bakkaberg_12_13

Page 1

Starfsáætlun Bakkabergs 2012-2013

Leikur-samvinna-virðing Ábm. Valdís Edda Hreinsdóttir


Inngangur Þá eru tæp tvö ár liðin síðan leikskólarnir Bakki og Berg voru sameinaðir og ekki nema ár er síðan ákveðið var að sameiningarnafnið yrði Bakkaberg, þó hvor starfstöð héldi sínu nafni.

Það hefur mikið verið unnið í að samræma starfið milli starfsstöðva og hafa nokkrir starfsmenn verið að fara á milli staða.

Starfið hefur gengið nokkuð vel þegar á heildina er litið. Enn er þó viss þróun í gangi og má því segja að hér sé á ferð framhald af áfangaskýrslu.


Litið til baka

Þegar litið er til baka þá sjáum við að okkur hefur tekist að ná flest öllum okkar markmiðum. Aðaláherslan var að þróa sameininguna og nýta sem best okkar auðuga umhverfi sem við erum staðsett í, þá með mannauð, náttúruna og búnað í huga.

Þróunarverkefnið milli Bergs og Klébergsskóla Grænir skólar gekk vel en þar var áherslan á umhverfismennt og listsköpun. Elstu börnin taka þátt í þessu starfi ásamt 1. bekk Klébergsskóla. Verkefnastjóri verkefnisins er Guðrún Dögg Gunnarsdóttir. Bakki og Korpuskóli eru einnig að fara í þróunarsamstarf þar sem áherslan er á nærumhverfið. Það er einnig hugsað fyrir elstu börnin og 1. bekkinga Korpuskóla. Verkefnið nefnist Bakka- og korpubúar á ferð um náttúruperlur staðahverfis.Við höfum fengið styrk frá Þróunarsjóði skóla-og frístundaráðs.


Tæknikennsla leikskólabarna eða undraheimur tækninnar er verkefni sem elstu börnin taka þátt í og hefur algjörlega slegið í gegn. Farið var af stað með kennslu með ipad og varð hún strax mjög vinsæl í leik og starfi. Þetta verkefni var styrkt af sprotasjóði og Eplabúðinni. Upp kom sú hugmynd að gera litla heimasíðu um verkefnið en vegna gífurlegrar athygli varð úr að það var opnaður vefurinn www.appland.is


World Weather Watch er 14 e-Twinning verkefnið sem við tökum þátt í. Á hverjum degi er eitt barn fengið til að vera veðurfræðingur og fer hann ásamt kennara og athugar með hitastigið, veðurskilyrði og síðan eru vangaveltur um það hvernig best sé að klæða sig miðað við veður. Við notum tækifærið í þessari stund og notum Tákn með tali. Börnin fylgjast með veðrinu á hverjum degi og læra þannig um veðráttuna. Síðan skoða þau með hjálp tækninnar hvernig veðurfar er í samstarfslöndunum, það er þó bara gert einstöku sinnum. Rakel Magnúsdóttir er með umsjón með þessum verkefnum og fer á milli starfsstöðva.



Ótrúleg eru ævintýrin er námsefni sem við fórum af stað með og tókum við fyrir ævintýrið Selshaminn. Þetta gekk nokkuð vel en við hefðum þó mátt undirbúa okkur aðeins betur. Námssögurnar eru einstaklingsskráningarnar okkar þar sem við færum inn einu sinni í mánuði ýmist verk barnsins eða skráningu þar sem barnið er í leik og starfi. Þessar skráningar fá foreldrar síðan sendar heim á vorin. Þetta er verið að þróa og láta flæða á milli starfstöðva. Fjörulallarnir voru á sínum stað og eru komnir til að vera, það eru eins og áður þrír elstu árgangarnir sem taka þátt. Þetta verkefni hefur gengið mjög vel og tilvalið er að láta öll önnur verkefni flæða þar inn. Valdís Edda er verkefnastjóri og fer á milli starfsstöðva.


Umhverfismenntin hefur síðan verið aðalþráðurinn í öllum okkar verkefnum og höfum við náð að láta hana flæða í starfinu. Við byrjuðum á því síðasta haust að vera með samvinnu á milli starfstöðvanna þar sem starfsmaður kom af Bergi, en vegna veikinda þá féll sú vinna niður.

Ný heimasíða fyrir sameinaðan skóla var opnuð og er slóðin www.bakkaberg.is Það er mjög mikið um heimsóknir á heimasíðuna okkar og virðist starfið okkar vekja mikla athygli og áhuga, ekki eingöngu frá foreldrum, heldur líka frá öðrum leikskólum.


