Þinggerð ÍBR 2015

Page 1

ÞINGGERÐ ÍBR 47. ÞING 2015


47. Þing ÍBR Laugardalshöll Fimmtudagur 19. mars 2015 17:00 Setning, ávörp gesta, minningarorð, skýrsla stjórnar. Ingvar Sverrisson, formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur, setti þingið: „Forseti ÍSÍ, Kæru félagar í íþróttahreyfingunni í Reykjavík, Aðrir góðir gestir. Velkomin á þing Íþróttabandalags Reykjavíkur. Ég vil byrja á því að bjóða ykkur öll velkomin til 47. þings Íþróttabandalags Reykjavíkur. Á síðasta þingi var samþykkt að fækka fulltrúum á þingum ÍBR og því mátti gera ráð fyrir nokkuð færri fulltrúum en áður en það er gaman að sjá að hátt í sami fjöldi er skráður til þings nú og mætti á síðasta þing þ.e. um 90 fulltrúar. Hlutfallslega er því umtalsvert betri mæting nú. Til að setja þetta í tölulegt samhengi þá væru 248 fulltrúar sem ættu seturétt miðað við gömlu regluna en sambærileg tala miðað við að öll félög væru mætt núna væri 156 fulltrúar. Ég mun ekki fara yfir skýrslu stjórnar lið fyrir lið en koma inn á nokkur atriði úr henni hér á eftir. Ef við förum yfir síðustu tvö starfsár þá er ljóst að ótrúlega mikið verk hefur verið unnið á vettvangi íþróttafélaganna í Reykjavík sem sýnir enn og aftur kraftinn sem býr í þessari öflugu hreyfingu. En það hefur líka sýnt sig að starfið er að bera árangur þar sem fleiri og fleiri taka þátt í íþróttastarfi í borginni hvort sem er á vegum félaganna beint, eða á eigin forsendum í almenningsíþróttum. Það má því segja að hvatning íþróttahreyfingarinnar hafi skilað sér svo um munar og vitneskja almennings um mikilvægi þess að stunda holla hreyfingu aldrei verið meiri. Frá síðasta þingi hefur verið unnið af krafti í þeim verkefnum sem þingið fól stjórn ÍBR að vinna að og ætla ég að taka nokkur sérstaklega út. Okkur var falið að halda áfram vinnu að umsókn ÍBR inn í UMFÍ og núna liggur einmitt fyrir þessu þingi svipuð tillaga og þið samþykktuð síðast. En til þess að geta klárað þetta mál almennilega, og ef til vill í eitt skipti fyrir öll, var ákveðið að ÍBR myndi sækja um aðild að UMFÍ með öðrum íþróttabandalögum. Um þetta náðist samstaða með íþróttabandalögunum og var send inn sameiginleg umsókn til UMFÍ. Hún var tekin til umfjöllunar á síðasta þingi UMFÍ þar sem ákveðið var að setja á laggirnar vinnuhóp sem hefur unnið mjög kröftuglega með bandalögunum að því að fara yfir þýðingu þess að íþróttabandalögin fengju aðild að UMFÍ. Sú vinna er að komast á endastöð og verður vonandi lögð fyrir þing UMFÍ núna í haust og málið svo tekið áfram þaðan. Stóru málin sem þarf að klára snúa að skiptingu Lottótekna og valdahlutföllum innan UMFÍ eftir að innganga íþróttabandalaganna (sérstaklega okkar Reykvíkinga) yrði að veruleika. Ég ætla að taka það fram að þessi vinna hefur verið afskaplega góð og allt verið upp á 1


borðinu í okkar samstarfi við UMFÍ og ég er mjög ánægður með þá vinnu og mun vera með í þeirri nefnd sem fjallar um það í kvöld ef það eru fleiri spurningar um það. Á síðasta þingi ræddum við rekstrarúttekt sem gerð hafði verið á íþróttafélögunum í borginni. Heildarniðurstaða þeirrar vinnu var að félögin eru vel rekin og hafa tekið vel á sínum fjármálum og ættu að vera öðrum frjálsum félagasamtökum til eftirbreytni að mörgu leyti. Það sem þó stendur útaf í þessum málum er að alltof margir meistaraflokkar, sérstaklega í boltagreinum, eru reknir með tapi og félögin hafa lent illa í að vinna úr slíkum vanda. Þetta er mál sem ég tel mikilvægt að við tökum höndum saman um á næstu tveimur árum, að finna leiðir til að tryggja að rekstur meistaraflokkanna verði ekki með tapi. Við þurfum í sameiningu, íþróttahreyfingin í heild sinni, að finna jafnvægi í þennan rekstur þannig að íþróttalegur og fjármálalegur árangur haldist í hendur. Við vitum það öll að afreksflokkar skipta miklu máli fyrir starf félaganna, þar eru fyrirmyndirnar og áhugi sjálfboðaliðanna er oft í samhengi við gengi þeirra. Til að hafa betri yfirsýn og samanburð milli félaganna var samþykkt á síðasta þingi ÍBR að félögin skyldu skila ársreikningum á samræmdu formi. Að þessu hefur verið unnið og voru drög kynnt á síðasta formannafundi. Á allra næstu dögum verður svo haldinn kynningarfundur með félögunum og er gert ráð fyrir að ársreikningar fyrir árið 2014 verði settir fram með hinum samræmda hætti. Það er okkar stóra verkefni að efla enn frekar afreksstarfið í borginni á næstu misserum. Reykjavíkurfélögin eiga alltaf að vera í forystu í öllum íþróttagreinum og til þess að það geti orðið að veruleika þarf að efla flæði fjármuna til afreksstarfsins. Mig langar að segja ykkur frá því að stjórn ÍBR hefur ákveðið, í ljósi jákvæðrar stöðu Framkvæmdasjóðs ÍBR, að endurvekja Afrekssjóð ÍBR og efla Verkefnasjóð ÍBR. Afrekssjóður mun eins og nafnið gefur til kynna styðja við afreksfólkið okkar og þjálfara þeirra en Verkefnasjóður er hugsaður til að styðja við útbreiðslustarf og ýmis verkefni sem félögin telja mikilvæg til að ná enn meiri árangri í félagsstarfi sínu. Eitt af þeim verkefnum sem stjórn ÍBR hefur unnið að á síðustu árum er að koma á fót Afreksíþróttamiðstöð Íslands, þar sem hugmyndin er að koma saman helstu sérfræðingum í íþróttafræðum og tengdum greinum Þetta er mál sem hefur verið rætt á þingi hj á okkur margoft. Staðan núna er sú að við munum koma miðstöðinni á fót fyrir vorið í samvinnu við ÍSÍ, KSÍ og fjölmörg sérsambönd sem hafa gefið vilyrði fyrir því að vera þátttakendur í starfinu. Við munum hnýta þá hnúta sem þarf næstu vikur til að klára þetta mál. Það má segja um þetta mikilvæga verkefni að góðir hlutir gerast hægt. Við höfum átt gott samband og samstarf við Reykjavíkurborg í gegnum tíðina og fyrir það vil ég þakka fyrir hönd íþróttahreyfingarinnar í Reykjavík. Það samstarf er grundvallað í samstarfssamningi en einnig í stefnu um íþróttir í borginni til ársins 2020. Ég hef sagt það nokkrum sinnum áður að íþróttahreyfingin lagði sitt af mörkum svo um munar í þeim vanda er steðjaði að samfélaginu eftir hrunið. Þar skiptir mestu að þrátt fyrir niðurskurð á fjárframlögum til íþróttafélaga í borginni þá var þjónustan ekki skorin niður heldur þvert á móti lögðu félögin sig fram við að efla þjónustu við iðkendur í sínum hverfum og tryggja það að jákvætt íþrótta- og æskulýðsstarf héldi áfram af sama krafti og áður. Í þeirri stefnumótun sem við unnum með borginni var lögð höfuðáhersla á að efla enn frekar starf með almenningi, börnum og unglingum en minni áhersla lögð á uppbyggingu mannvirkja hvort heldur var nýframkvæmdir eða viðhald. Reykjavíkurborg og ÍBR hafa sett á laggirnar starfshóp til þess að meta þörf fyrir ný mannvirki í 2


hverfum til að uppfylla þá sýn að allir borgarbúar eigi sama aðgang að þjónustu í sínum hverfum eins og langt og það nær. Einnig hefur verið sett í gang vinna við að meta hagrænt gildi íþrótta fyrir borgarsamfélagið. Að frumkvæði ÍBR og Reykjavíkurborgar var haft samband við Menntamálaráðuneytið í þeirri von að þessi vinna gæti verið tekin á sama vettvangi og hagrænt gildi skapandi greina. En því miður gátum við ekki beðið lengur eftir ráðuneytinu þar sem ekkert gerðist þrátt fyrir góðan vilja. Þessi vinna er því í fullum gangi núna í samvinnu Reykjavíkurborgar og ÍBR fyrir borgarsamfélagið og ég bind miklar vonir við að með þessari vinnu verði sýnt fram á hversu mikilvægt starf er unnið í íþróttahreyfingunni og sýnt fram á jákvæð áhrif þess starfs á samfélagið. Við höfum hafið vinnu við gerð nýs þjónustusamnings við Reykjavíkurborg. Við viljum að í þeim samningi verði tekið á öllum málum er varða samskipti borgarinnar við íþróttafélögin. Eitt af þeim málum er viðhald íþróttamannvirkja í eigu félaganna. Nú hefur átt sér stað vinna við úttekt á viðhaldsþörf og metið hvað þegar hefur verið greitt af félögunum sjálfum og ætti að heyra undir meiriháttar viðhald. Sú vinna verður lögð til grundvallar í samningunum. Þar verði einnig tekið á félagsstarfi og rekstri íþróttafélaga með það að markmiði að ná að bæta þjónustuna enn frekar. Þá brenna enn á okkur kynningarmálin í grunnskólunum og frístundaaksturinn sem hefur sannað gildi sitt og mikilvægi. Þessir þættir verða allir hluti af þessari samningsgerð. Reykjavíkurborg er með 2.1 milljarða króna í styrki vegna íþróttastarfs í borginni í núverandi fjárhagsáætlun og það undirstrikar mikilvægi samstarfsins. Við unnum saman stefnu og framtíðarsýn sem unnið hefur verið eftir og mikilvægt er að haldið verði áfram á þeirri braut. En það eru fleiri þættir sem skipta okkur máli í samskiptum okkar við borgina. Er þar um að ræða stór verkefni sem ráðist hefur verið í eins og innleiðingu nýs mannvirkjakerfis til að halda utan um nýtingu, töflugerð og fleira í íþróttamannvirkjum. Þá átti ÍBR fulltrúa í starfshópi borgarstjóra vegna framtíðarhugmynda um uppbyggingu á Laugardalsvelli og byggingu nýs frjálsíþróttavallar en hópurinn skilaði ítarlegri skýrslu um það mál á fyrri hluta síðasta árs. Eitt af þeim verkefnum sem við í íþróttahreyfingunni þurfum að horfa til á næstu misserin er hvort við getum aukið á samvinnu og jafnvel sameiningu íþróttafélaga og deilda í borginni. Það yrði ekki með því markmiði að skera niður fjármuni til þeirra heldur til að efla starf þeirra enn frekar og mæta auknum kröfum sem gerðar eru til okkar við að þjónusta borgarbúa betur. Það eru víða sóknartækifæri í slíkum aðgerðum og mikilvægt er að það komi frá grasrótinni sjálfri og þá er ég viss um að Reykjavíkurborg mun koma jákvætt inn í slíka vinnu með sama markmið. Ríkið hefur verið mikið til umræðu hjá okkur í hreyfingunni undanfarið sérstaklega þegar kemur að þjóðarleikvöngum en við samþykktum hér á þinginu okkar fyrir tveimur árum að hvetja ríkið til að skilgreina þjóðarleikvanga og setja fé í þá þar sem borgin ber landsliðsviðburði uppi í mun meira mæli en önnur sveitarfélög og ríkið. Það er orðið nauðsynlegt að ríkið ákveði hvort það ætlar að sinna íþróttum af meiri krafti en hingað til og þá sérstaklega afreksíþróttum. Borgin er klárlega stærsti styrktaraðili afreksíþrótta á landinu bæði hvað varðar uppbyggingu mannvirkja og afnot afreksmanna og 3


sérsambanda af mannvirkjunum. Í þessu samhengi er rétt að nefna sérstaklega framgöngu borgarinnar vegna Smáþjóðaleikanna nú í sumar en borgin hefur varið um 200 milljónum í mannvirki sín í tengslum við leikana. Þessi vinna hefur skipt sköpum varðandi það að hægt er að halda leikana með þeim hætti sem verður nú í sumar. En eins og borgarstjóri sagði við undirritun samstarfssamninga vegna leikanna þá lítur borgin á þetta sem fjárfestingu til framtíðar bæði fyrir reykvíska iðkendur almennt sem og afreksíþróttastarfið. Þar sem Reykjavík er gestgjafi leikanna munu ÍBR og félögin koma að mótinu með einum og öðrum hætti svo sem með því að leggja til starfskrafta og mannvirki. Það verður sannkölluð íþróttaveisla í borginni í byrjun júní. Þar sem ég er farinn að tala um íþróttaviðburði þá er rétt að minnast á þá frábæru viðburði sem ÍBR stendur að. Reykjavíkurmaraþon hefur eins og allir vita gengið vonum framar undanfarin ár og er enn að eflast sem og aðrir viðburðir tengdir því, Laugavegshlaup og Miðnæturhlaup. Afkoman er verulega góð og hefur gert okkur kleift að efla styrki til okkar félaga og byggja upp okkar sjóði aftur. Alþjóðlegu Reykjavíkurleikarnir hafa einnig gengið afar vel og hafa sannað sig sem mikilvægan hlekk í samstöðu okkar Reykvíkinga um mikilvæg samfélagsverkefni en ekki síður sem afar mikilvægan viðburð í að auka við komu erlendra gesta og ferðamanna yfir veturinn sem styður vel við verkefni ríkisins Ísland allt árið. Á síðustu leikum heimsóttu borgina rúmlega 500 gestir frá 43 þjóðlöndum. Slík heimsókn er auðvitað gríðarlega mikilvæg fyrir okkar íþróttafólk. Allir þessir viðburðir njóta stuðnings áhugasamra samstarfsaðila sem eiga mikinn þátt í vexti og velgengni viðburðanna. Skautahöllin í Laugardal er eins og við þekkjum rekin af ÍBR og nú nálgast sá tími sem samningar við Reykjavíkurborg renna út varðandi þann rekstur. Aðeins 3 ár eru eftir af þeim samningi og þegar honum lýkur er ráðgert að Reykjavíkurborg taki við rekstrinum. Síðasta ár gekk vel í rekstri hallarinnar. Aðsóknin var vonum framar og skilaði hagnaði í rekstri en einnig má finna skýringar í því að fjármagnstekjuskattur sem ranglega hafði verið tekinn af höllinni var endurgreiddur. Það sem þó er mikilvægt að nefna í þessu samhengi er að samkvæmt áætlunum munum við þurfa að greiða með þessum rekstri yfir 20 milljónir króna á lokaári rekstursins þar sem framlög duga ekki fyrir endurgreiðslunni. Þetta er tilkomið vegna þess að við höfum ekki enn fengið greitt vegna stórra þátta í viðhaldi tækjakosts hallarinnar sem og hækkandi orkuverðs en við höfum lagt til við borgina að lengt verði í samningi við ÍBR um reksturinn þangað til að við getum gengið frá þessu láni og skilað höllinni í fullkomnu ásigkomulagi. Í það hefur verið vel tekið og er það úrlausnarefni næstu mánaða. Ég þakka ÍSÍ fyrir einstaklega gott samstarf síðustu tvö ár. Það eru fjölmörg verkefni sem við höfum tekið á með þeim og við höfum átt ríkan þátt í því að gera íþróttahreyfinguna í landinu betri og ö flugri í því samstarfi sem og með sérsamböndunum. Að lokum vil ég fá að þakka það góða samstarf sem við höfum átt við íþróttafélögin. Ég verð að segja það hér að það er til eftirbreytni hvernig félögin hafa tekið á málum eftir hrunið, eflt þjónustu sína og starf í hverfunum. Við verðum á næstu tveimur árum að taka enn ákveðnar á afreksmálunum og þjónustuframboðinu í hverju hverfi fyrir sig því hvert hverfi er í raun eins og næst stærstu sveitarfélög landsins og þar eigum við að bjóða, helst betri þjónustu en hinir. En til þess að það geti orðið þá verður 4


að komast botn í málefni landsliða og afreksstarfa sérsambanda sem sækja mikla fjármuni til okkar sveitarfélags. Allra síðast en alls ekki síst vil ég þakka starfsmönnum ÍBR fyrir frábært starf í þágu hreyfingarinnar, þágu félaganna í borginni en ekki síst þeirra fjölmörgu Reykvíkinga sem nota þjónustu okkar. Þetta er einstaklega öflugur og sterkur hópur sem mér hefur hlotnast sá heiður að fá að vinna með. Ég segi 47.þing Íþróttabandalags Reykjavíkur sett.“ Áður en við förum í hefðbundin þingstörf ætla ég að fá að minnast félaga sem létust á síðastliðnum tveimur árum. Hreggviður Jónssonlézt 25.apríl 2013. Hann var fæddur 26.desember 1943. Hreggviður var einn stofnenda Ungtemplarafélagsins Hrannar, tók þátt í byggingu skíðaskála félagsins í Skálafelli, var kosinn í stjórn KSÍ, sat í stjórn Skíðasambandsins í 11 ár, þar af formaður í 8 ár. Þá sat hann í Ólympíunefnd 19811993. Hann var alþingismaður eitt kjörtímabil frá 1987. Ólafur Rafnsson lézt 19.júní 2013 en hann var fæddur 7.apríl 1963. Hann hóf ungur að stunda íþróttir hjá FH, bæði knattspyrnu og handknattleik, en sneri sér síðan að körfuknattleik hjá Haukum. Með því félagi varð hann bikarmeistari tvívegis og Íslandsmeistari 1988. Hann var þjálfari körfuknattleiksliða Hauka bæði í karla- og kvennaflokki. Hann var í stjórn KKÍ 1990-2006 og þar af formaður í 10 ár. Ólafur var kosinn forseti ÍSÍ 2006 og var í því embætti allt til dánardags. Hann átti sæti í stjórn Evrópska körfuknattleikssambandsins frá 2002 og var formaður þess frá 2010, en frá þeim tíma var hann einnig í miðstjórn Alþjóða körfuknattleikssambandsins (FIBA). Kristján Benjamínsson lézt 23.október 2013. Hann var fæddur 5.október 1923 í Hnappadalssýslu og sleit þar barnsskónum en frá 20 ára aldri starfaði hann hjá Sölufélagi garðyrkjumanna. Hann var kosinn í stjórn TBR 1955 og var formaður 1956-1957. Hann var fyrsti formaður Badmintonsambandsins við stofnun þess árið 1967. Þorvaður Ellert Björnsson lézt 18.desember 2013. Hann var fæddur 5.mars 1943 og ólst upp í Þróttar hverfinu og lék knattspyrnu upp alla aldursflokka félagsins. Eftir 105 leiki í meistaraflokki gerðist hann dómari og var um tíma milliríkjadómari og var meðal annars skipaður til að dæma leik á Anfield í Liverpool. Haukur Tómasson lézt 21.febrúar 2014 en hann var fæddur 14.febrúar 1932. Ungur gekk hann til liðs við Þrótt en var valinn í stjórn Fylkis þegar hann fluttist í Árbæinn. Lífsstarf hans var varðandi raforkuöflun með stíflugerð 1959-2002, síðustu 17 árin sem forstjóri þeirrar deildar innan Orkustofnunar. Hann var kosinn í framkvæmdastjórn ÍBR 1980 til 1996, síðustu 6 árin sem varaformaður. Gísli Jón Helgason lézt 19.maí 2014. Fæddur var hann 11.nóvember 1945 á Þingeyri við Dýrafjörð. Stangveiði var hans tómstundaiðja og gekk til liðs við Kastklúbb Reykjavíkur. Hann var um langt árabil kennari í flugukasti á æfingum Kastklúbbsins á sunnudögum í Laugardalshöll og síðar í Kennaraskólanum.

