Saga úr Síldarfirði

Page 1

Örlygur Kristfinnsson

Saga úr síldarfirði


Saga úr síldarfirði


Saga úr síldarfirði Texti og myndir: © Örlygur Kristfinnsson Hönnun og umbrot: Aðalsteinn S. Sigfússon Prentun: Oddi, umhverfisvottuð prentsmiðja Skönnun: Friðþjófur Helgason Litgreining: Oddi Kostervals á bls. 47 er talinn eftir Baldur Pálmason, ortur löngu eftir 1907. Bókin er gefin út með styrk frá Menningarráði Eyþings og Félagi áhugamanna um minjasafn Nánari upplýsingar um sögu fjölskyldunnar sem bókin bygg­ir á er að finna á heimasíðu Síldarminjasafns Íslands: http://sild.is/is/page/kennsluefni Bók þessa má eigi afrita með neinum hætti, svo sem ljós­ myndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar og útgef­anda. Uppheimar í samvinnu við Síldarminjasafn Íslands 2011 ISBN 978-9935-432-22-3


Saga úr síldarfirði

Texti og myndir:

Örlygur Kristfinnsson


4


Frá Eyjafirði Það var árla morguns – stafalogn og sól skein yfir austurfjöllin á heiðríkum himni. Lítill bátur flaut við fjöru og tveir menn óðu sjóinn upp fyrir hné og báru varning í fanginu. Um borð var 12 ára strákur, Siggi, sem hjálpaði til að raða hlutunum eftir fyrirmælum föður síns. Þar lágu tvær tunnur og þrír kistlar fullir af fatnaði og búsáhöldum. Þarna var flest sem þurfti til heimilishalds og annað smálegt – þó ekki allar eigur þeirra. Mamma hans, hún Helga, systirin Gunna og afi sem var blindur og hét Stefán, höfðu fengið far með norsku skipi kvöldið áður. Og þau höfðu tekið með sér hús­ gögnin, þrjú rúm, kommóðu, borð, nokkra stóla og tvær fatakistur. Þau voru að flytja frá heimili sínu á Akureyri á nýjan stað í litlum firði langt í norðri. ,,Jæja,“ sagði pabbi um leið og hann steig um borð í bátinn og teygði sig til félaga síns og tók í hönd hans. „Þakka þér innilega fyrir alla hjálpina og vertu ævinlega blessaður.“ „Blessaður Ólafur og góða ferð. Guð veri með ykkur!“ kallaði hann og ýtti bátnum frá landi. Skammt frá þeim synti æðarfjölskylda. Fyrstu ungarnir höfðu skriðið úr eggjum og voru komnir út á sjó með foreldrum sínum. Feðgarnir horfðu á fuglana og nutu morgunkyrrðarinnar nokkra stund.

5


6


Róið af stað „Þá er að leggja í hann,“ sagði pabbi um leið og hann settist á miðþóftu bátsins og greip árarnar. „Við eigum langa ferð fyrir höndum og nú er bara að vona að gæfan og gott veður verði okkur hliðholl.“ Svo reri hann rösklega af stað. Drengurinn sat í skutnum og fylgdist vel með öllu sem bar fyrir augu. Him­inn og haf runnu í einn samfelldan bláma þar sem dýrin svifu og syntu. Nokkur andartök fannst honum ferð þeirra vera eins og draumur. Hann hafði róið til fiskjar með föður sínum út á fjörðinn nokkrum sinnum en aldrei svona langt. Af og til flugu fuglar yfir og framhjá og pabbi fræddi hann á því hvað þeir hétu og hvar þeir verptu. Auk æðar­ fugls­ins mátti sjá teistu, fýl og veiðibjöllu. „Nei, þarna er selur,“ kallaði drengurinn og benti á svart höfuð sem kom upp úr sjónum rétt hjá bátnum. „Þetta er landselur,“ sagði pabbi. „Sjáðu augun í honum, hvernig hann horfir á okkur!“ kallaði drengurinn glaður. „Já, það er sagt að selurinn hafi mannsaugu. Þeir eru alltaf svo forvitnir þótt þeir viti að maðurinn sé þeirra versti óvinur. Manstu hvað selkjötið var gott sem hún mamma þín sauð í vor?“ Nýtt selkjötið og spikið var góð tilbreyting frá saltaða matnum sem þau borðuðu flesta daga allan lið­ langan veturinn. Frændi hans hafði skotið sel og gefið þeim vænan bita. Þótt margt spennandi bæri fyrir augu var drengurinn líka að hugsa um það af hverju ferðin var farin, af hverju þeir voru á ferð á þessum litla báti og hvað biði þeirra á áfangastað. Og hann varð dapur þótt hann hlakkaði svolítið til að setjast að á nýjum stað. Þau höfðu yfirgefið heimili sitt og nú stóð litla húsið autt. Og honum varð hugsað til vina sinna sem hann kvaddi kvöldið áður, þeirra Gumma og Nonna, góðu vinanna sem hann sæi kannski aldrei aftur. Mamma hans hafði huggað hann og sagt að hann mundi fljótt eignast nýja vini og kannski gætu þau fengið sér kindur eins og hann hafði svo oft langað til og jafnvel kisu og hund. Meðan hann hugsaði um þetta horfði hann á sterklegar hendur pabba síns knýja bátinn áfram.

7


8


Byr í seglin Hendurnar héldu fast um árarnar og taktfastar hreyfingarnar skiluðu þeim hratt áfram. Um hádegisbil lagði pabbi árar í bát. „Jæja, Siggi, það er kominn tími til að fá sér að borða og hvíla sig ögn,“ sagði hann og rétti úr sér. „Róð­ ur­inn er býsna lýjandi.“ „Hvenær komum við pabbi, hvað eigum við langt eftir?“ „Ef það hreyfir ekki vind þá verður það ekki fyrr en í fyrramálið. En ef hann blæs og við fáum góðan byr í seglin þá náum við á áfangastað í kvöld. Og ég hef grun um að ósk okkar rætist, það er að draga ský upp á suðurhimininn, þá er kannski stutt að bíða vindsins.“ Þeir luku við nestið og pabbi tók aftur til við róðurinn. Nú horfði hann stöðugt til himins sem eftir nokkra stund var orðinn hálfskýjaður og fyrstu golusveipirnir gáruðu sléttan sjóinn. Svo jók vindinn smám saman og pabbi reisti mastur og dró upp segl. Nú leið báturinn hljóðlaust áfram og sunnanvindurinn bar bát­inn, öldurnar, fuglana og skýin sömu leið. Faðirinn sat nú í skut bátsins og stýrði honum út fjörðinn og framhjá Hrísey. Hann seildist undir aftur­ þóftuna í lítinn trékassa þar sem hann geymdi áttavitann, sem líka heitir kompás, og er svo mikilvægur á svona ferðalögum. „Sjáðu vísinn, hvernig hann hreyfist þegar ég sný áttavitanum, hann bendir alltaf í sömu átt. Vísirinn bendir alltaf í norður og í þá átt stefnir einmitt báturinn okkar nú.“ Siggi vissi að höfuðáttirnar voru fjórar, austur þar sem sólin kemur upp á morgnana, suður þar sem sólin skín á hádegi, vestrið á kvöldsólina og norðrið er þar sem rauð miðnætursólin rennir sér ofan í hafið. „En ef við stefnum svona áfram til norðurs, lendum við þá ekki langt úti á hafi?“ „Jú, það er rétt, væni minn, og ætli við myndum ekki enda á Norðurskautinu? – en sjáðu fjallið þarna fram­undan, Ólafsfjarðarmúla. Þegar við siglum út með honum til norðvesturs er framundan fjörðurinn sem við erum að flytja til.“ „En ef það kemur þoka, hvernig rötum við þá?“ „Ja, þá er nú fyrst gagn að áttavitanum,“ sagði pabbi, „ef maður kann á hann þá vísar hann okkur alltaf rétta leið.“ En niðadimm þokan var víðs fjarri og glaður sunnanvindurinn bar þá hraðar og hraðar og um tíma fannst stráknum að báturinn hefði breyst í fugl sem bar þá á bakinu yfir sjóinn með annan vænginn ská­ hallt upp í loftið. Og þetta ferðalag var enn eins og fjarlægur draumur – en allt öðruvísi en draumur þeirra um ferð­ina til Vesturheims.

