LEIKSKÓLINN VÖLVUBORG
Námskrá
Rekstraraðili: Leikskólar Reykjavikur Útgáfuár: 2004 Ábyrgðarmaður: Regína Viggósdóttir leikskólastjóri
1
Efnisyfirlit Inngangur Leikskólinn Völvuborg Uppeldisstefna leikskólans Markmið leikskólans
bls. bls bls. bls.
3 3 3 4
bls. bls. bls. bls. bls. bls. bls. bls. bls. bls. bls
4 4 5 5 5 5 5 6 6 6 7
Leikurinn Hollow-block kubbar Daglegt líf Hreyfing Menning-samfélag Náttúra og umhverfi Málrækt Tónlist Myndsköpun Samverustundir Umsjónarmaður Hópastarf Val Skólastarf
bls bls bls bls. bls. bls. bls. bls. bls bls. bls. bls. bls. bls.
7 7 8 8 9 9 9 10 11 11 11 11 12 12
Hefðir og hátíðir leikskólans Heiltæk skólastefna Börn af erlendum uppruna Foreldrasamstarf Fréttabréf Starfsmannastefna Leikskóli - grunnskóli Almennar upplýsingar Lokaorð Heimildaskrá
bls. bls. bls. bls. bls. bls. bls. bls bls. bls.
13 14 14 14 15 15 17 17 20 21
Umhverfismennt í Völvuborg • • • • • • • • • • •
Húsið Garðurinn Nánasta umhverfi Nöfn deilda-leynistaðir Blöð-pappír Flokkun Jarðgerðartankur Matjurtagarður Ber og sultugerð Fuglar Önnur dýr
Leiðir • • • • • • • • • • • • • •
2
Inngangur Leikskólar Reykjavíkur starfa samkvæmt lögum um leikskóla frá árinu 1994 og reglugerð við þau lög frá 1995. Lögin kveða á um að leikskólinn sé fyrsta skólastigið í skólakerfinu og í samræmi við það hefur verið gefin út Aðalnámskrá leikskóla (1999) sem er stefnumótandi leiðarvísir um uppeldisstörf í leikskólanum. Það er markmið og leiðarljós leikskóla Reykjavíkur að í leikskólum borgarinnar sé unnið metnaðarfullt fagstarf þar sem hverju barni er mætt á eigin forsendum, byggt upp gott foreldrasamstarf með virkri þátttöku foreldra og í leikskólum starfi menntað og áhugasamt starfsfólk. Leikskólar Reykjavíkur leggja áherslu á sjálfstæði hvers leikskóla til að móta sína uppeldisstefnu í samráði við foreldra og börn. Stefnan skal byggjast á sameiginlegri hugmyndafræði starfsfólks og ytri aðstæðum hvers leikskóla.
Leikskólinn Völvuborg Leikskólinn Völvuborg er í Völvufelli 7 í efra Breiðholti, opnaður 13. nóvember 1974. Húsið er norskt timburhús og var flutt inn á vegum Viðlagasjóðs í tengslum við gosið í Vestmannaeyjum 1973. Völvuborg er þriggja deilda leikskóli fyrir börn á aldrinum eins til sex ára. Í leikskólanum dvelja 53 börn samtímis og eru um það bil 9 stöðugildi á deildum fyrir utan leikskólastjóra, eldhússtarfsmenn, ræstingu og afleysingu. Markmið okkar er að allar stöður verði skipaðar menntuðu og hæfu starfsfólki sem vinnur að metnaðarfullu starfi.
Uppeldisstefna Uppeldisstefna okkar hér í Völvuborg byggir á Aðalnámskrá leikskóla. Aðalnámskrá er leiðarvísir fyrir alla sem vinna að uppeldi og menntun leikskólabarna. Í Völvuborg leggjum við áherslu á umhverfismennt. Við styðjumst að nokkru leyti við uppeldiskenningar John Dewy´s en samkvæmt þeim er aðaláhersla lögð á áhuga, virkni og reynslu barnsins. Fyrst og fremst er það þó hin uppeldislega sýn starfsfólksins og sú uppeldisstefna sem það hefur komið sér saman um, sem mótar stefnu og starf.
3
Markmið leikskólans • Að finna til öryggis og ánægju í leikskólanum svo allir fái notið sín í leik og starfi. • Að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. • Að læra að þekkja og meta umhverfi sitt. • Að kunna að undrast yfir stóru og smáu.
Umhverfismennt í Völvuborg Í Völvuborg er lögð áhersla á umhverfismennt. Mikil umræða er í
þjóðfélaginu um nauðsyn þess að hugsa vel um umhverfið. Það er því gott að börnin taki þátt líka. Húsið sjálft og nánasta umhverfi fannst okkur líka alveg kjörið til vinnu með börnum um umhverfismál. Með þessu stefnum við auðvitað að því að börn og starfsfólk verði svolítið umhverfisvænni ásamt því að læra að meta náttúruna og umhverfið betur.
Húsið Húsið er timburhús, hlýlegt en mjög sérstakt. Stundum er eins og húsið sjálft sé „lifandi“ því það brakar og brestur í því og það dregst sundur og saman. Stundum blæs inn um glufur. Valli húsdraugur er hér með fasta búsetu ef ekki lögheimili. Hann er mjög góður, hræðir engan en er samt hrikalega spennandi.
Garðurinn Garðurinn okkar er stór og nokkuð fjölbreyttur. Við höfum hér gras, mold, möl og steina. Trjágróður er nokkur, mest runnar en einnig tré sem með tímanum gætu orðið að fínasta skógi. Við höfum því góða aðstöðu til að fylgjast með gróðri, t.d. hvernig gróðurinn vex, litum o.fl. Börnin sjá um, ásamt starfsfólki, að halda garðinum hreinum. Einnig aðstoða þau alltaf við að setja niður sumarblómin. Ef arfinn ætlar svo allt að kæfa eru börnin í leikskólanum mjög dugleg að taka til hendinni og gefa unglingavinnuflokkum ekkert eftir.
4
Nánasta umhverfi Stutt er fyrir okkur að fara bæði niður í Elliðaárdal og upp á Rjúpnahæð. Á þessum stöðum er gaman að leika sér. Klöngrast upp hæðir og hóla og hlaupa niður, stikla á steinum eða bara leggjast niður og horfa á skýin. Þarna er líka margt að sjá og skoða. Aðalatriðið er að njóta þess að vera úti í náttúrunni.