Út um borg og bý: Er samstarf milli starfsstöðva þar sem elstu börnin fara saman í ferðir í júnímánuði. Þetta hefur gengið mjög vel og koma börnin frá Bergi tvisvar í viku á Bakka og þaðan er farið í ferðirnar. Þetta hefur mælst vel fyrir hjá foreldrum og gengið vel að sameina í ferðir frá Bergi.


Framhaldið Þó vel hafi gengið að okkar mati þá er ýmislegt sem við viljum samræma enn betur á milli starfstöðvanna, eins að nýta enn betur þann mannauð sem við erum svo heppin að hafa yfir að ráða. Ætlunin er að vera með fleiri verkefnastjóra sem fara á milli starfstöðva og samræma fleiri þætti í starfinu okkar. Fjörulallarnir: Verða á sínum stað og munu verkefni vetrarins vonandi flæða jafn vel í þeirra starfi áfram. Í elstu barna verkefnum: Sjáum við fram á að geta samræmt verkefni betur og verið í meira samstarfi við grunnskólana á báðum stöðum. Myndmennt: Þar sem öll verkefni sem unnið er með hverju sinni verði fléttuð saman við listir og skapandi starf.


Könnunarleikur: Þar sem okkur langar að þróa og festa betur í sessi þennan leik hjá 1-3 ára börnum.


Á starfsdegi núna í maí síðastliðinn fórum við að heimsækja leikskólann Tjarnarsel í Reykjanesbæ. Þar fengum við kynningu á þróunarverkefni hjá þeim sem kallast Bók í hönd og þér halda engin bönd. Þar er verið að efla mál og lesþroska barna með því að lesa fyrir þau á markvissan hátt og lögð er áhersla á að efla orðaforða og hlustunarskilning. Orðaspjall þar sem verið er að læra og leika með orð. Þetta er aðferð sem okkur þótti mjög spennandi og langar okkur að byrja að innleiða þessa aðferð í okkar starfi. Eins heimsóttum við bókasafnið í Reykjanesbæ og þar fengum við kynningu á sögupokum. Þetta eru taupokar sem innihalda sögu og leikföng sem tilheyra sögunni. Markmiðið er að örva lesskilning barna í gegnum lestur og leik, eins að efla tengsl þar á milli. Við erum alveg ákveðin í að taka þessa aðferð upp í sögustundum hjá okkur í vetur. Námssögurnar: Halda áfram og munum við þróa þær áfram á báðum starfstöðum. U.T.M.L: Mun að sjálfsögðu verða á sínum stað í leik og starfi hjá elstu börnunum. e-Twinning: Heldur áfram en þó er ekki alveg ákveðið hvaða verkefni verður tekið fyrir.


Ótrúleg eru ævintýrin: Ætlunin er að halda áfram með þetta verkefni þó að ævintýrið verði annað og betur undirbúið. Jafnvel að velja ævintýri í haust og útfæra vinnuna fram að áramótum. Byrja svo á fullu eftir áramót að vinna með það.


Samstarf við Myndlistaskóla Reykjavíkur. Í því starfi verður um námskeið fyrir elstu börnin að ræða. Þau munu skiptast í hópa og hver hópur verður á námskeiði einu sinni í viku í sex vikur.

Starfsmannahópurinn Á Bakkabergi munu starfa 28 starfsmenn á komandi vetri. Það voru fimm starfsmenn sem fóru á milli starfstöðva síðastliðinn vetur og verða jafnvel átta í vetur. Sameiginlegir starfsdagar hafa komið vel út og munum við halda því og verða þeir til skiptis á hvorri starfsstöð. Starfsviðtöl hafa verið skipulögð einu sinni á vetri í nóvember/desember. Það er þó alltaf hægt að óska eftir viðtali og hafa nokkrir nýtt sér það.


Sami háttur verður á hvað varðar símenntunaráætlun, hún verður ekki fest niður þar sem við erum með svo mörg verkefni í gangi. Það teljum við vera okkar símenntun, þó verður opið fyrir það að afla sér símenntunar þegar þurfa þykir.

