, og þrátt fyrir tvö ár af eftir­ þönkum og samtölum og tilgátum um hvers vegna og kannski og bara ef, þá virtist allt við það sama í dag og það hafði verið þá. Hún naut þess mikla heiðurs að þurfa að rísa undir sorg þeirra beggja, auk sektarkenndarinnar yfir því að þykja það ekki sanngjörn skipti. En lífið var ekki sanngjarnt. Ef svo hefði verið stæði hún ekki hér núna. Að lokum létu rimlarnir undan og lögregla og bráðaliðar streymdu inn í íbúðina fyrir augum hennar og svo hætti tíminn að líða. Bökin hurfu inn langan ganginn, og tómið í kjölfar þeirra hélt áfram og áfram og virtist engan enda ætla að taka. Síðan, eftir óþolandi margar sekúndur eða mínútur eða ár, heyrði hún að tónlistin inni í íbúðinni hætti að hljóma og vatnið að renna og síðan varð allt hljótt og þannig var það áfram. Þar til þeir komu loks út aftur. Forðuðust augnaráð hennar á meðan þeir vöguðu fyrir skörp hornin, út ganginn, yfir litla pallinn hjá lyftunni, tóku krappa beygju að ávölum tröppunum án þess að rekast utan í dýra skrautmálaða veggina, og síðan niður, niður, hratt en varlega, hægt en ákveðið. Christina Sandberg þrýsti sér upp að stálrimlunum svo að börurnar kæmust fram hjá, niður að sjúkrabílnum sem beið á gangstéttinni. ~ 13 ~


Maðurinn undir plastgljáandi súrefnisgrímunni; eitt sinn hafði hann verið maðurinn hennar. *** William Sandberg vildi eiginlega ekki deyja. Eða réttar sagt: Það var ekki efst á listanum hjá honum. Hann vildi fremur lifa og líða vel, hafa það bærilegt, læra að gleyma, hafa ástæðu til að þvo fötin sín og vakna á hverjum morgni og klæðast þeim og fara út og gera eitthvað sem skipti máli fyrir einhvern. Og reyndar þurfti ekki allt þetta til. Eitt eða tvennt af því myndi alveg duga. Það eina sem hann óskaði sér í raun og veru var að finna ástæðu til að hætta að hugsa um það sem særði hann. Og þar sem hann gerði það ekki, var næsti kostur á listanum sá að binda enda á þetta allt saman. Og meira að segja það hafði augljóslega ekki tekist allt of vel. „Hvernig líður þér?“ spurði unga hjúkrunarkonan fyrir fram­ an hann. Hann hafði þegar sest upp til hálfs í stífuðum hvítþvegnum sængurfötunum sem voru umbúin á sinn forneskjulega hátt, með lakið brotið yfir brúnina á gula sveitarfélagsmerkta teppinu, eins og heilsugæslan veigraði sér við að viðurkenna að sængur væru fyrir löngu komnar til sögunnar. Hann leit á hana. Reyndi að leyna því hve ruglaður og þjáður hann var af eitrinu sem var enn í skrokknum á honum. „Verr en þú myndir vilja,“ svaraði hann. „Betur en ég hefði ímyndað mér.“ Hún brosti við orðum hans sem kom honum á óvart. Hún var í mesta lagi tuttugu og fimm ára, ljóshærð og þar að auki ansi snotur. Eða kannski var það bara mild birtan frá glugganum að baki hennar. „Þetta virðist ekki hafa átt að gerast í þetta sinn,“ sagði hún. ~ 14 ~