5


Hannes Þ. Sigurðsson lézt 17.apríl 2014. Hann var fæddur 3.júlí 1929. Hannes stundaði á yngri árum bæði knattspyrnu og handknattleik hjá Fram en snéri sér síðan að dómgæslu í þessum greinum og var útnefndur milliríkjadómari í báðum. Hann var í framkvæmdastjórn ÍSÍ frá 1955 til 1994, lengst af sem varaforseti sambandsins. Stefán Gunnarsson lézt 2.ágúst 2014. Hann var fæddur 6.september 1927. Stefán stundaði knattspyrnu með Val, handbolta og frjálsar íþróttir hjá Ármanni. Hann lagði aðallega stund á langhlaup og var í liðinu sem sigraði Dani og Norðmenn 28.-29.júní 1951 sem keppandi í 1500 og 5000 metra hlaupum. Þegar frá leið gerðist hann þjálfari í handknattleik og stuðlaði að stofnun Íþróttafélagsins Leiknis í Breiðholti og var fulltrúi þess í KRR 1975-1991. Jóhannes Helgason lézt 17.ágúst 2014. Hann var fæddur 16.júní 1958 og lék á yngri árum handknattleik með Fram í ýmsum flokkum en snéri sér síðan að badminton innan TBR. Jóhannes var virkur í stjórnarstörfum innan greinarinnar, í stjórn Badmintonsambandsins 1990-1994, í stjórn TBR frá 1996 og formaður 1999-2012 eða í 13 ár. Reynir Karlsson lézt 12.nóvember 2014 en hann fæddist 27.febrúar 1934. Hann lék knattspyrnu með öllum aldursflokkum Fram og útskrifaðist frá knattspyrnudeild íþróttaháskólans í Köln 1960. Hann þjálfaði Fram, ÍBA, ÍBV, Breiðablik og landslið KSÍ, sat tvívegis í aðalstjórn Fram og var formaður Breiðabliks í 3 ár. Hann var framkvæmdastjóri Æskulýðsráðs Reykjavíkur í 7 ár og íþróttafulltrúi ríkisins 1981-2003 og sem slíkur sat hann í stjórn Getrauna jafn lengi. Hann átti að baki þátttöku í 3 landsleikjum í knattspyrnu. Geir Guðmundsson lézt 23.nóvember 2014 en hann var fæddur 28.júní 1921. Hann hóf ungur að æfa knattspyrnu hjá Knattspyrnufélaginu Val og lék með öllum aldursflokkum og varð 5 sinnum Íslandsmeistari með gullaldarliði Vals 1939-1945. Hann var í Íslandsmeistaraliði Vals í fyrsta Íslandsmótinu í handknattleik í húsi Jóns Þorsteinssonar. Síðar var hann þjálfari knattspyrnuliðs 2.flokks 1961 og 1962 og meistaraflokks eftir það í 2 ár. Hann var í aðalstjórn Vals í 2 ár og í áratugi í fulltrúaráði Vals. Þá var hann fulltrúi Vals í HKRR. Gunnar Guðmannsson lézt 27.nóvember 2014, en hann var fæddur 6.júní 1930. Hann hóf iðkun knattspyrnu í KR og lék með öllum aldursflokkum en 17 ára var hann valinn í meistaraflokk og lék þar næstu 19 árin. 29 sinnum lék hann í úrvalsliði Reykjavíkur og 9 sinnum í landsliði. Hann var 1955-1969 forstöðumaður íþróttahússins að Hálogalandi sem var í eigu ÍBR, forstöðumaður Laugardalshallar 19711997, sá um rekstur veitingasölu ÍBR á Melavelli og Laugardalsvelli á sumrin um áratuga skeið. Þá vann hann við ýmsa þætti Íslenskra Getrauna frá 1969 og allt fram á haust 2014. Sigtryggur Sigurðssonlézt 2.desember 2014. Hann var fæddur 1.mars 1946 og hóf ungur iðkun íslenskrar glímu. Hann vann Grettisbeltið þrívegis, Skjaldaglímu Ármanns 7 sinnum. Þá var hann formaður Glímudeildar KR 1967-1971 og sat í stjórn GLÍ í 20 ár og þar af formaður í 6 ár. Árið 1971 var hann Íslandsmeistari í glímu, lyftingum og bridge.

Ég vil biðja viðstadda að votta minningu þessara horfnu íþróttamanna virðingu með því að rísa úr sæti. 6


Ingvar lagði til að að áður en haldið yrði áfram í næsta lið í dagskrá sem eru ávörp gesta yrðu kosnir tveir þingforsetar til að taka við stjórn þingsins. Hann lagði til að fyrsti forseti yrði Sigríður Jónsdóttir og annar forseti verði Viðar Helgason. Tillaga Ingvars samþykkt með lófataki. Ingvar stígur úr pontu og Sigríður tekur við. Sigríður Jónsdóttir, þingforseti: „Formaður og ágætu þingfulltrúar. Ég þakka ykkur það traust sem þið sýnið mér enn einu sinni með því að treysta mér til að stýra þingi ÍBR. Áður en ég gef gestum færi á að ávarpa þingið vil ég leggja til að í kjörbréfanefnd verði kjörin Jónas Sigurðsson, Guðmundur Adolfsson og Sæunn Viggósdóttir.“ Tillagan var samþykkt með lófataki og nefndin beðin að starfa í stuttu þinghléi á eftir. Sigríður sagði að áður en formleg þingstörf myndu hefjast væri gestum boðið að ávarpa þingfulltrúa. Fyrstur hefur beðið um orðið forseti ÍSÍ, Lárus Blöndal. Lárus Blöndal ávarpar þingið: „Formaður ÍBR, Þingforseti, Borgarstjóri og aðrir góðir gestir. Ég ætla að taka undir það sem formaður ÍBR sagði hér áðan að samstarf ÍBR og ÍSÍ hefur verið mjög gott í gegnum árin og ýmsir snertifletir sem tengja samstarf okkar saman. Við getum til dæmis nefnt þetta verkefni sem er nú stærsta verkefni sem ÍSÍ hefur komið að í mótahaldi sem eru Smáþjóðaleikarnir sem eru núna í byrjun júní á þessu ári. Þar hefur ÍBR verið mikilvægur samstarfsaðili okkar og reyndar líka Reykjavíkurborg og ég verð að segja að bæði ÍBR og ekki síst Reykjavíkurborg hafa komið að þessu verkefni með miklum myndarbrag. Fyrst að borgarstjórinn er mættur vil ég taka það fram að við erum sérstaklega ánægð með hversu tilbúin Reykjavíkurborg hefur verið til að koma til móts við þær óskir sem hafa komið upp bæði í tengslum við mannvirki og tækjabúnað sem við höfum fengið afnot af frá borginni. Það skiptir svo miklu máli fyrir íþróttalífið að fá svona mót eins og Smáþjóðaleikanna því þetta verður líka til þess að mannvirkin og tækjabúnaðurinn eru tekin út af tækninefnd Smáþjóðaleikana og verður til þess þá að gripið er til ráðstafana til að færa þau upp til þeirra gæða sem krafist er á alþjóðlegum stórmótum. En þessir Smáþjóðaleikar eru, eins og ég sagði áðan, mjög stórt verkefni og stærsta verkefni í keppnishaldi sem ÍSÍ hefur tekið þátt í. Við erum til að mynda með um 1200 sjálfboðaliða okkur til aðstoðar við mótshaldið sem segir kannski sitt um umfangið. Við erum að fá til okkar hátt í 1000 erlenda keppendur og til viðbótar þeirra fylgdarfólk við höfum því tekið á leigu hótelrými, það eru 12 þúsund hótelnætur sem við munum nota þessa fyrstu viku í júní. Þetta er mót sem við ætlum að verða mjög stolt af og við hvetjum alla sem hér eru og þá sem hér eru mættir fyrir að sýna þessa móti fullan áhuga og gera þetta að svona móti sem Íslendingar munu muna eftir. Við viljum fá marga áhorfendur, ætlum að gera þetta að svona íþróttaveislu og vonumst til þess að þið verðið okkur innan handar við það og ég veit að ÍBR mun gera allt sem í þeirra valdi stendur til að svo verði. ÍBR er náttúrulega langstærsta íþróttahéraðið á landinu, það þarf ekkert að fara í grafgötur með það, og starfið sem hér er unnið er gríðarlega mikið. Mig langar sérstaklega að nefna RIG leikana sem hafa verið að eflast mjög á undanförnum árum og eru satt að segja orðnir þannig að ÍBR má vera mjög stolt af því að hafa komið þessu af stað. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli að svona öflug samtök eins og ÍBR taki einmitt svona ákvarðanir, að fara út í svona mótahald sem skiptir alveg gríðarlega miklu máli fyrir 7


allt okkar íþróttafólk, hérna koma menn og konur alls staðar að úr heiminum til að taka þátt í íþróttakeppni og þetta færir íslensku íþróttafólki tækifæri til að bera sig saman við alþjóðlega umhverfið. Við höfum komið aðeins að þessum leikum en ÍBR og ÍSÍ hafa staðið saman að ráðstefnuhaldi í tengslum við leikana og það hefur aukið gildi þeirra fyrir íslensku íþróttahreyfinguna og íslensku þátttakendurna. Talandi um stærsta íþróttahérað landsins þá vil ég nefna að við frá ÍSÍ fórum í hringferð um landið og heimsóttum 13 héraðssambönd og íþróttabandalög og síðan félögin undir þeim og það var mjög lærdómsríkt að fara svona um, skoða hvern stað og hitta bæði fulltrúa íþróttahreyfingarinnar og einnig sveitafélaga. Það sem vakti mesta athygli okkar var hversu vel búið er að íþróttamönnum varðandi húsakost og búnað miðað við hve víða var um fámenn byggðarlög að ræða. Ég ætla að nota þetta tækifæri hér til að segja það að sveitarfélög á Íslandi hafa staðið sig gríðarlega vel á undanförnum árum að byggja upp íþróttamannvirki og það er eiginlega með ólíkindum þegar maður skoðar þetta í þessu samhengi að það er víðast hvar mjög vel búið að íþróttafólki og það hefur gerst í mörgum tilvikum á ekkert mjög löngum tíma. Við eigum ennþá eftir að heimsækja nokkur íþróttahéruð, meðal annars ÍBR og lítum nú til þess að koma á fundi á næstu vikum. En þetta gefur okkur hjá ÍSÍ svolitla jarðtengingu, þó að við þekkjum kannski tiltölulega vel starfið hér í Reykjavík þá er mjög áhugavert að sjá hvernig starfið er úti á landi og hvernig búið er að fólki þar en líka að heyra sjónarmið sveitafélaga og sveitarstjórnarmanna um hvernig aðkoma þeirra er best fyrir komið að íþróttastarfinu. Mig langar líka að nefna það sem tengist samstarfi okkar við íþróttafélög hér á höfuðborgarsvæðinu að við hlutum verðlaun hér á síðasta ári, Norrænu lýðheilsuverðlaunin fyrir framlag okkar til bættrar lýðheilsu á Íslandi og erum við mjög stolt af þessum verðlaunum. Þessi verðlaun eru semsagt veitt aðeins einum aðila af Norrænu ráðherranefndinni og Norræna Lýðheilsuskólanum sem hefur unnið mikið starf að því að efla lýðheilsu á sínu svæði og við teljum að þetta sé viðurkenning til okkar starfsfólks og samstarfsaðila sem og íþróttafélaganna allra en þátttakendur í okkar almenningsíþróttaverkefnum eru nú í kringum 60 eða 70 þúsund á ári. Það er vonandi að fara að vora og með vorinu verður haldið hér íþróttaþing um miðjan apríl, síðan hefst Hjólað í vinnuna í byrjun maí og við erum þegar byrjuð að undirbúa Kvennahlaup ÍSÍ. Við munum taka þátt í Evrópuleikum sem munu verða fyrstu Evrópuleikar í sögunni og verða haldnir í Bakú í Aserbaídsjan viku eftir Smáþjóðaleikana. Síðan tökum við þátt í Ólympíuhátíð Evrópu æskunnar sem verður haldin í júlí svo að það er mikið á dagskránni hjá okkur ÍSÍ og við erum mjög ánægð með að hafa svona öflugt fólk í kringum okkur bæði ÍBR, félögin sem starfa undir því og einnig félögin sem við höfum með okkur í kringum allt landið. Mig langar að veita hér viðurkenningu. Það er ánægjulegt hlutverk okkar að fá að veita fólki viðurkenningar fyrir gott starf í þágu íþróttahreyfingarinnar. Við erum með tvo aðila sem við óskum eftir að komi hér upp en það eru Gústaf Adolf Hjaltason og Lilja Sigurðardóttir. Gústaf Adolf Hjaltason var formaður sundfélagsins Ægis um árabil, hann sat í stjórn Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar í 3 ár, hefur setið í stjórn Sundráðs Reykjavíkur um árabil. Hann átti sæti í varastjórn Íþrótta og ólympíusambands Íslands frá 2009 til 2013 og sat í ýmsum ráðum og nefndum ÍSÍ á því tímabili, m.a. í stjórn þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ. Gústaf er einnig einn af upphafsmönnum 8


Reykjavíkurleikanna og hefur komið með miklum myndarbrag að undirbúningi og framkvæmd þeirra leika. Við ætlum að veita hér Gústafi Adolf gullmerki ÍSÍ. Lilja Sigurðardóttir hefur setið lengi í stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur eða í um 13 ár og síðustu 5 ár einnig í stjórn Íslenskra getrauna. Á þessum tíma hefur hún einnig starfað í ýmsum ráðum og nefndum ÍBR. Við ætlum að veita Lilju silfurmerki ÍSÍ. Nú að lokum óska ég ykkur góðs gengis á þinginu og vona að þið haldið áfram að standa ykkur vel í íþróttastarfinu. Takk fyrir.“ Sigríður þakkaði Lárusi fyrir hlý orð í garð ÍBR og óskaði viðurkenningarhöfum til hamingju. Hún sagði næstan hafa beðið um orðið Borgarstjórann í Reykjavík, Dag B. Eggertsson. Dagur B. Eggertsson ávarpar þingið: „Formaður ÍBR, forseti ÍSÍ, ágætu þingforsetar og kæru félagar það er sannur heiður að fá að vera með ykkur hérna í dag, sérstaklega sem fulltrúi stærsta íþróttahéraðsins sem mér var bara alls ekki ljóst fyrr en ég kom hérna. En Reykjavík er auðvitað hérað. Ég er þó ekki hér til þess að gera það að umtalsefni heldur til þess að undirstrika gott samstarf sem við höfum átt við íþróttahreyfinguna á undanförnu ári og árum. Ég veit ekki hvort það átta sig allir á því hversu íþróttir eru í raun fyrirferðamiklar í því sem fram fer í venjulegri viku í ráðhúsinu eða borgarstjórn eða í samfélaginu. En mér flaug það bara í hug á leiðinni hingað að í þessari viku höfum við verið í svo ólíkum verkum eins og að bjarga þaki af eitt stykki Egilshöll, halda eitt elsta alþjóðlega íþróttamótið sem er haldið á Íslandi þ.e.a.s. Reykjavíkurskákmótið. Í morgun vorum við í raun að fagna því í borgarráði að Leiknir er komið í fyrsta skipti upp í úrvalsdeild svo það þurfti að gera aðeins endurbætur þar á áhorfendaaðstöðunni auk þess sem við innsigluðum það að Fram ætti eftir að spila sína heimaleiki upp í Úlfarsárdal. Þannig það er að ýmsu að taka í svona hefðbundinni viku og að ekki vanti að það sé þetta þing ÍBR. Samstarf okkar við ÍBR er óvenju náið að ég held ég megi segja á þessum árum. Það má eiginlega segja að borgarstjórn og Íþróttabandalagið hafi verið sammála um það fyrir nokkrum árum síðan að hverfa aðeins til upprunans. ÍBR var stofnað að undirlagi, ef ég kann þessa sögu rétt, Bjarna Benediktssonar þáverandi borgarstjóra sem vildi að íþróttafélögin kæmu skipulagi á sín mál og kæmu fram sem einn aðili þannig að hann sem borgarstjóri sæti ekki og gerði upp á milli heldur væri þetta hugsað sem ein heild. Svo hefur þetta nú verið allavega og stundum á köflum skilst mér að það hafi verið komið los á þetta, ekki bara öll félög heldur allar deildir allra félaga töldu sig þurfa að leita til borgarinnar með öll sín mál, smá og stór. Gott skipulag á þessum málum er mjög mikilvægt og til þess að ramma það inn settum við saman sameiginlegan hóp fyrir einum þremur árum sem gerði framtíðarsýn fyrir íþróttahreyfinguna í Reykjavík og þar með íþróttir hjá borginni. Þessari framtíðarsýn erum við að fylgja eftir í sameiningu. Það er af mjög mörgu að taka í því og það er hægt að nefna jafn ólík verkefni eins og það að meta efnahagsleg áhrif íþrótta, sem er verkefni sem leynir á sér en skiptir mjög miklu máli. Við erum á hverjum degi að fylgja eftir stefnumótun um aukið jafnræði, bæði í aðgengi allra barna að íþróttum þar sem okkur er ofarlega í huga að efnahagsleg staða foreldra komi ekki í veg fyrir jöfn tækifæri. 9