9


10


Skepnan stóra Þegar þeir höfðu svifið fyrir mynni Ólafsfjarðar með stefnuna í norðvestur komu þeir undir gríðarstórt fjall. Þá lægði vind og það datt á dúnalogn. Það blakti ekki hár á höfði og pabbi dró seglið niður og settist undir árar. Á aðra hlið var þetta háa og snarbratta fjall, sem pabbi sagði að héti Hvanndalabjarg og hinum megin endalaust hafið. Hvítir fuglar með ljósgráa vængi steyptu sér úr bjarginu og svifu í boga niður að bátnum og hnituðu hringa upp og niður áður en þeir lækkuðu flugið og settust á sjóinn. „Þetta er fýll eða múkki eins og sjómenn kalla þennan fugl,“ sagði pabbi. „Þeir eru alltaf í leit að æti fyrir unga sína og svamla í kringum bátana í von um að fá eitthvert æti í gogginn, lifur eða önnur innyfli úr nýveiddum fiski.“ En þeir voru ekki á veiðum og báturinn skreið eftir rennisléttum sjónum sem var eins og risastór spegill sem speglaði allt. Hávært fuglagarg barst úr fjallinu. Siggi fylgdist með svifi múkkanna og reyndi að lokka einn til sín með því að kasta til hans snærisspotta. En á snærinu var hvorki öngull né beita og fuglinn sneri fljótt frá. Eftir dágóða stund gerðist nokkuð óvænt. Sjórinn ókyrrðist og eitthvað stórt og svart birtist rétt framan við bátinn og Siggi hrópaði: „Gættu þín á skerinu þarna!“ En þegar pabbi hans leit um öxl seig þetta svarta flykki ofan í öldurnar um leið og risastór og glampandi sporður reis upp í loftið og rann síðan hægt í hafdjúpið og sjórinn kyrrðist. Siggi hafði aldrei séð neitt þessu líkt fyrr og hjartað sló hratt í brjósti hans. Þvílíkur risafiskur, eða var þetta ekki bara hvalur? Stóran hval hafði hann aldrei séð – bara smáhveli, höfrunga sem stukku stundum upp úr sjónum inni í Eyjafirði. „Þetta var steypireyður,“ sagði pabbi hans stillilega. Hann var sjómaður og þekkti þessar ógnar skepnur sem hvalirnir eru. „En bíddu, við sjáum hann aftur,“ og þeir skimuðu þangað sem hvalurinn virtist stefna og eftir nokkra bið sáu þeir hann lyfta sporðinum í kveðjuskyni, langt í burtu – á hraðferð til austurs. „Þetta gæti verið eitt síðasta stórhvelið við Norðurland,“ sagði pabbi hans. „Nú, af hverju?“ spurði Siggi. Og pabbi hans sagði honum frá því að norskir hvalveiðimenn hefðu komið til Íslands og byggt hval­stöðv­ar á Vestfjörðum og Austfjörðum og þegar þeir höfðu veitt alla hvali þar þá fluttu þeir sig á Norðurlandsmið. „Þeir eltu þá uppi á stórum vélskipum, skutu þá og drógu austur og vestur í verksmiðjurnar.“ „Og til hvers drepa þeir hvalina?“ „Til að vinna úr þeim lýsi og mjöl,“ svaraði pabbi. „Lýsið er notað sem brennsluolía á lampa og götuljós í stórborgum í útlöndum og mjölið er notað sem húsdýrafóður. Já, þetta gæti sannarlega verið einn af síðustu hvölunum – það er að minnsta kosti einkennilegt að hann skuli vera einn á ferð. En það góða var að norsku hvalveiðimennirnir sáu að hér var hafið fullt af síld og þess vegna komu öll síldarskipin frá Noregi til veiða og það veitir okkur vinnu. Og það er nú aðalástæðan fyrir þessu ferðalagi okkar í dag, við stefnum á síldarfjörðinn, miðstöð síldveiðanna.“

11


12


Spáð stormi Lognið hélst en pabbi virtist órólegur og var sífellt að líta til himins. „Þetta er svikalogn – ekki líst mér á blikuna.“ „Svikalogn, hvað er það?“ spurði drengurinn. „Það er logn sem maður má ekki treysta. Líttu á, það er stormur í háloftunum og komið far á skýin. Það eru margir sem ekki hafa gætt sín á því og komist í hann krappan.“ Og drengurinn sá að dimmgrá ský voru farin að veltast um og á milli þeirra rofaði í bláan himininn. Hann tók eftir því að framundan svifu dökkir fuglar hátt í lofti og hann benti pabba sínum á þá. „Þetta er líka merki um að lognið getur svikið okkur. Þegar máfarnir svífa svona hátt og hnita hringa þá eru þeir að spá hvassviðri. Og sunnanstormurinn sem sennilega er í aðsigi gæti hrakið bátinn okkar langt út á haf. Nú skulum við taka mark á þessum veðurspám og koma okkur í land sem allra fyrst.“ Þegar þetta gerðist höfðu þeir farið fram hjá mynni Héðinsfjarðar og nálguðust Siglunes. Hlý sunnan­ gjóla kom af landi á hlið bátsins og sjórinn var orðinn ókyrr. „Ef það blési á móti bátnum þá héti þetta mótbyr og öldurnar mótbárur og þá þyngdist róðurinn heldur betur,“ kallaði pabbi. „Og ekki má leggja árar í bát þótt móti blási!“ Hann þokaði bátnum nær fjörunni þar sem var lygnara. Það var greinilegt að pabbi vildi kenna honum að tala og hugsa eins og sjómaður – svo hann gæti orðið fær í flestan sjó þegar hann yrði stór. „Þú gáir að því hvort steinar eða sker leynist í öldunum framundan.“ Einu sinni fannst Sigga hann sjá á stein í öldunum en það reyndist vera selur sem hvarf ofan í sjóinn. „Þarna er gott að lenda bátnum,“ sagði pabbi hans hátt og hnykkti höfðinu í áttina að ströndinni. Og þegar að landi kom birtust skyndilega tveir menn sem höfðu verið að ganga á reka. Þeir gripu bátinn örugg­um höndum og allir hjálpuðust að við að draga hann hátt upp í fjöruna, skorða hann vel og breiða segl­dúk yfir farangurinn. Það var farið að kvölda þegar þeir gengu til bæjar og brátt var skollið á suðvestan hvassviðri. Í baðstofu var þeim vel tekið, þeim færður matur og boðin gisting.

13


14


Fátækt fólk Þegar Siggi var kominn út á hlað næsta morgun sá hann hvar hákarlaskip lá fram undan fjörunni. Bóndinn á Siglunesi var skipstjóri á skipinu og flestir skipverjarnir voru Siglnesingar. Þeir höfðu verið á leið norðan af hákarla­miðunum þegar hvessti og lögðu skipinu við akkeri undan landi þar sem var sæmilegt skjól af háum sjávarbökkum. Ólafur faðir Sigga hafði verið með skipstjóranum á hákarlaveiðum og þekktust þeir vel. Þeir höfðu því um margt að tala og fór vel á með þeim heima í bæ. Siggi var hins vegar mikið úti við þótt hvasst væri og fylgdist með vorverkum heimilisfólksins. Konur og börn voru í önnum kringum ærnar og lömbin meðan karlar grófu upp svörð til eldiviðar eða skáru hákarl í fjöru. Siggi gekk út á sjávarbakka og settist í skjól við stóran stein. Honum varð starsýnt á hákarlaskipið úti á legunni sem togaði af þunga í akkerisfestina. Það var líkt þessu, hákarlaskipið sem faðir hans var á þegar þau misstu af vesturfaraskipinu. Ferðin sem þau misstu af – draumurinn sem ekki rættist. Um þetta var Siggi alltaf að hugsa. Ef pabbi hefði ekki farið í þessa hákarlalegu þá byggju þau nú í útlöndum. Þau voru alltaf svo fátæk. Pabbi fékk sjaldan vinnu og sjaldan áttu þau peninga til að kaupa mat og fatnað. Hann réði sig þó hvert vor á hákarlaskip sem sigldi langt norður í höf til að veiða þessa stóru gráu fiska, hákarlana. Ef veiðarnar gengu vel þá urðu launin ágæt en þær stóðu aðeins í tvo til þrjá mánuði. Þessar veiðar voru hættulegar þegar allra veðra var von – enda höfðu mörg hákarlaskip farist með manni og mús. Oft var kalt inni á heimilinu, nema þegar vel viðraði á sumrin. Það kom fyrir að fjölskyldan hafði lítið að borða og þá höfðu þau systkinin farið svöng í háttinn og jafnvel skjálfandi af kulda. Hvernig yrði líf þeirra í framtíðinni? Myndu þau Gunna nokkurn tíma geta gengið í skóla og menntað sig? Og biði þeirra nokkuð annað en að stunda hættulega og illa launaða vinnu? Þannig hugsaði hann. Líf fólks hafði verið svona í þessu landi í mörg hundruð ár. Eilíf fátækt og basl. Systkinin höfðu heyrt á tal foreldra sinna um að margir hefðu gefist upp og flust til útlanda í leit að betra lífi. Svo sagði pabbi þeim að þau yrðu kannski að yfirgefa landið sitt og flytja til Ameríku. Og þetta hljómaði spennandi í eyrum þeirra, krakkanna. Til Kanada, þar sem alltaf voru hlý og löng sumur, stórir skógar og borgir. Og það kom að því að þau ákváðu að fá far með stóru gufuskipi sem sigla skyldi vestur yfir hafið í sumarbyrjun. En um vorið fréttist að skipið hefði tafist vegna hafíss austan við land. Og það var þess vegna sem pabbi ákvað að nota tímann til stuttrar hákarlalegu. Eftir nokkurra daga veiðar á miðunum var siglt hraðbyri heim. En á miðjum Eyjafirði mættu þeir vesturfaraskipinu sem kom siglandi frá Akureyri. Þannig misstu þau af ferðinni til Ameríku og sú næsta bauðst ekki fyrr en að ári liðnu.

