Jafnréttisáætlun Háaleitisskóla Inngangur Jafnréttisáætlun Háaleitisskóla byggir m.a. á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 2008, Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum og Mannréttindastefnu borgarinnar. Einnig byggir áætlunin á lögum um grunnskóla frá 2008, Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti frá 2011og skólanámskrá Háaleitisskóla. Til þess að tryggja að hver einstaklingur, hvort sem það er starfsmaður eða nemandi, líti á sig sem hluta af skólasamfélaginu og geti tekið fullan þátt í skólastarfinu, verður að meta alla einstaklinga á eigin forsendum. Því skal engum í Háaleitisskóla vera mismunað vegna kynferðis, trúar, kynhneigðar, aldurs, útlits, uppruna né stjórnmálaskoðana. Jafnrétti er ein af grunnstoðum nýrrar aðalnámskrár grunnskólanna og ber því skólanum að standa vörð um það. Heilbrigði og velferð er einnig ein af grunnstoðum nýrrar aðalnámskrár og því augljóst að hver sem starfar innan Háaleitisskóla þarf að upplifa jafnrétti jafnt í leik sem starfi. Jafnrétti á því að vera samofið öllu skólastarfi, námsvali og samskiptum. Skólastjórnendum og starfsfólki öllu ber skylda til þess að tryggja, óháð kyni, jafna möguleika allra nemenda til náms og þátttöku í daglegu skólastarfi. Allt starfsfólk á einnig að búa við jöfn tækifæri til starfa, ábyrgðar, launa og starfsþjálfunar óháð kyni.
Markmið og leiðir Í Háaleitisskóla erum við öll mismunandi og því verður að koma til móts við alla nemendur, þarfir þeirra og getu. Hver nemandi á að gera þá kröfu til skólans að honum sé tekið eins og hann er. Enn fremur ber skólanum að: Stuðla að því í öllu starfi að jákvæðni sé höfð að leiðarljósi og gagnkvæm virðing við bæði kynin. Hvetja nemendur til að rækta hæfileika sína óháð stöðluðum kynjaímyndum, bæði í náms- og starfsvali. Stuðla að jöfnum möguleikum nemenda til að nýta sér þá stoðþjónustu sem stendur til boða, hvort sem það er innan veggja skólans eða utan. Dæmi um slíka þjónustu er; náms- og starfsráðgjöf, sérkennsla / stuðnngskennsla, sálfræðiaðstoð, skólahjúkrunarfræðingur og öll önnur náms- og félagsleg úrræði sem í boði eru. Standa vörð um trú- og skoðanafrelsi nemenda. Einnig skal taka tillit til mismunandi uppruna nemenda og menningarumhverfis sem þeir koma úr. Stuðla að því að kynhneigð nemanda verði honum aldrei til mismununar eða vanlíðunar í skóla. Stuðla að jafnri kynjaskiptingu í hópum og bekkjum, ef ekki er um að ræða sérstaka stráka- og stelpuhópa sem hafa það að markmiði að jafna stöðu kynjanna.
