Benedikt Sigurðsson: Síldarsöltunarstöðvar á Siglufirði

Page 1

BenediktSigurðsson

Síldarsöltunarstöðvar aSiglufirði

© Börn Benedikts Sigurðssonar 2024

Ritvinnsla og umbrot: Benedikt Sigurðsson, Ólöf og Eva Benediktsdætur, Baldur Sigurðsson Birting netútgáfu: Síldarminjasafnið á Siglufirði

Mynd á kápu: Á Bakkaplaninu. Olíumálverk eftir Freymóð Jóhannsson (1895–1973)

Bók þessa má eigi afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan hátt, að hluta eða í heild, án leyfis handhafa höfundarréttar

FORMÁLSORÐ AÐ NETÚTGÁFU

Handritið „Síldarsöltunarstöðvar á Siglufirði“ samdi faðir okkar, Benedikt Sigurðsson (1918–2014), að tilhlutan Hreins Ragnarssonar sagnfræðings og Gunnars Flóvenz framkvæmdastjóra, til undirbúnings útgáfu á ritinu Silfur hafsins, gull Íslands – síldarsaga Íslendinga, sem Nesútgáfan gaf út árið 2007. Stytt samantekt Hreins eftir handritinu birtist í ritinu í kaflanum „Söltunarstaðir á 20. öld“ þar sem fjallað var m.a. um Siglufjörð. Í þeirri bók eru auk þess tveir kaflar eftir föður okkar undir hans nafni, þ.e. „Síldarmat“ og „Tunnusmíði“.

Að baki samningu handritsins lá mikil heimildavinna. Í bréfi sem faðir okkar skrifaði Hreini Ragnarssyni við skil á handritinu 4. nóvember 1992 stendur m.a. „Ég lít á minn þátt í þessu verki fyrst og fremst sem heimildasöfnun og skráningu fróðleiks undir verkstjórn, en að sjálfsögðu ber ég ábyrgð á mínum hluta.“ Þótt handritið hafi sem slíkt ekki verið útbúið til útgáfu af hendi höfundar, finnst okkur ástæða til að gera það aðgengilegt í heild sinni. Faðir okkar afhenti á sínum tíma Síldarminjasafninu handritið til afnota innan sinna veggja og er það varðveitt útprentað þar og einnig í fórum okkar, óbreytt eins og hann skildi við það.

Í fyrsta hluta handritsins er ítarlegur inngangur um upphaf síldarvinnslu á Siglufirði á síðustu öld. Síðan er kafli sem inniheldur umfjöllun um söltunarstöðvarnar hverja fyrir sig fram til 1934 og þriðji hlutinn um stöðvarnar eftir 1934. Af áðurnefndu bréfi má ráða að þessi uppskipting hafi verið ákveðin af ritstjórninni í upphafi verksins, en því var reyndar breytt áður en að útgáfu kom. Í bréfinu kemur einnig fram sú skoðun föður okkar að eðlilegast hefði verið að hafa umfjöllun um hverja stöð samfellda, og ákváðum við því að sameina þessa hluta í netútgáfunni. Að öðru leyti eru fyrstu kaflar handritsins birtir hér óbreyttir, nema nokkrar endurtekningar voru fjarlægðar við sameininguna og smávægileg samræming varðandi tilvísanir og uppsetningu var gerð og heimildaskráin var uppfærð. Bætt var við ítarlegum lista yfir nöfn manna, fyrirtækja og staða með vísun í blaðsíður.

Fjallað er um stöðvarnar frá norðri til suðurs, og er númeraröð stöðvanna í samræmi við uppdráttinn fremst í handritinu. Líklegt er að faðir okkar hafi stuðst við eldri uppdrætti við gerð hans, og bætt við afstöðu lóðanna eins og þær voru leigðar út í upphafi síðustu aldar.

Aftan við umfjöllun um söltunarstöðvarnar í upprunalega handritinu er langur kafli sem nefnist Síldarfólkið, en síðasta hlutann kallaði hann Viðbótarkafla, stuttar greinar um fólk og fyrirtæki sem höfundur aflaði sér á langri leið. Í samráði við starfsfólk síldarminjasafnsins var ákveðið að láta kaflann um síldarfólkið og viðbótarkaflana úr upphaflega handritinu einnig birtast á vef safnsins.

Með þessum breytingum birtist handritið nú á vef Síldarminjasafnsins á Siglufirði, og er það ósk okkar að það megi verða til gagns og fróðleiks fyrir sem flesta sem áhuga hafa á sögu Siglufjarðar og síldarinnar.

Reykjavík, 15. febrúar 2024

Ólöf Benediktsdóttir

Valgerður Edda Benediktsdóttir

Eva Benediktsdóttir

Magnús Vagn Benediktsson

Sigurður Benediktsson .

3

SÖLTUNARSTÖÐVAR Á SIGLUFIRÐI

Kortið á næstu síðu er mjög lauslegt afstöðuriss af legu sjávarlóðanna sem söltunarstöðvarnar voru byggðar á í upphafi, og má ekki líta á hana sem nákvæman uppdrátt af kaupstaðarsvæðinu né mannvirkjum í bænum.

Nánari fróðleik er að finna í köflunum um stöðvarnar.

1. Ytri Bakkastöðin. Lóðir sem Pétur Thorsteinsson fékk 1915 og 1916

2. Goos-stöðin í Bakka. Lóðir sem Sören Goos fékk 1914 og 1915.

3. Ásgeirsstöð við Hvanneyrarkrók. Ásgeir Pétursson fékk austurhluta lóðarinnar 1917 og vesturhlutann, að lóð Goos sama ár eða skömmu síðar.

4. Lúðvíksstöð. Lóðin leigð 1916.

5. Söltunarstöð Árna Böðvarssonar. Lóðin leigð 1916.

6. Söbstadslóðin, samkvæmt lóðarsamningi frá 1905, sem virðist hafa verið staðfesting og nánari útfærsla á samningi frá 1903. Syðsti hluti hennar, frá punktalínunni, er ræma sem Söbstad fékk 1907 norðan af lóð Bakkevigs; nákvæma vitneskju um stærð hennar vantar.

7. Bakkevigsstöðin. Lóðin leigð 1905. Hluti hennar var framleigður Söbstad 1907.

8. Ásgeirsreitur Lóð sem Ásgeir Pétursson fékk 1906.

9. Henriksensstöðin. Leigð 1903.

10. Wedinsstöð\Búðarreitur. Lóðin fyrst leigð Bendik Mannes 1903.

11. Gránufélagslóðin. Fyrst leigð 1911. Skiptist í fjórar söltunarlóðir.

12. Gooseignin. Sigurður H. Sigurðsson fékk austurhluta hennar leigðan 1906 og Helgi Hafliðason vesturhlutann 1911. Goos fékk leigusamning um alla spilduna 1911 og hefur síldverkun á henni líklega ekki byrjað fyrr en eftir það.

13. Halldórsstöð. Leigð 1911.

14. Jacobsensstöð. Leigð 1911.

15. Kveldúlfsstöð. Leigð 1911.

16. Alliance-lóðin. Leigð 1912. Skiptist seinna í tvær stöðvar.

17. Lóð Helga Hafliðasonar. Leigð 1912.

18. Tynesarstöðin. Þinglesin lóðarréttindi Tynesar á þessum lóðum, sem eru úr landi Hafnar, eru frá árunum 1913-1922. Tynes fékk seinna svonefnda Bakkevigslóð á sandinum vestan við stöðina, sem var í Hvanneyrarlandi, og byggði þar stóra söltunarpalla. Spildan skiptist seinna milli margra aðila.

19. Malmquiststöð. Hluti af lóðaspildu sem Tyneshjónin fengu úr Hafnarlandi.

20. Friðrik og Einar Einarssynir. Leigð 1911.

21. Snorrastöð/Antonsstöð. Leigð 1909.

22. Roaldsstöð. Lóðarsamningur frá 1909. Skiptist seinna.

23. Ásgeirsstöð undir Hafnarbökkum. Leigð 1912, framleigð Ásgeiri Péturssyni 1913.

24. Timburhólminn (Anleggið). Lóðin leigð 1915/1.1916

25. Evangerstöðin.

4
6 EFNISYFIRLIT Formálsorð að netútgáfu.................................................................................................................... 3 Söltunarstöðvar á Siglufirði 4 INNGANGUR....................................................................................................................................... 8 SÖLTUNARSTÖÐVAR......................................................................................................................... 14 1. Ytri Bakkastöðin/Bakkastöðin 14 2. Goos-stöðin í Bakka.................................................................................................................. 18 3. Ásgeirsstöð við Hvanneyrarkrók .............................................................................................. 19 4. Lúðvíksstöð 20 5. Söltunarstöð Árna Böðvarssonar ............................................................................................. 22 6. Söbstadslóðin........................................................................................................................... 23 Stöð Söbstads 23 Pólstjarnan/Hafglit................................................................................................................... 25 7. Bakkevigsstöðin 28 8. Ásgeirsreitur /Jarlsstöð (Óskarsstöð) 32 9. Henriksensstöðin...................................................................................................................... 35 10. Wedinsstöð/Búðarreitur 37 11. Gránufélagslóðin og Gooseignirnar 40 Gránufélagsbryggjan................................................................................................................ 41 Íslandsfélagsbryggja/Hafliðabryggja 41 Borðeyrarbryggja..................................................................................................................... 42 Goos-bryggjurnar /Tangabryggja og Litla Jacobsensbryggja 42 Hafnarbryggjan ........................................................................................................................ 43 12. Goos-eignin ............................................................................................................................ 45 13. Halldórsstöð 47 14. Jacobsensstöð ........................................................................................................................ 49 15. Kveldúlfsstöð.......................................................................................................................... 52 16. Alliance-lóðin 55 Jacobsens/Hjaltalínsstöð ......................................................................................................... 55 Ísafold 56 17. Helgareitur /Alfonsstöð.......................................................................................................... 57 18. Tynesarstöðin......................................................................................................................... 59 Bátastöðin 60 Dröfn hf.................................................................................................................................... 60 Reykjanes hf. 61 Sunna hf................................................................................................................................... 61 Óskarssíld hf. 62
7 19. Malmquiststöð/Þóroddarplan 63 20. Friðrik og Einar Einarssynir / Kallastöð .................................................................................. 65 21. Snorrastöð/Antonsstöð 66 Antonsstöð .............................................................................................................................. 66 Ingvarsstöð 67 22. Roaldsstöð 69 Skafti Stefánsson og Söltunarstöðin Nöf................................................................................. 69 Jón Loftsson 70 Njarðarstöðin........................................................................................................................... 71 Gísli J. Johnsen /Frystihús Ásgeirs Péturssonar / Ísfirðingaplanið 71 Magnús Blöndal /Bein ............................................................................................................. 72 23. Ásgeirsstöð undir Hafnarbökkum/Syðsta stöðin ................................................................... 74 24. Anleggið (Timburhólminn) 76 25. Evangerstöðin ........................................................................................................................ 80 Heimildaskrá..................................................................................................................................... 82 Prentuð rit, blöð og bækur: 82 Óprentuð rit og skjöl:............................................................................................................... 83 Heimildarmenn sem nefndir eru í tilvísanaskrám: 83 Skammstafanir:........................................................................................................................ 83 Nafnaskrá 84

INNGANGUR

Þegar síldveiðar Norðmanna á djúpmiðum fyrir Norðurlandi hófust upp úr aldamótunum 1900 varð Siglufjörður aðalbækistöð þeirra og eftir það síldarhöfuðstaður landsins í meira en hálfa öld. Þessu réði lega fjarðarins og góð hafnarskilyrði.

Fjörðurinn skerst inn í útskaga fyrir miðju Norðurlandi. Dalagrunn vestan fjarðarmynnisins og Siglunes ásamt Hellugrunni að austan mynda þröskuld sem brýtur úthafsrótið. Milli grunnanna liggur mjór áll inn á fjörðinn, hvergi dýpri en 10–12 faðmar. Inni á firðinum geta hundruð skipa legið í öruggu vari í flestum veðrum á 10–20 faðma dýpi. Viti var byggður á Siglunesi 1908 og innsiglingarviti á Selvíkurnefi 1911.

Fyrir fjarðarbotninum eru leirur sem að mestu fjarar af í stórstraumi. Innarlega í firðinum liggur eyri til austurs. Upphaflega hefur hún líklega heitið Hvanneyri en er nú ýmist nefnd Þormóðseyri eða Siglufjarðareyri. Sunnan hennar, að marbakka við leirurnar innst í firðinum, er dálítil vík eða pollur þar sem lítil skip gátu legið í vari.

Í aldarbyrjun voru á austan- og norðanverðri eyrinni þrjár allstórar tjarnir, eftirstöðvar af sjávarlónum, sem náðu saman í bleytutíð og eftir stórbrim. Fjörukamburinn á þessu svæði var rif á milli tjarnanna og sjávar. Norður af eyrarhorninu gekk svonefnt Hvanneyrarrif alllangt fram. Áður en öldubrjóturinn var byggður var algengt að skip og bátar festu sig á rifinu. Fjöldi smátjarna var um alla eyrina. Áður en vörubílar komu til sögunnar á fjórða áratugnum var lítið fyllt upp, helst húslóðir og vinnusvæði. Hestar og sleðar voru mest notaðir við þær framkvæmdir. Uppfyllingarefnið var aðallega sótt í gryfjur við fjallsræturnar upp af sunnanverðri eyrinni.

Eyrinni og hafnarsvæðinu hefur verið gerbreytt með uppfyllingum og uppgreftri. Sjór náði upp að Hafnarbökkum langt fram eftir öldinni. Eyrin sunnan við pollinn var mynduð eftir miðja öldina með járnþili við marbakkann, sorpkeyrslu á leirurnar sunnan við og uppfyllingu þar ofan á. Fram yfir 1930 náðu báruskvettur stundum upp á Hafnargötu. Sunnan á eyrinni var breið leir- og sandfjara sem náði langleiðina upp að Gránugötu. Þar féll til sjávar svonefndur Álalækur, sem kom ofan úr fjallinu rétt norðan við Eyrargötu og rann þaðan til vesturs þar sem nú er Lækjargata.

Sunnan eyrarinnar er var fyrir fjarðaröldunni er fremur aðgrunnt. Þar var 6–8 feta dýpi við bryggjuhausana lengi talið viðunandi. En skipin stækkuðu og jafnframt grynnkaði við bryggjurnar. Lenging þeirra jók þrengslin á pollinum því þær stefndu út að miðju hans, þar sem þó var aðeins 12–14 feta dýpi. Í pollinum lágu lengi skipsflök frá fyrstu árum Norðmannatímans, þrjú á skipaleiðinni og nokkur suður við marbakkann. Árið 1912 kröfðust bæjaryfirvöld þess að þeir sem ábyrgð bæru á fimm hættulegustu flökunum, Tynes, Wedin, Söbstad, Bakkevig og Helgi Hafliðason, fjarlægðu þau eða gerðu þau hættulaus á annan hátt (1). Síðla árs 1915 hafði þó ekkert verið aðhafst í þá átt (2) og 1927 var hættulegasta flakið loks sprengt sundur fyrir atbeina hafnaryfirvalda (3). Í pollinum bar lengi lítið á trjámaðki og sjávargróðri, og hefur mengun líklega verið orsökin. Fyrstu dýpkunartækin komu til Siglufjarðar 1919 á vegum Ole Tynes (4).

Austan eyrarinnar er aðdýpra, einkum fram af suðurhlutanum. Fjörulóðir þar voru fyrst valdar til bryggjugerðar. Þar var auðvelt að byggja trébryggjur fram á 10–12 feta dýpi.

Norðan við eyrina var aðgrunnt og að bryggjunum þar stafaði sífelld hætta af brimi og ísreki. Fram komu kröfur um tryggingu gegn skemmdum af braki úr veikbyggðum bryggjum, m.a. frá ráðamönnum Síldarverksmiðja ríkisins vegna löndunarbryggjanna. Árið 1933 kom til álita að banna

8

endurbyggingu á bryggju í Bakka, norðan við eyrina, en frá því var fallið gegn skuldbindingu eiganda vegna hugsanlegra skemmda (5).

Fyrsta hafnarreglugerð Siglufjarðar sem ákvað ytri takmörk hafnarinnar var staðfest 1907. Þá var líka stofnuð hafnarnefnd og hafnarsjóður. Gránufélagið byggði 1906 austan á eyrinni sterklega staurabryggju sem við það var kennd. Var hún rammgerðari en aðrar bryggjur og stóðst allvel brim og ísrek. Á þriðja áratugnum byggði höfnin afgreiðslubryggju nokkru norðar, á svonefndri Söbstadslóð. Ráðagerðir um byggingu hafskipabryggju á norðausturhorni eyrarinnar, sem jafnframt yrði brimbrjótur, byrjuðu 1914 (6). Framkvæmdir drógust þó. Hafskipabryggja á suðausturhorni eyrarinnar var tekin í notkun 1928 og brimbrjótur fram af norðausturhorninu 1940.

Fyrstu söltunarstöðvar Norðmanna voru venjulega aðeins söltunarpallur á grjótfylltum staurakláfum í fjörunni og fram af honum ein eða fleiri löndunarbryggjur og hús eða skúr yfir efni og áhöld. Við þetta var síðan bætt smám saman. Sunnan og austan við eyrina var fljótlega farið að reka bryggjustaurana niður í sand- og leirbotninn. En norðan hennar var malar- og grjótbotn. Þar voru sums staðar steyptir bryggjukantar í fjörunni en staurakláfar látnir bera löndunarbryggjur með hleraþekjum sem teknar voru af á haustin.

Uppskipunarbátar voru talsvert notaðir við losun og lestun stærri flutningaskipa í Siglufjarðarhöfn fram á fjórða áratuginn. Ole Tynes auglýsti 1933 taxta fyrir ferjun á bátum sínum, fimm aura fyrir tómtunnu, 12 aura fyrir krydd-, sykur- og salttunnu og 15 aura fyrir fulla síldartunnu. Dráttur milli skips og stöðvar var innifalinn. Yfirvinnuálag 50% (7).

Eftir tilkomu hafnarbryggjunnar færðist losun og hleðsla skipa smám saman þangað. Fyrstu vörubílarnir, smáir og burðarlitlir, komu til bæjarins 1927. Götur og vegir voru þá lélegir og snjómoksturstæki engin. Voru prammarnir því enn um hríð afkastamestu flutningatækin að og frá síldarstöðvunum.

Kaupstaðarsvæði Siglufjarðar er á löndum tveggja fornra bújarða, Hafnar og prestsetursins Hvanneyrar. Ágreining ábúenda þeirra um yfirráð yfir eyrinni má rekja aftur til byggingar fyrstu verslunarhúsanna 1788. Hallaði jafnan á Hafnarbónda og 1914 komst eyrin að fullu í eigu Hvanneyrar. Bærinn keypti seinna báðar jarðirnar, fékk full umráð Hvanneyrar í ársbyrjun 1943 og Hafnar í ársbyrjun 1945, en hafði 1917 keypt þann hluta jarðarinnar sem lá að hafnarsvæðinu. Allar síldarstöðvar bæjarins voru reistar á landareignum þessara tveggja jarða, að undantekinni Evangersstöðinni sem var austan fjarðarins í landi Staðarhóls.

Góð og vel staðsett bækistöð í landi skipti höfuðmáli fyrir norsku síldveiðimennina, einkum eftir að herpinótin kom til sögunnar. Skipshafnir síldarbátanna réðu oftast hjálparlaust við reknetaaflann, en aflinn í herpinótina útheimti fólk úr landi til aðstoðar um borð, eða löndun á verkunarstöð. Með tilkomu landbækistöðvanna var hægt var að losna við tunnur og söltunarvörur úr skipunum, salta miklu meira í einu en unnt var að afkasta um borð, verka og geyma síldina betur og nýta úrganginn til bræðslu, eftir að sú vinnsluaðferð kom til sögunnar.

Fjórir Norðmenn náðu 1903 tangarhaldi á öllum ónotuðum sjávarlóðum austan á eyrinni. Bróðurpartur fjörunnar sunnan á eyrinni og undir Hafnarbökkum komst í hendur þriggja Norðmanna og eins Dana á árunum 1906–1911. Nokkrir Íslendingar náðu þó á þessu tímabili í lóðarbúta.

Árið 1913 tóku bæði íslenskir og erlendir útgerðarmenn að sækjast eftir lóðum á leirunum sunnan og austan fjarðarins, norðan á eyrinni og norðan við hana; útlendingarnir með síldveiðar fyrir augum en sumir Íslendinganna með þorsk- og hákarlaútgerð í huga.

9

Allmargar umsóknir bárust um bryggjubyggingar á Leirunum sunnan við höfnina. Stefna hreppsnefndar varðandi mannvirkjagerð þar virðist hafa verið óákveðin og handahófskennd framan af. Umsókn Tormods Bakkevigs 1913 um að fá að byggja bryggju í Skútulandi var hafnað. Jón

Jóhannesson útgerðarmaður fékk 1915 leyfi til að byggja í landi Hafnar pall og bryggjustúf við skipsflak sem lá upp við marbakkann og Ole Tynes var leyft 1916 að byggja stóran bryggjupall vestan við sama flak. Árni Böðvarsson sótti 1916 um lóð austan við lóðir þeirra Jóns og Tynesar, en var neitað. G. A. Wallen frá Gautaborg fékk vorið 1916 leyfi hafnarnefndar til að byggja söltunarstöð út af Neðri-Skútu, en Pétri Thorsteinssyni er sótti sumarið eftir um leyfi til bryggjubyggingar á lóð sem hann hafði fengið þar, var neitað. Hafnarnefnd samþykkti 1917 að leyfa Runólfi Stefánssyni útgerðarmanni í Reykjavík bryggjubyggingu fram af Neðri Skútu en hreppsnefnd hnekkti samþykktinni.

Ole Tynes, var sá eini þessara umsækjenda sem gat notfært sér leyfi til bryggjubyggingar á eða við Leirurnar. Ýmsar ástæður hindruðu að fleiri gerðu það: erfiðleikar á útvegun efnis í heimsstyrjöldinni 1914–1918, samdráttur í síldarframleiðslunni upp úr 1916 vegna styrjaldarástandsins og síðast en ekki síst kostnaður. Fyrirsjáanlegt var að bryggjur á þessu svæði yrðu mjög dýrar. Þannig gerði Pétur Thorsteinsson ráð fyrir að þurfa að byggja söltunarpall sinn í Skútulandi um 250 metra frá landi, út frá honum 2–3 viðlegubryggjur og tengibryggju til lands.

Árið 1914 fékk hafnarnefnd ráðherraúrskurð um að hún hefði rétt til að leyfa og banna mannvirkjagerð í höfninni eftir því sem almannaþörf útheimti (9).

Árið 1916 kom til deilu milli hafnarnefndar og eigenda Hafnar. Taldi nefndin að jarðeigendurnir væru í blóra við breytingar sem orðið hefðu á fjöruborðinu síðan hafnartakmörkin voru ákveðin 1907 að kasta eign sinni á svæði sem þá hefði ótvírætt verið eign hafnarinnar og væri það því enn (10). Málslok urðu þau að hafnarsjóður keypti 1917 af eigendum Hafnar þann hluta landareignarinnar sem lá að hafnarsvæðinu. Verðið var 18 þús. kr. en nefndin seldi síðan Ole Tynes á sama verði lóð sem hann hafði fengið leigða hjá Hafnarbændum 1915.

Skráðir lóðasamningar segja ekki alltaf til um fyrstu afnot leigutaka af lóðunum. Þær voru oft afhentar og framkvæmdir hafnar á þeim allnokkru áður en formlegir samningar voru gerðir.

Leigugjöld fyrir sjávarlóðirnar voru yfirleitt mjög lág. Aðalregla virðist hafa verið um það bil ein króna fyrir hverja alin með fjöru. Lóðir í Hafnarlandi voru oft heldur lægra metnar en lóðir úr Hvanneyrarlandi. Þessi leigugjöld voru ekki í neinu samræmi við markaðsverð. Sem dæmi má nefna að haustið 1903 framseldi Jóhann Vigfússon á 2000 króna lóðarréttindi sem hann hafði fengið í júlí um sumarið með 40 króna ársleigu. Ekki er vitað til að nein mannvirki hafi fylgt við söluna. Leigusamningarnir voru yfirleitt óuppsegjanlegir af hálfu leigusala ef staðið var í skilum með leigugjaldið, en leigukaupandi gat sagt þeim upp eða framselt leiguréttindin án nokkurra skilyrða.

Í norskri bók um síldveiðar Norðmanna á Íslandsmiðum segir að séra Bjarni Þorsteinsson hafi fengið 5 aura gjald af hverri síldartunnu sem framleidd var á Siglufirði (11). Hér mun átt við 5 aura gjald til hreppsins af hverri útfluttri tunnu sem lagt var á snemma á Norðmannatímanum, en séra Bjarni var þá oddviti. Þetta gjald var 1925 komið upp í 40 aura á saltaða tunnu eða landað mál. Lögð voru gjöld á síld sem söltuð var um borð í skipum á firðinum. En hreppsyfirvöld áttu óhægt um vik að fylgjast með afla útlendinganna og gátu því margir smeygt sér fram hjá þessum skatti.

10

Lóðarréttindin gengu kaupum og sölum. Áður var minnst á Jóhann Vigfússon. Annað dæmi skal nefnt: Bendik Mannes, skipstjóri á gufubátnum Albatros frá Stafangri fékk í júlí 1903 leigða söltunarlóð á Siglufirði (12) en lóðarsamningur var ekki gerður fyrr en 13. september. Daginn eftir framseldi Mannes leiguréttinn til „Firmaet Hareide og Garshol“ (13).

Árið 1881 voru að frumkvæði Snorra Pálssonar verslunarstjóra og alþingismanns. á Siglufirði saltaðar þar um 1100 tunnur. Veitt var í landnót. Norðmaður stjórnaði veiðunum og verkun aflans (14). Ekki varð framhald á þessum veiðum 1882. Ollu því hafís og harðindi. Tveim árum seinna, í febrúar 1883, andaðist Snorri og féll þá þessi viðleitni niður, enda árferði óhagstætt næstu ár. Félagið leystist upp fyrir aldamótin með talsverðu tapi (15).

Í grein í Tímariti Bókmenntafélagsins tveim árum seinna, vakti Árni Thorsteinsson landfógeti athygli á því hve vel Siglufjörður lægi við síldveiðum.

Norðmenn urðu snemma kunnugir staðháttum á Siglufirði. Norskir hvalveiðimenn tíðkuðu fyrir aldamót að draga þangað hvali til geymslu uns hægt væri að flytja þá til vinnslustöðva á Vestfjörðum. Tengsl voru milli norskra hvalveiðimanna og síldveiðimanna og raunar dæmi um að sömu menn fengjust við hvortveggja. Eitt hvalveiðifélagið, „Dansk Hvalfangerselskab“ fékk lóð á leigu á Siglufirði 1896 (8).

Munnlegar heimildir eru um síldarsöltun um borð í norskum skipum á firðinum fyrir aldamót. Petrína Sigurðardóttur frá Staðarhóli, f. 1879, sagði svo frá að Norðmenn hefðu sótt stúlkur í land til að salta og var hún sjálf ein þeirra. Bar hún ör á höndum eftir átufleiður sem hún fékk við þessa söltun. Petrína fluttist til Akureyrar 1899 og aftur til Siglufjarðar 1917 (16). Sigfús Ólafsson í Hlíð, f. 1882, mundi einnig að Norðmenn fengu fólk á Siglufirði til söltunar um borð í skipum fyrir aldamót og sumarið 1902 starfaði hann og kona hans við slíka söltun (17). Fyrsta hafsíldin var söltuð á Siglufirði 8. júlí 1903.

Árið 1903 töldust hreppsbúar aðeins 414, þar af 206 á núverandi kaupstaðarsvæði. Norðmenn urðu því í fyrstu mjög fyrirferðarmiklir í sveitarfélaginu. Árið 1904 voru fjórir norskir útvegsmenn, Hareide, Garshol, Henriksen og Söbstad hæstir framteljenda til lausafjártíundar í Hvanneyrarhreppi með 15 hundruð hver, en sá fimmti, Bakkevig, með 10 hundruð. Árið 1905 eru þeir taldir meðal verkfærra manna í hreppum. Næstu ár bætast við á skrána Evanger, Friis, Ansnes, Nielsen, Rejesen, Lövvig, Saxe, Wedin og fleiri kunn nöfn úr síldarsögunni. Árið 1910 var rúmlega sjöundi hver gjaldandi í þorpinu og tíundi hver gjaldandi í hreppnum Norðmaður.

Þegar árið 1904 greiddu Norðmenn rúm 20% af heildartekjum hreppsins og 1910 33%. Árið 1915 báru einstaklingar og fyrirtæki af erlendum uppruna, tengd síldinni, rúm 80% útsvaranna. Afgangurinn skiptist nokkurnveginn jafnt í tvo hluta milli íslenskra síldarútvegsmanna og kaupmanna annars vegar og hins vegar almennings í hreppnum, þar með taldir embættismenn og bændur (18).

Útsvör voru á þessum tíma lögð á „eftir efnum og ástæðum“. Vera má að niðurjöfnunarnefndin hafi lagt heldur ótæpilega á rekstur útlendinganna en þeir neyttu á móti flestra bragða til undanskota og kærðu útsvör sín og skatta oftar en nokkrir aðrir. Hlutur útlendu síldarmannanna í útsvörunum sýnir ótvírætt hvílíkan ægishjálm þeir báru yfir innlenda menn og þeirra rekstur fram á stríðsárin 1914–1918.

Merk framfaraspor voru stigin á þessu tímabili. Símasamband komst á 1910, vatnsveita var lögð 1911, rafveita tók til starfa 1913.

Margar af fyrstu bækistöðvum Norðmanna voru hálfgerð hrófatildur, enda aðeins ætlaðar sem bráðabirgða aðstaða við nýtingu eigin afla. Seinna komu á vettvang kaupmenn og útgerðarfyrirtæki

11

sem keyptu síld til söltunar, auk afla af eigin skipum, og versluðu með síld. Má þar nefna menn eins og Goos, Wedin, Evangerbræður, Jacobsen og fleiri. Ole Tynes kom sem sölumaður fyrir timburverslun frænda síns í Álasundi, en varð einn mesti athafnamaður bæjarins. Þessir menn byggðu upp vandaðri mannvirki en frumherjarnir, sem sumir hurfu á brott án þess að skilja eftir sig sýnileg spor. Íslendingar voru framan af frekar áhorfendur en þátttakendur í leiknum og urðu síðastir á vettvang. Fáir íslenskir síldarsaltendur urðu siglfirskir borgarar. Bærinn var í augum þeirra flestra bara löndunarstöð. Arðurinn af síldinni var fluttur burtu eins og hægt var. Kannað var 1934 og 1937 hve stór hluti sjávarvöruframleiðslu í bænum væri þar útsvarsskyldur. Reyndist það vera 51,6% fyrra árið en aðeins 29% það síðara (19).

Norðmenn byggðu í fyrstu mörg helstu mannvirki bæjarins, mótuðu síldarútveginn sem varð helsta atvinnugrein hans og réðu yfir meginhluta hans fyrstu árin, yfirgnæfðu á götum bæjarins yfir síldartímann og höfðu áhrif á málfar og siði bæjarmanna. Þeir sem enn muna hvað hernámsliðið var yfirgnæfandi í smáplássum eins og Seyðisfirði, Reyðarfirði eða öðrum sambærilegum stöðum á árunum 1940–1945 geta ef til vill gert sér raunhæfa hugmynd um fyrirferð Norðmanna á Siglufirði. Dæmi eru um að þegar hreppsyfirvöld þurftu að leita aðstoðar og ráða hafi þeim þótt nærtækara að leita til Noregs en til sambandsríkisins Danmerkur eða íslenskra stjórnvalda.

Norðmenn nutu í fyrstu yfirburða sinna í veiðum og nýtingu síldar. Norsk útgerðarfyrirtæki höfðu sum nokkurt fjármagn til umráða. Norðmenn náðu flestum bestu sjávarlóðunum á Siglufirði og komu þar upp stórum og allvel búnum söltunarstöðvum á þess tíma mælikvarða. Fjórir þeirra stærstu, Bakkevig, Söbstad, Evanger og Goos, komu upp bræðsluverksmiðjum til að nýta söltunarúrgang og síld sem ekki var hæf til söltunar. Roald kom upp tveim þróm undir úrgang á stöð sinni og Tynes einni á sinni stöð. Úrgangurinn var ýmist seldur verksmiðjum á Siglufirði, sendur til Krossaness eða til Noregs til bræðslu. Íslenskir saltendur og útgerðarmenn urðu lengi að hlíta því verði sem útlendingarnir buðu fyrir úrgangssíldina en fleygja henni í sjóinn ella.

Veldi Norðmanna á Siglufirði byrjaði að hnigna á fyrri stríðsárunum. Hömlur sem Bretar lögðu á þá vegna stríðsrekstursins urðu þeim þungbærar og leiddu jafnvel til gjaldþrota. Eftir stríðið tóku svo íslensk stjórnvöld að þrengja aðstöðu þeirra í því skyni að auka hlut íslenskra aðila í síldarútveginum.

Sunnlendingar og Eyfirðingar voru framan af atkvæðamestir Íslendinga í síldarframleiðslunni á Siglufirði. Má annars vegar rekja það til vaxandi togaraútgerðar frá Reykjavík og Hafnarfirði á fyrstu áratugum aldarinnar en hins vegar til vaxandi bátaútgerðar í Eyjafirði á síðustu áratugum nítjándu aldar og fyrstu áratugum þeirrar tuttustu.

Fyrstir komu við sögu Eyfirðingarnir Ásgeir Pétursson 1906 og Snorri Jónsson 1909. Síðan koma íslenskir útgerðarmenn fram á sviðið hver af öðrum: Thor Jensen, Einar og Friðrik Einarssynir frá Akureyri, Alliancemennirnir Jón Ólafsson, Jón Sigurðsson og Magnús Magnússon, bræðurnir Pétur og Þorsteinn Thorsteinssynir, Hjalti Jónsson, Halldór Guðmundsson, Sigurjón Ólafsson, Runólfur Stefánsson, Óskar Halldórsson og Ingvar Guðjónsson, svo nokkrir séu nefndir.

Útgerðarmenn úr landshlutum utan Reykjavíkursvæðisins og Eyjafjarðar komu lítið við sögu fyrr en á þriðja og fjórða áratug aldarinnar. Þó má nefna Stefán Th. Jónsson á Seyðisfirði. Af heimaaðilum koma varla aðrir við sögu framan af en Gránufélagið og Helgi Hafliðason. Útgerðaraðstaða Siglfirðinga og Eyfirðinga á Siglufirði á þessum tíma var raunar að allmiklu leyti nýtt til þorsk- og hákarlaútgerðar.

12

Saga Siglufjarðar 1903–1968 er samofin sögu síldveiðanna. Frá 1903 til 1913 óx Íbúafjöldi hreppsins úr 414 í 830, var 1923 orðinn 1335 og 2975 manns 1939, við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Næstu ár stóð íbúafjöldinn að mestu í stað en tók vaxtarkipp að stríðinu loknu í kjölfar mikilla nýsköpunarframkvæmda er leggja skyldu grunninn að stórkostlegri aukningu á hagnýtingu síldarafla. Hæstur varð íbúafjöldinn 1948, 3103 heimilisfastir.

Með hnignun síldveiðanna hnignaði bænum. Trúin á síldina hélt þó lífi, uns sögukaflanum sem hófst 8. júlí 1903 lauk að fullu árið 1968. Atvinnusaga bæjarins síðan minnir um flest á atvinnusögu annarra norðlenskra útgerðarbæja.

Hér á eftir verður leitast við að rekja nokkra þætti í sögu síldarframleiðslunnar á Siglufirði frá árinu 1903. Gerð verður í stuttu máli grein fyrir söltunarstöðvunum, byrjað á þeirri ystu vestan fjarðarins, farin röðin til suðurs og endað á einu stöðinni austan fjarðar. Uppistaðan í þessu yfirliti eru sjávarlóðirnar sem leigðar voru í upphafi undir síldarbækistöðvar. Á þeim flestum hafa starfað fleiri en eitt söltunarfyrirtæki og sumum lóðunum verið skipt í smærri hluta síðar. Heimildir um eigendaskipti eru aðallega sóttar í embættisbækur bæjarfógetaembættisins á Siglufirði. Fróðleikur um saltendur og söltunarfyrirtæki hefur hins vegar verið torfenginn og bera þættirnir þess óhjákvæmileg merki.

Tilvísanir

1. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 21. feb. 1912.

2. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 12. nóv. 1915.

3. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 3. og 29. júní 1927.

4. Fram, 13. sept. 1919.

5. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 18. maí og 29. júní 1933.

6. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 7. júlí 1914.

7. Siglfirðingur, 15. júlí 1933.

8. Þingmálabók Eyjafjarðarsýslu Litra P. 18.

9. Fundargerðarbók Hafnarnefndar, bréf dags. 24. júlí 1914.

10. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 7. júlí 1916.

11. Kari Shetelig Hovland, Norske Islandsfiskere på havet, bls. 83.

12. Þmb. Litra K. 164.

13. Þmb. Litra M. 359.

14. Jón Þ. Þór. Siglfirðingabók 1975, bls. 22.

15. Bjarni Þorsteinsson. Siglufjarðarverzlunarstaður hundrað ára, bls. 118.

16. Munnleg heimild. Sigríður Lárusdóttir, systurdóttir og fósturdóttir Petrínu.

17. Munnleg heimild. Jón og Erla Dýrfjörð.

18. Hreppsbók Hvanneyrarhrepps, 1899–1919.

19. Benedikt Sigurðsson. Brauðstrit og barátta II, bls. 18.

13

SÖLTUNARSTÖÐVAR

1. Ytri Bakkastöðin/Bakkastöðin

Norðan við prestssetrið Hvanneyri á Siglufirði fellur til sjávar Hvanneyrará, sem á upptök í Hvanneyrarskál í fjallinu fyrir ofan. Svæðið norðan árinnar er í daglegu tali kallað í Bakka. Víkurbotninn sunnan árinnar og norðan Siglufjarðareyrar, sem einnig er nefnd Þormóðseyri en gæti upphaflega hafa heitið Hvanneyri, heitir Hvanneyrarkrókur. Árið 1866 var byggt grasbýli um 250 metra norðan við ána og 1907 íbúðarhús nokkru norðar og ofar. Síðar risu í Bakka fleiri hús, síldarstöðvar og loks bæjarhverfi.

Þegar sunnlenskir útgerðarmenn fóru að seilast eftir aðstöðu á Siglufirði voru Norðmenn búnir að hremma bestu sjávarlóðirnar. Einn þeirra sem komu of seint var Pétur J. Thorsteinsson, oft kenndur við Bíldudal.

