Námskrá 2. bekkur Kennsluhættir Nemendum í 2. bekk er kennt á sama svæði með möguleika á skiptingu í hópa á minni svæði. Ekki er um hefðbundna bekkjarskiptingu að ræða en umsjónarhóparnir eru 3 sem hver hefur sinn umsjónarkennara. Umsjónarkennari ber ábyrgð á öllu námi nemenda innan síns hóps. Stærðfræði og íslenska eru kenndar í hópum þar sem leitast er við að koma til móts við mismunandi þarfir og getu nemenda. Mikil áhersla er lögð á lestrarkennslu og lesskilning, málfræði, stafsetningu, ritun og skrift. Kristinfræði, samfélagsfræði, náttúrufræði og lífsleikni eru kennd í þemum í samþættingu við listgreinar. Markviss útikennsla er einu sinni í viku. Þar fá nemendur tækifæri til að kynnast umhverfi sínu og tengja námsefnið við daglegt líf.
Íslenska Aðalnámskrá grunnskólanna, íslenskuhluta, má finna á heimasíðu menntamálaráðuneytisins á www.menntamalaraduneyti.is undir liðnum námskrár. Innlagnir: Kennari kennir öllum nemendum í einu nýja námsþætti. Nemendur vinna ákveðin verkefni í framhaldi af innlögnum. Þeir sem þurfa enn meiri þjálfun fá verkefni við hæfi eða fá stuðning frá sérkennara. Stöðvavinna: Í svæðavinnu er markmiðið að taka fyrir ákveðna þætti í íslensku og stærðfræði, sem dýpka skilning nemenda á ákveðnum námsþáttum. Nemendum er skipt upp í litla hópa þar sem unnin eru fjölbreytt verkefni við allra hæfi með fjölbreyttum námsgögnum. Markmið við lok 2. bekkjar Lestur og bókmenntir: Nemendur lesi sér til gagns og gamans bæði hátt og í hljóði. Mikil áhersla er lögð á að nemendur lesi bæði í skóla og heima og hafi lestrarbækur við hæfi. Nemendur hafa góðan aðgang að bókakosti og eru hvattir til lestrar. Kynnist hugtökum eins og persóna, söguhetja og rím. Málfræði: Nemendur læra að þekkja eftirfarandi hugtök. Stafrófsröð, sérhljóðar/samhljóðar, samheiti/andheiti, stór og lítill stafur, sérnöfn/samnöfn, nafnorð, eintala og fleirtala. Skrift: Geta skrifað læsilega með því að draga rétt til stafs, láta stafi sitja rétt á línum, nota króka og hafa rétt bil á milli stafa og orða. Ritun: Koma hugsun sinni í ritað mál. Læra uppbyggingu sögu, inngangur miðja og sögulok. Nemendur læra að nota spássíu og fyrirsögn. Nemendur semja margvíslegan texta við eigin myndir og annarra og skrifa sjálfir s.s. sögur, ljóð, dagbækur og myndatexta. Framsögn: Nemendur æfa sig í að koma fram og segja frá eigin reynslu. Þeir æfa sig í að endursegja og lesa upp eigin sögur og frásagnir. Nemendur æfa og flytja atriði á sal. Hlustun: Nemendur hlusta á upplestur á sögum og ljóðum bæði frá samnemendum og kennurum. Nemendur hlusta á fyrirmæli og læra að fara eftir þeim. Nemendur læra að hlusta og horfa á leik‐ og söngatriði á sviði. Nemendur hlusta á sögur af geisladiskum og vinna verkefni upp úr þeim.
Námsefni: Fjölbreytt úrval lestrarbóka. Ritrún, Við lesum b, lestrarbók og vinnubók og Lestrarlandið. Ljósrituð hefti frá kennurum. Námsmat: Lestrarpróf (hraðlestrarpróf/framsagnarpróf) eru 3x á ári. Lesskilningspróf 2x á ári. Málfræðipróf 2x á ári. Skriftarpróf 2x á ári. Lokaprófum er safnað saman í möppu.
Stærðfræði Aðalnámskrá grunnskólanna, stærðfræðihluta, má finna á heimasíðu menntamálaráðuneytisins á www.menntamalaraduneyti.is undir liðnum námskrár. Innlagnir: Kennari kennir öllum nemendum í einu nýja námsþætti. Nemendur vinna ákveðin verkefni. Þeir sem þurfa enn meiri þjálfun fá verkefni við hæfi eða fá stuðning frá sérkennara. Stöðvavinna: Í svæðavinnu er markmiðið að taka fyrir ákveðna þætti í stærðfræði sem dýpka skilning nemenda á ákveðnum námsþáttum. Nemendum er skipt upp í litla hópa þar sem unnin eru fjölbreytt verkefni við allra hæfi með fjölbreyttum námsgögnum. Námsefni: Sproti 2a og 2b, Viltu reyna, Verkefni fyrir vasareikni 1, tíu-tuttugu og ljósrituð hefti frá kennurum. Námsmat: Almenn könnunarpróf eru reglulega lögð fyrir, yfirlitspróf eru lögð fyrir tvisvar á ári. Könnunum og prófum er safnað saman í möppu. Markmið í lok 2. bekkjar:
Að þekkja oddatölur og sléttar tölur Að þekkja einingu, tug og hundrað Að geta lagt saman Að geta dregið frá Að kunna að telja og skrifa tölur Að þekkja stærra en, minna en og jafnt og Að geta mælt með reglustiku og skráð niðurstöður Að þekkja hugtökin helmingi minni og tvöfalt meira Að þekkja summu talna Að þekkja mismun talna Að geta talið peninga og skráð Að þekkja heilan og hálfan tíma á skífuklukku Að geta reiknað orðadæmi
Þema Samþætting námsgreina s.s. náttúrufræði, samfélagsfræði, kristinfræði, listgreinar, íslenska og stærðfræði. Unnið er með eitt þema í einu í fjórar til fimm vikur. Í upphafi hvers þema eru sett fram skýr markmið svo að nemendur geri sér grein fyrir tilgangi verkefnanna. Í þemavinnu er
leitast við að hafa fjölbreytt verkefni sem ná til allra nemenda. Nemendur gera sjálfsmat í lok hvers þema. Markmiðum, lýsingu, afrakstri þemavinnu og matsblöðum er safnað í verkmöppur, sjá nánar undir liðnum verkmöppur. Eftirtalin þemu er kennd skólaárið 2012 - 2013: Álfar, ég og fjölskyldan, land og þjóð, jólaþema, risaeðlur, vatnið, fuglar og vor. Verkmöppur Verkmöppur eru A3 harðspjalda gormabækur. Í möppurnar eru sett verkefni nemenda, markmið og lýsing hvers verkefnis fyrir sig ásamt eyðublöðum fyrir sjálfsmat, ásamt völdum verkefnum úr íslensku, stærðfræði og útikennslu. Nemendur byrja að vinna möppurnar í 1. bekk og ljúka þeim í 3. bekk og fara þá með þær heim. Markmiðið með þessari vinnu er:
Að nemendur fái yfirsýn yfir vinnu sína Að nemendur sjái framfarir Að nemendur læri að meta sig sjálfir Að nemendur sjái að virðing er borin fyrir vinnu þeirra.