Starfsfólk Háaleitisskóla ber að nýta sér hæfileika og færni starfsmanna sinna á sem skilvirkastan hátt. Til þess að framfylgja þessu er nauðsynlegt að koma í veg fyrir kynbundna
1
mismunun, hvort sem hún er tengd launum eða öðrum starfsháttum. Til að ná tilsettum árangri þarf að: Láta störf standa báðum kynjum til boða og ef jafnhæfir einstaklingar sæki um sama starf á að horfa á kynjasamsetningu starfsmanna. Gæta þess að jafnréttis sé gætt í þátttöku starfsmanna í nefndum og starfshópum sem og öðrum ábyrgðarstöðum og embættum á vegum skólans. Sýna starfsmönnum, óháð kyni, sveigjanleika þegar samræma þarf starf og fjölskyldulíf. Koma í veg fyrir kynferðislega áreitni eða ofbeldi og tryggja að stjórnendur taki slík mál föstum tökum. Mat og úrvinnsla Jafnréttisáætlun á að vera í sífelldri þróun og til þess að hún gagnist sem skyldi þarf að kynna hana fyrir bæði nemendum, starfsfólki skólans og foreldrum. Hún verður að vera öllum aðgengileg og birtast á heimasíðu skólans. Allir sem að skólastarfinu koma geta krafist endurskoðunar á henni og þannig stuðlað að aukinni jafnréttisumræðu innan veggja skólans. Ítarleg jafnréttisáætlun Háaleitisskóla… Jafnréttisáætlun Inngangur Orðið jafnrétti hefur yfir sér blæ réttlætis þar sem fólk situr allt við sama borð óháð kynferði, kynþætti, trú, kynhneigð, líkamlegri- eða andlegri fötlun. Allt skólastarf, frá 1. bekk og upp í 10. bekk, skal vera í anda jafnréttis. Jafnrétti á að vera samofið leik og starfi nemenda og starfsfólk þarf að geta starfað í þeirri vissu að t.d. kynferði hamli ekki starfsánægju eða starfsframa. Skólastarf í anda jafnréttis á einnig að taka mið af mismunandi námshæfileikum nemenda, kynþætti, trú, kynhneigð, fötlun og hvort nemandi flokkist sem nýbúi eða tvítyngdur. Það má í mörgum tilfellum yfirfæra markmið og leiðir í jafnréttisáætlun yfir á fyrrgreinda nemendahópa. Tækifæri nemenda á ekki að byggja á kynferði heldur áhuga, hæfileikum og færni. En í þessari áætlun er fyrst og fremst verið að vinna með jafnrétti kynjanna í anda jafnréttislaga. Sá bakgrunnur sem jafnréttisáætlun Háaleitisskóla byggir á. Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá árinu 2008 ber öllum fyrirtækum og stofnunum sem hafa fleiri en 25 starfsmenn að setja sér jafnréttisáætlun. Tilgangurinn með lögunum er fyrst og fremst sá að þannig sé best tryggt að hæfileikar og færni allra fái notið sín. Í jafnréttislögum er kveðið á um að karlar og konur eigi að njóta sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar. Kynin eiga að búa við sömu möguleika á stöðuhækkunum, stöðubreytingum og vinnuaðstæðum. Til þess að áætlunin þjóni tilgangi sínum þarf að setja fram mælanleg og tímasett markmið eða aðgerðaplan. Áður en farið er að starfa eftir áætluninni þarf að kanna þá þætti er snúa að jafnrétti kynjanna, mæla og leggja mat á stöðuna. Það þarf að skoða allt starfið í skólanum út frá sjónarhóli jafnréttis. Ef í ljós kemur að það halli á annað hvort kynið þarf að grípa inn í og finna leiðir til að rétta hlut þess sem höllum fæti stendur. Í reglulegu innra mati á skólastarfi Háaleitisskóla, hvort sem um er að ræða starfsmannasamtöl,
2
starfsmannakannanir eða kannanir meðal nemenda og foreldra, er unnt að kanna og leggja mat á stöðu jafnréttismála í skólanum. Þegar vinna á að ákveðnum markmiðum til að jafna hlut kynjanna – starfsmanna jafnt sem nemenda er nauðsynlegt að skipuleggja vinnuna eins og hér er sýnt. Aðeins með markvissum vinnubrögðum og inngripi er hægt að ná settu marki – þ.e. jafnri stöðu kynjanna í Háaleitisskóla. Markmið Hvað á að gera?
Aðgerðir Leiðir markmiði?
að
Ábyrgð Hver heldur taumana?
um
Tímarammi Hvenær hefst verkefnið og lok vinnu?
