Hreinn Ragnarsson
Síldarannáll MS Word skrá með síldarannál frá 1866 til 1998. Gefin út í 10 eintökum í janúar 2010.
Síldarannáll 1866 "7. þ.m. fengust hjer á Akureyri með dráttarnetjum 250 tunnur af vænni síld og aftur 9. s.m. 170 tunnur, var hver tunna seld á 4 mörk, sem öllum þótti, eins og var, gott matarkaup og bjargarbót." Norðanfari 30. júní 1866
2
1867 Skip frá Mandal í Noregi hafa nú um nokkurra ára skeið komið á hverju sumri með timburfarma til Íslands. Í sumar komu mörg slík, m.a. til Akureyrar og Seyðisfjarðar. Eitt þessara skipa kom til Akureyrar 8. ágúst. Þegar Norðmennirnir höfðu selt farminn fóru þeir út undir Hrísey og reyndu síldveiðar. Þeir fengu þar 20 - 30 tunnur með fyrirdrætti. Albert Jakobsen í Mandal sendi skip til Seyðisfjarðar. Þetta var galeas, hlaðinn timbri, en auk þess hafði hann meðferðis síldarnet, tunnur og salt. Menn Jacobsens voru sektaðir fyrir ólöglegar veiðar, en um haustið komu þeir heim með 300 tunnur "af utmærket sildesort". Margir hafa nú áhyggjur af síauknum yfirgangi erlendra fiskimanna, einkum Breta og Frakka, og sumir eru svartsýnir á framtíðina. Ef að hinir útlendu fiskimenn skyldu nú halda því áfram að verða ávallt nærgöngulli við landsmenn með veiðar sínar, eins og þeir hafa gjört um næstliðin ár, mætti giska á að þeir að 10 - 20 árum liðnum yrðu farnir 3
að leggja lóðir og net inni á fjarðarbotnum, og draga fyrir síld og silung, þar sem því verður komið við, og hvar mundi slíkur yfirgangur staðar nema ? Á Austfjörðum var bæði fiskur og síld inni í fjarðarbotnum fram undir jól. Norðanfari 17/6 og 10/9 1867 Hovland K.S.: Norske seilskuter på Islandsfiske s. 13 Nielsen A.W. Mandals Sjöfartshistorie, s. 34 Pétur Guðmundsson: Annáll 19. aldar III - 35
1868 Veturinn var einstaklega mildur svo að víðir og fjalldrapi voru útsprungnir í janúar en sumarið var óvenju vætusamt, einkum á Austfjörðum. Á Austfjörðum var síld inni í fjarðarbotnum þegar í febrúar. Albert Jakobsen hefur nú stofnað félag með sex öðrum útgerðarmönnum í Mandal. Það heitir Mandals Fiskeriselskab. Þetta er öflugt félag með 100.000 króna hlutafé. Félagið sendi í sumar leiðangur til síldveiða við Ísland. Þeir bjuggu skipin veiðarfærum, tunnum, salti 4
og húsaviði. Veiðarfæri og þjálfaða síldveiðimenn fengu þeir í Haugasundi. Skip félagsins, "Capella", "Draupner" og "Peter Roed", komu til Akureyrar og lágu síðan um skeið á Eyjafirði en öfluðu lítið. Þau héldu síðan austur á Seyðisfjörð. Þar keypti félagið stóra lóð við hlið lóðar sem Jakobsen keypti í fyrra. Norðmennirnir reistu nú hús á lóðinni og hófu síldveiðar. Veiðarnar gengu illa í fyrstu en um haustið gekk mikil síld í fjörðinn. Norðmennirnir fengu um 2.400 tunnur en um miðjan október gerði vonskuveður og þá misstu þeir síldina úr nótunum, e.t.v. annað eins og það sem þeir höfðu saltað. Auk skipa Mandalsfélagsins voru 2 skip frá Weyergang útgerðarmanni í Mandal. Þetta voru "Sleipner" og "Caroline". Áhafnir þessara skipa stunduðu fyrst og fremst verslun en hafa líklega fengist eitthvað við síldveiðar. Skipstjóri "Sleipnis", Otto Wathne, keypti lóð á Búðareyri. Loks voru svo menn frá Hammersfélaginu eða "Danska Fiskiveiðafélaginu" á Vestdalseyri. Þeir eru nú að gefast upp á hvalveiðunum en reyndu síldveiðar. Þeir keyptu net af Norðmönnum en öfluðu sáralítið, um 100 tunnur. Norðmennirnir skildu eftir þrjá beykja sem 5
munu dvelja í húsi þeirra í vetur við tunnusmíði. Baldur 24/3 1869 Norðanfari 15/2, 10/10, 2/11 og 18/12 1868 Hovland K.S. Norske seilskuter på Islandsfiske, s. 13 Nielsen A.W. Mandals Sjöfartshistorie, s. 34
1869 Mikil harðindi voru allt vorið á Norðurlandi og lá hafís við land langt fram á sumar. Norðmenn komu til Seyðisfjarðar þegar í aprílmánuði. Hér var um að ræða þrjú félög með tvö skip hvert. Abrahamsson stendur fyrir félagi Jakobsens. Hann hefur byggt tvö hús. Annar útvegurinn er kenndur við Andersen. Hinum þriðja stjórnar Otto Wathne. Hann byggði lítið hús sem hann seldi Hammer og "heljar mikla bryggju". Andersen reyndi að fara til Siglufjarðar eða Eyjafjarðar en komst ekki lengra en á Borgarfjörð vegna hafíss. Norðmennirnir biðu svo á Seyðisfirði fram á haust en fengu nánast enga síld en kroppuðu ofurlítið af þorski. Þeir seldu timbur, rúg o.fl. en keyptu kjöt og ull í staðinn. Hammer sendi 6
skip til Björgvinjar eftir veiðarfærum til síldveiða en varð ekkert ágengt í veiðiskapnum frekar en Norðmönnum. Hinn 30. október gerði hið versta veður á Seyðisfirði. Skip Wathnes, sem voru tjóðruð við klett í landi, losnuðu þegar kletturinn sprakk fram. "Sleipni" rak yfir fjörðinn og strandaði en "Caroline" rak til hafs. Skip Hammers, "Thomas Roys", fann hana og dró óskemmda til hafnar. Hammer keypti síðan flakið af "Sleipni". Á Eyjafirði hófu heimamenn síldveiði strax og ísa leysti um vorið og veiddist töluverð síld fram eftir sumri, einkum á Akureyrarpolli. Síldin veiddist bæði í lagnet og með fyrirdrætti. Þannig veiddust t.d. 150 tunnur með fyrirdrætti 30. júní. Smásíld var seld á 48 sk. tunnan og spiksíld á 1/2 sk. stykkið. Í nóvembermánuði kom mikið síldarhlaup í Hafnarjörð. Þetta var stór og feit hafsíld og var talsvert veitt af henni. Hún var notuð til beitu í Hafnarfirði og nálægum verstöðvum. Þessi síld hefði eflaust verið hin besta til söltunar en tunnur skorti og í Hafnarfirði kann enginn til verka á þessu sviði. Norðanfari 8/5, 24/6, 24/7, 1869 og 20/1, 29/1 1870 Þjóðólfur 25/11 1869 og 9/2 1870 7
Sjöfartshistorisk årbok 1970 s. 265 - 6 Wathne T. : Sendibréf til Worm Müller.
1870 Síldveiði var afar léleg á þessu ári. Síldaraflinn í Hafnarfirði hélst þó í janúar. " og hefur verið nægra af henni en notað yrði, og vottar það eigi ofdugnað landa vorra, enda er það einkenni margra sjómanna á Suðurlandi að sækja og nota sjóinn síst, þá er það er til nokkurs gagns." Á Eyjafirði var sáralítill síldarafli, þó fengust þar 90 tunnur með ádrætti í júnímánuði. Á Seyðisfirði reyndu Hammersskipin fyrir sér en fengu nauðalítið. "... væri þó synd að segja að tilburðina vanti hjá þessum piltum." Norðmennirnir komu ekki fyrr en seint í júlí. Eftir að hafa reynt fyrir sér á Seyðisfirði héldu þeir til Eyjafjarðar en fengu ekkert þar. Meðan þeir voru nyrðra fylltist Seyðisfjörður af síld en hún var horfin að mestu þegar þeir komu til baka. Nú eru Otto Wathne og Mandalsfélagið ein um hituna. Heildarafli Norðmanna var um 160 tunnur. Þeir héldu heim í októberlok. 8
Baldur 2/2 1870 Norðanfari 27/7, 5/11 1870 og 21/1 1871 Þjóðólfur 12/1 1870 Matthías Þórðarson: Síldarsaga Íslands, s. 89 Tönnes Wathne: Sendibréf til W.M.
1871 Sama aflaleysið hefur haldist þetta ár. Engar fregnir eru af síld í Eyjafirði og af Austfjörðum er sömu sögu að segja. Hammersfélagið hefur nú hætt störfum og þótti ýmsum tími til kominn eftir að þeir hafa tapað 240.000 ríkisdölum. Norðmenn lágu fyrir Austfjörðum. Þeir fengu sáralitla síld en eitthvað af þorski og sigldu því létthlaðnir heim á leið. Eitt skip kom þó í höfn í Haugasundi með einhverja síld innanborðs. Mandalítarnir hafa yfirleitt fólk frá Haugasundi við veiðarnar og skila því heim að lokinni vertíð. Síldarhlaup kom í Hafnarfjörð í nóvember en hér fór sem fyrr, tunnur og verkkunnátu skorti. Notin af síldinni urðu því minni en ella.
9
Fréttir frá Íslandi 1871, s. 30 - 31 Norðanfari 7/11 1871 og 7/3 1872 Östensjö R.: Haugesund I. 1835 - 1895, s. 327
1872 Síldveiði var heldur betri þetta ár en árin á undan. Í Hafnarfirði hélst veiði áfram í janúar. Í Eyjafirði fékkst nokkuð af síld að áliðnum vetri en þó einkum í júní og svo aftur í október. Þannig fengust 9. júní 5oo tunnur með ádrætti á Akureyri. Þessi síld seldist öll á 2 dögum á 4 mörk tunnan og snemma í október fengust á annað hundrað tunnur. Á Seyðisfirðivoru Mandalítarnir enn á ferð. Þeir öfluðu drjúgt af fiski en lítið af síld. Þeir eru nú að mestu hættir með nætur en nota lagnet í þeirra stað. Tvær norskar jaktir komu til Seyðisfjarðar til að sækja reytur Hammersfélagsins en Björgvinjarsamlagið keypti tunnu- og saltbirgðir þeirra. Fréttir frá Íslandi 1872, s. 19 Norðanfari 14/6, 13/7, 29/9, 15/10, og 2/11 1872 M.Þ.: Síldarsaga Íslands s. 89. 10
1873 Á þessu ári lifnaði heldur yfir síldveiðinni. Í Eyjafirði var einkum afli snemma vors, í mars og apríl, fyrst úti við Krossanes en síðar inni við Akureyri. Á Seyðisfirði var lítill afli framan af en batnaði þegar leið á haustið. Í september höfðu Norðmenn fengið um 700 tunnur. Reyðarfjörður og Eskifjörður fylltust af síld og var veidd þar síld í fyrsta skipti svo nokkru næmi. Íslendingar veiddu sér síld til beitu. Norðmenn fengu 350 - 400 tunnur á Eskifirði. Snemma í nóvember kom Mandalsskúta með síldarfarm frá Íslandi til Haugasunds. Fréttir frá Íslandi 1873 s. 23 Norðanfari 8/2, 10/6, 16/9 og 7/11 1873 Karmsundsposten 15/11 1873.
1874 Mjög lítið var um síld á þjóðhátíðarárinu. Norðmenn voru með eitt skip á Seyðisfirði en veiddu lítið. Þó er skráð koma eins skips, sem 11
var að einhverju leyti hlaðið síld, til Haugasunds á þessu ári. Norðmenn seldu timbur að venju og keyptu kjöt í staðinn. Færeyingar lágu á fjórum skipum fyrir Austfjörðum og fengu eitthvað af síld. Engar fréttir bárust um síld í Eyjafirði. Fréttir frá Íslandi 1874, s. 43 Norðanfari 29/1 og 19/2 1875 Östensjö R. Haugesund I 1835 - 1895, s. 327
1875 Síldveiði var talsverð á þessu ári. Á Eyjafirði var nokkur veiði í apríl, bæði í lagnet og með fyrirdrætti, og aftur um áramótin. Mikið síldarhlaup kom í Hrútafjörð um sumarið en vegna þess hve það er óvenjulegt var þar lítill viðbúnaður og happið minna en ella. Mandals Fiskeriselskab hefur nú hætt starfsemi en Albert Jakobsen, sem hefur verið þrautseigastur þeirra Norðmanna, hefur yfirtekið reksturinn í félagi við Carl Lund. Tvö skip þeirra félaga komu til Seyðisfjarðar snemma í júlí og hófu þeir þegar veiðar og 24. júlí höfðu þeir tekið upp 300 tunnur og áttu 12
600 í lás. Alls fengu Norðmenn 2.000 tunnur á árinu. Margir bændur við Reyðarfjörð hafa nú fengið sér lagnet til síldveiða. Færeyingar eru nú mjög farnir að stunda þorskveiðar á Austfjörðum og nota síldarlagnet til beituöflunar. Fréttir 1875, s. 46 Norðanfari 17/4, og 26/10 1875, 5/4 1876 Norðlingur 18/2 1876 Mandals sjöf. s35 Indrehus O.: Rogalands fiskarsoga, s. 224.
1876 Í ársbyrjun var ágætur síldarafli á Eyjafirði. "Hér hefur viðhaldist til langs tíma ágætur síldarafli og þarf lítið fyrir að hafa, því síldin veður stöðugt upp við landsteina; daglega er hún flutt í stórlestum í allar áttir til matar og fóðurs og er tunnan seld á 50 aura." (Norðlingur 18/2 1876) Síld aflaðist einnig talsvert um haustið á Eyjafirði. Á Austfjörðum var síld um haustið og gagnaðist hún vel til beitu. Norðmönnum fer 13
nú fjölgandi eystra. Auk Mandalítanna, sem voru eins og venjulega á Seyðisfirði, kom leiðangur frá Skudeneshavn. Sigvart Waage er helsti útgerðarmaður leiðangursins. Galeas "Ora & Labora" og nokkrar jaktir komu til Seyðisfjarðar. Skipin voru hlaðin veiðarfærum, tunnum og salti, auk þess sem þau komu með húsavið. Leiðangursmenn settust að á Vestdalseyri og reistu þar hús. Veiðar Norðmanna gengu treglega og skútur þeirra sigldu létthlaðnar heim. Nokkrir Norðmenn sátu um kyrrt yfir veturinn. Fréttir 1876 s. 32 Norðanfari 19/7, 28/9, 24/10 1876 og 9/1 1877 Norðlingur 18/2, 22/9 1876 Norske seilskuter, s. 15
1877 Nokkur síld veiddist á Eyjafirði svo að oftast var næg síld til beitu. Síld gekk síðsumars í Húnaflóa og var töluvert veitt af henni. Rétt fyrir jól fengust nokkrar tunnur af síld í Hafnarfirði.
14
Á Austfjörðum var þónokkur síld og sérstaklega góður fiskafli. Geir Zoëga sendi skúturnar "Reykjavík" og "Fanny" austur á Seyðisfjörð á doríuveiðar. Á heimleið um haustið lenti "Fanny" í miklum hrakningum og bar loks til Færeyja eftir 29 daga barning. Skúturnar frá Mandal og Skudeneshavn voru á Seyðisfirði í sumar. Þeim gekk heldur illa en tókst þó að slíta upp 1.900 - 2.000 tunnur. Hreppsnefnd Seyðisfjarðar hefur nú leigt 4 útgerðarfélögum lóðir fyrir 60 krónur á ári á jörð sem er fátækraeign hreppsins. Norðanfari 12/4, 3/5, 6/7, 16/10, 17/11, 21/12 1877 Skuld 1/12 1877 Þjóðólfur 8/8, 4/10, 30/11 1877 Norske seilskuter s. 15
1878 Nokkur síldveiði var um veturinn á Eyjafirði og á Ísafirði um vorið. Á Austfjörðum var geysileg síldargengd. Á Reyðarfirði og Eskifirði veiddu menn síld til beitu og öfluðu vel. Á Vattarnesi rak síld svo að skipti hundruðum tunna. 15
Norðmenn veiddu vel á Seyðisfirði. Síldin gekk óvenju snemma í fjörðinn og um miðjan júlí höfðu þeir fengið 1.600 tunnur. Í nóvemberlok voru öll skip farin, Tvennum sögum fer af afla þeirra. Verslunarskýrslur greina 3.500 tunnur alls en önnur heimild 3.000 tunnur á hvert nótalag sem er sennilegra. Aflinn er þá a.m.k. 6.000 tunnur. Alþingi veitti Einari B. Guðmundssyni á Hraunum 500 króna styrk til Noregsferðar til að kynna sér norskan sjávarútveg. Fréttir 1878 s. 17 - 19 Norðanfari 2/8, 6/11 1878 Síldarsaga Íslands, s. 90 Skuld 19/7, 1/10 1878 Verslunarskýrslur.
1879 Sæmilegur síldarafli var á Akureyrarpolli um vorið og öðru hverju allt sumarið. Síldin var notuð til beitu. Á Austfjörðum var var mjög góður síldarafli. Norðmenn voru komnir til Seyðisfjarðar þegar í maí. 16
Veruleg síld gekk ekki í Seyðisfjörð fyrr en í september en þá fylltist fjörðurinn af síld. Norsku félögin tvö, Mandalítarnir og S. Waage, fylltu allar nætur. Þetta var miklu meiri afli en svo að þeir gætu saltað hann allan. Þeir létu því boð ganga út um sveitir að allir mættu hirða hjá þeim síld að vild án borgunar. Allt kom þó fyrir ekki og verulegt magn síldar drapst í nótum Norðmannanna. Þetta vakti megna óánægju Íslendinga sem gagnrýndu Norðmenn óvægilega fyrir vikið. Alls söltuðu þeir 9 - 10 þúsund tunnur. Af þessum afla áttu Mandalítarnir um 8.000 tunnur. Þeir fengu gott verð eða 26,50 krónur fyrir tunnuna. Þeim gekk þó ekki allt í haginn því að síldarflutningaskip á þeirra vegum, hollenska gufuskipið "Anna", fórst með 2117 tunnur af síld innanborðs 15. desember 1979. Með skipinu fórst Thomas Carl Abrahamsen sem hafði verið forstöðumaður fyrirtækis þeirra Jakobsens og Lund hér á landi um langt skeið. Haugasundsmenn hófu síldveiðar við Ísland á eigin vegum á þessu sumri. Tveir leiðangrar komu frá Haugasundi og héldu báðir til Eskifjarðar. Á Eskifirði var talsvert síldarkropp fram eftir sumri og fengu félögin tvö 1.700 - 2.000 tunnur. Um haustið tók alveg 17
fyrir veiði og héldu skipin þá heimleiðis. Skömmu eftir að Haugasundarar fóru hófst haustsíldveiðin á Seyðisfirði og þá gekk einnig mikil síld inn á Eskifjörð. Heildarafli allra norsku félaganna hefur því verið 11-12 þúsund tunnur. Mjög mikil síld var um sumarið einnig í Norðfirði og Mjóafirði. Á Mjóafirði gekk síldin svo þétt að landi fyrir neðan bæinn Kross að hægt var að ausa henni þar upp. Við þá iðju varð banaslys er ungur drengur á bænum féll í sjóinn og drukknaði. Norðanfari 19/4, 4/7, 30/10, 20/12 1879 Skuld 5/6 1/7 17/7 21/9, 11/10, 27/11 1879 Haugesund I, s.328 Mandals Sjöf. s.35 Norske seilskuter s.17
1880 Íslendingar hafa nú hafið samstarf við Norðmenn um síldveiðar við Ísland. Stofnað hefur verið hlutafélag í þessu skyni. Höfuðstóll félagsins er 20 þúsund krónur sem skiptast í 20 eitt þúsund króna hlutabréf. Tíu 18
hlutabréf eru í eigu Íslendinga og tíu bréf eign manna í Álasundi. Norðmenn fjölmenntu mjög í sumar og reyndu víðar fyrir sér en áður. Tvö skip frá Haugasundi fóru til Ísafjarðar. Auk þeirra gerði Sigvart Waage frá Skudeneshavn, sem áður var á Vestdalseyri, tilraun til síldveiða frá Ísafirði. Á Eyjafirði var líf og fjör frá miðju sumri og fram á haust. Auk norsk-íslenska félagsins, Det islandske fiskerikompani, sem hafði höfuðstöðvar á Oddeyri, var félag frá Stord í Hrísey og síðan bættust Ísafjarðarleiðangrarnir í hópinn. Í október var prýðisgóð veiði hjá Norðmönnum, bæði við Hrísey og inn með vesturströndinni. Veiðin á Eyjafirði gæti verið 15 - 20 þúsund tunnur alls. Á Loðmundarfirði var í fyrsta skipti nú í sumar veidd síld í landnót og fengust þar 500 tunnur. Á Seyðisfirði var feiknamikil síldveiði. Auk þeirra tveggja sem verið hafa undanfarin ár, Mandalítanna og Sigvarts Waage, hafa nú fjórir bæst í hópinn, Köhler frá Stafangri, Henrik Svendsen frá Stafangri, Otto Wathne frá Mandal og Dominicus Nagel frá Haugasundi. Alls fengu Norðmenn á Seyðisfirði um 70.000 tunnur. Þrjú nótalög 19
komu í Mjóafjörð. Auk Köhlers, sem áður var nefndur og hafði aðalstöðvar á Seyðisfirði, voru þar Nils Olsen Vea frá Veavåg á Karmöy, hann settist að á Skolleyri og skip frá Haugasundi og Stord lágu við Asknes. Áttunda október köstuðu tvö nótalög, annað við Kolableikseyri en hitt við Asknes. Úr kastinu við Kolableikseyri fengust 2.000 tunnur en úr lásnum við Asknes fimm skipsfarmar, um 6.000 tunnur. Það er einn stærsti lás sem heyrst hefur um. Á Norðfirði var lítið um að vera miðað við nágrannafirðina. Einn leiðangur kom þó þangað og settist að. Það var Ole Andreas Knudsen frá Vibrandsöy rétt við Haugasund. Á Eskifirði var mikil veiði. Þangað komu einkum menn frá Haugasundi. Þar voru Mons Larsen og Sundför eins og í fyrra en auk þeirra Lehmkuhl frá Björgvin og J.S. Dahl frá Florö, hann er í félagi við bræðurna Jacobsen frá Haugasundi. Loks er Haktor Enes frá Haugasundi. Hann byggði hús á Hólmanesi. Veiðin gekk vel um sumarið og fram eftir hausti. Afli á Eskifirði hefur líklega verið 25 þúsund tunnur. Annars er erfitt að finna út afla í hverjum firði því að Norðmenn nota nú gufuskip í ríkara mæli en áður og þau flytja nótalögin af einum firði á annan eftir 20
aflabrögðum. Heildarafli Norðmanna á þessu ári er talinn 115 þúsund tunnur samkvæmt norskum heimildum. Þessi tala er líklega heldur lág nema átt sé við exportpakkaðar tunnur. Til að ná þessum afla notuðu þeir 28 nótalög, 75 skip og 578 menn. Aflinn er því 199 tunnur á mann. Samkvæmt íslenskum verslunarskýrslum var útflutningur síldar frá þeim höfnum, sem Norðmenn fluttu út frá 1880, alls 95.700 tunnur. Þar skortir því 19.300 tunnur miðað við norskar skýrslur. Norðanfari 21/9 1880 og 29/1 1881 Norðlingur 24/7, 10/8, 17/8, 9/10 1880 Gjallarhorn 3/7 1903 Fréttir 1880, s. 54-5 Bergens tidende 29/7 1880 Norske seilskuter, s. 18 - 33 og 119 Tönnes Wathne: Sendibréf til W.M. Ögmundur Helgason: Síldveiðar í Námsritgerð í H.Í. Verslunarskýrslur
Norðfirði.
1881 Veturinn 1880 - 1881 var einn hinn harðasti sem um getur. Hafþök af ís voru fyrir öllu 21
Norðurlandi þegar í janúar og frosthörkur voru svo miklar að hafísinn fraus saman í eina hellu. Syðra, þar sem ekki var hafís, fyllti alla firði og víkur af lagnaðarís. Þannig var gengið á ís frá Reykjavík til Akraness og stórskipaleið frá Siglufirði til Akureyrar. Norðmenn voru á þessu ári með enn meiri síldarútgerð við Ísland en árið áður. Vegna ísalaga gátu þeir þó ekki hafið veiðar Á Austfjörðum og Eyjafirði fyrr en komið var fram á sumar. En ekki voru allir svona háðir duttlungum hafíssins. Ludolf Eide frá Haugasundi sigldi fyrir sunnan land og norður með vesturströndinni og allt til Ísafjarðar. Þar byggði hann hús og hóf veiðar og söltun. Síld var nú veidd í fyrsta skipti á Siglufirði svo nokkru næmi. Snorri Pálsson veiddi og saltaði 600 tunnur og seldi þær til útlanda. Á Eyjafirði byrjaði síldveiði áður en ísa leysti um vorið en 7. - 8. apríl veiddist síld í net "sem vökuð voru niður gegnum ísinn" á Akureyrarpolli. Fyrstu norsku skipin komu til Eyjafjarðar um mánaðamótin maí - júní og 13. júní voru komin þangað yfir 20 skip. Útvegur Norðmanna var miklu meiri nú en í fyrra og þeir byggðu fjölda nýrra húsa á árinu. Þeir byggðu fimm eða sex hús í Hrísey og þrjú eða fjögur á Hjalteyri. 22
Norðmönnum, sem hafa aðalstöðvar á Austfjörðum, er nú ljóst að hagkvæmt er að hafa aðstöðu bæði þar og í Eyjafirði og geta síðan flutt veiðarfæri og mannafla á milli, eftir því hvar veiðin er best. Þess vegna voru nú leigðar lóðir, auk þess sem áður hefur verið nefnt, á Hauganesi, í Rauðuvík og á Dagverðareyri. Loks var svo fjöldi skipa á Eyjafirði sem enga aðstöðu hafði í landi. Um miðjan júlí voru um 60 síldarskip með 20 nótalög á Eyjafirði. Síldarafli Norðmanna var tregur fram eftir sumri en í september fylltist fjörðurinn af síld. Ágætis veiði var um allan fjörð þar til þraut tunnur og salt en snemma í október komu margir skipsfarmar af tunnum og salti svo að veiðin gat haldið áfram. Veiðin á Eyjafirði hélt áfram fram í nóvember. Heildarafli þar var hátt í 100 þúsund tunnur. Í íslenskum verslunarskýrslum er skráður útflutningur frá Akureyri 81.611 tunnur. Um það leyti sem veiði Norðmanna á Eyjafirði lauk var mikil smásíldarveiði á Akureyri í lagnet og í fyrirdrætti og skipti aflinn hundruðum tunna. Smásíldin var seld á eina krónu tunnan en kaupendur söltuðu hana sem fóðurbæti. Í ljósi hins góða afla Norðmanna hyggja nú fleiri Eyfirðingar á 23
stofnun síldveiðifélaga auk þess sem allur þorri smáútgerðarmanna hefur keypt sér síldarlagnet. Á Seyðisfirði var mun minni veiði en árið áður. Norðmönnum fjölgaði engu að síður en þegar leið á haustið fóru margir þeirra til Eyjafjarðar með nótalög sín. Í júlímánuði voru á Seyðisfirði 18 nótalög. Afli var tregur. Samkvæmt íslenskum verslunarskýrslum voru 31.421 tunna flutt út frá Seyðisfirði á árinu. Á Mjóafirði jókst mjög ásókn Norðmanna í lóðir. Þeim þótti fjörðurinn girnileg veiðislóð en einnig var orðið nokkuð þröngt um þá á Seyðisfirði. Þeir byggðu fjölda húsa, einkum á Asknesi og í Brekkuþorpi. Afli var töluverður og mun betri en á Seyðisfirði. Hugsanlegt er að einhver hluti Mjóafjarðaraflans sé talinn með Seyðisfjarðarútflutningi í skýrslum. Á Norðfirði voru tvö norsk félög. Þau fengu 2.200 tunnur í september og október. Eitt skipanna, jakt "Elvensire" frá Flekkefjord fórst á heimleið með þremur mönnum. Á Eskifirði og Reyðarfirði var drjúggóður afli. Samkvæmt verslunarskýrslum voru fluttar út frá Eskifirði 45.356 tunnur. Nokkur hluti þessa afla fékkst í júlí en bestur var aflinn í ágúst og september. Á Eskifirði hefur Norðmönnum fjölgað eins og annars staðar. 24
Norðmenn stunduðu nú í fyrsta skipti síldveiðar á Fáskrúðsfirði. J.E. Lehmkuhl tók þar land á leigu en byggði ekki hús heldur notaði lóðina sem "opplagsplass". Peder Amlie tók einnig lóð á leigu á Fáskrúðsfirði og byggði þar hús. Á þessu ári þrefaldaðist þátttaka Norðmanna miðað við árið áður. Samkvæmt norskum skýrslum fóru 187 skip frá sjö bæjum í Noregi til síldveiða við Ísland. Þau höfðu meðferðis 90 nótalög og 1.799 menn. Afli þeirra var 167.705 tunnur. Af Norðmönnum voru Rogalandsmenn, Rygir, atkvæðamestir. Þeir sendu 143 skip, 54 nótalög, 1.331 mann og fengu 111.800 tunnur. Frá Haugasundi einu komu 100 skip, 870 menn, afli 76.422 tunnur sem skiptust þannig milli veiðistaða: Eyjafjörður 38.216, Mjóifjörður 15.186, Seyðisfjörður 9.794 og á 5 öðrum fjörðum 13.226. Norðmenn veiddu ekki eingöngu síld þetta sumar. Meðan þeir biðu eftir síldinni veiddu þeir þorsk. Á árinu komu 13.500 stk. af söltuðum þorski til Haugasunds. Eitt norskt skip gekk til línuveiða frá Norðfirði um sumarið. Þegar allt kom til alls skilaði síldveiði Norðmanna alls ekki sama ágóða og árið áður þrátt fyrir aukinn afla. Síld var í mun 25
lægra verði en árið áður og aflinn varð aðeins 93 tunnur á mann á móti 199 tunnum á mann 1880. Samkomulag Norðmanna og Íslendinga hefur versnað með hinni stórauknu sókn Norðmanna. Íslendingum finnst mörgum að Norðmenn geri sig nokkuð heimakomna á íslenskum fjörðum en Norðmönnum þykir sem þeir hafi rétt til að nýta sér þessa guðsgjöf, sem síldin er, úr því að Íslendingar gera það ekki nema að litlu leyti. Annars eru Íslendingar klofnir í afstöðu sinni. Þeir sem hafa tekjur af atvinnu hjá Norðmönnum eru hinir ánægðustu með veru þeirra hér, að ekki sé nú minnst á ábúendur sjávarjarða sem sumir hverjir hafa feikna tekjur af landshlut ef þeir eru svo heppnir að kastað er fyrir landi þeirra. Aðrir Íslendingar sjá ofsjónum yfir því fjármagni sem flutt er úr landi og vilja strangari reglur um búsetu Norðmanna hér eða að gildandi reglum sé fylgt fastar eftir. Einnig vilja þeir skattleggja þennan útveg meira en gert er. Norðanfari 13/6, 21/9, 5/11, 15/11 1881 Norðlingur 22/10 1881 Fróði 23/11 1882 Mandals Sjöf. s. 26 - 7 Rogaland fiskarsoga s. 225 Haugesund I. s. 225 og 337 26
Norske seilskuter ... s. 34 - 43 Hovland K.S.: Firma J.E. Lehmkuhls Islandsforretning, Sjöfartshistorisk årbok 1977, s. 145 -7 Tönnes Wathne: Sendibréf til W.M. Ögmundur Helgason Fréttir 1881 Bergensposten 9/4, 3/6, 10/8, 8/11, 1881.
1882 Árið 1882 var eitt hið harðasta sem um getur. Tíðarfar var víðast þolanlegt um veturinn en þegar kom fram í apríl gerði norðan stórviðri sem stóð linnulítið í þrjár vikur og 24. - 26. apríl var fádæma ofsaveður. Ótíðin hélt síðan áfram með norðanveðrum og stórhríðum til 15. júní. Þessu fylgdu ógurlegir kuldar. Vetrarís var enn á Ólafsfjarðarvatni 6. júlí. Ótíðin hélst svo allt sumarið fram að réttum. Frá Jónsmessu til rétta var talið að tíu sinnum yrði alsnjóa á Norðurlandi. Hafís lagðist að landinu í apríl og náði þegar mest var frá Straumnesi norður um og allt að Dyrhóley. Fyrir Austurlandi var ísinn lengst af heldur gisinn en við Norðurland lá hafísinn 27
meira og minna þétt við landið fram undir höfuðdag. Um veturinn féllu víða snjóflóð sem ollu miklu tjóni, m.a. eitt á Seyðisfirði 13. janúar. Það sópaði húsi í sjó fram og fórust tvö börn. Þessum miklu harðindum fylgdi horfellir á búsmala bænda og til að reyna enn betur á þolrifin í landsmönnum sendi forsjónin þeim mislinga sem gengu um mestallt landið um hábjargræðistímann. Þúsundir manna lágu rúmfastar svo vikum skipti, auk þess sem mislingarnir lögðu mörg hundruð í gröfina. Vegna harðindanna skutu Lehmkuhl og fleiri útgerðarmenn saman og sendu korn og peninga til Íslands. Svo sem að líkum lætur veiddist ekki mikil síld í þessu árferði. Ludolf Eide frá Haugasundi fór sunnan við land til Ísafjarðar og veiddi þar hákarl og þorsk fram eftir sumri en síðan síld. Fyrsta Íslandssíldin barst til Haugasunds með skipi hans, "Liberal", seint í ágúst. Norsku skipin komust ekki inn á Eyjafjörð fyrr en langt var liðið á sumar, 14. júlí var ísinn svo þéttur að skipin komust ekki inn á fjörðinn. Norðmenn juku enn umsvif sín í Eyjafirði, byggðu m.a. fleiri hús í Hrísey og eitt á Litla-Árskógssandi. Sumir þeirra hófu þorskveiðar ef fært var vegna veðurs því að 28
síldin lét bíða eftir sér. Sjöunda september um haustið höfðu einstök nótalög fengið um 100 tunnur, einum mánuði síðar hafði þessi tala hækkað í 200 tunnur. Nokkuð reyttist síðar um haustið en heildarútflutningur frá Akureyri árið 1882 var 12.879 tunnur samkvæmt verslunarskýrslum eða aðeins u.þ.b. sjöundi hluti þess sem var árið áður. Íslendingar tóku nú aukinn þátt í veiðinni. Auk Álasundsfélagsins, sem nú hefur skipt um nafn og nefnist Oddeyri, var stofnað í fyrrahaust hlutafélagið Eyfirðingur sem er að mestu eða öllu leyti í íslenskri eigu. Auk þess stofnaði Tryggvi Gunnarsson annað félag. Frá Siglufirði hefur ekkert frést af síldveiði. Á Austfjörðum gekk veiðin heldur skár. Hafísinn lónaði endanlega frá landi þar í júlímánuði en miklar rigningar voru víða og sjór gruggugur og kaldur. Á Seyðisfirði veiddist ofurlítið síðsumars en veiðinni lauk snemma um haustið. Flestir fengu lítið en þó er getið um eitt nótalag sem fékk 1.300 tunnur og annað sem fékk 2.000 tunnur. Samkvæmt íslenskum verslunarskýrslum voru 16.859 tunnur fluttar út frá Seyðisfirði en eitthvað af þeim afla gæti verið fengið í Mjóafirði. Á Mjóafirði var aflinn heldur skárri. Auk þess höfðu Norðmenn þar nóg að starfa við 29
húsbyggingar en landnám þeirra hér er heldur seinna á ferðinni en á Seyðisfirði. Á Mjóafirði hafa heimamenn nú gengið í félag við Norðmenn um síldveiði og er helmingur félagsins innlend eign. Þetta félag aflaði heldur vel eftir því sem gerðist í sumar. Á Norðfirði voru sömu tvö félög og áður. Þau fengu lítinn afla, um 1.800 tunnur. Á Eskifirði og Reyðarfirði var afli einna skástur. Frá Eskifirði var síldarútflutningur 1882 samkvæmt íslenskum verslunarskýrslum 31.249 tunnur eða um helmingur alls útflutnings á árinu. Í þessari tölu er afli á Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og a.m.k. hluti aflans á Mjóafirði. Á Fáskrúðsfirði voru Peder Amlie og félagar hans eins og árið áður. Nýtt síldveiðifélag var stofnað á árinu til veiða í Faxaflóa. Aðaleigendur þess eru Otto Wathne, Eggert Gunnarsson o. fl. Samkvæmt norskum skýrslum var afli Norðmanna hér við land á þessu ári 65.000 tunnur. Til þess að ná þessum afla notuðu þeir 79 nótalög, 155 skip og 1590 menn. Aflinn er því aðeins 41 tunna á mann. Menn frá Rogalandi áttu 53.600 tunnur af þessum afla. Þeir notuðu 138 skip, 54 nótalög og 1383 menn. Það lætur því að líkum að margir þeirra bera skarðan hlut frá borði. 30
Der er mange i år som kommer tilbage fra Island med feilslagne forhåbninger og betydelige pekuniære tab, men så er der heller ikke så få som har tjent såpas at de dækker sine udgifter, hvorimod det kun er enkelte som har gjort det rigtig godt. (Agder 10. nov. 1882) Deilur um veiðirétt Norðmanna við Ísland settu mikinn svip á árið. Yfirvöld fylgdu nú fastar en áður kröfunni um skilyrðislausa búsetu Norðmanna á Íslandi ef þeir ættu að hafa rétt til veiða við Ísland. Þetta var krafa um "at holde disk og duk og rykende skorstein året rundt." Danski sjóliðsforinginn Trolle kveikti í tundrinu með snarpri blaðagrein þar sem hann gagnrýndi Norðmenn fyrir yfirgang og yfirvöld fyrir linkind. Jón Ólafsson tók upp hanskann fyrir Norðmenn. Síðan bættust Tryggvi Gunnarsson og margir fleiri inn í þessa deilu í blöðunum. Krafa yfirvalda leiddi til aukinna húsbygginga og búsetu fjölda norskra fjölskyldna hér á landi en hamlaði lítið ásókn hinna norsku fiskimanna. Til að leggja áherslu á staðfestu sína í þessu máli höfðuðu íslensk yfirvöld mál gegn nokkrum Íslendingum fyrir leppmennsku. 31
Norðanfari 20/2 1883 Norðlingur 12/7 1882 Bergensposten 27/8, 24/9, 7/10, 8/11 1882 Agder 17/10, 10/11 1882 Haugesundsposten 26/8 1882 Fróði 24/1 1883 Fréttir 1882, s. 17 - 22 K.S.H.: J.E. Lehmkuhl, s. 151 Norske Seilskuter ... s. 44 - 53 Tönnes Wathne: Sendibréf til W.M.
1883 Á þessu ári brá til hins betra hvað varðar tíðarfar. Þrátt fyrir ófarir og aflaleysi síðasta árs hafa Norðmenn ekki látið deigan síga við síldveiðarnar. Nokkrir þeirra urðu gjaldþrota vegna hins mikla taps í fyrra. Köhler í Stafangri var umsvifamesta fyrirtækið í síldveiðum við Ísland. Hann hafði jafnan 2 - 3 nótalög í gangi, 5 - 6 skútur og 3 - 4 gufuskip í förum. Hann hafði allt upp í 250 manns í vinnu í sambandi við Íslandsleiðangra. Tap hans í veiðunum 1882 var talið nema 100.000 krónum og þótt fyrirtækið hefði margt á járnum í öðrum atvinnurekstri nægði þetta tap til að leggja það að velli. Það var lýst 32
gjaldþrota 5. janúar 1883. Þetta gjaldþrot var eitt af mörgum í Stafangri en atvinnurekstur í bænum gekk í gegnum erfitt kreppuskeið á þessum árum. Þrotabú Köhlers annaðist Íslandsútgerð hans þetta árið. Á Ísafirði voru sex skip, þau fengu ekkert nema smásíld sem var seld til beitu. Norðmenn veiddu nú síld í Reykjarfirði á Ströndum í fyrsta skipti svo menn viti en einhver skip frá Haugasundi fengu þar 450 tunnur. Frá Siglufirði bárust engar aflafréttir en í verslunarskýrslum eru 234 tunnur taldar fluttar út þaðan á árinu. Þessar tunnur gætu verið af útvegi Snorra Pálssonar en hann lést á þessu ári. Mikil síld var úti fyrir Norðurlandi allt sumarið en hún gekk ekki inn á Eyjafjörð að neinu ráði fyrr en í september. Norðmenn, sem höfðu beðið óþreyjufullir eftir henni, tóku á móti henni úti við Hrísey. Þar reyndu þeir að hrekja torfurnar að landi með grjótkasti og öðrum tilfæringum. Síldin náði því aldrei að ganga inn á innri hluta fjarðarins. Íslendingar, sem voru vanir að bíða uns síldin gekk innar, voru að vonum gramir yfir þessum aðförum Norðmanna. Það jók enn á óánægju þeirra að Norðmenn reyndu nú í auknum mæli að koma sér undan því að greiða landshlut. Þetta gerðu 33
þeir með sama hætti og óprúttnir pörupiltar hafa alla tíð gert. Þeir lofuðu bændum að greiða síðar en reyndu svo ýmis undanbrögð til að sleppa við greiðslu. Einnig tóku Norðmenn nú upp á því að kasta "rundkast" utan netalaga og töldu sig þá ekki skylda til greiðslu landshlutar. Afli þeirra var ágætur fram eftir haustinu, einkum var feikna afli í október. Norðmenn eru nú með 22 stöðvar í Eyjafirði. Alls veiddu þeir 64.900 tunnur þar. Norðmenn voru nú í fyrsta skipti með síldarútveg við Flatey á Skjálfanda. Geysileg síldarganga var við Langanes um sumarið. "Sjórinn krapaði af síld". Menn reyndu að ausa síldinn upp með körfum en árangurslaust. Á Austfjörðum var reytingssíldarafli fljótlega eftir áramót, einkum í lagnet. Norðmenn hafa nú almennt vetursetu í húsum sínum og grípa í lagnetaveiðar ef vel viðrar og eitthvað aflast. Þeir taka þó fram landnæturnar ef tilefni gefst. Þannig fengu Norðmenn 400 tunna kast í Mjóafirði um miðjan mars, Best varð Austfjarðaveiðin í júlí. Afli var betri á Suðurfjörðunum en t.d. á Seyðisfirði og nú veiddu Norðmenn síld sunnar en áður. Þeir eru nú að festa sig betur í sessi sunnan til á Austfjörðum. Margar stöðvar voru byggðar á 34
árinu í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði og tvær voru byggðar suður í Berufirði. Norðmenn auka nú enn umsvif sín á Íslandi. Auk síldveiðanna leggja þeir sig sífellt meira eftir þorskveiðum og nú hafa þeir byrjað hvalveiðar. Svend Foyn hóf byggingu tveggja hvalveiðistöðva á árinu. Önnur stöðin var byggð á Norðfirði og tók hún á móti einum hval um sumarið. Svend Foyn var ekki sáttur við reglur íslenskra yfirvalda um búsetu veiðimanna í landinu og reif því stöðina aftur um haustið og flutti vélar og verkfæri með sér til Noregs. Hin hvalveiðistöðin var reist á Langeyri í Álftafirði í Ísafjarðardjúpi. Þegar Svend Foyn, sem átti 60 % hlutafjár, gekk úr skaftinu héldu félagar ótrauðir áfram og stofnuðu nýtt hlutafélag án hans. Eigendur stöðvarinnar eru Mons Larsen og tengdasynir hans, Arenth Anda, Arne Lothe og Peder Amlie. Auk þeirra á bróðir Peders, Thomas Amlie, hlut í fyrirtækinu og hann er forstjóri.Norðmenn juku einnig hákarlaveiðar sínar á þessu ári. Tvö skip frá Haugasundi voru gerð út til hákarlaveiða frá Ísafirði en þar hafa Norðmenn sett upp lifrarbræðslu. Litlar fregnir bárust af síldveiðum Íslendinga. Þeir veiddu síld í lagnet í beitu eftir því sem mögulegt var. Landnótafélögin í 35
Eyjafirði veiddu sæmilega en Faxaflóafélaginu gekk enn illa. Í Hrútafirði ætluðu menn að stofna síldveiðifélag til veiða við Strandir en harðindin á síðasta ári drógu allan kjark úr mönnum svo að félagið dó í burðarliðnum. Norðanfari 20/2, 13/3, 17/3, 3/4, 26/9, 19/12 1883, 19/1, 26/2 1884 Fróði 2/2, 1/3, 25/3, 4/10 1883 Norske seilskuter... s.54 - 64 og 88 Tönnesen Johan N.: Den moderne hvalfangst historie II. s. 12 - 19.
1884 Tíðarfar á árinu var að ýmsu leyti sérkennilegt. Síðari hluti vetrar var mjög mildur en sumarið var sérstaklega votviðrasamt á Suðurlandi. Á Norður- og Austurlandi var ágætistíðarfar. Nokkur síld gekk í Húnaflóa og reyndu Norðmenn þar fyrir sér með nætur. Á Eyjafirði var svolítil veiði snemma sumars. Seinni hluta sumars, í júlí og ágúst, tóku Norðmenn að streyma til Eyjafjarðar. Þeir lágu síðan og biðu síldarinnar
36
en árangurinn lét á sér standa. Þeim tókst aðeins að reyta upp nokkur hundruð tunnur. Norðmenn urðu fyrir gífurlegu tjóni í óveðri hinn 11. septeber um haustið. Yfir 40 skip skemmdust meira eða minna, þar af urðu tólf alveg ónýt þegar þau rak á land í Hrísey. Auk þess misstu Norðmenn fjölda nótabáta og smærri för, nætur og annan útbúnað. Þá tók nokkra menn út af skipum á heimsiglingu og eitt fórst. Á Austfjörðum gekk veiðin einnig heldur illa. Á Seyðisfirði var aflalaust að kalla og flestir veiðimenn þar bleyttu aldrei nót. Otto Wathne fékk þó 2.000 tunnur í maí. Á Mjóafirði var nokkur afli í lagnet í janúar og smávegis í maí en lítill afli eftir það þar til á jólaföstu en þá kom nokkurt síldarhlaup í fjörðinn. Á Norðfirði var eitt nótalag sem fékk aðeins um 100 tunnur. Á Eskifirði var nokkur afli í janúar en lítið eftir það. Á Reyðarfirði var sömu sögu að segja. Á Fáskrúðsfirði var afli einna skástur. Síldveiðifélagið við Faxaflóa gafst upp á árinu og hætti rekstri og seldi nætur og báta. Húsið, sem það reisti í Geldinganesi var selt til Fáskrúðsfjarðar. Íslensku félögunum í Eyjafirði gekk illa eins og Norðmönnum en þau hjara þó enn. Carl Tulinius keypti eignir Köhlers á Eskifirði, m.a. 37
nótalagið. Heildarafli Norðmanna á árinu var aðeins 20.157 tunnur. Þeir gerðu út 143 skip og 83 nótalög með 1.625 mönnum. Aflinn er því aðeins 12 tunnur á mann. Þótt síldveiðar Norðmanna gengju svona hörmulega verður hið sama varla sagt um annan útveg þeirra. Þorskveiðar þeirra við Ísland fara sífellt vaxandi. Þeir liggja fyrir landi og fiska, ýmist með handfærum eða línu og nota þá doríur af amerískri gerð. Hið nýjasta í þorskveiðum þeirra er að útbúa skipin með brunni og flytja fiskinn lifandi á markað. Norska fiskiskipið "Duo" frá Skudeneshavn setti 2.000 úrvals þorska í brunninn og flutti á markað í Grimsby. Það er eftirtektarvert að þorskveiðifloti Norðmanna við Ísland er að verulegu leyti frá Álasundi og nágrenni en ekki af Haugasundssvæðinu eins og flestir síldveiðimennirnir. Hákarlaveiðar Norðmanna héldu áfram og hvalveiðar þeirra í Álftafirði gengu þokkalega. Þeir hafa eitt hvalveiðiskip, "Ísafold", og fengu 20 hvali á vertíðinni. Það var nýjung í íslenskum sjávarútvegi að nú var ferskur fiskur fluttur í ís á markað erlendis. Gufuskipið "Laura" flutti ísaða lúðu frá Íslandi á markað í Granton. Fróði 10/11 1884 38
Norðanfari 7/3, 20/9, 10/12 1884 og 14/3, 14/8 1885 Austri 30/10, 8/11 1884 Karmsundsposten 21/6, 24/6, 27/9, 9/10, 16/10 1884 Haugesunderen 6/12 1884 Fréttir 1884, s. 22 - 23 Norske seilskuter... s. 63 - 71 og 89 Verslunarskýrslur Tönnes Wathne: Sendibréf til W.M.
39
1885 Veðurfar á þessu ári var með lakara móti, einkum voru fádæma snjóþyngsli á Austfjörðum. Þetta fannfergi olli víða snjóflóðum. Á Seyðisfirði féll geysilega stórt snjóflóð 18. febrúar. Það sópaði 15 íbúðarhúsum á Öldunni í sjó fram auk fjölda útihúsa. Um 80 menn lentu í flóðinu, af þeim fórust 24. Rúmlega viku seinna, 26. febrúar, féll snjóflóð á Naustahvamm í Norðfirði og varð þremur mönnum að bana. Sömu nótt féll snjóflóð á norskt síldarhús í Mjóafirði. Síldveiði var enn dræm þetta árið. Á Bíldudal var stofnað "Hið arnfirska síldveiðafélag" en Einar í Hringsdal hefur áður veitt í fyrirdráttarnót. Arnfirðingarnir veiða fyrst og fremst síld til beitu. Á Eyjafirði var nokkur afli í janúar í lagnet og reyttist þannig upp í einn skipsfarm. Í febrúar tók fyrir þennan afla vegna ótíðar. Um sumarið var slæðingur af Norðmönnum á Eyjafirði en þeir fengu afar lítinn afla og fóru snemma heim um haustið. Snemma í nóvember voru þeir flestir farnir. Um mánaðamótin nóvember/desember fékk þó einn Norðmeður 600 tunnur og um það leyti 40
varð alltaf síldar vart öðru hverju. Norskt síldveiðiskip strandaði á skeri fram undan Birnunesi í nóvember, mannbjörg varð. Litlar fregnir eru af íslensku félögunum tveimur en þau fiskuðu lítið sem ekkert. Í þetta sinn kom enginn síldveiðileiðangur frá Álasundi. Oddeyrarfélagið virðist því vera að syngja sitt síðasta. Á Seyðisfirði var lítill afli þótt hann væri heldur skárri en árið áður, helst var að eitthvað fengist í lagnet. Þegar kom fram á sumarið var lagnetaafli góður og smávegis fékkst í nætur. Á Mjóafirði var afli mun betri en þar fengust á þriðja þúsund tunnur í janúar og febrúar og um haustið var aftur prýðisgóður afli í lagnet. Frá Norðfirði bárust engar síldarfréttir. Á Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði var góður afli bæði í net og nætur. Útgerð Ottos Wathne fékk 1.500 tunnur á Fáskrúðsfirði um veturinn og um vorið á 9. hundrað tunnur í félagi við annan. Um sumarið veiddist nóg til beitu og um haustið var góður afli. Siglingar hófust þá af fullum krafti milli Austfjarða og Noregs. Því var það að með miðsvetrarferð pósskipsins komu nýrri fréttir af Austfjörðum í norskum blöðum en komu með austanpósti. Norðmenn sendu að þessu sinni 83 skip með 56 nótalögum og 776 mönnum til síldveiða á 41
Íslandi. Heildarafli þeirra 24.700 tunnur eða 32 tunnur á mann. Auk þess veiddu Norðmenn talsvert af þorski og hvalveiðar þeirra gengu þokkalega. Veiðar Íslendinga í landnætur gengu illa í Eyjafirði og eyfirsku félögin eru að þrotum komin. Á Austfjörðum virðist hins vegar nótaveiði Íslendinga vera að festa sig í sessi, einkum á Eskifirði og Reyðarfirði. Lagnetaveiði fer mjög vaxandi meðal Íslendinga, bæði í Eyjafirði og á Austfjörðum, enda rýmkast mikið um þegar Norðmönnum fækkar. Lagnetaveiðin er mikil búbót fyrir sjávarbændur og tilkostnaður við veiðarnar hóflegur. Síldveiðar Norðmanna virðast standa nú á nokkrum tímamótum. Sókn þeirra er miklu minni en áður og liggja til þess margar ástæður. Í fyrsta lagi hafa margir þeirra misst kjarkinn eftir hörmungarnar í fyrrahaust. Það er samt eftirtektarvert að helst er að Haugasundarar haldi höfði en þeir urðu fyrir langmestu tjóni við Hrísey. Í öðru lagi hafa fjöldamörg fyrirtæki orðið gjaldþrota og hætt allri starfsemi. Kreppan, sem hefur hrjáð Stafangur á undanförnum árum, virðist halda áfram og nú var svo komið 42
að aðeins einn útgerðarmaður þar, Lars Berentsen, sendi leiðangur til Íslands. Í þriðja lagi hefur íslensk löggjöf, stopull afli og almennt hagræði í rekstri leitt til þess að mörg hinna grónu síldveiðifyrirtækja hafa lent að verulegu leyti í íslenskar hendur. Þetta gat gerst á tvo vegu. Annars vegar keyptu Íslendingar útveginn af Norðmönnum. Dæmi um slíkt eru kaup ýmissa Eskfirðinga og Reyðfirðinga á norskum síldarútvegi. Hins vegar keyptu umboðsmenn hinna norsku fyrirtækja hér á landi útveginn. Þetta voru oft Norðmenn sem höfðu komið hingað upphaflega vegna búsetuskyldunnar og sest hér að. Erfitt er að greina hver er raunverulegur eigandi hvers útvegs og líklegt er að norskt fjármagn standi enn um skeið þarna á bak við. Fyrirtækin eru þá flest rekin án beinna rekstrarlegra tengsla við Noreg en algengt er að fyrri eigendur þeirra séu umboðsmenn íslenku fyrirtækjanna í Noregi.Meðal þeirra norsku landnema, sem nú má reyndar kalla Íslendinga, má nefna Olav Housken á Oddeyri, Friðrik Klausen á Eskifirði og Otto Wathne og Torvald Imsland á Seyðisfirði. Otto Wathne, sem er nú langöflugastur síldarútvegsmanna á Íslandi, keypti á árinu útveg og aðstöðu Mandalítanna 43
á Seyðisfirði. Þessir upphafsmenn landnótaveiðanna hafa því hætt rekstri sínum hér á landi eftir tæplega tveggja áratuga starfsemi. Útgerðarmenn frá Haugasundi og Skudeneshavn sýna nokkra sérstöðu í þessu efni. Þeir búa að mjög gamalli síldveiðihefð og hafi þeir ekki beinlínis gefist upp og dregið sig í hlé halda þeir áfram að senda leiðangra til Íslands. Loks má nefna að síldarverð 1885 hefur verið mjög lágt. Norðmönnum þótti því ekki fýsilegt að hætta miklu fjármagni í síldveiðar við Ísland. Þess vegna dvöldu þeir líka skemur fram eftir hausti en venja þeirra hefur verið. Austri 18/4, 25/4, 22/9, 28/11, 23/12 1885 Norðanfari 11/2, 24/2, 31/3 1885 Fróði 16/1, 20/3, 17/9, 31/10 1885 Fréttir 1885 s. 29 og 39 - 40 Norske seilskuter... s.73 - 76 Síldarsaga Íslands, s.111
44
1886 Veturinn var nokkuð harður og í mars lagðist hafís að Norðurlandi. Hann var síðan mönnum til ama langt fram á sumar þótt hann lónaði frá öðru hverju. Litlar fregnir bárust af síld á Vestfjörðum. Þó fékkst nokkur síld á Skutulsfirði í október. Á Eyjafirði var góður afli um vorið þegar ís hamlaði ekki veiði. Í apríl var töluverður afli upp um ís á Akureyrarpolli. Þessi afli hélt áfram í maí og þá fór "Rósa" með síld til Noregs. Nokkrir Norðmenn komu á Eyjafjörð en fengu lítið, þó fékk einn 1.000 tunnur um haustið. Í október og nóvember var prýðisgóður afli í lagnet og þar sem feikna fjöldi manna stundaði þessar veiðar varð heildarafli þeirra allmikill. Veiði í nætur var aftur á móti lítil og mishitt og afkoma nótaveiðimanna því léleg. Íslensku síldveiðifélögin við Eyjafjörð hafa nú gefist upp og voru eignir þeirra boðnar upp um sumarið. Á Seyðisfirði var svolítill afli í lagnet í ársbyrjun og fengust þannig 150 tunnur. Um sumarið var lítill síldarafli. Þó fengu Otto Wathne og Þórshamarsfélagið um 1.000 45
tunnur snemma í ágúst en um haustið var afli tregur. Á Mjóafirði kom síldarhlaup í janúarlok. Þá veiddust 10 - 60 tunnur á bát og dæmi voru um 20 tunnur í eitt net. Síðan dró úr þessari veiði og um vorið og sumarið fékkst ekki einu sinni síld til beitu. Ekkert fréttist af síld á Norðfirði. Á Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði var svipaður afli og á Mjóafirði. Góður afli var í lagnet fyrstu mánuði ársins en lítið fékkst eftir það. Þó fengust 3.000 tunnur í nætur á Fáskrúðsfirði í maíbyrjun. Sókn Norðmanna í síldveiðar við Ísland virðist vera að fjara út. Samkvæmt norskum skýrslum sendu þeir nú 30 skip með 13 nótalög og 237 menn. Aflinn var aðeins 2.900 tunnur eða 12 tunnur á mann. Íslendingum hefur vegnað vel í netaveiðinni og þeim fjölgar stöðugt sem taka þátt í henni. Íslenskir nótaveiðimenn eru hins vegar í sama baslinu og Norðmennirnir, aflaleysið gerir þeim erfitt fyrir. Það er helst að nótaveiðimenn á Austfjörðum spjari sig. Fróði 15/4, 19/5, 31/5, 6/7, 6/9, 13/10, 10/11 1886 Austri 5/2, 24/2, 20/5, 28/6, 4/9, 1886 Norðurljósið 3/11 1886 Þjóðviljinn 30/10 1886 Fréttir 1886, s. 26 - 27 Norske seilskuter... s. 77 - 78. 46
1887 Á þessu ári var tíðarfar erfitt. Hafís lagðist um veturinn og vorið að Norður- og Austurlandi. Einkum var mjög þéttur ís við Austfirði. Hann lónaði fram og aftur við Norðurland allt fram að höfuðdegi. Víða á Norðurlandi var fjárfellir um vorið enda höfðu menn sett heldur ótæpilega á. Á Eyjafirði var góður afli um vorið þegar ís hamlaði ekki veiði. Þetta var einkum smásíld og millisíld og var hún ýmist notuð til manneldis eða skepnufóðurs. Þessi afli bjargaði miklu því að víða voru menn við hungurmörkin og einnig varð þessi fóðurbætir til að bjarga bústofni margra bænda sem komnir voru í þrot. Síðsumars var aftur mikill afli og að þessu sinni hafsíld sem gekk alveg inn í fjarðarbotn og var töluverður afli allt til áramóta. Lítið fór fyrir Norðmönnum að þessu sinni en aðeins 5 skip á þeirra vegum komu í Eyjafjörð. Afli þeirra var 1.400 tunnur, sumt fengið í lagnet. Þeir hafa líklega verið með þrjú nótalög. Einu Íslendingarnir sem reyna nú orðið nótaveiði eru Tryggvi Gunnarsson og Eggert Laxdal. Á Austfjörðum var góður afli í lagnet 47
fyrstu mánuði ársins. Í febrúar flutti "Miaca" 600 - 700 tunnur til útlanda. Um sumarið var lítill afli vegna ísa og um haustið varla síldar vart. Hið sama gilti um alla firði frá Seyðisfirði til Fáskrúðsfjarðar. Frá Norðfirði bárust engar síldarfréttir. Engir Norðmenn stunduðu nú síldveiðar á Austfjörðum utan þeir sem telja verður til heimamanna. Í Faxaflóa veiddist nokkur síld til beitu. Í Reykjavíkurblöðunum var háð mikil rimma um það hvort leyfa skuli síld til beitu eða ekki og sýndist sitt hverjum. Síldarútgerð Norðmanna við Ísland má nú heita lokið. Housken og Midböe á Oddeyri hafa nú auglýst eignir sínar til sölu, bæði á Oddeyri, úti á Árskógsströnd og í Hrísey. Housken hefur búið einna lengst Norðmanna í Eyjafirði og verið "disponent" fyrir Berentsen í Stafangri sem hefur haldið einna lengst út í Eyjafjarðarveiðinni. Nýtt vandamál hefur nú skotið upp kollinum varðandi búsetu Norðmanna hér á landi. Einn Norðmaður, sem er búsettur í ónafngreindri sveit eystra, hefur sagt sig til sveitar. Sveitarsjóður veitti honum styrk, svo sem venja er, en krafðist endurgreiðslu frá Noregi en þar á maðurinn sveitfesti. Endurgreiðslan 48
fæst ekki því að norsk lög eru frábrugðin þeim íslensku í þessum efnum. Fróði 10/3, 13/4, 26/5, 15/6, 6/7, 10/9 1887 Norðurljósið 17/5, 30/8, 31/10, 14/12, 31/12 1887 Austri 14/2, 28/2, 3/6 1887 Stefnir 31/10 1902 Fréttir 1887, s. 31 - 35 Norske seilskuter... s. 79 Tönnes Wathne: Bréf til W.M. Ögmundur Helgason
1888 Harðindi voru mikil á árinu og bjargarleysi. Hafís kom upp að landinu í janúar. Hann lónaði víða við strendur þar nyrðra uns hann lagðist alveg að landi um páska. Í maí og júníbyrjun var íshella við Austfirði og suður með allt að Dyrhóley. Mikill vöruskortur var nyrðra. Í febrúar fóru þeir bræður Tönnes og Otto Wathne á skipinu "Miaca" með vörur frá Skotlandi norður fyrir land til Húsavíkur og Akureyrar og hlutu frægð og lof fyrir. Hafísnum fylgdu miklir kuldar og í heild var árferði hið versta. Það var að vonum að síldveiði var ekki mikil við þessar aðstæður. 49
Á Arnarfirði var nægur síldarafli til beitu um vorið og sömu sögu var að segja úr Skutulsfirði. Á Eyjafirði lónaði ísinn frá um skeið eftir hvítasunnu. Þá veiddust 1.000 tunnur á skömmum tíma í maí og júní. Þetta var mest millisíld og var hún flutt í stórum stíl austur í Þingeyjarsýslu og vestur í Skagafjörð til fóðurs í harðindunum. Bátum hefur fjölgað mjög við Eyjafjörð að undanförnu en Íslendingar hafa keypt mikið af nótabátum af Norðmönnum. Þeir hafa reynst heldur vel til sjósóknar. Menn nota mjög síld til beitu en nú hefur ný síld verið bönnuð til beitu á lóðir 1. 30. apríl. Síld, sem legið hefur í salti 14 daga, er leyfileg. Þetta er samkvæmt fiskveiðisamþykkt sem gildir fyrir Eyjafjarðarsýslu og S - Þingeyjarsýslu. Hafsíldarafli var góður í lagnet á Akureyrarpolli frá því í september og fram til áramóta. Aðeins einn norskur leiðangur var í Eyjafirði. Hann var á vegum Lars Berentsens í Stafangri. Berentsen hefur átt gott samstarf við Íslendinga en hákarlaskútur Jörundar í Hrísey, "Akureyri" og "Oddeyri", voru smíðaðar hjá honum í Noregi. Á Austfjörðum var síldveiði mjög dræm. Hafísinn lokaði fjörðunum fram á sumar, einkum norðan til. Otto Wathne missti skip 50
sitt,"Miaca" um vorið. "Miaca" var að reyna að brjótast gegnum ísinn til Seyðisfjarðar. Bráður leki kom að skipinu út af Gerpi og var því rennt á land í Vöðlavík. Skipið varð ónýtt en farminum tókst að bjarga að mestu. "Miaca" hitti mæðustand minnst þá gekk í haginn. Keyrði svo í kvalastrand kóngs- á bænadaginn. Síldveiði á Austfjörðum var naumast nema til beitu. Úti fyrir Austfjörðum er nú jafnan töluvert af enskum gufuskipum sem veiða á línu. Þau stunda það nú mjög að koma til Seyðisfjarðar til beitukaupa. Það verður mönnum til búdrýginda ef síld er fyrir hendi, einkum þegar þess er gætt að saltsíldarverð hefur verið mjög lágt. Norðurljósið 27/2, 2/6, 10/9, 31/10, 8/11, 17/12, 31/12 1888 Lýður 5/11 1888, 31/1 1889 Þjóðólfur 9/3, 8/6, 22/6 1888 Þjóðviljinn 14/6 1888 Norske seilskuter... s. 80 Fréttir 1888, s.12 - 29 Ásmundur Helgason: Á sjó og landi, s.38 Tönnes Wathne: Bréf til W.M.
51
1889 Veðurfar á árinu var heldur hagfellt. Hafís sást naumast við landið og varð hvergi landfastur. Í ársbyrjun veiddist nánast engin síld á Eyjafirði en þegar kom fram í apríl var töluverður afli á Pollinum. Þetta var allt góð hafsíld. Í júní tók fyrir afla og var hann tregur það sem eftir lifði ársins. Samkvæmt útflutningsgjaldabókum voru 3.509 tunnur fluttar út úr Eyjafjarðarsýslu. Á Austfjörðum var þokkalegur afli fyrst eftir áramót en minna var sinnt um veiðarnar en áður. Nokkur hundruð tunnur voru þó saltaðar á Norðfirði, Mjóafirði og Seyðisfirði, mest á Mjóafirði. Um sumarið tók að mestu fyrir síldarafla nema rétt til beitu. Mikillar óánægju gætir nú eystra vegna enskra gufuskipa sem veiða á línu fyrir Austfjörðum. Voru 16 slík í sumar á grunnslóð og oft uppi í harða landi. Um miðjan desember gerði ofsaveður á Seyðisfirði sem braut meira eða minna 9 norsk hús, tvö sópuðust í sjó fram með öllu sem í þeim var. Ekkert þessara húsa var íbúðarhús. Hvalveiðar Norðmanna virðast vera arðvænlegar. Auk stöðvarinnar á Langeyri, sem hefur starfað í sex ár, hefur nú verið reist 52
hvalveiðistöð í Önundarfirði, rétt innan við Flateyri. Eigandi hennar heitir Ellefsen og hefur hann nefnt stöðina Sólbakka. Heildarsíldarútflutningur frá Íslandi árið 1889 var 4.176 tunnur samkvæmt verslunarskýrslum en útflutningsgjaldabækur sýna 7.366 tunnur. Þjóðólfur 23/8 1889 Lýður 26/3, 17/4, 11/7 1889 Norðurljósið 28/1, 13/4, 28/10 1889 Fréttir 1889, s. 15 og 25
1890 Tíðarfar var þokkalegt ef litið er á árið í heild, einkum var veturinn mildur. Hafís varð hvergi landfastur en var lónandi úti fyrir fram á sumar, bæði við vestfirði og Norðurland. Á Ísafirði veiddust nokkrar tunnur af síld í maí og svo aftur í september og var hún öll notuð í beitu. Síld hefur nú verið bönnuð til beitu á línu í Ísafjarðardjúpi en er hins vegar leyfð á handfæri. Á Eyjafirði var nokkur síldarafli um vorið og reytingur áfram út árið, einkum um miðbik 53
fjarðarins en lítið var um að síld gengi inn í fjarðarbotninn. Heildarútflutningur á árinu úr Eyjafirði var samkvæmt útflutningsgjaldabókum 1.176 tunnur. Á Vopnafirði var allmikil síldargengd allt sumarið og afli góður. Síldin hefur þó líklega eingöngu verið notuð til beitu en fiskafli á Vopnafirði var einstaklega góður um sumarið. Á Austfjörðum varð vel síldar vart um sumarið, þannig var talsverð veiði í Reyðarfirði þegar í júlílok. Þegar leið á haustið var prýðilegur afli á Suðurfjörðunum og á jólaföstu var mikill afli á Seyðisfirði. Mestan afla fengu Tulinius og Klausen í félagi, Otto Wathne og P. Randulff. Otto Wathne hefur haft mikil umsvif. Hann hefur að öllum jafnaði verið með 100 manns í vinnu og hefur haft gufuskip í förum við að flytja síldina á markað. Erlendis hafa fengist 20 krónur fyrir tunnuna. Tunnuleysi var mönnum til mikils baga. Einstaka menn brugðu á það ráð í vandræðum sínum að salta síldina lausa í útihús og kjallara. Gufuskipin "Vågen", "Uller" og "Axel" hafa flutt síldina utan og hafa naumast haft undan, svo að nokkuð af henni verður flutt út á næsta ári. Heildarsaltsíldarútflutningur á árinu nam 14.647 tunnum samkvæmt 54
útflutningsgjaldabókum. Úr Norður-Múlasýslu voru fluttar 5.095 tunnur en 8.375 úr SuðurMúlasýslu. Norðmenn leggja nú aukna áherslu á hvalveiðar. Þriðja hvalveiðistöð þeirra á Vestfjörðum komst á laggirnar á árinu, hún er í Dýrafirði. Stöðvarnar þrjár fengu alls 203 hvali á vertíðinni. Haugasundsmenn sendu tvær skútur og eitt gufuskip til síldveiða við Ísland um haustið. Skúturnar fengu um 1.800 tunnur samtals en gufuskipið missti veiðarfæri og fékk aðeins 350 tunnur af síld sem var keypt á Íslandi. Norðurljósið 20/3, 12/5, 19/11, 23/12 1890 og 28/1 1891 Þjóðólfur 15/8, 31/10, 1890 og 27/2 1891 Lýður 31/12 1890 Þjóðviljinn 8/5, 6/9 1890 Fréttir 1890, s.12 - 16 Haugesund I, s.410 Heimir Þorleifsson: Ritgerð um hvalveiðar hdr.
