Skref skólans frá upphafi verkefnisins Skólaárið 2002- 2003 var stofnuð umhverfisnefnd við skólann sem í sátu 5 starfsmenn skólans. Nefndin hittist af og til sótti m.a. námstefnur sem haldnar voru á vegum Landverndar. Þemadagar á haustönn voru tileinkaðir umhverfismálum og var lögð áhersla á vatn og endurvinnslu. Staða umhverfismála í skólanum var metin og þá kom í ljós að ýmislegt þurfti að bæta og af mörgu var að taka. Ákveðið var að leggja áherslu á pappírsflokkun, endurvinnslu, orkuspörun og innkaup. . Tekin var ákvörðun að draga úr notkun einnota umbúða og hætt var að selja drykki í fernum. Fernur sem nemendur komu með að heiman fóru annað hvort heim aftur eða var safnað saman og farið með þær í endurvinnslu. 2003-2004 var unnið að því að vekja með nemendum áhuga og umhyggju fyrir umhverfi sínu. Skipulagt var sérstakt hreinsunarátak á skólalóðinni með þátttöku allra nemenda . Síðan hefur þetta verið árlegt verkefni allra nemenda bæði á haust- og vorönn. Byrjað var að kenna umhverfisfræði í smiðju hjá nemendum í 5.-7. bekk og markvisst unnið að auka þekkingu nemenda á umhverfismálum og endurvinnslu. Þá hófst einnig markviss útikennsla hjá 1. bekk sem síðar færðist yfir á alla árganga á yngsta stigi. 2004-2005 Umsjónarmaður hóf að safna saman öllum rafhlöðum og koma á endurvinnslustöð. Að öðru leyti voru fá skref tekin sökum langvarandi verkfalls kennara sem olli mikilli röskun á skólastarfi og víðtæk áhrif allt skólaárið. 2005- 2006 Það skólaár fjölgaði í umhverfisnefndinni þegar fulltrúi foreldra og 4 fulltrúar nemenda bættust við auk matráðs skólans. Við fengum endurvinnslutunnur frá Gámaþjónustunni. Í þær höfum við flokkað gæðapappír og blandaðan pappír.Settir voru sérstakir flokkunarkassar í öll kennslurými og vinnurými starfsmanna og pappír flokkaður í þrjá kassa, gæðapappír og blandaðan pappír sem fór í endurvinnslu og síðan pappír sem nota má aftur. Pappír var markvisst sparaður og tilkynningar til foreldra sendar í tölvupósti og jafnframt settar á heimasíðu skólans. Þá var öllum tauþurrkum á salernum skipt út fyrir bréfþurrkur sem var síðan sent í endurvinnslu. Umhverfisnefndin setti fram umhverfissáttmála fyrir skólann. 2007-2008 var enn fjölgað í nefndinni þegar valdir voru tveir fulltrúar í hverjum árgangi í 5-10. bekk. Nefndin breytti þá um nafn að tillögu nemenda í umhverfisráð. Haldnir voru reglulegir fundir þar sem staða umhverfismála var rædd. Áhersla var lögð á að spara rafmagn. Slökkt á ljósum í rýmum sem ekki voru í notkun. Ljósastýringu var breytt og hægt var að hafa kveikt á öðru hverju ljósi, gardínur dregnar frá á daginn og dagsbirtan notuð, þær síðan dregnar fyrir á kvöldin til að koma í veg fyrir hitatap. Gert var átak á meðal starfsmanna og þeir beðnir að nota einn sérmerktan bolla í stað þess að nota nýjan bolla í hvert sinn. Einnig voru starfsmenn hvattir til að nota sem mest fjölnota borðbúnað á skemmtunum á vegum skólans. Umsjónarmaður hefur haft umsjón með því að fjölga markvisst umhverfisvænum ræstivörum og lokið við að skipta út öllum ræstivörum fyrir vistvænar. Vorið 2008 fékk Seljaskóli Grænfánann í fyrsta sinn. 2008-2009 Megináhersla var lögð á að fylgja eftir þeim markmiðum sem náðst höfðu árið áður. Nemendur í umhverfisráði fengu í hendur gátlista og fóru þeir um skólann og könnuðu stöðu flokkunar og gengu í bekki og minntu á umhverfisstefnuna.
2009-2010 Umhverfisráðið starfaði ekki þetta skólaár og engin ný markmið voru lögð til grundvallar nýrri umsókn. Grænfáninn var því dreginn niður vorið 2010. 2010-2011 Haustið 2010 var umhverfisráðið endurvakið og strax var tekið til handa við að fara yfir þau markmið sem lögð voru til grundvallar fyrri umsókn, setja fram ný markmið og sækja um Grænfánann að nýju. Ný markmið lögð fram til grunvallar nýrri umsókn: Að halda áfram vinnu með fyrri markmið, koma öllum lífrænum úrgangi á endurvinnslustöð, koma á fót jarðgerð innan skólans, auka grænmetis- og ávaxtaneyslu nemenda og efla umhverfisvitund nemenda með skipulögðum hætti. Umhverfissáttmálinn frá 2006 var yfirfarinn og gerðar nokkrar orðalagsbreytingar. Einnig var einni reglu bætt við. Miðar til þess að minna á ljósanotkun voru endurnýjaðir og hverjum bekk falið að hanna sína eigin miða. 2011-2012 Vorið 2011 var umsókn um Grænfánann send til Landverndar. Úttekt á verkefninu var síðan gerð í september 2011. Allan veturinn var beðið svars við úttektinni en af einhverjum orsökum barst það ekki fyrr en í skólalok. Þá var orðið nokkuð seint að skipuleggja dagskrá fyrir afhendingu fánans og ákveðið að bíða með það til haustsins. Fánann fengum við síðan í annað sinn 13. september 2012 á umhverfisdegi skólans. Gerð var áætlun um markvissa umhverfisfræðslu og sérhver umsjónarkennari skipulagði a.m.k. 5 kennslustundir sem fjölluðu um umhverfismál. Gerð var áætlun að koma lífrænum úrgangi úr mötuneyti og skólastofum á endurvinnslustöð og sett var fram stefna um morgunnesti þar sem áhersla var lögð á neyslu grænmetis og ávaxta. Dallar undir lífrænan úrgang eru sýnilegir í öllum húsum og eru losaðir reglulega í moltutunnu Nemendur í umhverfisráði höfðu það hlutverk að halda uppi eftirliti og þeir kynntu verkefnið fyrir öllu starfsfólki á starfsmannafundi. Sérhver starfsmaður á sinn eigin bolla sem er þveginn í lok vinnudags og við notum fjölnota borðbúnað eingöngu .