uss_lokaskyrsla_bakki

Page 1

Ingibjörg E. Jónsdóttir

,,Uss, ekki trufla mig!“ Rannsóknarvinna ungra barna

Skýrsla um þróunarverkefni í leikskólanum Bakka árið 2009 – 2010


Leikskólinn Bakki

Efnisyfirlit

Inngangur og kynning.................................................................................................................................... 3 Vangaveltur áður en lagt er af stað .............................................................................................................. 4 Yngstu börn leikskólans ............................................................................................................................ 4 Könnunarleikur með hluti ............................................................................................................................. 6 ,,Uss, ekki trufla mig!“ ................................................................................................................................... 7 Aðdragandi verkefnisins............................................................................................................................ 7 Markmið .................................................................................................................................................... 7 Lýsing á verkefninu ................................................................................................................................... 7 Niðurstöður verkefnisins........................................................................................................................... 8 Mat á verkefninu ....................................................................................................................................... 9 Hugmyndabanki og raddir barnanna .......................................................................................................... 11 Lokaorð ....................................................................................................................................................... 23 Heimildaskrá ............................................................................................................................................... 24 Fylgiskjöl ...................................................................................................................................................... 25 Fylgiskjal 1 – bréf til foreldra................................................................................................................... 25 Fylgiskjal 2 - Rýnt í verkið ........................................................................................................................ 25

2


Leikskólinn Bakki

Inngangur og kynning Í skýrslu þessari verður gerð grein fyrir þróunarverkefninu ,,Uss, ekki trufla mig!“ Verkefnið var unnið í leikskólanum Bakka sem er að Bakkastöðum 77 í Reykjavík. Leikskólinn Bakki var formlega opnaður 2. desember 2003 en yngsta deildin tók þó ekki til starfa fyrr en í febrúar 2004. Haustið eftir var tekin sú ákvörðun að innleiða könnunarleikinn á yngstu deildina og kom Sigrún Einarsdóttir leikskólaráðgjafi Leikskóla Reykjavíkur (í dag Leikskólasvið Reykjavíkur) með kynningu til okkar. Eftir kynninguna var efnivið safnað með dyggri aðstoð foreldra og síðan hafist handa. Þetta gekk eins og í sögu og vorum við mjög hrifnar af því hve börnin voru áhugasöm um þennan leik. Í skólanámskrá Bakka er fjallað um könnunarleikinn og segir þar meðal annars: Í könnunarleiknum er verið að beina athyglinni að mikilvægi hinnar sjálfsprottnu athafnasemi barna í að kanna og rannsaka. Þessi leikur er út frá forsendum barnanna, í skipulögðu umhverfi, í ákveðinn tíma og undir eftirliti fullorðins. Í könnunarleiknum hefur hvert barn sitt svæði þar sem því er boðið upp á mismunandi verðlausan efnivið (2007). Markmiðið með þessu þróunarverkefni var að þróa könnunarleik yngstu barnanna og vekja athygli á að það er hægt að nota margt óhefðbundið í þeim leik. Annað markmið var að fá foreldrana með í samstarf með því að þeir myndu skoða leik barnsins heima. Hugmyndin var síðan að setja saman hugmyndabanka um tillögur að efnivið í könnunarleik. Yngstu árgangarnir á Bakka unnu verkið ásamt hópstjórum sínum, nánar tiltekið 1 – 3 ára börnin. Verkefnastjórn var í höndum þeirra, en Ingibjörg sá um að vera ábyrgðarmaður, ritari og bókari. Skýrslunni er skipt upp í þrjá hluta. Í fyrsta hlutanum er lítillega fjallað um yngstu börn leikskólans og sjálfan könnunarleikinn. Í öðrum hluta er fjallað um sjálfa þróunarvinnuna. Síðasti hlutinn eru ljósmyndir af leik barnanna með leikefninu sem við vorum að prófa.

