handbokheild2_2011

Page 1

Handbók fyrir nemendur og foreldra 2011–2012 Ágæti viðtakandi Handbók Foldaskóla fyrir nemendur og foreldra er mikilvægur hluti af skólanámskrá skólans. Útgáfa ritsins er í samræmi við ný lög um grunnskóla sem samþ. voru 29. maí 2008, þar sem skólum er gert að útfæra meginmarkmið laga og aðalnámskrár með markvissum hætti. Skólanámskrá er unnin af starfsfólki skóla og er ætlað að ná til sem flestra þátta skólastarfsins. Markmiðið er að upplýsa almenning um starfsemi skólans og auka samfellu og skilvirkni í starfi hans. Í þessu riti er að finna hagnýtar upplýsingar um Foldaskóla, stefnu og áhersluþætti, skólareglur, námsskipulag, stoðkerfi og ýmislegt fleira sem ætla má að komi foreldrum og nemendum vel að vita. Handbókin er nú einungis gefin út á heimasíðu skólans en þar má einnig finna ýmsar upplýsingar, fréttir úr skólalífinu og margt fleira. Með ósk um farsælt samstarf á komandi vetri. Kristinn Breiðfjörð Guðmundsson skólastjóri

Foldaskóli Logafold 1 – 112 Reykjavík Sími 540 7600- fax 540 7601 Heimasíða: www.foldaskoli.is Skólastjóri: Kristinn Breiðfjörð Guðmundsson kristinn.breidfjord.gudmundsson@reykjavik.is Deildarstjóri 1.-6. bekkja: Bára Jóhannsdóttir – Bara.Johannsdottir@reykjavik.is Deildarstjóri 7.-10. bekkja: Kristrún Guðjónsdóttir – Kristrun.Gudjonsdottir@reykjavik.i Skrifstofustjóri: Sigrún Helga Jónsdóttir – Sigrun.Helga.Jonsdottir@reykjavik.is Ritari: Guðrún Baldursdóttir – Gudrun.Baldursdottir@reykjavik.is Nemendur Foldaskóla árið 2011-2012 verða um 360.

1


Saga Foldaskóla Skólinn tók til starfa haustið 1985 en byggingarframkvæmdum lauk 1991. Skólinn var dæmigerður „frumbyggjaskóli“ í nýju hverfi. Farið var af stað í hálfkláruðu húsnæði þar sem öllu ægði saman; iðnaðarmönnum, tækjum og tólum, kennurum og nemendum. Nemendum fjölgaði hratt og urðu flestir árið 1990 þegar nemendafjöldi fór rétt yfir 1.200 að meðtöldu útibúi í Hamrahverfi. Skólaárið 2007-2008 voru nemendur um 414 talsins og gert er ráð fyrir að þeir verði um 340 árið 2012. Húsnæði skólans er að stofni til þrjár einingar eða sérstæð hús með tengibyggingu á milli. Vorið 2001 var tekin fyrsta skóflustunga að viðbyggingu þar sem komið var fyrir sérgreinastofum auk íþróttahúss. Kennslustofurnar (690 m2) voru teknar í notkun haustið 2002, um leið og skólinn var einsettur, ásamt íþróttahúsi sem er 12 × 24 m og 620 m2 með búningsklefum. Þá var nýtt mötuneytiseldhús tekið í notkun haustið 2003. Skólinn var móðurskóli í nýsköpun frá árinu 1998 til 2005 en 5 ár eru hámarkstími slíkra verkefna. Kennsla í nýsköpun er fastur liður á stundaskrá nemenda í 4.-6. bekk. Við skólann er starfrækt sérhæfð far-sérdeild (stofnuð haustið 2004) sem þjónustar nemendur í Grafarvogi og á Kjalarnesi. Þar fá nemendur með atferlistruflun og geðraskanir stuðning í sínum heimaskóla. Skólahljómsveit Grafarvogs hefur aðsetur í Foldaskóla. Einnig fá tónlistarskólar aðstöðu til hljóðfærakennslu á skólatíma. Í húsnæði skólans rekur Gufunesbær (ÍTR) frístundaheimilið Regnbogaland fyrir nemendur 1.-4. bekkjar og félagsmiðstöðina Fjörgyn. Einnig er rekið tómstundastarf fyrir nemendur í 5.-7. bekk eftir skóla ákveðna daga vikunnar. Útilistaverk á hringtorgi skólans heitir Foldagná (1993) og er eftir Örn Þorsteinsson. Fyrrum skólastjórar skólans eru Arnfinnur Jónsson (1985-1992) og Ragnar Gíslason (1992-2002). Núverandi skólastjóri, Kristinn Breiðfjörð Guðmundsson, hefur starfað frá haustinu 2002. Kolbrún Ingólfsdóttir starfaði sem aðstoðarskólastjóri frá stofnun skólans til 2009. Núverandi aðstoðarskólastjóri frá 2009 er Bára Jóhannsdóttir.

2


Skólastefna Siðprýði – Menntun – Sálarheill Hlutverk skólans er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi í samvinnu við foreldra. Frumábyrgð á uppeldi og menntun hvílir á foreldrum. Hlutverk skólans er einkum að skapa nemendum tækifæri til náms og þroska, jafnt líkamlega, andlega og félagslega. Þetta sameiginlega hlutverk krefst náinna tengsla, gagnkvæms trausts, upplýsingamiðlunar, ábyrgðar og samvinnu.

Markmið skólastarfsins eru:  Að veita nemendum góða alhliða menntun og búa þá undir fullorðinsárin.  Að efla með nemendum sjálfstæða, agaða, gagnrýna og skapandi hugsun og góð vinnubrögð.  Að efla sjálfsmynd nemenda.  Að efla siðgæðisþroska nemenda, umburðarlyndi og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.  Að nemendur öðlist þjálfun í að takast á við mismunandi aðstæður í samskiptum við ólíka einstaklinga.  Að nemendur læri að hlusta, virða og taka tillit til skoðana annarra.  Að efla virðingu og jákvæð viðhorf nemenda til náttúrunnar, umhverfisins og alls lífs.  Að efla samhug og samstarf heimila og skóla til að ná sameiginlegum markmiðum í þágu nemenda. Í Foldaskóla stefnum við að því að ná sem bestum árangri í starfi svo nemendur okkar megi verða nýtir þjóðfélagsþegnar með heilbrigð lífsmarkmið. Nemendur Foldaskóla eiga að stunda nám sitt af kostgæfni. Hver og einn á að nýta hæfileika sína og vitsmuni til fulls. Nemendur, kennarar og foreldrar vinna saman að þessum markmiðum. Skólinn er vinnustaður nemenda og þar gilda sömu reglur um mætingu, hegðun og samviskusemi og á öðrum vinnustöðum. Námið á að vera krefjandi og virkja sköpunargáfu, hugvit og frumkvæði nemenda. Í skólanum á að ríkja góður starfsandi og vinnufriður þar sem nemendur, sem og aðrir, eiga að virða sjálfsagðar og eðlilegar umgengnisreglur. Árangursríkt nám krefst næðis sem er forsenda fyrir einbeitingu og athygli. Þeir nemendur, sem vísvitandi spilla vinnufriði, geta ekki stundað þar nám án sérstakrar aðstoðar eða íhlutunar.

3


Gott að vita – almennar upplýsingar Opnunartími Skólahúsið og skrifstofa skólans er opinn frá kl. 7:50 til kl. 16:00 á starfstíma skóla

Skólahúsnæðið Foldaskóli er einsetinn og heildstæður grunnskóli. Öll almenn kennsla fer fram í skólahúsnæðinu við Logafold en hluti íþróttakennslunnar og sundkennsla fara fram í Íþróttamiðstöðinni í Dalhúsum. Félagsmiðstöðin Fjörgyn er í Foldaskóla. Samkomusalur skólans er jafnframt aðalsalur félagsmiðstöðvarinnar. Þar er mötuneyti nemenda skólans.

Forföll nemenda Forföll nemenda á að tilkynna í síma 540-7604 (sjálfvirkur símsvari) samdægurs. Forföll sem ekki eru tilkynnt verða skráð sem fjarvist. Tilkynna þarf hvern dag fyrir sig. Foreldrar geta einnig skráð forföll á mentor.is

Slys og veikindi á skólatíma Ef nemandi slasast eða veikist alvarlega á skólatíma er farið með hann á heilsugæslu hverfisins og haft samband við foreldra eins fljótt og auðið er.

Forföll kennara Skólinn hefur forfallakennara en þó kemur fyrir að fella verði niður kennslu í eldri bekkjum skólans. Þess er gætt að senda yngstu börnin ekki heim fyrr en skólatíma lýkur.