Hækkuðum frístundakortið um áramótin útaf því. Við erum líka að vinna að jafnri aðstöðu kynjanna. Gott dæmi um það er úr Breiðholtinu þar sem voru of litlir hópar hjá Leikni til þess að fara í kvennaknattspyrnu þannig að ÍR og Leiknir spila nú í fagurbleikum búningum í sameiginlegu liði. Svipað dæmi er úr Fossvoginum þar sem Víkingur spilar með HK. Ég vildi líka nefna enn eitt dæmið sem er um ÍR þar sem yngstu árgöngunum er boðið eitt gjald og krakkarnir geta prófað allar íþróttir. Þetta finnst mér ofboðslega áhugavert verkefni vegna þess að við vitum það úr rannsóknum að fótboltamenn verða betri ef þeir hafa prófað aðrar íþróttir og þjálfað kraftinn, jafnvægið og annað og þetta á við um allar íþróttir. Þannig eru krakkarnir okkar kannski að velja eina leið of snemma og kannski er þetta dæmi sem væri áhugavert fyrir aðra til þess að kanna. En við erum líka að horfa og hlusta eftir ábendingum sem við höfum fengið. Á formannafundi sem ég hélt með íþróttahreyfingunni í Reykjavík síðastliðið haust komu fram ábendingar frá mjög mörgum um það að aðgengið með kynningu beint til barna þ.e.a.s. ekki bara til foreldra væri eitthvað sem þyrfti að skoða. Það er komin vinna í gang í við það innan Skóla – og frístundasviðs og ég á von á tillögum fyrir það seinna á þessu ári til þess að bæta þar úr því ég held að markmiðið sé eitt og það sama að við viljum að börn hafi gott og greitt aðgengi að upplýsingum um það frístundastarf sem er til þó við virðum sjónarmið skólanna um að það verði að vera einhver regla á því hvernig þetta ber að og hvernig þetta er skipulagt. En þetta má nú eiginlega kalla vetur fótboltahúsanna eða hvað? Að minnsta kosti horfum við með nokkurri öfund til risastórra knattspyrnuhúsa víða þar sem þau eru en ég tek þó eftir hinu að þó að þetta sé þannig og það sé auðvelt að hugsa svona þegar vetrarbyljirnir eru sem mestir að þá eru fleiri en eitt, fleiri en tvö og reyndar fleiri en þrjú og fjögur íþróttafélögin sem hafa verið að tala á öðrum nótum. Það virðist nefnilega líka vera reynslan, eins fín og þessi hús eru sitt hvoru megin við jólin eins og einhver sagði, að þjálfarar alveg niður í yngstu flokka vilja fara inn í þessi hús eins seint og þeir geta á haustin og út úr þeim eins snemma og þeir geta á vorin og þess vegna eru félögin farin að tala fyrir því sem töluðu áður fyrir húsi í héraðið að fá kannski frekar fjórðu kynslóðar gras á jafnvel aðalvöllinn til þess að hann megi nýta 100% allt árið á meðan þessi dýru en góðu mannvirki nýtast bara brot úr ári. Þetta myndi ég halda að væri umræða sem við þurfum að taka sem ein heild og forgangsraða fjármunum í þeirra sameiginlegu vinnu við forgangsröðun sem núna stendur yfir að hálfu borgarinnar og ÍBR. En það er fleira að gerast sem mér finnst áhugavert að nefna. Fjölnir forgangsraðaði til dæmis í þágu fimleika og það er ekki alltaf sem það hefur verið gert og þar er verið að opna glæsilega fimleikaaðstöðu að bestu gerð núna í haust. ÍR setti frjálsíþróttavöll á oddinn og við erum að fara í gang með hann í sumar. Þetta eru bara nokkur dæmi um að fjölbreytnin er líka að aukast og ég fagna því alveg sérstaklega. Ég held að krakkarnir okkar og íþróttahreyfingin sé fjölbreyttari, hún er meira að segja fjölbreyttari en hún er í íþróttafréttunum. Það er styrkur bæði fyrir börnin sem geta prófað margt og líka fyrir samfélagið sem býr að því að við erum ekki öll eins og að við viljum gera mismunandi hluti. Þarna skiptir mestu máli fyrir okkur í borgarstjórninni að hlusta á það sem þið leggið til og síðan þurfum við að vinna saman að þeim markmiðum sem við setjum okkur í sameiningu. Til þess er þetta þing, til þess er ég hérna komin og vegna þess að mér skilst að það séu léttar veitingar hérna rétt á eftir. Þakka ykkur fyrir.“ Sigríður Jónsdóttir, fyrsti þingforseti: „Dagur B. Eggertsson hefur lokið máli sínu. Það kom fram í ræðu formanns ÍBR að hann ætlaði ekki að flytja neina sérstaka skýrslu en heldur setti hann skýrslu stjórnar 10


inn í sitt ávarp í upphafi og því lítum við svo á að hann hafi þegar flutt skýrslu sína enda hefur skýrslan legið fyrir á netinu á heimasíðu ÍBR í nokkurn tíma. Það er rétt hjá Degi að við munum nú gera stutt hlé. En áður en við göngum til virkilega formlegrar dagskrár er rétt að taka það fram að samkvæmt lögum ÍBR þarf að boða til þessa þings með tveggja mánaða fyrirvara. Bréf fór til aðildarfélaga þann 20.janúar og því löglega til þings boðað og þetta þing er löglegt. Að þessu sögðu gerum við 15 mínútna kaffihlé.“ 17:45 Hlé – veitingar Sigríður þingforseti bauð fólk velkomið í salinn. Hún lagði til að Anna Lilja Sigurðardóttir yrði kjörin fyrsti þingritari og Una Þorgilsdóttir annar þingritari. Það var samþykkt einróma. Sigríður sagði að það væri verið að fara yfir kjörbréf. Hún sagði að þó það væri búið að fækka þingfulltrúum væri ekki verið að fækka atkvæðum og því þyrfti að fara vel yfir kjörbréfin. Einnig væri það þannig að sumir bæru tvö atkvæði og því þyrfti að taka sérstakt tillit til þess ef til atkvæðagreiðslu kæmi. 18:00 Ársreikningur ÍBR Sigríður sagði næsta lið á dagskrá vera reikninga ÍBR og bauð Lilju Sigurðardóttur í pontu til að kynna þá. Lilja Sigurðardóttir, gjaldkeri ÍBR, sagðist ætla að fara yfir ársreikning Íþróttabandalagsins vegna ársins 2014 en reikningur ársins 2013 var kynntur á formannafundi á síðasta ári. Hún sagði: „Uppsetning reikningsins er aðeins breytt frá því sem verið hefur og að þar væri verið að bregðast við athugasemdum við framsetningu sem gerðar voru á síðasta þingi. Nú er einn samstæðuársreikningur fyrir Íþróttabandalagið en ekki sérstakur fyrir hvert félag. Samstæðureikningurinn samanstendur eins og áður af Aðalsjóði ÍBR, Skautahöll og Framkvæmdasjóði. Samstæðureikningurinn er gerður í samræmi við lög og reglugerðir um ársreikninga og framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga. ÍBR er aðeins framkvæmdaaðili Reykjavíkurmaraþons og því er ársreikningur maraþonsins ekki felldur inní ársreikning ÍBR. Hinsvegar koma þær tekjur sem ÍBR hefur af maraþoninu fram í ársreikningi bandalagsins og helstu niðurstöður úr rekstri Reykjavíkurmaraþons koma nú fram í skýringum. Í ársreikningi bandalagsins er nú sérstakur liður þar sem gert er grein fyrir þátttöku Reykjavíkurmaraþons í launum á skrifstofu bandalagsins en ÍBR sér um framkvæmdina, greiðir laun starfsmanna og leggur til húsnæði. ÍBR hefur gert Reykjavíkurmaraþon að stórviðburði og með sífellt betri samningum við styrktaraðila og hagstæðum innkaupum t.d. á bolum þá er maraþonið farið að skila tekjum sem geta styrkt íþróttahreyfinguna og verður það gert í gegnum framkvæmdasjóð bandalagsins eins og Ingvar talaði um hér áðan. Á árinu 2014 komu 10 milljónir inn í framkvæmdasjóð frá Reykjavíkurmaraþoni og þær tekjur færast undir aðrar tekjur og framlög í ársreikningunum en samkvæmt samningi Reykjavíkurborgar og ÍBR fær ÍBR 50% af hagnaði hlaupsins. Löggiltur endurskoðandi, Reynir Ragnarsson, áritar nú reikninginn auk þess sem kjörnir skoðunarmenn þeir Guðmundur Frímannsson og Sigurður Hall hafa samþykkt og áritað reikningana.“ Lilja las nú upp reikninginn í þúsundum króna og vakti athygli á því að aftast væru sundurliðanir og skýringar. Sigríður bað formann kjörbréfanefndar Jónas Sigurðsson að koma upp og gera grein fyrir störfum nefndarinnar.

11


Jónas Sigurðsson, formaður kjörbréfanefndar, sagði 70 fulltrúa vera mætta sem bera 126 atkvæði. Hann sagði að samkvæmt reglum ættu stærstu félögin rétt á allt að 9 atkvæðum en að hámarksfjöldi fulltrúa væri 5 auk þess sem hámark væri 2 atkvæði á hvern fulltrúa. Félag með 3 fulltrúa mætta fær því bara 6 atkvæði. Komi til atkvæðagreiðslu þarf því að úthluta atkvæðum í samræmi við mætingu. Sigríður bar kjörbréfin undir atkvæði og voru þau samþykkt samhljóða. Sigríður sagði nú orðið laust vegna skýrslu stjórnar og reikninga. Gunnlaugur Júlíusson, fulltrúi Ungmennafélagsins Rauðagerðis 36, kvaddi sér hljóðs: „Ég vil þakka fyrir þær upplýsingar sem hafa verið lagðar fram hér á fundinum, bæði skýrslu stjórnar og ársreikninga. Gaman að fá yfirlit yfir það fjölþætta og öfluga starf sem fer fram innan ÍBR. ÍBR er náttúrulega gríðarlega mikilvægur aðili í samskiptum borgarinnar og íþróttafélaganna og íþróttastarfsins í samfélaginu. Það voru hérna tvö atriði sem mig langaði að minnast sérstaklega á varðandi ársreikninga. Ég þakka fyrir ársreikningana og sérstaklega finnst mér gaman að sjá og ánægjulegt hvað rekstur ÍBR stendur styrkum fótum. Það er ágætur hagnaður af starfseminni árið 2014 og ef maður ber saman veltu hér frá rekstri og skuldir ÍBR þá er ÍBR mjög vel statt hvað það varðar þannig að það myndi taka cirka tvö ár að borga upp allar skuldir ÍBR ef veltufé væri óbreytt í tvö ár. Það er mjög gott. Góð umsýsla fjármuna er alltaf ánægjuefni. En það eru tvö atriði sem mig langaði að minnast á varðandi reikningana. Í fyrsta lagi. Það var talað um það fyrir tveimur árum og gjaldkeri minntist á að áður hefðu tekjur frá Reykjavíkurmaraþoni verið dregnar frá skrifstofukostnaði áður en hann var færður inn í reikningana. Því hefur verið breytt og það er mjög gott en samt sem áður er færður tekjupóstur þar sem reiknuð þátttaka Reykjavíkurmaraþons í launum og skrifstofukostnaði ÍBR er fært sem frádráttarliður á gjaldaliðinn. Það er ekki fært sem tekjur fyrir ofan strik eins og maður segir. Árið 2002 var tekin upp hjá sveitarfélögunum svokölluð brúttóregla þannig að það eiga allar tekjur að koma fram tekna megin og öll gjöld gjalda megin. Annars sést ekki heildar velta hvort sem það er félag eða fyrirtæki. Þá eru heildar tekjur ÍBR á árinu 2014 1 milljarður, 2 milljónir og 962 þúsund og heildar útgjöld ÍBR á árinu 2014 947 milljónir og 971 þúsund. Þetta er brúttóreglan. Þetta skiptir engu máli varðandi útkomu og varðandi afgang, þetta er bara varðandi skýrar upplýsingar um að heildar tekjur og heildar gjöld liggi ljóst fyrir. Í öðru lagi þá verð ég að segja það að ég skil ekki alveg af hverju Reykjavíkurmaraþonið er ekki fært inn í ársreikningum ÍBR. Ég tek þetta fallega dagatal sem ég hef nú oft skoðað og dáðst að en þar stendur t.d. á meðal verkefna ÍBR er úthlutun tíma til íþróttafélaga, úthlutun á styrkjum til íþróttafélaga o.s.frv. og svo er rekstur Reykjavíkurmaraþons. Rekstur Reykjavíkurmaraþons er búinn að vera undir fána ÍBR síðan 2003, á annan áratug og er því eitt af föstum verkefnum ÍBR. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju það er ekki fellt inní samstæðureikning ÍBR. Mér finnst það bara mjög eðlilegur hlutur. Þetta er bara partur af starfseminni, mjög skemmtilegur og rekinn með góðum hagnaði sem betur fer. Það á bara að færa þetta inní heildar rekstur ÍBR. Ég sé engin rök fyrir öðru. Svo er annað atriði sem mig langaði til að minnast á og kemur undir skýrslu stjórnar. Það var talað töluvert um afreksíþróttir og stöðu afreksfólks og mannvirki sem er allt saman mjög gott. Það var líka minnst á það að það ætti að efla afrekssjóð ÍBR og það er vel. Því að ég verð að segja það að þegar 12


maður sér hvað veitt er miklum peningum af hálfu ÍBR til að styrkja einstaklinga, okkar glæsilegasta íþróttafólk í sveitarfélaginu, þá eru það ekki miklir peningar. Það eru 500 þúsund krónur, það eru 5 krónur á hvern íbúa í Reykjavík. Íþróttakona Reykjavíkur sem var í 11.sæti á heimslistanum í fyrra og 5.sæti á Evrópulistanum, hún fær 40 aura á hvern íbúa í Reykjavík, 50 þúsund krónur. Ég held að þessi 500 þúsund séu svipað og ég eyði fyrir sjálfan mig á ári í íþróttir og krakkana mína. Þetta eru ekki miklir peningar og vægast sagt mjög litlir peningar. Ég tók aðeins púlsinn hjá nokkrum sveitafélögum um hvað þau styrkja afrekseinstaklinga sína. Akureyri styrki þá um 6,3 milljónir árið 2013 en það var skorið niður árið 2014 í 1500 þúsund. Það voru semsagt 350 krónur á íbúa 2013 og 83 krónur á íbúa 2014. Árborg veitti 3,6 milljónir í það sama eða 450 krónur á íbúa, þar fyrir utan voru það 2,5 milljónir í frímiða í sund og annað svona „privilegium“ sem sveitarfélagið réði yfir. Mosfellsbær styrkti sitt afreksfólk um 3,1 milljón á árinu 2014 eða 340 krónur á hvern íbúa. Það voru 5 krónur á íbúa í Reykjavík, beinir styrkir til afrekseinstaklinga. Það kostar mikið að vera afreksmaður í íþróttum. Ég held að hjá ÍSÍ hafi menn stikað út að það séu svona 10 milljónir á ári fyrir einstakling, auðvitað svolítið mismunandi, þegar uppihald er tekið með. Þegar við tökum það frá þá eru það nokkuð margar milljónir. Þetta eru oft krakkar í skólum sem hafa ekki mikla peninga á milli handanna. Það er líka hægt að styrkja þá á ýmsan annan hátt. Það er hægt að veita þeim frímiða í sund. Það er hægt að gera magninnkaup þannig að landsliðsfólk fengi frímiða í sund. Það er hægt að gera magninnkaup hjá heilsuræktarstöðvum, æfingastöðvum þannig að þeir sem fara á Ólympíuleika, Heimsmeistaramót, Evrópumeistaramót, Norðurlandamót með landsliðinu fengju fría miða í æfingastöðvar. Það er hægt að beina því til stofnana borgarinnar að krakkar sem fara í landsliðferðir haldi launum í landsliðsferðum þannig að þau tapi ekki sumartekjunum á því að vera valin í landsliðið. Það er svo margt hægt að gera í krafti stærðarinnar og í krafti þess afls sem ÍBR stendur fyrir sem hægt er að létta undir með þessum krökkum sem við erum stolt af þegar þeim gengur vel. Það er ekki auðvelt að komast á toppinn. Takk fyrir“ Þráinn Hafsteinsson, fulltrúi ÍR, kvaddi sér hljóðs: „Ég vil þakka stjórninni fyrir skýrsluna og reikningana og sérstaklega vil ég þakka formanni ÍBR fyrir að taka svona hressilega á afreksmálunum í ræðunni sinni. Það var mál til komið. Svo förum við að lesa reikningana og ég finn bara engan lið sem að heitir afreksíþróttir eða neitt tengt afreksíþróttum. Ég er kominn til að spyrja af því að ég hjó eftir því að það komu 9 milljónir til að taka þátt í Norðurlandamóti Grunnskóla og International Childrens Games. 9 milljónir, gott mál. En hvar eru liðirnir sem innihalda afreksíþróttir og framlög ÍBR til afreksíþrótta? Það væri ágætt að fá skýringar á þessu. Takk fyrir“ Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR, kvaddi sér hljóðs: „Takk fyrir þessar athugasemdir. Þetta er reyndar umræða sem við þurfum að fara mjög grundikt ofan í núna. Þetta snýr í rauninni að mörgum öðrum þáttum en bara því að Íþróttabandalagið finni fé til að setja í afreksíþróttir. Það er ágætt að hafa þennan samanburð en til að ræða það sem Gunnlaugur kom inná þá er hann að tala um það þegar við afhentum íþróttakonu og íþróttamanni Reykjavíkur fé í Ráðhúsinu núna fyrr á þessu ári. Það eru auðvitað fleiri styrkir sem koma til afreksmanna í íþróttum en þetta og þar höfum við t.d. verið með mjög öfluga styrki til þeirra sem ná lágmörkum inná Ólympíuleika og annað slíkt. En þarna erum við að bera saman Íþróttabandalag Reykjavíkur á móti sveitarfélögum á

13


öðrum stöðum. Það er aftur á móti alveg rétt að það þarf að horfa á þessar tölur og við þurfum að bíta í skjaldarrendur með þetta. Það sama og Þráinn kom inná varðandi framlögin til afreksíþróttamála. Hlutverk Íþróttabandlags Reykjavíkur er auðvitað fyrst og fremst vettvangur íþróttafélaganna í borginni og það eru íþróttafél ögin sem eru að reka starfið. Vandi okkar hér sem erum í þessu sveitarfélagi, Reykjavík, er sá að sveitarfélagið heldur uppi afreksstarfi á mjög öflugan hátt í þessu húsi sem við erum t.d. í hér. Hér er sko íþróttafélag hinum megin við götuna sem notar þetta íþróttahús undir sína starfsemi en það er engu íþróttafélagi á landinu hent jafn oft útúr íþróttahúsinu sínu þar sem þeir eru með æfingar fyrir börn og unglinga útaf því að hér er verið að reka landsliðsstarf sem sannarlega er því styrkt af Reykjavíkurborg en ekki ríkinu. Hérna aðeins neðar er 10 þúsund manna stúka sem ég get nánast fullyrt að allavega meðan ég verð formaður og á meðan ég lifi verður ekkert íþróttafélag í Reykjavík sem þarf að nota nema mögulega í einhverjum 1-2 leikjum. Þarna er verið að styrkja mjög öflugt við afreksstarf á Íslandi með peningum Reykvíkinga. Þetta töluðum við um á síðasta þingi, við töluðum um þetta þegar við hvöttum ríkið til þess að fara í þessa umræðu um þjóðarleikvanga og koma með fé líkt og gert var mjög vel á sínum tíma varðandi vetraríþróttamiðstöð á Akureyri og þeirri uppbyggingu sem var þar. En ég ætla ekki að ýta þessari gagnrýni frá. Ég sagði í ræðu minni áðan að nú höfum við náð að byggja upp og efla sjóði okkar. Við erum að standa mjög vel að rekstrinum eins og kom fram í báðum fyrirspurnunum og umræðunum hérna áðan. Það er að gera okkur kleift að byggja upp aftur til dæmis afrekssjóð sem við getum styrkt beint úr til okkar einstaklinga sem eru að sækja keppnir erlendis eða æfingar sem og útbreiðslustarf fyrir íþróttafélögin til þess að kynna enn betur nýungar í hverfum og annað slíkt. Þá höfum við örlítið fé til þess mögulega að prófa ný verkefni, þróa okkur áfram og það er mjög mikilvægt að gera það. Mér finnst það mjög merkilegt að á þessum tveimur árum frá síðasta þingi þá komu fulltrúar knattspyrnufélaganna hér í Reykjavík til okkar og sögðu að við þyrftum að berjast fyrir því að það verði ekki sett króna meira í landsliðsverkefni á vegum KSÍ því það þarf að horfa á félögin hér í Reykjavík og þau voru að berjast fyrir sínar deildir. Það sama á við um aðrar íþróttagreinar, nú þarf að fara að hugsa þetta. Ég nefndi það líka í ræðu minni að við eigum að setja okkur markmið um hvað við eigum að bjóða í hverju hverfi fyrir sig. Hvert hverfi er jafn stórt og Kópavogur, liggur við. Og við eigum að vera með jafn góða þjónustu í hverju hverfi í Reykjavík eins og er í Kópavogi. Það á að vera okkar markmið.“ Reynir Ragnarsson, endurskoðandi ÍBR, svaraði fyrirspurn varðandi reikninga: „Ég var ráðinn endurskoðandi bandalagsins og gerði þessa reikninga. Varðandi það sem Gunnlaugur var að segja þá er það auðvitað rétt hjá honum að þetta hefur engin áhrif hvort sem þetta er eins og sagt er fyrir ofan eða neðan strik. Hvort þetta er dregið frá gjöldum eða fært sem tekjur. Menn geta jú deilt um það hvoru megin þetta eigi að vera. Fyrst og fremst er þetta auðvitað endurgreiðsla á kostnaði. Menn hafa nú ýmsan háttinn á svona framsetningu. Það sem Gunnlaugur var að vísa í kannski er það að það eru sérstakar reglur um reikningsskil sveitarfélaga, hann veit það í sjálfu sér miklu betur en ég. En við höfum litið þannig á að ÍBR á ekkert Reykjavíkurmaraþon. Við höfum litið þannig á að þetta væri eign borgarinnar, ÍBR væri framkvæmdaraðili að þessu og bæri þar af leiðandi ekki neina fjárhagslega ábyrgð 14


á Reykjavíkurmaraþoninu. Það eru fyrst og fremst rökin fyrir því að þetta er ekki sett inní ársreikninginn. Ef það kannski næst samkomulag við borgina sem ég hef bent stjórninni á að mér finnst nauðsynlegt að verði gerður samningur við borgina sem festi Reykjavíkurmaraþon í sessi, sérstaklega hver á þetta, hver á þennan viðburð. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að tekjurnar sem ÍBR hefur af Reykjavíkurmaraþoni eru færðar inn með þessum hætti. Ég vona að þetta svari spurningunni.“ Sigríður bar reikninga upp undir atkvæði. Þeir voru samþykktir með öllum atkvæðum nema einu. 18:15 Fjárhagsáætlun og skattgreiðslur félaga. Lilja Sigurðardóttir, gjaldkeri ÍBR, lagði fram fjárhagsáætlun Íþróttabandalagsins vegna áranna 2015 og 2016. Hún sagði að fjárhagsáætlun væri unnin út frá rekstrarreikning og ekki væri gert ráð fyrir sérstökum hækkunum á framlögum til ÍBR umfram verðlagshækkanir.