3


Leikskólinn Bakki

Vangaveltur áður en lagt er af stað Þegar yngstu börnin í leikskólanum eru skoðuð (það er þau sem eru yngri en 3 ára) þá kemur í ljós að í gegnum tíðina hefur ekki mikið verið fjallað um þau hér á landi. Skýrsluhöfundur var að vinna á vöggustofu fyrir tæpum 30 árum og voru á stofunni börn frá 3 mánaða til 2 ára. Vinnan var fólgin í því að hugga, klappa og knúsa, gefa að borða, skipta á og svæfa, spjalla, brosa og leika. Er þetta eitthvað til að rannsaka og skrifa um? Tímarnir eru að breytast og farið er að tala um að hlusta á raddir barna og þá einnig yngstu meðlimanna. Með auknum rannsóknum kemur í ljós (það sem við vissum jafnvel) að litlu krílin okkar hafa mikið til málanna að leggja og sterkar skoðanir á ýmsum málum er tengjast þeim, við hin fullorðnu þurfum hins vegar að læra að hlusta á þau. Undanfarin 10 ár hefur umfjöllun um yngstu börnin aukist og er það spurning hvort það megi ekki meðal annars þakka Hildi Skarphéðinsdóttur skrifstofustjóra Leikskólaskrifstofu fyrir, þar sem hún kynnti fyrir landanum leikjastundir fyrir yngstu börnin sem hún kallaði Könnunarleikur með hluti. Hún hélt mörg námskeið hjá Leikskólum Reykjavíkur og fór einnig af stað með þróunarverkefnið Litlir vísindamenn í könnunarleik þar sem hún, ásamt Sigrúnu Einarsdóttur leikskólaráðgjafa, innleiddu könnunarleikinn í sjö leikskóla. Upp frá þessu hefur könnunarleikurinn farið um eins og eldur í sinu á milli leikskólanna og heyrir maður varla annað en að þessi leikjastund sé í hávegum höfð á yngstu deildum leikskólanna. Nokkrum árum seinna, nánar tiltekið þann 31. október 2008 stóð Leikskólasvið fyrir málþinginu Ég get, vil og kann og var þar verið að fjalla um börn yngri en 3 ára. Aðalfyrirlesarar þar voru Eva Johansson prófessor við háskólann í Stavangri í Noregi og Sigríður Síta Pétursdóttir leikskólaráðgjafi í Kópavogi. Á málþinginu voru einnig níu málstofur sem fjölluðu hver um sig um margt áhugavert í leikskólalífi ungra barna. Fyrirlestur Evu Johansson hét Moral Discoveries and Learning in Preschool og fjallaði hann um það hve leikskólaumhverfið gegndi mikilvægu hlutverki í mótun siðferðisvitundar ungra barna. Fyrirlestur Sigríðar Sítu bar nafnið Blítt bros og hlýtt faðmlag er mikilvægur hluti af umhyggju og fjallaði hann um niðurstöður rannsóknar sem hún hafði gert þar sem hún var að skoða viðhorf og skilning leikskólakennara til umhyggju og hvernig hún birtist í starfinu. Þannig er umfjöllun um yngstu börnin alltaf að aukast og er nú í dag í gangi áhugaverð rannsókn hjá RannUng, þar sem verið er að skoða þátttöku yngstu barnanna, tjáningu þeirra og hvernig þau eru studd til þátttöku í leikskólastarfinu. Það verður spennandi að fylgjast með útkomunni og sjá hvert hún leiðir okkur í skólaþróuninni.

Yngstu börn leikskólans Þegar komið er inn á yngstu deild leikskólans, má sjá hóp forvitinna barna sem öll eru að bardúsa eitthvað og má segja að einkunnarorð málþingsins ,,Ég get, vil og kann“ einkenni hópinn. Þau leita í nálægð við hvort annað og finnst gott að geta skriðið upp í fang fullorðins, aðeins kúrt og síðan er aftur farið að kanna heiminn. Heimurinn er kannaður með því að snerta, horfa á, þefa, bragða, láta detta, gefa