Nöfn deilda og leynistaðir Fyrir nokkru var nöfnum deilda í Völvuborg breytt til samræmis við þá ákvörðun að vinna að umhverfismennt. Deildirnar heita nú: Leynimýri, Mjóamýri og Langamýri. Nöfnin eru ekki úr lausu lofti gripin heldur fengin úr örnefnaskrá um nágrenni leikskólans. Þessi nöfn eru/voru því til hér í nágrenninu. Hér var áður mýri og leikskólinn stendur á stað sem kallaður var Hrossamýri. Hver deild á sér leynistað. Leynistaðirnir eru nálægt þeim stöðum sem deildirnar eru nefndar eftir. Það er farið reglulega og litið á leynistaðinn og börn og starfsfólk sjá um að tína þar rusl ef eitthvað er. Upplagt er að fara með nesti þangað á sumrin, leika og skoða.
Mjólkurfernur, blöð, pappír Í Völvuborg eru allar mjólkurfernur skolaðar, þurrkaðar, pressaðar og geymdar. Oft sjá börnin sjálf um þessi verk. Börn og starfsfólk fara svo reglulega með fernurnar í endurvinnslugám. Við hendum ekki afgangs dagblöðum og pappír í ruslið heldur söfnum saman og förum með í endurvinnslu. Stundum búum við líka til okkar eigin endurunna pappír.
Flokkun Nú er það svo að ekki má henda öllu rusli á sama stað. Það þarf að flokka. Haustið 2002 ætlum við að fá okkur kassa til að flokka í ýmis efni sem ekki verður notað, s.s. gler, plast, járn og pappa. Kassarnir verða staðsettir þannig í húsinu að auðvelt verður fyrir börnin að nota þá.
Safnkassi / jarðgerðartankur Þar sem við erum að vinna að umhverfismennt fannst okkur ekki hægt að henda því í ruslið sem hægt er að nýta aftur. Við höfum haft safnkassa undanfarin ár, en erum núna komin með annan sem heitir jarðgerðartankur og er hann lokaður. Þá á lyktin að vera í lágmarki og ferlið að ganga fljótar fyrir sig. Þegar hann er orðinn fullur þá er hann tæmdur í 5
gamla safnkassann. Í jarðgerðartankinn fara allir matarafgangar og einnig lauf, gras og greinar úr garðinum. Með tímanum verður þetta svo að mold. Á hverri deild og í eldhúsinu er poki undir afganga og er hann losaður c.a. einu sinni í viku í tankinn. Pokinn er rifinn í sundur og settur með afgöngunum. Umsjónarmaður dagsins sér um það verkefni.
Matjurtagarður Við erum með matjurtagarð í Völvuborg. Þar setjum við niður kartöflur. Við höfum líka fengið grænmetisplöntur og sett niður og sáð fræjum. Börnin eru alltaf með starfsfólki í garðvinnunni. Þau fylgjast svo með hvernig grænmetið vex og dafnar. Á haustin er svo grænmetið og kartöflurnar tekið upp og haft í matinn. Auðvitað bragðast kartöflur og kál sem við höfum ræktað sjálf mun betur en annað. Það er líka miklu betur borðað. Því er það svo að þó uppskeran sé ekki mjög mikil, endist hún lengi, lengi, jafnvel langt fram á vetur!
Ber og sultugerð Í garðinum okkar í Völvuborg eru rifs- og sólberjarunnar. Berjauppskera hefur verið ágæt. Starfsfólkið þarf þó að vera vel á verði yfir sumarmánuðina því börnunum finnst gaman að tína grænjaxlana og þeir þykja líka mjög gómsætir. Í byrjun september má svo loksins tína berin og þá hjálpast allir að, börn og fullorðnir. Svo er búin til þessi líka fína sulta. Sultugerðin fer fram inni á Löngumýri og þangað koma svo börnin af hinum deildunum í litlum hópum, þau fylgjast með ferlinu, fá að vigta, hella og svo það skemmtilegasta, að hræra.
Fuglar Börnin í Völvuborg gefa fuglunum á veturna. Fuglarnir fá tilbúið fuglafóður en líka afgangs brauð. Börnin sjá um að rífa niður brauðið sem er mikil vinna en gengur vel því margir hjálpast að. Stundum fá fuglarnir kökur og kex alveg eins og við. Fuglarnir mæta vel og reglulega. Aðallega koma hér starrar, þrestir og snjótittlingar. Krummi hefur komið við hjá okkur en þá var líka hjónabandssæla á boðstólum. Einn vetur komu tvær dúfur á hverjum degi á sama tíma eða kl. 14:30. Það er gaman að fylgjast með fuglunum. Koma þeirra vekur upp spurningar hjá börnunum og þau fræðast um margt, s.s. nöfn og tegundir.
6
……og önnur dýr Eitt af markmiðum okkar í Völvuborg er að bera virðingu fyrir okkur sjálfum og öllu öðru lifandi. Við bendum því börnunum á og fylgjumst með ef t.d. einhver dýr heimsækja okkur. Kettir stytta sér reglulega leið yfir garðinn börnunum til ánægju. Það er mjög gaman að fylgjast með þeim út um gluggann. Nokkur sumur var hér starrahreiður undir þakskeggi. Þá var hægt að fylgjast með hreiðurgerð og ungauppeldi. Fannst okkur það hið besta mál enda meginviðfangsefni okkar náttúran í öllu sínu veldi. Það voru ekki allir eins ánægðir með gestina og nú er búið að loka alveg á starrann. Hann syngur þó enn í nágrenninu. Mús hefur sést í matjurtagarðinum okkar. Starfsfólki var brugðið en börnunum fannst gaman. Nú, svo ef starfsfólkið sést hér á óeðlilega hröðum spretti er allavega víst að það er kominn geitungur í heimsókn.