Leyfi – undanþága frá skólasókn Þurfi nemandi leyfi úr skóla í heilan skóladag eða lengur skal forráðamaður hans sækja um leyfi á sérstöku eyðublaði sem hægt er að fá á skrifstofunni og á heimasíðu skólans. Umsjónarkennari getur veitt leyfi í einn til tvo daga en leyfisveitingar umfram þrjá daga þurfa að auki samþykki skólastjórnanda. Litið er á leyfi sem er lengra en ein vika sem tímabundna undanþágu frá skólasókn. Í slíkum tilfellum er forráðamaður boðaður á fund skólastjórnanda og umsjónarkennara þar sem fjallað er um umsóknina. Sótt er um á sérstöku eyðublaði, „Tímabundin undanþága frá skólasókn.“ Skólinn fjallar síðan um umsóknina og áskilur sér rétt til að hafna henni ef ástæða þykir til. Í 15. gr. laga um grunnskóla (2008) segir: ,,Sæki forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum greinum eða að öllu leyti er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður. Forráðamaður skal þá sjá til þess að nemandi vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.“

4


Þau viðmið sem lögð eru til grundvallar umsókn um tímabundna undanþágu frá skólasókn eru: 1. Ástundun nemanda síðustu þrjár annir. Þar er átt við mætingu og skil á verkefnum og heimanámi. 2. Fyrri leyfi á síðustu tveimur önnum eða skólaárinu. 3. Hvort forráðamaður hafi sinnt skyldu sinni vegna fyrri leyfisbeiðna, sbr. 8. gr. grunnskólalaga, þ.e. að sjá til þess að nemandi hafi unnið upp það sem hann kann að hafa misst úr námi meðan á undanþágu stóð. Foreldrar eru beðnir að gæta hófs í umsóknum um leyfi. Þeir bera fulla ábyrgð á að ekki verði röskun á námi barna sinna vegna leyfa.

Nesti - mötuneyti - matsalurinn Öllum nemendum skólans er boðið upp á að vera í mánaðaráskrift í hádeginu og gildir jafnaðarverð sem miðast við að áskrift sé stöðug allt skólaárið, hvort sem kennslumánuðir eru heilir eða skertir. Nemendum er úthlutað númeri sem þeir skrá í tölvu í hvert sinn þeir fá sér máltíð. Í 1.-7. bekk er sérstakur nestistími með bekkjarkennara. Skólinn hvetur nemendur til að koma með næringarríkt nesti að heiman. Mælt er með að þeir komi með ávexti og grænmeti. Nemendur geta keypt ávexti í áskrift. Foreldrar fylla þá út eyðublað þar sem þeir panta áskrift af ávöxtum fyrir barn sitt og greiða í byrjun skólaárs. Verðlisti er á heimasíðu skólans. Nemendur í 8.-10. bekk hafa aðstöðu til að snæða nesti sitt í félagsálmu/matsal skólans. Í hádegi geta þeir einnig keypt einstakar heitar máltíðir og er fyrirkomulag með þeim hætti að seldir eru matarmiðar á skrifstofu skólans. Nemendur eiga einnig kost á að kaupa samlokur eða annað brauðmeti.

Óveður Foreldrar verða að meta aðstæður þegar veður er vont og halda börnum heima frekar en að senda þau í skólann í tvísýnu veðri og ófærð. Slíkt ber að tilkynna til ritara skólans sem skráir það sem heimil forföll vegna óveðurs. Ef gefin eru út tilmæli til foreldra um að fylgja yngri börnum í skólann er mikilvægt að fylgja barninu inn í skólann þar sem starfsmenn taka á móti þeim. Ef aðstæður eru metnar svo að óhjákvæmilegt sé að fella skólahald niður um tíma vegna veðurs og ófærðar fá fjölmiðlar tilkynningu um það. Einnig verður reynt að birta slíkar tilkynningar á heimasíðu skólans. Þá ber foreldrum að halda börnum sínum heima þangað til tilkynning berst um annað. Geri óveður á skólatíma er nemendum haldið í skólanum þar til þeir eru sóttir eða veður batnar. Sjá nánar um röskun á skólastarfi vegna óveðurs á tilkynningarsíðu skólans.

5


Slys og tjón á persónulegum munum Skólinn greiðir tvær fyrstu komur nemenda á slysadeild vegna meiðsla sem hafa orðið í skóla og á skólalóð á skólatíma og einnig í ferðum á vegum skólans. Flutningur milli skóla og slysadeildar er einnig greiddur. Tjón á eigum nemenda s.s. fatnaði, gleraugum o.þ.h. er ekki bætt nema það verði rakið til mistaka eða sakar starfsmanna borgarsjóðs eða vanbúnaðar skólahúsnæðis. Kostnaður vegna tjóns á tönnum sem á sér stað í skóla eða á skólalóð á skólatíma er endurgreiddur að hluta af Tryggingastofnun ríkisins. Það sem eftir er greiðir borgarsjóður en þó ekki hærri upphæð en kr. 100.000 vegna hvers slyss. (Útdráttur úr reglum Menntasviðs Reykjavíkurborgar.)

Skápar – geymslur Nemendur 7.-10. bekkja geta fengið læstan skáp að láni gegn vægu tryggingargjaldi sem þeir fá endurgreitt að vori. Þar geta þeir geymt töskur sínar, fatnað og annað smálegt. Skólinn getur ekki tekið ábyrgð á fatnaði, skóm og öðrum lausamunum nemenda. Bent er á að heimilistrygging bætir í einhverjum tilvikum tjón á slíku að undanskilinni sjálfsábyrgð tryggingartaka.

Óskilamunir Skólaliðar varðveita óskilamuni og reyna að koma merktum fatnaði til nemenda. Nemendur eru hvattir til að leita til viðkomandi skólaliða eins fljótt og unnt er ef hlutir týnast í skólanum. Óskilamunir liggja frammi á foreldradögum og við skólaslit. Ef ekki er vitjað um fatnað fyrir lok skólaársins er hann gefinn hjálparstofnunum.

Akstur – strætisvagnar – rútur Nemendur sem sækja Foldaskóla fá ekki ókeypis farmiða nema vegalengdin frá heimili að skóla sé a.m.k. 1,5 km fyrir nemendur í 1.-5. bekk og 2 km fyrir nemendur í 6.-10. bekk. Nemendur sem flytja á skólaárinu en stunda áfram nám í Foldaskóla geta fengið einn strætisvagnamiða á dag út skólaárið. Aðrir nemendur eiga ekki rétt á miðum þótt þeir búi utan Foldahverfis. Vettvangsferðir á vegum skólans eru nemendum að kostnaðarlausu. Hins vegar er heimilt að taka gjald fyrir uppihald í námsferðum, að höfðu samráði við foreldra.

Móttaka nýbúa við skólann Þegar beiðni um skólavist erlends barns liggur fyrir er unnið samkvæmt áætlun frá Menntasviði Reykjavíkurborgar. Þar kemur m.a. fram að umsjónarmaður nýbúafræðslu skólans boðar til fyrsta fundar með nemanda, foreldrum, umsjónarkennara og túlk, ef með þarf. Á fundinum er foreldrum kynntur „Upplýsingabæklingur fyrir erlenda foreldra grunnskólabarna.“ Í bæklingnum eru margar hagnýtar upplýsingar um starfsemi íslenska grunnskólans o. fl. Á fundinum er farið yfir nauðsynlegar upplýsingar fyrir foreldra um skólann. Einnig fær skólinn upplýsingar um bakgrunn nemandans og aðstæður hans.

6


Móttaka nemenda sem hefja skólagöngu Fimm ára nemendur fá bréf frá skólanum að vori þar sem þeim er boðið að koma í skólann í u.þ.b. tvær kennslustundir. Tekið er á móti nemendum og foreldrum þeirra á sal og skólastarf kynnt. Foreldrar fá bækling sem heitir „Gagn og gaman fyrir foreldra“. Nemendur fara síðan í skólastofur þar sem þeir kynnast skólastarfinu. Að hausti er nemandi, ásamt foreldrum, boðaður í viðtal hjá umsjónarkennara áður en skólastarf hefst. Foreldrar hafa þá fengið sendan heim upplýsinga- og athafnalista sem þeir fylla út heima með barninu sínu og koma með í viðtalið.

Móttaka nýrra nemenda Umsjónarkennari boðar nemanda og forráðamenn hans í viðtal og heimsókn áður en skóli hefst. Sama gildir um nemendur sem koma í skólann eftir að kennsla er hafin. Kennarar reyna eftir bestu getu að fylgjast með og stuðla að því að nemanda líði vel og myndi félagsleg tengsl.

Meðferð skólabóka og annarra námsgagna Nemendur fá afhent námsgögn, ýmist til eignar eða varðveislu. Með námsgögnum er átt við; lesbækur, vinnubækur, handbækur, hefti, laus blöð, hljóðbækur, lánsbækur, o.fl. Lesbækur eru lánsbækur nema annað sé tekið fram en vinnubækur, hefti og laus blöð, eru til eignar. Auk þess fá nemendur innkaupalista að hausti og eiga alltaf að mæta með nauðsynleg gögn. Innkaupalistana má einnig finna á heimasíðu skólans. Meðferð á vinnubókum hefur áhrif á vinnueinkunn sem er hluti af lokaeinkunn. Nemendur eiga að mæta með rétt námsgögn í kennslustundir og hefur það einnig áhrif á vinnueinkunn. Nemandi ber ábyrgð á því að skila lánsgögnum í jafngóðu ástandi og hann fékk þau. Ef námsgögn týnast eða eyðileggjast ber nemanda að útvega ný eða bæta samkvæmt mati.