55
1891 Síldarafli virðist nú vera að glæðast við landið eftir margra ára aflatregðu ef haustið í fyrra er undanskilið. Nokkur síld gekk í Ísafjarðardjúp og um haustið gekk síldartorfa alveg að landi á Snæfjallaströnd og hélt þar til í hálfan mánuð.Djúpmenn fengu prýðisgóðan þorskafla meðan torfan stóð við. Ísfirðingar veiddu um svipað leyti talsvert af stórri hafsíld. Það var þó aðeins til beitu því að þá vantar bæði tunnur og veiðiáhöld til umfangsmeiri veiða. Síðari hluta vetrar var töluverður síldarafli á Eyjafirði. Í ágúst var þar nokkur afli, þá kom þar gufuskipið "Vibran" frá Haugasundi til síldveiða en Norðmenn hafa naumast sést í þessum erindagerðum um nokkurra ára skeið. Skipstjóri skipsins var umsvifalaust sektaður um 100 krónur fyrir ólöglegar veiðar. Í september og fram eftir hausti var þokkalegur afli. Otto Wathne sendi nótalag að austan og fengu menn hans yfir 1.000 tunnur. Einnig var lagnetaveiði almenn og keyptu kaupmenn aflann og söltuðu eftir því sem tunnur og salt hrukku til. "Grána" fór utan fullhlaðin síld í
56
nóvemberbyrjun auk þess sem "Vågen" flutti síld Ottos Wathne. Á Austfjörðum var mjög góður síldarafli um haustið nema á Seyðisfirði þar sem afli var heldur tregur. Ensku gufuskipin leita nú mjög inn á Seyðisfjörð til að fá beitu. Á Mjóafirði, Norðfirði, Eskifirði og Reyðarfirði var prýðisafli þegar leið á haustið. Sérstaklega voru menn fengsælir í Reyðarfirði. Sex nótalög veiddu þar allt til jóla en tvennt skyggði á gleðina yfir þessum afla. Annað var það að síldarverð er nú lágt vegna mikils afla við Noreg og í öðru lagi lenti svo mikið af smáfiski í nótunum í Reyðarfirði að til vandræða horfði um tíma. Saltsíldarútflutningur frá Íslandi á árinu nam samkvæmt útflutningsgjaldabókum 42.232 tunnum. Þar af voru rúmlega 30 þúsund tunnur fluttar út úr Suður-Múlasýslu. Þessi afli verður að teljast mjög góður. Nótaveiðin virðist vera að ná sér á strik aftur sem arðvænlegur atvinnuvegur. Margir hafa samt áhyggjur af því að þetta verði ekki til frambúðar. Það er skoðun margra að hvalurinn reki síldina inn á firðina en nú eru norsku hvalveiðibátarnir farnir að sækja langt austur með Norðurlandi og óttast margir að ef hvölum fækkar að ráði þá sjái síldin enga ástæðu til þess að ganga í 57
firðina, Átta skip komu á árinu frá Haugasundi til síldveiða við Ísland en veiðar þeirra mistókust og þau öfluðu lítið sem ekkert. Otto Wathne byggði í haust ískjallara. Hann getur nú safnað ís í kjallarann og geymt síldina í nokkra daga án þess hún skemmist. Fyrir þá sem þurfa á beitu að halda er að þessu mikið hagræði. Norðurljósið 28/5, 22/9, 14/10, 5/11, 24/11, 22/12 1891 Þjóðólfur 30/10, 27/11 1891, 29/1, 1/4 1892 Þjóðviljinn ungi 31/10 1891 Austri 10/9, 10/11, 20/11, 30/11, 10/12, 20/12 1891, 20/1, 30/1 1892 Útflutningsgjaldabækur Haugesund I. s.40 Norske seilskuter ... s. 113
1892 Veðurfar var óstillt og hart fyrri hluta ársins. Á Austfjörðum voraði mjög illa með hafís og langvarandi kuldatíð. 58
Talsverð síld gekk í Ísafjarðardjúp í maímánuði. Hún veiddist í lagnet og "vörpur" bæði á Pollinum við Ísafjarðarkaupstað og inni í Djúpi, í Seyðisfirði og Álftafirði. Vörpurnar eru líklega fyrirdráttarnætur þar sem ekki er vitað til að Ísfirðingar eigi landnætur. Síldin, sem veiddist í maí og júní, var seld til beitu og aflaðist vel á hana. Á Eyjafirði var sæmilegur afli í lagnet um vorið. Eyfirðingar eru alltaf að komast betur upp á lagið með að nota saltsíld sem fóðurbæti og bjargar það oft miklu á hörðu vori. Þegar leið á haustið var afbragðsafli í lagnet á Eyjafirði og einnig fékkst dálítið í nætur. Otto Wathne var með tvö nótalög á Eyjafirði. Þau reyttu dálítið en vegna mikils afla á Austfjörðum var annað nótalagið, sem var á Eyjafirði, sent austur í október. Eggert Laxdal fékk einnig töluvert af síld. Hinn mikli lagnetaafli á Eyjafirði leiddi brátt til tunnuleysis og stöðvuðust veiðarnar þá að mestu. Á Austfjörðum gekk veiðin allvel. Síld gekk í Seyðisfjörð í júlíbyrjun og veiddist þá þegar nokkurt magn. Sífellt bætist í skipaflota Ottos Wathne. Hjólaskipið "Niord" eða "Njörður" er nú komið til Austfjarða. Otto Wathne notar það m.a. til að flytja síldveiðimenn og áhöld 59
milli fjarða þar eystra. Um haustið og fram eftir vetri var ágætur lagnetaafli í Mjóafirði og bæði lagneta - og nótaafli í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Lagnaðarís innst í Reyðarfirði hamlaði þó veiði þar um tíma. Mikið hefur verið saltað af síld og flutt til útlanda. Otto Wathne hefur aflað mest enda hefur hann mestan tækjakost og mannafla en einnig hafa Tulinius, Randulff og Klausen aflað vel. Otto Wathne hefur nú tekið upp eina nýjung í síldarútvegi sínum. Hann hefur gert samning við enska togara um síldarflutninga. Togararnir koma rakleitt til Austfjarða frá Bretlandi. Á Austfjörðum eru þeir fermdir með ferskri síld sem er ísuð með ísforðanum sem skipin hafa með sér að utan. Togararnir selja síðan farminn í Bretlandi. Otto mun hafa samið við útgerðarmenn togaranna um helmingaskipti aflaverðmætis. Þegar aðeins er um lítið síldarmagn að ræða er síldin sett fersk í tunnur og þær síðan grafnar í ís. Engin norsk skip komu nú til síldveiða við Ísland og verður að telja allan aflann íslenskan þótt einn aðili, Friðrik Klausen á Eskifirði, haldi enn sambandi við móðurfyrirtækið, Lehmkuhl í Björgvin. Heildarútflutningur saltsíldar á árinu nam 21.867 tunnum 60
samkvæmt útflutningsgjaldabókum. Þar af voru 16.582 tunnur úr Suður-Múlasýslu. Norðmennirnir magnast aftur á móti enn í hvalveiðunum. Haugasundsmenn, með Peder Amlie í fararbroddi, hafa nú stofnað nýtt hvalveiðifélag, Haugesunds Hvalfangerselskab. Þetta félag hefur nú byggt hvalveiðistöð sem þeir nefna Talkna á Suðureyri í Tálknafirði. Framkvæmdastjóri er Johan E. Stixrud. Austri 8/7, 3/10, 19/10, 28/10, 8/11, 17/11, 7/12, 1892 Norðurljósið 10/3, 22/10, 22/11 1892 Þjóðólfur 30/9 1892 Þjóðviljinn ungi 31/5, 24/6 1892 Den moderne hvalfangst historie II. , s. 29 Tönnes Wathne: Sendibréf til W.M. Útflutningsgjaldabækur
1893 Tíðarfar var sæmilegt mikinn hluta ársins en hafís hamlaði veiðum öðru hverju. Hinu arnfirska síldarveiðafélagi vegnaði vel á árinu og greiddi 24 % arð til hlutafjáreigenda í árslok. Afli þess er einkum notaður til beitu á skútuflotanum en heimamenn nota frekar 61
kúffiskbeitu. Í Ísafjarðardjúpi var síldarafli öðru hverju bæði í lagnet og fyrirdráttarvörpu. Þessi afli fékkst einkum um sumarið og fram eftir hausti en í nóvember fylltist Djúpið af hafís svo ekki varð komist á sjó um alllangt skeið. Lítill afli var á Eyjafirði fram eftir árinu. Á Akureyri var nokkuð til af saltsíld frá fyrra ári og var hún ýmist flutt út um veturinn eða notuð til fóðurbætis. Gufuskipið "Ernest" kom til Akureyrar snemma í apríl með mjöl, kartöflur, brauð o.fl. og fékk 600 tunnur af saltsíld í staðinn. Í júnímánuði fór loks að verða vart við síld. Um sumarið var reytingsafli öðru hverju og um haustið kom mikil ganga í fjörðinn. Töluvert var veitt af henni en þó miklu minna en hægt hefði verið. "Það er þýðingarlítið að draga síldina á land, þegar ómögulegt er að koma henni í verð, en sárt er það, að sjá margar þúsundir króna ganga þannig úr greipum sér hvað eftir annað sökum samgönguleysis við önnur lönd." Hér vantaði tunnur til að hægt væri að taka við hinum mikla afla. Á undanförnum árum hafa hús frá Norðmannatímabilinu í Eyjafirði verið seld til ýmissa nota svo að nú sést lítið eftir af mannvirkjum þeirra. Hús Lehmkuhls eða Klausens á Litla-Árskógssandi stendur þó enn 62
í þeirra eigu. Afdrif húsanna, sem seld hafa verið, hafa verið hin margvíslegustu. Nokkur þeirra voru seld bændum og flutt á sveitabæi til ýmissa nota. Hólaskóli var byggður úr einu og fjögur eða fimm hús voru flutt til Akureyrar. Á Austfjörðum var þokkalegur síldarafli mikinn hluta ársins. Í janúar, febrúar og maí var góður síldarafli, einkum á Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Um haustið var aftur góður afli á þessum fjörðum og einnig í Mjóafirði. Þessi veiði hélt síðan áfram allt til áramóta og veiddist þá einkum vel í Eskifirði og Reyðarfirði. Otto Wathne og Tulinius fengu mestan afla. Samkvæmt útflutningsgjaldabókum voru 28.307 tunnur fluttar út á árinu, þar af voru 22.666 tunnur fluttar út úr Suður-Múlasýslu. Þjóðólfur 27/10 1893, 5/1, 19/1 1894 Þjóðviljinn ungi 25/5, 6/7 1893 Stefnir 13/2, 2/3, 19/4, 18/5, 7/6, 15/11 1893, 31/10 1902 Austri 11/2, 10/5, 12/10, 14/11, 21/11, 8/12, 30/12 1893 Útflutningsgjaldabækur
63
1894 Síldveiði var allmikil á árinu enda hamlaði veður og hafis ekki veiðum svo nokkru næmi. Á Arnarfirði var góður fiskafli fram eftir hausti, einkum ef síld var notuð til beitu. Í Ísafjarðardjúpi var síldarafli öðru hverju bæði í lagnet og vörpur. Nokkrar tunnur fengust á Ísafjarðarpolli í maí. Veiðin var síðan stopul fram í júní en þá fékkst allgóð veiði inni í Seyðisfirði og svo um haustið í Skutulsfirði og Álftafirði. Verslun Á. Ásgeirssonar á Ísafirði er nú með sérstakan vörpuútveg og er líklegt að hann noti litlar landnætur til veiðanna. Ekki er farið að hugsa til útflutnings svo að neinu nemi heldur er hugsað fyrst og fremst um beituöflun. Í Eyjafirði veiddu menn í lagnet eins og áður en áttu erfitt um vik varðandi útflutning. Í október kom gufuskipið "Vibran" frá Haugasundi með mannskap og veiðarfæri til síldveiða. Hvalveiðimaðurinn Stixrud á Tálknafirði var talinn fyrir útgerðinni. Það er að vonum að menn eru ekki mjög hressir yfir því í Eyjafirði að Norðmenn geti sniðgengið lögin með þessum hætti. Norsku síldveiðimennirnir öfluðu þokkalega og 64
"Vibran" hélt brátt heim á leið með 3.000 tunnur en hluta af því keyptu þeir af Eyfirðingum. Alls nam útflutningur úr Eyjafirði 3.586 tunnum á árinu. Lagnetaaflinn hélst allt til áramóta. Á Austfjörðum var síldarafla mjög misskipt. Norðan Gerpis var síldveiði lengst af mjög treg. Röstin úti fyrir Gerpi er of erfið fyrir smábáta svo að fyrir kom að menn þurftu að flytja síld til beitu á hestum frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar. Þetta er auðvitað ófært og nú reyna menn að finna lausn á þessum vanda. Helsta lausnin virðist vera að byggja frosthús til beitugeymslu eða hafa skip í förum milli fjarða með síldarbeitu, svokallaðan agnbát. Best væri að gera hvort tveggja. Ísak Jónsson frá Mjóafirði, sem hefur dvalið langdvölum í Ameríku og unnið þar við íshús, kom til Íslands um haustið. Hann fór rakleitt heim í Mjóafjörð og byggði íshús fyrir þá Brekkubræður, Konráð og Vilhjálm Hjálmarssyni. Síðar um haustið byggði hann annað hús á Brimnesi við Seyðisfjörð. Fyrirtæki Ottos Wathne stækkar enn. Á þessu ári keypti hann gufuskipið "Egil". Hann keypti einnig síldarhús Þórshamars á Seyðisfirði og nú boðar hann opnun stórverslunar og strandferðir með Austfjörðum 65
á næsta ári. Robert Slimon kaupmaður mun vera í félagi við hann um verslunina. Þegar beituhallærið var mest á Norðurfjörðunum í ágúst flutti "Vågen" beitusíld þangað af Suðurfjörðunum. Á Reyðarfirði og Eskifirði var þokkalegur afli síðari hluta vetrar og nóg beitusíld um sumarið. Um haustið var svo afbragðsveiði bæði í Reyðarfirði og Eskifirði. Auk þeirra síldveiðimanna, sem hafa stundað veiðina undanfarin ár, var nokkuð af Norðmönnum sem veiddu í skjóli landa sinna sem þarna eru búsettir. "En í raun og veru eru það ekki hinir búsettu Norðmenn, er veiða hér síldina, heldur þessi aðskotadýr er sigla og veiða undir fölsku innlendu flaggi." Otto Wathne fiskaði langmest og voru skip hans látlaust í förum með síldina á markað. Auk skipanna, sem fluttu saltsíld á markað, gekk "Cimbria" Ottos Wathne í sífellu með ísaða síld á breskan markað. Aðrir síldveiðimenn veiddu einnig vel og eitt sinn lágu samtímis 5 gufuskip á Eskifirði og fengu öll fulla hleðslu af saltsíld. Heildarútflutningur saltsíldar nam 29 þúsund tunnum, þar af 24.348 tunnur úr SuðurMúlasýslu. Í Reykjavík var stofnað félag um byggingu íshúss. Tilgangur þessa fyrirtækis er þríþættur. 66
Í fyrsta lagi á að vera hægt að safna í það heilum skipsfarmi af laxi og flatfiski, í öðru lagi er það byggt til geymslu á beitu og í þriðja lagi til geymslu á matvælum fyrir bæjarbúa. Jóhannes Nordal var fenginn frá Ameríku til að stjórna byggingu hússins og rekstri þess. Húsið var fullbúið skömmu fyrir áramót. Mikill hagur verður að þessu húsi fyrir bæjarbúa en þetta er fyrsta íshúsið sem nýtist þeim. Áður hafði Thomsen kaupmaður byggt lítið íshús til geymslu á laxi í Elliðaárhólmum.
Ísafold 29/9, 10/10, 10/11 1894 og 5/1, 16/2 1895 Þjóðviljinn ungi 23/5, 31/5, 8/6, 15/6, 27/10, 23/11, 24/12 1894 Stefnir 30/10, 4/12, 15/12 1894 og 16/11 1895 Austri 18/1, 19/2, 21/3, 18/5, 30/6, 13/7, 2/8, 13/8, 8/9, 23/10, 31/10, 10/11, 19/11, 18/12 1894 Útflutningsgjaldabækur
67
1895 Lítill síldarafli var á sunnan verðum Vestfjörðum þetta árið og báru Arnfirðingar sig illa undan beituleysi. Hins vegar gekk talsverð síld í Djúpið og veiddist ofurlítið af henni við Ögurnes þegar í janúar. Einar Jónsson á Kleifum fékk talsvert af síld í maí og júní og einnig veiddist vel í vörpur á Ísafjarðarpolli um sömu mundir. Um haustið var afli í lagnet víða um Vestfirði norðanverða. Þannig fékkst talsvert af síld í Önundarfirði, Álftafirði, Grunnavík og víðar. Eitt norskt skip lá inni í Seyðisfirði vestra um sumarið en ekki er vitað um afla þess. Í Eyjafirði var góður síldarafli allt frá áramótum. Vegna lagnaðaríss á innanverðum Eyjafirði varð nótum ekki komið við en lagnetaafli var ágætur upp um ísinn. Ágætur afli var öðru hverju um sumarið og í ágúst fór gufuskipið "Vågen" með fullfermi af saltsíld til útlanda. Um haustið var góður afli í nætur og voru þá alls átta nótalög á firðinum. Eitt þeirra var á vegum Ottos Wathne en hann byggði í vor stórt síldartökuhús á Oddeyri. Eitt nótalag er á snærum Klausens á Eskifirði. Tengsl þeirra Klausens og Lehmkuhls í 68
Björgvin hafa aldrei rofnað og nú koma eignir þeirra á Litla-Árskógssandi í góðar þarfir. Þrjú norsk nótalög veiða í skjóli Stixruds, hvalveiðimanns í Tálknafirði. Um miðjan nóvember höfðu um 20 þúsund tunnur verið fluttar út frá Eyjafirði en fljótlega eftir það lauk nótaveiðinni og í nóvemberlok voru öll síldarskip farin þaðan. Þá var Eyjafjörð innanverðan tekið að leggja og hamlaði það veiðum. Alls voru fluttar út 24.328 tunnur saltsíldar úr Eyjafirði á árinu. Á Seyðisfirði varð síldar vart í mars og svo var nokkur veiði í maí. Otto Wathne hafði þá síld í lás um langt skeið og seldi úr honum í beitu. Í ágúst fór aftur að fást síld. Hún var mögur og var flutt í nýju íshúsin. Góður afli var í september og veiddu þeir þá talsvert Imsland og Wathne. Wathne flutti megnið af sinni síld ísað á markað með gufuskipinu "Cimbria". Alls voru fluttar út á árinu tæplega 4.000 tunnur af saltsíld frá Seyðisfirði. Á Reyðarfirði og Eskifirði var góður síldarafli fyrstu mánuði ársins. Otto Wathne, Tulinius, Randulff og Klausen veiddu mest en eins veiddi Hans Beck á Sómastöðum ágætlega. Um haustið gekk geysilega mikil síld inn á firðina og var þá mokafli um langt skeið. Í september var góður afli, síðan kom 69
smálægð um tíma í október, en eftir það var prýðileg veiði fram yfir áramót. Gufuskipin "Cimbria" og "Diana" gengu stöðugt til Bretlands með ísaða síld fyrir Otto Wathne frá því í október og fram í febrúar. Síldveiðimönnum í Eskifirði og Reyðarfirði fer sífellt fjölgandi. Útgerðarmenn á Seyðisfirði, sem fá ekki fullnægt veiðigleði sinni þar, sækja nú mjög til veiða á Suðurfjörðunum. Imslandsfeðgar hafa byggt síldarhús í Reyðarfirði og komið sér upp annarri aðstöðu þar. Einnig hafa þeir Sig. Johansen, Þ. Guðmundsson, Þorsteinn Jónsson, St. Th. Jónsson, B. Siggeirsson, Eyjólfur Jónsson, Rolf Johansen o.fl. stofnað síldveiðifélag og byggt hús í Reyðarfirði. Loks veiddu 12 Eskfirðingar fyrir sænskt félag. Þeir fengu 2.300 tunnur. Þegar veiðin var mest í Reyðarfirði og Eskifirði var lás við lás á flestum stöðum þar sem kastað verður. Þannig voru um tíma fjórir lásar samtímis við Wathnesbryggju á Reyðarfirði. Alls er talið að veiðst hafi yfir 50 þúsund tunnur í þessum tveimur fjörðum á árinu. Á Fáskrúðsfirði var einnig góður afli lengst af, bæði um vorið og svo einnig um haustið og fram eftir vetri. Þar fengust um tíu þúsund tunnur. Alls voru fluttar út úr Suður-Múlasýslu á árinu 60.129 tunnur 70
af saltsíld auk þess sem Otto Wathne flutti út ísað. Um vorið gekk mikil síld í Faxaflóa. Í apríl var mikil síld í Vogum og í maí og júní gekk hún innar í flóann. Þetta var einkum kópsíld og gekk hún allt inn á Reykjavíkurhöfn og var töluvert veidd þar. Einn maður þríhlóð á skammri stundu. Þessi síld var að mestu seld til beitu en auk þess var síld sett í íshúsið nýja og reyndist vel sem beita. Eitthvað smávegis var saltað en á árinu voru 120 tunnur af saltsíld fluttar út frá Reykjavík. Seint um haustið kom aftur ganga í Faxaflóa. Þá veiddist talsvert í Keflavík og nágrenni og var hún eingöngu notuð til beitu. "Það er mein að menn hér kunna ekki að gera sér vöru úr síldinni." Um svipað leyti varð vart við mikla síld í grennd við Vestmannaeyjar. Saltsíldarútflutningur frá Íslandi nam alls 88.560 tunnum. Góð afkoma síldveiðimanna á Austfjörðum undanfarin ár er nú farin að skila sér í auknum umsvifum þeirra. Otto Wathne keypti á árinu gamlan norskan síldarútveg á Seyðisfirði og notaði nætur og báta þaðan við útgerð sína á Eyjafirði. Hann byggði stórt íshús á Seyðisfirði. Það tekur 600 tunnur og á að nægja til þess, eftir því sem hann segir sjálfur, 71
að beituskortur verði eftirleiðis "Saga blot". Hann byggði á árinu vita á Dalatanga og gaf landsmönnum. Kveikt var á vitanum 1. september og ætti nú sigling til Austfjarða í dimmviðri og náttmyrkri að verða auðveldari en áður. Loks byggðu þeir Wathnesbræður skrauthýsi á Bakkagerðiseyri í Reyðarfirði, líkt íbúðarhúsi Ottos á Seyðisfirði með vatnsleiðslu og öðrum þægindum. Aðrir síldarútvegsmenn hafa minna um sig en innleiða þó ýmsar nýjungar. Þannig hafa þeir bræður Stefán og Eyjólfur Jónssynir lagt málþráð milli húsa sinna á Fjarðaröldu, "- og er gott að tala í gegnum hann". Ísafold 27/4, 4/5, 11/5, 1/6, 5/6, 2/11, 1895 og 10/2, 25/3 1896 Þjóðólfur 1/11, 6/12 1895 Þjóðviljinn ungi 11/1, 22/1, 30/5, 7/6, 22/6, 29/10, 6/11, 14/11, 22/11, 13/12 1895 og 31/1 1896 Stefnir 25/1, 25/2, 22/8, 16/11, 28/11, 1895 Austri 29/3, 25/5, 12/6, 20/9, 28/9, 12/10, 30/11, 31/12 1895 og 30/9 1897 Útflutningsgjaldabækur
72
1896 Þess var varla að vænta að hinn mikli afli ársins 1895 endurtæki sig á þessu ári. Engu að síður var talsverður síldarreytingur víða um land. Á Patreksfirði var nú fyrst reynd síldarnót. Það gaf góða raun og var haustafli með ágætum á síldarbeituna. Á Geirseyri var ráðist í byggingu íshúss og annað er fyrirhugað á Vatneyri. Í Arnarfirði hefur P.J. Thorsteinsson byggt íshús og var nokkur síldveiði þar í vor. Síldin, sem veiddist, var smá en oft má fá hafsíld á haustin ef viðeigandi veiðarfæri eru til staðar. Í Ísafjarðardjúpi var síldarafli nægilegur til beitu alltaf öðru hverju frá maí og fram í nóvember. Síldin var veidd ýmist í lagnet eða vörpur. Hún veiddist helst á Ísafjarðarpolli, í Álftafirði, Skötufirði eða úti undir Hnífsdal. Verslun Á. Ásgeirssonar hefur nú byggt íshús til beitugeymslu og verður að því mikið hagræði, einkum fyrir þilskipin. Á Ströndum var góður fiskafli um sumarið enda nota menn nú síld til beitu en hana veiða þeir í lagnet með góðum árangri.
73
Lítil síldveiði var í Eyjafirði framan af árinu. Í ágúst fór loks að verða vart við síld úti við Hrísey. Í september var góð veiði og um 20. september höfðu Wathnesmenn fengið um 3.000 tunnur við Hrísey. "Egil" var í stöðugum ferðum og flutti síldina úr nótunum inn á Oddeyri til söltunar. Eggert Laxdal og Klausen veiddu einnig vel. Í október komu Norðmenn á fjórum skipum til síldveiða en um það leyti tók fyrir afla svo að þeir urðu heldur slyppifengnir í þetta sinn. Í nóvember og desember reyttist dálítið í lagnet. Norðmenn fengu þá fullar nætur en það reyndist allt vera smásíld sem þeim þykir ekki tilvinnandi að salta vegna verðleysis hennar. Margir bændur hafa fengið töluvert af þessari síld hjá Norðmönnum fyrir lítið eða ekkert verð til fóðurbætis. Heildarútflutningur úr Eyjafirði á árinu nam 12.407 tunnum. Á Austfjörðum var síldarafli miklu minni en í fyrra. Fyrstu mánuði ársins var talsverður afli í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Engin síld veiddist þá á Norðurfjörðunum svo að "Vågen" flutti síld í íshúsin þar. Um sumarið var síldveiði léleg en í október veiddist nokkur síld á Seyðisfirði, þá var aflalaust á Suðurfjörðunum. Menn þráuðust við fram í 74
nóvember en þá hættu flestir veiðum enda nánast enginn afli. Fjöldi Sunnlendinga hópast nú til Austfjarða á sumrin til útróðra. Í júlí var talið að um 1.200 sunnlenskir sjómenn væru komnir austur í þessum erindagerðum. Síldarhlaup kom í Reykjavíkurhöfn í september. Talsvert var veitt af síldinni og voru 120 þúsund stk. sett í íshúsið og annað eins saltað. Saltsíldarútflutningur frá Íslandi á árinu nam alls 32.539 tunnum, þar af voru 17.429 tunnur úr Suður-Múlasýslu. Hin nýju íshús, sem spretta upp víða um land, hafa valdið byltingu í beituöflun og beitugeymslu. Menn nota nú orðið naumast aðra beitu en síld og leggja nánast hvað sem er á sig til nálgast slíka beitu. Þannig báru menn síld á bakinu úr íshúsinu í Reykjavík alla leið austur í Þorlákshöfn. Ísak Jónsson hefur leiðbeint mönnum við byggingu íshúsanna. Eftir fyrirsögn hans voru 9 hús reist á þessu ári til viðbótar fjórum sem voru komin í gagnið áður. Öll þessi hús eru á Austfjörðum og Norðurlandi. Austfirðingar hafa margvíslegt hagræði af hinum tíðu samgöngum við Noreg. Heyöflun hefur oft verið annmörkum háð á Austfjörðum en nú hafa sumir bændur þar brugðið á það ráð 75
að fá hey frá Noregi með flutningaskipunum sem þaðan koma. Þjóðólfur 23/2 1896 og 29/1, 1/2 1897 Ísafold 16/5, 15/7, 12/9, 28/10, 14/11 1896 Þjóðviljinn ungi 2/5, 30/5, 31/8, 12/9, 17/10, 31/10, 21/11, 30/11 1896 Dagskrá 28/9 1896 Stefnir 15/5, 17/8, 31/8, 22/9, 15/10, 29/10, 14/11, 10/12 1896 Austri 12/6, 7/8, 10/10, 31/10, 6/11, 11/11, 20/11, 1896 Bjarki 28/11 1896 Útflutningsgjaldabækur
1897 Síldveiði dróst enn saman þetta árið. Síldarverð erlendis var lágt og varð það því ekki til að ýta undir aukna sókn. Þá brást síldveiði nánast alveg á Austfjörðum. Á Arnarfirði var góður síldarafli en ekki mikill kraftur í veiðinni þar sem Arnfirðingar veiða aðeins til beitu. Í Ísafjarðardjúpi var síldarafli bæði í lagnet og vörpur, einkum síðsumars og
76
um haustið. Þessi afli var fenginn bæði inni í Seyðisfirði og í Jökulfjörðum. Í Steingrímsfirði á Ströndum var góður fiskafli í sumar. Þar er nú fastur siður að hver bátur hafi eitt síldarnet ávallt meðferðis til beituöflunar. Á Eyjafirði hófst síldveiði að einhverju marki á miðju sumri og 20. júlí höfðu Wathnesmenn síld í þremur lásum á Akureyrarpolli. Sæmileg síldveiði var fram á haustið en aflinn var nokkuð blandaður millisíld. Í ágústlok höfðu Wathnesmenn fengið 3.000 tunnur og Klausen á LitlaÁrskógssandi á annað þúsund. Alls voru fluttar út 8.215 tunnur af saltsíld úr Eyjafirði. Á Austfjörðum var síldarafli lengst af mjög tregur, jafnvel svo að ekki fékkst síld til beitu. Otto Wathne hefur nú stóraukið útgerð sína og snúið sér að þorskveiðum og fiskverkun. Hann gerði í sumar út tvö gufuskip, "Elínu" og "Egeríu" og þrjár seglskútur. Skipin voru með línu og voru notaðar amerískar doríur við veiðarnar. Auk þess gerði "Seyðisfjarðar gufuskipa fiskiveiðafélag" út gufuskipið "Bjólf" á sama hátt en Otto Wathne er einn af aðaleigendum þess. Otto sér svo um verkun aflans af öllum skipunum. Næg vinna er því á Seyðisfirði þótt síldarafli bregðist. Allur 77
þorskur, sem veiðist, er saltaður en flatfiskur, sem veiðist, er lagður í ís og síðan fluttur með "Cimbriu" á markað í Bretlandi. Allur þessi floti er beitufrekur og þess vegna hafa gufuskip Ottos, "Vågen" og "Egil", flutt beitusíld frá Eyjafirði austur á Seyðisfjörð. Ensk gufuskip hafa komið að venju inn á Seyðisfjörð til beitukaupa en hafa enga fengið. Á Suðurfjörðunum var síldarafli heldur skárri en á Seyðisfirði en þó alls ekki góður. Helst var að eitthvað veiddist seint um haustið og framan af vetri. Alls voru fluttar út á árinu frá Íslandi 11.184 tunnur af saltsíld. Úr SuðurMúlasýslu voru fluttar út tæplega 3.000 tunnur. Nokkur síldveiði var í Faxaflóa í september, "-- en tilfæringar mjög ófullkomnar". Þá gekk síld í Reykjavíkurhöfn. Síldin, sem geymd var í íshúsinu í Reykjavík, var öll uppurin á vordögum. Síldin var m.a. flutt á mönnum og hestum austur fyrir fjall en auk þess flutti gufubáturinn "Oddur" beitusíld austur á Eyrarbakka. Um haustið var aftur komin nokkur síld í íshúsið. Þá var beitusíld flutt á 12 hestum frá Reykjavík austur á Eyrarbakka. Ísafold 5/5, 30/10 1897 Þjóðviljinn ungi 23/10, 13/11 1897 78
Þjóðólfur 30/7, 1/10, 17/12, 24/12 1897 Stefnir 20/7, 29/7, 30/8, 21/9, 25/10 1897 Austri 10/6, 30/7, 10/8 1897 Bjarki 12/6, 24/6, 17/7, 21/8, 3/9, 2/10, 20/11 1897 Útflutningsgjaldabækur
1898 Síldveiðarnar voru þetta árið í sömu lægð og árið á undan. Í Arnarfirði fékkst síld í vörpur í júlí en síðan tók fyrir afla og í september var gufuskipið "Muggur" sent eftir beitusíld til Seyðisfjarðar. Þar varð skipið að liggja um nokkurt skeið vegna þess að síld var ekki tiltæk. Í Ísafjarðardjúpi var síldarafli í júní og júlí, bæði inni í Hestfirði og á Ísafjarðarpolli. Á Eyjafirði var mikil síld í janúar en þá vantaði þar tunnur og salt til að nýta góðan afla. Síldarafli var síðan talsverður fram á vor og var þónokkuð veitt í lagnet upp um ís á Akureyrarpolli. Þegar leið á sumarið dró úr afla og um tíma var beitulaust. Í septemberlok tók afli að glæðast á nýjan leik. Þátttaka í veiðunum í Eyjafirði hefur nú aukist talsvert, m.a. vegna veiðibrests eystra. Otto Wathne bætti við síldarstöð sem hann keypti í Hrísey 79
og er hann nú með tvö nótalög í Eyjafirði. Tuliniusarnir á Eskifirði hafa einnig flutt sig norður á bóginn og með þeim skip þeirra "Helga" Haugasundsmenn mættu til leiks á skipinu "Vibran". Þá hefur fyrirtæki í Kristjaníu leigt lóð og sett upp söltunarstöð í landi Krossaness. Helstur forsvarsmaður fyrirtækisins er P. Herlofssen en hann er einn af eigendum hvalveiðifélagsins "Harpunen" sem rekur hvalveiðistöð á Dvergasteinseyri í Álftafirði. Þegar kom fram í nóvember var ágætur afli inni á Akureyrarpolli. Þá fengust góð köst við hafnarbryggjuna og fram undan leikhúsinu og rauða stólpanum. Saltsíldarútflutningur úr Eyjafirði nam alls 8.649 tunnum á árinu. Á Austfjörðum var lítill síldarafli eins og áður. Sérstaklega var dauft yfir veiðum í Seyðisfirði lengst af. Fram eftir sumri mátti heita að væri viðvarandi beituleysi og var þá talsvert um beituflutninga frá Eyjafirði. Í ágústmánuði og allt fram til áramóta var reytingur í net svo að dugði til beitu en nótaveiði var nánast engin. Aftur á móti bárust nú í sífellu miklar fréttir af síld útifyrir, bæði við Langanes, út af Vopnafirði og suður með Austfjörðum. Margir telja að reknet séu 80
heppilegri veiðarfæri en næturnar við þessar aðstæður. Sæmilegur lagnetaafli var í Mjóafirði og í Reyðarfirði fékkst svolítið af síld í net og nætur. Annars var nótaaflinn í heild óverulegur og er fjarri lagi að sá útvegur geti borið sig. Saltsíldarútflutningur af landinu öllu var 11.310 tunnur. Þar af voru 340 tunnur úr Norður-Múlasýslu og 2.246 tunnur úr Suður-Múlasýslu. Litlar fréttir bárust af síldveiði í Faxaflóa en snemma á árinu tók Otto Wathne lóð á leigu á Kleppi við Reykjavík en þar er meiningin að reisa síldarstöð. Otto entist ekki aldur til að sjá þennan draum verða að veruleika. Hann lést 15. október um borð í skipi sínu, "Vågen", á leið til útlanda. Otto var fæddur 1843 og var um langt skeið umsvifamestur allra síldveiðimanna á Íslandi, auk þess sem hann hafði forgöngu um margt sem til framfara horfði á ýmsum sviðum. Þjóðviljinn ungi 15/6, 13/7, 20/7 1898 Bjarki 22/1, 16/7, 6/8, 27/8, 3/9, 24/9, 2/11, 19/11 1898 Stefnir 12/1, 19/4, 13/5, 3/6, 28/9, 22/10, 2/11, 28/11, 10/12, 29/12 1898 Austri 7/5, 7/7, 27/7, 20/8, 31/8, 10/9, 20/9, 30/9, 11/10, 19/10, 10/11, 30/11, 31/12 1898 Norske seilskuter ... s. 116 81
Útflutningsgjaldabækur Veðmálabækur Eyjafjarðarsýslu, Litra I, s. 141 - 3
1899 Síldveiðar gengu enn verr þetta árið en hið næsta á undan. Lítið fréttist af síldveiðum á Vestfjörðum en yfirleitt fæst þar nægileg síld til beitu yfir sumarið og haustið. Menn veiða hana mest í lagnet en landnætur þekkjast þar í Arnarfirði, Dýrafirði og á Ísafirði. Á Eyjafirði aukast lagnetaveiðarnar jafnt og þétt en fjöldi manna þyrpist nú til Akureyrar og annarra staða við innanverðan fjörðinn á hverju ári til síldveiða. Aflinn er síðan saltaður eða fluttur til næstu byggðarlaga og notaður sem fóðurbætir eða beita. Þessi veiði er einkum stunduð síðari hluta vetrar og á vorin og er algengt að menn vaki netin niður um ísinn. Í haust tóku menn þessar veiðar upp aftur með ágætum árangri. Hansen, umboðsmaður Herlofsens í Krossanesi, keypti síld af netamönnum allan veturinn og saltaði. Um sumarið veiddist nánast engin síld í Eyjafirði og urðu þá vandræði vegna beituleysis. Í ágúst höfðu sex nótalög hafið veiðar og von var á 82
tveimur til viðbótar en afli var tregur og mishittur. Síldarverð var óvenjuhátt svo að þeir sem eitthvað fengu höfðu þokkalegar tekjur. Fyrsta haustsíldin, sem flutt var út, var seld á 35 krónur tunnan. Alls voru fluttar út úr Eyjafjarðarsýslu 5.699 tunnur og 152 tunnur úr Þingeyjarsýslu. Á Austfjörðum var sáralítil veiði og nánast aldrei umfram beituþarfir. Alls voru 188 tunnur fluttar út úr Múlasýslum báðum. Hlutafélagið "O. Wathnes erfingjar" hefur nú tekið við rekstri dánarbús Ottos Wathne. Á þessu ári var síld veidd í fyrsta skipti í reknet svo nokkru nemi við Ísland. Áður hafa menn aðeins borið við reknetaveiði á Austfjörðum. Hans Falck í Stafangri sendi gufuskipið "Brimnes til fiskveiða við Ísland. Skipið hafði meðferðis nokkur reknet og tunnur til að salta síldina í. Netin voru höfð með fyrst og fremst með beituöflun í huga en skipverjar áttu að salta afganginn ef einhver yrði. Skipið reyndi veiðar úti fyrir Austfjörðum en fékk engan afla. Í september reyndu þeir fyrir Norðurlandi og fengu 130 tunnur á skömmum tíma. Þeir söltuðu síldina og fluttu hana síðan til Noregs. Þessi tilraun lofar góðu og veitir ekki af þegar svona dauft er yfir landnótaveiðinni ár eftir ár. 83
Reknetaveiðar voru líka reyndar við Suðurland. Enskur skipstjóri, Dudman eða Doodman að nafni, hefur undanfarin ár átt vinsamleg samskipti við Vestmannaeyinga. Nú í ár lét hann vini sína í Eyjum hafa lítinn reknetabát með öllum búnaði til þess að þeir eigi auðveldara með að afla sér beitu. Eyjamenn reyndu bátinn en hafa ekki náð árangri við veiðarnar. Í Reykjavík hefur beituöflun gengið hálfilla síðan síldin hætti að ganga inn á sundin. Forsvarsmenn Íshússfélagsins tóku því höndum saman við nokkra þilskipaútgerðarmenn og efndu til reknetaveiða í Faxaflóa. Þeir tóku gamlan enskan lóðsbát á leigu og fengu netatrossu frá Skotlandi. Benedikt Guðbrandsson, sem hefur unnið við reknetaveiðar í Skotlandi, stjórnaði veiðitilraununum. Báturinn fór fimm ferðir og fékk alls 130 tunnur. Þessar tilraunir þykja lofa góðu og hafa aðstandendur þeirra því stofnað formlegt félag, Reknetafélagið við Faxaflóa, og hyggja á áframhald þessara veiða. Stefnir 14/1, 2/3, 8/4, 6/5, 9/6, 6/7, 4/8, 21/8, 30/9, 19/10, 14/11, 29/11, 8/12, 20/12, 30/12 1899 Austri 31/1 1899 Síldarsaga Íslands, s. 190 84
Bjarni Sæmundsson: Fiskirannsóknir 1899, Andvari 1900, s. 70 - 71 Þorsteinn Jónsson: Aldahvörf í Eyjum, s. 64 Útflutningsgjaldabækur
1900 Síldveiði var treg víðasthvar þótt í heild væri hún skárri en árið á undan. Í Eyjafirði var síldarlaust í ársbyrjun en í mars byrjaði að reytast ofurlítið upp um ísinn. Í maí og júní var talsvert veitt af síld og mikið af henni var fryst í nýju íshúsi Wathnes erfingja á Oddeyri. Þessi síld var síðan flutt austur á Firði til beitu. Frosna síldin er miklu auðveldari í flutningum en ófrosin og er því hið mesta hagræði að þessu nýja íshúsi. Fiskiskip frá Akureyri höfðu öll frosna síld til beitu og líkaði hún mjög vel. Um haustið var allgóður afli, bæði í lagnet og nætur og fengu mörg nótalögin yfir 1.000 tunnur. Sérstaklega var góður afli á jólaföstunni. Þegar flest var voru átta nótalög á Eyjafirði. Það skyggði nokkuð á sæmilegan afla að mikið af síldinni var millisíld sem alltaf er í lágu verði. 85
Síld gekk nú inn á Austfirði eftir nokkurra ára hlé. Framan af sumri nægði þó veiðin alls ekki til að fullnægja beituþörf Austfirðinga en hún er mikil, einkum á Seyðisfirði, en þaðan gengur fjöldi gufuskipa á línuveiðar. Framan af sumri voru því sóttir margir skipsfarmar af beitusíld úr Eyjafirði, m.a. fór gufuskipið "Eiríkur" tvær ferðir og "Norðfjörður" eina í júlí gagngert eftir beitu. Í ágúst var prýðilegur afli í Reyðarfirði og hélst hann fram til 20. september en þá brast á stórviðri og varð ekki vart við síld eftir það. Möller, verslunarstjóri á Blönduósi, byggði stórt íshús og fyllti það af síld en síld gengur oft upp í gruggið úr Blöndu. Húnvetningar höfðu því nóga beitusíld í sumar og veiddu vel á hana. Alls voru fluttar út frá Íslandi á árinu 15.646 tunnur af saltsíld. Úr Eyjafjarðarsýslu fóru 5.033 tunnur, 727 úr Þingeyjarsýslum, 419 úr Norður-Múlasýslu og 9399 tunnur úr SuðurMúlasýslu. Hans Falck í Stafangri hélt áfram reknetaveiðinni með góðum árangri. Hann sendi nú tvö skip út með reknet. Þetta voru "Brimnes" og "Albatros" sem hann gerir út frá Seyðisfirði í félagi við þá Imslandsfeðga. Alls fengu skipin 536 tunnur af síld. Skipin voru 86
búin 50 neta trossu hvort en auk þess hafði "Brimnes" stórt samdráttarnet meðferðis. Svo höfðu þau tunnur og salt og allan búnað til söltunar. "Albatros" fór út frá Akureyri 6. ágúst og "Brimnes" frá Seyðisfirði 8. ágúst. Þau héldu svo veiðunum áfram í rúman mánuð. Mesti afli eftir eina nótt var hjá "Albatros", 111 tunnur. "Brimnes" reyndi samdráttarnetið og fékk 10 tunnur í það. Veiðarnar fóru fram á svæðinu frá Skagafirði austur á Þistilfjörð. Þessar tilraunir þykja hafa sannað að síld er úti fyrir Norðurlandi og að unnt er að veiða hana. Reknetafélagið við Faxaflóa hélt veiðum áfram í sumar. Nú hefur félagið keypt skip til þessara veiða. Þetta er norskur lóðsbátur, 24 lestir og gott gangskip, enda er mikilvægt að aflinn komist sem fyrst að landi. Báturinn heitir "Kristján" og er Geir Sigurðsson skipstjóri á honum. Sumaraflinn var 140 tunnur sem voru frystar í íshúsinu í Reykjavík. Stefnir 18/1, 5/3, 28/4, 19/5, 20/6 6/7, 22/8, 6/10, 7/11, 1/12, 31/12 1900 Norðurland 5/11 1901 Ísafold 29/1 1901 Austri 4/5, 29/5, 7/7, 16/7, 31/7, 11/8, 20/8, 17/9, 29/11 1900 Bjarki 25/8, 22/9, 29/9, 22/10 1900 87
Norsk sjöfartshistorisk årbok 1977, s.186 - 7 Bjarni Sæmundsson: Fiskirannsóknir 1900, Andvari 1901, s. 53 Thorolf Smith: Til fiskiveiða fóru, s.31 Útflutningsgjaldabækur
1901 Á þessu ári var síldarafli meiri en verið hefur undanfarin ár. Sérstaklega var góður afli í Eyjafirði. Í ársbyrjun var reytingur í lagnet öðru hverju og eitt og eitt sæmilegt nótarkast fékkst. Mikið af aflanum var sett í íshús en auk þess fóru "Risö" og "Vågen" með saltsíldarfarma í febrúar. Í apríl fékkst sæmilegur afli í lagnet upp um ísinn á Pollinum. Um sumarið var lítill síldarafli en menn bjuggu sig af kappi undir haustið. Í september tók að lifna yfir veiðinni og síðari hluta þess mánaðar mátti heita landburður af síld. Auk þess var mikill afli í lagnet. Eftir þetta tók heldur að draga úr veiðinni. Alls voru fluttar út úr Eyjafjarðarsýslu 27.330 tunnur og 1.569 tunnur úr Þingeyjarsýslum en mikill hluti þeirrar síldar var veiddur í Eyjafirði.
88
Íslendingar hafa nú tekið reknetaveiðar Falcks sér til fyrirmyndar. Bræðurnir Sveinn og Jón Einarssynir á Raufarhöfn keyptu sér skip og gerðu það út á reknet. Sveinn hélt til Noregs í marsmánuði með "Agli". Í Noregi keypti hann litla skútu sem nefndist "Vega" og réði á hana skipstjóra og hluta af áhöfn. Skipstjóri er Kornelius Mannes, bróðir Bendiks Mannes sem er skipstjóri á "Albatros". Afli "Vegu" um sumarið var 235 tunnur og var síldin söltuð til útflutnings. Lítill síldarafli var á Seyðisfirði þetta árið og voru aðeins 766 tunnur fluttar út á árinu. Í Reyðarfirði var aftur á móti góður afli um haustið. Alls voru fluttar út úr SuðurMúlasýslu 19.614 tunnur en af landinu öllu 49.500 tunnur. Falck hélt áfram reknetaveiðunum með góðum árangri. Auk gufuskipanna tveggja, sem hann gerði út á þessar veiðar í fyrra, sendi hann tvær skútur, "Duo" og "Solo", til veiða. Þær voru á þorskveiðum en öfluðu sér beitu með reknetum og söltuðu svo umframaflann. Þær fengu 45 tunnur hvor en alls fengu skip Falcks 916 tunnur. Verkun reknetasíldarinnar hjá Falck hefur verið ábótavant vegna rauðátu en í sumar lét hann magadraga alla síld og reyndist hún þá afbragðsvara. Falck og félagar 89
hans urðu fyrir því áfalli í september að skip þeirra, "Brimnes" brann í höfninni á Seyðisfirði. Reknetafélagið við Faxaflóa gerði "Kristján" út til reknetaveiða á árinu. Veiðarnar gengu vel og var aflinn settur í íshúsið í Reykjavík. Austri 26/3, 6/4, 1/6, 19/8, 23/9, 27/11, 1901 Stefnir 15/1, 26/1, 16/2, 6/3, 18/3, 12/4, 13/7, 28/8, 2/10, 9/10, 21/10, 5/11, 21/11, 12/12 1901 Norðurland 1/10, 15/10, 5/11 1901, 10/5 1902 Norsk sjöfartshistorisk årbok 1977, s. 190 Útflutningsgjaldabækur.
1902 Síldveiði var svipuð 1902 og árið á undan en sóknin hefur aukist að mun. Á Arnarfirði var nú veidd síld og söltuð til útflutnings í fyrsta skipti. Tvö norsk skip, "Risö" og "Leif", voru þar með nótalög um haustið. Alls voru fluttar út þaðan 3.360 tunnur. Á Eyjafirði var mestur viðbúnaður til síldveiða eins og verið hefur undanfarin ár. Um veturinn var drjúgur netaafli upp um ísinn á Akureyrarpolli. Íshús Wathnes erfingja og 90
Havsteens voru bæði fyllt en auk þess voru 2.000 tunnur saltaðar og fluttar út. Eftir að ísinn leysti í maí var feiknalega góður afli í öll veiðarfæri. Fengust þá yfir 5.000 tunnur á sex dögum og var mikil vinna við að salta þennan afla. "Atvinna hefur auðvitað verið feikileg við að taka á móti þessum landburði, svo að ekki er að því hlaupið að fá nokkra manneskju til nokkurs snúnings. Jafnvel lítil börn hemjast ekki í húsunum. Allir vilja í síldarvinnuna. 45 aurar eru borgaðir fyrir að kverka og salta í tunnu." Í júlímánuði voru reynd ný veiðarfæri í innanverðum Eyjafirði. Þetta eru stauranætur sem voru fengnar frá Danmörku. Önnur nótin var sett upp fyrir framan amtmannshúsið en hin austan fjarðar, fram undan Veigastöðum. Sams konar kvíar voru svo settar upp síðar úti í Skjaldarvík. Nokkur afli fékkst í þessar nætur, bæði síld, silungur og annar fiskur. Miklu fleiri Eyfirðingar eiga nú landnætur en áður. Auk þess kom talsvert af skipum frá Noregi með nótalög. Loks komu svo mörg nótalög af Austfjörðum. Mörgum fannst því vera farið að þrengja að í Eyjafirði og hófst því á nýjan leik mikil umræða um veiðirétt Norðmanna og leppmennsku. 91
Að áliðnu sumri var aftur þokkalegur afli í nætur en um haustið brást lagnetaaflinn alveg. Ólafur G. Eyjólfsson sendi sexæring út með nokkur reknet og fékk sex tunnur í þau. Þetta er fyrsta tilraun Eyfirðinga til reknetaveiða. Saltsíldarútflutningur úr Eyjafjarðarsýslu var alls 40.651 tunna og 3.936 úr Þingeyjarsýslum. Sveinn og Jón Einarssynir gerðu "Vegu" út á reknet um sumarið og gengu þær veiðar vel en alls fengu þeir 300 tunnur. "Vega" er aðeins u.þ.b. 20 lestir að stærð. Á Austfjörðum brugðust nótaveiðarnar að mestu og þurfti að flytja þangað beitusíld frá Akureyri um tíma. Síðsumars var ofurlítið kropp í Fáskrúðsfirði. Alls voru fluttar út um 2.000 tunnur úr Múlasýslum báðum. Falck hélt áfram reknetaveiðunum. "Albatros" og "Atlas", sem eru systurskip, stunduðu þessar veiðar. Auk þeirra var gufuskipið "Alstein" að veiðum og tíu seglskip, flest norsk. Þessar veiðar hafa nú sannað ágæti sitt en samanlagður afli allra skipanna var u.þ.b. 5.000 tunnur sem fengust aðallega á Þistilfirði. Nú hyggja margir á reknetaveiðar því að það tekur á taugarnar þegar nóg síld er útifyrir en engin gengur inn á 92
firðina eins og var á Austfjörðum í sumar. Veiðar "Kristjáns" í Faxaflóa gengu vel. Arnfirðingur 15/11 1902 Stefnir 6/2, 17/2, 12/3, 26/3, 16/5, 3/6, 30/6, 31/7, 13/8, 23/8, 29/8, 26/9, 7/10, 17/10, 24/10, 31/10 1902 og 7/1 1903 Gjallarhorn 15/11 1902, 13/2 1903 Norðurland 17/5, 7/6, 12/7, 23/8, 6/9, 27/9, 1/11, 8/11 1902 Austri 4/10, 1/12 1902 Útflutningsgjaldabækur
1903 Heildarsíldarafli ársins var heldur minni en árið á undan. Þungamiðja veiðanna virðist nú vera að færast yfir á reknetin. Á Vestfjörðum var dálítill síldarafli en bæði í Ísafjarðardjúpi og í Dýrafirði var veitt dálítið í landnót. Alls voru fluttar út úr Ísafjarðarsýslu 2.565 tunnur. Á Siglufirði hefur ekki verið söltuð síld svo neinu nemi í yfir 20 ár. Nú í sumar voru norsku reknetaskipin að veiðum fyrir Norðurlandi og höfðu mörg bækistöð á Siglufirði því að þaðan er stutt á miðin. Þarna 93
er um að ræða talsverðan flota alls konar skipa. Í maímánuði kom skonnortan "Cambria" hlaðin timbri til Siglufjarðar, eigandi farmsins var Hans Söbstad frá Kristiansundi N. Menn hófust þegar handa við byggingu söltunarstöðvar á austanverðri Eyrinni og innan fárra vikna var allt til reiðu til síldarmóttöku. Fyrsta reknetasíldin barst til stöðvarinnar 8. júlí. Hér var eitt af skipum Söbstads, "Marsley" komið með 70 - 80 tunnur. Hinn gamli draumur Snorra Pálssonar virðist loks vera að rætast. Hinn 27. ágúst lágu inni á Siglufirði 70 veiðiskip og auk þeirra birgðaskipið "Fröy" . Á mörgum skipanna er síldin söltuð um borð en afli annarra er saltaður í landi. Inni í Eyjafirði var veiði minni en á fyrra ári. Fyrstu mánuðina var enginn síldarafli. Stauranætur voru settar upp í maí en í þær fékkst ekkert. Síld fékkst loks í fyrirdrætti við Oddeyri seint í júní. Í júlí fékkst loks nægileg síld til að bæta úr beituskorti. Fyrstu vikuna í ágúst var góður afli en síðan ekki söguna meir og haustveiðin brást alveg. Eyfirðingar virðast vera að bila í trúnni á landnótaveiðar því að margir landnótaveiðimenn keyptu reknetaskip af Norðmönnum í haust. Fimm seglskip voru keypt til Akureyrar og eitt til Siglufjarðar. 94
Nokkrir útgerðarmenn á Akureyri sendu skip sín út til reknetaveiða í sumar Þetta voru alls sjö skip sem söltuðu aflann um borð og voru oft eina til tvær vikur í hverri veiðiferð. "Vega" frá Raufarhöfn hélt reknetaveiðum áfram í sumar og fékk 365 tunnur. Á Austfjörðum var dálítil veiði í lagnet um sumarið en engin nótaveiði. Hins vegar lögðu mörg reknetaskip upp afla á Seyðisfirði svo að dálítið var saltað þar. Síldin var mishitt en þegar best lét fékk eitt skip yfir 200 tunnur yfir nóttina. Útgerð "Kristjáns" í Faxaflóa gekk vel á árinu og nú er unnið að undirbúningi að stofnun annars félags til reknetaveiða frá Reykjavík. Félagsmenn í skipstjórafélaginu Öldunni gangast fyrir þessari félagsstofnun og hyggjast bæði frysta síldina og salta til útflutnings. Útgerð "Kristjáns" hefur vakið athygli í öðrum verstöðvum á Suður- og Vesturlandi. Vestmannaeyingar og útvegsmenn í Ólafsvík hafa einnig hafið veiðar í reknet til beituöflunar. Þessi útgerð er þó öll smá í sniðum og einungis notaðir opnir bátar við veiðarnar. Heildarútflutningur saltsíldar af landinu nam 42.283 tunnum. Þar af var 33.821 tunna úr Eyjafjarðarsýslu en til viðbótar þessu er 95
sjósöltuð síld norsku reknetabátanna. Heildarafli reknetabátanna er talinn nema um 40.000 tunnum. Aflahæst var "Skolma" með 1.500 tunnur, "Alstein" 1.400 og "Ulf" með 1.000 tunnur. Á þessu ári voru gerðar tilraunir til að veiða síld í svokallaða pokanót eða snurpunót. Danska reknetaskipið "Danmark" hafði slíka nót meðferðis en ekkert hefur frést um afla. Herlufsen og Johnsen frá Kristjaníu voru með sérstakan bát með snurpunót. Þetta er ágætur siglari og er búinn bensínvél til vara ef hann lendir í logni. Ekkert hefur frést um afla þessa báts. Þriðja skipið, sem hafði snurpunót meðferðis, var "Harald" frá Akrehavn á Karmöy. "Harald" er 103 tonna nýtt seglskip af slúppgerð. Hann hafði auk reknetanna litla snurpunót meðferðis og fékk í hana 300 tunnur úti á Skagagrunni um miðjan júlí. Síldveiðarnar virðast nú standa á nokkrum tímamótum. Norðmenn eru nú teknir að sækja hingað af fullum þunga aftur. Miðstöðvar síldveiðanna eru að færast úr hinum löngu fjörðum til staða sem liggja nær miðunum. Siglufjörður og e.t.v. Raufarhöfn virðast vera að taka, að hluta til a.m.k., við þessu hlutverki. Þá er augljóst að verkun síldarinnar hlýtur að breytast. Nú verður að magadraga alla síld 96
vegna átunnar en áður var hægt að svelta síldina í nótunum til að ná átunni úr henni. Loks má vera að hið nýja veiðarfæri, snurpunótin, komi til með að slá í gegn. Tilraun "Haralds" lofar mjög góðu. Stefnir 7/1, 30/5, 25/6, 17/7, 25/7, 6/8, 26/8, 7/9, 12/9, 7/11, 3/12 1903 Gjallarhorn 27/2, 1/5 1903 Norðurland 11/7, 19/7, 25/7, 29/8, 12/9 1903 Vestri 13/6 1903 Austri 9/7, 24/7, 15/8, 19/9, 28/9, 21/10 1903 Hjort J. o.fl. Norsk havfiske, Norges fiskerier II. s. 107 - 127 Rogaland fiskarsoga, s. 227 Útflutningsgjaldabækur.
1904 Síldveiði jókst mjög á þessu ári miðað við það sem verið hefur undanfarin ár. Telst það nú orðið nánast regla að hver útgerðarmaður eigi reknet, lagnet eða jafnvel litla fyrirdráttarnót til beituöflunar. Líklegt er að þessi beituöflun sé ekki öll færð til bókar en engu að síður telja aflaskýrslur um 8.000 tunnur veiddar á opna báta. Eitthvað af þessu 97
er sjálfsagt veitt í landnót en heldur hefur dregið úr landnótaveiði í Eyjafirði og á Austfjörðum. Á Vestfjörðum fjölgar landnótum hins vegar þessi árin en þær eru þar einkum notaðar í tengslum við íshúsin. Beituþörf Vestfirðinga er svo mikil og beitan í svo háu verði að ekki þarf mikinn afla til að nótafélögin skili arði. Íslendingar hafa tekið vel við sér við reknetaveiðarnar. Alls stunduðu um 20 íslensk skip slíkar veiðar í sumar. Nýtt síldveiðifélag, Draupnir, hefur verið stofnað í Reykjavík. Þaðan eru því gerð út tvö skip til beituöflunar, "Kristján" og "Ágúst". Annars eiga Akureyringar liðlega helming íslenska síldarflotans en auk þess ganga íslensk reknetaskip frá Siglufirði, Hjalteyri, Raufarhöfn og Seyðisfirði. "Helga" frá Akureyri varð aflahæst með 1.120 tunnur. Reknetaveiðar Norðmanna ganga þó út yfir allt sem þekkst hefur síðustu árin. Alls voru í flota þeirra um 100 skip sem fengu um áttatíu þúsund tunnur. Mörg norsku skipanna komu snemma vors og stunduðu þorskveiðar fram að síldarvertíð frá Austfjörðum eða Vestfjörðum. Í flotanum voru 17 gufuskip, flest frá Stafangri og Álasundi. Mörg þeirra komu snemma vors til línuveiða í Faxaflóa með höfuðstöðvar í 98
Hafnarfirði. Langflest norsku skipanna voru gerð út frá Siglufirði á síldarvertíð en einstaka skip frá Ísafirði, Eyjafjarðarhöfnum eða Raufarhöfn. Í sumar var í fyrsta skipti veitt í snurpunót við Ísland með verulegum árangri. Í fyrra var reynd lítil nót á "Haraldi" frá Akrehavn. Sú tilraun tókst að ýmsu leyti vel og nú hafa tæknigallar verið lagfærðir og veiðar hafnar af krafti. Tvö skip voru við veiðarnar og voru eingöngu búin snurpunót. Þetta "Albatros" frá Stafangri og "Imbs" frá Haugasundi. Bendik Mannes, sem fyrstur hóf reknetaveiðar fyrir Norðurlandi, er hér enn í fararbroddi en hann er skipstjóri á "Albatros". Hann fór til Ameríku í vetur til að kynna sér snurpunótaveiðar og notar nú reynslu sína þaðan auk þess sem hann hefur tekið upp athyglisverða nýjung. Hann hefur nótina í tveimur bátum í stað eins áður. Þetta hefur gefið mjög góða raun. "Albatros" hóf veiðar um miðjan júlí og fékk 1.000 tunnur fyrstu vikuna. Síldin var söltuð á Oddeyri en síðan flutti "Albatros" hana til Stafangurs og kom þangað 3. ágúst. Hitt snurpunótaskipið, "Imbs" frá Haugasundi, veiddi einnig vel. Eigandi þess, Tormod Bakkevig, er með aðstöðu í Eyjafirði en gerði skip sín út frá Siglufirði í 99
sumar. "Albatros" fékk 3.100 tunnur en "Imbs" 2.600. Eins og áður sagði voru langflest norsku skipin gerð út frá Siglufirði. Vöruflutningaskip af ýmsum stærðum og gerðum lágu þar sumarlangt sem fljótandi söltunarstöðvar en þeim Norðmönnum fer fjölgandi sem koma sér upp aðstöðu í landi. Auk Söbstads, sem nam land í fyrra, hafa skipstjórarnir Johan Hareide og Lars Garshol komið sér upp aðstöðu í félagi og Henrik D. Henriksen frá Haugasundi, sem er skipstjóri á "Ludolph Eide" og umboðsmaður Stålesens útgerðarmanns, hefur einnig komið sér upp aðstöðu. Hann hóf reyndar framkvæmdir í fyrra. Mikil bjartsýni ríkir með veiðarnar á næsta ári, ekki síst meðal Eyfirðinga sem keyptu fjögur reknetaskip af Norðmönnum í haust. Austri 7/5, 27/8, 3/10, 7/12 1904 Norðurland 23/7, 30/7, 6/8, 13/8, 20/8, 10/9 1904 Stefnir 29/7 1904 K.S.H. Norske Islandsfiskere på havet, s. 44 - 55 Norsk fiskeritidende 1904 Veðmálabækur Eyjafjarðarsýslu, Litra K.
100
1905 Síldveiðarnar voru stundaðar af enn meira kappií ár en í fyrra. Íslendingar eru nú óðum að vakna til lífsins í þessum efnum og gerðu alls út 39 skip til síldveiða um lengri eða skemmri tíma. Þrjár skútur, "Kristján", "Ágúst" og "Ingvar", voru á reknetum í Faxaflóa til beituöflunar og gufuskipið "Leslie" frá Hafnarfirði var á sömu veiðum um tíma. Frá Vestfjörðum gengu þrjú skip á reknet, frá Patreksfirði, Bíldudal og Ísafirði. Fyrir norðan og austan veiddu menn helst með söltun í huga. Þar voru Eyfirðingar fyrirferðarmestir með 24 skip en auk þess voru reknetaskip frá Siglufirði, Raufarhöfn, Seyðisfirði og Mjóafirði. Íslensku reknetaskipin fengu alls um 16 þúsund tunnur. Nú reyna Íslendingar að feta í fótspor Norðmanna með snurpunótaveiðum. Erfingjar Ottos Wathne gerðu gufuskipið "Elínu" út með snurpunót með ágætum árangri en hún fékk 3.200 tunnur sem er góð byrjun. Auk þess hafði Otto Tulinius norskt snurpunótaskip á leigu. Ísfirðingar reyndu aðra nýjung. Þeir
101
fengu sér lagnet með 3/4" möskva og veiddu vel af millisíld í þau nú í haust. Þó að Íslendingar séu óðum að koma til í þessum útvegi eru tilburðir þeirra smávægilegir bornir saman við umsvif Norðmanna. Þeim fjölgar sífellt og þeir ná æ betri tökum á þessum veiðum. Alls voru 13 gufuskip með snurpunætur við Ísland í sumar. "Elín" hefur þegar verið nefnd en auk hennar voru fjögur þýsk skip með snurpunætur og norskar áhafnir. Loks voru átta norsk skip með snurpunætur. Aflahæstu snurpunótaskipin fengu um 5.000 tunnur. Alls komu 85 seglskip til veiða frá Noregi. Samanlagður síldveiðifloti við Ísland var 123 seglskip, 3 vélskip og 31 gufuskip. Auk íslenskra, norskra og þýskra skipa voru tvö ensk skip og Svíar höfðu tvö norsku skipanna á leigu. Erfitt er að gera sér grein fyrir heildaraflanum en Norðmenn telja sinn eiginn afla 106.983 tunnur. Önnur norsk heimild nefnir 127.600 tunnur . Allur afli við Ísland getur þá verið 140 - 150 þúsund tunnur. Fyrirkomulag veiðanna er að færast í fastmótaðri farveg en verið hefur. Seglskipin eru nánast öll á reknetum og salta áhafnir þeirra aflann um borð. Venjulega fara skipin tvær eða þrjár veiðiferðir í viku en þegar afli 102
er mikill verða þau að fara í land með síldina ferska. Síldin, sem veiðist á gufuskipin, er aftur á móti yfirleitt söltuð í landi. Langflest skipin landa síldinni á Siglufirði en einstaka á Raufarhöfn eða í Eyjafirði. Norðmenn halda áfram að byggja söltunarstöðvar á Siglufirði og hafa nú tekið á leigu allar bestu lóðirnar austan á Eyrinni. Á þessu ári tók Tormod Bakkevig frá Haugasundi á leigu stóra lóð sem eitt hvalveiðifélaganna hafði áður. Hann flutti síðan á hana nýlega síldarstöð sem hann átti inni í Eyjafirði. En langflestir Norðmannanna hafa söltunarstöðvar um borð í skipum sem liggja á Siglufjarðarhöfn. Hans Falck, sem fram til þessa hefur yfirleitt saltað á Oddeyri, átti nú tvö gömul barkskip, "Fröy" og "Navigator". Auk þess lá þar barkurinn "Try" frá Álasundi. Einnig mátti sjá svona barka inni á Eyjafirði. Landnótaveiðarnar gáfu lítið af sér þetta árið þótt töluvert væri reynt. Það voru einkum Íslendingar sem reyndu þær veiðar en að minnsta kosti eitt nótalag kom frá Noregi. Austri 20/12 1905 K.S.H. : Norske Islandsfiskere... s. 55 - 59 Kristinn Halldórsson: Siglufjörður s. 474 - 475 Norðri 2/2 1906 103
Norsk Fiskeritidende 1905 Veðmálabækur Eyjafjarsýslu Ægir 1905 - 1906
1906 Árið 1906 jókst enn þátttaka í síldveiðum fyrir Norðurlandi. Nú voru alls 71 skip með snurpunót, þar af 51 frá Noregi. Sunnmæringar voru þar fremstir í flokki með 19 skip, flest frá Álasundi. Sum hinna norsku skipa voru leigð Íslendingum, Snorri Jónsson, J.V. Havsteen og Bræðurnir Einarsson á Raufarhöfn höfðu allir norsk snurpuskip á leigu og hugsanlegt er að fleiri íslenskir útgerðarmenn hafi gert hið sama. Fimm snurpunótaskip komu frá Þýskalandi, "Elsass", "Braunschweig", "Preussen", "Bayern" og "Holstein". Thorbjörn Waage, Stafangri, annaðist útgerð þeirra og þau voru að verulegu leyti mönnuð Norðmönnum. Danir sýndu lit með því að senda eitt skip, "Reidar", með norskan nótabassa um borð. Frakkar vildu líka vera með og sendu eitt skip með norskan nótabassa.
