Frumkvöðlar á Hvaleyri

Page 1

Frumkvöðlar á Hvaleyri GOLFKLÚBBURINN KEILIR 1967-1977

Jóhann Guðni Reynisson


EFNISYFIRLIT Aðdragandinn og stofnun Keilis ...................................................................................................... 3 Landnám golfsins á Hvaleyri............................................................................................................ 8 Val á vallarstæði ............................................................................................................................... 14 Þróun golfvallar á Hvaleyri .............................................................................................................. 19 Golfvöllurinn á Hvaleyri formlega opnaður..................................................................................... 23 Félagsstarfið fyrstu árin.................................................................................................................... 26 Örnefni og sögustaðir á Hvaleyri..................................................................................................... 36 Upphaf golfs á Íslandi...................................................................................................................... 44 Golfekkjan........................................................................................................................................ 47 Rætt við Jónas A. Aðalsteinsson........................................................................................................ 49 Félagsstarf með vaxtarverki .............................................................................................................. 57 Skipulagstillaga ruggar bátnum ....................................................................................................... 65 Félagsstarf í þágu almenningsíþrótta................................................................................................ 67 Lýsi, mjöl og landbrot ..................................................................................................................... 72 Heimildaskrá ................................................................................................................................... 74

© Jóhann Guðni Reynisson 2017 Öll réttindi áskilin Útgefandi: Golfklúbburinn Keilir - netútgáfa 2017 - Ólafur Þór Ágústsson Umbrot og hönnun: Gunnar Þór Halldórsson Ljósmyndasöfnun: Magnús Hjörleifsson Kápumynd: Eiríkur Smith Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti svo sem með ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða heild, án skriflegs leyfis höfundar.


Aðdragandinn og stofnun Keilis Golfklúbburinn Keilir var stofnaður árið 1967 en þá höfðu nokkrir golfáhugamenn úr Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Reykjavík tekið sig saman talsvert fyrr til að kanna hvort heppilegt svæði til að stunda golf fyndist í einhverju þessara bæjarfélaga. Ákveðið hafði verið að gera völl í Grafarholtinu í Reykjavík en ætla má að golfáhugafólki, sem búsett var í talsverðri fjarlægð frá því svæði hafi þótt fulllangt að sækja. Frá þessu segir í fyrstu fundargerðabók Keilis þar sem tildrögin eru rakin með rithönd Hafsteins Hanssonar. Þar segir: Það eru liðin nokkur ár síðan menn fóru fyrst að íhuga möguleika á stofnun golfklúbbs í Garðahreppi, Hafnarfirði og Kópavogi og munu það hafa verið nokkrir golfáhugamenn í þessum þrem byggðalögum sem veltu þessu fyrir sér hver í sínu lagi. Það fyrsta sem svo kemur hreyfingu á þetta mál er það að Hafsteinn Hansson Garðahreppi vekur máls á þessu við sveitunga sína þá Jónas Aðalsteinsson og Jóhann Níelsson ásamt sveitarstjóra hreppsins, Ólaf Einarsson. Allir voru þessir menn málinu mjög hlynntir og kvaðst Ólafur sveitarstjóri vilja gera það sem í sínu valdi stæði til að greiða fyrir framgangi þessa máls, en litlar horfur væru hinsvegar á að finnast mundi land í hreppnum sem hentugt væri undir golfvöll. Það var svo í október 1966 að boðað var til fundar að Hábæ í Reykjavík. Á þessum fundi mættu Hafsteinn Hansson, Jónas Aðalsteinsson, Jóhann Níelsson, Daníel Pétursson, Júlíus Sólnes, Hafsteinn Þorgeirsson og Páll Ásgeirsson. Ennfremur var boðinn til fundarins Sveinn Snorrason formaður golfsambandsins og veitti hann fundinum ýmsar upplýsingar varðandi lög og tilhögun við stofnun golfklúbba. Á fundinum kom meðal annars fram að golfáhugamenn í Hafnarfirði og Kópavogi væru að kanna möguleika á stofnun golfklúbba og var samþykkt að tala við þessa menn um möguleika á að sameina golfáhugamenn í þessum þrem byggðalögum um stofnun eins golfklúbbs. Einnig var upplýst á fundinum að möguleiki væri á að fá hluta af Vífilstaðatúninu undir golfvöll vegna þess að í ráði væri að leggja niður ríkisbúskap á staðnum.Var svo ákveðið að halda annan rabbfund að mánuði liðnum og boða til hans alla þá golfáhugamenn í þessum þrem byggðalögum sem til næðist. Sá fundur var svo haldinn í nóvember 1966 í skólahúsinu í Garðahreppi og voru þar mættir um 30 menn úr Hafnarfirði, Kópavogi og Garða- og Bessastaðahreppi. Hafsteinn Hansson bauð fundarmenn velkomna og skýrði fundarmönnum frá tildrögum fundarins, síðan bað hann Jóhann Níelsson að vera fundarstjóra og Sigurberg Sveinsson að vera fundarritara. Það kom greinilega fram á fundinum að mikill áhugi var fyrir þessu máli. Ólafur Einarsson sveitarstjóri útskýrði skipulagsteikningar af Garðahreppi og ræddi möguleika heppilegu landssvæði fyrir golfvöll, ennfremur tók Sigurður Helgason Kópavogi til máls og ræddi möguleika á samningum um leigu á Vífilstaðatúninu. Sigurbergur Sveinsson Hafnarfirði talaði einnig og sagðist hafa rætt þetta mál við forráðamenn Hafnarfjarðarbæjar og væri ekki útilokað að fá leigðan Hvaleyrartangann undir golfvöll. Spunnust um þetta allfjörugar umræður og var einróma samþykkt að efna til stofnfundar snemma á árinu 1967 og var kosin 3


