Heimanám getur verið mikilvægt í farsælli skólagöngu barns. Það gefur foreldrum tækifæri til að fylgjast með námi barnsins síns og veita því stuðning og hvatningu. Áhugi foreldra á skólagöngu barna skiptir sköpum fyrir velgengni þeirra í námi. Mikilvægt er að skapa góða reglu um heimanámið og að börnin temji sér skipuleg vinnubrögð. Heimanámi skal stillt í hóf og nauðsynlegt að í því sé ákveðinn stígandi eftir því sem líður á skólagöngu nemenda. Heimanám skal að öllu jafnan vera þjálfun í því sem búið er að kenna eða undirbúningur fyrir kennslustund. Lestur er undirstaða alls náms og því mikilvægt að allir nemendur, sem náð hafa tökum á lestri, lesi heima daglega. Í yngstu árgöngunum er því höfuðáherslan lögð á heimalestur. Nemendur í 1.‐ 4. bekk fá auk lesturs að jafnaði eitt annað heimaverkefni í hverri viku. Í 1. bekk sögugerð eða stærðfræðiþraut Í 2.‐4. bekk sögugerð, stærðfræði eða ljóðavinnu Foreldrar yngri barna fá upplýsingar um heimanám í vikulegum fréttabréfum eða með tölvupósti. Ætlast er til að verkefnum sé skilað viku eftir að nemendur fá þau í hendur. Eldri nemendur þurfa að æfa lestur heima daglega a.m.k. í 15 mínútur. Miðað skal við að heimanám nemenda í 5. bekk taki að hámarki 20 ‐ 30 mínútur á dag, 6. bekk taki að hámarki 30 – 40 mínútur á dag, 7. bekk taki að hámarki 40 – 50 mínútur á dag. Heimavinnuáætlun nemenda í 5.‐ 7. bekk er birt á Mentor.is Ef heimanám nemenda tekur óeðlilega langan tíma eða veldur of miklu álagi á heimilið skal hafa samband við kennara sem fyrst.