15


16


Draumur um betra líf Lífið hélt áfram – allt var óbreytt og fjölskyldan sat eftir full vonbrigða. Sú litla vinna sem bauðst dugði varla til að kaupa mat og aðrar nauðþurftir. Þá fréttist að mikil síldveiði væri úti fyrir Norðurlandi og það vantaði fólk, og ekki síst kvenfólk, til vinnu á Siglufirði. Og það varð úr að mamma fór þangað og vann eitt sumar í síldinni. Og henni líkaði það svo ljómandi vel að fjölskyldan ákvað að flytja og byrja þar nýtt líf – nýtt líf í eigin landi. Þannig stóð nú á þessu ferðalagi Sigga og pabba hans á litla bátnum. En hvar væri fjölskyldan nú stödd ef pabbi hefði beðið rólegur heima og ekki misst af Ameríkuskipinu? – Þannig hugsaði Siggi þar sem hann sat í skjóli af stórum steini ofan við fjöruna og fylgdist með hákarlaskipinu toga í akkerisfestarnar í vindinum. Þau hefðu sennilega flust til Kanada og kannski ættu þau heima í stórri borg þar sem vel klætt fólkið er jafn­margt og sandkornin í fjörunni og húsin eins og stórar ævintýrahallir en ekki lítil og köld torfhús. Í stað þess að ganga eða róa eða ferðast á hestbaki fluttu járnbrautarlestir og vélvagnar fólkið um steinlögð stræti. Og þegar hann hugsaði um þetta þá fannst honum skýin á himninum yfir hákarlaskipinu breytast í hallir og glæsihús stórrar borgar. Eða – kannski hefðu þau sest að úti í sveit og ættu stóran búgarð með hundrað kúm og fimm hundruð kindum og þúsund hestum. Þar sem sumrin voru löng og hlý og sólrík og þar sem epli og alls kyns ávextir uxu á trjánum. En í staðinn voru þau enn á ísköldu Íslandi að berjast fyrir lífinu. Í hvassviðri á afskekktum stað. Í fátæku landi þar sem eldgos og hafís gátu leikið fólkið grátt. Gamla svarta hákarlaskútan blasti við honum þar sem hann sat undir steininum. Hafið blikaði í ótal bláum litum og hann hugsaði sig um og fann að hann hlakkaði til að halda áfram ferðalaginu og komast til síldarbæjarins þar sem stundum var svo margt fólk á götunni að það var eins og í útlöndum. Og þar biðu þau, mamma hans, systir og afi og hefðu áhyggjur af ferðalagi þeirra feðga og þau væru sennilega hrædd um að stormurinn hefði hrakið þá langt út á haf og þeir hefðu farist. Hann reis á fætur og gekk heim í bæ með hvassviðrið á móti sér.

17


18


Síðasti áfanginn „Vaknaðu drengur, það er komið gott ferðaveður, drífðu þig á fætur. Við verðum að komast sem fyrst heim til stúlknanna okkar, þær hljóta að vera farnar að sakna okkar.“ Þeir höfðu hraðan á og eftir morgunverð hjá húsmóðurinni í Siglunesbænum var siglt af stað. Segl var uppi og báturinn skreið á ný vestur með landi og brátt voru þeir í mynni síldarfjarðarins. Faðir Sigga stóð við stýrið glaður í bragði og hann söng hástöfum meðan austanvindurinn smaug í gegn­ um hár hans og fyllti seglið. Austan kaldinn á oss blés, upp skal faldinn draga. Veltir aldan vargi hlés, við skulum halda á Siglunes. Hrannar skríður hesturinn hafs úr stríðu róti. Siglu- fríði fjörðurinn faðminn býður móti. Austan kaldinn á oss blés, upp skal faldinn draga. Veltir aldan vargi hlés, við skulum halda á Skaga. „Það er sunnudagur í dag, það leynir sér ekki,“ sagði pabbi þegar þeir voru komnir inn á miðjan fjörð og við þeim blasti fjöldi skipa sem lá við akkeri á firðinum og við bryggjurnar kringum þorpið. Og því­­líkur fjöldi! „Af hverju eru öll þessi skip hérna?“ spurði Siggi. „Á sunnudögum er landlega hjá norsku síldveiðimönnunum. Þeir sigla skipunum inn á laugardagskvöld­ um til að hvíla sig yfir helgina.“ „Geta þeir ekki alveg eins hvílt sig úti á hafi?“ „Þetta heitir að halda hvíldardaginn heilagan, eins og okkur er kennt í Biblíunni. Það gerum við sjómenn bara í höfn. Og þeir fara flestir, Norðmennirnir, í land ef gott er veður. Sumir skemmta sér, fara í danshúsin þar sem spilað er á harmonikur. Svo er spásserað um og jafnvel farið í messu.“

19


20


Endurfundir Þeir reru milli skipanna sem voru af öllum stærðum og gerðum. Flest voru þau skútur með háum möstrum, sumar risastórar fannst Sigga. Þarna voru líka ný stálskip með stýrishúsum og stórum strompum eða reyk­ háfum. Það voru vélknúin skip sem þurftu ekki að nota segl. Pabbi hans sagði honum að nokkur íslensk skip væru þarna á meðal. „Íslendingar eru byrjaðir að veiða síldina. Við lærum það af Norðmönnum og skipum okkar fjölgar ár frá ári. Og líklegast eignumst við brátt svona stór og glæsileg vélskip – og þá fer nú að verða gaman að lifa og stunda sjómennsku.“ Á flestum skipunum blöktu rauðir fánar með hvítum og bláum krossi, fáni Noregs. Frá tveimur, þremur skipum heyrðist spilað á harmonikur og lágvær tónlist barst um fjörðinn í góða veðrinu. Af og til var litlum árabátum róið milli skipanna, sjómenn voru í sífelldum ferðum í land og aftur út í skipin. „Hvað heldurðu að skipin séu mörg, pabbi?“ „Ætli þau séu ekki að minnsta kosti eitt hundrað – það var sagt að 180 skip hafi stundað síldveiðar í fyrra – þeim á eftir að fjölga þegar líður á sumarið.“ „En veistu nokkuð hvað margir menn eru á skipunum?“ spurði Siggi. „Á hverju skipi eru fimmtán til tuttugu menn – svo það er hægt að reikna það út að þeir séu nálægt tvö þúsund hérna – miklu fleiri en allir íbúar Akureyrar!“ Nú renndi báturinn að lítilli trébryggju og feðgarnir bundu hann fastan og fóru svo að skima eftir ein­ hverjum sem þeir þekktu. Margt fólk var á ferli á bryggjunum í kring og á götu sem lá milli húsa. Jú, þarna komu þær hlaupandi – eða hvað? Jú, þetta voru mæðgurnar og um leið og þær hröðuðu sér fram bryggjuna kallaði Gunna systir: „Mikið erum við fegnar að sjá ykkur – við vorum svo áhyggjufullar að bíða eftir ykkur. Við erum búnar að skima eftir bátnum í tvo daga!“