4


Leikskólinn Bakki og taka af, eða réttara sagt með öllum skilningarvitunum og margskonar tilraunum. Oft er það sem vekur mestan áhuga eitthvað sem annað barn er með og er þá reynt að ná í það með misjöfnum árangri. Grátur og hlátur eru sterkar boðleiðir barnanna. Sigríður Síta Pétursdóttir gerði rannsókn þar sem hún var að skoða umhyggju í leikskólum og fór rannsóknin fram á yngstu deildum tveggja leikskóla. Rannsóknaspurningarnar voru tvær: Í hverju felst umhyggja í starfi með börnum að mati leikskólakennara? Hvernig birtist umhyggja í starfi leikskólakennara? Í rannsókninni kemur fram að þegar verið er að fjalla um leikskólabörn í námskrám og öðrum leiðarvísum er alltaf rætt um umönnun og því var velt upp hvort umönnun og umhyggja væri það sama. Leikskólakennararnir í rannsókninni sögðu að umönnun fælist í líkamlegri umhirðu barnanna, en umhyggjan fælist í viðhorfi og afstöðu til barna og væri bæði líkamleg og andleg. Í raun væri umhyggja blítt bros, hlýtt faðmlag og það að mæta barninu af hlýju og virðingu. Umönnun væri hægt að veita án umhyggju og þá væri það eins og til dæmis þegar unnið er eins og um færibandavinnu sé að ræða þegar verið er að skipta á börnunum, í staðin fyrir að nýta þetta sem gæðastund með barninu. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að umhyggja sé í raun innbyggð í öllu starfi leikskólans að mati leikskólakennaranna. Þetta felst meðal annars í því að mæta hverju barni þar sem það er statt, bæði andlega og líkamlega. Hlusta eftir þörfum þess og væntingum og vera meðvitaður um að öll börn þurfa ekki það sama. Umhyggja felst einnig í því að skapa traust og öryggi. Einnig töldu kennararnir að skipulag umhverfisins og val á efnivið þar sem börnin væru hvött til sjálfstæðis væri hluti af umhyggju. Hvernig umhyggjan birtist svo í starfi leikskólakennaranna var í viðhorfi þeirra og framkomu gagnvart einstaka barni og hópnum í heild. Flestir kennararnir töldu hrós og hvatningu vera árangursríka leið í umhyggju. Í vettvangsrannsókn rannsakanda kemur fram að línan á milli umhyggju og ofverndunar sé stundum mjög þunn. Kom meðal annars í ljós að leikskólakennararnir gripu oft of fljótt inn í hjá börnunum í staðinn fyrir að leyfa þeim að leysa málið sjálf. Einnig kom fram að það var ekki alltaf hlustað á lausnir barnanna og vangaveltur þeirra, þar sem kennarinn taldi sig vita betur. Mikilvægt er því fyrir kennarana að ígrunda starf sitt í þeim tilgangi að geta verið færari í að mæta hverju barni þar sem það er statt. Leikskólakennarinn sýnir umhyggju með því að sjá og heyra hvert einasta barn og til þess á hann að nota hjartað, hugann og tilfinningarnar (Sigríður Síta Pétursdóttir, 2008). Á málþinginu Ég get, vil og kann voru nokkrar málstofur og í umfjölluninni þar komu fram svipaðar áherslur og voru í rannsókn Sigríðar Sítu. Var þar meðal annars fjallað um mikilvægi þess að leikskólakennarar ígrundi starf sitt, þar sem viðhorf þeirra geti hindrað nám barnanna. Væntingar kennaranna hafa mikil áhrif; er verið að rannsaka það sem börn geta eða það sem þau geta ekki? Það hefur mikil áhrif. Oft er talað um að börn séu sjálflæg, en spurningin er: Erum við hin fullorðnu ekki mun sjálflægari? Hvernig skipuleggjum við umhverfi barnanna? Er það út frá okkur eða börnunum? Hvar eru myndirnar á

5


Leikskólinn Bakki veggnum? Af hverju er klukkan efst? Hlutverk kennarans er að vekja upp einlægan áhuga barnanna, því áhuginn er drifkraftur náms. Þetta verður alltaf að hafa í huga.

Könnunarleikur með hluti Allir sem eignast hafa barn kannast við að þegar barnið fer að kanna og rannsaka umhverfi sitt, hvað pottaskápurinn heillar og sleifar, ausur og pískarar eru spennandi. Oft virðist barnið hafa mun meira gaman af því að leika sér með eldhúsdótið heldur en hefðbundin leikföng. Drifkraftur barnsins, það er hin eðlislæga forvitni, er hér á ferð og hin mikla þörf þess að rannsaka og uppgötva á eigin forsendum. Könnunarleikur með hluti er hugmyndafræði sem byggir á því að virkja þennan drifkraft með því að bjóða börnunum upp á leikjastund þar sem þau fá mismunandi efnivið til að geta stundað rannsóknir sínar. Þessi leikjastund hefur ákveðið skipulag sem fer fram á afmörkuðu svæði þar sem engin truflun er. Áður en börnin koma á svæðið er búið að setja saman þó nokkuð magn af verðlausu efnivið og hlutum í jafn margar hrúgur og börnin eru. Hvert barn hefur þannig sitt svæði og getur gert sínar rannsóknir upp á eigin spýtur. Hlutverk hins fullorðna er að vera til staðar, en hann á ekki að taka þátt í leik barnanna, fyrr en í tiltektinni, þá setur hann orð á hlutina og hjálpar börnunum að sortera hlutina í rétta poka (Hildur Skarphéðinsdóttir og Sigrún Einarsdóttir, 2006). Ekki verður umfjöllunin lengri hér um könnunarleik með hluti, heldur vísað í skýrslu Hildar Skarphéðinsdóttur og Sigrúnar Einarsdóttur; Litlir vísindamenn í könnunarleik, sem gefur greinagóða lýsingu á hugmyndafræðinni, hvernig leikjastund er og hvaða efnivið er æskilegt að nota. Hægt er að nálgast skýrsluna á vef Leikskólasvið, undir liðnum útgefið efni.

6


Leikskólinn Bakki

,,Uss, ekki trufla mig!“ „Uss, ekki trufla mig!“ nefnum við þróunarverkefni okkar og erum við þar að vísa í það að í könnunarleik með hluti eru börnin yfirleitt mjög upptekin í rannsóknum sínum og láta fátt trufla sig.