Ósköp blátt áfram og næstum í venjulegum í samræðutón og það kom honum líka á óvart. „Það gefast fleiri tækifæri,“ sagði hann. „Það er nú gott,“ sagði hún. „Alltaf að vera bjartsýnn.“ Bros hennar myndaði fullkomna markalínu: Nógu stóra til að strika undir kaldhæðnina í orðunum en hæfilega litla til að ofgera ekki þurrlegri fyndninni, og allt í einu gat hann ekki látið sér detta í hug neitt svar og varð gagntekinn þeirri óþægilegu tilfinningu að samtalinu væri lokið og hún hefði haft betur. Í margar mínútur lá hann þögull og fylgdist með henni sinna verkum sínum á stofunni. Hnitmiðaðar hreyfingar, ákveðin skylduverk: Skipt um vökvaflösku, inngjöfin stillt, allt eftir bókinni. Þögul og skilvirk, og að lokum fór hann að halda að hann hefði misskilið þetta allt saman og hún hefði ekkert verið að spauga við hann. Svo lauk hún sér af. Sléttaði lakið yfir honum af skyldurækni án þess að sæist nokkur munur. Og stansaði eitt andartak. „Gerðu nú enga vitleysu á meðan ég er frammi,“ sagði hún að endingu. „Á meðan þú ert hér skapar það bara tilgangslaus vandræði, bæði fyrir þig og okkur.“ Hún blikkaði hann vingjarnlega í kveðjuskyni, skáskaut sér út á ganginn, lét lokunarbúnaðinn ofan á dyrakarminum um að loka dyrunum á eftir henni. William lá eftir í rúminu, fullur af undarlegri vanlíðan. Ekki af neinni sérstakri ástæðu. Honum leið bara illa. Hvers vegna? Af því að hún hafði ekki talað til hans með þeirri umhyggju sem hann vonaðist eftir? Eða vegna þess að þurrlegar athugasemdir hennar höfðu komið honum svo á óvart að eitt andartak hafði honum fundist sér vera ögrað, næstum skemmt? Nei. Hann var aðeins augnablik að átta sig. Hann beit á vörina. Það var húmorinn. Einmitt þetta grín. Hún hafði hitt naglann beint á höfuðið. ~ 15 ~


Allt í einu var hann ekki lengur plagaður af svimandi máttleysinu – hvort sem það stafaði af saltskorti eða vatnsskorti eða hinum framandi eituráhrifum sem pillurnar höfðu framkallað í hans hálfsextuga þreytta skrokki, til einskis gagns, og voru nú byrjuð að þverra? – eða af svíðandi sársaukanum í skurðunum sem voru strax farnir að gróa undir grisjunum sem þeir höfðu bundið um úlnliði hans. Það var eitthvað annað sem angraði hann. Tilfinningin sem kom alltaf, alltaf aftur og gagntók hann af tvíefldum krafti í hvert sinn sem hann leyfði sér að gleyma henni, sú hin sama og hafði knúið hann til að fara inn á baðherbergið í gærkvöldi og taka ákvörðun. Því að hann hafði ekki getað ráðið gátuna. Það hafði verið eina leiðin til að stilla þessu upp, hversu kaldhæðnislegt sem það nú var. Hann. Ófær um að ráða hana. Hver fjandinn. Hann hefði átt að biðja hjúkkuna um eitthvað róandi á meðan hún var enn inni hjá honum. Eða eitthvað verkjastillandi eða valíum eða þá bara högg á hausinn, ef hún vildi vera svo væn, en það hefði hún auðvitað ekki viljað. Hann var enn í sömu stöðu og í gærkvöldi: Í endalausu falli niður um myrk göng sem tóku aldrei enda, altekinn nístandi löngun eftir því að ná að minnsta kosti botninum og vonandi að deyja og losna þannig frá öllum hugsununum sem slepptu aldrei af honum klóm sínum. Þannig hafði hann öðlast örlitla ljósa vonarglætu, en þær höfðu þegar snúið aftur og löðrunguðu hann af fullum krafti og sýndu að það voru þær sem valdið höfðu, ekki hann. Hann teygði sig í snúruna sem hékk á veggnum. Dró að sér hnappinn til að hringja á aðstoð. Hann vonaði að sama hjúkk­ an myndi ekki svara kallinu, það yrði neyðarlegt fyrir hann að þurfa að biðja hana um svefnpillu, jafn hæðinn og svalur og hann hafði verið áðan. En ef hann gæti aðeins sofnað dálitla stund væri það samt vel þess virði. ~ 16 ~