nefnd til að undirbúa fundinn og semja lög væntanlegs golfklúbbs. Í nefndina voru kosnir: Jónas Aðalsteinsson, Sigurður Helgason, Sigurbergur Sveinsson og Hafsteinn Hansson. Nefndin hóf þegar undirbúning að stofnfundi og samningu laga fyrir golfklúbbinn. Eru síðan rakin í gerðabókinni þau lög fyrir Golfklúbbinn Keili sem lögð voru fyrir stofnfund. Þar kemur fram að félagssvæði klúbbsins skuli miðast við Hafnarfjörð, Kópavog, Garða- og Bessastaðahrepp og innganga verði öllum frjáls að fengnu samþykki klúbbstjórnar. Íbúar á félagssvæðinu skyldu þó ganga fyrir við inntöku að öðru jöfnu. Reynt var að ná samningum við Ríkisspítala um landssvæði á Vífilsstöðum undir golfvöll eins og síðar verður rakið en það tókst ekki. Eins og segir í fundargerðinni hér að framan hafði Sigurbergur Sveinsson vakið máls á því við Hafnarfjarðarbæ að Hvaleyrartanginn fengist undir golfvöll og félagsstarf Keilis. Landið var í eigu Legatsjóðs Flensborgarskóla sem Ágúst Fjeldsted stýrði en bæjarstjórn Hafnarfjarðar annaðist. Sjóðurinn hafði leigt landið sex aðilum til ábúðar og áttu ábúendur sjálfir hús þau sem þeir höfðu reist til eigin nota og aðrar framkvæmdir á bæjunum. „Hafnarfjarðarbær hafði ítrekað reynt að leysa til sín ábúðarrétt bændanna og kaupa fasteignir þeirra með það í huga að nýta landið sem byggingarland. Það hafði bænum ekki tekist gagnvart landmestu býlunum, Hálflendunni Hvaleyri, Vesturkoti og Sveinskoti,“ segir í samantekt Jónasar Aðalsteinssonar, fyrsta formanns Keilis um upphafið. Og Jónas heldur áfram: Eftir því var leitað af hálfu GK við Hafnarfjarðarbæ, fyrir hönd sjóðsins, að bærinn myndi samþykkja klúbbinn sem leigutaka alls landsins í 10 til 20 ár ef GK tækist að leysa til sín eignir ábúendanna og ábúðarrétt þeirra. Bærinn samþykkti þetta, taldi þá tilraun vel þess virði. Samningar tókust fyrst við ábúanda og eiganda Vesturkots og var það íbúðarhús gert að fyrsta klúbbhúsi Keilis. Síðan náðust samningar við ábúanda og eiganda Sveinskots, Ársæl, sem varð fyrsti og besti sláttumaður klúbbsins. Þá náðust samningar við annan tveggja eigenda Hálflendunnar Hvaleyrar sem átti ábúðarrétt þess býlis jarðarinnar í óskiptri sameign með öðrum aðila sem nýtti hana í eigin þágu. Ekki náðist samkomulag við þann aðila í fyrstu um skipti hálflendunnar. Þá var brugðið á það ráð að hópur golffélaga skipti landinu í tvo jafnstóra hluta í skjóli nætur með girðingu. Sá hluti sem GK tók til sín með þeim hætti var tengdur því landi sem þegar hafði verið keypt af hálfu GK. Þetta nýfengna land skipti reyndar sköpum fyrir völlinn sem þá fyrst náði viðunandi stærð. Síðarnefndi aðilinn fór í mál við GK og krafðist þess að þessi næturskipti yrðu ógilt. Þegar hann hafði tapað því máli fyrir dómi á bæjarþingi Hafnarfjarðar gekk hann til samninga við GK um hans hluta í landinu sem og íbúðarhúsið. Skildu menn sáttir eftir þau kaup og var GK þá kominn með rétt til alls lands á Hvaleyri. Þá voru aðeins eftir kaup á nokkrum kofaskriflum og rústum. Í einum rústunum bjó reyndar andlega sjúkt heljarmenni sem golfspilarar tóku mjög stóran sveig framhjá ef hann kom upp og út úr verustað sínum í rústunum til að gá til veðurs. Ættingjum mannsins tókst þó nokkrum mánuðum síðar að koma honum til lækninga og þá var tækifærið notað, húsnæðið tæmt og fyllt með jarðefni og síðan sléttað úr öllu með jarðýtu.