Leiðir Leikurinn „Til eru margar kenningar um leikinn og eru sjónarmiðin mörg. „Sumir“
telja að börn leiki sér til þess að fá útrás fyrir tilfinningar og togstreitu, til að fá óskir sínar uppfylltar, styrkja sjálf sitt eða vinna bug á kvíða. Aðrir telja tilgang leiksins vera að aðlagast samfélaginu og ríkjandi menningu, enn aðrir að tjá viðhorf sitt til lífsins og veruleikans, upplifana sinna og tilfinninga. Loks telja sumir að börn leiki sér einfaldlega til þess að leika sér ánægjunnar vegna.“ Í Völvuborg er lögð áhersla á það að börnin fái góðan tíma í frjálsum leik. Á milli skipulagðra stunda er alltaf tími fyrir frjálsan leik og/eða útiveru og einn dag í viku er ekkert skipulagt starf á deildunum og þá blómstrar frjálsi leikurinn. Í vali er frjáls leikur uppistaðan. Val er á öllum deildum í mismunandi útfærslum, daglega á eldri deildum og vikulega á yngri deild. En þar er auðvitað stór hluti dags notaður í frjálsan leik. Í valinu geta börnin valið sér ýmsar tegundir leikja, eins og skynfæra- og hreyfileiki, sköpunar- og byggingarleiki, þykjustu-, hlutverka- og regluleiki.
Hollow-block kubbar Hollow-block kubbar eru gerðir úr harðviði og eru af mörgum stærðum og gerðum. Gott rými þarf að vera fyrir hendi til að byggja og í Völvuborg höfum við sérstakt kubbaherbergi. 7
Börnin eru fjögur í hóp og fer hver hópur einu sinni í viku í kubbana. Starfsmaður er alltaf með börnunum á kubbasvæðinu. Oft má sjá góð dæmi um bygginga- og hlutverkaleiki hjá börnunum. Eftir hverja stund er kubbunum raðað í hillur eftir stærð og lögun. Í kubbunum læra börnin að skapa frjálst og sjálfstætt eða saman í hóp. Einnig læra þau um stærð, lögun og þyngd kubbanna, jafnvægi og stöðugleika og hvernig allt er háð þyngdaraflinu. Börnin kynnast takmörkum rýmisins þegar þau byggja hátt eða langt og bera saman lengd, hæð og breidd. Með því að fella niður byggingar eða rekast á hvort annað gera börnin sér betur grein fyrir sjálfum sér í rýminu.
Daglegt líf og lífsleikni Daglegt líf í leikskólanum er að stórum hluta í föstum skorðum á hverjum degi. Það eru matartímar, hreinlæti, hvíld og fataklefi. Við matarborðið er gott að spjalla saman í rólegheitum. Lögð er áhersla á góða borðsiði og að þau sem það geta bjargi sér sjálf. Eftir hádegismatinn er hvíld á yngri deild. Börn á eldri deildum eru í rólegri stund og frjálsum leik. Í fataklefanum er einnig upplagt að spjalla saman á meðan við klæðum okkur í og úr útifötum. Þar læra börnin að klæða sig og ganga frá fötunum sínum. Á eldri deildum er mikið lagt upp úr sjálfshjálp. Í leikskólanum reynum við að efla lífsleikni barnanna með því að rækta alla helstu þroskaþættina. Lögð er áhersla á að bera virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu. Að geta tjáð sig og haft samskipti við aðra, að geta unnið saman í hóp og eitt og sér. Börnin læra að taka tillit til annarra og að fara eftir reglum sem þau skilja. Þetta er rauði þráðurinn í gegnum allt leikskólastarfið.
Hreyfing Yfir vetrartímann fá öll börnin í Völvuborg skipulagða hreyfistund einu sinni í viku, oftast í salnum. Nokkrar mismunandi útfærslur eru notaðar til að hafa þær fjölbreytilegar og skemmtilegar. Einnig er farið í skipulagðar hreyfistundir í nágrenni leikskólans. Í þessum stundum eru tveir til þrír starfsmenn með hvern hóp. Í útiverunni hreyfa börnin sig mikið. Frjálsi leikurinn í sal er mjög eftirsóknaverður og oft á tíðum fjörugur. Stundum er líka farið í skipulagða leiki og oft er farið í gönguferðir út fyrir garðinn. Þá er bæði gengið, hlaupið, hoppað og skoppað. Á sumrin eru hjóladagar í Völvuborg c.a. einu sinni í mánuði. Þá mega börnin koma með hjólin sín í leikskólann og hjóla í garðinum.Á sumrin eru líka ýmis tilboð í garðinum t.d. sápukúlur, sippubönd, boltaleikir, krítar og málning.
8
Við höfum haldið íþróttadag í lok sumars. Þá mæta allir í íþróttafötum og góðum skóm. Þann dag er skipulögð hreyfing allan daginn. Öll börnin fá svo verðlaun fyrir að leggja sig fram.
Menning – Samfélag Við förum í gönguferðir, heimsækjum staði í nágrenni okkar svo sem bókasafnið, lögreglustöðina og aðra leikskóla í hverfinu. Einnig er stundum farið með strætó í bæinn, öndunum á tjörninni gefið og Húsdýragarðurinn er heimsóttur nokkuð reglulega. Elstu börnin fara á tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Öll börnin fara á sýningar hjá Brúðubílnum þegar hann er staddur í nágrenninu. Umferðarverkefni eru á hverju hausti og á vorin er umferðarskóli. Í tengslum við áherslur okkar á umhverfismennt er farið með fernur í gáma og endurvinnsla heimsótt. Í útskriftarferð elstu barnanna á vorin eru margir áhugaverðir og merkilegir staðir heimsóttir s.s Árbæjarsafn, Hallgrímskirkja, Slökkvistöðin og Viðey.
Náttúra og umhverfi Við leggjum sérstaka áherslu á náttúruna og umhverfið hér í Völvuborg. Það er því stór þáttur í allri okkar vinnu. (sjá kaflann um umhverfismennt í Völvuborg) Undanfarið höfum við unnið með umhverfistengd þema og skiptum við þeim niður í tímabil yfir veturinn. Á hverju tímabili höfum við eina vinnuviku. Þá sleppum við öðru skipulögðu starfi og erum eingöngu að vinna að þemanu. Til að nálgast viðfangsefnið notum við umræður, skapandi starf, tónlist, sögugerð, gönguferðir, vettvangsferðir, söngva og tilraunir. Við erum að vinna að því sama í öllu húsinu en hver deild útfærir svo á sinn hátt eftir hugmyndum starfsfólks og aldri barnanna.