Hugsaði hann og þrýsti á hnappinn. Honum til undrunar heyrðist ekki neitt. Hann ýtti aftur, lengur. Ekki neitt. Kannski ekkert skrítið, hugsaði hann. Hann var svo sem ekki að hringja á sjálfan sig. Bjallan hlaut að hringja í einhverju öðru herbergi þar sem læknarnir sátu og sinntu því sem læknar eru vanir að gera, og þá gat einhver brugðist við og sent sjúkraliða til að aðgæta hvers hann þarfnaðist. Svo leit hann á ljósið. Rauðan keilulaga plastskerm á veggn­ um, beint fyrir ofan rafmagnsinnstunguna. Ætti það ekki að lýsa, að minnsta kosti? Þótt hann heyrði ekki hringinguna, ætti þá ljósið ekki að kvikna eins og merki um að hann hefði ýtt á takkann? Hann þrýsti aftur. Og einu sinni enn. Ekkert gerðist. Hann var svo upptekinn af vanhæfni kallkerfisins að hann hrökk í kút þegar dyrnar opnuðust. Hann gjóaði að þeim augunum, reyndi að ákveða hvort hann ætti að beita sókn eða vörn: skammast yfir því að ljósið væri bilað eða biðjast afsökunar á að hafa hringt svona móðursýkislega. Hann komst ekki lengra í hugsunum sínum því augun vönd­ ust ljósinu sem barst inn um dyrnar og báðir valkostirnir guf­ uðu upp. Maðurinn sem stóð við fótagaflinn hjá honum var hvorki læknir né sjúkraliði. Hann var í jakkafötum, skyrtu án bindis og óeðlilega klunnalegum skóm með tilliti til fatanna. Hann virtist vera um þrítugt, en það var alltaf erfitt að segja til um aldur manna sem höfðu rakað af sér hárið, ekki síst þegar líkamsburðirnir báru svo augljóst vitni langvarandi og erfiðri þjálfun. Kannski sýndist hann eldri en hann var. Eða þvert á móti. „Eru þau handa mér?“ spurði William, þar sem honum datt ekkert skárra í hug. Hann nikkaði í átt að blómvendinum sem jakkafatamaður~ 17 ~


inn hélt á í höndunum, og ungi maðurinn leit niður á vöndinn, næstum eins og hann hefði verið búinn að gleyma honum. Hann svaraði ekki. Lagði blómin frá sér í vaskinn eins og ekkert væri eðlilegra. Þau höfðu aðeins verið tæki til þess að auðvelda honum að komast leiðar sinnar um sjúkrahúsgangana án þess að vekja sérstaka athygli. „William Sandberg?“ spurði hann. „Svona nokkurn veginn,“ svaraði William. „Sem sagt já.“ Maðurinn hreyfði sig ekki, stóð þarna bara og þagði, og þeir horfðu hvor á annan. Rétt eins og þeir mældu hvor annan út, enda þótt William væri varla fær um að sýna nokkra mótstöðu þarna sem hann lá. Þessi óvænta uppákoma var fremur fáránleg, og William skynjaði hvernig hann varð allt í einu glaðvakandi innra með sér. „Við höfum leitað þín,“ sagði maðurinn að endingu. Einmitt það? William reyndi að skilja hvað hann átti við. Hann gat ómögulega munað að nokkur hefði haft samband við hann upp á síðkastið, en á hinn bóginn var hann ekki viss um að hann hefði tekið eftir því þótt svo hefði verið í raun og veru. „Ég hef haft um ýmislegt að hugsa.“ „Við höfum skilið það.“ Við? Hvaða fjandans bull var þetta? William settist betur upp, reyndi að brosa þurrlega. „Ég væri meira en fús til að bjóða upp á eitthvað, en þeir eru ekki jafn örlátir á morfínið hérna og ég hafði vonast til.“ „Við þurfum á hjálp þinni að halda.“ Þetta kom á óvart, aðeins of snöggt, og það var eitthvað í röddinni sem ruglaði William í ríminu eitt augnablik. Augnaráð unga mannsins sem hvíldi á William var vissulega alltaf jafn rólegt, en um leið ýjaði það að einhverju allt öðru. Áhyggjum. Kannski jafnvel ótta. „Þá held ég að þú hljótir að vera að taka feil á mér og einhverjum öðrum,“ sagði William og baðaði út örmunum. Það er ~ 18 ~