104
Tveir leiðangrar komu frá Aberdeen í Skotlandi. Annars vegar voru það "Scottish Queen" og "Scottish Bell" en hins vegar "Glenogle", "Glencile" og "Gleines". Þessi skip voru öll mönnuð Norðmönnum að hluta og notuðu norskar nætur. Svíar sendu þrjú skip, "Ziba", "Serla" og "Aron" og loks voru Íslendingar með fimm skip, "Ask", "Elínu" og "Noru" frá Seyðisfirði, "Leslie" frá Hafnarfirði og "Súluna" sem nú er að flytjast frá Mjóafirði til Akureyrar. Á reknetaveiðum voru 74 norskar skútur og 19 vélskip. Íslendingar áttu 39 skútur sem eitthvað veiddu í reknet, þar af voru liðlega 30 sem voru á hinum hefðbundnu reknetaveiðum fyrir Norðurlandi. Auk þess voru þar 5 þýsk skip á reknetaveiðum. Alls stunduðu því um 200 skip síldveiðar fyrir Norðurlandi í sumar. Þróun undanfarinna ára hélt áfram í sumar hvað það snertir að afli reknetaskipanna er saltaður um borð en afli nótaskipanna í landi. Á Siglufirði er nú þröngt setinn bekkurinn en u.þ.b. þrír fjórðu hlutar flotans eru gerðir út þaðan. Fjórðungur er svo gerður út frá Eyjafirði og Akureyri og skipum fjölgar nú mjög sem hafa aðstöðu á Raufarhöfn. Loks má nefna að B. Stolt Nielsen, sem gerir út tvö nótaskip og eitt nótalag, fékk aðstöðu og 105
byggði söltunarstöð í Reykjarfirði á Ströndum, snertispöl utan við verslunarstaðinn í Kúvíkum. Allir samningar eru gerðir þar í nafni Lars Sekse, skipstjóra á "Victor", en hann hefur keypt borgarabréf á Íslandi. Norðmennirnir þykja nokkuð aðgangsharðir þegar þeir kasta nótum sínum uppi í harða landi. Varðskipið "Islands falk" stóð fjögur norsk skip að ólöglegum veiðum á Haganesvík 9. ágúst og fylgdi þeim til Akureyrar þar sem skipstjórarnir voru dæmdir í 200 króna sekt hver. Veiðarnar gengu vel þegar á heildina er litið, sérstaklega hjá nótaskipunum. Síldin hélt sig mjög vestarlega fram eftir sumri og þurftu skipin þá að sækja hana allt vestur að ströndum og Horni. Aflahæstu nótaskipin fengu yfir 5.000 tunnur. Heildarafli íslenskra skipa var tæpar 24 þúsund tunnur skv. aflaskýrslum en samkvæmt útflutningsskýrslum voru 214 þúsund tunnur af saltsíld fluttar út frá Íslandi á þessu ári. Hér eiga því útlendingar bróðurpartinn. Þó að afli væri góður á árinu var hagur síldveiðimanna æði misjafn vegna þess að síld lækkaði töluvert í verði eins og hún gerir jafnan þegar framboð er mikið. Sænsku skipin þrjú sem hér voru í sumar 106
komu frá Smögen. Nágranni þeirra Alfred Bovik í Lysekil sendi krydd með þeim til Íslands og var hluti aflans kryddsaltaður. Þessi síld var síðan unnin í gaffalbita. Tilraun þessi gaf góða raun og má vænta þess að framhald verði á þessari verkun. Aflaskýrslur 1906 Austri 18/8, 8/9, 22/12 1906 Hasslöf Olof: Sotenäs gränsbygd vid havet K.S.H.: Norske Islandsfiskere ... s. 61 - 65 Kristinn Halldórsson: Siglufjörður s.474 - 475 Norðri bls. 69, 112, 125; 27/7, 3/8, 10/8, 7/9, 14/9 1906 Norsk fiskeritidende 1906 O. Tynes: Endurminningar (hdr.) Ægir 1906
1907 Þátttaka í síldveiðum varð enn meiri í ár en árið á undan og sókn útlendinga vex enn. Norðmenn sendu u.þ.b. 200 skip, þar af 70 með snurpunót, Svíar voru með a.m.k. tvö skip, Þjóðverjar með á annan tug, Skotar með þrjú skip og Færeyingar eitt. Íslendingar áttu 107
44 skip á reknetaveiðum og sömu fimm skip og árið áður veiddu í snurpunót. Afli var meiri en nokkru sinni fyrr. Alls voru fluttar inn til Noregs 176.631 tunna, auk þess sem Norðmenn fluttu beint til markaðslandanna. Heildarafli Íslendinga var 23.792 tunnur skv. aflaskýrslum en í þá tölu vantar greinilega hluta af afla nótaskipanna. Nokkur reknetaskip lögðu einkum áherslu á öflun beitusíldar í Faxaflóa, við Vestfirði og Austfirði. Gufubáturinn "Nora", sem er gamall hvalveiðibátur frá Ellefsen, var gerður út frá Seyðisfirði með snurpunót í sama tilgangi. "Nora" aflaði prýðilega og seldi beitu á Austfjörðum fyrir 32 þúsund krónur, auk þess sem 800 tunnur af afla hennar voru saltaðar til útflutnings. Í landi voru umsvif manna mest á Siglufirði dem fyrr. Nú eru menn farnir að byggja söltunarstöðvar á hinum lakari lóðum. Elias Roald frá Álasundi byggði stóra söltunarstöð undir Hafnarbökkum. Þarna er mjög aðgrunnt svo að Roald var neyddur til að byggja miklu lengri bryggjur en áður hafa sést. Og nú tóku menn einnig að byggja austan fjarðar. Bræðurnir Gustav og Olaf Evanger frá Eggesbönes á Sunnmæri tóku á leigu lóð í landi Staðarhóls og byggðu þar söltunarstöð. 108
Þarna er sæmileg aðstaða en undirlendi lítið og nokkur snjóflóðahætta. Þeir bræður hafa undanfarin ár stundað fiskverkun og lýsisbræðslu á Seyðisfirði og Mjóafirði en ætla nú að snúa sér að síldarsöltun. Annar staður er þó sem hefur tekið enn meiri stakkaskiptum en Siglufjörður, það er Hjalteyri. Þar hefur verið næsta kyrrlátt fram að þessu en nú hefur heldur betur orðið breyting á. Eyrin hefur skyndilega breyst í alþjóðlegt síldarpláss. Jón Norðmann keypti Hjalteyri í hitteðfyrra fyrir 7.000 krónur. Hann leigði John S. Boyle frá Glasgow lóð undir söltunarstöð. Einnig fengu þarna aðstöðu Svíinn Fridtjof Örtenblad og þýska fyrirtækið Nordsee og loks eru tvö íslensk reknetaskip gerð út frá Hjalteyri. Á Akureyri og Oddeyri var mikið saltað sem fyrr enda er þar hægara um vik en annars staðar vegna þess að þar er yfirleitt auðvelt að fá fólk til starfa. Stöðvarnar á Raufarhöfn eru flestar í eigu manna sem eiga jafnframt stöðvar á Siglufirði. Þeir nota því aðstöðu sína á víxl eftir því hvort síldin veiðist vestarlega eða austarlega. Seyðfirðingar hafa minna umleikis í síldarsöltun en áður og gera síldarskip sín, að "Noru" undanskilinni, út frá 109
Norðurlandshöfnum. Hins vegar er mikill uppgangur á Seyðisfirði á öðrum sviðum sjávarútvegs. Þar er gerður út stór floti lítilla vélbáta á þorskveiðar og þjónusta við erlenda togara vex hröðum skrefum. Þannig seldu seyðfirskir kaupmenn yfir 7.000 tonn af kolum á þessu ári. Ellefsen hvalveiðimaður á Asknesi gerði flutningaskipið "Barden" út á síld í sumar. Aflinn var rúmlega 3.000 tunnur sem voru saltaðar í Mjóafirði. Á þessu ári var útflutningsgjald af síld hækkað úr 20 aurum á tunnu í 50 aura. Einnig voru sett lög um hert viðurlög við landhelgisbrotum. Hinum nýju landhelgislögum var fylgt fast eftir og um sumarið mátti heita að um landhelgisstríð væri að ræða. Í ágústmánuði einum var 31 skip tekið vegna meintra ólöglegra veiða. Skipstjórar flestra skipanna voru dæmdir í 600 - 1.000 króna sekt. Hin nýja löggjöf og framkvæmd hennar leiddi til töluverðrar spennu milli Norðmanna og Íslendinga og stundum sló í brýnu og jafnvel handalögmál. Þetta vildi einkum bera við á Siglufirði þar sem fjöldinn var mestur og löggæsla lítil. Önnur viðbrögð Norðmanna voru að skrá skip 110
sín í eigu umboðsmanna sinna, leppmennskan tók á sig nýja mynd. Hin mikla veiði sumarsins leiddi til verðfalls og var þó verðið lágt fyrir. Að lokum var um algera sölustöðvun að ræða svo að í janúar 1908 áttu Norðmenn enn 50.000 tunnur óseldar. Aflaskýrslur Austri 24/6, 10/8, 27/8, 1907 og 1/2 1908 Erlendur Patursson: Fiskiveiði - Fiskimenn 1850 1939, s. 189 - 190 K.S.H. Norske Islandsfiskere ... 65 - 70 Norðri 6/9, 13/12, 1907 og 14/11908 J. Tönnesen: Hvalfangstens historie II. s. 25 Ægir 1907 - 1908
1908 Í ár dró heldur úr sókn Norðmanna á Íslandsmið. Til þess lágu margvíslegar ástæður. Hið lága síldarverð síðustu ára og sölutregða léku marga útgerðarmenn grátt og sumir þeirra urðu hreinlega gjaldþrota. Thorvald Johnsen & co. , sem byggir á gömlum merg og hefur átt síldarflota á Islandsmiðum um árabil, lagði upp laupana af 111
þessum sökum og fjöldi annarra síldarútvegsmanna er svo aðþrengdur að hann hættir ekki á þetta fjárhagslega happdrætti. En það voru fleiri en Norðmenn sem guldu afhroð í verðfalli tveggja síðustu ára. Svíar frá Smögen, sem í fyrra sendu tvo togara með snurpunótum, tvær seglskútur og flutningaskip og hafa notið allmyndarlegs ríkisstyrks, sendu nú aðeins eitt snurpunótaskip og tennurnar eru dregnar úr sumum þeirra Íslendinga sem hafa verið hvað harðastir í síldarútgerðinni. Þannig voru frumherjar Norðurlandsveiðanna, Jón og Sveinn Einarssynir á Raufarhöfn, komnir á ystu nöf fjárhagslega. Norðmenn voru ekki aðeins aðþrengdir í peningasökum. Þeim var einnig vandi á höndum varðandi hin hertu viðurlög við landhelgisbrotum og aukið harðfylgi Íslendinga við framkvæmd gildandi laga. Leppmennska fór nú vaxandi. Þeir útgerðarmenn, sem höfðu umboðsmenn með fasta búsetu á Íslandi afsöluðu skip sín í hendur þessara umboðsmanna til þess að þau gætu veitt óáreitt í landhelgi. Gufuskipið "Urte" í Haugasundi var fært í eign Ole M. Nielsen á Akureyri. M. Ansnæs seldi skip sín, "Balder" og "Landego" í hendur sonar síns, Johns Ansnæs sem bjó á Siglufirði. Vélskipið 112
"Brödrene" var selt Tormod Bakkevig á Siglufirði og skrásett þar og þannig endalaust. En þetta var aðeins hluti norska flotans, flest skipin sigldu enn undir norsku flaggi og höfðu ekki heimild til veiða í landhelgi. Þessi floti hélt sig utan landhelgi framan af sumri en þegar líða tók á sumarið hljóp þeim kapp í kinn enda gekk síldin nærri landi. Nú upphófst svipað landhelgisstríð og í fyrra og skipin voru tekin hvert af öðru. Sömu þjóðir stunduðu veiðarnar og í fyrra. Nýtt dansk-íslenskt útgerðarfélag hefur verið stofnað. Það nefnist "Ísland - Færeyjafélagið" og byggir að langmestu leyti á dönsku fjármagni en Íslendingar eiga einnig nokkurn hlut. Félagið gerði tvö skip, "Brittu" og "Nelly", út á síld frá Siglufirði. Íslendingar gerðu nú í ár fyrstu tilraun til að gera togara út á síld. Erfingjar Ottos Wathne sendu togarann "Eddu" og Alliance togarann "Jón forseta". Togararnir fengu tæplega 4.000 tunnur hvor. Thorvald Björnsen frá Stafangri kryddsaltaði 72 tunnur á stöð sinni á Siglufirði í sumar. Þessi verkun gaf mjög góða raun og gefur tilefni til bjartsýni. Þar sem afli var nú í ár talsvert minni en í fyrra var hægt að fullverka stærri hluta hans hér á landi en áður hefur verið gert. Á þessu 113
ári var því mun meiri síld flutt héðan beint til markaðslandanna, einkum til Svíþjóðar. Alls voru fluttar til Noregs u.þ.b. 140.000 tunnur en afli Íslendinga nam um 39 þúsund tunnum skv. aflaskýrslum. Skv. aflaskýrslum lögðu 32 íslensk skip stund á síldveiðar á árinu, þar af voru 7 skip með snurpunót. Umsvif voru langmest á Siglufirði sem fyrr en auk þess lönduðu mörg skipanna á Akureyri og víðar í Eyjafirði. "Nora" frá Seyðisfirði aflaði beitusíldar fyrir Austfirðinga í sumar sem fyrr. Seyðfirðingar ráku upp stór augu þegar hún komin hlaðin til hafnar til hafnar eitt sinn því að í stað síldar var hún hlaðin þorski sem skipverjar höfðu fengið í nótina norður undir Langanesi. Þetta mun vera einsdæmi. Á vordögum komu síldarútvegsmenn við Eyjafjörð saman til fundar með félagsstofnun í huga. Tilgangur félagsins er alhliða hagsmunagæsla félagsmanna, m.a. er hugmynd þeirra að samræma kjör skipverja á veiðiskipum þeirra. Síldarverð var að meðaltali u.þ.b. 30 % hærra en í fyrra vegna þess að framboð var minna. Aflaskýrslur 114
Austri 6/6, 9/7, 1908 Enar B. Jónsson (munnl.) K.S.H. Norske Islandsfiskere... s. 70 - 73 Norðri 14/1, 28/4, 1908 Ole Tynes Endurminningar (hdr.) Ægir 1908
1909 Síldveiði fyrir Norðurlandi dróst enn saman í ár miðað við undanfarin ár. Sókn Norðmanna á Íslandsmið fer nú heldur þverrandi af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi hefur hið lága síldarverð undanfarinna ára leikið marga þeirra grátt fjárhagslega þótt verðið í fyrra væri heldur skárra en næstu tvö ár á undan. Hans W. Friis í Álasundi, sem hefur gert út á Íslandsmið í fimm ár, varð gjaldþrota. Friis hafði hér jafnan 3 - 5 skip að veiðum, ýmist á síld eða á þorskveiðum. Hann átti stóra fiskverkunarstöð í Hafnarfirði og hafði einnig aðstöðu á Siglufirði, Raufarhöfn og Seyðisfirði. Í öðru lagi þurfa Norðmenn að bregðast á raunhæfari hátt en áður við aukinni hörku íslenskra yfirvalda hvað snertir landhelgismál og innheimtu útflutningsgjalda. 115
Norðmenn bregðast við þessu á tvo vegu. Sumir þeirra hætta með snurpunót og taka reknet í staðinn. Reknetaveiðarnar hafa reynst áhættuminni en nótaveiðarnar og auðveldara er að stunda þær utan landhelgi og salta um borð. Hins vegar hafa norsku nótaveiðimennirnir orðið sér úti um stærri skip, stunda veiðar á þeim utan landhelgi og salta um borð. Bendik Mannes var hér upphafsmaður sem endranær. Hann keypti í vor gufuskipið "Bergen" sem er langtum stærra en önnur veiðiskip og gerði það út sem veiðiskip og söltunarstöð í senn. Loks eru svo þeir Norðmenn sem hafa hér borgararétt og hafa komið sér upp aðstöðu í landi. Þeir verða að þreyja þorrann og góuna í verðlagsmálum í von um betri tíð og hækkandi verð. Þjóðverjar voru með sömu útgerð og verið hefur undanfarin ár en litlar fregnir eru af veiði Skota sem verið hafa á Hjalteyri undanfarin ár. Umsvif Svía virðast aftur á móti fara vaxandi. John Wedin hefur undanfarin ár saltað á plani þeirra Hareides og Garshols á Siglufirði og virðist vera að festast þar í sessi. Sömu Svíar voru í Eyjafirði og verið hafa undanfarin ár og nú hafa Brödrene Ameln í Stokkhólmi einnig hafið útgerð á Íslandsmið. Danir eru skráðir 116
með talsverðan afla. Mest munu þar á ferðinn Norðmenn sem hafa skráð sig með einhverjum hætti í Danmörku til að öðlast hér veiðirétt. Íslendingar áttu 29 skip á síldveiðum, þar af voru 8 með snurpunót. Nú voru þrír Reykjavíkurtogarar á síld, "Marz", "Jón forseti" og "Snorri Sturluson". Afli íslenska flotans var u.þ.b. 25.000 tunnur. Landnótaveiði hefur átt heldur erfitt uppdráttar síðustu árin og afli hefur verið lítill og stopull. Í sumar brá aftur á móti svo við að prýðilega aflaðist á Austfjörðum. Afli á opna báta, þar sem uppistaðan er afli í landnætur, var rúmlega 28 þúsund tunnur eða meiri en á þilskipin. Allt síðan snurpunótaveiðar hófust hér við land hafa saltsíldarkaupendur kvartað undan lélegri vöru. Síldin hefur verið af misjafnri stærð, talsvert hefur verið af horsíld, mikið borið á átuskemmdum, misjafn þungi í tunnum, síldin hefur verið þrá o.s.frv. Til að ráða bót á þessu hafa verið uppi hugmyndir um lögskipað síldarmat. Þær hafa ekki náð fram að ganga en í vor voru skipaðir tveir síldarmatsmenn, Jakob Björnsson í Siglufjarðarumdæmi og Jón Bergsveinsson í Akureyrarumdæmi. Verkefni þeirra er annars vegar að meta ferska síld og úrskurða hvort 117
hún sé söltunarhæf og hins vegar að meta gæði saltsíldar. Þetta er frjálst mat og gert er ráð fyrir því að til matsmanna sé fyrst og fremst leitað þegar ágreiningur verður milli kaupenda og seljenda. Önnur merkileg nýjung var tekin upp á árinu. Mönnum hefur löngum runnið til rifja öll þau verðmæti sem fara í súginn þegar síld er fleygt vegna þess að ekki vinnst tími til að salta hana. Nú í sumar gerði Tormod Bakkevig tilraun til að bræða síldina og vinna úr henni lýsi. Tilraunirnar lofa góðu en allt var þetta í smáum stíl. Æskilegt væri að geta þurrkað síldarmaukið þegar lýsið hefur verið fleytt ofan af. Í haust birtist grein í Norðra þar sem útgerðarmenn eru hvattir til að byggja verksmiðju og bændur til að nota síldarmjöl sem fóðurbæti. Minna var um landhelgisbrot á þessu ári en áður en mönnum þótti kasta tólfunum þegar Lars Sekse, skipstjóri á "Victor", lét menn sína kasta snurpunótinni inni á Pollinum á Ísafirði . Sekse var sakfelldur fyrir undirrétti en sýknaður fyrir yfirrétti. Aflaskýrslur Austri 29/5, 14/8, 10/9 1909 Fra Islands Næringsliv s. 133 118
K.S.H. Norske Islandsfiskere... s. 73 - 79 K. Sunnanå: Det norske sildefisket ved Island, Norsk årbok 1932, s. 110 - 111 Matthías Þórðarson: Síldarsaga Íslands s. 242 - 243 Norðri 1/7, 15/7, 5/8, 1/12 1909 O. Vollan: Omlegginga av fisket i Ålesund og på Sunnmöre, s.94 - 98 Vestri 24/4, 4/9 1909 Ægir 1909
1910 Þátttaka í síldveiðum við Ísland fer minnkandi þessi árin. Síldarverð í fyrra var lægra en í hitteðfyrra og það endurspeglast í þátttökunni núna. Þá hafði það talsverð áhrif á sókn Norðmanna að feitsíldarveiðar við Noreg gengu vel í fyrra og þess vegna veðjuðu margir á þær í ár. Norðmenn voru engu að síður með stærstan flota allra þjóða á Íslandsmiðum sem endranær. Heildarafli þeirra á sumrinu varð rúmlega 116 þúsund hektólítrar. Veiði þeirra hefur því farið stöðugt minnkandi allt frá árinu 1907. Svíar og Þjóðverjar höfðu hér svipaða útgerð og verið hefur síðustu árin. Eitt erlent fyrirtæki hóf síldarútgerð hér á landi á árinu. Færeyingurinn 119
Evensen tók Wathnesbryggju á Oddeyri á leigu og hóf síldarútgerð þaðan. Hann notar enska togara sem veiðiskip. Nú í sumar gerði hann út tvö skip frá Black útgerðarmanni í Grimsby. Íslenskum skipum á síldveiðum fækkaði einnig. Í aflaskýrslum eru nefnd 19 skip sem stunduðu síldveiðar en margt bendir til að þau hafi í reynd verið nokkru fleiri og að þar vanti a.m.k. þrjú nótaskip. Alls voru 16 skip á reknetum, öll frá Siglufirði og Eyjafjarðarhöfnum. Afli á íslensk þilskip var alls tæplega 22 þúsund tunnur. Landnótaveiði var einnig nokkur í Eyjafirði og á sunnanverðum Austfjörðum og í Eyjafirði fékkst dálítið af síld í fyrirdrætti með litlum nótum. Heildarafli Íslendinga varð því liðlega 30 þúsund tunnur. Síldveiðin í sumar fór ákaflega hægt af stað og andstætt því sem venjulegt er gekk reknetabátum miklu betur en nótaskipum fram eftir sumri. Um miðjan ágúst kom upp síld vestur við Skaga og næstu tvær vikur var mjög góð veiði út af Skagafirði og Eyjafirði. Allan þennan tíma var saltað linnulaust, mest á Siglufirði og Akureyri en einnig á Hjalteyri, Svalbarðseyri og í Hrísey. Þá var einnig saltað talsvert á Raufarhöfn og Seyðisfirði en nokkur skip veiddu allvel um 120
tíma við Langanes. Alls voru saltaðar um 160.000 tunnur, þar af 90 þúsund á Siglufirði og 45 þúsund á Akureyri. Talsverður millisíldarafli var á Akureyrarpolli snemma vors. Tormod Bakkevig hélt áfram tilraunum sínum með síldarbræðslu í sumar og Hans Söbstad var eitthvað að brasa á svipuðum nótum á lóð sinni norðar á eyrinni. Landhelgismálin tóku á sig nýja mynd á árinu. Björn Líndal, sem harðast gekk fram í því árið 1907 að góma landhelgisbrjóta fyrir Norðurlandi, varð nú að sæta opinberri rannsókn varðandi kostnað við þessar aðgerðir. Þessi rannsókn leiddi af sér umfangsmiklar og harðar deilur í Akureyrarblöðunum, Norðra og Norðurlandi. Aflaskýrslur 1910 K.S.H. Norske Islandsfiskere... s. 76 - 83 Norðri 12/1, 10/6, 23/7, 13/8, 27/8, 1910 og 17/1 1911 Norðurland 24/9 1910
1911 Þetta ár varð enn samdráttur í síldveiðum við Ísland. Útlendingar voru að mestu hinir sömu 121
og undanfarin ár en sókn Norðmanna fer þverrandi þessi árin. Síldarverð hefur verið lágt og norskir útgerðarmenn eru hikandi við að senda skip sín á Íslandsmið í þeim mæli sem var fyrir nokkrum árum. Íslenskum skipum hefur einnig fækkað. Samkvæmt aflaskýrslum voru aðeins 13 íslensk þilskip á síldveiðum, tólf þeirra voru á reknetum og eitt með snurpunót. Afla togaranna er ekki getið í skýrslunum en a.m.k. einn þeirra var á síldveiðum í sumar. Heildarafli Íslendinga samkvæmt aflaskýrslum var 12.000 tunnur og þar af voru u.þ.b. 4.800 tunnur fengnar á opna báta en mestur hluti þess afla var fenginn í landnætur. Þó fékkst einnig dálítið í stauranætur. Ísfirðingar reyndu nú snurpunótaveiðar í fyrsta skipti en þeir sendu vöruflutningabátinn "Ásgeir" litla út með slíka nót með þolanlegum árangri. Síldveiðin fór hægt af stað og fékkst lítið fram eftir sumri. En í ágústbyrjun tók að lifna yfir veiðunum og mátti heita að mokveiði væri á Eyjafirði allt inn að Hörgárgrunni um alllangt skeið. Flest skip hættu veiðum snemma í september. Á þessu sumri hófst síldarverksmiðjurekstur á Íslandi og þar var heldur betur tekið til 122
hendinni því að ekki færri en fjórar verksmiðjur voru í gangi. Tormod Bakkevig á Siglufirði, sem hefur gert bræðslutilraunir síðustu tvö ár, byggði í ár litla verksmiðju með 150 - 200 mála afköstum á sólarhring. Þessi verksmiðja tók til starfa á miðju sumri. Þeir Evangersbræður, sem eiga síldarstöð austan fjarðar, byggðu þar verksmiðju sem er stærri og nýtískulegri. Verksmiðjan, sem afkastar 500 málum á sólarhring, komst í gagnið síðsumars, nokkru síðar en verksmiðja Bakkevigs. Þá voru starfræktar tvær verksmiðjur um borð í skipum sem lágu á Siglufjarðarhöfn. Danskt fyrirtæki, Arktisk fiskoliefabrik, var með litla verksmiðju um borð í skipinu "Alpha". Þá var á Siglufirði stórt verksmiðjuskip, "Eureka", sem er í eigu Norðmanna. Fyrirtæki þeirra nefnist Ægir h/f . Allur búnaður þessa skips er hinn fullkomnasti og eru afköst verksmiðjunnar talin u.þ.b. 1.200 mál á sólarhring. Loks hefur Hans Söbstad litla bræðslu eins og áður. Verksmiðjurnar áttu allar við nokkra byrjunarörðugleika að etja en engu að síður fylltust menn mikilli bjartsýni og eygðu hér möguleika á vinnslu þeirrar síldar sem ekki var hægt að salta af einhverjum ástæðum. Þar 123
sem veiðin í ágústmánuði var langt umfram afköst í landi var síldinni hrúgað á land í stóra hauga. Á haustdögum gat að líta slíka bingi á Siglufirði, Hjalteyri og Oddeyri. Þegar bræðsluskipin höfðu lokið sér af á Siglufirði fluttu þau sig um set og bræddu inni í Eyjafirði fram eftir vetri. Þessi bræðsla varð þó minni en ætlað var því að mikið af síldinni varð ónýtt og varð að fleygja í sjóinn. Nýjar reglur um síldarmat tóku gildi á árinu. Nú var öll síld metin upp úr skipi og úrskurðað hvort hún væri söltunarhæf eða ekki. Þessar matsreglur og rekstur verksmiðjanna gefa tilefni til bjartsýni hvað varðar gæði síldarinnar og má vænta þess að saltendur vandi verk sitt betur en verið hefur. Nokkuð er enn um landhelgisbrot og í þeim málum hitnar mönnum stundum í hamsi. Gufuskip Evangers, "Herlö", var tekið í landhelgi og þegar Guðmundur Guðlaugsson sýslumaður hafði kveðið upp dóm yfir skipstjóranum þar sem nótin var gerð upptæk kom til handalögmála milli Evangers og sýslumanns. Þeim lyktaði með því að sýslumaður dró upp skammbyssu að hætti kollega sinna í Vesturheimi og þá lét hinn skapmikli útgerðarmaður sefast. 124
Vigfús Einarsson var settur lögreglustjóri á Siglufirði í sumar og hafði í nógu að snúast. Hann tók fimm landhelgisbrjóta og stóð auk þess í ströngu við að halda uppi lögum og reglum í bænum. Á Siglufirði er geysilegur fjöldi aðkomumanna sumarlangt. Þegar norsku skipin liggja inni um helgar vill oft verða sukksamt í bænum. Talsvert hefur borið á leynivínsölu og drykkjulátum og birtust oft í blöðum ófagrar lýsingar á þessu ástandi og jafnframt kröfur um aukna löggæslu því að þótt sprungin vör og blátt auga sé ekki stórmál þá óttast margir að dregið geti til alvarlegri tíðinda. Aflaskýrslur 1911 M.Þ. Síldarsaga Íslands s.244 - 245 Norðri 10/6, 16/6, 30/6, 18/8, 9/9 1911 Norðurland 26/8, 2/9, 16/9, 30/9 1911 Vestri 12/8, 25/8, 2/9 1911 Vísir 3/5, 24/5, 8/9, 19/9, 13/10 1911
1912 Ekki verður annað sagt en að síldveiði hafi gengið vel í sumar. Veiðarnar byrjuðu 125
snemma miðað við það sem verið hefur síðustu ár og kom fyrsta síld að landi 13. júlí. Síðan var nokkurn veginn samfelld veiði fram undir ágústlok. Sömu þjóðir og áður tóku þátt í veiðunum og enn eru Norðmenn langfyrirferðarmestir. Íslendingar eru heldur að hressast í sókninni og munar þar mest um togarana en þeim fjölgaði mjög á síldarmiðunum í sumar. Aflaskýrslur nefna sex togara við síldveiðar en aðrar heimildir nefna átta. Afli "Íslendings" og "Vals" virðist ekki hafa náð að komast í skýrslurnar. Auk togaranna stunduðu 14 þilskip önnur veiðarnar. Mest var þátttakan frá Akureyri en þaðan komu átta skip. Samkvæmt aflaskýrslum fengu þessi skip 54.673 tunnur, þar af togarar liðlega helming. Talið er að heildaraflinn hafi verið u.þ.b. 300.000 tunnur. Á Siglufirði voru saltaðar u.þ.b. 90 þúsund tunnur og í Eyjafirði og á Raufarhöfn u.þ.b. 60 þúsund. En vaxtarbroddurinn er í bræðslunni. Nú kemur æ betur í ljós hvílíkt hagræði er að því að geta sett skemmda síld í bræðslu í stað þess að salta hana upp á von og óvon eða fleygja henni í sjóinn eins og gert hefur verið til þessa. Hið nýja síldarmat hefur einnig áhrif til aukinnar vöruvöndunar og matsmenn eru harðari en 126
áður þegar þeir meta ferskleika síldarinnar. Fjórar síldarbræðslur voru í gangi í sumar, tvær á Siglufirði og tvær í Eyjafirði. Á Siglufirði bræddu þeir Evanger og Bakkevig. Evanger bræddi um 30 þúsund tunnur en Bakkevig tæplega 20 þúsund. Auk þeirra var Hans Söbstad með einhverja bræðslu. Ægir h/f, sem hafði skip sitt,"Eureka", á Siglufirði í fyrra, hefur nú fært sig um set inn í Eyjafjörð. Í fyrra gengu vélarnar í "Eureku" langt fram eftir vetri því að eftir að bræðslu lauk á Siglufirði hélt skipið til Reykjarfjarðar og síðan til Eyjafjarðar til að bræða síld sem hafði verið landað á þessum stöðum um sumarið. Nú í sumar hafa þeir Ægismenn tekið lóð á leigu í Syðra-Krossanesi og byggt þar stóra bryggju sem "Eureka" var látin liggja við meðan brætt var í sumar. Önnur verksmiðja var byggð á Dagverðareyri. Hún nefnist Öfjordens Sildolje- og Guanofabrik og er í eigu Norðmanna. Verksmiðjustjóri og eigandi að hluta er er Hans Hansen sem á árum áður var leppur fyrir Herlofsen og Thv. Johnsen á Dvergasteinseyri vestra en hefur nú um langt skeið verið í Eyjafirði, fyrst í Krossanesi en um nokkurt skeið á Dagverðareyri. 127
Eyjafjarðarbræðslurnar fengu u.þ.b. 100 þúsund tunnur samanlagt í sumar. Yfirleitt má segja að áhugi manna á nýtingu hvers konar fiskúrgangs fari nú vaxandi. Anton Jónsson á Hjalteyri hefur komið sér upp lítilli síldarbræðslu og í haust voru til sölu hjá honum síldarkökur til fóðurbætis. Þá hefur Kristján Torfason á Flateyri byggt litla beinamjölsverksmiðju á Sólbakka í félagi við þýska togaraeigendur. Aðstaða til síldarfrystingar á Akureyri batnaði til muna á árinu þegar Snorri Jónsson byggði allstórt íshús og Otto Tulinius stækkaði sitt. Vigfús Einarsson var lögreglustjóri öðru sinni á Siglufirði í sumar. Íbúum staðarins fjölgar með hverju ári og æ fleiri koma þangað í atvinnuleit á hverju sumri. Þar er jafnan mikið af ungu og lífsglöðu fólki og því er glatt á Hjalla þegar menn líta upp úr hinu daglega amstri. Þegar bærinn fyllist svo af sjómönnum í landlegum verður stundum allslarksamt því að sumum verður laus höndin einkum ef Bakkus er með í för. Hér verða litlar breytingar á frá einu ári til annars og þeir atburðir, sem fyrir nokkrum árum voru tilefni forsíðufrétta, vekja nú ekki lengur athygli manna. Síldarbærinn er að fá á sig þá mynd sem mönnum finnst eðlileg og sjálfsögð, þá 128
mynd sem síldarbæir allra tíma hafa fengið í hugum fólks. Söltun: Norðmenn Íslendingar Svíar Þjóðverjar Danir
1912 69.061 35.738 13.666 11.342 9.873
1911 72.119 21.183 6.888 10.302 14.007
Alls:
139.680
124.499
Norðurland 5/10 1912 Aflaskýrslur 1912 K.S.H. Norske Islandsfiskere ...s. 100 - 117 Norðri 11/3, 19/4, 16/7, 2/8, 19/11, 31/12 1912 Norðurland 3/2, 1/6, 27/7, 14/9, 5/10 1912 Snorri Sigfússon: Ferðin frá Brekku I. s. 270 - 277 Vísir 1/1, 12/12 1912 Ægir 1912
1913 Síldarvertíð hófst að venju um miðjan júlí. Venjulega koma göngurnar úr vestri og oft byrja veiðarnar út af Horni og á Húnaflóa. 129
Veiðisvæðið færist síðan austur með landi. En nú í sumar brá svo við að fyrsta síldin veiddist austur á Þistilfirði. Fyrstu tvær vikurnar veiddist síldin einkum þar eystra og jafnvel austan við Langanes. Þar sem viðbúnaður til móttöku aflans var langmestur á Siglufirði og í Eyjafirði var sigling af miðunum of löng fyrir smá og hæggeng vélskip. Togararnir og stærri gufuskip, sem geta tekið upp nótabátana og verið fljót í förum, náðu hér verulegu forskoti. Í ágústbyrjun kom upp síld á Eyjafjarðarsvæðinu og var uppgripaafli um skeið. Heildarafli í ár varð heldur minni en í fyrra. Þátttaka Íslendinga í veiðunum fór vaxandi á árinu. Samkvæmt aflaskýrslum áttu þeir að vísu ekki nema 31 þilskip á veiðum en mikið munar um að í þessum flota voru tíu togarar sem fengu u.þ.b. 65 % íslenska aflans. Togurum Íslendinga fjölgar ört þessi árin og nú hafa Akureyringar keypt sér togara, "Helga magra". Eigendur hans eru Ásgeir Pétursson og Stefán Jónasson sem er skipstjóri á honum. Togaraútgerðarmenn í Reykjavík eru nú byrjaðir að koma sér upp söltunaraðstöðu nyrðra. Kveldúlfsmenn tóku lóð á leigu á Hjalteyri og Elías Stefánsson hefur komið sér upp aðstöðu á Oddeyri. Aðstaðan í landi hefur 130
batnað töluvert frá því í fyrra. Svokallaðar hábryggjur hafa verið byggðar við verksmiðjurnar til að auðvelda löndun í þrær sem hafa verið byggðar. Ægir h/f í Krossanesi hefur byggt stóra verksmiðju í landi. Hún er að hluta til búin nýjum tækjum en að hluta til eru notaðar vélar úr "Eureku". Afköst verksmiðjunnar eru 2.000 mál á sólarhring. Ein verksmiðja var byggð á Siglufirði í eigu danskra aðila, hinna sömu og áður höfðu verksmiðju um borð í skipinu "Alpha". Framkvæmdastjóri er Sören Goos og er verksmiðjan jafnan við hann kennd. Verksmiðjurnar fengu minna af síld til vinnslu nú en í fyrra, Krossanesverksmiðjan mest, u.þ.b. 50 þúsund tunnur. Bræðsla stóð yfir til októberloka. Síðustu dagana þótti Akureyringum eimur frá Krossanesi illþefjandi og kvörtuðu sáran í blöðum. Seint í október brann Dagverðareyrarverksmiðjan til kaldra kola. Ekkert varð við eldinn ráðið en menn gátu bjargað lýsistunnum, sem stóðu á bryggjunni, með því að velta þeim í sjóinn. Aðstaða til söltunar hefur einnig verið bætt víða. Bryggjur hafa verið endurbættar, blússluktir settar upp við síldarkassana o.fl. Á Siglufirði var lögð ný vatnsleiðsla í fyrra og rafvæðing er í undirbúningi. Þar var einnig 131
byggð fangageymsla í fyrra og kemur hún að góðum notum þegar ribbaldar og friðspillar hafa sig mest í frammi. Landhelgisbrotum hefur farið fækkandi síðustu árin en þó fór svo í sumar að þrjú af skipum Falcks í Stafangri, "Albatros", "Alken" og "Assistent", voru tekin og skipstjórar þeirra sektaðir. Annars tekur landhelgisumræðan nú á sig nýja mynd meðal Íslendinga. Sjávarbændum og landnótamönnum þykir að sér þrengt þegar snurpunótaskip eru að veiðum innfjarða. Þess vegna samþykktu heimamenn við Skagafjörð og Eyjafjörð bann við þessum innfjarðaveiðum, Æ fleiri taka nú upp snurpunótaveiði og hætta við reknetin, a.m.k. yfir hásumarið. Minnstu bátarnir eru þá tveir saman um nót, svokallaðir tvílembingar. Þá er það nýjung að "Helgi magri" hélt til reknetaveiða við Noreg í haust. Er mannsbragur að slíku og má vera að við gjöldum Norðmönnum rauðan belg fyrir gráan með veiðum við Noregsstrendur. Svíar efla nú mjög sókn sína á Íslandsmið og keyptu síldarstöðina í Jötunheimum á árinu. 18/10 var söltun talin sem hér segir: Norðmenn 106.171 tunna Íslendingar 56.243 132
Svíar Þjóðverjar Danir
17.144 10.992 7.540
Aflaskýrslur 1913 Afsals- og veðmálabækur Eyjafjarðarsýslu Heimir Þorleifsson: Saga íslenskrar togaraútgerðar ... s. 94 - 95 og 107 Norðri 29/3, 18/7, 26/7, 9/8, 25/8, 25/9, 16/10, 1/11 1913 Norðurland 29/3, 16/8, 23/8, 20/9, 18/10, 25/10, 1913 Ægir 1913
1914 Á þessu ári voru síldveiðarnar með öðrum brag en verið hefur undanfarin ár. Á útmánuðum var selt til fóðurbætis á Norðurlandi nokkuð af síld frá fyrra ári sem ekki reyndist hæf til útflutnings. Í marsmánuði hófst svo smásíldarveiði upp um ís á Akureyrarpolli. Sumarsíldveiðarnar hófust að venju snemma í júlí og um 10. júlí var bræðsla komin í fullan gang í Krossanesi. Vertíðin stóð fram í miðjan september en þá hættu flest skip veiðum. Þátttaka í veiðunum var allmikil og er talið að 133
alls hafi verið saltað í 273.288 tunnur á Íslandi. Af þessum afla áttu Norðmenn tæplega 150 þúsund, Íslendingar 72 þúsund, Danir 25 þúsund, Svíar 26 þúsund og Þjóðverjar um tvö þúsund tunnur. Afli Færeyingsins Evensens, sem saltar á Oddeyri, er líklega talinn danskur afli. Evrópustyrjöldin, sem braust út á miðju sumri, setti mark sitt á síldveiðarnar þótt ærin fjarlægð virðist vera frá síldarmiðunum fyrir Norðurlandi til vígvallanna á meginlandi Evrópu. Þannig hurfu Þjóðverjarnir, sem hafa haft aðstöðu á Hjalteyri, skyndilega á braut í ágúst. Þeir hafa líklega óttast um hag sinn hér langt inni á því svæði sem hlýtur að lúta yfirráðum Breta ef styrjöldin dregst á langinn. Styrjöldin hafði einnig þau áhrif að mun færri togarar fóru nú á síld en í fyrra. Margir þeirra, sem ella hefðu stundað síldveiðar, fiskuðu nú í ís fyrir Bretlandsmarkað þar sem fiskverð þar var hátt og stöðugt. Engu að síður héldu sunnlensk togarafélög áfram að hasla sér völl nyrðra. Þannig hafa Kveldúlfur og Th. Thorsteinsson komið sér upp aðstöðu á Hjalteyri og Alliance h/f á Svalbarðseyri. Afli hinna fáu togara (6 eða 7) var góður og fengu þeir ríflega helming íslensks afla en auk þeirra stunduðu 18 þilskip veiðarnar. Að togurum 134
frátöldum, sem flestir komu að sunnan, var þátttaka íslenskra skipa mest frá Akureyri en þaðan komu átta skip. Ísfirðingar sendu vélbátinn "Freyju" til veiða á heimamiðum með ágætum árangri. Vélbáturinn "Nora" gekk til síldveiða í Faxaflóa og fékk 1.600 tunnur. Mesta söltun norðanlands var á snærum O. Tuliniusar og Ásgeirs Péturssonar en 19. september höfðu þeir flutt út 19 þúsund tunnur í félagi. Á þessu ári var gerð tilraun með útflutning á saltsíld til Bandaríkjanna en þar býr margt manna sem upprunnir eru á gömlu markaðssvæðunum við Eystrasalt. Norska vöruflutningaskipið "Hermod" fór því með 3.400 tunnur vestur um haf. Þessi síld var eign þriggja sunnlenskra togarafélaga. Ágætlega gekk að selja síldina vestra þótt betur hefði mátt gera ef síldin hefði verið verkuð sérstaklega fyrir þennan markað. Tvílembingaútgerð gekk vel á árinu og fengu tveir litlir þilfarsbátar, sem notuðu eina snurpunót saman, yfir 3.000 tunnur. Þau undur gerðust seint í júnímánuði að sílum rigndi af himnum ofan undir Eyjafjöllum. Alls fundu menn 40 stykki. Ekki er vitað hvort hér var um að ræða smásíld, loðnu eða einhverja enn aðra tegund. 135
Aflaskýrslur 1914 H.Þ. Saga íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917 Ísafold 1/7, 23/9, 21/10 1914 og 13/1 1915 Júlíus Jóhannesson: Svalbarðsstrandarbók s. 59 Norðri 17/3, 1/4, 11/7, 25/7, 1/8, 22/8, 5/9, 15/9 1914 Vestri 11/7, 31/7, 9/8, 15/8 1914 Ægir 1914 og 1915
1915 Evrópustyrjöldin setti mikinn svip á síldveiðarnar í sumar. Hennar vegna hefur verðlag á öllum aðföngum stórhækkað í verði en síldarverðið hefur hækkað enn meira. Þá virðist síldarmarkaðurinn vera nánast takmarkalaus enda hefur styrjöldin stöðvað veiðar í Norðursjó og þjóðir við Eystrasalt óttast mjög feitmetisskort. Norskir og íslenskir síldveiðimenn komust svo í beina snertingu við stríðið þegar breski sjóherinn tók að hindra eða tefja siglingar við Ísland og milli Íslands og Noregs. Framan af vertíðinni leit heldur illa út með veiði vegna þess að óvenjumikill hafís var á miðunum. En síðustu dagana í júlí hvarf ísinn á örskömmum tíma og hófst þá þegar 136
prýðisgóð veiði sem stóð allt fram í miðjan september. Að þessu sinni hélt síldin sig einkum úti fyrir vestanverðu Norðurlandi, út af Skaga og vestur undir Geirólfsgnúpi sem sumir kalla Geirhólm. Á austursvæðinu var miklu minna um síld nema á Þistilfirði, þar fékkst talsverður afli. Skipin, sem stunduðu veiðarnar, voru fleiri en áður hefur þekkst. Íslendingar áttu 18 togara, 8 önnur gufuskip, 11 mótorskip og nokkur seglskip sem veiddu í reknet. Norðmenn sendu hingað mikinn flota, alls um 250 skip skv. norskum heimildum en íslenskar heimildir telja norsku skipin 180. Sennilega eru norsku tölurnar réttari því að fjöldi norskra smáskipa, sem áður sótti í Norðursjóinn, var nú á reknetum við Ísland og söltuðu áhafnirnar aflann um borð. Þá voru á miðunum sex sænsk skip og nokkur dönsk. Allur afli, sem á land kom , er talinn vera rúmlega 500 þúsund tunnur. Þar af fóru u.þ.b. 150 þúsund tunnur í bræðslu en heildarsöltun til útflutnings er talin vera u.þ.b. 373 þúsund tunnur. Talsverð síld gekk inn á Austfirði í sumar og var hún veidd í lagnet, landnætur og stauranætur eða botnnet. Tvö skip stunduðu reknetaveiðar í Faxaflóa og fengu alls 3.600 137
tunnur, auk þess sem nokkur síld veiddist á Sundunum við Reykjavík. Nokkrir bátar reyndu nú snurpunótaveiðar í Ísafjarðardjúpi með ágætum árangri. Tvær söltunarstöðvar á Ísafirði sáu um söltun á afla þessara báta. O.G. Syre rekur aðra þeirra en Magnús Magnússon hina. Menn hafa fullan hug á að efla síldveiðar vestra og á árinu urðu talsverð blaðaskrif um heppilegustu miðstöð þessara veiða. Sumir mæla með Flateyri, aðrir Ísafirði, enn aðrir Hesteyri og loks hallast sumir að því að Hornvík sé best. Togarinn "Maí" aflaði best íslenskra skipa, 8.800 tunnur, næstur var "Ingólfur Arnarson" með 6.700 tunnur. Heildaraflinn skiptist sem hér segir milli löndunarstaða: Eyjafjörður og Siglufjörður 515.000 tunnur Raufarhöfn 8.000 Seyðisfjörður 1.900 Reyðarfjörður og Fáskrúðsfj. 6.250 Ísafjörður 9.250 Faxaflói 3.600 Lagnet 500 Áður var nefnt að u.þ.b. 150 þúsund tunnur af þessum afla fóru í verksmiðjurnar, 80 þúsund í Krossanes og 70 þúsund í verksmiðjurnar á Siglufirði. 138
Norskar heimildir greina að heildarsöltun á Íslandi árið 1915 hafi numið 368.652 tunnum. Þar af áttu Norðmenn 216.956, Íslendingar 119.358, Danir 8.100 og Svíar 24.238. Útflutningur saltsíldar á árinu nam alls 383.104 tunnum en árið 1914 var hann 277 þús. og 1913 217 þúsund tunnur. Aflaskýrslur Ísafold 22/9, 25/9, 29/9, 23/10, 4/12 1915 og 2/2 1916 Íslendingur 30/7, 10/9, 1915 K.S.H. Norske Islandsfiskere... s. 119 - 122 Norðri 7/8, 18/9, 9/12 1915 Vestri 2/8, 16/8, 14/9, 20/9, 27/9, 1915 Ægir 1915 og 1916
1916 Síldveiðarnar voru stundaðar af fyllsta kappi í sumar þótt margt gengi öndvert og að þeim væri kreppt á ýmsa vegu. Íslendingar tóku nú meiri þátt í veiðunum en áður og er talið að 86 íslensk skip hafi lagt stund á veiðarnar. Veiðar og vinnsla voru þó miklum takmörkunum háð þar sem Bretar kreppa sífellt fastar að hvað 139
varðar aðdrætti og útflutning og jafnvel strandferðir við landið. Aðalræðismaður Breta, mr. Cable, hefur vökult auga á öllu sem hér gerist og gerir jafnan ráðstafanir til að tryggja hagsmuni húsbænda sinna í hvívetna. Hann kom til Siglufjarðar í fyrra og fylgdist með síldarvinnslunni þar. Vegna ótta Breta við viðskipti Íslendinga og miðveldanna var svo gerður samningur í vor milli Breta og Íslendinga um viðskipti landanna. Í samningnum eru ákvæði sem snerta síldveiðarnar illa. Í fyrsta lagi eru þar ákvæði um að skip, sem sigla milli Íslands og Evrópu verða að koma við í breskri höfn. Þetta veldur oft töfum og ómældu tjóni þegar síldveiðifólk bíður óþreyjufullt á Íslandi eftir tunnum og salti og veiðarnar stöðvast af þessum sökum. Í öðru lagi er í samningnum skrá um vörur sem bannað er að flytja úr landi án samþykkis Breta. Í þeirri skrá eru m.a. allar síldarafurðir. Á móti þessu kemur svo að breska ríkisstjórnin skuldbindur sig til að kaupa þær vörur sem ekki er unnt að losna við á annan hátt. Bretar höfðu ekki síðra kverkatak á Norðmönnum en Íslendingum og gerðu við þá hliðstæða samninga en bresk yfirvöld hafa 140
sífellt í hótunum með að neita að selja þeim kol olíu, salt og efni í veiðarfæri. Sumir Norðmenn brugðu því á það ráð að kaupa skip í Ameríku, fermdu þau með aðföngum og sendu þau rakleitt til Íslands. Sókn Norðmanna var nokkru minni nú en í fyrra eða 145 skip, þar af 75 gufuskip. Gæfu þeirra var mjög misskipt og sumir þeirra voru næsta óheppnir í viðskiptum við Bretana. Falck í Stafangri átti t.d. fjögur skip á veiðum við Ísland en Bretar tóku eitt þeirra, "Assistent", við Langanes og færðu til Bretlands þar sem það tafðist meiri hluta vertíðar. "Flora" frá Bergenska gufuskipafélaginu flutti verkafólk Falcks frá Hafnarfirði og Reykjavík til stöðva hans fyrir norðan en hún var einnig tekin við Langanes og fólkið varð að dúsa í Bretlandi vikum saman. Það var því að vonum að útgerð Falcks væri rekin með bullandi tapi og um áramót seldi hann öll skipin fjögur. En öðrum gekk allt í haginn, Hans Langva frá Álasundi fór vestur á Strandir, byggði söltunarstöð á Valleyri í Ingólfsfirði og saltaði þar 15 þúsund tunnur. Hann lék á Bretana, flutti síldina heim eftir krókaleiðum og seldi svo síldina til Þýskalands. 141
Síldarvertíðin gekk vel þegar tunnuskortur háði ekki og var afli jafn og góður. Veiðisvæðið náði allt frá Langanesi og vestur fyrir Horn. Aukin síldarsöltun á Vestfjörðum og Ströndum setti mestan svip á vertíðina. Síld var nú söltuð í auknum mæli á Ísafirði en þar voru fjórar söltunarstöðvar. Einnig voru söltunarstöðvar á Langeyri og Dvergasteinseyri í Álftafirði og á Hesteyri voru Norðmenn með söltun. Þá hösluðu Norðmenn sér völl í Ingólfsfirði og höfðu þar töluverð umsvif. Heildarsöltun á Íslandi nam tæplega 400 þúsund tunnum. Íslendingar söltuðu nú í fyrsta skipti meira en Norðmenn eða 202 þúsund tunnur, Norðmenn 153 þúsund, Svíar 32 þúsund og Danir 13 þúsund. Mest var flutt út af Eyjafjarðarsvæðinu á árinu eða 253 þúsund tunnur, úr Ísafjarðarsýslu 28.500 og úr Þingeyjarsýslum 25 þúsund tunnur. Nokkuð af síldinni var flutt til Svíþjóðar en verulegur hluti síldarinnar var nú fluttur til Bretlands í samræmi við samninginn sem áður var nefndur en auk þess liggur hér enn mikið af síld því að Bretarnir eru í hálfgerðum vandræðum með hana. Rekstur verksmiðjanna gekk illa á árinu vegna kolaskorts. 142
Aflaskýrslur Jónas Sveinsson: Lífið er dásamlegt, s. 19 K.S.H. Norske Islandsfiskere ... s. 122 - 127 Njörður 2/7, 1916 og 30/1, 1917 Sólrún B. Jensdóttir: Ísland á brezku valdsvæði 1914 1918, s. 38 - 50 og 102 - 110 Vestri 10/6, 24/8 1916 Ægir 1916 og 1917
1917 Í vor hugðu Íslendingar gott til glóðarinnar hvað síldveiðar varðar, 89 skip héldu til veiða og mikill viðbúnaður var í landi. Uppbyggingin var, eins og áður, mest við Ísafjarðardjúp og á Ströndum. Á Ísafirði voru byggð ný plön og hin eldri voru stækkuð og í Álftafirði hefur H.P. Duus tekið lóð á leigu á Hattareyri með síldarsöltun í huga. Aðstaða í Ingólfsfirði var aukin og í Reykjarfirði stendur hugur manna einnig til síldarsöltunar. Við upphaf vertíðar voru menn allvel settir hvað snerti tómtunnur því að talsvert barst af þeim í fyrra eftir að síldarsöltun lauk. En tunnuleysið í fyrra sat í mönnum og þess vegna keyptu þeir nú ótæpilega inn af þessari vöru en tunnurnar eru nú óskaplega dýrar 143
vegna óheyrilegra farmgjalda. Tunnusmíði hófst því á þessu ári. Trésmiðjan Víkingur á Ísafirði fékk vélar til þessarar framleiðslu á vordögum. Norðmenn höfðu fullan hug á því að halda á Íslandsmið að venju en nú var loks svo komið að þeim voru nánast allar bjargir bannaðar. Annars vegar var krafa Breta um viðkomu þeirra í breskri höfn, sem tafði þá, og var kostnaðarsöm að auki. Hins vegar þjakaði þá yfirlýsing Þjóðverja um ótakmarkaðan kafbátahernað. Þessi yfirlýsing Þjóðverjanna leiddi til gífurlegrar hækkunar tryggingagjalda. Þessar aðstæður drógu allan kjark úr Norðmönnum og aðeins er vitað um þrjú skip frá Álasundi sem fóru á Íslandsmið um sumarið. Þau voru gerð út frá nýrri söltunarstöð sem byggð var á Eyri í Ingólfsfirði og fengu 12.900 tunnur yfir sumarið. Veiðar Íslendinga gengu vægast sagt illa, heildarafli íslensku skipanna var milli 80 og 90 þúsund tunnur, heildarsöltun var aðeins 62 þúsund tunnur. Verksmiðjurnar voru ekki settar í gang í sumar, þær höfðu hvorki kol til brennslu né hráefni til vinnslu. Verksmiðja Goos á Siglufirði bræddi þó örlítið á sumrinu. 144
Hagur síldarútvegsmanna er því ekki burðugur og enginn þeirra varð hökufeitur af söltuninni í sumar. Þó að síldarverðið sé allgott þá hefur allur tilkostnaður hækkað svo mikið að miklu meiri söltun þarf til að standa undir honum. Til viðbótar dýrum fjárfestingum síðustu ára bætast nú vænar fúlgur við vegna birgðahalds en tunnubirgðir í landinu eru nú langt umfram það sem áður hefur þekkst. Allt eru þetta þó smámunir borið saman við hag verkafólksins sem beðið hefur síldarinnar sumarlangt. Margar söltunarstúlkur, sem væntu sér góðra tekna og rýmilegri fjárhags, áttu ekki fyrir farinu heim að hausti. Á Siglufirði, þar sem allt er stærst í sniðum og atvinnulífið háðast síldaraflanum, þar eru vonbrigðin sárust og neyðin mest. Alls voru fluttar tæplega 90 þúsund tunnur út á árinu, 10 þúsund úr Þingeyjarsýslum og tvö þúsund úr Ísafjarðarsýslum. Aflaskýrslur Fram 1917 Ísafold 21/7, 11/8, 1/9, 15/9 1917 K.S.H. Norske Islandsfiskere... Njörður 2/2 1917 Vestri 25/5, 7/7 1917 Ægir 1917 og 1918 145
1918 Síldarvertíðin í ár reyndi enn frekar en síðasta vertíð á þolrifin á síldarfólki. Bretar gerðu nú nýjan viðskiptasamning við Íslendinga og hafi hinn eldri þótt Íslendingum öndverður þá var þessi sannarlega ekki betri. Annars hafa Bretar staðið slælega við fyrri samning hvað síldina snertir. Þeir hafa að vísu keypt síld samkvæmt samningnum en talsverður hluti eldri síldar liggur enn á söltunarstöðunum íbúm til ama vegna óþrifnaðar og þess dauns sem af henni leggur. Nýi samningurinn er frábrugðinn þeim eldri að því leyti að nú er heimilt að flytja 50 þúsund tunnur af síld til Svíþjóðar með því skilyrði að landsstjórnin annist útflutninginn. Þá er það nýmæli miðað við fyrri samning að kaupskylda Breta á umframframleiðslu er felld niður en forkaupsréttur kemur í hennar stað. Forkaupsrétturinn gagnast Íslendingum harla lítið þar sem aðeins má flytja út þessar 50 þúsund tunnur og Bretar eru þegar í vandræðum vegna fyrri síldarkaupa. Til að forðast vandræði stofnuðu síldarútvegsmenn með sér félag og óskuðu í nafni þess eftir því að landsstjórnin tryggði 146
þeim sölu á ákveðnu magni síldar. Þetta er, að því að best er vitað, fyrsti félagsskapur síldarútvegsmanna og jafnframt í fyrsta skipti sem þeir leita forsjár ríkisvaldsins til að tryggja stöðu sína í markaðsmálum. Norðmenn sendu sömu skip og áður til Ingólfsfjarðar og bættu reyndar nokkrum við. Heildarafli þeirra var 21.300 tunnur. Sókn Íslendinga var miklu minni en áður og munar þar mest um togarana en helmingur togaraflotans var seldur úr landi síðla árs 1917. Sókn annarra skipa minnkaði líka nema helst smábáta frá Norðurlandi en þátttaka þeirra fer vaxandi ár frá ári. Veiðin gekk hörmulega og útflutningstakmarkanirnar komu reyndar ekki að sök. Alls voru fluttar út rúmlega 13 þúsund tunnur á árinu en í árslok var annað eins sem beið útflutnings á Vestfjörðum. Þá hefur það aukist mjög að bændur hafi keypt síld sem fóðurbæti og urðu á árinu nokkur blaðaskrif um verslunarhætti þeirra manna sem versluðu með fóðursíldina. Í upphafi vertíðar var talið að um 300 þúsund tómtunnur væru til í landinu. Lítið gekk því á þær birgðir. Síldarverksmiðjurnar voru ekki starfræktar á árinu vegna kola- og hráefnisleysis. 147
Aflaskýrslur Fram 3/8 1918 Heimir Þorleifsson: Saga íslenzkrar togaraútgerðar ... s. 173 - 186 Ísafold 29/6, 26/10 1918 K.S.H. Norske Islandsfiskere... s. 128 Sólrún B. Jensdóttir: Ísland á brezku valdsvæði ... s. 111 - 125 Ægir 1918 og 1919
1919 Stundum er því haldið fram að síldin sé duttlungafull og að þeir sem við hana fást séu að spila í happdrætti. Árið 1919 skaut stoðum undir þessa kenningu öðrum árum fremur. Sumum hampaði gæfan en aðrir urðu fyrir stóráföllum og enn öðrum voru búin fjárhagsleg skapadægur eftir sumarið. Í rauninni hófust áföllin fyrir síldarvertíð. Fyrri hluta aprílmánaðar snjóaði mjög á Siglufirði og 12. apríl féll gríðarlega stórt snjóflóð úr Staðarhólsfjalli. Flóðið olli gífurlegu eignatjóni auk manntjóns sem þarna varð. Það sópaði Evangersverksmiðjunni í sjó fram og gereyðilagði hana. Flóðbylgja, sem 148
fóðið kom af stað, féll vestur yfir fjörðinn og braut báta og bryggjur á Eyrinni. Hremmingum Siglfirðinga var þó ekki lokið því að 6. júlí brann verksmiðja Söbstads til kaldra kola. Söbstad hafði auk bræðslunnar komið sér upp tunnuverksmiðju og brann hún einnig, svo og íbúðarhús o.fl. Tormod Bakkevig lést 17. apríl í vor en sonur hans tók við rekstrinum. Það var þó aðeins að hluta því að hann kaus að setja bræðsluna ekki í gang aftur. Goosverksmiðjan var því eina verksmiðjan á Siglufirði sem var í gangi í sumar. Í sumar voru menn ekki lengur háðir hinum miklu takmörkunum sem stríðið hefur búið mönnum undanfarin ár. Margir hugðu því gott til glóðarinnar í veiðum og verkun. Viðbúnaður var að venju mestur á Siglufirði. Þar var nú hafist handa á ný við byggingu svokallaðs "Anleggs", söltunarstöðvar á leirunum fyrir botni fjarðarins. Framkvæmdir hófust 1916 en hafa legið niðri þar til nú. Anleggið er e.k. eyja eða hólmi án tengsla við land. Annars er vaxtarbroddurinn í söltuninni á Ströndum og í Ísafjarðardjúpi. Elías Stefánsson er með mikla söltun í Reykjarfirði, Th. Thorsteinsson hefur flutt sig frá Hjalteyri til Ingólfsfjarðar og þar hafa fleiri stöðvar risið 149
af grunni. Í Álftafirði fjölgar enn stöðvum en þar byggði H.P. Duus stöð á Hattareyri. Á vordögum var lagður á sérstakur tunnutollur. Hann olli því að innfluttar tunnur hækkuðu í verði og gengu menn því harðar fram í því að nota tunnubirgðir sem fyrir voru í landinu en ella hefði orðið. Sumar þessara tunna höfðu verið geymdar allt frá 1916. Þá hafði hin mikla sala á fóðursíld síðustu árin það í för með sér að víða um land var til allmikið af notuðum tunnum sem saltað var í í sumar. Það var önnur afleiðing þessa tunnutolls að Norðmenn veigruðu sér við að koma í íslenskar hafnir en reyndu margir hverjir að veiða utan landhelgi og salta um borð. Síldveiðarnar voru stundaðar á venjulegum tíma, frá miðjum júlí fram í miðjan september. Aðalveiðisvæðið var vestur við Horn, við Strandir og jafnvel suður með Vestfjörðum. Meginþungi í söltun var því á stöðvunum vestan Horns og á Ströndum og má gera ráð fyrir að a.m.k. þriðjungur söltunar hafi farið fram á Ísafirði og í Ísafjarðarsýslu. Einnig var mikið saltað á Siglufirði og í Eyjafirði en þangað var sigling í lengra lagi og aðeins á færi hinna hraðskreiðari skipa. Þá var það nýlunda að nokkur skip stunduðu veiðar í 150
Faxaflóa og lögðu upp í Reykjavík og lítils háttar á Hellissandi. Rúmlega 5 þúsund tunnur voru fluttar út frá Reykjavík á árinu en vera má að eitthvað af þessari síld hafi verið saltað annars staðar. Veiðar gengu mjög illa fyrir Norðausturlandi, t.d. fengu þrjú skip Chr. Biellands, sem hefur keypt allar eignir Norðmanna á Raufarhöfn, aðeins 750 tunnur samtals. Síldin var yfirleitt full rauðátu og gekk síldarstúlkum illa að verja hendur sínar átumeinum. Stundum kvað svo rammt að að þessu að söltun lagðist af á sumum stöðvum þar sem allar stúlkur voru óvígar vegna þessara meina. Norðmenn sendu 123 skip til síldveiða við Ísland. Afli þeirra var tæplega 68 þúsund tunnur auk þess sem þeir seldu á Íslandi. Heildarafli íslenskra skipa, sem voru 103, var rúmlega 142 þúsund tunnur. Sennilega hefur heildarsöltun á Íslandi verið u.þ.b. 200 þúsund tunnur. Saltsíldarverð var hátt um haustið, 75 - 90 aurar hvert kg, og þess voru dæmi að það væri enn hærra. Nokkrir saltendur, einkum hinir stærstu, héldu að sér höndum og bundust óformlegum samtökum um að ná hærra verði. Sænskir síldarkaupmenn virðast hafa beitt 151
hliðstæðum aðferðum í gagnstæðum tilgangi. Svo fór í októbermánuði að verðfall varð á íslensku síldinni og varð hún að lokum óseljanleg. Þannig urðu um 25 þúsund tunnur ónýtar erlendis og a.m.k. annað eins varð verðlítið hér heima og var sú síld ýmist seld í fóðurbæti eða sett í bræðslu. Eigendur þessarar síldar urðu því fyrir gífurlegum fjárhagslegum skakkaföllum. Ástæður þessara ófara voru af margvíslegum toga. Í fyrsta lagi má nefna stífni síldarseljenda sem áður var getið. Í öðru lagi voru íslenskir saltendur ekki viðbúnir því að mikið af ódýrri hollenskri síld streymdi inn á markaðinn og sömu sögu var að segja eftir áramót þegar norska vorsíldin var sett á markað. Í þriðja lagi var mikið af íslensku síldinni gölluð vara sem ekki þýddi að reyna að selja þar sem eitthvað skárra var í boði. Þessir gallar urðu meira áberandi þegar búið var að selja það skásta og aðeins ruslið var eftir. Gallarnir voru margvíslegir en mest áberandi voru geymsluskemmdir. Mikið af síldinni var saltað í gamlar og lélegar tunnur sem héldu illa pækli og þegar það bættist við að sumarið var óvenju hlýtt og sólríkt á flestum söltunarstöðum var ekki von að vel færi. Auk þess var síldin með óvenjulega mikilli átu og þar sem saltað var á 152
fjölda nýrra söltunarstöðva komu fram nokkrir söltunargallar. Loks má nefna að lengst af var alllöng sigling af miðunum til söltunarstöðva á Norðurlandi og bræðslur fáar. Þess vegna var stundum teflt á tæpasta vað varðandi ferskleika síldarinnar þegar hún var söltuð. Því fór sem fór. Aflaskýrslur Fram 29/5, 9/8, 13/9 1919 Ísafold 19/4, 23/7, 28/7, 4/8, 8/9, 6/10 1919, 2/2, 16/2, 23/2, 10/5 1920 K.S.H. Norske Islandsfiskere ... 128 - 135 M.Þ. Síldarsaga Íslands s. 262 Snorri Sigfússon: Ferðin frá Brekku II, s. 173 - 194 Útflutningsskýrslur Ægir 1919 og 1920
1920 Þrátt fyrir ófarir liðins árs hvað varðar síldarsölu héldu menn ótrauðir áfram í ár. Sumir hafa gefist upp, aðrir hafa rifað seglin en allur þorri útgerðarmanna og saltenda heldur áfram. Síldin hélt sig, eins og undanfarin ár, út af Norðvesturlandi en færðist austur á bóginn 153
þegar leið á sumarið og í ágúst var mjög góð veiði út af Siglufirði. Söltunin varð því langmest þar meðan aðföng entust. Þar var gífurleg fólksekla og boðið í hvern mann þegar mest gekk á í söltuninni og þess voru dæmi að greiddar væru þrjár krónur fyrir að kverka og salta eina tunnu. Alls voru fluttar út frá Siglufirði 104 þúsund tunnur. Goosverksmiðjan, sem var eina verksmiðjan á Siglufirði í fyrra, var ekki starfrækt í ár. Nú var aftur á móti ný verksmiðja tekin í gagnið. Hinar sameinuðu Íslandsverslanir byggðu þessa verksmiðju og vegna uppruna fyrirtækisins er verksmiðjan nefnd Grána af almenningi. Í Eyjafirði voru saltaðar 40 þúsund tunnur, 24 þúsund í Ísafjarðarsýslu og 13 þúsund á Ströndum. Engin síld var söltuð austan Eyjafjarðar en einhver síld hefur verið á austursvæðinu því að gufuskipið "Thorgrim" frá Álasundi kastaði á stóra torfu austan Langaness í fyrstu viku september. Þátttaka Norðmanna í síldveiðum við Ísland var minni í sumar en oft áður. Þeim gekk illa að útvega kol handa gufuskipunum og þurftu mörg þeirra að byrja vertíðina á því að fara til Bretlands eftir kolum. Flest norsku skipanna voru á veiðum utan landhelgi og var mestur 154
hluti aflans saltaður um borð en sum skipin lönduðu í bræðslu á Íslandi. Alls voru 49 norsk skip á veiðum hér við land og komu heim með 40 þúsund tunnur en talið er að þau hafi selt 85 þúsund mál á Íslandi. Þátttaka Íslendinga var allmiklu minni en í fyrra eða u.þ.b. 70 skip auk fjölda smærri báta sem ekki er getið um í aflaskýrslum. Síldarverð var í fyrstu ágætt en lækkaði síðan mjög þegar markaðurinn mettaðist. Mikið af síldinni var gölluð vara sem seldist illa eða ekki. Gallarnir voru svipaðir og í fyrra en sérstaklega bar mikið á lekum og lélegum tunnum. Nú er talið að allar þessar gömlu tunnur séu loksins búnar svo að væntanlega er bjartara framundan í þessum efnum. Meðalsöluverð síldarinnar lækkaði um þriðjung miðað við síðasta ár. Saltendum er nú að verða ljóst að þeir verða að koma einhverju skipulagi á söltun og sölu síldarinnar. Skoðanir manna eru skiptar um það hvort stofna eigi einhvers konar einkasölu á vegum hins opinbera eða frjáls félagasamtök sem annist þessi mál. Reynt hefur verið áður að stofna slíkt félag án þess að árangur næðist en þrátt fyrir það gerðu menn aðra tilraun í haust. Félagið heitir Íslenska síldarsamlagið og er byggt að mestu á sömu félagslögum og 155
eldra félagið hafði. Í stjórn hins nýja félags eru Richard Thors, Pétur A. Ólafsson, August Flygenring og Ásgeir Pétursson. Á árinu létust tveir mikilvirkir síldarútvegsmenn. Færeyingurinn Evensen, sem hefur undanfarin ár gert enska togara út á síld og saltað á Oddeyri, lést í haust og í desember lést Elías Stefánsson sem hefur átt nokkur stór skip við síldveiðar og byggt upp stóra síldarstöð í Djúpavík. Aflaskýrslur Fram 1920 Ísafold 9/8, 2/9, 4/10, 8/11, 15/11, 13/12, 27/12 1920 Íslendingur 1920 K.S.H. Norske Islandsfiskere ... s. 133 - 136 Ægir 1920 og 1921
1921 Áhugi manna á síldarútvegi hefur minnkað við áföll síðustu ára. Útlitið var ekki gott því að við upphaf síldarvertíðar lágu enn 30 þúsund tunnur óseldar erlendis. Þátttaka í veiðunum var því minni en verið hefur undanfarin ár og söltunarstöðvar voru miklu 156
færri nú en í fyrra. Þannig hefur söltun nánast lagst af í Ísafjarðarsýslu og á Ströndum var aðeins starfrækt ein söltunarstöð í Ingólfsfirði. Sömu sögu er að segja frá Akureyri, þaðan var aðeins gert út eitt skip. Önnur Akureyrarskip lögðu ýmist upp afla út með Eyjafirði eða á Siglufirði. Aftur á móti er söltun byrjuð á Raufarhöfn á nýjan leik. Gustav Evanger keypti eignir Biellands þar á staðnum og hóf söltun og reyndar einnig bræðslu í smáum stíl. Norðmenn og Svíar héldu uppteknum hætti með veiðar á hafi úti og söltun um borð. Norsku skipin fengu 83 þúsund tunnur auk þess sem eitthvað af afla þeirra var selt á Íslandi, einkum í bræðslu. Síldarvertíðin fór hægt af stað, allan júlímánuð voru brælur og ekkert hægt að veiða. Um miðjan ágúst batnaði tíðin og var ágætis veiði fram í september. Þar sem þátttaka í veiðinni var miklu minni nú en í fyrra gekk vel að losna við aflann á góðu verði. Hagur útgerðarmanna og sjómanna stóð því með miklum blóma í vertíðarlok. Rekstrarvörur til útgerðar hafa líka lækkað í verði. Alls voru fluttar út 130 þúsund tunnur á árinu. Að venju var langmest saltað á Siglufirði, líklega helmingur allrar söltunar. 157
Miklar umræður urðu á árinu um starfsréttindi Norðmanna hér á landi og um skipulag síldarsölunnar. Fiskiþing skoraði á ríkisstjórnina að kanna vilja útgerðarmanna á því að skipa nefnd til að annast útflutninginn. Aðrir vilja koma á hreinni einkasölu og enn aðrir vilja engu breyta. Hið sama er uppi á teningnum hvað varðar viðhorf manna til Norðmanna. Sumir vilja ýta þeim skilyrðislaust út úr landinu en öðrum er vera þeirra meinalaus. Undanfarin ár hafa saltendur verið að prófa sig áfram með kryddsöltun á síld. Hér hefur til þessa verið um lítið magn að ræða en í sumar var miklu meira kryddsaltað en áður og var kryddsöltuð síld nú sérgreind í útflutningsskýrslum í fyrsta sinn. Aflaskýrslur Fram 1921 Ísafold 8/9 1921 Íslendingur 1921 K.S.H. Norske Islandsfiskere ... s. 136 - 140 Útflutningsskýrslur Ægir 1921 og 1922
158
1922 Síldveiðarnar fóru hægt af stað í ár. Í júlí var sáralítil veiði og það var ekki fyrr en um 10. ágúst sem afli fór veru lega að glæðast og var þá mokafli um nokkurt skeið. Söltun gekk greiðlega og var alls saltað í u.þ.b. 232 þúsund tunnur. Síldin hélt sig frekar austarlega miðað við síðustu ár og voru aðeins saltaðar 2.000 tunnur í Ísafjarðarumdæmi. Langmest var saltað á Siglufirði, 161.500 tunnur. Í Akureyrarumdæmi voru 71 þúsund tunnur saltaðar, þar af 28 þúsund á Hjalteyri. Annars skiptist söltunin í því umdæmi sem hér segir: Hrísey 4.892 Hjalteyri 28.095 Þórsnes 1.960 Krossanes 1.809 Jötunheimar 8.425 Oddeyri 7.049 Akureyri 8.435 Svalbarðseyri 6.590 Húsavík 500 Raufarhöfn 3.329 Af þessari síld í Akureyrarumdæmi voru u.þ.b. 17 þúsund tunnur taldar eign útlendinga. Alls 159
voru kryddsaltaðar u.þ.b. 21.500 tunnur og eru þær meðtaldar í heildartölunni. Verksmiðjurnar þrjár, sem starfræktar voru, tóku alls á móti 58 þúsund málum sem skiptust þannig milli þeirra: Goosverksmiðjan 5.000 mál Grána 11.000 mál Ægir, Krossanesi 42.000 mál Rúmlega helmingur bræðslusíldarinnar í Krossanesi var úr erlendum skipum. Alls voru 700 tunnur lagðar í íshús á Oddeyri. Norðmenn fengu 136 þúsund tunnur. Íslendingar áttu u.þ.b. 70 skip á veiðum, þar á meðal voru fimm Reykjavíkurtogarar. Reykvíkingar eiga nú 26 togara en margir eru þeir sem finnst of áhættusamt að senda togara á síldveiðar. Kveldúlfur sendi t.d. aðeins tvo togara á síld, hinir tveir héldu til veiða við Nýfundnaland. Á haustdögum var góður reknetaafli í Faxaflóa og Miðnessjó og voru öll íshús syðra fyllt af síld. Þá var um tíma mikill smásíldarafli á sundunum við Reykjavík. Umræður um réttindi útlendinga hér á landi héldu áfram á þessu ári og nú fór svo að Alþingi samþykkti lög sem útiloka Norðmenn frá veiðum í landhelgi og vinnslu síldarinnar í 160
landi. Hér var í reynd steypt saman í einn lagabálk ýmsum eldri ákvæðum um leið og reglur voru gerðar skýrari og afdráttarlausari. Nú átti að girða fyrir alla leppmennsku en ákafir og óhlutvandir útgerðarmenn fundu strax í sumar gloppu í lögunum. Þeir skráðu norsku skipin á Íslandi í sýndareign einhvers íslensks ríkisborgara. Þetta var þó fátítt og var miklu algengara að norskir útgerðarmenn fengju undanþágu frá lögunum, sérstaklega þegar um bræðslusíld var að ræða. Norsk stjórnvöld svöruðu þessari lagasetningu með tollahækkun á íslensku saltkjöti en tekist hefur á undanförnum árum að byggja upp nokkurn markað fyrir það í Noregi. Verndartollastefna er reyndar ríkjandi víða um heim um þessar mundir og Norðmenn segja auðvitað þessa tollahækkun eingöngu til eflingar norskum landbúnaði. Aflaskýrslur Íslendingur 1922 Morgunblaðið 30/7, 8/8, 13/8, 15/8, 23/8, 13/9 1922 Stjórnartíðindi 1922 A. s. 46 - 49 Ægir 1922 og 1923
161
1923 Síldveiðarnar gengu vel í ár. Alls voru 84 skip að veiðum, þar af fjórir togarar. Það vakti athygli að aðeins einn Reykjavíkurtogari var á veiðum. Aftur á móti flölgar nú svokölluðum línuveiðurum sem eru gufuskip, sum nokkuð við aldur en burðarmikil og henta vel til síldveiða. Skipin 84 voru ekki öll íslensk því að talsvert var um að norsk skip væru skráð í eigu Norðmanna sem hér eru búsettir. Þannig var álitlegur floti skipa á nafni Evangers á Raufarhöfn, Holdös í Krossanesi og Henriksens á Siglufirði. Alls voru saltaðar 223 þúsund fiskpakkaðar tunnur. Þar af voru um 35 þúsund kryddsaltaðar. Þessi síld skiptist þannig milli matsumdæma að 42 þúsund tunnur voru saltaðar í Akureyrarumdæmi, 175 þúsund í Siglufjarðarumdæmi og 5 þúsund í Ísafjarðarumdæmi. Þá voru saltaðar um 1.500 tunnur í október og nóvember í Akureyrarumdæmi. Þetta var smásíld og millisíld sem veiddist á innanverðum Eyjafirði. Verksmiðjurnar tóku á móti tæplega 140 þúsund málum sem er miklu meira en þær 162
fengu í fyrra. Ægir í Krossanesi tók á móti 80 þúsund málum, Grána fékk 25 þúsund mál og Goosverksmiðjan 22 þúsund. Auk þess voru nú í gangi þrjár litlar bræðslur. Henriksen og Stålesen hafa nú keypt aðstöðu Bakkevigs á Siglufirði og bræddu þar 8 þúsund mál. Þessu til viðbótar var brætt á Langeyri við Álftafjörð og á Flateyri við Önundarfjörð, u.þ.b. 2.000 mál á hvorum stað. Tvö skip, "Haraldur" og "Skjaldbreið", veiddu í reknet í Faxaflóa fyrir íshúsin í Reykjavík. Saltsíldarverð erlendis var frekar hátt og stöðugt á árinu og er talið að þeir sem komu nálægt síldarútvegi á árinu hafi haft góðan hagnað. Stöðugleiki markaðarins stafaði m.a. af því að Norðmönnum vegnaði fremur illa á síldveiðum við Ísland í ár, þeir fengu 92 þúsund tunnur. Norsk útgerð hefur gengið í gegnum erfiða kreppu nú um þriggja ára skeið. Fjöldi banka hefur orðið gjaldþrota og þegar svo er verður gjarnan keðjuverkun og fyrirtæki falla eitt af öðru svo að varla verður greint milli orsakar og afleiðingar. Margir grónir síldarútvegsmenn hafa því gefist upp og skip þeirra hafa farið á nauðungaruppboð. Elías Roald, sem átti glæsilegustu söltunarstöðina á Siglufirði, varð gjaldþrota í fyrra og frumherji 163
rekneta- og snurpunótaveiða, Bendik Mannes, varð gjaldþrota í ár. Þegar svona höfðingjar falla er hætt við að lítið verði úr hinum minni spámönnum. Meðan á þessum efnahagslega óróa stendur hlýtur að draga úr sókn Norðmanna á Íslandsmið. Aflaskýrslur Íslendingur 1923 K.S.H. Norske Islandsfiskere ... s. 136 - 139 Ægir 1923 og 1924
1924 Síldveiðar gengu illa í ár og báru margir skarðan hlut frá borði. Framan af ári var allgóð millisíldarveiði á Eyjafirði en sumarsíldveiðarnar mistókust að mestu. Talsvert síldarhlaup kom snemma í júlí en þá var stór hluti flotans ekki kominn á miðin og þeir sem voru þar til staðar veiddu nánast eingöngu í bræðslu enda treystu saltendur á feitari síld síðar um sumarið. Fyrstu dagana í ágúst hvarf síldin og mátti heita að ekkert fengist í snurpunót eftir það. Síldin hækkaði þá mjög í verði og varð það reknetabátum til 164
hagsbóta en þeir öfluðu þokkalega í ágúst og september. Heildarsöltun nam tæplega 125 þúsund tunnum, þar af voru tæplega 100 þúsund tunnur saltaðar á Siglufirði. Ólafsfjörður var nú í fyrsta sinn meðal söltunarstaða en þar voru saltaðar 370 tunnur. Annars fór nánast öll söltun fram á Eyjafjarðarsvæðinu en utan þess var aðeins saltað á Raufarhöfn og Ísafirði. Á haustdögum hóf Ásgeir Pétursson á Akureyri niðurlagningu síldar í dósir og er þetta nokkur nýlunda. Ásgeir hefur í þjónustu sinni þýskan sérfræðing, Köster að nafni, og stjórnar hann verkinu. Bræðslusíld nam alls tæpum 100 þúsund málum á sumrinu. Verksmiðjum hefur fjölgað um þrjár á árinu svo að aflinn dreifist nú víðar en áður. Henriksen og Stålesen, sem hafa átt hvalveiðistöðina á Hesteyri um nokkurra ára skeið, breyttu henni í síldarverksmiðju á vordögum og bræddu í sumar. Í Ísafjarðarumdæmi var landað 14.400 málum í sumar og má ætla að þorri þeirrar síldar hafi lent á Hesteyri en e.t.v. hefur eitthvað verið brætt á Sólbakka og víðar þar sem ófullkomin tæki eru til vinnslunnar. Henriksen náði þó ekki að sjá draum sinn um mikla bræðslu á Hesteyri rætast. Hann lést í júnímánuði og 165
hefur því reksturinn færst yfir á hendur erfingja hans og að hluta til yfir á félaga hans, Stålesen. Gustav Evanger situr ekki auðum höndum þessi árin. Hann hefur nú endurbyggt síldarverksmiðjuna á Dagverðareyri. Það er þó af miklum vanefnum gert og reyndist ekki þrautalaust að bræða þessi 3.500 mál sem verksmiðjan tók á móti. En Evanger hefur fleiri járn í eldinum. Hann hefur nú keypt allar eignir Norðmanna á Raufarhöfn og byggt þar síldarverksmiðju sem hóf bræðslu í sumar. Verksmiðjan tók á móti 4.000 málum í sumar en auk þess saltaði Evanger talsvert af síld þar eystra. Deilurnar um rétt útlendinga til veiða og verkunar í íslenskri landhelgi héldu áfram fyrri hluta ársins. Sveinn Björnsson sendiherra átti þá í löngum samningaviðræðum við norsk stjórnvöld. Þessar viðræður enduðu með samningi sem var undirritaður í júnímánuði.Í samningnum eru veiðirétturinn og kjöttollurinn spyrtir saman og nokkur tilslökun gerð af beggja hálfu, Norðmenn lækka tollinn og Íslendingar lofa að beita gildandi lögum með velvilja gagnvart Norðmönnum. Annars er sókn Norðmanna á Íslandsmið tekin að þyngjast á ný og er talið að þeir hafi 166
alls sent u.þ.b. 180 skip, þar af 40 - 50 reknetabáta, hin skipin voru með snurpunót. Veiðar þeirra gengu hraklega og hljóta að hafa verið reknar með bullandi tapi en þeir fengu u.þ.b. 83 þúsund tunnur auk 12 þúsund tunna sem þeir lönduðu í bræðslu. Reknetafélagið við Faxaflóa hefur nú hætt störfum eftir 25 ára rekstur síldveiða. Þar sem veiði var svona dræm í sumar var verð á síldinni hátt og mikil samkeppni milli síldarkaupmanna. Þegar líða tók á sumarið var algengt að síldarkaupendur á Siglufirði færu á smábátum út í fjarðarkjaftinn til móts við síldarbáta á leið í höfn til að tryggja sér viðskipti við þá. Í sumar kom upp mikið hitamál í sambandi við verksmiðjuna í Krossanesi. Í fyrstu var framkvæmdastjóri verksmiðjunnar sakaður um að nota síldarmál sem væru stærri en gefið var upp og kom reyndar í ljós að svo var. En þegar fram í sótti og deilan harðnaði fundu menn Holdö framkvæmdastjóra ýmislegt fleira til foráttu, m.a. að flytja ólöglega inn norska verkamenn til að halda kaupgjaldi í verksmiðjunni niðri. Útgerðarmenn eru nú orðnir spenntari fyrir síldarbræðslu en verið hefur. Því var það síðla árs að togarafélög syðra með Alliance h/f í 167
broddi fylkingar stofnuðu félag til byggingar alhliða síldarstöðvar. Félagið hefur þegar tryggt sér aðstöðu í Djúpavík. Aflaskýrslur Ísafold 30/8, 26/9, 13/10 1924 Íslendingur 10/10 1924 K.S.H. Norske Islandsfiskere ... s. 139 - 172 Skutull 21/3 1924 Ægir 1924 og 1925
1925 Síldveiðin gekk vel í sumar, miklu betur en í fyrra. Síldin veiddist framan af einkum austan Langaness og á Grímseyjarsundi en þegar leið á sumarið var jöfn veiði fyrir öllu Norðurlandi. Það spillti ekki fyrir að tíðarfar var með eindæmum gott allt sumarið. Heildarsöltun var liðlega 254 þúsund tunnur, þar af voru 39 þúsund tunnur kryddsaltaðar. Langmest var að venju saltað á Siglufirði en 77 þúsund tunnur voru saltaðar í Akureyrarumdæmi og 17 þúsund í Ísafjarðarumdæmi. Loks voru 1.400 tunnur 168
saltaðar á Austfjörðum en lítið hefur verið um söltun þar eystra undanfarin ár. Norðmenn sóttu að venju mjög til Íslands í sumar og fiskuðu vel eins og Íslendingar, þeir fengu alls 163 þúsund tunnur saltaðar, auk þess sem þeir lönduðu í bræðslu á Íslandi. Þá voru hér tvö stór dönsk gufuskip, eins konar fljótandi söltunarstöðvar. Vegna þjóðernis síns höfðu þau heimild til veiða og og verkunar í landhelgi. Hin mikla söltun leiddi enn einu sinni til sölutregðu og verðfalls og um áramót lá mikið af síld enn óselt, ýmist hér heima, í Kaupmannahöfn eða Svíþjóð. Það er því næsta víst að margir saltendur hafa farið illa út úr vertíðinni þótt útgerðarmenn og sjómenn, sem margir hverjir seldu samningsbundið á föstu verði, hafi án efa hagnast vel á sumrinu. Söltunarstúlkur á Siglufirði fóru í verkfall um miðjan júlí og kröfðust þess að fá eina krónu í söltunarlaun fyrir tunnuna í stað 75 aura sem áður höfðu verið greiddir. Eftir nokkurra daga þóf fengu þær vilja sínum framgengt. Nokkrir Þjóðverjar voru á Siglufirði í sumar við þá iðju að safna síldarhreistri. Hreistrið er síðan þvegið vendilega og flutt til þýskalands 169
þar sem þarlendir hagleiksmenn búa til gerviperlur og skartgripi úr því. Annars er nú um stundir mestur vaxtarbroddur í bræðslunni. Bátum á veiðum fer sífjölgandi og munar þar mest um línuveiðarana. Þar sem afkastageta söltunarstöðvanna er takmörkuð verður síldarverksmiðjum að fjölga. Togarafélögin Alliance og Sleipnir, sem í fyrra keyptu Djúpavíkureignir, stofnuðu nýtt hlutafélag rétt fyrir árslok 1924 til byggingar síldarverksmiðju. Nýja félagið heitir Andvari og eru aðaleigendur ofangreind togarafélög og Kristján Torfason á Flateyri. Andvari h/f keypti Sólbakka í Önundarfirði og byggði þar síldarverksmiðju sem var tilbúin til vinnslu fyrir síldarvertíð í ár. Smávegis hefur verið brætt þarna áður með ófullkomnum tækjum í beinamjölsverksmiðju sem Þjóðverjar byggðu fyrir stríð. Í nýju verksmiðjunni eru öll tæki hin fullkomnustu, m.a. skrúfupressur. Afköst hennar eru u.þ.b. 1.000 til 1.200 mál á sólarhring. Þar sem síld veiddist einkum austur á Grímseyjarsundi barst lítil síld til verksmiðjunnar. Eigendur hennar útveguðu sér því tvo gamla barka sem þeir létu liggja á Siglufirði, lestuðu þá og drógu vestur. Þar sem 170
síldin vildi skemmast á leiðinni gekk bræðsla hennar mjög illa. Á Hesteyri gekk bræðsla mjög illa eins og á Sólbakka. Eigandi verksmiðjunnar, Stålesen, lést á árinu og tók tengdasonur hans, T. Hoffman Olsen, við rekstrinum. Hann reyndi sams konar flutninga og þeir Sólbakkamenn og notaði til þess tvo gríðarmikla steinnökkva. Vegna þessara rekstrarerfiðleika hefur verksmiðjan og allt sem henni tilheyrir verið auglýst til sölu nú í desembermánuði. Á Siglufirði eru tvær verksmiðjur, Grána og Goosverksmiðjan, sem margir kalla nú Rauðku. Vélakostur Rauðku, sem er ein af elstu verksmiðjum landsins, hefur nú verið endurnýjaður. Það var reyndar gert í fyrra og voru þá sett fullkomnustu tæki í hana, þar á meðal skrúfupressur. Á Dagverðareyri er verksmiðja sem var endurreist úr brunarústum í fyrrasumar. Hún á að geta brætt 250 - 300 mál á sólarhring en bræðsla hefur gengið mjög illa vegna lélegs og gamaldags búnaðar. Í Krossanesi er verksmiðjan Ægir í eigu Norðmanna. Hún er afkastamest allra verksmiðjanna og hefur jafnan tekið við mestri bræðslusíld. Hún var í upphafi allfullkomin 171
hvað tækni snertir, hafði m.a. skrúfupressur og hefur dugað vel þótt gömul sé. Sjöunda verksmiðjan er svo verksmiðja Evangers sem hann byggði í fyrra á Raufarhöfn. Rekstur hennar hefur gengið vel en hún er ekki afkastamikil. Verksmiðjurnar tóku alls á móti 147 þúsund málum til bræðslu á árinu. Það hefur vakið óánægju margra hve Norðmenn hafa átt auðvelt með að sniðganga landhelgislögin með því að leigja skip sín sýndarleigu til íslenskra leppa. Á árinu voru því samþykkt viðaukalög sem eiga að girða fullkomlega fyrir þetta. Þó að síldveiðarnar hafi í heild gengið vel á árinu eru ýmsar blikur á lofti. Áður hefur verið getið um verðfall vegna offramboðs sem stafar auðvitað af skipulagsleysi í framleiðslunni. En útflytjendur eiga við fleiri erfiðleika að etja. Gengi íslensku krónunnar hefur farið mjög hækkandi á árinu og þar sem síldin er seld í erlendri mynt á erlendum mörkuðum verða krónurnar færri sem fást fyrir hana. Eitt sterlingspund kostaði í desember 1924 28,11 krónur en ári síðar aðeins22,15 krónur. Það munar svo sannarlega um minna fyrir útflytjendur. 172
Aflaskýrslur H.R. Þættir úr síldarsögu Íslands 1900 - 1935, hdr. Ísafold 15/7, 21/7, 18/8, 16/9 1925 Íslendingur 31/7, 7/8, 14/8, 9/10, 18/12 1925 K.S.H. Norske Islandsfiskere... s. 167 - 172 Tölfræðihandbók 1967 Verslunartíðindi 1925 Ægir 1925 og 1926
1926 Síldveiðar gengu illa í sumar. Snurpunótaskipin öfluðu sæmilega örfáa daga í byrjun vertíðar en síldin var mögur og fór því að mestu í bræðslu. Síðan tók fyrir afla og gilti einu hvar menn leituðu fyrir sér, hvarvetna var litla eða enga síld að fá. Reknetaskipunum gekk hins vegar allvel og fengu oft góðan afla, t.d. var uppgripaafli á Steingrímsfirði og á innanverðum Húnaflóa um þriggja vikna skeið í október. Feikna síldargengd var á Austfjörðum í sumar og mátti segja að síldin fyllti alla firði og víkur frá Langanesi og suður úr. Aflatregðan kom auðvitað niður á söltuninni en að lokum höfðu þó 153 þúsund tunnur verið saltaðar, þar af voru 38 þúsund tunnur 173
kryddsaltaðar. Söltunin skiptist þannig milli landshluta að í Ísafjarðarumdæmi voru saltaðar 11 þúsund tunnur, í Siglufjarðarumdæmi 107 þúsund, í Akureyrarumdæmi 24 þúsund og í Seyðisfjarðarumdæmi voru saltaðar 10.600 tunnur. Mestur hluti Austfjarðasíldarinnar kom frá Eskifirði og Reyðarfirði. Síldargangan fyrir austan kom mönnum mjög að óvörum og nýttist þess vegna ekki sem skyldi því að bæði skorti veiðarfæri og viðbúnað í landi. Norðmenn sóttu stíft á Íslandsmið að venju og fengu 90 þúsund tunnur. Eins og jafnan þegar lítið aflast var síldarverð frekar hátt en það lækkaði snögglega í september og er hætt við að þeir sem þá áttu óselda síld hafi tapað drjúgt. Á árinu var selt töluvert af síld sem hafði legið óseld síðan í fyrra og þar sem Norðmenn öfluðu vel á heimamiðum yfirfylltist markaðurinn. Aflatregða á síldveiðum kemur jafnan enn harðar niður á bræðslu en söltun og svo varð einnig nú en verksmiðjurnar tóku aðeins á móti 75 þúsund málum alls. Erfiðleikarnir í fyrra gerðu út af við báðar Vestfjarðaverksmiðjurnar. Andvari h/f , sem ýtti úr vör í fyrra, varð gjaldþrota og er 174
Sólbakkaverksmiðjan nú í eigu Íslandsbanka. Þar var dauflegur rekstur í sumar og aðeins tekið á móti 5.000 málum. Ástandið á Hesteyri var enn dapurlegra en verksmiðjan þar var ekki starfrækt í sumar. Aðrar verksmiðjur gengu með eðlilegum hætti og á Siglufirði fjölgaði um eina svo að alls voru starfræktar jafnmargar verksmiðjur og í fyrra eða sjö. Hin nýja verksmiðja er í eigu þjóðverja nokkurs, Dr. Paul að nafni, og í máli manna er verksmiðjan jafnan við hann kennd. Á árinu voru enn umræður og blaðaskrif um réttindi útlendinga hér á landi. Þar kom m.a. fram að nú hafa starfsaðferðir Norðmanna tekið á sig nýja mynd. Norsk vöruflutningaskip, sem fluttu tunnur og salt til Siglufjarðar, tóku upp þann sið að sigla, þegar vinnu var lokið á kvöldin, út fyrir landhelgislínuna. Þar lestuðu þau saltsíld úr norskum veiðiskipum og komu síðan inn til Siglufjarðar í morgunsárið þegar hafnarvinnan þar átti að hefjast á nýjan leik. Þá var á þessu ári gerð enn ein tilraun til stofnunar samlags meðal síldarútflytjenda. Það tókst ekki fremur en endranær. Þessar tilraunir virðast ávallt hefjast í kjölfar mikillar söltunar og verðfalls á markaðnum. En ef lítið er saltað og verðlag er gott missa menn áhugann 175
undrafljótt og allt situr við hið sama hvað varðar skipulag útflutningsins. Aflaskýrslur Framtíðin 31/7 1926 H.R. Þættir úr síldarsögu Íslendingur 6/8, 17/9 1926 K.S.H. Norske Islandsfiskere ... s. 167 - 172 Ægir 1926 og 1927
1927 Síldveiðar gengu afbragðsvel í sumar og veiddist meira en dæmi eru til áður. Veðurblíða var með afbrigðum og féll varla úr dagur alla vertíðina. Íslendingar áttu nú fleiri skip á veiðum en verið hefur áður eða 120 130 skip. Mest munar auðvitað um togarana sem veiddu nú margir með bræðslu fyrir augum og notuðu til hins ýtrasta mikla burðargetu og góðan gang. Síldin var komin á miðin þegar í júnímánuði en söltun hófst ekki að marki fyrr en um 25. júlí. Heildarsöltun yfir sumarið var 240 þúsund tunnur, þar af voru 59 þúsund tunnur 176
kryddsaltaðar. Síldin var lengst af heldur erfið í söltun vegna þess hve hún var blönduð smárri og horaðri síld. Norðmenn voru á Íslandsmiðum á 160 skipum og fengu liðlega 180 þúsund tunnur saltaðar, auk þess sem þeir lönduðu hér í bræðslu. Hinn mikli afli leiddi til gífurlegs álags á síldarverksmiðjurnar og oft var margra sólarhringa löndunarbið. Nokkrar breytingar urðu á verksmiðjukosti frá fyrra ári. Hesteyrarverksmiðjan, sem ekki var starfrækt í fyrra, er nú komin í eigu Kveldúlfs h/f og var rekin af miklum krafti enda veitir ekki af því að togarar fyrirtækisins voru nú gerðir út til síldveiða á ný. Hinar sameinuðu íslensku verslanir hafa nú hætt rekstri og keypti Sören Goos verksmiðju fyrirtækisins, Gránu. Hann lét strax endurnýja tækjakost verksmiðjunnar og er hún nú búin fullkomnasta tækjabúnaði. Loks má geta þess að Evanger hefur gefist upp á rekstri Dagverðareyrarverksmiðjunnar og var hún ekkert starfrækt í sumar. Verksmiðjurnar tóku alls á móti 400 þúsund málum í sumar, þar af fór liðlega fjórðungur til Vestfjarðaverksmiðjanna tveggja. Það óhapp varð 17. september í haust að kviknaði í Krossanesverksmiðjunni og brann hún að verulegum hluta. Þar sem töluvert var af síld í 177
þróm verksmiðjunnar þegar þetta gerðist og verksmiðjur í Noregi voru verkefnalitlar brugðu Norðmenn á það ráð að flytja þessa síld til Noregs til bræðslu. Þeir tóku einnig eitthvað af síld annars staðar þar sem verksmiðjur voru í vandræðum. Norðmenn hafa allt frá 1923 flutt bræðslusíld heim til Noregs í litlum mæli og hefur það gengið áfallalaust en stórflutningarnir í haust gengu hörmulega. Sum skipin komust á leiðarenda en gufuskipin "Jarstein" og "Wilson" fórust í hafi, hið fyrrnefnda út af Melrakkasléttu og með því einn skipverja. Síðarnefnda skipið hvarf sporlaust með 11 manna áhöfn. Saltsíldarsala var treg á haustdögum, bæði vegna offramboðs og vegna söltunargalla en áberandi var, að mati kaupenda, að allt of lítið hafði verið hirt um að kasta úr smásíld og horsíld. Það bætti nokkuð úr vanda útflytjenda að Rússar keyptu nú síld af Íslendingum í fyrsta sinn. Þeir keyptu 25 þúsund tunnur á frekar lágu verði og með nokkrum gjaldfresti. Illa gengur að efla síldarneyslu innanlands þótt ýmislegt sé gert í þessum efnum. Þannig var haldin glæsileg síldarréttasýning í Bárubúð í Reykjavík dagana 14. og 15. október í haust og var góður rómur að henni kveðinn. 178
Aflaskýrslur H.R. Þættir úr síldarsögu K.S.H. Norske Islandsfiskere ... s. 167 - 172 Ægir 1927 - 1928
1928 Síldveiðar tókust bærilega í ár þótt afli væri ekki alveg eins mikill og í fyrra. Þátttaka var heldur minni en í fyrra þar sem fjöldi báta, sem venjulega hefur verið á reknetum, sneri sér að öðrum veiðum í ár. Síldarverð hefur verið lágt undanfarin ár en þegar eftirspurn eftir síld hefur verið mikil hafa reknetabátarnir jafnan fengið gott verð fyrir aflann. En nú í sumar var síldarverðið fastákveðið, 12 krónur fyrir tunnuna til söltunar. Það verð telja útgerðarmenn reknetaskipa of lágt til að standa undir kostnaði. Heildarsöltun var 175 þúsund tunnur, þar af voru 50 þúsund tunnur kryddsaltaðar. Þetta er að vísu talsvert minni söltun en á síðasta ári en hafa verður í huga að söltunarstöðvar voru nú færri en áður og auknar hömlur voru lagðar á löndun erlendra skipa.
