FORMÁLI
20. nóvember 1997
Hún sá gráan litblæ hvarvetna. Flöktandi skuggar og milt myrkur lögðust eins og ábreiða yfir hana og héldu á henni hita. Í draumi hafði hún horfið úr líkama sínum, svifið um eins og fugl, eða nei, það sem betra var, fiðrildi. Eins og dílótt, flöktandi listaverk sem til þess eins var í heiminn komið að vekja gleði og aðdáun. Eins og vera, svífandi í hæðum á milli himins og jarðar, með töfraduft í fórum sínum sem fært gat heiminum óendanlega ást og gleði. Hún brosti við tilhugsunina, henni fannst hún svo hrein og fögur. Nú tókust á um hana óendanlegur sorti og mild ljósleiftur eins og frá daufu stjörnuskini. Það var notalegt, næstum eins og æðasláttur sem felldi að takti sínum gnauð vindsins og skrjáf í blöðum. Hún gat ekki rótað sér en hún vildi það heldur ekki. Það myndi bara vekja hana af þessum draumi og þá kæmu kvalirnar og hver vildi það svo sem? Nú laukst upp fyrir henni urmull mynda frá lífsfrjóum tímum. Svipleiftur af henni og bróður hennar valhoppandi um sendna bakka, foreldrum sem hrópuðu á þau að hætta þessu. Hættið! hrópuðu þau. Af hverju alltaf að hætta? Var það kannski ekki þarna í sandhólunum sem henni hafði fyrst fundist hún vera frjáls? Hún brosti þegar fagrar ljóskeilur smugu undir hana eins og maurildistaumar. Ekki svo að skilja að hún hefði séð maurildi
7
en svona hlaut það að líta út. Maurildi eða streymandi gull í djúpum dölum. Hvar var hún nú aftur stödd? Var hún ekki eitthvað að hugsa um frelsi? Jú, það hlaut að vera vegna þess að henni hafði aldrei fundist hún jafn frjáls sem nú. Eins og fiðrildi sem átti sig alveg sjálft. Létt og leikandi og í kringum hana var fallegt fólk sem ekki skammaðist í henni. Hvarvetna voru skapandi hendur sem leiddu hana fram á við og vildu henni vel. Söngvar sem lyftu henni og höfðu aldrei verið sungnir áður. Hún andvarpaði ögn og brosti. Lét straumfall hugsananna bera sig á alla staði og engan í senn. Svo minntist hún skólans og hjólsins, morgunsins napra og ekki síst glamrandi tannanna í sjálfri sér. Og einmitt í sömu andrá og raunveruleikinn opinberaði sig og hjartað gafst endanlega upp þá rifjaðist einnig upp höggið þegar bíllinn skall á henni, hljóðið í brotnandi beinum, trjágreinarnar sem gripu hana, stefnumótið sem …
8
1
Þriðjudagur 29. apríl 2014
„Hei, Carl, vaknaðu. Síminn er aftur farinn að hringja.“ Carl leit syfjulega á Assad sem var allur hjúpaður gulu eins og karnivalfígúra. Samfestingurinn hafði verið hvítur og krullukollurinn svartur þegar hann hófst handa um morguninn svo það mátti kraftaverk heita ef einhver snefill af málningu hefði ratað á veggina. „Þú truflaðir mig í djúpri íhugun,“ sagði Carl og færði fæturna með semingi ofan af borðinu. „Ókei! Afsakaðu!“ Það birtust nokkrar broshrukkur í skeggstubbafrumskógi Assads. Hvað var nú þetta sem greina mátti í augum hans? Vottur af háði, kannski? „Já, ég veit að þú vannst fram eftir í gærkvöldi, Carl,“ hélt Assad áfram. „En Rose fær kast ef þú lætur símann hringja endalaust. Viltu ekki bara svara honum næst?“ Carl gjóaði auga upp í skæra birtuna sem barst frá kjallaraglugganum. ,Æ, smá smókmóða hlýtur dempa hana‘, hugsaði hann, seildist í pakkann og skellti fótunum upp á borðið rétt í því að síminn tók aftur að hringja. Assad benti ákveðið á hann og smaug út um dyrnar. Það var orðið meira fjandans ofríkið að hafa þessa tvo þokulúðra nærri sér. „Carl,“ sagði hann og geispaði í tólið sem hann lét liggja á borðinu. „Halló,“ heyrðist í því.