Gæsla í frímínútum – fylgd Frímínútur eru hluti af skólastarfi nemenda. Nemendur í 1.-7. bekk eru úti í frímínútum. Því er mikilvægt að þeir séu klæddir miðað við veður. Þurfi nemendur að vera inni eftir veikindi er það leyfilegt í 1-2 daga og þarf þá að koma skrifleg beiðni frá foreldri þar um. Starfsmenn eru ávallt á leiksvæðinu í frímínútum. Nemendur í 1. og 2. bekk fá fylgd skólaliða til og frá sundlaug.

Umferð Þegar nemendum er ekið til skóla skal gæta fyllsta öryggis. Vinsamlegast veljið rétta og löglega aðkeyrsluleið að skólanum. Sérstaklega er bent á að samkvæmt umferðarlögum má ekki aka yfir óbrotna hvíta línu milli akgreina. Sú regla er í fullu gildi á Fjallkonuvegi ofan við skólann! Einnig eru foreldrar beðnir að stoppa ekki of lengi í hringtorgi við skólann.

7


Að vera í Foldaskóla Lífsgildi Berum virðingu fyrir sjálfum okkur, öðrum og umhverfinu. Í Foldaskóla virðum við hvert annað og leggjum áherslu á samvinnu. Við lærum jákvæð samskipti og skynjum þann mátt sem felst í góðri samvinnu. Kurteisi og gagnkvæm tillitssemi eiga að vera einkunnarorð í samskiptum allra sem starfa í skólanum; nemenda, kennara og annarra starfsmanna.

Skólareglur Í skólanum á að ríkja góður starfsandi og vinnufriður. Nemendum ber að virða sjálfsagðar og eðlilegar umgengnisreglur jafnframt því að hlýða fyrirmælum starfsfólks skólans í öllu skólastarfi. Kennarar eru verkstjórar í kennslustofum og nemendum ber að lúta verkstjórn þeirra. Órói, hávaði og neikvæð samskipti eru ekki leyfð. Vandamál sem koma upp vegna hegðunar nemenda eru leyst í samvinnu við foreldra. Ef ekki reynist unnt að leysa vandamál innan skólans er leitað annarra leiða í samvinnu við skólaþjónustu Miðgarðs og eftir atvikum Menntasvið Reykjavíkurborgar. Með alvarleg agabrot er farið samkvæmt reglugerð um agabrot og skólareglur sem Menntamálaráðuneytið hefur sett. Lögbrot eru kærð til lögreglu og tilkynnt barnavernd.

Umgengnis- og öryggisreglur og viðurlög Umgengnisreglur: 1. Sýnum kurteisi. 2. Truflum ekki aðra. 3. Berum ábyrgð á eigum okkar og athöfnum. 4. Notkun farsíma, fjarskiptatækja, tölvuspila og allra tækja til tónlistarflutnings er óheimil í kennslustofum. 5. Neysla sælgætis og gosdrykkja er óheimil á skólatíma. 6. Allur útifatnaður, þ.m.t. höfuðföt, er óheimill í skólastofum. 7. Notkun fótabúnaðar með hjól, línuskauta, hjólabretta og hlaupahjóla er óheimil innandyra og á skólalóð á skólatíma.

Viðurlög: 1. Brottvísun af vettvangi. 2. Starfsmaður skráir atburðarás. 3. Nemandi kemur með tillögu að því sem betur hefði mátt fara. 4. Nemandi bætir fyrir það sem hann hefur gert af sér og viðurkennir rétt annarra, sem og eigin yfirsjónir. 5. Sá sem sætir þessum viðurlögum kemst aftur inn í kennslustund þegar kennari er tilbúinn að taka við honum. 6. Brot við banni á notkun farsíma og búnaði varðar upptöku viðkomandi tækis og þurfa forráðamenn að sækja það í skólann. 8


Öryggisreglur: 1. Nemendum 1.-7. bekkja er óheimilt að yfirgefa skólalóð á skólatíma nema með leyfi kennara. 2. Engar líkamlegar meiðingar. 3. Engin barefli, eggjárn, eldfæri, sprengiefni, skoteldar eða aðrir hlutir sem geta valdið skaða. 4. Ekkert andlegt ofbeldi, yfirgangur, ofsóknir, árásir eða einelti. 5. Engin fíkniefni, áfengi eða tóbak. Viðurlög: Brottvísun af vettvangi samstundis og síðan úr skóla í fylgd forráðamanns. Á fundi með skólastjórnanda, námsráðgjafa, umsjónarkennara, viðkomandi kennara og forráðamanni þarf nemandinn sjálfur að lýsa vilja sínum til að koma aftur í skólann og gera bragarbót. Nemandi gerir þar áætlun um úrbætur sem skólinn samþykkir – eða stjórnandi, umsjónarkennari og forráðamaður ná samstöðu um sett skilyrði.

Skólasókn nemenda Í Foldaskóla er lögð áhersla á að nemendur stundi nám sitt af festu og sæki skóla sinn vel. Nemendum í grunnskóla er skylt að mæta í allar kennslustundir sem þeim eru ætlaðar samkvæmt skipulagi skólans nema um lögleg forföll eða leyfi sé að ræða. Forráðamönnum ber að tilkynna skólanum um forföll hvern dag sem nemandi er frá vegna veikinda eins fljótt og auðið er. Veikindi geta foreldrar einnig skráð beint inn í mentor.is

Lögleg forföll: Veikindi. Skólastjóri áskilur sér rétt til að krefjast læknisvottorðs. Skemmri leyfi í allt að tvo daga eru veitt af umsjónarkennara. Lengri leyfi, þ.e. í þrjá til fimm daga þurfa að auki samþykki skólastjórnanda. Tímabundin undanþága frá skólasókn, þ.e. leyfi í meira en fimm daga. Sækja þarf sérstaklega um slíka undanþágu og er hún aðeins veitt samkvæmt þeim viðmiðum sem greint er frá í kaflanum um leyfisveitingar hér að framan.

Ólögleg forföll: Óheimil fjarvist (skróp) telst ef nemandi mætir eftir að kennslustund er hálfnuð, eða mætir alls ekki í tíma án þess að hafa fengið leyfi fyrirfram. Sama gildir ef nemandi fær leyfi til að bregða sér úr kennslustund og skilar sér ekki aftur. Seint telst ef nemandi mætir innan 20 mínútna af tímanum. Eftir það er skráð fjarvist. Öll forföll sem ekki hafa verið tilkynnt innan fjögurra vikna teljast fjarvistir.

9


Skólasókn nemenda 1.-7. bekkjar Verði misbrestur á mætingum nemanda skal umsjónarkennari leita skýringa og reyna að finna úrræði til úrbóta í samvinnu við nemandann og forráðamann hans. Dugi það ekki skal málinu vísað til deildarstjóra og síðan til nemendaverndarráðs og skólastjóra. Verði þá ekki bót á skólasókn nemanda er máli hans vísað til Menntasviðs Reykjavíkurborgar og Miðgarðs, fjölskylduþjónustu. Barnaverndarnefnd tekur á málum þeirra nemenda sem ekki sinna lögboðinni skólasókn.

Skólasóknarreglur 8.-10. bekkjar Í unglingadeild skólans er gefin sérstök skólasóknareinkunn sem byggir á eftirfarandi reglum: Veikindi og aðrar löglegar fjarvistir ber að tilkynna daglega á skrifstofu skólans. Að öðrum kosti verða veikindin skráð sem óheimil fjarvist. Gefið er eitt fjarvistarstig fyrir að koma of seint í kennslustund en tvö fyrir fjarvist, brotthvarf úr kennslustund og brottrekstur úr kennslustund. Fjarvistarstig ráða skólasóknareinkunn sem hér segir:

Fjarvistarstig

Einkunn

Fjarvistarstig

Einkunn

0-2

10,0

31-35

5,0

3-4

9,5

36-43

4,5

5-6

9,0

44-50

4,0

7-8

8,5

51-59

3,5

9-10

8,0

60-69

3,0

11-12

7,5

70-79

2,5

13-15

7,0

80-89

2,0

16-20

6,5

90-99

1,5

21-25

6,0

>99

1,0

26-30

5,5

Fari skólasóknareinkunn niður fyrir ákveðin mörk er gripið til eftirfarandi aðgerða: Einkunn 8: Umsjónarkennari hefur samband við forráðamann nemanda og gerir honum grein fyrir stöðunni. Leitað er leiða til úrbóta. Einkunn 6: Umsjónarkennari fundar með nemanda og forráðamanni hans þar sem leitað er leiða til að bæta ástandið. Deildarstjóri mætir á fundinn ef umsjónarkennari óskar þess. Einkunn 4: Breytist ástandið ekki til batnaðar á þeim tíma sem samið er um hverju

10


sinni er máli nemandans vísað til nemendaverndarráðs. Bæti nemandinn ekki ráð sitt er skólastjóra heimilt að vísa honum úr skóla og máli hans til fræðsluyfirvalda. Fari skólasóknareinkunn nemanda niður fyrir 8,0 getur hann sótt um að hækka sig, ef skólasókn er óaðfinnanleg í tvær vikur. Hverjar tvær vikur hækka einkunn um einn heilan, þó aldrei hærra en í 8.0. Veikinda-, leyfis- og frídagar eru ekki taldir með í „hreinsunardögum.“ Aðeins er hægt að sækja um hækkun á skólasóknareinkunn einu sinni á skólaárinu. Bekkjarskrár eru gerðar upp vikulega og í lífsleiknitíma ræða kennarar við nemendur þegar skólasókn er ábótavant. Yfirlit yfir ástundun nemenda er sent heim hálfsmánaðarlega hafi staðan breyst frá síðustu útskrift. Nemendur með 10 í skólasóknareinkunn fá sérstaka viðurkenningu að vori.