179
Bræðslusíldin nam 340 þúsund málum. Siglufjarðarverksmiðjunum var nú bannað að taka á móti afla úr norskum skipum og gátu þau því aðeins lagt upp í Krossanesi. Það vekur athygli að mest var nú brætt á Vestfjörðum, 127 þúsund mál, á móti 120 þúsund málum á Siglufirði og 91 þúsund málum í Akureyrarumdæmi. Sömu verksmiðjur voru í gangi nú í sumar og í fyrra. Krossanesverksmiðjan , sem brann í fyrrahaust, var endurbyggð í vor. Norðmenn sendu myndarlegan flota á Íslandsmið, alls um 160 skip, sem fengu 145 þúsund tunnur saltaðar. Þeir höfðu stór móðurskip á miðunum í sumar og tóku þar bæði á móti saltsíld og síld til bræðslu sem þeir fluttu til verksmiðjanna í Noregi. Þá voru Svíar á sama hátt með stórt móðurskip sem tók við síld af norskum veiðiskipum úti á miðunum. Talsvert var af millisíld í Ísafjarðardjúpi allt sumarið. Hún var veidd í allmiklum mæli og söltuð á Þýskalandsmarkað. Í sumar var flugvélin Súlan notuð til síldarleitar um einnar viku skeið. Ef flugmennirnir komu auga á síldartorfu sendu þeir boð um það með loftskeytatækjum en köstuðu spýtukubbum með skilaboðum niður 180
til þeirra skipa sem ekki höfðu loftskeytatæki. Síldarleit þessi þótti gefa mjög góða raun. Lög um síldareinkasölu voru samþykkt á Alþingi 11. apríl í vor. Þessi lög voru ákaflega umdeild og umræður um ágæti Einkasölunnar voru mjög ákafar allt árið. Sumum saltendum fannst svo að sér þrengt að þeir hættu rekstri stöðva sinna en aðrir reyndu að semja um sölu á síld á bak við Einkasöluna. Flestir sættu sig þó við þetta fyrirkomulag og söltuðu eins og áður. Reynslan af þessu fyrsta ári Einkasölunnar er eflaust umdeilanleg enda hljóta nokkrir hnökrar jafnan að vera á þegar skipulagi er gjörbylt eins og hér átti sér stað. Hins vegar má benda á að Einkasölunni tókst að selja alla framleiðsluna og fá fyrir hana allmiklu hærra meðalverð en var árið á undan. Það lofar góðu um framhaldið. Aflaskýrslur H.R. Síld í tölum, hdr. H.R. Þættir úr síldarsögu, hdr. K.S.H. Norske Islandsfiskere ... s. 173 - 179 Ægir 1928 og 1929
181
1929 Síldveiðar gengu vel í ár eins og undanfarið þótt ýmislegt gengi nú öndvert í þessum útvegi. Þegar Kveldúlfstogararnir voru á leið til veiða í júnímánuði fundu þeir síld sunnan Látrabjargs og síðan norður með Vestfjörðum. Þá þegar var uppgripaveiði en verksmiðjurnar voru ekki tilbúnar því að enginn hafði gert ráð fyrir afla svona snemma sumars og alls ekki á þessu svæði. Afli var síðan ágætur fram eftir sumri, einkum á Húnaflóa og víðar út af Norðvesturlandi. Sáralítil síld var út af Norðausturlandi nema á Þistilfirði. Úti fyrir norðanverðum Austfjörðum var mjög mikil síld allt suður að Norðfjarðarhorni en lítið var veitt á þessum slóðum þar sem engin verksmiðja er þar eystra. Þá fylltust margir Austfjarðanna af síld og verður nú mörgum hugsað til "síldaráranna miklu" á síðustu öld. Þéttast stóð síldin í Seyðisfirði og Mjóafirði en einnig var mikið af henni í Reyðarfirði og Eskifirði. Í síðastnefndu fjörðunum var mest saltað eða 5.500 tunnur af 8.400 tunnum sem voru saltaðar á Austfjörðum.
182
Það vakti athygli Austfirðinga hve síldin var óvenjulega feit snemma sumars og voru þeir að vonum óhressir með þá ákvörðun Síldareinkasölunnar að leyfa ekki söltun fyrr en 24. júlí. Ekki var hljóðið betra í saltendum á Miðnorðurlandi sem biðu reiðubúnir og vissu að Norðmenn voru byrjaðir að salta utan landhelgi. Svo óheppilega vildi til að síldin, sem veiddist í síðari hluta júlí, var allmikið blönduð horsíld. Einkasalan framlengdi því söltunarbann til 1. ágúst og bætti sú frestun ekki hug manna í garð Einkasölunnar eða Einokunarinnar eins og andstæðingarnir kalla hana gjarnan. Söltun gekk greiðlega fyrri hluta ágústmánaðar en um miðjan mánuð varð tunnulaust víðast hvar og fjölgaði nú enn í fjandaflokki Einkasölunnar. Um 20. ágúst gerðist hvort tveggja í senn, tunnubirgðir komu til landsins og síldin hvarf af miðunum. Það vakti athygli manna hve snögglega síldin hvarf af öllum miðum samtímis en seint í september í haust bárust fregnir frá skipum sem áttu leið framhjá Jan Mayen að þar hefði sést síld vaðandi í stórum torfum.
183
Á haustdögum var saltað dálítið af millisíld á Ísafirði og Akureyri. Heildarsöltun á landinu öllu var tæplega 130 þúsund tunnur. Norðmenn fengu um 100 þúsund tunnur á 140 skip en auk þess lönduðu þeir töluverðu af bræðslusíld þar sem verksmiðjurnar á Íslandi höfðu heimild til að kaupa 40 % hráefnis af erlendum skipum. Mörg norsku reknetaskipanna kryddsalta allan aflann og hafa samninga við sænska og finnska síldarkaupmenn. Þetta kemur niður á Íslendingum sem kryddsöltuðu miklu minna í sumar en endranær. Fjórtán sænsk reknetaskip höfðu sama hátt á og Norðmenn hvað þetta snertir. Bræðsla gekk vel í sumar en oft var þó æðilöng bið eftir löndun enda er augljóst að ekkert samræmi er lengur milli veiðigetu skipanna og afkastagetu í landi. Þörfin fyrir fleiri verksmiðjur er mjög brýn eftir að togararnir fóru að leggja höfuðáherslu á veiði í bræðslu. Aflahæsti togarinn, "Skallagrímur", fékk yfir 14.000 mál á sjö vikum í sumar og er það talið aflamet. Alls tóku verksmiðjurnar á móti 344 þúsund málum á sumrinu. Nú er Síldarverksmiðja ríkisins í byggingu á Siglufirði og er gert ráð fyrir því að hún hefji bræðslu á næsta ári. Engu að síður eru uppi 184
háværar kröfur um fleiri verksmiðjur. Einkum þykir Austfirðingum blóðugt að vita svartan sjó af síld en geta ekki unnið hana í landi. Flugvélin "Veiðibjallan" leitaði síldar í sumar með ágætum árangri. Nokkur reynsla er nú komin á síldarleitarflug og virðist það eiga framtíð fyrir sér. Flugvélin hefur aðalbækistöð á Siglufirði. Að loknu hverju síldarleitarflugi eru upplýsingar úr fluginu hengdar upp á tilteknum auglýsingastöðum á Siglufirði. Þær eru símsendar til Akureyrar og auglýstar þar á sama hátt og loks eru þær símsendar til Reykjavíkur og lesnar þar í útvarp. Síldarverð var lægra í sumar en í fyrra. Þetta átti sérstaklega við bræðslusíldina enda hafa afurðir verksmiðjanna lækkað í verði, einkum mjölið. Seint í október gerði mikið sjávarflóð á Siglufirði. Sjór flæddi yfir mestalla Eyrina og olli miklu tjóni á húsum og öðrum mannvirkjum. Eins og áður hefur verið rakið magnast nú andstaða gegn Einkasölunni enda hefur hún verið sérstaklega seinheppin með ákvarðanir. Jafnaldri hennar, ríkisverksmiðjan, sætir ekki jafnharðri gagnrýni enda er rekstur ekki hafinn á þeim bæ. Þó eru einkasöluandstæðingar farnir að reifa þá hugmynd að stofna fyrirtæki 185
til að taka verksmiðjuna á leigu. Næstu ár leiða í ljós framtíð þessara fyrirtækja. Aflaskýrslur H.R. Síld í tölum (hdr.) H.R. Þættir úr síldarsögu (hdr.) Ísafold 7/8 og 26/11 1929 K.S.H. Norske Islandsfiskere ... s. 136 - 179 Ægir 1929 og 1930
1930 Síldveiði var jöfn og góð fyrir öllu Norðurlandi í sumar. Flest skipin hófu veiðar í júlíbyrjun og fengu þá þegar góðan afla. Þrær verksmiðjanna fylltust á örfáum dögum enda var viðbúnaður í landi ófullnægjandi. Verkamenn í Krossanesverksmiðjunni fóru í verkfall og stóð í þófi fram til 10. júlí er samningar tókust loksins. Síldarverksmiðja ríkisins var ekki tilbúin til móttöku fyrr en nokkuð var liðið á vertíðina. Móttökugetan í landi var því ekki burðug fyrstu tíu dagana. Síldin var óvenjulega feit og góð og gat því söltun hafist 15. júlí. Heildarsöltun á landinu öllu nam 186 þúsund tunnum og var um 186
þriðjungur síldarinnar sérverkaður. Svo virðist því sem Íslendingar séu aftur að ná kryddsíldarverkuninni á eigin hendur en í fyrra virtist allt benda til þess að Norðmenn væru að ná yfirburðum á þessu sviði. Þá var það nýmæli að samið var um sölu á saltsíld til Sovétríkjanna, alls um 30 þúsund tunnur. Þessi síld var seld á fremur lágu verði og með eins árs gjaldfresti. Einkasalan hafði áætlað að þessi síld yrði söltuð í lok vertíðar en þegar veiðarnar hættu snögglega um 20. ágúst og Rússasíldin hafði enn ekki verið söltuð ákvað stjórn Einkasölunnar að senda í hennar stað saltsíld sem hafði upphaflega verið ætluð öðrum mörkuðum sem hefðu gefið hærra verð. Saltendur urðu sumir hverjir æfir út af þessu og gerðu harða hríð að Einkasölumönnum í blöðum fyrir þessa ákvörðun. Þar var stundum reitt hátt til höggs, jafnvel með landráðabrigslum í garð Einkasöluforstjóranna. Þá var Einkasalan gagnrýnd fyrir að semja við eigin söltunarstúlkur um hærri laun en saltendur höfðu hugsað sér að greiða. Norðmenn sendu 130 - 140 skip til veiða á Íslandsmiðum og fengu þau alls um 136 þúsund mál af bræðslusíld sem landað var hér á landi. 187
Finnar áttu nú nokkur skip á veiðum, þeir hafa yfirleitt norskar áhafnir. Þá áttu Danir tvö stór gufuskip við Ísland, eins konar fljótandi söltunarstöðvar. Mikil síld gekk inn á Austfirði eins og undanfarin ár. Austfirðingar byrjuðu að veiða í lagnet í janúar og febrúar. Um sumarið var svo ágæt veiði innfjarða svo að heimamenn gátu fyllt öll íshús sín og saltað drjúgt að auki. Þeir söltuðu alls um 12 þúsund tunnur og 4.500 tunnur fóru í frost. Bræðsla gekk vel eftir að Krossanesverksmiðjan og Ríkisverksmiðjan fóru í gang. Ríkisverksmiðjan tók á móti 63.600 málum en alls var landað 356 þúsund málum á landinu öllu. Togararnir voru stórtækastir við að afla hráefnis handa verksmiðjunum en í sumar voru sautján togarar á síldveiðum. Síldarverð var lágt á árinu og gildir þá einu hvort átt er við verð til söltunar eða bræðslu. Verksmiðjueigendur telja sig ekki þola hærra bræðslusíldarverð vegna verðfalls sem varð á lýsi í ár en mjölverð er enn viðunandi. Síldarleit með flugvélum virðist vera að festast í sessi." Veiðibjallan" stundaði síldarleit nú í sumar eins og í fyrra og gaf það góða raun. 188
H.R. Síld í tölum (hdr.) H.R. Þættir úr síldarsögu (hdr.) Ísafold og Vörður 23/7, 10/9, 8/10, og 29/10 1930 Ægir 1930 og 1931
1931 Sunnlendingar reyna alltaf öðru hverju að veiða síld til beitu og gengur stundum vel en oftast kaupa þeir meiri hluta beitusíldarinnar, sem þeir nota, að norðan. Í ár veiddist lítið af síld í Faxaflóa en hins vegar talsvert í lagnet við Vestmannaeyjar og út af Grindavík í apríl og maí. Fyrsta Norðurlandssíldin fékkst í reknet út af Siglufirði 18. júní og fyrsta snurpunótasíldin veiddist á Húnaflóa 1. júlí. Afli var afar góður og dró fljótt til langrar löndunarbiðar hjá verksmiðjunum sem voru tveimur færri nú en á síðasta sumri. Söltun hófst 15. júlí enda var síldin þá orðin feit og góð til söltunar. Útlendingar voru þá byrjaðir að salta í stórum stíl og ók nú að fyrir Einkasöluna að láta þá ekki fylla alla markaði áður en íslensk síld kæmist þangað. Norðmenn 189
eru nefnilega farnir að salta um borð í allstórum vöruflutningaskipum sem sigla síðan beint til Svíþjóðar með framleiðsluna. Heildarsöltun var liðlega 212 þúsund tunnur. Sérverkun var nú í fyrsta skipti meiri en venjuleg söltun eða 110 þúsund tunnur. Einkasalan hafði selt mikið af framleiðslunni fyrirfram en þar sem allir markaðir yfirfylltust af síld gengu kaupendur í sumum tilvikum frá gerðum samningum og báru við skemmdum á íslensku síldinni. Mikið af síldinni var saltað í tunnur sem voru smíðaðar á Siglufirði og Akureyri. Þær reyndust ekki nógu vel og héldu illa pækli og mikil hitabylgja, sem gekk yfir Norðurland í ágúst, varð síst til að bæta ástandið. Ánægja manna með gott síldarsumar varð því tregablandin á haustdögum þegar í ljós kom að talsverður hluti síldarinnar var óseljanlegur til manneldis. Einkasalan greiddi tvær krónur fyrir innihald hverrar síldartunnu með loforði um viðbót síðar. Sú uppbót var aldrei greidd af ofangreindum ástæðum. Síldareinkasalan hefur, auk sífelldra óhappa í rekstri orðið pólitískt bitbein í auknum mæli. Þorri útgerðarmanna og saltenda hefur alla tíð haft horn í síðu hennar en hún hefur fremur átt sér formælendur meðal verkafólks enda eiga 190
samtök launafólks aðild að stjórn hennar. Verkalýðssamband Norðurlands hefur farið með þetta umboð enda mest í húfi fyrir verkafólk á Norðurlandi að vel takist til við stjórn fyrirtækisins. Stofnun Kommúnistaflokks Íslands í desember á síðasta ári leiddi til þess að lögum um Síldareinkasöluna var breytt á síðasta Alþingi þannig að Alþýðusambandið fer nú með þetta umboð verkalýðsins. Þannig eru nú róttæklingarnir nyrðra einangraðir frá ítökum í stjórn Einkasölunnar og verkamenn því tvístraðir í afstöðu til hennar. Stjórn Framsóknarflokksins sem setið hefur með hlutleysi Alþýðuflokks er nú orðin völt í sessi og þar sem tilvera Einkasölunnar hefur byggst á samstarfi þessara tveggja flokka og óvinsældir hennar hafa farið sívaxandi hlaut að draga að endalokunum. Fjölda samþykkta ýmissa hagsmunasamtaka rigndi yfir stjórnvöld og var alls staðar óskað eftir aðgerðum í málefnum Einkasölunnar, oftast var beðið um að hún yrði lögð niður. Í fyrrnefndum lögum um Einkasöluna voru ákvæði um að halda skyldi aukafund á haustdögum til að kjósa stjórn samkvæmt nýju lögunum. Fundurinn hófst 30. nóvember og stóð til 4. desember. Á fundinum var heldur 191
heitt í kolunum og má segja að honum hafi lokið í algerri upplausn þegar fulltrúar útgerðarmanna neituðu að taka þátt í kosningum og gengu af fundi. Náðarhöggið kom svo 9. desember þegar sett voru bráðabirgðalög með ákvæðum um að Einkasalan skyldi lögð niður og bú hennar tekið til skipta. Síldarbræðsla gekk miklu skár en söltunin en var þó enginn dans á rósum. Aðeins fimm verksmiðjur voru í gangi í sumar þar sem hvorug Goosverksmiðjan á Siglufirði var starfrækt. Verksmiðjurnar tóku alls á móti 380 þúsund málum, þar af var landað 124 þúsund málum í Ríkisverksmiðjuna. Bræðslusíldarverðið var heldur skárra en saltsíldarverðið eða 3 - 5 krónur fyrir hvert mál. Verksmiðjurnar eiga erfitt uppdráttar um þessar mundir því að afurðaverð hefur farið lækkandi og segja má að lýsisverðið hafi hrunið. Aflahæsta skip Íslendinga í sumar var "Hávarður Ísfirðingur" með 32.370 tunnur sem fóru að mestu í bræðslu. Þetta er aflamet. Útlendingar sækja nú á Íslandsmið af miklu meiri krafti en áður hefur þekkst. Vegna efnahagskreppunnar eru flest lönd nú umlukin tollmúrum og því er hagkvæmt fyrir 192
útgerðarmenn í markaðslöndunum að senda skip til síldveiða við Ísland þar sem aflinn verður ekki tollskyldur í heimalandinu. Norðmenn voru hér með 207 skip sem fengu 238 þúsund tunnur, auk þess sem þeir lönduðu á Íslandi eða fluttu beint á Svíþjóðarmarkað en nokkuð var um slíka flutninga í sumar. Finnar áttu hér tvo stórleiðangra. Elfving útgerðarmaður í Hangö sendi 4.6oo tonna skip, "Petsamo", fimm reknetabáta og fimm snurpunótabrúk. Í leiðangrinum voru 250 manns, þar af 60 söltunarstúlkur. Alls voru saltaðar um 30 þúsund tunnur um borð í "Petsamo". Annað finnskt fyrirtæki sendi líka stórleiðangur til Íslands og var gufuskipið "Greta" þar móðurskip. Svíar áttu hér 15 - 20 skip, flest smá, sem fengu um 12 þúsund tunnur af kryddsíld. Þá voru Danir hér með móðurskipið "Chr. Stauning" og 10 - 15 dönsk og færeysk veiðiskip. Godtfredsen, sem er allþekktur á Íslandi, var leiðangursstjóri. Danirnir fengu alls um 20 þúsund tunnur. Þó að síldveiðar virðist vera nokkurn veginn í sama farinu ár eftir ár skjóta tækninýjungar upp kollinum öðru hverju. Það vakti t.d. athygli í sumar að Finnarnir í Petsamoleiðangrinum voru með vélar í 193
nótabátunum. Þeir höfðu að vísu aðeins vél í öðrum bátnum í hverju nótabrúki en að þessu er mikið hagræði. Annars byggja þessir stóru leiðangrar útlendinga yfirleitt á norskri tækniþekkingu hvað veiði og verkun snertir og yfirleitt eru nótabassar og aðrir yfirmenn fengnir frá Noregi. Í sumar var talsvert um síld úti fyrir Austfjörðum en hún gekk lítið inn á firðina. Það gerði hún aftur á móti í haust. Um miðjan nóvember komu miklar göngur inn á flesta firði þar eystra. Þetta var millisíld sem var fryst til beitu eftir því sem hægt var en einnig voru 4 - 5 þúsund tunnur saltaðar. Á sama tíma var góð millisíldarveiði á Akureyrarpolli og voru um fjögur þúsund tunnur saltaðar þar. Þessi síld er ekki talin með í söltunartölum sem áður voru nefndar. Menn hafa undanfarin ár oft velt fyrir sér hversu mikið er notað af síld til beitu á Íslandi. Í ár reyndi erindreki Fiskifélagsins á Norðurlandi að reikna þetta út fyrir sinn fjórðung. Niðurstaða hans var að Norðlendingar hefðu notað 14 þúsund tunnur af beitusíld árið 1930. H.R. Síld í tölum (hdr.) H.R. Þættir úr síldarsögu (hdr.) 194
Ísafold og Vörður 14/1, 2/12, 9/12 1931 K.S.H. Norske Islandsfiskere ... s. 214 - 215 Ægir 1931 og 1932
1932 Síldarfólkið leggur ekki árar í bát þótt á móti blási. Enginn varð hökufeitur af síldveiðunum í fyrra en engu að síður hófu flestir veiðar í vor af sömu þrautseigju og verið hefur. Vertíðin fór þó hægt af stað vegna vinnudeilna og verkfalla í verksmiðjunum. Verkfalli starfsmanna hjá Síldarverksmiðju ríkisins lauk 12. júlí og gátu þá veiðarnar hafist af fullum krafti en í Krossanesi héldu launadeilur áfram út júlímánuð. Samband sænskra síldarkaupmanna neitaði að kaupa síld sem væri söltuð fyrir 25. júlí og gat söltun því ekki hafist fyrr þótt vitað væri að Norðmenn hefðu þá hafið söltun utan landhelgi fyrir allnokkru. Söltunin gekk mjög vel og voru alls saltaðar 247 þúsund tunnur. Þrátt fyrir mikla söltun tókst vel að selja síldina. Svíar keyptu svipað magn og áður en veruleg aukning varð á útflutningi til 195
Danmerkur og Þýskalandsmarkaður tók einnig vel við. Verðið sem fékkst fyrir síldina var mjög lágt en vegna þess hve mikið var saltað virðast flestir hafa sloppið skaðlausir frá vertíðinni. Svo virðist sem Íslendingum hafi í þetta skiptið tekist að sigra Norðmenn í samkeppninni því að Norðmenn áttu mikið af óseldri síld um áramót. Bræðslan átti í meiri erfiðleikum en söltunin því að afurðaverðið, sem var mjög lágt fyrir, lækkaði enn í ár. Lýsisverðið stóð nokkurn veginn í stað en mjölverð hefur lækkað verulega. Reyndar má rekja verkföllin í verksmiðjunum nyrðra til tilrauna þeirra til að draga úr launakostnaði. Verksmiðjukostur var svipaður og á síðasta ári þótt nýir rekstraraðilar væru sums staðar á ferð. Kveldúlfur, sem átti sjö togara á síld, tók Sólbakkaverksmiðjuna á leigu og rak hana ásamt Hesteyrarstöðinni. Steindór Hjaltalín tók gömlu Goosverksmiðjuna á leigu og rak hana í sumar en í fyrra var þessi verksmiðja ekki í gangi. Evanger, sem hefur átt og rekið verksmiðjuna á Raufarhöfn, varð gjaldþrota á árinu og tóku þeir Fredrik Gundersen og Bartz Johannesen frá Björgvin við rekstrinum. Þá var nokkuð liðið á sumar og þess vegna var 196
fremur lítið brætt á Raufarhöfn í ár. Alls tóku verksmiðjurnar á móti 354 þúsund málum. Bræðslusíldarverðið var mjög lágt, fór yfirleitt ekki upp fyrir þrjár krónur fyrir málið og var stundum enn lægra. Útlendingar voru hér að veiðum í svipuðum mæli og á síðasta ári en nú hafa Eistlendingar bæst í hópinn. Eistneska útgerðarfélagið Kalandus sendi stórleiðangur að hætti Finna með gufuskipið "Eestirand" sem móðurskip og fjögur veiðiskip 250 til 750 lestir að stærð en móðurskipið er 7.200 lestir. Hinn sameiginlegi leiðangur Dana og Færeyinga, sem hér var í fyrra, kom aftur í ár en nú á vegum nýrra aðila því að færeyska fyrirtækið, sem átti hlut að máli, varð gjaldþrota. Kola- og koksfélagið í Kaupmannahöfn, (De fire K´er), sá um útgerðina í sumar. Útlendingar fengu alls liðlega 300 þúsund tunnur á Íslandsmiðum í sumar og áttu Norðmenn, sem sendu hingað 167 skip að þessu sinni, tæplega tvo þriðju hluta eða 190 þúsund tunnur. Síðastliðinn vetur gekk síld inn á Austfirði eins og undanfarin ár og var töluvert veitt af henni. Þetta var millisíld sem menn voru ragir við að salta vegna þess hve markaðurinn er þröngur en þessi síld er eingöngu seld á Kaupmannahafnarmarkað. Þó söltuðu menn 197
þar eystra 9.000 tunnur af henni og liðlega þúsund tunnur af millisíld voru saltaðar á Akureyri. Við veiðarnar eystra notuðu menn einkum lagnet og landnætur að gömlum sið en einnig notuðu þeir nýja veiðiaðferð. Síldin gekk einna þéttast í Hellisfjörð og fór þar í þéttum torfum alveg inn í fjarðarbotn. Mönnum hugkvæmdist þá að setja hanafætur og hringi neðan í litlar landnætur og nota þær þannig sem snurpunætur. Þetta gafst ágætlega. Dálítið var um það eystra að menn ísuðu síldina og seldu í enska togara sem fluttu hana á markað ytra. Þetta hefur ekki verið gert síðan Otto Wathne flutti sem mest út af ísaðri síld fyrir aldamót. Við Suðvesturland var töluvert af síld í vor og var hún veidd eftir þörfum til beitu en lítið var fryst af henni vegna þess að íshúsin voru yfirleitt birg af síld. Hinar hatrömmu deilur um síldareinkasöluna, sem settu mikinn svip á síðasta ár, fjöruðu fljótlega út en blossa þó upp einstaka sinnum enda hefur þrotabúið enn ekki verið gert upp. Það þýðir þó ekki að allir sigli sléttan sjó í blaðaskrifum um síldveiðar. Í ársbyrjun var hart deilt á Hesteyrarverksmiðjuna fyrir að nota ranga stærð af síldarmálum og á vordögum var mikil rimma vegna verkfallsins á Siglufirði. Sviplegt 198
andlát Guðmundar Skarphéðinssonar á Siglufirði blandaðist inn í þessa deilu og magnaði hana en Guðmundur var virtur og vinsæll meðal Siglfirðinga og gegndi mörgum ábyrgðarstörfum þar í bæ. Norsku samningarnir voru endurnýjaðir á haustdögum og voru ekki síður umdeildir en hinir fyrri. H.R. Síld í tölum (hdr.) H.R. Þættir úr síldarsögu (hdr.) Ísafold og Vörður 13/1 og 27/1 1932 K.S.H. Norske Islandsfiskere ... s. 228 Ægir 1932 og 1933
1933 Síldveiðar gengu vel í ár. Um miðjan júní sást vaðandi síld á Grímseyjarsundi og Húnaflóa en skip héldu þó ekki til veiða fyrr en um mánaðamótin. Þá var strax prýðileg veiði vestan við Vatnsnes. Þetta varð þó skammvinn sæla því að verksmiðjurnar voru ekki tilbúnar til móttöku að undanskilinni verksmiðju Steindórs Hjaltalín á Siglufirði. Starfsmenn Síldarverksmiðja ríkisins voru í 199
verkfalli fram í júlímánuð svo að verksmiðjurnar gátu ekki tekið á móti síld fyrr en 10. júlí. Um svipað leyti og þessu verkfalli lauk hófst annað á Hesteyri, það stóð til 14. júlí. Eftir þetta mátti segja að um samfellda löndunarbið væri að ræða næsta mánuðinn. Eftir 13. ágúst fór veiði þverrandi og var eftir það helst eitthvert kropp austast og vestast á miðunum. Flest skipin hættu veiðum í ágústlok. Þátttaka í veiðunum var talsvert meiri nú en í fyrra en alls tóku 93 skip þátt í þeim, 13 togarar, 27 línuveiðarar og 53 mótorbátar. Öll skipin notuðu snurpunót við veiðarnar. Aflahæstur var togarinn "Þórólfur" en hann fékk rúmlega 20 þúsund mál. Söltun gekk vel og voru alls saltaðar 219 þúsund tunnur, þar af var helmingur matjessíld en slík verkun síldar hefur aukist mjög hin síðari ár. Þess vegna voru fengnir hingað skoskir leiðbeinendur í sumar en Skotar hafa löngum staðið framarlega á þessu sviði. Matjessíldin er mjög vandmeðfarin vegna þess hve lítill saltskammtur er notaður og kvartanir kaupenda hafa verið tíðar. Þess vegna hafa verið uppi hugmyndir um að byggja þrær til sjó- eða vatnskælingar á henni. Stefán Jónasson á Akureyri gerði tilraun til slíkrar kælingar í sumar og gafst vel. 200
Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu verksmiðju dr. Pauls á Siglufirði á árinu og ráku hana ásamt S.R 30. Að öðru leyti var verksmiðjukostur óbreyttur frá fyrra ári en Gránuverksmiðjan, sem hefur ekki tekið á móti síld undanfarið, hefur verið notuð til vinnslu á síldarúrgangi og fiskbeinum. Verksmiðjurnar tóku alls á móti rúmlega 500 þúsund málum á vertíðinni. Verð á nýrri síld var áfram afar lágt. Væri landað í salt var verð 4,50 - 5,50 kr. fyrir tunnuna en bræðslusíldarverðið var 2,70 - 3,00 kr. fyrir málið. Afurðaverð hefur hins vegar hækkað nokkuð. Saltsíldarverð var 16 krónur tunnan í byrjun vertíðar, lækkaði síðan í 14 krónur en eftir að vertíð lauk hækkaði það upp í 28 krónur. Sömu sögu var að segja um afurðir verksmiðjanna en umtalsverð hækkun varð bæði á mjöli og lýsi frá því í fyrra. Hagur saltenda og verksmiðjueigenda stendur því traustum fótum eftir sumarið og verkafólk getur unað hag sínum þokkalega eftir mikla og samfellda vinnu. Annars hefur ríkt mikil spenna milli atvinnurekenda og verkamanna. Auk verkfallanna, sem áður voru nefnd, skarst oft í odda milli þessara aðila og ekki alltaf af miklu tilefni. Þannig var verkfall og verkbann á 201
Siglufirði í ágústbyrjun vegna þess að verkamenn komust að því að á einu planinu starfaði maður sem var í varaliði lögreglunnar í fyrrahaust. Þetta eru eins konar eftirhreytur Gúttóslagsins 9. nóvember í fyrra en eftir hann samþykktu verkamenn að vinna eftirleiðis ekki með varaliðsmönnum. Þá hefði það einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar að síld var yfirleitt ekki söltuð á sunnudögum á Siglufirði í sumar vegna þess að saltendum ofbauð að borga verkamönnum þrjár krónur í kaup á tímann. Yfirleitt hallast menn að því að vöruvöndun í síldarsöltun fari vaxandi þessi árin þrátt fyrir það að nú er ekkert opinbert síldarmat. Söltun matjessíldar er mikið vandaverk og verkun hennar hlýtur að leiða af sér vandaðri vinnubrögð við aðra söltun. Þá hefur það líka sitt að segja að nú hefur verið gefin út ýtarleg reglugerð um tunnumerkingar. Kúfarnir á tunnunum hafa löngum verið vandamál á plönunum en nú hefur sá vandi verið leystur að mestu. Sérstökum hringum úr krossviði er smeygt ofan á tunnurnar og síðan söltuð þrjú lög í hann. Síldin í hringnum sígur svo niður í tunnuna meðan hún bíður tilsláttar. Þó að saltendur hafi komið vel út úr sumrinu veldur mikið birgðahald þeim nokkrum ama. 202
Þeir fengu mikið af tunnum um það bil sem veiði hætti svo skyndilega í haust. Þeir eiga því núna u.þ.b. 100 þúsund tunnur til notkunar á næsta ári. Þátttaka útlendinga í síldveiðum við Ísland var svipuð nú og í fyrra. Þó fækkaði mjög norskum skipum. Þau voru nú 105 en voru 167 á síðasta ári. Heildarafli útlendinganna var u.þ.b. 225 þúsund tunnur. Síld gekk inn á Austfirði eins og undanfarin ár. Í janúar var síld flutt ísuð með norsku skipi til Reykjavíkur og þaðan með "Brúarfossi" á markað í Englandi. Þessi tilraun gaf nokkuð góða raun þótt síldin væri orðin heldur gömul þegar hún komst á markað og þykir sýnt að verði framhald á þessum útflutningi þá verði að flytja síldina beint frá Austfjörðum. Guðmundur Albertsson gerði þessa tilraun. Mjög háværar kröfur eru nú uppi um það að byggðar verði fleiri síldarverksmiðjur. Allir eru sammála um það að reynsla síðustu ára sýni að ekkert samræmi sé milli veiðigetu flotans og bræðslugetunnar í landi en hins vegar er hart deilt um það hvar eigi að reisa verksmiðju næst. Margir staðir eru nefndir en flestir virðast á þeirri skoðun að brýnast sé að fá nýja verksmiðju við Húnaflóa því að þar er oft góð veiði en tæpast á færi smáskipa að 203
sigla fyrir Horn til Hesteyrar eða austur til Siglufjarðar. H.R. Síld í tölum (hdr.) H.R. Þættir úr síldarsögu (hdr.) Ísafold og Vörður 31/1, 10/8, 25/10 og 6/12 1933 Ægir 1933 og 1934
1934 Fyrstu mánuði ársins var töluverð síldveiði á Austfjörðum. Síldin var veidd þar jöfnum höndum í snurpunætur og landnætur en sá útvegur má muna fífil sinn fegri og er þar margt úr greinum gengið. Með nýjum og stórum landnótum hefði eflaust mátt veiða miklu meira. Þessi síld var ákaflega blönduð hvað stærð snerti og hentaði því illa til söltunar. Hún var því flutt ísuð á markað erlendis, einkum í Þýskalandi. Þýskir og íslenskir togarar önnuðust flutningana og voru fluttir út 11 farmar á tímabilinu frá janúar og fram í mars. Alls voru flutt út með þessum hætti 1.124 tonn. Um sumarið var einnig mikil síld inni á Austfjörðum en hún var smá og erfitt að nýta 204
hana. Á Eskifirði og Reyðarfirði, þar sem aflinn var mestur, eru allar fleytur svo smáar að mönnum fannst ekki tilvinnandi að flytja síldina til bræðslu á Norðfirði. Í vor var talsvert um síld við Vestmannaeyjar og Grindavík og var hún veidd í lagnet til beitu. Þá fékkst einnig síld í reknet í Faxaflóa. Síldveiðar fyrir Norðurlandi hófust í júlíbyrjun. Í heild gengu veiðarnar vel en oft urðu frátafir vegna erfiðrar tíðar. Íslendingar áttu u.þ.b. 130 skip á síldveiðum en þar af voru 30 bátar undir 20 lestum að stærð. Togarar voru óvenju fáir eða átta talsins. Aflahæstur var togarinn "Þórólfur" með rúmlega tólf þúsund mál. Heildarsöltun á landinu öllu nam u.þ.b. 217 þúsund tunnum, þar af voru 71 þúsund tunnur matjessíld. Á undanförnum árum hefur tekist að finna þessari síld allgóðan markað í Póllandi og Þýskalandi en á ýmsu hefur gengið með söluna. Saltendur, sem hafa síðustu tvö ár verið frjálsir undan oki Síldareinkasölunnar, hafa undirboðið hver annan og hafa nú leitað á náðir ríkisvaldsins til að koma markaðsmálum í lag. Í sumar voru gefin út bráðabirgðalög um íhlutun ríkisvaldsins í síldarútflutningi. Samkvæmt þeim var Samlagi íslenskra matjessíldarframleiðenda á Siglufirði veittur 205
einkaréttur á útflutningi matjessíldar og þurfa utansamlagsmenn að fá útflutningsleyfi hjá Samlaginu ætli þeir að flytja út matjessíld. Verð á síld til söltunar var 5 krónur tunnan í byrjun vertíðar en hækkaði þegar leið á sumarið og komst hæst í 11 - 12 krónur fyrir tunnuna. Verð á bræðslusíld var óbreytt frá fyrra ári eða þrjár krónur fyrir málið nema hjá Sólbakkaverksmiðjunni sem greiddi 3,50 krónur fyrir málið vegna fjarlægðar sinnar frá miðunum. Verksmiðjurnar tóku alls á móti tæplega 460 þúsund málum, þar af voru 93 þúsund mál keypt af erlendum skipum. Það eru aðallega "norsku" verksmiðjurnar í Krossanesi og á Raufarhöfn sem kaupa af útlendingum. Verksmiðjan á Sólbakka, sem er í eigu Útvegsbankans, hefur undanfarin sumur verið leigð Kveldúlfi h/f. Í vor tókust ekki samningar milli Kveldúlfs og bankans og stóð í þrefi fram yfir 20. júlí. Ríkissjóður tók þá verksmiðjuna leigunámi og fól S.R. rekstur hennar. Af þessum ástæðum sendi Kveldúlfur aðeins helming skipa sinna til síldveiða þar sem þau nægja til að sjá Hesteyrarverksmiðjunni fyrir hráefni. 206
Annars virðist verksmiðjurekstur vera vaxtarbroddurinn í íslenskum síldarútvegi um þessar mundir. Síldarverksmiðjur ríkisins hafa verið með nýja verksmiðju í undirbúningi og voru uppi miklar deilur um hvar eigi að byggja hana. Helstu staðir, sem heyrðust nefndir, voru Eyri í Ingólfsfirði, Djúpavík, Hindisvík á Vatnsnesi, Skagaströnd, Siglufjörður, Eyjafjörður og Raufarhöfn. Að lokum stóð valið milli Eyrar og Siglufjarðar og hafði Siglufjörður betur enda hafði Siglufjarðarbær boðið S.R. ýmis lén ef verksmiðjan yrði byggð þar. Bygging verksmiðjunnar hófst í ár og á hún að hefja síldarmóttöku á næsta ári. Sömu sögu er að segja af verksmiðju Djúpavíkur h/f sem er nýstofnað fyrirtæki. Það hóf í sumar byggingu verksmiðju á Djúpavík, hún á að taka til starfa á næsta ári. Siglufjarðarbær hefur fest kaup á eignum Goos, þar á meðal verksmiðjunum báðum og voru þær í gangi í sumar. Nokkrir útgerðarmenn við Eyjafjörð keyptu gömlu Dagverðareyrarverksmiðjuna í vor, endurbyggðu hana og bjuggu nýjum tækjum svo að hún gat hafið síldarmóttöku í ágúst. Í Krossanesi var bætt við tækjum svo að afkastageta verksmiðjunnar jókst um 1.000 mál á sólarhring. Loks má geta þess að nú hafa 207
Austfirðingar eignast síldarverksmiðju. Lítil beinamjölsverksmiðja á Norðfirði hefur verið búin síldarvinnslutækjum og þó að afköst hennar séu lítil bætir hún úr mjög brýnni þörf því að engin önnur verksmiðja er austan Raufarhafnar. Þessi verksmiðja tók á móti 5 þúsund málum í sumar. Allt bendir því til að á næsta sumri verði mun auðveldara fyrir síldveiðiskipin að losna við afla en verið hefur undanfarin ár. Útlendingar voru á Íslandsmiðum að venju. Norðmenn voru þar umsvifamestir, sendu nú 133 skip til veiða og hefur þeim fjölgað um 28 skip frá síðasta ári. Þeir hafa nú byrjað verkun matjessíldar um borð í veiðiskipunum. Þeir gerðu í fyrra tilraunir með þetta í smáum stíl en nú í sumar hófust þeir handa í alvöru og verkuðu 13.500 tunnur á þennan hátt. Þeir fóru að dæmi Íslendinga og réðu sér skoska sérfræðinga til að fylgja þeim fyrstu skrefin á þessu sviði. Ekki þarf að leiða getum að því að þessari síld er ætlað að keppa við hina íslensku í Póllandi og Þýskalandi. Svíar hafa einnig aukið þátttöku í veiðunum en þeir sendu hingað 38 skip. Finnar, Eistlendingar og Danir höfðu svipað úthald og í fyrra. Hinir síðastnefndu sendu hingað "Merkur", 1.200 tonna skip frá Esbjerg. Því 208
stjórnar Godtfredsen. Þjóðverjar sendu nú leiðangur á Íslandsmið en það hafa þeir ekki gert um langt árabil. Þeir sendu hingað móðurskipið "Diönu" sem er 7 - 8.000 tonna skip og veiðiskipin "Birgitte Sturm" og "Vergelin", auk þess sem tvö nótabrúk fylgdu móðurskipinu sjálfu. Norskir síldarkarlar stjórna bæði veiði og verkun hjá Þjóðverjunum. Alls voru 190 erlend skip á veiðum hér við land og fengu 261 þúsund tunnur. Þetta er 36 þúsund tunnum meira en þeir fengu í fyrra. Í heildina verður að telja þessa síldarvertíð allvel heppnaða hjá flestum aðilum. Afurðaverð er að vísu fremur lágt en yfirleitt tekst mönnum að láta enda ná saman bæði í veiðum og vinnslu og verkafólk unir sæmilega við sinn hlut þótt kaupið sé lágt vegna þess að ágætur afli leiðir af sér mikla vinnu í landi. En að fleiru þarf að hyggja en afkomunni á síldarvertíðinni. Dagana 26. - 27. október í haust gekk óvenjulegt fárviðri yfir landið. Veðrið var harðast á Norðurlandi og varð Siglufjörður einna verst úti. Sjór gekk yfir alla Eyrina og flæddi inn í kjallara og olli stórtjóni á eignum fólks. Um tíma mátti fara um sumar göturnar á bátum. Hver einasta bryggja, allt utan úr Bakka suður á suðausturhorn 209
Eyrarinnar, eyðilagðist eða stórskemmdist , að bryggjum Síldarverksmiðja ríkisins undanskildum. Þá urðu einnig miklar skemmdir á Anlegginu. Eignir þessar eru misvel tryggðar og er ekki að efa að mikið af tjóninu lendir á eigendunum. Það þarf aldeilis að taka til hendi við viðgerðir og endurbyggingu í vetur eigi allar bryggjur að verða til reiðu á komandi vori. Í ár voru sett lög um Síldarútvegsnefnd og á hún að taka til starfa fyrir næstu síldarvertíð. Mönnum er það nú ljóst að þó að Síldareinkasalan gæfist ekki vel þá verður að skipuleggja síldarútflutning með einhverjum ráðum. Saltfiskútflutningur hefur nú verið í höndum lögverndaðra samtaka framleiðenda í tvö ár og virðist það gefa góða raun. Nú er hugmyndin að beita svipuðum aðferðum við útflutning á síld. H.R. Síld í tölum (hdr.) H.R. Þættir úr síldarsögu (hdr.) Ísafold og Vörður 30/10 1934 K.S.H. Norske Islandsfiskere ... s. 215 Ægir 1934 og 1935
210
1935 Síldin var erfið viðfangs á þessu ári og gengu veiðar og vinnsla hörmulega miðað við það sem verið hefur síðustu ár og stóraukna sókn og mikinn viðbúnað í landi. Í mars varð vart við mikið af millisíld á Selvogsbanka, í apríl var mikið af smásíld í Ísafjarðardjúpi og í lok maí sáust miklar vöður úti fyrir Siglufirði. Menn voru því að vonum fullir bjartsýni um góða og fengsæla vertíð. Verksmiðjur voru nú fleiri í landi en áður og miklu fleiri skip héldu til veiða. Mest munaði auðvitað um togarana en tuttugu togarar voru á síld í sumar. Alls voru 177 íslensk skip á veiðum en margar eru fleyturnar smáar, 41 bátur var minni en 20 tonn. Algengt er að minnstu bátarnir séu tveir eða þrír um sömu nótina og eru þá nefndir tvílembingar eða þrílembingar eftir því sem við á. Það vantaði heldur ekki að byrjunin lofaði góðu. Frá 25. júní og fram til 20. júlí var prýðilegur afli og fylltust þá allar þrær verksmiðjanna. En um 20. júlí kom reiðarslagið. Síldin hvarf gersamlega af miðunum og var sama þótt barið væri út um allan sjó, hvergi fékkst neitt að heitið gæti. Margir bátanna skiptu þá yfir á 211
reknet en afli var líka tregur í þau þótt nokkuð reyttist upp á löngum tíma með þolgæði og þrautseigju. Þegar komið var nokkuð fram í ágúst reyndu saltendur og útgerðarmenn að bjarga sér úr ógöngum með því að senda skipin til reknetaveiða í Faxaflóa og hófst söltun í Faxaflóahöfnum um miðjan ágúst. Ágætur afli var svo í Faxaflóa fram í október og eftir það sunnan Reykjaness. Síldin gekk þá alveg upp að fjöruborði austan Ölfusárósa. Á þessu gekk fram í desember en þá hættu bátarnir veiðum. Alls voru liðlega 100 bátar á reknetaveiðum syðra. Söltun var leyfð á Norðurlandi um sömu mundir og síldin hvarf eða 22. júlí. Heildarsöltun nam aðeins 15 þúsund tunnum í júlílok, mánuði síðar var búið að salta 65 þúsund tunnur og þegar upp var staðið á haustdögum kom í ljós að afrakstur sumarsins var 82 þúsund tunnur. Þetta er gífurlegt áfall fyrir alla sem málið snertir. Útgerðarmenn og sjómenn bera lítið úr býtum en flestir hafa þó fengið eitthvað fyrir bræðslusíld og á það má líta að þeir sem eitthað reyttu í reknet síðsumars fengu mjög gott verð fyrir síldina. Hagur saltenda er bágur því að þó að saltsíldarverð hækkaði 212
myndarlega á haustdögum nægir það hvergi til að greiða fastakostnað vegna þess hve söltun var lítil. Verst er þó staða verkafólksins sem flykkist til síldarbæjanna fyrri hluta sumars í von um mikla vinnu og góðar tekjur. Allar þessar vonir hafa brugðist og fólkið hefur orðið að sitja auðum höndum sumarlangt. Þar sem ástandið er verst hafa menn varla verið matvinnungar. Það var því ekki að ástæðulausu að ríkisstjórnin hlutaðist til um að síldarfólkið fengi ókeypis heimflutning á haustdögum. Þótt náttúran skammtaði síld heldur stjúpmóðurlega í ár reyndu menn söltun víðar en verið hefur undanfarin ár. Síld var nú söltuð á Skagaströnd og Ólafsfirði en á hvorugum staðnum hefur síld verið söltuð áður svo nokkru nemi. Eins og áður var nefnt var allgóð veiði í reknet í Faxaflóa síðsumars og á haustdögum. Nokkrir bátar stunduðu þar veiðar sumarlangt og öfluðu síldar fyrir íshúsin. Um miðjan ágúst, þegar saltendum varð hörmungin nyrðra ljós, hófu þeir söltun á ýmsum stöðum við Faxaflóa. Flest var mjög vanbúið á þessum söltunarstöðvum, verkfæri og útbúnaður allur ófullkominn og mikið af óvönu söltunarfólki. 213
Allt blessaðist þetta þó, m.a. vegna þess að hér var um reknetasíld að ræða sem berst yfirleitt hægar og jafnar að en snurpunótasíld. Hér var því hægt að fara hægar í sakirnar og vanda framleiðsluna eins og mögulegt var. Engum dylst þó að "Faxasíldin", sem svo er nefnd, stenst norðlenskri saltsíld ekki snúning hvað gæði snertir. Mest var saltað af Suðurlandssíld í Hafnarfirði eða u.þ.b. 25 þúsund tunnur en heildarsöltun syðra nam 52 þúsund tunnum. Síldarbræðsla gekk miklu skár á árinu en söltunin. Verksmiðjurnar, sem að vísu eru fleiri og afkastameiri nú en áður, tóku alls á móti u.þ.b. 366 þúsund málum. Þetta er að vísu nokkuð minna en á síðasta ári en ekki er um neitt hrun að ræða. Síldarverksmiðjur ríkisins færast mjög í aukana um þessar mundir. Þær tóku nú í notkun nýja verksmiðju á Siglufirði. Þá hafa þær keypt verksmiðjuna á Sólbakka og Raufarhafnarverksmiðjuna. Þá tók ný og glæsileg verksmiðja á Djúpavík til starfa á árinu. Hún er í eigu sunnlenskra togarafélaga. Verksmiðjurnar greiddu í sumar 4,30 kr. fyrir málið af síld til þeirra skipa sem lönduðu öllum afla sínum í bræðslu en 4 krónur til hinna sem einnig lönduðu í salt. Afurðaverð fór hækkandi á árinu, mjölverð 214
stóð að vísu í stað en lýsisverð hækkaði mjög myndarlega. Síldarverksmiðjur ríkisins gerðu merkilegar tilraunir á árinu á Sólbakka og Siglufirði. Þegar ljóst varð síðsumars að veiðarnar brygðust svo herfilega sem raun bar vitni voru 6 togarar sendir til karfaveiða fyrir verksmiðjurnar. Veiðarnar gengu vel og bræddu verksmiðjurnar alls liðlega 6.000 tonn af karfa. Þessi vinnsla gekk vel og má vel vera að þarna sé fundið framtíðarverkefni fyrir síldarverksmiðjur utan síldartíma en karfi hefur nánast ekkert verið nýttur fram til þessa. Þórður Þorbjarnarson fiskiðnfræðingur á allan heiður af þessari vinnslu en fyrir mörgum árum gerði Kristján Torfason smávægilegar tilraunir á þessu sviði í verksmiðjunni á Sólbakka. Margir telja að nú hafi nóg verið byggt af verksmiðjum í bili en framtíðin verður að skera úr um það hvort þörf sé á fleiri og stærri verksmiðjum. Afkastageta núverandi verksmiðja er sem hér segir: S.R., Sólbakka Kveldúlfur h/f, Hesteyri Djúpavík h/f, Djúpavík S.R. 30, Siglufirði 215
1.100 mál/sólarhr. 1.300 2.400 2.300
S.R. Dr. Paul, Siglufirði S.R.N., Siglufirði Goos, Siglufirði Dagverðareyrarverksmiðjan Ægir h/f, Krossanesi S.R., Raufarhöfn
1.300 2.300 700 1.000 3.000 500
Alls eru þetta 15.900 mála afköst en þá eru ótaldar Gránuverksmiðjan, sem hefur verð rekin mjög stopult undanfarin ár, og Fóðurmjölsverksmiðja Norðfjarðar sem er mjög smá í sniðum og í mikilli fjarlægð frá hefðbundnum síldarmiðum. Afkastageta í síldarsöltun verður ekki metin með sama hætti og í bræðslunni en margt bendir til að tilhögun söltunarinnar sé að breytast. Siglufjörður hefur borið höfuð og herðar yfir aðra söltunarstaði og svo mun eflaust verða um langa hríð. En nú bendir margt til að söltun færist í einhverjum mæli til annarra sjávarplássa á Norðurlandi. Staðir eins og Skagaströnd, Ólafsfjörður, Dalvík og Húsavík eru þegar komnir af stað með söltun eða eru að hefjast handa og eflaust fylgja fleiri í kjölfarið. Hörmungarsumarið í sumar flýtir örugglega fyrir þessari þróun enda er skiljanlegt að heimafólk í þessum útgerðarbæjum vilji fremur salta á heimavelli 216
en halda út í óvissuna á hinum hefðbundnu síldarstöðum. Undanfarin ár hafa saltendur haft frjálsar hendur varðandi útflutning og hefur nokkuð borið á undirboðum meðal þeirra, einkum í sölu matjessíldar. Til að ráða bót á þessu voru sett á síðasta ári lög um Síldarútvegsnefnd. Nefndin, sem tók til starfa 1. mars á þessu ári, var löggilt sem einkaútflytjandi matjessíldar og hafði einnig hönd í bagga varðandi ýmis atriði söltunar. Segja má að nefndin hafi farið vel af stað þótt vindur væri nokkuð í fang vegna lítillar söltunar en óvenjulega hátt síldarverð kom nefndinni nokkuð til góða. Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda hefur annast saltfiskútflutning frá stofnun árið 1932 og er hið nýja skipulag saltsíldarútflutnings að sumu leyti sótt til smiðju þeirra SÍF manna. Reynsla næstu ára verður að skera úr um það hvort hér er um framtíðarskipulag að ræða. Útlendingar voru að venju á síldveiðum hér við land. Þeir voru á heldur færri skipum en áður og urðu slyppifengir svo sem vænta mátti. Alls var hér 171 skip sem fékk u.þ.b. 105 þúsund tunnur auk þess sem landað var hér á landi í bræðslu. Á síðasta ári voru 190 skip á miðunum og fengu 261 þúsund tunnur. Norðmenn bera sig þó allvel og telja afla sinn í 217
ár álíka verðmikinn og í fyrra vegna þess hve saltsíldin hefur hækkað í verði. Aukin áhersla hefur verið lögð á síldarrannsóknir hin síðustu ár og er Árni Friðriksson fremstur í flokki þeirra sem þá iðju stunda. Hann fór í vor í allmikinn leiðangur í þessu skyni á varðskipinu "Þór". Í leiðangrinum var reynd síldarbotnvarpa úti fyrir Suðurlandi en þær tilraunir báru ekki árangur. Árni hefur gert sér far um að leita að hrygningarstöðvum Norðurlandssíldarinnar. Honum hefur ekki tekist að finna þær og nú hefur hann sett fram þá kenningu að þær séu alls ekki við Ísland heldur við Vestur- Noreg. Árni tekur þó fram að enn sé þetta aðeins tilgáta og þurfi ýtarlega rannsókn til að leiða í ljós hvort hún stenst eða ekki. Náttúruhamfarir gerðu síldarútvegsmönnum á Siglufirði ekki skráveifu á þessu ári eins og í fyrra en nágrannar þeirra í Ólafsfirði urðu fyrir þeim mun þyngri búsifjum. Þegar stutt var til síldarvertíðar, hvítasunnudagsmorgun 9. júní, gerði þar ofsaveður sem sópaði stórum hluta Ólafsfjarðarflotans upp í fjöru. Alls voru 29 bátar á legunni en 19 þeirra ýmist sukku eða þá rak á land. Fimm þessara báta voru "stórir" á mælikvarða Ólafsfirðinga og stunduðu að jafnaði síldveiðar á sumrum. Einn bátanna 218
eyðilagðist alveg en hinir náðust að lokum á flot og komust til veiða eftir kostnaðarsama viðgerð. Síldarvertíðin gekk þeim að mestu úr greipum. Þetta óveður heitir Hvítasunnuhvellurinn á máli Ólafsfirðinga. Friðrik Olgeirsson: Hundrað ár í horninu, s. 230 - 233 H.R. Síld í tölum (hdr.) H.R. Þættir úr síldarsögu (hdr.) Ísafold og Vörður, 15/8, 22/8, 8/10, 6/11 1935 K.S.H. Norske Islandsfiskere, s. 256 Sophus A. Blöndal: Starfsemi Síldarútvegsnefndar 1935 Ægir 1935 og 1936
1936 Síldveiðar gengu mun betur í ár en hörmungarsumarið í fyrra. Veiðarnar hófust frekar seint en lengi stóð í samningaþófi milli útgerðarmanna og sjómanna um kjör hinna síðarnefndu. Um 20. júní varð vart við mikla síld við Langanes og viku síðar á Grímseyjarsundi. Var nú ágæt veiði fram í júlímánuð en þá hægði löndunarbið hjá verksmiðjunum nokkuð á veiðinni. Um miðjan ágúst dró mjög úr veiði og skiptu þá margir 219
bátanna yfir á reknet. Hátt á annað hundrað skip lagði stund á veiðarnar með 149 nætur en talsvert var um tvílembinga og jafnvel þrílembinga. Átján togarar tóku þátt í veiðunum og 30 línuveiðarar. Alls voru saltaðar tæplega 250 þúsund tunnur og brædd rúmlega ein milljón hektólítra. Báðar þessar tölur eru u.þ.b. tvöfalt hærri en á síðasta ári. Siglufjörður var að venju langhæsti löndunarstaðurinn en þar voru saltaðar 140 þúsund tunnur og um hálf milljón hektólítra fór í siglfirsku bræðslurnar. Eins og venjulega fjölmenntu erlendir fiskimenn á Íslandsmið en alls voru 245 erlend skip að veiðum og fengu þau u.þ.b. 350 þúsund tunnur. Norðmenn voru hér stórtækastir á 203 skipum sem fengu tæplega 250 þúsund tunnur en auk þeirra voru á miðunum skip frá Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Þýskalandi, Eistlandi og Lettlandi. Aflahæsta íslenska skipið var togarinn "Garðar" með rúmlega 28 þúsund hektólítra. Þar sem síldin veiddist fremur austarlega í sumar urðu Vestfjarðaverksmiðjurnar nokkuð afskiptar með afla. Þar sem tilraunir til bræðslu á karfa á síðasta ári gáfu góða raun var sú starfsemi aukin til muna nú í sumar. Togarar lönduðu alls 32 þúsund tonnum af 220
karfa til bræðslu í verksmiðjunum. Þar af var u.þ.b. 12.500 tonnum landað í Sólbakkaverksmiðjuna Það slys varð á síldarmiðunum norður af Tjörnesi 9. ágúst að línuveiðarinn "Örn" frá Hafnarfirði fórst með allri áhöfn, 19 mönnum. Talsverð síldveiði var í Faxaflóa og við Suðurland. "Aðalbjörg" frá Reykjavík var á reknetum í maímánuði og fékk þokkalegan afla í Faxaflóa og Jökuldjúpi. Að aflokinni síldarvertíð nyrðra hóf fjöldi báta reknetaveiðar við Suðurland. Mjög góður afli var við Grindavík og með ströndinni austur fyrir Ölfusárósa í síðustu viku október. Erfiðlega hefur gengið að selja Suðurlandssíldina enda þykir mörgum hún standa Norðurlandssíldinni nokkuð að baki. Alls voru þó saltaðar 27.600 tunnur af Suðurlandssíld, þar af keyptu Rússar 19 þúsund tunnur. Sú sala hafði nokkur eftirmál í för með sér þar sem Rússar kvörtuðu undan lélegri síld og óvönduðum umbúðum. Þessi mál voru að lokum leyst með nokkurri eftirgjöf í verði. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1936 og 1937
221
1937 Mestan hluta þessa árs varð síldar vart einhvers staðar við landið. Smásíld var inni á fjörðum eystra en lítið veitt af henni nema helst í Mjóafirði þar sem talsvert var veitt í landnót. Í maímánuði veiddist smásíld á Pollinum á Ísafirði og sama var uppi á teningnum á Akureyrarpolli þar sem verulegur afli fékkst í landnætur. Þessi gömlu veiðarfæri halda því gildi sínu þar sem aðstæður eru góðar. Viðbúnaður vegna veiðanna fyrir Norðurlandi var meiri að þessu sinni en nokkru sinni fyrr. Alls tóku 211 skip þátt í veiðunum með 167 nætur. Undanfarin ár hafa mörg hinna erlendu veiðiskipa, einkum þau finnsku, verið með vélknúna nótabáta. Margir íslensku togaranna tóku nú upp þessa tækni og leystu þar með háseta sína undan hinum lýjandi róðri, jafnframt því sem veiðivonin jókst til muna. Þá leit önnur tækninýjung dagsins ljós. Íslenskur hagleiksmaður, Gestur Óskar Friðbergsson, hefur smíðað sjálfvirka lensidælu fyrir nótabáta. Austur í nótabátum hefur alltaf verið nokkurt vandamál vegna þess að talsverður sjór kemur jafnan inn með 222
nótinni þegar hún er dregin upp í bátana og ágjöf getur líka stundum verið umtalsverð. Nú er þetta vandamál að mestu úr sögunni. Ekki létu menn heldur deigan síga í landi við að undirbúa móttöku síldarinnar. Undanfarin ár hefur takmörkuð bræðslugeta jafnan tafið veiðarnar nokkuð þegar mest hefur borist að landi. Nú var tekið myndarlega á þessu máli. Afköst Djúpavíkurverksmiðjunnar voru tvöfölduð og 4.800 mála verksmiðja var byggð á Hjalteyri. Sjálfvirkir löndunarkranar eru við báðar verksmiðjurnar. Þá voru byggðar litlar verksmiðjur á Akranesi, Húsavík og Seyðisfirði og loks er örlítil bræðsla á Eyri í Ingólfsfirði. Þá er það nýjung í sambandi við bræðsluna að togarinn "Reykjaborg" var nú búinn tækjum til bræðslu síldar um borð. Alls voru unnin þar 3.188 mál. Veiðarnar fyrir Norðurlandi byrjuðu óvenju snemma í ár en 7. júní var vaðandi síld á Skagagrunni og við Langanes. Um miðjan júní var góð veiði og upp frá því til ágústloka. Veiðin nýttist óvenju vel vegna þess að síldin dreifðist allt frá Bakkaflóa í austri vestur að Ísafjarðardjúpi. Þrátt fyrir þetta og aukin afköst verksmiðjanna hamlaði löndunarbið veiðum, oft svo dögum skipti. Flest skipin hættu veiðum viku af september. Þá höfðu 223
verksmiðjurnar tekið á móti 2.158.000 hektólítrum eða tvöfalt meira en 1936 og fjórfalt meira en 1935. Alls voru saltaðar 211 þúsund tunnur eða heldur minna en á síðasta ári. Um það bil fjórðungur saltsíldarinnar var reknetasíld. Aflahæsta skipið á vertíðinni var togarinn "Tryggvi gamli" sem fékk alls 23.595 mál og tunnur. Eitt síldarskip, línuveiðarinn "Drangey" frá Akureyri, sökk skammt undan Raufarhöfn. Allir skipverjar björguðust. Útlendingar stunduðu veiðar að venju. Hér voru sömu þjóðir og í fyrra að því undanskildu að nú sátu Þjóðverjar heima. Útlendingarnir fengu rúmlega 350 þúsund tunnur. Þar af fengu Norðmenn 245 þúsund tunnur og Finnar 65 þúsund. Alls tóku þátt í þessum veiðum útlendinga 274 skip. Sáralítið var veitt við Suðurland að þessu sinni. Síðustu tvö haust hefur talsvert verið veitt en nú var eftirspurn svo lítil og verðið svo lágt að veiðar borguðu sig engan veginn, aðeins 726 tunnur voru saltaðar. Flestir eru ánægðir með síldveiðarnar í heild á árinu enda var afli meiri en dæmi eru til áður. En menn vilja meira. Fjórðungsþing Fiskifélagsins ályktuðu öll um síldveiðimál. Helstu kröfur þeirra voru um afkastaaukningu verksmiðjanna, einkum var þeim 224
Raufarhafnarverksmiðjan ofarlega í huga. Þar eru afköstin 1.400 mál á sólarhring en Fiskifélagsmenn vilja auka þau í 5.000 mál. Annars var heildarbræðslugeta allra verksmiðjanna 28.320 mál á sólarhring í lok ársins. Meðal merkra nýjunga, sem komu fram á þessu ári, má nefna námskeið sem Síldarútvegsnefnd gekkst fyrir og var ætlað síldarverkunarfólki. Námskeiðið var bæði bóklegt og verklegt, aðalkennari Magnús Vagnsson. Sérstök áhersla var lögð á matjesverkun. Að námskeiðinu loknu var stofnað Landsamband síldarverkunarmanna. Markmið sambandsins er að sækja fram til aukinnar fagmennsku innan greinarinnar. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1937 og 1938
1938 Rétt eins og í fyrra varð síldar vart einhvers staðar við landið mestan hluta ársins. Smásíld var inni á fjörðum eystra en var lítið veidd 225
nema helst á Mjóafirði og Seyðisfirði. Þá var góður smásíldarafli um vorið á Ísafjarðarpolli og Akureyrarpolli. Færeyska skipið "Polarstjarnan" fann stóra torfu vaðandi út af Rauðanúpi í maílok. Skipverjar köstuðu neti í torfuna og fengu 2.000 stykki. Bátur lét reka á vegum Síldarútvegsnefndar NA af Siglunesi 7. júní og fékk lítilræði af 9,5 % feitri síld. Skipin tóku nú að þyrpast norður og 10. júní fékkst fyrsta síldin í snurpunót. Lítið aflaðist framan af sumri vegna þess að tíðarfar var einstaklega stirt og 14. júní gerði skyndilega norðvestan rok svo að skip sem voru að háfa urðu að hleypa niður úr nótunum. Tuttugasta og sjöunda júlí var afli aðeins fjórðungur þess sem fengist hafði á sama tíma árið áður. En um það leyti brá til betri tíðar og nú hófst samfelld aflahrota sem stóð til 18. ágúst. Best veiddist á Skjálfandaflóa og við Tjörnes. Flest snurpunótaskipin hættu veiðum viku af september en reknetabátar héldu út einn mánuð til viðbótar og öfluðu ágætlega. Þátttaka í veiðunum var heldur minni en í fyrra eða 185 skip á móti 211 á síðasta ári. Nú voru 25 togarar á síldveiðum en 32 árið áður. Aflahæsti togarinn var "Tryggvi gamli" með 16.250 mál og tunnur, hæsti línuveiðarinn var 226
"Jökull" frá Hafnarfirði með 15.099 mál og tunnur og hæsti mótorbáturinn "Stella" frá Norðfirði með 12.387 mál og tunnur. Heildarsöltun Norðurlandssíldar á sumrinu nam 338.641 tunnu, þar af nam söltun á Siglufirði 253.618 tunnum. Þetta er mesta sumarsöltun sem þekkst hefur frá upphafi. 264 þúsund tunnur voru snurpunótasíld en 74.600 reknetasíld. Hæsta söltunarstöðin var Söltunarstöð Ingvars Guðjónssonar með 29.536 tunnur. Líkur benda til að þetta sé hið mesta sem saltað hefur verið á einni stöð frá upphafi. Bræðslusíld var nokkru minni þetta árið en í fyrra eða 1,5 milljónir hektólítra á móti tæplega 2,2 milljónum í fyrra. SRN á Siglufirði hafði verið aukin og bætt þannig að sólarhringsafköst jukust um 2.000 mál. Síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði tóku alls á móti 545 þúsundum hektólítra en Kveldúlfur h/f á Hjalteyri 312 þúsundum. Verksmiðjan þar hefur enn verið stækkuð og hefur nú langmest sólarhringsafköst einstakra verksmiðja eða 7.200 mál. Reknetaveiði var talsvert stunduð í Faxaflóa um haustið og reyndar allt fram í desember. Síldin var afar horuð og þess vegna var minna saltað en aflabrögð gáfu tilefni til. Alls voru 227
saltaðar rúmlega 9.000 tunnur af Faxasíld en í fyrra var söltunin innan við 1.000 tunnur. Um það bil 9.500 hektólítrar fóru í bræðslu á Akranesi. Útlendingar sóttu á Íslandsmið að venju en af miklu minni krafti en áður. Eystrasaltsþjóðirnar hafa nú gengið úr skaftinu en Norðurlandaþjóðirnar fjórar sækja enn á þessi mið. Heildarafli þeirra var 253 þúsund tunnur sem er 100 þúsund tunnum minni afli en í fyrra. Norðmenn áttu 182 þúsund tunnur af þessum afla. Í sumar höfðu Norðmenn tvö flutningaskip í förum með bræðslusíld frá Íslandsmiðum til Noregs. Þessi nýbreytni gafst vel og er sennilegt að þeir haldi þessu áfram. Í sumar var nokkur áhersla lögð á síldarleit úr lofti. Vél Flugfélags Akureyrar, TF - Örn flaug nokkrar ferðir til leitar en einnig var notuð dönsk vél sem var um borð í varðskipinu "Hvidbjörnen". Ekki eru menn enn ánægðir með bræðslugetuna og nú hefur stjórn Síldarverksmiðja ríkisins lagt til að 5 þúsund mála verksmiðja verði byggð á Raufarhöfn. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1938 og 1939
228
1939 Síldar varð síður vart á grunnslóð en verið hefur síðustu ár. Þó reyttist svolítið af síld á Ísafjarðarpolli um vorið og í Dýrafirði og á Akureyrarpolli um haustið. Veiði Norðurlandssíldar hófst óvenju snemma í ár en fyrsta snurpunótasíldin fékkst við Langanes 25. maí. Hugur útvegsmanna og sjómanna stóð frekar til síldveiða nú en verið hefur oft áður þar sem þeir áttu von á hærra síldarverði. Alls tóku 225 skip með 184 nætur þátt í veiðunum eða fleiri en nokkru sinni fyrr. Togarar voru 25 eins og á síðasta ári. Veiðin hófst eins og áður sagði fyrir mánaðamótin maí - júní en síðan mátti heita alger ördeyða allan júnímánuð. Það var reyndar ekki fyrr en 7. júlí sem veiði tók að glæðast á ný. Þann dag hófst mikil veiði á Þistilfirði og um vikutíma fékkst prýðisgóður afli á svæðinu frá Langanesi suður til Vopnafjarðar. Vegna þess hve löndunarmöguleikar eru takmarkaðir á austursvæðinu áttu minni bátarnir erfitt með að nýta sér veiðina en Raufarhafnarþrær fylltust strax á fyrstu dögum hrotunnar. Síðari hluta júlímánaðar tók fyrir þessa veiði en snemma í ágúst fékkst síld við Skaga og á 229
Húnaflóa. Síldarleit var stunduð með flugvél í sumar og 20. ágúst bar hún ríkulegan árangur en þann dag fann vélin mikla síld út af Gjögrum og á Skjálfandaflóa og var síðan góð veiði fram í september. Fjöldi báta reyndi reknet síðsumars og um haustið en aflabrögð voru yfirleitt léleg. Aflahæsta síldveiðiskipið á vertíðinn var togarinn "Skutull" frá Ísafirði með tæp 14 þúsund mál og tunnur, hæsti línuveiðarinn "Jökull" frá Hafnarfirði og hæstur mótorbáta var "Dagný" frá Siglufirði með svipaðan afla. Síldarverksmiðjurnar tóku á móti 1.169.830 hektólítrum sem eru.þ.b. 360 þúsund hl minna en í fyrra. Alls voru saltaðar 247.769 tunnur, þar af u.þ.b. 165 þúsund tunnur á Siglufirði. Söltunarmet var sett 21. ágúst en þann sólarhring voru saltaðar 26.479 tunnur á landinu öllu. Þó að afli sé minni en í fyrra er þessi síldarvertíð heldur góð vegna þess að afurðaverð hefur farið mjög hækkandi. Norðurlandaþjóðirnar sendu 198 skip á Íslandsmið í sumar. Norðmenn voru stórtækastir að venju með 150 skip. Útlendingar fengu alls 253 þúsund tunnur. Talsverðar síldveiðar voru stundaðar í Faxaflóa fram eftir sumri og svo um haustið. Einkum voru það bátar frá Akranesi og 230
Keflavík sem stunduðu þessar veiðar. Magnús Andrésson keypti síldina og seldi hana ísaða í Þýskalandi. Alls voru fluttir þannig út 13 farmar eða 13.500 tunnur. Um haustið voru saltaðar u.þ.b. 12.500 tunnur af Faxasíld en sú síld sem var ekki söltunarhæf var sett í verksmiðjuna á Akranesi, alls 13 - 14 þúsund mál. Kröfur um meiri bræðslugetu, aukið þróarrými og auðveldari löndun eru alltaf jafnháværar. Þar sem Norðurlandssíldin fékkst austar en áður var hlutur Vestfjarðaverksmiðjanna næsta rýr. Sólbakkaverksmiðjan fékk svo til enga síld og Hesteyrarverksmiðjan var ekki starfrækt í sumar. Aftur á móti var lengi löndunarbið á Raufarhöfn. Þess vegna hefur stjórn Síldarverksmiðja ríkisins fengið þá hugmynd að flytja vélakost Sólbakkaverksmiðjunnar til Raufarhafnar. Sjálfvirku löndunarkranarnir á Hjalteyri og Djúpavík eru vinsælir meðal sjómanna enda spara þeir bæði erfiði og tíma. Nú hefur ný gerð löndunartækja verið sett upp á Dagverðareyri og Siglufirði. Þetta eru samlokuskóflur eða grabbar sem málvöndunarmenn nefna greipar. Greiparnar jafnast ekki á við kranana en þær létta löndunina verulega og eru ódýrar og einfaldar. 231
Karl Friðriksson á Akureyri prófaði veiðar í hringnót á sex tonna bát. Hann fékk 70 tunnur. Skýrslur Síldarútvegsnefndar Ægir 1939 og 1940
1940 Minna var um síld inni á fjörðum en oft áður. Þó fékkst nokkur afli í landnót í Mjóafirði um sumarið og í Eskifirði veiddist töluvert í stauranót eða botnnet. Þá var um haustið talsverður afli í landnót í Steingrímsfirði. Þessi síld var að mestu nýtt til beitu. Sumarsíldveiðin fór seint af stað þetta árið. Að venju var gerð tilraun til veiða um mánaðamótin maí - júní og síðan veitt ofurlítið í júnímánuði til beitu. Það var svo ekki fyrr en í júnílok sem veiðar hófust af fullum krafti. Orsök þess að veiðar hófust svo seint var mikil óvissa í markaðsmálum. Allir helstu saltsíldarmarkaðir okkar eru lokaðir vegna styrjaldarátaka eða innikróaðir eins og sænski markaðurinn. Svipuð staða er uppi hvað varðar afurðir verksmiðjanna. En 21. júní stóðust 232
menn ekki lengur mátið og ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu um ríkisábyrgð vegna Síldarverksmiðja ríkisins. Alls fóru 217 skip til veiða fyrir norðan eða heldur færri en í fyrra. Þar munar mestu að togurum fækkaði úr 25 í 8. Fyrsta snurpunótasíldin fékkst á Grímseyjarsundi 30. júní. Nokkrum dögum síðar fannst geysimikil síld á austursvæðinu, Vopnafirði, Þistilfirði og út af Sléttu. Seint í júlímánuði kom upp mikil síld á vestursvæðinu og allt fram til 6. september mátti heita uppgripaafli á öllu svæðinu frá Horni að Langanesi. Heildaraflinn á þessari vel heppnuðu vertíð nam tæpum 90 þúsund tunnum af saltsíld og tæplega 2,5 milljónum hektólítra af bræðslusíld. Aflahæstur togara var "Tryggvi gamli" frá Reykjavík með 27.442 mál og tunnur, "Ólafur Bjarnason" frá Akranesi var hæstur línuveiðara með 22.309 mál og tunnur og hæsti mótorbáturinn var "Dagný" frá Siglufirði með 17.826 mál og tunnur. Enginn erlendur floti var á síldarmiðunum í ár vegna styrjaldarinnar en 21 færeyskt skip var tekið á leigu af Íslendingum og auk þess voru hér sjö norsk flóttaskip. Vegna styrjaldarinnar þótti ekki annað fært en að heimila þessum skipum veiðar og löndun sem 233
íslensk væru. Færeyingarnir fengu 207 þúsund og Norðmennirnir 55 þúsund hektólítra. Augljóst er að tjalda þurfti öllu sem til var til að unnt væri að vinna þann mikla afla sem á land barst. Það var mikið lán að síldveiðin dreifðist svo mjög meðfram öllu Norðurlandi en heita mátti að brætt væri í öllum verksmiðjum landsins. Auk þeirra verksmiðja sem venjulega hafa tekið á móti síld munaði mikið um nýja 5 þúsund mála verksmiðju á Raufarhöfn. Síldarverksmiðjur ríkisins höfðu ekki gert ráð fyrir rekstri Sólbakkaverksmiðjunnar í sumar en vegna hins mikla afla var hún sett í gang. Þá tóku verksmiðjurnar á Patreksfirði og Bíldudal á móti síld í fyrsta skipti en báðar verksmiðjurnar eru fremur ætlaðar til karfa og beinavinnslu. Loks sigldu skip með afla, alls rúmlega 9 þúsund hektólítra, til löndunar á Akranesi. Norðmenn, sem eiga og reka Krossanesverksmiðjuna, komust ekki til landsins vegna stríðsins. Það varð því að ráði að Síldarverksmiðjur ríkisins tóku hana á leigu og ráku í sumar. Þrátt fyrir svo mikinn bræðslukost höfðu veiðar ekki staðið lengi þegar allar þrær höfðu verið fylltar og hvarvetna margra sólarhringa 234
bið. Þá var sett á fjögurra sólarhringa veiðibann eftir löndun. Þetta þýddi í raun níu sólarhringa stöðvun fyrir mörg skipanna sem höfðu áður beðið fimm sólarhringa eftir löndun. Sjómenn voru lítið hrifnir af slíku banni en því var beitt tvisvar um sumarið. Söltun átti erfitt uppdráttar þrátt fyrir mikinn afla og prýðisgóða síld. Markaðslöndin voru lokuð vegna styrjaldar nema Bandaríkin og Svíþjóð var nánast lokuð vegna stríðsástands í grannríkjunum. Sækja þurfti til Breta um heimild til að flytja saltsíld út til Svíþjóðar og þeir reyndust ófánlegir til að gefa slíkt leyfi nema síldin væri flutt um Petsamo í Finnlandi en heildarsöltun var tæplega 90 þúsund tunnur eins og áður var nefnt. Nokkur reknetaveiði var í Faxaflóa fyrri hluta sumars og um haustið. Aðeins 600 tunnur voru saltaðar en aflinn fór að öðru leyti í frystingu og svolítið í bræðslu á Akranesi. Um sumarið voru gerðar frekari tilraunir með hið nýja veiðarfæri, hringnótina. Svíar höfðu reynt svona veiðar fyrir stríð og nú hófu Íslendingar tilraunaveiðar, þeir höfðu reyndar aðeins bleytt slíka nót árið áður. Aðeins er notaður einn nótabátur og siglir veiðiskipið með hann á síðunni umhverfis torfuna þegar kastað er. Þetta virðist henta vel minni bátum 235
því að hér nægir miklu fámennari áhöfn en við snurpunótaveiðar þar sem nótabátarnir eru tveir. Þrír bátar reyndu fyrir sér með þessari aðferð, Jóngeir D. Eyrbekk á "Óðni", Árni Þorsteinsson á "Ægi" og loks var Bjarni Andrésson á "Dagsbrún" frá Reykjavík. "Óðinn" er frá Siglufirði og "Ægir" frá Akranesi. Jónas Árnason: Tekið í blökkina, s. 143 - 146 Sjómannablaðið Víkingur, júlí 1940 Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1940 og 1941
1941 Heldur lítið var um að síld gengi inn á firði þetta árið. Þó var nokkuð um smásíld um vorið í Ísafjarðardjúpi og var hún veidd til beitu í Ísafirði, Skötufirði og Hestfirði. Á Austfjörðum var ofurlítið um síld fyrri hluta sumars og fékkst þá smákropp í botnnet. Um haustið var svo talsverð síld í Reyðarfirði og enn frekar í Fáskrúðsfirði. Þetta var millisíld og var talsvert veitt af henni í lagnet og landnætur en tilraunir til að veiða hana í 236
snurpunót mistókust að mestu. Allmikið af austfirska aflanum var fryst í beitu og einn togarafarmur var fluttur út ísaður. Loks voru 690 tunnur saltaðar á Eskifirði. Nokkur veiði var á Akureyrarpolli í október og nóvember. Sumarsíldveiðarnar fyrir norðan gengu stirðlega og árangur var miklu síðri en á síðasta ári. Í upphafi vertíðar voru margir áhyggjufullir vegna þess hve illa horfði með sölu síldarafurða. Þátttaka í veiðunum var því með allra minnsta móti eða 118 skip á móti 217 í fyrra. Í þessum hópi voru aðeins fjórir togarar og 14 línuveiðarar. Eigendur stærri skipanna telja ísfiskflutninga ábatasamari nú um stundir en síldveiðar. Fyrsta snurpunótasíldin veiddist á Þistilfirði 7. júlí en veiðin hófst ekki að ráði fyrr en 20. júlí. Eftir það var sæmilegt kropp í þrjár vikur en veður var mjög óstöðugt allan tímann. Þá gekk í þriggja vikna samfellda brælu en 29. ágúst gekk þessi bræla niður og fengu mörg skip góðan afla næstu viku. Þá hættu flest skipin veiðum en fjögur skip, sem héldu veiðum áfram, fengu góðan afla 7. og 8. september. Það var að vonum að afli varð rýr hjá þessum litla flota í slíku hörmungartíðarfari. Heildaraflinn var 980 þúsund hektólítrar í bræðslu og 70 þúsund 237
tunnur saltsíldar. Aflahæsti togarinn var "Tryggvi gamli" frá Reykjavík með 18.600 mál og tunnur, hæsti línuveiðarinn "Freyja" frá Reykjavík með 11 þúsund mál og tunnur og hæsti mótorbáturinn "Gunnvör" frá Siglufirði með 15.200 mál og tunnur. Einn bátur a.m.k., "Dagsbrún" frá Reykjavík, var með hringnót. Aflinn var að vísu ekki mikill en þó nægur til að sanna ágæti þessa veiðarfæris en á "Dagsbrún" var aðeins átta manna áhöfn. Öndvert við það sem var á síðasta ári var verksmiðjukostur langt umfram þarfir. Þess vegna var helmingur verksmiðjanna ekki settur í gang í sumar. Vestan Horns var ekkert brætt utan smáslatti sem landað var á Bíldudal og sömu sögu er að segja af Krossanesi, Húsavík og Norðfirði, á þessum stöðum var ekkert brætt. Afköst verksmiðjanna voru aukin ofurlítið á árinu en SRP var stækkuð og getur nú brætt 4.000 mál á sólarhring. Þá keyptu Síldarverksmiðjur ríkisins verksmiðjuna á Norðfirði á þessu ári. Sala saltsíldar var afar erfið þar sem markaðslöndin eru flest lokuð. Helmingurinn af þeirri síld sem söltuð var á Svíþjóðarmarkað á síðasta ári liggur hér enn og útséð að leiðir til Svíþjóðar opnast ekki á næstunni. Reynt var að semja við Breta um sölu á síld en þeir voru 238
fastir fyrir. Helst mátti segja að sala til Ameríku væri með eðlilegum hætti. Það var því að vonum að lítið var saltað fyrir norðan í sumar, alls tæplega 39 þúsund tunnur. Faxasíldin var að þessu sinni auðveldari í sölu og voru 31 þúsund tunnur saltaðar af henni, að stærstum hluta á Akranesi. Heildarsöltun á landinu öllu losaði því 70 þúsund tunnur. Það er æðilangt síðan söltun Norðurlandssíldar hefur brugðist svo sem í sumar. Einkaleyfi Síldarútvegsnefndar til útflutnings léttsaltaðrar síldar var numið úr gildi á árinu og hafði því nefndin aðeins umráð u.þ.b. helmings framleiðslunnar. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1941 og 1942
1942 Þetta ár var nokkuð um að síld gengi inn á firði. Á Austfjörðum gekk síld fyrri hluta sumars og var talsvert af henni veitt í lagnet í Fáskrúðsfirði í júlí, hún var einkum notuð til beitu. Sex nótabrúk reyndu veiðar í innanverðum Eyjafirði um vorið en varð lítið 239
ágengt. Tvö þeirra reyndu með snurpunót dýpra í firðinum. Þau leituðu með handlóði eins og gert var í gamla daga og fengu ágætan afla sem notaður var til beitu víðs vegar um Eyjafjörð. Sumarsíldveiðin fyrir norðan hófst um mánaðamótin júní - júlí. Þátttaka í þeim var heldur minni en í fyrra þótt horfur væru nú að ýmsu leyti betri en þá, sala afurða var tryggari og verð álitlegra. En togaraflotinn og línuveiðarar eru sífellt meir uppteknir við ísfiskflutninga og hluti bátaflotans sýslar eitt og annað fyrir herinn. Alls tóku 113 skip þátt í veiðunum, 4 togarar, 9 línuveiðarar og 100 mótorskip. Fyrsta snurpunótasíldin fékkst á Skagafirði 29. júní og segja má að frá 9. júlí til 8. ágúst hafi verið almenn veiði á öllu veiðisvæðinu. Eftir það var veiði stopulli og heita má að henni hafi verið lokið í ágústlok. Heildarafli var u.þ.b. 39.700 tunnur í salt og rúmlega 1,5 milljónir hektólítra í bræðslu. Aflahæsti togarinn var "Garðar" frá Hafnarfirði með 25.419 mál. Mestan afla línuveiðara fékk "Ólafur Bjarnason" frá Akranesi, 28.338 mál og er það mesti afli sem eitt skip hefur fengið á einni vertíð frá upphafi. 240
Hæsta mótorskipið var "Dagný" frá Siglufirði með 25.172 mál. Hringnætur njóta sífellt meiri vinsælda en fjórar slíkar voru í notkun á árinu og gáfu ágætan afla. Hæsti hringnótabáturinn var "Stathav" frá Siglufirði með u.þ.b. 5.400 mál og tunnur. Aðeins eitt erlent leiguskip var á Íslandsmiðum þetta sumarið. Eitt síldarskip fórst á vertíðinni. Það var "Reykjanes" frá Reykjavík sem sökk við Tjörnes 24. júlí. Verið var að háfa úr nótinni þegar skipið lagðist skyndilega á hliðina og sökk. Áhöfnin bjargaðist giftusamlega á nótabátunum. Eins og áður var getið var bræðslusíldaraflinn ein og hálf milljón hektólítra. Þar sem mikill hluti þessa afla fékkst á einum mánuði yfirfylltust þrær verksmiðjanna og varð löng löndunarbið. Til að leysa þennan vanda var sett veiðibann hjá þeim skipum sem skiptu við Síldarverksmiðjur ríkisins. Fyrra veiðibannið hófst 22. júlí og stóð í fjóra daga en hið síðara var sett á 5. ágúst. Verksmiðjurnar í Djúpavík, á Hjalteyri og Dagverðareyri gripu til hliðstæðra ráðstafana. Þessar neyðarráðstafanir og ýmislegt fleira í sambandi við rekstur verksmiðjanna leiddi til spennu og þess að ýmsir úfar risu milli skipstjórnarmanna og 241
útgerðarmanna annars vegar og stjórnar SR hins vegar. Það dró ekki úr gremju skipstjórnarmanna að nokkrar verksmiðjur tóku ekki á móti síld í sumar vegna fólkseklu eða annarra ástæðna. Þær verksmiðjur sem ekki tóku á móti síld voru verksmiðjurnar á Hesteyri, Krossanesi, Húsavík, Neskaupstað og gamla verksmiðjan á Raufarhöfn. Þessir löndunarerfiðleikar hafa leitt til mikillar umræðu um aukinn verksmiðjukost og á sumarþinginu í sumar voru samþykkt lög um stórkostlega uppbyggingu Síldarverksmiðja ríkisins. Gert er ráð fyrir að nýjar verksmiðjur verði reistar sem hér segir: - Á Siglufirði 10 þúsund mál - Raufarhöfn 5 þúsund mál - Húsavík 9 þúsund mál - Sauðárkróki 5 þúsund mál - Skagaströnd 5 þúsund mál - Hólmavík 5 þúsund mál Ríkisstjórnin hefur þegar veitt leyfi til byggingar fyrsttöldu verksmiðjunnar. Þá hafa eistaklingar og félög fengið leyfi til að byggja nýjar eða stækka gamlar verksmiðjur upp á 25 - 30 þúsund mál samtals, m.a. hefur Óskar Halldórsson fengið leyfi til að byggja 5 þúsund mála verksmiðju á Siglufirði. 242
Hlutafélagið Ingólfur hefur hafið byggingu verksmiðju á Eyri í Ingólfsfirði. Hún kemst væntanlega í gagnið á næsta ári. Eins og áður var nefnt var mjög lítið saltað af Norðurlandssíld í sumar eða aðeins tæpar 40 þúsund tunnur, þar af voru 29 þúsund tunnur matjessíld. Þessi síld var eingöngu söltuð á svæðinu frá Sauðárkróki til Húsavíkur að undanskildum 264 tunnum sem voru saltaðar á Ingólfsfirði. Siglufjörður var langhæsti söltunarstaðurinn en u.þ.b. 80 % síldarinnar voru söltuð þar. Svo til öll saltsíldin var seld á Ameríkumarkað. Reknetaveiði var stunduð á Faxaflóa að venju fyrri hluta sumars, fram í miðjan júlí, og svo aftur um haustið og framan af vetri. Verulegur hluti aflans var frystur en rúmlega 10.700 tunnur voru saltaðar, aðallega á Akranesi. Faxasíldin var að stærstum hluta flutt út til Bretlands. Einkaleyfi til útflutnings léttverkaðrar síldar, sem tekið var af Síldarútvegsnefnd í fyrra, var fengið henni í hendur á nýjan leik í ár. Að þessu sinni sá því nefndin um sölu á 95 - 97 % framleiðslunnar, Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1942 og 1943
243
1943 Þetta ár var síldveiðimönnum hagfellt að flestu leyti. Síld gekk inn á flesta þá firði þar sem hennar er vænst að öðru jöfnu. Þannig fékkst smásíld í landnót í Ísafirði innst í Djúpinu í maí og nægði hún í beitu í verstöðvum við Djúp. Á Seyðisfirði og Mjóafirði fékkst nægileg beitusíld fyrir Austfirðinga í landnætur í maí og júní og á Eskifirði aflaðist drjúgt í botnnet á sama tíma. Frá Akureyri gengu fimm nótabrúk um vorið, ýmist með landnót eða snurpunót, og fengu prýðilegan afla sem dugði í beitu fyrir alla útgerðarstaði við Eyjafjörð. En þegar sá markaður var mettur áttu menn í erfiðleikum með að losna við aflann. Veiði Norðurlandssíldar hófst með seinna móti og fékkst fyrsta síldin ekki fyrr en vika var liðin af júlímánuði en eftir það var jöfn og góð veiði fram í miðjan september. Þetta segir þó aðeins hálfa sögu því að tíð var óvenju rysjótt allt sumarið og úrtök mikil vegna brælu en svo komu prýðileg aflaskot inn á milli. Löndunarbið var því nánast óþekkt og náttúruöflin komu í stað veiðibanna.