Vesturkot á fyrri hluta 20. aldar. Það varð síðar fyrsti golfskáli Keilis. Ljósm.: Byggðasafn Hafnarfjarðar.

4


Nánar verður vikið að „stóra landaskiptamálinu“ síðar í þessu riti enda var ekki á vísan að róa með að Golfklúbburinn Keilir fengi aðstöðu og vallarstæði á Hvaleyri þótt bæjarstjórn Hafnarfjarðar segðist tilbúin að heimila klúbbnum að hafa þar heimilisfesti. Það kostaði forsvarsmenn Keilis „blóð, svita og tár“ áður en yfir lauk. Ákveðið var að boða til stofnfundar sem haldinn var 18. febrúar 1967. Þar voru mættir 64 eldheitir golfáhugamenn, bæði karlar og konur. Fundarstjóri var Jóhann Níelsson og fundarritari Rúnar Guðmundsson. Sigurbergur Sveinsson flutti skýrslu undirbúningsnefndar og var að því loknu borin fram tillaga um stofnun golfklúbbs sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Síðan var kynnt tillaga að lögum fyrir klúbbinn og spunnust um hana fjörugar umræður. Lögin voru að lokum samþykkt með einhverjum breytingum á 9., 10. og 13. grein. Síðan var kosið í fyrstu stjórn Keilis og hlutu kosningu þeir Jónas A. Aðalsteinsson, Garðahreppi, formaður, Sigurbergur Sveinsson, Hafnarfirði og Sigurður Helgason, Kópavogi, meðstjórnendur og til vara Hafsteinn Hansson, Garðahreppi, og Rúnar Guðmundsson, Hafnarfirði. Að lokum var samþykkt tillaga um að halda framhaldsaðalfund. Tillagan fól í sér að aðalfundinum skyldi frestað um nokkurn tíma, þó ekki lengur en tvo mánuði, og skyldi hinni nýkjörnu stjórn falið að sjá um undirbúning og störf þess fundar. Framhaldsaðalfundurinn var haldinn 25. apríl 1967 í félagsheimili Kópavogs. Fundarstjóri var tilnefndur Jóhann Níelsson að vanda og sömuleiðis Rúnar Guðmundsson sem ritari án mótbára og var fundurinn settur kl. 20:45. Kosið var 12 manna fulltrúaráð samkvæmt lögum klúbbsins sem skyldi vera stjórninni til ráðuneytis

Loftmynd af Hvaleyri árið 1960 meðan þar var enn blómlegur búskapur. Ljósm.: Byggðasafn Hafnarfjarðar.