Brottvísun úr kennslustundum – agabrot Eigi nemandi við verulegan hegðunarvanda að stríða og valdi þess vegna truflun eða ónæði, skal leitast við að ræða við hann einslega og reyna að komast að orsökum vandans og finna úrlausn. Í sumum tilvikum getur hentað að veita nemanda næði til að hugsa sinn gang utan kennslustofu. Nemanda er ekki vísað úr tíma nema tilefni sé til. Þetta á alltaf við nema um sé að ræða mjög alvarlegan, einstakan atburð. Leitast skal við að gefa nemanda aðvörun áður en til brottvísunar kemur. Komi til brottvísunar nemanda skal honum ávallt vísað til deildarstjóra viðkomandi stigs, skólastjóra eða annars fagaðila, t.d. kennara eða námsráðgjafa. Fyrir brottrekstur úr tíma eru gefin tvö fjarvistarstig.

Reglur sem gilda ef nemanda í 1.-7. bekk er vísað úr tíma Farið er með nemandann til stjórnanda eða annars fagaðila, t.d. annars kennara eða námsráðgjafa. Kennarinn sem vísaði nemandanum út, ræðir við hann við fyrsta tækifæri og reynir að komast að orsök þeirrar hegðunar sem til brottvísunarinnar leiddi. Kennari aðstoðar nemandann við að finna lausn á hegðun sinni. Kennarinn upplýsir forráðamann um málsatvik og telst málinu þar með lokið. Leysist málið ekki boðar kennarinn nemandann og forráðamenn hans á fund samdægurs, ef mögulegt er. Þar eru málsatvik rædd, reynt að finna orsakir og ná samkomulagi. Takist það telst málinu þar með lokið. Leysist málið ekki skv. ofangreindu boðar kennarinn nemandann, ásamt forráðamanni og skólastjórnanda (skólastj./deildarstj.) til fundar við sig. Reynt er sem fyrr að finna orsakir og ná samkomulagi. Takist það telst málinu þar með lokið. Finnist ekki lausn á málinu með fyrrgreindum hætti, er því vísað til nemendaverndarráðs sem hefur sérfræðing Miðgarðs sér til ráðuneytis ef með þarf. Framhald ræðst af atvikum og eðli málsins. Komi upp mjög alvarlegar óvæntar aðstæður getur þurft að víkja frá þessum reglum.

11


Reglur sem gilda ef nemanda í 8.-10. bekk er vísað úr tíma 

Fyrsta brottvísun: Sá kennari sem vísar nemanda úr tíma skal hringja til forráðamanns nemandans og greina frá málavöxtum. Kennari skal einnig láta umsjónarkennara vita. Önnur brottvísun: Málinu vísað til umsjónarkennara. Nemandinn mætir ekki í kennslustund í viðkomandi námsgrein aftur fyrr en viðkomandi kennari hefur fundað með honum, umsjónarkennara hans og forráðamanni. Þriðja brottvísun: Nemandi mætir ekki í kennslustund fyrr en hann hefur setið fund með umsjónarkennara, viðkomandi kennara, deildarstjóra og forráðamanni. Komi til brottvísunar í fjórða sinn er nemanda vísað heim úr skóla og máli hans vísað til nemendaverndarráðs til umfjöllunar í samvinnu við sérfræðing Miðgarðs og ákvörðun tekin um framhald. Umsjónarkennari gerir nemanda og forráðamanni grein fyrir málavöxtum. Skólastjóri tekur ákvörðun um hvort til brottvísunar kemur meðan mál nemandans er kannað og fundin viðunandi lausn.

Formleg brottvísun úr kennslustund og/eða úr skóla skal skráð í viðveruskrá skólans og málsatvik og afgreiðsla í dagbók (Mentor).

12


Ýmsar upplýsingar Umhverfisstarf Foldaskóli fékk fyrsta Grænfánann árið 2006. Grænfáninn er alþjóðlegt umhverfismerki sem vottar að virkt og lýðræðislegt umhverfisstarf ríki í skólanum. Umhverfisstefna Foldaskóla hefur það að leiðarljósi að efla virðingu og jákvæð viðhorf nemenda til náttúrunnar, umhverfisins og alls lífs. Nemendur fái menntun í samspili manns og umhverfis og skynji: „Ein jörð fyrir alla“. Þeir þjálfist í að leita lausna á umhverfisvanda. Lögð er áhersla á að draga úr mengun, orkunotkun og sóun. Umhverfissjónarmið séu höfð að leiðarljósi í rekstri og innkaupum skólans. Þessum markmiðum verður best náð með vellíðan í skólanum, þverfaglegri umhverfismennt, hnattrænni hugsun, samvinnu og aukinni umhverfisvitund alls skólasamfélagsins. Umhverfisstefna Foldaskóla tekur mið af Staðardagskrá 21 þar sem stefnt er að því að lífstíll, hegðun, neysla og daglegt líf stuðli að sjálfbæru samfélagi.

Uppbyggingarstefna Agastjórnun Foldaskóla byggir á Uppbyggingarstefnu Diane Gossen. Uppbyggingarstefnan beinir sjónum sínum fyrst að einstaklingnum, síðan er hann beðinn um að líta í eigin barm og meta hvaða áhrif hegðun hans hefur á aðra. Þetta er leið til að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga. Uppbyggingarstefnan tengist kennslu í lífsleikni í öllum árgöngum. (Sjá nánar á heimasíðu skólans)

Heilsueflandi skóli Foldaskóli hefur þátttöku í verkefninu skólaárið 2011–2012. Hugmyndafræði verkefnisins er að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu og tileinka sér jákvæðan og heilbrigðan lífsstíl. Verkefnið, sem er á vegum Landverndar, fellur vel að umhverfisstefnu skólans og má segja að Umhverfisstefnan og Heilsueflandi skóli taki nú saman skref í átt til sjálfbærni. Heilsufar og menntun eru nátengd. Heilsa nemenda ræður miklu um skólasókn og hvernig þeim gengur í náminu. Skólinn er kjörinn vettvangur til að hvetja til heilsueflingar og heilbrigðra lifnaðarhátta meðal barna á skólaaldri. Nær öll börn og unglingar á aldrinum 5 – 16 ára verja verulegum hluta dagsins í skólanum. Á þessu æviskeiði læra þau um holla lífshætti, öðlast margvíslega þekkingu og temja sér hátterni sem hefur áhrif á heilsu þeirra síðar á ævinni.

13


Umsjónarkennarinn Umsjónarkennarinn gegnir lykilhlutverki í skólastarfinu. Hann fylgist grannt með skólasókn, ástundun og heimavinnu nemandans. Einnig fylgist hann með líðan nemandans og hefur reglulegt samráð við forráðamenn um gengi hans í skólanum. Umsjónarkennarar yngri bekkja kenna nemendum sínum flestar bóklegar greinar. Í unglingadeild kennir umsjónarkennari sínum bekk lífsleikni einu sinni í viku. Foreldrar/forráðamenn geta haft samband við umsjónarkennara gegnum síma og tölvupóst á skólatíma.

Deildarstjórn Skólanum er skipt í þrjú stig: Yngsta stig (1.-4. bekkur), miðstig (5.-7. bekkur) og unglingastig (8.-10. bekkur). Á hverju stigi starfa deildarstjórar sem sjá um samræmingu og heildarskipulag kennslunnar í samvinnu við kennara. Skólastjórnendur og deildarstjórar sitja vikulega fundi um stjórnun skólans. Eftirtaldir hafa deildarstjórn með höndum:  1.-6. bekkur: Bára Jóhannsdóttir  7.-10. bekkur: Kristrún Guðjónsdóttir

Fagstjórar Fagstjórar eru skipaðir í ýmsum greinum (1.-10. bekk). Þeir sjá um samræmingu innan sinnar greinar, fylgjast með og leiðbeina um kennslu hennar í skólanum og setja fram tillögur um úrbætur ef þörf krefur. Þeir sjá um að gera langtíma- og skammtímaáætlanir um framgang sinnar greinar.

Samstarf heimila og skóla Gott samstarf heimila og skóla er ein meginforsendan fyrir góðu skólastarfi. Foreldradagar (viðtöl) eru haldnir tvisvar á vetri. Foreldrar geta nálgast upplýsingar um stöðu nemenda í gegnum Mentor og með samskiptum við umsjónarkennara. Einnig eru þeir velkomnir í heimsókn í skólann. Við skólann starfa foreldrafélag og skólaráð sem fundar reglulega með yfirstjórn skólans. Hlutverk ráðsins er að fjalla um og gefa umsögn til skólans og skólayfirvalda um skólanámskrá og framkvæmd hennar. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu skólans undir hlekknum Foreldrastarf

Mentor – upplýsingakerfi á netinu Á Mentor eru upplýsingar um ástundun nemenda, hegðun, heimavinnu og margt fleira. Foreldrar og nemendur fá aðgang að kerfinu í gegnum skólann með sérstöku aðgangsorði. Mentor er mikilvægt hjálpartæki í samskiptum ogmiðlun upplýsinga. Áhersla er lögð á virka notkun foreldra á Mentor.