Málrækt Í daglegu lífi í leikskólanum er lögð mikil áhersla á mál og málrækt. Mál er hægt að örva á marga vegu t.d. með samræðum, í leik, með lestri, söng, spilum, í athöfnum daglegs lífs o.fl. Mikilvægt er að gefa sér góðan tíma bæði til að ræða við börnin og einnig að hlusta á þau. Góðar stundir til samræðna gefast t.d. við matarborðið og einnig þegar börnin eru að vinna við borð. Í samræðum notum við opnar spurningar eins og t.d. hvers vegna, af hverju og hvar, þá svarar barnið frekar með lengri og skilmerkilegri svörum. Spil þar sem börnin þurfa að nota talað mál eru mjög góð til að efla málþroska og eru þau mikið notuð.
9
Farið er í framsögn í samverustundum. Ritmál er notað mikið í leikskólanum. Flest herbergi hússins heita eitthvað ákveðið og eru nöfn þeirra á hurðunum. Börnin læra að þekkja nöfnin sín bæði á valspjöldum sem eru notuð í valinu og einnig eru nöfn barnanna á hólfunum í fataklefa og á umsjónarmannaspjöldunum. Í frjálsa leiknum nota börnin málið mikið. Frjálsi leikurinn er því mjög góður til að örva og efla málþroska barnanna. Börnin tjá sig óhindrað í frjálsa leiknum, þar hafa þau aðallega samskipti sín á milli en ekki við fullorðna. Oft er það þannig að börnin eiga erfiðara með að tjá sig við fullorðna en önnur börn. Frjálsi leikurinn er því góð aðferð til að efla málþroska þeirra.
Tákn með tali Fyrir nokkrum árum var byrjað að nota Tákn með tali hér í Völvuborg. Tákn með tali er aðallega notað með börnum sem eru með málörðugleika en einnig með öðrum börnum. Tákn með tali byggist á táknum sem eru notuð samhliða tali sem stuðningur og aðeins aðalorð hverrar setningar er táknað. Tákn með tali gerir málið sýnilegt og þannig styður það við og eykur málþroska barnanna. Fyrir þau börn sem eiga erfitt með að tjá sig er Tákn með tali mjög góður stuðningur, hjálpar þeim að tjá sig og eykur þannig sjálfsöryggi þeirra. Öll börn á leikskólanum hafa hvert sitt tákn. Táknin eru notuð t.d. í umsjónarmanni, söngstundum og samverustundum.
Tónlist Í Völvuborg er mikið sungið. Á Leynimýri er söngstund á hverjum degi og á eldri deildum er sungið oft í viku. Auk þess eru sameiginlegar söngstundir í salnum tvisvar í viku, fyrir og eftir hádegi. Þá koma saman börn og starfsfólk af öllum deildum, setjast í hring og syngja saman. Þá er líka farið í ýmsa leiki. Stundum eru börnin með skemmtiatriði sem þau eru búin að æfa og einstaka sinnum starfsfólkið líka. Börnin læra einnig vísur og þulur sem þau eru dugleg að fara með. Við eigum hér í leikskólanum nokkuð af hljóðfærum. Þau eru notuð reglulega í samverustundum, starfsfólk er alltaf með börnunum þegar hljóðfærin eru notuð. Börnin fá að skoða, spila á og kanna möguleika hvers hljóðfæris. Farið er í leiki þar sem hljóðfærin eru notuð, svo er einleikur og samleikur á hin ýmsu hljóðfæri. Oft eru stofnaðar hljómsveitir sem spila bæði hátt og snjallt. Þær hljómsveitir eru nú ekki lífseigar og leysast gjarnan upp þegar kemur að matartíma. Börnin búa stundum til sín eigin hljóðfæri og finnst mjög skemmtilegt bæði að búa þau til og að spila á þau, og við hreyfum okkur eftir tónlist. 10
Mörgum sönglögum fylgja hreyfingar og stundum dans. Börnin dansa líka frjálst eftir fjörugri tónlist. Við hlustum á tónlist og reynum að hafa hana sem fjölbreyttasta. Við erum t.d. með klassíska tónlist, afríska tónlist, tónlist frá Suður-Ameríku, popptónlist og auðvitað hina hefðbundnu barnatónlist. Einnig hlustum við á hin mörgu hljóð í náttúrunni og umhverfinu.
Hópastarf Hópastarf er einu sinni í viku og er þá einn hópstjóri með hvern hóp. Í hverjum hóp eru 4-5 börn, fer það eftir aldri barnanna. Hópastarfið er bæði fyrir og eftir hádegi og tveir hópar í einu, sem geta þá unnið saman. Hóparnir vinna 1 til 2 verkefni eins, sem tengjast þá þemanu, annars er misjafnt hvað hver hópur gerir. Í hópastarfi er farið t.d. í gönguferðir, strætóferðir, Húsdýragarðinn, unnið að myndlist og fl.
Myndsköpun Með myndsköpun þjálfast samhæfing augna og handa, fínhreyfingar o.fl. Í myndsköpun fá börnin að mála, teikna, vatnslita, vinna með gifs, steina, frauðplast og margt fleira. Allt verðlaust efni er geymt og nýtt í myndsköpun. Hér á Völvuborg er myndsköpun mikið notuð í þemastarfi, hópastarfi og í vali á eldri deildunum.
Samverustundir Samverustundir eru tvisvar á dag, fyrir hádegismat og fyrir kaffitíma. Í samverustundum er hlustað á ævintýri, lesið, sungið, hljóðfæri skoðuð og prófuð og framsögn. Þá standa börnin upp og segja frá t.d. hvað þau heita, hvað þau eru gömul, hvað mamma og pabbi heita, hvar þau eiga heima og eins syngja þau fyrir okkur hin.
Umsjónarmaður Á hverri deild er umsjónarmaður dag hvern. Það er bæði spennandi og krefjandi starf. Umsjónarmaðurinn setur upp spjald sem segir okkur hvaða dagur er og hvaða mánaðardagur. Þegar hann er búinn að athuga hvernig veður er úti eru þær upplýsingar settar á spjaldið og svo í hvernig fötum við förum út ( fer eftir veðri) Umsjónarmaðurinn þarf að telja börnin á deildinni, fara svo fram í eldhús og segja eldhússtarfsfólki það, svo að það sé örugglega matur fyrir alla. Fyrir hádegismat og kaffitíma leggur umsjónarmaðurinn á borð með hjálp starfsmanns. Eins sér umsjónarmaðurinn um að fara með matarafganga í jarðgerðartankinn.