Frá stofnfundi Golfklúbbsins Keilis 1967. Frá vinstri: Hafsteinn Hansson, Sigurbergur Sveinsson, Birgir Björnsson, Jónas A. Aðalsteinsson fyrsti formaður klúbbsins og Guðmundur Rúnar Guðmundsson. Mynd úr safni Keilis. 5


og aðstoðar en ekki kemur fram í fundargerðinni hvaða fólk varð þar fyrir valinu. Þá lagði Sigurbergur Sveinsson fram fjárhagsáætlun sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Þar með var Golfklúbburinn Keilir stofnaður og hefur 25. apríl síðan verið talinn hinn formlegi afmælisdagur klúbbsins. Þann 18. júlí 1967 sendi Jónas formaður Golfsambandi Íslands umsókn Keilis um aðild að sambandinu og tilgreint var í bréfinu að þá hefði þegar verið sótt um aðild að Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar. Svarbréf GSÍ barst um hæl, dagsett 21. júlí 1967 og það var hátíðlega orðað, undirritað af Sveini Snorrasyni. Bréfið hefst svo: Heiðrað bréf yðar dagsett 18. þ. m. höfum við móttekið. Umsókn yðar um aðild að Golfsambandi Íslands hefur verið samþykkt af öllum stjórnarmönnum Golfsambandsins. Er okkur mikil ánægja í því að bjóða yður velkomna til samstarfs. Ákveðið var að kenna klúbbinn við eldfjallið Keili, glæsilegt náttúrufyrirbæri, sem sæist vel frá öllum sveitarfélögum á félagssvæði klúbbsins en væri þó ekki innan vébanda þeirra. Heitið væri því hlutlaust og væri í sjálfu sér ekki hindrun gagnvart aðildarsveitarfélögum klúbbsins varðandi fjárveitingar að því er fram kemur í viðtali við Jónas Aðalsteinsson fyrsta formann Keilis hér síðar. Á fyrsta starfsárinu var Eiríkur Smith beðinn um að teikna merki fyrir klúbbinn sem hann gerði en Eiríkur var einmitt mikilvirkur í starfinu, ekki síst á sínu sérsviði sem er myndlistin eins og flestum má vera kunnugt. Merkið er hringlaga, umlukið svörtum feitletruðum hringlaga ramma og samsett þannig að í miðjum innri hringnum sem umlukinn er tvöföldum svörtum hringlaga ramma er rétt þríhyrnd mynd sem táknar ein-

Fyrsta fundargerðin í fyrstu fundargerðarbók Keilis. Fyrri stofnfundurinn var haldinn 18. febrúar þar sem fyrsta stjórnin var kosin. Síðari stofnfundurinn var haldinn 25. apríl sem er formlegur afmælisdagur klúbbsins. 6


kennisfjall klúbbsins, Keili á Suðurnesjum, í ljósbláum lit á hvítum grunni og ber við það svarta golfkylfu fyrir upphafshögg (driver), einkum kylfuhausinn. Neðan við er stofnárið 1967 en milli aldar og áratuga er hringur sem táknar golfbolta - 19 o 67. Utan um þessa mynd er síðan dökkgulur hringur (bakgrunnur) og á hann letrað með rauðum stöfum heiti klúbbsins og milli orðanna, sitt hvorum megin neðan við G í upphafi og N í enda í orðinu GOLFKLÚBBURINN eru tveir oddmjóir þríhyrningar eða fleygar sem tákna golftí og þar fyrir neðan stendur feitletrað KEILIR. Ári eftir að Keilir var stofnaður voru félagar strax orðnir um 100. Klúbburinn hafði fengið landið á Hvaleyri frá Hafnarfjarðarbæ gegn því að hann keypti allar fasteignir á landinu sem voru í eigu annarra aðila. Á fyrsta árinu hafði klúbburinn keypt liðlega helming allra þessara eigna og tekist að standa undir greiðslum vegna þess. Árið 1968 tókust síðan samningar um kaup á þeim eignum sem eftir stóðu. Þá bar svo við að gjalddagar flestra skuldbindinga klúbbsins voru í maí en tekjurnar skiluðu sér ekki fyrr en á sumarmánuðum. Það þýddi að þetta nýstofnaða íþróttafélag vantaði talsvert fjármagn og það strax. Jónas formaður og stjórn hans brá á það ráð að senda nokkrum lánastofnunum erindi þar sem sótt var um lán að heildarfjárhæð 300 þúsund krónur og var hver og ein beðin um 60 þúsund. Þetta voru Iðnaðarbankinn og Samvinnubanki Íslands í Hafnarfirði, Sparisjóður Kópavogs og Útvegsbankinn í Kópavogi og Sparisjóður Hafnarfjarðar. Segir ekki frekar af árangri þessara bréfaskrifta en á 50 ára afmæli klúbbsins er ljóst að hann hefur „lifað af“ ýmsar fjárhagslegar hremmingar, ekki síst á upphafsárunum. Áttu þar margir hlut að máli en mikið hefur mætt á fyrstu stjórn Keilis sem átti í mörg horn að líta.