Þingskjal 1

Íþróttabandalag Reykjavíkur Fjárhagsáætlun 2015 og 2016

Rekstrartekjur

2015

2016

745.000

767.000

Útbreiðslustyrkur ÍSÍ,Lottó og Getraunir

98.000

101.000

Rekstrartekjur Skautahallar

83.000

85.500

Aðrar tekjur og framlög

29.000

29.900

5.500

5.700

960.500

989.100

Framlög og styrkir borgarsjóðs

Fjármagnstekjur

Tekjur:

15


Rekstrargjöld

Úthlutaðir styrkir Úthlutaðar Lottótekjur Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður Ýmis íþróttatengd starfsemi Húsnæðiskostnaður Rekstrargjöld Skautahallar Reiknuð þátttaka Reykjavíkurmaraþons í rekstri ÍBR Vextir og fjármagnstekjuskattur Afskriftir

Gjöld:

Hagnaður ársins

683.000

703.500

80.000

82.500

105.000

108.100

25.000

25.750

6.000

6.180

68.000

70.000

-40.000

-41.200

5.000

6.140

21.300

20.300

953.300

981.270

7200

7830

Sigríður sagði að í kvöld myndu nefndir starfa og lagði til að fólk myndi beina ábendingum sínum þangað. Fjárhagsáætlun var vísað í fjárhagsnefnd. Lilja Sigurðardóttir, gjaldkeri ÍBR, lagði fram tillögu um skattgreiðslu félaga:

Þingskjal 2

Skattar

aðildarfélaga til ÍBR

Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR.

47. þing ÍBR, haldið 19. -20. mars 2015, samþykkir að skattur aðildarfélaga ÍBR til bandalagsins verði 100 krónur á hvern félaga, 18 ára og eldri. Greinargerð: Um er að ræða óbreytt gjald frá því sem samþykkt var á síðasta þingi ÍBR. 16


Tillögunni var vísað til fjárhagsnefndar. 18:25 Tillögur. Frímann Ari Ferdinandsson gerði grein fyrir tillögu á breytingum á lögum ÍBR:

Þingskjal 3

Tillaga um breytingu á lögum ÍBR Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR. 47. þing ÍBR, haldið 19. -20. mars 2015, samþykkir eftirfarandi breytingar á lögum ÍBR: Breyting á 9. grein þar sem lagt er til að yfirstrikaður texti falli út og undirstrikaður texti bætist við: 9. grein Skattar Þjónustugjald aðildarfélaganna til ÍBR miðast við tölu gjaldskyldra félagsmanna, þ.e. 18 ára og eldri. Þing ÍBR ákveður upphæð skattsins gjaldsins fyrir hvert ár. Skýrslu- og reikningsár ÍBR miðast við almanaksárið. Breyting á 14. grein þar sem lagt er til að yfirstrikaður texti falli út og undirstrikaður texti bætist við: 14. grein Dagskrá þingsins skal vera þessi: 1.

Þingsetning

2.

Kosning fyrsta og annars þingforseta og fyrsta og annars þingritara.

3.

Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar.

4.

Lagt fram og rætt: Skýrsla stjórnar og ársreikningar og atkvæði greidd um þá.

5.

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun yfirstandandi árs og næsta árs og skattgreiðslur félaganna.

6.

Fyrri umræða um lagabreytingar, sem liggja fyrir. Laganefnd kjörin til að athuga breytingar fyrir síðari fund þingsins.

7.

Umræða um stefnumótun og starfsáætlun ÍBR.

8.

Ræddar tillögur og mál, sem liggja fyrir.

17


9.

Kosnar tvær 5 manna þingnefndir: fjárhagsnefnd og allsherjarnefnd. ÞINGHLÉ

10.

Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla.

11.

a)

Kosinn formaður ÍBR.

b)

Kosnir þrír stjórnarmenn úr fráfarandi stjórn.

c)

Kosnir þrír stjórnarmenn.

d)

Kosnir tveir varamenn.

e)

Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og tveir til vara.

f)

Kosin þriggja manna kjörnefnd og einn til vara sbr. 8. grein.

g)

Kosnar fastanefndir, er þingið ákveður.

12.

Lýst fjölda fulltrúa aðildarfélaga til íþróttaþings og kosnir viðbótarfulltrúar samkvæmt 16. gr.

13.

Önnur mál.

14.

Þingslit.

Þingið skal standa a.m.k. tvo daga. Þingið skal móta stefnu ÍBR, a.m.k. til næstu tveggja ára með því að ákveða þá málaflokka, sem leggja ber áherslu á í starfi framkvæmdastjórnar. Öllum stærri málum, sem þingið fær til meðferðar, skal vísað til nefnda og starfa þær á milli funda. Allar kosningar skulu vera bundnar og skriflegar, séu fleiri tilnefndir en kjósa skal. Verði atkvæði jöfn, ræður hlutkesti. Komi til þess að fleiri séu í kjöri en sæti eru fyrir skulu þeir eiga þess kost að bjóða sig fram til annars embættis ef þeir bíða lægri hlut í kosningu. Í sambandi við þingið má flytja erindi og hafa íþróttasýningar, eftir því sem tími er til. Við 18. grein bætist eftirfarandi texti (undirstrikað): 18. grein Á milli þinga stjórnar bandalaginu 7 manna framkvæmdastjórn, sem kosin er til tveggja ára í senn. Skal kjósa fyrst formann, en hina 6 í tvennu lagi, þannig að fæst þrír úr fráfarandi stjórn verði endurkosnir. Þeir þrír stjórnarmenn úr fráfarandi stjórn sem ekki voru kosnir samkvæmt þessu ákvæði á síðasta þingi eða setið hafa stystan tíma skulu hljóta kosningu. Séu einhverjir með jafnlanga setu að baki skal dregið um röð. Í framkvæmdastjórn má ekki kjósa þrjá eða fleiri menn frá sama aðildarfélagi. Formenn einstakra félaga, sérráða eða sérsambanda má ekki kjósa í framkvæmdastjórn. 18


Varamenn taka sæti í framkvæmdastjórn í þeirri röð, sem atkvæðamagn segir til um. Verði varamenn sjálfkjörnir skal varpa hlutkesti um röð þeirra. Framkvæmdastjórn skiptir sjálf með sér verkum. Formannafundur skal haldinn það árið, sem þing er ekki haldið og gerir þá framkvæmdastjórn grein fyrir störfum sínum frá síðasta þingi og leggur fram ársreikninga bandalagsins fyrir næsta reikningsár á undan. 10. grein Hvert það aðildarfélag, sem ekki hefur haldið aðalfund, ekki og sent skýrslur og ársreikninga í samræmi við 7. gr. og ekki greitt skatt/félagagjald missir atkvæðisrétt sinn á næsta þingi ÍBR og missir einnig rétt til að tilnefna fulltrúa á Íþróttaþing. Líði annað ár án þess að félag haldi aðalfund eða geri skil á skýrslum, ársreikningum og gjöldum, getur þing ÍBR tekið ákvörðun um, að félaginu skuli vikið úr bandalaginu. Ákveði þing að víkja félagi úr bandalaginu skal tilkynna það til félagsins, ÍSÍ og viðkomandi sérsambands/sérsambanda. Að öðru leyti vísast til 6. kafla í lögum ÍSÍ. Sigríður sagði orðið laust um tillöguna ef einhverjir vildu koma með stutta ábendingu. Enginn kvaddi sér hljóðs og því vísaði hún tillögunni til laganefndar. Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR, lagði fram tillögu um stefnu og starfsáætlun ÍBR næstu tvö árin. Þingskjal 4

Stefna og starfsáætlun stjórnar ÍBR fyrir starfsárin 2015 og 2016. Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR. 47. þing ÍBR, haldið 19. - 20. mars 2015 starfsáætlun framkvæmdastjórnar ÍBR fyrir

, samþykkir eftirfarandi stefnu og starfsárin 2015 og 2016:

Á starfstímabilinu verður unnið að gerð nýrra samstarfssamninga við Reykjavíkurborg þar sem leitast verður við að tryggja fjármagn og aðstöðu til reksturs íþróttafélaganna. Mikilvægt er að festa í sessi starf félaganna með auknum styrkjum til þess mikilvæga starfs sem þau vinna. Lögð verður áhersla á að tryggja fé til viðhaldsverkefna hjá félögum sem eiga og reka sín eigin mannvirki. Áfram verða gerðar kannanir á íþróttastarfi og þannig aflað upplýsinga sem nýtast til að leggja frekari línur í starfinu, hvar þurfi helst að styðja við og hvernig staða félaganna í Reykjavík er miðað við annarsstaðar. M.a. verður áfram unnið að því að gera samanburð milli sveitarfélaga varðandi aðstöðu til íþróttastarfs.

19


Á starfstímabilinu er stefnt að því að bjóða þeim sem starfa í íþróttahreyfingunni í Reykjavík að taka þátt í ýmsum námskeiðum og fyrirlestrum sem höfða til mismunandi hópa s.s. starfsmanna, stjórnarmanna, þjálfara, foreldra o.fl. Einnig verði horft til þess að auka enn frekar framboð á möguleikum til þátttöku í íþróttum fyrir unglinga. Sérstaklega verði horft til þeirra unglinga sem vilja vera þátttakendur í íþróttafélögunum en vilja ekki æfa oft í viku og hafa ekki hug á að verða afrefsfólk í íþróttum en vilja iðka sína íþrótt í sínu félagi. Með eflingu Verkefnasjóðs ÍBR opnast möguleikar á stuðningi við verkefni sem stuðla að þessu. Íþróttafélög gegna mikilvægu hlutverki í mannlífi borgarinnar, sérstaklega í nærsamfélaginu og er mikill og vaxandi áhugi hjá almenningi um þátttöku í hinum ýmsu íþróttum. Íþróttafélögin hafa vilja og áhuga á því að svara kallinu og bjóða almenningi upp á möguleika til iðkunar íþrótta í og við sín mannvirki og/eða í tengslum við hefðbundnara starf félaganna. Í þessu sambandi er mikilvægt að tryggja eðlilega þróun aðstöðu (mannvirkja og búnaðar). ÍBR mun leitast við að styðja við frumkvæði á þessu sviði í samstarfi við félögin og Reykjavíkurborg og getur Verkefnasjóður ÍBR nýst í því tilliti. ÍBR mun áfram sinna almenningsíþróttum borgaranna með útleigu íþróttatíma í skólahúsum og með þátttöku í ýmsum verkefnum sem ætlað er að efla þátttöku almennings í íþróttum. Afrekssjóður ÍBR hefur nú verið endurvakinn með breyttum reglum og er honum ætlað að styðja afreksíþróttastarf félaganna. Leitast verður við að aðstoða eftir megni ungt og efnilegt íþróttafólk sem og íþróttafólk í fremstu röð til þátttöku í mótum eða annarra verkefna sem ýtt geta undir enn frekari árangur þeirra. Áfram verður unnið að því að stofna afreksíþróttamiðstöð í húsi ÍBR þar sem boðið verður upp á markvissa og faglega þjónustu fyrir íþróttafélög, lið og hópa. Áfram verður þrýst á framhaldsskóla um að auðvelda afreksfólki að stunda þjálfun og keppni samhliða námi. ÍBR mun áfram sjá um framkvæmd ýmissa viðburða s.s. Reykjavíkurmaraþons, Laugavegshlaups, Miðnæturhlaups og Reykjavík International Games. Þá er stefnt að því að stofna til fleiri viðburða sem eflt geta íþróttalíf í Reykjavík. Starfsemi sérráðanna verður tryggður grunnur en áfram verður skoðað hvernig best er að haga starfi þeirra í framtíðinni. ÍBR mun vinna eftir stefnumótun og framtíðarsýn fyrir íþróttastarf í Reykjavík til ársins 2020 í samstarfi við aðildarfélögin og Reykjavíkurborg. Áfram verður unnið að því að efla jákvæða ímynd ÍBR sem hagsmunasamtaka íþróttafélaganna í Reykjavík og fagaðila í íþróttamálum almennt. Mikilvægt er að koma á framfæri við borgaryfirvöld að ÍBR sé aðili sem hægt er að treysta til að vera ráðgefandi aðili um íþróttamál í borginni á faglegan og skynsamlegan hátt. Jafnframt er mikilvægt að á hverjum tíma sé haldið virku sambandi milli félaganna og stjórnar og starfsfólks ÍBR þannig að starf bandalagsins endurspegli á hverjum tíma helstu þarfir félaganna og óskir um aðkomu ÍBR að tilteknum málum. 20


Sigríður lagði til að tillögunni væri vísað til allsherjarnefndar og var það samþykkt samhljóða.

Örn Andrésson, stjórn ÍBR, lagði fram tillögu um brotvikningu félaga úr ÍBR. Þingskjal 5

Tillaga um brottvikningu félaga. Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR.

47. þing ÍBR, haldið 19. - 20. mars 2015 , samþykkir að víkja Bandýmannafélaginu Viktor og Körfuknattleiksfélaginu Þóri úr bandalaginu. Greinargerð: Samkvæmt lögum ÍBR, 6. grein, getur þing ÍBR tekið ákvörðun um að víkja félögum úr bandalaginu geri þau ekki skil á skýrslum, ársreikningum og gjöldum eða hafi ekki haldið aðalfund. Þessi félög hafa ekki staðið skil á þessum gögnum og ekki haldið aðalfund í nokkurn tíma. Sigríður lagði til að tillögunni væri vísað til allsherjarnefndar og var það samþykkt samhljóða.

Snorri Þorvaldsson, Glímufélaginu Ármanni, lagði fram tillögu um umsókn um aðild að UMFÍ. Þingskjal 6

Umsókn um aðild að UMFÍ Flutningsaðilar: Snorri

Þorvaldsson og Sigfús Ægir Árnason.

47. þing ÍBR, haldið 19. -20. mars 2015, áréttar umsókn sína í UMFÍ. Jafnframt fagnar þingið umsóknum annarra íþróttabandalaga inn í samtökin. Þingið reiknar með því að sú leið er í gangi hjá UMFÍ, ÍBR og öðrum íþróttabandalögum varðandi þetta mál endi innan skamms með inngöngu þeirra allra. Sigríður lagði til að tillögunni væri vísað til laganefndar og var það samþykkt samhljóða. Sigríður sagðist hafa gert mistök áðan með þingskjal númer 5 en því hefði átt að vísa til laganefndar og lagði til að þingheimur myndi samþykkja það. Það var samþykkt samhljóða.

21


Örn Andrésson, stjórn ÍBR, lagði fram tillögu um samstarfssamning borgar og ÍBR.

Þingskjal 7

Samstarfsamningar borgar og ÍBR. Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR.

47. þing ÍBR, haldið 19. - 20. mars 2015 , felur stjórn ÍBR að berjast fyrir því komandi samningaviðræðum að borgaryfirvöld styðji með enn frekari hætti við íþróttahreyfinguna í Reykjavík í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar og ÍBR til ársins 2020.

Greinargerð: Samstarfssamningur Reykjavíkurborgar, ÍBR og íþróttafélaganna rennur út í árslok. Nú standa yfir samningaviðræður um nýjan samning. Mikilvægt er að efla enn frekar hið góða starf sem unnið er í íþróttum í Reykjavík. Í stefnu borgarinnar og ÍBR um íþróttamál til 2020 eru mörg verkefni tilgreind sem vert er að vinna að s.s. að bjóða fleiri valmöguleika á þátttöku í íþróttum fyrir börn og unglinga, auka þátttöku almennings í íþróttum, styðja betur við afreksíþróttastarf, lengja æfingatímabil í mannvi rkjum, bæta úr brýnni viðhaldsþörf í mörgum mannvirkjum, mæta þörf á fleiri mannvirkjum í borginni og fleira.

Sigríður sagði tillögu um að vísa tillögunni til umfjöllunar í fjárhagsnefnd. Það var samþykkt samhljóða.

Viggó Viggósson, stjórn ÍBR, lagði fram tillögu um áskorun um uppbyggingu mannvirkja Þingskjal 8

Áskorun um uppbyggingu mannvirkja. Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR.

47. þing ÍBR, haldið 19. - 20. mars 2015 , skorar á Reykjavíkurborg að setja aukna fjármuni til byggingar nýrra mannvirkja h já íþróttafélögum í Reykjavík. Greinargerð: Eftir hrunið hefur íþróttahreyfingin sýnt mikla biðlund varðandi nauðsynlega uppbyggingu nýrra mannvirkja sem er lykilatriði til áframhaldandi þróunar félaganna sem og til að geta haldið uppi öflugri þjónustu við sífellt stækkandi hóp þátttakenda hjá félögunum.

22


Mannvirkjanefnd ÍBR og Reykjavíkurborgar hefur verið að störfum undanfarin misseri og mikilvægt er að tillaga að forgangsröðun á gerð nýrra mannvirkja klárist sem fyrst. En það er einnig mikilvægt að tryggja fjármagn til að fylgja eftir slíkri forgangsröðun og gera áætlun um uppbyggingu. Viggó sagði að þetta væri mjög mikilvæg tillaga og skoraði á þingið að vinna hana vel. Hann sagði einnig að ÍBR hefði sent út könnun til félaganna á síðasta ári þar sem spurt var um hvaða ný mannvirki þau þyrftu helst á að halda þ.e. hver þeirra forgangsröðun væri en jafnframt var spurt hvaða mannvirki þau teldu að helst vantaði í Reykjavík í heild sinni. Þá sagði Viggó að það væri miður að aðeins um 20 félög hefðu svarað og skoraði á forsvarsmenn hinna að skila inn svörum því það væri mjög mikilvægt að ÍBR vissi hug félaganna þegar farið væri í viðræður við borgina. Sigríður sagði tillögu um að vísa þessu til fjárhagsnefndar og var hún samþykkt samhljóða. Gígja Gunnarsdóttir, stjórn ÍBR, lagði fram tillögu um myndun stuðningshóps vegna siðamála. Þingskjal 9

Tillaga um myndun stuðningshóps vegna siðamála Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR.