að segja, eftir því sem hann gat. Vökvaslöngurnar og hjartaritaleiðslurnar heftu hreyfingar hans og gerðu ekki annað en að undirstrika það sem hann vildi segja: William Sandberg var tæpast í neinni aðstöðu til þess að hjálpa neinum með nokkurn skapaðan hlut. En kurteisi maðurinn hristi höfuðið. „Við vitum hver þú ert.“ „Og hverjir eru við?“ „Það skiptir ekki máli. Það ert þú sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er það sem þú getur gert.“ Tilfinningin sem fór um William var í senn kunnugleg og óvænt. Einmitt þessu samtali hafði hann beðið eftir í tíu ár eða kannski miklu frekar tuttugu. Þá hafði hann verið tilbúinn. En núna? Maðurinn við fótagaflinn talaði óaðfinnanlega sænsku en einhvers staðar í grunninn mátti greina hreim. Of fágaðan til þess að hægt væri að staðsetja hann nákvæmlega. En það var örugglega hreimur. „Fyrir hvern starfarðu?“ Ungi maðurinn horfði á hann. Með uppgerðarvonbrigði í augunum. Eins og William ætti að vita að hann fengi ekkert svar og það væri fyrir neðan virðingu hans að spyrja svona. „Öryggislögregluna? Varnarmálaráðuneytið? Erlent ríki?“ „Því miður get ég ekki sagt frá því.“ „Ókei,“ sagði William, „en ég bið að heilsa þeim og þakka fyrir blómin.“ Raddblærinn var afgerandi: Samtalinu var lokið, og til merkis um það lyfti hann aftur upp snúrunni með neyðarhnappinum. Þrýsti þumlinum á takkann, lengi, hafði augun ekki af unga manninum eins og til að sýna hve samtalinu væri gersamlega lokið. Ekkert gerðist í þetta skiptið heldur. „Ef hann virkaði myndi það sjást á ljósinu,“ sagði maðurinn. Óvænt. William leit á hann. Aftur eitt andartak meðan augnaráð þeirra tókust á, og síð­ ~ 19 ~


an sleppti William snúrunni, lét hana detta niður á magann á sér, þvert yfir gula sveitarfélagsteppið. „Ég er fimmtíu og fimm ára,“ sagði hann. „Ég hef ekki unnið í mörg ár. Ég er eins og virkið í Boden, ég var mikilvægur fyrir mörgum árum en í dag geri ég ekki annað en að hrörna.“ „Yfirmenn mínir meta það öðruvísi.“ „Og hverjir eru yfirmenn þínir?“ Rödd hans var hvöss. Hann var orðinn þreyttur á þessu samtali, hann vildi fá svefnpillurnar sínar og hverfa burt í stað þess að vera í einhverjum kaldastríðsleik við ungan löggusnáp, áratugum á eftir tímanum. En það var ungi maðurinn sem batt enda á samtalið. „Það var leitt,“ sagði hann. Andvarpaði mæðulega, færði að því búnu líkamsþungann yfir á fótinn nær dyrunum og sneri sér við. Þá fer hann, hugsaði William. Kynlegur endir á kynlegu samtali. En þegar maðurinn opnaði dyrnar fram á ganginn stóðu þar tveir menn til viðbótar og biðu þess að koma inn. *** Klukkan var tíu mínútur yfir eitt eftir hádegi og læknateymið ráfaði um bergmálandi gangana á bráðadeild Karólínska sjúkra­ hússins til að ganga úr skugga um ástand sjúklinganna. Þeir voru um það bil hálfnaðir og ekkert hafði komið verulega á óvart og næsti sjúklingur var maður á sextugsaldri sem hafði reynt að fyrirfara sér: Lyfjaeitrun og skurðsár á handleggjum. Varla nokkuð sem krafðist langrar legu á bráðadeildinni. Hann hafði fengið blóð, bæði til að bæta upp blóðmissinn vegna skurðsáranna og til þess að draga úr áhrifum lyfjanna sem hann hafði troðið í sig, en ástand hans við komu hafði ekki verið lífshættulegt, annaðhvort hafði hann tekið of lítið inn ~ 20 ~


vegna mistaka, eða hann var einn þeirra sem tóku þá áhættu að kalla með þessum hætti á athygli nákominna sem nenntu ekki að hlusta á þá. Hvernig sem því var nú varið þá lék enginn vafi á að hann yrði fljótlega ekki lengur á þeirra ábyrgð, og Erik Törnell læknir staðnæmdist eitt andartak fyrir framan dyrnar, lokaði sjúkraskránni sem hann hafði verið að fletta og kinkaði stuttaralega kolli til kollega sinna: Þetta ætti að verða stutt vitjun. Það fyrsta sem þeir sáu þegar þeir komu inn á sjúkrastofuna var tómt rúmið. Blómvöndur lá í vaskinum, blómavasinn á náttborðinu hafði oltið um koll og brotnað, sængurfötin lágu í kuðli á gólfinu og vökvaslangan lafði laus úr hylki sínu. Baðherbergið var tómt. Skápurinn hafði verið tæmdur af því sem tilheyrði sjúklingnum. Og skúffunni í litlu kommóðunni hafði verið kippt út og snúið á hvolf. William Sandberg var horfinn. Eftir klukkustundarlanga leit var staðfest að hann væri hvergi að finna á sjúkrahúsinu og að enginn hefði minnstu hugmynd um hvers vegna.

~ 21 ~


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.