Aðdragandi verkefnisins Fljótlega eftir að starfið hófst í leikskólanum Bakka fórum við að leita okkur upplýsinga um könnunarleikinn sem við höfðum aðeins heyrt um utan að okkur. Við fengum Sigrúnu Einarsdóttur leikskólaráðgjafa til að koma og kynna hugmyndafræðina fyrir okkur. Síðan lögðum við af stað með leikjastundir fyrir yngstu börnin. Þessar stundir hafa gengið mjög vel og er hrein unun að sjá áhugann og einbeitinguna skína út úr andlitum barnanna á meðan leikjastundin er. Í endurmati á hverju vori kom fram að ákveðinn leiði væri í hópstjórunum. Alltaf kom fram sú tillaga að auka við efniviðinn þannig að það væri hægt að skipta sumu út og breyta þannig til. Raunin var hins vegar var sú að ekkert gerðist í þeim málum. Leikskólastjóri og deildarstjóri yngstu deildarinnar fóru saman á málþingið Ég get, vil og kann og var það í raun kveikjan að því að drífa af stað þetta þróunarverkefni og gera almennilega rassíu í því að safna og prófa mismunandi efnivið í könnunarleik. Við ákváðum að hafa þetta formlegt þróunarverkefni og sóttum því um styrk til Leikskólaráðs og vorum svo heppin að fá hann. Þar með fór boltinn að rúlla.

Markmið Við settum okkur eftirfarandi markmið til að vísa veginn: Þróa könnunarleik yngstu barnanna og vekja athygli á að það er hægt að nota margt óhefðbundið í þeim leik Gera handbók um könnunarleikinn og hugmyndir tengdar honum Foreldrasamstarf; fá foreldrana til að taka þátt í þessari vinnu með því að skoða hvernig leikur barnanna er heima

Lýsing á verkefninu Óformleg undirbúningsvinna hófst í raun þegar umræður í tengslum við innra mat voru um það að við þyrftum að auka við efnivið í könnunarleiknum og þróa hann meira. Þó vantaði framkvæmdaáhugann, en það var svo á málþinginu Ég get, vil og kann sem kviknaði alvöru áhugi á að fara að gera eitthvað í málinu. Lesnar voru bækur um yngstu börnin, farið í gagnaöflun á netinu og settur niður hugmyndalisti að efnivið sem gaman væri að prófa. Aðal þátttakendur í þessari þróunarvinnu eru tveir yngstu árgangarnir á Bakka og hópstjórar þeirra. Ábyrgðarmaður, bókari og ritari er Ingibjörg E. Jónsdóttir leikskólastjóri. Hugmyndin var einnig að foreldrar yngstu barnanna tækju þátt með því að gefa okkur innsýn í leik barnanna heima.

7


Leikskólinn Bakki Aðalþróunarvinnan hófst svo í febrúar 2009 og var fram í miðjan maí 2010. Fyrst var hugmyndin að vera með verkefnið bara í eina önn, en fljótlega var ákveðið að hafa það 3 annir, þar sem veikindi eru þó nokkur yfir dimmustu vetrarmánuðina, sumartíminn dettur alveg út og þegar verið er að aðlaga inn ný börn getur verið erfitt að halda þróunarvinnunni gangandi. Eins og komið hefur fram hér á undan þá byggir könnunarleikur á ákveðnum leikjastundum þar sem verðlaus efniviður er í boði fyrir hvert barn. Áður en barnahópurinn kemur inn á svæðið er búið að raða saman eins efnivið í hrúgur sem eru jafnmargar og börnin sem eru að koma í stundina. Við héldum þessu formi lauslega, það er stundum vorum við búnar að setja efniviðinn í ákveðnar hrúgur, stundum var ein hrúga með öllum efniviðnum og stundum var byrjað á einum hlut fyrir hvert barn og síðan bætt við. Þannig voru prófaðar ýmsar útfærslur. Við nýttum okkur myndavélarnar við að skrá leik barnanna, þannig tókum við bæði ljósmyndir og myndbandsupptökur (videoklipp á myndavélunum). Bréf var sent í tölvupósti til foreldra á vorönn 2009 og aftur 2010 þar sem þeir voru beðnir um að taka þátt í þessu verkefni með því að skoða leik barnanna heima og hvaða efniviður það er sem vekur mestan áhuga (sjá fylgiskjal 1).