47. þing ÍBR, haldið 19. - 20. mars 2015 , samþykkir að fela stjórn ÍBR að vinna að því mynda hóp sérfræðinga til stuðnings aðilum innan ÍBR, komi upp mál sem varðar siðamál af ýmsu tagi. Greinargerð: Á undanförnum árum hefur íþróttahreyfingin gert ýmislegt til að efla starfsemi sína með tilliti til siðamála, meðal annars: Sett fram siðareglur og hegðunarviðmið (þing ÍSÍ 2011). Gefið út aðgerðaáætlun gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun (ÍSÍ, bæklingur). Gefið út bækling um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi (ÍSÍ). Bætt inn í lög ÍSÍ ákvæði um að einstaklingur sem hefur hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga má ekki starfa sem sjálfboðaliði eða launþegi innan íþróttahreyfingarinnar (þing ÍSÍ 2013). Gefið út jafnréttisstefnu (ÍBR 2013). Einnig hefur verið gefin út viðbragðsáætlun (ÍSÍ) ef upp koma áföll og óvæntir atburðir. Í áætluninni kemur m.a. fram að æskilegt sé að íþróttafélög setji fram sína eigin viðbragðsáætlun og komi á fót viðbragðsteymi. Hlutverk viðbragðsteymis íþróttafélaga er m.a. að aðlaga viðbragðsáætlunina að allri starfsemi félagsins, veita stuðning, huga að eftirfylgd og meta þörf á utanaðkomandi aðstoð.

23


Reynslan hefur sýnt að mál vegna m.a. kynferðislegs ofbeldis og eineltis eru oft erfið úrlausnar og ekki alltaf á færi leikmanna að leysa úr, eðlilega treysta margir sér heldur ekki til þess. Því er lagt til að myndaður verði hópur aðila sem sérþekkingu hafa á þessu sviði og hefur það hlutverk að aðstoða við úrlausn mála sem upp kunna að koma með faglegum hætti. Sigríður sagði tillögu um að vísa tillögunni til allsherjarnefndar og var hún samþykkt samhljóða.

Lilja Sigurðardóttir, stjórn ÍBR, lagði fram tillögu um frístundaakstur. Þingskjal 10

Tillaga um frístundaakstur. Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR. 47. þing ÍBR, haldið 19. -20. mars 2015, felur stjórn ÍBR að fara þess á leit við borgaryfirvöld að þau styrki frístundaakstur hverfafélaganna í borginni um a.m.k. 30 milljónir á ári næstu árum. Greinargerð: Ljóst er að frístundakstur hverfafélaganna eykur möguleika á að nýta betur íþróttamannvirkin þar sem mögulegt er að hafa æfingar fyrir börn fyrr á daginn en ella. Það liggur fyrir að stór hluti barna og unglinga tekur þátt í skipulögðu íþróttastarfi og frístundaaksturinn er mjög góð leið til að einfalda heildarskipulag hvers dags hjá fjölskyldum í borginni. Minni umferð einkabíla og aukin viðvera í vinnu hlýtur að vera jákvætt fyrir samfélagið. Kostnaður við að halda þessum akstri úti er talsverður og hefur reynst félögunum þungur í rekstri. Styrkur borgarinnar til þessa verkefnis hefur verið um 10 milljónir á ári síðustu árin og dugar hvergi nærri til. Vinnuhópur á vegum borgarinnar og ÍBR hefur komist að þeirri niðurstöðu að 30 milljónir króna myndu tryggja að frístundaakstur geti haldið áfram.

Sigríður sagði lagt til að tillögu á þingskjali númer 10 væri vísað til allsherjarnefndar. Það var samþykkt samhljóða.

24


Haukur Þór Haraldsson, stjórn ÍBR, lagði fram tillögu um samstarf íþróttafélaga og grunnskóla. Þingskjal 11

Tillaga um samstarf íþróttafélaga og grunnskóla. Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR. 47. þing ÍBR, haldið 19. -20. mars 2015, felur stjórn ÍBR að óska nú þegar eftir viðræðum við borgaryfirvöld um leiðir til að efla samstarf íþróttafélaga og skóla. Greinargerð: Í gegnum tíðina hefur íþróttahreyfingin átt mikið og gott samstarf við grunnskóla borgarinnar til að kynna nemendum það starf sem þau hafa upp á að bjóða fyrir börn og unglinga. Að undanförnu hefur félögunum ekki verið heimilað að kynna starf sitt í skólum eða í það minnsta settar mjög þröngar skorður þrátt fyrir að í samningi borgarinnar, íþróttafélaganna og ÍBR sé ákvæði um samstarf skóla og íþróttafélaga. Íþróttafélög í borginni hafa í áratugi átt í góðu samstarfi við grunnskóla um æfingar barna. Rannsóknir staðfesta mikilvægi daglegrar hreyfingar fyrir börn, skólastarf og samfélagið almennt. Það endurspeglast m.a. í áherslum aðalnámsskrár þar sem heilsa og velferð er nú einn af sex grunnþáttum menntunar. Fjölþætt gildi þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi er einnig vel þekkt og hefur líklega sjaldan verið mikilvægara en nú á tímum aukinnar kyrrsetu. Íþróttahreyfingin vill áfram vinna með grunnskólunum að því að stuðla að heilbrigði barna í borginni. Almennar samskiptareglur um slíkt samstarf eru góðar en mega ekki innihalda ákvæði sem hægt er að túlka sem hálfgert bann við samstarfi. Að mati ÍBR er best að hafa almennar samskiptareglur og svo geti skólastjórar gert samninga við íþróttafélög í sínu skólahverfi um nánara samstarf. Haukur Þór sagði gleðilegt að borgarstjóri hefði nær lofað í erindi sínu áðan að bætt yrði úr þessum málum. Sigríður sagði lagt til að tillögunni væri vísað til allsherjarnefndar og það var samþykkt samhljóða.

Guðrún Ósk Jakobsdóttir, stjórn ÍBR, flutti tillögu um áskorun vegna jafnréttisstefnu. Þingskjal 12

Áskorun vegna jafnréttisstefnu Flutning saðili: Framkvæmdastjórn ÍBR.

47. þing ÍBR, haldið 19. - 20. mars 2015 , skorar á öll aðildarfélög ÍBR að setja fram jafnréttisstefnu og innleiða hana í öllu sínu starfi.

25


Greinargerð: Í 23. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10 frá 2008 kemur fram að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun þar á meðal í íþrótta- og tómstundastarfi. Einstaklingum líður betur í umhverfi þar sem jafnrétti ríkir. Þar sem raunverulegt jafnrétti ríkir fá allir einstaklingar að njóta sín og ná fram sínu besta. Í þessu felst m.a að íþróttafélagið stuðlar að jöfnum tækifærum sinna félagsmanna og mismunar þeim ekki vegna kynferðis, uppruna, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða, skoðana, litarháttar eða annarrar stöðu. Í þjónustusamningum Reykjavíkurborgar við íþróttafélög er ákvæði um að þau skuli hafa virka jafnréttisstefnu. Í tengslum við þá vinnu hefur ÍBR unnið fyrirmynd af jafnréttisstefnu sem félög geta aðlagað að sínu starfi, sjá www.ibr.is. Sigríður sagði lagt til að þessu væri vísað til allsherjarnefndar, það var samþykkt samhljóða. 19:10 Kosning nefnda. Sigríður sagði að nú væri komið að kosningu í nefndir sem starfa í kvöld í sölum ÍSÍ í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Tillaga um fjárhagsnefnd: Hrafnkell Sigtryggsson, Sigurður Sveinbjörnsson, Haraldur Haraldsson, Þórarinn Már Þórarinsson og Kristmundur Bergsveinsson. Fleiri tillögur bárust ekki og var nefndin því rétt kjörin. Tillaga um allsherjarnefnd: Árni Jónsson, Jón Hlíðar Guðjónsson, Kristín Ólafsdóttir, Stefanía Ragnarsdóttir og Nikolay Matev. Fleiri tillögur bárust ekki og enginn hreyfði mótmælum og sagði Sigríður því að tillagan skoðaðist samþykkt. Tillaga um laganefnd: Eiríkur Einarsson, Garðar Eyland, Málfríður Sigurhansdóttir, Jórunn Harðardóttir og Lúðvík Þorgeirsson. Fleiri tillögur bárust ekki og tillaga um fulltrúa í laganefnd því samþykkt. Sigríður þakkaði þingfulltrúum fyrir góð störf í kvöld og hvatti þingfulltrúa til að sækja fundi nefnda í Íþróttamiðstöðinni. Hún sagði þingfundi frestað þangað til klukkan fimm á morgun föstudag. 19:30 Hlé.

26


Föstudagur 20.mars 2015 17:00 Álit nefnda. Sigríður Jónsdóttir, þingforseti, ávarpaði þingfulltrúa og setti seinni þingdag þings Íþróttabandalags Reykjavíkur og bauð alla velkomna. Hún vildi aðeins gefa fólki færi á að koma í salinn, föstudagsumferðin þyngri og fólk gæti verið að týnast í Laugardalnum. En hún sagðist ekki ætla að refsa þeim sem mættu á réttum tíma þannig að strax yrði hafist handa við dagskrána. Eftir þinghlé segir samkvæmt lögunum að þá er álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla. Hún og hennar aðstoðarmaður höfðu aðeins rætt hvað væri skynsamlegast að gera varðandi tillögurnar. Þeirra niðurstaða var að fá fyrst álit laganefndar, taka síðan fyrir allsherjarnefnd og að lokum fjárhagsnefnd. Henni hafði verið tjáð að það hefðu verið skipti, af varamannabekknum, í formannssæti laganefndar. Garðar Eyland myndi greina frá niðurstöðum laganefndar. Einu vildi hún koma að áður en hún hleypti honum í pontu en það var að árétta aðferðir varðandi atkvæðaseðla. „Eins og flestum er kunnugt var því breytt á þingi ÍBR fyrir tveimur eða fjórum árum að fulltrúar mega fara með tvö atkvæði. Eins og kom fram í máli formanns hér í gær hefur fækkað fulltrúum en stóru íþróttafélögin sem eiga rétt á níu atkvæðum á þing ÍBR geta nýtt þessi níu atkvæði með fimm einstaklingum. Fjórir einstaklingar geta því farið með tvöfalt atkvæði og einn með eitt atkvæði. Það voru sett í möppurnar ykkar, eins og þið vitið, rauð og gul spjöld. Gula spjaldið er að sjálfsögðu já og rauða spjaldið mótatkvæði. Ef á þetta reynir, og við sjáum að það er tæpt í atkvæðagreiðslu, þá sérstaklega varðandi tillögur til lagabreytinga þar sem þarf 2/3 atkvæða, þá munum við dreifa atkvæðum. Það er þó samt þannig eins og kom fram í máli í gær að ef félag, sem ætti rétt á níu atkvæðum inná þetta þing, sem er aðeins með þrjá fulltrúa mætta þá geta þeir þrír aðeins haft sex atkvæði. Hver þeirra getur farið með tvö atkvæði. Atkvæðin eru í samræmi við fjölda þingfulltrúa.“ Hún vonar að þetta skiljist og langar á eftir að láta á það reyna, þótt annað komi fram í þingsköpum, að þessir litríku atkvæðaseðlar verði notaðir. Að þessu sögðu gefur Sigríður Garðari Eyland orðið. Garðar Eyland, formaður laganefndar, flutti tillögur laganefndar: „Þingforseti og ágætu þingfulltrúar. Í laganefndinni voru fimm aðilar. Það voru Málfríður Sigurhansdóttir, Jórunn Harðardóttir, Eiríkur Einarsson, Lúðvík Þorgeirsson og Garðar Eyland. Þrjú erindi lágu fyrir nefndinni, það voru þingskjöl númer 3, 5 og 6 og nefndin fór yfir þessi skjöl eins og reglur kveða á um. Ég ætla að hlaupa yfir þetta í stórum dráttum og okkar vinna fór að mestu leyti í þingskjal númer þrjú. Og það var eiginlega eitt atriði sem við gerðum athugasemd við en ég ætla að fara yfir þau öll. Í 9. grein kemur fram breyting eins og Frímann Ari fór yfir í gær, þar er breytt úr skatti í þjónustugjald, sem er ágætis breyting og nefndin gerir ekki athugasemd við það. 14. grein kemur fram að liður 11.b, þar bættum við inn að kosnir þrír stjórnarmenn af sex úr fráfarandi stjórn. Og næstsíðasta málsgrein í 14. grein, þar stendur að komi til þess að fleiri séu í kjöri en sæti eru fyrir skulu þeir eiga þess kost að bjóða sig fram til annars embættis ef þeir bíða lægri hlut í kosningu. Nefndin leit svo á að það væri einungis verið að benda fólki á að það gæti boðið sig fram aftur ef það félli í fyrri kosningu. Sem dæmi um það að þá er kosið til stjórnar sex menn í tvennu lagi og það er hægt að benda á það að ef þeir sem falla í fyrri kosningu geta þá boðið sig fram í seinni kosningu. Þannig að við 27


lítum svo á að það sé einungis verið að hnykkja á því. Það er verið að benda fólki á þetta og við gerum ekki athugasemd við það. Í 18. greininni þá tókum við út setninguna: „Þeir þrír stjórnarmenn úr fráfarandi stjórn sem ekki voru kosnir samkvæmt þessu ákvæði á síðasta þingi eða hafa setið stystan tíma skulu hljóta kosningu. Séu einhverjir með jafn langa setu að baki skal dregið um röð“. Nefndarmenn voru sammála um að nota lýðræðið í þessu og fella þessa setningu út. Ef menn væru jafnir þá væri hreinlega kosið aftur, það væri hin lýðræðislega leið til að fá endanleg úrslit. Síðan er setning sem forráðamenn einstakra félaga, sérráða, sérsambanda eða íþróttahéraða mega ekki kjósa í framkvæmdarstjórn. Hér settum við inn íþróttahérað og eftir því sem okkur best skilst þá er íþróttahérað samnefnari yfir íþróttabandalag og héraðssamband. Það er það sem okkur er tjáð og þess vegna notuð við þetta orð þarna inn. Í 10. Greininni: Hvert aðildarfélag sem ekki hefur haldið aðalfund, ekki sent skýrslu og ársreikninga í samræmi við 7. grein og ekki greitt þjónustugjald missir atkvæðisrétt. Nefndin hefur ekkert við þetta að athuga og breytti einungis skatti í þjónustugjald eins og kom hér fram í 9. greininni. Að öðru leyti hefur hún ekki neitt við það að athuga. Þetta eru þau atriði sem nefndin fór yfir og var sammála um að leggja þetta fram með þessum hætti. En eins og ég segi var eina breytingin sem við í rauninni gerðum var það að fella út úr 18. greininni og að þar yrði kosið í stjórn.“

Þingskjal 3

Laganefnd

Tillaga um breytingu á lögum ÍBR Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR. 47. þing ÍBR, haldið 19. -20. mars 2015, samþykkir eftir farandi breytingar á lögum ÍBR: Breyting á 9. grein þar sem lagt er til að yfirstrikaður texti falli út og undirstrikaður texti bætist við: 9. grein Skattar Þjónustugjald aðildarfélaganna til ÍBR miðast við tölu gjaldskyldra félagsmanna, þ.e. 18 ára og eldri. Þing ÍBR ákveður upphæð skattsins gjaldsins fyrir hvert ár. Skýrslu- og reikningsár ÍBR miðast við almanaksárið. Breyting á 14. grein þar sem lagt er til að yfirstrikaður texti falli út og undirstrikaður texti bætist við: 14. grein Dagskrá þingsins skal vera þessi:

28


1.

Þingsetning

2.

Kosning fyrsta og annars þingforseta og fyrsta og annars þingritara.

3.

Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar.

4.

Lagt fram og rætt: Skýrsla stjórnar og ársreikningar og atkvæði greidd um þá.

5.

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun yfirstandandi árs og næsta árs og skattgreiðslur félaganna.

6.

Fyrri umræða um lagabreytingar, sem liggja fyrir. Laganefnd kjörin til að athuga breytingar fyrir síðari fund þingsins.

7.

Umræða um stefnumótun og starfsáætlun ÍBR.

8.

Ræddar tillögur og mál, sem liggja fyrir.

9.

Kosnar tvær 5 manna þingnefndir: fjárhagsnefnd og allsherjarnefnd. ÞINGHLÉ

10.

Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla.

11.

a)

Kosinn formaður ÍBR.

b) Kosnir þrír stjórnarmenn úr fráfarandi stjórn. c) Kosnir þrír stjórnarmenn. d)

Kosnir tveir varamenn.

e)

Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og tveir til vara.

f)

Kosin þriggja manna kjörnefnd og einn til vara sbr. 8. grein.

g)

Kosnar fastanefndir, er þingið ákveður.

12.

Lýst fjölda fulltrúa aðildarfélaga til íþróttaþings og kosnir viðbótarfulltrúar samkvæmt 16. gr.

13.

Önnur mál.

14.

Þingslit.

Þingið skal standa a.m.k. tvo daga. Þingið skal móta stefnu ÍBR, a.m.k. til næstu tveggja ára með því að ákveða þá málaflokka, sem leggja ber áherslu á í starfi framkvæmdastjórnar. Öllum stærri málum, sem þingið fær til meðferðar, skal vísað til nefnda og starfa þær á milli funda. Allar kosningar skulu vera bundnar og skriflegar, séu fleiri tilnefndir en kjósa skal. Verði atkvæði jöfn,

29


ræður hlutkesti. Komi til þess að fleiri séu í kjöri en sæti eru fyrir skulu þeir eiga þess kost að bjóða sig fram til annars embættis ef þeir bíða lægri hlut í kosningu. Í sambandi við þingið má flytja erindi og hafa íþróttasýningar, eftir því sem tími er til. Við 18. grein bætist eftirfarandi texti (undirstrikað): 18. grein Á milli þinga stjórnar bandalaginu 7 manna framkvæmdastjórn, sem kosin er til tveggja ára í senn. Skal kjósa fyrst formann, en hina 6 í tvennu lagi, þannig að fæst þrír úr fráfarandi stjórn verði endurkosnir. Í framkvæmdastjórn má ekki kjósa þrjá eða fleiri menn frá sama aðildarfélagi. Formenn einstakra félaga, sérráða, sérsambanda eða íþróttahéraða má ekki kjósa í framkvæmdastjórn. Varamenn taka sæti í framkvæmdastjórn í þeirri röð, sem atkvæðamagn segir til um. Verði varamenn sjálfkjörnir skal varpa hlutkesti um röð þeirra. Framkvæmdastjórn skiptir sjálf með sér verkum. Formannafundur skal haldinn það árið, sem þing er ekki haldið og gerir þá framkvæmdastjórn grein fyrir störfum sínum frá síðasta þingi og leggur fram ársreikninga bandalagsins fyrir næsta reikningsár á undan. 10. grein Hvert það aðildarfélag, sem ekki hefur haldið aðalfund, ekki og sent skýrslur og ársreikninga í samræmi við 7. gr. og ekki greitt þjónustugjald missir atkvæðisrétt sinn á næsta þingi ÍBR og missir einnig rétt til að tilnefna fulltrúa á Íþróttaþing. Líði annað ár án þess að félag haldi aðalfund eða geri skil á skýrslum, ársreikningum og gjöldum, getur þing ÍBR tekið ákvörðun um, að félaginu skuli vikið úr bandalaginu. Ákveði þing að víkja félagi úr bandalaginu skal tilkynna það til félagsins, ÍSÍ og viðkomandi sérsambands/sérsambanda. Að öðru leyti vísast til 6. kafla í lögum ÍSÍ.