11
Val Val er á Löngumýri og Mjóumýri á hverjum degi eftir kaffi. Í vali velja börnin sér svæði til að leika sér á í frjálsum leik. Þau setja nafnið sitt á valspjald og geta þar séð hvaða svæði eru í boði og líka hve margir geta valið á sama stað. Þau svæði sem eru á valtöflunni eru: Heimastofa Löngumýrar, Friðarstofa, Krókur, Heimastofa Mjóumýrar, Herbergi, Salur, Listasmiðja, Sull, Kubbar og Útivera. Ekki eru öll svæðin í boði í einu og fer það eftir dögum hvað er í boði. Þó börnin á Mjóumýri og Löngumýri séu með sitt hvort valspjaldið eru þau að velja sömu svæðin þ.e. börn af Mjóumýri geta valið svæði sem eru á Löngumýri og öfugt. Þannig blandast hópurinn og einnig er þetta tilbreyting fyrir börnin. Yfirleitt eru þrír starfsmenn í vali og skipta sér niður á svæðin. Leynimýri ætlar að byrja með val einu sinni í viku haustið 2002. Það mun verða með svipuðu sniði og á eldri deildunum.
Skólastarf Elstu börnin í leikskólanum eru í skólastarfi síðasta veturinn sinn í leikskólanum. Við viljum að skólastarfið sé fjölbreytt og skemmtilegt. Aðaláhersla okkar er á að elstu börnin í leikskólanum fái að njóta sín og fái verkefni við sitt hæfi. Áhersla er einnig lögð á að auðga reynsluheim barnanna og efla hjá þeim einbeitingu. Leiðirnar sem við förum eru umræður, vettvangsferðir, verkefni í möppu, sögugerð og umferðarverkefni. Skólastarf er einu sinni í viku og eru börnin 4 – 6 saman í hóp. Leikskólakennarar sjá um skólastarfið. Formleg slit á skólastarfi eru svo í maí og þá er farið í spennandi útskriftarferð.
Hefðir og hátíðar leikskólans Jól Í desember er lögð áhersla á rólegar stundir og mikinn söng. Jólaundirbúningur í Völvuborg er orðinn mjög hefðbundinn. Börnin búa til jólagjöf fyrir foreldra sína. Efni í föndur liggur inni á deildum og í listasmiðju og fer það eftir vali barnanna hvað þau gera mikið af jólaföndri. Börnin baka piparkökur og farið er í kirkju rétt fyrir jól. Við erum með sérstakan hátíðarmat fyrir börnin og þá borðum við saman hangikjöt. Við erum með dag þar sem foreldrar koma og föndra með börnum sínum. Jólaskemmtun er alltaf í desember. Þá gerum við okkur margt til
12
skemmtunar, dönsum í kringum jólatré og fleira. Á þrettándanum gerum við okkur dagamun og jólalögin eru sungin í síðasta sinn.
Bollu, sprengi- og öskudagur Bolludag höldum við hátíðlegan með því að baka bollur með kaffinu. Á sprengidaginn borðum við saltkjöt og baunir að gömlum íslenskum sið. Öskudagur er mikill hátíðisdagur í leikskólanum. Þá mæta börnin í leikskólann í furðufötum og þau sem vilja eru máluð í framan. Hefð er fyrir því að halda daginn hátíðlegan með leikskólanum Fellaborg. Leikskólarnir hafa heimsótt hvorn annan og börnin sungið saman og dansað. Við sláum köttinn úr tunnunni og höldum ball.
Opið hús Á vorin er opið hús í leikskólanum. Þá setjum við upp sýningu á verkum barnanna frá liðnum vetri. Foreldrum og öðrum ættingjum barnanna er boðið í heimsókn til að kynnast starfi leikskólans og skoða verk þeirra. Opið hús er á laugardegi og oft er opið hús í öllum leikskólum í hverfinu á sama tíma.
Sumarhátíð Árlega halda leikskólar Fellahverfis sameiginlega sumarhátíð, leikskólarnir eru Völvuborg, Fellaborg og Ösp. Hátíðin er haldin í kringum 17. júní. Farið er í sameiginlega skrúðgöngu um hverfið og við skemmtum okkur saman. Síðan fer hver leikskóli í sinn garð þar sem við fáum hressingu.
Heiltæk skólastefna – sérkennsla Markmið leikskólans er að öll börn eigi jafna stöðu til náms og njóti sömu uppeldisskilyrða þrátt fyrir fötlun á einhverju sviði. Einnig er markmið okkar að leikskólinn eigi fast stöðugildi sérkennara sem sér um sérkennslumál innan leikskólans. Til þess að svo geti orðið höfum við kappkostað að það sé starfsmaður með menntun í sérkennslufræðum til að halda utanum þau börn sem þurfa á því að halda innan barnahópsins. Sá starfsmaður sem sér um sérkennslu leikskólans hverju sinni hefur það hlutverk að hafa yfirumsjón með sérkennslu leikskólans, gera einstaklings- og þroskamat, sitja fundi og vera tengiliður milli grunn- og leikskólans þegar börnin flytjast milli skólastiga.
13
Hann er einnig tengiliður leikskólans við RÁS deild (ráðgjafar- og sálfræðideild) sem er leikskólanum til ráðgjafar hjá leikskólum Reykjavíkur.
Börn af erlendum uppruna Leikskólar Reykjavíkur hafa látið þýða og gefið út bæklinga um leikskólann á sex tungumálum. Starfsfólki er boðið uppá námskeið um fjölmenningu og leikskólanum stendur til boða að fá túlkaþjónustu. Það er stefna leikskólans að starfsfólk leggi sig fram í samstarfi og samskiptum við börn af erlendum uppruna og forráðamenn þeirra til að létta þeim komuna í leikskólann. Til að svo geti orðið viljum við stuðla að sem bestu sambandi við forráðamenn barnanna með því m.a. að bjóða upp á túlkaþjónustu. Við höfum á leikskólanum fjölbreytta tónlist og bækur. Stefna okkar er að taka tillit til ólíkra trúarbragða og sýna þeim virðingu.