Þegar farið er að starfa eftir jafnréttisáætlun er mjög nauðsynlegt að kynna hana vel og rækilega fyrir öllum þeim er hún varðar og endurskoða hana með reglulegu millibili. Þar sem um grunnskóla er að ræða þarf að kynna hana fyrir foreldrum og sérstaklega þann hluta hennar er snýr að nemendum. Eins og annað er snýr að skólanámskrá á að leggja hana fram á fundi með skólaráði en hún á einnig að vera aðgengileg á heimasíðu skólans. Öllum starfsmönnum þarf að vera ljóst að kynferðisleg áreitni eða ofbeldi er ekki liðið. En með kynferðislegri áreitni er átt við kynferðislega hegðun sem er ósanngjörn og / eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður. Kynferðisleg áreitni hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess eða þeirra sem fyrir henni verða og ef henni er haldið áfram þrátt fyrir að tekið sé skýrt fram að hegðunin sé í óþökk þolanda. Stjórnendur verða að tryggja að starfsmenn og nemendur verði ekki fyrir kynferðislegri áreitni m.a. með því að senda út skýr skilaboð um að slík hegðun verði alls ekki liðin og á henni tekið. Vert er að taka fram að kynferðisleg áreitni getur ýmist beinst frá kennara / starfsmanni að nemanda og öfugt. Einnig getur áreitið átt sér stað innan nemendahópsins jafnt og starfsmannahópsins. Það þarf að taka það skýrt fram að hvorki nemandi né kennari / starfsmaður komist upp með að nota kynferðislegar tilvísanir eða svívirðingar. Reykjavíkurborg hefur gefið út Mannréttindastefnu og sérstök aðgerðaráætlun í jafnréttismálum var gefin út í desember 2011. Reykjavíkurborg ætlar sér að verða í fremstu röð hvað varðar frumkvæði og faglegt starf á sviði jafnréttismála. Til grundvallar stefnunni er vísað til þess að í Stjórnarskrá Íslands er varinn réttur kvenna og karla og einnig í mörgum mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur undirritað. Í kaflanum um Reykjavík sem miðstöð þjónustu er sérstaklega tekið fram að allt uppeldis- og tómstundastarf, menntun og fræðsla sem fram fer á ábyrgð borgarinnar og stofnana hennar verði að hafa að leiðarljósi jafna stöðu kynjanna. Það beri að veita börnum og unglingum hvatningu og tækifæri til að rækta hæfileika sína og persónuþroska án þess að hefðbundnar kynjaímyndir hafi þar áhrif. Einnig segir að skólastjórnendur eigi að leitast við að styrkja jákvæða kynímynd stelpna og stráka og vinna sérstaklega gegn áhrifum klámvæðingar meðal unglinga.
3
Við úthlutun styrkja hjá Reykjavíkurborg á að hafa hugfast að þau félög / hópar sem hljóta styrki sýni svo óyggjandi sé að jafnréttissjónarmið séu virt í öllu starfi styrkþega. Sérstök ábyrgð er lögð á herðar skólastjórnenda. Þeir eiga að leggja áherslu á að allt skólastarf miði að því að undirbúa nemendur af báðum kynjum fyrir einkalíf, fjölskyldulíf, félags- og atvinnulíf. Í opinberri stefnumörkun kemur m.a. fram að áhersla er lögð á að styrkja sjálfsmynd nemenda. Einnig að námsefni mismuni ekki kynjum og í náms- og starfsfræðslu verði lögð áhersla á að kynna báðum kynjum störf sem hingað til hafa verið talin hefðbundin kvenna- eða karlastörf. Hvað segja Lög um grunnskóla og námskrár um jafnrétti kynjanna? Í lögum um grunnskóla frá 2008 er ítrekað komið inn á jafnrétti og rétt nemenda til að starfa í grunnskóla sem tekur jafnréttismál föstum tökum. Sem dæmi má nefna að Í 2.grein - markmið stendur: Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Einnig stendur í 24. grein – aðalnámskrá: Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti. Í 