Hinn 30. ágúst 1915 leigði séra Bjarni Þorsteinsson reykvískum kaupmanni, H. S. Hansen, fjörulóð fyrir utan og neðan gamla Bakkahúsið, 63 metra með sjó (1). Hansen framseldi Pétri J. Thorsteinsyni lóðarréttindin samdægurs (2). Þetta er ysta söltunarlóðin vestan Siglufjarðar. Vorið eftir fékk Pétur leigða næstu lóð fyrir sunnan, um 54 metra með fjöru (3), og 1919 svæðið suður að lóð Sörens Goos, um 84 metra með sjó (4). Var lóðarspilda hans þá orðin 200 metra löng með fjöru.

Pétri varð fljótt ljóst að vegna sjógangs hentar fjaran þarna illa til bryggjugerðar. Hann sótti því sumarið 1916 fyrir hönd fiskveiðafélagsins Hauks um leyfi til að byggja söltunarpall á leirunum undan Skútulandi, austan við fjörðinn sunnanverðan (5). Þessari beiðni var synjað eins og öðrum sem fram höfðu komið um sams konar leyfi. Ári síðar reyndi Pétur að ná eignarhaldi á hluta af lóð Hans Söbstads, á norðausturhluta eyrarinnar. Líklegt er að hann eða Þorsteinn bróðir hans hafi staðið á bak við lóðatökur Árna Böðvarssonar og hlutafélagið Hóla, til heimilis í Kaupmannahöfn, sem framseldi lóðarréttindi sín 1917.

Pétur stóð í upphafi einn að umsvifum í Bakka en haustið 1917 var hlutafélagið „Bræðingur“ orðið eigandi að stöðinni og tekið við rekstrinum (6). Félagið var stofnað í Reykjavík haustið 1915 með 112 þúsund króna hlutafé (7). Fyrstu stjórn þess skipuðu Pétur J. Thorsteinsson, sem var formaður og framkvæmdastjóri, Magnús Magnússon kennari við Stÿrimannaskólann og Jón Ólafsson skipstjóri. Varamaður í stjórninni var Jón Sigurðsson skipstjóri. Allir voru þessir menn úr hópi kunnustu reykvískra útgerðarmanna og skipstjóra á fyrstu áratugum aldarinnar. Haustið 1917 var Ólafur Þ. Johnson kaupmaður, tengdasonur Péturs, kominn í stjórnina í stað Magnúsar (8). Bræðingur hf. hafði auk síldarstöðvarinnar rekstur á Þormóðsstöðum við Skerjafjörð, meðal annars lifrarbræðslu.

Framkvæmdum var haldið áfram í Bakka næstu ár. Bygging rammgerðrar bryggju, liklega steyptrar, stóð þar yfir 1917 (9). Sumarið 1919 var byggð á lóðinni 380 fermetra geymsluskemma (10), en áður voru risnar þar allmiklar byggingar, þar á meðal verkafólkshús (11). Í febrúar 1916 auglýsti Pétur eftir stúlkum til síldarsöltunar á Siglufirði. Virðist söltun á stöðinni hafa byrjað þá um sumarið. Rekstur stöðvarinnar gekk fremur illa og bar margt til. Stofnkostnaður hefur trúlega orðið allhár í verðbólgu heimsstyrjaldarinnar. Bryggjurnar lágu sífellt undir skemmdum vegna sjógangs. Í ágúst 1920 segir Fram að Pétur hafi fyrir nokkrum dögum mátt horfa á eftir bryggju sinni í sjóinn, og sé það í fjórða sinn að slikt gerist þar í Bakka (12). Árin 1917–1920 voru rýr síldarár og 1919 varð stórtap á rekstrinum.

14

Einhver starfsemi var þó í Bakka á vegum fyrirtækisins fram yfir 1920, því 1922 var það enn á útsvarsskrá á Siglufirði (13). Sumarið 1921 var frægasti síldarspekúlant Íslands, þjóðsagnapersónan Óskar Halldórsson, orðinn húsbóndi á síldarstöðinni í Bakka.

Óskar lærði ungur búfræði á Hvanneyri, stundaði síðan jarðyrkju í Danmörku, ræktaði tómata á Reykjum í Mosfellssveit, var plægingamaður hjá bændum í Kjalarnesþingi, ræktaði og seldi gulrófur og flutti út hross. En tuttugu og þriggja ára gamall sneri hann baki við landbúnaðinum. Næstu ár bregður honum fyrir sem lifrarbræðslumanni í ÿmsum verstöðvum, Herdísarvík, Sandgerði, Drangavík á Ströndum, Ísafirði, Siglufirði og víðar. Þrem árum síðar, sumarið 1919, ræðst hann í síldarsöltun á Ströndum, og verður ekki betur séð en að sá rekstur hafi endað með gjaldþroti um haustið og sagan endurtekið sig árið eftir.

Ekki er að sjá að gjaldþrotin hafi í neinu rýrt álit Óskars, því nokkrum mánuðum eftir seinna gjaldþrotið var hann kominn á fulla ferð í nýju síldarævintýri. Árið 1921 gerðist hann framkvæmdastjóri og helsti drifkraftur hlutafélagsins Hrogn & lýsi sem nokkir reykvískir góðborgarar stóðu að og rak síldarsöltun í Bakka. Fyrstu tvö árin voru þessir félagar leigjendur í Bakka en í júní 1923 kaupa þeir stöðina. Samninginn undirrituðu fyrir hönd seljenda þeir Ólafur Johnson og Arent Claessen, en fyrir hönd kaupandans, hf. Hrogn og lýsi í Reykjavík, þeir Þórður J. Thoroddsen, læknir og athafnamaður, og Benedikt Sveinsson, fyrrverandi bankastjóri, fræðimaður og alþingisforseti. Skráð kaupverð var kr. 30.000,00 (14).

Auk þeirra Benedikts Sveinssonar og Þórðar komu við sögu Hrogns og lýsis hf. Þórður Sveinsson kaupmaður, bróðir Benedikts, Björn Ólafsson kaupmaður, síðar ráðherra; Þórður Sveinsson læknir á Kleppi og bæjarfulltrúi í Reykjavík, og Pétur Magnússon hæstaréttarlögmaður, síðar þingmaður, ráðherra og bankastjóri (15). Ekki er tiltæk skjalfest heimild um hlutafjáreign þeirra allra í Hrogn & lýsi hf., en víst er að þeir stóðu allir í fjárhagslegum ábyrgðum fyrir félagið og lýsisbræðslu á Skildinganesmelum sem virðist hafa verið eign sama fyrirtækis (16) og gæti hafa verið áðurnefnd bræðsla Bræðings hf. á Þormóðsstöðum. Bendir flest til þess að þeir hafi allir verið hluthafar. Ekki kemur beinlínis fram að Óskar hafi verið það, en hann var framkvæmdastjóri félagsins.

Ekki virðist ósennilegt að að Hrogn & lýsi hf. hafi verið stofnað til að halda gangandi arðbærum þáttum úr rekstri Bræðings hf., sem áðurnefndir menn hafi eitthvað verið viðriðnir, en ekki verður hér reynt að rekja þá þræði sem kunna að hafa legið á milli þessa fyrirtækja.Vel virðist hafa farið á með Óskari og félögum hans í Hrogn og lýsi hf. og stóð vinfengi hans við þá flesta eða alla ævilangt.

Tveir synir Benedikts alþingisforseta, þeir Bjarni, síðar forsætisráðherra, og Sveinn, er varð mikill áhrifamaður í málefnum síldarútvegsins, voru í sumarvinnu hjá Óskari í Bakka á árunum 1923 –1926. Pétur bróðir þeirra var þar eitt sumar. Þórður bróðir Benedikts var þar eitthvað (17) og hafði afskipti af rekstrinum, m.a. kærði hann útsvar félagsins 1924 (18). Reksturinn virðist hafa gengið bærilega. Heimild er um að sumarið 1923 saltaði Hrogn & lýsi hf. allt að 20 þús. tunnur (19).

Svo virðist sem Óskari hafi fundist þröngt um sig í Bakka fyrsta sumarið. Þá fékk hann leyfi til að salta 2–3 þúsund tunnur á syðri bryggjunni á Söbstadslóð (20). Þetta gæti bent til þess að Bræðingur hf. hafi þá enn verið með rekstur í Bakka og fyrirtækin þrengt hvort að öðru. Nafn Óskars er ekki á skrá yfir þá sem greiddu bryggjuleigur til hafnarsjóðs 1923 og hefur hann því líklega ekki notfært sér leyfið til söltunar á Söbstadslóð.

Nýtt fyrirtæki sem Óskar stóð að, Bakki hf. í Reykjavík, keypti stöðina af Hrogn og lýsi hf. 1926 (21). Meðal hins selda var íshús með ís og snjóbirgjum, sem Hrogn og lýsi hf. hafði byggt árið áður. Rak Óskar það áfram af miklu kappi. Þá kom hann upp lifrarbræðslu í Bakka.

15

Ekki eru ljós tildrögin að eigendaskiptunum né hvort Óskar var eini hluthafinn úr Hrogn & lýsi hf. sem stóð að stofnun og rekstri Bakka hf. Tveir menn, Gunnar Halldórsson og Björn Ólafsson, undirrituðu tryggingarbréf fyrir félagsins hönd 1926 (22). Hinn síðarnefndi gæti hafa verið áðurnefndur Björn Ólafsson kaupmaður.

Söltunarstöðin í Bakka var eina stöðin norðan Siglufjarðareyrar þar sem síld var söltuð eftir 1928. Hinn 13. júní 1931 hreppti Útvegsbanki Íslands í Reykjavík stöðina í Bakka á nauðungaruppboði á kr. 36.000,00. Uppboðsafsalið er dagsett 19/8 1931 (23). Óskar hélt þó áfram rekstri þar 1931–1933 með sama sniði og undanfarin ár. Kaupfélag Eyfirðinga, KEA, keypti stöðina af Útvegsbanka Íslands á Akureyri 27. júlí 1933, með öllum húsum og búnaði til síldarfrystingar, fyrir kr. 90.000,00 (24).

Kaupfélag Eyfirðinga jók verulega umsvif sín í síldarútvegi um og eftir 1930. Fram að þeim tíma höfðu afskipti þess af útgerðarmálum aðallega verið fólgin í fyrirgreiðslu um afsetningu á fiskafla félagsmanna og byggingu íshúsa og síðar vélfrystihúsa til frystingar og geymslu á beitusíld (25). Tilgangurinn með kaupum félagsins á ytri Bakkastöðinni af Útvegsbankanum á Akureyri (26) var einkum sá „að tryggja félaginu aðstöðu til frystingar og sölu beitusíldar, í sambandi við frystihús S.Í.S. í Vestmannaeyjum og Reykjavík“ (27).

KEA rak stöðina í þrjú ár, 1934–1936. Talsvert var saltað þar fyrsta sumarið, en 1935 var síldarleysissumar. Tvo næstu vetur urðu stórskemmdir á bryggjunum vegna sjógangs. Með hliðsjón af því og sögu bryggjubygginga í Bakka ákváðu ráðamenn félagsins að endurbyggja þær ekki. Tók félagið hluta af Roaldsstöðinni á leigu undir söltunina 1936 og keypti hana árið eftir (28), en rak frystihúsið um sumarið.

Hinn 24. apríl 1937 seldi KEA Bakka hf. í Reykjavík, hlutafélagi Óskars Halldórssonar, frystihúsið, ásamt öllum húsum og mannvirkjum á stöðinni, þar á meðal leifum af bryggju og plani „ef fyrirfinnast“, eins og það er orðað í afsalinu, og söltunaráhöld (29). Skráð söluverð var kr. 75.000.

Óskar átti um þetta leyti í fjárhagserfiðleikum, en miklu þurfti til að kosta að gera stöðina söltunarhæfa. Byrjaði rekstur þar ekki fyrr en um mánaðamótin júlí–ágúst (30). Mikil áhersla var sem fyrr lögð á frystingu.

Óskar fékk vorið 1937 leyfi bæjaryfirvalda til bryggjulengingar í Bakka og jafnframt leyfi til löndunar á fiski í smábátahöfn bæjarins vegna fyrirhugaðrar hraðfrystingar í frystihúsinu (31). Ekki eru heimildir um að hraðfrysting hafi farið þar fram. Tveim árum seinna fékk hann aftur leyfi til bryggjubyggingar með sérstöku skilyrði um að bryggjuþekjan yrði gerð úr hlerum sem teknir yrðu af á hverju hausti, en bryggjan tekin upp ef og þegar bæjaryfirvöld óskuðu.

Óskar rak stöðina 1937–1939, saltaði þar síld, frysti og seldi beitu og ís, keypti og bræddi lifur, og á vorin fram að síldartíma keypti hann grálúðu og saltaði í tunnur í stórum stíl, en 1940 var hann að auki byrjaður á ísfisksölu til Bretlands.

Á síðustu árunum í Bakka, eftir nærfellt tveggja áratuga baráttu við Ægi konung um stöðina, virðist Óskar loks hafa sannfærst um að sér yrði aldrei sigurs auðið í þeirri viðureign. Hinn 3. sept. 1941 afsalaði hann eigninni fyrir hönd Bakka hf. til Sveins Sigfússonar (32). Ekki var hann þó orðinn afhuga síldarsöltun og átti eftir að koma við sögu á þrem söltunarstöðvum á Siglufirði.

Nýi eigandinn að Bakkastöðinni, Sveinn Sigfússon, var sonur Sigfúsar Sveinssonar kaupmanns og útgerðarmanns á Norðfirði, kvæntur kjördóttur Þormóðs Eyjólfssonar ræðismanns á Siglufirði. Í afsali er hið selda talið upp: íbúðarhús, bryggja, bryggjupallar, geymsluskúr, íshúsbyggingar, snjógeymslur, lifrarbræðsla og fleira. Óskar skyldi þó hafa rétt til að nýta hluta af snjógeymslunni vegna

16

útflutnings á ísvörðum fiski. Ekki var söltuð síld á stöðinni eftir að Sveinn keypti hana. Bakki hf. keypti hana aftur af Sveini haustið 1943 (33).

Í febrúar 1945 keypti Vigfús Friðjónsson, Siglufirði, Bakkaeignina af Óskari (34). Á sjötta áratugnum nýtti hann um skeið húsakost stöðvarinnar til fiskverkunar og fiskþurrkunar, m.a. var þar flakaður ufsi og flökin söltuð og þurrkuð. Ennfremur var í sjö ár rekin þar framleiðsla á síldarmauki og hrognum í túbum. Mun þetta hafa verið síðasta atvinnustarfsemi í Bakka.

Tilvísanir

1. Þmb. Litra R 203 og 485.

2. Þmb. Litra R. 486.

3. Ls. 115 st.; Þmb. Litra R. 204.

4. Þmb. Litra P 6.

5. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð, 15. ág 1916.

6. Þmb. Litra O. 169.

7. Heimild frá Pétri Thorsteinsyni sendiherra.

8. Þmb. Litra O. 169.

9. Fram, 23. júní 1917.

10. Brunabótamat á Siglufirði 1919, skírteini nr. 17.

11. Brunabótamat á Siglufirði 1916, skírteini nr. 108.

12. Fram, 28. ág. 1920.

13. Fram, 2. des. 1922.

14. Þmb. Litra R 17.

15 Þmb. Litra R. 53.

16. Þmb. Litra R. 53.

17. Halldór Þorleifsson, segulbandsupptaka í vörslu Bókasafns Siglufjarðar

18. Niðurjöfnunarnefnd Siglufjarðar, fundargerð, 3. jan. 1924.

19. Sama heimild.

20. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð, 13. júlí 1921.

21. Þmb. Litra R. 473.

22. Þmb. Litra R. 488.

23. Þmb. Litra A. 453.

24. Þmb. Litra B. 199.

25. Hjörtur Þórarinsson. Saga Kaupfélags Eyfirðinga 1886–1986, bls. 39–40.

26. Þmb. Litra B. 199.

27. Kaupfélag Eyfirðinga 50 ára 1886–1936

28. Þmb. Litra E 409 – 413.

29. Þmb. Litra E 219 og Litra B 199

30. Munnleg heimild Sigurður Gíslason

31 Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 6 maí 1937.

32. Þmb. Litra G 293.

33. Þmb. Litra H 110 B.

34. Þmb. Litra I 143.

Aðrir heimildarmenn

Gísli Konráðsson, fyrrv. framkv.stj., Akureyri. Sigurður Gíslason, verkstjóri, Akranesi.

Snorri Sigfússon, fyrrv. síldarsaltandi á Norður- og Austurlandi. Vigfús Friðjónsson, fyrrv. síldarsaltandi.

17

2. Goos-stöðin í Bakka

Haustið 1914 tók Sören Goos á leigu fjörulóð sunnan við Hvanneyrará, um 95 metra til suðurs frá árósnum. Í ágúst 1915 fékk hann aðra lóð jafnlanga með sjó norðan við ósinn (1). Hinn 4. sept. 1915 samþykkti hafnarnefnd umsókn hans um að fá að byggja þarna bryggju allt að 200 metra út frá landi. Haustið 1915 og haustið 1917 fékk hann lóðir vestan við fjörulóðirnar, upp að veginum ofar á bakkanum (2).

Ástæðan til þess að Goos tók þetta svæði á leigu hefur eflaust verið þrengsli á lóð hans niðri á eyrarhorninu. Þetta svæði hentaði illa fyrir söltunarstöð vegna brattlendis og lá undir stöðugum ágangi sjávar. Samt byggði Goos þarna allstóra söltunarstöð. Hóf hann framkvæmdir 1916, lét þá gera mikla uppfyllingu fram af nyrðri fjörulóðinni, steypa öflugan varnarvegg úr steinsteypu fyrir framan hana og fram af honum löndunarbryggju úr tré. Var saltað dálítið þarna um sumarið, en um haustið stórskemmdust bryggjumannvirkin í aftaka brimi. Í því brimi tók út um 1000 tunnur af síld af bryggjum þar ytra og varð litlu af því bjargað (3).

Árið 1918 sótti Goos um leyfi til að byggja síldarbræðslu á Bakkastöðinni. Var það samþykkt (4) en ekkert virðist hafa orðið úr framkvæmdum.

Goos lét endurbyggja og styrkja bryggjurnar 1917 og að auki byggja sunnan árinnar tuttugu og eins meters langan og rúmlega sex meters breiðan brakka (5). Lét hann síðan salta þarna síld í rúman áratug, síðast sumarið 1927 (6). Eftir það mun ekki hafa verið söltuð síld á stöðinni. Brimið malaði hana síðan í smátt á nokkrum árum. Einu ummerki hennar nú eru fáein steypubrot í flæðarmálinu. Siglufjarðarkaupstaður eignaðist stöðina ásamt öðrum eignum Goos í árslok 1934. Nánar er fjallað um Goos aftar í bókinni.

Tilvísanir

1. Þmb. Litra C. 240 og 241.

2. Þmb. Litra C 242 og Ls. B. Þ. 111 st.

3. Einherji, 5. okt. 1934.

4. Hreppsbók Hvanneyrarhrepps, fundargerð 17. okt. 1918.

5. Brunabótamat Siglufjarðar 1916–1919, nr. 169.

6. Einherji, 5. okt. 1934.

18

3. Ásgeirsstöð við Hvanneyrarkrók

Haustið 1917 leigði séra Bjarni Þorsteinsson Ásgeiri Péturssyni útgerðarmanni fjörulóð við Hvanneyrarkrók (1). Lengd hennar með sjó var um 136 m. Ásgeir fékk líka fjörulóðina milli þessarar lóðar og lóðar Goos, um 63 metra að lengd með sjó, en ekki er ljóst hvort hann fékk hana 1917 eða síðar. Hefur hann líklega keypt lóðarréttindin af Fiskveiðahlutafélaginu Ægi í Reykjavík, sem hafði keypt þau 1916 af Lárusi Þ. Blöndal skipstjóra (2). Ekki virðast nein mannvirki hafa verið á þessum lóðum þegar Ásgeir fékk þær.

Út frá lóðinni í Hvanneyrarkrók var byggð löng löndunarbryggja og ofan við hana söltunarpallur og starfsmannahús, svonefndur Ásgeirsbrakki. Bryggjurnar stóðust illa ágang sjávarins eins og aðrar bryggjur á þessu svæði.

Þarna var söltuð síld í nokkur ár. Ásgeir lenti í fjárhagsþrengingum seint á þriðja áratugnum og árið 1928 seldi útibú Landsbankans á Akureyri stöðina ásamt fleiri eignum hans (3). Kaupendur stöðvarinnar voru Guðmundur Skarphéðinsson og Alfons Jónsson. Ekki hefur verið söltuð síld á þessum stað síðan Ásgeir hætti. Brim og ísrek eyddu fljótt öllum mannvirkjum stöðvarinnar við sjóinn, en húsin uppi á lóðinni stóðu í allmörg ár.

Tilvísanir

1. Ls. B.Þ. nr. 167, st.

2. Lóðaskrá B. Þ. nr. 132. 3. Þmb. Litra T 23.

19

4. Lúðvíksstöð

Sumarið 1916 fékk Lúðvík Sigurjónsson frá Laxamýri leigða sjávarlóð norðan á Siglufjarðareyri, um 63 metra með fjöru norðan sjóvarnargarðsins en 47 metra breiða sunnan hans (1). Tveimur árum seinna fékk hann lóðarskika nokkru sunnar á eyrinni, rúma 390 fermetra (2). Samanlagt voru þessar lóðir tæpir 3700 fermetrar. Seinna fékk hann fleiri lóðir á eyrinni.

Lúðvík hóf byggingu söltunarstöðvar á sjávarlóðinni snemma árs 1917 (3). Kom hann þar upp söltunarpalli ásamt rúmlega 130 metra langri og þriggja metra breiðri löndunarbryggju og geymsluskúr. Árin 1925 og 1926 fékk hann leyfi fyrir fleiri byggingum (4), en ekki eru heimildir um hvað úr framkvæmdum varð.

Ekki er ljóst hvers vegna Lúðvík réðist í síldarsöltun því ekki er vitað til að hann hafi neitt verið viðriðinn útgerð þegar hann byrjaði. Vera má að þar hafi aðeins ráðið för draumar um mikil umsvif og fljóttekna fjármuni eins og hjá skáldinu Jóhanni bróður hans, sem hafði uppi ráðagerðir um hafnargerð og byggingu kaupstaðar við Höfðavatn og fékkst við uppfinningar í frístundum frá skáldskap og gleðilífi í Kaupmannahöfn. Áhugi Íslendinga á síldarútvegi fór ört vaxandi um þetta leyti.

Lúðvíksstöð, sem svo var kölluð, var ákaflega illa staðsett, berskjölduð fyrir norðanáttinni með tilheyrandi sjógangi og stundum ísreki. Varð Lúðvík að minnsta kosti tvisvar að endurbyggja hana eftir að ís og sjór höfðu stórskemmt hana eða eyðilagt að mestu (5).

Árið 1922 greiddi Lúðvík 2500 kr. leigugjald til Hafnarsjóðs Siglufjarðar og 200 kr. 1924. Vekur það grun um að þessi ár hafi hann ekki getað saltað á eigin stöð, heldur fengið leigða söltunaraðstöðu, og þá líklega á Söbstadslóðinni. Um þetta er þó ekki vitað með vissu.

Ekki eru heimildir um mikil söltunarumsvif á stöð Lúðvíks. Vandamenn hans telja að hann hafi grætt á rekstrinum í eitt ár en tapað öll hin (6). Hefur gróðaárið líklega verið 1923 eða 1924, en 1924 var lagt á hann 4000 kr. útsvar.

Sumarið 1927 stöðvaði viðskiptabanki Lúðvíks á Akureyri rekstrarlán til hans á miðri síldarvertíð. Að sögn heimildarmanns sem var háseti á bát hans, Sigurjóni, á reknetaveiðum þetta sumar, varð hann þá að hætta söltun, sem hafði þó gengið vel það sem af var sumrinu og var orðin um 4000 tunnur. Gaf hann þá starfsfólkinu veð fyrir ógreiddu kaupi í því sem búið var að salta og leigði eða lánaði áhöfninni á Sigurjóni bátinn til vertíðarloka. Þótti þetta fágætur grandvarleiki af manni sem var að braska í síld (7). Fleiri heimildir eru um að hann hafi lagt sig fram um að koma í veg fyrir að aðrir yrðu fyrir tjóni vegna þessa síldarævintýris. Samt urðu fleiri en hann fyrir skakkaföllum vegna þess, m.a. tengdafólk hans og vandamenn hans á Laxamýri, sem voru í ábyrgðum fyrir hann, og er gjaldþrotið talið hafa átt einhvern þátt í því að óðalið gekk úr ættinni. Sjálfur stóð hann eignalaus eftir. Saga Lúðvíks er eitt dæmi af mörgum um fallvalt gengi þeirra sem settu traust sitt á síldina og lögðu allt undir.

Lúðvík eignaðist 1925 áðurnefndan vélbát, Sigurjón SI 31, 18 brúttólestir að stærð. Var hann árið eftir gerður út frá Siglufirði á þorsk- og síldveiðar. Hefur Lúðvík líklega misst hann 1927, en Þorsteinn Jónsson útgerðarmaður á Dalvík keypti hann 8. febrúar 1928 (8).

Lúðvíksstöð var á nauðungaruppboði 26. janúar 1929 slegin útibúi Íslandsbanka á Akureyri sem ófullnægðum veðhafa (9). Útvegsbankinn, sem yfirtók eignir og skuldir Íslandsbanka, seldi hana síðan einstaklingum á Siglufirði árið 1931 (10). Ekki hefur lóðin verið notuð til söltunar síðan Lúðvík hætti og 1949 var hún seld Olíuverslun Íslands sem áður hafði eignast næstu lóð austan við hana (11).

20

Tilvísanir

1. Þmb. Litra O 367.

2 Lóðaskrá B. Þ., nr. 195.

3. Fram, 21. feb. 1917.

4. Bygginganefnd Siglufjarðar, fundargerðir 19. maí 1925, 28. sept. og 16. okt. 1926.

5. Viðtal við Huldu Lúðvíksdóttur 25. júní 1990.

6. Sama heimild.

7. Munnleg heimild. Halldór Þorleifsson. Segulbandsupptaka í vörslu Bókasafns Sigufjarðar

8. Jón Björnsson. Íslensk skip, 3. bindi, bls. 205.

9. Þmb. Litra A 9.

10.Þmb. Litra A. 435.

11.Þmb. Litra L. 281.

Aðrir heimildarmenn

Þórey Sigurjónsdóttir og Sigurlaug Árnadóttir, viðtöl í síma.

21

5. Söltunarstöð Árna Böðvarssonar

Hinn 14. júní 1916 fékk maður að nafni Árni S. Böðvarsson leigða lóð á norðausturhorni Siglufjarðareyrar, norðan við lóð Söbstads. Sama dag fékk hann leigða aðra lóð vestar og ofar á eyrinni og þá þriðju 1. september um haustið (1). Árni var fæddur á Eyrarbakka en ólst upp á Seyðisfirði. Hann hóf þar sjósókn á bát sem Otto Wathne átti, en þoldi það illa vegna sjóveiki. Hann nam skósmíði og síðar rakaraðiðn í Reykjavík, sem hann stundaði síðan í Rvík, á Ísafirði og í Vestmannaeyjum. Hugur hans hafði frá bernsku staðið til útgerðar og sjósóknar og eftir 1925 er hann fluttist til Eyja stundaði hann þar margháttaða útgerð og fiskverkun. Í eftirmælagrein í Mbl. 23.4.1975 segir að hann hafi tekið þátt í síldarútgerð og síldarverkun á Siglufirði sumarið 1916. Árni hafði áður sótt um lóð kringum einn skipsskrokkinn við marbakkann suður við Leirurnar, en fengið synjun (2).

Framkvæmdir á lóðinni á eyrarhorninu hófust vorið 1917 og var þá byggð bryggja norður frá henni (3). Í ágústlok um sumarið framseldi hann eignina a/s Hólar, hlutafélagi í Kaupmannahöfn, ásamt meðfylgjandi réttindum og skyldum. Næsta ár, 1918, féllu lóðasamningar Árna úr gildi, en ekki er ljóst hvort þeim var afsalað eða hvort þeir féllu úr gildi vegna vangreiðslu á leigugjöldum. Sumarið 1917 varð síldarsaltendum þungt í skauti og virðist ferli Árna á Siglufirði þá hafa lokið. Á minnisblaði yfir síld, ápakkaða á Siglufirði 1917, er hann þó talinn eigandi að 165 tunnum (4) sem líklega hafa verið saltaðar á stöð hans.

Hinn 26. júní 1919 samþykkti hafnarnefnd að heimila manni að nafni Jón Jónsson að byggja bryggju á lóðinni fyrir Sigurjón Pétursson kaupmann í Reykjavík (5). Ekki virðist hafa orðið neitt úr því og í desember fékk hafnarnefnd lóðina leigða vegna áformaðra hafnarframkvæmda (6).

Engar heimildir hafa fundist um að söltuð hafi verið síld á stöðinni eftir 1917 og Ole Tynes telur hana í endurminningum sínum meðal þeirra stöðva sem náttúruöflin eyddu fljótlega uns ekkert sást eftir.

Tilvísanir

1. Ls. B.Þ. nr. 131 st.

2. Hreppsnefnd og hafnarnefnd Siglufjarðar, 18. mars 1916.

3. Fram, 30. júní 1917.

4

. Laust minnisblað innan í hreppsbók Siglufjarðar 1899 – 1919.

5. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 23. júní 1919.

6. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 17. des. 1919.

22

6. Söbstadslóðin

Stöð Söbstads

Flest bendir til þess að Hans Söbstad skipstjóri og útgerðarmaður frá Kristiansund hafi fyrstur Norðmanna komið upp söltunarstöð á Siglufirði og fyrstur saltað þar síld, hinn 8. júlí 1903. Engar skjalfestar heimildir eru til um hvar þessi söltun fór fram, en örugg heimild er um að síldin var af Marsley, einu af skipum Söbstads. Skipstjórinn hét Ole Myrset.

Í maíbyrjun um vorið hafði annað skip, Cambria, flutt til Siglufjarðar efnivið og þrjá smiði sem komu upp löndunarbryggju, söltunarpalli og birgðahúsi (1). Hefur þá eflaust verið búið að gera bráðabirgðasamning um stöðvarlóðina. Bæði Marsley og Cambria voru eign Söbstads, sem hafði tekið þátt í landnótaveiði í Eyjafirði nokkur sumur. Ólíklegt er að Söbstad eða menn hans hafi staðið í þessu umstangi fyrir aðra.

Formlegur samningur um lóð fyrir rekstur Söbstads var undirritaður 5. nóvember um haustið (2). Upphaf leigutímans er sagt 8. október 1903. Guðmundur Jörundsson, útvegsbónda og skipstjóra Jónssonar á Syðstabæ í Hrísey, „Hákarla-Jörundar“, undirritaði samninginn í umboði Söbstads (3). Ekki eru aðrar heimildir um tengsl Guðmundar við Söbstad eða aðra norska síldveiðimenn. Þess má hins vegar geta, að þegar hér var komið sögu höfðu Norðmenn haft bækistöðvar í Hrísey í rúmlega 20 ár, einkum á Syðstabæ og Miðbæ, og Jörundur faðir Guðmundar átti hlut að útgerð með þeim. Söbstad eða Guðmundur fyrir hans hönd hefði getað gert bráðabirgðasamkomulag um lóðina veturinn eða jafnvel sumarið áður, þó ekki væri gengið lögformlega frá samningi fyrr en um haustið 1903. Guðmundur var kvæntur siglfirskri konu, Sigríði Sigurðardóttur frá Skarðdal. Þau bjuggu á Siglufirði 1902–1904.

Spildan sem um var samið var um 57 m með fjöru til norðurs frá mörkum lóðar þeirrar er Dansk Fiskeri og Hvalfangerselskab hafði haft á leigu síðan 1896, og náði tæpa 38 metra vestur á eyrina, mælt frá mörkum graslendis. Hinn 29. júlí 1905 gerði Söbstad sjálfur nýjan lóðarsamning við séra Bjarna (4). Með þeim samningi var lóðarspilda hans lengd stórlega til norðurs og náði nú að sjó á norðurenda eyrarinnar skammt austan við húsið Kamb. Á þessari lóð, við fjöruborðið á sjávarkambinum, byggði Söbstad söltunarpall og fram af honum bryggjur.

Þó lóðin væri löng með fjöru var hún ekki í sama mæli hentug. Sjór og vindur gnauðuðu á henni í norðan- og austanátt, helstu vindátt fjarðarins, og brim gat gengið yfir rifið að norðan, inn í tjörnina. Í rauninni var aðeins syðsti hluti hennar sæmilega nothæfur og 1907 fékk Söbstad leigða ræmu norðan af lóð nágranna síns að sunnan, Bakkevigs (5). Síðan jók hann smámsaman landrými sitt með leigutöku á nýjum lóðum vestan við sjávarlóðina og uppfyllingu í tjarnirnar.

Árið 1909 framleigði Söbstad einum sona sinna, Harald, nyrsta hluta sjávarlóðarinnar, um 110 metra með fjöru (6). Ekki eru öruggar heimildir um að Harald hafi komið þar í gang neinni starfsemi. Þó er til veðbréf þar sem hann veðsetur lögfræðingi í Kristiansund síldarverksmiðju sína á Siglufirði til tryggingar 5000 kr. skuld. (7). Ekki hefur komið í leitirnar neitt annað sem styður það að Harald hafi komið upp síldarverksmiðju eða öðrum mannvirkjum á lóðinni og er óskýrt hvernig á þessari veðsetningu stendur. Einna líklegast er að þarna hafi verið um formgalla að ræða, t.d. að gleymst hafi að skrá á skjalið umboð frá Hans Söbstad. Skuldin virðist hafa verið greidd og veðinu aflýst á eðlilegum tíma. Harald lést 1915.

23

Árið 1917 falaðist Pétur J. Thorsteinsson eftir um það bil 100 metra langri spildu norðan af lóð Söbstads (8). Hreppsyfirvöld höfðu þá í nokkur ár haft uppi ráðagerðir um að byggja á norðausturhorni eyrarinnar afgreiðslubryggju sem jafnframt væri brimvörn fyrir austanverða eyrina. Þau neyttu því forkaupsréttar og keyptu lóðarhlutann fyrir 15 þús. kr.

Sumarið 1921 hreppti hafnarsjóður eignir Söbstads á nauðungaruppboði. Þar á meðal voru lóðarréttindi að tíu samliggjandi lóðum neðst á eyrinni ásamt bryggjum, húsum og öðrum mannvirkjum sem á þeim stóðu (9) Í júní 1922 gerði hafnarnefnd síðan heildarsamning við séra Bjarna um allt Söbstadssvæðið ásamt nokkru viðbótarlandrými sem talið var nauðsynlegt að höfnin réði yfir (10). Endanlegt afsal Söbstadseignanna til bæjarins var gefið út 16. júlí 1926.

Bryggjur á Söbstadslóð voru leigðar út til söltunar eftir að hafnarsjóður fékk þar ítök 1917. Líklega hefur Söbstad einnig leigt út bryggjur. Til þess benda nöfn á tveim bryggjum á lóð hans, Breiðabliksbryggju og Alsakersbryggju, sem fram koma í fundargerðum hafnarnefndar frá árunum 1917–1923. Engar heimildir eru um tilefni fyrrnefnda heitisins, en Alsakersbryggja hefur trúlega verið kennd við síldarkaupmanninn O. Alsaker sem bar rúmlega 500 króna útsvar á Siglufirði árið 1915.

Togarafélagið Bragi, eða Th. Thorsteinsson, bróðir Péturs, sem átti það að mestum hluta, greiddi allhá útsvör á Siglufirði 1918–1920 og hafnarsjóði bryggjuleigur 1920 og 1921, vafalítið vegna söltunar öll árin, líklega á bryggju nyrst á Söbstadslóð, því veturinn 1921–1922 krafðist hafnarnefnd þess að Thorsteinsson tæki síld sem hann eða Gunnar Sigurðsson alþingismaður frá Selalæk ættu liggjandi á hafnargrunninum og Söbstadslóð (11). Bragi hf. var í hópi hæstu útsvarsgreiðenda á Siglufirði 1918 og 1919. Ekki er ólíklegt að þau útsvör hafi verið lögð á síldarsöltun á einhverri Söbstadsbryggjunni.

Sumarið 1921 fékk Óskar Halldórsson leyfi til að salta 2–3 þúsund tunnur á syðri bryggjunni á Söbstadslóð (12). Eftir þetta voru bryggjurnar auglýstar árlega til leigu en forgangsréttur að öðru jöfnu veittur þeim sem höfðu haft þær árið áður.

Leigubryggjur á lóðinni voru tvær 1923 og 1924, þrjár 1925, og fékk þá hver aðili 23ja metra breiða skák af leigusvæðinu. Næstu ár voru ýmist leigðar ein eða tvær bryggjur, enda tekið að þrengjast um á lóðinni vegna nýrra framkvæmda. Íshús var byggt þar 1923. Þýskur maður, dr. Paul, byggði þar síldarverksmiðju sem tók til starfa 1926. Fyrsta verksmiðja Síldarverksmiðja ríkisins reis þar og tók til starfa 1930 og önnur 1935. Afgreiðslubryggja, oftast nefnd Bæjarbryggja, var byggð út frá lóðinni 1926. Fram af henni lögðust flutningaskipin. Vörur voru fluttar milli skips og lands á uppskipunarbátum en ferjumenn fluttu farþega og settur var stigi á bryggjuna þeim til hagræðis.

Undirbúningur að byggingu öldubrjóts á eyrarhorninu, nyrst á Söbstadslóð, hófst 1933, þó framkvæmdir byrjuðu ekki fyrr en 1939.

Í plöggum hafnarnefndar Siglufjarðar er að finna heimildir um eftirtalda leigjendur á Söbstadslóðinni: Óskar Halldórsson 1921; Þormóður Eyjólfsson, að því er virðist stundum í félagi við Bernhard Petersen kaupmann í Reykjavík, 1922–1928 og ef til vill líka 1929; Sigurjón Ólafsson útgerðarmaður í Reykjavík, ef til vill í félagi við Helga Hafliðason, 1923–1925; Ólafur A. Guðmundsson 1926; Helgi Hafliðason 1927, Gunnlaugur Þorfinnsson 1928; Friðrik Guðjónsson 1929; Ingvar Guðjónsson 1925 og 1930, en reyndi að losna frá leigunni síðara árið og er ekki vitað hvort hann notaði stöðina eitthvað. Fimm Siglfirðingar, Jón, Oddur og Þorlákur Þorkelssynir, Finnur Gíslason og Árni Pálsson fengu bryggju 1931; 1932 kom ekkert tilboð en Sveinn Guðmundsson virðist hafa haft einhver afnot

24

af bryggju þar; 1933 barst aðeins eitt tilboð sem var hafnað; 1934 Helgi Hafliðason og söltunarfélagið Jötunn, sem Sophus A. Blöndal og Magnús Norðdal virðast hafa stjórnað (13). Jötunn saltaði líka 1935 (14) en ekki er vitað hvort það var á sömu bryggju.