21


22


Á nýjum stað Þau höfðu tekið á leigu lítið torfhús utarlega á eyrinni. Þar ætlaði fjölskyldan að vera til haustsins og ef sumarvinnan gæfi þeim góðar tekjur þá myndu þau sennilega kaupa sér hús til að búa í. Þetta var gamalt íbúðarhús með torfveggjum að utan en inni voru timburklæddir veggir. Þau hjálpuðust að við að ýta á undan sér kerru með farangrinum úr bátnum, systkinin, foreldrarnir og afi gamli. Þegar þau komu að húsdyrum birtist uppi á þakinu furðulegt dýr með skegg undir snoppunni og með band um hálsinn. Það horfði stóreygt á fólkið og fór síðan að háma í sig grængresið. „Hvaða furðuskepna er nú þetta – er hún með þakskegg eða hvað?“ spurði Siggi og lést vera steinhissa. „Þetta er auðvitað geit, kjáninn þinn,“ svaraði Gunna systir hlæjandi. „En hvað er hún eiginlega að gera þarna uppi á húsinu?“ „Það eru margir hér sem ala geitur heima hjá sér og þær eru svona – alltaf prílandi uppi á einhverju og helst vilja þær vera uppi í klettum og éta háfjallagrösin, eins og þú veist. En þessi geit er hér í tjóðri svo hún stökkvi ekki upp í fjall. Hún tilheyrir húsinu. Fólkið sem á húsið bað okkur fyrir hana og á meðan fáum við að mjólka hana – og þú ættir að vita hvað geitamjólkin er góð!“ Jæja, svona var þá lífið á þessum stað. Ef fólkið var ekki hálft ofan í síldartunnum þá eltist það við geitur upp um öll þök! Fjölskyldan gekk með bros á vör inn um lágar dyrnar á nýja heimilinu. En þrátt fyrir skemmtilega endur­fundi á góðum degi gat Siggi ekki bælt niður kvíða sem leyndist í huganum. Og sennilega hafa þau öll hugsað það sama og hann. Nú voru þau komin á nýjar slóðir. En hvar myndu þau eiga heima næsta vor? Yrði líf þeirra endalaus fátækt og flakk á milli staða? Þegar þau höfðu komið sér fyrir, raðað sínum fáu eigum inn í litla torfbæinn og sett verkfæri og tunnur út í skemmu sem stóð bakatil, þá gafst loks tími til að fara að líta í kringum sig á þessum sérkennilega stað.

23


24


Sunnudagur í síldarþorpinu Þorpið var lítið en mun fleira fólk var þar á ferli en Siggi hafði áður séð. Mörg torfhús og fallega máluð timbur­hús stóðu á eyri sem skagaði út í fjörðinn. Meðfram fjörunni stóðu síldarhúsin við mjóar bryggjur. Eyrin var eins og risastór lófi með sex fingur sem teygðu sig út í sjóinn þar sem allur skipafjöldinn lá. Háir fjalla­hnjúkar risu allt um kring. Rétt hjá litla torfheimili þeirra stóðu nokkur álíka hús, gömul og þreytuleg á að líta. Flestir íbúanna bjuggu í slíkum húsum. Skammt frá stóð þorpskirkjan – og nú á miðjum sunnudegi var þar messa – fullt út úr dyrum og sálmasöngur hljómaði um nágrennið. Prúðbúið fólk gekk fram og aftur eftir einu götu þorpsins. Konur í fínum kjólum, sumar í peysufötum, og nokkrir karlar í svörtum jakkafötum með hatt á höfði. En flestir vegfarendur voru ekki eins vel búnir þótt þeir væru í sínu fínasta pússi og þeir báru kaskeiti eða derhúfur. Norðmennirnir skáru sig úr í klæðaburði og þeir gengu um í hópum og töluðu hátt og hlógu dátt. Siggi heyrði að norskan var dálítið öðruvísi en danskan, sem hann þekkti vel frá Akureyri. Sums staðar var flaggað á húsum með danska fánanum, rauðum með hvítum krossi. „Það er allt svo hátíðlegt í dag,“ sagði Gunna, „núna er Jónsmessan og þetta er fyrsta helgin sem landlega er hjá Norðmönnunum, þeir eru nýkomnir yfir hafið. Og heimamenn eru mjög fegnir að sjá skipin þeirra aftur, þetta er fimmta sumarið þeirra hérna, en svo kemur haustið og þá fara þeir aftur heim og þá verður allt svo rólegt aftur og lítið um að vera.“ „Hvaða stóra hús er þetta þarna í fjörunni undir bökkunum?“ spurði Siggi og benti á rautt hús með bröttu þaki sem byggt var fram í sjóinn með langri bryggju fyrir framan. Þar blakti norski fáninn við hún og það var eins stórt og stærstu húsin á Akureyri. „Það heitir Róaldsbrakki, það er nýbyggt og var vígt í gærkvöldi og þar var mikil veisla og dansleikur á bryggjunni. Ég heyrði konu segja að hún hefði aldrei komið inn í stærra hús og þar séu rúm fyrir fjölda manns.“

25


26


Síldin söltuð „Heyrðu Gunna, þarna er krökkt af fólki og eitthvað að gerast, komdu við skulum sjá!“ Og systkinin hröðuðu sér að stórum vinnupalli þar sem margar konur á öllum aldri stóðu hálfbognar yfir síldarkös. Skip hafði komið með síld um nóttina og nú var verið að ljúka við að salta hana ofan í tunnur. „Þær eru búnar að standa við þetta í allan dag og hljóta að vera orðnar dauðþreyttar,“ sagði Gunna, og um leið og þau fylgdust með vinnunni lýsti hún fyrir bróður sínum hvernig þetta gengi fyrir sig. „Sjómennirnir moka síldinni í körfur eða stampa og bera þá upp eftir bryggjunni og hvolfa svo úr þeim hérna á pallgólfið. Sjáðu, konurnar beygja sig niður, grípa síldina og skera kverkina við hausinn með hnífum – það heitir að kverka – og um leið og þær raða þeim niður í tunnurnar þá strá þær salti yfir. Og svo þegar tunnurnar eru fullar þá draga karlarnir þær í burtu og koma með tómar í staðinn og meira salt. Þetta er nú það sem heitir síldarsöltun! Svona getur síldin geymst lengi í tunnunum sem góður matur.“ „Þetta hlýtur að vera mjög erfitt og þreytandi – þær vinna eins og þrælar og fá svo bara borgað með hveiti og sykri í versluninni, er það ekki?“ hvíslaði Siggi að systur sinni. „Nei, ekki aldeilis, það er greitt fyrir þetta með peningum, fyrir hverjar tvær tunnur fá þær jafn mikið borgað og karlarnir fá fyrir að vinna í klukkustund. Og sumar konurnar eru svo fljótar að þær fylla fjórar tunnur á tímann.“ „Þær hljóta þá að verða ríkar?“ „Nei, kannski ekki svo, síldin veiðist ekki alla daga og stundum hverfur hún í eina eða tvær vikur og þá hafa konurnar lítið að gera. En þessi vinna er mjög vinsæl og allar vilja vinna sem mest meðan síldin veiðist.“ „Og svona ætlar þá mamma að vinna í sumar, alveg eins og í fyrra?“ sagði Siggi. „Já, hún er búin að ráða sig í söltunina á Róaldsstöðinni þar sem veislan var í gærkveldi,“ sagði Gunna. „Og ég má hjálpa henni. Og kannski verðum við orðin forrík í haust og getum keypt okkur hús. Ég hlakka svo til að geta byrjað!“ „Ja, ég er feginn að vera ekki stelpa!“ sagði Siggi. Það var liðið að kvöldi þegar þau sneru heim í kotið.

27


28


Á bryggjunum Fljótt eftir komu þeirra til síldarfjarðarins hófust veiðarnar fyrir alvöru. Öll norsku skipin voru komin á miðin og um helgar fylltu þau næstum því fjörðinn. Og þegar bræla var, vont veður á miðunum, þá sigldu þau í skjól þar inni. Mamma vann flesta daga í síldinni og oft á næturnar líka. Það lá mikið við að nýta fiskinn meðan hann var glænýr og óskemmdur. Þetta var mikil og erfið vinna. En það gerði ekki mikið til meðan veðrið hélst gott og miðnætursólin skein – síldarstúlkurnar fengu líka góða hvíld af og til. Það sem mestu máli skipti voru launin sem þær fengu fyrir allt stritið. Siggi færði móður sinni og systur stundum mat að borða, brauðbita og kaffi í flösku. Hann hjálpaði þeim líka að leggja síldina ofan í tunnu en hafði annars nóg fyrir stafni að skoða sig um og fylgjast með öllu því sem var að gerast á staðnum. Hann var í slagtogi við stráka sem hann hafði kynnst. Þeim þótti gaman að fylgjast með skipunum sigla inn fullhlaðin af síld og aftur tóm út á miðin. Stór flutningaskip komu frá Noregi með tómar tunnur sem hlaðið var upp undir masturstoppa og svo sigldu þau sömu leið til baka með fullar lestar af níðþungum síldartunnum. Hrifnastir voru þeir strákarnir af nýju vélskipunum. Þá dreymdi um að verða sjómenn á svona glæsi­ legum og nýmáluðum stálskipum sem knúin voru áfram af stórum vélum í stað segla. Þarna voru meðal ann­arra Atlas og Albatros frá Stavangri og Skolma frá Hareid. Og strákarnir töluðu um að vélskipin myndu útrýma gömlu skútunum. „Það er svo hallærislegt að þurfa alltaf að bíða eftir að vindurinn blási til að komast áfram – og ekki má hann verða of hvass svo öll þessi segl skelli ekki skipunum á hvolf.“ „Haldiði að sé munur að setja bara vélina í gang og sigla svo í hvaða veðri sem er – jafnvel á móti vind­ inum! Ég vildi sko ekki vera sjómaður á svona gamaldags dalli!“ „Munið hvernig þetta er stundum þegar logn er á sunnudagskvöldum og vélskipin þurfa að draga fjórar og fimm og jafnvel sjö skútur í einni kippu út í vindinn utan við fjörðinn.“ „Þær eru orðnar svo gamlar og þreyttar að þær komast ekkert hjálparlaust – eins og blind gamalmenni!“ Svona töluðu þeir saman strákarnir á bryggjunni. Sigga fannst þeir skemmtilegir þótt hann væri ekki alveg sáttur við það síðasta sem sagt var.