Rýmingaráætlunog æfingar Í skólanum er til markviss rýmingaráætlun ef vá ber að höndum. Nemendum og starfsfólki eru kynntar þessar reglur. Árlega fer fram verkleg æfing sem miðar að hámarks öryggi og réttum viðbrögðum þegar skólahúsið er rýmt.

14


Fræðslufundir fyrir foreldra Fundir eru haldnir að hausti hjá öllum árgöngum þar sem fjallað er um skólastarf vetrarins. Sérstakir kynningarfundir eru fyrir forráðamenn nemenda í 8. bekk sem hefja nám á unglingastigi. Boðið er upp á skólafærninámskeið fyrir forráðamenn 6 ára barna. Árlega stendur skólinn fyrir forvarnafræðslu (Marita fræðslunni) fyrir nemendur og foreldra unglingastigs.

Forvarnir Ætíð skal leitast við að nemendur Foldaskóla velji sér lífsmáta án tóbaks og vímuefna. Reyklaus bekkur er verkefni á vegum Lýðheilsustöðvar sem nemendur 7. og 8. bekkja taka þátt í. Í skólanum er starfandi er unglingaklúbburinn Flott án fíknar. Nemendur gera skriflegan samning um að nota ekki tóbak, áfengi eða önnur fíkniefni á meðan þeir stunda nám í grunnskóla. Meðlimum klúbbsins bjóðast ýmis tilboð um skemmtun og afþreyingu. Forvarnarstefnu skólans má nálgast á heimasíður hans undir kaflanum Náms- og starfsráðgjöf.

Vettvangsferðir og ferðalög Vettvangsferðir og aðrar námsferðir eru ríkur þáttur í skólalífinu. Nemendur fara í styttri og lengri ferðir með kennurum sínum og vinna úr þeim innan skóla sem utan . Sumar ferðir eru bundnar við árganga eða aldurshópa og vara allt frá dagsparti til heillar skólaviku. Í ferðum á vegum skólans gilda skólareglurnar.  Nemendur hafi það í huga að þeir eru fulltrúar heimila og skóla, virði reglur gestgjafa, sýni kurteisi og þakki fyrir sig.

15


Félagslíf Í Foldaskóla á að ríkja fjölbreytt félagslíf sem gefur öllum nemendum færi á að efla félagslega færni og hæfileika. Árlega er haldið jólaball, árshátíð og/eða nemendasýning hjá öllum árgöngum skólans. Gert er ráð fyrir einu bekkjarkvöldi á skólaárinu. Bekkjafulltrúar sjá um skipulag þeirra í samráði við bekkjarkennara. Á vegum ÍTR er boðið upp á fjölbreytt tómstundastarf fyrir 4.-7. bekk.

Unglingadeild (8.-10. bekkur) Félagslíf unglingadeildar er á vegum skólans og Fjörgynjar og er ákveðin verkaskipting milli þeirra. Helstu viðburðir skólaársins á vegum skólans eru:  Skrekkur – hæfileikakeppni grunnskólanemenda í Reykjavík.  Jólaball skólans og Fjörgynjar  Árshátíð Foldaskóla og Fjörgynjar  Íþróttahátíð.  Skólahreysti

Nemendafélag – hlutverk, ábyrgð og skipan. Nemendaráð tekur þátt í að efla og móta félagsstarf í skólanum og Fjörgyn. Nemendur skipuleggja og undirbúa ýmsar uppákomur í samvinnu við kennara skólans og starfsfólk Fjörgynjar, s.s. árshátíð, jóladansleik, fréttabréf, hæfileikakeppni og ýmislegt fleira. Nemendafélag er skipað 7 fulltrúum nemenda 8.-10. bekkja; tveimur fulltrúum úr 8. bekk, tveimur fulltrúum úr 9. bekk og þremur fulltrúum úr 10. bekk. Að auki er einn varamaður úr 8. og 9. bekk, og tveir úr 10. bekk. Hver árgangur kýs fulltrúa sína innan árgangsins. Þetta er gert að vori og tekur ný stjórn við að hausti.

Tónlist Nemendum Foldaskóla gefast tækifæri til ýmiss konar tónlistariðkunar. Skólahljómsveit Grafarvogs hefur aðsetur í skólanum en meðlimir hennar koma úr öllum skólum Grafarvogs. Í Tónlistarskóla Grafarvogs og Tónskóla Hörpunnar er boðið upp á fornám fyrir hljóðfæranám innan skólans. Skólarnir bjóða einnig upp á píanókennslu fyrir nemendur sem lokið hafa forskóla. Kennsla getur farið fram í skólanum á skólatíma. í samvinnu við foreldra, nemendur og kennara.

Tónlistarval Nemendur í 9. og 10. bekk geta valið tónlist sem valgrein auk þess sem nám í tónlistarskóla er viðurkennt sem hluti af frjálsu vali nemenda.

16


Námsskipulag Skólaárið Skólaárið skiptist í þrjár annir. Hverri önn lýkur með formlegu námsmati. skóladagatal).

(Sjá

Skólanámskrá Skólastarf í Foldaskóla er í stöðugri endurskoðun. Skólanámskrá Foldaskóla skiptist í eftirfarandi þætti: 1. Handbók fyrir nemendur og foreldra 2. Handbók starfsmanna Foldaskóla 3. Fagnámskrá Foldaskóla 4. Námsvísi fyrir hvern árgang Foldaskóla 5. Valhefti fyrir 8. 9. og 10. bekk Auk þess gefur skólinn út „Skólafréttir Foldaskóla“ 2-3 sinnum á skólaárinu og annað upplýsingaefni eins og þörf krefur á heimasíðu skólans: www.foldaskoli.is

Bekkjarkennsla – hringekja (námskeiðsform) – hópakerfi Í skólanum er hefðbundin bekkjarkennsla. Umsjónarkennari kennir flestar greinar í 1.7. bekk en sérgreinakennurum fjölgar eftir því sem ofar dregur. Yngsta stig og miðstig Í yngri bekkjunum fá nemendur námsáætlun, skráða í Mentor, sem greinir frá viðfangsefnum vikunnar og hvenær skila á heimaverkefnum. Almennt eru list- og verkgreinar í 1.-7. bekk kenndar í námskeiðsformi sem við nefnum hringekju. Þá er árganginum skipt í hópa sem stunda nám í ákveðinni námsgrein í nokkrar vikur. Vikustundum er þá fjölgað þannig að heildarfjöldi kennslustunda yfir veturinn verður réttur. Kostir við þetta fyrirkomuleg eru einkum þeir að betri samfella næst í náminu og auðvelt er að skipuleggja þemaverkefni innan viðkomandi greina. Unglingastig Allar kjarnagreinar eru kenndar í bekkjum. Skv. Aðalnámskrá grunnskóla er miðað við að kennslustundir nemenda séu 37 stundir á viku og getur frjálst val í 8.-10. bekk verið frá fjórum og upp í tíu stundir. Mikið úrval er í frjálsu vali. Til að auka fjölbreytnina í valáföngum er boðið upp á sameiginlegt val í grunnskólunum í Grafarvogi. Í boði eru einnig nokkrir framhaldsskólaáfangar sem kenndir eru í samráði við framhaldsskólana. Þessir áfangar eru kenndir í viðkomandi framhaldsskóla eða í öðrum grunnskólum. Í framhaldsskólaáföngum eru gerðar sömu kröfur til nemenda eins og um kennslu í framhaldsskóla væri að ræða enda taka þeir sömu próf. Auk þess þurfa nemendur að standa straum af bókakostnaði eins og í hefðbundnum framhaldsskólum. Athugið að ekki er til formlegur samningur milli grunnskólanna og framhaldsskólanna og er því 17


ekki tryggt að áfangarnir verði metnir inn í aðra framhaldsskóla en þá sem samstarfið er við. Sú ákvörðun er algjörlega á hendi hvers framhaldsskóla fyrir sig. Foldaskóli hefur fyrst og fremst samstarf við Borgarholtsskóla um kennslu í framhaldsskólaáföngum. Einnig stendur nemendum í Reykjavík til boða fjarnám við Ármúlaskóla.

Skóladagvist Skóladagvist eða frístundaheimili er starfrækt fyrir 1.-3. bekk á starfsdögum kennara, virkum frídögum og eftir að skóla lýkur á daginn. Það er rekið af ÍTR í húsnæði skólans og heitir Regnbogaland.