244
Alls tóku 133 skip þátt í veiðunum, einn togari, 12 línuveiðarar og 120 mótorskip. "Ólafur Bjarnason" frá Akranesi var eina skipið sem var skráð sem togari og fékk hann 20.282 mál. Aflahæsti línuveiðarinn var "Eldborg" frá Borgarnesi með 30.353 mál sem er mesti afli sem íslenskt skip hefur fengið á einni síldarvertíð en þetta eru rúmlega fjögur þúsund tonn. Aflahæstur mótorbáta var "Gunnvör" frá Akureyri með 26.216 mál. Mestur hluti aflans fór í bræðslu eða alls u.þ.b. 1,9 milljónir hektólítra. Allar verksmiðjur á svæðinu frá Horni að Langanesi tóku á móti síld en verksmiðjur utan þessa svæðis voru ekki starfræktar. Síldarverksmiðjur ríkisins sáu um rekstur Krossanesverksmiðjunnar og nú er uppi umræða um að SR kaupi þá verksmiðju. Miklar endurbætur voru gerðar á löndunaraðstöðu hjá SR á Siglufirði fyrir vertíðina. Gömlu löndunarbryggjurnar voru rifnar og nýjar gerðar í þeirra stað með löndunarkrönum og færiböndum. Þessi framkvæmd var sjómönnum mjög til þæginda og flýtisauka og hefur án efa átt sinn þátt í því að ríkisverksmiðjurnar þrjár á Siglufirði fengu u.þ.b. 45 % alls síldaraflans í sinn hlut. 245
Söltun var heldur smá í sniðum svo sem vænta mátti þar sem flestir markaðir eru enn lokaðir vegna styrjaldarinnar. Alls voru þó saltaðar tæplega 45 þúsund tunnur, þar af 34.200 á Siglufirði. Verkun síldarinnar hefur tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum. Hlutfall kverkaðrar síldar hefur farið mjög minnkandi en í hennar stað hefur komið hausskorin og slógdregin saltsíld. Í sumar voru rúmlega 40 % saltsíldarinnar verkuð á þennan hátt. Síldarútvegsnefnd var að þessu sinni löggilt sem einkaútflytjandi allrar saltaðrar Norðurlandssíldar. Auk þess var nefndinni falið að selja síld sem Svíar höfðu keypt hér árið 1940 og ekki hafði tekist að flytja heim til Svíþjóðar. Alls voru þetta u.þ.b. 19 þúsund tunnur sem ríkissjóður hafði nú keypt af Svíum. Síldin var að mestu seld bændum sem fóðurbætir en nokkur hluti hennar fór í bræðslu. Reknetaveiði í Faxaflóa var ágæt síðsumars og um haustið og voru 8.830 tunnur saltaðar af Faxasíld, að mestum hluta á Akranesi. Mjög mikið af reknetasíldinni fór í frystingu eða allt að 50 þúsund tunnur. Góður síldarafli eykur mönnum kjark og bjartsýni. Nú er síldarverksmiðjan á Eyri í 246
Ingólfsfirði tilbúin til móttöku síldar og hefur væntanlega starfsemi á næsta ári með 2.500 mála afköstum á sólarhring. Ný verksmiðja SR á Siglufirði er í undirbúningi en illa gengur að útvega vélar og önnur aðföng vegna styrjaldarinnar. Skipasmíðar hafa eflst mjög undanfarin ár enda veitir ekki af ef endurnýja á bátaflotann eins og þörf er á og flestir hinna nýju báta bætast í síldveiðiflotann. Á þessu ári var hleypt af stokkunum stærsta skipi sem smíðað hefur verið á Íslandi frá upphafi. Þetta er "Snæfell", 165 lesta skip sem smíðað var í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri og er í eigu þess félags. Yfirsmiður var Gunnar Jónsson. "Snæfellið" hélt þegar til síldveiða og vegnaði vel. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1943 og 1944
1944 Síldargöngur inn á firði voru tregari þetta árið en oft áður. Þó fékkst næg beitusíld í Ísafirði og síðsumars fékkst síld í landnót í Mjóafirði eystra og á Eskifirði var á sama tíma 247
reytingur í lagnet og botnnet. Í Eyjafirði fékkst lítið en fimm nótabrúk gengu frá Akureyri í apríl og maí. Síldveiðin við Norðurland hófst í byrjun júlí og var fyrstu síldinni landað 8. júlí. Alls tók 141 skip þátt í veiðunum að þessu sinni eða nokkru fleiri en á síðasta ári. Enginn togari var á síld en 11 línuveiðarar og 130 mótorskip. Fyrstu þrjár vikurnar veiddist síldin einkum á Þistilfirði og við Strandir en frá 28. júlí fékkst góður afli á Húnaflóa. Um miðjan ágúst kom upp mikil síld á Grímseyjarsundi og var góður afli fram undir miðjan september. Aflahæstur línuveiðara var "Bjarki" frá Siglufirði með 17.428 mál en hæsta mótorskipið var "Eldborg" frá Borgarnesi, sem fram að þessu hefur verið flokkuð með línuveiðurum, með 26.624 mál. Hringnótaskip voru nú í fyrsta skipti flokkuð sér í aflaskýrslum. Þau voru níu talsins og var "Kristjana" frá Ólafsfirði aflahæst með 7.707 mál og tunnur. Heildarafli, sem landað var í bræðslu, var 2.355.207 hektólítrar sem er hið næstmesta frá upphafi, aðeins árið 1940 tekur þessu fram. Verksmiðjurnar vestan Horns voru ekki starfræktar í ár en sumarið var býsna hagfellt fyrir Strandaverksmiðjurnar vegna þess hve mikil veiði var á Húnaflóa. Nýja 248
verksmiðjan á Eyri í Ingólfsfirði tók nú í fyrsta skipti á móti síld og fékk tæplega 150 þúsund hektólítra. Grána og Rauðka tóku ekki á móti síld vegna þess að nú stendur yfir endurbygging og stækkun Rauðku. Síldarverksmiðjur ríkisins höfðu Krossanesverksmiðjuna á leigu í sumar. Raufarhafnarverksmiðjan fékk drjúgan skerf, 414 þúsund hektólítra, vegna þess hve síldin veiddist austarlega um tíma. Söltun Norðurlandssíldar var með allra minnsta móti eða 33.367 tunnur. Eins og áður var mest saltað af cutsíld eða rúmlega 40 % þess sem saltað var. Að þessu sinni var öll framleiðslan, að undanskildum flökum, seld UNRRA, hjálparstofnun í Bandaríkjunum. Þetta ár var útflutningur síldarinnar ekki á snærum Síldarútvegsnefndar heldur Sölusamlags síldarframleiðenda annars vegar og Samvinnufélags Ísfirðinga hins vegar. Alls voru 11.842 tunnur Norðurlandssíldar frystar til beitu. Að þessu sinni voru aðeins 1.814 tunnur af Faxasíld saltaðar, svo til allar á Akranesi, og var hún flutt út til Bretlands. Um sumarið voru engin erlend síldveiðiskip við landið ef undan eru skilin átta færeysk leiguskip en í 249
styrjöldinni hafa jafnan nokkur slík verið hér við veiðar. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1944 og 1945
1945 Á þessu ári var lítið um að síld gengi inn á firði eins og oft hefur verið. Fjögur nótabrúk gengu frá Akureyri um vorið, tvö og tvö saman með snurpunætur og fengu dálítið af smárri millisíld, tveggja beitu síld. Um tíma áttu þau u.þ.b. 900 tunnur í hvorri nót. Þessi síld nægði í beitu í verstöðvum út með Eyjafirði um alllangt skeið. Þá var töluverður afli í reknet í Ísafjarðardjúpi síðsumars. Sextán bátar frá verstöðvum við Djúpið stunduðu þessar veiðar og fékk hinn hæsti þeirra 900 tunnur. Á Austfjörðum fékkst ofurlítið af smásíld um sumarið en hvergi nærri svo að dygði til beitu. Í janúarmánuði kom feikna ganga í Berufjörð, það sama gerðist reyndar á sama tíma í fyrra. Þessi síldarganga gagnaðist mönnum þó ekki að öðru leyti en því að 250
smábátar frá Djúpavogi fiskuðu prýðilega úr þorskgöngunni sem kom í kjölfar síldarinnar. Hinn mikli síldarafli við Norðurland í fyrra gaf sannarlega tilefni til bjartsýni. Í ár höfðu bræðsluafköst verið aukin nokkuð og saltsíldarmarkaðir Evrópu voru að opnast, sumir hverjir að minnsta kosti. Það var því að vonum að þátttaka í veiðunum var miklu meiri en verið hefur undanfarin ár eða alls 167 skip. Fyrsta síldin veiddist á Húnaflóa 9. júlí og síðan var nokkur veiði næstu daga við Strandir, á Haganesvík og austur við Langanes en hún var aldrei almenn, aðeins eitt og eitt skip sem hitti á torfu. Um mánaðamótin kom upp síld út af Austfjörðum en hún var stygg og erfitt að ná henni. Skömmu síðar fannst síld á Skagagrunni og Grímseyjarsundi en hér var sama sagan, aðeins eitt og eitt skip hitti á sæmilegt kast og 26. ágúst lauk þessari hörmungarvertíð. Allmörg skip skiptu nú yfir á reknet og fengu 76 skip 27.557 tunnur af saltaðri reknetasíld en auk þess fór talsvert í frystingu. Tvö skip, sem eru skráð sem togarar, voru á veiðum að þessu sinni, "Ólafur Bjarnason" frá Akranesi og "Íslendingur" frá Reykjavík. "Ólafur Bjarnason" fékk alls 4.333 mál. Línuveiðarar voru átta og fékk "Huginn" frá 251
Reykjavík mestan afla, 4.792 mál og tunnur. Mótorskip með snurpunót voru 106, "Dagný" frá Siglufirði var fengsælust þeirra með 6.292 mál og tunnur. Hringnótin nýtur aukinna vinsælda en 19 bátar notuðu slíka nót að þessu sinni. Þeirra aflahæstur var "Sjöfn" frá Vestmannaeyjum með 1.882 mál og tunnur. Loks voru 16 pör tvílembinga á veiðum og urðu "Björn Jörundsson" frá Hrísey og "Leifur Eiríksson" frá Dalvík fengsælastir með 4.358 mál og tunnur. Síldarverksmiðjurnar tóku á móti 463.238 hektólítrum eða aðeins tæpum fimmtungi þess sem var í fyrra. Á þessu ári voru afköst Rauðku á Siglufirði aukin úr 800 málum í 7 þúsund mál á sólarhring og eru nú heildarafköst allra síldarverksmiðja á landinu 45.900 mál á sólarhring. Með jafnri dreifingu hefði því mátt bræða allan aflann á einni viku. Aflinn dreifðist á verksmiðjurnar frá Eyri í Ingólfsfirði til Seyðisfjarðar að því undanskildu að ekkert var brætt í Krossanesi og á Húsavík. Síldarverksmiðjur ríkisins unnu á árinu að stækkun SR 30 og unnið var af fullum krafti við byggingu tveggja stórra verksmiðja, á Siglufirði og Skagaströnd. 252
Eins og vænta mátti kom aflaleysið einnig niður á söltuninni og voru aðeins saltaðar tæplega 50 þúsund tunnur af nótasíld en eins og áður var getið tóku margir fram reknet síðsumars og um haustið og fengust þannig tæplega 28 þúsund tunnur í viðbót. Heildarsöltun Norðurlandssíldar var því 77.448 tunnur. Þar sem mestur hluti reknetasíldarinnar fékkst á Húnaflóa reyndist hæsta söltunarstöðin vera á Hólmavík en ekki Siglufirði eins og venjulega. Um 90 % síldarinnar voru hausskorin og slógdregin. Rúmlega 6.500 tunnur Norðurlandssíldar fóru í frystingu. Síðsumars var allgóður afli í reknet í Faxaflóa og voru alls saltaðar tæplega 18 þúsund tunnur, mest á Akranesi og í Keflavík. Hluti af Faxaflóasíldinni, rúmlega 1.000 tonn, fóru í frystingu til útflutnings. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt er reynt í einhverjum mæli. Síldarútvegsnefnd hafði í ár einkaleyfi á útflutningi saltsíldar en heildarsöltun á landinu öllu nam 95.395 tunnum. Nú þegar styrjöldinni er lokið hefja útlendingar sókn á Íslandsmið á nýjan leik en vegna þess hve undirbúningstími þeirra var skammur sendu þeir fá skip til veiða. Norðmenn sendu 66 skip sem fengu tæpar 46 253
þúsund tunnur, Svíar 29 skip sem fengu um 20.500 tunnur og svo voru hér 14 færeysk leiguskip eins og verið hefur undanfarin ár. Þótt fáir yrðu hökufeitir af veiðunum í sumar láta menn ekki deigan síga. Hafin er veruleg endurnýjun flotans en fjöldi báta er nú í smíðum í Svíþjóð og innanlands og endurnýjun togaraflotans stendur einnig fyrir dyrum. Þá kom til landsins í október nýtt skip, sérsmíðað til síldveiða með nýrri veiðitækni. Það heitir "Fanney" og var smíðað í Tacoma á vesturströnd Bandaríkjanna. Eigendur eru Fiskimálanefnd og Síldarverksmiðjur ríkisins, Nýja skipið, sem er 138 lestir, er frambyggt og í skut þess er sérstakur nótapallur en ætlunin er að stunda á því hringnótaveiðar án þess að nota nótabát. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1945 og 1946
1946 Heldur fáar fréttir voru af síld fyrstu mánuði ársins. Í mars hófu tvö nótabrúk á Akureyri veiðar en öfluðu sáralítið þótt þau reyndu allt 254
fram í maímánuð. Á Austfjörðum varð síldar vart í ágúst, í Seyðisfirði fékkst síld í lagnet og Eskfirðingar fengu góðan afla í sama veiðarfæri. Í júnímánuði fékkst smásíld í Ísafjarðardjúpi, einkum í Ísafirði. Aflaleysi síðasta árs varð ekki til að draga kjark úr síldveiðimönnum. Nýjar síldarverksmiðjur voru í byggingu á Siglufirði og Skagaströnd og svokallaðir Svíþjóðarbátar komu til landsins hver af öðrum. Þátttaka í síldveiðunum fyrir norðan var meiri en nokkru sinni fyrr en alls tóku 246 skip þátt í veiðunum.. Veiðar hófust í síðustu viku júní en þá fengu nokkur skip afla á Þistilfirði. Síldin hélt sig svo á austursvæðinu næstu vikurnar, allt suður á Héraðsflóa. Um miðjan júlí fékkst síld í nokkra daga á Húnaflóa og Skagafirði en svo gerði brælu og tók þá fyrir veiði. Síðustu viku júlí var aftur góð veiði við Sléttu og Langanes. Veður spilltist í ágústbyrjun og var ekki veiðiveður um vikuskeið. Eftir það mátti heita að veiði væri lokið. Síld sást að vísu allvíða á miðunum en torfur voru litlar og sáralítið fékkst úr hverju kasti. Þótt þetta ár verði að teljast til síldarleysisára var aflinn mun skárri en í fyrra. Að þessu sinni var aðeins einn togari, "Sindri" frá Akranesi, á síldveiðum og fékk 255
5.009 mál. Línuveiðarar voru níu, aflahæstur þeirra var "Ólafur Bjarnason" frá Akranesi sem nú er talinn í þessum skipaflokki. Hann fékk 10.564 mál. Mótorskip með snurpunót voru 160 og var "Dagný" frá Siglufirði hæst þeirra með 15.837 mál og tunnur. Hringnótabátar voru 28 og var "Björg" frá Eskifirði fengsælust þeirra með 4.741 mál og tunnur. Loks voru svo 24 tvílembingapör á veiðum. Mestan afla þeirra fengu "Barðinn" og "Pétur Jónsson" frá Húsavík, 4.718 mál og tunnur. Síldarverksmiðjurnar tóku á móti 1.172.300 hektólítrum sem er meira en tvöföld móttaka liðins árs. Að venju var mestu landað hjá ríkisverksmiðjunum á Siglufirði en Raufarhafnarverksmiðjan var líka drjúg enda liggur hún vel við miðunum þegar síldin veiðist svona austarlega. Þar sem síldarvertíðin varð svona endaslepp varð minna úr söltun en til stóð. Alls voru saltaðar 160.748 tunnur af Norðurlandssíld og 7.722 tunnur af Faxasíld um haustið. Að venju var mest saltað á Siglufirði og var Pólstjarnan h/f hæsta söltunarstöðin með 10.518 tunnur. Síldarútvegsnefnd annaðist sölu og útflutning allrar saltsíldar á árinu. Tæp 13 tonn voru fryst 256
til útflutnings, 52.742 tunnur voru frystar í beitu og 272 tunnur fóru í niðursuðu. Norðmenn sendu 166 skip til síldveiða við Ísland og fengu þau 108.566 tunnur saltaðar og lönduðu 30.100 málum í bræðslu í Krossanesi. Svíar sendu 36 skip sem fengu u.þ.b. 30 þúsund tunnur. Þá voru hér tíu færeysk leiguskip eins og undanfarin ár. Víða erlendis er síld veidd í botnvörpu með góðum árangri. Mönnum hefur því fundist freistandi að kanna hvort slíkt sé mögulegt hér við land. Í sumar var tekið skip á leigu í Svíþjóð til tilraunaveiða með flotvörpu. Árangur af þessum tilraunum var enginn. Aftur á móti gengu veiðitilraunir á "Fanneyju" miklu betur. Nót "Fanneyjar" var gerð eftir amerískri teikningu og talsvert stærri en þær nætur sem hér hafa verið notaðar. Áhöfnin átti reyndar í nokkrum erfiðleikum með nótina framan af vertíðinni. Margir eru að vonum óhressir með síðustu aflaleysisár og sumum finnst þeir afskiptir með afla. Austfirðingar óska nú eftir að fá stóra síldarverksmiðju og benda á síldargöngur út af Austfjörðum tvö síðustu sumur. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1946 og 1947 257
1947 Í desember 1946 varð síldarvart á Sundunum við Reykjavík og í Kollafirði og stunduðu nokkrir bátar reknetaveiði á þeim slóðum. Þegar kom fram í janúar var sýnt að hér væri um verulega síldargöngu að ræða. Nokkrir bátar fengu því leyfi til að prófa veiðar í botnvörpu og náðu ágætum árangri. Þetta leyfi var tímabundið og stóð aðeins skamma hríð. Það var svo 18. janúar sem snurpunótaveiðar hófust á Sundunum. Var þar prýðilegur afli þar til vika var af marsmánuði og stunduðu 60 skip veiðarnar.Þessar veiðar voru þó ekki eintóm sæla og var það einkum tvennt sem bagaði. Í fyrsta lagi var síldin, sem þarna veiddist, talsvert smærri en Norðurlandssíldin, þess vegna þurfti nætur með smærri riðli en hentaði fyrir norðan. Í öðru lagi skorti allan viðbúnað í landi. Síldin hentaði illa til söltunar og verksmiðjukostur var takmarkaður í næsta nágrenni en verksmiðjan á Akranesi er hin eina á svæðinu sem getur unnið síld og hún hefur aðeins 600 mála afköst á sólarhring. Mestur hluti aflans var því fluttur með flutningaskipum til Siglufjarðar og bræddur þar. 258
Síldveiðar úti fyrir Norðurlandi hófust að venju í júlíbyrjun. Þátttaka var meiri en nokkru sinni fyrr í sögu þessara veiða en alls reyndu 264 skip fyrir sér. Það er því ljóst að vonbrigði tveggja síðustu ára hafa ekki dregið kjark úr mönnum. En hér fór sem fyrr, þriðja aflaleysisárið er staðreynd. Afli var svipaður og á síðasta ári og talsvert skárri en 1945. Veiðin fór fremur hægt af stað en um miðjan júlí glæddist afli og fiskaðist vel það sem eftir lifði þess mánaðar. það er einkenni þessara þriggja aflaleysisára að ekki er aðeins um veiðitregðu að ræða heldur er veiðitímabilið jafnan mun styttra en í sæmilegum aflaárum. Þannig fengust nú 82 % vertíðaraflans í júlímánuði. Að þessu sinni tóku fimm togarar þátt í veiðunum og var "Sindri" frá Akranesi þeirra aflahæstur með 10.777 mál.Línuveiðarar voru 10 með "Hugin" frá Reykjavík í fararbroddi með 10.614 mál. Mótorskip með snurpunót voru 186, "Edda" frá Hafnarfirði var aflahæst þeirra með 11.888 mál. Hringnótabátar voru 43, "Græðir" frá Ólafsfirði var hæstur þeirra með 4.509 mál og tunnur og loks voru tíu pör tvílembinga með "Barðann" og "Pétur Jónsson" hæsta en þeir fengu samanlagt 4.817 mál og tunnur. 259
Heildarafli sem fór í bræðslu var 1.249.539 hektólítrar eða rúmlega 80 þúsund hektólítrum meira en á síðasta ári. Hinar nýju verksmiðjur ríkisins á Siglufirði og Skagaströnd tóku nú á móti síld en þær voru aðeins settar í gang til reynslu á síðasta ári. Skagastrandarverksmiðjan bræðir 5 þúsund mál á sólarhring og SR 46 á Siglufirði 8 þúsund mál. Þá var Djúpavíkurverksmiðjan stækkuð upp í 6 þúsund mála afköst og verksmiðjan á Dagverðareyri var tvöfölduð úr 2.500 málum í 5.000 mála afköst á sólarhring. Nægur verksmiðjukostur verður því til staðar ef síldin gefur sig á nýjan leik. En þetta er ekki nóg ef síldin heldur sig fjarri þeim stöðum sem hafa verksmiðjur. Austfirðingar telja sig mjög afskipta hvað veiðar og vinnslu síldarinnar snertir. Fjórðungsþing fiskideildanna eystra kvartar sáran yfir því að ekki skuli byggð stór verksmiðja í fjórðungnum og þingið samþykkti einnig áskorun til stjórnvalda um stofnun sérstakrar síldarútvegsnefndar fyrir Austfirði með söltun austfirsku síldarinnar í huga. Söltun hófst á Norðurlandi 15. júlí og varð heldur bág vegna þess hve vertíðin varð endaslepp. Heildarsöltun nam 63.214 tunnum 260
sem er hér um bil 100 þúsund tunnum minna en á síðasta ári. Langmest var saltað á Siglufirði að venju eða rúmlega 2/3 þess sem saltað var. Alls fóru 14.863 tunnur Norðurlandssíldar í frystingu til beitu. Útlendingar sóttu á Íslandsmið eins og venjulega og voru Norðmenn þar fremstir í flokki með 202 skip sem fengu alls 193.337 tunnur. Að þessu sinni lönduðu Norðmenn engri bræðslusíld hér á landi þar sem þeir hafa selt Akureyrarbæ Krossanesverksmiðjuna og undanþágur þeirra til löndunar bræðslusíldar eru úr gildi fallnar. Þá var leiga á færeyskum skipum ekki leyfð í sumar eins og undanfarin ár þar sem íslensk stjórnvöld töldu flotann nægilega stóran. Tilgangurinn með leigutöku færeysku skipanna undanfarin ár hefur verið að tryggja verksmiðjum, sem eru lengst frá hinum hefðbundnu veiðisvæðum, einhvern afla. Nú má því segja að lög um bann við löndun úr erlendum skipum frá 19. júní 1922 séu endanlega komin til fullra framkvæmda. Svíar sendu hingað 65 skip sem fengu 40 þúsund tunnur, Finnar 5 skip með 8.500 tunnur og Danir 5 skip sem fengu 3.800 tunnur. Eftir svona lélegt síldarsumar gerðu menn sér vonir um afla syðra um haustið en þær 261
vonir dofnuðu þegar leið á sumarið vegna þess að reknetaveiðar í Faxaflóa voru afar tregar. Um miðjan október fannst mikil síld í innanverðu Ísafjarðardjúpi og fékkst þar ágætur afli um skeið. Það voru einkum bátar úr verstöðvum við Djúp sem stunduðu þessar veiðar og voru um 20 skip að veiðum þegar flest var. "Huginn II." frá Ísafirði var aflahæstur í þessari hrotu með u.þ.b. 5.000 mál. Langmestur hluti aflans var fluttur til Siglufjarðar og settur þar í bræðslu. Þótt illa horfði með veiði í Faxaflóa fram eftir hausti höfðu menn ýmsan viðbúnað til móttöku afla, síldarvinnslutæki voru sett upp í verksmiðjum í Keflavík og Njarðvík og útvegsmenn reyndu að verða sér úti um smáriðnar nætur. Hinn 1. nóvember fannst mikið af síld í Hvalfirði og hófust nú veiðar sem tæpast eiga sinn líka við Íslandsstrendur. Alls tóku 168 skip þátt í veiðunum um lengri eða skemmri tíma, þar af voru 5 gufuskip og 163 mótorskip. Vertíðin stóð fram í mars og höfðu þá veiðst í bræðslu 1.936.000 hektólítrar eða rúmlega 174 þúsund tonn. Heildarafli sem fór í bræðslu fyrir áramót nam 755 þúsund hektólítrum. Aflahæsta skipið á vertíðinni var "Fagriklettur" frá Hafnarfirði með 33.431 mál. 262
Viðbúnaður í landi var auðvitað ekki í neinu samræmi við þennan gífurlega afla. Nokkuð af aflanum eða u.þ.b. 5.400 tonn fóru í beitufrystingu, 61 tonn í niðursuðu og 272 tonn í frystingu til útflutnings. Bræðslurnar litlu við Faxaflóa yfirfylltust strax og fjöldi flutningaskipa var tekinn á leigu til að flytja síld til verksmiðja á Vestfjörðum og til Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði en þangað fór langmestur hluti síldarinnar. En þetta var ekki nægilegt og var jafnan margra daga löndunarbið í Reykjavík. Að lokum var brugðið á það ráð að landa síld í stórum stíl í Reykjavík og láta hana bíða þar flutnings til verksmiðjanna. Örlítið af þessum mikla afla, u.þ.b. 6.500 hektólítrar var flutt til Seyðisfjarðar til bræðslu. Veiðarnar fóru einkum fram milli Kataness og Hvaleyrar. Síldin óð ekki og urðu bátarnir að nota dýptarmæla til að finna hana. Þeir bátar sem höfðu ekki þetta undratæki um borð voru því í nokkrum vanda. Skipstjórar þeirra báta gripu þá til gamalla ráða og lóðuðu með handlóði eins og gert var í gamla daga þegar landnótaveiðarnar voru upp á sitt besta. Þessi síld hentaði illa til söltunar vegna þess hve hún var smá og voru aðeins saltaðar 1.600 tunnur en 847 tonn voru flutt út ísvarin á 263
Þýskalandsmarkað. Eftir svona glæsilega vertíð er mikill áhugi á byggingu fleiri verksmiðja í Reykjavík og nágrenni og er gert ráð fyrir að afköst á svæðinu aukist úr 2 þúsund í 20 þúsund mál á sólarhring fyrir næstu vertíð. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1947 og 1948
1948 Þess var áður getið að veiðarnar í Hvalfirði, sem hófust í nóvemberbyrjun, stóðu fram í mars á þessu ári en þá lauk þeim mjög skyndilega. Langmestur hluti síldarinnar fór sem fyrr í bræðslu eða 1.053.000 hektólítrar, örlítið var fryst sem beitusíld og um þrjú þúsund tonn voru flutt ísuð á Þýskalandsmarkað. Til Siglufjarðar voru fluttir u.þ.b. 970 þúsund hektólítrar eða 92 % af bræðslusíldinni. Sumarsíldveiðarnar fyrir norðan gengu ekki eins vel. Reyndist sumarið eitt mesta hörmungarsumar sem menn hafa kynnst. Heildaraflinn var aðeins 53 þúsund tonn eða 264
43 % aflans 1947 sem var þó talið með lélegustu árum. Þátttaka í veiðinni var heldur minni en í fyrra eða 242 skip alls, 4 togarar, 9 línuveiðarar og 229 mótorskip. "Tryggvi gamli" frá Reykjavík var aflahæstur togara með 1.563 mál og "Ólafur Bjarnason" frá Akranesi hæstur línuveiðara með 4.139 mál og tunnur. Mótorskip með snurpunót voru 142 og var "Helgi Helgason" frá Vestmannaeyjum drýgstur með 7.132 mál og tunnur. Hringnótaskip voru 76, aflahæst þeirra var "Gylfi" frá Rauðuvík með 3.909 mál og tunnur. Fjögur pör tvílembinga voru á veiðum og voru "Smári" frá Húsavík og "Valbjörn" frá Ísafirði seigastir í þeim flokki með 4.752 mál og tunnur og loks voru þrílembingar, "Óðinn", "Týr" og "Ægir" frá Grenivík með 2.889 mál og tunnur. Það er athyglisvert hve hringnótabátum fjölgar ár frá ári á kostnað tvílembinga og snurpunótaskipa. Þetta eru eðlileg viðbrögð útgerðarmanna og sjómanna við aflaleysi ár eftir ár en skipverjar eru oftast 10 - 11 á hringnótabátum en yfirleitt 18 á snurpunótaskipunum. Að öðru jöfnu bera því sjómenn á hringnótabátunum skárri hlut frá borði þótt lítið fiskist. 265
Fyrsta síldin veiddist í annarri viku júlí en aðeins var um smávægilegan reyting að ræða og hélt svo áfram út þann mánuð. Í ágúst var afli heldur skárri og eftir miðjan þann mánuð kom helmingur sumaraflans á land. Síldarverksmiðjurnar tóku á móti 444.718 hektólítrum af síld sem var aðeins 36 % af móttöku síðasta árs. Þar sem síldin hélt sig austarlega eins og jafnan í aumustu árum barst tiltölulega mest til Raufarhafnarverksmiðjunnar eða 112 þúsund hektólítrar sem er álíka mikið og barst til ríkisverksmiðjanna fjögurra á Siglufirði. Alls voru saltaðar 114.799 tunnur á vertíðinni. Mest var saltað á Siglufirði að venju, 75.214 tunnur eða 65 %, en Húsavík kom næst með tæplega 10.500 tunnur. Hæsta söltunarstöðin var Sunna h/f á Siglufirði með 6.639 tunnur. Alls var 12.391 tunna fryst til beitu nyrðra. Sókn útlendinga á Íslandsmið jókst enn á árinu. Norðmenn sendu 258 skip sem fengu 206.810 tunnur, Svíar sendu 78 skip sem fengu 46.633 tunnur. Frá Danmörku og Finnlandi kom svipaður skipafjöldi og á síðasta ári, fimm frá hvoru landi og Þjóðverjar sendu eitt eða tvö skip. Ekki er kunnugt um afla þessara þjóða. Þá var það nýjung að 266
rússneskur síldveiðileiðangur kom upp að Norðulandi en hvorki er vitað um skipafjölda né afla. Um sumarið var lítið um að síld gengi inn á firði. Þó varð síldar vart í lagnet víða um Austfirði í ágústmánuði. Hinn einstaki árangur í Hvalfirði á liðnum vetri jók mönnum bjartsýni og útgerðarmenn og sjómenn voru ákafir í að bæta sér upp þessa aumu sumarvertíð. Útgerðarmenn bættu tækjabúnað um borð og útveguðu sér ný og betri veiðarfæri. Þeir sem hugðust taka á móti síldinni í landi lágu heldur ekki á liði sínu. Bræðsluafköstin í næsta nágrenni Hvalfjarðar voru allt að því tífölduð frá árinu á undan. Akranesverksmiðjan var stækkuð úr 600 málum í 3.000 mál, ný verksmiðja með 3.500 mála afköstum var byggð í Hafnarfirði, á Kletti í Reykjavík var byggð 5.000 mála verksmiðja og loks var keypt verksmiðjuskip sem áætlað er að geti brætt 6.000 mál á sólarhring. Verksmiðjuskipið "Hæringur" kom til Reykjavíkur um miðjan október. Þetta er stærsta fley sem Íslendingar hafa eignast, tæplega sjö þúsund lestir, en nokkuð við aldur, byggt 1901. Síld hefur ekki verið brædd um borð í verksmiðjuskipi hér við land síðan á bernskutíð síldarbræðslunnar á Siglufirði og 267
víðar 1911 - 1912. Þetta er áhugaverð tilraun og ef vel tekst til er augljóst hagræði að því að færa verksmiðjuna til eftir því hvar síldin veiðist hverju sinni. Skipið er í eigu fjögurra aðila, Reykjavíkurbæjar, félags útgerðarmanna, Síldarverksmiðja ríkisins og Jarlsins, félags Óskars Halldórssonar o.fl. En allur þessi viðbúnaður var til harla lítils. Veiði í reknet var sérstaklega bágborin allt sumarið og haustið í Faxaflóa og í nóvember, þegar farið var að leita síldar í Hvalfirði, fannst næsta lítið af henni. Loks um mánaðamótin fékkst ofurlítil síld, u.þ.b. 2.300 tonn. Meira en helmingurinn fór í frystingu, ekkert var saltað og aðeins 10.633 hektólítrar fóru í bræðslu. Nokkrir bátar leituðu síðan síldar allan desembermánuð og sumir fram í janúar en ekkert fannst. Allur þessi mikli og góði undirbúningur reyndist unninn fyrir gýg, a.m.k. þetta árið. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1948 og 1949
268
1949 Í upphafi árs leituðu nokkrir bátar síldar syðra í von um síðbúna Hvalfjarðarsíld en árangur varð enginn. Aftur á móti fengu fjögur snurpunótaskip ofurlítið kropp á innanverðum Eyjafirði og var það litla sem fékkst notað í beitu. Sumarsíldveiðarnar byrjuðu að venju í júlíbyrjun en engan afla var að hafa fyrstu vikuna. Síðan var dræm veiði fram í aðra viku í ágúst en eftir það glæddist afli um þriggja vikna skeið en datt svo aftur niður um mánaðarlokin. Í september kom svo ofurlítið skot en þá voru flestir hættir veiðum og aðeins fá skip nutu þess afla er þá fékkst. Heildarafli sumarsins var rúmlega 60 þúsund tonn en 1948 fengust 53 þúsund tonn. Þetta er því eitt aflaleysissumarið enn. Eitthvað fer bjartsýni manna á góðan síldarafla þverrandi eða fjárhagsleg geta því að síldarskipum hefur fækkað frá því í fyrra, nú voru þau 199. Togarar voru fjórir, "Tryggvi gamli" frá Reykjavík var aflahæstur þeirra með 2.123 mál. Átta línuveiðarar mættu til leiks og fékk "Ólafur Bjarnason" frá Akranesi mestan afla, 5.304 mál og tunnur. Mótorskip 269
með snurpunót voru 96 og var "Fagriklettur" frá Hafnarfirði hæst þeirra með 11.261 mál og tunnur. Hringnótabátar voru 89 og meðal þeirra var "Ársæll Sigurðsson" úr Njarðvík fengsælastur með 4.089 mál og tunnur. Loks var eitt tvílembingapar, "Bragi" og "Fróði" úr Njarðvík, þeir fengu 2.020 mál og tunnur. Athyglisvert er að hringnótabátar eru nú næstum jafnmargir og skip með snurpunót og tvílembingaútgerð virðist komin á fallanda fót. Að þessu sinni veiddist síldin að langmestu leyti á austursvæðinu. Síldarverksmiðjur vestan til voru því næsta slyppifengar og fengu Húnaflóaverksmiðjur nánast enga síld. Raufarhafnarverksmiðjan fékk tæplega 210 þúsund hektólítra eða 41 % alls bræðslusíldaraflans sem var 511.145 hektólítrar. Heildarsöltun Norðurlandssíldar varð 86.156 tunnur. Mest var saltað á Siglufirði, 52.569 tunnur, en hæsta söltunarstöðin var stöð Vilhjálms Jónssonar á Raufarhöfn með 7.381 tunnu. Norðmenn sendu 255 skip á Íslandsmið og fengu þau alls 223.700 tunnur. Svíar fengu 71 þúsund tunnur á 102 skip. Finnar sendu fimm skip sem fengu u.þ.b. 16.500 tunnur, Danir, sem einnig voru á fimm skipum, fengu 3.200 270
tunnur og þrjú skip, sem komu frá Þýskalandi fengu alls 2.616 tunnur. Loks var hér rússneskur floti eins og í fyrra en engar upplýsingar liggja fyrir, hvorki um skipafjölda né afla. Alls fengu því 370 erlend skip 316 317 þúsund tunnur ef Rússarnir eru undanskildir. Eftirtektarvert er að útlendingarnir fiskuðu að þessu sinni tiltölulega betur en Íslendingar. Það helgast líklega af því að þeir fiskuðu flestir í reknet sem gefst oft vel í aflaleysisárum. Um haustið var talsverð reknetaveiði í Faxaflóa og voru 42.908 tunnur saltaðar af Faxasíld. Hvalfjarðarsíldin lét ekki ekki sjá sig en nú hafði enn ein verksmiðjan verið reist í hennar þágu, Faxaverksmiðjan í Örfirisey með fimm þúsund mála afköstum á sólarhring. Alls voru 7.950 tonn af síld fryst til beitu á árinu. Þar af voru 5.400 tonn fryst á Suðurlandi á haustvertíðinni. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1949 og 1950
271
1950 Mörg síðustu ár hafa gefið af sér lítinn afla en nú tók steininn úr. Þátttaka var meiri í veiðunum nú en í fyrra eða 240 skip. Fyrsta síldin veiddist síðasta dag júnímánaðar en síðan var veiði afar treg fram yfir miðjan júlí. Þá lifnaði heldur yfir afla fram til 5. ágúst en þá tók að mestu fyrir veiði að því undanskildu að smáskot kom 12. og 13. ágúst. Heildaraflinn var 32 þúsund tonn eða rétt rúmur helmingur þess sem fékkst í fyrra. Eins og jafnan í aflaleysisárum var það fyrst og fremst síðari hluti hins hefðbundna veiðitíma sem brást. Annað einkenni aflaleysisára kom einnig skýrt fram, langmestur hluti aflans fékkst á austursvæðinu, við Melrakkasléttu og Langanes. Að þessu sinni voru átta togarar á síld, þar af einn nýsköpunartogari, "Ísborg" frá Ísafirði. Aflahæstur togaranna var "Gyllir" frá Reykjavík með 1.813 mál. Línuveiðurum fer nú fækkandi. Þeir voru sex á síld þetta árið. "Jökull" frá Hafnarfirði var þeirra hæstur með 1.796 mál. Mótorskipum með snurpunót fer líka fækkandi, þau voru 88 að þessu sinni. Aflahæst var "Helga" frá Reykjavík með 6.397 272
mál og tunnur. Það er athyglisvert að afli "Helgu" er heldur meiri en samanlagður afli togaranna átta. Hringnótabátar voru 128 og voru þeir nú í fyrsta skipti fleiri en snurpunótaskipin. Aflahæstur Hringnótabáta var "Skaftfellingur" frá Vestmannaeyjum með 2.958 mál og tunnur. Loks voru svo fimm pör af tvílembingum að veiðum. "Bragi" og "Fróði" úr Njarðvíkum voru fengsælastir þeirra með 1.946 mál og tunnur. Þar sem svo hörmulega tókst til með síldveiðina brugðu margir á það ráð að veiða ufsa til bræðslu í lok síldarvertíðar. Þannig fengust 65.650 mál eða u.þ.b. 8.800 tonn. Þess var áður getið að síldin veiddist einkum á austursvæðinu að þessu sinni. Það var því að vonum að Raufarhafnarverksmiðjan tók á móti langmestum afla, 149 þúsund hektólítrum eða rúmlega 56 % alls þess sem landað var í bræðslu á vertíðinni. Húnaflóaverksmiðjurnar fengu nánast enga síld. Bræðsluskipið "Hæringur" fór norður og tók á móti tæpum sex þúsund hektólítrum. Heildarsöltun Norðurlandssíldar nam alls 55.565 tunnum. Langmest var saltað á Siglufirði, 23.623 tunnur, en Hafsilfur h/f á Raufarhöfn saltaði mest einstakra stöðva, 6.735 tunnur. Þar sem veiðin brást svo 273
hörmulega norðanlands var mikil áhersla lögð á reknetaveiðar syðra á haustdögum. Alls voru saltaðar 131.708 tunnur af Faxasíld. Mest var saltað í Keflavík, 37.755 tunnur en Haraldur Böðvarsson & co. saltaði mest einstakra stöðva, 12.960 tunnur. Beitufrysting á árinu nam alls rúmlega sjö þúsund tonnum, þar af voru rúmlega 6.300 tonn fryst sunnanlands af afla reknetabátanna. Útlendingar sóttu á Íslandsmið að venju. Frá Noregi komu 211 skip sem fengu alls 96.405 tunnur. Vegna þessa lélega afla fóru sum norsku skipanna norðaustur í haf, norður undir Jan Mayen, en fengu heldur lítinn afla og létu skipstjórar hið versta af sinni ferð. Sænsku skipin voru 52 og fengu alls 14.712 tunnur. Frá Finnlandi komu níu skip sem fengu 9.000 tunnur. Loks voru á Íslandsmiðum tvö dönsk skip sem fengu u.þ.b. eitt þúsund tunnur. Reknetaveiði í Faxaflóa var áður nefnd en auk hennar voru 11.082 hektólitrar af smásíld eða kræðu veiddir á Sundunum við Reykjavík í nóvembermánuði. Þessari síld var landað í "Hæring". Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1950 og 1951
274
1951 Síldarleysisárið í fyrra olli mönnum vonbrigðum og víst er að bjartsýni manna fer ekki vaxandi þegar veiðin bregst svona ár eftir ár. Síld sem veiðist inni á fjörðum þykir ávallt áhugaverð, veiðitæknin er ólík flestu öðru og henni fylgir viss spenna, einkum ef dregið er fyrir sem kallað er. Í síðari hluta maímánaðar varð vart við allmikið af smásíld í flestum fjörðum við Djúp. Um 20. maí fékk Brynjólfur Jónsson 500 tunnur af smásíld í "landdráttarnót" í Seyðisfirði vestra. Þessi veiði hélt síðan áfram og um miðjan júní hafði fengist talsvert á þriðja þúsund mál á þessum slóðum, einkum í Seyðisfirði og Álftafirði. Þrír bátar stunduðu þessar veiðar auk Brynjólfs sem áður var nefndur. Aflinn var nýttur til beitu að nokkru en það sem var umfram beituþörf var flutt til Sólbakka í Önundarfirði til bræðslu. Síldin var heldur mögur, aðeins 4 % fita mældist. Á Austfjörðum varð lítillega vart við síld í júníbyrjun, m.a. fékkst örlítill afli inni á Seyðisfirði um það leyti og um miðjan júlí
275
fékkst góður smásíldarafli, (einnar beitu síld), á Reyðarfirði. Norðmenn hafa nú í hyggju að kanna betur aðstæður við Jan Mayen og sendu nokkur skip til síldveiða þar í grennd. Lúðvík Kristjánsson skrifaði blaðagreinar þar sem hann hvatti Íslendinga til að fylgjast grannt með þessum málum og taldi að þeir ættu að vera viðbúnir veiðum langt norðaustur í hafi. Það varð úr að vélskipið "Faxaborg" var sent með norska flotanum á þessar slóðir í byrjun júní. Skipið hafði reknet meðferðis og 500 tómtunnur. Árangur varð enginn. Í maímánuði var allgóð reknetaveiði við Suðvesturland. Óskar Halldórsson gerði vélbátinn "Harald" út til þessara veiða frá Sandgerði og fékk hann 500 tunnur fyrstu tíu daga mánaðarins. Sumarsíldveiðarnar byrjuðu með óvenjulegum hætti en um 20. júní sást mikil vaðandi síld 90 - 100 mílur vestur af Garðskaga. Nokkrir bátar fengu afla á þessum slóðum næstu daga. Undir lok mánaðarins fékkst síld allmiklu norðar. "Fróði" frá Njarðvík fékk 200 mál í Kolluál og "Einar Hálfdans" frá Bolungarvík fékk 900 mál út af vestfjörðum. Viku síðar var góð síldveiði á Húnaflóa og var aflanum landað í verksmiðjur 276
á svæðinu frá Ingólfsfirði til Siglufjarðar. Að undanförnu hafa Strandaverksmiðjurnar unnið karfa en nú var skipt yfir í síldarvinnslu. Ekki hafði verið gert ráð fyrir að Skagastrandarverksmiðjan yrði sett í gang í sumar en þegar síld fékkst svo nærri þótti ekki annað fært en hún tæki við afla. Þangað komu nú nokkrir bátar með fullfermi, einn skipstjórinn hafði meira að segja háfað síðustu málin í nótabátana. Veiðin í Húnaflóa varð heldur endaslepp, um miðjan júlí fékkst afli einkum austur af Grímsey og um mánaðamót var helst síld að hafa austan Langaness. Í fyrstu viku ágúst fékkst góður afli út af Digranesi. Allar þrær á Raufarhöfn fylltust og um tíma var tekin þar upp sú regla að ekki var tekið á móti síld úr veiðiskipum nema þau hefðu áður farið eina ferð vestur á bóginn til löndunar á Siglufirði eða í Eyjafirði. Eftir miðjan ágúst tók veiði mjög að tregðast. Sunnlensku skipin hættu þá flest veiðum og héldu heim á leið en mörg norðlensku skipin sneru sér að ufsaveiðum. Ufsaaflinn var allgóður, einkum við Grímsey og Tjörnes eða 10 - 15 þúsund mál fram til ágústloka. Ufsanum var því nær öllum landað í bræðslu. 277
Flestir voru nú orðnir úrkula vonar um meiri síldarafla en 23. ágúst fannst mikil síld 80 - 90 mílur norðaustur af Langanesi og reyndist sá dagur besti veiðidagur sumarsins en alls fengust yfir 30 þúsund mál í þessu skoti. Upp úr þessu gerði brælu og má heita að eftir þetta fengist engin síld. Fiskifélag Íslands birti lokaskýrslu sína í dagblöðunum 28. ágúst, hugsanlegt er að þar vanti örfá mál síldar. Samkvæmt skýrslunni stunduðu 208 skip veiðarnar en 32 þeirra fengu minna en 500 mál og tunnur. Meðal hinna sem fengu meiri afla en þetta voru 9 togarar. "Jörundur" frá Akureyri var aflahæstur þeirra með 12.553 mál og tunnur. Línuveiðarar voru sex, "Jökull" frá Hafnarfirði var hæstur þeirra með 3.735 mál og tunnur. Mótorskip með snurpunót voru 62, fengsælast þeirra var "Helga" frá Reykjavík 10.958 mál og tunnur. Hringnótabátar voru 96, "Fanney" frá Reykjavík var hæst þeirra með 4.794 mál og tunnur og loks fengu tvílembingarnir "Týr" og "Ægir" frá Grenivík 1.641 mál og tunnur. Mestur hluti sumaraflans fór í bræðslu eða 402.322 mál skv. skýrslum. Langmest var brætt á Raufarhöfn eða talsvert á annað hundrað þúsund mál. Alls var saltað í 87.221 tunnu af Norðurlandssíld, mest á Raufarhöfn 278
27.165 tunnur, og var Hafsilfur h/f langhæsta söltunarstöðin með 10.699 tunnur. Auk landsöltunar, sem hér hefur verið nefnd, voru 1.329 tunnur saltaðar um borð í togaranum "Ísborgu" frá Ísafirði. Áður hefur verið getið um leiðangur "Faxaborgar" en auk hennar leituðu "Særún" frá Siglufirði og "Fanney" frá Reykjavík síldar í byrjun vertíðar. Síldar var einnig leitað úr lofti með tveimur flugvélum. Önnur þeirra hafði að þessu sinni aðsetur á Kópaskeri vegna þess að menn væntu síldar á austursvæðinu frekar en áður. Svo óheppilega vildi til uppúr miðjum júlí að Kópaskersvélin brotlenti á flugvellinum þar og eyðilagðist. Ekki liggja fyrir skýrslur um afla útlendinga við Íslandsstrendur á þessari vertíð en vitað er að hann er minni en oftast áður, m.a. vegna þess að hluti norska flotans eyddi löngum tíma í að reyna fyrir sér við Færeyjar og Jan Mayen. Þó að heildarafli Íslendinga sé skárri nú en stundum áður er ljóst að hér var á ferðinni sjöunda síldarleysisárið í röð og stenst engan samjöfnuð við fyrri aflaár. Reknetaveiði við Suður- og Vesturland hófst þegar í júnímánuði en síldin þótti mögur og fór í bræðslu. Í júlí var um tíma góð veiði út af Jökli og síðustu viku mánaðarins var mikil 279
veiði í Faxaflóa. Síðan var öðru hverju allgóðan afla að fá allt fram í nóvember þótt stundum væru úrtök vegna veðurs. Síldin fitnaði þegar leið á sumarið og söltun var leyfð frá 22. ágúst. Alls voru saltaðar 66.758 tunnur af Suðurlandssíld, mest í Keflavík og nágrenni, 20.758 tunnur en hæsta söltunarstöðin var stöð Jóns Gíslasonar í Hafnarfirði með 3.823 tunnur. Fjöldi báta að veiðum var mjög breytilegur en flestir voru þeir 186 í september, þetta eru mun fleiri bátar en undanfarin ár. Það vakti talsverða athygli að allmargir norskir reknetabátar voru nú að veiðum á sömu slóðum og íslensku bátarnir. Hitt þótti enn nýstárlegra að stór floti rússneskra reknetabáta var mættur til leiks með móðurskipið "Tungus" í fararbroddi. Rússneski flotinn hélt sig einkum út af Eldey og við Vestmannaeyjar. Margir höfðu horn í síðu Rússanna en þeir þóttu heldur frekir til fjörsins á miðunum. Svo fór að móðurskipið "Tungus", sem er 10 - 15 þúsund tonn var tekið í landhelgi á Selvogsbanka seint í ágúst. Þótt hvert síldarleysisárið renni sitt skeið missa menn ekki móðinn. Norðurlandssíldin veiðist sífellt austar ef hún veiðist á annað borð og bjartsýnismenn á Norðaustur- og 280
Austurlandi auka viðbúnað sinn til móttöku afla. Söltunarstöðvar á Raufarhöfn voru nú fleiri en áður en þessi gamli síldarstaður virðist vera að taka forystu þessi árin. Á Vopnafirði eru nú tvær söltunarstöðvar og svona mætti lengi telja. Syðra og vestra bræða menn nú síld víðar en áður, s.s. í Stykkishólmi en þar var brædd síld í fyrsta skipti um 20. ágúst. Hins vegar á hin mikla fjárfesting, sem ráðist var í vegna drauma manna um Hvalfjarðarsíld, undir högg að sækja. "Hæringur" var auglýstur á nauðungaruppboði í septemberbyrjun. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Tíminn 1951 Ægir 1951 og 1952
1952 Í ár varð allvíða vart við síld inni á fjörðum en nánast alls staðar var um smásíld að ræða. Mikið af smásíld gekk í Skötufjörð í mars en henni var lítið sinnt fram eftir sumri. Það var síðan snemma í ágúst að athygli manna beindist verulega að þessari síld og um miðjan 281
mánuðinn fengu Vestfjarðabátar góðan afla í Djúpinu. "Einar Hálfdans" frá Bolungarvík fékk þarna þúsund mál á skömmum tíma. Um miðjan ágúst var einnig veitt nokkuð af smásíld á Skagafirði til niðursuðu á Sauðárkróki. Áður hafði þekkst að veiða smásíld með fyrirdrætti við sandana fyrir botni Skagafjarðar en hér var hún veidd í snurpunót þar sem ekki mátti finnast sandur í aflanum. Þrátt fyrir áföll undanfarinna ára undirbjuggu menn sumarvertíðina af fullum krafti. Sveinn Benediktsson byggði nú stóra söltunarstöð á Raufarhöfn, Hafsilfur, og víðar stóðu menn klárir ef Norðurlandssíldinni þóknaðist að láta sjá sig. Snemma í júní varð síldar vart út af Vestfjörðum, togbátar fengu þá síld í vörpur og um miðjan mánuð varð vart við síld við Grímsey. Fyrstu bátar á miðin voru "Særún" frá Siglufirði og "Skúli fógeti" frá Ólafsfirði sem fékk fimm tunnur í reknet 23. júní. Enga síld var síðan að hafa fram til mánaðamóta en skömmu eftir þau barst fyrsta síldin til Siglufjarðar og Raufarhafnar. Síðan var kropp öðru hverju fram eftir júlímánuði, einkum út af Sléttu og við Langanes en aldrei var hægt að tala um almennan afla veiðiskipanna. 282
Þegar vika var liðin af ágústmánuði án þess að úr rættist tóku sunnanbátar að tínast heim á leið og aðkomufólk í síldarbæjunum hvarf einnig á brott eftir vertíð sem varla á sér hliðstæðu nema e.t.v. árið 1935. Síðasta aflaskýrsla sumarsins birtist í dagblöðum 12. ágúst. Þá höfðu flest skip hætt veiðum og sáralítil síld veiddist eftir þetta. Aflaskýrslan greinir frá 59 skipum sem höfðu fengið 500 mál og tunnur eða meira en hátt á annað hundrað skipa reyndu síldveiðar nyrðra í sumar. Í skýrslunni eru nefndir þrír togarar og er "Jörundur" frá Akureyri hæstur þeirra með 2.057 mál og tunnur en hæsta vélskipið var "Akraborg" frá Akureyri með 2.342 mál og tunnur. Allmargir bátar drýgðu afla sinn með ufsaveiðum og þegar skýrslan var samin hafði 25.311 málum af ufsa verið landað í bræðslu og 1.415 málum í salt.Þá fengu tveir bátar, "Síldin" frá Hafnarfirði og "Guðmundur Þorlákur" frá Reykjavík nokkur tonn af þorski í síldarnæturnar inni á Þistilfirði. Þegar skýrslan var tekin saman höfðu 31.834 tunnur verið saltaðar, 27.100 mál farið í bræðslu og 6.363 tunnur voru frystar í beitu. Um sumarið bárust öðru hverju fregnir af miklum síldarafla útlendinga í hafinu austur af Íslandi í 100 - 150 mílna fjarlægð og í grennd 283
við Færeyjar fékkst einnig góður afli. Þess vegna fóru fimm skip í útilegu austur í haf með reknet þegar þessari ömurlegu vertíð á heimamiðum lauk. Þetta voru "Snæfell", "Ingvar Guðjónsson", "Akraborg" og "Súlan" frá Akureyri og "Valþór" frá Seyðisfirði. Þessar veiðar gengu fremur vel og fengu skipin alls hátt á 14. þúsund tunnur. Heildarsöltun Norðurlandssíldar, ef afli reknetabátanna er meðtalinn, var 49.463 tunnur, mest var saltað á Siglufirði 15.128 tunnur og hæsta stöðin Pólstjarnan h/f á Siglufirði með 2.261 tunnu. Allt frá því í júní fékkst síld í reknet við Suðvesturland. Afli var einkum góður við Snæfellsnes og öðru hverju komu góð skot út af Hornafirði og þar var nú söltuð síld í fyrsta skipti. Þá var talsvert saltað í Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi sem einnig er nýjung. Veiðarnar voru stundaðar af mestum krafti í september en þá var 171 skip að veiðum. Söltun Suðurlandssíldar var leyfð 22. ágúst og fram í fyrstu viku nóvember voru saltaðar 70.510 tunnur. Mest var saltað í Keflavík og nágrenni, 20.075 tunnur en hæst einstakra stöðva var stöð Haraldar Böðvarssonar & co. á Akranesi með 5.728 tunnur. 284
Meðal nýjunga á þessari reknetavertíð má nefna að seint í ágúst var nokkuð af síld fryst til beitu á Selfossi. Hluti af afla Þorlákshafnarbáta var þá fluttur til Selfoss og frystur í sláturhúsi þar á staðnum. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Tíminn 1952 Ægir 1952 og 1953
1953 Þetta ár varð allvíða vart við smásíld inni á fjörðum. Um mánaðamótin maí - júní var slík síld veidd í talsverðum mæli með ádrætti í Reyðarfirði og sömu sögu var að segja úr innanverðum Eyjafirði og síðsumars í Skutulsfirði. Þessi veiði í Reyðarfirði hélt áfram nokkuð fram eftir sumri. Í apríl og maí fékkst öðru hverju síld við Suður- og Suðvesturland. "Fanney" reyndi nýjar gerðir flotvörpu í apríl og fékk nokkurn afla. Þarna var annars vegar um að ræða vörpu sem Runólfur Ólafsson á Akranesi hannaði og hins vegar vörpu sem hönnuð var af Gunnari Böðvarssyni verkfræðingi. "Illugi" frá 285
Hafnarfirði fékk 120 tunnur í hringnót snemma í maí. Þá fékkst síld í reknet austur við Hrollaugseyjar. Síðari hluta júnímánaðar fengu bátar frá Akranesi og Stykkishólmi síld í reknet og var mestur hluti hennar frystur til útflutnings. Þegar leið á júnímánuð fóru þeir að hugsa sér til hreyfings sem ætluðu enn á ný að freista gæfunnar fyrir norðan. En kjarkur margra hefur brostið sem vonlegt er eftir makalaust aflaleysi á síðasta ári, Færri bátar héldu nú til veiða en undanfarin ár og illa gekk að manna söltunarstöðvarnar. Saltendur auglýstu grimmt eftir söltunarstúlkum en þær auglýsingar báru lítinn árangur. Sumir saltendur höfðu við orð að reyna fyrir sér meðal norskra söltunarstúlkna. Í júnílok fékkst fyrsta síldin, "Særún" frá Siglufirði fékk þá 170 tunnur í nót og "Þorsteinn" frá Raufarhöfn fékk örlítið í reknet út af Sléttu. Fyrsta síldin var söltuð á Siglufirði í júlíbyrjun þótt söltun hefði enn ekki verið leyfð en ákafi saltenda er mikill. Þeir vilja ekki vera of seinir til, minnugir hörmunga liðins árs. Áhugi manna á að sannfæra sjálfa sig og aðra um að einmitt núna sé komið að miklu síldarári er ótrúlega mikill. Suma dreymir fyrir 286
mikilli síld en út yfir tekur þó þegar framliðnir síldarjaxlar birtast á miðilsfundum gagnteknir af hugmyndum um mikinn sumarafla. Allan júlímánuð mátti heita þokkaleg veiði, fyrst á afmörkuðum svæðum við Grímsey og út af Þistilfirði en um miðjan mánuð dreifðust skipin vestan frá Skagagrunni austur að Digranesi. Síðan seig síldin austur á bóginn að venju og í síðustu viku mánaðarins fékkst einkum afli sunnan Langaness. Þegar leið á ágúst strjálaðist veiði og veður tóku að spillast. Margir bátar héldu því heimleiðis en aðrir skiptu yfir á reknet. Reknetabátarnir skiptust í tvo hópa, hinir smærri létu reka í Húnaflóa og gerðu ýmist að salta aflann um borð eða þeir lönduðu í höfnum við Flóann. Stærri skipin héldu hins vegar austur í haf líkt og í fyrra og söltuðu aflann um borð. Talið var að um 30 bátar væru á reknetum í Húnaflóa í september og u.þ.b. 20 skip héldu austur í haf sömu erinda. Kolkrabbaganga spillti afla í Húnaflóa um miðjan september en útileguskipin eystra héldu veiðum áfram út mánuðinn. Síðasta aflaskýrsla Fiskifélagsins birtist í dagblöðum í septemberbyrjun. Þar kom fram að tæp 120 þúsund mál fóru í bræðslu, 155 þúsund tunnur voru saltaðar og um 7 þúsund 287
tunnur voru frystar. Þessu til viðbótar fengu reknetaskipin 18.650 tunnur sem bætast við saltsíldina. Heildarsöltun Norðurlandssíldar varð því 173.285 tunnur. Þegar áðurnefnd aflaskýrsla var gerð hafði 161 skip fengið einhvern afla. Fimm togarar stunduðu veiðar að þessu sinni og var "Jörundur" frá Akureyri aflahæstur þeirra með 6.918 mál og tunnur. Línuveiðarar eru nú að ljúka hlutverki sínu, "Bjarki" frá Akureyri var hinn eini þeirrar tegundar með 1.082 mál og tunnur. Vélskip voru 155 en ekki er vitað með vissu hve mörg þeirra notuðu snurpunót og hve mörg hringnót. Hitt er ljóst að "Snæfell" frá Akureyri var hæst snurpunótaskipanna með 5.870 mál og tunnur en "Edda" frá Hafnarfirði var með svipaðan afla eða 5.840 mál og tunnur. "Vörður" frá Grenivík var hæstur hringnótabáta með 4.081 mál og tunnur. Ekki finnast heimildir um skiptingu bræðslusíldaraflans milli einstakra verksmiðja en vitað er að rúmum helmingi hans eða 73 þúsund málum var landað á Raufarhöfn. Mest var saltað á Siglufirði, 57.836 tunnur en 44.681 tunna á Raufarhöfn. Hæsta söltunarstöðin var Óskar Halldórsson h/f á Raufarhöfn með 12.533 tunnur en hjá Hafsilfri var söltuð 12.421 tunna. Þó að þessi vertíð 288
hafi verið skárri en á síðasta ári er ljóst að enn eitt síldarleysisárið hefur gengið yfir. Lítið fréttist af afla útlendinga á þessu sumri. Þó er vitað að mörg erlend skip fengu góðan afla í hafinu norður af Færeyjum og fréttir hafa borist frá Norðmönnum um að þeir hafi fengið um 300 þúsund tunnur á 300 skip á Íslandsmiðum í sumar og telja þeir þetta sumar hið besta frá stríðslokum. Reknetaveiðar syðra hófust að marki í júlí en náðu hámarki í september þegar hátt í 150 bátar stunduðu veiðarnar. Í heild gengu veiðarnar frekar illa. Framan af vertíð fór mestur hluti aflans í frystingu en nokkru var landað í bræðslu. Söltun hófst að marki í síðustu viku ágúst og stóð fram í fyrstu viku október. Alls voru saltaðar 56.297 tunnur, mest í Keflavík og nágrenni, 12.785 tunnur en hæsta söltunarstöðin var Haraldur Böðvarsson & co. á Akranesi með 5.234 tunnur. Það var einkum tvennt sem stóð veiðum fyrir þrifum á þessari vertíð. Annars vegar var það að síldin var óvenjulega horuð og misjöfn að stærð svo að söltun hennar var miklum annmörkum háð. Hins vegar gerði það mönnum gramt í geði að háhyrningar trufluðu veiðarnar, styggðu síldina og spilltu veiðarfærum. Benóný Friðriksson hélt á 289
bátnum "Andvara" til að stugga við þessum óboðnu gestum. Hann náði nokkrum árangri, skaut einhverja tugi þeirra og hrakti aðra af miðunum en hætt er við að það verði skammgóður vermir. Á þessu hausti varð síldar vart víða við land, hafsíld fékkst í lagnet í Ólafsfirði í október og um mánaðamótin október - nóvember fréttist af mikilli síld í Jökulfjörðum og inni í Ísafjarðardjúpi. Þá urðu bátar varir við síld í Hvalfirði. Fljótlega kom í ljós að hér var alls staðar um smákræðu að ræða sem tæpast var nýtileg. Á Akureyrarpolli og Eyjafirði innanverðum var góður afli öðru hverju fram í miðjan desember. Var ýmist að síldin fékkst rétt fram undan bryggjunum á Oddeyri eða allt út undir Hjalteyri. Síldin á þessum slóðum var aðallega millisíld sem fór að mestu í bræðslu í Krossanesi. Árangursríkustu veiðarnar voru þó í Grundarfirði. Vélbáturinn "Arnfinnur" frá Stykkishólmi fékk 1.000 mál 3. nóvember og eftir það héldu bátar frá Faxaflóahöfnum vestur til veiða. Þarna fékkst prýðisgóður afli um skeið og var honum landað að mestu í Stykkishólmi og Hafnarfirði. Löndun í Stykkishólmi var þó erfiðleikum háð í fyrstu vegna þess að þar skorti löndunarbúnað. Um 290
miðjan mánuðinn var þarna hörkuveiði og mikið kapp í mönnum. Hinn þekkti síldarskipstjóri Ingvar Pálmason var þá skipstjóri á tveimur bátum, "Marz" og "Nönnu". Hann veiddi þá í annan bátinn meðan hinn fór inn til löndunar. Þetta er líklega einsdæmi. Þessari ágætu aflahrotu lauk með hörmulegum hætti. Upp úr miðjum nóvember gerði aftakaveður í Grundarfirði. Vélskipið "Edda" frá Hafnarfirði lá við festar ásamt fleiri síldarskipum um 300 metra frá bryggjunni í Grundarfirði aðfaranótt 16. nóvember. Um klukkan fjögur um nóttina skall ægileg vindhviða á skipinu og skipti engum togum að því hvolfdi og sökk það eftir skamma stund. Ellefu af sautján manna áhöfn komust í annan nótabátinn og hrakti í honum út eftir firði. Þá bar loks að landi í morgunsárið fram undan bænum Suður - Bár. Í þessum hrakningum létust þrír menn af vosbúð. Alls fórust því níu menn í þessu slysi en átta komust af. Fleiri skip lágu á svipuðum slóðum og "Edda" í þessu voðaveðri og voru mörg þeirra hætt komin. Þau drógu akkerin í veðurofsanum og þurftu sífellt að keyra upp á legufærin, mörg þeirra misstu nætur eða nótabáta. Veðrið var slíkt að áhafnir þeirra urðu ekki varar við hvarf 291
"Eddu" og í fyrstu fregnum að vestan var talið að hún hefði siglt út eftir firðinum. "Edda" var eitt myndarlegasta skip síldarflotans, 183 tonn að stærð, byggð í Hafnarfirði árið 1944. Eftir þetta óveður var síldveiði að mestu úr sögunni á þessum slóðum en síldar varð lítillega vart við Stykkishólm um miðjan desember. Skýrsla Síldarútvegsnrfndar Tíminn 1953 Ægir 1953 og 1954
1954 Fyrstu síldarfréttir ársins bárust ekki frá Íslandi heldur Noregi en á vorsíldarveiðunum þar fengust 600 síldar sem höfðu verið merktar við Ísland. Seint í apríl fannst síld við Vestmannaeyjar. Togarinn "Þorkell Máni" frá Reykjavík reyndi þar veiðar með vörpu og fékk 50 - 60 tunnur sem voru frystar um borð. Á árinu varð talsvert vart við síld inn á fjörðum og flóum, oftast millisíld. Um mánaðamótin maí - júní fengust 200 - 300 292
tunnur með fyrirdrætti við Hvammstanga og víðar við Miðfjörð. Í júlí og ágúst var talsvert um síld í Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og á Akureyrarpolli og var hún veidd bæði í lagnet og landnætur. Það gerðist svo 16. ágúst að bændurnir Benedikt Sveinsson og Magnús Tómasson urðu varir við myndarlega síldartorfu á svokallaðri Tangavík í Mjóafirði. Þeir köstuðu lítilli landnót á hana og tókst að koma henni í lás. Þetta reyndust vera 700 800 tunnur en vegna þess að viðbúnaður til síldarmóttöku í Mjóafirði er enginn fluttu þeir þennan happafeng til frystingar í Neskaupsstað. Skipakostur þeirra félaga var líka heldur óburðugur þannig að þeir gátu aðeins flutt 100 tunnur í hverri ferð. Fyrstu bátarnir héldu til veiða út af Norðurlandi seint í júní að venju. Þeir urðu hvergi varir en fréttir bárust af síld u.þ.b. 80 mílur austur af landinu. Fyrsta síldin fékkst svo við Kolbeinsey í fyrstu viku júlí og var henni landað á Siglufirði. Nokkrum dögum síðar fékkst góður afli við Grímsey og saltað var á einni stöð á Siglufirði þótt síldin væri tæpast nógu feit til söltunar. Um miðjan júlí tók síld að berast til Raufarhafnar og 16. júlí var greint frá almennri veiði allt frá Grímsey austur að Digranesi. Síld fékkst síðan öðru 293
hverju fram yfir mánaðamót, einkum út af Melrakkasléttu og Þistilfirði en þegar vika var liðin af ágúst mátti heita að tæki alveg fyrir afla og tóku skipin þá að tínast til heimahafnar. Síðasta aflaskýrsla Fiskifélagsins birtist 10. ágúst. Samkvæmt henni höfðu 189 skip reynt síldveiðar um sumarið, 183 fengu einhvern afla, 141 fengu 500 mál og tunnur eða meira. Þrír togarar eru nefndir í skýrslunni og er "Jörundur" þeirra aflahæstur með 3.751 mál og tunnur. Af öðrum skipum var "Snæfell" frá Akureyri hæst með 4.399 mál og tunnur. "Kári Sölmundarson" var í þriðja sæti með 2.694 mál og tunnur, hann hefur líklega verið með hringnót. Þetta eru lágar tölur og er ljóst að þetta sumar er eitt hið lélegasta meðal margra hörmungarsumra frá stríðslokum. Margir reyndu þó að bæta hag sinn örlítið eftir hefðbundna vertíð með reknetaveiðum í Húnaflóa eða austur í hafi, auk þess sem nokkuð fékkst af ufsa við Grímsey og Tjörnes. Þegar áðurnefnd aflaskýrsla var gefin út hafði 123.817 málum verð landað í bræðslu. Sennilega hefur Raufarhöfn verið hæsti löndunarstaðurinn en þangað fóru 53 þúsund mál. Saltaðar höfðu verið 51.256 tunnur en 294
síðar bættust við u.þ.b. 10 þúsund tunnur af reknetasíld af 49 skipum. Heildarsöltun nam því 61.682 tunnum. Mest var saltað á Raufarhöfn, 24.618 tunnur og var Hafsilfur h/f hæsta stöðin með 7.191 tunnu. Alls voru 8.805 tunnur frystar. Þó að illa gangi þessi árin eru menn sífellt að þreifa fyrir sér með nýjungar. Nótabátarnir verða fyrir miklu hnjaski og þurfa þess vegna að vera mjög sterkbyggðir. Í sumar voru nótabátar úr stáli notaðir í fyrsta sinn. Þeir voru smíðaðir í Landssmiðjunni og reyndust með ágætum. Það vekur jafnan athygli þegar ný fley bætast í flotann, 31. júlí greindu blöð frá nýjum báti, "Víði II" sem hljóp af stokkunum í Hafnarfirði. Hann hélt þegar norður til veiða og þótt hann hefði aðeins örfáa daga til athafna náði hann að komast á aflaskýrslu. Skipstjóri á "Víði II" er Eggert Gíslason. Loks má nefna að um sumarið bárust fregnir vestan frá Bandaríkjunum að þarlendir sjómenn hafi gert tilraunir til að dæla síld um borð í veiðiskip og noti til þess dælu sem er hönnuð af Íslendingnum Lúðvík Ásgrímssyni. Áður hefur verið minnst á reknetaveiðarnar sem gengu þolanlega bæði í Húnaflóa og í hafinu austur af landinu. Eitt síldarskip hélt 295