9
Hann bar tólið að vörunum með slyttislegri hendi. „Við hvern tala ég?“ „Er þetta Carl Mørck?“ sagði rödd með syngjandi Borgundar hólmshreim. Hreint ekki mállýska sem Carl fékk í hnén yfir. Bara einhver léleg sænska með slatta af málfræðilegum rangsnúningi sem einungis var brúkleg á þessu skeri. „Já, ég er Carl Mørck. Var það ekki það sem ég sagði?“ Það var andvarpað á hinum endanum. Það hljómaði næstum eins og léttir. „Þú ert að tala við Christian Habersaat. Við hittumst fyrir mannsaldri en þú manst sjálfsagt ekki eftir mér.“ ,Habersaat?‘ hugsaði hann. ,Frá Borgundarhólmi?‘ Carl dró seiminn. „Jaaaaa, þaaaað …“ „Ég var að vinna á lögreglustöðinni í Nexø þegar þú og yfirmaður þinn komuð hér fyrir nokkrum árum til að flytja fanga til Kaupmannahafnar.“ Carl rótaði í heilabúinu. Hann mundi vel eftir fangaflutningnum … en Habersaat? „Neeee … júúú …,“ sagði hann og seildist eftir sígarett unum. „Afsakaðu að ég ónáða þig en áttu stund aflögu til að hlusta á mig? Ég var að lesa að þið væruð nýbúin að ljúka þessu snúna máli með sirkusinn á Bellahøj. Til hamingju með það, þótt það hljóti að vera ergilegt að gerandinn skuli hafa svipt sig lífi áður en réttað var í málinu.“ Carl yppti öxlum. Rose hafði verið ergileg yfir því en Carli var skítsama. Nú var allavega einum drullusokki færra að hafa áhyggjur af. „Ókei, það er þá ekki út af því máli sem þú hringir?“ Hann kveikti í rettunni og hallaði höfðinu aftur. Klukkan var bara hálftvö, heldur snemmt til að vera búinn með sígarettukvóta dagsins svo kannski ætti hann að auka hann. „Ja jú, en samt ekki. Ég hringi bæði út af því máli og öllum hinum sem þið hafið upplýst svo glæsilega á síðustu tveimur árum. Ég vinn sem sagt hjá lögreglunni á Borgundarhólmi og er staddur núna í Rønne en fer á eftirlaun á morgun, guði sé 10
lof.“ Hann reyndi að hlæja. Það virkaði dálítið þvingað. „Tímarnir hafa breyst svo það er ekki lengur mjög spennandi að vera ég. Okkur er víst öllum svipað innanbrjósts en fyrir aðeins tíu árum var ég sá sem vissi allt um allt sem gekk á hér á miðeynni og austurströndinni. Já, það er þess vegna sem ég hringi, þannig lagað séð.“ Carl lét höfuðið falla fram. Ef maðurinn ætlaði að fara að troða upp á þau máli yrði hann fyrir alla muni að segja pass við því undireins. Hann nennti í öllu falli ekki að hefja rannsókn á eyju sem hafði reykta síld að auðkenni sínu og lá töluvert nær Póllandi, Svíþjóð og Þýskalandi en Danmörku. „Hringirðu til að biðja okkur fyrir mál? Þá er ég hræddur um að ég verði að vísa þér á kollegana á einni af efri hæðunum. Hér niðri á Deild Q höfum við hreinlega of mikið að gera.“ Það varð þögn á hinum enda línunnar. Og svo var lagt á. Carl starði utangátta á símann áður en hann skellti tólinu á sinn stað. Fyrst það var svona létt að fæla kauða frá átti hann skrattakornið ekki annað skilið. Hann hristi höfuðið en náði varla að leggja augun aftur áður en draslið hringdi á ný. Carl dró andann djúpt. Sumt fólk þurfti alltaf að fá allt með stóru sleifinni. „JÁ!“ hrópaði hann í tólið. Kannski það myndi hræða hálfvitann til að leggja á aftur. „Eh, Carl?! Ert þetta þú?“ Þetta var ekki alveg röddin sem hann hafði átt von á. Hann hleypti brúnum. „Mamma, ert þetta þú?“ spurði hann varfærnislega. „Ég verð alltaf dauðhrædd þegar þú öskrar svona! Er þér illt í hálsinum, ljúfur?“ Carl andvarpaði. Það voru þrjátíu ár frá því hann flutti að heiman. Eftir það hafði hann hrærst innan um ofbeldismenn, melludólga, brennuvarga, morðingja og fjöldann allan af líkum á öllum hugsanlegum stigum rotnunar. Það hafði verið skotið á hann. Það höfðu splundrast hjá honum kjálki, úlnliður, einkalíf og allur ærlegur metnaður sveitapiltsins. Það 11