Heimanám Forsenda þess að nemendur nái árangri í námi er góð ástundun. Kennarar leggja fram námsáætlanir í upphafi sem nemendum er ætlað að vinna eftir. Áríðandi er að nemendur temji sér skipulögð vinnubrögð, bæði í kennslustundum og við heimanám. Mikilvægt er að foreldrar/forráðamenn fylgist með og taki þátt í heimanámi barna sinna eins og kostur er. Heimavinnuáætlun nemenda er skráð í Mentor. Æskilegt er að eldri nemendur skrái hjá sér heimanámið.

Heimanám er nauðsynlegur hluti alls náms.  Ekki vinnst ávallt tími til að ljúka verkefnum í skólanum. Nemendur verða því að nota tíma utan stundaskrár til að ljúka verkefnum.  Nemendur festa þau atriði sem komið hafa fram í kennslustundum betur í minni með endurtekningu og þjálfun vinnubragða.  Nemendur þurfa að undirbúa sig til að geta verið virkir í kennslustundum og notið tilsagnar kennara.  Heimanám krefst sjálfsaga og skipulagðra vinnubragða.

Samræmd könnunarpróf Samræmd könnunarpróf eru haldin í þremur árgöngum, 4. 7. og 10. bekk í íslensku og stærðfræði auk ensku í 10. bekk. Prófin eru haldin að hausti og þeim er ætlað að meta grundvallarkunnáttu og færni. Niðurstöður eiga að vera hjálpartæki fyrir foreldra og kennara til að koma til móts við þarfir sérhvers nemanda.

Námsmat Formlegt námsmat fer fram við hver annaskipti; þrisvar á ári. 

Við lok haustannar: Munnlegur vitnisburður. Forráðamenn og nemendur mæta í viðtöl til umsjónarkennara. Gagnkvæmar upplýsingar um félagslega og námslega stöðu nemandans. Til grundvallar eru umsagnir allra fagkennara. Sérgreinakennarar eru til viðtals. Við lok miðannar: Skriflegur og munnlegur vitnisburður. Forráðamenn og nemendur mæta í viðtöl til umsjónarkennara. Gagnkvæmar upplýsingar um 18


félagslega og námslega stöðu nemandans. Til grundvallar eru einkunnir, gefnar í tölum og/eða umsagnir allra fagkennara. Sérgreinakennarar eru til viðtals. Við lok vorannar: Skriflegt námsmat, afhent nemendum við skólaslit. Til grundvallar eru einkunnir (gildir fyrir 2.-10. bekk). Við lok vorannar í 1. bekk er gefið skriflegt námsmat (umsögn) sem nemendur fá við skólaslit.

Til athugunar fyrir próf       

Komið vel undirbúin; góður svefn og næring skipta máli. GSM-símar ekki leyfilegir né Ipod. Hafið meðfæris skriffæri og önnur gögn s.s. reiknivél, reglustiku, gráðuboga og hringfara. Gangið hljóðlega til stofu og komið ykkur strax fyrir. Á prófstað skal vera algjört næði. Nemendur hafa aðeins gögn sem þarf að nota í prófi á borðinu. Ef nemendur eru uppvísir að svindli er þeim vísað út, próf er ómarktækt og haft er samband heim.

Skólaeinkunn að vori í 10. bekk: Að vori fá nemendur í 10. bekk skólaeinkunn sem byggir á mati allra þriggja anna vetrarins. Verðlaun til 10. bekkinga að vori Verðalun hljóta þeir nemendur sem náð hafa hæstu skólaeinkunn í eftirfarandi greinum: Íslensku, stærðfræði, náttúrufræði, samfélagsfræði, ensku, og dönsku. Einnig eru veittar viðurkenningar í öðrum greinum ef ástæða þykir til. Þá eru einnig veitt sérstök verðlaun þeim nemendum sem sýnt hafa lofsverða frammistöðu innan skólans eða í störfum/verkefnum fyrir hönd skólans. Sund Athugið að samræmdu sundstigi í 10. bekk telst ekki lokið ef nemandi hefur ekki staðist alla þætti prófsins. Próf er tekið í lok námskeiðs. Umsögn um félags-, íþrótta-, lista- og menningarstarf á vitnisburðarblaði 10. bekkinga Umsögn á vitnisburðarblað við útskrift 10. bekkjar fá þeir nemendur sem sýnt hafa framúrskarandi starf og frammistöðu í félags-, íþrótta-, lista- eða menningarstarfi á vegum skólans á útskriftarári. Umsjónarkennari útbýr og skráir almenna umsögn í samráði við viðkomandi félagsstarfa- eða sérgreinakennara ásamt stjórnanda. Dæmi: Seta og virk þátttaka í starfi skólaráðs og/eða nemendaráðs, góð frammistaða í keppnum og sýningum á vegum eða fyrir hönd skólans.

19


Íþróttamaður og íþróttakona Foldaskóla úr 8. – 10. bekk Verðlaun og titil hljóta þeir nemendur sem íþróttakennarar telja vera til fyrirmyndar í íþróttalífi skólaársins. Valið fer fram á íþróttahátíð skólans og eru nemendur valdir út frá eftirfarandi atriðum sem teljast öll jafn mikilvæg:  Hvetjandi leiðtogi innan hópsins  Jákvæðni, dugnaður og samviskusemi í tímum  Mjög góð mæting í sund- og íþróttatíma  Góður alhliða íþróttamaður

Önnur starfsemi skólans Uppbygging Árið 2000 hófst verkefni sem nefnist Uppbygging. Uppbygging er aðferð til að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga. Um er að ræða víðtæka uppeldisstefnu sem áfram verður unnið að á næstu árum.

Nýsköpun Í Foldaskóla hefur verið unnið að nýsköpun í skólastarfinu frá árinu 1992.

Olweusaráætlun gegn einelti Í Foldaskóla er unnið samkvæmt Olweusaráætlun gegn einelti frá haustinu 2004 ásamt fjórtán öðrum grunnskólum í Reykjavík. Um er að ræða heildstæða áætlun sem nær til alls skólasamfélagsins. Helstu markmið eru:  Draga úr vandamálum, tengdum einelti, innan og utan skólans.  Bæta félagatengslin í skólanum.  Koma í veg fyrir ný eineltisvandamál.

Enskukennsla á yngsta stigi Enska hefur verið kennd frá 2. bekk síðan haustið 2005. Í fyrstu var þetta hluti af þróunarverkefni en hefur síðan verið fastur þáttur í skólastarfinu.

20


Skólasafn – gagnamiðstöð Bókakostur safnsins er nú um 13.000 titlar; fræðirit, barna- og unglingabókmenntir, myndbönd, skyggnur, hljóðsnældur, geisladiskar, tölvuforrit , kennsluleiðbeiningar og bekkjarsett af fartölvum. Hlutverk skólasafnsins er að lána út gögn til nemenda og starfsfólks. Jafnframt er það nýtt til kennslu í upplýsingaleit og heimildavinnu. Skólasafnið á að vera leiðandi afl í nýjum vinnubrögðum sem nýta upplýsingatækni í skapandi skólastarfi og gegnir lykilhlutverki í einstaklingsmiðuðu námi. Á safninu er ágæt vinnuaðstaða fyrir nemendur. Þeir geta komið á opnunartíma safnsins, lesið sér til ánægju eða unnið að verkefnum á eigin vegum eða undir handleiðslu kennara. Safnið er búið ágætum tölvukosti sem nemendur og kennarar hafa aðgang að undir handleiðslu safnakennara. Útlánstíminn er tvær vikur nema annað sé tekið fram.

Heilsugæsla Hjúkrunarfræðingar og læknar Heilsugæslustöðvar Grafarvogs annast heilsugæslu í Foldaskóla. Markmið heilsugæslu í skólum er að stuðla að því að börn fái að þroskast við bestu andlegu, líkamlegu og félagslegu skilyrði sem völ er á. Gott samstarf foreldra / forráðamanna og starfsfólks heilsugæslunnar er því afar mikilvægt. Ef barn þarf sérstaka umönnun eða eftirlit er forráðamönnum bent á að hafa samband við skólahjúkrunarfræðing. Starf skólahjúkrunarfræðinga byggist á fræðslu og ráðgjöf sem stuðlar að heilbrigðum lífsháttum. Hjúkrunarfræðingur vinnur í samvinnu við skólastjórnendur, kennara, skólasálfræðing og aðra sem sinna skólabörnum. Skólahjúkrunarfræðingar og skólalæknir eru bundin þagnarskyldu. Skólaheilsugæsla tekur við af ungbarnaeftirliti. Heilbrigðisskoðun fer fram samkvæmt tillögum frá landlæknisembættinu. Heilbrigðisskoðanir: 1. bekkur (6 ára). Heyrnarmæling. Þau börn sem ekki hafa farið í 5 ára skoðun á heilsugæslustöð eru einnig sjónprófuð, hæðar- og þyngdarmæld. Almenn læknisskoðun og bólusetning við barnaveiki, stífkrampa og kíghósta (DiTeKik). 2. bekkur (7 ára). Sjónpróf hjá hjúkrunarfræðingi. 4. bekkur (9 ára). Sjónpróf, hæðar- og þyngdarmæling. 7. bekkur (12 ára). Sjónpróf, heyrnar-, hæðar- og þyngdarmæling. Litaskynspróf hjá drengjum. Almenn læknisskoðun, bólusetning við mislingum, hettusótt og rauðum hundum (priorix). 9. bekkur (14 ára). Sjónpróf, heyrnar-, hæðar- og þyngdarmæling. Almenn læknisskoðun, bólusett við mænuveiki (imovax polio) og stífkrampa (driftavax). Lyf. Samkvæmt tilmælum frá landlækni þarf að tilkynna skólahjúkrunarfræðingi ef barn notar lyf að staðaldri til að tryggja öryggi við lyfjagjafir á skólatíma. Vakin er 21


athygli á því að óheimilt er að senda börn með lyf í skólann. Slys. Verði barn fyrir slysi í skólanum veitir hjúkrunarfræðingur eða starfsfólk skólans fyrstu hjálp. Ef á þarf að halda veitir Heilsugæslan í Grafarvogi umbeðna aðstoð. Æskilegt er að foreldrar fari sjálfir með barnið. Fræðsla. Hjúkrunarfræðingur sinnir heilbrigðisfræðslu í samvinnu við kennara eftir því sem við verður komið. Flúorskolun. Nemendur í 1. 7. og 10. bekk fá flúorskolun samkvæmt tilmælum frá Miðstöð tannverndar barna. Staðsetning. Skólahjúkrunarfræðingur hefur aðsetur á fyrstu hæð við norðurinngang í húsi 1. Gengið er inn frá skrifstofu skólans.