aðra leið. Togarinn "Jörundur" hélt til síldveiða í Norðursjó og vegnaði heldur vel. Hann landaði í Hamborg og stundaði þessar veiðar fram eftir hausti. Menn sýna líka framfaraviðleitni í landi. Á Seyðisfirði voru gerðar tilraunir með sérstakt rotvarnarefni í stað salts til að verja bræðslusíld skemmdum í geymsluþróm. Veiði Suðurlandssíldar hófst lítillega í júní en það var ekki fyrr en í ágúst sem eitthvað fékkst að marki og þá var síldin orðin söltunarhæf. Veiði var oft ágæt í ágúst og september og voru þá um 100 bátar að veiðum. Vélbáturinn "Böðvar" frá Akranesi reyndi veiðar með nót í ágúst en engar sögur fara af árangri. Þegar leið á vertíðina tóku háhyrningar að angra sjómenn og eirðu engu þannig að veiðarfæratjón var gífurlegt. Svo fór að skipstjórar skáru upp herör gegn þessum vágesti. Þeir leituðu fulltingis bandaríska hersins á Miðnesheiði og hélt flotinn í tvígang grár fyrir járnum til móts við óvininn og hrakti hann með skothríð af miðunum. Þetta bar árangur um skamma hríð en jafnan fór allt í sama farið á ný. Þar kom er vika var liðin af október að flotinn hætti veiðum vegna þessarar ásóknar. Má því með nokkrum rétti 296
segja að sameiginlegur floti Íslendinga og Atlantshafsbandalagsins hafi orðið að lúta í læra haldi fyrir þessum ágengu háhyrningavöðum. Alls voru saltaðar 77.883 tunnur af Suðurlandssíld, mest í Keflavík og nágrenni 24.813 tunnur en Miðnes h/f í Sandgerði var hæsta stöðin með 6.241 tunnu. Það er athyglisvert að nú var saltað meira á Snæfellsnesi en áður og ekkert var saltað austan Grindavíkur að þessu sinni. Minnisvarði Hvalfjarðarsíldarinnar, "Hæringur", hefur legið í Reykjavíkurhöfn um árabil og safnað botngróðri og skuldum. Um miðjan ágúst var hann loks seldur til Álasunds í Noregi og 18. september sigldi þetta skip, sem svo margir bundu vonir við á sínum tíma, út úr Reykjavíkurhöfn í síðasta sinn á vit nýrra ævintýra. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Tíminn 1954 Ægir 1954 og 1955
297
1955 Á þessu ári var meira um síld á grunnslóð en oft áður. Í maímánuði var mikið um smásíld á Akureyrarpolli og var hún veidd og seld til beitu til hafna út með firði. Mikið bar á hnísu sem fylgdi þessum eftirlætisrétti sínum inn eftir firðinum. Þessi síld veiddist svo aftur í desember og var þá kölluð millisíld. Afli var þá prýðisgóður en fimm bátar stunduðu veiðarnar og lönduðu í Krossanesi. Um miðjan ágúst fékkst góð veiði í lagnet á Austfjörðum, einkum í Reyðarfirði en einnig í Norðfirði. Loks má nefna Ísafjarðardjúp sem oft hefur verið veiðisælt. Í ágúst varð þar vart við hafsíld en veiði var treg nema helst dýpra út af Vestfjörðum en þar fékkst sæmilegur afli. Svo kom að sumarvertíðinni. Eftir öll þessi aflaleysisár var ekki við miklu að búast en í hverri höfn fyrir norðan bjuggust saltendur engu að síður við hinum besta afla. Fyrstu fréttir af undirbúningi bárust um miðjan maí og voru í þá veru að Vigfús Friðjónsson á Siglufirði hygðist höndla hamingjuna í Grímsey á komandi sumri. Syðra voru menn meira hikandi, bankastjórar voru nú tregir til útlána til hins óvissa útvegs. "Ægir" fann síld á 298
tveimur stöðum seint í júní og nú gerði bæði sárt og að klæja meðal gamalla síldarútvegsmanna. Í byrjun júlí skall á bræla og engin síld veiddist en 3. júlí fékk "Fróði" frá Ólafsvík síld sem var fryst hjá Óskari Halldórssyni á Siglufirði. Næstu daga var umtalsverð veiði og var einkum landað á Siglufirði og í nágrannahöfnum, Ólafsfirði og Dalvík. Nú hófst söltun og 12. júlí var saltað á öllum plönum á Siglufirði en jafnframt á Dalvík, Ólafsfirði og Húsavík. Það háir nokkuð söltun á Dalvík og Ólafsfirði að þar eru engar bræðslur. Þess vegna aka nú vörubílar yfir Lágheiði og Siglufjarðarskarð með úrgang frá söltunarstöðvunum í Ólafsfirði. Fram eftir júlí var öðru hverju allgóð veiði út af Norðausturlandi. Þessum afla var landað víðs vegar um Norðurland en saltað var á Siglufirði, í Grímsey, Eyjafjarðarhöfnum, á Húsavík og Raufarhöfn. Hinn 19. júlí var þess minnst að 25 ár voru liðin frá því Síldarverksmiðjur ríkisins tóku á móti síld í fyrsta skipti. Á þessum aldarfjórðungi hafa verksmiðjurnar tekið á móti 9 milljónum mála. Mesti meðalafli á skip var árið 1944, 9.844 mál en í fyrra var hann 700 mál. Um mánaðamótin júlí - ágúst var bræla og lítil 299
veiði en 6. ágúst varð sá einstaki atburður að varðskipið "Ægir" landaði síld til söltunar á Akureyri. Þegar leið á ágústmánuð dró mjög úr veiði. Suðurlandsbátar héldu heim á leið en margir Norðurlandsbátar fóru til veiða í Húnaflóa. Loks fóru nokkrir stærri bátarnir til reknetaveiða austur í haf. Þetta voru "Valþór" frá Seyðisfirði, "Hrafnkell" frá Neskaupstað, "Snæfugl" frá Reyðarfirði og "Rifsnes" og "Stjarnan" frá Reykjavík. Síðasta aflaskýrsla sumarsins var birt 23. ágúst. Þá höfðu 24.911 mál farið í bræðslu, 174.599 tunnur verið saltaðar og 11.408 tunnur verið frystar. Þátttaka í veiðunum var miklu minni en í fyrra. Nú voru aðeins 132 skip að veiðum, 116 fengu 500 mál og tunnur eða meira. Aflahæsta skipið var "Jörundur" frá Akureyri með 5.623 mál og tunnur en "Snæfell" frá Akureyri fékk 5.468 mál og tunnur. Aflahæstur þeirra báta sem eru líklegir til að hafa notað hringnót var "Vörður" frá Grenivík með 4.224 mál og tunnur. Reknetaveiðarnar gengu heldur treglega og voru saltaðar samtals 2.430 tunnur af reknetasíld. Heildarsöltun Norðurlandssíldar var því 176.901 tunna. Mest var saltað á Raufarhöfn, 60.063 tunnur en á Siglufirði nam 300
söltunin 56.021 tunnu. Hæsta söltunarstöðin var Hafsilfur h/f á Raufarhöfn með 16.673 tunnur. Að lokinni sumarvertíð héldu þrjú skip til síldveiða í Norðursjó. Þetta voru "Jörundur" og "Ingvar Guðjónsson" frá Akureyri og "Fróði" úr Njarðvík. "Fróði" er "Edda" frá Hafnarfirði endurbyggð. Reknetaveiðar við Suðvesturland hófust í júlí og fékkst þá mjög þokkalegur afli út af Snæfellsnesi. Fáir bátar voru að veiðum í fyrstu en fjölgaði mjög þegar kom fram í ágúst og flotinn kom að norðan. Söltun hófst 9. ágúst og lauk í desemberbyrjun en þá höfðu verið saltaðar 93.618 tunnur. Mestur varð aflinn í september en í þeim mánuði fékkst u.þ.b. helmingur aflans. Þá voru skipin líka flest að veiðum eða 127. Mest var saltað í Keflavík og nágrenni, 24.218 tunnur en hæsta söltunarstöðin var Haraldur Böðvarsson & co. Akranesi með 11.973 tunnur. Að þessu sinni var engin síld söltuð í Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum og Hornafirði. Háhyrningar gerðu síldveiðimönnum gramt í geði og spilltu veiðarfærum. Á síðasta ári brugðust menn við þessum óvini með skothríð sem bar nokkurn árangur. Nú leituðu menn á ný til hersins á Miðnesheiði. Herinn brást vel 301
við en beitti nú öðrum aðferðum en í fyrra. Nú var tekin fram aukin tækni og gerðar loftárásir á háhyrningavöðurnar og þóttu þær skila góðum árangri. Agnar Guðmundsson hvalveiðiskipstjóri stjórnaði aðgerðum. Farnar voru allmargar árásarferðir, hin síðasta 15. desember. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Tíminn 1955 Ægir 1955 og 1956
1956 Síldveiðarnar fyrir norðan hófust að þessu sinni 26. júní en að morgni þess dags fékkst fyrsta síldin. Síðan var allgóð veiði um mánaðarskeið eða til 25. júlí. Þennan tíma var veður heldur hagfellt, brælur stóðu aldrei lengi og var í alla staði auðvelt að fást við veiðarnar.. Síldin var yfirleitt heldur djúpt undan landi en hins vegar var til bóta að veiðisvæði voru jafnan mörg, allt vestan frá svæðinu norðvestur af Grímsey austur um Sléttu og Langanes og suður á Vopnafjörð og Héraðsflóa. Þegar veiðarnar höfðu staðið 302
réttan mánuð gerði brælu sem stóð í tíu daga svo að ekki var veiðiveður fyrr en 6. ágúst. Margir höfðu gefist upp á biðinni og farið heim en aðrir leituðu síldar árangurslaust að kalla í nokkra daga og sneru sér svo að öðrum veiðum. Sumir skipstjórar hafa undanfarin ár reynt að bæta sér upp svipulan síldarafla með því að veiða ufsa í síldar stað í næturnar. Eftir þessa löngu brælu var talsvert um ufsatorfur, einkum við Grímsey og Tjörnes og fóru mörg skipanna, sem héldu lengst út, til fundar við þær. Afli var þokkalegur, einkum hjá snurpunótaskipunum, og var honum að mestu landað í bræðslu. Alls stunduðu 188 skip síldveiðar á þessu sumri, 3 togarar, 22 önnur snurpunótaskip, 162 bátar veiddu í hringnót og eitt par tvílembinga sem veiddi í stóra Kyrrahafsnót. "Jörundur" frá Akureyri var aflahæstur togaranna með 10.183 mál og tunnur og "Akraborg" frá Akureyri var hæst annarra snurpunótaskipa með 6.266 mál og tunnur. Hæstur hringnótabáta var nýjasta fley Ólafsfirðinga, "Gunnólfur", með 6.009 mál og tunnur. Tvílembingarnir, sem voru á snærum Haralds Böðvarssonar & co. á Akranesi, fengu 3.356 mál og tunnur. Allmikið var um útlendinga á 303
miðunum og voru Norðmenn að venju þeirra fengsælastir en þeir fengu 222 þúsund tunnur. Heildarafli sumarsins nam 68.664 tonnum og er þetta meira en tvöfaldur afli liðins árs. Reyndar þarf að fara aftur til ársins 1947 til að finna meiri afla. Til samanburðar má nefna að síldarárið mikla, 1944, var afli u.þ.b. þrefaldur afli þessa árs eða 204.170 tonn. Í bræðslu fóru að þessu sinni 306.591 mál eða 459.888 hektólítrar sem dreifðust nokkuð jafnt á verksmiðjur á Miðnorðurlandi og Norðausturlandi. Alls voru saltaðar á sumrinu norðanlands og austan 264.533 tunnur. Á Siglufirði voru saltaðar 108.519 tunnur og á Raufarhöfn 66.241 tunna en þessir tveir staðir togast nú mjög á sem höfuðstaðir síldarsöltunar á Íslandi. Stöðvarnar á Raufarhöfn eru að jafnaði mun stærri en siglfirsku stöðvarnar. Fjórar stöðvar á landinu notuðu fimm stafa tölu yfir söltun sína, þær voru allar á Raufarhöfn. Hafsilfur h/f var þeirra hæst með 17.605 tunnur. Alls fóru 9.569 tunnur af Norðurlandssíld í frystingu. Eftir að sumarvertíð lauk fóru nokkrir bátar á reknetaveiðar. Þeir fóru sumir í Húnaflóa og gerðu þá ýmist að landa í Húnaflóahöfnum, einkum Skagaströnd, eða söltuðu um borð. 304
Einnig fóru nokkur skip frá Austfjarðahöfnum og Norðurlandi til veiða austur af landinu. Afli var að jafnaði heldur rýr, oft u.þ.b. 500 tunnur á skip en áhafnirnar söltuðu um borð. Síld gekk nokkuð í Austfirði um sumarið. Á Eskifirði var umtalsverður afli í lagnet um sumarið og í september var þar allmikið um smásíld eða kræðu. Reknetaveiði hófst sunnanlands og vestan um mánaðamótin júlí - ágúst. Veiðin gekk þokkalega fyrri hluta ágúst en þá þyrptust skipin að norðan. Eftir það gekk veiði brösótt, síldin dreifðist, veður var óhagstætt og háhyrningar stríddu veiðimönnum. Söltun Suðurlandssíldar nam alls 116.319 tunnum. Mest var saltað í Keflavík og nágrenni, 34.906 tunnur en hæsta stöðin var Haraldur Böðvarsson & co. á Akranesi með 11.218 tunnur. Alls voru frystar 115.749 tunnur og 22.300 mál fóru í bræðslu. Á þessu ári voru gerðar allmargar tilraunir með veiðarfæri. Fyrst má nefna tilraun H.B. & co. á Akranesi með nýja tegund af nót. Þessi nót var miklu stærri en nætur sem hér hafa verið notaðar til þessa. Þess vegna varð henni ekki komið fyrir í venjulegum nótabát heldur varð að hafa hana um borð í síldarbát af hefðbundinni stærð eða um 80 tonn. Síðan 305
varð annar bátur að fylgja með til að taka við aflanum. Til þess að draga inn þessa stóru og þungu nót var svo notuð sérstök blökk sem kölluð hefur verið kraftblökk. Hér er því tvílembingaútgerðin hafin til vegs á ný. Þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika voru bátarnir samanlagt með meira en meðalafla í eina nót. Jóhannes Sigfússon og Kjartan Friðbjarnarson reyndu svokallaða Larsensvörpu sem er dönsk að uppruna. Þessar tilraunir gengu vel þótt varpan væri heldur stór miðað við vélarafl bátanna sem notaðir voru. Þá má nefna tilraunir Bjarna Ingimarssonar og Jakobs Jakobssonar með flotvörpu um borð í "Neptúnusi" frá Reykjavík. Þessar tilraunir hófust 1. nóvember og stóðu um nokkurra vikna skeið. Tilraunirnar gáfu ekki af sér mikinn afla en margt bendir til að í framtíðinni megi afla síldar með þessu veiðarfæri. Loks voru svo tilraunir Ingvars Pálmasonar á "Fanneyju". Þær hófust 17. nóvember og var í fyrstu notað kanadískt flottroll. Illa gekk að ná síld í trollið og bar þar einkum tvennt til, trollið var úr of veiku garni og tíðarfar var með eindæmum stirt meðan tilraunir stóðu yfir. Þá reyndu Ingvar og menn hans íslenskt troll, gert af Runólfi Ólafssyni á Akranesi. Það gaf heldur ekki góða raun. Ingvar er þó 306
bjartsýnn á framtíð þessara veiðarfæra en telur hringnótina engu að síður vera framtíðarveiðarfærið á Íslandsmiðum. Hann bendir einnig á nýja möguleika sem opnast með notkun asdiktækja og kraftblakkar. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1956 og 1957
1957 Þar sem afli var skárri árið 1956 en allmörg ár þar á undan voru menn bjartsýnir á vordögum í ár þegar undirbúningur sumarveiðanna hófst. Fyrstu bátarnir héldu óvenjusnemma á miðin eða um miðjan júní og 18. júní fengu þeir fyrstu síldina norðvestur af Grímsey. Næstu daga var reytingsafli út af Sporðagrunni og víðar út af Húnaflóa. Síld veiddist síðan á þessu svæði öðru hverju allan júlímánuð. Í júlíbyrjun fékkst síld á Rifsbanka og út af Þistilfirði og síðan eftir það austan við Langanes, út af Héraðsflóa og suður á móts við Dalatanga. Síldin var því hvort tveggja í senn austar og vestar en hún hefur verið 307
undanfarin ár en á svæðinu sem hefur verið aflasælast undanfarið, frá Grímsey að Melrakkasléttu, var áralítið um síld. Þegar kom fram undir miðjan ágúst var helst að síld fengist 25 - 60 mílur austur af Dalatanga og hættu þá mörg minni skipanna veiðum og fóru á reknet í Húnaflóa eða Faxaflóa og einstaka bátur hélt í austurveg í sömu erindagjörðum. Alls tóku 234 íslensk skip þátt í veiðunum fyrir norðan. Fjórir togarar voru í þessum hópi, þeirra aflahæstur var "Jörundur" frá Akureyri með 8.784 mál og tunnur. Önnur snurpunótaskip voru 15, þeirra aflahæst var "Snæfell" frá Akureyri með 9.991 mál og tunnur og aflahæsti hringnótabáturinn af 215 var "Víðir II" úr Garði með 9.047 mál og tunnur. Árangur hans er býsna athyglisverður þegar tekið er tillit til þess að hann er aðeins 56 lestir. Alls var 518.299 málum landað í bræðslu en það er rúmlega tvöfaldur bræðslusíldarafli liðins árs. Talsvert minna var saltað nú en í fyrra eða 150.868 tunnur á móti 258.404 tunnum þá. Hæsti söltunarstaðurinn var Raufarhöfn en þar voru saltaðar 61.185 tunnur. Siglufjörður kom næstur með 51.988 tunnur. Hæsta söltunarstöðin var Hafsilfur h/f á Raufarhöfn með 14.496 tunnur. Af 308
heildarsöltuninni voru 18.349 tunnur veiddar í reknet. Að þessu sinni voru 12.362 tunnur frystar. Veiði Suðurlandssíldar hófst þegar í júlí og þá með örfáum bátum en þeim fjölgaði verulega þegar leið á haustið og urðu hátt á annað hundrað þegar þeir urðu flestir. Afli var mjög misjafn en langt aflaleysistímabil spillti heildaraflanum. Verið var að allt til jóla. Heildarsöltun nam aðeins 50.282 tunnum. Mest var saltað í Keflavík og nágrenni, 11.240 tunnur en Haraldur Böðvarsson & co. saltaði mest einstakra stöðva, 5.795 tunnur. Alls fóru 103.150 tunnur í frystingu og 41.905 mál voru brædd. Á vordögum, apríl til júní, var gerð tilraun til reknetaveiða við Suðurland en þetta er í fyrsta skipti sem slíkt er reynt í einhverjum mæli. Afli var lengst af heldur tregur en þó fengust 3.100 lestir alls, 2.461 lest var fryst til útflutnings en 656 lestir fóru í bræðslu. Eftir mikinn fjörkipp í síldarverksmiðjubyggingum í kjölfar Hvalfjarðarsíldarinnar hafa slíkar byggingar legið í láginni um nokkurra ára skeið. En þegar síldin veiðist svona austarlega sem raun ber vitni ár eftir ár hugsa Austfirðingar sér til hreyfings. Verksmiðjan á Seyðisfirði hefur 309
verið stækkuð verulega með því að flytja hluta af tækjum úr Djúpavíkurverksmiðjunni þangað austur og Norðfirðingar og Vopnfirðingar hyggja á framkvæmdir fyrir næstu sumarvertíð. Það gerist nú æ sjaldnar að fregnir berist af síld í innfjörðum en í vor var mikið um kræðu eða smásíld á innanverðum Eyjafirði. Talsvert var veitt af henni til beitu og til bræðslu í Krossanesverksmiðjunni. Þá var nokkur afli í lagnet á Eskifirði í ágústmánuði. Tilraunastarfsemi við síldveiðar heldur áfram. Ingvar Pálmason og áhöfn hans á "Fanneyju" reyndu veiðar í flotvörpu við Reykjanes 1. - 13. apríl. Afli var ekki mikill en þessar tilraunir gengu þó mun betur en á síðasta ári. Vélbáturinn "Böðvar" frá Akranesi, annar tvílembinganna frá síðasta sumri, fór út 9. maí til tilraunaveiða með stóra hringnót, asdiktæki og kraftblökk. Nótinni var komið fyrir á þilfari "Böðvars" framan við stýrishús og kastað út af síðunni. Tilraunirnar gengu vel, nótin fór jafnan klár í sjóinn, vel gekk að snurpa og að draga inn nótina með kraftblökkinni en afli var lítill sem enginn. Sennilega hafa lóðningarnar verið ofmetnar. 310
Áhugi margra beinist nú mjög að dýptarmælum og asdiktækjum. Í desember var haldið námskeið fyrir skipstjórnarmenn í meðferð, viðhaldi og hirðingu þessara tækja. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1957 og 1958
1958 Þetta ár var að mörgu leyti sérstakt miðað við undanfarin ár. Sem dæmi má nefna að síld veiddist nú einhvers staðar í öllum mánuðum ársins að mars undanskildum. Síðustu mánuði liðins árs veiddist talsvert af smásíld á innanverðum Eyjafirði og var 17.900 málum landað í Krossanesverksmiðjuna.Þessar veiðar héldu svo áfram eftir áramótin og tók verksmiðjan þá á móti 21.903 málum. Það voru einkum bátar frá Norðurlandshöfnum og nótabrúk frá Akureyri sem lögðu stund á þessar veiðar en þær sæta reyndar harðri gagnrýni því að síldin er horuð og afurðalítil og margir vilja leyfa henni að vaxa upp í hagfelldari veiðistærð. 311
Viðbúnaður vegna sumarsíldveiðanna fyrir Norðurlandi var mikill. Asdiktæki hafa sannað ágæti sitt undanfarin ár og hafa sumir skipstjórar náð undraverðri leikni í notkun þeirra þegar síld veður illa eða ekki. Þeim bátum fjölgar því mjög sem eru búnir slíkum tækjum. Hið sama má segja um veiðarfærin, nú eru það nætur úr næloni eða öðrum gerviefnum sem gilda. Þær eru léttari í meðförum, fúna ekki og eru margfalt sterkari en gömlu næturnar. Fyrstu síldarfréttir sumarsins bárust 9. júní en þá greindi togari frá fjórum vaðandi torfum á Kögurgrunni. Síldarleitarskip fór á staðinn en þá voru þær á bak og burt. Fyrsta síldin veiddist svo á þjóðhátíðardaginn norðaustur af Horni. Næstu vikur var reytingsafli 60 - 80 mílur norður af Siglufirði en síldin óð illa og skildi nú milli feigs og ófeigs hvort skipstjórar voru flinkir að nota asdiktækin nýju. Næsta hálfan mánuð var veiði dræm, helst var að eitthvað fengist vestur á Sporðagrunni og á Grímseyjarsundi. Þann 8. júlí fannst síld út af Hraunhafnartanga og viku síðar var mikil veiði sunnan Langaness, einkum á svæðinu frá Digranesflaki og allt suður að Skrúð. Smáskot kom 21. og 22. júlí út af Skagafirði og Skalla og síldarvart varð nálægt Grímsey 10. ágúst. 312
Að öðru leyti færðist meginþungi veiðanna á austursvæðið, frá Þistilfirði suður fyrir Langanes og síðan út af Austfjörðum. Tíðarfar var fádæma leiðinlegt til veiða, brælur tíðar á vestursvæðinu og þokusælt með afbrigðum eystra. Alls tók 241 skip þátt í veiðunum að þessu sinni. Togarar voru tveir, "Egill Skallagrímsson" frá Reykjavík og "Þorsteinn Þorskabítur" frá Stykkishólmi sem er reyndar aflaskipið "Jörundur" undir nýju nafni. "Þorsteinn Þorskabítur" varð aflahærri, fékk 6.718 mál en nú er allur afli umreiknaður í mál í aflaskýrslum. "Snæfell" frá Akureyri varð aflahæst 16 snurpunótaskipa með 9.934 mál og af 223 hringnótabátum var "Víðir II" úr Garði hæstur með 9.103 mál. Upp úr miðjum ágúst gerði brælu um vikuskeið og upp úr því héldu flestir bátar heim á leið eða til reknetaveiða í Húnaflóa en bátar frá Skagaströnd höfðu reyndar hafið þær í júlí með bærilegum árangri. Seint á ágúst voru um 20 bátar á þessum veiðum. Um sumarið varð meira vart við síld inni á Austfjörðum en verið hefur um langt skeið og veiddu smábátar talsvert af henni í lagnet. Þegar veiði fór að tregðast úti fyrir hófu sumir austfirsku bátanna hringnótaveiðar innfjarða 313
með ágætum árangri. Þannig voru "Stefán Árnason" og "Búðafell" að veiðum inni á Fáskrúðsfirði allan septembermánuð, stundum alveg inni við höfnina á Búðum. Þar sem síldin var talsvert smærri en Norðurlandssíldin og gekk svona grunnt þurfti smáriðnar grunnnætur til þessara veiða. Óvenjumikið var saltað af síld í sumar eða alls 289.101 tunna og þarf að fara aftur til áranna 1938 og 1939 til að finna meiri söltun. Helstu ástæður þessarar miklu söltunar þrátt fyrir fremur lítinn heildarafla eru einkum tvær. Annars vegar er meiri dreifing söltunarinnar en verið hefur vegna þess hve veiði var tiltölulega góð á austursvæðinu, nú voru yfir 20 þúsund tunnur saltaðar austan Raufarhafnar. Hin ástæðan var að fyrsta síldin sem veiddist var tiltölulega feit og var söltun því leyfð þegar í upphafi vertíðar. Að þessu sinni var langmest saltað á Siglufirði, 127.131 tunna en á Raufarhöfn vor saltaðar 81.935 tunnur. Hæst einstakra söltunarstöðva var Hafsilfur h/f á Raufarhöfn með 17.458 tunnur. Svo sem vænta mátti var minna brætt þegar svo mikið var saltað en verksmiðjurnar tóku alls á móti 267.469 málum eða u.þ.b. helmingi þess sem var í fyrra. Hér var hið sama uppi á teningnum og með saltsíldina, dreifingin var 314
miklu meiri en áður því að nú hafa verið byggðar nýjar verksmiðjur víða á Austfjörðum. Seyðisfjarðarverksmiðjan var stækkuð í fyrra og getur nú brætt 3.500 mál á sólarhring. Nýjar verksmiðjur á Vopnafirði og í Neskaupstað geta brætt 2.500 mál á sólarhring hvor um sig. Þær tóku til starfa í sumar. Á Eskifirði og Fáskrúðsfirði hafa fiskimjölsverksmiðjur verið búnar síldarvinnslutækjum og tóku þær á móti talsverðri síld í sumar þótt vinnsla á Eskifirði sé þeim annmörkum háð að setja verður allt lýsi í tunnur því að enginn er þar lýsistankurinn. Vélbúnaður í austfirsku verksmiðjunum er aðeins að hluta til nýr, mikið af honum er fengið úr verksmiðjunum á Dagverðareyri og Eyri í Ingólfsfirði. Raufarhafnarverksmiðjan tók á móti mestri síld einstakra verksmiðja, 58.363 málum. Af nýjungum í bræðslu má nefna að síld var nú rotvarin með nitritlausn í stað matarsalts í verksmiðjunni á Raufarhöfn. Þessu fylgdu ýmsir byrjunarörðugleikar þannig að bræðsla gekk mjög hægt framan af sumri. Hjá S.R. á Siglufirði voru sett upp soðvinnslutæki sem gáfu mjög góða raun og voru framleidd 850 tonn af soðkjarna. 315
Í frystingu fóru í ár 16.994 tunnur af Norðurlandssíld sem er svipað því sem fryst var í fyrra. Rétt eins og í fyrra skiptust reknetaveiðarnar syðra í tvö tímabil. Á fyrra tímabilinu, maí og júní fengust um 2.000 tonn sem er 1.100 tonnum minna en í fyrra. Aflinn, sem var að mestu veiddur af bátum frá Faxaflóahöfnum, fór aðallega í frystingu. Síðara tímabilið hófst u.þ.b. mánuði eftir að hinu fyrra lauk en þá hófu Vestfirðingar reknetaveiðar og sóttu einkum suður í Breiðafjörð. Sóknarþunginn jókst svo verulega seinni partinn í ágúst þegar sunnlensku bátarnir komu af sumarsíldveiðum. Veiðar stóðu síðan allt til áramóta en eins og stundum áður datt afli niður um mánaðarskeið í október en lifnaði svo aftur í nóvemberbyrjun. Rúmlega 150 skip stunduðu veiðarnar þegar flest var. Alls voru saltaðar 106.895 tunnur af Suðurlandssíld, 118.524 tunnur fóru í frystingu og 52.846 mál í bræðslu. Mest var saltað í Keflavík og nágrenni, 24.085 tunnur en Haraldur Böðvarsson & co. saltaði mest einstakra stöðva, 11.801 tunnu. Veiðitilraunum með flotvörpu og botnvörpu var haldið áfram á árinu. "Neptúnus" fór í leiðangur 4. - 21. nóvember undir stjórn 316
Bjarna Ingimarssonar og Jakobs Jakobssonar. Árangur varð í heild heldur slakur að því undanskildu að eitt sinn tókst að ná 50 tunnum í hali. Það vakti athygli, þegar leiðangurinn kom austur fyrir land, að á vegi hans varð gríðarlegur floti rússneskra reknetaskipa, líklega um 400 skip, 60 - 100 mílur austur af landinu. "Fanney" stundaði síldarleit um haustið en aðstoðaði einnig "Neptúnus". Þeir Fanneyjarmenn gerðu einnig sjálfstæðar veiðitilraunir með kanadíska flotvörpu og rússneska botnvörpu. Árangur var slakur eins og fyrri daginn, mest 20 tunnur í hali. Þessum leiðangri stjórnuðu Ingvar Pálmason og Illugi Guðmundsson. Þá má nefna að í desember var haldið námskeið fyrir skipstjórnarmenn í notkun asdiktækja. Meðal fyrirlesara á þessu námskeiði var stórmeistari síldveiða með aðstoð asdiktækja, Eggert Gíslason skipstjóri á "Víði II". Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1958 og 1959
317
1959 Fyrstu síldarfréttir á þessu ári voru óvenjulegar en í janúarlok fengu nokkrir smábátar 400 tunnur af smásíld við Borgarsand í Skagafirði. Þá fékkst síld í lagnet á Eskifirði í maímánuði, víða á Austfjörðum fékkst síld í lagnet um sumarið og 27 júní fékkst talsvert af stórri og fallegri sumargotssíld með fyrirdrætti í Eyjafirði. Sumarsíldveiðar hófust að venju um miðjan júní, fyrstu síldina fékk "Guðmundur á Sveinseyri" 19. júní 45 sjómílur norðaustur af Horni. Þetta voru 350 tunnur af stórri en frekar magurri síld sem var langt frá því að vera söltunarhæf. Næstu vikur var veiði treg, helst var að eitthvað reyttist á vestursvæðinu en 9. júlí lifnaði yfir veiðinni. Þá fékkst góður afli á Strandagrunni og Hornbanka og einnig eystra, í Bakkaflóadýpi og á Digranesflaki. Næsta dag var góð veiði á sömu slóðum en síðan hamlaði veður veiðum á austursvæðinu um skeið og sótti þá flotinn af auknum þunga vestur eftir enda var þá ágætisveiði víða fyrir Norðurlandi, við Grímsey, Hólinn, Kolbeinsey, út af Skjálfanda og austur að Melrakkasléttu. Hinn 21. júlí var allur flotinn í síld á Skagagrunni 318
og daginn eftir allt vestur að Selskeri og Dröngum. Síðasta dag mánaðarins mátti heita að veiði væri á öllu svæðinu frá Selskeri austur að Langanesi. Eftir mánaðamót fór veiðin nánast öll fram á svæðinu frá Melrakkasléttu og suður með Austfjörðum. Tíðarfar var heldur stirt en jafnan talsverður afli þegar gaf. Um miðjan ágúst tók skipum að fækka og héldu sum þeirra til reknetaveiða í Húnaflóa. Síðustu tíu nótaskipin lönduðu 8. september og hættu svo veiðum. Nokkrir Austfjarðabátar reyndu þó fyrir sér innfjarða án teljandi árangurs. Að þessu sinni tóku 224 skip þátt í veiðunum. Enginn togari sást nú í flotanum en af átta snurpunótaskipum var "Snæfell" frá Akureyri aflahæst með 16.803 mál og tunnur. Eggert Gíslason og skipshöfn hans á "Víði II" úr Garði urðu enn einu sinni fengsælastir meðal hringnótabáta með 19.638 mál og tunnur. Þessi glæsilegi árangur "Víðis II" og margra annarra hringnótabáta sannar svo ekki verður um villst yfirburði hringnótarinnar þegar hin burðarmiklu snurpunótaskip standast þeim ekki snúning hvað afla snertir. Þessir yfirburðir felast þó ekki í veiðarfærinu sjálfu heldur hinu að asdiktæki verður af augljósum 319
ástæðum ekki notað af sömu nákvæmni við snurpunótaveiðar og hringnótaveiðar. Söltun var heimiluð frá 1. júlí og varð heildarsöltun sumarsins 216.307 tunnur. Mest var saltað á Siglufirði, 111.824 tunnur, Raufarhöfn kom næst með 35.406 tunnur. Sunna h/f á Siglufirði var hæst einstakra stöðva með 9.118 tunnur. Síldarverksmiðjurnar á Norðurog Austurlandi tóku alls á móti 907.832 málum sem er meira en þreföld bræðslusíld liðins árs. S.R. á Siglufirði fengu í sinn hlut 269.597 mál en verksmiðjan á Raufarhöfn tók á móti 157.246 málum. Austfirsku verksmiðjurnar, sem eru nýjar af nálinni, sönnuðu gildi sitt í sumar en Vopnafjarðarverksmipjan bræddi 135 þúsund mál og verksmiðjurnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað yfir 70 þúsund hvor. Í sumar voru frystar 22.163 tunnur af Norðurlandssíld. Heildarafli sumarsins var því 1.144.569 mál og tunnur sem er mesti afli Norðurlandssíldar síðan 1944 en þá var aflinn 1.605.319 mál og tunnur. Hér er þó ólíku saman að jafna, bátarnir eru nú fleiri og stærri en þá og öll tækni til sjós og lands er gjörbreytt. 320
Allt frá árinu 1956 hafa verið gerðar tilraunir með kraftblökk á íslenskum síldveiðiskipum. Kraftblökkin er upprunnin í Ameríku og er notuð þar á bátum sem eru frambyggðir, þ.e. stýrishúsið er framarlega á bátnum og vinnurýmið er frá því og aftur á skut. "Fanney" er eina skipið hér með þessu byggingarlagi enda hefur notkun blakkarinnar gengið vel þar um borð þegar "Fanney" hefur verið á hringnótaveiðum. Þegar blökkin hefur verið notuð á öðrum skipum, svo sem "Böðvari" frá Akranesi hefur allt verið erfiðara. Nótin tekur mikið rými á þilfari, önugra er að kasta nót út af miðsíðu en skut og óþægilegt að hafa bómuna teppta undir blökkina. Síðustu ár hafa margir lagt höfuð í bleyti til að reyna að leysa þessi vandamál og hefur margt verið reynt. Nú í sumar hugkvæmdist Haraldi Ágústssyni skipstjóra á "Guðmundi Þórðarsyni" frá Reykjavík að færa nótina aftur á bátadekk og hafa blökkina þar í sérstakri davíðu. Þetta gaf mjög góða raun þótt eflaust þurfi að sníða af einhverja smávægilega vankanta. Haraldur notaði þennan búnað við síldveiðarnar í sumar með ágætum árangri. Síldveiðar við Suðurland og í Faxaflóa hófust í maí og var sæmilegur afli sem fór að 321
mestu í frystingu. Það vakti athygli að "Bjarni Jóhannesson" og "Höfrungur" og e.t.v. fleiri bátar tóku þátt í þessum veiðum með hringnót. Akranesbátarnir tveir fengu samtals rúmlega 1.100 mál og er það í fyrsta skipti sem hringnót er beitt við þessar veiðar með árangri. Veiði datt niður yfir sumarið og glæddist ekki að marki fyrr en í síðari hluta nóvember en eftir það var góður afli til áramóta. Nú reyndu margir hringnótina sem hafði gefist svo vel um vorið og fengust u.þ.b. 60 þúsund mál á þann hátt og dálítið í flotvörpu. Sá galli fylgir nótasíldinni á þessum slóðum að hún er mjög blönduð millisíld svo að hún er nánast óhæf til söltunar nema með mikilli fyrirhöfn vegna úrkasts. Alls voru saltaðar 52.065 tunnur af Suðurlandssíld, mest á Akranesi 12.981 tunna. Hæst einstakra stöðva var Haraldur Böðvarsson & co. með 7.572 tunnur. Í frystingu fóru 125.083 tunnur og 65.054 mál voru brædd. Loks var 321 tonn af síld flutt í ís á Þýskalandsmarkað en fjórir togarar og eitt vélskip sigldu þangað með farma. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1959 og 1960
322
1960 Síld á grunnmiðum er fátíð síðustu ár. Þess vegna rak menn í rogastans þegar 1.000 tunnur veiddust inni við bryggju á Hólmavík í júnímánuði í sumar. Reyndar varð vart við síld inni á Seyðisfirði í apríl. Þegar "Runólfur" frá Grundarfirði var á leið norður til síldveiða varð torfa á vegi hans úti fyrir Jökli. Hann fékk þarna 300 tunnur. En "Fram" frá Akranesi fékk fyrstu Norðurlandssíldina, 428 mál á Húnaflóa 17. júní. Síðan var heldur dræm veiði næstu viku en á Sporðagrunni og við Kolbeinsey fékkst góður afli í vikulokin. Góð veiði var við Kolbeinsey 24. júní. Næstu vikur fékkst síld einkum austan Langaness en einstaka sinnum varð vart við síld norður af Hraunhafnartanga og við Kolbeinsey. Síld fékkst norður af Siglufirði 23. og 25. júlí en eftir að kom fram í ágúst fékkst afli einungis á Austfjarðamiðum. Vertíðinni lauk um mánaðamótin ágúst september. Alls stunduðu 258 skip veiðar. Snurpunótaskipin voru aðeins sex talsins og var "Sigurður Bjarnason" frá Akureyri aflahæstur þeirra með 8.546 mál og tunnur en 323
hæsta hringnótaskipið var "Guðrún Þorkelsdóttir" frá Eskifirði með 11.115 mál og tunnur. Skipstjóri á "Guðrúnu" er Þorsteinn Gíslason. Í ágústmánuði gekk kolmunni á síldarmiðin út af Austfjörðum. Mjög erfitt er að greina kolmunnalóðningar frá síldarlóðningum og urðu margir fyrir tjóni á nótum þegar kolmunninn ánetjaðist. Alls voru saltaðar 125.454 tunnur. Mest var saltað á Siglufirði, 48.180 tunnur en 32.207 á Raufarhöfn. Hæsta söltunarstöðin var Óskarsstöð á Raufarhöfn með 8.700 tunnur. Síldarverksmiðjurnar tóku á móti 667.878 málum alls. Síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði fengu 187.853 mál en Síldarvinnslan í Neskaupstað kom næst með 94.981 mál. Alls voru 16.209 tunnur frystar. Talsverðar umbætur voru gerðar á árinu á síldarverksmiðjunum. Reistir voru stálgeymar á Raufarhöfn sem rúma 38 þúsund mál, soðkjarnatæki voru sett upp á Raufarhöfn og Siglufirði og mjölskemmur voru byggðar á Húsavík, Vopnafirði og í Neskaupstað. Verksmiðjurnar á Hjalteyri og í Krossanesi tóku tvö skip á leigu til síldarflutninga og fluttu þau 14.811 mál af síld frá Seyðisfirði til Eyjafjarðar. 324
Veiði Suðurlandssíldar fór hægt af stað og sáralítið aflaðist fram yfir miðjan október. Reknetaveiðin brást að mestu en 60 reknetabátar fengu aðeins 20 þúsund tunnur, 3.700 tunnur fengust í flotvörpu og hringnótabátarnir höfðu fengið u.þ.b. 170 þúsund tunnur um áramót en veiðar héldu áfram fram í miðjan febrúar. Aflahæsti báturinn var "Guðmundur Þórðarson" frá Reykjavík en hann hafði fengið 12 þúsund tunnur um áramót. Síldin var mjög blönduð og því erfið til söltunar. Um áramót höfðu 34.327 tunnur verið saltaðar en heildarsöltun á vertíðinni allri nam 78.550 tunnum. Mest var saltað á Akranesi, 25.881 tunna á vertíðinni allri og var Haraldur Böðvarsson & co. með mesta söltun, 14.060 tunnur. Í bræðslu fóru 69 þúsund mál fyrir áramót, 75.500 tunnur voru frystar og 12.676 tunnur voru fluttar út ísvarðar. Hið þekkta síldarskip "Helga" frá Reykjavík var á veiðum í haust. Skipið var statt við Reykjanes 25. nóvember þegar skyndilegur leki kom að því og sökk það á nokkrum mínútum. Áhöfnin bjargaðist. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1960 og 1961 325
1961 Síldarafli varð meiri árið 1961 en dæmi eru um áður og mátti heita að veiðarnar væru stundaðar allt árið. Við upphaf ársins hófu bátarnir veiðar við Suðvesturland eða framlengdu haustvertíðina. Þessar veiðar stóðu alla vetrarvertíðina og reyndar fram í júní. Lengst af voru það 20 - 30 bátar sem stunduðu veiðarnar en í maí voru þeir talsvert fleiri. "Guðmundur Þórðarson" frá Reykjavík fékk mestan afla, um 30 þúsund tunnur. Togarinn "Neptúnus" frá Reykjavík fékk rúmlega 150 tonn í flotvörpu í janúar. Heildarafli á vertíðinni var 36.245 tonn, 144.019 mál fóru í bræðslu, 44.223 tunnur voru saltaðar, í frystingu fóru 85.624 tunnur og 43.457 tunnur voru fluttar út ísvarðar. Hluti þeirrar síldar sem var fryst var flakaður og nokkuð af síld var súrsaltað. Fyrsta Norðurlandssíldin fékkst Reykjarfjarðarál 13. júní. Veiði var síðan dræm næstu vikuna en um 20. júní fór að lifna yfir henni og fram til 11. júlí fékkst alltaf öðru hverju þokkalegur afli einhvers staðar á svæðinu frá Horni að Melrakkasléttu. Eftir þetta færðist veiðiþunginn austur fyrir 326
Langanes með tveimur undantekningum, 21. júlí var góður afli á Rifsbanka og 17. ágúst fékkst smáskot út af Siglufirði. Flest skipin hættu veiðum 20. - 25. ágúst en örfá héldu áfram og fengu þokkalegan afla í septemberbyrjun. Síðustu síld vertíðarinnar var landað 8. september. Snurpunótaskipunum fer alltaf fækkandi, í ár voru þau aðeins fjögur. "Snæfell" frá Akureyri var þeirra aflahæst með 13.335 mál og tunnur. Hringnótaskip voru aftur á móti 216. Hörður Bjarnason og skipshöfn hans á "Ólafi Magnússyni" frá Akureyri voru fengsælastir með 21.469 mál og tunnur. Alls var söltuð 363.741 tunna á sumarvertíðinni og er þetta mesta söltun sem vitað er um, fyrra metið var sett 1938. Mest var saltað á Siglufirði, 139.756 tunnur en Raufarhöfn kom næst með 69.083 tunnur. Hæstar einstakra stöðva voru Hafaldan h/f Seyðisfirði með 17.721 tunnu og Ströndin h/f Seyðisfirði með 14.749 tunnur. Síldarverksmiðjurnar tóku á móti 1.188.685 málum af síld til bræðslu. Síldarverksmiðjur ríkisins fengu samanlagt 568.284 mál og verksmiðjan á Vopnafirði 143.664 mál. Þar sem Austfjarðaverksmiðjurnar önnuðu ekki hinum mikla afla var síld flutt með 327
flutningaskipum vestur á bóginn. S.R. flutti 32 þúsund mál til Siglufjarðar og 42 þúsund mál voru flutt til Hjalteyrar og Krossaness. Loks voru 10 þúsund mál flutt frá Seyðisfirði til bræðslu í Noregi. Í frystingu fóru 23.740 tunnur af Norðurlandssíld. Og svo byrjuðu haustsíldveiðarnar syðra. Þær fóru hægt af stað og það var komið fram í október þegar veiði tók að glæðast en frá því og fram til áramóta fengu 108 skip 72.003 tonn. Þessar veiðar héldu svo áfram eftir áramót og allt til vors. "Víðir II" úr Garði fékk alls 46.671 tunnu af síld frá haustdögum til 28. apríl. Af haustsíldaraflanum fóru 301.389 mál í bræðslu, 91.948 tunnur voru saltaðar, 140.328 tunnur frystar og 43.457 tunnur voru fluttar út ísvarðar. Heildarsöltun á allri vetrarvertíðinni nam 109.835 tunnum. Mest var saltað á Akranesi, 30.837 tunnur og hæsta stöðin var Haraldur Böðvarsson & co. með 14.553 tunnur. Heildarsíldarafli, sem barst á land á Íslandi árið 1961, var 325.911 tonn sem er ríflega helmingur alls fiskafla sem barst að landi en heildarfiskafli Íslendinga þetta árið nam 635.189 tonnum. Auk síldarafla sem fékkst á hinum hefðbundnu vertíðum veiddust 37.543 328
mál á Akureyrarpolli. Þessi veiði dreifðist á stóran hluta ársins en mest veiddist í október, 21 þúsund mál. Auk þessa voru 950 tunnur frystar og 1.136 tunnur soðnar niður. Hinn mikla síldarafla ársins má tvímælalaust rekja til tæknivæðingar flotans. Könnun, sem var gerð á búnaði flotans á sumarsíldveiðum í ár, leiddi í ljós að: a) 71 bátur hafði kraftblökk og sjálfleitandi asdik b) 15 bátar höfðu kraftblökk c) 45 bátar höfðu sjálfleitandi asdik d) 71 bátur hafði hvorugt Hugmyndir hafa verið uppi um að byggja sérstakar umhleðslustöðvar á Austfjörðum þar sem þróarrými væri ríkulegt og búnaður til útskipunar í flutningaskip. Hafa menn haft augastað á Vestdalseyri í Seyðisfirði og Mjóeyri í Eskifirði í þessu sambandi. En nú standa yfir samningar um kaup S.R. á Seyðisfjarðarverksmiðjunni og verður slík umhleðsla væntanlega rekin í sambandi við hana. Það óhapp varð í ágústmánuði að síldarverksmiðjan á Fáskrúðsfirði varð eldi að bráð. Reiknað er með að hún verði endurbyggð fyrir næstu vertíð. 329
Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1961 og 1962
1962 Síldveiðin 1962 hófst 6. janúar en þann dag fengust 34.400 tunnur út af Malarrifi og nokkrum dögum síðar var þokkalegur afli, bæði í Kolluál og við Krísuvíkurbjarg. Frá 21. janúar var sáralítill afli um mánaðarskeið vegna ótíðar. Þegar netaveiði hófst fyrir alvöru á vetrarvertíð fækkaði síldveiðiskipum svo að í mars voru aðeins 10 - 11 skip á veiðum. Í febrúarlok fékkst síld einkum á svæðinu út af Skógafossi og austur að Skaftárósum. Síldin gekk svo vestur með landinu og um mánaðamótin mars - apríl var einkum veiði við Vestmannaeyjar og út af Selvogsvita. Í apríl var aðalveiðisvæðið í Faxaflóa við sunnanvert Snæfellsnes. Í maí var heldur tregur afli framan af en góður síðari hluta mánaðarins fram til 2. júní en þá lauk vertíðinni. Afli frá áramótum til vertíðarloka var 794.927 uppmældar tunnur. Aflahæstir voru Garðar Finnsson og áhöfn hans á 330
"Höfrungi II" frá Akranesi en þeir fengu 3.975 tonn á vertíðinni. Af heildaraflanum var söltuð 14.061 tunna. Hvað söltuninni viðvíkur er þessi vertíð beint framhald haustvertíðar og er heildarsöltun vetrarins þá 109.835 tunnur. Eins og oft áður var mest saltað á Akranesi, 30.837 tunnur, þar af voru 14.553 tunnur saltaðar hjá Haraldi Böðvarssyni & co. Frá áramótum fóru 424.474 mál í bræðslu, 135.947 tunnur voru frystar og 77.180 tunnur voru fluttar út ísvarðar. Sumarsíldveiðarnar hófust óvenju seint í ár vegna deilu sjómanna og útvegsmanna um kaup og kjör á síldveiðum. Hin nýja tækni, sem hefur verið tekin upp við síldveiðar, hefur nefnilega ekki aðeins leitt af sér mikinn afla heldur hefur hún einnig kostað útgerðarmenn mikil útgjöld. Nýjar nælonnætur, kraftblakkir, sjálfleitandi asdiktæki og breytingar á bátunum, allt kostar þetta mikið fé og útvegsmenn kröfðust nú meiri hlutar en áður til að mæta þessum kostnaðarauka. Deilunni lauk með því að sett voru bráðabirgðalög til lausnar henni 25. júní. Austfirðingar áttu ekki aðild að þessari deilu og byrjuðu örlítið fyrr. "Seley" frá Eskifirði fékk fyrstu síldina, 300 tunnur, norður af Melrakkasléttu 20. júní. Síðan fékkst lítið 331
næstu daga en 27. og 28. júní fékkst þokkalegur afli norðaustur af Horni. Eftir þetta dalaði veiðin nokkra daga en 6. júlí var góð veiði á Digranesflaki og eftir það mátti heita að alltaf væri afla að fá á austursvæðinu ef viðraði til veiða en veiðisvæðið gat færst til frá degi til dags allt frá Bakkaflóadjúpi og suður á móts við Skrúð. Um miðjan júlí var þróarfyllir í öllum verksmiðjum á Austfjörðum og á Raufarhöfn. Út af Norðurlandi var síldin vandhittnari og veiði stopulli. Þó komu stundum prýðisgóðir dagar norður af Sléttu og við Kolbeinsey og besta veiðidag sumarsins, 22. júlí, dreifðist aflinn, 88.700 mál á svæðið frá Skagagrunni austur og suður í Norðfjarðardýpi. Síðasta síld sumarsins fékkst 15. september norður af Hraunhafnartanga. Alls tóku 225 skip þátt í veiðunum að þessu sinni eða fimm skipum fleira en í fyrra. Athygli vakti að einn togari, "Hallveig Fróðadóttir" frá Reykjavík var í þessum flota. Tilraunin gaf ekki góða raun og var afli hennar undir meðallagi. Aflahæsta skipið á vertíðinni var "Víðir II" úr Garði með 32.475 mál og tunnur. Eggert Gíslason er því aflakóngur eina ferðina enn. 332
Alls voru saltaðar 375.213 tunnur á vertíðinni og þar með slegið metið frá í fyrra. Mest var saltað á Siglufirði, 115.970 tunnur en á Raufarhöfn var söltuð 77.691 tunna. Hæst einstakra söltunarstöðva var Hafsilfur h/f með 16.142 tunnur og næst henni Óskarsstöð h/f með 15.826 tunnur en báðar stöðvarnar eru á Raufarhöfn. Bræðslusíldin nam alls 2.027.220 málum. S.R. Siglufirði fengu 548.565 mál í sinn hlut en S.R. Raufarhöfn tók á móti 348.662 málum. Vegna þess að þrær verksmiðjanna á Austfjörðum voru yfirfullar verulegan hluta sumarsins var miklu meira um að síld væri flutt á milli hafna en verið hefur. Alls var 223.813 málum umskipað á Seyðisfirði og þau flutt til annarra hafna. S.R. hafði fjögur flutningaskip á leigu og Eyjafjarðarverksmiðjurnar tvær höfðu tvö skip. Auk þess voru nokkrir togarafarmar fluttir til Reykjavíkur á vegum Síldar - og fiskimjölsverksmiðjunnar h/f. Þessir flutningar eru ýmsum erfiðleikum háðir, síldin vill skemmast í skipunum og lítið má út af bera hvað snertir veður og sjólag eigi fyllsta öryggis að vera gætt. Fyrir þessa vertíð var ýmislegt lagfært í verksmiðjunum og nýjar byggðar. 333
Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu verksmiðjuna á Seyðisfirði og voru afköst hennar aukin úr 1.700 málum í 5.000 mál á sólarhring. S.R. byggðu einnig nýja verksmiðju á Reyðarfirði með 1.500 mála afköstum á sólarhring. Á Bakkafirði var byggð 500 mála verksmiðja og á Fáskrúðsfirði var 1.500 mála verksmiðja byggð í stað þeirrar sem brann í fyrrasumar. Heildarafköst verksmiðjanna á Norður - og Austurlandi eru nú talin u.þ.b. 70 þúsund mál á sólarhring. Í frystingu fóru á þessari vertíð 42.119 tunnur. Í júlímánuði, þegar mest gekk á fyrir norðan og austan, stunduðu þrír Eyjabátar síldveiði á heimaslóð og fengu 3.832 mál samanlagt. Þriðja síldarvertíð ársins, haustvertíðin, hófst um miðjan nóvember en þá tókust samningar sjómanna og útgerðarmanna fyrir vetrarveiðarnar. Síldin fékkst framan af einkum við Snæfellsnes og í Kolluál en sunnan Reykjaness var eingöngu um smásíld og millisíld að ræða. Í desember færðist veiðisvæðið suður yfir Faxaflóa og fékkst þá síld við Eldey og Garðskaga. Heildarafli til áramóta var 666.194 uppmældar tunnur sem 122 skip höfðu fengið. Mestan afla fékk "Víðir II" úr Garði, 16.370 tunnur. 334
Til áramóta voru 98.848 tunnur saltaðar en á vetrarvertíðinni allri, sem stóð fram í maí, 137.740 tunnur. Mest var saltað í Reykjavík, 38.735 tunnur á vertíðinni allri og litlu minna á Akranesi. Haraldur Böðvarsson & co. var hæsta söltunarstöðin með 20.377 tunnur. Fram til áramóta fóru 224.755 mál í bræðslu, 167.443 tunnur í frystingu og 42.700 tunnur voru fluttar út ísvarðar. Heildarsíldarafli Íslendinga var meiri á þessu ári en nokkru sinni fyrr, 478.127 tonn eða 62,2 % alls afla þessa árs. Öll fyrri aflamet hafa verið slegin að einu undanskildu, meðalafli á nót á sumarsíldveiðum var meiri 1944 en 1962. Núna var meðalaflinn 1o.480 mál en 12.470 mál 1944. Nokkuð er jafnan um útlendinga á miðunum en ýmsum erfiðleikum er háð að afla upplýsinga um veiðar þeirra. Mest ber á stórum flota rússneskra reknetaskipa austur af landinu og Norðmenn eru hér eins og fyrr. Með stærri skipum, nýrri tækni og nálægð hinna nýju síldarmiða hafa þeir skipt um áherslur. Nú hefur dregið úr söltun þeirra en í þess stað landa þeir aflanum í bræðslu heima í Noregi. Í sumar fengu þeir 100 þúsund tunnur saltaðar og liðlega eina milljón mála í bræðslu. 335
Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1962 og 1963
1963 Veiðarnar á þessu ári hófust 3. janúar en þann dag var góð veiði á þremur svæðum, út af Selvogi, í Miðnessjó og norðvestur af Garðskaga. Alls fékk 71 skip 65.150 tunnur þennan dag. Næstu daga var góð veiði en hún fékkst austar en áður, austur af Vestmannaeyjum og í Reynisdýpi. Síðari hluta janúar var tíð óhagstæð til síldveiða en um mánaðamótin janúar - febrúar fékkst síld einkum í Skeiðarárdýpi. Sæmileg veiði hélst á þeim slóðum fram eftir mánuðinum en undir lok hans hættu flest skipin síldveiðum og sneru sér að öðru, mörg þeirra hófu veiðar í þorsknót. Frá áramótum til maíloka voru saltaðar suðvestanlands 38.892 tunnur, 485.705 mál voru brædd, 173.878 tunnur frystar og 56.167 tunnur voru fluttar út ísvarðar. Heildarafli á þessu tímabili var 96.050 tonn, mestum afla var landað í Reykjavík, 37.171 tonni. Sumarsíldveiðarnar fyrir norðan og austan hófust snemma í júní en "Gunnar" frá 336
Reyðarfirði fékk fyrstu síldina 90 sjómílur norðaustur af Dalatanga, 1.700 tunnur, 8. júní. Nokkrum dögum síðar var góð veiði norðaustur af Langanesi og 22. júní norður af Hraunhafnartanga. Síldin hélt sig svo á þessum slóðum um hálfsmánaðarskeið en á þeim tíma fékkst einnig síld sunnan Langaness. Um miðjan júlí fékkst síld í nokkra daga við Kolbeinsey, eftir það fékkst nánast allur afli á Austfjarðamiðum, frá Héraðsflóa suður fyrir Skrúð. Þegar kom fram í september fór síldin að fjarlægjast og var þá veiðisvæðið 60 - 100 sjómílur austsuðaustur af Dalatanga. Síðasta síldin á vertíðinni veiddist 24. september. Veiðarnar stunduðu 226 skip alls eða tveimur skipum fleira en í fyrra. Aflakóngur varð Eggert Gíslason en hann stýrir nú nýju skipi, "Sigurpáli" GK - 375. Afli "Sigurpáls" var 31.916 mál og tunnur. Þó að heildarafli væri talsvert minni nú en í fyrra var söltun nú verulega meiri en þá. Alls voru saltaðar 463.403 tunnur. Seyðisfjörður skaust nú á toppinn sem hæsti söltunarstaður landsins og skákaði bæði Siglufirði og Raufarhöfn. Á Seyðisfirði voru saltaðar 108.929 tunnur, á Raufarhöfn 77.918 og 68.693 á Siglufirði. Þrjár hæstu söltunarstöðvarnar voru á 337
Seyðisfirði, Hafaldan h/f var hæst með 23.040 tunnur en Ströndin h/f og Sunnuver h/f komust einnig yfir 20 þúsunda markið. Síldarverksmiðjurnar tóku alls á móti 1.268.856 málum af síld á vertíðinni. Síldarvinnslan í Neskaupstað fékk 253.484 mál í sinn hlut en S.R. Seyðisfirði og S.R. Raufarhöfn fóru einnig yfir 200 þúsund mál. Þörf fyrir flutning á bræðslusíld var miklu minni nú en í fyrra vegna minni afla. Þó voru 34.525 mál flutt frá Seyðisfirði til Siglufjarðar og 4.668 mál voru flutt til Eyjafjarðarverksmiðjanna. Í frystingu fóru 32.859 tunnur. En síld var veidd víðar en við Norður - og Austurland í sumar. Fimm Vestmannaeyjabátar hófu veiðar á heimamiðum snemmsumars og síðar bættust nokkrir í hópinn. Þegar veiði á Austfjarðamiðum var heldur treg um tíma í ágústmánuði héldu nokkur skip suður á bóginn til þátttöku í veiðunum við Eyjar og á Selvogsbanka. Heildarafli á þessari sunnlensku sumarvertíð var 29.191 tonn en alls tóku 66 skip þátt í veiðunum um lengri eða skemmri tíma. Mestan afla á vertíðinni fékk "Kári" frá Vestmannaeyjum, 2.105 tonn. 338
Í bræðslu fóru 207.655 mál en 11.567 tunnur voru frystar. Haustsíldveiðarnar hófust um miðjan október og gengu bærilega í byrjun en síðan hamlaði óhagstætt tíðarfar veiðum langtímum saman. Alls voru saltaðar 49.112 tunnur fram til áramóta en 67.046 á vertíðinni allri sem stóð fram í febrúar. Í bræðslu fóru fyrir áramót 74.516 mál, 153.872 tunnur voru frystar og 1.854 tunnur voru fluttar út ísaðar. Hæsti söltunarstaðurinn á vertíðinni allri var Reykjavík en þar voru saltaðar 21.897 tunnur og Bæjarútgerð Reykjavíkur var hæst einstakra söltunarstöðva með 8.360 tunnur. Aflahæsti bátur frá 1. október til desemberloka var "Hrafn Sveinbjarnarson III" frá Grindavík, skipstjóri á honum er Björgvin Gunnarsson. Heildarsíldarafli ársins alls nam 395.166 tonnum eða 51,2 % afla sem Íslendingar drógu að landi. Á þessu ári bættust mörg glæsileg fley í íslenska flotann. Útgerðarmönnum er nú ljóst að hundrað tonna bátarnir, sem þóttu góðir fyrir fáum árum, eru ekki nægilega mikil skip til að sækja með stórar og þungar nætur í misjöfnum veðrum, auk þess sem burðarþolið er fulllítið. Á lágbyggðum skipum kemur fyrir að nótin flýtur upp en hin hábyggðu hafa sum 339
hver tæpast stöðugleika til að hafa nótina á bátadekki. "Stuðlaberg" frá Seyðisfirði fórst með allri áhöfn í fyrra og á þessu ári sökk ein mesta happafleyta síldarflotans um áratugi, "Súlan" frá Akureyri. "Súlan" mætti örlögum sínum í vonskuveðri í dymbilvikunni út af Garðskaga, fimm menn úr áhöfninni fórust. Vélskipið "Snæfugl" frá Reyðarfirði lagðist á hliðina og sökk út af Seley í júlímánuði. Skipin, sem bætast í flotann um þessar mundir, eru því stærri, traustari og burðarmeiri en þau sem eru fyrir, flest 200 - 300 tonn að stærð. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 163 og 1964
1964 Vetrar - og vorsíldarveiðar gengu heldur tregt í ár. Síldar varð fyrst vart 10. janúar suðvestur af Ingólfshöfða og næstu vikur hélt síldin sig í Skeiðarárdýpi og Meðallandsbugt. Veður var lengst af heldur rysjótt á vertíðinni en stundum var þokkalegur afli þegar gaf. Síldin, sem fékkst, var hins vegar mjög léleg, bæði horuð og smá. Þegar kom fram í febrúar 340
var hún þó meira blönduð stórsíld. Fjarlægð miðanna frá næstu söltunarhöfnum olli því svo einnig að mestur hluti hennar fór í bræðslu. Þegar líða tók á febrúar hættu flest skip veiðum og sneru sér að þorskveiðum, ýmist í net eða nót. Aflahæstir á vertíðinni voru Björgvin Gunnarsson og piltar hans á "Hrafni Sveinbjarnarsyni III" frá Grindavík með 2.329 tonn. Heildarafli frá áramótum til vors var 72.395 tonn, 441.794 mál fóru í bræðslu, 22.657 tunnur voru saltaðar og 96.241 tunna fryst. Sumarsíldveiðarnar hófust óvenju snemma í ár en "Helgi Flóventsson" fékk 900 tunnur 75 mílur út af Langanesi 31. maí. Næstu tvær vikur var veiði einkum djúpt norður og norðaustur af Langanesi. Öðru hverju allt sumarið fékkst síld á þessu svæði en vestar fór hún ekki. Um miðjan júní fékkst síld 30 - 40 mílur austsuðaustur af Dalatanga og eftir það var aðalveiðisvæðið jafnan út af Austfjörðum, allt frá Héraðsflóa og suður fyrir Hvalbak. Oftast fékkst síldin 40 - 80 mílur frá landi og þegar leið á haustið þrengdist veiðisvæðið og vikum saman fékkst síldin nánast eingöngu 60 - 70 mílur austsuðaustur af Dalatanga. Þarna var stór floti rússneskra reknetaskipa og óðar 341
en varði festist nafnið "Rauða torgið" við þetta svæði Alls stunduðu 233 skip veiðar lengri eða skemmri tíma. Mörg skip hættu veiðum seint í ágúst vegna ótíðar og lítillar veiði og héldu mörg þeirra til veiða við Suðurland. Seinni hluta september voru aðeins 80 - 90 skip að veiðum enda var þá komið fram yfir hefðbundin vertíðarlok. Í október voru þau 70 og í desember voru aðeins 30 - 50 skip sem þraukuðu. Þrautseigustu skipstjórarnir voru einkum þeir sem stýra stærstu og öflugustu skipunum sem flest hafa verið keypt á allra síðustu árum. Nokkurt hlé varð á veiðum í nóvember þegar gerði langan ótíðarkafla en annars má segja að vertíðin hafi staðið fram yfir áramót. Vegna samanburðar við fyrri vertíðir og þess hve bátum fækkaði undir lokin voru vertíðaskil höfð 30. september. Þá var "Jörundur III" frá Reykjavík aflahæstur með 36.324 mál og tunnur en skipstjóri á honum er Magnús Kr. Guðmundsson. Alls voru saltaðar 354.298 tunnur fram til áramóta en langmestur hluti var saltaður fyrir 30. september. Austfirðir voru drýgstir með söltun svo sem vænta mátti en á Seyðisfirði voru saltaðar 93.539 tunnur, Raufarhöfn kom 342
næst með 66.773 tunnur. Ströndin h/f á Seyðisfirði var hæsta söltunarstöðin með 19.410 tunnur, Auðbjörg h/f á Eskifirði kom næst með 17.494 tunnur. Síldarverksmiðjurnar tóku alls á móti 2.734.929 málum. Síldarvinnslan í Neskaupstað fékk 478.231 mál og S.R. Seyðisfirði 432.846 mál. Alls voru frystar 51.289 tunnur. Svo sem nærri má geta var mikil þörf fyrir flutning bræðslusíldar í sumar. Síldarverksmiðjur ríkisins fluttu 95.238 mál frá Seyðisfirði til Siglufjarðar og verksmiðjurnar í Krossanesi og á Hjalteyri fluttu 22.625 mál frá Seyðisfirði vestur til Eyjafjarðar. Loks má nefna að olíuskipið "Þyrill" flutti 21 þúsund mál að austan til Bolungarvíkur. Áður hefur verið nefnt að síldarflutningar með vöruflutningaskipum geta verið hið mesta hættuspil ef veður eru válynd. Í sumar gerði Einar Guðfinnsson í Bolungarvík athyglisverða tilraun. Hann tók "Þyril " á leigu og bjó hann dælu til lestunar og losunar skipsins. Verkfræðingarnir Haraldur Ásgeirsson og Hjalti Einarsson önnuðust tilraunina sem skilaði góðum árangri í heild. Tókst vel að dæla síldinni um borð á 343
Seyðisfirði og einnig úti á rúmsjó ef sjólag var skaplegt. Hins vegar ber "Þyrill" ekki nema liðlega sex þúsund mál sem er í minnsta lagi eigi veruleg hagkvæmni að nást í slíkum flutningum. Fyrir þessa síldarvertíð kom fjöldi nýrra og glæsilegra síldveiðiskipa til landsins. "Höfrungur III" frá Akranesi vakti mikla athygli vegna þeirrar nýjungar að hann er búinn bógskrúfu og stýrisskrúfu sem auðvelda t.d. mjög að leggjast að bryggju því að skipið getur siglt út á hlið. Hitt er þó mikilvægara að þessi tæki gera veiðar í slæmu veðri eða miklum straumi mun auðveldari. Eins og á síðasta ári stunduðu nokkrir bátar síldveiði við Suðurland sumarlangt. Um skeið bættist þeim liðsauki af Austfjarðamiðum þannig að alls komst 81 skip á skrá við þessar veiðar þótt afli margra þeirra væri næsta mjósleginn. Heildarafli á þessari vertíð var rúmlega 29 þúsund tonn og var "Pétur Ingjaldsson" frá Reykjavík aflahæstur með 2.193 tonn. Alls fóru 208.325 mál í bræðslu og 8.989 tunnur voru frystar. Haustsíldarveiðarnar við Suðvesturland gengu illa. Fá skip stunduðu veiðar enda aflavon lítil og góð veiði fyrir Austurlandi á sama tíma. Það litla sem fékkst veiddist út af 344
Snæfellsnesi í október og fyrri hluta nóvember. Alls fengust tæp 19 þúsund tonn á vertíðinni fram til áramóta. Þá höfðu 44.595 tunnur verið saltaðar, þar af voru 7.043 tunnur saltaðar á Austfjörðum upp í Suðurlandssamninga. Heildarsöltun á vertíðinni allri fram til 8. febrúar var 53.675 tunnur, þar af voru 16.492 tunnur saltaðar á Austfjörðum. Hæsti söltunarstaður á vertíðinni allri var Akranes með 17.136 tunnur, þar af voru 9.535 tunnur saltaðar hjá Haraldi Böðvarssyni & co. Í bræðslu fóru fram til áramóta 31.024 mál og 94.712 tunnur voru frystar. Loks má nefna að 541 tonn af síld var veitt á Akureyrarpolli á árinu og hefur sá afli áður verið talinn með Norður - og Austurlandssíld. Af þessum afla fóru 270 tonn í niðursuðu, 18 tonn voru fryst en afgangurinn var bræddur í Krossanesi. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1964 var 537.290 tonn eða rúmlega 56 % heildaraflans. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1964 og 1965
345
1965 Síldveiðarnar fóru hægt af stað í ár. Fyrsta síldin fékkst á svipuðum slóðum og undanfarin ár, við Suðurströndina austanverða. Fá skip stunduðu veiðarnar framan af, m.a. vegna verkfalla en þau sem héldu sig að veiðunum fengu þokkalegan afla. Síldin hentaði illa til söltunar og lauk söltun í febrúarbyrjun. Útgerðarhættir hafa breyst ört undanfarin ár. Hin nýju, dýru og fullkomnu skip gera auðvitað kröfu til mikils afla. Sum þeirra eru svo stór að unnt er að hafa fleiri en eina nót um borð og kraftblakkirnar auðvelda mönnum að skipta yfir á skömmum tíma. Þetta leiðir til þess að veiðarnar verða ögn ruglingslegri en áður því að sótt er í veiði þar sem aflavon er mest hverju sinni. Þannig var fjöldi skipa á vetrarvertíð sem veiddi jöfnum höndum síld og þorsk en þorskveiðar í nót hafa farið mjög vaxandi undanfarin ár. Loks má geta hins nýja fisks, sem skipin keppast um að veiða, loðnunnar. Loðnuveiðar voru lítillega stundaðar 1963, í fyrra var aflinn 8.640 tonn og í ár var hann 49.735 tonn.