voru þrjátíu ár liðin frá því hann skóf plógmoldina af stíg vélaklossunum og sagði við sjálfan sig í eitt skipti fyrir öll að hann réði sínu eigin lífi og að foreldrar væru fyrirbæri sem maður gæti sleppt eða haldið eftir hentugleikum. Hvernig í fjáranum stóð þá á því að hún skyldi enn, með einni einustu setningu, geta látið honum líða eins og pelabarni? Carl neri á sér augun og rétti dálítið úr sér í stólnum. Þetta ætlaði að verða langur, langur dagur. „Nei, mamma, ég er frískur. Við erum bara með iðnaðarmenn hérna svo maður heyrir ekki í sjálfum sér.“ „Jæja, en ég hringi nú í þig af mjög sorglegu tilefni.“ Carl herpti varirnar og reyndi að ráða í raddblæinn. Var hún döpur? Var hún að fara að tilkynna honum andlát föður hans? Núna, þegar hann hafði ekki komið á æskuslóðirnar eða heimsótt þau í meira en ár. „Er pabbi dáinn?“ prófaði hann að segja. „Almáttugur minn, nei, haha. Hann situr við hliðina á mér að drekka kaffi. Hann var úti í svínahúsi að rófuklippa grísi. Nei, það er hann Ronny, frændi þinn.“ Nú tók Carl fæturna ofan af borðinu. „Ronny? Dáinn? Hvernig?“ „Hann datt bara allt í einu út af í Taílandi í miðju nuddi. Eru þetta ekki hræðilegar fréttir á svona fallegum vormorgni?“ Í miðju nuddi í Taílandi, sagði hún. Tja, við hverju var svo sem að búast? Carl tafsaði dálítið til að finna sæmilega viðeigandi svar. Slíkt valt nú ekki upp úr manni svona sjálfkrafa. „Jú, hræðilegar,“ tókst honum að stynja upp og reyndi að bægja frá sér ljótri mynd af vafalaust einkar notalegum viðskilnaði þessa skvapholda frænda síns. „Sammy flýgur þangað á morgun til að sækja hann og dótið hans. Það er best að fá það hingað heim áður en það dreifist út um allt,“ sagði hún. „Sammy er alltaf svo praktískur.“ Carl kinkaði kolli. Þegar bróðir Ronnys tæki til hendinni yrði örugglega um að ræða ekta, jóska groddatiltekt. Allt drasl ið í bing og heila klabbið ofan í tösku. 12
Hann sá konu Ronnys fyrir sér. Hún var lítil og taílensk, ágæt út af fyrir og átti allt gott skilið en eftir heimsókn bróðir Ronnys yrði víst fátt annað aflögu handa henni en hillurnar með kínversku drekunum. Svona var heimurinn. „Ronny var giftur, mamma. Ég held ekki að Sammy geti búist við að mega sanka að sér eins og ekkert sé.“ Hún hló. „Æ, þú þekkir Sammy, það bjargast ábyggilega. Annars verður hann þarna úti í tíu–tólf daga. Menn hafa nú leyfi til fá sér smá sól á belginn þegar svona langt er farið, segir hann og það er svo sannarlega rétt. Hann er vænn maður, hann Sammy, frændi þinn.“ Carl kinkaði kolli. Eini skýri munurinn á Ronny og litla bróður hans, Sammy, var einn sérhljóði og þrír samhljóðar. Engir íbúar á Jótlandi, norðan Limafjarðar, myndu efast um skyldleikann því bræðurnir voru eins líkir og tveir vesældardropar. Væri einhver kvikmyndaleikstjóri orðinn uppiskroppa með yfirlætisfulla, sjálfhverfa og með öllu óáreiðanlega gleiðgosa í skræpóttum skyrtum þá hefði þann þó alltént Sammy upp á að hlaupa. „Jarðarförin verður laugardaginn 10. maí hérna í Brønderslev. Það verður ósköp indælt að hitta þig hérna norður frá, drengurinn minn,“ hélt móðir hans áfram. Og á meðan hún flutti hina óhjákvæmilegu greinargerð um daglegt líf jóskrar bændafjölskyldu norðan fjarðar, með sérstakri áherslu á svínarækt, að viðbættri úttekt á brakandi mjaðmaliðum föður hans og almennri úthúðun á pólitíkusum í Kristjánsborg og ýmsu öðru niðurdrepandi efni þá minntist Carl hinna illúðlegu orða í síðasta pósti Ronnys til hans. Sá póstur var klárlega hugsaður sem hótun og hafði vakið Carli óvenju mikla óró og gremju. Um síðir hafði svo komið í ljós að Ronny ætlaði sér að kúga út úr honum peninga með þessu röfli. Var frændi hans kannski ekki einmitt týpan til að finna upp á slíku? Og vantaði hann kannski ekki alltaf peninga? Carli leist ekkert á þetta. Yrði hann nú aftur að standa frammi fyrir þessari fáránlegu staðhæfingu? Þetta var auð vitað rakin della en búi maður í landi H.C. Andersens veit 13