Samstarf við leikskóla Leikskólum hverfisins er boðið að koma með skólahópa í heimsókn. Miðað er við að leikskólahóparnir komi í samverustund á sal í febrúar eða mars og heimsæki nemendur í 5. bekk sem verða þeim til halds og trausts við upphaf skólagöngu. Í lok apríl eða byrjun maí koma leikskólabörn aftur til að skoða skólann og eru þá eina kennslustund í 1. bekk. Nemendur 5. bekkja eru þá til aðstoðar og fara meðal annars með þeim í frímínútur.

Stoðkerfi skólans Sérkennsla Stefna Foldaskóla Sérkennslan byggir á grunnskólalögum, aðalnámskrá grunnskóla og stefnu Menntasviðs Reykjavíkurborgar um sérkennslu. Foldaskóli er skóli án aðgreiningar, þ.e. skóli með þjónustu fyrir alla nemendur sína, bæði fatlaða og ófatlaða. Meginmarkmið með sérkennslu er að stuðla að alhliða þroska nemenda, bæði andlegum og líkamlegum. Leitast er við að ná þessu markmiði með jákvæðu viðmóti og virðingu fyrir einstaklingnum um leið og lögð eru fyrir verkefni við hæfi. Sérkennsla getur falið í sér breytingar á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og kennsluaðferðum. Hún er skipulögð í lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans, jafnvel alla skólagöngu hans. Sérkennsla einstakra nemenda eða hópa fer fram innan eða utan almennra bekkjardeilda. Gerðar eru námsáætlanir fyrir alla nemendur sem koma í sérkennsluna. Áætlanirnar eru gerðar í upphafi skólaárs. Ýmist eru þær fyrir einstaklinga, hópa eða sambland af hvoru tveggja. Kennarar sem kenna í sérkennslunni bera ábyrgð á gerð námsáætlana í samráði við umsjónarkennara og ræða þær við foreldra á fyrsta foreldradegi vetrarins. 22


Einstaklingsnámskrá er námsáætlun fyrir einstakling þar sem markmiðin eru fyrst og fremst sniðin að þörfum hans en taka þó mið af markmiðum árgangsins. Einstaklingsnámskrá getur falið í sér námsáætlun í mörgum námsgreinum fyrir sama einstakling eða einungis áætlun í einni grein. Þegar um mikil frávik frá skólanámskrá er að ræða koma sérkennari, umsjónarkennari og foreldrar að gerð slíkra áætlana í upphafi hvers skólaárs. Sérkennari sér um að útfæra áætlunina og bera hana undir samþykki foreldra. Þá eru haldnir fundir með foreldrum á 6-8 vikna fresti þar sem farið er yfir gang mála í námi og líðan nemandans og gerðar tillögur að áherslubreytingum. Nemendur með annað móðurmál en íslensku, sem hefja nám í skólanum, fá viðbótarkennslu í íslensku innan skólans. Börn, sem hafa verið langdvölum erlendis en hafa íslensku sem móðurmál geta fengið viðbótarkennslu í íslensku. Umsjónarkennarar sækja skriflega um sérkennslu fyrir þá nemendur sem þeir telja að þurfi á sérstakri aðstoð að halda. Við val á nemendum í sérkennslu er tekið mið af greiningum sem nemendur koma með inn í skólann, niðurstöðum úr greiningar- og skimunarprófum sem gerð eru í skólanum og óskum frá kennurum. Námsver eru starfrækt í skólanum. Þau eru á yngsta-, miðstigi og unglingastigi. Í námsverunum er sérkennsla í ákveðnum greinum, aðallega í lestri, íslensku og stærðfræði. Einnig er öðrum nemendum, sem á þurfa að halda, boðið upp á námskeið í afmörkuðum viðfangsefnum s.s. stafsetningu, stærðfræði og málörvun. Einstaka nemendum í 9. og 10. bekk, sem ekki nýtast þau námsúrræði, sem skólinn hefur upp á að bjóða, gefst kostur á að stunda starfstengt nám í samstarfi við Vinnuskóla Reykjavíkur. Stuðningsfulltrúar koma að starfi með nemendum sem þurfa aðstoð vegna námsvanda, líkamlegrar fötlunar og atferlisvanda. Deildarstjóri sérkennslu metur hvaða nemendur fá slíkan stuðning og hversu mikill stuðningurinn á að vera. Það er svo í höndum umsjónarkennara að hafa umsjón með hvernig stuðningurinn nýtist best í bekknum. Verksvið deildarstjóra sérkennslu er að hafa yfirumsjón með öllum þeim málum sem varða sérkennslu. Deildarstjóri fylgist með nýjungum í starfi og stuðlar að því að starfið sé í fyllsta samræmi við það sem best er talið þjóna nemendum með sérþarfir. Hann stuðlar að því að vel sé staðið að greiningu og gerð náms- og kennsluáætlana fyrir einstaklinga eða hópa og heldur utan um alla skráningu á sérkennslu.

Önnur aðstoð Við lausn á vanda nemenda með hegðunar- og atferlisvanda er unnið samkvæmt Uppbyggingarstefnu. Umsjónarkennarar leggja grunninn að þeirri vinnu og nemendur þjálfast smám saman í að leysa ágreining sinn sjálfir samkvæmt ákveðnu ferli. Ferli hegðunarmála er kynnt fyrir nemendum og foreldrum þannig að þeir viti nákvæmlega hvað tekur við ef nemendur fara út af sporinu. Þau nemendamál sem umsjónarkennari getur ekki leyst samhliða kennslu eru send til vinnslu hjá deildarstjóra viðkomandi stigs eða námsráðgjafa. Sá sem tekur við máli nemandans aðstoðar hann við að finna lausn á vandanum. Ef leiðir Uppbyggingar duga ekki til þess að breyta hegðunarmynstri hjá nemandanum eru atferlismótandi aðgerðir reyndar. Þær felast í því að gerður er samningur milli skóla og nemanda og/eða foreldra hans þar sem sett eru fram hegðunarmarkmið sem metin eru reglulega. 23


Lausnarteymi er starfandi við skólann. Í því sitja teymisstjóri, ritari og þrír reyndir almennir kennarar. Markmið teymisins er að leysa innan skólans vandamál sem upp koma í námi, samskiptum eða hegðun hjá nemanda / nemendahópum. Teymið kemur með tillögu að lausn og vísar málinu í viðeigandi farveg.