Gamla Siglfirðinga rámar í að Pétur Bóasson hafi átt hlut að síldarsöltun á Söbstadslóð. Heimild er um að Helgi Hafliðason var einhverntíma í félagi með Gunnlaugi Þorfinnssyni um söltun þar (15). Óljósar sagnir eru um að Sigurjón Pétursson frá Reykjavík hafi rekið söltunarstöð á þessu svæði. Þetta mun vera Sigurjón á Álafossi, sem var um hríð verslunarmaður og verkstjóri hjá Th. Thorsteinsson og hóf seinna útgerð á eigin vegum. Sigurjón bar 700 króna útsvar á Siglufirði 1919 og 350 kr. 1920. Hann sótti sem fyrr segir um byggingarleyfi á lóð Árna Böðvarssonar árið 1919. Þormóður Eyjólfsson var með söltun á Siglufirði 1929. Það gæti hafa verið á Söbstaðslóð í félagi við einhvern.

Af skipum Söbstads sem komu við sögu hér við land má nefna Cambriu og Marshley sem áður voru nefnd, Önnu, Matchless og fjögur skip sem hann nefndi eftir börnum sínum, Haakon, Erling, Harald og Hönnu, og síðast en ekki síst Brödrene, sem mun hafa orðið kunnast af skipum hans og var gert út á síld hér við land fram á fjórða áratuginn, en einnig á þorsk- og hákarlaveiðar. Þá tók hann á leigu skip, bæði til veiða og flutninga.

En Söbstad var frumkvöðull að fleiru en síldarsöltun í landi. Hann kom á fót einni af fyrstu síldarverksmiðjunum á Íslandi og tunnuverksmiðjunni, sem hóf framleiðslu 1917. Sjálfur fluttist hann til Siglufjarðar 1910 og fjölskylda hans mun öll hafa sest þar að 1912.

Hinn 6. júlí 1919 kom upp eldur í síldarverksmiðju Söbstads og brann hún ásamt íbúðarhúsinu og tunnuverksmiðjunni sem var á neðri hæð þess. Eignir þessar voru vátryggðar fyrir broti af raunvirði. Söbstad hélt þó áfram útgerð og síldarsöltun næstu misseri en varð að gefast upp 1921 og fluttist á heimaslóðirnar í Bremsnes við Kristiansund, þá fyrir nokkru orðinn blindur, og mun hafa látist þar 1926. Tveir synir hans, Harald og Pétur, er var um tíma verksmiðjustjóri á Hesteyri, báru hins vegar beinin á Íslandi

Ef þessi frumherji síldarútvegsins á Siglufirði mætti líta úr gröf sinni yfir gömlu síldarlóðina sína á norðausturhluta Siglufjarðareyrar og kynna sér sögu hennar síðan hann leit hana síðast mundi eflaust gleðja hann að vita að hvergi á jafnstórum bletti á Íslandi hefur jafnmikil síld komið á land. Þar risu síldarverksmiðjur ríkisins og þar starfar enn sú stærsta og fullkomnasta þeirra, og þar var ein myndarlegasta söltunarstöðin á fyrrverandi höfuðsetri síldarframleiðslunnar rekin fram á síðustu ár Norðurlandsveiðanna.

Pólstjarnan/Hafglit

Árið 1921 eignaðist Siglufjarðarbær Söbstadslóðirnar á norðausturhluta eyrarinnar. Þessar lóðir urðu mesta athafnasvæði bæjarins. Þar risu síldarverksmiðjur, íshús og fleiri mannvirki sem þrengdu mjög að síldarsöltuninni. Loks var ráðist í byggingu öldubrjóts út af norðurhorni svæðisins og Olíuverslun Íslands fékk þar aðstöðu 1937.

Ekki eru tiltækar heimildir um síldarsöltun á þessu svæði 1935–1938. Haustið 1938 tóku bæjaryfirvöld að huga að byggingu nýrrar söltunarstöðvar sunnan við öldubrjótinn. Var Finnbogi R. Þorvaldsson verkfræðingur hjá Vitamálskrifstofunni fenginn til að gera af henni teikningu og kostnaðaráætlun. Danskur verktaki, Herman Christiansen, tók að sér bygginguna.

Stöð þessi, sem varð ein besta söltunarstöð bæjarins, var tilbúin fyrir vertíð 1939. Var hún þá leigð þrem útgerðarmönnum: Jóni L. Þórðarsyni frá Laugabóli, Hafsteini Bergþórssyni í Hafnarfirði og Jóhanni Þ. Jósefssyni alþingismanni (16). Ári síðar var leigusamningurinn yfirfærður á hlutafélag

25

þessara þriggja manna, Pólstjörnuna hf. (17). Hafði félagið síðan stöðina á leigu til 1965. Forustumaður þess og framkvæmdastjóri var frá upphafi Jón L. Þórðarson. Virtist hann bera einn ábyrgð á rekstrinum allan tímann, en þessir þrír menn skipuðu enn stjórn félagsins 1959 (18).

Pólstjörnustöðin, en svo var þessi stöð venjulega kölluð, þó hún bæri lengi nafnið Nýja stöð í bókum bæjarins, var oftast ein þeirra söltunarhæstu á Siglufirði. Söltunarstúlkur á tryggingu voru oftast 50–60 og sjaldan færri en 8 karlmenn ráðnir á tryggingu yfir söltunartímann.

Leigan var frá upphafi bundin skilyrði um að leigutaki útvegaði síldarverksmiðjunni Rauðku viðskiptaskip með bræðslusíld og seldi henni síldarúrgang sem til félli á stöðinni. Bæjaryfirvöld reyndu að binda leigu á öllum söltunarstöðvum í eigu bæjarins þessu skilyrði, en misjafnlega gekk að fá því framgengt. Flest skip vildu heldur skipta við Síldarverksmiðjur ríkisins, sem höfðu margar verksmiðjur dreifðar um Norðurland og Austfirði. Fallið var frá skilyrðinu um skipaviðskiptin gagnvart Pólstjörnunni hf. 1954. Það var sett inn aftur kringum 1960, en fallið frá því á ný 1967. Ákvæðið um söltunarúrganginn stóð hins vegar alltaf óbreytt.

Árið 1962 gerði hlutafélagið leigusamning um stöðina til fimm ára, en fór 1965 fram á að verða leyst frá honum. Ástæðan mun hafa verið heilsubrestur Jóns L. Þórðarsonar, en einnig var sýnt að tímabili Norðurlandssíldveiðanna væri að ljúka. Nýtt fyrirtæki, Hafglit hf., gekk inn í samninginn og keypti söltunaráhöld og söltunarefni sem Pólstjarnan átti á stöðinni. Aðalmenn í Hafgliti hf. voru Bjarni M. Þorsteinsson, sem verið hafði verkstjóri á stöðinni undanfarin ár, og Skúli Jónasson byggingameistari og bæjarfulltrúi á Siglufirði.

Hafglit naut velvildar gamalla viðskiptaskipa stöðvarinnar tvö næstu sumur, saltaði um 2800 tunnur 1966 og um 2300 tunnur 1967, en 1968 söltuðust aðeins 78 tunnur. Var það úr hlut stöðvarinnar af „félagsfluttri“ síld af norðausturmiðum og síðasta síldarsöltun á stöðinni. Hafglit rak fiskverkun, hrognakaup og fleira á stöðinni auk söltunarinnar. Félagið hafði stöðina til 1970. Uppistaðan í rekstrinum síðustu árin var kaup og verkun grásleppuhrogna.

Tilvísanir

1. Endurminningar Ole Tynes

2. Þmb. Litra K 326.

3. Þmb. Litra K. 326.

4. Þmb. Litra M 552.

5. Þmb. Litra L. 275.

6. Þmb. Litra N 29.

7. Þmb. Litra N. 121.

8. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 17. nóv. 1917.

9. Þmb. Litra R. 150; Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 27. sept. 1921.

10. Ls. B. Þ. nr. 51, st.

11. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 30. mars 1922.

12. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 13. og 14. júlí 1921.

13. Einherji, 22. júní 1934.

14. Neisti, 18. og 25. sept. 1935.

15. Munnleg heimild. Hafliði Helgason.

16. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerðir 14. og 17. mars 1939.

17. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 28. mars 1940.

18. Þmb. Litra RII 385.

26

Aðrar heimildir

Söltunarskýrslur Síldarútvegsnefndar og viðtal við Bjarna M. Þorsteinsson.

27

7. Bakkevigsstöðin

Árið 1896 fékk útgerðarfyrirtækið Dansk Fiskeri og Hvalfangerselskab leigða fjörulóð austan á Siglufjarðareyri (1). Samninginn undirritaði fyrir hönd fyrirtækisins Johannes Bull, annar eða einn bræðra frá Vestfold í Noregi sem ráku hvalveiðastöð á Hesteyri.

Útgerðarfyrirtækið Gjerdsjö & Bakkevig í Haugasundi hóf útgerð við Ísland fyrir 1900, rak landnótaveiðar í Reyðarfirði (2) og síðar við Eyjafjörð. Árið 1902 festi Laurits Bakkevig, kaup á landspildu við sjó í landi Ytra-Krossaness við Eyjafjörð. Þar byggði fyrirtækið þriggja hæða sjóhús (3). En nú var tími síldveiða á opnu hafi að ganga í garð. Annar Bakkevig, Tormod, tók þá að skyggnast um eftir lóðum á Siglufirði og undirritaði 10. september 1903 samning við séra Bjarna Þorsteinsson um að fá áðurnefnda lóð hvalveiðifélagsins þegar það afsalaði sér henni. Þetta var síðan áréttað með samningi 23. september 1904 (4). Hinn 29. júlí 1905 undirritaði Tormod loks samning um leiguréttindi á lóðinni, næstu lóð fyrir sunnan lóð Söbstads, um 150 metra með fjörunni og um 125 metra frá flóðmáli upp á eyrina (5).

Þetta sumar gerðu Gjerdsjö & Bakkevig út á síldarmiðin við Ísland þrjú vélknúin nótaskip og tvær seglskútur með reknet. Mjög brýnt var því orðið að fá söltunaraðstöðu í landi. Árið 1907 leigði Bakkevig nágranna sínum Söbstad skák norðan af lóð sinni (6). Stærð hennar er ekki kunn nú því mörk hennar voru miðuð við fiskihús á fjörukambinum sem eru löngu horfin. Þræta spannst út af þessum lóðarhluta þegar bærinn eignaðist fasteignir Söbstads 1921; Bakkevig-fyrirtækið taldi sig hafa heimildir á honum en bærinn leit á hann sem hluta af hinni seldu eign. Fyrirtækið bauð bænum fyrst lóðarhlutann fyrir 5000 kr. (7), en eftir nokkurt stapp féll það frá hugsanlegum rétti sínum til hans gegn 3000 kr. greiðslu í peningum og lagfæringum á öðrum lóðum (8).

Þó að þessi síldarstöð væri alltaf kennd við Bakkevig var hún ekki einkaeign hans. Fyrirtækið Gjerdsjö & Bakkevig stóð að stofnun hennar. Síldarbræðslan sem komið var upp á Siglufirði og kennd við Bakkevig hét fullu nafni Sildeoliefabrikken T. Bakkevig og virðist hafa verið sameignarfyrirtæki félagsins og Tormods. Árið 1917 var fyrirtækinu Gjerdsjö & Bakkevig slitið en Jens sonur Tormods gerðist meðeigandi og hét fyrirtækið eftir það Bakkevig & Sön (9). Mun Bakkevigsfjölskyldan þá hafa átt það að fullu.

Tormod Bakkevig var einn af forgöngumönnunum um síldveiðar á hafi úti. Vorið 1904 sendi hann Johannes Olsen Sjöen til Ameríku að kynna sér veiðar með herpinót. Hans Falck útgerðarmaður í Stafangri sendi sama vor Bendik Mannes þangað sömu erinda. Þeir Mannes og Sjöen komu báðir til baka með nætur, 200 faðma langar og 20 faðma djúpar, og reyndu þær um sumarið. Mannes var skipstjóri á Albatros, sem aflaði um sumarið 3100 tunna með þessu veiðarfæri, en Sjöen var veiðistjóri á Imbs, einu af skipum Gjerdsjö & Bakkevigs, og veiddi um 2600 tunnur alls í nótina, mest 336 tunnur í einu kasti (10).

Bakkevig var í hópi atkvæðamestu Norðmannanna á Siglufirði. Heimildir eru um á annan tug skipa sem gengu á veiðar á hans vegum. Árið 1906 fluttu tvö skip á vegum fyrirtækisins rúmlega 12 þúsund tunnur síldar frá Íslandi til Stokkhólms og Haugasunds.

Bakkevig kom á fót á lóð sinni fyrstu síldarbræðslu á Íslandi. Tók hún til starfa 11. ágúst 1911 (11). Þetta var heldur frumstæð verksmiðja. Síldarmaukið var pressað og þurrkað í kökur sem fluttar voru til Noregs til fullvinnslu. Pressuvökvinn var látinn renna í stór ker þar sem lýsið var fleytt ofan af og sett á tunnur til útflutnings. Rekstur verksmiðjunnar lagðist að mestu niður eftir lát Tormods 17. apríl 1919. Heimild er þó um að hún hafi tekið á móti 8000 málum af síld 1923 (12).

28

Útgerð Norðmanna á Íslandsmið stöðvaðist að mestu á styrjaldarárunum 1914–1918 og bjó við þrengingar næstu ár. Erfingjar Tormods Bakkevigs virðast þá hafa afráðið að hætta rekstri á Íslandi og eignirnar komust á hendur Steffens Staalesens útgerðarmanns í Haugasundi og Henriks D. Henriksens skömmu eftir lok stríðsins. Ekki eru heimildir um hvernig á því stóð né hvernig rekstrinum var hagað fyrstu 2–3 árin.

Hinn 10. maí 1924 fékk Henrik D. Henriksen afsal fyrir eignum og lóðarréttindum dánarbúsins á Siglufirði. Kaupverðið var 120 þús. kr., líklega norskar (13). Jafnframt veðsetti hann Bakkevigseignirnar, hvalveiðistöðina Heklu á Hesteyri og einkaeignir sínar fyrir 300 þúsund króna skuld við Staalesen (14). Henriksen lést 28. júní 1924, rúmum sex vikum eftir þessa samningagerð og Staalesen snemma árs 1925. Komu eignirnar þá til kasta erfingjanna og skiptaréttar Haugasunds. Hinn 20. júní 1925 var Bakkevigseignunum á Siglufirði afsalað til „herra konsúls T. Hofman Olsens“ , tengdasonar Staalesens, sem búsettur var í Kaupmannahöfn. Hann skuldbatt sig til að greiða það sem eftir stóð af kaupverðinu, kr. 83.000,00 (15).

Frá 1920 eða 1921 til 1927 ár stóð danskur maður, Andreas J. Godtfredsen, fyrir síldarsöltun á Bakkevigsstöð. Bjó hann þá stundum í Wedinshúsinu, „villunni“, sem Siglfirðingar nefndu svo, og hafði þar oft umboðsmenn sænskra síldarkaupmanna í húsnæði og fæði (16). Godtfredsen þessi kom talsvert við sögu á Siglufirði og víðar á Íslandi næstu tvo áratugi.

Haft er fyrir satt að rekstur Godtfredsens á Bakkevig-stöðinni hafi í reynd verið á kostnað og fjárhagslega ábyrgð útlendra síldarkaupmanna, en hann aðeins lagt fram nafn sitt og þau atvinnuréttindi á Íslandi sem fylgdu dönskum þegnrétti. Voru Svíarnir Gabrielson, Wallström, Amelnbræður, Wedin og fleiri nefndir í þessu sambandi, en einnig landar hans, Sören Goos og áðurnefndur Hofman Olsen, tengdasonur Staalesens.

Sumarið 1925, fyrsta árið eftir fráfall Staalesens, virðist Hofman Olsen hafa haft yfirumsjón með rekstrinum, en í ársbyrjun 1926 var Olaf, sonur Henriks D. Henriksens, útnefndur af bæjarfógeta til umsjónar með Bakkevigseignunum í umboði T. Hofman Olsens (17). Godtfredsen virðist þó hafa annast daglegan rekstur á stöðinni 1926 og 1927 en Olaf Henriksen haft umsjón með rekstri bátanna og yfirumsjón með söltuninni (18).

Halldór Guðmundsson frá Böðvarshólum rak söltunarstöðina í umboði Hofman Olsens sumarið 1928. Vorið 1929 seldi T. Hofman Olsen Halldóri eignir sínar og lóðarréttindi á Siglufirði fyrir 190 þúsund danskar kr. (19). Halldór rak stöðina til 1936 og hafði mikið umleikis. Eitt árið saltaði hann þarna um 25 þúsund tunnur (20). Söltunarfélag verkalýðsins á Akureyri saltaði á suðurhluta plansins 1931. Sigfús Baldvinsson stóð fyrir söltun þess (21).

Halldór tók upp bræðsluvélarnar úr verksmiðjuhúsinu og hóf þar tunnusmíði, mun það hafa verið um 1930. Verksmiðjan brann í apríl 1932. Vorið 1933 hóf hann byggingu stórrar síldargeymslu. Lét hann þá steypa hæð ofan á þrær Bakkevig-verksmiðjunnar. Þar var seinna hraðfrystihúsið Hrímnir. Var ætlunin að fá þarna um 1300 fermetra rými þar sem geyma mætti 5–6 þúsund síldartunnur. Loftið yfir nýju hæðinni var flatt steinloft, mjög öflugt, og lengi stóðu steyptir stöplar á brúnum þess. Var þeim ætlað að bera þak og treysta timburveggi þriðju hæðarinnar. Úr byggingu hennar varð þó aldrei. Loftið var oft notað sem síldargeymsla meðan saltað var á stöðinni. Nákomnir ættingjar Halldórs telja að bygging þessi hafi riðið fjárhag hans að fullu. Halldór lenti í fjárþröng 1936 og fékk T. Hofman Olsen stöðina aftur með útlagningargerð 15. júní 1937, þar sem honum var lögð út eignin á nauðungaruppboði sem ófullnægðum veðhafa fyrir 100 þús. kr. skuld (22).

29

Hinn 1. mars 1938 seldi Hofman Olsen Friðriki Guðjónssyni eignina. Mánuði seinna fengu Síldarverksmiðjur ríkisins með ráðuneytisúrskurði leigurétt á lóðum Bakkevigs vestan Tjarnargötu (23). Friðrik seldi það sem eftir var af stöðinni á árunum 1940 og 1941. Kaupendur voru tvö félög og ráku bæði síldarsöltun að mestu óslitið til loka söltunar á Siglufirði.

Í desember 1940 keypti nýstofnað hlutafélag, Hrímnir hf., lóðarspildu norðan af stöðinni ásamt með geymsluhúsinu ofan á Bakkevigsþrónni, söltunarpalli og bryggju fram af honum (24). Geymsluhúsinu var síðan breytt í hraðfrystihús. Í stjórn Hrímnis hf., sem var stór hluthafi, voru tveir fulltrúar frá bænum; bræðurnir Ingvar og Friðrik Guðjónssynir og Aage Schiöth. Friðrik var framkvæmdastjóri og helsti ráðamaður fyrirtækisins til 1954. Ekki er ljóst hvort Friðrik saltaði á stöðinni 1938, en samkvæmt öruggum heimildum saltaði hann þar árin 1939–1941. Eftir það var ekki saltað þar í nokkur ár, enda dróst söltun mikið saman á stríðsárunum. Hins vegar var mikil beitufrysting og ísframleiðsla í frystihúsi Hrímnis hf. eftir að það komst á laggirnar snemma árs 1941. En 1949 og síðan samfleytt til 1968 var saltað á stöðinni.

Sunnlenskur maður, Hallgrímur Oddsson, keypti meirihluta hlutafjár í Hrímni fyrrihluta árs 1954 og rak fyrirtækið tvö sumur, en 1956 tóku tveir starfsmenn þess, Jón Sigurðsson verkstjóri og Þórður Þórðarson vélstjóri, stöðina á leigu. Keyptu þeir síðan hlutabréf Hallgríms Oddsonar og ráku stöðina þar til síldaröld Siglufjarðar lauk 1968.

Eftir söluna til Hrímnis átti Friðrik Guðjónsson eftir syðsta hluta Bakkevigsstöðvarinnar. Þennan hluta seldi hann 8. okt. 1941 sameignarfélaginu Jarlinum, Garði, en helsti ráðamaður þess var Óskar Halldórsson (25). Óskar var nú hættur umsvifum í Bakka, svo sem fyrr var frá sagt, og stöð Einars og Friðriks Einarssona sem hann keypti 1940 fullnægði ekki athafnadraumum hans. Sameinaði hann nú þennan lóðarhluta næstu stöð fyrir sunnan, Ásgeirstöðinni, sem þrjár dætur hans keyptu 1942. Um hina nýju stöð og reksturinn þar er fjallað í næsta kafla.

Tilvísanir

1. Ls. B. Þ. Ótölusettur samningur, st.

2. Ingólfur Kristjánsson. Siglufjörður, 1968, bls. 482.

3. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 22.

4. Þmb. Litra P 18 og 19.

5. Þmb. Litra P 17.

6. Þmb. Litra L 275.

7. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerðir 22. feb. og 29. mars 1922.

8. Þmb. Litra Q 196.

9. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 129.

10. Islands Næringsliv, bls. 133; Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 51.

11. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 108.

12. Ægir, 1924, bls. 5.

13. Þmb. Litra R. 45.

14. Þmb. Litra R. 44.

15. Þmb. Litra R. 180.

16. Munnleg heimild. Sigurlaug Davíðsdóttir.

17. Þmb. Litra R 230.

18. Frásögn Halldórs Þorleifssonar, segulbandsspóla í vörslu Bókasafns Siglufjarðar.

19. Þmb. Litra A. 268 og 269.

20. Munnleg heimild. Hafliði Helgason.

21. Munnleg heimild. Snorri Sigfússon.

30

22. Þmb. Litra F 85a.

23. Þmb. Litra E 444.

24. Þmb. Litra G 93.

25. Þmb. G 392 og H 127.

31

8. Ásgeirsreitur /Jarlsstöð (Óskarsstöð)

Árið 1903, sama árið og Bakkevig fékk sjávarlóð sína, fékk Henrik Dybdahl-Henriksen sjávarlóð nokkru sunnar á austanverðri Siglufjarðareyri. Milli lóðanna voru aðeins 24 álnir, eða rúmlega 15 m. Á því svæði stóð svonefndur Grönvoldshjallur, kenndur við Grönvold faktor Gránuverslunar, og þar áttu Hafliði Guðmundsson hreppstjóri og Helgi sonur hans hús og lóðarréttindi.

Á þessari skák kom Ásgeir Pétursson útgerðarmaður á fót söltunarstöð árið 1906. Hann seldi hana þrem dætrum Óskars Halldórssonar útgerðarmanns 14. júlí 1942. Heimildir eru um á milli 10 og 20 kaupsamninga um þessa söltunarstöð, hluta af henni eða mannvirki á henni. Verða þeir ekki raktir hér í smáatriðum.

Jóhann Vigfússon, hálfbróðir Grönvolds faktors, fékk lóð á þessu svæði 1904 (1) og byggði þar íbúðar- og verslunarhús 1905 (2). Húslóðin var fram við sjóinn og náði yfir um það bil 12,5 metra af 15 metra breidd skákarinnar. Var þá eftir óráðstöfuð um 2,5 metra breið ræma eða sund upp með húsinu og lóðarbútur í fullri breidd vestan við það. Húsið var jafnan nefnt Baldur. Þar var lengi veitingasala. Samkvæmt munnlegri heimild var húsið í fyrstu kennt við bát er hét Baldur og hafði aðstöðu á neðri hæð hússins og við bryggjuna fyrir framan það (3). Festist nafnið síðan við húsið.

Ásgeir Pétursson kaupmaður og útgerðarmaður á Akureyri var umsvifamesti athafnamaður á Norðurlandi á fyrstu áratugum aldarinnar, rak verslun, útgerð, síldarsöltun og fiskkaup á mörgum stöðum. Hann fór að huga að síldarsöltun á Siglufirði árið 1906, en þá var búið að leigja bestu sjávarlóðirnar. Hann tók því skásta fáanlegan kost; sundið frá sjónum upp með Baldri og það sem eftir var af lóðinni í fullri breidd fyrir vestan húsið (4). Árið 1912 fékk hann leigða lóð sem lá að Baldurslóðinni að vestan (5) en hefur líklega verið búinn að hafa not af henni áður. Telja má víst að hann hafi oft haft not af bryggjunni fyrir framan Baldur, en hann var einn meðeigenda í sameignarfélagi sem seldi Þorvaldi Atlasyni veitingamanni húseignina 1911. Hafa þau afnot bætt aðstöðuna verulega.

Heimild er um að Pétur Bóasson saltaði á Baldursstöðinni 1925 (6) og 1926 tók hann á leigu til fjögurra ára neðri hæð og hluta af efri hæð Baldurshússins, ennfremur öll lóðarréttindi, heimild til að stækka söltunarpallinn og til að byggja þriggja álna breiða bryggju fram með Henriksensbryggjunni, sem lá að Baldurslóðinni að sunnan. Líklegt er að hann hafi saltað þarna eitthvað næstu ár, ef til vill allan leigutímann.

Ásgeir fékk seinna lóðir ofar á eyrinni, sem lágu að lóðum hans þarna (7) og notaði þær til geymslu á síld og söltunarvörum.

Söltun hófst á stöðinni sumarið 1907.

Húsið Baldur stóð til 1982. Sundið milli þess og Bakkevigslóðarinnar var því jafnmjótt allan tímann sem síld var söltuð á stöðinni. Söltunarlínan lá upp sundið. Áður en slorrennur voru settar upp þótti oft heldur ókræsilegt umhorfs þar í stórsöltunum og fékk sundið þá nafnið Sóðasund. Sagan segir að áður en slorflutningsrennur voru settar upp hafi söltunarstúlkurnar stundum staðið þarna í slori upp á mjaðmir. Ekki skal sú saga seld hér dýrar en hún var keypt, en víst er að þarna var mjög þröngt og erfitt um vik að hreinsa frá kössunum meðan söltun stóð yfir.

Ásgeir Pétursson átti í miklum fjárhagsþrengingum á þriðja áratug aldarinnar og seldi þá allmikið af eignum sínum, meðal annars seldi hann þessa söltunarstöð í apríl 1929 með milligöngu útibús Landsbankans á Akureyri. Kaupandi var skráður Ólafur Þórðarson frá Laugabóli (8). Meðal trygginga sem kaupandi veitti var sjálfskuldarábyrgð bróður hans, Sigurðar Þórðarsonar kaupfélagsstjóra á

32

Arngerðareyri. Þorvaldur Atlason, eigandi Baldurs frá 1911, átti í fjárhagsvanda um sama leyti og var Siglufjarðarkaupstað slegin fasteignin Baldur á nauðungaruppboði í febrúar 1927 (9).

Ásgeir stofnaði á þessum árum nýtt fyrirtæki, Ásgeir Péturson hf. Þetta fyrirtæki keypti Baldur af Siglufjarðarbæ ásamt lóðarréttindunum og meðfylgjandi mannvirkjum í mars 1929 (10), og í janúar 1934 keypti það af Ólafi Þórðarsyni eignina sem Ásgeir Pétursson seldi honum 1929 (11). Ásgeir Pétursson hf. virðist hafa haft full afnot af lóð Ólafs Þórðarsonar eftir áðurnefnd eigendaskipti 1929 og sýnist augljóst að einungis hafi verið um sýndarsölu að ræða. Meðal annars byggði fyrirtækið 1929 frystihús á lóðinni milli Tjarnargötu og Vetrarbrautar. Þetta var fyrsta vélfrystihús á Siglufirði, um 330 fermetrar að flatarmáli á tveim hæðum, byggt úr timbri og vélarnar knúnar með mótor. Húsið var eingöngu notað til síldarfrystingar.

Þó að þessi síldarstöð væri að ýmsu leyti óhentug var þar oft mikill rekstur, enda var Ásgeir einn stærsti útgerðarmaður landsins um langt árabil. Hann lét ekki aðeins salta af eigin skipum, heldur keypti hann oft síld til söltunar. Þá keypti hann stundum verkaða síld til útflutnings. Útflutninginn annaðist hann oft sjálfur að miklu leyti með eigin skipum. Þá rak hann verslun og fiskkaup á Siglufirði og Akureyri.

Ásgeir fékk sjávarlóð undir Hafnarbökkum 1913, en hélt þó áfram að reka þessa stöð, enda reyndist stöðin suður frá erfið vegna aðgrynnis. Árið 1917 byggði hann síðan stöð í Hvanneyrarkrók en hún var í sífelldri hættu fyrir sjógangi og ísreki og var lögð niður eftir nokkur ár. (Sjá kafla nr. 3 og 23).

Eiginkona Ásgeirs Péturssonar var Guðrún Halldórsdóttir, fósturdóttir hjóna að Laugabóli í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp. Þrír uppeldisbræður hennar, Ólafur, Jón og Gústaf Þórðarsynir, urðu síldarsaltendur og áhrifamenn í útgerð og síldarframleiðslu um lengri eða skemmri tíma. Fjórði bróðirinn, Sigurður, kom þar einnig lítillega við sögu, eins og vikið er að hér að framan. Verður ekki betur séð en að þessir bræður hafi allir hafið feril sinn í sambandi við síldina í starfi hjá Ásgeiri eða á hans vegum.

Heimskreppan varð Ásgeiri Péturssyni erfið eins og öðrum útgerðarmönnum. Jafnframt henni tóku aldur og heilsubrestur að setja athafnasemi hans skorður. Rekstri söltunarstöðvarinnar og frystihússins austan á Siglufjarðareyri var þó haldið áfram af fullum krafti fram að seinni heimsstyrjöld. En þegar á fyrsta ári stríðsins var sýnt að draga hlyti verulega úr síldarsöltun meðan það stæði; vegna lokunar markaða og erfiðleika við öflun aðfanga til söltunar. Sumarið 1942 seldi Ásgeir þessa eign. Hann andaðist nokkrum mánuðum seinna, 5. desember 1942.

Kaupsamningurinn var undirritaður 14. júlí 1942. Kaupendur voru skráðir þrjár dætur Óskars Halldórssonar, Halldóra, Guðrún og Guðríður Erna. Kaupin tóku til lóðarréttinda og mannvirkja á stöðinni ásamt öllum búnaði til síldarsöltunar, ennfremur til frystihússins með öllum búnaði og tækjum (12). Þó dætur Óskars væru skráðir kaupendur var Óskar almennt talinn eigandinn og kaup hans á söltunarstöð þegar aðrir saltendur vildu fremur selja stöðvar sínar var í samræmi við margt annað á margbrotnum og litríkum ferli hans. Áður hefur verið getið um rekstur hans í Bakka, en hann hafði mörg fleiri járn í eldi, meðal annars útgerð, frystihúsarekstur á nokkrum stöðum og ísfiskútflutning.

Haustið áður en Óskar keypti Ásgeirsstöðina hafði hann fest kaup á syðsta hluta Bakkevigslóðarinnar Hafði fjölskyldan nú umráð yfir vænni samfelldri lóðarspildu austast á eyrinni þar sem aðdýpi var mest og í vari frá bryggjum Síldarverksmiðja ríkisins. Víst má telja að fyrst og fremst hafi vakað fyrir Óskari með þessum lóðakaupum að byggja þarna síldarverksmiðju.

Sökum þess hve söltun dróst saman á stríðsárunum var viðhaldi söltunarstöðva víða illa sinnt. Bryggjur Óskars á hinni nýju stöð, sem nefnd var Jarlsstöð, kennd við það félag Óskars sem keypti sneiðina af Bakkevigsbryggjunni 1941, voru í fremur lélegu ásigkomulagi í stríðslokin. Haustið 1945 sótti

33

hann um leyfi til að hefja undirbúning að byggingu síldarverksmiðju með því að byggja 100 metra langa bryggju og 30–40 metra langa og allt að 75 metra breiða uppfyllingu fram af stöðvunum (13). Bæjaryfirvöld vísuðu málinu til hafnarmálastjórnar, en ekki hafa fundist upplýsingar um afdrif þess þar.

Óskar fékk leyfi stjórnvalda til að byggja á Siglufirði síldarverksmiðju með 5000 mála afköstum á sólarhring. Keypti hann að loknu stríðinu notaðar vélar í verksmiðju af þeirri stærð og allmikið af byggingatimbri. Haustið 1947 fékk hann leyfi bæjaryfirvalda á Siglufirði til að leggja þar á land þrjá mjölþurrkara. Einnig flutti hann þangað fjóra af allmörgum steyptum innrásarprömmum sem hann keypti í Englandi 1946. Var ætlunin að nota þá í undirstöður við mannvirkjagerð fram af Jarlsstöðinni. Ekkert varð úr þessum áformum. Tveir prammanna döguðu uppi frammi á leirum en tveir lágu í hálfan annan áratug fram af svonefndri Kallastöð áður en þeir voru fjarlægðir eftir kröfu hafnaryfirvalda. Liggja þeir nú báðir á sjávarbotni, annar fram af flugvellinum norðanverðum en hinn fram af rústum Evengersstöðvarinnar (14). Byggingartimbrið var flutt til Raufarhafnar og notað í söltunarstöð Óskars þar. Vélarnar lagði Jarlinn hf. fram sem hlutafé í hf. Hæringi og voru þær settar í verksmiðjuskipið Hæring.

Talið er að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins og bæjaryfirvöld á Siglufirði hafi lagst allþungt á móti því að Óskar byggði þar verksmiðju, enda voru þá nýbyggðar þar tvær stórar verksmiðjur, bæjarverksmiðjan Rauðka og ríkisverksmiðjan SR 46. Þá kann lélegur síldarafli á árunum eftir stríðið og hár byggingarkostnaður að hafa haft áhrif á fyrirætlanir hans.

Á Jarlsstöðinni var síldarsöltun og beitufrysting rekin af kappi eins og í Bakka áður. Óskar Halldórsson lést 15. janúar 1953. Gunnar Halldórsson tengdasonur hans tók þá við rekstri stöðvarinnar. Næstu tvö sumur var lítill síldarafli og haustið 1954 buðu erfingjar Óskars bænum forkaupsrétt að stöðinni. Því var hafnað og hélt Gunnar þá áfram rekstri þar. Síðast var saltað þar 1964.

Árið 1955 keypti olíufélagið Shell hf. hluta af Jarlsstöðinni fyrir starfsemi sína. Var það meginhluti gömlu Ásgeirsstöðvarinnar, en frystihúsið og lóð þess var undanskilið (15). Stöðin ásamt lóðarréttindum var á nauðungaruppboði 6. júní 1967 slegin Útvegsbankanum í Reykjavík sem ófullnægðum veðhafa fyrir 360 þús. króna skuld (16). Útgerðarfélagið Togskip hf. á Siglufirði keypti hana síðan af bankanum 1975 (17).

Tilvísanir

1. Þmb. Litra K. 379.

2. Þmb. Litra M. 530 og 531.

3. Munnleg heimild. Þráinn Sigurðsson.

4. Þmb. Litra L. 179.

5. Ls. B. Þ. nr. 2 og 54.

6. Þmb. Litra H 14. Benedikt Sigurðsson. Brauðstrit og barátta I., bls. 186.

7. Þmb. Litra B 167.

8. Þmb. Litra R 480.

9. Þmb. Litra A 51 og B 243.

10. Þmb. Litra B 291 og 292.

11. Heimildarmaður: Jón Ásgeirsson.

12. Þmb. Litra H 14.

13. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 10. okt. 1945.

14. Munnleg heimild. Björn Þórðarson.

15. Þmb. Litra P II 72.

16. Þmb. Litra V II 264.

17. Þmb. Litra C II 41.

34

9. Henriksensstöðin

Henriksens-söltunarstöðin við austurenda Aðalgötu á Siglufirði er eina söltunarstöð bæjarins sem var í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi til loka síldarsögu hans. Síðustu umráðamenn hennar voru barnabörn Henriks Dybdahl-Henriksens, er kom henni á fót 1903.

Henriksen var meðeigandi í allstóru fyrirtæki með Steffan Staalesen útgerðarmanni í Haugasundi, stjórnaði Íslandsútgerð þess og var skipstjóri á Ludolf Eide, fyrsta gufuknúna fiskiskipinu í Haugasundi (1), „stærsta gufuknúna fiskiskipi sem enn hefur verið smíðað“, sagði norskt blað haustið 1902 (2). Haustið 1903 keypti Henriksen leiguréttindi á fjörulóð austan á Siglufjarðareyri af Jóhanni Vigfússyni kaupmanni. Lóð þessi var rúmir 28 m með sjó og náði um 75 metra vestur á eyrina (3). Ekki er ljóst hvort Henriksen hafði einhver not af lóðinni 1903, en 1904 voru lagðar á hann 150 kr. í gjöld til hreppsins (4). Hann var þá búinn að koma upp íbúðarhúsnæði á lóðinni og uppfylla með því eitt af skilyrðunum fyrir starfsréttindum. Árið 1905 var söltuð á stöðinni síld af bátum fyrirtækisins, Ludolf Eide, Springeren og fleiri, og keypt síld af útgerð annarra. Flutningaskip Staalesens, „Jökel“, var í förum með salt og tunnur til Íslands en saltsíld til baka (5).

Þegar hvalveiðum Norðmanna við Ísland lauk 1915 var hvalveiðistöðin Hekla á Hesteyri boðin til sölu. Henriksen keypti hana 1916 eða 1917 og kom þar upp söltunarstöð. Söltuðu þeir Staalesen síld þar um sumarið og nokkur næstu ár og hófu þar síldarbræðslu 1924 (6). Þýski verkfræðingurinn Schrezenmeier sá um byggingu verksmiðjunnar. Var settur upp nýtísku búnaður og keyptir tveir steypunökkvar frá Englandi til hráefnisflutninga frá Siglufirði. Þeir gengu illa; farmurinn varð að graut á leiðinni. Hinn 28. júní 1924, í þann mund er vígja skyldi verksmiðjuna, andaðist Henriksen. Olaf sonur hans, 21 árs gamall, tók við rekstrinum á Siglufirði en verksmiðjan á Hesteyri var seld Kveldúlfi 1926.