Sigríður sagði orðið laust um þessa tillögu á þingskjali 3. (Ákall úr salnum „Er Ingvar ekki formaður íþróttahéraðs?“). Ingvar Sverrisson kemur í pontu til að svara fyrirspurn úr sal. Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR,: „ Jú, það er rétt. Ég er auðvitað formaður íþróttahéraðs, það er spurning hvort við þurfum að hnykkja á því. Formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur situr sannarlega í framkvæmdarstjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur. Hugmyndin með þessu er náttúrulega sú að koma í veg fyrir að formenn íþróttahéraða eða íþróttabandalaga í öðrum sveitarfélögum. Það er að segja, formaður íþróttabandalags Akureyrar getur ekki setið í framkvæmdarstjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur. Það er í raun og veru verið að hnykkja á þessu. Það er spurning hvort það þurfi að skerpa á því til að tryggja það að það sé ekki alltaf verið að túlka það að formaður ÍBR sitji ekki í framkvæmdarstjórn.“ Sigríður Jónsdóttir: „Það er hér tillaga að smá lagfæringu sem mundi kannski árétta þetta sem fram kom í máli formanns. Í stað þess að setningin væri „formenn einstakra félaga, sérráða, sérsambanda eða 30


íþróttahéraða“ þá komi „formenn einstakra félaga, sérráða, sérsambanda og annars íþróttahéraðs“. Þannig að „annars“ verði í eintölu. Ég lít svo á að þetta sé breytingartillaga við það sem kom frá laganefnd en við mundum taka hverja grein fyrir sig. En orðið er laust. Tillaga að lagabreytingu að grein nr. 9. Ef enginn kveður sér hljóðs þá er umræðum lokið og ég ætla að láta reyna á það með gulu korti. Þeir sem samþykja 9. greinina eins og hún kemur hér fram „þjónustugjald aðildarfélaga til ÍBR miðast við tölu gjaldskyldra félagsmanna“ og svo framvegis. Þeir sem samþykja þetta vinsamlegast gefa merki með því að sýna mér gula spjaldið. Þetta er samþykkt samhljóða. Og ég held að það sé nokkuð víst að það sé með 2/3 greiddra atkvæða. Þá er hér til umræðu tillaga að breytingu á 14. grein. Ég ætla nú ekki að lesa þetta í heild sinni en Garðar Eyland gerði grein fyrir þessu hérna áðan. Tillaga frá laganefnd er sú að það standi í lok þessarar greinar „verði atkvæði jöfn ræður hlutkesti komi til þess að fleiri séu í kjöri en sæti eru fyrir skulu þeir eiga þess kost að bjóða sig fram til annars embættis ef þeir hljóti lægri hlut í kosningu. Orðið er laust um þessa tillögu. Nú ef enginn kveður sér hljóðs þá er umræðum lokið. Við lengjum þetta ekkert frekar en við þurfum. Þeir sem samþykja þetta vinsamlega gefið merki með því að sýna mér gula spjaldið. Ég horfi hérna arnaraugum yfir salinn og þetta sýnist mér vera samþykkt samhljóða. Er einhver á móti á ég að sjálfsögðu að spyrja. Það er enginn sem sýnir okkur rauða spjaldið þannig að þetta er samþykkt.“ Athugasemd úr sal: Í 14. grein, 11. lið d, vantar „kosnir þrír stjórnarmenn af sex“. Það vantar þarna „af sex“. Kom fram í upphaflegri tillögu en kom ekki fram í þeirri sem var dreift. Ingvar Sverrisson: „ Bara biðja fólk um að skrifa það við tillöguna og við lögum þetta ef fólk er samþykkt því.“ Sigríður Jónsdóttir: „ Ég ætla að bera þetta undir þingið. Það þarf ekki að vera að allir vilji gefa kost á sér til endurkjörs þannig að kannski þarf þetta ekkert endilega að vera inni í lögunum. Ef það eru ekki allir sem vilja gefa kost á sér, það eru allavega þrír, þannig að ég ætla að bera það undir þingheim hvort að þetta megi standa eins og það er. Þeir sem eru samþykir því vinsamlega gefið mér merki með gula spjaldinu. Þetta standi óbreytt eins og laganefnd hefur sent til okkar. Ég þarf að sjá rauðu spjöldin. Vinsamlegast þeir sem eru á móti þessu gefa merki. Þannig að þetta er samþykkt. Við höldum okkur við lögin eins og þau liggja hér fyrir og koma frá laganefnd, þ.e.a.s. varðandi þennan lið 11b en takk fyrir ábendinguna. Þá er það 18. greinin og það kom hér fram ábending um það að það væri óheppilegt að formaðurinn mætti ekki vera í framkvæmdarstjórn sem er alveg rétt. Það er komin hér breytingatillaga að tillögu frá laganefnd og í stað þess að hér standi „Formenn einstakra félaga, sérráða, sérsambanda eða íþróttahéraða“ þá á að lesa þessa grein „Formenn einstakra félaga, sérráða, sérsambanda eða annars íþróttahéraðs má ekki kjósa í framkvæmdarstjórn“ síðan „Varamenn taka sæti í framkvæmdarstjórn í þeirri röð sem atkvæðamagn segir til um. Verði varamenn sjálfkjörnir skal varpa hlutkesti um röð þeirra“. En orðið er laust um þessa tillögu. Orðið er laust. Ef enginn kveður sér hljóðs þá er umræðum lokið og ég bið ykkur vinsamlegast um að rétta upp gula spjaldið. Þannig að ég sjái þetta vel yfir salinn, ég horfi hérna yfir, þetta er samþykkt samhljóða. Er einhver á móti? Svo er ekki. Þá er það 10. greinin. Þar segir að hvert aðildarfélag sem ekki hefur haldið aðalfund, ekki sent skýrslur og ársreikninga í samræmi við 7. grein og ekki greitt þjónustugjald missir atkvæðarétt sinn á næsta þingi ÍBR 31


og svo framvegis. Þá er orðið laust um þessa tillögu. Ef enginn kveður sér hljóðs er umræðum lokið. Þeir sem samþykja 10. greinina með þessari breytingu vinsamlegast gefið merki með því að sýna mér gula spjaldið. Mér sýnist þetta vera samþykkt samhljóða. Er einhver á móti? Svo er ekki. Þá ber ég lög ÍBR upp samþykkt með þeim breytingum sem gerð hafa verið á lögunum. Þeir sem samþykja lög ÍBR eins og þau núna liggja fyrir vinsamlega gefið merki með því að sýna mér gula spjaldið. Þetta er samþykkt einróma. Þakka ykkur fyrir. Þá ætla ég að biðja þig Garðar að koma aftur hér og gera frekari grein fyrir tillögum laganefndar.“ Garðar Eyland, lagði fram tillögu um brottvikningu félaga og sagði að nefndi leggi til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Þingskjal 5

Laganefnd

Tillaga um brottvikningu félaga. Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR.

47. þing ÍBR, haldið 19. - 20. mars 2015 , samþykkir að víkja Bandýmannafélaginu Viktor og Körfuknattlei ksfélaginu Þóri úr bandalaginu.

Greinargerð: Samkvæmt lögum ÍBR, 6. grein, getur þing ÍBR tekið ákvörðun um að víkja félögum úr bandalaginu geri þau ekki skil á skýrslum, ársreikningum og gjöldum eða hafi ekki haldið aðalfund. Þessi félög hafa ekki staðið skil á þessum gögnum og ekki haldið aðalfund í nokkurn tíma. Sigríður Jónsdóttir: „Þingskjal nr. 5 kom óbreytt frá laganefnd og hún segir að 47. þing ÍBR samþykir að víkja Bandýmannafélaginu Viktor og Körfuknattleiksfélaginu Þóri úr bandalaginu. Orðið er laust um þessa tillögu. Ef enginn kveður sér hljóðs þá er umræðum lokið og þeir sem samþykja þessa tillögu eins og hún liggur hér fyrir vinsamlega gefið merki með því að sýna mér gula spjaldið. Ég horfi vel yfir salinn, þetta er samþykkt samhljóða. Einhver á móti? Ekkert rautt spjald. Þá bið ég þig Garðar um að halda áfram.“ Garðar Eyland: „Nefndin fór yfir þetta og sá enga ástæðu til annars heldur en að óska eftir því að þingið mundi samþykja þetta hjá þeim félögum. Þeir eru búnir að flytja þetta í mörg undanfarin ár og þeir hafa skilst mér, skipst á um að koma hér upp og flytja þetta en það er bara hið besta mál.“ Þingskjal 6

Laganefnd

Umsókn um aðild að UMFÍ Flutningsaðilar: Snorri Þorvaldsson og

Sigfús Ægir Árnason.

47. þing ÍBR, haldið 19. -20. mars 2015, áréttar umsókn sína í UMFÍ. Jafnframt fagnar þingið umsóknum annarra íþróttabandalaga inn í samtökin. Þingið reiknar með því að sú leið sem er í gangi hjá UMFÍ, ÍBR og öðrum íþróttabandalögum varðandi þetta mál, endi innan skamms með inngöngu þeirra allra. 32


Sigríður Jónsdóttir: „Þakka þér fyrir. Þá hefur Garðar Eyland lokið máli sínu og hér til umræðu þingskjal nr. 6, umsókn um aðild að UMFÍ. Orðið er laust um þessa tillögu. Ef enginn kveður sér hljóðs þá er umræðum lokið og ég vil biðja þingfulltrúa sem samþykja þessa tillögu um að gefa merki með því að rétta mér gula spjaldið upp. Þeir sem eru á móti, enginn. Tillagan er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Þá þakka ég laganefnd fyrir sín störf og vil höldum hér áfram með tillögur og eins og ég sagði hér í upphafi þá ætlum við að taka fyrir næst tillögur sem komu frá allsherjarnefnd og þar er fyrst að nefna þingskjal nr. 4 sem er stefna og starfsáætlun stjórnar ÍBR. Ég ætla að biðja formann allsherjarnefndar um að koma hingað upp og gera grein fyrir störfum nefndarinnar.“

Árni Jónsson, formaður allsherjarnefndar: „Kæru þinggestir. Tökum fyrst fyrir þingskjal nr. 4, stefnu ÍBR til starfsáranna 2015-2016. Fjörlegar umræður voru um þetta skjal en þó ekki miklar breytingar gerðar. Það var mikil vinna lögð í afrekskaflann þar sem það þótti þurfa að skerpa aðeins á því að það væri veitt úr afrekssjóðnum. Það yrði kveðið sterkara að orði heldur en var gert í fyrstu tilraunum. Það var gerð smá breyting á tillögunni þannig að hún hljómar svona: „Stjórn ÍBR verður falið að óska eftir framlagi frá Reykjavíkurborg í sjóðinn“. Þetta stóð ekki inn í upprunalegri tillögu og svo var kveðið aðeins sterkara að orði „að leitast verður við að fullnýta ... fyrir ungt og efnilegt íþróttafólk sem og íþróttafólk í fremstu röð til þátttöku á mótum o.s.frv.“. Það var ágætur íslensku sérfræðingur í hópnum sem benti okkur á það að við ættum að hafa Reykjavíkurleikana en ekki International Games. Og stefna að því að hafa fleiri viðburði og þá var mikil umræða um það að það væri mikilvægt að félög innan ÍBR mundu reyna að koma með hugmyndir að nýjum viðburðum. Svo varðandi kannanir í byrjun skjals að gerður verður samanburður milli sveitarfélaga bæði hér á landi og í nágrannalöndum. Þar sem aðstaða verður metin og framlögin líka, því var bætt við. Að öðru leiti var eining í hópnum um stefnuna. Þingskjal 4 Allsherjarnefnd

Stefna og starfsáætlun stjórnar ÍBR fyrir starfsárin 2015 og 2016. Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR.

47. þing ÍBR, haldið 19. - 20. mars 2015 , samþykkir eftirfarandi stefnu og starfsáætlun framkvæmdastjórnar ÍBR fyrir starfsári n 2015 og 2016: Á starfstímabilinu verður unnið að gerð nýrra samstarfssamninga við Reykjavíkurborg þar sem leitast verður við að tryggja fjármagn og aðstöðu til reksturs íþróttafélaganna. Mikilvægt er að festa í sessi starf félaganna með auknum styrkjum til þess mikilvæga starfs sem þau vinna. Lögð verður áhersla á að tryggja fé til viðhaldsverkefna hjá félögum sem eiga og reka sín eigin mannvirki.

33


Áfram verða gerðar kannanir á íþróttastarfi og þannig aflað upplýsinga sem nýtast til að leggja frekari línur í starfinu, hvar þurfi helst að styðja við og hvernig staða félaganna í Reykjavík er miðað við annarsstaðar. M.a. verður áfram unnið að því að gera samanburð milli sveitarfélaga varðandi aðstöðu til íþróttastarfs. Á starfstímabilinu er stefnt að því að bjóða þeim sem starfa í íþróttahreyfingunni í Reykjavík að taka þátt í ýmsum námskeiðum og fyrirlestrum sem höfða til mismunandi hópa s.s. starfsmanna, stjórnarmanna, þjálfara, foreldra o.fl. Einnig verði horft til þess að auka enn frekar framboð á möguleikum til þátttöku í íþróttum fyrir unglinga. Sérstaklega verði horft til þeirra unglinga sem vilja vera þátttakendur í íþróttafélögunum en vilja ekki æfa oft í viku og hafa ekki hug á að verða afrefsfólk í íþróttum en vilja iðka sína íþrótt í sínu félagi. Með eflingu Verkefnasjóðs ÍBR opnast möguleikar á stuðningi við verkefni sem stuðla að þessu.

Íþróttafélög gegna mikilvægu hlutverki í mannlífi borgarinnar, sérstaklega í nærsamfélaginu og er mikill og vaxandi áhugi hjá almenningi um þátttöku í hinum ýmsu íþróttum. Íþróttafélögin hafa vilja og áhuga á því að svara kallinu og bjóða almenningi upp á möguleika til iðkunar íþrótta í og við sín mannvirki og/eða í tengslum við hefðbundnara starf félaganna. Í þessu sambandi er mikilvægt að tryggja eðlilega þróun aðstöðu (mannvirkja og búnaðar). ÍBR mun leitast við að styðja við frumkvæði á þessu sviði í samstarfi við félögin og Reykjavíkurborg og getur Verkefnasjóður ÍBR nýst í því tilliti. ÍBR mun áfram sinna almenningsíþróttum borgaranna með útleigu íþróttatíma í skólahúsum og með þátttöku í ýmsum verkefnum sem ætlað er að efla þátttöku almennings í íþróttum. Afrekssjóður ÍBR hefur nú verið endurvakinn með breyttum reglum og er honum ætlað að styðja afreksíþróttastarf félaganna. Leitast verður við að aðstoða eftir megni ungt og efnilegt íþróttafólk sem og íþróttafólk í fremstu röð til þátttöku í mótum eða annarra verkefna sem ýtt geta undir enn frekari árangur þeirra. Áfram verður unnið að því að stofna afreksíþróttamiðstöð í húsi ÍBR þar sem boðið verður upp á markvissa og faglega þjónustu fyrir íþróttafélög, lið og hópa. Áfram verður þrýst á framhaldsskóla um að auðvelda afreksfólki að stunda þjálfun og keppni samhliða námi. ÍBR mun áfram sjá um framkvæmd ýmissa viðburða s.s. Reykjavíkurmaraþons, Laugavegshlaups, Miðnæturhlaups og Reykjavík International Games. Þá er stefnt að því að stofna til fleiri viðburða sem eflt geta íþróttalíf í Reykjavík. Starfsemi sérráðanna verður tryggður grunnur en áfram verður skoðað hvernig best er að haga starfi þeirra í framtíðinni.

34


ÍBR mun vinna eftir stefnumótun og framtíðarsýn fyrir íþróttastarf í Reykjavík til ársins 2020 í samstarfi við aðildarfélögin og Reykjavíkurborg. Áfram verður unnið að því að efla jákvæða ímynd ÍBR sem hagsmunasamtaka íþróttafélaganna í Reykjavík og fagaðila í íþróttamálum almennt. Mikilvægt er að koma á framfæri við borgaryfirvöld að ÍBR sé aðili sem hægt er að treysta til að vera ráðgefandi aðili um íþróttamál í borginni á faglegan og skynsamlegan hátt. Jafnframt er mikilvægt að á hverjum tíma sé haldið virku sambandi milli félaganna og stjórnar og starfsfólks ÍBR þannig að starf bandalagsins endurspegli á hverjum tíma helstu þarfir félaganna og óskir um aðkomu ÍBR að tilteknum málum.

Sigríður Jónsdóttir: „Formaður allsherjarnefndar hefur lokið máli sínu og kynnt ykkur niðurstöður nefndarinnar um stefnu og starfsáætlun stjórnar ÍBR starfsárið 2015-2016 og orðið er laust um þessa tillögu. Gunnlaugur Júlíusson hefur beðið um orðið, gjörðu svo vel.“ Gunnlaugur Júlíusson: „Þingforseti og góðir þingfulltrúar, takk fyrir þessa tillögu. Mig langar aðeins að gera athugasemd við málsgrein nr. 2 um kannanirnar. Ályktanir verða að vera skýrar svo það er vitað hvað þær þýða. „Annars staðar“ hvar er það? Finnst þetta alltof opin tillaga, eða öllu heldur þessi málsgrein. Sigríður Jónsdóttir: „Gunnlaugur hefur lokið máli sínu. Þú ert ekki með tillögu að orðabreytingu? Ég túlka þetta þá sem ábendingu um tillöguna. Orðið er áfram laust um stefnu og starfsáætlun stjórnar ÍBR. Ekki fleiri sem kveða sér hljóðs þá er umræðum um þingskjal nr. 4 lokið. Þið sem samþykið megið gefa merki með gulu, starfsáætlunin er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Er einhver á móti? Nei, enginn þannig að þetta er samþykkt samhljóða. Þá ætla ég að biðja Árna Jónsson að koma aftur upp og halda áfram með þau mál sem lögð voru fyrir allsherjarnefnd og það er þá næst þingskjal nr. 9.“ Árni Jónsson: „Þá er það tillagan um myndun stuðningshóps vegna siðamála. Nokkur umræða var um þetta skjal, mjög gagnleg umræða sem við tókum upp. Megin niðurstaða úr þeirri vinnu var að þessi hópur sérfræðinga mundi útfæra þetta frekar. Þetta eru tillögur sem liggja þarna inni um stofnun þessa hóps sem á að vera til stuðnings og við bættum við „og ráðgjafar“ fyrir félögin ef upp koma einhver vandamál. Þetta fagráð og hópur sérfræðinga mundi taka mið af lagalegum þáttum eins og persónuvernd o.s.frv. Ég hef ekki mikið meira við þessa tillögu að bæta.“ Þingskjal 9 Allsherjarnefnd

Tillaga um myndun stuðningshóps vegna siðamála Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR.