maður hve fljótt ein fjöður getur orðið að fimm hænum. Og fimm hænur af þessu tagi, í þeirri ábyrgðarstöðu sem hann var og með yfirmann eins og Lars Bjørn, voru ekki alveg það sem hann vantaði helst. Hvern andskotann hafði Ronny verið að pæla? Við ýmis tækifæri hafði hálfvitinn blaðrað um það í votta viðurvist að hafa drepið föður sinn og það var svo sem nógu slæmt. En verra var að hann hafði dregið Carl ofan í þann haug með því að lýsa því yfir opinberlega að Carl hefði verið með í að myrða pabba Ronnys í veiðiferð og í þessum hraksmánarlega lokapósti hafði hann tjáð Carli að hann væri meira að segja búinn að skrifa um þetta bók sem hann ætlaði að reyna að fá gefna út. Eftir það hafði Carl ekki heyrt neitt frá honum en þetta var rakið skítamál sem gjarnan mátti fá sínar lyktir, núna þegar maðurinn var dauður. Carl fálmaði eftir sígarettunum. Hann ætlaði að þessari jarðarför, ekki spurning. Þá kæmi líka í ljós hvort Sammy hefði tekist að fá konu Ronnys til að sleppa einhverju af erfðagóssinu. Önnur áþekk erfðamál þar austurfrá höfðu endað með ofbeldi og auðvitað mátti alltaf vona að svo færi einnig núna. En hún Tingaling litla, eða hvað sem kona Ronnys hét, virtist vera af öðru og betra tagi. Hún myndi sjálfsagt halda eftir einhverri botnfylli í kistu af því sem henni bar og sleppa hendi af afganginum. Þar á meðal kannski meintri tilraun Ronnys til frama á ritvellinum. Nei, það kæmi honum hreint ekki á óvart þótt Sammy ætti eftir drösla því blekbulli með sér heim. Færi svo var ekki um annað að ræða að hrifsa það til sín áður en það færi á flakk í fjölskyldunni. „Ronny var vel stæður undir lokin, vissirðu það?“ tísti móðir hans einhvers staðar í fjarska. Carl lyfti brúnum. „Jæja, var hann það? Þá má reikna með að hann hafi höndlað með einhver efni. Ertu viss um að hann hafi ekki endað í snöru á bak við þykka fangelsismúra taílenska réttarkerfisins?“ Hún hló. „Tí-hí, Carl. Þú hefur alltaf verið svo fyndinn krakki.“ 14
Tuttugu mínútum eftir samtalið við lögguna á Borgundar hólmi stóð Rose í dyrunum og bandaði frá sér tóbaksslæðum Carls með illa dulinni óbeit. „Ertu búinn að tala við Habersaat aðstoðarvarðstjóra, Carl?“ Hann yppti öxlum. Það var ekki beint það samtal sem honum var nú efst í huga. Hvað skyldi Ronny hafa skrifað um hann? „Sjáðu þetta.“ Hún fleygði pappírsörk á borðið fyrir framan hann. „Ég fékk þennan tölvupóst fyrir tveimur mínútum. Ættirðu ekki að drífa í að hringja í manninn?“ Á blaðinu stóðu tvær setningar sem gerðu stemminguna á skrifstofunni enn verri það sem eftir var dagsins. Deild Q var mín síðasta von. Nú get ég ekki meira. C. Habersaat.
Carl leit á Rose sem stóð og hristi höfuðið eins og kerlingarbeygla sem er alveg búin að gefast upp á hjónabandinu. Hann kunni síst að meta þessa stæla en svona var best að hafa það með Rose. Frekar tveir löðrungar í þögn en tvær mínútur með látum og leiðindum. Þannig fúnkeraði allt á milli þeirra og Rose var þrátt fyrir allt gott grey undir niðri. Þótt stundum væri dálítið djúpt á því. „Þar höfum við það! En fyrst það varst þú sem fékkst póstinn, Rose, þá skalt þú líka að fá vesenið. Seinna geturðu svo sagt mér hvað kom út úr því.“ Hún fitjaði upp á nefið svo brestir komu í maskann. „Ég vissi að þú myndir segja þetta. Svo ég hringdi auðvitað í hann undireins en talhólfið var á.“ „Hmmm. Þá þykist ég vita að þú hafir sagst myndu hringja aftur seinna, ha?“ Um leið og hún játti því dró bliku á loft yfir höfði henni og hún hékk þar áfram. Hún var víst búin að hringja fimm sinnum en maðurinn svaraði bara ekki. 15