Með lagasetningu 1922 krepptu íslensk stjórnvöld mjög að veiðum og aflanýtingu útlendinga. Veiðar í landhelgi voru bannaðar öðrum en íslenskum ríkisborgurum á íslenskum veiðiskipum. Það ár voru tvö af skipum fyrirtækisins, Ludolf Eide og Elin, skráð til síldveiða á vegum Guðmundar Hafliðasonar á Siglufirði. Næstu tvö ár gerðu Henriksen og síðar erfingjar hans út fjögur af skipum þess. Þau höfðu 1923 fengið íslensk nöfn og verið skráð á íslenskar skipaskrár; Ludolf Eide var skírður Langanes, Magne varð Rifsnes, Ingeborg varð Reykjanes og Elin, sem gerð hafði verið út frá Ísafirði fyrri hluta ársins, hlaut nafnið Akranes (7). Veiðar framannefndra skipa einskorðuðust ekki við síldina; þau voru stundum gerð út á þorsk. Skipshafnirnar voru að mestu leyti íslenskar. Heimild er um að Henriksen fékkst við kolaverslun. Í Siglfirðingi 18. okt. 1924 er smáfrétt um að kolaskip sé nýkomið til hans.

Staalesen dó 1925. Í kaflanum um Bakkevig var vikið að eignarhalds- og rekstrarbreytingum eftir fráfall hans. Eignir hans á Íslandi færðust á hendur T. Hofmans Olsens tengdasonar hans, sem var Dani og hafði því full atvinnuréttindi á Íslandi. Hofman Olsen gerði samkvæmt opinberum skrám 1925 út frá Siglufirði skipin Rifsnes, Akranes og Siglunes, en erfingjar Henriksens Langanes. Árið eftir eru öll skipin horfin af skrá yfir skip frá Siglufirði (8). Til þess geta hafa legið margar ástæður, til dæmis ný lög sem settu nýjar hindranir fyrir veiðar útlendinga á nöfnum íslenskra manna, og styrktu þann grun að ætlunin væri að útiloka þær algerlega á næstu árum. Sennilegast er þó að Hofman Olsen og aðrir erfingjar Staalesens hafi ekki haft hug á að halda rekstrinum á Íslandi áfram til langframa, þó þeim gæfist ekki ráðrúm til að draga hann saman 1925, árið sem Staalesen lést.

35

Olav Henriksen kvæntist 1926 siglfirskri konu og hefur líklega ekki haft áhuga á að taka við öllum þáttum þess flókna og erfiða rekstrar sem faðir hans og samstarfsmenn hans höfðu tekist á hendur á löngum ferli og stjórnvöld voru sífellt að kreppa að. Hann settist að á Siglufirði og einbeitti sér að síldarsöltun á stöðinni sem faðir hans hafði komið upp. Að auki fékkst hann við útgerð og fiskverkun í smáum stíl, aðallega utan síldartímans, hélt kolaversluninni áfram um skeið og tók að sér ýmis umboðsstörf, einkum fyrir Norðmenn sem áttu hagsmuna að gæta á Siglufirði. Heimild er um að hann leigði Halldóri Guðmundssyni söltunaraðstöðu 1926 (9). Stutt varð í kolaverslun Olavs. Helstu viðskiptavinirnir voru norsk skip, en sá hængur var á að þegar lítið aflaðist vildi ganga illa að innheimta andvirði söluvörunnar.

Olav Henriksen rak síldarsöltunarstöð sína með sama sniði og aðrir saltendur á Siglufirði þar til hann lést 1. jan. 1957. Hann eignaðist fasta viðskiptavini í íslenska síldarflotanum og meðal erlendra síldarkaupenda, þótti áreiðanlegur í viðskiptum, var vinsæll af starfsfólki og vel metinn siglfirskur borgari. Lengst af mun hann hafa saltað einn á stöðinni, en þó er heimild um að Samvinnufélag Siglfirðinga, sem Kristján Kjartansson veitti forstöðu, hafði þar söltunaraðstöðu 1937 (10).

Á skiptafundi í dánarbúinu 5. mars 1957 komu börn Olavs, Henning, Guðlaugur og Birgit, sér saman um að eiga fasteignirnar í félagi, þannig að hvert ætti einn þriðja hluta (11). Bræðurnir héldu síðan áfram rekstri stöðvarinnar uns síldaræfintýrinu sem afi þeirra átti þátt í að hefja á Siglufirði 1903 lauk að fullu. Eyðurnar í rekstrinum fylltu þeir með dálítilli útgerð og fiskverkun. Síðast söltuðu þeir síldarslatta sumarið 1970.

Tilvísanir

1. Upplýsingar frá S. Dybdahl-Henriksen, fengnar hjá Guðlaugi Henriksen, Siglufirði.

2. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 12 og 13.

3. Þmb. Litra K 164 ásamt síðari viðauka.

4. Hreppsbók Hvanneyrarhrepps.

5. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 57.

6. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 102, 134 og 168.

7. Fiskiskýrslur og hlunninda, 1922 – 1924.

8. Fiskikýrslur og hlunninda, 1925 – 1926.

9. Þmb. Litra R 234.

10. Munnleg heimild. Bragi Magnússon.

11. Þmb. Litra Q II 50.

Aðrar heimildir

Viðtöl við Guðlaug Henriksen, Siglufirði.

Segulbandsupptökur af viðtölum við Halldór Þorleifsson og frásögn hans í vörslu Bókasafns Siglufjarðar.

36

10. Wedinsstöð/Búðarreitur

Bendik Mannes frá Akrahavn, einn af skipstjórum Hans Falcks útgerðarmanns í Stavangri, undiritaði 13. september 1903 leigusamning um næstu lóð sunnan við lóð Henriksens austan á Siglufjarðareyri (1). Rúmum mánuði seinna framseldi hann fyrirtækinu Hareide & Garshol lóðarréttindin (2). Nýr lóðarsamningur var síðan gerður í júlí 1904 (3).

Johan Hareide og Lars Garshol, sem fyrstir komu á fót söltunarstöð á lóðinni, voru báðir í fremstu röð þeirra norsku síldarmanna er sóttu á Íslandsmið. Þeir stofnuðu sameignarfélagið Hareide & Garshol um aðstöðu til aflanýtingar. Skip þeirra, Ulf og Skolma, voru gufuskip og þeir báðir með herpinætur 1905. Um sama leyti voru þeir að fjárfesta í nýju skipi, Islændingen, sem fór á Íslandsmið 1906 og var þá einn af örfáum norskum síldarbátum sem treystu einvörðungu á snurpinótina (4). Þeir félagar sigldu inn á Siglufjörð 14. júlí 1904 með byggingartimbur og komu á þrem dögum upp fokheldu húsi og söltunarpalli á lóðinni (5). Borgarabréf fengu þeir hjá sýslumanni á Akureyri 15. september (6). Þeir voru í hópi þeirra fimm Norðmanna sem báru útsvar á Siglufirði 1904, með 150 króna útsvar hvor (7).

Garshol var aðeins árið 1904 á manntali á Siglufirði, en Hareide 1904–1909. Þeir báru þó báðir útsvar þar 1905, en 1906–1912 var lagt á fyrirtækið Hareide & Garshol og 1913 er lagt 27 króna útsvar á Garshol, en hvorki Hareide né fyrirtækið finnast á skránni það ár (8).

Óljóst er hve mörg sumur þeir félagar stóðu sjálfir fyrir söltun á stöðinni. Sumarið 1909 var John Wedin stórkaupmaður frá Stokkhólmi farinn að salta þar og kaupa af þeim aflann. Samkomulag varð síðan um að hann keypti stöðina, en þeir gerðu Raufarhöfn, þar sem þeir höfðu náð tangarhaldi á lóð 1906, að helstu bækistöð sinni á Íslandi (9). Wedin greiddi samkvæmt samningi 15 þús. kr. fyrir eignina. Hann gerði nýjan lóðarsamning við séra Bjarna Þorsteinsson. Samkvæmt honum var lóðin tæpir 28 m með sjónum og náði 94 metra vestur á eyrina (10). Stöðin mun fyrst hafa verið kennd við Hareide en síðan við Wedin og loks við Thorarensen, sjá síðar.

Árið 1913 fékk Wedin lóðina nr. 5 við Kirkjugarðsveg (11) og byggði þar snoturt íbúðarhús úr timbri sem enn stendur. Var það jafnan nefnt Wedinsvillan eða bara villan. Þar bjó hann og síðar fleiri sænskir síldarkaupmenn og umboðsmenn þeirra á sumrin. Höfðu þeir ráðskonu til að annast matseld og önnur húsverk. Meðal þeirra sem höfðu þar aðsetur var Andreas Godtfredsen, sem bjó þar 1925 og hafði þá sænska síldarkaupmenn í húsnæði og fæði. Hann var þar á manntali 1926 og hefur sennilega búið þar líka 1923 og 1924. Þá var hann á manntali á Siglufirði en án tilgreinds heimilisfangs.

Heimild er um að Wedin rak tvær söltunarstöðvar sumarið 1912. Réði hann á þær 40 verkamenn frá Kristiansund; voru 25 á Siglufirði en 15 á Hjalteyri (12). Ekki er vitað hvort hann saltaði á siglfirsku stöðinni öll árin sem hann átti hana. Hann var síðast á útsvarsskrá á Siglufirði 1922 en bar ekki hátt útsvar miðað við stærstu saltendurna. (13). Söltunarstöðin var um vorið auglýst til leigu (14).

Kristinn Halldórsson segir að Wedin hafi verið „dugmikill athafnamaður og vænn höfðingi“ (15). Virðist hann hafa haft mikil fjárráð framan af. Þegar virkjun Hvanneyrarár var á dagskrá hreppsnefndar 1913 gekk illa að afla lánsfjár. Wedin lánaði þá 20 þús. kr. til framkvæmdanna, og var það meirihluti kostnaðarins. Lánið var endurgreitt 1914 (16).

Fyrirtækið sem Wedin starfaði fyrir, Wedin & Ramstedt í Stokkhólmi, varð gjaldþrota veturinn 1920–1921 (17). Eignir þess á Siglufirði voru boðnar upp í febrúar 1925 og hreppti Ragnar Ólafsson

37

kaupmaður og útgerðarmaður á Akureyri þær fyrir 50.500 kr. (18). Kröfur námu um 94 þús. dönskum krónum en eignirnar voru metnar á tæp 39 þúsund.

Bræðurnir Oddur C. Thorarensen lyfsali á Akureyri og Hinrik læknir á Siglufirði keyptu Wedinseignirnar af Ragnari með tveim samningagerðum. Fyrri samningurinn var gerður rúmum hálfum mánuði eftir að Ragnar eignaðist þær en sá síðari í ágúst 1926. Afsal var gefið út í október 1927 (19). Árið 1931 seldi Oddur lyfsali Hinriki bróður sínum sinn hluta í sameigninni (20). Var hún síðan öll í eigu Hinriks og sona hans fram yfir 1960.

Ekki er vitað að fullu hverjir söltuðu á stöðinni frá því að Thorarensenbræður eignuðust hana til 1934. Ólafur A. Guðmundsson frá Ingólfsfirði og Jón bróðir hans söltuðu á Siglufirði 1929 og 1930 og Jón Kristjánsson frá Akureyri 1930 (21). Líklega hefur það verið á Wedinsstöð, en þeir söltuðu þar allir á fjórða áratugnum.

Jón Kristjánsson frá Akureyri saltaði þar á árunum 1936–1937 og 1939, saltaði þá m.a. af togurunum Rán og Sindra (22). Líklegt er að hann hafi saltað þar 1938 og hann gæti hafa saltað þar eitthvað fyrir 1936. Karl O. Jónsson frá Sandgerði var a.m.k. eitt sumar á þessum árum í félagi við Jón um söltunina. Kristján Ásgrímsson saltaði á stöðinni 1937–1939, ef til vill í félagi við Jón, en um það skortir nánari vitneskju.

Árið 1939 afsöluðu hjónin Hinrik og Svanlaug Thorarensen hluta af eignum sínum, m.a. söltunarstöðinni, sem fyrirfram greiddum arfi til fjögurra sona sinna. Voru eignirnar sameign þeirra en móðir þeirra fjárhaldsmaður (23).

Árið 1940 tók Sigfús Baldvinsson stöðina á leigu til þriggja ára og var þá allmikið saltað þar, eftir því sem gerðist á stríðsárunum. Verkstjóri og matsmaður á stöðinni þessi sumur var Snorri sonur Sigfúsar (24). Söltunaraðstaða á stöðinni var góð, geymsluhús fyrir um 3500 tunnur, tvö birgðageymsluhús, síldargeymslusvæði utanhúss fyrir um 4000 tunnur og brakkarými fyrir um 50 manns (25).

Árin 1943–1945 hafði Halldór Guðmundsson frá Böðvarshólum stöðina, en 1946 fékk Sigfús hana aftur og saltaði þar samfleytt til 1963, þar af tvö sumur, 1959 og 1960, í félagi við bræðurna Ólaf og Odd Thorarensen. Munnleg heimild er um að Sigfús hafi áður saltað eitthvað í félagi við Hinrik Thorarensen, líklega á árunum 1946–1950. Þeir feðgar, Sigfús og Snorri sonur hans, voru Akureyringar og stöðin var oft að miklu leyti mönnuð Akureyringum yfir söltunartímann. Algengt var að um helmingur söltunarstúlknanna og sumir karlmannanna væru frá Akureyri.

Svanlaug Thorarensen andaðist 1950. Urðu þá áðurnefndir synir hennar ásáttir um að slíta sameigninni. Söltunarstöðin, sem í opinberum skjölum er oft nefnd Búðarreitur, kom í hlut Ólafs sem fékk 3/4 og Ragnars sem fékk 1/4. Skiptasamningurinn var gerður í Rvík 15. maí 1959 (26). Í janúar 1961 keypti hf. Sigfús Baldvinsson stöðina með húsum og lóðarréttindum eins og þau eru skilgreind í lóðarsamningnum frá 25. júlí 1910 (27).

Ekki var saltað á stöðinni eftir 1963. Árið 1971 keypti Vigfús Friðjónsson hana á nauðungaruppboði (28). Hafnarsjóður Siglufjarðar keypti hana síðan af Vigfúsi árið 1977 (29).

Tilvísanir

1. Þmb. Litra M 359.

2. Þmb. Litra K 317, M 359 og M 370.

3. Þmb. Litra K 317.

4. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 61.

38

5. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 53.

6. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 54.

7. Hreppsbók Hvanneyrarhrepps.

8. Hreppsbók Hvanneyrarhrepps.

9. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 76 – 77.

10. Þmb. Litra M. 359 og 370.

11. Lóðaskrá B. Þ., nr. 67, st.

12. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 102.

13. Fram, 2. des. 1922.

14. Fram, 13. maí 1922.

15. Ingólfur Kristjánsson. Siglufjörður, 1968, bls. 476.

16. Hreppsbók Hvanneyrarhrepps.

17. Kristján Jónsson frá Garðsstöðum. Af sjónarhóli, bls. 18.

18. Þmb. Litra R 88 og R 108.

19. Þmb. Litra S 94 og Litra A 478.

20. Þmb. Litra A 478.

21. Söltunarskýrslur Síldareinkasölu Íslands.

22. Munnleg heimild. Snorri Sigfússon.

23. Þmb. Litra F 341.

24. Munnleg heimild. Snorri Sigfússon.

25. Munnleg heimild. Snorri Sigfússon.

26. Þmb. Litra R II 304.

27. Þmb. U II 222.

28. Þmb. Æ II 37.

29. Þmb. F II 81.

39

11. Gránufélagslóðin og Gooseignirnar

Hinn 7. ágúst 1911 leigði séra Bjarni Þorsteinsson verslun Gránufélagsins á Siglufirði stóra lóð á suðausturhorni eyrarinnar (1). Að norðan lá hún að lóð Wedins, að vestan að lóðarmörkum Sörens Goos en að sunnan og austan að sjónum. Skyldi leigutaki hafa full umráð yfir lóðinni. Þó mátti hann ekki leyfa öðrum húsbyggingar á henni án sérstaks samþykkis umráðamanns eyrarinnar. Hins vegar mátti félagið sjálft byggja þar eða stækka eigin hús eftir vild. Ársleiga var 150 kr.

Gránufélagið var búið að hafa lóðarafnot á þessu svæði síðan um 1880 eða lengur, en ekki hefur fundist um það samningur. Félagið keypti Siglufjarðarverslun 1875. Síðasti verslunarstjóri hennar, Snorri Pálsson, varð fyrsti verslunarstjóri Gránufélagsins og undir hans forustu var 1880 stofnað Síldveiðifélagið sem áður hefur verið getið og 1906 var byggð þarna á vegum Gránufélagsins öflugasta bryggja bæjarins. Árið 1903 gerði félagið út skip til síldveiða. Það fékk um 100 tunnur síldar sem líklega hefur verið notuð til beitu. Næstu ár var þessari útgerð haldið áfram og 1906 voru fimm skip gerð út á síld á vegum félagsins. Víst má telja að það hafi þá saltað síld til útflutnings, líklega á áðurnefndri bryggju.

Hinar Sameinuðu íslensku verslanir keyptu eignir Gránufélagsins 20. sept. 1912 (2). Meðal þeirra voru áðurnefnd lóðarréttindi. Sameinuðu verslanirnar seldu þessar eignir 1926 og 1927. Lóðin skiptist þá milli tveggja eigenda, Ragnars Ólafssonar og Sörens Goos. Mörkin milli lóðarhluta Ragnars Ólafssonar og Goos voru tæpa 12 metra sunnan við svonefnda Borðeyrarbryggju og lágu þvert yfir lóðina til vesturs frá flæðarmáli að eldri lóð Goos, sem að norðan og austan afmarkaðist að mestu leyti af Gránugötu og Tjarnargötu.

Ragnar Ólafsson kaupmaður á Akureyri keypti norðurhlutann árið 1926 (3). Þeim eignarhluta fylgdi meðal annars verslunar- og íbúðarhúsið þar sem verslunin Einco var síðar til húsa í áratugi, og þrjár bryggjur sem almennt voru nefndar Gránubryggja, Íslandsbryggja eða Íslandsfélagsbryggja og Borðeyrarbryggja; ennfremur brakki, smiðja, tvö salthús, geymsluskúrar og lifrarbræðsla.

Ragnar Ólafsson andaðist 1928. Erfingjarnir virðast hafa rekið dánarbúið óskipt til 1934. Þeir komu 1932 upp lítilli dráttarbraut þar sem áður var Borðeyrarbryggja og seldu hana í desember 1933 Gunnari Jónssyni skipasmið á Akureyri. Jafnframt leigðu þeir honum aðliggjandi lóðarskika (6). Ólafur Ragnars keypti þessa eign aftur 27. mars 1936 (7).

Í apríl 1934 fóru fram arfskipti í dánarbúi Ragnars Ólafssonar. Sá hluti gömlu Gránulóðarinnar sem var norðan við dráttarbrautina kom í hlut bræðranna Egils og Ólafs Ragnars. Skipting þess hluta lóðarinnar og mannvirkja á henni kemur ekki greinilega fram í öllum atriðum í skiptagerðinni, en ljóst sýnist að Egill hafi fengið suðurhlutann, þar með talda svonefnda Íslandsfélagsbryggju eða Íslandsstöð, en Ólafur norðurhlutann og Gránubryggjuna (8).

Sören Goos keypti suðurhluta Gránufélagslóðarinnar og þar með síldarverksmiðjuna Gránu og Goos-bryggjurnar í janúar 1927 (4). Í maí um vorið lét hann af hendi við bæinn leiguréttindi á hluta af lóðinni vegna áformaðrar byggingar hafnarbryggju (5), en í desember 1934 keypti bærinn alla Goos-eignina.

Lóðarspildan sem Gránufélagið fékk leigða árið 1911 fyrir 150 króna fasta ársleigu varð og er enn eitt mesta athafnasvæði Siglufjarðar. Þar var byggð hafnarbryggja, dráttarbraut og hafnarhús og þar stóð síldarverksmiðjan Grána. Allmikil síldarsöltun var líka rekin á þessu svæði.

40

Gránufélagsbryggjan

Gránufélagsbryggjan eða Gránubryggjan, sem var nyrsta bryggjan á lóðinni, var tekin í notkun í júlí 1906. Hún var byggð með það fyrir augum að geta staðist brim og ísrek (9). Lítil flutningaskip gátu lagst að henni. Trúlega hefur verið saltað á henni flest sumur þangað til hafnarbryggjan var tekin í notkun 1928 og eftir það var hún eingöngu notuð sem söltunarbryggja. Víst má telja að Ragnar Ólafsson og síðar erfingjar hans, áður en dánarbúinu var skipt, hafi haft aðalsöltun sína þar og á Íslandsfélagsbryggjunni.

Á söltunarstöð Ólafs Ragnars á Gránubryggjunni hefur líklega verið saltað samfleytt frá 1934 til 1941. Munnleg heimild er um að Ólafur Guðmundsson frá Akureyri hafi saltað á Gránubryggjunni 1938 og 1939. Árin 1943–1945 saltaði Ólafur þar í félagi við Daníel Þórhallsson og Sigfús Baldvinsson. Árið 1946 fékk Sigfús aftur Wedinsstöðina sem hann hafði áður haft og saltaði þar (10) en ekki eru tiltækar öruggar heimildir um hvort félag þeirra Ólafs og Daníels hélst áfram. Í prentuðum söltunarskrám 1949–1951 og 1953 er Ólafur Ragnars hf. talinn saltandi , en 1952 og eftir 1953 er hlutafélagsskammstöfuninni sleppt. Þetta gæti bent til þess að hlutafélagið hafi staðið að rekstrinum til 1953. Ólafur Ragnars saltaði síðan samfleytt til 1961.

Árin 1962 og 1963 saltaði nýtt fyrirtæki, Jón Gíslason & Ásmundur hf., á stöðinni. Að baki því fyrirtæki stóðu útgerðarmenn úr Hafnarfirði. Sigfús Baldvinsson átti hlut að rekstri á stöðinni 1963 (11) en ekki er vitað nákvæmlega hvernig honum var háttað. Eftir 1963 var ekki saltað þar.

Ólafur Ragnars seldi Óskari Garibaldasyni og fleirum sinn hluta eignarinnar í desember 1972 (12).

Íslandsfélagsbryggja/Hafliðabryggja Útgerðarfélagið hf. Ísland í Reykjavík tók Íslandsbryggjuna á leigu 1915 og hóf þar söltun (13). Helstu ráðamenn þess félags voru Þorsteinn Þorsteinsson skipstjóri, Jes Ziemsen, Guðsteinn Eyjólfsson og Hjalti Jónsson skipstjóri, sem kenndur hefur verið við Eldey. Vorið 1916 var bryggjan endurbyggð að miklu leyti og jafnframt byggt starfsmanna- og skrifstofuhús norðan við barnaskólann, að Norðurgötu 16, síðar Eyrargötu 5 (14). Þetta hús, sem nefnt var Íslandsfélagshús, var seinna notað til íbúðar í marga áratugi. Íslandsbanki hafði þar opna skrifstofu nokkur sumur á þriðja áratug aldarinnar.

Íslandsfélagið saltaði á stöðinni 1915 og var það ár næsthæst íslenskra útsvarsgreiðenda á Siglufirði; aðeins Sameinuðu verslanirnar voru hærri. Einnig flutti það þá út skipsfarm af ísaðri síld til Bretlands, en aflabrestur batt enda á þau viðskipti og varð að henda ísnum sem nota átti til ísunar á næsta farmi. Heimild er um að félagið saltaði 1917 á stöðinni af togurum sínum, Apríl og Maí (15) en þeir voru seldir til Frakklands það ár. Þetta var rýrt síldarsumar. Í blaðafrétt um haustið var sagt frá því að Hjalti Jónsson hefði gefið síldarstúlkum sem ráðnar voru hjá félaginu 50 kr. hverri í uppbót á sumarkaupið (16).

Eftir þetta lélega sumar ákvað félagið að draga sig út úr síldarsöltun og 23. apríl 1918 undirritaði Jes Ziemsen samning við Verslun Lofts Loftssonar & Þórðar Ásmundssonar á Akranesi og í Sandgerði um leigu á stöðinni með öllum söltunarbúnaði (17). Í leigusamningnum kemur fram að á stöðinni liggi 4–5 þúsund tunnur af síld sem enska stjórnin eigi og hafi lofað að flytja þaðan fyrir síldveiðitímann 1918. Ekki eru beinar heimildir um að þeir félagar hafi saltað á stöðinni tvö næstu sumur en af útsvarsálagningu má þó álykta að fyrirtæki þeirra hafi þá haft talsverðan rekstur á Siglufirði. Halldór Guðmundsson frá Böðvarshólum hafði stöðina leigða 1921 (18). Sögusagnir eru um að

41

Sören Goos og Andreas Godtfredsen hafi haft einhver afnot af henni á þriðja áratugnum, en öruggar heimildir vantar.

Í blaðafregnum sést að Egill Ragnars hefur saltað síld á Siglufirði sumurin 1935, 1939 og 1941, og þá væntanlega á sinni stöð, Íslandssstöðinni. Í blaðafrétt 1943 er einn saltandinn á Siglufirði nefndur Íslandsstöðin, en ekki tilgreint hverjir stóðu fyrir rekstrinum. Líklegt er að Egill hafi saltað síld á Siglufirði allt tímabilið 1934–1943, og ef til vill líka 1944, en ritaðar heimildir eru ekki tiltækar nema um þau þrjú sumur sem fyrr var getið. Hann virðist hafa lagt kapp á að hasla sér völl í síldarsöltuninni á þessu tímabili, því sumarið 1936 saltaði hann síld á Ingólfsfirði í félagi við Karvel Jónsson útgerðarmann á Ísafirði (19). Sá rekstur stóð þó aðeins eitt eða tvö ár. Árið 1943 seldi Egill Hafnarsjóði Siglufjarðar lóðarréttindi, hús og tæki sem hann átti á athafnasvæði dráttarbrautarinnar (20). Í árslok 1944 seldi hann svo hlutafélaginu Hafliða Íslandsstöðina (21). Eftir það var hún kölluð Hafliðastöð í daglegu máli á Siglufirði.

Stofnendur og aðaleigendur Hafliða hf. til 1962 voru Gunnlaugur Guðjónsson og Sveinn Björnsson stórkaupmaður og fjölskyldur þeirra. Gunnlaugur var framkvæmdastjóri og lengst af stjórnarformaður og Sveinn í stjórninni til 1962. Þeir seldu hlutafé sitt 1961 og 1962; aðaleigendur þess urðu þá Ingimundur hf. í Reykjavík og Þorbjörn hf. í Grindavík. Hafliði hf. saltaði 1942 og 1943, en ekki er vitað með vissu hvar. Líklegast virðist að það hafi verið á Kveldúlfsstöðinni fyrra árið en síðara árið annaðhvort á Kveldúlfsstöð í tvíbýli með Ásvör hf. eða á Íslandsstöðinni, etv. í tvíbýli með Agli.

Hf. Hafliði rak stöð sína á hverju sumri meðan síld var söltuð á Siglufirði. Stöðin var ein sú besta í bænum og þótti rekin af myndarskap. Í júní 1948 var settur þar upp fyrsti búnaður sem vitað er til að notaður hafi verið á Íslandi til að flytja slóg frá söltunarkössum (22). Síðast var flutt út síld frá Hafliðastöðinni 1968, 244 tunnur.

Borðeyrarbryggja

Norskur skipstjóri, Knut Huse frá Haugasundi, kom upp lítilli söltunarbryggju sunnan við Íslandsfélagsbryggjuna. Að sögn Ole Tynes var Knut heitbundinn glæsikonu frá Borðeyri og lét skip sitt og söltunarstöð heita eftir heimabyggð hennar (23). Knut Huse var á manntali á Siglufirði 1915–1919 og greiddi þar útsvar a.m.k. árin 1913–1919. Heimildir eru um að Goos hafi saltað á Borðeyrarbryggjunni eitt eða tvö sumur eftir 1920.

Við lóðarafhendinguna 1927 vegna hafnarbryggjunnar þrengdist aðstaðan og 1932 var eins og áður segir komin dráttarbraut þar sem bryggjan hafði verið. Hefur sennilega ekki verið saltað á Borðeyrarbryggju eftir 1926 eða 1927.

Goos-bryggjurnar /Tangabryggja og Litla Jacobsensbryggja

Norðan við eyrarhornið var bátauppsátur og bátaspil fram yfir 1920. En suðaustur úr sjálfu horninu lágu tvær bryggjur, Goosbryggjan, síðar nefnd Tangabryggja, og norðan við hana Litla Jacobsensbryggja sem svo var nefnd. Edvin Jacobsen hafði 1916 leigða bryggjuna sem við hann var kennd, en Sören Goos fékk þær síðar leigðar og á þeim var aðalsöltun hans. Voru þær þá oftast kallaðar Goosbryggjur. Pétur Bóasson saltaði þarna á tangahorninu 1932 og 1933. Voru það síðustu sumurin sem hann fékkst við söltun (24). Sigfús Baldvinsson saltaði þar líka sumarið 1933 (25).

Árið 1927 keypti Goos suðurhluta Gránulóðarinnar, eins og að framan segir, og þar með Goosbryggjurnar og Gránuverksmiðjuna.

42

Siglufjarðarkaupstaður eignaðist í árslok 1934 allar eignir Sörens Goos á Siglufirði (26). Inni í þeirri eign voru söltunarpallar og tvær bryggjur, svonefnd Tangabryggja og Litla Jacobsensbryggja. Guðmundur Hafliðason saltaði á Tangabryggjunni 1936–1939. Lítið var saltað þar á stríðsárunm síðari, þó saltaði Reykjanes h.f þar 1942 og 1943, og eftir stríðið var aftur farið að leigja bryggjunna út til söltunar. Söltunarfélagið hf. hóf söltun þar 1947 og saltaði þar til 1950, en var það sumar í helmingafélagi við Íslenskan fisk hf.; aðaleigandi þess fyrirtækis var Vigfús Friðjónsson. Söltunarfélagið hætti starfsemi um haustið og seldi Vigfúsi söltunaráhöld sín og skrifstofutæki. Hafði Vigfús stöðina leigða til og með 1955, en mun þó ekki hafa saltað þar eftir 1952. Sumarið 1956 saltaði síldarverksmiðjan Rauðka þar. Eftir það var ekki saltað þar. Bryggjan var þá orðin mjög léleg en einnig stóð fyrir dyrum stækkun og endurbætur á hafnarbryggjunni sem fyrirsjáanlegt var að mundu þrengja að athafnarými Tangastöðvarinnar.

Um söltun á Litlu Jacobsensbryggju og á Rauðkubryggjunum liggja ekki fyrir ljósar heimildir. Óljósar sagnir eru um að Karl O. Jónsson frá Sandgerði, Bergur Guðmundsson kennari og síðar tollvörður og Sveinn Guðmundsson hafi saltað á þeim eitt eða tvö sumur hver á kreppuárunum.

Hafnarbryggjan

Haustið 1959 samþykktu bæjaryfirvöld á Siglufirði að leigja Haraldi Böðvarssyni & Co. á Akranesi söltunaraðstöðu á afgreiðslubryggju bæjarins, svonefndri hafnarbryggju. Fékk fyrirtækið afmarkaðan hluta bryggjunnar með samtals um 50 metra langa viðlegukanta og um 750 fermetra geymslusvæði upp með húsum síldarverksmiðjanna Gránu og Rauðku. Komið var upp geymslurými á stöðinni og fyrirtækið fékk hluta af Antonsbrakka til afnota. Haraldur Böðvarss. & Co. saltaði þarna frá 1960 til 1968.

Tilvísanir

1. Þmb. Litra Q 200.

2. Þmb. Litra M. 708. Bók F – O.

3. Ls. B. Þ. nr. 364; Þmb. Litra R. 287, R 404 og T 11.

4. Þmb. Litra R. 287.

5. Þmb. Litra R 398 og Litra C 165.

6. Þmb. Litra C 29.

7. Þmb. Litra E 429.

8. Þmb. Litra N II 155.

9. Endurminningar Ole Tynes.

10. Snorri Sigfússon, munnleg heimild.

11. Sama heimild.

12. Þmb. Litra Æ II. 295.

13. Guðmundur G. Hagalín. Saga Eldeyjar-Hjalta II., bls. 179.

14. Bjarni Þorsteinsson. Siglufjarðarverzlunarstaður 100 ára, bls. 73.

15. Endurminningar Ole Tynes.

16 Siglfirðingur, 11. sept. 1917.

17. Þmb. Litra O 364.

18. Munnleg heimild. Sigurlaug Davíðsdóttir.

19. Þorsteinn Matthíasson: Hrundar borgir, bls. 169.

20. Þmb. Litra H 324.

21. Þmb. Litra L.26 og Litra I 3 og 4.

22. Benedikt Sigurðsson. Brauðstrit og barátta II., bls. 455.

43

23. Endurminningar Ole Tynes.

24. Munnleg heimild. Guðrún Hafliðadóttir.

25. Munnleg heimild. Snorri Sigfússon.

26. Þmb. Litra C 165.

Heimildarmenn

Björn Ingvarsson fyrrv. borgardómari, Hafnarfirði

Sveinn Björnsson stórkaupmaður, Reykjavík

44

12. Goos-eignin

Einn þeirra útlendinga sem mest orð fór af á Siglufirði var Sören Goos. Hann var Dani og hafði því sömu atvinnuréttindi og Íslendingar. Aðgerðir stjórnvalda til að bæta aðstöðu Íslendinga með því að kreppa að atvinnurekstri útlendinga náðu ekki til hans. Ferill Goos á Siglufirði hófst 1908 er hann saltaði síld af tveim skipum á bryggju sem Sigurður Helgi Sigurðsson kaupmaður átti. Lóð þessa fékk Sigurður Helgi 1906 (1). Þetta var mjó ræma vestan við lóð Gránufélagins, um 20 m með fjöru.

Sumarið 1910 keypti Goos lóðarréttindi og fasteignir Sigurðar Helga (2) og árið eftir fékk hann næstu lóð vestan við áðurnefnda sjávarlóð. Þá lóð hafði Helgi Hafliðason fengið nokkrum mánuðum áður og hefur hún líklega verið auð þegar Goos tók hana á leigu. Séra Bjarni Þorsteinsson gerði lóðarsamning við Goos um allar lóðirnar 28. ágúst 1911 (3). Lóðaspildan sem hann fékk á eyrarhorninu var samtals tæpir 3800 fermetrar. Meðal þeirra eigna sem Goos keypti af Sigurði Helga var íbúðarhús við Gránugötu og bryggja með „óbyggðum skúr og viðbyggðum Kaj“, eins og segir í afsalsbréfinu, hvað sem það nú kann að þýða. Sumarið 1911 sá Goos um rekstur bræðsluskipsins Alpha, sem danskt fyrirtæki gerði út og lá á Siglufirði um síldartímann.

Goos starfaði á vegum ýmissa erlendra fyrirtækja árin 1908–1911. Með kaupunum á eignum Sigurðar Helga 1910 og lóð Helga Hafliðasonar 1911 lagði hann grundvöll að rekstri á eigin vegum. Árið 1912 hóf hann síldarsöltun á eigin reikning í félagi við Johan Balslev í Kaupmannahöfn. Árið 1913 byggði hlutafélag þeirra: „A/s Siglufjords Sildeoliefabrik“, síldarverksmiðjuna sem lengst var nefnd Rauðka. Síðar lét hann stækka hana og búa betri vélum. Goos sótti 1918 um leyfi til að byggja síldarverksmiðju á Bakkastöðinni (4).

Með byggingu Rauðku þrengdist mjög um söltunina á lóðum Goos. Hann fékk þá leigða aðstöðu hjá Gránufélaginu á næstu lóð. Lengst og mest saltaði hann á tveim bryggjum þess, síðar Sameinuðu verslananna, á suðausturhorni eyrarinnar. Þessar bryggjur voru oft nefndar Tangabryggja og Litla Jacobsensbryggja. Ole Tynes segir að Jacobsen hafi byggt Tangabryggjuna. Líklega hefur hann byggt báðar þessar bryggjur. Heimild er um að Jacobsen hafði Tangabryggjuna á leigu 1916 (5). Síðar hafði Goos báðar bryggjurnar. Voru þær þá oftast kallaðar Goos-bryggjur.

Goos rak mikla síldarsöltun á athafnasvæði sínu þarna á suðausturhorni eyrarinnar og byggði auk þess og rak 1916–1927 söltunarstöðina í Hvanneyrarkrók sem áður hefur verið fjallað um (sjá 2. Goos-stöðin í Bakka) Milli verksmiðjanna Rauðku og Gránu, fram af Rauðkulóðinni, var lítil bryggja sem Goos notaði stundum sjálfur en leigði þess á milli. Sveinn Guðmundsson hafði þessa bryggju í nokkur ár um og eftir 1930 og örugglega árið 1934.

Í ársbyrjun 1927 keypti Goos síldarverksmiðjuna Gránu. Þá verksmiðju höfðu Sameinuðu verslanirnar byggt 1918–1920. Með í kaupunum fylgdi allstór lóð (6). Hinn 31. maí sama ár afsalaði hann hluta af lóðinni til bæjarins vegna fyrirhugaðrar byggingar hafnarbryggju og vegarlagningar að henni (7). Bærinn keypti í árslok 1934 allar eignir og lóðaréttindi Goos á Siglufirði (8).

Goos hafði alltaf mikið umleikis og mörg járn í eldi, söltun, bræðslu, verslun með síld og fleiri vörur, og útgerð. Í heimild frá 1923 segir að skip hans Brödrene hafi aflað um 8000 tunnur af síld þá um sumarið. Einnig hafi hann keypt mörg þúsund tunnur af saltsíld á Siglufirði og heilan skipsfarm af síld og kjöti í Eyjafirði (9).

Þeir Goos og Balslev ráku heildsöluverslun í Kaupmannahöfn og seldu vörur til Íslands. Goos rak einnig um árabil verslun á Siglufirði, meðal annars með veiðarfæri og fleiri útgerðarvörur.

45

Goos var oftast eða alltaf meðan rekstur hans stóð hæsti útsvarsgreiðandi bæjarins. Árið 1924 var útsvar hans 32.840 kr. (10), eða um það bil jafnvirði árslauna ellefu verkamanna í fullri ársvinnu.

Í starfsliði Goos voru menn sem komu talsvert við sögu í síldarframleiðslunni og bæjarlífinu. Má þar nefna Gustav Blomquist verksmiðjustjóra, norðmann af finnskum ættum er réðist til hans 1913, starfaði hjá honum til 1929 sem einskonar næstráðandi og bjó á Siglufirði til æviloka 1936; verkfræðinginn Vestersen, en við hann er kennt útlitsfriðað timburhús við Hvanneyrarbraut, og Íslendingana Snorra Stefánsson er réðist til hans 1913, verksmiðjustjóri á Siglufirði fjölda ára, og Hannes Jónasson bóksala sem var verkstjóri hjá Goos 1912–1928.