Foreldrasamstarf Leikskólum ber skylda til samkvæmt lögum um leikskóla og reglugerðir um starfsemi leikskóla að stuðla að samstarfi heimila og skóla. Gott foreldrasamstarf er mjög mikilvægt fyrir farsæla leikskólagöngu barnsins og jákvæða upplifun foreldra. Mikilvægt er að gott, traust og náið samstarf sé á milli leikskóla og foreldra og að leikskólinn veiti foreldrum upplýsingar um þroska barnsins og stöðu þess í leikskólanum. Foreldrar eru meðal annars hvattir til þátttöku í starfinu með foreldraviðtölum sem eru einu sinni til tvisvar á ári, þátttöku í stjórn foreldrafélagsins, með foreldrafundum, opnu húsi á vorin og með daglegum samskiptum. Foreldraviðtöl eru tekin um það bil mánuði eftir að barnið byrjar í leikskólanum og síðan eru „formleg“ viðtöl í febrúar/mars þar sem farið er yfir daglegar venjur, hvernig þroska barnsins er háttað og stöðu þess í leikskólanum. Foreldraviðtölin eru einkaviðtöl foreldra eða forráðamanns barnsins og deildarstjóra / leikskólakennara deildanna. Á haustin er sameiginlegur foreldrafundur þar sem leikskólastjóri kynnir starfið næsta skólaár. Foreldrum barna sem eru að hefja göngu sína í leikskólanum er boðið á kynningarfund í maí ásamt leikskólastjóra og deildarstjórum, til að skoða leikskólann og skrifa undir vistunarsamning.
14
Foreldrum er alltaf velkomið að biðja um viðtal ef þeir vilja og einnig geta þeir alltaf hringt og fengið upplýsingar um barnið. Óformleg foreldrasamvinna fellst m.a. í daglegum samskiptum. Við leggjum mikla áherslu á að foreldrar fái góðar upplýsingar um börnin í leik og starfi og að foreldrar láti vita ef það verða breytingar heima fyrir sem geta haft áhrif á barnið. Foreldrafélag Í Völvuborg er starfrækt foreldrafélag. Í því sitja sex til sjö foreldrar sem skiptast jafnt á milli deilda auk tengiliðar frá leikskólanum. Allir foreldrar barnanna í leikskólanum verða sjálfkrafa félagar í foreldrafélaginu. Hlutverk foreldrafélagsins er einkum að stuðla að fræðslu um uppeldismál og gangast fyrir ýmsum uppákomum í samvinnu við starfsfólk leikskólans. Foreldrafélagið greiðir meðal annars fyrir hinar ýmsu uppákomur svo sem leikrit, ferðir, jólaskemmtanir og margt fleira.
Fréttabréf Fréttabréf okkar heitir Völvufregn og kemur út fjórum sinnum á ári. Þar segjum við frá því sem er efst á baugi í leikskólanum svo sem breytingar á starfsmannahaldi, hvað er að gerast í uppeldisstarfinu þá stundina, upplýsingar og önnur skilaboð sem þurfa að komast til foreldra. Leikskólastjóri heldur utanum útgáfu fréttabréfsins.
Starfsmannastefna leikskólans Starfsmannafundir Starfsmannafundir eru haldnir í hverjum mánuði yfir vetrartímann. Þar eru ýmis málefni leikskólans rædd og ákvarðanir teknar. Við reynum að hafa fundina þannig að allir njóti sín og geti tjáð sig um málefni sem eru á dagskrá. Öðru hvoru höfum við til tilbreytingar haft fundina úti í bæ t.d. á skrifstofu Leikskóla Reykjavíkur eða í heimahúsum.
Deildarfundir Hver deild heldur deildarfund á fjögurra vikna fresti. Á deildarfundum eru ýmis mál deildarinnar rædd, starfið skipulagt og ákvarðanir teknar.
15
Deildarstjórafundir Einu sinni í mánuði eru haldnir fundir þar sem leikskólastjóri og deildarstjórar hittast og ræða saman um málefni leikskólans.
Morgunfundir Á hverjum degi er haldinn morgunfundur með leikskólastjóra, einum starfsmanni frá hverri deild og starfsmanni úr eldhúsi. Farið er yfir stöðuna í húsinu, hvort einhverjir séu í fríi eða veikir. Sagt frá ef eitthvað sérstakt er í gangi og skilaboðum komið á framfæri. Á morgunfundum ákveðum við líka í hvaða útiföt er farið í dag, þetta er gert til að samræma klæðnað milli deilda í útiveru. Þessir fundir hafa reynst mjög vel fyrir alla starfsmennina í húsinu.
Starfsviðtöl Einu sinni á ári tekur leikskólastjóri alla starfsmenn leikskólans í starfsviðtal. Þetta eru trúnaðarviðtöl þar sem starfsmaður og leikskólastjóri fara saman í gegnum starfið í leikskólanum frá ýmsum hliðum. Í þessum viðtölum fá starfsmenn tækifæri til að tjá sig um líðan sína og samskipti við aðra starfsmenn og koma á framfæri óskum sínum.
Skipulagsdagur Tvisvar á ári eru haldnir skipulagsdagar sem eru notaðir af starfsfólki til að skipuleggja starfið í leikskólanum.
Nýir starfsmenn Þegar nýr starfsmaður hefur störf í Völvuborg notum við sérstakt móttökuferli frá leikskólum Reykjavíkur. Ákveðinn starfsmaður af viðkomandi deild tekur nýja starfsmanninn að sér og sýnir honum leikskólann, fræðir hann um starfsemi hans og kemur honum inn í starfið.
Að gera eitthvað saman Starfsmenn leikskólans hafa gert ýmislegt saman utan vinnutíma í gegnum tíðina t.d. farið í gönguferðir, óvissuferðir og í sumarbústað. Haldin hafa verið föndurkvöld, spilakvöld og partý. Starfsmenn hafa borðað saman fyrir jólin annaðhvort í leikskólanum eða á veitingastað.
Menntun og fræðsla Á vegum Leikskóla Reykjavíkur er rekin öflug starfsþróunarstefna og boðið upp á fjölbreytt endurmenntunartilboð fyrir starfsfólk stofnunarinnar.