25. grein - um markmið náms kemur fram að: Í aðalnámskrá skal setja ákvæði um inntak og skipulag náms í íslensku, íslensku sem öðru tungumáli eða íslensku táknmáli, stærðfræði, ensku, dönsku eða öðru Norðurlandamáli, listog verkgreinum, náttúrugreinum, skólaíþróttum, samfélagsgreinum, jafnréttismálum, trúarbragðafræði, lífsleikni og upplýsinga- og tæknimennt. Eins og áður hefur komið fram er jafnrétti ein af grunnstoðum nýrrar aðalnámskrár grunnskóla. Það er væntanlegt fræðslu- og upplýsingarit þar sem fjallað verður um gildi jafnréttis í skólum og markmið og leiðir sem hægt er að nýta í daglegu skólastarfi. Í sambærilegu riti um heilbrigði og velferð verður á sama hátt tekið á tengingum jafnréttis og heilbrigðis. Einnig eru að koma út nýjar námskrár námsgreina en í þeim verður hægt að sjá þær áherslur sem falla undir jafnrétti og jafnréttisfræðslu. Þar sem þær eru ekki tilbúnar er ekki unnt að gera grein fyrir áherslum ólíkra námsgreina fyrr en eftir næstu endurskoðun á jafnréttisáætlun Háaleitisskóla. Nemendur – markmið og leiðir. Þegar Skólanámskrá Háaleitisskóla er skoðuð kemur fram að allt skólastarf skal byggja á góðri samvinnu, jöfnum tækifærum nemenda og góðum undirbúningi fyrir frekara nám eða störf. Heill og hamingja nemenda skal höfð í fyrirrúmi. Í námskránni má lesa að hver og einn nemandi á rétt á kennslu við hæfi sem tekur mið af áhuga, færni og reynslu. Í drögum að skólanámskrá í samfélagsfræði og lífsleikni kemur fram að vinna skal með jafnréttishugtakið í víðum skilningi og út frá hugmyndum um mannréttindi. Að öllu jöfnu skal leitast við að hafa kynjahlutföll sem jöfnust í bekkjum eða námshópum, nema að það sé ákveðið markmið að hafa hópa kynskipta. Það getur komið upp sú staða að það þjóni jafnréttishugsun að kynskipta nemendum t.d. í íþróttum. Það þarf einnig að tryggja að framboð á valáföngum höfði til beggja kynja. Það þarf að skoða árlega einkunnir að vori í 3. 6. og 9. bekk og greina þær eftir kynjum. Ef í ljós kemur verulegur munur á einkunnum nemenda eftir kyni þarf að grípa til sérstakra aðgerða með það fyrir augum að staða kynja verði sem jöfnust. Hér gæti t.d.
4
komið til að breyta kennsluháttum, námsefni, samsetningu námshópa eða auka tímabundið við stuðning. Í reglubundinni könnun á vegum Skólapúlsins fæst gott yfirlit yfir stöðu nemenda, bæði námslega stöðu og félagslega. Einnig fást góðar upplýsingar um líðan þeirra. Þegar niðurstöður eru skoðaðar þarf sérstaklega að horfa eftir kynjamun. Ef svo er þá þarf að vinna sérstaklega með þær niðurstöður. Þetta sjálfsmat nemenda má einnig nota sem innlegg í nemenda- og foreldrasamtöl. Sjálfsmat má leggja fyrir fleiri árganga í skólanum og oftar ef þurfa þykir. Einnig er forvitnilegt að kanna hjá nemendum í t.d. 8. 9. og 10. bekk vinnu þeirra með skóla, þátttöku í skipulögðu tómstundastarfi og óformlegu tómstundastarfi o.fl. Kemur hér fram munur á milli kynja? Eru hér komnar inn breytur sem geta haft áhrif á námsárangur, virkni í félagsstarfi í skólanum, vali á valáföngum ( mikil / lítil heimavinna )? Skoða þarf samkennslu kynja í leikfimi, sundi, list- og verkgreinum. Meta þarf kosti og galla samkennslu m.a. með viðhorfskönnunum meðal nemenda og viðtölum við kennara. Ef það er mat kennara, nemenda eða foreldra að það þjóni betur þörfum nemenda að kynskipta hópum er eðlilegt að skipuleggja námið með það að leiðarljósi. Eftir sem áður er ætlast