Þá má nefna Andreas Godtfredsen, danskan mann sem kom við sögu á Siglufirði og víðar á Íslandi í meira en tvo áratugi og var að lokum vísað úr landi fyrir skrif í bresk blöð. Hann var sonur J. Th. Godtfredsens skipstjóra á e/s Skálholti sem lengi var í siglingum milli Íslands og Danmerkur. Godtfredsen yngri kom til Siglufjarðar á vegum Goos um 1920 og starfaði þá eitthvað hjá honum hluta úr sumri, en aðaliðja hans lengst af var að vera framkvæmdastjóri og nafngjafi útlendra fyrirtækja sem ráku síldarsöltun á Íslandi án tilskilinna atvinnuréttinda. Eru einkum tilgreind í því sambandi sænsk fyrirtæki sem kennd voru við Gabrielson, Ameln-bræður, Wallström og fleiri. Enn fremur var hann forstöðumaður síldarleiðangra sem gerðir voru út á Íslandsmið. Bróðir hans, Otto Godtfredsen, kom einnig við sögu á Siglufirði sem saltandi á þriðja áratugnum.

Goos var búsettur í Kaupmannahöfn en dvaldist á Íslandi á sumrin, síðast 1930. Hann bjó í húsinu við Tjarnargötu sem hann keypti af Sigurði Helga og hafði þar líka skrifstofu sína. Það hús var síðar nefnt Hvíta húsið og hýsti skrifstofur bæjarins þangað til það brann 1965.

Um 1925 virðist hafa farið að halla undan fæti hjá Goos. Vorið 1926 kom með honum til Siglufjarðar danskur bankamaður, N. P. Christensen, líklega frá Handelsbanken í Kaupmannahöfn. Hafði hann eftirlit með rekstrinum næstu ár og yfirstjórn að fullu 1931 til 1934 er starfseminni var hætt og eignirnar seldar eftir fyrirmælum áðurnefnds banka.

Goos rak fyrirtæki sín lengur og hafði meira umleikis en flestir eða allir aðrir útlendingar á Siglufirði. Hann hafði jafnan marga menn í vinnu og stóð vel í skilum við starfsfólk og viðskiptavini. Þá var hann léttur og glaðlegur í fasi og framkomu og var meðal vinsælustu atvinnurekenda á Siglufirði meðan hann starfaði þar.

Tilvísanir

1. Þmb. Litra M. 351, bók F –O 1863–1919, bls. 104–106.

2. Þmb. Litra M. 349.

3. Lóðaskrá B. Þ., nr. 27 og 31.

4. Hreppsbók Hvanneyrarhrepps, fundargerð 17. okt. 1917.

5. Fram, 22. 11. 1916.

6. Þmb. Litra R. 287.

7. Þmb. Litra R. 398.

8. Þmb. Litra C. 165.

9. Bréfabók Ole Tynes, bréf dags. 23. des. 1923.

10. Niðurjöfnunarnefnd, fundargerð 3. jan. 1924.

46

13. Halldórsstöð

Hinn 29. ágúst 1911, daginn eftir að Goos gerði samning um lóð Sigurðar Helga Sigurðssonar, fékk Halldór Jónasson kaupmaður leigða næstu lóð fyrir vestan hana á sandinum sunnan á Siglufjarðareyri (1). Lóð þessi var rúmir 1500 fermetrar, tæpir 16 m með fjöru en breikkaði til norðurs og náði 88 metra norður á eyrina.

Halldór Jónasson saltaði aldrei sjálfur síld þarna. Hann framleigði Norðmanninum Thorvald Björnssen lóðina í 10 ár (2), líklega 1911–1920. Björnsen var þó búinn að salta eitthvað þarna áður en Halldór fékk lóðina. Í endurminningum Ole Tynes er afdráttarlaust fullyrt að Björnsen hafi byggt stöðina og að þar hafi hann árið 1908 látið salta fyrstu kryddsíldina sem framleidd var á Íslandi, 72 tunnur (3).

Björnsen fékkst mikið við sérverkun síldar, einkum fyrir sænskan markað. Vitað er að hann sérverkaði fyrir sænska fyrirtækið Wedin & Ramstedt. Hann var og einn þeirra sem fyrstir stóðu fyrir síldarsöltun um borð í móðurskipum úti á firðinum, áður en hann fékk aðstöðu í landi.

Björnsen fékkst eitthvað við síldarsöltun á Halldórsstöð fram eftir þriðja áratugnum, einkum sérsaltanir (4), en nákvæmar heimildir um það vantar. Hann var á útsvarsskrá á Siglufirði 1922 (5). Útsvarsskrár næstu ára hafa ekki fundist.

Eftir lát Halldórs Jónassonar árið 1928 kom rekstur stöðvarinnar í hlut Hafliða sonar hans sem þá var tvítugur að aldri. Höfðu Hjaltalínsbræður, Steindór og Jón, hana á leigu 1928–1934. Árið eftir hófu Hafliði Halldórsson og Friðrik Guðjónsson þar söltun og ráku stöðina í félagi næstu ár Illa gekk fyrsta sumarið, sem varð eitt lélegasta síldarár er gengið hafði yfir Norðurland. Fengu þeir aðeins 70 tunnur af íslenskum skipum en tókst að ná í til viðbótar 4–500 tunnur af útlendum skipum. Næstu ár gekk reksturinn vel, voru saltaðar nokkur þúsund tunnur á hverju sumri, mest um 9000 tunnur sumarið 1938 (6).

Árið 1939 fluttist Hafliði alfarinn frá Siglufirði. Söltun á stöðinni það sumar er þó skráð á hans nafn (8). Friðrik saltaði á stöðinni sumarið eftir (9) en í blaðafréttum 1941 og 1943 er ekki getið um söltun á henni. Hefur líklega ekki verið saltað þar aftur fyrr en eftir stríð. Sumarið 1949 er þar söltun, skráð á nafn Kristins Halldórssonar (10).

Kristinn saltaði skv. skýrslum SÚN árin 1951 og 1952, síðara árið aðeins 53 tunnur. Næsta ár, 1953, saltar Hrímnir II. á stöðinni og 1954 saltar Friðrik Guðjónsson þar 95 tunnur. Eftir það saltar Kristinn samfleytt til og með 1962. Sumarið 1963 er Halldórsstöð skráð fyrir söltuninni, 1964 er stöðin ekki skráð með söltun en 1965 með örfáar tunnur. Ekki er ljóst hver stóð fyrir söltuninni þessi síðustu ár. Kristinn Halldórson lést 1966.

Ekkja Halldórs Jónassonar, Kristín Hafliðadóttir, sat í óskiptu búi til æviloka. Eftir andlát hennar var Halldórsstöð skipt jafnt milli fimm barna þeirra Halldórs með samningi 28. maí 1949 (7). Eftir þau arfskipti varð Kristinn Halldórsson umráðamaður bæði stöðvarinnar og verslunarinnar uns hann lést 1966. Erfingjar Halldórs Jónassonar áttu stöðina til 1971. Þá keyptu feðgarnir Björn Þórðarson og Sverrir Björnsson hana (11) en afsöluðu henni til Siglufjarðarkaupstaðar árið eftir (12).

Tilvísanir

1. Ls. B. Þ. nr. 28.

2. Sama heimild.

3. Endurminningar Ole Tynes.

47

4. Munnleg heimild. Hafliði Halldórsson, viðtal 29. jan. 1991.

5. Fram, 2. des. 1922.

6. Munnleg heimild, Hafliði Halldórsson, viðtal 29. jan. 1991.

7. Þmb. Litra P II 164.

8 Neisti, 7. sept. 1939.

9. Munnleg heimild. Hafliði Halldórsson.

10 Mjölnir, 31. ág. 1949.

11. Þmb. Litra Æ II. 63 og 64.

12. Þmb. Litra Ö II. 235 og 236

Aðrar heimildir

Söltunarskýrslur Síldarútvegsnefndar 1951–1982

48

14. Jacobsensstöð

Einn þeirra Norðmanna sem fyrstir komu sér fyrir á Siglufirði var Edvin Jacobsen frá Fosnavåg, skammt frá Álasundi. Fjölskylda hans rak útgerð og fiskverslun. Hann kom að sögn fyrst til Íslands 1904, tuttugu og tveggja ára gamall, til að afla lýsis sem þá var í geysiháu verði, fékk aðstöðu á „eyju undan Reykjavík“ og keypti þar og bræddi lifur af skoskum togurum sem lönduðu daglega (1). (Eitthvað kann að fara hér á milli mála. Ekki hefur tekist að finna heimildir um útgerðarstöðina sem lýst er).

Árið 1906 var hann á manntali í „norsku húsunum“ á Siglufirði og á skrá yfir útsvarsgreiðendur. Var hann síðan lengi í hópi þeirra gjaldahæstu. Tvö skip hans, Orion og Olga, voru skráð á Íslandi 1906 (2).

Verslun með síld, sérverkun síldar og umboðsstörf fyrir sænska síldarkaupendur var uppistaðan í rekstri Jacobsens. Hann er talinn hafa átt frumkvæði að því að sænskur síldarkaupmaður, Adolph J. Solbu, ákvað að gera út skip til síldveiða við Ísland 1905. Tók Jacobsen fyrir hans hönd á leigu tvö norsk skip, Pilen frá Stafangri og kútterinn Orion, líklega áðurnefnt skip hans sjálfs, og sá um úthaldið. Tókst þessi útgerð vel og næsta ár fékk Solbu tvo landa sína, H. H. Kristensen og Erik Bolin, í félag með sér um stærra síldarúthald á Íslandsmið. Gekk sú útgerð líka vel og er talið að þessar tilraunir hafi orðið upphafið að síldveiðum Svía við Ísland. Solbu og áðurnefndir félagar hans gerðu út á síld við Ísland í 14 ár alls og var Jacobsen öll árin útgerðarstjóri og umboðsmaður þeirra á Íslandi (3).

Jacobsen sérverkaði mikið fyrir ákveðna kaupendur, meðal annars fyrir Solbu og Buvik, alkunna síldarkaupmenn. Þá sérsaltaði hann lengi fyrir einhverja viðskiptavini Sörens Goos.

Jacobsen hóf síldarsöltun sína 1905 á lóðarskika á suðausturhorni Siglufjarðareyrar. (4). Leiguréttindi á lóð þeirri sem lengst var við hann kennd virðist hann ekki hafa fengið fyrr en í september 1912. Þá keypti hann af Andreasi C. Sæby beyki lóðarréttindi sem Sæby hafði fengið í ágúst 1911 á sjávarlóðarræmu vestan við lóð Halldórs Jónassonar (5). Breidd hennar við sjó var tæpir 13 m, en nyrst um 18 m og náði tæpa 90 metra norður á eyrina. Lóðarmörk nyrst voru um 25 metra sunnan við Gránugötu eins og lóðarmörk Halldórsreits.

Árið 1913 fékk Jacobsen lóðarskika sem Ásgeir Pétursson átti norðan við sjávarlóð hans, í skiptum fyrir svonefnda Strýtulóð norðar á eyrinni (6). Þar hafði Jacobsen áður byggt sérkennilegt hús, Strýtu, árið 1911, trúlega til að fullnægja lagaskilyrði fyrir rétti til atvinnurekstrar. Ásamt lóðarréttindunum keypti Jacobsen bryggju, söltunarpall og saltskúr sem Sæby hafði byggt og mótorbátinn Brödrene EA 270 með öllum búnaði.

Jacobsen saltaði á þessari bryggju eitthvað fram á 4. áratuginn, að minnsta kosti öðru hverju. Hann fékkst líka við þorskútgerð frá Siglufirði og rak fiskverkun og lifrarbræðslu. Virðist hann hafa haft talsvert umleikis fram að seinni heimsstyrjöld, en nákvæm vitneskja um starfsemi hans er ekki tiltæk. Heimild er um að 1932 og 1933 hafði hann allmiklar leigutekjur (7). Hafa þær varla getað verið fyrir annað en stöðina eða aðstöðu á henni.

Jacobsen hafði 1916 á leigu bryggju sem Sameinuðu verslanirnar áttu sunnan á tanganum (8). Norsk reknetaskip lönduðu þar daglega um sumarið (9). Þarna á eyrarhorninu voru raunar tvær bryggjur, svonefnd Tangabryggju og Litla Jacobsensbryggja norðaustan við hana. Jacobsen byggði Tangabryggjuna (10) og hefur trúlega einnig byggt bryggjuna sem við hann var kennd. Talið er að hann hafi saltað þarna bæði áður og eftir að hann keypti Sæby-lóðina. Þessar bryggjur voru síðar kallaðar Goos-bryggjur.

49

Árið 1925 keypti Jacobsen af Helga Hafliðasyni allstóra sjávarlóð vestan við svonefnda Kveldúlfsstöð, 26 metra breiða með fjöru.(11). Þessa spildu seldi hann 1929 Jóni Hjaltalín útgerðarmanni frá Akureyri (12). Við söluna var komin þarna bryggja með aðstöðu til beitningar, fiskverkunar og lifrarbræðslu (13). Þessi lóð var í eigu Jóns fram yfir 1960 og oftast nefnd Hjaltalínsstöð. Í heimild frá 1923 segir að Jacobsen hafi þá saltað um 7000 tunnur en veiti mjög litla atvinnu og útsvarið sé það eina sem eftir verði í landinu af rekstri hans (14). Hefur hann eftir því að dæma aðallega eða eingöngu saltað afla af norskum skipum og haft erlent verkafólk.

Heimildir um Jacobsensstöð eru af skornum skammti en ber saman um að hún hafi oft verið leigð til söltunar. Gamlir menn á Siglufirði telja að Andreas Godtfredsen hafi saltað þar a.m.k. eitt sumar um eða skömmu fyrir 1930. Kristján Kjartansson fékkst eitthvað við söltun þar á kreppuárunum. Jacobsen er talinn hafa fyrstur saltenda sett upp síldarkassa á söltunarstöð sinni, líklega 1913.

Jacobsen var kvæntur siglfirskri konu, Guðmundu Benediktsdóttur, fósturdóttur Hafliða Guðmundssonar hreppstjóra. Heimili þeirra var í Fosnavåg þar sem Jacobsen rak útgerðar- og fisksölufyrirtæki fjölskyldunnar, en fram undir seinni heimsstyrjöld voru hjónin oftast á Siglufirði á sumrin. Þó Jacobsen hætti söltun á Siglufirði hélt hann áfram að koma þangað í heimsóknir flest sumur fram yfir 1950, að stríðsárunum undanteknum, dvaldist þar gjarnan nokkrar vikur yfir síldartímann og bjó þá hjá fósturbróður Guðmundu, Andrési Hafliðasyni. Eitthvað mun hann þá enn hafa haft hönd í bagga með söltun fyrir gamla viðskiptavini sína, en skýrar heimildir um það vantar.

Einu glöggu heimildirnar sem fundist hafa um rekstur Jacobsensstöðvar á fjórða áratugnum eru plögg sem sýna að að hún gaf af sér leigutekjur á árunum 1931 og 1932 (15). Árið 1935 var lagt á Jacobsen 1200 króna útsvar, svipað og lagt var á smærri atvinnurekendur á Siglufirði, en ekki er ljóst hvaða tekjustofnar stóðu undir því. Talið er að Anton Ásgrímsson og Haraldur Guðmundsson frá Akureyri hafi saltað eitthvað á stöðinni á árunum 1936–1939.

Hafnarsjóður Siglufjarðar keypti stöðina 1947 (16). Kaupverðið var 120 þús. kr. Hún hafði þá lítið eða ekkert verið nýtt og viðhaldi ekki verið sinnt síðan fyrir stríð. Hefði þurft að endurbæta hana allmikið eftir stríðið til að gera hana söltunarhæfa. Lítil eftirspurn var eftir söltunarstöðvum og eftir smávegis viðgerðir á bryggjunni var olíufélaginu Skeljungi leigð hún til afgreiðslu og hafði það hana nokkur ár. Síðan var hún leigð út sem geymslusvæði fyrir söltunarstöðvar; m.a. hafði Kaupfélag Siglfirðinga hana leigða 1956–1958 og Reykjanes hf. 1960–1961.

Á árunum 1958–1960 jukust mjög vonir um að bjartari tímar væru framundan í síldarframleiðslunni og komu þá fram tilboð bæði um kaup og leigu á Jacobsensstöð. Bærinn lét þá endurbæta hana allmikið og leigði hana 1962 söltunarfélaginu Ými hf. Helsti forgöngumaður þess var Sverrir Hermannsson viðskiptafræðingur, síðar þingmaður, ráðherra og bankastjóri, en með honum í félaginu voru nokkrir gamlir skólabræður hans, Arnold Bjarnason, Hjalti Jónasson frá Flatey, Ingi Kristinsson skólastjóri og Björn Þórhallsson (17).

Ýmir hf. saltaði á stöðinni þrjú sumur, 1962–1964. Á þessum árum dróst söltun jafnt og þétt saman á Norðurlandi. Í viðtalsbók við Sverri Hermannsson kemur fram að hann telur þá félaga hafa verið heppna að sleppa með skelkinn frá þessu söltunarævintýri (18). Mest varð söltunin 1962, tæpar 2000 tunnur. Stöðin var í eigu bæjarins til 1972 er hann afsalaði henni til útgerðar- og fiskverkunarfyrirtækisins Þormóðs ramma hf. (19).

50

Tilvísanir

1. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 17.

2. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 63.

3. Ingólfur Kristjánsson. Siglufjörður, 1968, bls. 474 – 475.

4. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 57.

5. Þmb. Litra N 276.

6. Þmb. Litra N 277.

7 Niðurjöfnunarnefnd, fundargerðir 26. og 31. maí 1933.

8. Fram, 22. 11. 1916.

9. Kari Shetelig Hovland. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 87.

10. Endurminningar Ole Tynes

11. Þmb. Litra R. 167; Ls. B.Þ. nr. 357.

12. Þmb. Litra A. 151.

13. Byggingarnefnd Siglufjarðar, fundargerðir 28. apríl, 10. maí og 26. maí 1928 og 25. jan. 1929.

14. Bréfabók Ole Tynes; bréf til niðurjöfnunarnefndar 23. des. 1923.

15. Niðurjöfnunarnefnd, fundargerðir 26. og 31. maí 1933.

16. Þmb. Litra R II. 275.

17. Indriði G. Þorsteinsson. Skýrt og skorinort. Minningabrot Sverris Hermannssonar, bls. 184 – 190.

18. Sama heimild.

19. Þmb. Litra Ö II 111.

Aðrar heimildir

Fundargerðir hafnarnefndar Siglufjarðar.

Siglufjarðarblöð, einkum frá árunum 1957–1962.

Söltunarskýrslur síldarútvegsnefndar.

51

15. Kveldúlfsstöð

Hinn 26. ágúst 1911 leigði séra Bjarni Þorsteinsson Thor Jensen kaupmanni í Reykjavík lóð sunnan á Siglufjarðareyri (1). Þetta var næsta lóð vestan við Jacobsensstöð, um 38 m breið til vesturs frá henni og náði suður að Gránugötu, og að auki allstór skák milli Jacobsensstöðvar að sunnan og Gránugötu að norðan. Alls var spildan um 4700 fermetrar.

Vegna aðgrynnis hentaði þessi lóð ekki til löndunar úr togurum, enda mun Thor fyrstu árin einkum hafa stundað á Siglufirði fiskkaup af bátum og fisksöltun, en Kveldúlfur var um árabil stærsti saltfiskútflytjandi landsins. Fiskverslun Thors Jensen á Siglufirði bar þó aðeins 50 króna útsvar 1915. Á lausu minnisblaði innan í hreppsbók Hvanneyrarhrepps sést að félagið átti tæpar 1000 tunnur af síld 1917. Síldarstöðin, sem virðist hafa komist á fót 1918, var það ár meðal hæstu útsvarsgreiðenda í bænum (2). Brakki var risinn þar í ágúst 1919 en ekki fullgerður og sama ár var byggt þar stórt geymsluhús (3).

Aðgrynni hamlaði löndun úr stórum skipum sunnan við eyrina. Kveldúlfsmenn virðast snemma hafa fengið áhuga á að tryggja sér sjávarlóð í námunda við Siglufjörð þar sem togaralöndun væri auðveldari. Fulltrúi Kveldúlfs á Siglufirði frá upphafi til loka, Matthías Hallgrímsson, tók í desember 1914 á leigu allstóra lóð í landi Víkur í Héðinsfirði, 250 faðma með sjó, frá svonefndu Hólanefi suður að Kleifum og 30 faðma breiða upp frá hæsta flóðmáli (4). Ekki er vitað til að neitt hafi verið gert á þessari lóð. 1920 könnuðu svo Kveldúlfsmenn möguleika á að fá Siglunes keypt í því skyni að koma þar á fót söltunaraðstöðu og síldarverksmiðju, en kaupin munu hafa strandað á ágreiningi um verð (5). Líklegast er að í bæði þessi skipti hafi Kveldúlfur verið að leita eftir hagstæðari löndunarskilyrðum fyrir togara.

Hjalteyri var aðalbækistöð félagsins norðanlands og þar var landað síld úr togurum þess. En Siglufjarðarstöðin gerði þó sitt gagn sem löndunar- og söltunarstöð fyrir síldarafla af bátum Kveldúlfs. „Var það mikið keppikefli á þeim árum að verða fyrstur til að salta heilan farm af síld og verða á undan öðrum með hann á markaðinn í Svíþjóð og Danmörku, og bætti Siglufjarðarstöðin aðstöðuna í því efni“, segir Thor (6).

Þegar Thor Jensen fékk lóðina sunnan á eyrinni var hann forustumaður í hlutafélaginu Draupni, sem keypti togarann Snorra goða snemma árs 1911, og átti helming hlutafjár þess. Jafnframt var hann að undirbúa stofnun Kveldúlfs, en hann var stofnaður 23. mars 1912.

Þó þessi söltunarstöð væri kölluð Kveldúlfsplanið og væri það í reynd var hún ekki formleg eign félagsins sem slíks nema tæpa viku. Thor Jensen seldi og afsalaði Kveldúlfi lóðarréttindunum á Kveldúlfsplaninu á Siglufirði ekki fyrr en 4. des. 1936 (7), en 10. des. sama ár seldi Kveldúlfur Ingvari Guðjónssyni útgerðarmanni á Akureyri stöðina ásamt lóðaréttindum og öllum mannvirkjum (8).

Engar teljandi heimildir um söltun Kveldúlfsmanna á stöðinni hafa komið í leitirnar. Útsvarsskrár sem varðveist hafa sýna að félagið hefur oft haft mikið umleikis á Siglufirði. Árin 1914 og 1915 bar Fiskverslun Thors Jensen svipað útsvar og betri bændur hreppsins, en fréttir um útsvarsálagningu í blöðunum Fram og Siglfirðingi 1918–1924 sýna að þá var Kveldúlfur í hópi hæstu gjaldenda sveitarfélagsins. Árið 1932, tveim árum eftir að Thor leigði Ingvari stöðina, var Kveldúlfur í þriðja sæti að ofan. Skýringin kann að vera hlaðafli fiskibáta og mikil fisksöltun undanfarin vor, en þó er hugsanlegt að félagið hafi haft einhverja söltunaraðstöðu á Siglufirði eftir að það seldi Ingvari.

Síldareinkasalan fékk Kveldúlfsstöðina leigða 1930 og saltaði þar sumurin 1930 og 1931 (9).

52

Skilanefndin sem starfaði eftir gjaldþrot Einkasölunnar hafði vesturhluta stöðvarinnar til afnota sumarið 1932 og hélt þar 19. júlí uppboð á söltunaráhöldum hennar og birgðaleifum (10), en Sigfús Baldvinsson saltaði síld á austurhlutanum (11). Sigfús hafði tvö undanfarin sumur staðið fyrir söltun á Siglufirði á vegum Söltunarfélags verkalýðsins á Akureyri, en hefur líklega saltað á eigin ábyrgð þetta sumar.

Árið 1933 tók Ingvar Guðjónsson Kveldúlfsstöðina á leigu og hóf þar söltun (12). Hann keypti hana 10. des. 1936 (13). Hann rak þar mikla síldarsöltun til 1943, en hann lést í desember það ár, 55 ára gamall. Meðan hann rak stöðina var hún oftast í einhverju af þrem efstu sætum með heildarsöltun á landinu og nokkrum sinnum hæst. Mest var saltað þar sumarið 1938, tæpar 30 þúsund tunnur.

Árið 1942 var söltunin á stöðinni rekin undir nafni nýstofnaðs hlutafélags, Hafliða hf., og 1943 undir nafninu Ásvör hf. Ingvar og venslamenn hans áttu bæði bæði félögin.

Ingvar Guðjónsson var lengi einn kunnasti útgerðarmaður og síldarsaltandi á Norðurlandi. Hann gerðist ungur sjómaður, lauk 1915 prófi frá Stýrimannaskólanum, varð skipstjóri og hóf brátt útgerð, fyrst í félagi við Ásgeir Péturssonen síðan einn. Hann saltaði fyrst síld á Siglufirði 1920 eða 1921 í smáum stíl. Hann eignaðist allmörg skip og þótti útgerð hans jafnan með reisn og myndarskap; góð skip og búnaður í fremstu röð. Átti hann því jafnan völ á aflasælum skipstjórum og úrvals áhöfnum. Hann lét sér annt um starfsmenn sína og naut á móti velvildar þeirra og vilja til að leggja sig fram, enda lagði hann mikið upp úr nýtni og vandvirkni. Nokkuð þótti hann ráðríkur og rekast illa í flokkum og félögum. Þannig átti hann nokkrum sinnum frumkvæði að lausn vinnudeilna, þegar hann taldi þær vera farnar að valda atvinnurekstrinum skaða, án nokkurs samráðs við aðra atvinnurekendur eða samtök þeirra, að því er best verður séð (14).

Aðalsöltun Ingvars var á Siglufirði. Óglöggar sagnir eru um að hann hafi átt hlut að söltun á Djúpuvík eða í Ingólfsfirði, en ekki hefur það fengist staðfest. Hann fékk fjörulóð á Ingólfsfirði en lét aldrei hreyfa við henni (15). Heimild er þó um að skip hans lögðu upp síld til söltunar þar vestra (16) og víst má telja að eigendur söltunarstöðva þar hafi talið svo öflugan útgerðarmann eftirsóknarverðan söltunarfélaga.

Ekki er ljóst hvort eða hvar söltunarfélagið Hafliði, sem stóð fyrir söltun á Kveldúlfsstöðinni 1942, saltaði 1943 og 1944, en það keypti Íslandsstöð haustið 1944. Ásvör hf. rak ekki söltun á Siglufirði eftir 1943. Það félag starfaði þó áfram; stjórnarformaður þess 1945–1960 var Sveinn Björnsson stórkaupmaður, tengdasonur Ingvars.

Haustið 1944 keypti Kaupfélag Siglfirðinga stöðina af dánarbúi Ingvars (17). Saltaði félagið þar síðan til 1968.

Á þessari stöð var fyrst smíðuð og sett upp vatnsrenna til að flytja úrgang frá söltunarkössum. Það var Hjörtur Hjartar kaupfélagsstjóri sem fann upp þennan einfalda útbúnað og kom honum í notkun skömmu eftir að vélknúin flutningsrenna var tekin í notkun hjá hf. Hafliða.

Stöðin var í eigu kaupfélagsins uns hún var seld á nauðungaruppboði í júlí 1971 (18). Kaupendur voru Síldarverksmiðjur ríkisins og bærinn sameiginlega í hlutfallinu 60% og 40 %. Boðið var nokkrum vikum seinna framselt ríkissjóði, en hann afhenti það Þormóði ramma hf. í maí 1972, að undanskildum mannvirkjum sem Olíufélagið hf. hafði komið upp á stöðinni vegna sölu á olíuvörum (19). Andvirði eignanna var metið upp í hlutafjárframlag ríkisins til Þormóðs ramma hf.

53

Tilvísanir

1. Ls. B. Þ. nr. 32. Þmb. Litra E 126.

2. Fram 23. nóv. 1918.

3. Brunabótamat Siglufjarðar 1916–1925, skírteini nr. 4 og 18.

4. Þmb. Litra N 335. Bók F – O.

5. Siglfirðingabók 1976 bls. 78.

6. Thor Jensen. Minningar II., bls. 144.

7. Þmb. Litra E 137.

8. Þmb. Litra E 127.

9. Munnleg heimild. Kristján Sigurðsson.

10.Einherji 19. júlí 1932.

11.Munnleg heimild, Snorri Sigfússon.

12.Einherji 10. ágúst 1933.

13. Þmb. Litra E. 127.

14. Benedikt Sigurðsson. Brauðstrit og barátta I. bls. 181–182 og 246, II. bls. 36–40 og 287.

15. Heimildarmaður Gunnar Guðjónsson vélstjóri, Kópavogi.

16. Heimildarmaður Benedikt Sæmundsson vélstjóri, Akureyri.

17. Þmb. Litra H 535.

18. Þmb. Litra Æ II 174.

19. Þmb. Litra Ö II 112.

Heimildarmenn auk framannefndra

Björn Ingvarsson fyrrv. yfirborgardómari, Hafnarfirði Sveinn Björnsson stórkaupmaður, Reykjavík.

54

16. Alliance-lóðin

Hinn 6. sept. 1912 leigði séra Bjarni Þorsteinsson fiskveiðafélaginu Alliance í Reykjavík lóð á sandinum vestan við Kveldúlfslóðina (1). Breidd hennar frá austri til vesturs var 63 m. Norðurtakmörk hennar voru 25 metra sunnan við götustæði Gránugötu. Söltunarpallur var byggður á lóðinni 1917 (2). Margir samningar hafa verið gerðir um þessa lóð, hluta af henni og viðbætur við hana. Verða hér nefndir þeir helstu:

Hinn 29. júní 1918 gerði Jón Sigurðsson og félagar hans, þeir Magnús Magnússon og Jón Ólafsson, en þeir voru allir í hópi forustumanna Alliance, samning í eigin nafni við séra Bjarna Þorsteinsson um lóðina (3) og virðast hafa eignast mannvirki á henni um sama leyti. Ekki er ljóst hvaða ástæður lágu að baki þessari yfirfærslu. Hafa þeir líklega rekið einhverja starfsemi þarna 1918–1921 undir nafninu Jón Sigurðsson & Co. Fyrirtæki með því nafni bar útsvar í Siglufirði þessi ár. En 1922 báru þeir hver sitt útsvar.

Árið 1923, 22. maí, seldu þessir félagar Helga Hafliðasyni kaupmanni á Siglufirði lóðarréttindin ásamt bryggjum, húseignum og öðrum mannvirkjum (4). Helgi átti stöðina alla næstu tvö ár og lét byggja á henni bryggju 1924. Haustið 1925 seldi hann Edvin Jacobsen lóðarréttindi á 26 metra breiðri sneið austan af lóðinni, eða um 2/5 hluta hennar (5). Engin mannvirki fylgdu lóðarhlutanum við söluna. Eftir þetta voru reknar tvær söltunarstöðvar á Alliance-lóð.

Jacobsens/Hjaltalínsstöð

Jacobsen seldi Jóni Hjaltalín sinn hluta af stöðinni 23. ágúst 1929. Var þá komin þar bryggja og söltunarpallur (6). Jón endurbætti síðan söltunaraðstöðuna næstu ár. Jón keypti 1938 smáspildu norðan við lóðina. Hafði hún áður verið eign Gránufélagsins. Jón átti síðan stöðina til 1961.

Hjaltalínsbræður, Jón og Steindór, höfðu allmikil umsvif á Siglufirði um nokkurt árabil. Á árunum 1928–1934 söltuðu þeir á Halldórsstöð, sem fyrr segir (sjá 13. Halldórsstöð), og hafa líklega jafnframt haft einhver not af stöð Jóns 1930–1934. Árið 1930 söltuðu þeir yfir 13.000 tunnur. Samstarf virðist hafa verið með þeim og jafnframt verkaskipting. Jón stóð fyrir síldarsöltun en Steindór rak útgerð og síldarverksmiðjuna Rauðku.

Í desember 1933 buðu þeir hafnarsjóði stöðina á Alliance-lóðinni til sölu á fasteignamatsverði, en ekki varð úr kaupum. Um miðjan fjórða áratuginn hættu þeir að salta á Halldórsstöð en Jón hóf einn rekstur á Alliance-stöðinni, sem þá var farið að nefna Hjaltalínsstöð. Um þetta leyti var farið að draga allverulega úr umsvifum Steindórs. Kreppan var farin að sverfa fast að útgerðinni og Rauðka lítt samkeppnisfær við nýjan og sístækkandi verksmiðjukost ríkisins.

Jón Hjaltalín kom upp þægilegri söltunaraðstöðu á austurhluta Alliancelóðarinnar. Steindór Hjaltalín var skráður fyrir söltun á Siglufirði í blaðafréttum frá síðustu árunum fyrir seinna stríðið. Hefur hún líklega farið fram á þessari stöð. Ekki virðist hafa verið saltað á henni á stríðsárunum, en 1949 var Jón byrjaður að salta þar.

Í apríl 1953 gerði hann samning við Ásmund hf. á Akranesi um sölu á hálfri stöðinni (7). Samningsákvæðum var aldrei fullnægt af hálfu Ásmundar hf., en fyrirtækið átti þó hlut að söltun á stöðinni sumurin 1953 og 1954 og aftur 1959 og 1960 (8). Björn Þórðarson gerðist aðili að rekstrinum 1955 og var það þangað til Jón seldi stöðina.

22. júní 1961 keypti Silfurborg hf., Siglufirði, stöðina af Jóni og töldu aðilar að samningurinn við Ásmund væri ekki í gildi. Var sú skoðun staðfest 1967 með dómi Hæstaréttar, þar sem kröfu

55

Ásmundar hf. um að samningurinn frá 1953 teldist gildur var vísað frá (9). Aðalhluthafi Silfurborgar hf. var Vigfús Friðjónsson en aðrir hluthafar vandamenn hans. Hafnarsjóður keypti stöðina af Silfurborg hf. 1977 (10).

Íslenskur fiskur hf., sem einnig var fyrirtæki Vigfúsar, saltaði á stöðinni 1961–1964 en Silfurborg hf. 1965.

Ísafold

Hinn 10. nóv. 1928 hreppti Íslandsbanki í Reykjavík á nauðungaruppboði vesturhluta Alliancelóðarinnar, þ.e. hluta Helga Hafliðasonar (11), en seldi hann 6. des. sama ár Alfons Jónssyni lögfræðingi, Siglufirði, Friðleifi Jóhannssyni útvegsbónda, Siglufirði og Þorsteini Jónssyni kaupmanni á Dalvík (12). Söltunarstöð þeirra bar nafnið Ísafold.

Hinn 14. nóv. 1932 seldu Alfons og Þorsteinn Sigurði Kristjánssyni kaupmanni á Siglufirði og Friðleifi sinn hluta (13). Notuðu þeir hana aðallega sem bækistöð fyrir þorskútgerð en söltuðu síld í smáum stíl. Áttu þeir hana alla í helmingafélagi til 1941.

Hallgrímur Hallgrímsson frá Akureyri leigði stöðina af Sigurði og Friðleifi eitt eða tvö sumur snemma á fjórða áratugnum og saltaði þar eitthvað af síld (14).

Anna Vilhjálmsdóttir fékk 1941 við búskipti þeirra Sigurðar Kristjánssonar afsal fyrir eignarhluta hans í söltunarstöðinni Ísafold. Tveim árum seinna keypti Þráinn sonur þeirra Sigurðar og Önnu eignarhelming Friðleifs Jóhannssonar. Þau Anna og Þráinn áttu síðan stöðina til 1969 (15). Þráinn annaðist reksturinn, saltaði síld, kom upp hraðfrystihúsi á lóðinni 1943, frysti þar síld til beitu á sumrin, gerði utan síldartímans út báta til hráefnisöflunar fyrir húsið og keypti fisk til vinnslu. Var að þessum rekstri veruleg atvinnubót utan síldartímans.

Í september 1969 seldu þau Þráinn og Anna eignina. Kaupandinn var nýstofnað hlutafélag, Ísafold hf. (16). Í stjórn þess voru Bjarni M. Þorsteinsson, Daníel Baldursson og Stefán Þór Haraldsson. Stöðin var síðan notuð sem útgerðarstöð og frystihúsið rekið. Þó var söltuð þar síld, 3838 tunnur, árið 1983.

Tilvísanir

1. Ls. B. Þ. nr. 44.

2. Fram 23. júní 1917.

3. Þmb. Litra Q 85.

4. Þmb. Litra R 15.

5. Þmb. Litra R 167.

6. Þmb. Litra A 151.

7. Þmb. Litra S II 85.

8. Þmb. V II 385 og S II 429.

9. Þmb. Litra V II 385.

10. Þmb. Litra F II 80.

11. Þmb. Litra T 34.

12. Þmb. Litra A 2.

13 Þmb. Litra H 209 og 210 B.

14. Munnleg heimild. Þráinn Sigurðsson.

15. Þmb. Litra H 247 og Litra I 51.

16. Þmb. Litra Z II. 371 og Ö II. 72.

56

17. Helgareitur /Alfonsstöð

Sama dag og Alliance hf. fékk lóð sunnan á eyrinni haustið 1912 fékk Helgi Hafliðason næstu fjörulóð vestan við hana, um 19 m breiða til vesturs frá henni (1) og norður að línu 40 m sunnan við stæði Gránugötu. Í febrúar 1916 fékk hann skikann milli þessarar lóðar og Gránugötu og dálitla viðbót í framhaldi af honum til austurs (2). Þarna var mjög aðgrunnt. Helgi byggði pall á staurum úti í sjónum og suður af honum tvær bryggjur. Um 150 metra langur landgangur var frá pallinum upp í fjöruna. Hús var byggt á pallinum 1916 (3).

Helgi saltaði þarna í eigin nafni til 1927. Þá lenti hann í miklum fjárhagsvandræðum. Hann stofnaði þá hlutafélagið Ramma ásamt Jóni Sigurðssyni, kenndum við Alliance Hinn 23. mars 1928 keypti þetta félag af honum söltunarstöðina ásamt lóðarréttindum (4). Virðast þeir félagar hafa haft uppi stór áform; m.a. sóttu þeir um leyfi til að byggja „síldar- og fóðurmjölsverksmiðju“ á vesturhluta Alliance-lóðarinnar (5), sem Helgi hafði eignarhald á en Jón og félagar hans höfðu átt áður.

Gæfan reyndist þessum fyrirætlunum ekki hliðholl. Eignarhluti Helga af Alliance-lóðinni var seldur á nauðungaruppboði um haustið, og á nauðungaruppboði haustið 1930 var hluti af stöð Ramma hf. sleginn útibúi Íslandsbanka á Akureyri (6), en það sem eftir var seldi Rammi hf. áðurnefndum Jóni Sigurðssyni tæpum mánuði síðar, að fengnu samþykki Útvegsbankans (7).