47. þing ÍBR, haldið 19. - 20. mars 2015 , samþykkir að fela stjórn ÍBR að vinna að því að mynda hóp sérfræðinga til stuðnings aðilum innan ÍBR, komi upp mál sem varðar siðamál af ýmsu tagi. 35


Greinargerð: Á undanförnum árum hefur íþróttahreyfingin gert ýmislegt til að efla starfsemi sína með tilliti til siðamála, meðal annars: Sett fram siðareglur og hegðunarviðmið (þing ÍSÍ 2011). Gefið út aðgerðaáætlun gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun (ÍSÍ, bæklingur). Gefið út bækling um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi (ÍSÍ). Bætt inn í lög ÍSÍ ákvæði um að einstaklingur sem hefur hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga má ekki starfa sem sjálfboðaliði eða launþegi innan íþróttahreyfingarinnar (þing ÍSÍ 2013). Gefið út jafnréttisstefnu (ÍBR 2013). Einnig hefur verið gefin út viðbragðsáætlun (ÍSÍ) ef upp koma áföll og óvæntir atburðir. Í áætluninni kemur m.a. fram að æskilegt sé að íþróttafélög setji fram sína eigin viðbragðsáætlun og komi á fót viðbragðsteymi. Hlutverk viðbragðsteymis íþróttafélaga er m.a. að aðlaga viðbragðsáætlunina að allri starfsemi félagsins, veita stuðning, huga að eftirfylgd og meta þörf á utanaðkomandi aðstoð. Reynslan hefur sýnt að mál vegna m.a. kynferðislegs ofbeldis og eineltis eru oft erfið úrlausnar og ekki alltaf á færi leikmanna að leysa úr, eðlilega treysta margir sér heldur ekki til þess. Því er lagt til að myndaður verði hópur aðila sem sérþekkingu hafa á þessu sviði og hefur það hlutverk að aðstoða við úrlausn mála sem upp kunna að koma með faglegum hætti. Sigríður Jónsdóttir: „Árni Jónsson hefur lokið máli sínu og þá er orðið laust um þingskjal nr. 9, tillagan um myndun stuðningshóps vegna siðamála og hljóðar tillagan þá svo: „Þing ÍBR samþykir að fela stjórn ÍBR að vinna að því að mynda hóp sérfræðinga til stuðnings og ráðgjafar aðilum innan ÍBR komi upp mál sem varða siðamál af ýmsu tagi“. Orðið er laust um þessa tillögu. Ef enginn kveður sér hljóðs þá er umræðum um hana lokið. Þeir sem samþykja tillöguna eins og hún liggur fyrir vinsamlega sýnið gula spjaldið. Einhver á móti? Hún er samþykkt samhljóða. Þá bið ég Árna að koma aftur upp í pontu og það er næst þingskjal nr. 10 um frístundaakstur.“ Árni Jónsson: „Tillagan hljóðar svo: Þingskjal 10 Allsherjarnefnd

Tillaga um frístundaakstur. Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR.

47. þing ÍBR, haldið 19. -20. mars 2015, felur stjórn ÍBR að fara þess á leit við borgaryfirvöld að þau styrki frístundaakstur hverfafélaganna í borginni um a.m.k. 30 milljónir á ári næstu árum.

36


Greinargerð: Ljóst er að frístundakstur hverfafélaganna eykur möguleika á að nýta betur íþróttamannvirkin þar sem mögulegt er að hafa æfingar fyrir börn fyrr á daginn en ella. Það liggur fyrir að stór hluti barna og unglinga tekur þátt í skipulögðu íþróttastarfi og frístundaaksturinn er mjög góð leið til að einfalda heildarskipulag hvers dags hjá fjölskyldum í borginni. Minni umferð einkabíla og aukin viðvera í vinnu hlýtur að vera jákvætt fyrir samfélagið. Kostnaður við að halda þessum akstri úti er talsverður og hefur reynst félögunum þungur í rekstri. Styrkur borgarinnar til þessa verkefnis hefur verið um 10 milljónir á ári síðustu árum og dugar hvergi nærri til. Vinnuhópur á vegum borgarinnar og ÍBR hefur komist að þeirri niðurstöðu að 30 milljónir króna myndu tryggja að frístundaakstur geti haldið áfram.“ Árni Jónsson: „Þetta voru fjörugar og skemmtilegar umræður, notkunargildi almenningssamgangna almennt, morgunvagna o.s.frv. Meginniðurstaðan var að það þarf að setjast yfir þetta almennt þó að það sé vitað að það vanti þessar 20 milljónir uppá í dag svo þetta gangi upp fyrir félögin. Takk.“ Sigríður Jónsdóttir: „Formaður allsherjarnefndar hefur kynnt ykkur niðurstöður allsherjarnefndar varðandi þingskjal nr. 10 um tillögu um frístundaakstur. Ég ætla að lesa hana upp „47. þing ÍBR felur stjórn ÍBR að fara þess á leit við borgaryfirvöld að þau styrki frístundaakstur hverfafélaganna í borginni um a.m.k. 30 milljónir á ári næstu árin. Einnig verði mótuð framtíðarsýn frístundaaksturs í samstarfi við Reykjavíkurborg“. Þá er orðið laust um þessa tillögu eins og hún kemur fram frá Allsherjarnefnd. Örn Andrésson hefur beðið um orðið.“ Örn Andrésson: „ Kannski bara spurning um orðalag, kannski betra að segja „í árlegu framlagi“.?“ Sigríður Jónsdóttir: „Orðið er enn laust. Við erum hér enn að reyna að setja þetta saman, ég tek undir það að þetta er tungubrjótur eins og þetta liggur fyrir núna en það kannski skiptir ekki megin máli. Það mætti orða þetta þannig að þau styrki „frístundaakstur hverfafélaga í borginni um a.m.k. 30 milljóna árlegu framlagi. Ef það er eitthvað betra, veit ég ekki. (Umræður út í sal um aðrar tillögur að breyttu orðalagi. Mikilvægast að fá peninginn og salurinn hlær). Kannski ágætt að hafa þetta tungubrjót, þá þarf fólk að lesa þetta oft og þá hægt að dáleiða þau með svona orðalagi. En ef ekki kemur fram tillaga að breyttu orðalagi áður en að við leggjum þetta fyrir samþykkt þingsins. Ég heyri að það er enginn ágreiningur um tillöguna, kannski aðeins um orðalag. Hafið þið félagar hér einhverjar tillögur? Við erum að samþykja hér að starfsáætlun ÍBR til næstu tveggja ára og ef tillagan hljóðar svo að þau styrki „frístundaakstur hverfafélaga í borginni um a.m.k. 30 milljónir á ári“. Það er að fæðast hér skrifleg tillaga og ég ætla að biðja Viðar Helgason að kynna breytingatillögu sína.“ Viðar Helgason: „Þingforseti, ágætu þingfulltrúar. Bara til að mæta þeim sjónarmiðum sem hafa komið hér fram um fagurfræði þá er best að ég fari úr pontu (salurinn hlær). Breytingartillagan er á þá leið að ályktunin yrði svo „47. þing ÍBR, haldið 19.-20. mars 2015, felur stjórn ÍBR að fara þess á leit við borgaryfirvöld að framlag hækki til frístundaaksturs hverfafélaganna í borginni í a.m.k 30 milljónir króna á ári. Einnig verði mótuð framtíðarsýn frístundaaksturs í samstarfi við Reykjavíkurborg.“

37


Sigríður Jónsdóttir: „Hér er komin fram breytt tillaga að orðalagi sem hljómaði mjög sannfærandi. Ég ber það undir fundinn að samþykkja þessa breytingartillögu en ég held að ég þurfi þess eiginlega ekki. Þetta var mjög skilmerkilegt og ég ber þá upp tillöguna eins og Viðar lagði hana hér fram. Þeir sem samþykja hana vinsamlegast gefið merki með gula spjaldinu. Einhverjir á móti? Svo er ekki og hún því samþykkt samhljóða. Þá er hér næst þingskjal nr. 11 sem sömuleiðis allsherjarnefnd fékk til umfjöllunar svo ég bið Árna að koma hér aftur upp í pontu og gera grein fyrir tillögum allsherjarnefndar.“ Árni Jónsson: „ Tillagan hljómar svo: Þingskjal 11 Allsherjarnefnd

Tillaga um samstarf íþróttafélaga og grunnskóla. Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR. 47. þing ÍBR, haldið 19. -20. mars 2015, felur stjórn ÍBR að óska nú þegar eftir viðræðum við borgaryfirvöld um leiðir til að efla samstarf íþró ttafélaga og skóla. Greinargerð: Í gegnum tíðina hefur íþróttahreyfingin átt mikið og gott samstarf við grunnskóla borgarinnar til að kynna nemendum það starf sem þau hafa upp á að bjóða fyrir börn og unglinga. Að undanförnu hefur félögunum ekki verið heimilað að kynna starf sitt í skólum eða í það minnsta settar mjög þröngar skorður þrátt fyrir að í samningi borgarinnar, íþróttafélaganna og ÍBR sé ákvæði um samstarf skóla og íþróttafélaga. Íþróttafélög í borginni hafa í áratugi átt í góðu samstarfi við grunnskóla um æfingar barna. Rannsóknir staðfesta mikilvægi daglegrar hreyfingar fyrir börn, skólastarf og samfélagið almennt. Það endurspeglast m.a. í áherslum aðalnámsskrár þar sem heilsa og velferð er nú einn af sex grunnþáttum menntunar. Fjölþætt gildi þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi er einnig vel þekkt og hefur líklega sjaldan verið mikilvægara en nú á tímum aukinnar kyrrsetu. Íþróttahreyfingin vill áfram vinna með grunnskólunum að því að stuðla að heilbrigði barna í borginni. Almennar samskiptareglur um slíkt samstarf eru góðar en mega ekki innihalda ákvæði sem hægt er að túlka sem hálfgert bann við samstarfi. Að mati ÍBR er best að hafa almennar samskiptareglur og svo geti skólastjórar gert samninga við íþróttafélög í sínu skólahverfi um nánara samstarf.“ Árni Jónsson: „Það var skemmtileg umræða um samstarf íþróttafélaga og skóla almennt en umræðan var mikið um hvernig hægt væri að nýta íþróttamannvirki betur yfir höfuð. En þetta er stórt mál að komast að með kynningar um starfsemi íþróttafélaganna og þá allra íþróttafélaganna, ekki bara hverfafélaganna. Þau félög sem eru ekki hverfisbundin eiga líka að fá tækifæri til að kynna sitt starf. Það var ákveðið að setja „fókus“ punktinn á þetta, þetta ætlum við að leggja á herslu á. Hún stendur á öðru leyti óbreytt. Koma á formlegu, það skiptir máli. Þannig hljómar það nú.

38


Sigríður Jónsdóttir: „Formaður allsherjarnefndar hefur kynnt ykkur niðurstöður nefndarinnar á umræðum í gær um samstarf íþróttafélaga og grunnskóla. Orðið er laust um þessa tillögu. Ef enginn kveður sér hljóðs þá er umræðum lokið og ég vil biðja ykkur um að samþykkja þessa tillögu eins og hún liggur fyrir að rétta upp gulu spjöldin. Einhver á móti? Tillagan er samþykkt samhljóða. Þá er hér síðasta skjal sem allsherjarnefnd fékk til umfjöllunar þannig að ég ætla að biðja þig Árni um að koma aftur upp í pontu og gera grein fyrir niðurstöðum nefndarinnar. Árni Jónsson: „Tillaga hljóðar svo:

Þingskjal 12 Allsherjarnefnd

Áskorun vegna jafnréttisstefnu Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR.

47. þing ÍBR, haldið 19. - 20. mars 2015 , skorar á öll fram jafnréttisstefnu og inn leiða hana í öllu sínu starfi.

aðildarfélög ÍBR að setja

Greinargerð: Í 23. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10 frá 2008 kemur fram að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun þar á meðal í íþrótta- og tómstundastarfi. Einstaklingum líður betur í umhverfi þar sem jafnrétti ríkir. Þar sem raunverulegt jafnrétti ríkir fá allir einstaklingar að njóta sín og ná fram sínu besta. Í þessu felst m.a að íþróttafélagið stuðlar að jöfnum tækifærum sinna félagsmanna og mismunar þeim ekki vegna kynferðis, uppruna, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða, skoðana, litarháttar eða annarrar stöðu. Í þjónustusamningum Reykjavíkurborgar við íþróttafélög er ákvæði um að þau skuli hafa virka jafnréttisstefnu. Í tengslum við þá vinnu hefur ÍBR unnið fyrirmynd af jafnréttisstefnu sem félög geta aðlagað að sínu starfi, sjá www.ibr.is.“

Árni Jónsson: „Það voru útfærslu umræður um greinagerðina o.s.frv. Það var bætt við í upptalningu en annars hef ég ekki meira um þetta að segja. Það var vilji til að koma þessu í framkvæmd.“ Sigríður Jónsdóttir: „Þá hefur formaður allsherjarnefndar lokið máli sínu og það er hér til umfjöllunar skjal nr. 12 en tillagan hljóðar svo „Áskorun til allra vegna jafnréttisstefnu og innleiða hana í sínu starfi“. Orðið er laust um þessa tillögu. Sigfús Ægir Árnason hefur beðið um orðið. Sigfús Ægir Árnason: „Þingforseti og ágætu þingfulltrúar. Það er eiginlega bara eitt orð sem ég hnýt um, mig langar að velta því upp. Í sambandi við jafnréttisstefnuna, þ.e. „mismunar þeim ekki ... vegna aldurs“. Við erum að mismuna nokkuð vegna aldurs , við leggjum áherslu á unglingastarf og annað slíkt svo ég velti 39


þessu upp, er þetta eitthvað sem getur komið í bakið á okkur? Megum ekki mismuna á þessum forsendum, íþróttahreyfingin er með styrkjakerfi sem miðar fyrst og fremst við afreksfólk og svo hins vegar börn og unglinga. Þetta er orð sem fólk þarf að spá í.“ Sigríður Jónsdóttir: „Sigfús Árnason hefur lokið máli sínu en orðið er áfram laust. Þetta var aðeins ábending frá Sigfúsi. Ef enginn kveður sér hljóðs er umræðum lokið. Þeir sem samþykja þessa tillögu um áskorun vinsamlegast gefi merki með því að sýna mér gula spjaldið. Þetta er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og tveimur mótatkvæðum. Þá höfum við lokið við að fara yfir þingskjöl sem fóru til allsherjarnefndar og þá er næst á dagskránni að taka fyrir þau þingskjöl sem vísað var til fjárhagsnefndar. Það er Hrafnkell Sigtryggsson sem er formaður fjárhagsnefndar. Ég ætla að biðja hann um að koma hér upp og gera grein fyrir störfum nefndarinnar.“ Hrafnkell Sigtryggsson: „Þingforseti, þingfulltrúar, góðan daginn. Í fjárhagsnefnd sátu auk mín Haraldur Haraldsson, Kristmundur Bergvinsson, Sigurður Sveinbjörnsson og Þórarinn Már Þorbjörnsson. Ég þakka þeim fyrir gott starf sem og starfmönnum ÍBR sem svöruðu öllum okkar spurningum og fleirum til. Fyrir fjárhagsnefnd voru fjögur skjöl, númer 1,2, 7 og 8. Ég ætla að byrja á þingskjali 1 og það er fjárhagsáætlun 2015 og 2016. Það eru ekki stórar breytingar á þessum tillögum. Þær „harmónera“ nánast við reikninga ársins 2014 með lítilsháttar verðbótar áhrifum. Á upphafinu gerum við engar breytingar en hins vegar gerðum við þá breytingu að við færðum þjónustutekju vegna Reykjavíkurmaraþons upp fyrir strikið. Þ.e.a.s. við sýnum tekjur sem tekjur og gjöld sem gjöld en ekki tekjur sem mínusgjöld. Niðurstaðan á þessu var að rekstrartekjur hækka í 1.000.500. kr. en breytingin er í sjálfu sér engin önnur en hvar þetta er sýnt. Að öðru leyti hef ég ekki meira um þetta að segja.“ Þingskjal 1 Fjárhagsnefnd

Íþróttabandalag Reykjavíkur Fjárhagsáætlun 2015 og 2016

Rekstrartekjur

Framlög og styrkir borgarsjóðs Útbreiðslustyrkur ÍSÍ,Lottó og Getraunir

2015

2016

745.000

767.000

98.000

101.000

40


Rekstrartekjur Skautahallar

83.000

85.500

Þjónustutekjur v/Reykjavíkurmaraþon

40.000

41.200

Aðrar tekjur og framlög

29.000

29.900

5.500

5.700

Fjármagnstekjur

Tekjur:

1.000.500 1.030.300

Rekstrargjöld

Úthlutaðir styrkir Úthlutaðar Lottótekjur Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður Ýmis íþróttatengd starfsemi Húsnæðiskostnaður Rekstrargjöld Skautahallar Vextir og fjármagnstekjuskattur Afskriftir

Gjöld:

Hagnaður ársins

683.000

703.500

80.000

82.500

105.000

108.100

25.000

25.750

6.000

6.180

68.000

70.000

5.000

6.140

21.300

20.300

993.300 1.022.470

7200

7830

Sigríður Jónsdóttir: „Þá er hér til umræðu þingskjal nr. 1 sem er fjárhagsáætlun ÍBR fyrir starfsárið 20152016. Orðið er laust um fjárhagsáætlun eins og hún kemur frá fjárhagsnefnd eftir þingfundi og umræðum í gær. Orðið er laust um þingskjalið, Gunnlaugur Júlíusson hefur beðið um orðið.“ Gunnlaugur Júlíusson: „Þingforseti og góðir þingfulltrúar, takk fyrir þetta skjal. Ég kom upp í gær og gerði smá athugasemdir við reikningana og minntist m.a. á brúttóregluna sem segir að allar tekjur ættu að vera 41


fyrir ofan strik og gjöld fyrir neðan strik og ég þakka fyrir að það hafi verið tekið tillit til þess. Ég ítreka það sem ég sagði í gær, ég skil ekki af hverju tekjur Reykjavíkurmaraþons eru ekki inn í tekjum ÍBR. Ég minntist í gær á brúttóregluna, það er til önnur regla sem heitir heildarregla, þ.e.a.s. að öll starfsemi sem er á vegum sveitarfélags eða ákveðinna samtaka að vera inn í heildarreikningum. ÍBR á Reykjavíkurmaraþon, ef ÍBR vill ekki eiga það þá skal ég alveg eiga það. Það er partur af reglulegri starfsemi ÍBR, það leggur peninga til ÍBR og það er farið að leggja í Framkvæmdasjóði ÍBR. Ég veit alveg að Reykjavíkurmaraþon er ekki inn í reikningum Reykjavíkurborgar svo hvar er þá Reykjavíkurmaraþon bókfært? Mér finnst að það eigi að vera inn í reikningum ÍBR. Þótt mitt litla atkvæði skipti ekki máli get ég ekki samþykkt þessa fjárhagsáætlun. Sigríður Jónsdóttir: „Gunnlaugur Júlíusson hefur lokið máli sínu og orðið er enn laust um fjárhagsáætlun ÍBR til næstu tveggja ára. Ingvar Sverrisson hefur beðið um orðið.“ Ingvar Sverrisson: „Þingforseti, ágætu þingfulltrúar. Ég þakka fyrir þetta, það kom nú fram hér í máli Reynis endurskoðenda í gær að þetta sem Gunnlaugur kom inná með eignina á Reykjavíkurmaraþoni. Það eru aðeins deildar meiningar um þetta. Það er ekki til undirritaður samningur sem segir nákvæmlega að við eigum þetta. Þó að það liggi svo sannarlega fyrir því hefð að við sjáum um þetta núna undanfarin ár eða síðan 2003 og ég mundi nú vera tilbúinn eins og Gunnlaugur að eiga þetta sjálfur og slást mikið fyrir því að halda þessu hér inn í hreyfingunni okkar. En það eru sannarlega um það skiptar skoðanir, þetta er ákveðinn áhætturekstur líka þannig að þetta hefur ekki endanlega verið gengið frá þessu. Í dag eru viðræður við borgina um að endurnýja samninginn um Reykjavíkurmaraþon um það hlaup og þau hlaup sem við höfum verið að sjá um í tengslum við það. Að vísu semjum við ekki við borgina um Laugavegshlaupið en þið skiljið hvað ég meina. Ég geri ráð fyrir að við munum ljúka þessu þar í þeim samningaviðræðum og leggja þá fyrir geri ég ráð fyrir næsta þing endanlega niðurstöðu þessu svo við getum þá fært þetta inn í ársreikninga ÍBR, ef það er meirihluti fyrir því hjá þinginu. Það er sér stjórn yfir þessu og þess vegna er þetta með þessum hætti.“ Sigríður Jónsdóttir: „Ingvar Sverrisson hefur lokið máli sínu og orðið er enn laust um fjárhagsáætlun. Ef það eru ekki fleiri sem kveða sér hljóðs þá er umræðum lokið og þeir sem samþykja fjárhagsáætlun með þeim skýringum sem hér hafa komið fram, vinsamlega gefið merki með því að sýna mér gula spjaldið. Þeir sem eru á móti rétti mér rauða spjaldið. Þetta er samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða en með tveimur mótatkvæðum. Það skal fært til bókar. Fjárhagsáætlun er samþykkt. Þá er hér þingskjal nr. 2 og ég bið Hrafnkel að koma aftur hingað og gera grein fyrir því.“

Hrafnkell Sigtryggsson: „Tillagan fjallar um skatta aðildarfélaga ÍBR. Í umræðunni var engin athugasemd gerð við efni tillögunnar eða upphæðina en hins vegar var settur sá fyrirvari að laganefnd mundi samþykja breytingu á 10. grein á lögum um þjónustugjald að þá mundum við að sjálfsögðu taka tillit til þess.“

42


Þingskjal 2 Fjárhagsnefnd

Skattar aðildarfélaga til ÍBR Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR. 47. þing ÍBR, haldið 19.-20. mars 2015, samþykkir að skattur aðildarfélaga ÍBR til bandalagsins verði 100 krónur á hvern félaga, 18 ára og eldri. Greinargerð: Um er að ræða óbreytt gjald frá því sem samþykkt var á síðasta þingi ÍBR.

