Halld贸r Laxness: Br茅f til Ingu 1927-1939
Inngangsorð:
Halldór og Inga Fundum Halldór Laxness og Ingibjargar Einarsdóttir bar fyrst saman á Þingvöllum í júlí 1924. Hann var tuttuguogtveggja ára en hún sex árum yngri. Hann var fæddur í Reykjavík 1902 en hafði flust ungur með foreldrum sínum að Laxnesi í Mosfellssveit og alist þar upp uns hann fór aftur í bæinn unglingur til skólanáms sem reyndar varð endasleppt. Halldór var sigldur, hafði þegar skapað sér nafn sem rithöfundur í smábænum Reykjavík og fór létt með að heilla unga stúlku af virðulegu borgaraheimili, enda þótt hann dveldi bara í tjaldi en hún á Hótel Valhöll með vinkonum sínum. Hún lýsti fyrsta fundi þeirra í bréfi til hans fimm árum síðar: Ég man alveg orðrétt eftir fyrstu orðum, sem þú sagðir við mig; við vorum inni á Brúsastöðum ásamt Mrs. Wall ofl. Og þig vantaði eldspýtu til að kveikja þér í cigarettu með. Þú varst að bölsótast yfir því, að aldrei væru eldspýtur við hendina, þegar á þyrfti að halda! En allt í einu bentirðu á mig og sagðir: „Litla stúlka, þú getur kveikt í cigarettunni minni, – með augunum“! Ég held ég hafi vitað strax þá, að þú varst sá rétti. (Bréf Ingu til Halldórs 16.9.1929.)
Halldór og Inga byrjuðu reyndar ekki að umgangast að ráði fyrr en upp úr jólum 1926, þegar Halldór tók að venja komur sínar til hennar á Laufásveginn, þar sem hún bjó hjá foreldrum sínum, Sigríði Þorláksdóttur Johnson og Einari Arnórssyni, prófessor, fyrrverandi ráðherra og síðar hæstaréttardómara. Inga var sterk og sjálfstæð stelpa og Halldór sýndi henni virðingu þrátt fyrir aldursmuninn. Snemma árs 1927 hófst útgáfa á Vefaranum mikla frá Kasmír, hinni stóru skáldsögu Halldórs sem telja má eitt af upphafsverkum íslenskra nútímabókmennta. Vefarinn kom fyrst út í nokkrum heftum og færði Halldór Ingu þau jafnóðum. Fyrsta heftið áritaði hann með þessum orðum: „Til Íngu. Til minníngar ~ 9 ~
Skáldið og ástin
um þrána eftir æðri gildum“. Þráin eftir æðri gildum – og óslökkvandi ritfýsn – hafði rekið Halldór áfram allt frá því að hann hélt fyrst til útlanda árið 1919 og meðal annars leitt hann í klaustur um skeið. Það var þessi þrá, í mynd kaþólskrar trúar, sem hann glímdi við í Vefaranum og hafði reynt að skýra fyrir Ingu þessar fyrstu vikur sem þau voru saman. Í hönd fór tildragelsi og saklaus ást, með löngum samræðum og gönguferðum út á Mela þar sem haldist var í hendur en ekki meir. Um vorið skildi leiðir, Inga fór utan í maí en síðan hélt Halldór vestur um haf, og stefndi á slóðir Vestur-Íslendinga en þaðan til Hollywood, að elta sína skáldadrauma. Strax við aðskilnaðinn hóf Halldór að skrifa Ingu bréf af ótrúlegri ákefð og einlægni og hélt því áfram þau rösku tvö ár sem hann dvaldi í Ameríku. Í árslok 1929 kom hann heim og þann 1. maí 1930 gengu þau Ingibjörg í hjónaband. Það hélst í tíu ár og allan þann tíma skrifaði Halldór Ingu þegar hann var á ferðalögum án hennar, því hún var kona hans og trúnaðarvinur. Bréfin segja jafnframt sögu sambands þeirra, en einungis frá hans hlið. Besta heimildin um viðhorf Ingu er bókin sem Silja Aðalsteinsdóttir skráði eftir henni, Í aðalhlutverki – Inga Laxness (1987). Aldrei var Halldór meira skapandi en á fjórða áratugnum, þegar hann sendi alls frá sér fimmtán bækur, en skáldsögur þessa tímabils, Salka Valka, Sjálfstætt fólk og Heimsljós, komu út í nokkrum bindum. Jafnframt var hann stanslaust á ferðinni, frá Berlín til Buenos Aires, frá Grindavík til Moskvu; hann tók þátt í pólitískri og menningarlegri baráttu samtímans og virtist búa yfir óþrjótandi starfsorku. Allt þetta speglast í bréfunum, og þess vegna koma þau hér fyrir almenningssjónir. Halldór Laxness lifði til að skrifa og skrifin gáfu lífi hans merkingu. Lesendur þekkja það sem hann birti opinberlega en hér má lesa skrif hans sem ekki var ritstýrt fyrir opinberan vettvang; metnaður hans nakinn, dugnaður hans og sjálfsagi, listræn viðhorf og pólitískar hugsjónir, og alltaf í bakgrunni ástarsamband sem sveiflast milli stríðni og einlægni, afbrýðisemi og þrár, trúnaðar og hálfsannleika, eins og ástarsambönd gera. Og stundum verkar það á lesandann eins og aldrei njóti ást þeirra sín betur en í fjarlægð – og í bréfum. Við erum minnt á að við leitum til rithöfunda af því þeir geta komið orði að þeim vanda og þeirri gleði sem við öll þekkjum. Um leið veita þessi bréf einstaka innsýn í tíðaranda, samfélag og hugsjónir þessara bjartsýnu ára, milli tveggja heimsstyrjalda.
~ 10 ~
Inngangsorð
Fyrsta bréfið sem Halldór skrifar Ingu er ódagsett en líklega sent í janúar 1927. Það hljómar eins og stefnuskrá hins unga höfundar.
Laugardagskvöld. Ég hef takmark, það er satt, og ég mundi ekki láta nokkurs meðals ófreistað til að ná þessu takmarki. Síðan ég var lítill dreingur hefur það verið insta þráin mín, að vinna einhver mikil afreksverk firir einhvern mikinn hluta mannkinsins, – að skapa einhver verk, sem staðið gætu eins og minnisvarðar eitthvað fram í aldirnar, og leitt mannssálir út úr dýflissum, fram á við til meira víðsínis og þroska, – nær fullkomnun sinni. Til þess að geta þetta hef ég sett mér alveg afskaplega harðar kröfur. Alt, sem fellur inn í smekk meðalmenskunnar verð ég að forðast. Ínga, hefurðu ekki séð stundum á daginn börnin, sem eru að leika sér undir minnisvarðanum af Íngólfi Arnarsini? Það er eitthvað í þeirri sjón, sem mér finst heilagt: börnin, sem leika sér í grandleisi umhverfis minnisvarða landnámsmannsins! – Ég veit að þú hlítur að skilja, hvað það er í þessari hugsun, sem hrífur mig. Ég skrifa þér þetta af því, að ég veit þú skilur mig. Þegar þú lætur sem þú viljir ekki skilja mig, þá er það þetta, sem þú óttast: vilja minn til að brjótast fram til al-óvenjulegra markmiða. Það er kanski barnaskapur að heimta af nokkurri konu, að hún skilji slíkt eða hafi samúð með því, en einmitt að slíkri konu hef ég leitað. Þrá þín er sterk og stór, Ínga, – óvenjuleg. Ég vonaði, að við gætum mætst í þrá okkar …!
~ 11 ~