29


30


Vippan Dag einn vappaði Siggi um bryggjurnar og hitti strákana, nýju félagana sína, þar sem þeir voru hlaupandi á tunnum. Siggi horfði á þá litla stund og spurði svo hvaða leikur þetta væri? „Þetta er tunnuhlaup,“ svaraði brúnhærður strákur sem var kallaður Jói. „Leikurinn gengur út á að standa á fullri síldartunnu og láta hana velta af stað og svo er kúnstin að komast sem hraðast án þess að detta. Og þannig keppum við um það hver sé fyrstur í mark. En við verðum að passa okkur að vera hérna bak við tunnu­stafl­ana svo að karlarnir sjái okkur ekki – þeir eru alltaf að reka okkur burtu. Þeir halda að við skemmum tunn­urnar eða rúllum þeim í sjóinn.“ Næsti leikur var tómtunnuhlaup. Strákarnir stigu upp á þessar léttu og kviku tunnur og áttu fullt í fangi með að hemja hraða þeirra og láta þær rúlla beina leið. Og þeir voru sífellt að missa jafnvægið og detta á bryggjuna en oftast komu þeir standandi niður – einstaka klaufi datt þó á rassinn og þá hlógu hinir dátt. Siggi reyndi sig á fullri tunnu en þar sem hann var nýr á staðnum og ekki eins fimur og heimastrákarnir þá hélt hann sig til hliðar og fylgdist með. Mest gaman hafði hann af Jóa sem var líflegur og gamansamur strákur. Þarna stóð Siggi við staur sem reis upp í loftið við bryggjubrúnina. Á efri enda hans var fest löng tréslá með kaðla á báðum endum sem notuð var við að hífa stampa og annan varning ofan í skip og upp úr þeim. Þetta hét vippa. Allt í einu kom Jói aftan að Sigga, greip utan um hann með kaðal í annarri hendi og hvíslaði: „Má ég ekki mæla hvað þú ert gildur?“ Án þess að bíða svars vafði hann kaðlinum utan um mitti Sigga og í sömu andrá sveif hann upp í loftið hangandi í vippunni. Í laumi höfðu strákarnir ákveðið að leika á hann og nú héldu þeir í kaðalinn á hinum enda vippunnar og ýmist toguðu í eða slökuðu á. Og Siggi sveiflaðist hátt upp og aftur niður og fram og aftur. Honum brá mjög og varð hræddur en áttaði sig fljótt á því að hann var ekki í neinni hættu. Kaðlarnir sterkir og strákarnir greinilega vanir þessum leik. Aldrei fyrr hafði hann fundið þessa kitlandi tilfinningu í maganum og huganum, að fljúga eins og fugl. Hann teygði út handleggina og fæturna og fannst hann vera múkkinn sem hann hafði fylgst með úti á hafi. Og áður en flugið tók enda létu þeir hann svífa út fyrir bryggjukantinn og taka ógnarlega dýfu niður að sjónum. Þegar hann hafði aftur fast land undir fótum á bryggjunni var hann fölur í framan og svolítið titrandi í hnjánum. Jói lagði hönd á öxl hans og sagði: „Fyrirgefðu hrekkinn vinur, við vissum að þú myndir þola þetta. Það er bara svo skemmtilegt að koma einhverjum að óvörum í þessum leik. Og nú skulum við sýna þér að við erum sjálfir óhræddir í vippunni.“ Svo fór Jói af stað og flaug með glæsibrag um loftið og náði í einni dýfunni að láta nefið á sér snerta sjó­ inn eins og kría sem goggar eftir æti. Þetta var einn af leikjunum sem fullorðna fólkinu var illa við. En bryggjurnar og sjórinn með öllum sínum hættum eru alltaf heillandi fyrir unga fólkið.

31


32


Sjóarar Þeir Siggi og Jói voru orðnir góðir félagar og brölluðu margt saman. Þeir komu einu sinni á bryggju þar sem lágu tvö skip. Verið var að salta úr öðru þeirra meðan hitt beið þar bundið, hlaðið síld. Skipshöfnin hvíldi sig fyrir þá miklu vinnu sem var framundan – að moka allri síldinni úr skipinu. Það var galsi í nokkrum úr áhöfninni og þeir höfðu gripið ýmiss konar verkfæri og þóttust spila á þau eins og hljóðfæri og sungu hástöfum skemmtilegt lag. En síldarstúlkurnar létu þessa kátu sjóara ekki trufla sig frá vinnunni þótt þær gæfu þeim auga og hefðu gaman af. Eftir tvö eða þrjú lög og nokkur dansspor í stafni skipsins kallaði einn þeirra í strákana og bauð þeim að skoða skipið. „Hei, god dag gutter!“ Hann reyndist vera vélstjórinn um borð, og hét Knut, vingjarnlegur maður sem sagðist eiga son heima í Noregi á svipuðum aldri og Siggi og Jói. „Jeg har en sönn heime i Norge som er tolv aar gammel.“ Svona talaði hann og drengirnir voru strax farnir að skilja þetta skrýtna tungumál. „Má vi komme om bord og kíkka á maskinen?“ sagði Siggi á sinni eigin norsku. Og það máttu þeir sann­ar­lega. Skipið hét Kirkjeholmen og var frá Álasundi. Í hvert sinn sem skipið kom til hafnar notuðu Siggi og Jói tækifærið til að fara um borð og hitta þennan nýja vin sinn, hann Knut. Og alltaf fengu þeir að líta niður í hlýtt vélarrúmið og skoða þessa fallega máluðu gufuvél sem var látin malla í hægagangi meðan skipið lá við bryggju. Og á eftir dró vélstjórinn þá inn í kokkhúsið og gaf þeim gómsætar kexkökur. Svo gerðist það um mitt sumar, Siggi og pabbi höfðu farið í róður á litla bátnum og þeir voru á leið til hafn­ ar, að það var kallað til þeirra frá einu síldarskipanna sem lá þar nærri. „Góðan dag, er það sem mér sýnist, er þetta ekki Ólafur Stefánsson?“ Við borðstokk gamallar skútu stóð sterklegur maður með ljóst hár og þykkt yfirskegg. Pabbi þekkti strax gamlan félaga sinn af hákarlaveiðunum, Sæmund Sæmundsson, skipstjóra á Hjalteyrinni. „Góðan dag, Sæmundur minn, langt síðan við höfum sést! Hvað rekur gamlan hákarladrápara hingað inn á sjálfan síldarfjörðinn?“ „Við höfum nú snúið okkur að síldveiðum á þeirri gömlu, hún er fær í flestan sjó þegar kemur að veiðiskapnum, lagsi minn, og hefur bara yngst upp við að kynnast síldinni,“ kallaði Sæmundur til baka. „Við erum hér inni vegna þess að einn manna minna veiktist,“ hélt hann áfram, „og við urðum að koma honum til læknis. Heyrðu annars, ertu ekki á lausu? Geturðu ekki skroppið með mér einn túr meðan læknirinn er að krukka í sjúklinginn?“ Svo var það fastmælum bundið að Ólafur færi eina veiðiferð á Hjalteyrinni og það sem meira var, Sigga bauðst að fara með ef hann gerði sér að góðu að sofa í sömu koju og pabbi hans. „Og hann getur örugglega orðið að einhverju liði um borð,“ hafði Sæmundur sagt.