Sigríður Jónsdóttir: „Hrafnkell hefur lokið máli sínu, ég ætla að túlka það þannig að við mundum lesa tillöguna þannig að það ætti að standa hér, þó tillagan heiti „skattar aðildarfélaga til ÍBR“ að þá hljóði hún svo „47. þing ÍBR, haldið 19.-20. mars 2015, samþykir að þjónustugjöld aðildarfélaga ÍBR til bandalagsins verði 100 krónur á hvern félaga, 18 ára og eldri“. Orðið er laust um þessa tillögu. Ef enginn kveður sér hljóðs þá er umræðum lokið og þeir sem samþykja hana eins og hún liggur fyrir vinsamlega gefið merki með gula spjaldinu. Athugasemd út sal um að þetta eigi að vera „þjónustugjald“ sem er leiðrétt. Einhver á móti? Svo er ekki og tillagan því samþykkt samhljóða. Þá er næst þingskjal nr. 7 sem var vísað til fjárhagsnefndar og ég ætla að biðja Hrafnkel að koma hér upp í pontu og gera grein fyrir störfum nefndarinnar. Hrafnkell Sigtryggsson: „Þingskjal nr. 7 fjallar um samstarfssamninga borgar og ÍBR. Lítilsháttar umræður urðu um þetta en í sjálfu sér engin breytingatillaga gerð og fjárhagsnefnd samþykir þessa tillögu óbreytta.

Þingskjal 7 Fjárhagsnefnd

Samstarfsamningar borgar og ÍBR. Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR.

47. þing ÍBR, haldið 19. - 20. mars 2015 , felur stjórn ÍBR að berjast fyrir því í komandi samningaviðræðum að borgaryfirvöld styðji með enn frekari h við íþróttahreyfinguna í Reykjavík í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar og ÍBR til ársins 2020.

ætti

43


Greinargerð:

Samstarfssamningur Reykjavíkurborgar, ÍBR og íþróttafélaganna rennur út í árslok. Nú standa yfir samningaviðræður um nýjan samning. Mikilvægt er að efla enn frekar hið góða starf sem unnið er í íþróttum í Reykjavík. Í stefnu borgarinnar og ÍBR um íþróttamál til 2020 eru mörg verkefni tilgreind sem vert er að vinna að s.s. að bjóða fleiri valmöguleika á þátttöku í íþróttum fyrir börn og unglinga, auka þátttöku almennings í íþróttum, styðja betur við afreksíþróttastarf, lengja æfingatímabil í mannvirkjum, bæta úr brýnni viðhaldsþörf í mörgum mannvirkjum, mæta þörf á fleiri mannvirkjum í borginni og fleira.

Sigríður Jónsdóttir: „Orðið er laust og ef enginn kveður sér til hljóðs er umræðum lokið. Þeir sem samþykkja hana vinsamlegast gefið mér merki með gula spjaldinu. Þetta er samþykkt samhljóða. Þá er það síðasta þingskjal sem var vísað til fjárhagsnefndar og það er þingskjal nr. 8.“ Hrafnkell Sigtryggsson: „Í þessari tillögu þá gerðum við lítilsháttar breytingu, við byrjuðum á að bæta inn orðalaginu „til fjölbreyttrar starfsemi“. Með þessu vildum við sérstaklega vísa til þess að það væri ástæða til að horfa sem víðast í uppbyggingu nýrra mannvirkja í Reykjavík. Varðandi greinagerðina þá tíðkaðist hér á öldum áður að tala um fyrir og eftir Krist. Síðan 2008 höfum við talað um „eftir hrun“ og við ákváðum að vinda ofan af þeirri vitleysu og tala um „síðastliðin 7 ár“. Takk fyrir.“ Þingskjal 8 Fjárhagsnefnd

Áskorun um uppbyggingu mannvirkja. Flutningsaðili: Framkvæmdastjórn ÍBR.

47. þing ÍBR, haldið 19. - 20. mars 2015 , skorar á Reykjavíkurborg að setja aukna fjármuni til byggingar nýrra mannvirkja til fjölbreyttrar starfsemi íþróttafélögum í Reykjavík.

hjá

Greinargerð: S.l. 7 ár Eftir hrunið hefur íþróttahreyfingin sýnt mikla biðlund varðandi nauðsynlega uppbyggingu nýrra mannvirkja sem er lykilatriði til áframhaldandi þróunar félaganna sem og til að geta haldið uppi öflugri þjónustu við sífellt stækkandi hóp þátttakenda hjá félögunum.

44


Mannvirkjanefnd ÍBR og Reykjavíkurborgar hefur verið að störfum undanfarin misseri og mikilvægt er að tillaga að forgangsröðun á gerð nýrra mannvirkja klárist sem fyrst. En það er einnig mikilvægt að tryggja fjármagn til að fylgja eftir slíkri forgangsröðun og gera áætlun um uppbyggingu.

Sigríður Jónsdóttir: „Orðið er laust um þessa tillögu. Gjörðu svo vel, ég þekki þig ekki með nafni þannig að ég ætla að biðja þig um að kynna þig þegar þú kemur í pontu.“ Freyr Ólafsson: „Þingforseti, ágætu þingfulltrúar. Hér er komin ágætis tillaga en það sem ég sakna í henni er umræðan. Hér kom okkar borgarstjóri í gær og fagnaði því sérstaklega að hversu gott væri nú í dag, þar sem hvorki félög eða einstaka deildir væru að argast beint í honum eða borginni. Þetta væri nú allt saman „filterað og stillt upp“ eins og við viljum hafa það hér innan ÍBR. Hann væntanlega fær þá bara forgangsraðaðan lista eins og við hér á þinginu erum sammála um að við viljum framkvæma. Ekki satt? Ég er hér fulltrúi Frjálsíþróttaráðs Reykjavíkur og frétti rétt eins og þið af þeirri jákvæðu uppbyggingu frjálsíþróttavallar í Mjódd í fjölmiðlum en það sem var þá gegn samþykkri stefnu Frjálsíþróttaráðs Reykjavíkur. Ekki það að við fögnum þessa auknu fjárframlagi til frjálsíþrótta og uppbyggingu í hverfum. Mér varð allavega hugsað til þess að hér hefur ekki farið, að ég get séð.. Ég sé ekki þessa forgangsröðun sem við leggjum fram til borgarinnar samþykkta og í öðru lagi ... vegna þess að hér í gær var okkur tíðrætt um framlag til afreksmála. Það er mjög gott hjá okkur og auðvelt að biðja um aukin fjárframlög en hvað þýðir það? Þýðir það að við fáum minna einhvers staðar annars staðar? Til aksturs? Til afreksstarfs? Eða meira í allt? Það væri frábært.“ Sigríður Jónsdóttir: „Þá hefur Freyr lokið máli sínu og orðið er laust um þessa tillögu. Ég hef fengið hér eina ábendingu varðandi greinagerðina að byrja ekki setningu með skammstöfun, síðastliðin 7 ár, fagurfræðilegt atriði. Orðið er enn laust. Gjörðu svo vel Guðjón.“ Guðjón Snær: „Góðan daginn. Ágætu þingforseti og gestir. Mig langaði aðeins að velta því fyrir mér varðandi þessa grein, þá er talað um alls konar uppbyggingu mannvirkja. En svo er bara talað um í tillögunni sjálfri byggingu nýrra mannvirkja. Af hverju er ekki verið að tala um uppbyggingu núverandi mannvirkja og byggingu nýrra? Ég vildi bara velta þessu upp.“ Sigríður Jónsdóttir: „Þá hefur Guðjón Snær lokið máli sínu. Vill formaður eða framkvæmdarstjóri svara þessari fyrirspurn áður en ég ber tillöguna upp?“ Ingvar Sverrisson: „Þetta er góð ábending, hugsunin í þessu var sú að reyna að hnykkja á því að það hefur verið mikil lægð í uppbyggingu nýrra mannvirkja í Reykjavík. Við erum að berjast sérstaklega í þessum viðhaldsmálum og við ætluðum að leggja ofur áherslu á þetta. Nú þarf Reykjavíkurborg að spýta í lófana og snúa þessu við, við þyrftum að skilgreina hvar þörfin er á uppbyggingu nýrra mannvirkja í hverfum borgarinnar og fara að komast í gang almennilega aftur. Það er kannski aðallega þess vegna svo ég svari því. Ég ætla mér alls ekki að taka það að mér að fara að svara fyrir borgarstjórann í Reykjavík, það væri fullgróft ef ég færi mikið út í það. Ég geri samt sem áður ráð fyrir að það sem hann hafi verið að meina í þessu er að við höfum verið að koma saman íþróttafélögin og ganga frá þjónustusamningum í sameiningu og svo hafa verið gerðir viðaukar sérstaklega fyrir hvert félag. Og í meira mæli erum við að vinna saman í 45


kröfum okkar til borgarinnar en það hefur ekki orðið þannig, og er ekki þannig til að ítreka það að ÍBR hafi sett forgangsröðun á það á uppbyggingu mannvirkja á einn eða annan hátt. Við höfum verið tilbúin til ráðgjafar varðandi það að horfa til hverfanna og geta þá sagt að það vanti ákveðna þjónustu í hverfin en við A merkjum ekki það sem ætti að fara næst í nýframkvæmd. Íþróttafélögin eru að tala að einhverju leyti við borgina, sannarlega. Ég held að það sé allt í lagi líka.“ Sigríður Jónsdóttir: „Orðið er laust. Árni gjörðu svo vel.“ Árni Jónsson: „Ég vil bara rétt árétta með mannvirkin, það kemur í raun fram í þingskjali nr. 7 um viðhaldsmálin. Þar er lögð áhersla á í samningum við Reykjavíkurborg að ráðast í viðhaldsmál og endurbætur á þeim búnaði, húsnæði og byggingarkostum sem við höfum. Þannig að það er í raun þegar komið fram.“ Sigríður Jónsdóttir: „Árni hefur lokið máli sínu. Ef ekki fleiri kveða sér hljóðs er umræðum lokið. Þeir sem samþykkja þessa tillögu í þingskjali nr. 8 eins og hún liggur fyrir rétta upp hendi með gulu spjaldi. Er einhver á móti? Þetta er samþykkt samhljóða. En þá höfum við lokið við þær tillögur sem fyrir þinginu liggja og samkvæmt dagskránni er í raun og veru ekkert annað heldur en að ganga til kosninga.“ Kosningar Sigríður Jónsdóttir: „Samkvæmt lögum ÍBR að þegar álit nefnda hefur verið afgreitt þá er komið að 11. lið og ég ætla að biðja formann kjörnefndar um að koma hingað í pontu og gera grein fyrir niðurstöðum kjörnefndar.“ Snorri Þorvaldsson: „Þingforsetar, góðir þingfulltrúar. Það er nú rétt að segja frá hverjir voru í nefndinni. Við héldum fundi til þess að fjalla um þessar tillögur og framboð. En í nefndinni voru Snorri Þorvaldsson, Elínborg Guðnadóttir, Þórir Ingvason og Málfríður Sigurhansdóttir til vara.

Formaður ÍBR, sjálfkjörinn Ingvar Sverrisson. Í framkvæmdarstjórn ÍBR kosnir þrír úr fráfarandi stjórn. Það eru Gígja Gunnarsdóttir, Lilja Sigurðardóttir og Örn Andrésson. Framkvæmdarstjórn voru kosnir þrír stjórnarmenn, sjálfkjörnir Björn Magnús Björgvinsson, Guðrún Ósk Jakobsdóttir og Viggó H. Viggósson. Varamenn voru kosnir, sjálfkjörnir, Gústaf Adolfsson og Haukur Þór Haraldsson. Lagt til að þingið samþykki eftirfarandi varðandi tillögur til kjör skoðunarmanna. Það er skoðunarmenn Guðmundur Frímannson og Sigurður Hall. Samþykkt með lófaklappi. Skoðunarmenn til vara Rögnvald Erlendsson og Kristján Örn Ingibertson. Þá þakka ég fyrir.“ Sigríður Jónsdóttir: „Þetta var snaggaralega gert. Það síðasta sem við eigum eftir að kjósa á þessu þingi það er kjörnefnd sem starfar á milli þinga. Hér er tillaga að í kjörnefnd; Snorri Þorvaldsson, Elínborg Guðnadóttir, Þórir Ingvason og til vara Málfríður Sigurhansdóttir. Samþykkt með lófaklappi. Við höfum þá

46


lokið kosningum, þá er hér samkvæmt lögum líst fjölda fulltrúa aðildarfélaga til íþróttaþings. Er framkvæmdarstjórinn í salnum? Ég bið þig Frímann að koma hér og gera grein fyrir þessum dagskrárlið. Frímann Ari Ferdinandsson: „Þingforseti, þingheimur. Við höfum haft þann sið á síðustu þingum að fela stjórninni að ganga frá þessu máli. Það er þannig að þetta er reiknað út frá mætingu á þingið þannig að einungis þau félög sem eiga fulltrúa á þinginu fá fulltrúa. Út frá því reiknum við þetta. Þingið felur stjórn ÍBR að klára útreikninginn og senda á félögin og það svo sent til ÍSÍ. Sigríður Jónsdóttir: „Hér liggur fyrir tillaga um afgreiðslu á þessu máli. Orðið er laust um þessa tillögu. Ef enginn kveður sér hljóðs er umræðum lokið, þeir sem samþykkja þessa málsmeðferð vinsamlegast gefið merki með gulu spjaldi. Einhver á móti? Svo er ekki svo þetta er samþykkt samhljóða. Þá erum við komin á síðasta dagskrárlið sem er önnur mál á ÍBR þinginu. Orðið er laust undir liðnum: Önnur mál.“

Önnur mál Snorri Þorvaldsson: „ Þingforseti, góðir þingfulltrúar. Eitt mál sem ég hef áhuga fyrir og það er það að við erum á hraðri leið inn í UMFÍ, við sjáum það og til að halda reisn, tala núna um hérað í stað borgarbúa. Nú sýnist mér tími til að breyta ÍBR í Héraðssambandið Ingólfur. Þetta liggur bara fyrir, þetta eru jafn margir stafir. En ég bara rétt árétta þetta, búinn að tala um þe tta í 6 ár og ég tel að við hefðum löngu verið komnir inn í UMFÍ ef við hefðum heitið Héraðssambandið Ingólfur vegna þess að fólk út á landi kýs ekki ÍBR inn. Það er stofnana nafn, eins og endurskoðandi í þeirra hugum. Héraðssambandið Ingólfur verður fallegt nafn og ég tel að Reykjavíkurmaraþonið ætti að byrja við Arnarhól. Vera svolítið Ingólfs menn. Þegar þetta er komið förum við að álykta um ýmsar framkvæmdir í nágrenni eins og nýja brú. Þið eruð að fara alveg inn í nýjan heim sem er bara miklu skemmtilegri. En fyrst og fremst það sem ég er að tala um, sleppt öllu gamni, þá er þetta að við eigum að skíra okkar héraðssamband Ingólf. Við erum búin að hafa styttuna hans í merkinu alla tíð. Takk fyrir.“ Sigfús Ægir Árnason: „Ágætu þingfulltrúar, einhverjir tóku eftir því að ég mætti ekki í gær, ekki það að mér hafi verið neitt sérstaklega saknað en formaðurinn minn sagði að það hefði verið mjög rúmt um sig. Ég þakka fyrir þetta ágæta þing og sérstaklega það að tillagan okkar Snorra skulu enn einu sinni vera samþykkt á þessari öld. En mér datt það í hug í lok þessa þings að senda ykkur smá kveðju. Umræðan er feyki fín Og fjöldi manna þingar Hanar, krummar, hundar, svín Og helstu KR-ingar Sigríður Jónsdóttir: „Takk Sigfús. Við sem þekkjum Sigfús vitum að hann er vel hagmæltur. Þessa tillögu Snorra, varðandi nafnið á ÍBR, menn hafa nú tvö ár til þess að hugsa málið. Orðið er enn laust undir liðnum: Önnur mál, ef ekki fleiri kveða sér hljóðs þá er þessum umræðulið lokið. Ég ætla að gefa formanni síðasta orðið um leið og ég þakka fyrir mig og við tókum þá ákvörðun hér að ljúka þingstörfum þar sem það var engin sérstök ástæða til að halda þinghlé fyrir kosningar en formaður mun gera aðeins grein fyrir því hvað stendur til hér. Ég þakka fyrir mig.“

47


Ingvar Sverrisson: Ingvar þakkaði þingfulltrúum fyrir þingstörf og sagði þetta hafa verið gott þing. Hann sagði samstöðu íþróttahreyfingarinnar í Reykjavík mikilvæga gagnvart ríki og borg þegar kæmi að því að hefja aftur uppbyggingu íþróttamannvirkja í borginni. Við gætum horft á hverfin okkar sem lítil sveitarfélög sem þyrftu ákveðna grunnaðstöðu til að halda úti þjónustu við íbúana. Einnig þyrfti aðstöðu fyrir verkefni landsliða Íslands í höfuðborginni og þar yrði ríkið að koma að málum líka. Ingvar ítrekaði þakkir og það traust sem honum hefði verið sýnt en vék síðan orðum sínum að Sigríði Jónsdóttur þingforseta og tilkynnti að stjórn ÍBR hefði ákveðið að sæma hana gullmerki ÍBR. Að þeirri athöfn lokinni sleit Ingvar þinginu og bauð gestum að ganga til veitinga. Þingi slitið kl. 18:24

48



Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.