Niðurstöður verkefnisins Við settum okkur það markmið að þróa könnunarleikinn og vekja athygli á því að það er hægt að nota margt óhefðbundið í þeim leik. Við vorum með í boði margskonar efnivið svo sem myndvarpa, litaglærur og margskonar smádót með því, teppabúta, sokka, vettlinga og húfur, flöskur sem innihéldu mismunandi efnivið, dagblöð og margt fleiri. Virkilega skemmtilegt var að sjá hvað áhugi barnanna var misjafn á efniviðnum sem í boði var. Til dæmis þegar dagblöðin voru í boði, þá sökktu mörg börnin sér niður í að skoða þau á meðan önnur horfðu fyrst hissa á dagblöðin, settu síðan upp mæðusvip, stóðu svo á endanum upp og kíktu út um gluggann. Einnig var gaman að sjá hvað sumt af efniviðnum kveikti á samleik og hlutverkaleik, meðan annar efniviður var þannig að barnið sökkti sér niður í tilraunir. Spurning hvort ekki sé hægt að kalla þetta könnunarleik með hluti þó hann kveiki á samleik. Við teljum að svo sé þar sem börnin velta hlutunum vel fyrir sér áður en þau byrja á að láta hlutinn vera eitthvað annað en hann er. Næsta markmið okkar var að gera handbók um könnunarleikinn og hugmyndir tengdar honum. Við ætlum að uppfylla það markmið hér með þessari skýrslu og er áherslan í lokakaflanum; Hugmyndabanki og raddir barnanna. Í síðasta markmiðinu er sjónum beint að foreldrasamstarfi þar sem við ætluðum að fá foreldrana með okkur í þessa vinnu og fá þá til að skoða hvernig leikur barnsins er heima. Við sendum tölvupóst á vorönn 2009 og fengum eitt svar. Aftur sendum við núna á vorönn 2010 um leið og boðað var í foreldraviðtal. Síðan var rætt um þetta í viðtalinu og tóku foreldrar ágætlega í þetta. Ekkert skilaði sér þó til okkar og gæti ástæðan verið sú að foreldrar hafi nóg á sinni könnu. Við ákváðum þó að fara aðra leið og nýta okkur ígrundun foreldra þessara barna í námsöguskráningunum (einstaklingsáætlun barnanna). Þar

8


Leikskólinn Bakki kemur fram að öll börnin eiga það sameiginlegt að hafa gaman af að taka þátt í heimilisstörfunum með foreldrum sínum. Sérstaklega að elda mat, baka og vaska upp. Þannig að þegar upp er staðið þá náðum við tveim markmiðum af þrem, sem er bara ágætt þar sem um þróunarverkefni er að ræða og eðli samkvæmt þá er aldrei að vita hvert sú þróun leiðir okkur. Reyndar má segja að engar afgerandi niðurstöður séu úr þessu verkefni, heldur má frekar segja að í gegnum þessa vinnu höfum við fengið staðfestingu á því að einstaklingsmunurinn er mjög mikill. Strax hjá svona ungum börnum kemur fram hvað þau hafa ákveðnar skoðanir og hvað áhugasvið þeirra er mismunandi. Það er því mikilvægt að vera ekki með of einhæfan efnivið í boði, heldur blanda meira saman heldur en við gerðum í þessari vinnu. Þetta er alltaf spurning um að við hin fullorðnu gefum okkur tíma til að hlusta á rödd þeirra, tjáningu og látbragð.

Mat á verkefninu Við byrjuðum á að bjóða börnunum upp á að leika sér með ljós og skugga og var efniviðurinn myndvarpi og þau sjálf. Þetta fór hægt af stað og voru börnin mis fljót að kveikja á skuggunum sem mynduðust á veggnum. Þegar þau hins vegar uppgötvuðu skuggana og að þau gátu haft áhrif á þá, fóru þau að gera tilraunir. Við bættum síðan smátt og smátt inn öðrum efnivið með myndvarpanum, s.s. litaglærur, blúndur, borða, margskonar hluti, lítil dýr og kalla. Í endurmati hjá hópstjórunum kemur fram að þetta höfði misvel til barnanna og sé frekar stirt. Við ákváðum að gera stuttmynd um þennan tiltekna efnivið og spila það hratt, þá kom allt annað í ljós. Börnin virtust virkilega njóta þess að rannsaka og gera tilraunir. Það eru hins vegar við fullorðna fólkið sem viljum láta hlutina ganga hraðar. Við vorum með mat af og til yfir tímabilið og kemur þá alltaf fram að það gangi misvel en að myndvarpaverkefnið standi upp úr. Talað er um lítið úthald hjá börnunum og er það þá aftur spurningin um það hvort við séum að gefa þeim nægan tíma til að spá og spekúlera í næði. Í lok verkefnisins voru hópstjórarnir með smá rýni að verki loknu (sjá spurningar í fylgiskjali 2), það helsta sem kom fram þar er eftirfarandi: ,,Get ekki sagt að ég hafi verið með neinar hugmyndir í upphafi… maður fór bara alveg blint í þetta.“ ,,Mér finnst þetta hafa gengið ofboðslega misjafnlega… mér er búið að finnast gaman að prófa nýtt og breyta til og svoleiðis, en stundum langar mig bara aftur í rútínuna… en þess á milli er maður að spá í hvað maður getur notað og finna eitthvað nýtt.“ ,,Þegar úthaldið er lítið hef ég bara tekið saman og farið í eitthvað annað.“ ,,Svo hef ég tekið einingakubba með efniviðnum sem er í boði… þau skilja könnunarleiksdótið bara eftir út í horni og fara í það nýja.“ ,,Aldurinn hefur áhrif á hvaða efniviður virkar.“ Þessi yngstu… ,,Mér fannst þau hafa mestan áhuga á húfunum, vettlingunum og sokkunum.“ ,,Það aftur á móti vakti engan áhuga hjá mínum (elstu)… það var ljós og skuggi.“ ,,Myndavélin truflar þessi yngstu mikið… leið og þau sjá hana vilja þau fá að sjá.“

