forvarnastefna%5B1%5D

Page 1

Forvarnarstefna leikskólanna í Grafarvogi og á Kjalarnesi

Bakki-Berg-Brekkuborg-Engjaborg-Fífuborg-Foldaborg-FoldakotFunaborg-Hamrar-Hulduheimar-Klettaborg-Laufskálar-LyngheimarSjónarhóll.


Forvarnarstefna Reykjavíkurborgar

Í forvarnarstefnu Reykjavíkur (2006) er lögð á það áhersla að forvarnir hefjist strax í barnæsku, þær séu heildstæðar og víðtækar. Þar koma fram þau markmið og leiðir sem vinna skal út frá. Markmið forvarnarstefnunnar er, að skapa öllum börnum og ungmennum umhverfi sem eflir sjálfstraust þeirra og sjálfsmynd. Aðstæður sem einkennast af samkennd og að viðeigandi stuðningsúrræði séu til staðar þegar þörf krefur. Í markmiðum forvarnarstefnunnar kemur fram að almennar forvarnir eiga að ná til allra barna og ungmenna, að auki sértækar forvarnir til hópa og einstaklinga sem eru í hættu. Almennar forvarnir Þar er áhersla lögð á að merkjanlegan árangur verði að sjá á heilsu, góðri andlegri líðan og jákvæðri sjálfsmynd árið 2010. Sértækar forvarnir Að koma í veg fyrir neikvæða hegðun svo sem vímuefnaneyslu, afbrot og ofbeldi. Með það að leiðarljósi: • Að neysla vímuefna mælist ekki meðal grunnskólanema árið 2010 • Að dregið hafi úr neyslu allra vímuefna í framhaldsskólum árið 2010 • Að börn alist upp án þess að verða fyrir ofbeldi og einelti árið 2010 (Forvarnaráætlun Reykjavíkur, 2006)


Forvarnir í leikskólum Leikskólinn er fyrsta skólastig barnsins og ber hann því ábyrgð á forvörnum í uppeldi sem viðbót við uppeldi foreldra. Tekið er mið af margbreytileika mannlífsins og það að leikskólinn er fyrir öll börn óháð andlegu og líkamlegu atgervi, menningu eða trúarbrögðum. Í þessari forvarnaráætlun fyrir leikskóla er ætlunin að varpa ljósi á helstu áherslur leikskólanna í Grafarvogi og á Kjalarnesi. Í leikskólum er unnið samkvæmt lögum um leikskóla númer 78/1994 og Aðalnámskrá leikskóla (1999). Út frá Aðalnámskrá leikskóla hafa allir leikskólar Grafarvogs unnið sína námskrá.

Markmið með forvarnaráætlun Í forvarnaráætlun fyrir leikskólana í Grafarvogi eru sett fram markmið og leiðir: Frumbernska 0-2 ára. • Stuðla að öryggi barna í daglegu lífi • Styðja foreldra í uppeldishlutverkinu • Leggja grunn að heilbrigðum lífsháttum barna Leikskólaaldur 2 – 5 ára • Að styrkja félagsfærni barna • Að börnin tileinki sér holla og heilbrigða lífshætti • Að byggja upp jákvæða sjálfsmynd barna

Leiðir að settum markmiðum eru útfærðar mismunandi eftir skólum. Í forvarnaráætluninni eru eftirfarandi leiðir settar fram:


Aldur 0 -2 ára

Markmið: • Stuðla að öryggi barna í daglegu lífi Leiðir í leikskólanum Í upphafi leikskólagöngu er aðlögunartími þar sem foreldrar, börn og starfsfólk kynnast og mynda tengsl sín á milli. Lögð er áhersla á trúnað milli barna og starfsmanna. Leikskólastarfið er skipulagt með það fyrir augum að veita börnum öryggi og hlýju með faglegri ummönnun, sem er sniðin eftir aldri og þroska barnanna við daglegar venjur. Allt umhverfi og aðbúnaður er samkvæmt stöðlum sem viðurkenndir eru og öryggisatriði eru yfirfarin reglulega. Markmið: • Styðja foreldra í uppeldishlutverkinu Leiðir í leikskólanum Boðið er reglulega uppá foreldraviðtöl, foreldrafundi með kynningu á leikskólastarfinu og fræðslu um uppeldi barna. Lögð er áhersla á dagleg samskipti milli foreldra og starfsmanna með gagnkvæmar upplýsingar um líðan barnsins í leikskólanum og heima að leiðarljósi. Markmið: • Leggja grunn að heilbrigðum lífsháttum barna Leiðir í leikskólanum Reglulegar máltíðir með hollum fjölbreyttum og næringarríkum mat þar sem lögð er áhersla á hreinlæti og borðsiði. Hreyfiþjálfun í leik og starfi úti og inni. Öllum er séð fyrir hvíldartíma og næðissömum stundum daglega. Lögð er áhersla á að hvetja börnin til sjálfshjálpar með það fyrir augum að efla sjálfstæði þeirra. Hreinlæti er eðlilegur þáttur í starfi leikskólanna og börnin tileinka sér hreinlæti frá frumbernsku. Umhverfisvernd / mennt er liður í starfi leikskólanna.