til þess að stelpur séu í sundbolum í sundi, það er mat kennara að það þjóni betur hagsmunum þeirra og auðveldi þeim að taka virkan þátt í sundkennslunni. Það þarf að vinna sérstaklega í náms – og starfsfræðslu. Vinna gegn söðluðum ímyndum kynjanna í náms- og starfsvali. Þessi fræðsla getur byrjað mjög snemma og hér gefst gott tækifæri til að auka samstarf heimila og skóla með markvissum heimsóknum foreldra í skóla þar sem þeir kynna mismunandi störf og starfsvettvang. Markviss námsog starfsfræðsla sem byggir bæði á almennri kynningu á framhaldsskólanum og íslenskum vinnumarkaði þarf að hefjast strax í byrjun 8. bekkjar. Einnig þarf að vinna með t.d. gildismat og fordóma í gegnum almennar umræður. Kynna sérstaklega fyrir stelpum nám og störf í tækni- og iðngreinum og fyrir strákum hefðbundin störf sem flokkast til uppeldis- og umönnunarstarfa. Það þarf að gefa nemendum tækifæri til að fara í heimsóknir út í framhaldsskóla og í fyrirtæki og stofnanir. Allir kennarar skólans verða að skoða og meta allt námsefni út frá jafnréttissjónarmiði. Það þarf að hafa að leiðarljósi að vinna með námsefni / kennslugögn sem byggja á jafnréttishugmyndum. Kennarar þurfa að beita sem fjölbreyttustum kennsluháttum og þar með reyna að nálgast mismunandi leiðir nemenda til að læra og fanga sem best áhuga þeirra og næmni til náms. Þannig er líklegast að bæði kynin fái kennslu við hæfi og ólík reynsla og gildismat fái notið sín. Það er lykilatriði að vinna markvist með jafnrétti í lífsleiknitímum. Þó svo að lífsleikni komi ekki inn í námskrá fyrr en í 4.bekk er allt skólastarf yngri nemenda samofið lífsleikniáherslum eða þjálfun. Strax í 1. bekk er því hægt að byrja að vinna með nemendur í anda jafnréttis. Nauðsynlegt er að skoða í hvaða öðrum námsgreinum / námskrám er sérstaklega fjallað um jafnrétti kynjanna eða hefðbundnum kynímyndum viðhaldið. Hver og einn kennari verður að skoða það námsefni sem nemendur vinna með, þær áherslur sem kennari leggur í skólastarfinu í daglegu samneyti við nemendur, það gildismat sem ríkir í
5
skólanum / nemendahópnum og þær kennsluaðferðir sem unnið er eftir. Sérstaklega er nauðsynlegt að vinna með “jafnréttisgleraugun“ á nefinu í öllum námsgreinum og vinna meðvitað gegn ríkjandi kynímyndum. Það þarf að hafa að leiðarljósi jafnan hlut kynja við val í nemendaráð, þegar fulltrúar skólans eru valdir í t.d. ræðu- og spurningalið skólans og við hvert það tækifæri þegar nemandi eða nemendur skólans koma fram fyrir hans hönd. Þegar um kosningar er að ræða þarf að horfa til þess að kjósa fulltrúa beggja kynja. Að hausti, í aðdraganda nemendakosninga, er unnið með hugtakið lýðræði, jafnrétti og gildi þess að velja þann sem er hæfastur. Nemendur bjóða sig fram og kynna sig og hvað þeir standa fyrir áður en gengið er til kosninga. Með jöfnu millibili þarf sérstaklega að skoða alla þá stoðþjónustu sem skólinn veitir. Hér er átt við t.d. aðstoð í námsveri skólans, aðstoð náms- og starfsráðgjafa, sérkennslu / stuðningskennslu, einstaklingsnámskrár, sálfræðiaðstoð, aðstoð hjúkrunarfræðings og ýmis önnur náms- og félagsleg úrræði sem skólinn býður upp á eða stendur að í samvinnu við aðra aðila. Kemur hér fram munur eftir kynjum? Ef svo er þá þarf að vinna sérstaklega með þær niðurstöður. Á vettvangi nemendaverndarráðs er auðvelt að skoða þessa þætti sérstaklega. Það þarf að gera nemendum ljóst að kynferðisleg áreitni eða ofbeldi verði aldrei liðin í skólanum. Það