Alfons Jónsson lögfræðingur á Siglufirði keypti framantaldar eignir af Jóni Sigurðssyni og Útvegsbankanum 20. des. 1932 (86) en saltaði þar ekki alltaf sjálfur. Í brunabótamatsgjörð árið eftir kemur fram að á stöðinni var mjög sérstæð bygging, Alfonsbrakkinn, sem svo var nefndur eftir eigendaskiptin 1932, 90 metra löng en aðeins 4 m á breidd. Rúmur helmingur lengjunnar var 3,5 m á hæð en hinn hlutinn 4,5 m (9). Hluti af henni var verkafólkshús en meginhlutinn fisktökuhús og geymsluskúrar.

Ekki eru glöggar heimildur um hverjir söltuðu á þessari stöð á árunum 1931–1935. Líklegt er að fyrrverandi eigendur hafi haft einhver afnot af henni, a.m.k. þar til Alfons keypti hana. Sögusagnir eru um að Hallgrímur Jónsson skósmiður og kaupmaður á Siglufirði hafi saltað þar eitt eða tvö sumur á þessu tímabili. (10). Hallgrímur Hallgrímsson frá Akureyri hafði stöðina leigða 1936–1938 og Sigfús Baldvinsson 1939 (11). Samkvæmt blaðafregnum frá árunum 1941 og 1943 hefur hf. Víkingur, hlutafélag sem Alfons átti, saltað á stöðinni þau ár. Söltunarfélagið Drangey saltaði þar 1949 og 1950. Á bak við það nafn stóðu Haraldur Böðvarsson & Co. á Akranesi og Ástvaldur Eydal, landfræðingur og höfundur bóka um síld. Haraldur rak þessi sumur einnig söltunarstöðina Lundey á Húsavík, en ekki er ljóst hvort Ástvaldur var með í því fyrirtæki.

Alfons Jónsson lést 1952. Í mars 1953 keypti Vigfús Friðjónsson stöðina af dánarbúi hans (12). Lét hann gera mikið við hana um vorið, rífa upp alla timburþekjuna, fylla upp um 1700 fermetra svæði efst en timburklæða fremri hlutann og byggja þar þak yfir söltunarlínuna til hlífðar fyrir úrkomu. Þótti söltunarstúlkum þetta góð nýbreytni, en söltun undir þaki var þá óþekkt á Siglufirði, ef undan er skilin haustsöltun reknetasíldar í stöku tilvikum.

Fyrirtæki Vigfúsar, Íslenskur fiskur hf., hóf söltun á stöðinni 1953 og saltaði þar í sjö ár. Þetta var fremur lítil söltunarstöð. Vigfús hafði Tangabryggjuna á leigu til ársloka 1955 og nýtti hana sem geymslustöð. Sumarið 1956 saltaði Vigfús á níunda þúsund tunnur á stöðinni og varð þá mjög þröngt þar. Næsta ár fékk hann geymslurými fyrir síld sunnan við flóðvarnargarðinn nyrst á eyrinni fyrir ákveðið gjald á tunnu.

57

Vorið 1960 keypti Reykjanes hf. stöðina af Vigfúsi (13). Helstu forustumenn þess fyrirtækis voru þá Daníel Þórhallsson á Siglufirði og Finnbogi Guðmundsson í Gerðum. Reykjanes hf. saltaði síðan á stöðinni 1960–1964. Reykjanes átti stöðina til 2. apríl 1969 er ríkisábyrgðasjóður leysti hana til sín (14). Hann afsalaði eigninni til nýs hlutafélags, Ísafoldar hf., árið eftir (15).

Tilvísanir

1. Þmb. Litra N 485.

2. Þmb. Litra Q 124.

3. Brunabótamat Siglufjarðar 1916–1933, skírteini nr. 46.

4. Þmb. Litra V II 385.

5. Byggingarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 12. maí 1928.

6. Þmb. Litra A. 183.

7. Þmb. Litra B. 111.

8. Þmb. Litra B. 112.

9. Brunabótamat Siglufjarðar 1916–1933, bls. 73.

10.Munnlegar heimildir, Bragi Magnússon o.fl.

11. Munnleg heimild. Snorri Sigfússon.

12. Þmb. Litra O II 39.

13. Þmb. Litra S II 150 og Litra U II 238.

14. Þmb. Litra Z II 237.

15. Þmb. Litra Þ II 255.

Heimildarmenn

Vigfús Friðjónsson

Þórhallur Daníelsson

Snorri Sigfússon

58

18. Tynesarstöðin

Ein stærsta söltunarstöðin á Siglufirði var svonefnd Tynesarstöð, kennd við Norðmanninn Ole Tynes. Elsti hluti þessarar stöðvar, sem var í króknum sunnan við eyrina, var í landi Hafnar, en á árunum 1920–1923 fékk Tynes aðliggjandi lóðir bæði úr Hvanneyrarlandi og Hafnarlandi. Hann notaði þó aldrei alla spilduna. Árið 1934 lét hann af hendi skák af henni til byggingar svonefndrar Bátastöðvar sem bærinn byggði til afnota fyrir smábáta. Líklegt er að hann hafi stundum leigt öðrum saltendum eða útgerðarmönnum söltunaraðstöðu og eftir lát hans voru rekin á þessu svæði mörg söltunarfyrirtæki. Þá fékk hann lóðarréttindi fyrir Timburhólmann svonefnda, sem í daglegu tali var kallaður Anleggið, á grynningunum sunnan við pollinn. Hér á eftir er gerð grein fyrir lóðunum, sem mynduðu þessa spildu, í þeirri tímaröð sem Tynes fékk þær:

Hinn 3. janúar 1913 leigði Helgi Guðmundsson læknir Tynes lóð í Hafnarlandi rétt sunnan við krókinn, rúmlega 120 metra með sjó (1). Suðurtakmörk hennar voru við lóðarræmu sem Jón Jóhannesson fyrrv. bóksali og Guðmundur Sigurðsson bóndi í Efri-Höfn höfðu áður fengið leigða, tæpa 38 metra með fjöru. Til vesturs náði lóðin að Hafnargötu.

Tynes var búinn að hafa afnot af þessari lóð um alllangt skeið áður en hann gerði lóðarsamninginn, því 1911 afsalaði hann konuefni sínu, Indíönu Pétursdóttur, allstóru húsi undir Hafnarbökkum, líklega lifrarbræðsluhúsi, ásamt tilheyrandi áhöldum og lóð (2).

Í september 1920 afsalaði Jón Jóhannesson Tynesi 10 metra breiðri ræmu af áðurnefndri lóð þeirra Guðmundar í Höfn (3) og nokkrum dögum seinna framseldi Þorvaldur Sigurðsson kaupmaður Tynesi fjögra metra ræmu sem Guðmundur í Efri-Höfn hafði leigt honum árið 1914 af sömu lóð (4). Í júní 1921 fékk Tynes það sem eftir var af lóðinni með samningi við Guðmund (5). Öllum þessum viðbótum sunnan við upphaflegu lóðina afsalaði Tynes til konu sinnar 12. apríl 1922 (6).

Framantaldir lóðarhlutar voru allir úr Hafnarlandi. En 6. nóvember 1922 framseldi maður að nafni Lars Bakkevig, Haugasundi, Tynesi stóra lóð sem hann hafði fengið árið 1912 úr Hvanneyrarlandi, í króknum sunnan við Eyrina (7). Lars þessi Bakkevig virðist ekkert hafa hreyft við henni, enda virtist hún ekki girnileg sökum þess að allstór lækur, Álalækur, féll til sjávar á sandinum í króknum og bar þangað fram leir og leðju. Tynes fékk hana með sömu skilmálum og Bakkevig hafði fengið hana 1912 (8).

Lóð þessi var óregluleg að lögun. Austurhlið hennar lá að lóð Helga Hafliðasonar en suðurmörkin að landamerkjalínu Hafnar og Hvanneyrar, sem virðast hafa verið norðurmörk elstu lóðar Tynesar.

Spildan sem Hafnarsjóður fékk norðan og austan af lóðinni undir áðurnefnda smábátahöfn, Bátastöðina, var 30 metra breið frá austri til vesturs. Samningurinn var gerður í febrúar 1934 (9).

Ole Andreas Tynes var frá Sykkylven á Sunnmæri, skammt frá Álasundi. Hann réðist unglingur til starfa hjá föðurbróður sínum, Olav Roald byggingavörukaupmanni í Álasundi, sem sendi hann 1906 til Siglufjarðar að selja norskum fyrirtækjum byggingarefni. Tynes tók fyrir hans hönd á leigu stóra sjávarlóð undir Hafnarbökkum og byggði þar síldarstöð, svonefnda Roaldsstöð, sem um verður fjallað síðar. Næstu ár virðist hann einkum hafa stundað timbursöluna og er stundum titlaður timbursali á manntölum, en síðar veitingamaður, eftir að hann kvæntist íslenskri konu, Indíönu Pétursdóttur, sem rak veitingasölu á Siglufirði. Árið 1912 hóf hann sjálfstæðan atvinnurekstur. Uppistaða hans var útgerð og síldarsöltun. Hann braust þó í fleiru. Hann byggði þró fyrir úrgangssíld frá eigin rekstri og annarra, sendi hana til bræðslu í Krossanesi og líklega einnig til Noregs, rak

59

lifrarbræðslu, gerði tilraunir með sérverkanir á síld og kom 1926 á fót lítilli verksmiðju til niðurlagningar á síldarflökum. Húsnæði hennar var um 145 fermetrar og í henni voru fjórar flökunarvélar og þvottavél. Í kynningarbréfi segir hann að flökin sé lögð niður í „dunka“ með pergamentpappír milli laga. Framleiddar séu þrjár tegundir: kryddsíldarflök eða Svea Brand, sykursíldarflok eða Vitam Brand og saltsíldarflök eða Polar Brand. – Framleiðslan hefur líklega fallið niður eftir 3–4 ár.

Tynes hefur líklega fyrstur manna á Íslandi tekið þátt í tilraunum til að gera verðmæta vöru úr síldarhreistri. Safnaði hann hreistri í tunnur og sendi fyrirtæki í Berlín. Hann var frumkvöðull að byggingu Anleggsins svonefnda og útvegaði í því skyni dýpkunartæki, þau fyrstu sem komu til Siglufjarðar. Árið 1910 varð hann umboðsmaður Wathne-skipanna og skömmu síðar Bergenska gufuskipafélagsins. Ennfremur rak hann kolasölu um tíma.

Tynes var einn þeirra Norðmanna sem mest höfðu umleikis á Siglufirði. Meira er til af heimildum um feril hans en nokkurs annars útlendings sem starfaði þar á Norðmannatímanum. Hann ritaði á efri árum endurminningar sínar, líklega fremur sjálfum sér til gamans en sem fræðimaður. Samt eru þær ein merkasta heimildin sem til er um Norðmannatímann svonefnda á Siglufirði, auk þess sem bæði þær og bréfabókin gefa glögga hugmynd um manninn sjálfan, glaðbeittan, opinskáan og stundum jafnvel svolítið fljótfæran og barnalegan framkvæmdamann. Þá eru um hann allmiklar heimildir í blöðum og talsvert varðveitt af plöggum frá rekstri hans.

Á árunum 1934 og 1935 stóðu yfir miklar framkvæmdir á hinni stóru sjávarlóð Ole Tynes í króknum sunnan við eyrina. Dælt var upp úr grynningum sunnan og austan við gömlu stöðina inn á sandinn norðan við, byggðir stórir söltunarpallar, bryggjur og hús (10). Hluti af þessum framkvæmdum var bygging svonefndrar Bátastöðvar á skák sem bærinn keypti af Tynes í febrúar 1934. Náði hún 30 metra vestur frá lóð Alfons Jónssonar og 130 metra til norðurs frá fjöru (11). Í blaðafrétt sagði að bryggjur og pallar sem Tynes léti byggja væru um 17 þús. fermetrar, uppmoksturinn um 16 þús. rúmmetrar og að byggja ætti geymslurými fyrir 5–6 þúsund tunnur af síld (12).

Ole O.Tynes hefur líklega saltað síðast 1941. Heimild um söltunina 1942 hefur ekki fundist , en 1943 er hann ekki nefndur í söltunarfréttum blaðanna. Líklegt er að Tynes hafi leigt út hluta af stöð sinni á árunum 1935–1939, en um það skortir heimildir.

Á Tynesarlóðinni eins og hún var fyrir 1934 störfuðu síðar eftirtalin söltunarfyrirtæki:

Bátastöðin

Árið 1938 leigði bærinn aðstöðu til síldarsöltunar á Bátastöðinni. Hluta af henni var þó haldið eftir fyrir smábátaeigendur. Leigutakar voru Gunnar Bílddal kaupmaður, Jónas Jónasson, Björn Jónasson og Guðmundur Gunnlaugsson. Árin 1939–1942 hafði Jón Gíslason útgerðarmaður í Hafnarfirði stöðina. Ekki virðist hafa verið saltað þar tvö næstu ár, en 1945 fengu Jón Kjartansson, síðar bæjarstjóri, og Hannes Guðmundsson lögfræðingur stöðina leigða og söltuðu þar tvö eða þrjú sumur. Ekki eru heimildir um söltun á Bátastöðinni eftir að þeir hættu.

Dröfn hf.

Söltunarfélagið Dröfn hf. var stofnað 30. desember 1946 (13). Hluthafar voru Kristján Ásgrímsson skipstjóri, sem hafði saltað síld í mörg ár, kona hans Guðrún Sigurðardóttir, Jóhann Sigfússon útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, bræðurnir Ólafur og Gústaf Þórðarsynir frá Laugabóli og Dagbjört

60

Einarsdóttir, eiginkona Gústafs. Kristján annðist daglegan rekstur og verkstjórn. Dröfn fékk leigða sneið af Tynesstöð næst Bátastöð. Hún saltaði síðast 1961.

Reykjanes hf.

Félagið var stofnað 28. júní 1941 í Keflavík en skráð á Siglufirði. Stofnhlutafé var 51 þús. kr. Stofnendur voru sex: Elías Þorsteinsson útgerðarmaður, Þorgrímur Eyjólfsson kaupmaður og Þórður Pétursson verkstjóri, allir í Keflavík, skráðir með 7000 kr. hlutafé hver; og útgerðarmennirnir Kristinn Árnason og Þórður Guðmundsson, Gerðum í Garði, og Finnbogi Guðmundsson, Keflavík, með 10 þúsund króna hlut hver. Finnbogi var kosinn stjórnarformaður og framkvæmdastjóri en meðstjórnendur Elías og Þórður Guðmundsson. Elías fékk prókúruumboð ásamt Finnboga. Nýr hluthafi, Björn Snæbjörnsson, með 7000 kr. hlutafé, kom inn í reksturinn 1945.

Reykjanes hf. hafði frá stofnun til 1960 leiguaðstöðu á suðurhluta nýju Tynesstöðvar; bryggjukant sem lá til suðurs frá kanti Drafnar hf., og spildu þar vestur af. En vorið 1960 keypti félagið Hjaltalínsstöðina af Vigfúsi Friðjónsyni.

Reykjanes hf. saltaði fyrst 1941 og var á skrá 1943, en síðan vantar heimildir um söltunina til 1949. Þá er félagið byrjað aftur og saltar síðan samfleytt til 1963, að undanteknu einu sumri. (Handskrifuð athugasemd Benedikts í handriti: „Hér fer eitthvað milli mála. Reykjanesið saltaði örugglega á Tangahorninu 1942 og 1943, og trúlega líka 1941. Eftir 1943 er það ekki skráð með söltun, svo tiltækar heimildir greini frá, fyrr en 1949. En Sigurður Baldursson var starfsmaður hjá Reykjanesinu á Tynesarstöðinni 1946, og telur líklegt að það hafi saltað árið áður. Að öllu framanlögðu má telja nokkuð víst að Reykjanesið hafi saltað á Tangahorninu 1941–1943, og á Tynesarstöð 1949–1963, að undanskildu 1953. Það sem vantar um söltunarferil félagsins eru þá árin 1944 og 1945.“)

Árin kringum 1950 voru léleg síldarár. Hafa Reykjanesmenn þá líklega hugleitt að hætta alveg og söltuðu ekki 1953. En á aðalfundi 23. apríl 1954 voru samþykkt tilmæli frá Daníel Þórhallssyni á Siglufirði um að hann fengi að vera að hálfu á móti Reykjanesi hf. um reksturinn, eða að stofnað yrði um hann nýtt hlutafélag með þátttöku hans. Vitað var að stöðin hjá Sunnu stæði félaginu til boða og var samþykkt að taka hana á leigu og reka þar söltun í félagi við Daníel. Næsta ár er samþykkt að halda þessum félagsskap áfram og 1956 að auka hlutaféð um 58 þús. kr. og selja Daníel það allt. Var hann þá orðinn eigandi að helmingi hlutafjárins og var eftir þetta framkvæmdastjóri félagsins

Árin 1960 og 1961 keypti Daníel og fjölskylda hans hlutafé allra hluthafanna nema Finnboga og 1963 seldi Finnbogi þeim sinn hlut. Var fjölskyldan þá orðin eigandi að öllum hlutabréfunum, sem voru kr. 116 þúsund að nafnverði. Sem fyrr segir saltaði Reykjanes hf. síðast síld á Siglufirði sumarið 1963.

Sunna hf.

Árið 1939 seldu Tynes-hjónin svonefnda Gömlu Tynesstöð, en það var syðsti hluti eignarinnar, á lóð úr landi Hafnar, sem hafði að hluta eða öll verið á nafni frú Indiönu Tynes. Kaupandi var Sunna hf. Af hennar hálfu stóðu fyrir kaupunum útgerðarmennirnir Ingvar Vilhjálmsson, Reykjavík, Ólafur Jónsson, Sandgerði og Jón Sveinsson, Reykjavík (14).

Árið 1971 afsalaði Sunna Gömlu Tynesstöð til bæjarins en hann aftur til smáútgerðarmanna og fjáreigenda árið eftir.

Ole A. O. Tynes lést í desember 1944. Einkaerfingi hans var dóttir hans, Jórunn Sigtryggsson, sem búsett var í Reykjavík. Hún seldi það sem eftir var af söltunarstöðinni 28. apríl 1945 (15). Var

61

það „nýja Tynesstöðin“, sem svo var nefnd, vestan við Bátastöðina, í landi Hvanneyrar og hafði verið byggð að mestu 1935 en annað endurnýjað þá. Kaupandi var Sunna hf.; af hennar hálfu undirskrifuðu Ólafur Jónsson og Ingvar Vilhjálmsson samninginn.

Ólafur Jónsson og Ingvar Vilhjálmsson eða fyrirtæki þeirra munu lengst af hafa verið aðaleigendur Sunnu hf. Þeir söltuðu hvor fyrir sig af sínum bátum á eigin reikning en báðir þó undir nafni Sunnu.

Sunna hf. saltaði fyrst 1939 og að því er virðist árlega eftir það, síðast 1961. Að vísu hefur ekki komið í leitirnar heimild um söltun á stöðinni 1946, en ólíklegt er að það ár hafi fallið úr. Stöðin var oft meðal söltunarhæstu stöðva á Siglufirði og nokkrum sinnum hæst.

Söltunarstöð Sunnu hf. mun hafa haft alla gömlu Tynesstöð og ræmu af nýja hlutanum undir rekstri sínum. Árið 1962 seldi Sunna fyrirtækinu Óskarssíld hf. Nýju Tynesstöð (16).

Óskarssíld hf.

Óskarssíld hf. tók við Nýju Tynesstöð í júlíbyrjun 1962 og saltaði á henni það sumar og næsta. Aðalhluthafar í fyrirtækinu voru nokkrir erfingjar Óskars Halldórssonar. Virðist tengdasonur hans, Einar Sigurðsson, hafa verið helsti ráðamaður um reksturinn á Siglufirði. Óskarssíld hf. afsalaði Nýju Tynesstöð aftur til Sunnu hf. 1975, en hún afsalaði henni samdægurs til siglfirskra smáútvegsmanna.

Tilvísanir

1. Þmb. Litra N 315.

2. Þmb. Litra M 516 og 517.

3. Þmb. Litra Q 71, Q 135 og N 642.

4. Þmb. Litra Q 72 og S 83.

5. Þmb. Litra Q 73 og 136.

6. Þmb. Litra M 517.

7. Ls. B. Þ. nr. 52 st.

8. Þmb. Litra Q 220.

9. Þmb. Litra B. 300.

10. Benedikt Sigurðsson. Brauðstrit og barátta II, bls. 41.

11. Þmb. Litra B. 300.

12. Benedikt Sigurðsson. Brauðstrit og barátta II, bls. 41.

13. Hlutafélagaskrá Íslands.

14. Þmb. Litra F. 268 og I. 89.

15. Þmb. Litra I 179.

16. Þmb. Litra T II 186 og 184.

Heimildarmaður

Hannes Guðmundsson fyrrv. sendifulltrúi.

62

19. Malmquiststöð/Þóroddarplan

Hinn 8. október 1927 seldi Indíana Tynes Einari Malmquist Einarssyni útgerðarmanni á Akureyri lóðarréttindi á syðsta hluta lóðar sinnar undir Hafnarbökkum. Lóð þessi náði frá Suðurgötu niður að sjó. Hún var rúmlega 22ja metra breið með götunni en mjókkaði dálítið til austurs niður að sjónum (1). Mannvirki sem fyrri eigendur, Jón Jóhannesson og Guðmundur Sigurðsson, höfðu komið upp á lóðinni meðan þeir höfðu þarna aðstöðu fyrir útgerð á árunum 1909–1920, voru að mestu ónýt þegar Einar fékk hana. Hann var búinn að koma þar upp nothæfri bryggju og húsi 1932. Einar virðist hafa verið búinn að hafa einhver not af lóðinni áður en lóðarsamningur var gerður og byrjaður á endurbótum þar.

Einar Malmquist var sonur Einars Einarssonar, sem hafði ásamt Friðrik bróður sínum haft næstu lóð fyrir sunnan á leigu síðan 1911. Einar yngri var mikið á Siglufirði á unglingsárum sínum og starfaði við útgerð föður síns og frænda; einnig vann hann um tíma í tunnuverksmiðju Söbstads. Þá starfaði hann um skeið hjá Snorra Jónssyni. Segir hann nokkuð frá störfum sínum á Siglufirði í endurminningaþætti (2).

Tilgangur Einars með lóðartökunni var að koma upp aðstöðu fyrir báta sína. Hann gerði alls út 7 báta á Siglufjarðarárum sínum. Stærstir voru Æskan og Stathav, 28 og 31 tonn. Bátarnir voru stundum gerðir út á reknetaveiðar og saltaði Einar þá aflann sjálfur. Aldrei var um mikla söltun að ræða.

Saltfiskverðfallið í kreppunni miklu lék Einar Malmquist hart eins og fleiri. Árið 1936 var útgerðarstöð hans undir Hafnarbökkum seld á nauðungaruppboði. Kaupandi var Olíuverslun Íslands. Síðustu bátar hans voru seldir 1937. Haustið 1937 keyptu dætur Einars stöðina af Olíufélaginu og jafnframt af Ole Tynes 1,6 metra breiða lóðarrræmu sem náði frá síldargeymsluhúsi hans fram í sjó (3). Samningur við eigendur Hafnar um alla lóðina var gerður 1940 (4).

Ekki eru öruggar heimildir um söltun á stöðinni eftir að Einar hætti. Steinþór Guðmundsson skólastjóri saltaði þar sumarið 1937. Í söltunarfrétt frá 1939 er „Malmquist“ sagður búinn að salta tæpar 1900 tunnur (5), en ekki er vitað hver eða hverjir stóðu að þeirri söltun. Ekki er ósennilegt að það hafi verið einhverjir vandamanna Einars, sem höfðu nú aftur náð eignarhaldi á henni. Sjálfur saltaði hann þar síðast 1934 (6).

Systurnar afsöluðu stöðinni með mannvirkjum og lóðarréttindum til Hafnarsjóðs Siglufjarðar árið 1942 (7). Óskar Halldórsson hafði áhuga á að kaupa hana og sameina hana næstu stöð fyrir sunnan sem hann hafði keypt 1940 (8), en Hafnarsjóður notaði forkaupsrétt sinn.

Lítil eftirspurn var eftir söltunarstöðvum á stríðsárunum. Malmquiststöð hentaði ekki vel til síldarsöltunar, lítil og aðþrengd á alla vegu, og þurfti að flytja síld burtu til geymslu ef saltaðist að ráði. Illa gekk því að koma henni í leigu fyrstu árin eftir stríð. Ólafur Þórðarson frá Laugabóli hafði hana á leigu veturinn 1942–1943 og Pétur Njarðvík netagerðarmeistari sumarið 1943. Eitthvað var um að herbergi í húsinu væru leigð út til íbúðar. Óli Konráðsson netagerðarmeistari fékk stöðina 1945 til eins árs. Árið 1946 fékk Kolbeinn Björnsson hana leigða til tveggja ára til söltunar. Síðan fékk Skafti Stefánsson hana 1948 og notaði sem geymslustöð, en 1949 fékk Sigþór Guðjónsson hana til söltunar, og næsta ár nýtt söltunarfyrirtæki, Pólarsíld, sem Sigþór var forustumaður fyrir ásamt Páli Erlendssyni og Agnari Samúelssyni. Höfðu þeir hana saman tvö ár. Árið 1952 bauð Agnar í stöðina einn en Sigþór og Páll saman og fengu hana. Höfðu þeir hana næsta ár en hættu þá, ríkari að reynslu en líklega ekki að fé eftir nokkur eindæma léleg síldarár.

63

Árið 1953 fékk Þóroddur Guðmundsson stöðina leigða til tveggja ára. Var leigusamningurinn framlengdur ár frá ári til 1957 er Þóroddur fékk stöðina keypta (9). Saltaði hann þar samfleytt til 1963.

Stöðin er ekki skráð með söltun 1964 en með fáeinar tunnur 1965 og 1966. Hinn 5. júní 1967 var hún slegin hafnarsjóði á nauðungaruppboði og var ekki söltuð þar síld eftir það.

Tilvísanir

1. Þmb. Litra B. 2 og 3.

2. Erlingur Davíðsson. Aldnir hafa orðið, 19. bindi, bls. 45–87.

3. Þmb. Litra E 367 og 368.

4. Þmb. Litra G 554.

5 Neisti 7. sept. 1939.

6. Munnleg heimild. Viðtal Sigurpáls Vilhjálmssonar við Einar Malmquist, bréf í vörslu höfundar.

7. Þmb. Litra G 552.

8. Sama heimild og nr. 3.

9. Þmb. Litra Q II 103.

Heimildarmaður

Einar Malmquist; útdráttur úr viðtali Sigurpáls Vilhjálmssonar á Akureyri við hann 1990; bréf í vörslu höfundar

64

20. Friðrik og Einar Einarssynir / Kallastöð

Hinn 9. maí 1911 leigði Helgi Guðmundsson læknir í Höfn bræðrunum Einari og Friðrik Einarssyni á Oddeyri lóð í Hafnarlandi. Að norðan lá þessi lóð að lóð Jóns Jóhannessonar og Guðmundar Sigurðssonar, sem Indíana Tynes eignaðist síðar og eftirlét Einari Malmquist, syni Einars Einarssonar, en að sunnan lá hún að lóð Snorra Jónssonar. Breidd hennar með sjónum var rúmir 28 m. Hún náði frá fjöru að vegi uppi á bakkanum (1).

Á þessari lóð komu þeir Einar og Friðrik upp útgerðarstöð fyrir þorskveiðar. Rekstur hennar og samliggjandi stöðva undir Hafnarbökkum, þar sem Einar Malmquist, Anton Jónsson, Snorri Jónsson, Ingvar og Gunnlaugur Guðjónssynir, Skafti Sigurðsson frá Staðarhóli, seinna búsettur í Hrísey, Skafti Stefánsson frá Nöf við Hofsós og ýmsir fleiri höfðu aðstöðu um lengri eða skemmri tíma, var með líku sniði. Þetta voru bækistöðvar fyrir báta sem aðallega voru gerðir út á línu- og færaveiðar og máttu vegna þrengsla og aðgrynnis helst ekki vera stærri en 20–30 smálestir. Útgerðarmennirnir voru flestir Eyfirðingar og höfðu með sér ýmiskonar samvinnu.

Lóð þessi og söltunarstöð sú er bræðurnir komu upp á henni var í eigu þeirra og barna þeirra til 1940 er Óskar Halldórsson keypti hana (2). Þeir fengust eitthvað við síldarsöltun, en glögg vitneskja um hana hefur ekki fundist. Síðustu árin sem þessi útgerðarstöð var starfrækt sá Karl sonur Friðriks Friðrikssonar um reksturinn og var hún þá oftast nefnd Kallastöð í daglegu tali á Siglufirði.

Erfingjar Friðriks Einarssonar afsöluðu 20. des. 1940 síldarstöð sinni á lóðinni Snorragötu 1 undir Hafnarbökkum til Óskars Halldórssonar útgerðarmanns (3). Þar stóðu þá enn uppi bryggjur og hús. Óskar virðist þó hafa verið búinn að fá þar einhver ítök áður, því í júní 1940 fékk hann leyfi til að flytja þangað skúr af stöð sinni í Bakka. Þegar kaupin voru gerð voru á lóðinni tvær bryggjur, önnur lítil en hin lengri, plan, þrjú hús og skúr.

Ekki eru heimildir um að Óskar hafi saltað síld þarna. Hins vegar setti hann þar á laggirnar lýsisbræðslu með venjulegum bræðslupottum og dúkapressu. Lét hann safna þangað lifur frá bátum en einnig síldarúrgangi frá söltunarstöðvum og jafnvel síld af bátum. Nefndi hann bræðslustöð þessa í gamni Skjónu, til samræmis við nöfn verksmiðjanna Gránu og Rauðku. – Pressukökurnar seldi hann Síldarverksmiðjum ríkisins og reyndust þær ágæt íblöndun þegar illa gekk að vinna lélegt hráefni (4).

Þessi starfsemi var rekin á stöðinni í eitt eða tvö sumur. Bræðslutækin voru síðan flutt niður á stöð Ásgeirs Péturssonar þegar Óskar keypti hana 1942 og notuð til lifrarbræðslu í fáein ár, en ekki er vitað til að þar hafi verið reynt að bræða síld eða síldarúrgang.

Engin starfsemi var á Kallastöðinni eftir að Óskar hætti við að starfrækja hana og mannvirki þar urðu fljótlega eyðingaröflum að bráð. Tveir steyptir prammar sem Óskar hafði keypt í Bretlandi lágu fram af lóðinni á annan áratug.

Hinn 21. maí 1964 afsöluðu erfingjar Óskars eignarréttinum til Hafnarsjóðs Siglufjarðar (5).

Tilvísanir

1. Þmb. Litra M. 601

2. Þmb. Litra K 173 og 174 B.

3. Þmb. Litra K 173 og 174 B.

4. Munnleg heimild. Sigurður Gíslason.

5. Þmb. Litra U II 153.

65

21. Snorrastöð/Antonsstöð

Snorri Jónsson kaupmaður á Oddeyri fékk í júní 1909 leigða lóð í Hafnarlandi, um 38 metra til norðurs frá lóð Eliasar Roalds (1). Hann kom þar upp útgerðarstöð og hafði síðan allmikil umsvif á Siglufirði í tæpan áratug, gerði út skip og rak fiskverkun, síldarsöltun og verslun. Eftir lát hans 1918 tók Rögnvaldur sonur hans við rekstrinum. Árin upp úr 1920 urðu íslenskum útgerðarmönnum mjög sviptingasöm. Hinn 10. mars 1928 var stöðin seld útibúi Íslandsbanka á Akureyri á nauðungaruppboði (2).

Rúmum þrem vikum seinna seldi bankinn hana aftur. Kaupendur voru Anton Jónsson og Gunnlaugur Guðjónsson á Akureyri (3) sem báðir höfðu fengist við útgerð frá Siglufirði um árabil án þess að eignast þar fasta bækistöð. Árið 1930 var byggður allstór brakki á stöðinni. Þar var þá 150 fermetra bryggja og 900 fermetra söltunarpallur (4).

Anton Jónsson varð gjaldþrota 1931. Um haustið afsalaði bæjarfógetinn á Akureyri Ingvari Guðjónssyni Hafnargötu 1 og 3, hlut Antons í söltunarstöðinni (5).

Í febrúar 1932 keypti Ingvar hlut Gunnlaugs bróður síns í stöðinni og átti hana einn næstu tvö ár (6). En vorið 1934 seldi hann Hafnarsjóði Siglufjarðar suðurhelming lóðarinnar með öllum mannvirkjum sem þar voru (7). Norðurhlutann seldi hann árið 1936 fyrirtækinu Antoni Jónssyni & Co, skrásettu á Siglufirði (8). Var suðurhlutinn eftir þetta nefndur Ingvarsstöð en norðurhlutinn Antonsstöð.

Ekki eru heimildir um hvenær Anton Jónsson hóf rekstur á Siglufirði, en 1918 var lagt þar á hann allhátt útsvar. Skrár fyrir árin 1916 og 1917 hafa ekki fundist, en 1915 var hann ekki á útsvarsskrá þar. Hann virðist hafa haft útgerðaraðstöðu á sjávarlóðum Einars og Friðriks Einarssona og Snorra Jónssonar um alllangt skeið áður en hann keypti stöðina. Árið 1919 og næstu ár fékk hann nokkrum sinnum leyfi til bygginga eða breytinga á húsum á eða við þessar lóðir. En ekki er ljóst hvernig þessir menn skipuðu málum sín á milli.

Fram kemur af ýmsum heimildum að Anton rak síldarútgerð og síldarsöltun á Snorrastöð, auk þorskútgerðar og fiskverkunar. Þá er heimild um að Halldór Guðmundsson frá Böðvarshólum saltaði á suðurhluta stöðvarinnar sumarið 1925 (9). Halldór saltaði undir Hafnarbökkum flest eða öll árin 1922–1927 (10). Líklegt er að það hafi verið á þessari stöð. En bæði um það og um rekstur Snorra og Antons á stöðinni vantar glöggar heimildir.

Þess var áður getið að á árunum 1934 og 1936 seldi Ingvar Guðjónsson stöðina í tvennu lagi. Var suðurhlutinn, sem Ingvar hélt eftir við söluna 1934, kenndur við hann áfram og kallaður Ingvarsstöð, en norðurhlutinn, sem Anton Jónsson & Co. keypti, nefndur Antonsstöð.

Þessir tveir hlutar gömlu Snorrastöðvarinnar, sem hér eftir verða nefndir Antonsstöð og Ingvarsstöð, voru flest eða öll árin 1934–1949 í leigu. Sumir leigutakanna komu lítið eða ekkert annað við sögu á Siglufirði og fáar heimildir eru tiltækar um rekstur þeirra.

Antonsstöð

Norðurhluti gömlu Snorrastöðvarinnar sem Anton Jónsson & Co keypti af Ingvari Guðjónssyni 1936, var sleginn skuldaskilasjóði vélbátaeigenda á nauðungaruppboði 20. mars 1939 (11). Mánuði seinna keypti Hafnarsjóður Siglufjarðar eignina (12). Nafnið Antonsstöð hélst þó áfram á þessum eignarhluta.

66

Árin 1935 og 1936 hafði félag sem bar nafnið Samvinnufélag Siglfirðinga söltunaraðstöðu á Antonsstöð. Það saltaði síðan að minnsta kosti eitt ár á Henriksensstöð. Helsti forustumaður þessa félags sem heimildir eru um var Kristján Kjartansson, stundum kenndur við veitingastofuna Brúarfoss. Karl Jónsson frá Sandgerði var í einhverskonar samvinnu við það í að minnsta kosti eitt sumar.

Óskar Halldórsson hafði lítil umsvif á Siglufirði fyrstu árin eftir að hann missti Bakkastöðina 1933 og kom þar sjaldan næstu 2–3 ár. Hann var þó ekki alveg af baki dottinn hvað síldarsöltun þar áhrærir og fékk Samvinnufélagið til að salta fyrir sig af viðskiptaskipum sínum gegn ákveðnu gjaldi á tunnu. Örugg heimild er um að félagið saltaði fyrir hann 1936 (13), en ekki er vitað með vissu hvort það saltaði fyrir hann fleiri sumur.

Björn Gottskálksson hefur líklega haft Antonsstöð 1938, en saltaði næstu ár á Ingvarsstöð. Árið 1939 fékk Karl Jónsson stöðina (14) og kann að hafa saltað þar líka 1940. Karl var sem fyrr segir frá Sandgerði og fékkst nokkur ár við síldarsöltun á Norðurlandi. Eftir 1940 virðist stöðin ekki hafa verið leigð til söltunar í nokkur ár, en einhverri aðstöðu fyrir smábáta var komið þar upp, m.a. beitningarplássi í brakka stöðvarinnar. Einnig var íbúðarhúsnæði í honum lagfært og leigt út.

Gunnar Jósefsson fékk Antonsstöð leigða undir bátaviðgerðir í eitt ár, 1945–1946.

Skafti Stefánsson fékk stöðina leigða sumurin 1946 og 1947, að undanskildum brakkanum. Árið 1948 fékk hann samning um leigu allt árið og hafði stöðina eftir það óslitið til loka söltunar 1968. Árið 1949 var samningurinn bundinn skilyrði um að útvega Rauðku viðskiptaskip og selja henni söltunarúrgang af stöðinni.

Brakkinn og aðgengi að honum var undanskilið í samningnum við Skafta. Haraldur Böðvarsson & Co. fékk þar húsnæði fyrir söltunarstúlkur meðan það fyrirtæki saltaði á hafnarbryggjunni.

Ingvarsstöð

Steinþór Guðmundsson skólastjóri á Akureyri og stjórnarmaður í Síldareinkasölunni fékkst um skeið á kreppuárunum við síldarsöltun á Siglufirði. Óglöggar heimildir eru um að hann hafi haft söltunaraðstöðu á Ingvarsstöð sumurin 1935–1937, fyrsta sumarið a.m.k. í félagi við mann að nafni Ferdinand Jóhannsson, sem oft bregður fyrir í heimildum um síldarsöltun á Siglufirði á árunum milli heimsstyrjaldanna, en hefur víst aldrei komist í hóp þeirra heppnu. Víst er að Steinþór hafði söltunaraðstöðu á Malmquiststöð og annarri stöð stutt frá henni árið 1937.