Aldur 2 -5 ára

Markmið: • Að styrkja félagsfærni barna Leiðir í leikskólanum Í daglegu starfi í leikskólanum er lögð áhersla á traust og heiðarleg samskipti milli barna og fullorðinna. Lagður grunnur með óformlegum og formlegum hætti að félagsfærni barna. Óformlegur háttur er meðal annars þegar andrúmsloft er skapað innan leikskólans sem einkennist af vináttu, virðingu, umburðarlyndi og að allir séu viðurkenndir óháð andlegu eða líkamlegu atgervi, kynferði, uppruna, menningu eða trúarskoðunum. Margbreytileiki er eðlilegur í samfélaginu. Formlegi hátturinn er það sýnilega starf sem fram fer og eru viðurkenndar aðferðir til að styrkja félagsfærni. Þær aðferðir sem eru hvað algengastar eru hópastarf og þema en þar er unnið saman að ákveðnum viðfangsefnum svo sem að taka tillit til annarra, skoðana þeirra og gjörða, að setja sig í annarra spor, leysa deilur, hlusta á aðra, spyrja spurninga og leita svara. Í hópavinnu læra börnin jafnframt og eru styrkt í að standa með eigin skoðun og að segja nei takk þegar það á við. Börnin eru styrkt í að velja og hafna fyrir sig sjálf. Nám í lífsleikni þar sem þau tileinka sér virðingu, þátttöku í mótun reglna, almenna kurteisi og að virða mörk samfélagsins. Samvinna við grunnskóla, sem er næsta skólastig barnanna, er með reglulegu millibili á síðasta ári leikskólagöngunnar. Í þeirri samvinnu er lögð áhersla á að skapa jákvæða mynd í hugum barnanna fyrir það nám og námsumhverfi sem tekur við að loknum leikskóla. Börnunum er kynnt það helsta sem fer fram á fyrsta skólaárinu, þau fá leiðsögn um húsakynni og kynnast starfsfólki skólans.


Markmið: • Að börnin tileinki sér holla og heilbrigða lífshætti Leiðir í leikskólanum Í leikskólanum er líkamleg ummönnun stór liður í öllu starfi. Lögð er áhersla á að gera börn sjálfstæð og sjálfbjarga og að þau tileinki sér undirstöðuþekkingu á því hvernig hægt er að annast og vernda líkama sinn á heilsusamlegan hátt. Börnin tileinka sér góðar matarvenjur í leikskólanum með því að borða hollan og næringarríkan mat reglulega. Hreinlæti og hreinlætisvenjur eru fastir liðir í starfi leikskóla. Börnin fá góða hreyfingu og eru virk í leik og starfi úti og inni. Skipulagðar eru vettvangsferðir um nágrenni skólanna með hreyfingu og umhverfismennt að leiðarljósi. Þess er gætt að jafnvægi ríki milli hvíldartíma og virkni.