Nemendaverndarráð Hlutverk nemendaverndarráðs er að fylgjast sérstaklega með nemendum sem af einhverjum ástæðum líður illa eða eiga í erfiðleikum í skólanum. Nemendaverndarráð tekur sameiginlegar ákvarðanir um málefni einstakra nemenda eða nemendahópa. Því er ætlað að vera ráðgefandi um hvernig best skuli stuðlað að jákvæðu námsumhverfi og alhliða velferð nemenda. Í nemendaverndarráði, sem kemur saman aðra hverja viku á starfstíma skóla, sitja deildarstjóri sérkennslu, námsráðgjafi, skólasálfræðingur, hjúkrunarfræðingur og deildarstjórar. Fulltrúi frá félagsþjónustu í Miðgarði sækir fundi ráðsins u.þ.b. einu sinni í mánuði. Ráðið er skipað samkvæmt heimildarákvæði í grunnskólalögum. Umsjónarkennar þeirra nemenda sem fjallað er um hverju sinni eru boðaðir á fundi ráðsins og foreldrum tilkynnt að mál barns þeirra verði tekið til umræðu. Deildarstjóri sérkennslu stjórnar fundum ráðsins og heldur fundargerðir. Starfsaðferðir nemendaverndarráðs.  Ef nemandi þarf að mati umsjónarkennara á aukinni aðstoð að halda vegna fötlunar eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika skal umsjónarkennari vísa málinu til deildarstjóra sérkennslu sem leggur málið fyrir nemendaverndarráð.  Ráðið fjallar um tilvísanir í sérkennslu og önnur sérúrræði. Það leitar eftir viðbótarupplýsingum, ef með þarf, hjá umsjónarkennara, foreldrum eða öðrum aðilum er tengjast málinu.  Nemendaverndarráð ákvarðar hvernig komið er til móts við tilvísanir. Ákveðnum aðilum innan ráðsins er falið að fylgja tilteknum málum eftir.  Skólastjóri ber ábyrgð á starfi nemendaverndarráðs. Þrátt fyrir að lög og reglugerðir kveði á um að sérhver nemandi eigi rétt á kennslu við hæfi í heimaskóla sínum getur þurft að leita úrræða fyrir einstaka nemendur utan skólans. Nemendaverndarráð fjallar þá um málefni nemandans og leitar leiða til lausnar á málum hans. Ráðið hefur fullt samráð við foreldra um úrræði sem það leggur til og fer með allar persónulegar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Námsráðgjafi Náms- og starfsráðgjafi starfar í nánu samstarfi við foreldra eftir því sem við á. Hann hefur samráð við sérfræðinga innan og utan skólans s.s. sérkennara, hjúkrunarfræðing og skólasálfræðing og vísar málum einstaklinga til þeirra í samráði við nemendur, umsjónarkennara og foreldra. Náms- og starfsráðgjafi er bundinn trúnaði við þá sem til hans leita. Starfshlutfall hans er 60%. Helstu verkefni:  Leiðbeina nemendum um góða námstækni og skipulögð vinnubrögð  Veita ráðgjöf og upplýsingar um náms- og starfsval í samræmi við áhugasvið  Aðstoða í málum sem tengjast persónulegum högum nemenda, líðan, hegðun og 24


námsárangri  Skipuleggja, í samstarfi við nemendur, vetrarstarf forvarnarklúbbsins Flott án fíknar í samstarfi við ÍTR  Samvinna við kennara og aðra starfsmenn skólans um agastjórn, eineltis- og námsvandamál  Vinna að úrlausn eineltismála  Samstarf við aðra náms- og starfsráðgjafa, framhaldsskóla og atvinnulífið  Umsjón með atvinnutengdu námi  Skipuleggja sameiginlega kynningu á framhaldsskólum

Eineltisáætlun Skilgreining á einelti: „Einelti er endurtekið líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi, útilokun, útskúfun og áreiti sem skapar vanlíðan þegar einn eða fleiri níðast á eða ráðast á einhvern einstakling.“

     

Vísbendingar um að einelti eigi sér stað: Líkamlegar kvartanir, t.d. höfuðverkur, magaverkur Breytingar á skapi, óútskýranleg skapofsaköst og /eða grátköst Lítið sjálfstraust, hræðsla og kvíði Rifin föt og /eða skemmdar eigur, „týnir“ peningum og öðrum eigum Líkamlegir áverkar Einangrun frá félögum, dregur sig úr hópnum

Viðbrögð og vinnuferli starfsfólks skólans við samskiptavanda og einelti: Þegar grunur leikur á um einelti eða erfiðleika í samskiptum er nauðsynlegt að skoða málin vel.  Hafa skal samband við umsjónarkennara sem skráir niður lýsingu á atvikinu, hvar og hve lengi meint einelti eða samskiptavandi hefur staðið. Eftir að tilkynning hefur borist er eineltisteymi skólans upplýst um málið. Eineltisteymi skipa aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri og námsráðgjafi.  Umsjónarkennari athugar málið. Hann skoðar samskipti milli nemenda og er vakandi yfir því sem er að gerast í kennslustundum, frímínútum og annars staðar þar sem nemendur koma saman í nafni skólans.  Umsjónarkennari biður skólaliða og kennara sem kenna bekknum um að fylgjast sérstaklega vel með nemendunum. Ávallt skal vera samvinna við foreldra og þeir upplýstir um gang mála.  Umsjónarkennari ræðir við þolanda til að fá nánari lýsingu á vandanum. Einnig er rætt við meintan geranda. Foreldrar beggja aðila eru upplýstir um gang mála. Þegar um einelti er að ræða fer eftirfarandi vinna í gang: 1. Fundað er með nemendum og foreldrum þeirra, þolendum og gerendum, hverjum fyrir sig. Rætt er við gerendur með það að leiðarljósi að stöðva 25


eineltið. Rætt er við þolanda með það í huga að styðja hann og upplýsa um hvaða aðgerðir eru í gangi. Fundargerð er skráð og mikilvægt að tala um hver séu næstu skref eftir fundina. Allir fundarmenn skrifa undir fundargerðina, nauðsynlegt að halda annan fund innan tíu daga til að meta árangur. Ef þetta skilar ekki árangri og málin halda áfram að þróast til verri vegar er málinu vísað til nemendaverndarráðs og stjórnenda. 2. Nemendaverndarráð fjallar um málið og vinnur áætlun um næstu skref. Stjórnendur og umsjónarkennari vinna saman að málinu með aðilum úr nemendaverndarráði. Stjórnendur boða foreldra á fund og gera þeim grein fyrir alvarleika málsins. Ef það dugir ekki til þarf að leita til aðila utan skólans. Næsta skref er að leita aðstoðar hjá starfsmönnum Miðgarðs. 3. Starfsmenn Miðgarðs taka við málinu í samvinnu við skólann. Fundir eru haldnir utan skólans en í samvinnu við hann. Ef málið leysist ekki er vísað til Menntasviðs. 4. Menntasvið tekur við vinnslu málsins í samvinnu við þá aðila sem hafa unnið með það á fyrri stigum.

Foldaskóli er þátttakandi í Olweusarverkefninu gegn einelti og andfélagslegri hegðun. Nauðsynlegt er að foreldrar taki virkan þátt í lausn eineltismála. Sjá nánar í kaflanum; Önnur starfsemi skólans hér að framan.

Áfallaráð Í Foldaskóla starfar áfallaráð sem ákveður viðbrögð og aðgerðir ef upp koma áföll eða erfiðir atburðir sem tengist skólanum á einhvern hátt.

Önnur sérfræðiþjónusta Miðgarður er þjónustumiðstöð fyrir Grafarvogsbúa. Þangað sækir skólinn sálfræði- og félagsþjónustu. Hlutverk sálfræðiþjónustu er að aðstoða nemendur og foreldra þeirra vegna erfiðleika sem upp kunna að koma. Það geta verið vandkvæði tengd námi og skólagöngu eða heimili og fjölskyldu.

Fardeild Í borgarhluta 4 er starfrækt fardeild með aðsetur í Foldaskóla. Við hana starfa tveir ráðgjafar. Markmið deildarinnar eru:  Að bæta hegðun, líðan og samskipti nemandans í skólanum.  Að miðla þekkingu og þróa árangursrík vinnubrögð í hefðbundnum skólaaðstæðum.  Að aðstoða heimaskóla í samráði við foreldra/forráðamenn nemandans við að leita annarra úrræða sé þess talin þörf.

26


Hvernig á að bregðast við hinum ýmsu málum? Samkvæmt annarri grein grunnskólalaga skal leitast við að haga námi og starfi þannig að komið sé til móts við eðli og þarfir hvers og eins. Starfsmenn Foldaskóla hafa þetta markmið ofarlega í huga í sínu daglega starfi. Nemendum er uppálagt að sýna öðrum virðingu og tillitssemi og að temja sér heilbrigðan metnað fyrir námi sínu og lífi svo að sérhver einstaklingur fái notið sín á eigin forsendum. Þrátt fyrir fögur fyrirheit geta komið upp aðstæður sem óæskilegar teljast. Þá er mikilvægt að brugðist sé við eins skjótt og kostur er til að koma þeim í rétt horf á ný. Hér á eftir er getið nokkurra atriða í þessu sambandi.

Hvert á að leita?

Aðrir sem koma að málinu.

Einelti

umsjónarkennari námsráðgjafi skólastjórnendur

sálfræðingur nemendaverndarráð eineltisteymi

Hegðunarörðugleikar

umsjónarkennari skólastjórnendur

námsráðgjafi sálfræðingur sérkennari fardeild

Námsörðugleikar

umsjónarkennari sérkennari námsráðgjafi skólastjórnendur

sálfræðingur nemendaverndarráð

Samskiptaörðugleikar

umsjónarkennari námsráðgjafi skólastjórnendur

nemendaverndarráð sálfræðingur

Val á framhaldsnámi

umsjónarkennari námsráðgjafi skólastjórnendur

Grunur um fíkniefnanotkun

umsjónarkennari námsráðgjafi/vímu -varnarfulltrúi skólastjórnendur

nemendaverndarráð félagsráðgjafi lögregla hjúkrunarfræðingur

Óöryggi – veik sjálfsmynd

umsjónarkennari námsráðgjafi

sálfræðingur nemendaverndarráð

27


Sorg – ástvinamissir –skilnaður

umsjónarkennari námsráðgjafi skólastjórnendur

sálfræðingur prestur hjúkrunarfræðingur áfallaráð

Ofbeldi

umsjónarkennari námsráðgjafi skólastjórnendur

nemendaverndarráð sálfræðingur lögregla barnavernd

28


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.