Námskrá 1. bekkur Kennsluhættir Nemendum í 1. bekk er kennt í þremur hópum. Umsjónarkennarar eru þrír. Aðaláherslan í 1. bekk er á lestrarkennslu og lestrarfærni. Nemendur fá innlagnir í stærðfræði og vinna síðan verkefni sem miðast við getu hvers og eins. Námsgreinarnar kristinfræði, samfélagsfræði, náttúrufræði og lífsleikni eru kenndar í þemum í samþættingu við listgreinar. Markviss útikennsla er einu sinni í viku. Þar fá nemendur tækifæri til að kynnast umhverfi sínu og tengja námsefnið við daglegt líf. Í náminu er lögð áhersla á frjálsan leik til að efla sjálfstæði nemenda. Viðfangsefni eru bæði höfð huglæg og hlutbundin.
Íslenska Markmið íslenskukennslunnar er grunnþjálfun í lestri og ritun. Meginmarkmiðið er að nemendur séu farnir að lesa léttan texta í lok 1. bekkjar, geti dregið rétt til stafs og skrifað einfaldar setningar. Þegar nemendur eru farnir af stað í lestri er mikil áhersla lögð á heimalestur í góðri samvinnu við heimilin. Hér á eftir má finna nánari útlistun á hverjum námsþætti fyrir sig. Aðalnámskrá grunnskólanna má finna á heimasíðu menntamálaráðuneytisins á www.menntamalaraduneyti.is undir liðnum námskrár. Lestur og bókmenntir Stafainnlögn byrjar strax að hausti og nemendur vinna fjölbreytt verkefni í tengslum við hana. Þegar nemendur eru tilbúnir fá þeir lestrarbækur við hæfi. Ætlast er til að börnin lesi heima á hverjum degi. Nemendur læra valdar vísur, lög og ljóð til lestrar og/eða söngs. Nemendur hlusta á sögur af hljóðsnældum eða sem kennari les. Rætt er um efni og innihald sagnanna og unnið úr þeim á myndrænan hátt í hópa‐ eða einstaklingsvinnu á svæðum. Málfræði Nemendur læra að þekkja eftirfarandi hugtök: Bókstafur, sérhljóði, samhljóði, orð, setning, stór stafur / lítill stafur, punktur og komma. Leikir eru notaðir til að æfa t.d. rím og fjölda atkvæða í orði. Skrift Mikil áhersla er lögð á að nemendur læri að draga rétt til stafs og læri strax að skrifa skýrt og læsilega. Nemendur læra og æfa sig í að draga rétt til stafs og nota tengikróka. Þeir læra stærðarhlutfall stafa og að hafa bil á milli orða. Farið er yfir nauðsyn þess að vanda öll vinnubrögð og frágang. Ritun Nemendur skrifa í sögubók hálfsmánaðarlega frá áramótum. Þannig þjálfast þeir í því að tengja saman lestur og ritun. Framsögn Nemendur æfa sig í að koma fram og segja frá eigin reynslu. Þeir æfa sig í að endursegja og lesa upp eigin sögur og frásagnir. Nemendur æfa sig í að hlusta á aðra og biðja um orðið ef þeir vilja tjá sig (bekkjarfundir). Nemendur æfa og flytja helgileik á jólaföstu. Hlustun Nemendur hlusta á upplestur á sögum og ljóðum bæði frá samnemendum og kennurum. Nemendur þjálfast í að hlusta á fyrirmæli og fara eftir þeim. Nemendur læra að hlusta og horfa á leik‐ og söngatriði á sviði í samverustund skólans og í daglegri næðisstund bekkjanna. Svæði Nemendur vinna á íslenskusvæði þar sem unnið er að fjölbreyttum verkefnum sem tengjast flestum þáttum íslenskunnar.