Leikskólakennari Grunnskólakennari Þroskaþjálfi Háskólapróf án uppeldismenntunar Leikskólaliði Leiðbeinandi Starfsmaður Matráður

6 2 2 1 3 6 6 2


Barnahópurinn Á Bakkabergi verða 95 börn næsta vetur, þar af 34 börn á Bergi og 61 á Bakka. Bakki Berg Samtals

2007 17 7 24

2008 7 9 16

2009 18 8 26

2010 19 6 25

2011 4 4


Innra mat leikskólans Það var tekin sú ákvörðun að leggja fyrir starfsfólkið matsblöð á starfsdegi í vor þar sem þeir voru beðnir að meta starf vetrarins. Eins lögðum við spurningar fyrir börn úr þremur elstu árgöngunum. Það var ætlunin að leggja könnun fyrir foreldra nú í vor en því miður þá fórst það fyrir. Til gamans birtum við hér umsagnir frá foreldum um U.t.m.l. og námssögurnar Umsagnir um U.t.m.l.: X hefur aðeins sagt okkur frá Ipadinum en vill ekki fara nánar út í það hvað hann er að skoða/reikna, spyr jú stundum hvað 5+5 er o.s.frv. Hann nennir yfirleitt ekki að tala um hvað var að gerast í leikskólanum þegar við erum að spyrja hann. Ég held hann hafi samt mjög gaman af þessu og er mjög öruggur þegar hann fær að fara í tölvuna heima, pikkar inn stafi og fer í Angry Birds einstaka sinnum J X segir mér lítið frá þessum tímum en það er sennilega bara hennar persónuleiki, hún talar lítið um hvað er um að vera. Hinsvegar er hún mjög spennt þegar ég segi henni að ég hafi fengið póst. Ég reyni líka að spyrja hana, hún virðist vera spennt og þykja þetta skemmtilegt. X er farin að tengja samans stafi/lesa léttan texta, reiknar svolítið á fingrunum og skrifar. Jú, þessi kennsla hefur skilað sér heim til okkar. X hefur verið að æfa sig að skrifa bókstafi í tölvunni og er stundum að reikna fyrir okkur (en þó hef ég ekki tekið eftir að hún gerir það í tölvunni). Hún er orðin mjög dugleg í tölvunni heima og fljót að læra eitthvað nýtt. Maður er stundum alveg hissa þegar maður sér hvað hún getur. Hún talar mikið um þessa kennslu og finnst alveg rosalega gaman í þessum tímum. Hún er greinilega mjög hrifinn, því nú segist hún vera að safna fyrir Ipad


Ég er mjög ánægð með þessa kennslu og finnst hún hið besta mál. Heyrðu mér finnst þetta bara snilld sko. X er oft að reikna fyrir mig í þar til gerða bók og líka að skrifa, ægilega ánægð með sjálfa sig. Hún er líka oft að tala um ipadinn og henni þykir gaman að fara í tölvuna heima. Svo er hún líka mjög dugleg að lesa. Ég styð þetta verkefni heilshugar. Umsagnir um námssögurnar: Það var einstaklega skemmtilegt að skoða þetta og mikill metnaður hjá ykkur að vinna svona fyrir öll börnin. Alveg ómetanlegt fyrir okkur foreldrana að fá svona innsýn í líf barnanna á leikskólanum. :-) Takk kærlega fyrir þessa umsögn. Virkilega gaman að fá þær og geta lesið og skoðað myndirnar. Endilega haldið þessu áfram. Og takk sömuleiðis fyrir veturinn. Takk kærlega fyrir sendinguna, alveg virkilega gaman að þessum sögum og myndskreytingum við! Þegar maður reynir að forvitnast hvað hafi verið gert á leikskólanum í dag er svarið ansi oft "leika" með litlum útskýringum, þannig að það er gaman að fá þarna þó ekki sé nema smá nasasjón inní starfið :-)


Börnin Hvað finnst þér skemmtilegast í leikskólanum: Það voru fjaran, elstubarna verkefni, ipad, vinirnir og holu-kubbarnir sem voru vinsælast.

Hver er uppáhalds staðurinn í leikskólanum: Deildin mín, útisvæðið, fjaran og holukubbasvæðið.

Hvernig líður þér í leikskólanum: Vel, vel alltaf.

Starfsfólkið Umhverfismennt: Þar fannst okkur vanta upp á skipulag og samræmi milli árganga, láta börnin vita um tilgang og markmið verkefna líkt og gert er í fjörulöllum. Fuglavernd: Mætti vera sýnilegri og meira skipulag. Tengja meira við umhverfismennt og fjöruna og taka fyrir markvissara í samverustundum fugl mánaðarins.


Fjörulallar: Gengur mjög vel og börnin áhugasöm. Hópstjórar mættu vera virkari, verkefnastjóri gæti verið duglegri að fá hópstjóra til að finna upp á verkefnum t.d. hver deild með eina hugmynd í mánuði. Ótrúleg eru ævintýrin: Gekk vel spurning um að taka fyrir annað ævintýri og undirbúa okkur betur. Gæti verið gott að það væri ábyrgðaraðili sem sæi um hugmyndir og framkvæmd. Elstu barna verkefni: Gekk mjög vel, spurning um að samræma meira milli starfsstöðva. Könnunarleikurinn: Gengur vel, mætti vera meiri festa. Hvernig bæta má upplýsingaflæðið: Það hefur batnað, þarf að festa deildar og deildarstjórafundi. Nota töflu á kaffistofu betur. Hópstjórar duglegri að gera fréttir. Ytra mat leikskólans Leikskólasvið lagði ekki fyrir foreldra og starfsmenn könnun í ár þannig að við ætlum að nýta okkur umsögn foreldraráðs sem ytra mat að þessu sinni.