346
Ef öllum veiðum í nót á vertíðinni er skellt saman var "Höfrungur III" frá Akranesi undir stjórn Garðars Finnssonar aflahæstur með 5.713 tonn en ef síldin er tekin ein og sér var "Ísleifur IV" frá Vestmannaeyjum hæstur með 1.623 tonn. Heildarsíldarafli á vertíðinni var 59.196 tonn. Í bræðslu fóru 313.387 mál, 23.909 tunnur voru saltaðar og 125.883 tunnur frystar. Sumarsíldveiðarnar fyrir norðan og austan byrjuðu óvenju snemma í ár þegar "Jón Kjartansson" frá Eskifirði fékk síld 100 mílur austur af Glettingi. Afli var góður fyrstu dagana en fá skip að veiðum. Veiðisvæði voru fjögur, tvö norðaustur og austur af Langanesi, annað þeirra 190 mílur frá landi. Síðan voru tvö svæði austur af Dalatanga,70 mílur og 120 mílur úti. Þegar 9. júní voru allar þrær verksmiðjanna sunnan Langaness fullar. Um miðjan júní fékkst síld 240 mílur austnorðaustur af Rauðanúpi og daginn eftir var veiðisvæðið miðað við Jan Mayen. Mikil óánægja ríkti meðal sjómanna og útgerðarmanna með það síldarverð sem ákveðið hafði verið og bráðabirgðalög um gjaldtöku vegna síldarflutninga. Báðar þessar ákvarðanir voru mjög síðbúnar og allur flotinn á veiðum. Síldveiðiflotinn sigldi svo í land í 347
mótmælaskyni 26. júní. Þessi deila leystist 1. júlí og hélt þá flotinn úr höfn. Síld fékkst út af Austfjörðum í júlí en veiði dapraðist eftir því sem leið á mánuðinn. Upp úr 20. júlí fóru margir skipstjórar að hugsa sér til hreyfings og freistuðu þess að leita á ný mið. Innan fárra daga voru sex skip komin á veiðar við Hjaltland og 25. júlí fengu "Jörundur III" RE og "Heimir" SU þokkalegan afla á þeim slóðum. Tveimur dögum síðar gáfu 11 skip upp afla á þessum fjarlægu miðum en á heimaslóðum höfðu menn nú einnig fundið síld og um viku skeið var góður afli við Hrollaugseyjar og Tvísker. Þegar kom fram í ágúst færðust veiðarnar aftur á kunnuglegri mið út af Austfjörðum og djúpt norðaustur af Raufarhöfn, þau mið eru reyndar svo langt undan að ýmist er miðað við Raufarhöfn eða Jan Mayen. Um miðjan ágúst fóru sex skip á "miðin við Norður - Noreg" en þau ekki skilgreind frekar. Næstu vikur var helst síld að fá við Jan Mayen en upp úr miðjum september gekk hún á Rauða torgið og mátti heita að þar væri stöðug veiði, þegar veður leyfði, allt til áramóta. Nóvember var veiðisælasti mánuður vertíðarinnar en í honum veiddist 21 % heildaraflans. 348
Nú er orðið erfitt að greina síldveiðarnar í ákveðnar vertíðir vegna þess að fjöldi skipa stundar þessar veiðar að heita má allt árið. Aflahæsta skipið frá upphafi sumarvertíðar til áramóta var "Jón Kjartansson" frá Eskifirði með 77.404 mál og tunnur. Af þessum afla voru 4.208 tunnur af Suðurlandssíld. Alls stunduðu 234 skip síldveiðar á þessu tímabili en 24 þeirra veiddu eingöngu Suðurlandssíld. Söltun hófst upp úr miðjum júní og var talsvert saltað í vikutíma en síðan varð hinn hefðbundni söltunartími ákaflega brotakenndur vegna að síldin var mjög blönduð og illa hæf til söltunar, auk þess sem verulegur hluti aflans fékkst á fjarlægum miðum. Um miðjan september komst svo verulegur skriður á söltunina og næstu fjórar vikur var saltað af miklum krafti þannig að ríflega helmingur heildarsöltunarinnar fór fram á þessum tíma. Alls voru saltaðar 401.410 tunnur á vertíðinni. Mest var saltað á Seyðisfirði, 97.436 tunnur og Neskaupstaður kom næstur með 50.968 tunnur. Hæsta söltunarstöðin var Auðbjörg h/f á Eskifirði með 18.781 tunnu og Hafaldan h/f á Seyðisfirði kom næst með 17.446 tunnur. 349
Söltunarstöðvar spretta nú upp víða um Austfirði. Sérstaka athygli vakti að að í sumar tók ný söltunarstöð til starfa á Brekku í Mjóafirði en á þeim slóðum hefur ekki verið rekin söltunarstöð síðan á öldinni sem leið. Langmestur hluti síldaraflans fór í bræðslu eða 3.821.125 mál. Hinn góði afli síðustu ára kveikti aukna bjartsýni með mönnum og viðbúnaður verksmiðjanna til móttöku var aukinn talsvert fyrir vertíðina. Búlandstindur h/f á Djúpavogi byggði 1.000 mála verksmiðju og Hafsíld h/f á Seyðisfirði byggði 2.500 mála verksmiðju. Síldarverksmiðjur ríkisins juku afköst Seyðisfjarðarverksmiðjunnar um 2.500 mál á sólarhring. Þá undirbjuggu margar verksmiðjur stórfelldari síldarflutninga en áður hafa þekkst. Síldarverksmiðjur ríkisins á Seyðisfirði fengu mesta síld á árinu, 605.668 mál en Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað fékk 502.037 mál. Alls voru 12 skip í síldarflutningum á árinu. Þar af var helmingurinn tankskip en það hefur sýnt sig að þau eru hentugri og sérstaklega öruggari en vöruflutningaskipin. Tilraunirnar á "Þyrli" í fyrrasumar gáfu það góða raun að mörg flutningaskipanna eru nú búin síldardælum og geta því lestað síld úti á rúmsjó ef veður er skaplegt. Fyrir vertíðina í ár 350
festi síldarverksmiðjan í Bolungarvík og fiskimjölsverksmiðjan á Ísafirði kaup á "Þyrli" til síldarflutninga. Skipinu var gefið nafnið "Dagstjarnan". Þá keypti Síldar - og Fiskimjölsverksmiðjan h/f í Reykjavík, sem á og rekur verksmiðjuna að Kletti og Faxaverksmiðjuna, stórt tankskip til síldarflutninga. Þetta skip nefnist "Síldin" og getur flutt u.þ.b. 20 þúsund mál i hverri ferð. "Síldin" fór 11 ferðir og flutti alls 207.400 mál frá síldarmiðunum og Seyðisfirði til Reykjavíkur en alls fluttu skipin tólf 572.047 mál til verksmiðja fjarri miðum. Afköst og þróarrými síldarverksmiðja á Norður - og Austurlandi er nú sem hér segir:
Síldarverksmiðjur ríkisins, Skagaströnd Fiskiðja Sauðárkróks Síldarverksmiðjur ríkisins, Siglufirði 351
Afköst á sólarhring Mál
Þróarrými Mál
4.000
30.000
400
2.000
20.000
80.000
Rauðka, Siglufirði
6.000
Hraðfrystihús Ólafsfjarðar
18.000
600
Kveldúlfur h/f, Hjalteyri
5.000
28.000
Krossanesverksmiðjan
2.400
20.000
Síldarverksmiðjur ríkisin, Húsavík Síldarverksmiðjur ríkisins, Raufarhöfn Sandvík h/f, Bakkafirði
1.000
5.500
5.000
62.000
600
6.000
Síldarverksmiðjan Vopnafirði
h/f,
4.500
35.000
Síldarverksmiðjan h/f, Borgarfirði Síldarverksmiðjur ríkisins, Seyðisfirði Hafsíld h/f, Seyðisfirði
600
5.000
7.000
43.000
2.500
22.000
h/f,
4.000
33.000
Eskifjarðar
2.400
10.500
Síldarvinnsla Neskaupstað Hraðfrystihús h/f
352
Síldarverksmiðjur ríkisins, Reyðarfirði Fiskimjölsverksmiðja Fáskrúðsfjarðar Síldariðjan, Breiðdalsvík
2.400
19.000
1.700
10.000
1.000
5.500
Búlandstindur Djúpavogi
h/f,
1.000
7.000
Alls:
72.100
441.500
37.500
250.000
Sunnanlands og vestan
Alls voru 57.895 tunnur frystar af Norður og Austurlandssíld, 2.404 tonn voru flutt út ísvarin og 274 tonn voru soðin niður. Sumarsíldveiðin við Suðurland hófst í júníbyrjun og stóð hún nánast óslitið fram í miðjan desember. Þó fékkst nær enginn afli í síðari helmingi ágústmánaðar. Helstu veiðisvæði voru lengi sumars við Vestmannaeyjar og á Selvogsbanka en á haustdögum fékkst talsvert af síld austur í Skeiðarárdjúpi og Breiðamerkurdjúpi. Hins vegar mátti heita að veiðar brygðust alveg í Faxaflóa og við Snæfellsnes. Alls stundaði 161 skip veiðar við Suðurland lengri eða skemmri tíma en mörg skipanna 353
stunduðu jafnframt veiðar við Austfirði. Aflahæsta skipið á síldveiðum við Suðurland var "Engey" frá Reykjavík með 38,049 uppmældar tunnur. Síldin, sem veiddist við Suðurland var smá oog illa fallin til söltunar. Um áramót hafði aðeins 23.771 tunna verið söltuð en á vertíðinni allri, sem stóð til janúarloka, voru saltaðar 35.999 tunnur. Þar af voru 6.100 tunnur saltaðar á Austfjörðum upp í Suðurlandssamninga. Mest var saltað á Akranesi, 10.139 tunnur og hæsta söltunarstöðin var Haraldur Böðvarsson & co. með 6.278 tunnur. Í bræðslu fóru til áramóta 820.239 mál, 131.821 tunna var fryst og 649 tonn voru soðin niður en ný niðursuðuverksmiðja, Norðurstjarnan í Hafnarfirði, tók til starfa á árinu. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1965 var hinn langmesti frá upphafi eða 762.930 tonn, u.þ.b. 64 % alls afla Íslandsmanna á árinu. Undanfarin ár hafa veiðarnar tekið miklum breytingum, veiðitækni hefur batnað og afli aukist en vert er að benda á tvö atriði til viðbótar. Árið 1962 skiptist aflinn, sem fékkst við Norður- og Austurland nokkurn veginn til helminga milli íslenskrar og norskrar síldar en 354
í ár var hlutur íslenskrar síldar aðeins 6,5 % en 93,5 % komu frá Noregi. Hitt atriðið, sem vekur athygli, er fjarlægð miðanna frá Íslandi. Ef íslenskt hafsvæði er talið ná austur að 11°vestlægrar lengdar og 68°norðlægrar breiddar og norskt svæði fyrir norðan og austan þessar línur og veiðisvæði Íslendinga er skoðað kemur í ljós að 75,5 % síldarafla Íslendinga fékkst á íslensku hafsvæði, 24,2 % norðan og austan þessa svæðis og 0,3 % við Hjaltland. Skýrsla síldarútvegsnefndar Ægir 1965 og 1966
1966 Janúarveiðarnar í ár voru eins konar svanasöngur hinnar löngu vertíðar á síðasta ári. Ofurlítið kropp var út af Austfjörðum fram eftir þessum mánuði en heldur líflegra við Vestmannaeyjar. Sjómenn á síldarskipunum hafa löngum vantreyst hinni hefðbundnu rúmmálsmælingu á síld. Sérstaklega var þeim löngum uppsigað við mælingu bræðslusíldar og hlutust oft af harðar deilur og jafnvel málaferli þegar þeim 355
þótti á sig hallað í mælingunni. Einn liður í samkomulagi milli síldarkaupenda, útgerðarmanna, sjómanna og ríkisstjórnar í fyrra var að frá og með árinu 1966 skyldi öll bræðslusíld vegin upp úr skipi. Hér eftir verður því síldarafli jafnan talinn í tonnum. Á miðunum fyrir Austfjörðum fengust í janúar alls 6.101 tonn. Í bræðslu fóru 4.164 tonn, 257 í salt, fryst voru 610 tonn, 133 tonn voru soðin niður og 937 tonn flutt út ísvarin. Þrjú skip, sem fengu afla alldjúpt út af Austfjörðum, sigldu með afla sinn, 228 tonn og seldu erlendis. Við Suðurland gengu veiðarnar treglega á vertíðinni ef á heildina er litið. Nokkur afli fékkst í Skeiðarár - og Breiðamerkurdýpi, við Vestmannaeyjar og í Grindavíkursjó í janúar. Næstu þrjá mánuði var sáralítill afli en aftur lifnaði yfir veiðunum í maí. Var þá helst afla að hafa í Jökuldjúpi, sunnan Reykjaness og við Vestmannaeyjar. Athugun á síldinni, sem veiddist á þessu tímabili, leiddi í ljós að 10,1 % var vorgotssíld, 51,8 % sumargotssíld og 38,1 % var ókynþroska síld. Flest skipanna, sem veiddu síld á þessu tímabili, stunduðu aðrar veiðar jafnframt, þorsk- eða loðnuveiðar. Heildarafli frá áramótum til 31. maí var 18.477 tonn. 356
Aflahæsta skipið var "Kópur" frá Vestmannaeyjum með 942 tonn. Í bræðslu fóru 12.837 tonn, 1.610 tonn voru söltuð, 4.015 tonn fryst og 15 tonn soðin niður. Sumarsíldveiðarnar fyrir Norður- og Austurlandi byrjuðu snemma í ár. "Jón Kjartansson" frá Eskifirði fékk fyrstu síldina 12. maí 150 mílur austsuðaustur af Seley, 160 tonn. Fá skip voru að veiðum fyrstu dagana en 20. maí voru 40 skip komin til veiða 200 - 240 mílur austur af landinu. Í stað þess að ganga upp að landinu stefndi síldin nú norður á bóginn og þrjá fyrstu mánuði vertíðarinnar hélt hún sig 100 - 200 mílur austur og norðaustur af landinu og um tíma var hún í námunda við Jan Mayen í 360 mílna fjarlægð frá Íslandi. Ýmis vandkvæði voru á því að sækja síldina svo langt svo að sum skipin leituðu fyrir sér við Hjaltland í júlímánuði. Þess voru líka dæmi að löndun í Færeyjum lá beinna við en að sigla til Íslands. Um miðjan ágúst varð vart við breytta hegðun síldarinnar, 21. ágúst voru tvö veiðisvæði, annað 150 mílur norðaustur af Raufarhöfn og hitt 110 mílur suðaustur af Norðfjarðarhorni. Við ágústlok, nánar tiltekið 28. ágúst, var síldin komin á Rauða torgið, 50 - 80 mílur austur af Dalatanga. Eftir þetta var 357
jafnan góð veiði á þessum slóðum, ef veður leyfði, fram í desember. En tíðarfar var mjög rysjótt og úrtökur miklar af þeim sökum. Skipin hættu öll veiðum nokkru fyrir jól. Heildarafli á þessari vertíð var 700.621 tonn sem er enn eitt aflametið. Alls tóku 186 skip þátt í veiðunum að þessu sinni. Aflahæsta skipið var "Gísli Árni" frá Reykjavík með 12.692 tonn. Skipstjóri á "Gísla Árna" er hinn kunni aflamaður Eggert Gíslason sem sýndi nú enn einu sinni færni sína á þessu sviði. Tvö önnur skip, "Jón Kjartansson" frá Eskifirði og "Jón Garðar" úr Garði, fengu rúm 10 þúsund tonn hvort. Síldin, sem veiddist í sumar, var lengst af mjög blönduð, mikið var um fremur smáa síld en innan um var óvenjustór síld. Fyrsta síldin var söltuð á Raufarhöfn 18. júní en síðan var sáralítið saltað fyrr en kom fram í ágúst, bæði vegna þess hve síldin var blönduð og vegna fjarlægðar miðanna frá landinu. Í síðari hluta ágúst og fram yfir miðjan september var saltað af miklum krafti og þegar upp var staðið höfðu 383.815 tunnur verið saltaðar. Mest var saltað á Seyðisfirði, 96.307 tunnur, en Raufarhöfn kom næst með 54.755 tunnur. Hæsta söltunarstöðin var Hafaldan h/f á Seyðisfirði 358
með 15.973 tunnur en hjá Sunnuveri h/f á Seyðisfirði voru saltaðar 14.733 tunnur. Viðbúnaður til móttöku bræðslusíldar var aukinn nokkuð frá fyrra ári. Tvær litlar bræðslur bættust nú í hópinn, á Þórshöfn og Stöðvarfirði. Þá festu Síldarverksmiðjur ríkisins kaup á stóru tankskipi til síldarflutninga. Skip þetta, sem heitir "Haförninn", getur flutt 3.400 - 3.500 tonn í hverri ferð. Síldarverksmiðjurnar tóku alls á móti 605.676 tonnum af síld á vertíðinni. Af þessum afla voru 77.568 tonn flutt með flutningaskipum til fjarlægra verksmiðja. Í þessum flutningum bar hæst flutninga "Síldarinnar" til Reykjavíkur, alls 36.482 tonn, og "Hafarnarins" til Siglufjarðar, 16.447 tonn. Síldarverksmiðjur ríkisins á Seyðisfirði voru fengsælastar allra verksmiðja með 101.421 tonn en Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað fékk 98.599 tonn. Minna varð úr síldarflutningum þegar leið á haustið en ætlað hafði verið vegna ótíðar sem gerði þá bæði erfiða og óþarfa þar sem austfirsku verksmiðjurnar náðu jafnan að vinna nokkurt borð á þrærnar í brælum. Alls voru 20.030 tonn af síld fryst á vertíðinni, 188 tonn voru soðin niður og 961 tonn flutt út ísvarið. 359
Ný veiðiskip bætast sífellt í flotann og eru flest hinna nýju skipa yfir 300 tonn að stærð. Meðal skipa, sem bættust í flotann á þessari vertíð, má nefna "Sigurbjörgu" frá Ólafsfirði sem er langstærsta fiskiskip sem hefur verið smíðað á Íslandi og er glæsilegur vitnisburður um hæfni íslenskra iðnaðarmanna en skipið var smíðað í Slippstöðinni á Akureyri. Þá má nefna "Héðin" frá Húsavík sem byggður var í Noregi. "Héðinn" er búinn sérstökum sjókælitanki sem er nýjung í íslensku fiskiskipi og ætti að tryggja að afli komist óskemmdur að landi þótt um langan veg sé farið. Síldveiðar við Suðurland gengu treglega um sumarið og fáir bátar voru að veiðum. Aðalveiðisvæðið var á Herdísarvík og út af Grindavík auk þess sem ofurlítið fékkst austur undir Hrollaugseyjum. Frá 1. júní fram til septemberloka fengust 42.704 tonn sem fóru öll í bræðslu. Á haustdögum tregðaðist afli enn og má segja að haustvertíð hafi algerlega brugðist. Aðeins veiddust 2.649 tonn í bræðslu og 146 tonn voru söltuð. Heildarafli við Suðurland frá 1. júní til áramóta var því aðeins 45.499 tonn. Aflahæsti báturinn á þessari vertíð var "Sigurður Bjarni" frá Grindavík með 2.777 tonn. Þessi fátæklegi afli takmarkaði 360
mjög söltun Suðurlandssíldar á haustvertíð en reynt var að berja í brestina með tvennu móti. Nokkuð var flutt af Austfjarðasíld suður til söltunar og einnig var söltunarstöðvum á Norður- og Austurlandi falið að salta upp í Suðurlandssamninga. Áður en lauk höfðu 44.518 tunnur verið saltaðar, þar af voru 10.404 tunnur saltaðar á Norður- og Austurlandi. Mest var saltað á Akranesi, 9.887 tunnur en Bæjarútgerð Reykjavíkur var hæst einstakra stöðva með 5.934 tunnur. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1966 var 770.698 tonn, hinn mesti frá upphafi, og eru þetta rúmlega 62 % alls afla þeirra á árinu. Hlutur íslenskrar síldar í aflanum norðanlands og austan fór enn minnkandi á árinu, var nú aðeins 3 % en 97 % voru ættuð frá Noregi. Þá vekur athygli hve langt frá landi þessi afli hefur fengist. Um 55,9 % aflans fengust á Íslandssvæðinu sem afmarkast af 68°norðlægrar breiddar og 11°vestlægrar lengdar. Austan þessara marka fengust 27,3 %, á Jan Mayenmiðum norðan 68°16,7 % og 0,1 % við Hjaltland. Hvað Suðurlandssíldina varðar er eftirtektarvert hve hlutfall ókynþroska síldar í aflanum hækkar stöðugt. Þannig voru liðlega 361
60 % hins litla afla sem fékkst við Suðurland á haustvertíð ókynþroska síld. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1966 og 1967
1967 Síldveiðar á þessu ári hófust með því að nokkrir bátar freistuðu þess að framlengja vertíðina úti fyrir Austfjörðum. En síldin hafði þá hugsað sér til hreyfings austur á bóginn svo sem venja er og þegar í síðari hluta janúar þótti skipstjórum fýsilegra að landa í Færeyjum en á Íslandi og lögðu 4.107 tonn upp í Fuglafirði. Þeir héldu síðan uppteknum hætti og lönduðu 2.401 tonni á sama stað í febrúar og í mars er vitað um "Óskar Halldórsson" frá Reykjavík, "Snæfugl" frá Reyðarfirði og "Súluna" frá Akureyri sem lönduðu þar 1.111 tonnum. Íslensk skip lönduðu því alls 7.619 tonnum í Færeyjum á þessum þremur mánuðum. Auk þess seldu tvö skip afla sinn, 278 tonn, í Þýskalandi í janúar. Af þeim afla, sem skipin fluttu heim til Íslands á þessari síðbúnu vertíð, fóru 21.104 362
tonn í bræðslu, 3.755 tonn voru fryst og 163 tonn voru flutt út ísvarin auk þess afla sem áður var nefndur. Heildaraflinn var því 32.919 tonn. Við Suðurland gengu veiðarnar heldur tregt en helst var að eitthvað fengist við Þrídranga og 10 - 20 mílur austur af Bjarnarey. Þegar kom fram í febrúar tók alveg fyrir afla og veiddist ekkert til vors utan það að "Gjafar" frá Vestmannaeyjum fékk 14 tonn í loðnunót austan við Bjarnarey 25. mars. Heildarafli Suðurlandssíldar á vetrarvertíð var 10.558 tonn, 1.875 tonn voru fryst en 8.683 tonn fóru í bræðslu. Í aflaskýrslu vetrarvertíðar er ekki greint á milli Austfjarðasíldar og Suðurlandssíldar en þar er "Guðrún Þorkelsdóttir" frá Eskifirði aflahæst með 2.238 tonn og er líklegt að mestur hluti aflans eða hann allur sé af Austfjarðamiðum. Sumarsíldveiðar fyrir norðan og austan hófust 26. maí þegar Haraldur Ágústsson og menn hans á "Reykjaborg" frá Reykjavík fengu fyrstu síldina 150 mílur norðaustur af Færeyjum. Í fyrstu voru örfá skip á miðunum en þegar vika var liðin af júní voru 50 skip að veiðum 350 mílur austur af Austfjörðum, 10. júní höfðu fengist 9.565 tonn. Um miðjan júní 363
var síldin 80 - 100 mílur suðaustur af Jan Mayen en undir mánaðamótin gerði slæma brælu og lá flotinn þá í vari við eyjuna. Nokkrum skipstjórum hugnaðist ekki þetta langa ferðalag og héldu til veiða í Norðursjó og lönduðu í Færeyjum. En síldin hélt áfram eyðimerkurgöngu sinni norðaustur í júlímánuði og um miðjan mánuðinn var hún á 74° norðlægrar breiddar og 11° austlægrar lengdar. Jan Mayen, sem áður hafði verið tákn endimarkanna, ysti útvörður síldarmiðanna, var nú eins konar miðjumerki á langri og tilbreytingalausri siglingu heim til Íslands. Og enn fjarlægðist síldin, 2. ágúst veiddist hún á 75° norðlægrar breiddar og 13° austlægrar lengdar eða 50 - 60 mílur suðvestur af Svalbarða. Síldin hélt sig síðan á þessum slóðum rúman mánuð en um miðjan september varð þess vart að henni þætti rétt að síga suður og vestur á nýjan leik, 24. september var hún komin vestur fyrir núllbauginn og 6. október kom hún á gamalkunnar slóðir, 68° norðlægrar breiddar og 8° vestlægrar lengdar. Í nóvemberbyrjun mátti segja að hún hefði sest að á Rauða torginu en nú fór í hönd tímabil með mjög rysjóttu tíðarfari og í desember máttu heita 364
sífelldar brælur. Minna varð því úr veiði en ella hefði orðið. Síldveiðarnar gengu auðvitað mun tregar þegar miðin voru í slíkri ógnarfjarlægð frá landi og hefðu verið óframkvæmanlegar ef síldarskipin hefðu ekki notið fulltingis síldarflutningaskipanna tveggja, "Hafarnarins" og "Síldarinnar". Auk síldarflutninga sáu þau um nauðsynlegustu aðdrætti fyrir flotann, komu færandi olíu, vistir o. fl. og veittu smávægilega viðgerðarþjónustu o.s.frv. Aflahæsta skipið á þessari einkennilegu vertíð var "Gísli Árni" frá Reykjavík sem fékk alls 6.213 tonn. Eggert Gíslason varð því aflakóngur á vertíðinni eina ferðina enn. Svo sem vænta mátti var söltun miklum annmörkum háð þegar síldin veiddist lengst af svo fjarri söltunarstöðvunum. Söltun hófst ekki fyrr en vika var liðin af september og síldin var farin að nálgast landið. Söltunartíminn hefur því færst til sem nemur einni vertíð frá því sem var fyrir fáum árum. Alls voru saltaðar 317.482 tunnur. Hæsti söltunarstaðurinn var Seyðisfjörður en þar voru 61.969 tunnur saltaðar, Fáskrúðsfjörður kom næstur með 46.796 tunnur. Athygli vekur að Siglufjörður, sem lá sannarlega ekki staða best við síldarsöltun, fékk 17.599 tunnur í sinn 365
hlut. Hæsta söltunarstöðin var Pólarsíld h/f á Fáskrúðsfirði með 17.035 tunnur, Hraðfrystihús Fáskrúðsfjarðar kom næst með 15.008 tunnur. Til þessarar söltunar fóru 46.967 tonn af síld en allur afli á vertíðinni var 349 þúsund tonn. Bræðslusíld var alls 290.303 tonn. Síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði fengu 55.703 tonn í sinn hlut en af þessum afla flutti "Haförninn" 52.062 tonn til lands. Næstar komu Síldarverksmiðjur ríkisins á Seyðisfirði með 45.998 tonn. "Síldin" flutti alls 28.183 tonn til verksmiðjanna í Reykjavík. Til frystingar fóru 3.633 tonn, 65 tonn voru soðin niður, 24 tonn reykt og 8.077 tonnum var landað erlendis. Eins og fram hefur komið var þessi vertíð að mörgu leyti öndverð þeim sem hlut áttu að máli. Afli var miklu minni en í fyrra og hlutur útgerðar og sjómanna mjóslegnari þess vegna. Skipin voru færri nú, 148 á móti 186 í fyrra. Einn togari, "Víkingur" frá Akranesi, var nú meðal skipa á aflaskýrslu. Verksmiðjurnar fengu miklu minni síld en vænst hafði verið og þar að auki féllu afurðir þeirra verulega í verði. Þótt ótrúlegt sé miðað við aðstæður er það helst söltunin sem heldur í horfinu. Skipin voru vanbúin til veiða svo langt norðaustur í hafi og voru að mörgu leyti lakar 366
sett en rússnesk og norsk skip sem einnig voru að veiðum á þessum slóðum. Mörg norsku skipanna voru útbúin til söltunar um borð og að auki fylgdi flota þeirra stórt móðurskip, "Kosmos IV", en þar um borð voru saltaðar 25.700 tunnur. Íslendingar reyndu að mæta fjarlægðarvandanum með því að ísverja síldina og einnig með því að flytja hana sjókælda í tönkum. Sjókælingin reyndist allvel og talsvert var saltað af ísvarinni síld sem flutt hafði verið um ótrúlega langan veg. Hin langa sigling um opið haf gat reynst skipunum skeinuhætt. Síldarskipið "Stígandi" frá Ólafsfirði lagði af stað með afla frá Svalbarðamiðum 23. ágúst en eftir skamma siglingu lagðist það á hliðina og þrátt fyrir tilraunir til að halda því á réttum kili sökk það. "Stíganda" var ekki saknað fyrr en á fimmta degi og var þá strax skipulögð leit tiltækra skipa. Eftir tiltölulega skamma leit fundu Bóas Jónsson og menn hans á "Snæfugli" frá Reyðarfirði áhöfnina á "Stíganda" heila á húfi í gúmmíbjörgunarbát. Mennirnir höfðu þá velkst um í björgunarbátnum fjóra sólarhringa og 17 klukkustundir. "Snæfugl" sigldi með skipbrotsmennina upp undir Langanes. Þar fóru þeir um borð í "Guðbjörgu" frá Ólafsfirði og Hrafn Ragnarsson og áhöfn hans fluttu þá 367
síðasta spölinn til heimahafnar. Skipstjóri á "Stíganda" var Karl Sigurbergsson. Þetta slys varð til þess að komið var á tilkynningaskyldu íslenskra fiskiskipa. Sumarsíldveiðar við Suðurland hófust þegar "Kópur" frá Vestmannaeyjum fékk fyrstu síldina 20. júní. Veiði var heldur góð, 1. júlí höfðu 25 skip fengið tæp 14 þúsund tonn. Veiðisvæðið var einkum vestan Vestmannaeyja, út af Selvogi og svolítið fékkst í Faxaflóa. Upp úr miðjum ágúst tók fyrir veiði en þá höfðu 47.500 tonn borist á land. Nú varð tveggja mánaða hlé á veiðum en þær hófust aftur 24. október og fékkst nú síld einkum í Jökuldjúpi og í vestanverðum Faxaflóa, auk þess sem svolítið fékkst í Breiðamerkurdýpi og við Hrollaugseyjar. Heildarafli við Suðurland frá 1. júní til áramóta var 69.054 tonn. Aflahæsta skipið var "Geirfugl" frá Grindavík með 3.452 tonn. Til söltunar fóru 6.502 tonn og voru saltaðar 52.234 tunnur um haustið, mest í Keflavík og nágrenni, 14.739 tunnur, en hæsta söltunarstöðin var Haraldur Böðvarsson & co. með 9.239 tunnur. Í bræðslu fóru 56.330 tonn, 6.194 tonn voru fryst og 28 tonn voru flutt út ísvarin. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1967 var 461.500 tonn en í fyrra rúmlega 770.000 368
tonn. Árið 1967 sker sig úr m.a. hvað það snertir að verulegur hluti Norðurlands- og Austurlandssíldar veiddist á fjarlægum miðum. Aðeins 20,1 % síldarinnar veiddist á íslensku hafsvæði, þ.e. sunnan 68° og vestan 11°. Í hafinu austur af landinu, þ.e. austan 11° v.l. frá 63°norður að 73°30´ n.br. fengust 60,3 %. Við Bjarnarey og Svalbarða norðan við 73°30´ austur að 13°a.l. fengust 17,7 % og 1,9 % fengust í Norðursjó og Skagerak. Það vekur einnig athygli að hlutfall íslenskrar síldar í aflanum lækkar enn og er nú komið niður fyrir 1 %. Hvað Suðurlandssíldina áhrærir er athyglisvert að hlutur vorgotssíldar minnkar enn og það er áhyggjuefni margra að hlutfall ókynþroska síldar var yfir 50 % alla sumar og haustvertíðina. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1967 og 1968
1968 Gamlir síldarmenn hafa sagt að engin síldarvertíð sé annarri lík. Samt undirbúa menn hverja vertíð með þá síðustu í huga og 369
eiga tæpast annarra kosta völ. Nokkur skip voru að veiðum við Hjaltland í janúarmánuði og fram í miðjan febrúar en þá fóru flest þeirra heim. Skipin seldu 696 tonn í Þýskalandi í janúar og í mars seldu tvö skip 323 tonn þar. Nokkur skip lönduðu smáslöttum í Færeyjum og 137 tonnum var landað á Íslandi í janúar. Samkvæmt skýrslum var aflinn fram til 31. maí 1.444 tonn, 51 tonn fór í bræðslu, 64 tonn voru söltuð, 31 tonn fryst, 20 tonn voru soðin niður og 1.278 tonnum var landað erlendis. Veiðar við Suðurland lágu að mestu niðri fyrri hluta ársins. Síðustu tvö ár hefur verið í gildi bann við veiði á síld sem er minni en 23 cm. Hinn 22 febrúar setti sjávarútvegsráðherra nýja reglugerð sem hækkaði þessi mörk í 25 cm, ákvarðaði heildarafla Suðurlandssíldar 50 þúsund tonn að hámarki og bannaði síldveiðar sunnanlands frá 1. mars til 15. ágúst. Eitt skip, "Hafrún" frá Bolungarvík, fékk þó undanþágu til að veiða fyrir niðursuðuverksmiðjuna Norðurstjörnuna. Heildarafli Suðurlandssíldar á hinni hefðbundnu vertíð, 1. janúar til 31. maí, var 2.783 tonn. Í bræðslu fóru 1.447 tonn, 90 tonn voru söltuð, 1.242 tonn fryst, 187 tonn soðin niður og 4 tonn voru reykt eða seld til innanlandsneyslu. Aflahæsta síldarskipið á þessu tímabili var "Reykjaborg" frá Reykjavík. 370
Sennilega hefur "Reykjaborg" fengið mestan hluta afla síns eða hann allan á fjarlægum miðum. Undirbúningur undir sumarveiðarnar hófst um miðjan vetur. Hinn 20. febrúar skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd sem gera skyldi tillögur um lausn þess vanda sem skapaðist ef síldin héldi sig áfram svo fjarri landi sem raun bar vitni á síðasta ári. Nefndin skilgreindi verkefni sitt sem lausn á margþættum vanda og rakti hann upp í tíu þætti. 1. Læknisþjónusta 2. Löggæsla 3. Björgunarþjónusta 4. Köfunarþjónusta 5. Viðgerðar- og varahlutaþjónusta á fiskileitar- og fjarskiptatækjum 6. Loftskeytaþjónusta 7. Veðurþjónusta 8. Dælu - og slökkviþjónusta 9. Olíuflutningar 10. Vista - og birgðaflutningur Nefndin setti síðan fram tillögur um ráðstafanir í hverjum málaflokki fyrir sig. Undirbúningur veiðanna var margþættur. Útgerðarmenn gerðu ráð fyrir söltun aflans í hafi og reyndu að búa veiðiskipin sem best með tilliti til þess. Síldarverksmiðjur ríkisins 371
tóku tankskipið "Nordgard" á leigu til síldarflutninga en talið var að "Haförninn" og "Síldin" mundu varla anna flutningunum. Síldarútvegsnefnd greiddi eftir því sem kostur var götu þeirra sem hugðu á söltun úti á miðunum. Hún gaf út handbók fyrir söltunarmenn en sjómönnum er það nýjung að fylgja síldinni eftir alla leið í tunnu. Þá tók Síldarútvegsnefnd tvö flutningaskip á leigu til flutninga á aðföngum vegna söltunar og á framleiðslunni heim til Íslands. Feðgarnir Valtýr Þorsteinsson og Hreiðar Valtýsson, eigendur Norðursíldar h/f á Raufarhöfn, tóku færeyska flutningaskipið "Elisabeth Hentzner" á leigu og útbjuggu sem fljótandi söltunarstöð. Sumarvertíðin byrjaði í júníbyrjun. "Reykjaborg" frá Reykjavík fékk þá síld við Hjaltland og landaði í Færeyjum 3. júní.Í júní voru 12 íslensk skip að veiðum í Norðursjó og lönduðu í Færeyjum, Skotlandi, Hjaltlandi og Þýskalandi. Fyrsta síldin barst til Austfjarða 3. júlí. Að þessu sinni gekk síldin nánast beint í norður í stað þess að koma á Íslandsmið og 11. júlí var veiðisvæðið 76°norður og 13°30´ austlægrar lengdar. Þegar kom fram í september tók hún að síga suður og vestur á bóginn og 20. september fór hún vestur yfir núllbaug. Seint í október varð 372
hennar vart á hefðbundnum vetursetuslóðum austur af Austfjörðum. Veiðar gengu tregt lengst af og þegar menn bjuggust við auknum afla á haustdögum var síldin dreifð og lítið um álitlegar torfur. Mörg skip héldu því á miðin við Hjaltland og lönduðu 4 - 5 þúsund tonnum í Þýskalandi, Bretlandi og Færeyjum. Alls tóku 103 skip þátt í veiðunum. Mörg þeirra voru vanbúin til söltunar um borð en síld var söltuð um borð í 57 skipum. Leiguskip Síldarútvegsnefndar fluttu tunnur, salt og önnur aðföng á miðin en yfirleitt fluttu veiðiskipin sjálf saltsíldina til lands. Mest var saltað um borð í "Elisabeth Hentzner", 7.495 tunnur, en "Eldborg" var hæst veiðiskipa með 3.781 tunnu. Skipstjóri á "Eldborgu" er Gunnar Hermannsson. Alls nam sjósöltuð síld 66.484 tunnum. Aflahæsta skipið á Austfjarðamiðum var "Gígja" frá Reykjavík með 3.684 tonn. Skipstjóri á "Gígju" er Árni Gíslason. Alls voru saltaðar í landi 109.804 tunnur. Sjósöltuðu síldinni var landað á 35 söltunarstöðvum á svæðinu frá Siglufirði til Breiðdalsvíkur. Samanlögð landsöltun og löndun sjósaltaðrar síldar var mest á Seyðisfirði, 35.188 tunnur. Hæsta 373
söltunarstöðin var Norðursíld á Raufarhöfn með 13.209 tunnur samanlagt. Síldarverksmiðjurnar tóku á móti 50.569 tonnum, þar af voru 36.242 tonn flutt til lands með tankskipunum þremur. Mest barst af bræðslusíld til Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði, 21.842 tonn. Á vertíðinni voru 720 tonn fryst, 47.925 tonnum var landað erlendisog 18 tonn voru reykt eða seld til neyslu. Aflabrestur sumarsins leiddi til þess að menn reyndu að feta nýjar slóðir í veiðunum. "Víkingur III" frá Ísafirði reyndi reknetaveiðar við Vestfirði í september en reknet hafa ekki verið reynd um ára bil. Árangur þessarar tilraunar var næsta mjósleginn, aflinn var aðeins 1.300 kg. Betur gekk hjá "Erni" frá Reykjavík en hann sigldi vestur á bóginn í desember og fékk 292 tonn af síld við Ameríkustrendur og var aflanum landað í Bandaríkjunum. Síldveiðar við Suðurland hófust 29. september 15 - 20 mílur norðvestur af Eldey. Í fyrstu var aðeins eitt skip að veiðum en 12. október höfðu 13 skip landað einhverjum afla. Viku síðar höfðu 63 skip flutt einhvern afla að landi.Veiðisvæði var helst suðvestur af Reykjanesi, við Hrollaugseyjar og út af 374
Snæfellsnesi. Aflabrögð voru mjög léleg allt haustið og varð heildarafli vertíðarinnar aðeins 15.770 tonn. Mestan afla fékk "Höfrungur III" frá Akranesi. Alls voru saltaðar 21.565 tunnur, mest í Keflavík og nágrenni, 7.958 tunnur. Hæsta söltunarstöðin var Haraldur Böðvarsson & co. Akranesi með 4.281 tunnu. Síldarverksmiðjurnar tóku á móti 4.873 tonnum , 5.570 tonn voru fryst og 765 tonn soðin niður. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1968 var 142.820 tonn eða tæpur þriðjungur aflans 1967 og minna en fimmtungur aflans 1966. Aflinn skiptist þannig milli veiðisvæða að 18,1 % fékkst á íslensku hafsvæði, sunnan 68°og vestan 11°v.l. , 20,5 % milli 63°og 73°30´ og austan 11°v.l. , 28,8 % fengust við Svalbarða og Bjarnarey norðan 73°30´, 32,4 % í Norðursjó og 0,2 % við austurströnd Bandaríkjanna. Aflabresturinn veldur mörgum búsifjum og ekki bætir úr skák að verð á síldarlýsi hefur verið mjög lágt. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1968 og 1969
375
1969 Við upphaf ársins var vitað um síld í hafinu djúpt austur af Íslandi. Nokkur norsk, færeysk og íslensk skip reyndu fyrir sér öðru hverju í janúar en afli var nánast enginn þar sem síldin stóð allt of djúpt til að hún næðist. Fyrri hluta janúar fannst síld 50 - 60 mílur vestur af Garðskaga en minna varð úr veiðum en ætlað var vegna þess að 10. janúar skall á verkfall á bátaflotanumog stóð það fram til 17. febrúar. Algert síldveiðibann við Suður - og Vesturland tók svo gildi 1. apríl. Heildarafli Suðurlandssíldar frá 1. janúar til maíloka var aðeins 1.807 tonn. Á meðan verkfallið stóð yfir héldu nokkur skip til veiða í Norðursjó og voru þar fram að loðnuvertíð. Þau fengu alls 2.060 tonn og lönduðu mestum hluta aflans í Vestur - Þýskalandi. Eitt skip, "Örn" frá Reykjavík, hélt áfram veiðum við austurströnd Bandaríkjanna og seldi aflann, 1.717 tonn, til bræðslu þar í landi. Heildarsíldarafli Íslendinga fram til maíloka var því 5.584 tonn. Sumarsíldin, sem hér áður var kölluð Norðurlandssíld, hélt uppteknum hætti í ár. Hún tók snemmsumars stefnuna norður í Dumbshaf og staðnæmdist ekki fyrr en á 376
75°norðlægrar breiddar og 10 - 12°austlægrar lengdar. Allmörg skip höfðu verið búin til veiða í Norðurhöfum, m.a. með bættum búnaði til söltunar um borð. Alls hélt 21 skip í hina löngu siglingu norður undir Svalbarða en svo erfið sem síldin var viðfangs síðustu tvö árin var hún hálfu kenjóttari núna. Torfumyndun var slök, síldin stóð djúpt og var einstaklega stygg. Eftir fjögurra til fimm vikna barning hættu skipin veiðum en þá höfðu aðeins fjögur skip fengið afla, alls 580 tunnur. "Bjarmi II" frá Dalvík fékk 223 tunnur. Segja má að Íslendingar hafi stundað síldveiðar í Norðursjó allt árið en í júnímánuði fjölgaði skipum þar mjög enda var mönnum þá að verða veiðibresturinn í Norðurhöfum ljós. Fram eftir sumri voru skipin helst að veiðum við Hjaltland og Orkneyjar en færðu sig austar þegar leið á haustið. Alls fengu íslensku skipin 20.477 tonn í Norðursjó fram til áramóta. Verulegur hluti síldarinnar var seldur á mörkuðum í Vestur - Þýskalandi og Bretlandi. Í ágústmánuði voru 1.152 tonn seld í Þýskalandi og 224 í Bretlandi. Einnig var talsvert um að síldin væri söltuð um borð í veiðiskipunum. Alls voru 68.033 tunnur saltaðar í 28 skipum. Mest saltaði áhöfnin á "Lofti Baldvinssyni" frá Dalvík, 377
7.302 tunnur. Saltsíldin var lögð upp hjá 25 söltunarstöðvum, Norðurver h/f á Dalvík fékk mest í sinn hlut, 9.102 tunnur. Söltun um borð í skipunum var ýmsum örðugleikum háð. Síldin var miklu smærri en Norður - og Austurlandssíld og þess vegna mun seinlegra að hausskera og slógdraga í hverja tunnu en menn voru vanir. Sjómönnum þótti því fýsilegra að rúnnsalta síldina og var langmestur hluti aflans verkaður þannig. Verulegur hluti þessarar síldar reyndist vera gölluð vara, bæði vegna átuskemmda og vegna þess að innan um reyndist vera "blóðsíld", þ.e. nýhrygnd eða hrygnandi síld. Ef markaðsaðstæður hefðu verið aðrar hefði þessi síld verið illseljanleg eða óseljanleg með öllu. Þess var áður getið að "Örn" frá Reykjavík sigldi í vesturveg þegar í upphafi ársins. Í júní bættust fjögur skip í hópinn og hið sjötta sigldi vestur í ágúst. Þessi sex skipa floti stundaði veiðar sunnan Nýfundnalands, á Georgsbanka og Maineflóa, og voru að fram í október. Þau lönduðu aflanum, 11.068 tonnum, í flutningaskip utan landhelgi en síðan fór hann í bræðslu í Bandaríkjunum. Mestan afla þessara skipa fékk "Örn", 3.186 tonn. Veiðibannið við Suður - og Suðvesturland stóð sumarlangt en meðan á því stóð fengu 378
nokkrir bátar undanþágu til veiða á takmörkuðu magni til niðursuðu. Á þessum tíma varð síldar einkum vart í Breiðamerkurdýpi, við Vestmannaeyjar og þaðan vestur með landi og út af Jökli. Veiðibanninu var aflétt 15. september og fékkst þegar næstu daga þokkalegur afli í Breiðamerkurdýpi. Undir mánaðamót fékkst síld norðvestur af Eldey en síðan tók við ógæftakafli í tæpan hálfan mánuð. Að lokum veiddist talsvert á svæðinu milli Surtseyjar og Garðskaga og í nóvember og fram eftir desember var veiðisælast suðvestur af Snæfellsnesi. Sáralítill afli fékkst eftir áramót. Heildarafli við Suður - og Suðvesturland frá 1. júní til áramóta var 20.304 tonn. Mestan afla fékk "Geirfugl" frá Grindavík, 1.596 tonn. Síldin, sem veiddist, var í raun ekki heppileg til söltunar vegna þess hve mestur hluti hennar var smár en engu að síður voru saltaðar 103.232 tunnur. Mest var saltað í Reykjavík, 16.380 tunnur, en hæsta söltunarstöðin var Arnarey h/f á Djúpavogi með 6.491 tunnu. Heildar sumar- og haustaflinn var 51.308 tonn. Í Norðurhöfum fékkst 0,1 %, við Suðvesturland 39,6 %, í Norðursjó 38,7 % og 21,6 % við austurströnd Bandaríkjanna. 379
Alls fengu 87 síldarskip afla á tímabilinu á móti 119 skipum í fyrra. Mest aflaverðmæti fékkst á "Dagfara" frá Húsavík, liðlega 12 milljónir króna. Skipstjóri á "Dagfara" er Sigurður Sigurðsson. Allur síldarafli Íslendinga árið 1969 var 56.893 tonn. Erlendis var landað 28.078 tonnum, 4.177 tonn voru fryst, 1.451 tonn soðið niður, 19.379 tonn söltuð og 3.808 tonn fóru í bræðslu. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1969 og 1970
1970 Nokkur skip reyndu síldveiðar við Suðvesturland í janúarmánuði í von um nokkurt framhald veiða liðins árs. Þær væntingar urðu brátt að engu því að afli var nánast enginn, 8 skip fengu samtals 125 tonn og hættu þau því veiðum fyrir miðjan mánuð. Veiðibann gekk síðan í gildi 15. febrúar og stóð til 15. september. Undanþága var veitt í apríl og maí til að veiða síld til niðursuðu og í beitu og fengust þá 1.808 tonn. 380
Í maíbyrjun sneru fyrstu skipin stöfnum í átt til Norðursjávar og hófu veiðar þar. Fyrir maílok höfðu fjögur þeirra landað erlendis 398 tonnum. Við vertíðarlok 31. maí hafði íslenski flotinn því fengið alls 2.331 tonn af síld. Mestan síldarafla á þessu tímabili fékk "Hafrún" frá Bolungarvík, 390 tonn. Alls héldu 59 íslensk skip til veiða í Norðursjó á sumar - og haustvertíð. Þau fengu samtals 34.527 tonn fram til áramóta en þegar haustveiðar hófust við Ísland fækkaði Norðursjávarskipum mikið. Aflahæsta skipið á Norðursjávarmiðum var "Súlan" frá Akureyri með 1.892 tonn. Skipstjóri á "Súlunni" er Hrólfur Gunnarsson. "Súlan" fékk einnig mest heildarverðmæti á sumar - og haustvertíð , tæpar 30 milljónir króna. Auk ofangreinds síldarafla fengu íslensku skipin 1.617 tonn af aukaafla, einkum makríl og svolítið af ufsa. Síldaraflanum, sem fékkst í Norðursjó, var ráðstafað á þrjá vegu. Þar sem söltun um borð í veiðiskipum gafst heldur illa í fyrra og sala framleiðslunnar var miklum örðugleikum háð var áhugi á sjósöltun miklu minni nú en þá. Þó voru saltaðar 8.714 tunnur um borð í 5 skipum, mest í "Eldborgu" frá Hafnarfirði, 4.610 tunnur. 381
Í öðru lagi var nokkuð um að skip sigldu með síldina ísaða til Íslands og lönduðu henni til söltunar þar og voru saltaðar í landi 5.270 tunnur af þeirri síld. Heildarsöltun Hjaltlands og Norðursjávarsíldar var því 13.984 tunnur. Mest var landsöltun og móttaka sjósaltaðrar síldar á Eskifirði, 7.412 tunnur og þar var líka hæsta stöðin, Eyri h/f, með 4.610 tunnur. Loks lönduðu skipin erlendis og var það langstærsti hluti aflans. Hætt er við að hluti þess afla sé kominn í beina samkeppni við íslensku saltsíldina því að algengt er að sænskir síldarkaupmenn kaupi ferska síld í Skagen eða Hirtshals í Danmörku og flytji hana heim til söltunar eða salti hana í Danmörku í félagi við heimamenn. Veiðar við Suður - og Suðvesturland hófust um leið og veiðibanninu var aflétt 15. september. Veiðitakmarkanir voru nú settar á með reglugerð, lágmarkstærð var 25 cm, hámarksafli var ákveðinn 50 þúsund tonn á árinu og veiðibann frá 15. febrúar til 15. september. Seinni helming september og í október fékkst síld helst vestan og norðvestan við Vestmannaeyjar og vestur með landi að Stafnesi. Nokkur afli fékkst við Suðausturland í október og nóvember en í desember var sáralítið að hafa hvar sem borið var niður. 382
Alls stunduðu 69 skip þessar veiðar og fengu 14.447 tonn, aflahæsta skipið var "Geirfugl" frá Grindavík með 678 tonn. Söltun á vertíðinni nam alls 62.537 tunnum og var mest saltað í Vestmannaeyjum, 8.180 tunnur en hæsta söltunarstöðin var stöð Kaupfélags Austur - Skaftfellinga á Höfn með 5.321 tunnu. Það er athyglisvert að meginþungi söltunarinnar er nú talsvert austar en verið hefur undanfarin ár og var talsvert saltað nú á sunnanverðum Austfjörðum, allt norður til Neskaupstaðar. Afli á sumar - og haustvertíð í ár var 48.947 tonn og skiptist þannig að 29,5 % fengust við Suður - og Suðvesturland en 70,5 % á Norðursjávarmiðum. Í febrúar og mars og svo aftur í nóvember og desember voru veidd rúmlega 65 tonn af smásíld á Akureyrarpolli til niðursuðu hjá K. Jónssyni á Akureyri. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1970 var 50.736 tonn og þarf að fara aftur til ársins 1954 til að finna sambærilega tölu. Tæplega 2/3 hlutar aflans eða 65,1 % voru seldir ferskir erlendis eða 33.052 tonn, 4.662 tonn voru fryst, 1.189 tonn voru soðin eða lögð niður, 10.468 tonn söltuð og 1.365 tonn fóru í bræðslu. 383
Árið 1970 er að ýmsu leyti sérstakt hvað varðar síldveiðar og síldarvinnslu. Afli var minni en hann hefur verið um 15 ára skeið. Engin síld veiddist nú úr norsk - íslenska stofninum og engin skip fóru í Norðurhöf. Engin síld var nú veidd við Ameríkustrendur og meiri hluta aflans var í fyrsta skipti landað beint úr veiðiskipum í erlendum höfnum. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1970 og 1971
1971 Það verður tæpast sagt að síldveiðimenn og síldarvinnslufólk hafi horft björtum augum til framtíðar við upphaf ársins. Mönnum er nú að verða æ betur ljóst að gengið hefur verið of nærri öllum helstu síldarstofnum í Norður Atlantshafi. Veiðitæknin hefur orðið náttúrulegri endurnýjun yfirsterkari. Þess vegna hófu menn göngu sína inn í nýtt ár með meiri veiðitakmarkanir á síldveiðum en áður hafa þekkst. Þessar takmarkanir eru margþættar. 384
Í fyrsta lagi hafa tekist samningar milli Íslendinga, Norðmanna og Sovétmanna um ráðstafanir til að varðveita norsk - íslenska stofninn. Samningurinn tók gildi 1. janúar og er til eins árs. Mikilvægustu ákvæði hans eru að þjóðunum er óheimilt að veiða meira af fullorðinni síld úr stofninum en þær gerðu 1969 og þeim er aðeins heimilt að veiða 70 % af þeirri smásíld og millisíld sem þær veiddu 1969. Veiðitakmarkanir við Suður - og Suðvesturland voru hertar með reglugerð 26. janúar. Lágmarksstærð síldar er 25 cm eins og áður, hámarksafli er 25 þúsund tonn í stað 50 þúsunda og veiðibann er frá 15. febrúar til 1. september. Engar undanþágur verða veittar frá 1. júlí til 15. ágúst. Loks eru menn líka farnir að hafa áhyggjur af Norðursjávarsíldinni. Veiðar voru nú bannaðar í Norðursjó allan maímánuð og frá 20. ágúst til 30. september með þeirri undantekningu að hver þjóð mátti veiða 1.000 tonn á banntíma til beitu eða manneldis. Hinar miklu takmarkanir urðu til þess að lítið var reynt við Suðurlandssíld á vetrarvertíð. Þrjú skip fengu undanþágu til veiða í niðursuðu og beitu og fengu 890 tonn í apríl og maí. Auk þess veiddust 12 tonn í mars 385
svo að heildaraflinn við Suðurland var 902 tonn á vertíðinni. Allmörg skip héldu á miðin við Hjaltland snemma í janúar og veiddu þolanlega frá miðjum janúar til mánaðamóta en þá tók fyrir veiði og skipin héldu heim á leið vegna loðnuvertíðar. Á þessum skamma tíma fengu 26 skip 3.608 tonn sem þau lönduðu að mestum hluta í Hirtshals. Heildarsíldarafli Íslendinga fram til maíloka var því 4.510 tonn. Aflahæsta skipið var "Örfirisey" frá Reykjavík með 570 tonn. Sumar - og haustvertíð hófst á Norðursjávarmiðum í júníbyrjun. Nú var íslenskt síldarleitarskip í fyrsta skipti á þessum slóðum, flotanum til halds og trausts. "Árni Friðriksson" fór þrjár ferðir suður eftir og var u.þ.b. mánuð á svæðinu hverju sinni. Veiðarnar gengu yfirleitt vel fram eftir sumri, einkum var síðari hluti júlímánaðar notadrjúgur. Skipin voru þá einkum á svæðinu suðvestur af Hjaltlandi, allt suður á móts við Suðureyjar. Bestu veiðisvæðin voru suðvestur af eynni Foula, vesturjaðar Papabanka og við eyna North Rona. Skipin hættu veiðum 20. ágúst vegna bannsins utan örfá sem veiddu þúsund tonna kvótann sem Íslendingum var heimilt meðan á banninu stóð. 386
Flotinn hélt svo aftur til veiða í októberbyrjun þegar banninu var aflétt en nú voru þau miklu færri vegna þess að hluti flotans helgaði sig haustveiðum við Ísland. Veður var mjög óstöðugt alla haustmánuðina og dró það verulega úr afla. Tíðarfar og sjólag var þó yfirleitt skárra austan Hjaltlands en vestan en síldin var stærri og betri á vestursvæðinu. Síldaraflinn á miðunum við Hjaltland var 45.976 tonn alls frá 1. júní til áramóta. "Súlan" frá Akureyri fékk mestan afla, 2.096 tonn, en "Loftur Baldvinsson" frá Dalvík fékk 1.923 tonn og hafði verðmætasta aflann, andvirði tæpra 30 milljóna. Skipstjóri á "Lofti Baldvinssyni" er Gunnar Arason. Samningar um sölu saltaðrar Hjaltlandssíldar gengu mjög erfiðlega og sáralítið var saltað af henni eða alls 2.410 tunnur. Mest var saltað á Eskifirði, 1.613 tunnur, þar af voru 1.439 tunnur saltaðar hjá Auðbjörgu h/f. Veiðar við Suður - og Suðvesturland hófust þegar veiðibanni lauk 1. september. Veiðarnar gengu afar tregt lengst af, helst var að eitthvað fengist frá miðjum október fram í miðjan nóvember. Síldin var þá örgrunnt undan landi í Meðallandsbug. Það stóð veiðunum fyrir þrifum að mikið af smásíld var jafnan á 387
miðunum og sótti hún mjög í að blandast stórsíldinni. Heildarafli Suðurlandssíldar á haustvertíðinni var 10.863 tonn, "Örfirisey" frá Reykjavík fékk mestan afla, 982 tonn. Þar sem veiði var svona treg varð minna úr söltun en menn höfðu vænst. Alls voru saltaðar 48.396 tunnur, þar af örlítið í janúarmánuði. Mest var saltað í Vestmannaeyjum, 16.538 tunnur en Fiskimjölsverksmiðja Hornafjarðar var hæst einstakra söltunarstöðva með 3.944 tunnur. Ofurlítið var veitt af smásíld á Akureyrarpolli að venju til niðursuðu hjá K. Jónssyni á Akureyri. Þetta voru alls 66 tonn, veidd í janúar og febrúar. Einn bátur, "Hafrún" frá Hellisandi, reyndi reknetaveiðar út af Jökli um miðjan september án árangurs, afli var aðeins 1,9 tonn. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1971 var 61.341 tonn. Langmestum hluta aflans, 48.326 tonnum var landað erlendis, 4.468 tonn voru fryst, 978 tonn soðin niður, 6.445 tonn söltuð, 14 tonn fóru til innanlandsneyslu og bræðslusíldin var 1.124 tonn. Þetta er afrakstur veiða 81 báts sem flestir stunduðu veiðar verulegan hluta úr árinu. Heildaraflinn er að vísu heldur skárri en á síðasta ári en hann er alls ekki viðunandi. 388
Aflinn á Norðursjávarmiðum var að þessu sinni 80,9 % en afli á heimamiðum aðeins 19,1 %. Hvarvetna eru veiðitakmarkanir. Útlitið er svo sannarlega ekki gott. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1971 og 1972
1972 Síldarafli var ekki burðugur á vetrarvertíð. Eitt skip fór í Norðursjó snemma í janúar og var að veiðum fram í miðjan febrúar og tvö skip reyndu fyrir sér í apríl. Heildarafli þessara þriggja skipa var 190 tonn af síld og 146 tonn af makríl. Við Suðurland fengu 5 skip 177 tonn í janúar en síldveiðibann gekk í gildi 1. febrúar Haustið 1971 bar mjög mikið á ókynþroska smásíld og millisíld í aflanum. Ýmislegt bendir líka til að allt of nærri stofninum sé gengið. Því þótti rétt að banna nú síldveiðar í nót en reknetaveiðar eru heimilar og þá miðað við ákveðna möskvastærð til að tryggja lágmarksstærð þeirra fiska sem ánetjast. 389
Tveir bátar reyndu reknetaveiðar við Suðvesturland í ágúst en afli var nánast enginn. Síðari hluta september fóru svo fimm bátar til veiða við Suðausturland. Að þessu sinni var afli heldur skárri en hvergi nærri fullnægjandi. Heildarafli reknetasíldar var 129 tonn. Aflahæstur bátanna var "Skinney" frá Hornafirði með 64 tonn. Alls voru 298 tunnur af reknetasíld saltaðar hjá söltunarstöðinni Eyri h/f á Eskifirði. Nótaskipin tóku að tínast á Norðursjávarmið í júníbyrjun og voru að jafnaði 35 - 40 skip á miðunum fram til nóvemberloka en síðustu skipin komu heim um 20. desember. Skipin stunduðu veiðar á svipuðum slóðum og þau hafa gert undanfarin ár. Þó varð sú breyting á fyrri hluta júlímánaðar að þau voru aðallega í Skagerak þar sem síldin vestan Hjaltlands var svo full af átu að ekki var hægt að flytja hana óskemmda af miðunum til Danmerkur. Síðustu viku júlímánaðar var góður afli á Papabanka og um haustið í grennd við eyna Foula. Þegar lengra leið á haustið gerðust veður óblíð og voru miklar frátökur af þeim sökum í október og nóvember. Þrálát vestanátt hindraði langtímum saman veiðar vestan Hjaltlands en sjólag var skaplegra austan eyjanna. 390
Heildarafli Íslendinga í Norðursjó og Skagerak var 41.172 tonn. Fengsælastir voru Gunnar Arason og skipverjar hans á "Lofti Baldvinssyni" frá Dalvík með 2.034 tonn en 45 skip fengu afla á þessum slóðum. Norðursjávarsíldin var lengst af heldur óheppileg til söltunar og þar sem fersksíldarverð í Danmörku var hagstætt var þess ekki að vænta að mikið væri saltað af þessari síld heima á Fróni. Alls voru saltaðar 4.204 tunnur, mest á Eskifirði, 1.327 tunnur. Hjá Auðbjörgu h/f voru 1.194 tunnur saltaðar. Allur síldarafli Íslendinga árið 1972 var 41.668 tonn eða talsvert minni en á síðasta ári. Íslensku síldarskipin lönduðu 38.298 tonnum erlendis, 2.166 tonn voru fryst, 5 tonn soðin niður, 570 tonn söltuð, 16 tonn fóru til innanlandsneyslu og 500 tonn voru brædd. Svo virðist sem það þurfi að fara allt aftur til hallærisins 1952 til að finna minni heildarafla en nú. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1972 og 1973
391
1973 Undanfarin ár hefur lítið spurst til norsk íslenska síldarstofnsins en jafnan er þó reynt að fylgjast með því sem eftir lifir af honum eftir því sem kostur er. Komið hefur í ljós að langstærsti hluti þeirrar síldar sem finnst er af árganginum frá 1969. Þó hefur verið gengið mjög nærri þessum árgangi því að Norðmenn klípa stöðugt úr honum á heimamiðum og eru tregir til veiðibanns. Í ár heimiluðu þeir skipum sínum veiðar á 6.000 tonnum. Algert veiðibann var í gildi við Íslandsstrendur að því undanskildu að reknetaveiðar voru heimilar með netum sem höfðu a.m.k. 63 mm möskva, teygðan horn í horn í votu neti. Fiskifræðingar leggja eindregið til að banninu verði haldið til 1. september 1975. Rannsóknir benda til að stofn sumargotssíldarinnar sé á uppleið en vorgotssíldarinnar verður varla vart við Ísland. Íslensku síldarskipin eiga því tæpast kost á öðru en veiðum á miðunum við Hjaltland. Þar eru horfur heldur ekki góðar og er flestum ljóst að sótt er allt of stíft í síldina á þeim slóðum. Þess vegna voru síldveiðar bannaðar á svæðinu frá 1. febrúar til 15. júní með þeirri 392
undantekningu að ofurlítið mátti veiða til manneldis og beitu. Hlutur Íslands af þeirri köku nam 2.500 tonnum. Íslensku skipin fiskuðu á svipuðum slóðum og undanfarin ár, suðvestur af eynni Foula en einnig norðvestur af Orkneyjum og allt suður að Rona norðvestur af Skotlandi. Þegar leið á haustið sóttu þau meira á svæðið suður eða suðaustur af Hjaltlandi, í grennd við Fair Isle. Þá var meira um það en verið hefur undanfarin ár að skipin tækju afla í Skagerak. Afli íslensku skipanna á Norðursjávarsvæðinu að Skagerak meðtöldu var rúmlega 43 þúsund tonn. Heildarafli allra þjóða, sem stunduðu veiðar á svæðinu, var u.þ.b. 540 þúsund tonn. Danir veiða helming aflans og sækja mjög í smásíld. Þess vegna eru margir nú uggandi um framtíð síldveiða á þessum slóðum. Íslendingar reyndu svolítið reknetaveiðar á heimaslóð. Þeir höfðu þó ekki erindi sem erfiði enda tæpast við miklum afla að búast meðan uppistaða stofnsins er ókynþroska ungsíld. Heildarafli í reknet var 202 tonn. Allur síldarafli Íslendinga árið 1973 var 43.365 tonn. Langmestur hluti, eða 42.748 tonn var seldur ferskur á markað erlendis, 377 tonn voru fryst og 420 tonn fóru í bræðslu. 393
Ægir 1973 og 1974
1974 Svæðið austur og norðaustur af landinu er kannað á hverju ári með tilliti til hugsanlegrar síldargöngu. Það var einnig gert nú en árangur var hinn sami og undanfarin ár, engin fannst síldin. Veiði Suðurlandssíldar var bönnuð með sama hætti og verið hefur undanfarin ár, aðeins reknetaveiðar eru leyfðar og gildir bannið til 15. september 1975 samkvæmt reglugerð. Síldarskipin stunduðu veiðar í Norðursjó frá vordögum og fram á haust. Afli var nokkuð minni en undanfarin ár en mjög áberandi var hve mikið minna fannst af síld en undanfarin ár og mörg svæði, sem áður gáfu góðan afla, voru nú nánast síldarlaus með öllu. Helstu veiðisvæði voru vestan 4° vestlægrar lengdar, þ.e. talsvert vestar en verið hefur og á Stóra og Litla -Fiskibanka í Norðursjó. Veiði í Skagerak var mun minni en verið hefur. Heildarafli íslensku skipanna í Norðursjó var 394
39.185 tonn og var að mestu seldur í Danmörku en 300 tunnur voru saltaðar hjá Auðbjörgu h/f á Eskifirði 16. nóvember. Þetta var afli "Faxaborgar" frá Hafnarfirði. Reknetaveiðar hófust á heimamiðum um miðjan september og stóðu með hléum fram undir miðjan desember. Nú var aflavon talsvert meiri en undanfarin ár og tóku 14 bátar þátt í veiðunum sem voru aðallega stundaðar við Suðausturland. Afli var stundum þokkalegur en það spillti mjög veiðum að óboðinn gestur birtist í veislunni. Það hefur að vísu þekkst áður að háhyrningar trufli reknetaveiðar en nú kvað svo rammt að þessu að bátarnir urðu hvað eftir annað að gera hlé á veiðum vegna atgangs þeirra. Heildarafli í reknet var að þessu sinni 1.287 tonn. Af þessum afla voru saltaðar 4.019 tunnur og var bróðurpartur þeirra, 3.941 tunna, saltaður hjá Fiskimjölsverksmiðju Hornafjarðar h/f. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1974 var 40.471 tonn. Erlendis voru seld fersk 38.891 tonn, 682 tonn voru fryst, 618 tonn söltuð og 280 tonn fóru í bræðslu. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1974 og 1975 395
1975 Á þessu ári var engar fréttir að hafa af síld í hafinu austur og norðaustur af landinu frekar en fyrri daginn. Íslensku skipin hófu veiðar í Norðursjó 18. apríl. Afli var afar tregur fyrsta kastið þannig að 25. maí höfðu skipin aðeins fengið 2.782 tonn. Þá var "Fífill" frá Hafnarfirði hæstur með 219 tonn. Ástand síldarstofna á þessum slóðum er hin mesta hörmung og nú hafa verið settar strangari hömlur á veiðar en verið hefur. Frá 1. júlí 1975 til jafnlengdar á næsta ári er Íslendingum heimilt að veiða 19 þúsund tonn. Í síðari hluta september, þegar nótaveiðar gengu illa á Íslandsmiðum, skruppu u.þ.b. 20 skip þaðan á Hjaltlandsmið og fengu allgóðan afla vestan við eyjarnar. Í október voru lengst af 14 skip að veiðum en í mánaðarlokin tóku þau að tínast heim á leið til að taka kvóta sinn á heimamiðum. Um 20. október héldu sex af stærstu skipunum til makrílveiða við vesturströnd Afríku. Þetta voru "Sigurður", "Börkur", "Guðmundur", "'Asberg", "Reykjaborg" og "'Oskar Halldórsson". Þessar veiðar gengu illa,
396
einkum vegna þess að makríllinn gekk ekki á svæði þar sem skipin höfðu veiðiheimild. Veiðar við Hjaltland voru stöðvaðar 25.nóvember. Þá höfðu verið veidd u.þ.b. 11 þúsund tonn af kvótanum svo að 8 þúsund bíða næsta árs. Þegar veiðarnar stöðvuðust voru u.þ.b. 15 íslensk skip að. Svo stóð á að danskar hafnir voru lokaðar vegna aðgerða danskra sjómanna. Íslendingarnir sigldu því suður á bóginn og seldu afla sinn í Hollandi og Vestur - Þýskalandi. Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur nú lagt til að allar síldveiðar verði bannaðar í Norðursjó. Ákveðið var að heimila veiðar á 10 þúsund tonnum Suðurlandssíldar og var áætlað að veiða 2.500 tonn í reknet og 7.500 tonn í nót. Til þess að halda utan um veiðarnar var nauðsynlegt að hafa nótaveiðarnar leyfisbundnar og sóttu 80 skip um leyfi. Tillögur höfðu verið gerðar um að áhöfnum nótaskipa væri skylt að ísa aflann í kassa eða salta hann um borð. Eftir allmiklar viðræður og jafnvel deilur milli hagsmunaaðila varð síðari reglan ofan á, þ.e. að öll síld skyldi söltuð um borð. Þessi regla varð til þess að margar umsóknir voru dregnar til baka og þegar til átti að taka sátu 44 skip að veiðunum. 397
Veiðarnar gengu heldur tregt í byrjun en "Eldborg" frá Hafnarfirði fékk fyrstu nótasíldina við Hrollaugseyjar 26. september og skömmu síðar fengu mörg skip afla við Bjarnarey. Þegar í byrjun vertíðar varð ljóst að krafan um sjósöltun var óraunhæf. Skipin leituðu inn á hafnir meðan á söltun stóð og áhafnirnar freistuðust til að heilsalta sem mest en síld, sem var hausskorin og slógdregin, var látin mæta afgangi. Reglum var því breytt 6. október í þá veru að skipum var heimilað að landa ísaðri síld í kössum til söltunar í landi og var mestur hluti síldaraflans saltaður í landi eftir það. Sjórn veiðanna tókst ekki alveg sem skyldi, mörg skipin veiddu langt umfram kvóta og heildaraflinn fór um þrjú þúsund tonn fram úr áætlun. Reknetaveiðar hófust um miðjan ágúst en "Reykjaröst" kom þá með 60 tunnur til Grindavíkur. Aðalveiðisvæðið var í fyrstu frá Garðskaga norður í Kolluál. Reknetabátarnir hafa nú flestir tæknivæðst til veiðanna, eru búnir kraftblökk og vélknúnum hristara. Veiðin var fremur treg í september og október en upp úr miðjum nóvember var prýðisgóður afli til mánaðarloka. Heildarafli í reknet var 2.907 tonn en 23 bátar stunduðu þessar veiðar. 398
Alls voru saltaðar 94.407 tunnur á vertíðinni, 64.381 tunna var landsöltuð nótasíld, 15.491 tunna sjósöltuð og 14.535 tunnur reknetasíld. Síldin var söltuð á svæðinu frá Seyðisfirði suður um til Ólafsvíkur. Mest var saltað af nótasíld í Grindavík, 10.118 tunnur auk þess sem 3.198 tunnur sjósaltaðar fóru þar í land en á Hornafirði voru saltaðar 10.038 tunnur af reknetasíld. Hæsta söltunarstöðin var Fiskimjölsverksmiðja Hornafjarðar h/f með 11.257 tunnur alls. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1975 var 33.433 tonn, 20.253 tonnum var landað erlendis, 1.506 tonn voru fryst, 11.625 tonn söltuð og 49 tonn fóru í bræðslu. Norðursjávarveiðarnar virðast komnar á fallanda fót en Suðurlandsveiðarnar lofa góðu. Það eykur mönnum líka bjartsýni að þeir urðu varir við mikið af síldarhrognum við Garðskaga í sumar og í desember fundust góðar torfur af tveggja ára síld. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1975 og 1976
399
1976 Eins og undanfarin ár eltust Íslendingar þetta árið við síldina á tvennum vígstöðvum, í Norðursjó og við Suður - og Suðvesturland. Norsk - íslenski síldarstofninn sést ekki frekar en fyrri daginn hér við land en mikilsverður áfangi náðist í friðun hans þegar Norðmenn fengust loks til að banna veiðar úr þessum stofni á árinu en undanfarin ár hafa þeir sífellt verið að narta í ungsíldina af þessum stofni. Veiðar í Norðursjó voru kvótabundnar að þessu sinni, kvóti Íslendinga var 9.200 tonn austan 4° vestlægrar lengdar og 3.000 tonn vestan hennar. Veiðar höfðu áður verið bannaðar við vesturströnd Skotlands. Íslenska kvótanum var skipt milli 46 skipa. Í byrjun júní voru tvö skip, "Gísli Árni" frá Reykjavík og "Súlan" frá Akureyri, komin á miðin og höfðu hafið veiðar. Afli var heldur tregur fram eftir sumri og lengst af fram í september voru aðeins 1 - 2 skip samtímis að veiðum. Kvótanum var misskipt milli skipa. Þau sem voru talin sérbyggð til nótaveiða, 11 talsins, fengu 345 tonn hvert en hin 35 fengu 240 tonn hvert í sinn hlut. Um miðjan nóvember höfðu flest skipin veitt kvóta sinn og heildarkvótinn 400
var að mestu kominn í hús. Vegna þess hve illa er komið fyrir síldarstofnum í Norðursjó og veiði er takmörkuð hefur söluverð síldarinnar verið mjög gott. Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur lagt til algert bann við veiðum Norðursjávarsíldar á næsta ári. Íslenska vorgotssíldin virðist horfin eins og nafna hennar frá Noregi. Það vakti því gleði margra þegar Hornfirðingar töldu sig verða vara við hana í byrjun apríl. Sennilega hefur þetta verið óskhyggja því að þegar síld var rannsökuð um haustið voru skoðaðar 3.573 síldir en aðeins 13 eða 0,36 % voru taldar vorgotssíld. Á heimamiðum var gert ráð fyrir 15 þúsund tonna afla. Nótaskip skyldu fá 10 þúsund tonn en reknetaskip 5 þúsund. Mikil ásókn var í nótaleyfi, 91 skip sótti um leyfi en 51 eða 52 fengu og 50 skip notuðu heimildina. Kvóti var því 210 tonn á skip og umframveiði liðins árs var nú til frádráttar. Veiðar nótabátanna máttu byrja 25. september. Um miðjan október hafði u.þ.b. helmingur þeirra veitt kvóta sinn. Síldin var yfirleitt góð og hentaði vel til söltunar. Um mánaðamót október - nóvember höfðu flest skipin lokið við kvóta sinn og stóðu menn nú miklu betur við sitt en í fyrra. Afli 401
nótaskipanna var nánast nákvæmlega eins og ætlast var til eða 10.034 tonn. Reknetabátarnir voru 31 að tölu að þessu sinni. Langflestir þeirra voru frá Hornafirði en einnig stunduðu bátar frá Snæfellsnesi þessar veiðar og færðu sig til Suðausturlands þegar kom fram á vertíðina. Bátarnir voru nú miklu betur vélvæddir en áður og nánast allir Hornfirðingarnir voru með vélknúna úrhristara sem léttir áhöfninni verk hennar til mikilla muna. Veiðar reknetabátanna hófust í byrjun ágúst. Þær gengu illa framan af vegna ógæfta en í lok mánaðarins kom ágætt aflaskot. Fram eftir hausti var tregur afli en nóvember var hagstæður fram til hins 20. en þá lauk veiðum. Heildarafli reknetabáta á vertíðinni var 7.839 tonn. Heildarafli á Íslandsmiðum var því tæp 18 þúsund tonn. Að þessu sinni voru ekki sett skilyrði um sjósöltun nótaskipa eins og í fyrra og voru aðeins 1.310 tunnur sjósaltaðar. Hefðbundin landsöltun af nótaskipum nam 73.167 tunnum og 49.536 tunnur voru saltaðar af reknetasíld. Síld var söltuð á svæðinu frá Seyðisfirði suður um til Rifs en auk þess var ofurlítið saltað á Siglufirði. Mest var saltað á Hornafirði, 25.225 tunnur, allt reknetasíld, en 22.236 tunnur voru saltaðar í Vestmannaeyjum. 402