9


Leikskólinn Bakki ,,Þau voru alveg ótrúleg, þrátt fyrir að mér litist nú ekkert á þetta með dagblöðin, ég fór og tók líka í næsta tíma dönsku blöðin, þau eru litríkari, þau gátu spekúlerað mikið og það kom mér verulega á óvart þar sem mér fannst þetta hálfgert bull að þau myndu yfirhöfuð gera nokkuð með þetta.“ ,,Það var ýmislegt sem kom mér á óvart þar sem ég hafði ekki trú á öllum efniviðnum, svo ég sé nú alveg hreinskilin.“ ,,Ljós og skuggi… það var mjög skemmtilegt… það fannst þeim ofsalega gaman.“ ,,Hefði mátt vera meira skipulagt hvaða efnivið átti að nota… var virkari fyrst en svo…“ ,,Ég hefði viljað vera duglegri við að finna hugmyndir.“ ,,Vorum alltaf þokkalega undirbúnar, mikilvægt að vera alltaf tilbúnar og vera búnar að ákveða vikuna áður hvað við ætlum að gera og hugleiða það.“ Næsta vetur… ,,Skipuleggja mánuð og mánuð fram í tímann… gæti komið vel út að blanda saman meira efniviðnum.“ ,,Vera með gamla og nýja efniviðinn í bland.“ ,,Velja úr það sem krökkunum fannst gaman að.“ ,,Sé fyrir mér að blanda saman gamla og nýja dótinu.“ Ég tel að helstu pyttirnir sem við duttum í hafi verið að blanda ekki meira saman efnivið og vera jafnvel með dósir eða kassa alltaf með. Einnig þurfum við að vera meðvitaðar að börnin þurfi tíma, þó svo þau virðist ekki alltaf hafa áhuga þá eru þau jafnvel að spá í hlutina og velta því fyrir sér hvað hægt er að gera. Þegar myndirnar eru skoðaðar þá kemur í ljós að áhugi barnanna er mismikill eftir efnivið en þó til staðar. Sum börn eru einnig lengur af stað en önnur, sum byrja á að fylgjast með því hvað hin börnin eru að gera og fara síðan af stað. Í næsta kafla gefum við börnunum orðið ef svo má segja, þetta er í myndrænu formi og smá texti með.

10


Leikskólinn Bakki

Hugmyndabanki og raddir barnanna Leikið með ljós og skugga með aðstoð myndvarpa. Smátt og smátt var bætt við efnivið, s.s. blúndum, net, leikefni og litaskyggnum.

Þetta er ég

Ég náði hendinni þinni

Er hægt að koma við þetta

Þetta er nú skrítið

Þetta eru stórir stafir

Nei, sjáið hestinn á veggnum

Hér er fullt af puttum

Það er eins á veggnum

11


Leikskólinn Bakki Margt í boði eins og málningarpenslar, pottasvampar, slæður, treflar, borðar, skrautbönd, grófir þvottahanskar, efnisbútar og blúndur.

Hvað er nú þetta

Verið að skreyta sig

Æ, ég ætla bara að hvíla mig hér

Til hvers í ósköpunum er þetta?

Humm, hvað er nú þetta?

Þetta er mjúkur bursti sem kitlar puttana

Nei, sko hvað ég fann

Best að þú farir bara að sofa

12


Leikskólinn Bakki Margt forvitnilegt eins og leggur, horn kubbar með mismunandi áferð, kókoshneta, trjábútar og fleira.

Smá sýnishorn af efnivið

Halló, er þetta mamma?

Umm, þetta er gott

Bíddu nú við, er þetta fast á bandinu?

Hvað er nú þetta?

Af hverju næ ég ekki kúlunum?

Þetta er nú skrítið

Best að raða þessu upp

13


Leikskólinn Bakki Hér er búið að sníða grunnformin úr gólfdúk, einnig er teppisbútur og svo mismunandi viðarkubbar, horn og leggur. Á neðstu myndunum er einnig sýnishornamappa með dúkum og teppum.

Sýnishorn af efnivið

Jæja, hvað er nú hér?

Nei, þarna er hringur

Allir önnum kafnir við að skoða

Hæ!