Markmið • Að byggja upp jákvæða sjálfsmynd barna Leiðir í leikskólanum Allir hópar eru samansettir af einstaklingum með mismunandi þarfir, persónueinkenni, styrkleika og veikleika. Lögð er á það áhersla að styrkja hvern einstakling með því að horfa til jákvæðra eiginleika hans og styrkleika. Í leikskólanum er sjálfsmynd barnanna styrkt með ýmsu móti í daglegu starfi. Börnin tjá sínar tilfinningar, gleði, reiði, sorg og ótta. Í leik og skapandi starfi er lögð áhersla á að styrkja þau í því að tjá sig um jákvæða eiginleika sína og annarra. Með það að leiðarljósi að börnin efli sjálfstæði velja þau sér viðfangsefni, þau eru hvött til að mynda sér skoðanir, taka þátt í umræðum og að koma fram fyrir félaga sína og tjá sig. Börnin læra sjálfshjálp meðal annars með því að klæða sig úr og í, einnig með því að aðstoða við undirbúning fyrir máltíðir. Börnin eru þátttakendur í að meta og skipuleggja starf leikskólans þannig finna þau að tekið er mark á þeirra skoðunum. Agi einkennist af jákvæðri styrkingu á það sem vel er gert, daglegt skipulag veitir öryggi það er í föstum skorðum. Dagleg ummönnun og samskipti endurspegla virðingu fyrir börnunum og þeirra fjölskyldum. Starfsmenn tileinka sér góða hegðun, þeir eru fyrirmyndir barnanna.


Sértækar forvarnir í leikskóla Markmið • Leikskólinn er án aðgreiningar, þar sem öll börn eru velkomin

óháð andlegu eða líkamlegu atgervi, kynferði, uppruna, menningu eða trú

Leiðir leikskólans. • Leikskólinn veitir forgang þeim börnum sem uppfylla viðmiðunarreglur Leikskólasviðs um forgang barna (www.leikskolar.is). • Leikskólinn gerir reglulega mat á þroska barna í leikskólanum. • Komi upp grunur um frávik í þroska er haft samband við foreldra. • Foreldrar skrifa undir erindi um sérfræðiaðstoð sem sent er frá leikskólanum. • Börn með þroskafrávik fá sérkennslu í leikskólanum eftir að greining hefur farið fram hjá fagaðilum. • Samráðsfundir eru haldnir reglulega í leikskólanum milli leikskólans og sálfræðings og sérkennslufulltrúa frá Miðgarði, þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness. • Leikskólinn hefur aðgang að ráðgjöf frá barnalækni. • Leikskólinn hefur aðgang að og vísar foreldrum á heilsugæslustöð Grafarvogs/Mosfellsbæjar. • Leikskólinn starfar samkvæmt fjölmenningarstefnu Menntasviðs (www.leikskolar.is). • Leikskólinn hefur aðgang að túlkaþjónustu. Annars vegar vegna foreldra barna af erlendum uppruna, hins vegar vegna heyrnarskertra foreldra. • Bæklingar eru til á erlendum tungumálum um starfsemi leikskóla (www.leikskolar.is). • Áfallaáætlun um viðbrögð gagnvart alvarlegum áföllum og slysum er til í leikskólanum. • Leikskólinn hefur tilkynningaskyldu til Barnaverndar Reykjavíkur vakni grunur um vanrækslu gagnvart barni. Leikskólinn hefur jafnframt upplýsingaskyldu gagnvart Barnavernd Reykjavíkur.


Miðgarður, þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness: Uppeldisnámskeið í boði fyrir foreldra og starfsfólk leikskóla. • • • •

Uppeldi sem virkar – Færni til framtíðar – fyrsta stigs forvarnanámskeið SOS – fyrsta stigs forvarnanámskeið Að alast upp aftur - fyrsta stigs forvarnarnámskeið PMT (Parent management training). - annars stigs forvarnarnámskeið.

Að lokum Leikskólinn leitast í daglegu starfi við að leggja grunn að öflugri og jákvæðri sjálfsmynd barna, efla félagsfærni þeirra og sjá til þess að þau tileinki sér heilbrigða og holla lífshætti. Aðalnámskrá leikskóla (1999) er undirstaða faglegrar vinnu í leikskólanum hún samræmir vinnubrögð starfsmanna og er því höfð að leiðarljósi við gerð og útfærslu á forvarnaráætlun í leikskólum. Forvarnaráætlun í leikskólum er endurmetin á hverju ári í tengslum við ársáætlun.

Heimildir • Aðalnámskrá leikskóla. 1999. Reykjavík, Menntamálaráðuneytið. • Forvarnarstefna Reykjavíkurborgar. 2006. Reykjavík. • Forvarnastefna Vesturbæjar. 2006. Reykjavík.

Forvarnarnefnd Grafarvogs og Kjalarness Fyrir hönd leikskóla, Júlíanna Hilmisdóttir leikskólastjóri


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.