Hvatningar-umhverfisverðlaun Bakkaberg fékk hvatningarverðlaun í fjórða sinn í ár. Það var Rakel Magnúsdóttir sem fékk verðlaun fyrir frumkvöðlastarf í upplýsingatækni með leikskólabörnun. Áður höfum við fengið verðlaun fyrir Flóð og fjöru, heimasíðuna, fjörulallana og svo Ingibjörg leikskólastjóri fyrir leiðtogahæfni í gróskumiklu fagstarfi. Eins vorum við að fá umhverfisverðlaun hverfaráðs Kjalarnes. Við erum að sjálfsögðu mjög stoltar af skólanum okkar.



Lokaorð Það er mjög mikil þróun í starfinu hjá okkur. Það er sameiningin og svo erum við að þróa áfram þau verkefni sem við erum farin af stað með. Það er mikill áhugi hjá starfsfólki að gera starfið sýnilegt og flæðandi.

Eins og sjá má í matinu þá er þörf á að fínpússa ýmsa þætti til að gott þyki. Við erum mjög ánægðar með hvað börnin virðast vera ánægð og líða vel í leikskólanum sínum. Við förum jákvæðar inn í nýtt starfsár og styðjumst við einkunnarorðin okkar: Leikur-samvinna-virðing


Umsögn foreldraráðs Bakkabergs um einstaka þætti starfsáætlunar 2012-2013

Bakkaberg – er gott og þjált nafn sem hefur aðlagast vel að leikskólunum. Grænir skólar – Nauðsynlegt verkefni hjá grænfána- leikskóla að gera börnin meðvituð um náttúruna og ummhverfismenntina. Einnig er gott fyrir börnin að fá að kynnast og vinna með börnum úr grunnskólanum. Þannig verður flutningur milli skólastiga væntanlega auðveldari en ella. Tæknikennsla – Tæknikennsla skólans er algjörlega framúrskarandi og þarna vinnur starfsfólk algjört frumkvöðlastarf innan íslenskra leikskóla. Það eru forréttindi fyrir elstu börnin að fá að læra t.d. að reikna og beita rökhugsun í leikjum á spjaldtölvum því þetta er framtíðin. – Húrra fyrir þessari kennslu og Rakel sem er svo sannarlega vel að hvatningarverðlaununum komin. Umhverfismennt – Vonandi gengur betur í vetur að láta hana flæða milli starfsstöðva. Við í foreldraráði höfum fulla trú á að þetta eigi eftir að ganga betur á komandi starfsvetri þegar fleira starfsfólk fer á milli Bergs og Bakka. Heimasíðan –Nýja heimasíðan er afskaplega aðgengileg og skemmtileg og frábært er hversu reglulega hún er uppfærð. Það er ekki skrítið að aðrir skólar skoði þetta glæsilega starf sem fram fer á Bakkabergi enda er það til fyrirmyndar. Út um borg og bý- Það er mjög jákvætt fyrir starfsstöðvarnar að börnin fái líka að hittast og gera skemmtilega hluti saman. Þannig átta börnin sig betur á að á Bakkabergi eru reknar tvær starfsstöðvar. Framhaldið- það er greinilegt að sameiningin gengur vel og er komin vel á veg. Margt af því sem betur mátti fara samkvæmt síðustu starfsáætlun er komið í lag þannig að augljóslega hafa orðið miklar framfarir milli ára. Við hjá foreldraráðinu fögnum nýjum spennandi verkefnum , s.s. Bók í hönd og þér halda engin bönd, sögupokanum og samstarfi við Myndlistaskólann, sem leikskólinn ætlar að taka fyrir á komandi vetri og erum auk þess mjög ánægð með að eldri verkefni, s.s fjörulallarnir, utml, fuglaverndin og námssögurnar fái að halda sínum sessi og þróast í starfinu. Við þökkum starfsfólki Bakkabergs kærlega fyrir veturinn og erum þakklát fyrir að börnin okkar fái að læra í svona frábærum leikskóla. Börnin hlakka til komandi veturs og við treystum þvi að þau fái áframhaldandi vandað og fjölbreytt nám.



Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.