þarf að setja meðferð slíkra mála í ákv. farveg sb. einelti og áföll. Nemendaverndarráð, skólasálfræðingur, skólahjúkrunarfræðingur og / eða náms- og starfsráðgjafi eiga að taka að sér þessa fræðslu og vinnu með nemendum. Nemendur eiga alls ekki að sætta sig við kynferðislega áreitni eða ofbeldi. Það þarf að gera nemendum grein fyrir því að áreitni getur birst í mörgum myndum s.s. í orðum eða látbragði. Nemendur eiga hvorki að sætta sig við áreitni eða ofbeldi af hendi samnemenda né starfsmanna skólans. Hér ber að skoða sérstaklega ný samskiptaform í gegnum fjölbreytt margmiðlunaræki s.s. tölvur, síma, upptökutæki og myndavélar. Nauðsynlegt er að halda uppi virkri samvinnu við þá aðila sem veita stoðþjónustu s.s. þjónustumiðstöð, Barnavernd Reykjavíkur, Barnahús og lögreglu. Þannig er best hægt að tryggja velferð nemenda. Ef upp kemur grunur eða vissa um að nemandi hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í skólanum eða utan hans skal samstundis haft samband við barnaverndaryfirvöld, Barnahús og foreldra ef þeir tengjast á engan hátt meintu ofbeldi. Gagnkvæmt og traust samvinna þarf að vera til staðar við heimili nemenda og ýmis félagasamtök í hverfinu t.d. íþróttafélög og félagsmiðstöð. Ef það er vilji foreldra þá er alltaf til staðar samstarfsvettvangur við kirkjuna í hverfinu. Í skólahverfi Háaleitisskóla er Tónabær, sem eins og allar starfseiningar á vegum ÍTR, á að hafa virka jafnréttisáætlun til að starfa eftir. Einnig hefur Fram samið námskrá þar sem m.a. er komið inn á jafnrétti. Árlega þarf að kynna jafnréttisáætlun skólans og þá sérstaklega þann hluta er snýr að nemendum. Það má gera með ýmsum hætti t.d. á haustfundum með foreldrum, með útgáfu á sérstökum bæklingi, á heimasíðu skólans sem hluti af skólanámskrá eða með póstsendingum til foreldra þar sem jafnréttisáætlunin er kynnt sérstaklega. Það fer síðan eftir aldri og þroska nemenda hvernig skólinn kynnir áætlunina fyrir þeim.
6
Starfsmenn – markmið og leiðir. Við mannaráðningar gilda almennar reglur og viðmið sem fram koma í lögum um jafnrétti og jafna stöðu kynjanna. Markmiðið er að í starfsmannahópnum halli á hvorugt kynið. Ef jafnhæfir einstaklingar sækja um auglýst starf ber að ráða það kynið sem hallar á. Þeir hópar sem þarf að skoða eru;
skólastjórnendur deildastjórar umsjónarkennarar sérgreinakennarar stuðningsfulltrúar skólaliðar aðrir starfsmenn
Skoða þarf orðalag starfsauglýsinga og passa að það sé fullkomlega í anda jafnréttislaga. Að öllu jöfnu skal starf sem auglýst er laust til umsóknar stand til boða jafnt konum sem körlum. Það er óheimilt að auglýsa starf þar sem fram kemur að atvinnurekandi óski frekar eftir öðru kyninu en hinu. Til er undantekning frá þessu ákvæði. Ef skólastjórnandi vill stuðla að jafnari kynskiptingu meðal starfsmanna / starfshópa getur hann auglýst sérstaklega og hvatt annað kynið til að sækja um viðkomandi starf. Það þarf þá að koma fram í auglýsingunni að markmiðið sé að jafna hlut kynjanna – tímabundin jákvæð mismunun. Einnig er til undantekning ef nauðsynlegt er að ráða annað kynið vegna hlutlægra þátta sem tengjast starfinu s.s. baðverðir í íþróttahúsi. Öllum starfsmönnum þarf að vera ljóst að kynferðisleg áreitni eða ofbeldi verði aldrei liðið í skólanum. Það þarf að setja meðferð slíkra mála í ákv. farveg eins og unnið er með áföll. Starfsmenn eiga alls ekki að sætta sig við kynferðislega áreitni, en áreitni getur birst í