Langhæsta söltunarstöðin var Fiskimjölsverksmiðja Hornafjarðar h/f með 25.225 tunnur. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1976 var hinn minnsti um áratugaskeið. En þó að svo sé er í þessu nokkur vonarglæta. Um árabil hefur mestur hluti síldaraflans fengist á fjarlægum miðum og honum hefur verið landað erlendis. Í ár snerist þetta við. Við Ísland fengust 17.808 tonn en 12.176 tonn í Norðursjó og að hinu ber einnig að hyggja að svo til allur aflinn var unninn til manneldis. Hollur er heimafenginn baggi. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1976 og 1977
1977 Árið 1977 var var sérstakt að því leyti að nú treystu Íslendingar á veiðar á eigin miðum í fyrsta skipti í mörg ár. Öll síldveiði var nú leyfisbundin og gildir þá einu í hvaða veiðarfæri er veitt. Sjávarútvegsráðuneytið birti úthlutunarreglur í apríl. Helstu atriði þessara reglna voru: 403
1. Þeir bátar sitja fyrir um leyfi til nótaveiða sem fengu ekki leyfi síðastliðin tvö ár. 2. Leyfi er aðeins veitt bátum sem eru 105 350 tonn að stærð. 3. Bátar, sem fá humarleyfi, fá ekki nótaleyfi. 4. Enginn bátur fær bæði nótaleyfi og reknetaleyfi. Þegar leið að upphafi vertíðar var 82 nótaskipum úthlutaður 200 tonna kvóti hverju og 65 reknetabátum 10 þúsund tonnum alls. Svo fór að 77 skip stunduðu nótaveiðarnar en 51 bátur reknetin. Um miðjan ágúst fengu nokkrir reknetabátar undanþágu til beituöflunar í Kolluál og fengu þeir 300 tonn fram til upphafs hinnar eiginlegu síldarvertíðar. Reknetaveiðar máttu svo hefjast 20. ágúst. Veiði var treg framan af, bæði í Kolluál og á eystra svæðinu milli Eystra Horns og Tvískerja. Það vakti athygli manna að nú veiddist síld inni á Reyðarfirði en slíkt hefur ekki gerst um langa tíð. Afli reknetabátanna glæddist þegar leið á haustið og var mjög góður fyrri hluta nóvembermánaðar. Heildarafli reknetabátanna var 13.357 tonn. Undanfarin ár hefur nokkuð verið kvartað undan því að kraftblakkirnar, sem reknetabátarnir nota, fari illa með síldina, 404
einkum þegar mikið er í netunum. Á vertíðinni reyndu þrír skipstjórar nýja gerð af kraftblökk frá Véltaki h/f í Hafnarfirði. Þessi blökk er þannig gerð að venjuleg blökk hefur verið klofin og breikkuð þannig að botnflötur keflisins er kúlulaga, annað hvort með einni eða tveimur kúlum. Álit skipstjóranna er að þessi nýja gerð fari mun betur með síldina en eldri gerðin. Nótaskipin hófu veiðar 20. september. Veiðarnar gengu vel og þau áttu ekki í neinum vandræðum með að ljúka kvóta sínum enda eru 200 tonn fljótveidd af öflugum skipum og enginn tafði sig að þessu sinni við söltun um borð. Heildarafli nótaskipanna var 15.550 tonn. Síld var söltuð á svæðinu frá Seyðisfirði suður um til Stykkishólms. Saltaðar voru 91.735 tunnur af nótasíld og 60.351 tunna af reknetasíld eða 152.086 tunnur alls. Mest var saltað á Hornafirði, 36.617 tunnur, og var það allt reknetasíld. Hæsta söltunarstöðin var Fiskimjölsverksmiðja Hornafjarðar h/f með 27.641 tunnu. Þegar síldarsöltun vex svo fiskur um hrygg sem raunin hefur orðið síðustu þrjú ár koma í ljós miklir erfiðleikar við að vinna aftur markaði sem hafa glatast á liðnum 405
síldarleysisárum. Það eykur svo enn á erfiðleikana að síldarneysla hefur dregist mjög saman í markaðslöndunum. Saltsíld var að þessu sinni flutt út til sjö landa, mest til Sovétríkjanna og Svíþjóðar. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1977 var 28.925 tonn, 6.372 tonn voru fryst, 321 tonn var soðið eða lagt niður, 21.907 tonn söltuð og 325 tonn fóru í bræðslu. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1977 og 1978
1978 Íslenska sumargotssíldin virðist vera að rétta úr kútnum og í haust var ráðgert að veiða 35 þúsund tonn úr stofninum. Alls sóttu 129 skip um leyfi til nótaveiða en leyfum var úthlutað til 100 skipa og máttu þau veiða 200 tonn hvert. Þau 15 þúsund tonn sem þá voru eftir voru ætluð 90 reknetabátum. Reknetaveiðar hófust að venju í síðari hluta ágústmánaðar. Þær fóru hægt af stað en í september glæddist afli verulega. Aðalveiðisvæðið var við Suðausturland og er 406
Hornafjörður nú að verða helsta síldveiðipláss landsins. Veiðar nótaskipanna voru miklum erfiðleikum háðar. Haustið 1977 bar mjög á smásíld í aflanum en þetta vandamál keyrði um þverbak í haust. Veiðar á síld undir 27 cm að lengd eru bannaðar. Í haust var ástandið þannig þegar verst lét að skipin köstuðu látlaust alla nóttina en urðu að sleppa hverju einasta kasti vegna þess hve síldin var smá. Margir óttast að við þessa meðferð afhreistrist síldin svo að hún eigi sér litla lífsvon. Helstu veiðisvæði nótaskipanna voru við Vestmannaeyjar og austur með landinu. Í heild veiddist síldin austar en verið hefur. Alls var 13.460 tonnum landað í Austfirðingafjórðungi eða meira en þriðjungi heildaraflans. Síld var söltuð á flestum höfnum frá Seyðisfirði suður um til Stykkishólms. Nú var endurvakin framleiðsla á ediksöltuðum flökum fyrir Þýskalandsmarkað og var alls söltuð 11.881 tunna á þennan hátt, langmest í Vestmannaeyjum. Alls voru saltaðar 106.213 tunnur af nótasíld og 88.169 tunnur af reknetasíld. Heildarsöltun var því 194.382 tunnur. Mest var saltað á Hornafirði, 49.948 tunnur, allt reknetasíld, en Grindvíkingar söltuðu mest af nótasíld, 27.848 tunnur. Hæsta 407
söltunarstöðin var Fiskimjölsverksmiðja Hornafjarðar h/f með 31.575 tunnur. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1978 var 37.333 tonn, 8.020 tonn voru fryst, 1.002 tonn soðin eða lögð niður, 27.719 tonn voru söltuð og 591 tonn fór í bræðslu. Á hverju ári bætast ný fiskiskip í flotann. Undanfarin ár hafa Íslendingar lagt megináherslu á kaup á skuttogurum en eitt og eitt nótaskip slæðist með og þau verða sífellt stærri og burðarmeiri enda veitir ekki af í loðnuveiðunum. Næstsíðasta dag ársins kom stærsta fiskiskip Íslendinga til þessa til heimahafnar. Þetta er "Eldborg" frá Hafnarfirði, 1.314 brúttólestir að stærð. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1978 og 1979
1979 Á þessu ári lagði Hafrannsóknastofnun til 35 þúsund tonna veiði, 20 þúsund tonn ætluð nótaskipum og 15 þúsund tonn handa reknetabátum. Þá lagði stofnunin til að nótaskipum verði fækkað til mikilla muna frá 408
því sem verið hefur. Fækkun skipanna má rökstyðja með því að aukinn afli til hvers skips tryggir betur fjárhagslegan grundvöll veiðanna auk þess sem allt eftirlit með veiðunum verður auðveldara. Sjávarútvegsráðuneytið féllst á stærð heildarkvótans en úthlutaði leyfum til 85 skipa. Kvótinn var framseljanlegur og tóku alls 83 skip þátt í nótaveiðunum. Tvö nótaskip fengu undanþágu til veiða á hrygningartímanum með tilraunavinnslu á hrognum í huga. Þetta voru "Vonin" frá Keflavík og "Gjafar" frá Vestmannaeyjum. Þessi skip komu með 471 tonn að landi 22. júní til 25. júlí. Nótaveiðarnar hófust að öðru leyti 20. september og átti að ljúka 20. nóvember en þar sem nokkur skip höfðu þá ekki fyllt kvóta sinn voru sum þeirra að veiðum fram undir jól. Aðalveiðisvæðið var við austanverða suðurströndina, frá Alviðruhömrum austur að Hvalnesi. Mun minna var að þessu sinni um að skipin þyrftu að sleppa úr nótum sínum en á síðasta ári. Bar hvort tveggja til að minna var um smásíld á miðunum nú en þá og einnig hitt að skipin gátu bætt sér upp verðfellingu með auknum afla. Heildarafli nótaskipanna var talsvert meiri en úthlutaður kvóti eða u.þ.b. 25.400 tonn. 409
Reknetaveiðar hófust 25. ágúst en nokkru áður fengu tveir bátar undanþágu til tilraunaveiða í Faxaflóa og við Snæfellsnes. Reknetaveiðarnar gengu vel í heild þrátt fyrir nokkurra daga veiðistöðvun vegna deilu um síldarverð. Eins og endranær var mest reknetaveiði á austursvæðinu og var Hornafjörður langhæst löndunarstaðurinn. Í fyrstu viku nóvember var mjög góður afli í reknet og voru veiðar stöðvaðar 8. nóvember en áður höfðu veiðar verið fyrirhugaðar til 20. nóvember. Heildarafli reknetabátanna var þá kominn langt fram úr kvótanum eða í u.þ.b. 19.100 tonn. Það vakti athygli að nokkur hluti síldarstofnsins gekk að lokinni hrygningu norður fyrir land og fékkst þokkalegur afli í lagnet í Eyjafirði, Skjálfanda og á Austfjörðum í september. Á vertíðinni voru saltaðar 110.546 tunnur af nótasíld og 80.177 tunnur af reknetasíld eða 190.546 tunnur alls. Vinnsla á flökum var miklu meiri nú en á síðasta ári en 22.147 tunnur af nótasíldinni voru ediksöltuð flök. Eins og undanfarin ár var mest saltað á Hornafirði, 54.617 tunnur, nánast allt reknetasíld en af nótasíld var mest saltað í Grindavík. Hæsta söltunarstöðin var 410
Fiskimjölsverksmiðja Hornafjarðar h/f með 28.736 tunnur. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1979 var 45.079 tonn, 17.129 tonn voru fryst, 1.588 tonn soðin eða lögð niður, 25.899 tonn voru söltuð, þrjú tonn fóru til innanlandsneyslu og í bræðslu fór 461 tonn. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1979 og 1980
1980 Á síðasta ári fór síldarafli 27 % fram úr því marki sem Hafrannsóknastofnun hafði lagt til. Að þessu sinni lagði stofnunin til óbreyttan afla, 45 þúsund tonn. Nú er ásókn í veiðileyfi alltaf mjög áköf og hinn mikli fjöldi skipa sem fengið hefur nótaveiðileyfi undanfarin ár hefur leitt til þess að veiðarnar hafa verið fjarri því að vera reknar með hámarkshagkvæmni, slík er veiðigeta flotans. Undanfarin ár hafa skip 105 - 350 tonn setið að nótaveiðileyfum en stóru nótaveiðiskipin hafa ekki átt kost á leyfi enda hefur afkoma þeirra verið bærileg á loðnuveiðum. Eftir að 411
Sjávarútvegsráðuneytið hafði tekið við umsóknum var ákveðið að heildarafli skyldi vera 50 þúsund tonn. Reknetabátar áttu að fá 18 þúsund tonn, hefðbundin nótaskip 24.500 tonn og loðnuskipin stóru 7.500 tonn. Reknetabátarnir voru um 60 talsins og hófu veiðar 25. ágúst. Afli þeirra var góður fram eftir hausti, sérstaklega í síðari hluta október, en veiðar voru stöðvaðar 27. október. Þá höfðu þeir fengið 19.575 tonn. Auk þess hafði talsvert af minni bátum og trillum fengið leyfi til lagnetaveiða. Þessi smáu fley, sem flest voru norðlensk, höfðu þá fengið u.þ.b. 625 tonn. Nótaveiðin hófst 20. september og átti að ljúka 20. nóvember. Veiðitíminn var þá framlengdur til jóla og örfá skip fengu 612 tonn í janúar 1981. Hefðbundin nótaskip voru 93 og fengu tæp 24 þúsund tonn og 51 loðnuskip u.þ.b. 7.700 tonn. Einn skuttogari "Breki" frá Vestmannaeyjum fór eina ferð með nót og fékk tæp 150 tonn en ár og dagur er síðan skráður togari hefur farið á síld. Skipstjórar loðnuskipanna voru flestir hagvanir í Hirtshals síðan þeir voru við síldveiðar í Norðursjó og hugðu nú gott til glóðarinnar að drýgja tekjur af litlum kvóta með því að setja síldina á markað ytra en kvóti 412
loðnuskipanna var u.þ.b. 100 tonnum minni á hvert skip en nam kvóta annarra nótaskipa. Alls seldu skipin erlendis 2.619 tonn í nóvember og desember. Verðið á markaðnum var mun lægra en skipstjórar og útgerðarmenn höfðu vænst svo að þetta varð þeim lítil auðsuppspretta. Þegar íslenska síldin flæddi svo inn á markaðina erlendis í beinni samkeppni við íslensku saltsíldina hitnaði saltsíldarkaupendum, sem gert höfðu fyrirframsamninga um kaup á saltsíld frá Íslandi, mjög í hamsi sem vonlegt var. Loks kom svo í ljós í lok vertíðar að síld skorti til að unnt væri að salta upp í gerða samninga. Þá þykknaði bæði í saltendum og kaupendum. Og fiskifræðingar voru óhressir með að farið var langt fram úr tillögum þeirra um veiðiheimildir. En ekki eru allar fréttir af vertíðinni svona neikvæðar. Söltun Suðurlandssíldar var meiri á þessu hausti en dæmi eru til áður eða 269.328 tunnur, þar af voru ediksöltuð flök 10.345 tunnur. Mest var saltað á Hornafirði, 47.947 tunnur, u.þ.b. fjórir fimmtu hlutar voru reknetasíld. Mest var saltað af nótasíld í Grindavík. Hæsta söltunarstöðin var Fiskimjölsverksmiðja Hornafjarðar h/f með 27.116 tunnur. Það vekur athygli að síld var 413
nú söltuð miklu víðar en verið hefur, m.a. voru nokkur þúsund tunnur saltaðar á Norðurlandshöfnum. Svo virðist sem hvergi í heiminum hafi verið framleitt meira af saltsíld þetta árið en á Íslandi. Aðalveiðisvæði síldarinnar hefur verið að færast austur á bóginn undanfarin ár og í fyrra veiddist nánast öll síldin austan Alviðruhamra. Að þessu sinni fékkst nánast engin síld á þessu svæði. Nú hafði hún fært sig norður með landi og mátti heita að allur afli haustsins, að lagnetaaflanum undanskildum, fengist inni á Austfjörðum. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1980 var 53.268 tonn. Á árinu voru 2.628 tonn flutt út ísuð, 13.381 tonn var fryst, 264 tonn voru soðin niður, 36.693 tonn voru söltuð og 302 tonn fóru í bræðslu. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1980 og 1981
414
1981 Hafrannsóknastofnun lagði til 40 þúsund tonna síldveiði í ár, veiðitímabil yrði svipað og verið hefur og ítrekaði enn tillögur sínar um fækkun nótaveiðiskipa og aukið eftirlit með veiðunum. Sjávarútvegsráðuneytið ákvað hins vegar 18 þúsund tonna reknetaafla og 24.500 tonna afla í hringnót. Hringnótabátar skyldu vera yfir 105 tonn að stærð og máttu ekki hafa fengið humarveiðileyfi um sumarið. Skuttogarar og loðnuskip komu ekki til greina við úthlutun veiðileyfis. Síðsumars höfðu 66 bátar sótt um reknetaleyfi og 150 um nótaleyfi en af þeim voru 95 taldir uppfylla skilyrði til leyfisveitingar. Alls fékk 241 smáfleyta leyfi til lagnetaveiða. Svo fór að 66 reknetabátar fengu leyfi en 51 hélt til veiða. Nótaskipin urðu 84 af 99 sem fengu leyfi. Veiðar lagnetabáta máttu hefjast 20. ágúst og fékkst þá strax svolítið kropp en síldin var mjög mögur og ekki söltunarhæf. Reknetaveiðarnar, sem máttu hefjast 20. ágúst, fóru því hægt af stað og flestir bátarnir hófu ekki veiðar fyrr en um mánaðamót. Veiðarnar 415
gengu þokkalega í september og í mánaðarlok hafði 2.444 tonnum verið landað á Austfjörðum. Nótaskipin hófu veiðar 20. september og var mjög góð veiði í október bæði í reknet og nætur. Mikil óánægja ríkti meðal sjómanna og útgerðarmanna með síldarverð og 9. október hafði kraumað svo í óánægjupottunum að flotinn stöðvaðist. Hann fór svo aftur af stað 17. október þegar samningar höfðu tekist milli seljenda, kaupenda og ríkisvalds. Reknetaveiðar voru stöðvaðar 31. október en þá hafði kvóti rekneta - og lagnetabáta verið því sem næst fylltur. Nótaveiðum átti að ljúka 20. nóvember en þær héldu áfram allt til jóla og tvö skip fengu heimild til að ljúka kvóta sínum í janúar 1982. Aðalveiðisvæðið var úti fyrir og inni á Austfjörðum eins og í fyrra. Framan af veiðitímanum bar lítið á smásíld á miðum stærri síldarinnar en þegar kom fram í nóvember blönduðust árgangarnir meir og kom alloft fyrir að sleppa þyrfti úr nót þess vegna. Um tíma kvað svo rammt að þessu á Berufirði að þar þurfti að banna veiðar. Nótaskipin voru miklu færri nú en í fyrra og hin fullkomnustu þeirra, loðnuskipin, tóku 416
ekki þátt í veiðunum. Þeim tókst því ekki að ná öllum kvótanum en fengu 21.527 tonn. Fyrirframsala saltsíldar gekk mun verr en á síðasta ári og munar þar mest um að segja má að sænski markaðurinn hafi hrunið. Helstu ástæður þess eru að allt of mikið af síld er á markaðnum á sama tíma og neysla fer minnkandi. Norðmenn hafa nú leyft nokkrar veiðar úr norsk - íslenska síldarstofninum og bætist sú síld nú inn á markaðinn. Íslenska síldin er dýr miðað við það verð sem keppinautarnir bjóða. Og loks er enn mikil óánægja meðal sænskra síldarkaupenda vegna fersksíldarsölu loðnubátanna á síðasta ári í Danmörku. Síldarsöltun hófst lítillega í septemberbyrjun og stóð fram í desemberbyrjun en tæplega 3/4 hlutar heildarsöltunarinnar áttu sér stað tvær síðustu vikur októbermánaðar. Alls var söltuð 183.701 tunna, þar af voru 3.210 tunnur flök. Að þessu sinni var miklu minna um að flök væru ediksöltuð en áður en saltflök og kryddflök komu að nokkru í þeirra stað. Síld var nú söltuð allt frá Ólafsfirði austur og suður um að Rifi á Snæfellsnesi. Það sýnir vel hve síldin hefur fært sig norður með Austurlandinu að Hornafjörður var ekki hæsti söltunarstaðurinn heldur Eskifjörður með 417
36.881 tunnu. Hæsta söltunarstöðin var Pólarsíld á Fáskrúðsfirði en þar voru 22.018 tunnur saltaðar. Söltuð nótasíld var 74.320 tunnur en 109.381 tunna var söltuð af reknetasíld og lagnetasíld. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1981 var 39.201 tonn. Í frystingu fóru 14.466 tonn, 24.035 tonn voru söltuð, 150 tonn soðin niður, innanlandsneysla var talin 74 tonn og 476 tonn fóru í bræðslu. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1981 og 1982
1982 Um 20. desember 1981 varð vart við talsverða síld skammt austan Þorlákshafnar. Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar skoðuðu þetta svæði snemma í janúar og fundu þá tvo gerðarlega síldarflekki, annan undan Ölfusárósi en hinn undan Þjórsárósi. Skilyrði voru góð til mælinga og töldu sérfræðingar að þarna væri komið megnið af þeim hluta stofnsins sem er fullvaxta. 418
Hafrannsóknastofnun lagði til að á haustvertíð yrðu veidd 50 þúsund tonn. Sjávarútvegsráðuneytið samþykkti þessa tillögu en setti síðan reglur um skiptingu kvótans. Þessar reglur eru nokkuð breyttar frá því sem verið hefur. Kvóti nótaskipa var ákveðinn 34.500 tonn. Öll skip, sem fengu leyfi 1980 og 1981 og stunduðu veiðar a.m.k. annað árið, gátu sótt um leyfi nú. Loðnuskipin gátu einnig sótt um leyfi. Síðan var hvorum skipaflokki um sig skipt til helminga með hlutkesti og fékk annar helmingurinn veiðileyfi í ár en hinn helmingurinn á næsta ári. Með þessu móti fengu 76 skip nótaveiðileyfi í ár og var gert ráð fyrir að hvert skip mætti veiða sem næst 450 tonn. Kvóti reknetabáta var ákveðinn 14 þúsund tonn. Leyfi gátu bátar 50 tonn og stærri fengið og meginregla var sú að bátarnir hefðu fengið reknetaleyfi 1980 eða 1981 og nýtt leyfið a.m.k. annað árið. Hámarksafli á bát var 450 tonn. Kvóti lagnetabáta var ákveðinn 1.500 tonn og gátu allir bátar undir 50 tonnum fengið leyfi til hlutdeildar í honum. Veiðitímabil nótaveiðiskipa var frá 20. september til 15. desember, reknetabáta frá 15. september til 15. desember og lagnetabáta frá 10. ágúst til 31. október. Svo fór að 76 419
nótaskip og 51 reknetabátur héldu til veiða og umsóknir um lagnetaveiði urðu 236. Veiðarnar fóru hægt af stað. Í september var helst síld að fá á Bakkaflóa og í Vopnafirði en illa gekk að ná henni vegna þess hve hún stóð djúpt. Um mánaðarlokin hafði 1.927 tonnum verið landað á Austfjörðum, þar af var aðeins 531 tonn reknetasíld. Í október og nóvember gengu veiðarnar miklu betur, sérstaklega hjá nótaskipunum. Reknetabátarnir hættu veiðum 27. nóvember en nótaskipin 10. desember. Eitt nótaskip fékk heimild til veiða á 500 tonnum af síld í janúar 1983. Heildarafli nótaskipanna var 37.509 tonn, reknetabátarnir fengu 14.458 tonn og lagnetabátarnir 1.896 tonn. Heildaraflinn á vertíðinni var því 53.863 tonn. Fyrirframsala á saltaðri síld var heldur meiri nú en í fyrra en enn er þungt fyrir fæti vegna offramboðs og í sumum tilvikum hreinna undirboða. Síldarsöltun hófst um miðjan september og stóð þar til vika var liðin af desember en auk þess voru 3.390 tunnur saltaðar af undanþáguskipinu sem áður var nefnt. Síld var að þessu sinni söltuð á svæðinu frá Siglufirði austur og suður um til Akraness. Alls voru saltaðar 226.924 tunnur og eins og í fyrra var langmestur kraftur í söltuninni á 420
tveggja til þriggja vikna tímabili eftir miðjan október. Söltun nótasíldar nam 162.842 tunnum en 64.082 tunnur voru reknetasíld og lagnetasíld. Mest var saltað á Eskifirði, 39.297 tunnur, en hæsta söltunarstöðin var Síldarvinnslan í Neskaupstað með 18.438 tunnur. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1982 var 56.528 tonn, 24.051 tonn var fryst, 31.076 tonn söltuð, til innanlandsneyslu fór eitt tonn og 1.400 tonn voru brædd. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1982 og 1983
1983 Í desember varð talsverðrar síldar vart austan Þorlákshafnar, rétt eins og á sama tíma í fyrra. Gleðilegar fréttir hafa borist frá Noregi en þarlendir sérfræðingar telja norsk - íslenska stofninn kominn í 600 þúsund tonn. Þar að auki hefur mikið af síldarseiðum fundist í Barentshafi og við Svalbarða og Bjarnarey. Allt útlit er því fyrir að Eyjólfur sé að hressast 421
þótt stofnstærðin sé enn óralangt frá því sem var á fyrri tíð. Hafrannsóknastofnun lagði til 50 þúsund tonna afla að þessu sinni. Sjávarútvegsráðuneytið ákvað hins vegar 52.500 tonna afla sem skiptist þannig að nótaveiðiskipunum, sem ekki fengu að veiða í fyrra, voru ætluð 34.500 tonn, reknetabátar máttu veiða 16.500 tonn og var reiknað með að þeim fjölgaði ekki frá fyrra ári. Loks máttu svo lagnetabátar veiða 1.500 tonn. Þeir máttu hefja veiðar 1. september en nótaskipin og reknetabátarnir máttu byrja 2. október kl 18: 00. Nákvæmt skal það vera. Öllum síldveiðum átti að ljúka 15. desember. Reknetabátar höfðu heimild til að veiða allt að 520 tonnum hver og nótaveiðiskipin máttu veiða 460 tonn hvert að viðbættu 25 % álagi á þá síld sem landað var í frystingu. Oftast hefur fersksíldarverð til frystingar og söltunar verið hið sama eða mjög áþekkt en nú var verð til frystingar allmiklu lægra. Lagnetabátarnir hófu veiðar snemma í september en þær gengu heldur tregt. Þó fengu þeir 213 tonn fram til mánaðamóta, aðallega við Norðurland og í Ísafjarðardjúpi. Alls fengu þeir á vertíðinni liðlega 900 tonn. Þess ber að 422
geta að þó að 142 bátar hafi fengið leyfi var mestur hluti heildaraflans fenginn á 5 - 6 báta. Svo fór að 69 nótaskip héldu til veiða. Þeim vegnaði illa framan af en um miðjan október var góður afli við Suðurland en afar tregt eystra. Sá böggull fylgdi þó skammrifi að síldin syðra var mjög blönduð millisíld og þurfti að loka svæði í Meðallandsbug um tíma af þeim sökum. Síldin gekk síðan austur með landinu og um tíma voru tvö veiðisvæði, á Austfjörðum og við Suðausturland. Í nóvember og desember var góður afli á Austfjörðum. Þá var það nýlunda, ef litið er til síðari ára, að afli fékkst í nót í Ísafjarðardjúpi í október. Heildarafli nótaskipanna var 39.477 tonn. Reknetabátunum, 41 að tölu, gekk illa framan af vertíð vegna þess hve síldin stóð djúpt en þegar leið á október vænkaðist hagur þeirra. Heildarafli þeirra var 18.285 tonn. Fyrirframsala á saltsíld var óvenjuerfið að þessu sinni. Til þess lágu tvær aðalástæður. Síldveiðar voru nú leyfðar í Norðursjó í fyrsta skipti eftir veiðibann frá 1977 og Norðmenn sækja sífellt stærri skerf í norsk - íslenska stofninn. Hin ástæðan er sú að Sovétmenn, sem eru stærstu kaupendur okkar á saltsíld, gera kröfu um sífellt minni saltskammt í hverri 423
tunnu og er hann nú kominn niður í það sem er tæknilega mögulegt án þess að kröfum þeirra sé fullnægt. Engu að síður var söltun nú með allra mesta móti eða 245.552 tunnur, þar af voru flök, aðallega saltflök, 4.505 tunnur. Síld var söltuð á svæðinu frá Siglufirði austur og suður um til Akraness. Mest var saltað í Grindavík, 41.331 tunna, en hæsta söltunarstöðin var Fiskimjölsverksmiðja Hornafjarðar h/f með 23.231 tunnu. Langmest var saltað á þriggja vikna tímabili um mánaðamótin október nóvember eða u.þ.b. 3/4 hlutar heildarsöltunarinnar. Tveir þriðju þess sem var saltað fór á markað í Sovétríkjunum. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1983 var 58.867 tonn, 2 tonn voru flutt út ísuð, 22.086 tonn voru fryst, 34.626 tonn voru söltuð og í bræðslu fóru 2.153 tonn. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1983 og 1984
424
1984 Hafrannsóknastofnun lagði til að hámarksafli ársins væri bundinn við 45 þúsund tonn. Sjávarútvegsráðuneytið hefur undanfarin ár tengt kvótaúthlutun við verðmæti aflans, m.a. vegna þess að síld hefur verið verðlögð á annan hátt til frystingar en til söltunar. Ráðuneytið ákvað nú að hvert nótaskip mætti veiða síld fyrir 1.410.000 en þó aldrei meira en 360 tonn. Lagnetabátar máttu veiða 1.500 tonn alls og kvóti reknetabáta var aukinn úr 500 tonnum í 600 tonn á hvern bát. Til þess að fá reknetakvóta urðu bátar að hafa stundað þessar veiðar 1982 eða 1983. Síldveiðikvótinn er nú framseljanlegur fyrir annan afla og er gert ráð fyrir að þrjú tonn af síld jafngildi einu tonni af þorski. Svo fór að 51 bátur fékk reknetaleyfi en aðeins 33 héldu til veiða um mánaðamótin september - október. Þeir fengu alls 9.822 tonn. Nótaskipin, sem fengu leyfi, voru 100 en aðeins 68 þeirra héldu til veiða og fengu 36.702 tonn. Lagnetaveiðar hófust 10. ágúst en brugðust að mestu, 91 bátur fékk heimild til slíkra veiða. Heildarafli þeirra var 315 tonn. Samanlagður afli á vertíðinn var því 46.839 425
tonn en þetta eru bráðabirgðatölur og aðrar heimildir greina aflann nokkru meiri. Aðalveiðisvæði voru tvö framan af vertíð, á Austfjörðum frá Vopnafirði suður til Berufjarðar og við Suðurland frá Vestmannaeyjum austur að Ingólfshöfða. Síðari hluta vertíðar veiddist síld eingöngu á Austfjörðum. Öllum veiðum lauk 17. desember. Fyrirframsamningar um sölu á saltsíld gengu erfiðlega og drógust úr hömlu. Sovétmenn eru langstærstu kaupendurnir og tókust ekki samningar við þá fyrr en nokkru eftir vertíðarbyrjun. Söltun hófst í byrjun vertíðar og stóð fram í miðjan desember. Alls voru saltaðar 253.782 tunnur á svæðinu frá Siglufirði austur og suður um til Akraness. Langmestur kraftur var í söltun um mánaðamótin október - nóvember eins og undanfarin ár. Þá voru saltaðar 97.180 tunnur á einni viku. Heildarsöltun nótasíldar nam 227.452 tunnum en 26.330 tunnur voru saltaðar af reknetasíld, alls voru 6.098 tunnur saltaðar af flökum. Mest var saltað í Grindavík, 44.061 tunna, en hæsta söltunarstöðin var Fiskimjölsverksmiðja Hornafjarðar h/f með 14.636 tunnur. 426
Þegar saltsíldin var yfirtekin og afgreidd til útflutnings kom í ljós að nokkuð hafði verið saltað umfram samninga. Þetta olli talsverðum erfiðleikum vegna þess hve síld er nú söltuð með litlum saltskammti og hefur því mjög takmarkað geymsluþol. Mestur hluti þessarar umframsíldar var því fluttur í nýja kæligeymslu Síldarútvegsnefndar og geymdur þar meðan reynt var að selja hana. Þegar langt var liðið á næsta ár tókst að selja meiri hluta þessarar síldar til Póllands á lágu verði. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1984 var 49.747 tonn, 13.302 tonn voru fryst, 35.181 tonn saltað og í bræðslu fóru 1.263 tonn. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1984 og 1985
1985 Hafrannsóknastofnun lagði til að heildarsíldarafli við Ísland yrði að þessu sinni allt að 50 þúsund tonn og 20. júní sendi Sjávarútvegsráðuneytið frá sér 427
fréttatilkynningu um fyrirhugað fyrirkomulag veiðanna. Helstu reglur voru: 1. Veiðitímabil skal vera 29. september - 15. desember. 2. Hverju nótaskipi var ætlaður 330 tonna kvóti en reknetabátum var úthlutaður kvóti með tilliti til veiðireynslu tveggja vertíða á síðastliðnum þremur árum. 3. Heimilt var að flytja heila eða hálfa kvóta á milli skipa. þó þannig að eitt skip veiddi aldrei meira en tvöfaldan kvóta nótaskipa. 4. Ráðuneytið áskildi sér rétt til að ákveða verðmætakvóta ef verðlagning fersksíldar gæfi tilefni til þess. 5. Lagnetaveiðar voru frjálsar öllum bátum undir 50 tonnum að stærð. Heildarafli lagnetabáta mátti þó ekki fara yfir 1.500 tonn. Svo fór að 106 nótaskipum var úthlutaður kvóti, alls 35 þúsund tonn en 77 skip héldu til veiða. Reknetabátar, 34 að tölu, fengu 10.800 tonna kvóta en aðeins tólf þeirra stunduðu veiðarnar. Loks fékk ótilgreindur floti lagnetabáta 1.500 tonn í sinn hlut. Heimilaður heildarafli var því 47.300 tonn og er það nokkur nýlunda að heimildir Sjávarútvegsráðuneytisins séu minni en Hafrannsóknastofnun hefur lagt til. 428
Veiðar hófust á tilsettum tíma hjá þeim 89 skipum sem stunduðu þær. Veiðisvæðin voru einkum innfjarða og í fjarðarmynnum Austfjarða, allt frá Bakkaflóa og suður í Berufjörð. Þá fékkst talsvert af síld suður af Hvalbak og í Ísafjarðardjúpi fengust 2.240 tonn af stórri og fallegri síld. Talsvert varð vart við síld vestur með Suðurströndinni en þar reyndist vera um smásíld að ræða. Margir skipstjórar höfðu hugsað sér að landa verulegum afla í Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn og Reykjaneshöfnum en veður var einstaklega rysjótt á vertíðinni og gaf illa til langsiglinga með síldarfarma. Langmestum hluta aflans var því landað á Austfjörðum. Lagnetaveiðarnar gengu illa vegna þess hve síldin stóð djúpt og fengust aðeins 114 tonn í þetta veiðarfæri. Reknetabátarnir tólf fengu alls 3.913 tonn. Reknetaveiði og lagnetaveiði virðast vera mjög á undanhaldi á sama tíma og nótaveiði eflist. Margt bendir því til að netaveiðar hverfi innan tíðar en öll síld verði tekin í nót. Heildarafli nótaskipanna var 42.503 tonn þannig að heildarsíldarafli á vertíðinni var 46.530 tonn. Alls voru saltaðar 258.698 tunnur á vertíðinni á svæðinu frá Ólafsfirði austur og suður um til Akraness. Langmest var saltað 429
um mánaðamótin október - nóvember en þá voru u.þ.b. 105 þúsund tunnur saltaðar á einni viku. Tæp 30 % heildarsöltunarinnar voru á Suður - og Suðvesturlandi en rúm 70 % á Norðaustur - og Austurlandi. Mest var saltað á Eskifirði, 38.333 tunnur en hæsta söltunarstöðin var Pólarsíld h/f á Fáskrúðsfirði, þar voru saltaðar 16.975 tunnur, Búlandstindur h/f á Djúpavogi kom næstur með 16.180 tunnur. Alls var 15.681 tonn fryst, innanlandsneysla var talin nema 4 tonnum og 958 tonn fóru í bræðslu. Samningar um sölu saltsíldar fyrir þessa vertíð voru óvenju erfiðir vegna mikilla undirboða erlendra keppinauta á mörkuðunum, Langmestur hluti framleiðslunnar, eða tæplega 200 þúsund tunnur, var seldur til Sovétríkjanna. Notkun plasttunna í stað hinna klassísku trétunna undir saltsíld fer ört vaxandi þessi árin. Um fimmtungur þeirra tunna sem Síldarútvegsnefnd flutti inn á árinu var úr plasti. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1985 og 1986
430
1986 Sjávarútvegsráðuneytið breytti nokkuð veiðireglum frá fyrra ári. Ráðamönnum er ljósara en áður að fækka verður skipum ef veiðarnar eiga að vera sæmilega arðbærar. Alls áttu 140 skip rétt á síldarkvóta. Þeim var gefinn kostur á að skipta endanlega á síldarkvóta sínum og bolfiskkvóta. Útgerðarmenn 49 skipa völdu þessa leið og lögðu inn 21 þúsund tonna kvóta í skiptum fyrir heimild til veiða á 2.800 tonnum af þorski, 700 tonnum af ýsu og 470 tonnum af ufsa. Eftir var 91 skip, sem fékk síldarkvóta, en 51 fór að lokum til veiða. Auk þessa fengu lagnetabátar 1.500 tonn í sinn hlut. Aðalveiðisvæði var að þessu sinni við Austfirði, bæði innfjarða og í fjarðarmynnum, frá Bakkaflóa og suður í Berufjörð. Síldin var yfirleitt mjög væn en vart varð við smærri síld suður af Hvalbak. Vart varð við síld í Ísafjarðardjúpi rétt eins og í fyrra og fengust þar nú 300 tonn. Lagnetabátar fengu alls 56 tonn. Síld var söltuð á svæðinu frá Húsavík austur og suður um til Akraness. Mest var saltað á Eskifirði, 44.205 tunnur en í Grindavík voru 431
35.414 tunnur saltaðar. Hæsta söltunarstöðin var Fiskimjölsverksmiðja Hornafjarðar h/f með 19. 482 tunnur. Alls fóru sex stöðvar yfir 10 þúsund tunna markið. Rúmlega tveir þriðju hlutar voru saltaðir á Norðaustur - og Austurlandi en tæpur þriðjungur syðra. Alls voru 278.252 tunnur saltaðar að þessu sinni. Langmest var saltað í nóvember en í þeim mánuði voru saltaðar 211.722 tunnur eða 76 % heildarsöltunarinnar. Íslendingar veiddu alls á þessari vertíð 65.756 tonn. Af þessum afla var 41 tonn flutt út ísvarið, 17.356 tonn voru fryst, 35.726 tonn voru söltuð og í bræðslu fóru 12.633 tonn. Það er athyglisvert að vinnslugetu í frystingu og söltun virðist nú vera fullnægt að mestu og stærri hluti fór nú í bræðslu en áður eða 19,2 %. Sölusamningar vegna saltsíldar gengu erfiðlega í ár rétt eins og undanfarin ár. Síldveiðar meðal keppinauta okkar fara vaxandi og við þurfum að kljást við sífelld undirboð. Langmestur hluti saltsíldarinnar, eða u.þ.b. 200 þúsund tunnur, var seldur til Sovétríkjanna. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1986 og 1987 432
1987 Hafrannsóknastofnun lagði til að veidd yrðu 70 þúsund tonn af síld í ár. Sjávarútvegsráðuneytið úthlutaði veiðileyfum til 91 skips en það er jafnstór floti og í fyrra. Hverju skipi var ætlaður 800 tonna afli, flest þeirra höfðu framseljanlegan kvóta og svo fór að 55 skip héldu til veiða. Að þessu sinni veiddu öll skipin í nót og virðist sem veiðar í lagnet og reknet hafi endanlega lagst af. Veiðar hófust 8. október og þeim átti að ljúka ekki síðar en 15. desember. Veiðarnar gengu mjög vel að þessu sinni, síldin var stór og falleg og tíðarfar hagfellt. Aðalveiðisvæði voru sem fyrr við Austurland, ýmist innfjarða eða í fjarðarmynnum. frá Seyðisfirði suður til Fáskrúðsfjarðar. Ekki er vitað til að síld hafi veiðst norðan Glettinganess eða sunnan Kambaness á vertíðinni. Vart varð töluverðrar síldar í Lónsbugt, við Hrollaugseyjar, sunnan við Hvalbak og á Eldeyjarbanka en allt reyndist þetta smásíld. Þegar kastað er inni á fjörðum eru botnköst tíð. Í ár bar nokkuð á því að nætur lentu í hrúgum af dauðri síld á sjávarbotni. Þessi dauða síld er talin vera leifar frá síðustu vertíð 433
en þá var alltítt að hleypt væri niður úr nótum vegna þess að síldin var of smá eða að skipin höfðu fengið fullfermi. Sérstaklega þótti þetta áberandi í Berufirði sem er reyndar sunnan aðalveiðisvæðisins að þessu sinni. Miklu minna var um það nú að sleppt væri úr nótum með þessum hætti. Bar þar tvennt til. Skipstjórum var þetta vandamál ljóst og svo var hitt að nú voru tvö skip veiðarfæralaus á miðunum og hirtu umframafla þegar veiðiskipin höfðu fyllt sig. Svona skip eru kölluð "snaparar". Alls veiddu 30 skip umfram kvóta sína, að meðaltali 22 tonn á skip. Þetta var það lítið að ekki þótti ástæða til að gera aflann upptækan. Seint í desember tókust samningar um sölu á 30 þúsund tunnum til Sovétríkjanna til viðbótar því sem áður hafði verið selt þangað. Það varð því að ráði að Sjávarútvegsráðuneytið veitti tíu skipum heimild til veiða á 400 tonnum hverju skipi frá 10. janúar til fullnustu þessa samnings. Þau fengu alls 4.107 tonn og verða 2/3 hlutar aflans dregnir frá kvóta þessara skipa á næstu haustvertíð. Heildarafli á vertíðinni nam 75.439 tonnum fyrir áramót plús 4.107 tonn í janúar. Alls voru 17.269 tonn fryst, til söltunar fóru 32.613 tonn 434
fyrir áramót og brædd voru 25.556 tonn, eitt tonn var talið hafa farið til neyslu. Söltunin fór að þessu sinni fram á svæðinu frá Húsavík austur og suður um til Akraness. Þar sem allar aðstæður voru hinar bestu gekk söltun óvenju vel og þegar upp var staðið hafði meira verið saltað af Suðurlandssíld en nokkru sinni fyrr eða 289.640 tunnur og er þá janúarsíldin meðtalin. Mest var saltað á Eskifirði, 49.987 tunnur, en Hornafjörður kom næstur með 36.238 tunnur. Hæsta söltunarstöðin var Fiskimjölsverksmiðja Hornafjarðar h/f með 22.257 tunnur. Pólarsíld h/f á Fáskrúðsfirði kom næst en þar voru 20.172 tunnur saltaðar. Rúmlega helmingur söltunarinnar var drifinn af á þriggja vikna tímabili, 25. október - 14. nóvember. Undanfarin ár hefur nánast allur síldaraflinn verið saltaður eða frystur en síðustu tvö ár hefur heildaraflinn vaxið nokkuð og verður þá hlutur bræðslunnar gildari en áður. Í ár fór u.þ.b. þriðjungur síldarinnar í bræðslu. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Skýrsla Sjávarútvegsráðuneytis (hdr.) Ægir 1987 og 1988
435
1988 Þess var áður getið að árið í ár hófst með veiðum á rúmlega fjögur þúsund tonnum í janúar. Tíu skip voru að veiðum frá 10. janúar og fengu 4.107 tonn. Á haustdögum úthlutaði Sjávarútvegsráðuneytið leyfum til 89 skipa og máttu þau veiða alls 86.433 tonn. Hvert skip mátti veiða 1.000 tonn en þrjú skip hafa óreglulegan kvóta. Reglur voru hinar sömu og áður að því undanskildu að hverju skipi var nú aðeins heimilt að landa 40 % af afla í bræðslu en minnst 60 % skyldu fara til manneldis. Skipin höfðu heimild til að hefja veiðar 9. október og skyldi þeim ljúka ekki síðar en 15. desember. Þá höfðu nokkur skip ekki veitt kvóta sinn að fullu svo að veiðitíminn var framlengdur til 20. desember. Þá áttu tvö skip enn eftir 1.130 tonna kvóta og fengu þau heimild til að ljúka veiðum í janúar. Nokkur loðnuskip höfðu að þessu sinni leyfi til síldveiða með því skilyrði að öll síld, sem til þess væri hæf, væri fryst um borð. Þessar veiðar máttu hefjast 20. september. Aðeins eitt skip sótti um veiðileyfi og var síldin flökuð og fryst um borð. Frystigetan var um 15 tonn á 436
sólarhring og gengu veiðarnar vel en stóðu aðeins skamman tíma. Af skipunum 89, sem fengu kvóta, hélt 61 til veiða. Aðalveiðisvæðið var eins og undanfarin ár innfjarða fyrir austan og í fjarðarmynnum frá Seyðisfirði til Berufjarðar. Einnig veiddist talsvert við Ingólfshöfða en síldin þar var snöggtum smærri en Austfjarðasíldin sem var því stærri sem norðar dró. Sum skipanna veiddu ofurlítið umfram kvóta, alls 630 tonn. Þar sem um lítið magn var að ræða hjá hverju skipi þótti ekki ástæða til upptöku aflans. Heildarsíldarafli á árinu var 92.829 tonn og eru þá meðtalin fjögur þúsund tonnin sem veidd voru í janúar. Fryst voru 27.072 tonn, 40.137 tonn fóru til söltunar, 25.575 tonn voru brædd og 137 tonnum var ráðstafað á annan hátt. Á haustvertíðinni voru saltaðar 241.559 tunnur. Þetta eru færri tunnur en á síðasta ári en þess ber að geta að síldin er nú annað hvort hausskorin eða flökuð en í fyrra var verulegur hluti síldarinnar heilsaltaður. Lætur því nærri að jafnmikil síld upp úr sjó hafi farið til söltunar nú og þá. Langmestur kraftur var í söltun í nóvember en um 70 % söltunarinnar fór fram í þeim mánuði. Saltað var á svæðinu frá Húsavík austur og suður um til Akraness. 437
Mest var saltað á Eskifirði, 38.562 tunnur en á Hornafirði voru 36.709 tunnur saltaðar. Hæsta söltunarstöðin var Fiskimjölsverksmiðja Hornafjarðar h/f með 23.023 tunnur en hjá Pólarsíld h/f á Fáskrúðsfirði voru saltaðar 15.248 tunnur. Sovétríkin eru enn sem fyrr stærstu kaupendur íslenskrar saltsíldar, að þessu sinni keyptu þeir meira en helming framleiðslunnar. Samkeppni á Austurevrópumarkaði fer nú sífellt harðnandi vegna þess að margar síldveiðiþjóðir Evrópu hafa aukið mjög veiðar undanfarin ár eftir friðunaraðgerðir fyrri ára. Mikilvægi síldarsöltunar fyrir Íslendinga sést e.t.v. best ef litið er á heildarsöltun undanfarinna ára. Frá því síldveiðar í nót voru leyfðar á ný eftir veiðibann árið 1975 hafa verið saltaðar hér á landi rúmlega þrjár milljónir tunna af síld. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Skýrsla Sjávarútvegsráðuneytis (hdr.) Ægir 1988 og 1989
438
1989 Litlar fréttir hafa borist undanfarin ár af norsk - íslenska síldarstofninum sem hrundi að mestu um 1970. Síðustu ár hefur verið að koma í ljós að hrygning hefur tekist sérstaklega vel árið 1983 og má nú heita að sá árgangur beri stofninn uppi. Í fyrra og í ár hefur síld úr þessum stofni gengið til hafs frá Noregi og hefur fundist miðja vegu milli Íslands og Noregs. Margir binda vonir við að stofninn eflist enn og taki upp fyrri göngur á Íslandsmið. Hafrannsóknastofnun lagði til að veidd yrðu 90 þúsund tonn úr íslenska sumargotssíldarstofninum en Sjávarútvegsráðuneytið úthlutaði 96.980 tonna kvóta til 87 skipa, venjulega 1.100 tonn til handa hverju skipi. Ráðuneytið setti reglur um veiðarnar, svipaðar þeim sem áður hafa gilt en nákvæmari í ýmsum greinum, m.a. með ákvæðum um að öll síld, sem ætluð er til manneldis, skuli ísuð um borð í veiðiskipi. Veiðar máttu hefjast á hádegi 8. október og skyldi þeim ljúka 15. desember. Nokkuð tognaði úr veiðunum en þeim tókst þó að ljúka að mestu fyrir jól. Tæp 2.300 tonn voru þó 439
veidd í janúar 1990. Undanfarin níu ár hefur síldin einkum veiðst inni á Austfjörðum en þess varð vart í fyrra að stofninn var farinn að leita suður á bóginn. Þessi þróun hélt áfram í ár og var aðalveiðisvæðið nú við Suðausturland, milli Stokksness og Hrollaugseyja. Síldin var heldur smærri en undanfarin ár en það er árgangurinn frá 1983 sem ber uppi veiðina. Heildaraflinn á árinu var 97.270 tonn. Af þessum afla fóru 34.118 tonn í bræðslu, 37.157 tonn voru söltuð, 25.638 tonn voru fryst, 168 tonn flutt ú ísuð, 188 tonn reykt og eitt tonn var talið fara til neyslu innanlands. Það er athyglisvert að hlutur bræðslusíldar fer sífellt vaxandi þegar bætist við heildaraflann og nú fóru 35 % síldaraflans í bræðslu. Síld var söltuð á svæðinu frá Húsavík austur og suður um til Akraness. Alls var söltuð 240.751 tunna, mest í Grindavík, 34.789 tunnur en Eskifjörður kom næstur með 31.373 tunnur. Hæsta söltunarstöðin var Fiskimjölsverksmiðja Hornafjarðar h/f með 18.019 tunnur en 12.531 tunna var söltuð hjá Pólarsíld h/f á Fáskrúðsfirði. Undanfarin ár hefur verið saltað af mestum krafti í nóvember. Nú var talsvert saltað í byrjun 440
vertíðar en síðan dofnaði yfir söltuninni um þriggja vikna skeið. Um 20. nóvember lifnaði yfir á ný og var mikið saltað fram í miðjan desember. Fyrirframsamningar við Sovétmenn voru óvenju erfiðir að þessu sinni. Þær þjóðfélagsbreytingar sem ganga yfir þar eystra hljóta að valda nokkrum skjálfta í utanríkisviðskiptum þeirra. Samningar gengu hægt fyrir sig og komið var fram í nóvember þegar samningar tókust um sölu á 15 þúsund tonnum með vilyrði af hálfu Sovétmanna um kaup á 5 þúsund tonnum til viðbótar. Staðfesting á þeim kaupum barst ekki fyrr en vertíð var að ljúka og Sjávarútvegsráðuneytið fékkst ekki til að lengja veiðitímann til að ná mætti þessu magni. Viðbótarsöltunin bíður því næstu vertíðar. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Ægir 1989 og 1990
441
1990 Hafrannsóknastofnun lagði til sama síldarafla og hún lagði til í fyrra eða 90 þúsund tonn en Sjávarútvegsráðuneytið úthlutaði 98.080 tonna kvóta til 88 nótaskipa. Ráðuneytið setti jafnframt leikreglur fyrir vertíðina að venju. Þær voru lítið breyttar frá því sem verið hefur að því undanskildu að veiðitímabilið var nú lengra en áður eða frá 7. október til 22. desember. Vegna erfiðleika í saltsíldarsölu var veiðitíminn lengdur út janúar og svo enn um viku eftir það. Heildarafli á árinu var 90.338 tonn, þar af veiddust 88.026 tonn frá upphafi vertíðar til áramóta en rúmlega 2.300 tonn höfðu verið veidd í janúar. Í framlengingu vertíðarinnar eftir áramót fengust svo 11.855 tonn. Aðalveiðisvæðið var eins og í fyrra við Suðausturland, aðallega á svæðinu milli Hvalness og Hrollaugseyja en miklu minna veiddist á Austfjörðum. Árgangurinn frá 1983 var enn fyrirferðarmestur í aflanum. Veiðarnar gengu heldur treglega í byrjun vertíðar vegna þess hve síldin stóð djúpt en í lok október fór að ganga betur. Síldin dreifðist meira á löndunarhafnir nú og í fyrra en hún gerði áður, 442
m.a. vegna þess hve hún veiðist nú sunnarlega. Fyrir fáum árum var 2/3 og allt í 3/4 hlutum aflans landað á Austfjörðum en að þessu sinni kom rétt rúmlega helmingur í þeirra hlut. Alls voru 28.249 tonn fryst í landi en auk þess voru 1.810 tonn sjófryst. Til söltunar fóru 19.772 tonn, 39.331 tonn var brætt og 1.176 voru nýtt á annan hátt, aðallega flutt fersk á erlendan markað. Athygli vekur að hlutur bræðslunnar vex enn og er nú kominn upp í 43,5 % af heildaraflanum. Síld var í ár söltuð eins og undanfarin ár á svæðinu frá Húsavík austur og suður um til Akraness. Söltunin var aðeins um helmingur þess sem hún var á síðasta ári eða 122.114 tunnur alls. Mest var saltað á Eskifirði, 19.222 tunnur en í Grindavík voru 18.328 tunnur saltaðar. Hæsta söltunarstöðin var Fiskimjölsverksmiðja Hornafjarðar h/f með 12.510 tunnur en hjá Friðþjófi h/f á Eskifirði voru saltaðar 8.935 tunnur. Ástæða þess að svo miklu minna var saltað nú en síðustu ár var sú að ekki tókst að selja neina síld til Sovétríkjanna. Þar eystra ríkir hálfgert glundroðaástand. Þetta risaveldi virðist standa á pólitískum brauðfótum, efnahagsmál eru þar öll í upplausn og gjaldeyrisskortur setur innflutningi miklar 443
skorður. Svo óheppilega vildi líka til að árið 1990 er hið síðasta sem gildandi viðskiptabókun milli Íslands og Sovétríkjanna nær yfir. Íslenskir seljendur saltsíldar reyndu árangurslaust að ná samningum við Sovétmenn. Auk venjulegra viðskiptahátta var reynt að fara eftir diplómatískum og pólitískum leiðum en allt kom fyrir ekki, engin seldist síldin. Þetta samningaþóf stóð með hléum langt fram á vertíð og það var einmitt með von um lausn þessara mála sem vertíðin var framlengd eins og áður var getið. Svo fór að lokum að Sovétmenn stóðu ekki einu sinni við samning frá fyrra ári um kaup á 5 þúsund tonnum sem mátti flytja milli vertíða. Ef þetta hrun sovéska markaðarins verður viðvarandi og ekki verður söluaukning á öðrum mörkuðum er ljóst að grundvellinum hefur verið kippt undan síldarsöltun á Íslandi í núverandi mynd. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Útvegur 1990 Ægir 1990 og 1991
444
1991 Hafrannsóknastofnun lagði til að á árinu yrðu veidd 80 þúsund tonn. Sjávarútvegsráðuneytið valdi aðra leið að þessu sinni en undanfarin ár en venjulega hafa reglur ráðuneytisins tekið mið af tillögum Hafrannsóknastofnunar. Reglur ráðuneytisins viku í þremur greinum verulega frá því sem verið hefur undanfarin ár. Í fyrsta lagi var heimilaður 110 þúsund tonna afli á vertíðinni allri. Í öðru lagi var veiðitíminn lengdur verulega. Nú voru veiðar leyfðar frá 1. september 1991 til 1. mars 1992, seinna var tíminn framlengdur til 22. mars. Þessi langa síldarvertíð var rökstudd með því að á þennan hátt væri auðveldara að ná hámarksverðmætum úr aflanum og var þá horft til hruns saltsíldarmarkaðarins í Sovétríkjunum. Þriðja breytingin var að nú var loðnuskipum heimilað að fara til síldveiða. Loðnuveiðar gengu mjög illa á árinu og var reynt að gera hag loðnuskipa bærilegri með þessum hætti. Alls var úthlutað kvóta til 88 skipa en 45 stunduðu veiðarnar. Fyrsta skipið hélt til veiða 18. september en það var ekki fyrr en 6. 445
október sem síld tók að veiðast. Fyrsta síldin fékkst í Berufjarðarál en aðalveiðisvæðið á vertíðinni var á svæðinu frá Hvalnesi vestur að Ingólfshöfða. Veiðar gengu illa lengst af vegna þess hve síldin var blönduð millisíld og smásíld eins og oft er þegar hún heldur sig á þessum slóðum. Af þessum sökum þurfti oft að loka veiðisvæðum tímabundið. Þegar veiðitímanum lauk í mars voru enn eftir 10 þúsund tonn af kvótanum. Heildarafli á vertíðinni allri var 99.378 tonn, 66.412 tonn fengust fyrir áramót en 32.966 tonn í janúar og febrúar. Heildarsíldarafli árið 1991 var 78.146 tonn. Í frystingu fóru 17.636 tonn, 16.654 tonn voru söltuð, 43.720 tonn voru brædd og 136 tonnum var ráðstafað á annan hátt. Alls voru saltaðar á vertíðinni 102.988 tunnur, þar af 28.304 tunnur eftir áramót. Saltað var á svæðinu frá Þórshöfn austur og suður um til Akraness. Mest var saltað á Hornafirði, 20.498 tunnur en 14.535 tunnur voru saltaðar á Eskifirði. Hæsta söltunarstöðin var Pólarsíld h/f á Fáskrúðsfirði með 11.893 tunnur en 10.306 tunnur voru saltaðar hjá Skinney h/f á Hornafirði. Það vekur athygli að enn vex hlutur bræðslusíldar þótt heildarafli standi nokkurn 446
veginn í stað. Í ár fór meira en helmingur aflans í bræðslu. Þá er einnig eftirtektarvert að síldarvertíðin er að færast til á árinu, nú var um þriðjungur vertíðaraflans tekinn eftir áramót. Erfiðleikarnir í saltsíldarsölunni halda áfram. Línur eru heldur að skýrast í Sovétríkjunum og er nú helst við rússneska lýðveldið að fást varðandi síldarsölu. Eftir mjög erfiða samninga við Rússa tókst að semja við þá um veruleg síldarkaup en svo fór að lokum að aðeins voru 4.700 tunnur saltaðar upp í þann samning þar sem Rússar gátu ekki staðið við sinn hluta hans. Á Vesturlöndum er líka þungt fyrir fæti vegna tollamúra Efnahagsbandalagsins. Þó að söltuðum tunnum fækki með hverri vertíð er þó eitt ljós í myrkrinu. Sífellt stærri hluti saltsíldarinnar er nú unninn sem flök sem eykur mjög verðmæti síldarinnar og skapar mikla vinnu. Á þessari vertíð voru um 40 % framleiðslunnar unnin á þennan hátt. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Útvegur 1991
447
1992 Í ár lagði Hafrannsóknastofnun enn til 90 þúsund tonna afla á vertíðinni en Sjávarútvegsráðuneytið ákvað 110 þúsund tonna afla auk 10 þúsund tonna frá síðustu vertíð eða 120 þúsund tonna afla alls. Veiðitímabil var ákveðið frá 1. september 1992 til 1. mars 1993. Veiðireglur ráðuneytisins voru að ýmsu leyti frjálslegri og opnari nú en áður. Til skamms tíma var reynt að stjórna veiðum þannig að tryggt væri að vinnsla afla til manneldis sæti jafnan í fyrirrúmi en bræðsla mætti afgangi. Í öðru lagi var framsal kvóta háð því skilyrði að ekkert skip mætti veiða meira en kvóta tveggja. Á þessari vertíð voru báðar reglur lagðar fyrir róða. Alls fengu 85 skip kvóta, 78 hefðbundin síldarskip og 7 loðnuskip. Síldarskipin fengu 101.460 tonna kvóta eða 92 % en loðnuskipin 8.540 tonn eða tæp 8 %. Eftir að kvótaverslun var lokið var niðurstaðan sú að 46 skip héldu til veiða, 15 síldarskip og 31 loðnuskip. Þegar litið var á aflatölur um miðjan febrúar kom í ljós að búið var að veiða næstum allan heildarkvótann. Þá höfðu síldarskipin fengið 448
rúmlega 18 þúsund tonn eða um 17 % aflans en loðnuskipin 88 þúsund tonn eða 83 % heildaraflans. Meðalafli síldarskipanna var þá um 1.200 tonn en loðnuskipin höfðu fengið 2.800 tonn að meðaltali. Tvö loðnuskip höfðu þá fengið yfir 8.000 tonn hvort. Fyrsta síld haustsins veiddist 21. september á Papagrunni en almennt hófust veiðarnar ekki fyrr en í október. Veiðarnar gengu mjög vel framan af og helmingur kvótans eða 56 þúsund tonn fékkst fyrir októberlok. Eftir þetta gengu veiðar mun tregar en áður, síldin stóð djúpt og var mjög blönduð. Vegna þess hve síldin stóð djúpt reyndu tveir bátar veiðar í flottroll í janúar með ágætum árangri en þeir fengu 800 tonn alls. Aðalveiðisvæðið á vertíðinni var líkt og undanfarin ár við Suðausturland frá Berufjarðarál suður til Hrollaugseyja. Alls voru saltaðar 61.185 tunnur á vertíðinni á svæðinu frá Þórshöfn austur og suður um til Kópavogs. Um það bil þriðjungur framleiðslunnar voru söltuð flök. Mest var saltað á Hornafirði, 13.634 tunnur en 10.785 tunnur voru saltaðar í Neskaupstað. Hæsta söltunarstöðin var Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað með 10.785 tunnur en 8.479 tunnur voru saltaðar hjá Skinney h/f á 449
Hornafirði. . Þegar vertíð lauk skorti u.þ.b. 11 þúsund tunnur til að unnt væri að standa við alla fyrirframsölu á saltsíld. Þegar litið er yfir vertíðina í heild eru nokkur atriði augljós. Í fyrsta lagi sýna aflatölur að loðnuskipin standa síldarskipunum miklu framar hvað snertir veiðihæfni þegar síldin er jafn erfið viðureignar og hún var á þessari vertíð. Í öðru lagi er ljóst að hömlulaus kvótaviðskipti og takmarkalausar heimildir til löndunar í bræðslu leiða til þess að ekki næst hámarksarður af þessari auðlind þegar ekki fæst sú síld sem þarf til manneldisvinnslu. Útgerðarmenn loðnuskipa afsaka sig með því að þau hafi ekki búnað um borð s.s. kassa eða kör til að flytja aflann í að landi í vinnsluhæfu ástandi. Virðist ekki óeðlilegt að í framtíðinni verði það gert að skilyrði fyrir veiðileyfi að skipin séu hæf til að uppfylla þarfir frystingar og söltunar áður en farið er að landa í bræðslu. Hér þarf að horfa til framtíðar vegna þess hve ótryggur markaður er fyrir síld til manneldis. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1992 var 123.323 tonn. Í frystingu fóru 20.373 tonn, 15.541 tonn var saltað, 87.166 tonn voru brædd og 243 tonnum var ráðstafað á annan hátt. Hlutfall bræðslusíldar er nú komið yfir 70 %. Á vertíðinni 1992 - 1993 skiptu meira en 450
70 % kvótans um eigendur eða u.þ.b. 78.500 tonn. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Útvegur 1992
1993 Hafrannsóknastofnun lagði til að veidd yrðu 90 þúsund tonn af síld á kvótaárinu sem hófst 1. september 1993. Sjávarútvegsráðuneytið ákvað 100 þúsund tonna kvóta að viðbættum 11 þúsund tonnum sem ekki náðust á síðustu vertíð eða 111 þúsund tonn alls. Alls héldu 45 skip til veiða. Þetta voru 32 loðnuskip, 11 hefðbundnir síldarbátar og tveir togarar sem veiddu í flottroll og fengu 1.700 tonn alls. Fimm önnur skip veiddu í flotvörpu og fengu samanlagt 6.000 tonn. Veiði gekk vel framan af vertíð en þegar leið á haustið varð síldin stygg og stóð djúpt svo að erfitt var að ná henni. Heildarafli á vertíðinni var 101.496 tonn, þar af fengust aðeins 440 tonn eftir áramót. Aðalveiðisvæðið var út af sunnanverðum Austfjörðum, frá Berufjarðarál austur í Hvalbakshalla. Heldur minna var 451
landað í bræðslu nú en í fyrra eða 63 % á vertíðinni allri. Heildarsíldarafli Íslendinga árið 1993 var 116.617 tonn. Í frystingu fór 25.281 tonn, auk þess sem 996 tonn voru sjófryst. Til söltunar fóru 17.480 tonn, 72.691 tonn var brætt og 169 tonnum var ráðstafað á annan hátt. Undanfarin ár hefur sá hluti síldaraflans sem landað er á Austfjörðum farið minnkandi. Hann var í fyrra 44 % en vegna þess að síldin veiddist í ár nokkru norðar en áður óx hlutur Austfjarða nú í 56 %. Alls voru saltaðar 95.624 tunnur á vertíðinni. Söltun dreifist nú á færri staði en áður og söltunarstöðvar eru færri og afkastameiri. Mest var saltað á Hornafirði, 26.748 tunnur. Hæsta söltunarstöðin var Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað með 22.643 tunnur en hjá Borgey h/f á Hornafirði voru saltaðar 19.667 tunnur. Hafrannsóknastofnun, Fjölrit nr. 37 (Nytjastofnar sjávar 1993/1994) Upplýsingar frá Síldarútvegsnefnd Útvegur 1993
452
1994 Hafrannsóknastofnun lagði til 120 þúsund tonna síldarafla á vertíðinni 1994 - 1995. Sumarið 1994 gekk síld úr norsk - íslenska síldarstofninum lengra vestur en hún hefur gert áður. Nokkur íslensk skip fóru til veiða og fengu góðan afla sem öllum var landað í bræðslu, m.a. landaði Hólmaborg frá Eskifirði stærsta síldarfarmi sem íslenskt fiskiskip hefur landað, yfir 1.500 tonnum. Heildarafli Íslendinga úr stofninum var rúmlega 21 þúsund tonn en þetta var í fyrsta skipti í 27 ár sem þeir veiddu úr þessum stofni. Á vertíðinni 1994 - 1995 voru saltaðar 139.036 tunnur. Tiltölulega fá skip veiddu mestan hluta þeirrar síldar sem var söltuð. Mest var saltað á Hornafirði, 43.843 tunnur en hæstu söltunarstöðvarnar voru Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað með 38.311 tunnur og Borgey h/f á Hornafirði með 32.605 tunnur. Liðlega helmingur saltsíldarinnar kom því frá þessum tveimur stöðvum. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Morgunblaðið, september, október 1994 Fiskifréttir, október, nóvember 1994
453
1995 Í ár gekk síld úr norsk - íslenska síldarstofninum inn í íslenska fiskveiðilögsögu í maímánuði. Samningaviðræður Norðmanna, Íslendinga og Færeyinga um veiðiheimildir fóru út um þúfur og svo fór að Íslendingar og Færeyingar sömdu um sameiginlegan kvóta í færeyskri og íslenskri lögsögu. Skip þjóðanna tveggja fengu mjög góðan afla áður en síldin gekk norður og inn í lögsögu Jan Mayen sem Norðmenn hafa helgað sér. Sjómannaverkfall hindraði Íslendinga þó í að nýta sér þennan vinning til fullnustu en Færeyingar lönduðu umtalsverðu magni á Austfjörðum. Síldin var full af átu og fór þess vegna að mestu í bræðslu. Eitt skip, "Jóna Eðvalds" frá Hornafirði, prófaði að nota gamalt ráð frá dögum landnótaveiðanna. Skipverjar létu reka með síld í nót tæpan sólarhring meðan síldin melti úr sér átuna. Aflanum var síðan landað til frystingar á Hornafirði. Nótaskipið "Þrándur í Götu" frá Færeyjum setti nýtt löndunarmet þegar það landaði u.þ.b. 2.500 tonna farmi á Íslandi.
454
Á heimaslóð var leyfður 125 þúsund tonna afli á vertíðinni, frá 1. september 1995 til 1. maí 1996. Alls tóku 25 skip þátt í veiðunum sem gengu vel, einkum í október og nóvember. Erfiðleikar við að koma saltsíld í verð héldu áfram og hafði Síldarútvegsnefnd öll spjót úti. Einna erfiðast var að ráða við tollmúra Efnahagsbandalagsins sem gerðu útflutning til landa innan þess mjög erfiðan. Saltsíld var seld til 13 landa, langmest til Svíþjóðar og Rússlands. Alls voru saltaðar 140.946 tunnur, þar af voru 43.445 tunnur af flökum. Mest var saltað á Hornafirði, 52.897 tunnur en í Neskaupstað voru saltaðar 42.018 tunnur. Hæsta söltunarstöðin var Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað með 42.018 tunnur en Borgey h/f á Hornafirði var með 38.998 tunnur. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Morgunblaðið maí, október, nóvember 1995 Fiskifréttir október, nóvember 1995
455
1996 Á árinu 1996 héldu veiðar úr norsk-íslenska stofninum áfram. Veiddu Íslendingar aðallega á mörkum færeysku og íslensku lögsögunnar og á alþjóðlegu hafsvæði en einnig var veitt innan efnahagslögsögunnar umhverfis Jan Mayen. Heildarafli Íslendinga úr stofninum var um 165 þúsund tonn og fór nær eingöngu í bræðslu. Leyfilegur heildarafli á heimamiðum á vertíðinni var 110 þúsund tonn og fékkst góður afli í október og nóvember. Langmest var veitt fyrir austan land og að þessu sinni fékkst besti aflinn norðan Glettinganess. Minna fór í bræðslu en áður eða um 23 % en 77 % voru fryst eða söltuð. Alls voru saltaðar á vertíðinni 1996/1997 165.487 tunnur af ýmsum tegundum saltaðrar síldar, þar af 49.441 tunna af flökum. Saltað var á 10 stöðum frá Vopnafirði til Akraness. Mest var saltað í Neskaupstað, 54.733 tunnur og hæsta söltunarstöðin var Síldarvinnslan í Neskaupstað með 54.733 tunnur. Telja má víst að aldrei í sögunni hafi meira verið á einni stöð á einni vertíð. Borgey h/f saltaði 28.470 tunnur. Annars fer söltunarstöðvum fækkandi 456
jafnframt því sem aukinni vélvæðingu fylgir stækkun þeirra sem starfræktar eru. Skýrsla Síldarútvegsnefndar Morgunblaðið, apríl, maí, október, nóvember 1996
1997 Nú veiddist síld úr norsk-íslenska stofninum loks innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Fengust um 100 tonn í júlí um 90 sjómílur norðaustur af Langanesi og þóttu þessar veiðar mikil tíðindi. Síldin hélt svipuðu göngumunstri og undangengin ár, hélt vestur frá Noregi í átt að Íslandi en síðan sneru göngurnar að mestu til norðurs. Heildarafli Íslendinga úr stofninum var um 220 þúsund tonn og fékkst aðallega á alþjóðlegu hafsvæði og innan færeysku lögsögunnar. Nokkur hluti aflans var þó tekinn innan norsku lögsögunnar og innan efnahagslögsögu Jan Mayen. Leyfilegur afli úr íslenska sumargotssíldarstofninum var 100 þúsund tonn. Á árinu urðu algjör umskipti í síldarverslun Íslendinga við Rússa en heildarsala saltsíldar þangað var aðeins um 457
1.500 tunnur. Ástæða þessa mikla sölusamdráttar var fyrst og fremst sú að Rússar sem og margar aðrar Austur Evrópuþjóðir, voru farnir að kaupa frysta síld og salta eftir hendinni í heimalandinu. Nálega helmingur allrar saltsíldar sem Íslendingar seldu á árinu fór til Svíþjóðar. Alls voru saltaðar á vertíðinni 1997/1998 110.099 tunnur af ýmsum tegundum saltaðrar síldar, þar af 39.027 tunnur af flökum, aðallega roðlausum flökum og bitum. Síldin var söltuð á sjö stöðum á landinu á svæðinu frá Vopnafirði til Vestmannaeyja. Mest var saltað í Neskaupstað, 42.089 tunnur og þar var hæsta söltunarstöðin, Síldarvinnslan h/f með 42.089 tunnur. Á Eskifirði saltaði Friðþjófur h/f 26.602 tunnur. Undanfarin ár hafa menn gert tilraunir til söltunar síldar úr norsk - íslenska síldarstofninum. Þær hafa gengið illa vegna þess að síldin hefur jafnan verið veidd í maí og júní þegar gæði hennar eru hvað minnst auk þess sem hún hefur veiðst mjög langt frá landi. Í sumar var þó saltað í rúmlega 2.000 tunnur af roðlausum flökum og bitum. Skýrsla Síldarútvegsnrfndar Morgunblaðið, október, nóvember 1997 458
1998 Á árinu urðu þáttaskil í sögu saltsíldarmála Íslendinga. 28. maí voru samþykkt á Alþingi lög um stofnun hlutafélags um Síldarútvegsnefnd. Samkvæmt þeim átti hið nýja félag að bera nafnið Íslandssíld h/f og hafa þann tilgang að annast viðskipti með síldarafurðir og aðrar sjávarafurðir og hvers konar aðra starfsemi sem því tengdist. Hóf Íslandssíld h/f starfsemi 1. ágúst 1998 og lauk þar með 63 ára sögu Síldarútvegsnefndar. Þegar hún hóf starfsemi sína var fyrirkomulagið mjög umdeilt en þótti fljótt sanna gildi sitt. Mikil eining hafði verið í áratugi meðal síldarsaltenda um nefndina og hafði hún sem stofnun þótt standa sig einstaklega vel í sölumálum. Framkvæmdastjóri hins nýja fyrirtækis var ráðinn Gunnar Jóakimsson sem verið hafði framkvæmdastjóri Síldarútvegsnefndar frá 1993. Um það leyti sem Íslandssíld h/f tók til starfa var lögð rík áhersla á hagkvæmni stærðarinnar og sameining fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu var tíð. Það kom því fáum á óvart að starfsemi Íslandssíldar h/f sem 459
sjálfstæðs fyrirtækis stóð ekki lengi. Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda hafði fyrir nokkru verið breytt í hlutafélagið SÍF h/f. Stjórnir fyrirtækjanna undirrituðu samkomulag um sameiningu fyrir árslok 1998 með þeim hætti að Íslandssíld h/f rann inn í SÍF og hið nýja fyrirtæki var rekið í nafni SÍF en hlutabréf í Íslandssíld h/f voru greidd með hlutabréfum í SÍF. Hið nýja fyrirkomulag var endanlega samþykkt á aðalfundi SÍF 31. mars 1999 en hluthafar í Íslandssíld höfðu áður samþykkt þennan gjörning fyrir sitt leyti.
Hér er síldarannál lokið. HR
460