Þetta er húsið þeirra

Hvað er þetta?

Er þetta eitthvað spennandi?

14


Leikskólinn Bakki Eingöngu dagblöð í boði.

Sýnishorn af efnivið

Það eru myndir hérna

Ég er að lesa blaðið

Þetta er nú svolítið stórt

Vá, stór mynd af fótboltamönnum

Ég rúlla þessu bara saman

Hvað er nú hér?

Ég er með pakka

15


Leikskólinn Bakki Við prófuðum einnig dönsku blöðin.

Eru þetta bækur?

Best að skoða þetta

Það eru myndir

Líka myndir hér!

Ég get kíkt á mig

Ég næ hátt upp

16


Leikskólinn Bakki Fyrst fengu börnin eina hringlótta mottu með söguðum trjábút, síðan var aukið smátt og smátt við.

Sýnishorn

Sýnishorn

Vá, ég gat raðað þessu upp

Ég líka, þetta er báturinn minn

Blásið í lúður…

…eða var það trompet?

Hvað ert þú að gera?

Ég er að byggja hús

17


Leikskólinn Bakki Börnin fengu vettlinga, húfur og sokka

Hvernig er þessi vettlingur eiginlega?

Jæja, tilbúinn

Vá þetta er stór húfa

Ha, ha, ég sé ekki neitt

Vá, ég gat sett vettlinginn upp á húfuna

Og núna tvo!

Nei, þarna fann ég aðra húfu…

Úpps, ég sé ekki neitt

18


Leikskólinn Bakki Síðar fengu þau húfur, vettlinga, sokka og veski

Ætli það sé eitthvað ofan í veskinu?

Æ, ég er flækt í þessu

Vá, hvað við erum fínir

Átt þú þetta veski?

Þetta er nú flottur sokkur

Við erum að fara í bæinn

Við erum flottir

Ég kemst ekki í fingravettlingana

19


Leikskólinn Bakki Við fengum gefins trékubba sem var búið að pússa og lita og ákváðum að nota þá í þessum leik.

Sýnishorn af efnivið

Þetta eru mjúkir kubbar

Þeir eiga heima hér

Ég ætla að byggja hús

Get ég lyft húsinu?

Ég get lokað kubbinn inni

Ég er búinn að byggja risastórt hús

Vá, hvað þetta er fínt

20


Leikskólinn Bakki Gosflöskur með vatni og mismunandi út í því, s.s. þvottalög, matarlit, perlur, þurrkuð blóm o.fl.

Á ég að hella úr þessu?

Vá hvað þetta er skrítið

Púmm, nú datt hún

Ég gat raðað upp á

Hérna er meira

Sko flaskan stendur á hvolfi

Ég get líka látið flöskurnar standa á hvolfi

Ætli hin geti staðið ofan á?

21


Leikskólinn Bakki Margar fleiri hugmyndir kviknuðu, sumar voru framkvæmdar og aðrar verða framkvæmdar næsta vetur. Við látum fylgja hér með lista yfir þær hugmyndir sem ekki eru ljósmyndir af (eða að við náðum ekki að framkvæma): Pappakassar, stórir og litlir Snærisbútar með hnútum og án Fjölbreyttara innihald í gosflöskurnar s.s. glimmer út í vatni, skeljasand, moldarleðju sem rennur, mislit glerbrot í vatni, glerperlum, matarolíu með smá af lituðu vatni Segulstál og mismunandi málmhluti Hluti sem rúlla eins og sultukrukkulok, hnetur, wc-hólkar, hólkar inn úr stórum og litlum tvinnakeflum, gúmmí og plast armbönd (stíf), stutt rafmagnsrör, servéttuhringi, gardínuhringi Meira úrval af burstum og penslum; vera með t.d. uppþvottabursta, breiða þvottabursta með mjúkum hárum, málningarpensla fyrir lakk og veggmálningu (þeir eru mis stífir) Fjölbreyttara úrval af svamp; vera með pottasvamp, baðsvamp, netsvamp Sósu pískara, sleifar, fiskispaða, ausur, potta, skálar Efnivið úr fjörunni eins og skeljar, rekavið, steinvölur, þurrkað þang, fjaðrir Fjölbreyttara úrval af trjábútum og greinum. Stóra köngla og litla. Gærubúta, skinnbúta, leðurbúta og þæfða ullarbúta Eitthvað sem þarf að skrúfa eins og kryddkrukkur, dósir Lítil og stór veski með smellum og rennilásum Niðursöguð og pússuð kústsköft, mislöng Grjónapungar með mismunandi innihaldi, s.s. grjónum, mismunandi baunum, pasta, gostöppum, korktöppum, litlum steinvölum, lopa, litlum trjágreinum (ca. 2 cm) Litla og stóra efnisbúta Litla og stóra léreftspoka Ýmsir smáhlutir þræddir upp á stóra lyklahringi, snæri eða snúru (þannig að það náist ekki af), s.s. rær, skinnur, tölur, perlur, niðurklippt sogrör, lykla, fíngerðar keðjur (þræddar þannig að þær lykkist) Lítil prjónastykki (ca. 20x20cm) prjónuð úr mismunandi efnivið eins og til dæmis misgrófu garni og lopa, snæri, hnýtingargarni, plastþræði, þvottasnúru, niðurrifnu efni, basti Sólgleraugu, sundgleraugu, kafaragleraugu, hlífðargleraugu, litaglærur Hattar, derhúfur, stórar húfur, stórar skálar