mörgum myndum s.s. í orðum eða látbragði. Stjórnendur bera ábyrgð á því að kynferðisleg áreitni eða ofbeldi viðgangist ekki í skólanum og meðferð slíkra mála er í þeirra höndum. Þegar kennurum / starfsmönnum er skipt í vinnuhópa skal hafa að leiðarljósi að samsetning hópa endurspegli kynjaskiptingu starfsmanna. Vinna skal út frá því að hóparnir verði með sem jafnastri skiptingu nema að markmiðið sé að kalla fram skoðanir eftir kynjum. Einnig þarf að hafa þessa skiptingu í huga þegar kosið eða valið er í embætti á vegum skólans. Það þarf að gera reglulega viðhorfskannanir og greina niðurstöður eftir kynjum. Hér er hægt að nýta sér starfsmannasamtöl og ýmsar kannanir sem tengjast innra mati sem verið er að vinna með í skólanum. Það sem þarf að skoða sérstaklega er;
almenn kjör starfsframi viðhorf til starfsins vinnuálag – sveigjanlegur vinnutími / tækifæri til að vinna hluta vinnuskyldu heima hjá sér aðgengi að stjórnendum ábyrgð í starfi
7
aðgang að aðstoð eða handleiðslu aðbúnað – vinnuumhverfið
Allt starf í skólanum þarf að taka mið af því að samræma sem best fjölskyldulíf og vinnu starfsmanna t.d. má nefna fundartíma, skipulag námskeiða o.fl. Á almennum vinnumarkaði er mikið lagt upp úr því að vinnutími starfsmanna sé sveigjanlegur og það talið til kosta ef unnt er að vinna hluta starfsins heima. Má þar nefna undirbúning fyrir kennslustundir sem fellur utan bundinnar viðveru kennara. Í anda jafnréttislaga eiga stjórnendur að leitast við að gera nauðsynlegar ráðstafanir þannig að starfsmenn, jafnt karlar sem konur, geti samræmt sem best starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu. Í þessu sambandi er vert að skoða fjarvistir starfsmanna frá vinnu vegna fjölskylduábyrgðar t.d. veikinda barna eða að mæta á foreldrafundi. Umræðu um jafnréttisáætlunina, bæði það sem snýr að starfsmönnum og nemendum þarf að taka árlega upp á starfsmannafundum, kennarar verða að flétta hugmyndafræði og áherslur inn í daglegt skólastarf og nemendur eiga að vita að í skólanum er virk jafnréttisáætlun. Skólastjóri ber endanlega ábyrgð á jafnréttisáætlun skólans. Hins vegar getur hann falið kennurum / starfsmönnum að semja hana og fylgja henni eftir. Jafnréttisáætlun sem liggur ónotuð í skúffu gerir lítið sem ekkert gagn. Það er hægt að skilgreina vinnuna sem ákv. hlutfall af starfi deildarstjóra, sem hluta af faglegu starfi kennara eða sem hluta af vinnu kennara sem komnir eru með kennsluafslátt. Það þarf reglulega að fara í gegnum áætlunina, uppfæra hana og endurmeta áherslur og markmið. Í framhaldinu þarf að skipuleggja skólastarfið í samræmi við þau markmið sem sett hafa verið fram. Við gerð jafnréttisáætlunar eða endurskoðun er hægt að leita eftir faglegri ráðgjöf til Jafnréttisstofu og á heimasíðu stofunnar er að finna gagnlegar upplýsingar og leiðbeiningar – sjá: http://jafnretti.is. Jafnréttisáætlun Háaleitisskóla byggir á:
Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum frá des 2011- sjá: www.reykjavik.is. Mannréttindastefna Reykjavíkur – sjá www.reykjavik.is Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla 2008 Lögum um grunnskóla frá 2008 Þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára 2011-2014 Aðalnámskrá grunnskóla – Almennur hluti 2011 Skólanámskrá Háaleitisskóla Hvað er jafnréttisáætlun? Leiðbeiningar við gerð jafnréttisáætlunar. Útg. Jafnréttisstofa – sjá: http://jafnretti.is/D10/_FILES/Hvad%20er%20jafnrettisaaetlun.pdf.
8