16
Á leikskólanum hafa starfsmenn verið mjög áhugasamir að sækja þau námskeið sem eru í boði og stundum hefur þurft að takmarka aðsóknina, vegna starfsins í leikskólanum og til þess að allir komist á einhver námskeið. Auk þess að sækja námskeið er einn námskeiðsdagur á ári þar sem starfsmenn koma sér saman um viðfangsefni sem tengjast því sem er verið að vinna að í leikskólanum. Stundum er líka sameiginlegur námskeiðsdagur í fleiri en einum leikskóla og þá er hægt að velja um fleiri námskeiðstilboð. Á námskeiðsdegi eru starfsfólk á námskeiði og þar af leiðandi eru börnin ekki í leikskólanum.
Samstarf leikskóla og grunnskóla Hverfaskólinn okkar er Fellaskóli. Þangað fara flest börn úr Völvuborg. Elstu börnin á leikskólanum fara í heimsókn í Fellaskóla einn dag á vori með starfsfólki leikskólans. Þar er tekið vel á móti þeim og þau fá að skoða skólann hátt og lágt. Einnig sitja þau kennslustund með börnunum í fyrsta bekk, fá verkefni og borða nesti. Skilafundur er alltaf á vorin. Á þeim fundi eru þau börn sem hafa notið sérkennslu í leikskólanum rædd, það er hvaða kennslu þau hafa notið og hvernig hefur gengið. Þennan fund sitja leikskólastjóri og starfsmaður sem hefur kennt barninu ásamt fulltrúum grunnskólans. Engar upplýsingar fara á milli skólastiga nema með leyfi foreldra. Við á leikskólanum vonumst eftir meira samstarfi við grunnskólann í framtíðinni t.d. í formi fleiri heimsókna.
Almennar upplýsingar Að byrja í leikskóla Börn eru viðkvæm fyrir breytingum, að byrja í leikskóla er mikil breyting og getur því skapast togstreita hjá barninu. Til að hjálpa því að átta sig á breyttum aðstæðum gerum við ráð fyrir 5 til 10 daga aðlögun, þar sem foreldri fer í gegnum starfið með barninu í upphafi vistar. Á þessum tíma er lagður hornsteinninn að öryggi barnsins í leikskólanum. Lengd aðlögunar er háð hverju barni, þ.e. hversu öruggt það er í nýju umhverfi, sem og hvernig það skilur breyttar reglur.Það er mjög mikilvægt að foreldrar gefi sér góðan tíma í aðlögun barnsins, ræði við starfsfólk leikskólans og kynnist því.
17
Leikföng Í Völvuborg eru ekki dótadagar. Ekki er æskilegt að börnin komi með leikföng að heiman, en þó þarf í sumum tilfellum að gera undantekningar á því, svo sem eftir langvarandi veikindi og í aðlögun.
Klæðnaður Klæðið barnið eftir veðri. Mikilvægt er að fatnaður sé víður og þægilegur og hindri ekki hreyfingar. Við förum út flesta daga, munið því að hafa með hlý föt og til skiptanna.
Barn kemur og er sótt Nauðsynlegt er að láta starfsmenn vita þegar barnið kemur og það er sótt. Ef barnið á að vera inni þá vinsamlega hjálpið því úr fötunum og fylgið því inn.
Ferðir/uppákomur Allar uppákomur eru auglýstar sérstaklega, þá er átt við m.a. öskudagsgleði, sveitaferð, jólaundirbúning og kirkjuferðir. Vinsamlega fylgist með í fréttabréfi og skilaboðum á töflum sem eru á hverri deild.
Skipulags- og námskeiðsdagar Skipulagsdagar eru til að skipuleggja uppeldisstarfið í leikskólanum. Allt starfsfólk vinnur saman að nauðsynlegum undirbúningi og gerð áætlana fyrir starfið. Skipulagsdagar eru tvisvar á ári. Námskeiðsdagur er haldinn einu sinni á ári. Hann er ætlaður til námskeiða fyrir allt starfsfólk leikskólans. Á þessum dögum er lokað á leikskólanum og er sú lokun auglýst með minnst þriggja vikna fyrirvara.
Veikindi Við höfum ekki aðstöðu til að sinna veikum börnum hér í leikskólanum. Veikist barnið með hita þarf það að dvelja einn til tvo daga heima hitalaust. Sumir foreldrar hafa tilhneigingu til að óska eftir inniveru fyrir börn sín í því skyni að verja þau fyrir sýkingu, það er ekkert sem bendir til að barn sýkist frekar í útilofti en innandyra. Undantekningar eru gerðar hjá börnum með asma og þráláta sjúkdóma.
Lyfjagjafir Við viljum biðja foreldra að sjá alfarið um lyfjagjafir barna sinna. Þetta er gert til að minnka slysahættu vegna lyfja. Ef ekki verður hjá því komist 18
að lyf séu gefin í leikskólanum biðjum við foreldra að koma með skrifleg gögn frá lækni þar að lútandi. Ef um sérstakt fæði eða meðhöndlun sjúkdóms er að ræða þurfa foreldrar og starfsmenn að ræða það sérstaklega svo komast megi hjá misskilningi og minnka hættu á mistökum. Undantekningar eru gefnar frá þessum reglum ef um er að ræða langveik börn og börn með asma.
Sumarfrí Öll börn í leikskólanum þurfa að taka fjögurra vikna samfellt sumarfrí og gjaldið fellur niður í júlí mánuði.
19
Lokaorð Í þessari námskrá höfum við skráð stefnu leikskólans okkar eins og við erum að vinna og viljum hafa næstu árin. Leikskólinn vinnur eftir Aðalnámskrá leikskóla sem kom út 1999, ásamt því að leggja áherslu á umhverfismennt. Í upphafi komu allir starfsmenn leikskólans að þessari vinnu og fórum við í gegnum allt starfið og spurðum okkur spurninga eins og hvað erum við að gera - hvað er gott og hverju viljum við breyta. Það var mjög gott fyrir okkur sem vinnum á leikskólanum að fara í þessa vinnu og spyrja gagnrýnna spurninga. Á seinni stigum vinnunnar við gerð þessarar námskrár hafa það aðallega verið fjórir leikskólakennarar, Edith Þórðardóttir, María Hlín Birgisdóttir, Halldóra B. Gunnl. Martin og Ásgerður Alda Friðbjarnardóttir ásamt leikskólastjóra sem unnu að því að semja textana og koma henni saman. Ætlunin er að endurskoða námskrána á c.a. þriggja til fimm ára fresti eða þegar þörf er á. Von okkar er að með útgáfu námskrár fyrir leikskólann Völvuborg verði starf okkar sýnilegra bæði fyrir foreldra, starfsfólk og þá sem eru að velja sér leikskóla fyrir börn sín.