22


Leikskólinn Bakki

Lokaorð Þetta er búin að vera lærdómsrík vinna og má að mörgu leiti segja að við höfum lært ýmislegt um okkur kennarana, eins og til dæmis hvað við viljum alltaf að hlutirnir gangi hratt og fljótt fyrir sig. Nú er það spurning að fara að hægja á sér og láta börnin ráða hraðanum, það eru þau sem eiga að stjórna honum. Skemmtilegt var einnig að sjá hvað efniviðurinn höfðaði misjafnlega til barnanna. Þegar áhuginn var vakinn þá virtist ekkert geta truflað þau. Stundum var jafnvel bara eitt barn sem var upptekið af því að gera tilraunir, en hin fóru í hlutverkaleik og gengu allt í kring, þetta hafði engin áhrif, það var eins og barnið væri aleitt í herberginu að vinna að sínum hugðarefnum. Sem sagt það hafa bæði skipst á skin og skúrir í þessu verkefni og því hefur það verið lærdómsríkt. Vonumst við til að þetta rit nýtist öðrum kennurum sem eru með krílin sín í könnunarleik með hluti og verði jafnvel kveikjan að áframhaldandi þróun. Til gaman settum við saman þrjú myndbandsbrot af könnunarleiksstundum og hraðspólum aðeins þar sem annars tæki svo langan tíma að horfa á þau. Hér má nálgast myndina http://www.srlausnir.is/bakki/myndband.html (það tekur smá tíma að hlaðast inn).

23


Leikskólinn Bakki

Heimildaskrá Leikskólinn Bakki – Skólanámskrá. 2007. Hildur Skarphéðinsdóttir og Sigrún Einarsdóttir. 2006. Litlir vísindamenn í könnunarleik. Innleiðing á könnunarleik í sjö leikskólum í Reykjavík. Reykjavík. Sigríður Síta Pétursdóttir. 2008. Umhyggja í leikskóla. Viðhorf og starf leikskólakennara. Meistaraprófsverkefni lagt fram til fullnaðar M.Ed.-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði við Kennaraháskóla Íslands. Reykjavík.

24


Leikskólinn Bakki

Fylgiskjöl Fylgiskjal 1 – bréf til foreldra Sælt veri fólkið Við hér á Bakka vorum að fara af stað með þróunarverkefnið Uss, ekki trufla mig! Í þessu þróunarverkefni er ætlunin að einblína á yngstu börnin. Við höfum unnið með þeim í hópastarfi könnunarleikinn. Í könnunarleiknum er verið að beina athyglinni að mikilvægi hinnar sjálfsprottnu athafnasemi barna í að kanna og rannsaka. Þessi leikur er út frá forsendum barnanna, í skipulögðu umhverfi, í ákveðinn tíma og undir eftirliti fullorðins. Í könnunarleik hefur hvert barn sitt svæði þar sem því er boðið upp á mismunandi verðlausan efnivið. Okkur langar að fá ykkur foreldrana aðeins í lið með okkur með því að biðja ykkur um að kanna hvað það er sem vekur mesta athygli barnanna heima og er þá spurningin; Hvað hefur barnið mestan áhuga á og gaman af þegar þau eru heima? Hugmyndin er að beina athyglinni að þeim efnivið sem er í umhverfinu og þarf ekkert endilega að vera í formi keyptra leikfanga. Frábært væri ef þið foreldrar mynduð taka þátt í þessu með okkur og ekki verra ef þið mynduð taka myndir af leik barnsins og leyfa okkur að njóta þeirra (koma bara með þær á minniskubb). Kær kveðja Ingibjörg

Fylgiskjal 2 - Rýnt í verkið Hvaða hugmyndir voruð þið með í upphafi verkefnisins? Hvernig hefur ykkur fundist þessi þróunarvinna ganga? Þegar kom inn efniviður sem börnin sýndu ekki áhuga, hvað gerðuð þið þá? Hvaða efniviður kom best út? Er munur á milli hópa? Af hverju? Ef þið lítið til baka... o Hvað stendur upp úr? o Hverju hefðuð þið viljað breyta? Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að könnunarleikurinn verði næsta vetur?

25


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.