33


34


Á miðunum Þeir feðgar bjuggu sig til ferðar í skyndi og stungu skjólfatnaði í poka, þetta gæti orðið vika eða kannski bara einn eða tveir dagar ef þeir lentu í góðri veiði. Þegar komið var út á síldarmiðin um miðja nótt var fjöldi skipa dreifður um hafið og sum svo langt í burtu að þau voru varla sýnileg. Sæmundur skipstjóri sagði að þarna væru auk norsku og íslensku skipanna, ensk skip, þýsk og sænsk. Flest veiddu síldina í reknet en önnur, og reyndar öll vélskipin, notuðu svokallaða snurpinót. Það var bjart að nóttu og sólin skein yfir hafinu og litaði allt bleikt og rautt. Mörg skipanna voru á hægri siglingu fram og aftur í leit að síld á meðan menn á öðrum skipum voru í óða önn að draga netin. Hjalteyrin var gömul hákarlaskúta með háum möstrum og búin miklum seglum til siglinga. En nýlega hafði verið sett í hana lítil vél sem hjálpaði til við siglingu í kyrrviðri. Og þarna lónaði hún seglalaus á hægri ferð með tvo nótabáta í eftirdragi. Nótabátarnir báru þetta stóra veiðarfæri sem nótin var, gríðarlega langt net sem náði djúpt niður í sjóinn. Tveir menn höfðu klifrað upp í reiða og skimuðu yfir hafflötinn eftir síldartorfu sem kæmi vaðandi upp í yfirborðið. Um miðja nótt fóru svífandi fuglahópar að sýna hvar torfur óðu og hvalir byltu sér í sjónum og virtust komnir í mikla matarveislu. Sæmundur stýrði í áttina að einni torfunni en fór varlega því fleiri skip voru á ferðinni og hvert þeirra vildi ná sínum skammti. Alltaf var nokkur keppni milli skipa að ná síldinni. Sæmundur kallaði fyrirskipanir til manna sinna: „Klárir í bátana! Það eru fuglar í veiðihug þarna á stjórnborða! Róið nú rösklega piltar og missið ekki af torfunni, hún er góð þessi! Og fælið svo hvalina í burtu!“ Skipverjar stukku ofan í nótabátana og gripu til áranna og reru fjórir hvorum báti kringum síldina meðan þrír létu nótina renna útbyrðis. „Þetta er kallað að kasta og svona umkringja þeir síldina með þessu risastóra neti okkar og draga það saman að neðan og loka þannig síldina inni – þá verður hún eins og súpa í skál og auðvelt að ausa henni upp,“ útskýrði Sæmundur fyrir Sigga. Hann stóð við stýrið og fylgdist áhugasamur með störf­um manna sinna. Veiðimennirnir höfðu hröð handtök og samtímis gættu þeir að smáhvölum sem syntu skammt frá. „Þessir háhyrningar gera okkur stundum lífið leitt – ef þeir lenda inni í nótarhringnum getur illa farið og þeir rifið veiðarfærið í sundur. En ég spái því að kastið verði gott í þetta sinn og nótin fyllist af demantsíld,“ kallaði Sæmundur glaður. „Demantsíld, hvað er það?“ spurði Siggi hissa því hann hafði heyrt áður að síldinni væri líkt við silfur og hún kölluð silfur hafsins. „Það er síldin þegar hún er stærst og feitust og glitrar í öllum regnbogans litum eins og dýrmætasti dem­ antur.“

35


36


Síldin veidd „Jæja, kastið tókst ágætlega!“ kallaði Sæmundur til manna sinna um leið og hann lét Hjalteyrina leggjast að nótinni sem sjómennirnir héldu fastri milli bátanna. Siggi hafði orðið eftir um borð í skipinu ásamt skipstjóranum og kokkinum. Þeir fylgdust spenntir með því þegar félagar þeirra náðu að loka síldartorfuna inni í nótinni – oft kom það fyrir að þeir misstu af allri síldinni og nótin var gjörsamlega tóm eftir allt erfiðið og var það kallað að búmma – sýnd veiði en ekki gefin. En nú hófst mikið verk að ná síldinni úr nótinni og upp í lest Hjalteyrarinnar. Menn voru kátir og kölluðu alls kyns gamanyrði á milli sín á meðan þeir notuðu stóran háf til að moka síldinni um borð. „Haldiði að sé nú munur að veiða alla þessa fagurlega glitrandi síld hér í morgunsólinni miðað við þann gráa hákarl í frosti og hríðarveðri!“ „Já, og allir verðum við ríkir af þessari blessaðri silfurskepnu. Verst að við skyldum ekki vera búnir að uppgötva það fyrr að hún væri svona verðmæt!“ Siggi fékk það hlutverk að telja hve oft háfurinn var tæmdur. Það var 107 sinnum og hann hugsaði að kannski væru 400 síldar sem steyptust úr háfnum í hvert sinn sem hann var losaður, þannig að þetta gátu verið um 40.000 síldar sem þeir höfðu veitt í einu kasti, eða 150 tunnur eins og aflinn var vanalega mældur. Þvílík mergð af fiski. Það þurfti ekki nema tvisvar sinnum þann afla til að allir Íslendingar fengju síld að borða. Og hann ímyndaði sér að skipið sigldi til allra staða á landinu og þeir gæfu hverju mannsbarni í matinn. En skipið var ekki ennþá fulllestað svo þeir héldu áfram að dóla um hafið í leit að annarri síldartorfu og skömmu eftir hádegi náðu þeir sæmilega góðu kasti og svo var Hjalteyrinni stefnt til hafnar með um 200 tunnur af nýveiddri síld til söltunar. Að löndun lokinni kvöddu þeir feðgar Sæmund og skipshöfn hans og voru hvíldinni fegnir þegar heim var komið. En þetta veiðiævintýri úti á síldarmiðunum var Sigga lengi ofarlega í huga. Ólafur, pabbi Sigga, hélt áfram að róa til fiskjar hvern dag sem gaf á sjó og fiskinn sem hann dró flatti hann og saltaði í gömlu sjóhúsi sem hann hafði aðgang að niðri á sjávarkambi. Afi gamli hjálpaði syni sínum við fiskverkunina og gætti að eigum þeirra. Þrátt fyrir blindu sína gat hann unnið ýmis létt og einföld verk og lærði fljótt að fara einföldustu leiðir um þorpið.

37


38


Í sjóinn Og fleira frásagnarvert gerðist þetta sumar. Í einni ferð sinni um borð í Kirkjeholmen, til vinar síns norska vélstjórans, varð Siggi fyrir óhappi. Hann var einn á ferð á hálum gönguplanka og hugsaði að nú yrði hann að fara varlega; ekki renna til og detta milli skips og bryggju. En honum skrikaði fótur og fyrr en varði var hann kominn á bólakaf í kaldan sjóinn. Honum skaut fljótt upp og hann saup hveljur af hræðslu og kulda en náði að fylla lungun af lofti áður en hann sökk á ný. Ótti og angist fyllti hug hans og hann sá mömmu sína fyrir sér . . . kannski sé ég hana aldrei aftur, og pabba og Gunnu og afa – þau sem honum þótti svo vænt um . . . hann var alveg að missa andann en samtímis og hann saup saltan sjóinn þá skaut honum upp – hann sogaði að sér loftið og kallað hóstandi: „Hjá – hjálp!“ Hann baðaði út höndum og fótum en hann kunni ekki að synda og hafði því enga stjórn á sér og enn sökk hann – en grynnra í þetta sinn. Og aftur kraflaði hann sig upp úr kafinu og tókst að grípa báðum höndum um slímugan og sleipan bryggjustaur og halda sér á floti – og hrópaði nú í dauðans ofboði: „HJÁLP! HJÁLP!“ Hann óttaðist að enginn heyrði í sér og hann myndi drukkna og sökkva til botns eins og steinn. Hend­ urnar runnu niður staurinn og hann var við það að fara á kaf. „Hjálp!“ Hann spyrnti fótunum niður um leið og hann náði nýju taki ofar á staurnum . . . það yrði leitað að honum og hann myndi kannski aldrei finnast . . . en skyndilega sá hann hvar höfuð vélstjórans birtist ofan við borðstokk skipsins og varð guðs lifandi feginn að vita að nú yrði sér bjargað. En skelfingin greip hann aftur þegar Knútur hvarf án þess að rétta honum svo mikið sem litlafingur til bjargar. Og andartök liðu, sem voru eins og heil eilífð. En vinur hans birtist aftur og hélt nú á langri tréstöng með járnkróki á sem hann rétti í áttina að Sigga. Hann greip í krókstjakann báðum höndum og var síðan dreginn hratt að skipshliðinni. Fleiri úr áhöfninni voru komnir til hjálpar og saman drógu þeir Sigga um borð. Þarna stóð nú drengurinn heimtur úr helju og af honum rann sjórinn svo stór pollur myndaðist á þil­ farinu. Og annar skinnskórinn hans týndur. „Hva ville du gjöre ned i sjöen?“ sagði einn skipverjinn. Og nú fóru allir að spyrja hann með bros á vör: „Var det en hval som du ville fange?“ „Eller var det kanskje en vakker havfrue som du ville besöke?“ Heimsækja fallega hafmeyju! Það skildi Siggi og honum fannst hann verða að svara þessu gríni þó hon­ um væri ekki hlátur í huga svona hundblautur og hríðskjálfandi. „Nei, það var síld – þið þurfið ekki að sigla langt út á haf til að veiða síldina – það er stór torfa hérna undir skipinu sem þið getið háfað beint upp á bryggju til síldarstúlknanna.“ Þegar sjómennirnir höfðu áttað sig á því sem drengurinn sagði þá fóru þeir að hlæja. Síðan kvöddu þeir hann með þeim orðum að Siggi yrði að flýta sér heim og segja frá þessari svaðilför sinni – og hann yrði að læra að synda, það væri lífsnauðsyn.

