Bókin er tileinkuð minningu föður míns, Thors Vilhjálmssonar (1925–2011)
Valeyrarvalsinn © Guðmundur Andri Thorsson 2011 Hönnun kápu: Jón Ásgeir Umbrot: Einar Samúelsson, Hugsa sér! Letur í meginmáli: Palatino 10/15,8 pt. Prentun: Oddi, umhverfisvottuð prentsmiðja Printed in Iceland JPV útgáfa · Reykjavík · 2011 Öll réttindi áskilin. Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar og útgefanda. ISBN 978-9935-11-216-3 JPV útgáfa er hluti af www.forlagid.is
Forlaginu ehf.
Hún kemur af hafi …
Hún kemur af hafi og fer inn eftir eyri. Þegar degi tekur að halla sígur þokan hægt inn eftir firðinum eins og hún gerir
ævinlega á sumrin, snuðrar kringum holtin, skimar bak við
hóla, líður inn í þorpið þar sem hún sleikir húshorn og lyftir
sér síðan nægilega til þess að ég geti horft inn um glugga. Ég sé leyndarmálin. Ég sé fólkið elda og bauka, pissa, syngja,
þegja og húka. Sumir gráta, sumir hlusta, sumir stara. Ég sé fólkið æpa í kodda, henda rusli og ónýtum minningum og ég lít ekki undan. Ég lít aldrei undan. Jósa er ein og sýpur
volgan bjór úr dollu á meðan hún skannar inn gömlu bekkj
armyndirnar sínar til að setja á Facebook. Kalli er í hlöðunni sinni að slappa af, búinn að vera að bjástra við eina þvotta vélina enn. Anna og Jói talast ekki við í dag. Jónas læknir
starir í gaupnir sér en Lalli lundi er lagður af stað í göngutúr og í þann veginn að rekast á hana Láru systur sína sem hann hefur ekki talað við áratugum saman … Og hérna klórar
Sveinsína sér á milli herðablaðanna með trésleif, hún ætlar að
5
líta til Jósu á eftir í tilefni dagsins en þá verð ég horfinn með þokunni. Rétt bráðum verð ég horfinn með grárri þokunni.
Við mjökumst áfram fyrir húshorn. Hún fer á undan mér
eins og hún eigi að vera mætt einhvers staðar og sé orðin
þreytt á drollinu í mér en við dokum samt við hjá litla rauða
húsinu með gráa þakinu þar sem krakkarnir hennar Ástu eru miklu skárri í dag af kvefinu og Una litla er loksins hætt að gráta. Öll leyndarmálin í litlu þorpi – þau eru að vísu ekki
stórvægileg, ekki öll að minnsta kosti og ekki alltaf, en við
þokan erum samt hér á glugga eins og hnýsinn og tvíeinn guð sem getur ekki hætt að fullvissa sig um að mannlífið
haldi áfram og hafi sinn gang þótt hann hafi gefið mönn
unum frjálsan vilja. Hún kemur af hafi og fer inn eftir eyri.
Henni fylgir kul og enginn fagnar henni. Smyrill skáld finnur samt andann koma yfir sig þegar við nálgumst og stendur
upp frá verkum sínum, tekur upp snjáðu og brúnu nótubók ina sína, gengur hægt fram í eldhús og að glugganum þar
sem hann horfir inn í buskann og hripar niður hugarmyndir fyrir ljóðaflokkinn sinn, Angan af ösku. Þokan er buskinn sem
umlykur þig skyndilega. Hún er hið voðfellda mótlæti. Hún
er lögmálið sjálft. Hún kemur af hafi og fer inn eftir eyri og fólkinu hérna finnst hún vera allt sem er grátt, þögnin kalda
sem leggst hér stundum yfir lífið rétt eins og hún sveipaði rétt í þessu þorpsfjallið Svarra. Svo kemur kvöldið. Svo kem ur nóttin. Og með nóttinni kemur rigningin.
Ástir vakna, blóm deyja, fólk gefst upp í miðri brekku,
bílljós hverfa inn í kvöldsortann, kertaljós flöktir í golu frá glugga, stundir hverfa ekki úr sinni en dagarnir líða. Mán
uðir líða, kenndir og ár. Ég sé þetta bláa í himninum í apríl
6
og þetta græna í grasinu í maí. Ég sé vængjatökin þegar suðrið nálgast, heyri nýjan óm í þyt stráanna. Ég sé þetta
rauða í kinnum barnanna á vorin þegar þau eru búin að
vera úti að leika allan daginn. Ég sé haustveðrin í andlitum
fólksins þegar það er búið að loka svipnum. Ég finn lykt ina af vetrinum þegar hún stígur af hafi seint á haustin og
dauðinn breiðist yfir veröldina. Ég hef séð ást vakna í augum og deyja í athöfnum. Ég hef séð yfirgefið barn hætta að gráta. Ég hef séð menn drukkna og drengi hengja sig. Ég hef séð þungaða konu myrta og grafna.
Ég er löngu dauður. Ég ætti að vera fyrir löngu slokkn
aður og kannski er ég það líka en hef bara ekki áttað mig á því enn. Ég er bara vitund. Ég kem af hafi og fer inn eftir
eyri og bráðum verð ég horfinn með þokunni. Ég er síðdegis golan og ég vitja fólksins um hálffimmleytið á daginn og fýk
svo eitthvað burt klukkutíma síðar til míns heima sem er í
því liðna; það er í grasinu sem bærðist áðan, það er í fræjum biðukollunnar sem líða á nýjan stað, það er í fellingum kjóls ins hennar Kötu sem hjólar hér niður eftir Strandgötunni á leiðinni niður í Samkomuhús.
7