Námsmat Lestrarpróf (Leið til læsis 2x á ári). Lestrarskimanir sem sérkennari leggur fyrir. Lesskilningspróf. Skriftarpróf 2x á ári. Sjálfsmat í ritun. Lokaprófum er safnað saman í möppu hvers nemenda. Ef foreldrar óska, þá geta þeir skoðað úrlausnir prófa.
Stærðfræði Í aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að kennsla á yngsta stigi byggist á reynslu og þekkingu barnanna þegar þau hefja skólagöngu. Með tímanum þróast vinna þeirra og leikur þannig að þeim verður tamt að styðjast við stærðfræðileg hugtök. Stuðla ber að slíkri þróun með því að þjálfa börnin í ýmiss konar talnavinnu, flokkun, röðun og lýsingu á eiginleikum hluta og umræðum um þá. Mikilvægt er að tengja verkefnin kunnuglegu umhverfi og nota áþreifanlega hluti eða myndræn hjálpartæki. Nemendur geta oft unnið með háar tölur og flókin hugtök ef þeir þekkja vel til þeirra eða geta stuðst við hjálpartæki. Aðalnámskrá grunnskólanna má finna á heimasíðu menntamálaráðuneytisins á www.menntamalaraduneyti.is undir liðnum námskrár. Nemendur fá innlagnir í stærðfræði og vinna síðan sjálfstætt eftir sinni getu. Viðmiðin við lok 1. bekkjar eru að nemandi hafi lokið stærðfræðiefninu Sproti 1a og 1b ásamt aukaefni við hæfi hvers og eins. Námsefninu hefur verið skipt niður í ákveðna námsþætti. Námsþættir eru eftirfarandi: Talnagildi Flokkun Form og mynstur Mælingar Samlagning og frádráttur með tölum upp í 20 Form og myndir Tugur og eining Talnalína Námsmat Yfirlitspróf eru lögð fyrir tvisvar á ári. Yfirlitspróf eru geymd í möppu fyrir hvern nemanda. Ef foreldrar óska, geta þeir skoðað úrlausnir prófa. Verkmöppur Verkmöppur eru A5 harðspjalda gormabækur. Í möppurnar eru sett verkefni nemenda, markmið og lýsing hvers verkefnis fyrir sig ásamt eyðublöðum fyrir sjálfsmat. Þau verkefni sem fara í þessar möppur er vinna nemenda úr þemavinnu, valin verkefni úr íslensku og stærðfræði ásamt útikennslu. Nemendur byrja að vinna möppurnar í 1. bekk og ljúka þeim í 3. bekk og fara þá með þær heim. Markmiðið með þessari vinnu er: - Að nemendur fá yfirsýn yfir vinnu sína. - Að nemendur sjái framfarir. - Að nemendur læri að meta sig sjálfir. - Að nemendur sjái að virðing er borin fyrir vinnu þeirra.
Þema (náttúrufræði, samfélagsfræði, kristinfræði og lífsleikni) Þema er námskipulag þar sem tekið er fyrir ákveðið afmarkað viðfangsefni sem unnið er með á margvíslegan hátt og hinar ýmsu námsgreinar samþættar (t.d. stærðfræði, íslenska, ritun, samfélagsfræði, náttúrufræði, listgreinar o.fl.). Unnið er með eitt þema í einu og þau unnin hvert af öðru.
Í upphafi hvers þema eru sett fram skýr markmið svo að nemendur geri sér grein fyrir tilgangi verkefnanna. Í þemavinnu er leitast við að hafa fjölbreytt verkefni svo að sem flestir fái að njóta sín. Frammistaða og virkni nemenda er metin eftir hvern tíma ásamt því að nemendur gera sjálfsmat í lok hvers þema. Markmiðum, lýsingu, afrakstri þemavinnu og matsblöðum er safnað í verkmöppur, sjá nánar undir liðnum verkmöppur. Eftirfarandi þemu eru unnin í 1. bekk − Skólinn og umhverfið − Ævintýrin − Vinátta − Jólin − Líkaminn − Fiskar − Páskar − Húsdýrin