Sigfús Baldvinsson saltaði á stöðinni 1938. Anton Ásgrímsson frá Akureyri virðist þá hafa haft einhver ítök þar líka en ekki er ljóst hvort um félagssöltun var að ræða. Björn Gottskálksson hafði stöðina 1939–1941 og Friðrik Guðjónsson 1942. Árið 1944 var samþykkt umsókn Hannesar Guðmundssonar lögfræðings um fimm ára leigu á stöðinni fyrir Netagerð Siglufjarðar hf., en fyrirtækið hefur líklega ekki starfað þar nema þrjú ár. Forustumenn þess voru Hannes, Jón Kjartansson síðar bæjarstjóri og Björn Benediktsson netagerðarmeistari. Hluti af brakka stöðvarinnar var 1945 tekinn undir geymslu fyrir ýmis bæjarfyrirtæki. Útgerðarfélagið Skjöldur hf. fékk þar síðar húsrými.

Árið 1949 fékk Skafti Stefánsson stöðina leigða. Eftir það hafði söltunarstöðin Nöf, sem hann og Einar Guðfinnsson í Bolungarvík ráku saman, umráð yfir henni til loka síldarsöltunar á Siglufirði.

Tilvísanir

1. Ls. 66 st. Þmb. Litra N 66.

2. Þmb. Litra S. 108.

3. Þmb. Litra S 109.

67

4. Brunabótamat Siglufjarðar 1925–1931, skírt nr. 440 og 441.

5. Þmb. Litra A 499.

6. Þmb. Litra B 13 og 334.

7. Þmb. Litra R 334.

8. Þmb. Litra E 139.

9. Munnleg heimild. Björn Þórðarson.

10. Munnleg heimild. Sigurlaug Davíðsdóttir.

11. Þmb. Litra F. 234.

12. Þmb. Litra F. 235.

13. Munnleg heimild. Sigurður Gíslason verkstjóri, Akranesi

14. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 10. apr. 1939.

68

Haustið 1906 tók Ole Tynes fyrir hönd móðurbróður síns, Olavs Roalds bygginga- vörukaupmanns í Álasundi, á leigu stóra lóð undir Hafnarbökkum á Siglufirði (1). Bendik Mannes skipstjóri og Jóhann Vigfússon höfðu áður fengið lóðaréttindi á þessu svæði, Jóhann 1903 og Mannes sama ár eða fyrr (2), en báðir sagt samningunum upp eftir nánari athugun. Mannes tilgreindi aðgrynni sem ástæðu (3).

Sumarið 1907 byggði Tynes þarna fram af fjöruborðinu upp við bakkann söltunarpall, eina löndunarbryggju og stórt timburhús.Var húsið vígt á Jónsmessu um sumarið með miklum gleðskap. Síðar var bætt við þrem löndunarbryggjum og fleiri húsum. Þetta hús, Roaldsbrakkinn, síðar oft nefnt Ísfirðingabrakki, var árið 1990 flutt á grunn lítið eitt sunnan við upphaflegan stað og er nú kjarnabygging í síldarminja- og byggðasafni á Siglufirði.

Skriflegur samningur Tynesar um leigutökuna hefur ekki fundist, en til er þinglesinn lóðarsamningur sem Elias Roald undirritaði ásamt Hafnarbændum 9. júní 1909 (4) Þetta var stór lóð, tæpir 190 m með fjöru og náði frá sjó að veginum uppi á bakkanum, síðar Hafnargötu. Fyrsta síldin, reknetasíld af norsku skipi, var söltuð á stöðinni 19. ágúst 1907 (5).

Olav Roald varð gjaldþrota skömmu eftir að söltunarstöðin var byggð. Sonur hans, Elias, fékk þá eignarhald á henni. Raunar stóðu fleiri af ættinni að rekstri hennar, því auk þessara tveggja feðga komu þar við sögu Jacob, Knud, Konrad og Severin Roald, lengst Knud og Elias en Severin mest í lokin.

Mikið var saltað á þessari stöð, t.d. um 30 þúsund tunnur sumarið 1916. Viðhald og umhirða þar, bæði úti og inni, þótti lengi til fyrirmyndar. Stöðin hefur efalítið verið sú stærsta á Siglufirði áður en henni var skipt, með fjórum löndunarbryggjum, góðum húsakosti og tveim þróm fyrir síldarúrgang, við syðstu og nyrstu löndunarbryggjurnar (6).

Árið 1922 lenti útgerðarfyrirtæki Roalds í Álasundi, Aalesunds Fiskeriselskab a/s, í miklum fjárhagsþrengingum sem lauk með gjaldþroti (7). Hinn 12. des. sama ár seldi það þrem einstaklingum, Ludvig og Morten Flatmark og Severin Roald, eignir sínar á Siglufirði (8), líklega til að skjóta þeim undan uppboðshamrinum. Einn þeirra þriggja er skrifuðu undir samninginn fyrir hönd félagsins sem seljanda hét sem sé Severin Roald, vafalítið sá sami og skrifaði undir sem kaupandi. Flatmarkarnir virðast hafa verið nátengdir fyrirtækinu. Bendir flest til þess að þetta hafi aðeins verið málamyndasala.

Eftir þetta dró smám saman úr rekstri Roaldanna á Siglufirði. Árið 1925 fólst hann einungis í eftirliti og viðhaldi eigna, sölu á tunnum og salti og umboðsverslun með síld (9). Sumarið 1926 saltaði Severin þó á syðstu bryggjunni og hefur ef til vill líka saltað þar 1927.

Í ágústmánuði 1927 seldu og afsöluðu Morten og Ludvig Flatmark sínum hluta í eigninni til Severins Roalds (10). Hófst þá lokakaflinn í sögu Roaldsættarinnar á Siglufirði, sem fólst í því að Severin seldi allar eignirnar á árunum 1927 og 1928.

Skafti Stefánsson og Söltunarstöðin Nöf

Skafti Stefánsson frá Nöf við Hofsós fluttist 1918 ásamt fjölskyldu sinni til Siglufjarðar. Þar stundaði hann sjóinn, skipstjórn og útgerð; var meira og minna á sjó fram til 1949. Rekstur hans var með líku sniði og hjá eyfirsku útvegsmönnunum sem áður hafa verið nefndir, Snorra Jónssyni, Ingvari Guðjónssyni, Antoni Jónssyni, Friðrik og Einari Einarssyni og fleirum þ.e. útgerð fiskibáta og söltun

69
22. Roaldsstöð

aflans, hvort sem um var að ræða þorsk eða síld, en lítið um síldarkaup í fyrstu. Skafti saltaði fyrst síld 1918 eða 1919, reknetasíld af útgerð fjölskyldunnar. Eftir það saltaði hann síld af og til.

Skafti átti 1919 skúr og bryggju á lóð Einars og Friðriks Einarssona, en 1922 var hann búinn að byggja skúr nyrst á Roaldslóð og þrem árum seinna íbúðarhús (11).

Hinn 6. okt. 1927 seldi Severin Roald Skafta ræmu norðan af lóðinni, 9,6 metra breiða efst en 14 metra niðri á eyrinni (12). Þrem vikum síðar gerði Skafti skriflegan lóðarsamning við Helga Guðmundsson í Höfn (13)

Eins og fyrr segir batt Skafti síldverkun sína framan af aðallega við eigin útgerð. Líklegt er að hann hafi byggt þarna bryggju 1927 og að söltun hans næstu ár hafi farið fram á stöðinni. Um það hefur ekki fengist yfirlit.

Árið 1934 lét Skafti Stefánsson breikka og lengja bryggju sína á Roaldslóð og leigði hana Sigfúsi Baldvinssyni frá Akureyri. Sigfús saltaði þarna fram að heimsstyrjöld, alls sex sumur (14), síðast 1939, en hafði oftast aðra bryggju með (15).

Eftir stríðið hóf Skafti söltun í stórum stíl í félagi við Einar Guðfinnsson í Bolungarvík. Einar fékk sumarið 1946 leigða nót og nótabát hjá Skafta. Báturinn sem fékk þetta, Bangsi, aflaði vel og lagði mikið af aflanum upp hjá Skafta (16). Sumarið eftir hófu þeir Skafti og Einar söltun í helmingafélagi.

Skafti lagði til söltunarstöðina með öllum búnaði en Einar bátana og útgerð þeirra. Guðfinnur Einarsson sá um reksturinn á Siglufirði af Einars hálfu, m.a. öll síldarkaup, hvort sem keypt var af Bolungarvíkurbátum eða öðrum. Skafti sá um söltunina.

Lóð Skafta var lítil og þröng. Sumurin 1946 og 1947 fékk hann Antonsstöð, að undanskildum bragganum, leigða yfir söltunartímann, en 1948 allt árið og hafði þá líka Malmquiststöð undir. Árið 1949 fékk hann Ingvarsstöð leigða og sleppti þá Malmquist-stöð. Hafði hann síðan báðar stöðvarnar, þ.e. alla gömlu Snorrastöðina, sem lá norðan að hans stöð, leigðar til 1968.

Nöf var á þessu tímabili ýmist hæsta söltunarstöðin á Siglufirði eða með þeim hæstu, og væri tekið meðaltal áranna sem hún starfaði eftir að félagsskapur Skafta og Einars hófst og þar til síldin hvarf af Norðurlandsmiðum, upp úr 1960, var hún að meðaltali hæst með söltun (17).

Þegar síldin fór að halda sig meira á austurmiðum byrjaði Einar að salta á Raufarhöfn í félagi við Hólmstein Helgason. Árið 1961 keypti hann lóð undir söltunarstöð á Seyðisfirði og saltaði þar mikið í tvö ár, en seldi þá SR lóðina (18).

Ræman norðan af Roaldslóðinni sem Skafti fékk 1927 var í eigu hans í hálfa öld. Hann seldi Hafnarsjóði Siglufjarðar stöðina ásamt lóðarréttindum sínum í árslok 1977 (19).

Jón Loftsson

Hinn 11. sept. 1928 seldi Severin Roald Guðmundi Skarphéðinssyni, Siglufirði, Jóni S. Loftssyni stórkaupmanni, Reykjavík og Páli Friðfinnssyni útgerðarmanni á Dalvík eignina nr. 5 A við Hafnargötu, ásamt lóðarréttindum (20). Þetta var sneið norðarlega á Roaldsplaninu, norðurmörkin við stöð Skafta Stefánssonar en suðurmörkin mitt á milli tveggja nyrstu bryggjanna á Roaldsstöðinni.

Ekki eru glöggar heimildir um alla sem söltuðu þarna á árunum 1929–1936. Jón Loftsson rak síldarsöltun á Siglufirði 1923–1930 (21). Annar úr eigendahópnum, Páll Friðfinnsson, er talinn hafa saltað þarna áður en KEA fékk stöðina 1936. Vera má að eigendurnir hafi saltað í félagi. Í skýrslu Síldareinkasölunnar er hann talinn með 200 tunna söltun 1930.

70

Njarðarstöðin

Þegar Kaupfélag Eyfirðinga ákvað vorið 1936 að endurbyggja ekki söltunarbryggjurnar í Bakka fékk það leigðan þann hluta Roaldsstöðvar sem Jón Loftsson og fleiri höfðu keypt 1928 og saltaði þar um sumarið. Um söltunina 1936 sáu Sigfús Baldvinsson og Sigurður Gíslason, sem verið hafði verkstjóri í Bakka síðan 1930, fyrst hjá Óskari og síðan hjá KEA. Vorið 1937 keypti félagið þessa stöð, sem lá að lóðarmörkum Nafar að norðan en suðurmörkin voru mitt á milli tveggja nyrstu löndunarbryggjanna á Roaldsstöð. Hún var endurbætt allmikið 1938, söltunarpallar stækkaðir og bryggjur lengdar.

Um haustið var stofnað nýtt dótturfélag KEA, hlutafélagið Njörður, til að annast alla síldarframleiðslu og síldarverslun á vegum kaupfélagsins. Stofnfundurinn var haldinn 30. nóvember á skrifstofu KEA á Akureyri. Hluthafar voru Útgerðarfélag KEA hf. með 20.000 kr.stofnframlag, kaupfélagið sjálft með 5.100 kr.og fjórir starfsmenn þess með 100 kr. hlut hver. Ákveðið var að félagið gengi inn í kaup KEA á stöðinni.

Framkvæmdastjóri félagsins til 1946 var Gunnar Larsen en eftir það Gísli Konráðsson. Söltunarstjórar eftir 1936 voru eftir því sem næst verður komist Stefán Franklín í tvö ár, Friðrik Friðriksson í sex ár og Jóhann Skagfjörð 1945–1965.

Tilgangurinn með stofnun Njarðar hf. var ekki einungis að salta síld, heldur einnig að bæta aðstöðu félagsmanna sem stunduðu útgerð, einkum smábátaeigenda, með útvegun á salti, tunnum, reknetum og fleiru, og taka af þeim síld til sölumeðferðar. Var þetta gert fram að stríðinu; þannig flutti félagið út um 37.500 tunnur síldar árið 1938.

Árið 1947 tók félagið upp það nýmæli að borga síldarseljendum helming hagnaðar í uppbót á hverja uppsaltaða tunnu. Var það gert í þrjú ár og varð hæst 1948, kr. 9,74 á tunnu. Lagðist þetta síðan niður, enda voru næstu ár léleg síldarár og afkoma söltunarstöðva slæm.

Njörður hf. átti stöðina til 1972, er henni var afsalað til Siglufjarðarkaupstaðar. Síðast flutti hún út síld 1965 (22).

Gísli J. Johnsen /Frystihús Ásgeirs Péturssonar / Ísfirðingaplanið

Haustið 1928 seldi Severin Roald Ástþóri Matthíassyni og Gísla J. Johnsen í Vestmanneyjum lóðirnar Hafnargötu 7 og 9. Þetta var sá hluti Roaldseignarinnar sem var sunnan við lóð Jóns Loftssonar og þeirra félaga (23).

Á þessum lóðarhluta var meginhluti Roaldsstöðvarinnar með þrem löndunarbryggjum og stórum söltunarpalli vestur að bakkanum. Heimildir eru um að Morten Ottesen saltaði á miðbryggjunum tveim 1926 og 1927. Þá er munnleg heimild um að hann hafi saltað þar 1931 (24). Í skýrslu Síldareinkasölunnar er hann talinn meðal saltenda 1929 og gæti þá hafa saltað þarna. – Þess skal þó getið, að ýmsir kunnugir draga í efa að Morten hafi saltað eftir 1927, og telja líklegra að hann hafi haft söluumboð fyrir síld eða haft einhverskonar umsjón með söltun fyrir aðra. Þá er vitað að Andreas Godtfredsen saltaði á stöðinni (25). Hann byrjaði að salta þar 1928 og var þar a.m.k. tvö næstu ár. Gísli og Ástþór söltuðu þar 1928 og 1929. Severin Roald var sem fyrr segir með söltun á syðstu bryggjunni 1926 og ef til vill lengur.

Hinn 25. mars 1931 var þessi hluti eignarinnar sleginn Útvegsbanka Íslands á nauðungaruppboði (26). Gísli var þá einn talinn eigandinn. Eftir þetta skiptist þessi hluti Roaldseignar í tvennt: Annar hluti hennar var frystihús sem Gísli hafði látið byggja á lóðinni, en var lengst af kennt við Ásgeir Pétursson. Útvegsbankinn seldi Ísbirninum hf. í Reykjavík þetta frystihús í júlí 1931 (27).

71

Ísbjörninn seldi það aftur Ásgeiri Péturssyni hf. í maí 1933 (28). Lóðarréttindi fylgdu húsinu, en voru ekki skilgreind í samningnum.

Hinn hlutinn var lóðarréttindin með öllum mannvirkjum og búnaði að frystihúsinu undanskildu. Þennan hluta keypti Samvinnufélag Ísfirðinga af Útvegsbankanum 20. jan. 1933. Í samningnum var ákvæði um að frystihúsið skyldi greiða 1/5 hluta lóðargjaldsins fyrir hina sameiginlegu lóð (29). Sérstakur lóðarsamningur fyrir húsið var síðan gerður 1943 milli umráðamanna Hafnar og Ásgeirs

Péturssonar & Co.

Þennan suðurhluta Roaldsstöðvar, sem eftir það var ýmist nefndur Samvinnufélagsplanið eða Ísfirðingaplanið, átti félagið til 1961, en seldi hann í lok þess árs nýju félagi, Síldarsöltun Ísfirðinga (30).

Verkstjóri á Ísfirðingaplaninu frá upphafi til loka söltunar þar var Kristján Sigurðsson, lengi bæjarfulltrúi á Siglufirði, en framkvæmdastjórar Samvinnufélagsins voru Finnur Jónsson alþingismaður og ráðherra til 1944, en síðan Birgir Finnsson, uns það hætti söltun. Framkvæmdastjóri Síldarsöltunarinnar var Marías Guðmundsson. Hafnarsjóður Siglufjarðar keypti eignina 5. júní 1978.

Eins og áður hefur verið getið hóf Samvinnufélagið síldarsöltun á Siglufirði 1932 með því að taka þessa stöð á leigu, en keypti hana árið eftir. Finnur Jónsson undirritaði samninginn fyrir hönd Samvinnufélagsins, en formaður þess var Eiríkur Einarsson (31).

Magnús Blöndal /Bein

Eftir gjaldþrot Roaldsfélagsins í Álasundi 1922 varð málavafstur út af eignum þess á Íslandi, meðal annars var Sophusi A. Blöndal verslunarstjóra á Siglufirði f. h. Sigfúsar Blöndals kaupmanns í Reykjavík með fógetagerð 15. des. 1925 úrskurðaður leiguréttur á 23,5 metra breiðri skák af Roaldslóð syðst. Magnús Blöndal er talinn meðal saltenda á Siglufirði 1929 (32). Líklegt er að það hafi verið Magnús útgerðarmaður og alþingismaður, faðir Sigfúsar, aðaleigandi og stjórnandi útgerðarfélagsins Sleipnis.

Árið 1929 fékk nýstofnað hlutafélag útgerðarmanna sem gerðu út á þorsk frá Siglufirði, Fiskimjölsverksmiðja Siglufjarðar hf., lóðarsamning um þessa spildu undir verksmiðju, sem lengst af gekk undir nafninu Bein, til bræðslu á fiskúrgangi. Rekstri hennar lauk með gjaldþroti 1933.

Tilvísanir

1. Endurminningar Ole Tynes.

2. Þmb. Litra K. 176.

3. Endurminningar Ole Tynes.

4. Þmb. Litra M. 104.

5. Endurminningar Ole Tynes.

6. Munnleg heimild. Björn Þórðarson.

7 Hovland, Kari Shetelig. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 136.

8 Þmb. Litra R 11 og Litra S 43.

9. Niðurjöfnunarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 11. Jan. 1926.

10. Þmb. Litra S 43 og 44. Ennfr. Yb. 1926 bls. 7–10.

11. Munnleg heimild. Björn Þórðarson.

12. Ls. 50 st. Þmb. Litra S. 77 og Litra R 481–482.

13. Sömu heimildir.

14. Munnleg heimild. Snorri Sigfússon

15. Fundargerðir hafnarnefndar Siglufjarðar frá umræddu tímabili.

72

16. Ásgeir Jakobsson. Einars saga Guðfinnssonar, bls.280.

17. Ásgeir Jakobsson. Einars saga Guðfinnssonar, bls 295.

18. Ásgeir Jakobsson. Einars saga Guðfinnssonar, bls. 295.

19. Þmb. Litra F I 120.

20. Þmb. Litra T. 2 og Litra E 409–413.

21 Íslenzkar æviskrár A–Ö bls. 284–285. Skýrsla Síldareinkasölu Íslands.

22. Aðalheimildir kaflans um Njarðarstöðina eru samantekt Gísla Konráðssonar forstjóra um síldarsöltun á vegum KEA, í bréfi til höfundar, Saga Kaupfélags Eyfirðinga 1886–1986 eftir Hjört Þórarinsson, skýrslur Síldarútvegsnefndar og viðtöl við Sigurð Gíslason, Akranesi og Snorra Sigfússon, Akureyri.

23. Þmb. Litra S. 164.

24. Munnleg heimild. Björn Þórðarson.

25. Munnleg heimild. Kristján Sigurðsson.

26. Þmb. Litra A 419.

27. Þmb. Litra A 446.

28. Þmb. Litra F. 492.

29 Þmb. Litra B. 116 og 117.

30. Þmb. Litra T II 40.

31 Siglfirðingur 28. maí 1932. Jón Þ. Þór, 4. bindi bls. 150.

32. Skýrsla Síldareinkasölu Íslands.

73

23. Ásgeirsstöð undir Hafnarbökkum/Syðsta stöðin

Í júní 1912 fékk Ludvig Möller á Hjalteyri lóð úr Hafnarlandi sunnan við Roaldslóð, um 30 metra með sjó og náði upp að veginum uppi á bakkanum (1). Ludvig seldi Ásgeiri Péturssyni kaupmanni á Akureyri þessa eign í janúar 1913 (2). Þá var komið á lóðina hús með viðbyggðum skúr, bryggja og pallur. Haustið 1928 seldi Ásgeir nýju fyrirtæki sínu, Ásgeiri Péturssyni hf., stöðina með öllum mannvirkjum og þeim lóðarviðbótum sem hann hafði fengið eftir gerð upphaflegs lóðarsamnings (3). Lóðarviðbæturnar sem átt er við hefur líklega verið svonefnd Hafnarstöð, 19 m breið spilda milli Möllerslóðar og Anleggslóðar, sem Ásgeir fékk 1928 eða skömmu áður (4). Samningur Ásgeirs og Hafnarbænda um Hafnarstöðina hefur ekki fundist, en í nóvember 1928 var virt til brunabóta fisktökuhús og brakki sem Ásgeir átti á Hafnarstöð. Í húsinu var beitningarpláss og fiskgeymsla (5). Hafnarstöðin var í fyrstu uppsátur fyrir fiskibáta og síðan var komið þar upp ýmiskonar aðstöðu fyrir þá. Líklega hefur síldarsöltun aldrei farið fram á þessum hluta Ásgeirsstöðvarinnar en hún hefur verið til hagræðis sem geymslusvæði fyrir síld, auk þess sem aðstaðan fyrir fiskibáta hefur eflaust verið nýtt. Fram af stöðinni byggði Ásgeir geysilanga bryggju með stórum bryggjuhaus eða plani fremst og reisti þar hús sem flutt hafði verið vestan frá Ingólfsfirði. Litlar heimildir hafa fundist um rekstur Ásgeirsstöðvar undir Hafnarbökkum, enda var hún á þeim tíma sem hér um ræðir aðeins einn og ekki stór þáttur í umsvifamiklum rekstri Ásgeirs Péturssonar.

Ásgeirsstöðin svonefnda undir Hafnarbökkum var syðsta söltunarstöðin á Siglufirði, og var í daglegu tali þar oftast nefnd Syðsta stöðin. Hún var enn 1992 eign Ásgeirs Péturssonar hf., sem keypti hana af Ásgeiri Péturssyni 1928. Hlutabréf fyrirtækisins voru þó komin á aðrar hendur; eigendur þeirra 1992 voru Siglfirðingarnir Þórður Jónsson, Sigurður Fanndal og Birgir Steindórsson.

Í september 1929 gerði Helgi Guðmundsson í Höfn leigusamning við hlutafélagið „Bein“ um 23,5 metra breiðan lóðarskika norðan við lóð Ásgeirs Péturssonar hf. Þetta var syðsti hluti Roaldslóðarinnar. Samningsgerðin hefur líklega verið formsatriði til að koma málum fullkomlega á hreint að afstöðnu málaþrasi eftir gjaldþrot Roaldsfélagsins í Álasundi - Þeir sem undirskrifuðu samninginn af hálfu leigutaka voru Alfons Jónsson, Anton Jónsson og Jón Loftsson (6). Hinn síðasttaldi var einn þeirra sem keyptu suðurhluta Roaldslóðarinnar árið áður. Búið var að byggja verksmiðjuhús, palla og bryggju á lóðinni þegar gengið var formlega frá samningnum.

Útibú Landsbankans á Akureyri eignaðist verksmiðjuna ásamt lóðarréttindunum á nauðungaruppboði haustið 1933 (7). Landsbankinn seldi Agli Ragnars eignina 1935 (8) en hann aftur Ásgeiri Péturssyni hf. 1938 (9).

Ásgeir Pétursson hf. rak síldarsöltun á stöðinni að því er virðist óslitið til 1939. Ekki er ljóst hvort fyrirtækið saltaði þar 1940, en á stríðsárunum var lítið eða ekkert saltað á stöðinni. Árið 1949 er Ásgeir Pétursson hf. enn skráður saltandi þar, óvíst er um árið 1950 en 1951–1955 saltaði Síldin sf á stöðinni. Forustumenn þess félags voru Björn Björnsson skipstjóri á Siglufirði og Sveinbjörn Einarsson útgerðarmaður í Reykjavík. Árið 1956 saltaði Ísafold sf þar, en 1957 söltuðu Ólafur Óskarsson og Jón Ásgeirsson þar af skipum Haraldar Böðvarssonar hf. og að einhverju leyti í samstarfi við það fyrirtæki. Sumurin 1958 og 1959 hafði Ólafur Óskarsson stöðina og hafði þá enn eitthvert samstarf við Harald, en saltaði þar síðan einn til 1963. Ásgeir Pétursson hf. saltaði 167 tunnur á stöðinni árið 1982, 189 tunnur 1983 og 391 tunnu 1984. Hafa það líklega verið síðustu síldarsaltanir á Siglufirði.

74

Tilvísanir

1. Þmb. Litra N. 376.

2. Þmb. Litra N 375.

3. Þmb. Litra A 27.

4. Munnleg heimild. Kristján Sigurðsson.

5. Brunabótamat Siglufjarðar 1916–1933, skírteini nr. 379 og 380.

6. Þmb. Litra A. 158.

7. Þmb. Litra B. 235.

8. Þmb. Litra C. 186.

9. Þmb. Litra F 108.

Aðrar heimildir:

Siglfirsk blöð.

Söltunarskýrslur Síldarútvegsnefndar.

Viðtal við Ólaf Óskarsson.

Bréf frá Jóni Ásgeirssyni í vörslu höfundar.

75

24. Anleggið (Timburhólminn)

Einn þeirra sem á árunum 1912–1916 sóttust eftir leyfum til að byggja söltunarbryggjur á grynningunum innst í Siglufirði var Ole Tynes Árið 1915 samdi hann við Hafnarbændur um leigu á stórri lóð rétt utan við marbakkann (1) og 1916 fékk hann samþykki hreppsyfirvalda til framkvæmda þar, sem raunar voru nokkuð á veg komnar, því þá var risinn þarna söltunarpallur með timburskúr og ein bryggja.(2). Á þessum timburhólma, sem venjulega var kallaður Anleggið á norska vísu, var fyrst saltað sumarið 1916.

Norðurmörk lóðarinnar,sem náði upp á land að vestan, voru um 19 metra sunnan við lóð Ásgeirs Péturssonar og breidd þaðan til suðurs um 114 m, en lengd til austurs um 340 m. Á spildunni milli lóðanna var svonefnd Hafnarstöð, aðstaða fyrir fiskibáta, kennd við býlið Höfn.

Hafnarnefnd stóð um þetta leyti í deilu út af yfirráðarétti yfir hafnarmannvirkjum fram af Hafnarlandi. Henni lauk í júní 1917 með því að hreppurinn keypti hið umdeilda svæði á 18 þús. kr. en Tynes keypti síðan 6. desember sama ár af hreppnum á 18 þús. kr. lóðina sem hann hafði áður fengið leigða hjá Hafnarbændum. Hann afsalaði lóðarréttindunum samdægurs til „Siglufjords Sildesalteri & Anlægs Co.“, Aalesund (3) Við fasteignamat 1919 var lóðin talin 38 þúsund fermetrar og stærð timburpallanna um 1700 fermetrar.

Tynes virðist hafa verið helsti ráðamaður félagsins og var forstjóri þess, en síðar komu Norðmennirnir Severin Roald, Morten Fladmark og Evangerbræður eitthvað við mál þess. Óljóst var um árabil hver væri eigandi mannvirkja á Anleggslóðinni. Árið 1927 krafði niðurjöfnunarnefnd mann að

nafni Hjálmar Tryggvason, sem lengi starfaði á vegum Evangersbræðra og stóð fyrir síldarsöltun á Anlegginu, upplýsinga um eignarhaldið. Svaraði hann því einu til að hann væri leigutaki þar, en ekki eigandi, og fengust engin tæmandi svör um eigendurna. Taldi nefndin þá sennilegast að Gustav Evanger ætti stöðina, þó ekki væru um það ótvíræðar heimildir (4). Árið eftir samþykkti nefndin að leggja 1000 kr. útsvar á nýjan gjaldanda sem í útsvarsskránni bæri heitið Eigandi Anleggsins, til að knýja fram upplýsingar um eigandann (5). Alfons Jónsson kærði útsvarið, en kæran var ekki tekin til greina. Ekki sést á bókunum niðurjöfnunarnefndar að hún hafi orðið fróðari um eignarhaldið að þessu sinni. Ekki er ljóst hverskonar laumuspil var hér á ferðinni.

Framkvæmdirnar sem byrjuðu á lóðinni 1916 stöðvuðust fljótlega vegna erfiðleika við efnisútvegun á styrjaldarárunum. Þær hófust á ný sumarið 1919. Fékk Tynes þá sanddælu, hina fyrstu sem kom til Siglufjarðar, til að dýpka við bryggjurnar. Í viðtali við Fram 13. september um haustið lýsti hann áformum sem uppi væru um að byggja þarna við marbakkann um 400 metra langan bryggjukant og 20 bryggjur norður frá honum, þannig að 40 skip gætu legið þar við bryggjukanta í einu. Að framkvæmdum loknum væri ætlunin að reka þarna síldarsöltun, síldarbræðslu og fleira. Ennfremur skyldi komið þar upp stöð fyrir selveiðiskip, gætu þau lagt þar á land skinn og spik er þau hættu veiðum í júlí. Þyrftu þau þá ekki til Noregs, heldur gætu búið sig þarna út til síldveiða. – Áður hafði hann látið uppi fyrirætlun um að koma upp lítilli dráttarbraut á svæðinu þar sem selveiðskip gætu fengið nauðsynlega þjónustu þegar þau kæmu úr Íshafinu (6).

Markaðshrunið haustið 1919 truflaði þessa framkvæmdadrauma. Siglufjords Sildesalteri & Anlægs Co. og Tynes áttu í miklum fjárhagsþrengingum (7) næstu ár. Þó virðist hafa verið haldið áfram að auka við mannvirkin. Við fasteignamatsgerð 1919 voru trépallarnir taldir um 1700 fermetrar og á þeim einn timburskúr, en við brunabótamat 1931 töldust þeir 2450 fermetrar og á þeim þrjú timburhús, þar af tvö til íbúðar, samtals 813 fermetrar. Sumarið 1929 var byggður landgangur

76

úr tré. Var hann tengdur við langa bryggju sem Ásgeir Pétursson var þá nýbúinn að byggja fram úr áðurnefndri Hafnarstöð. Gustav Evanger virðist hafa séð um byggingu landgangsins.

Tynes reyndist 1929 vera eigandi mannvirkja á lóð Anleggsins og afsalaði þeim 10. júlí það ár til áðurnefnds „Interessentselskabet Siglufjords Sildesalteri og Anlægs Co.“(8) sem átt hafði lóðina síðan 1917. Sama dag seldi og afsalaði Aalesunds Kreditbank Hafnarsjóði Siglufjarðar eigninni fyrir 30 þús. kr. (9).

Þó Anleggið yrði aldrei sú stórkostlega útgerðarstöð sem Tynes dreymdi um og væri að ýmsu leyti óhentugt var það notað til síldarsöltunar á annan áratug. Heimildir eru um að eftirtaldir aðilar söltuðu þar:

• Halldór Guðmundsson frá Böðvarshólum saltaði þar fyrstur 1916 og tvö eða þrjú næstu sumur (10). Hann saltaði þar líka síðastur manna, um eða eftir 1940. – Halldór var Húnvetningur, lauk prófi frá Flensborgarskóla 1910, fór þá til Noregs, nam þar beykisiðn og fleira, kom heim 1915 og var þá um sumarið verkstjóri við síldarsöltun hjá Birni Líndal á Svalbarðseyri, hóf söltun á Siglufirði 1916 og fluttist þangað nokkrum árum seinna frá Hafnarfirði þar sem hann bjó fyrstu árin eftir Noregsdvölina. Hann saltaði síðast síld í Keflavík um eða eftir 1950.

• Evangerbræður höfðu umráð yfir Anlegginu 1923 (11). Þeir hafa sennilega saltað þar nokkur sumur milli 1920 og 1930.

• Hjálmar Tryggvason stóð fyrir söltun á Anlegginu 1926 og líklega 1927, trúlega sem fulltrúi fyrir Evangerbræður. Um sama leyti rak Gunnar Halldórsson, bróðir Péturs borgarstjóra í Reykjavík, söltun á stöðinni.

• Morten Ottesen og Ingvar Guðjónsson höfðu Anleggið á leigu 1929 (12). Söltunarfélag verkalýðsins á Akureyri saltaði þar 1930 (13). Þetta félag var stofnað á Akureyri 26. maí 1929 og hefur líklega starfað þrjú eða fjögur ár. Fyrstu stjórn þess skipuðu Steinþór Guðmundsson skólastjóri sem var formaður, Björn Grímsson ritari og Sigfús Baldvinsson gjaldkeri. Var hann einnig söltunarstjóri þess á Siglufirði. Það saltaði 1930 tæpar 8000 tunnur á Anlegginu og um 10.000 tunnur á Akureyri (14). Söltunarstjóri þar var Magnús Pétursson kennari.

• Sveinn Guðmundsson saltaði á Anlegginu 1931–1933 (15) og Kristján Ásgrímsson 1934–1936 (16). Sögusagnir eru um að Pétur Bóasson og Þorsteinn Pétursson hafi einhverntíma saltað þar, en heimildir um það hafa ekki fundist.

Eins og áður hefur komið fram var Anleggið svonefnda á Siglufirði byggt við brún marbakkans norðan við leirurnar innst í firðinum. Bakkinn færðist smám saman til norðurs vegna sandburðar og snemma komu upp hugmyndir um að byggja þar fyrirstöðu til að hefta framburðinn. Árið 1926 tók Gustav Evanger að sér að byggja plankaþil frá suðausturhorni Anleggsins til lands (17). Því verki virðist hafa lokið 1929. Árið 1933 var síðan ákveðið að gera grjótgarð frá Anlegginu til lands og var unnið að því öðru hverju í meira en áratug. Var hann orðinn um 290 metra langur 1944 (18). Voru þá hafnar umræður um fyrirstöðuþil við marbakkann og var slíkt þil rekið niður nokkrum árum seinna. Vorið 1938 var lögð vatnsleiðsla út á Anleggið og um haustið var leigjanda þess leyft að byggja landgang eftir grjótgarðinum.

77

Skemmdir á Anlegginu vegna sjógangs og hvassviðra voru tíðar. Haustið 1934 varð á því mikið tjón. Var þá samþykkt að láta byggja upp eystri bryggjurnar tvær en ekki þá vestustu (19). Samt var það í svo slæmu ástandi haustið 1937 að leigu þess var frestað.

Kristján Ásgrímsson saltaði á Anlegginu 1934–1936. Árið 1937 sótti norskur netagerðarmeistari, Tanke Hjemgaard, um að fá það til 10 ára fyrir starfsemi sína. Var snemma árs 1938 samið við hann um 9 ára leigu á vesturhluta þess. Árið eftir var auglýst þar aðstaða til síldarsöltunar. Fékk Halldór Guðmundsson hana og mun hafa saltað þar eitthvað næstu ár. Í blaðafrétt haustið 1943 er hann sagður hafa saltað 547 tunnur(20). Var það síðasta síldarsöltun þar.

En nú leið að því að sögu þessa sérstæða útgerðarmannvirkis lyki. Fyrirsjáanlegar voru dýrar viðhaldsaðgerðir ef gera ætti það leiguhæft til frambúðar. Haustið 1938 var Hjemgaard leyft að taka staura úr tveim bryggjum þess til viðgerðar á þeim hluta sem hann hafði umráð yfir. Á stríðsárunum 1939–1945 var skortur á timbri. Í júni 1943 var samþykkt að taka staura úr Anlegginu til viðgerða á öðrum bryggjum og í framhaldi af því var dönskum verktaka sem vann að hafnarframkvæmdum falið að taka hluta af því upp. Mánuði seinna var svo samþykkt að lána Skeiðsfossvirkjun brautarspor þess. Næstu ár var haldið áfram að selja úr því timbur.

Tanke Hjemgaard mun hafa orðið innlyksa í Noregi öll stríðsárin og haustið 1943 var leigusamningnum við hann sagt upp (21).

Kristján Kjartansson veitingasali í Brúarfossi virðist hafa verið trúnaðarmaður Hjemgaards og hefur líklega verið hluthafi í netastöðinni. Kom upp ágreiningur milli hans og hafnarnefndar vegna afskipta nefndarinnar af Anlegginu í fjarveru Hjemgaards, og 1950 höfðuðu Kristján og Hjemgaard mál gegn bæjaryfirvöldum vegna ráðstöfunar þeirra á stöðinni. Því lauk með sýknudómi undirréttar.

Anleggið var dálítið notað sem útgerðarstöð fyrir báta sem gengu til þorskveiða, enda var þar nokkur húsakostur og allgóð aðstaða til bátageymslu. Hinn 18. maí 1940 samþykkti hafnarnefnd að leigja Hafnarfjarðarkaupstað austurhluta þess til aðstöðu fyrir 10 trillubáta. Ekki hafa fundist heimildir um hvort úr þeirri útgerð varð.

Einhverjar leifar af Anlegginu héngu uppi fram á sjötta áratuginn. Síðasta nýting þess hefur líklega verið afnot trillusjómanna af húsum þar til línubeitninga, og upphenging á fiski til herslu.

Tilvísanir

1. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 7. júlí 1916.

2. Fram 30. nóv. 1916; Brunabótamatsgjörð 2. jan. 1917.

3. Þmb. Litra O 342.

4 Niðurjöfnunarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 23. júní 1927.

5 Niðurjöfnunarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 20. des. 1928.

6. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 7. júlí 1916.

7. Bréfabók Ole Tynes, bréf til niðurjöfnunarnefndar 17. nóv. 1924.

8. Þmb. Litra A 107.

9. Þmb. Litra A 140.

10. Magnús Magnússon. Syndugur maður segir frá, bls.100.

11. Bréfabók Ole Tynes, bréf til niðurjöfnunarnefndar 27. des. 1923

12. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 5. júlí 1929.

13. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 1. apr. 1930; Snorri Sigfússon.

14. Verkamaðurinn 21. mars 1931.

15. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerðir 17. apr. 1931, 23. maí og 11. júní 1932 og 29. apr. 1933.

16. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 9. apr. 1934.

78

17. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 16. okt. 1926.

18. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 22.jan. 1944.

19. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 12. jan 1935.

20 Neisti 18. sept. 1943.

21. Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerð 20. nóv. 1943.