Leikskólastjóri Regína Viggósdóttir
20
Heimildarskrรก Valborg Sigurรฐardรณttir. (1991) Leikur og leikuppeldi, bls 107.
21
Námskrá 5 ára barna.
Inngangur > Allt okkar starf hér í leikskólanum Völvuborg er unnið samkvæmt aðalnámskrá leikskólanna. Og er þessi 5 ára námskrá viðbót við það sem er boðið upp á í námskrá leikskólans. Tilurð námskrá 5 ára barna var að undirstrika sérstöðu þeirra í leikskólanum og mikilvægi síðasta ársins í leikskólanum.
Hreyfing > Með hreyfingu efla börnin líkamlega færni sína og öðlast styrk, liðleika, jafnvægi, samhæfingu, þol og færni. Börnin læra einnig að fara eftir fyrirmælum, vinna saman í hóp og þor til að öðlast kjark. Farið er í hreyfistundir einu sinni í viku í íþróttahúsinu í Fellaskóla, ásamt fleiri leikskólum úr hverfinu. Þar er boðið uppá margs konar hreyfingu, leiki, þrautabrautir og ýmis tæki. Börnin fara út einu sinni til tvisvar á dag. Í útiverunni fá börnin útrás fyrir ærsl og leiki og geta hreyft sig óhindrað. Gönguferðir eru einnig mjög vinsælar, og er þá farið um næsta nágrenni leikskólans.
Málrækt > Málþroskinn er mjög mikilvægur hjá börnum á leikskólaaldri. Í gegnum samtöl og frásagnir eflist málþroski barnanna, þau læra að hlusta, taka eftir, einbeita sér og tjá sig. 22
Samverustundir eru tvisvar á dag. Þar er t.d. farið í framsögn, en þar þjálfast börnin í að koma fram fyrir aðra, segja frá og svara spurningum. Einnig eru lesnar bækur, búnar til sögur og hlustað á sögur og ævintýri. Umsjónarmaður er valinn daglega. Þar er notast við spjöld með orðum og myndum, farið er yfir hvaða dagur er, mánuður, veðurfar, klæðnaður og hversu mörg börn verða í mat. Í þessum stundum er stuðst við tákn með tali.
Myndsköpun > Í myndsköpun fær sköpunargleðin að njóta sín og börnin efla fínhreyfingar og samhæfingu augna og handa. Fjölbreyttur efniviður er í boði og fá börnin að nýta hann frjálst eða í fyrirfram ákveðin verkefni. Myndsköpun er mikið notuð í hópavinnu, vali og í umhverfismennt, en í tengslum við hana búum við til okkar eigin pappír.
Tónlist > Öll börn eiga að fá tækifæri til að njóta fjölbreyttrar tónlistar og iðka hana. Í samverustundum eru lög sungin, þulur og vísur lesnar og kveðnar, og ýmis konar hljóðfæri skoðuð og prófuð. Sameiginleg vinastund er einu sinni í viku í salnum, þar sem öll börnin á leikskólanum hittast. Þar er sungið við gítarleik og farið í fjölbreytta hóp- og hreyfileiki.
Náttúra og umhverfi > Börn þurfa að kynnast náttúrunni, njóta hennar og bera virðingu fyrir henni.
23
Í Völvuborg leggjum við áherslu á umhverfismennt í starfi okkar með börnunum. Við förum í gönguferðir og söfnum allskonar efniviði, sem við notum svo t.d. í þematengda vinnu. Við eigum leynistaði í nágrenninu sem við heimsækjum. Við búum til endurunninn pappír og förum með fernur í endurvinnslu. Við erum með safnkassa í garðinum okkar, þar sem við setjum alla matarafganga og garðúrgang. Einnig erum við með í garðinum matjurtargarð þar sem við setjum niður kartöflur. Svo eru líka rifsberjarunnar í garðinum sem við tínum af og búum til sultu.
Menning og samfélag > Mikilvægt er að börnin kynnist því samfélagi sem við lifum í, þeirri menningu sem við höfum skapað og þeim hátíðum og hefðum sem því fylgir. Einnig er mikilvægt að börnin kynnist annarri menningu og mismunandi hefðum og hátíðum.En barnahópurinn er alltaf að breytast og verða fjölmenningarlegri. Bókasafnið í Gerðubergi er alltaf vinsælt og þangað förum við í heimsókn nokkrum sinnum yfir veturinn, skoðum bækur og fáum lánaðar. Á hverju ári er svo 5 ára börnum boðið að koma á tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það er ómissandi ferð fyrir börnin að fá að upplifa það. Tölvur eru í boði í vali og í frjálsum leik og þar er boðið upp á fræðandi tölvuleiki fyrir börnin.
Útskrift og útskriftarferð > Farið er í útskriftarferð í maí. Þetta er dagsferð þar sem ýmsir staðir á höfuðborgarsvæðinu eru skoðaðir. Formleg útskrift er svo haldin í sal leikskólans, þá er foreldrum barnanna boðið og börnunum afhent viðurkenning og blóm frá leikskólanum. 24
Sumarstarf > Tvisvar í viku er farið með elstu börnin út úr garðinum. Einn daginn er farið með stelpurnar og annan daginn er farið með strákana. Þá er t.d farið í Húsdýragarðinn, niður á Tjörn, á leynistaðina okkar og í ferðir um nágrenni leiksólans. Einnig eru þeim oft falin sérstök, krefjandi og spennandi verkefni í garðinum.
Samstarf við grunnskóla > Börnin fara í heimsókn á Fellaskóla á vorin með nesti og fá að vera með í einni kennslustund. Svo tökum við þátt í fjölbreyttum uppákomum og verkefnum í samstarfi við aðra leikskóla í hverfinu og Fellaskóla. Til að mynda koma elstu börnin í Fellaskóla til okkar og lesa sögur fyrir börnin og á Degi íslenskrar tungu förum við og syngjum fyrir börnin í Fellaskóla. Einnig förum við, og aðrir leikskólar í hverfinu, í hreyfistundir í íþróttahúsi Fellaskóla einu sinni í viku.
25