39


40


Í eldhúsinu heima „Jæja, þannig fór um sjóferð þá, kallinn minn,“ sagði mamma eftir að hafa hlustað á frásögn Sigga. Hann stóð holdvotur í dyrunum, enn rann af honum saltur sjórinn og það var hrollur í honum þrátt fyrir að hafa hlaupið eins og fætur toguðu. Honum fannst eins og enn væri sjór í augunum og saltir dropar höfðu runnið niður kinnarnar meðan hann sagði mömmu sinni hvað hafði gerst. „Þú verður að fara varlega, drengur minn.“ „Ég fór varlega, göngubrúin var bara svo sleip.“ „Ég veit það, vinur – en í guðanna bænum gættu þín alltaf, hvar sem þú ferð, slysin gera ekki boð á undan sér. Bryggjurnar eru mjög hættulegar börnum.“ Það var hlé á síldveiðunum og því var mamma heima. Afi sat á stólkolli í eldhúsinu með kaffibolla í hendinni. Gunna stóð hjá og horfði á bróður sinn stóreygð. „Að sjá þig – þú ert eins og hundur af sundi dreginn. Það er eins gott að þú eigir einhverja leppa til skiptanna!“ gall í henni. Þegar Siggi var kominn í þurr föt, sat hann við funheita eldavélina og sötraði volga geitamjólk. Afi fór að segja þeim frá svaðilförum sem hann hafði lent í. Eins og þegar hákarlaskip sem hann var háseti á strand­ aði undir klettum og einn úr áhöfninni stakk sér í öldurnar og synti í land með kaðal sem varð til þess að þeir gátu dregið hver annan upp í fjöru og bjargast. Mamma var alvarleg í bragði og vildi ekki hlusta á fleiri sögur. „Mér finnst það alveg nóg að þurfa að hafa áhyggjur af pabba ykkar úti á hafi á þessari litlu bátkænu hans – að ég þurfi ekki líka að vera hrædd um þig alla daga, drengur. Þú verður að gæta þín. En þú skalt fara aftur niður á bryggjur sem fyrst – nú þekkir þú hætturnar betur en áður.“ „Já, enginn lærir nema hann lendi í einhverju – reynslan er besti skólinn,“ sagði afi. „Og mundu að þegar lífsháskinn er nærri þá er gott að fara með faðirvorið. Sei sei já, það er nú líkast til.“ „Og kunna að synda,“ bætti mamma við.

41


42


Síldin pækluð Það var komið fram í ágúst þegar Sigga og Jóa tókst að fá vinnu á söltunarstöðinni hjá Róald. Það var alltaf þörf fyrir stráka að vinna alls kyns létt störf – og það var í fyrsta sinn á ævinni sem Siggi vann sér inn pening! Vinnan var fólgin í því að pækla síldartunnur frá morgni til kvölds og þegar flutningaskipin komu þá tóku þeir þátt í útskipun eins og það heitir. Þá voru þeir og fleiri unglingar látnir velta tunnum fram bryggj­ una að skipshlið. Þaðan voru þær hífðar um borð og raðað ofan í lestina. Mörg þúsund tunnur í hvert skip. Að pækla var að hella pækli, sterku saltvatni, ofan í lítið gat á hverri tunnu sem var svo lokað með tappa – það var vinnan þeirra. Með þeim vann fullorðinn maður sem sló botna í tunnurnar með verkfærum sem hétu dixill og drífholt. Og stór strákur velti tunnunum til og frá – en þetta var gert til þess að síldin verkaðist rétt og yrði góður matur. Strákurinn hét Andrés og var 16 ára, langur og mjór og mjög hress náungi sem var sífellt að segja skemmtil­egar sögur af skrýtnu fólki á staðnum og þeir hlógu mikið, sérstaklega þegar hann fór að tala norskuna. Ein saga Andrésar þótti Sigga merkileg þótt hún væri ekkert sérstaklega fyndin. „Það var fyrir nokkrum árum, þá var ég tólf ára,“ sagði Andrés og settist klofvega á eina tunnuna. „Það eru bara fjögur ár síðan og þorpið hérna var þá mjög lítið, það voru svo fá hús að það var varla hægt að kalla þetta þorp. Þá var fyrsti síldardagurinn og ég man hann eins og það hefði verið í gær.“ „Þetta var vorið 1903,“ bætti dixilmaðurinn við. Hann lagði frá sér verkfærin og settist á tunnu hjá þeim. „Þá kom ókunnugt seglskip siglandi inn fjörðinn sem reyndist vera norska skonnortan Cambria. Asskoti stórt skip. Hún var full af timbri og tunnum. Öllu var varpað útbyrðis í sjóinn og síðan dregið upp í fjöru.“ „Við strákarnir hjálpuðum til við að raða tunnunum og spýtunum ofan við fjörukambinn og við vorum nokkra daga að þessu og svo fengum við borgað með peningum,“ sagði Andrés. „Og það voru svo miklir peningar að við urðum að moka þeim upp í tunnu og fengum svo Jón hérna dixilmann til að loka henni og grófum hana síðan í jörð. Og nú eigum við fjársjóð á földum stað. Silfurpeninga í tunnu!“ Siggi og Jói horfðu hvor á annan – þá grunaði að sagan væri nú ekki alveg sönn.

43


44


Brúnu seglin Piltarnir sátu á tunnum og hlustuðu á söguna af síldardeginum fyrsta. „Svo sigldi Cambria burt en eftir urðu þrír norskir smiðir sem fóru strax að smíða geymsluhús, sölt­ unarpall og bryggju,“ sagði dixilmaðurinn, lyfti húfunni og strauk hendi gegnum hárið. „Við guttarnir vorum alltaf að sniglast í kringum Norsarana, hjálpa þeim og forvitnast um það til hvers þeir væru að þessu,“ hélt Andrés áfram. „Hvordan skal brúka húsið og bryggjen? – Skal hér vera ein hvalstasjón?“ spurðum við og þóttumst vera að tala útlensku. „Nei, nei – það er aldeiles ikke for hvalinn, – nei, nei – hér skal vere hafsins sölv! – tunner í túsundvis skal fyllast upp med þessu dýrmæta sölv!“ hélt hann áfram á sinni bjöguðu norsku. „Ha, silfur? Hvað voru þeir að tala um? Fylla mörg þúsund tunnur af silfri? Við héldum að þeir væru að gera grín að okkur.“ „Nei, vorir islandske venner, nær húset og bryggjen verða tilbúen byrjer eitt nýtt æventyr! Norske skip­ er har fundið ein sölv-náme úte på havet!“ „Við vissum ekki hverju við áttum að trúa – að þeir hefðu fundið silfurnámu úti í hafi? Silfur- og gull­ námur voru bara í fjöllum í útlöndum, það vissum við, en ekki niður á hafsbotni – hvernig var þetta hægt?“ Nú greip dixilmaðurinn inn í frásöguna: „Við vissum það náttúrlega að Norðmennirnir voru að tala um síld og að þeir kölluðu hana silfur hafsins. Þeir ætluðu að veiða svo mikið af síldinni að henni yrði landað hér og hún söltuð ofan í tunnur. Allar þessar tunnur yrðu fylltar af silfri hafsins. Svo kláruðu þeir bryggjuna og húsið og allir biðu eftir fyrstu síldinni og við horfðum stöðugt til hafs í von um að fyrsta síldarskipið færi nú að láta sjá sig. Alltaf voru einhver skip að sigla framhjá en það voru bara stór flutningaskip með hvítum seglum eða vélskip með kolsvörtum reyk upp í loftið, þessi frábæru nýju vélskip. Við höfðum frétt að síldarskipið væri lítil, gömul skúta og það mætti þekkja hana á brúnum seglum hennar.“ Og nú hélt Andrés áfram: „Einn daginn fengum við, guttarnir, lánaðan árabát og rerum út í fjarðarkjaftinn, en ekkert sást til skipsins. Loks birtist það, fyrst pínulítill depill á hafinu sem smá stækkaði, brúnu seglin og þau stefndu beint inn fjörðinn. Við hlupum milli húsa og hrópuðum eins hátt og við gátum: Síldarskipið er að koma, síldarskipið er að koma!“ „Það fór ekki framhjá neinum hvað var að gerast,“ sagði dixilmaðurinn. „Og allir flykktust niður að bryggju þegar skipið lagðist að. Tíu konur voru tilbúnar í söltunina þegar Norðmennirnir báru fulla síldar­ stampa á milli sín upp bryggjuna. Svo þurfti að kenna þeim handtökin en þær komust fljótt upp á lagið blessaðar og þegar fyrstu tunnurnar fylltust klöppuðu allir. Um kvöldið var búið að salta í sextíu tunnur og þegar síldarstúlkurnar höfðu þvegið af sér slorið þá fengu þær borgað fyrir vinnuna – og hugsið ykkur, þær höfðu ekki margar haldið á peningum í hendi sér fyrr!“ „Það var óskaplega gaman þennan dag, þetta var 8. júlí 1903, fyrsta síldardaginn!“