79

25. Evangerstöðin

Norðmennirnir Gustav og Olav Evanger, synir útgerðar- og fiskkaupmanns í Eggesbönes á Sunnmæri, komu allmikið við síldarsögu Íslands um þrjátíu ára skeið. Gustav var fæddur um 1881 og Olav um 1884. Gustav kom til Austfjarða 1903 í því skyni að kaupa og bræða lifur og salta fisk. Fékk hann starfsaðstöðu í landi Brekku í Mjóafirði og Hánefsstaða við Seyðisfjörð, undirritaði lóðarsamning ásamt Hánefsstaðabónda 12. júní 1903 (1). Borgarabréf fékk hann á Seyðisfirði 1904 (2).

Gufuknúið fiskiskip fjölskyldunnar, Herlo, var á snurpuveiðum við Ísland 1906 og kom þá til Siglufjarðar (3). Hinn 25. júní 1907 undirrituðu bræðurnir samning við Christian Havsteen fyrrverandi faktor á Siglufirði um sjávarlóð í landi Staðarhóls, austan fjarðarins. Lóð þessi var 160 m með fjöru og náði tæpa 40 metra til austurs frá flóðmáli. Fram kemur í samningnum að bygging fiskihúss var hafin á lóðinni á vegum leigutaka (4). Var þarna reist söltunarstöð og síldarverksmiðja er tók til starfa í ágúst 1911 (5).

Með samningi 24. apríl 1911 framseldu Evangerbræður hlutafélaginu Siglufjord Olie- & Guanofabrik umráð yfir helmingi til tveggja þriðjuhluta af lóðinni með sömu kjörum og þeir höfðu fengið hana, og að auki afnot af öllum bryggjum og sjóhúsum á henni í þrjú ár. Evangerbræður skyldu þó hafa rétt til að nýta bryggjurnar að hluta vegna fisk- og kolaverslunar sinnar. Þá var í samningnum ákvæði um forkaupsrétt félagsins að eignunum og að hvorki mætti selja þær né leigja keppinautum.

Aðalhluthafar í þessu félagi voru Evangerbræður og tvö þýsk fyrirtæki, H. F. Hartner og Thomas Morgan & Sohn í Hamborg, sem þeir höfðu fengið til liðs við sig við að koma á fót bræðsluverksmiðju. Leigusamningurinn er undirritaður fyrir félagsins hönd af H F. Hartner og Thomas Morgan. Forstjóri var Gustav Evanger (6).

Félagið fékk nýjan leigusamning með dálítilli viðbót við upphaflegu lóðina haustið 1911 (7). Þá fékk það í ágúst 1913 breikkun á lóðinni til austurs (8). Stærð þessara lóða er ekki tiltekin í einingum, heldur miðuð við hús sem búið var að byggja. Olav Evanger gerði samninginn 1913 og fékk sama dag lóð sjálfum sér til handa, 58 metra með fjöru til suðurs frá verksmiðjulóðinni (9) en austurtakmörk voru miðuð við tilgreint hús á henni. Árið 1914 fékk hann aðra lóð, til norðurs frá verksmiðjulóðinni (10). Takmörk hennar voru miðuð við hús og kennileiti í landslagi en ekki mælieiningar.

Á Evangersstöðinni var mikil starfsemi nokkur ár. Hlutafélagið rak þar auk bræðslunnar síldarsöltun á stöð nyrst á lóðinni en Olav Evanger saltaði á eigin vegum sunnan við verksmiðjulóðina.

Verksmiðjan og flest önnur mannvirki á svæðinu sópuðust burtu og eyðilögðust 12. apríl 1919 í snjóflóði úr Staðarhólsfjalli. Þó stóðu eftir nokkur hús og kofar.

Verksmiðjan var ekki byggð upp aftur, en 1922 hófu Evangerbræður á ný síldarsöltun á þessu svæði. Rak Olav þar mikla síldarsöltun í nokkur ár. Árið 1924 voru þar í byggingu tvö íbúðarhús, bræðsluhús með hjástæðu ketilhúsi og smiðju, „sunnan og ofan við lóð Hallgríms Jónssonar“ (11) Í þessari bræðslu, sem var með skrúfaðri handpressu, var eitthvað fengist við að bræða síld, trúlega fyrst og fremst úrgang frá söltunarstöðinni (12).

Í heimild frá 1923 segir að Evangerbræður hafi það sumar saltað 8–9 þúsund tunnur og vitað sé að á einum skipsfarmi hafi þeir grætt um 70 þús. kr. nettó. Þá segir að þeir veiti svo að segja enga atvinnu á Siglufirði, heldur fái þeir verkamenn frá Noregi og stúlkur að sunnan til starfa hjá sér (13).

Árið 1924 fékk Hallgrímur Jónsson skósmiður á Siglufirði leigða lóð á svæðinu milli verksmiðjulóðarinnar og svonefnds Mylluhúsalæks sunnan við túnið á Staðarhóli, 30 metra til vesturs frá

80

flóðmáli (14). Tilgangurinn hefur líklega verið að koma upp aðstöðu fyrir bát, Sigurð Pétursson, sem hann og venslamenn hans frá Staðarhóli gerðu út austan fjarðar. Hallgrímur er talinn hafa saltað þarna eitthvað í smáum stíl, líklega mest 300 tunnur árið 1930 (15). Einnig rak hann lifrarbræðslu á lóðinni.

Hinn 15. nóv. 1932 seldi Hallgrímur Ingu L. Gíslason, Vatnsstíg 3, Reykjavík, stöðina með lóðarréttindum (16). Líklegt er að eiginmaður Ingu, Björn Gíslason, eitt af litríkari athafna- og fjármálaskáldum landsins á fyrsta þriðjungi aldarinnar, hafi átt hlut að þessum kaupum. Ekki eru heimildir um að neinn rekstur hafi farið fram á vegum þeirra hjóna á stöðinni og 7. apríl 1934 var hún seld á nauðungaruppboði. Varð Hallgrímur Benediktsson í Reykjavík sem ófullnægður veðhafi hæstbjóðandi og hreppti hana fyrir 5000 kr. (17).

Tilvísanir

1. Úr heimildasafni Sigurðar Magnússonar frá Þórarinsstöðum.

2. Múlaþing 1990, bls. 43.

3. Hovland, Kari Shetelig. Norske Islandsfiskere på havet, bls. 67.

4. Þmb. Litra L. 283.

5. Norðri 18. ág. 1911.

6. Þmb. Litra N 629 og Litra M 606.

7. Þmb. Litra M. 523 og N. 630.

8. Þmb. Litra N. 139.

9. Þmb. Litra N. 138.

10. Þmb. Litra N. 435. Bók F–O.

11. Þmb. Litra A. 433.

12. Ingólfur Kristjánsson. Siglufjörður, 1988, bls. 486; Siglfirðingabók 1975, bls. 83–84.

13. Bréfabók Ole Tynes, bréf til niðurjöfnunarnefndar, dags. 27. des. 1923.

14. Þmb. Litra R 119.

15. Pétur Á. Ólafsson Skýrsla um Síldareinkasölu Íslands og framkvæmdir, bls. 28 – 29.

16. Þmb. Litra B 80.

17. Þmb. Litra C 18.

81

HEIMILDASKRÁ

Prentuð rit, blöð og bækur:

Ásgeir Jakobsson. Einars saga Guðfinnssonar. Hafnarf.: Skuggsjá 1978

Benedikt Sigurðsson. Brauðstrit og barátta. Úr sögu byggðar og verkalýðshreyfingar á Siglufirði. I. og II. Kópavogi: Myllu-Kobbi og verkalýðsfél. Vaka. Siglufirði, 1989 og 1990.

Bjarni Þorsteinsson. Siglufjarðarverzlunarstaður hundrað ára 1818–20.maí–1918. Aldarminning. Ágríp af sögu kauptúns og sveitar. Rvk., 1918.

Björn Marínó Dúason. Síldarævintýrið á Siglufirði. Ólafsfirði, 1988.

Einherji. Blað Framsóknarmanna í Norðurlandskjördæmi vestra. Siglufirði, 1932–2002

Erlingur Davíðsson. Aldnir hafa orðið. Frásagnir og fróðleikur. Akureyri: Skjaldborg, 1972–1989.

Fiskiskýrslur og hlunninda. Rvk.: Hagstofa Íslands, 1914–1944.

Fram. Siglufirði, 1916–1922.

Guðmundur G. Hagalín og Sigurður Nordal. Saga Eldeyjar-Hjalta. Skráð eftir sögn hans sjálfs. Rvk., Ísafold, 1939.

Hjörtur Þórarinsson o.fl. Saga Kaupfélags Eyfirðinga 1886–1986. Akureyri: Kaupfélag Eyfirðinga, 1991.

Hovland, Kari Shetelig. Norske Islandsfiskere på havet. Bergen: Universitetsforlaget, 1985.

Indriði G. Þorsteinsson Skýrt og skorinort. Minningabrot Sverris Hermannssonar. Rvk.: Almenna bókafélagið, 1989.

Ingólfur Kristjánsson. Siglufjörður, 150 ára verzlunarstaður, 50 ára kaupstaðarréttindi Siglufirði: Siglufjarðarkaupstaður og Sögufélag Siglufjarðar, 1968.

Ingólfur Kristjánsson. Siglufjörður 1818–1918–1988. 170 ára verslunarstaður, 70 ára kaupstaðarréttindi. Rvk.: MylluKobbi, 1988. (Endurútg. með viðaukum e. Guðmund Ragnarsson og Benedikt Sigurðsson).

Islands Næringsliv. med historisk oversigt av Bjarni Jonsson frá Vogi. Kristiania: Forlaget Norge, 1914.

Jón Björnsson. Íslensk skip. Rvk., Iðunn 1990–1999.

Jón Þ. Þór. Saga Ísafjarðar og Eyrarhrepps hins forna. 4. b. Ísafirði: Sögufélag Ísfirðinga, 1990.

Jón Þ. Þór. „Snorri Pálsson, stutt yfirlit yfir ævi og störf. Samið í tilefni aldarafmælis Sparisjóðs Siglufjarðar“ . Siglfirðingabók 1975, bls. 9–29.

Kaupfélag Eyfirðinga 50 ára. 1886–1936. (Eiríkur G. Brynjólfsson tók saman). Akureyri, 1936.

Kristján Jónsson frá Garðsstöðum. Af sjónarhóli. Skyggnst í spor nokkurra samtíðarmanna. Minningaþættir.

Rvk.: Leiftur, 1967.

Magnús Magnússon. Syndugur maður segir frá: Minningar og mannlýsingar. Rvk., Leiftur, 1969.

Mjölnir. Siglufirði, 1938–1999

Múlaþing Byggðasögurit Austurlands. Eiðum, 1966–Neisti. Siglufirði, 1931– 1997

Norðri. Akureyri, 1906–1916.

Páll Eggert Ólason o.fl. Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. Rvk.: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1948–1976.

Pétur Á. Ólafsson og Síldareinkasala Íslands. Skýrsla um Síldareinkasölu Íslands og framkvæmdir á (fyrsta, öðru og þriðja) reikningsári hennar. Akureyri; Reykjavík, 1929–1931.

Siglfirðingabók 1975 og 1976. Siglufirði: Sögufélag Siglufjarðar.

Siglfirðingur. Málgagn Sjálfstæðismanna í Siglufirði. Siglufirði, 1923–2005.

Sjómannablaðið Víkingur. Rvk., 1939–Thor Jensen. Minningar. Valtýr Stefánsson skrásetti. Rvk., AB 1983.

Verkamaðurinn. Akureyri, 1918–Þorsteinn Matthíasson. Hrundar borgir. Djúpavík, Ingólfsfjörður og Gjögur. Rvk.: Bókamiðstöðin, 1973. Ægir. Rit Fiskifélags Íslands. Rvk., 1905–1973.

82

Óprentuð rit og skjöl:

Brunabótamat á Siglufirði, skýrslur. Hskjs. Siglufjarðar.

Bygginganefnd Siglufjarðar, fundargerðir. Hskjs. Siglufjarðar.

Frosti F. Jóhannsson. Leigjendur sjávarlóða og eigendur síldarstöðva á Siglufirði 1896 til 1979. Hskjs. Siglufjarðar.

Hafnarnefnd Siglufjarðar, fundargerðir, Hskjs. Siglufjarðar.

Halldór Þorleifsson. Segulbandsupptökur í vörslu Bókasafns Siglufjarðar og á vef ÍSMÚS.

Heimildasafn Péturs G. Thorsteinssonar sendiherra, Reykjavík.

Heimildasafn Sigurðar Magnússonar, Seyðisfirði.

Hlutafélagaskrá Íslands, Reykjavík.

Hreppsbók Hvanneyrarhrepps 1899–1919. Hskjs. Siglufarðar.

Lóðarsamningar og lóðagjöld á landi Hvanneyrar í Siglufirði. Bjarni Þorsteinsson. Hskjs Siglufjarðar.

Lóðaskrá, gatna- og húsaskrá fyrir Siglufjarðarkaupstað. samin 1924. Bjarna Þorsteinssyni. Hskjs. Siglufjarðar.

Niðurjöfnunarnefnd Siglufjarðar, fundargerðir. Hskjs. Siglufjarðar.

Ole O. Tynes Bréfabók Hskjs Siglufjarðar.

Ole O. Tynes. Minningar um fyrstu daga síldveiðanna í Siglufirði. Ritað 1944. Þýtt og endursagt af Sigurði Björgólfssyni. Vélrit. Hskjs. Siglufjarðar.

Valborg Bentsdóttir, útvarpserindi flutt 7. ág. 1971 (ljósrit).

Þingmálabækur Siglufjarðar. Hskjs Siglufjarðar.

Heimildarmenn sem nefndir eru í tilvísanaskrám:

Anna Erla Eymundsdóttir Dýrfjörð, 1934–2019

Benedikt E. Sæmundsson, 1907–2005

Bjarni M. Þorsteinsson, 1924–2006

Björn Þórðarson, 1913–2006

Björn Ingvarsson, 1917–2010

Bragi Magnússon, 1917–2001

Einar J. Malmquist, 1897–1997

Gísli Konráðsson, 1916 –2003

Guðlaugur Henriksen, 1936–2016

Gunnar Guðjónsson vélstjóri, 1917–2011

Hafliði Halldórsson, 1908–1998

Hafliði Helgason, 1907–1980

Halldór J. Þorleifsson, 1908–1980

Hannes Guðmundsson, 1916–2013

Hulda Lúðvíksdóttir, 1898–2001

Jón V. Ásgeirsson, 1912–1992

Jón Dýrfjörð, 1931–2019

Kristján Sigurðsson, 1902–1999

Ólafur O. Óskarsson, 1922–1995

Sigríður Lárusdóttir, 1918–2006

Sigurður Gíslason, 1907– 1993

Sigurður Magnússon, 1909–2004

Sigurlaug Davíðsdóttir, 1906–1999

Sigurlaug Árnadóttir, 1910–2002

Sigurpáll Vilhjálmsson, 1933–1994

Snorri Sigfússon, 1920–2008

Sveinn Björnsson, 1917–1996

Vigfús Friðjónsson, 1918–2008

Þórey J. Sigurjónsdóttir, 1930

Þórhallur Daníelsson, 1941–2010

Þráinn Sigurðsson, 1912–2004

Skammstafanir:

B. Þ. = Bjarni Þorsteinsson, prestur. Hskjs. Siglufj. = Héraðsskjalasafn Siglufjarðar.

Ls. = lóðasamningar Þmb = þingmálabók, Siglufjarðar nema annað sé fram tekið

83

NAFNASKRÁ

Í skrá þessari eru mannanöfn, nöfn fyrirtækja og skipa og auk þess nöfn þeirra staða sem koma mikið við sögu. Nöfnum í heimildaskrá, tilvísunum og formála er sleppt. Ættarnöfn eru höfð framan við skírnarnöfn þeirra sem talið var að ekki hefðu íslenskt ríkisfang.

Aalesunds Fiskeriselskab a.s. 69

Aalesunds Kreditbank 77

Agnar Samúelsson 63

Akranes, skip (áður Elin) 35

Albatros, skip frá Stavangri 11, 28

Alfons Jónsson 19, 56, 57, 60, 74, 76

Alfonsbrakkinn 57

Alfonsstöð 57

Alliance 12, 55, 56, 57

Alliance-lóðin 55, 56, 57

Alliancestöð 55

Alpha, bræðsluskip 45

Alsaker, O. 24

Alsakersbryggja 24

Ameln-bræður 29, 46

Andrés Hafliðason 50

Anleggið 59, 60, 76, 77, 78

Anleggslóð 74, 76, 77

Anna Vilhjálmsdóttir 56

Anna, skip Söbstads 25

Ansnes 11

Anton Ásgrímsson 50, 67

Anton Jónsson 65, 66, 69, 74

Anton Jónsson & Co 66

Antonsstöð 66, 67, 70

Apríl, togari 41

Arnold Bjarnason 50

Álalækur 8, 59

Árni S. Böðvarsson 10, 14, 22, 25

Árni Pálsson 24

Árni Thorsteinsson 11

Ásgeir Pétursson 12, 19, 32, 33, 49, 53, 65, 71, 72, 74, 76, 77

Ásgeir Pétursson hf. 33, 74

Ásgeirsreitur (Ásgeirsstöð) 32, 33, 74

Ásgeirsstöð undir Hafnarbökkum 33, 74

Ásgeirsstöð við Hvanneyrarkrók 19, 33

Ásmundur hf. 41

Ástvaldur Eydal 57

Ástþór Matthíasson 71

Ásvör hf. 42, 53

Bakkastöðin 14, 16, 18, 45, 67

Bakkevig & Sön 28

Bakkevig, Jens 28

Bakkevig, Lars 59

Bakkevig, Laurits 28

Bakkevig, Tormod 8, 10, 11, 12, 23, 28, 29, 30, 32, 35

Bakkevigsbryggja 33

Bakkevigseignirnar 29

Bakkevigslóðin 32, 33

Bakkevigsstöðin 28, 29, 30

Bakkevigs-verksmiðjan 28, 29

Bakki 9, 14, 15, 16, 17, 18, 30, 33, 34, 65, 71

Bakki hf. 15, 16, 17

Baldur, veitingahús/söltunarstöð 32, 33

Balslev, Johan 45

Bangsi, nótabátur 70

Bátastöðin 59, 60, 61, 62

Bein 72, 74

Benedikt Sveinsson 15

Bergenska gufuskipafélagið 60

Bergur Guðmundsson 43

Bernhard Petersen 24

Birgir Finnsson 72

Birgir Steindórsson 74

Birgit Henriksen 36

Bjarni Benediktsson 15

Bjarni Þorsteinsson 10, 14, 19, 23, 24, 28, 37, 40, 45, 52, 55

Bjarni M. Þorsteinsson 26, 56

Björn Benediktsson 67

Björn Björnsson 74

Björn Gíslason 81

Björn Gottskálksson 67

Björn Grímsson 77

84

Björn Jónasson 60

Björn Líndal 77

Björn Ólafsson 15, 16

Björn Snæbjörnsson 61

Björn Þórðarson 47, 55

Björn Þórhallsson 50

Björnsen, Thorvald 47

Blomquist, Gustav 46

Bolin, Erik, síldarkaupmaður 49

Borðeyrarbryggja 40, 42

Breiðabliksbryggja 24

Brúarfoss, veitingastofa 67

Bræðingur hf. 14, 15

Brödrene EA 270, mótorbátur 49

Brödrene, skip Goos 45

Brödrene, skip Söbstads 25

Bull, Johannes 28

Buvik, síldarkaupmaður 49

Búðarreitur 37, 38

Bæjarbryggja 24

Cambria, skip Söbstads 23, 25

Christensen, N.P. 46

Christiansen, Herman 25

Claessen, Arent 15

Dagbjört Einarsdóttir 60

Daníel Baldursson 56

Daníel Þórhallsson 41, 58, 61

Dansk Fiskeri og Hvalfangerselskab 23, 28

Dansk Hvalfangerselskab 11

Dr. Paul, sjá Paul, dr.

Drangey, söltunarfélag 57

Draupnir, hf. 52

Dröfn hf. 60, 61

Efri-Höfn 59

Egill Ragnars 40, 42, 74

Einkasalan, sjá Síldareinkasalan

Einar Einarsson 12, 30, 63, 65, 66, 69, 70

Einar Malmquist Einarsson 63, 65

Einar Guðfinnsson 67, 70

Einar Sigurðsson 62

Einco 40

Eiríkur Einarsson 72

Elin, skip 35

Elías Þorsteinsson 61

Erling, skip Söbstads 25

Evanger, Gustav og Olav 11, 12, 76, 77, 80

Evangerstöðin 9, 80

Falck, Hans 28, 37

Ferdinand Jóhannsson 67

Finnbogi Guðmundsson 58, 61

Finnbogi R. Þorvaldsson 25

Finnur Gíslason 24

Finnur Jónsson 72

Fiskimjölsverksmiðja Siglufjarðar hf. 72

Fiskveiðafélagið Haukur 14

Fiskveiðahlutafélagið Ægir 19

Fiskverslun Thors Jensen 52

Flatmark, Ludvig 69

Flatmark, Morten 69

Friðleifur Jóhannsson, útvegsbóndi 56

Friðrik Einarsson 12, 30, 63, 65, 66, 69, 70

Friðrik Friðriksson 65, 71

Friðrik Guðjónsson 24, 30, 47, 67

Friis 11

Frystihús Ásgeirs Péturssonar 71

Gabrielson 29, 46

Gamla Tynesstöðin, sjá Tynesstöðin

Garshol, Lars 11, 37

Gísli J. Johnsen 71

Gísli Konráðsson 71

Gjerdsjö & Bakkevig 28

Godtfredsen, Andreas J. 29, 37, 42, 46, 50, 71

Godtfredsen, J. Th., skipstjóri 46

Godtfredsen, Otto 46

Goos, Sören 12, 14, 18, 19, 29, 40, 42, 43, 45, 46, 47, 49

Goos-stöðin í Bakka 18, 45

Goos-bryggjurnar 40, 42, 45, 49

Gooseignirnar 40, 45

Grána, síldarverksmiðja 40, 42, 43, 45, 65

Gránubryggjan 40, 41

Gránufélagið 9, 12, 40, 45, 55

Gránufélagsbryggjan, sjá Gránubryggjan

Gránufélagslóðin, sjá Gránulóðin

85

Gránulóðin 40, 42

Grönvold, faktor Gránuverslunar 32

Guðfinnur Einarsson 70

Guðlaugur Henriksen 36

Guðmunda Benediktsdóttir 50

Guðmundur Gunnlaugsson 60

Guðmundur Hafliðason 35, 43

Guðmundur Jörundsson 23

Guðmundur Sigurðsson, Efri Höfn 59, 63, 65

Guðmundur Skarphéðinsson 19, 70

Guðríður Erna Óskarsdóttir 33

Guðrún Halldórsdóttir frá Laugabóli 33

Guðrún Óskarsdóttir 33

Guðrún Sigurðardóttir 60

Guðsteinn Eyjólfsson 41

Gunnar Bílddal 60

Gunnar Halldórsson (f. 1894) (16), 77

Gunnar Halldórsson (f. 1921) 34

Gunnar Jónsson 40

Gunnar Jósefsson 67

Gunnar Larsen 71

Gunnar Sigurðsson frá Selalæk 24

Gunnlaugur Guðjónsson 42, 65, 66

Gunnlaugur Þorfinnsson 24, 25

Gústaf Þórðarson 33, 60, 61

Haakon, skip Söbstads 25

Hafglit hf. 25, 26

Hafliðabryggja 41

Hafliðastöð 42

Hafliði hf. 42, 53

Hafliði Guðmundsson 32, 50

Hafliði Halldórsson 47

Hafnarbryggjan 9, 40, 41, 42, 43, 45, 67

Hafnarland 10, 59, 61, 65, 66, 74, 76

Hafnarsjóður Siglufjarðar 9, 10, 15, 20, 24, 38, 42, 50, 55, 56, 59, 63, 64, 65, 66, 70, 72, 77

Hafnarstöð 74, 76, 77

Hafsteinn Bergþórsson 25

Halldór Guðmundsson frá Böðvarshólum 12, 29, 36, 38, 41, 66, 77, 78

Halldór Jónasson, kaupmaður 47

Halldóra Óskarsdóttir 33

Halldórsreitur 49

Halldórsstöð 47, 55

Hallgrímur Benediktsson 81

Hallgrímur Hallgrímsson 56, 57

Hallgrímur Jónsson, skósmiður 57, 80, 81

Hallgrímur Oddsson 30

Handelsbanken í Kaupmannahöfn 46

Hanna, skip Söbstads 25

Hannes Guðmundsson 60, 67

Hannes Jónasson, bóksali 46

Hansen, H. S. 14

Harald, skip Söbstads 25

Haraldur Böðvarsson & Co. 43, 57, 67, 74

Haraldur Guðmundsson 50

Hareide & Garshol 11, 37

Hareide, Johan 11, 37

Hartner, H. F. 80

Haukur, sjá Fiskveiðafélagið Haukur

Havsteen, Christian 80

Hekla, hvalveiðistöð á Hesteyri 35

Helgareitur 57

Helgi Guðmundsson, læknir í Höfn 9, 59, 65, 70, 74

Helgi Hafliðason 8, 12, 24, 25, 32, 45, 50, 55, 56, 57, 59

Henning Henriksen 36

Henriksen, Henrik Dybdahl 11, 29, 32, 35, 37

Henriksensbryggja 32

Henriksensstöðin 35, 67

Herlo, gufuskip Evanger 80

Hinrik Thorarensen 37, 38

Hjaltalínsstöð 50, 55, 61

Hjalti Jónasson 50

Hjalti Jónsson 12, 41

Hjálmar Tryggvason 76, 77

Hjemgaard, Tanke 78

Hjörtur Hjartar 53

Hofman Olsen, T. 29, 30, 35

Hólar a/s. 14, 22

Hólmsteinn Helgason 70

Hrímnir hf. 29, 30, 47

86

Hrogn og lýsi hf. 15, 16

Huse, Knut 42

Hvanneyrará 14, 18, 37

Hvanneyrarhreppur 11, 52

Hvanneyrarkrókur 14, 19, 33, 45

Hvanneyrarland 10, 59

Hvanneyri 8, 9, 14, 62

Hvíta húsið 46

Hæringur hf. 34

Hæringur, verksmiðjuskip 34

Höfn 9, 10, 59, 63, 65, 70, 72, 74, 76

Imbs, skip Gjerdsjö & Bakkevig 28

Indíana Pétursdóttir Tynes 59, 61, 63, 65

Inga L. Gíslason 81

Ingi Kristinsson 50

Ingimundur hf. 42

Ingvar Guðjónsson 12, 24. 30, 52, 53, 65, 66, 69, 77

Ingvar Vilhjálmsson 61, 62

Ingvarsstöð 66, 67, 70

Islændingen, skip 37

Ísafold hf. 56, 58

Ísafold sf. 74

Ísbjörninn hf. 72

Ísfirðingabrakki 69

Ísfirðingaplanið 71, 72

Íslandsbanki 20, 41, 56, 57, 66

Íslandsbryggja, sjá Íslandsfélagsbryggja

Íslandsfélagsbryggja 40, 41, 42

Íslandsstöð 40, 42, 53

Íslenskur fiskur hf. 43, 56, 57

Jacobsen, Edvin 12, 42, 45, 49, 50, 55

Jacobsensstöð 50, 52

Jarlinn hf. 30, 34

Jarlsstöð 32, 33, 34

Jóhann Þ. Jósefsson 25

Jóhann Sigfússon 60

Jóhann Skagfjörð 71

Jóhann Vigfússon 10, 11, 32, 35, 69

Jón Ásgeirsson 74

Jón Gíslason 60

Jón Gíslason & Ásmundur hf. 41

Jón Guðmundsson 38

Jón Hjaltalín 47, 50, 55

Jón Jóhannesson 10, 59, 63, 65

Jón Jónsson 22

Jón Kjartansson 60, 67

Jón Kristjánsson 38

Jón (S.) Loftsson 70, 71, 74

Jón Ólafsson 12, 14, 55

Jón Sigurðson 12, 14, 55, 57

Jón Sigurðsson & Co 55

Jón Sigurðsson, verkstjóri 30

Jón Sveinsson 61

Jón Þorkelsson 24

Jón L. Þórðarson frá Laugabóli 25, 26, 33

Jónas Jónasson 60

Jórunn Sigtryggsson 61

Jökel, flutningaskip 35

Jötunn, söltunarfélag 25

Kallastöð 34, 65

Karl Friðriksson 65

Karl O. Jónsson 38, 43, 67

Karvel Jónsson 42

Kaupfélag Eyfirðinga, KEA 16, 70, 71

Kaupfélag Siglfirðinga 50, 53

Kolbeinn Björnsson 63

Kristensen, H. H. 49

Kristinn Árnason 61

Kristinn Halldórsson 37, 47

Kristín Hafliðadóttir 47

Kristján Ásgrímsson 38, 60, 61, 77, 78

Kristján Kjartansson 36, 50, 67, 78

Kristján Sigurðsson 72

Kveldúlfsstöð 42, 50, 52, 53

Kveldúlfur 35, 52

Landsbankinn 19, 32, 74

Langanes, gufuskip (áður Ludolf Eide) 35

Lárus Þ. Blöndal 19

Litla Jacobsensbryggja 42, 43, 45, 49

Ludolf Eide, gufuskip 35

Ludvig Möller 74

Lundey, Húsavík 57

Lúðvík Sigurjónsson 20

87

Lúðvíksstöð 20

Lövvig 11

Magnús Blöndal 72

Magnús Magnússon 12, 14, 55

Magnús Norðdal 25

Magnús Pétursson 77

Maí, togari 41

Malmquiststöð 63, 67, 70

Mannes, Bendik 11, 28, 37, 69

Marías Guðmundsson 72

Marsley, skip Söbstads 23

Matchless, skip Söbstads 25

Matthías Hallgrímsson 52

Morgan, Thomas 80

Morten Ottesen 71, 77

Möllerslóð 74

Myrset, Ole 23

Neðri-Skúta 10

Netagerð Siglufjarðar hf. 67

Nielsen 11

Njörður hf. (Njarðarstöðin) 71

Nýja stöð 26

Nýja Tynesstöðin, sjá Tynesarstöðin

Nöf, söltunarstöð 67, 69, 70, 71

Oddur Thorarensen 38

Oddur C. Thorarensen 38

Oddur Þorkelsson 24

Olaf (Olav) Henriksen 29, 35, 36

Olga, skip Jacobsens 49

Olíufélagið hf. 53

Olíuverslun Íslands 20, 25, 63

Olsen, sjá Hofman Olsen

Orion, skip Jacobsens 49

Ólafur Guðmundsson frá Akureyri 41

Ólafur A. Guðmundsson frá Ingólfsfirði 24, 38

Ólafur Þ. Johnson 14, 15

Ólafur Jónsson 61, 62

Ólafur Óskarsson 74

Ólafur Ragnars 40, 41

Ólafur Ragnars hf 41

Ólafur Thorarensen 38

Ólafur Þórðarson 32, 33, 60, 63

Óli Konráðsson 63

Óskar Garibaldason 41

Óskar Halldórsson 12, 15, 16, 17, 24, 30, 32, 33, 34, 62, 63, 65, 67, 71

Óskarssíld hf. 62

Óskarsstöð 32

Paul, dr. 24

Páll Erlendsson 63

Páll Friðfinnsson 70

Petrína Sigurðardóttir 11

Pétur Benediktsson 15

Pétur Bóasson 25, 32, 42, 77

Pétur Magnússon 15

Pétur Njarðvík 63

Pétur (J.) Thorsteinsson 10, 12, 14, 24

Pilen, skip frá Stafangri 49

Polar Brand, saltsíld 60

Pólarsíld 63

Pólstjarnan hf. 25, 26

Ragnar Ólafsson 37, 38, 40, 41

Rammi hf. 57

Rauðka, síldarverksmiðja 26, 34, 43, 45, 55, 65, 67

Rán, togari 38

Rejesen 11

Reykjanes hf. 43, 50, 58, 61

Reykjanes, skip (áður Ingeborg) 35

Rifsnes, skip (áður Magne) 35

Roald 12

Roald, Elias 66, 69

Roald, Jacob 69

Roald, Knud 69

Roald, Konrad 69

Roald, Olav 59, 69

Roald, Severin 69, 70, 71, 76

Roaldsbrakki 69

Roaldslóð 70, 72, 74

Roaldsstöð 16, 59, 69, 70, 71, 72

Runólfur Stefánsson 10, 12

Rögnvaldur Snorrason 66

Sameinuðu verslanirnar 40, 41, 45, 49

Samvinnufélag Ísfirðinga 72

88

Samvinnufélag Siglfirðinga 36, 67

Samvinnufélagsplanið 72

Saxe 11

Schiöth, Aage 30

Schrezenmeier, verkfræðingur 35

Shell hf., sjá Skeljungur

Sigfús Blöndal 72

Sigfús Baldvinsson 29, 38, 41, 42, 53, 57, 70, 67, 71, 77

Sigfús Baldvinsson hf 38

Sigfús Ólafsson 11

Siglufjarðarbær 25, 33

Siglufjarðarkaupstaður 18, 33, 43, 47, 71

Siglufjarðarverslun 40

Siglufjord Olie & Guanofabrik 80

Siglufjords Sildeoliefabrik A/S 45

Siglufjords Sildesalteri & Anlægs Compani 76, 77

Siglunes, skip 35

Sigríður Sigurðardóttir 23

Sigurður Baldursson 61

Sigurður Fanndal 74

Sigurður Gíslason 71

Sigurður Kristjánsson, kaupmaður 56

Sigurður Pétursson, bátur 81

Sigurður Helgi Sigurðsson 45, 46

Sigurður Þórðarson frá Laugabóli 32, 33

Sigurjón Ólafsson 12, 24

Sigurjón Pétursson 22, 25

Sigurjón SI 31, vélbátur 20

Sigþór Guðjónsson 63

Sildeoliefabrikken T. Bakkevig 28

Silfurborg hf. 55, 56

Sindri, togari 38

Síldareinkasalan 52, 53, 67, 70, 71

Síldarsöltun Ísfirðinga 72

Síldarverksmiðjur ríkisins 8, 24, 25, 26, 30, 33, 34, 53, 65

Síldin sf. 74

Síldveiðifélagið 40

Sjöen, Johannes Olsen 28

Skafti Sigurðsson frá Staðarhóli 65

Skafti Stefánsson frá Nöf 63, 65, 67, 69, 70

Skálholt e/s, skip 46

Skeiðsfossvirkjun 78

Skeljungur hf , olíufélag 34, 50

Skjóna, bræðslustöð 65

Skjöldur hf., útgerðarfélag 67

Skolma, gufuskip 37

Skúli Jónasson 26

Skútuland 10, 14

Sleipnir, útgerðarfélag 72

Snorrastöð 66, 70

Snorri goði, togari 52

Snorri Jónsson 12, 63, 65, 66, 69

Snorri Pálsson 11, 40

Snorri Sigfússon 38

Snorri Stefánsson, verksmiðjustjóri 46

Solbu, Adolph J., síldarkaupmaður 49

Sophus A. Blöndal 25, 72

Sóðasund 32

Springeren, bátur 35

SR 46 34

Staðarhóll 9, 11, 65, 80, 81

Staalesen, Steffan 29, 35

Stathav, bátur Einars Malmquist 63

Stefán Franklín 71

Stefán Þór Haraldsson 56

Stefán Th. Jónsson 12

Steindór Hjaltalín 47, 55

Steinþór Guðmundsson 63, 67, 77

Strýtulóð 49

Stöð Söbstads 23

Sunna hf. 61, 62

Svanlaug Thorarensen 38

Svea Brand, kryddsíld 60

Sveinbjörn Einarsson 74

Sveinn Benediktsson 15

Sveinn Björnsson 42, 53

Sveinn Guðmundsson 24, 43, 45, 77

Sveinn Sigfússon 16, 17

Sverrir Björnsson 47

Sverrir Hermannsson 50

Syðsta stöðin 74

Sæby, Andreas, C. 49

89

Söbstad, Hans 8, 11, 12, 14, 23, 24, 25, 28, 63

Söbstad, Harald 23, 25

Söbstad, Pétur 25

Söbstadslóðin 9, 15, 20, 23, 24, 25

Söltunarfélag verkalýðsins 29, 53, 77

Söltunarfélagið hf. 43

Söltunarfélagið Jötunn 25

Söltunarstöð Árna Böðvarssonar 22

Tangabryggja 42, 43, 45, 49, 57

Tangahornið 42, 61

Thomas Morgan & Sohn, Hamborg 80

Th. Thorsteinsson 24, 25

Thor Jensen 12, 52

Thorarensen 37, 38

Timburhólminn 59, 76

Togarafélagið Bragi 24

Togskip hf. 34

Tynes, Ole Andreas 8, 9, 10, 12, 22, 42, 45, 47, 59, 60, 61, 63, 69, 76, 77

Tynesarlóð 60

Tynesarstöð (Tynesstöð) 59, 61, 62

Ulf, gufuskip 37

Útgerðarfélag KEA 71

Útvegsbanki Íslands 16, 20, 34, 57, 71, 72

Verslun Lofts Loftssonar & Þórðar Ásmundssonar 41

Vestersen 46

Vigfús Friðjónsson 17, 38, 43, 56, 57, 58, 61

Vitam Brand, sykursíld 60

Víkingur hf. 57

Wallen G. A. 10

Wallström 29, 46

Wathne-skipin 60

Wedin & Ramstedt 37, 47

Wedin, John 8, 11, 12, 29, 37, 38, 40

Wedinshús (Wedinsvillan) 29, 37

Wedinsstöð 36, 37, 38, 41

Ýmir hf. 50

Ziemsen, Jes 41

Þorbjörn hf. 42

Þorgrímur Eyjólfsson 61

Þorlákur Þorkelsson 24

Þormóður Eyjólfsson 16, 24, 25

Þormóður rammi hf. 50, 53

Þorsteinn Jónsson 20, 56

Þorsteinn Pétursson 77

Þorsteinn Thorsteinsson 12, 14

Þorsteinn Þorsteinsson 41

Þorvaldur Atlason 32, 33

Þorvaldur Sigurðsson, kaupmaður 59

Þórður Guðmundsson 61

Þórður Jónsson 74

Þórður Pétursson 61

Þórður Sveinsson, kaupmaður 15

Þórður Sveinsson, læknir 15

Þórður J. Thoroddsen 15

Þórður Þórðarson, vélstjóri 30

Þóroddarplan 63

Þóroddur Guðmundsson 64

Þráinn Sigurðsson 56

Ægir, sjá Fiskveiðahlutafélagið Ægir

Æskan, bátur Einars Malmquist 63

90

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.