45


46


Kátt á bryggjunni Lífið á síldarbryggjunum var ekki bara endalaus vinna. Því fengu Siggi og Gunna systir hans, að kynnast. Þau höfðu heyrt talað um dansleikina þegar Norðmennirnir stormuðu upp úr skipum sínum með harmoniku og fiðlu og slógu upp balli á einhverri bryggjunni – stundum á tveimur bryggjum samtímis. Og eitt kyrrlátt laugardagskvöldið barst hljóðfærasláttur að litla torfhúsinu þeirra og það mátti greina að hafinn var dansleikur á Bakkevigsbryggjunni. Systkinin fengu leyfi foreldra sinna til að skreppa smástund niður eftir til að fylgjast með gleðskapnum. Og það höfðu fleiri gert, fólk hafði hópast að heiman til að horfa á eða taka nokkur dansspor með norsku síldarsjómönnunum. Mannfjöldi stóð á bryggjunni og í fjörunni í kring. Innst í hringnum spilaði harmonikuleikari sem sat á tunnu og fiðluleikari steig sporið með hljóðfærið sitt. Hópur fólks dansaði um bryggjuna. Piltarnir héldu utan um stúlkurnar og allir snerust í hringi í takt við fjöruga tónlistina. Nýjustu norsku danslögin sem öllum þóttu svo skemmtileg og norsku herramennirnir, svo fallega klæddir, kenndu íslensku dömunum að stíga nýja dansa – og þær voru fljótar upp á lagið og pilsin þeirra sveifluðust eins og segl í vindi. Norðmennirnir sungu söngva sína og sumir Íslendingar tóku undir með sínum hætti. Sænski Kostervalsinn var vinsælasta lagið á bryggjunum sumarið 1907. Komdu í kostervals, í kvöld er ég búinn til alls. Leggjum hönd í hönd og herðum svo vináttubönd. Dansinn dunar glatt og dansa því skulum við hratt. Ég er þinn og þú ert eilífðarengillinn minn.

Káta fagra mey frá Kosterey, kyssir þú mig ekki víst ég dey. Eykst mér ást og þor óðum við hvert spor, getum við gifst í vor?

Systkinin stóðu uppi á tunnuhlaða og horfðu yfir skemmtistaðinn. Þau vildu ekki fara nær því þau höfðu lofað því að staldra ekki lengi við og mamma þeirra hafði sagt að sumir þessara útlendu sjóara gætu verið varasamir ungum stúlkum þótt þeir væru fínir í tauinu og kurteisir. Skammt frá þeim stóðu nokkrir íslenskir karlmenn og horfðu svipþungir yfir á bryggjuna. „Kosterey … víst ég dey! – þetta er ljóta bölvaða vitleysan sem þeir syngja – og að þessum huggulegu stúlkum okkar skuli finnast eitthvað varið í þetta déskotans bull!“ „Getum við gifst í vor! Ljóta ruglið! Og þessir fíflalegu dansar!“ „Nei, nú skulum við heldur kveða með okkar gamla góða íslenska nefi og stríða þeim svolítið!“ Hani, krummi hundur svín, hestur, mús, tittlingur. Galar, krunkar, geltir, hrín, gneggjar, tístir, syngur.

47


48


Vetur og vor Sumarið leið, þetta fyrsta sumar Sigga og fjölskyldu hans í síldarfirðinum. Um haustið, þegar norsku skipin voru farin og aftur var orðið rólegt í þorpinu, keyptu foreldrar hans lítið timburhús í fjallshlíðinni ofan við eyrina – og þau kölluðu það Brekkuhús. Það var mjög lítið, eldhús, stofa og tvö herbergi. Heimilið var ekki bara íbúðarhús þeirra – þar var lítið fjós fyrir eina kú og fjárhús með grjótveggjum og torfþaki, hálfgrafið inn í brekkuna. Allt hafði gengið svo vel hjá þeim og draumurinn rættist: Pabbi þeirra keypti tólf kindur og nokkrar hænur. Það varð að duga til að byrja með og afi gamli annaðist skepnurnar. Eftir þetta ættu þau nægan mat allt árið um kring, saltað og reykt lambakjöt, slátur, egg og mjólk. Að auki dró faðirinn fisk til heimilisins sem ýmist var saltaður, siginn eða hertur. Langur vetur var liðinn. Systkinin höfðu gengið í skóla og það var nokkuð langa leið að fara, sérstaklega í dimmu hríðarveðri, en þær ferðir urðu oft að skemmtilegri skíðagöngu. Og þar sem veturinn færir allt á kaf í snjó og ekki sér til sólar í margar vikur, þar er vorkomunni fagnað af sérstakri gleði. Skólinn var búinn og morgunsólin skein yfir fjallahnjúkum og fyrstu gulu fíflarnir voru farnir að vaxa sunnanundir húsveggjum þar sem dýpstu snjóskaflarnir höfðu verið skömmu áður. Fuglar sem flogið höfðu til útlanda um haustið voru komnir aftur og fylltu loftið af glaðværum söng og allt bar með sér að nýtt sumar væri í nánd. Sumar með síld og meiri síld og mikla vinnu sem létti áhyggjum af fullorðna fólkinu. Siggi og Gunna sátu hvort á sínum steininum í heitri vorsólinni og léku sér við hund og kisu sem þau höfðu eignast. Og þau töluðu um það hve gott væri að búa á þessum stað. Hér hefðu foreldrar þeirra næga vinnu og þau sjálf fengið að sjá og reyna margt sem þau höfðu ekki kynnst fyrr. Líf þeirra hafði sannarlega breyst mikið síðan þau fluttust hingað. Þorpið á eyrinni var líka sífellt að breytast. Fleira fólk eins og þau fluttist á staðinn og ný hús risu og hamarshögg bárust frá nýjum bryggjum í smíðum. Fyrstu norsku skipin voru komin yfir hafið, fá síldar­skip enn sem komið var en nokkur stór flutningaskip hlaðin byggingatimbri og tómum tunnum. Hundrað þúsund tunnur yrðu settar á land í vor og fljótlega færu síldveiðarnar að hefjast með mikilli vinnu, næturvökum og örugglega einhverjum skemmtunum. Enn eitt síldarsumarið var að byrja.

49



Efnisyfirlit Frá Eyjafirði ....................................................... 5 Róið af stað ........................................................ 7 Byr í seglin ......................................................... 9 Skepnan stóra .................................................. 11 Spáð stormi ...................................................... 13 Fátækt fólk ....................................................... 15 Draumur um betra líf ..................................... 17 Síðasti áfanginn ............................................... 19 Endurfundir .................................................... 21 Á nýjum stað ................................................... 23 Sunnudagur í síldarþorpinu .......................... 25 Síldin söltuð ..................................................... 27 Á bryggjunum ................................................. 29 Vippan ............................................................. 31 Sjóarar .............................................................. 33 Á miðunum ..................................................... 35 Síldin veidd ..................................................... 37 Í sjóinn ............................................................. 39 Í eldhúsinu heima ........................................... 41 Síldin pækluð .................................................. 43 Brúnu seglin .................................................... 45 Kátt á bryggjunni ............................................ 47 Vetur og vor .................................................... 49

51


Saga úr síldarfirði

segir frá Sigga sem 12 ára gamall flyst ásamt fjölskyldu sinni til Siglu­fjarðar í upphafi síðustu aldar. Þar bíður ný framtíð þeirra sem áður sáu ekki aðra leið út úr ógöngum og sárri fátækt en að flytja til Vesturheims í von um betra líf. Tilvera Sigga tekur stakkaskiptum – en það er ekki einfalt að byrja upp á nýtt á ókunn­­­um stað. Þessi örlagasaga byggir á raunverulegum atburðum sem lesa má um á vef Síldarminjasafns Íslands.

Örlygur Kristfinnsson, myndlistarmaður og safnstjóri Síldarminjasafnsins, segir í þessari bók sögu sem kemur okkur við. Hann segir okkur hvernig síldar­bær varð til – iðandi af lífi með alþjóðlegum blæ – þar sem silfur hafsins var gjaldmiðillinn sem greiddi dugmiklu alþýðufólki leið úr örbirgð til bjargálna og breytti íslensku samfélagi á undraskömmum tíma.

9 789935 432223

Mynd­­skreytingar Örlygs fullkomna verkið og tendra í frásögninni liti og líf.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.