7

Eiríkur Smith teiknaði merki Golfklúbbsins Keilis.


Landnám golfsins á Hvaleyri Strax í kjölfar stofnunar Keilis þann 18. febrúar 1967 hófst nýkjörin stjórn handa við að afla klúbbnum lands og fjár til starfseminnar. Málið var rakið í stórum dráttum í upphafi þessa rits en hér verður farið nánar í saumana á málinu enda reyndust úrræði og ráðabrugg forsvarsmanna Keilis afar mikilvægir þættir í því að Hvaleyrin fékkst að lokum undir golfvöll.

Loftmynd frá1968. Hvaleyrin er frá náttúrunnar hendi eins og sköpuð fyrir golfvöll þar sem jarðvegur er blanda af sandi og mold. Tún hafa verið ræktuð þar um árhundruð, jafnvel allt frá landnámi.

Með bréfi dagsettu 1. marz 1967 og stílað er á bæjarráð Hafnarfjarðar segir frá stofnun Keilis þar sem mættir voru um 60 aðilar, bæði karlar og konur. Rakið er að stofnfundi hafi verið frestað þennan dag, 18. febrúar, þegar stjórnarkjör hafði farið fram og og stjórninni falið að finna og falast eftir landi undir golfvöll. Fyrsta stjórnin hefur skrifað undir þetta bréf þar sem segir að téðir stjórnarmenn hafi fundið hentugt land undir starfsemi klúbbsins á Hvaleyri, sunnan Hafnarfjarðar, sem þeir telji raunar eina hentuga landið undir slíka starfsemi í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar. Óskað er eftir því að bæjarráðið hlutist til um að þetta land fáist leigt Golfklúbbnum Keili undir golfvöll og tilgreint er allt ræktað land á Hvaleyrartanga, eins og það er orðað. Í bréfinu þykir stjórninni rétt að geta þess að sumir, ef ekki allir ábúendur á Hvaleyri muni fúsir til viðræðna um erindið. Þess er vænst að bæjarráðið svari þessari málaleitan sem allra fyrst á jákvæðan hátt svo unnt verði að hefja starfsemi strax næsta vor. Í óundirritaðri yfirlýsingu frá Hafnarfjarðarbæ um þetta mál sem finna má í gögnum Keilis (tilgreind ljósmynd fylgir þó ekki) segir:

8


Hafnarfjarðarbær lýsir hér með yfir því, að Golfklúbburinn Keilir hefir ótímabundinn afnotarétt yfir jörðinni Hvaleyri í Hafnarfirði, eins og sú jörð er afmörkuð á viðfestri ljósmynd svo og afnotarétt yfir fasteignum öllum á jörðinni, nema húseignum Sveinskots, meðan þær eru leigðar Ársæli Grímssyni og/eða konu hans til eigin nota. Golfklúbburinn skal bera kostnað allan af eignum þessum og sjá um góða ræktun landsins. Þurfi Hafnarfjarðarbær að nota eignir tilgreindar í 1. mgr. að hluta eða öllu leyti, lofar Hafnarfjarðarbær að sjá Golfklúbbnum fyrir landi að svipaðri stærð, kosta ræktun þess, uppbyggingu flata og teiga, skv. teikningum íþróttamannvirkja arkitekts svo og að útvega og kosta húsnæði, sem fullnægir starfsemi klúbbsins á sama hátt og þau húsakynni sem hann yfirgæfi við uppsögn þessa. Klúbburinn skal hafa full og ótakmörkuð afnot eigna skv. 1. mgr., án sérstakrar greiðslu, unz Hafnarfjarðarbær hefir séð klúbbnum fyrir aðstöðu þeirri, sem getur í næstu mgr. hér á undan. Forsenda yfirlýsingar þessarar er sú, að klúbburinn geri engar frekari kröfur á hendur Hafnarfjarðarbæ vegna fjárframlaga klúbbsins vegna kaupa á mannvirkjum eða landi. Þarna kemur fram það sem síðar greinir að ef klúbburinn ætlaði að koma sér fyrir á þessum stað þyrfti hann sjálfur að kosta uppkaup á þeim mannvirkjum sem þar væri að finna og föl væru. Ljóst er að stjórn Keilis sat ekki auðum höndum í landnámi sínu og þann 29. mars 1967 sendir hún Guðmundi Þ. Magnússyni kaupmanni og Kristjáni Steingrímssyni bifreiðastjóra, en þeir voru nágrannar þar sem Guðmundur bjó á Hellisgötu 16 og Kristján á Álfaskeiði 40, bréf með tilboði um kaup á jörðinni Hvaleyri við Hafnarfjörð með þessum orðum: …Að þér seljið okkur greinda jörð með fasteignum þeim, sem þar nú standa ásamt öllu, sem þeim fylgir og fylgja ber, auk allra réttinda, hverju nafni sem nefnast, sem þér nú eigið á greindri jörð, fyrir kr. 250.000,00- - tvö hundruð og fimmtíu þúsund krónur -. Greiðslufyrirkomulag óskast rætt sérstaklega. Guðmundur svaraði ekki bréfinu og sjá hér síðar svar Kristjáns en um þetta leyti hefur einnig verið rætt við eiganda Vesturkots sem hann hefur svarað með handskrifuðu bréfi (varðveitt í ljósriti) á línustrikuðu blaði dagsett 7. apríl 1967 þar sem segir: Vegna þeirra viðræðna sem fram hafa farið að undanförnu um sölu á húsum sem við systkinin eigum á býlinu Vesturkot á Hvaleyri vil ég taka eftirfarandi fram: 1. Hús þau sem við eigum á jörðinni viljum við selja á kr. 460.000.00,-, fjögur hundruð og sextíu þúsund - , sem greiðist þannig: kr. 200.000.00,-, tvö hundruð þúsund - við undirritun samnings. Eftirstöðvarnar kr. 260.000.00,-, tvö hundruð og sextíu þúsund - greiðist með jöfnum afborgunum á fimm árum ásamt vöxtum. 2. Að ég fái að hafa sa. 1 hektara af suðvesturtúninu ásamt fjárhúsum til afnota fyrir mig til 1. október næstkomandi. 3. Að bæjarstjórn samþykki söluna og þau afnot af landinu sem fyrirhuguð eru. 4. Að séð verði ekki síðar en um næstu mánaðamót hvort samningar muni takast þar sem ég ætla að heyja túnið í sumar ef samningar takast ekki og þarf ég þá að bera áburð á það. Virðingarfyllst, Sigurður Gíslason Með þessu hafði Keili tekist að kaupa Vesturkot, húsið sem átti eftir að verða fyrsta félagsheimili klúbbfélaga. Svo ekki hefur Sigurður þurft að heyja túnið þetta sumar. Til eru bréf dagsett 12. júní það ár til bæjarstjórnar Kópavogs þar sem fram kemur að klúbburinn hafi 9


fengið allt ræktað land, um 25-30 hektara, á Hvaleyri sunnan Hafnarfjarðar til umráða fyrir starfsemina næstu ár að minnsta kosti, eins og það er orðað. Gerðar hafi verið ráðstafanir til þess að kaupa sláttuvélar og önnur nauðsynleg tæki svo eðlileg starfsemi þyrfti ekki að tefjast vegna tækjaskorts. Golfiðkun var þegar hafin á svæðinu og þá höfðu sex holur verið teknar í notkun en nánar er vikið að golfvallaþróun á Hvaleyri í sérstökum kafla hér síðar. ,,Tæplega þarf að geta þess að við mikla byrjunarörðugleika er að etja, og félagsgjöld, sem er eini tekjustofn klúbbsins, hrökkva ekki til að standa straum af nauðsynlegum greiðslum,” segir í bréfinu og síðan er þess farið á leit við bæjarstjórnina að hún styrki Keili um allt að 75 þúsund krónur. ,,Stjórnin er þess fullviss, að háttvirt bæjarstjórn tekur þessari beiðni vel, og væntir þess að málið verði fljótlega afgreitt í hæstvirtri bæjarstjórn,” segir í niðurlagi. Ekki er ljóst hvort klúbburinn fékk þessa peninga en víst er að þeir fiska allavega ekki sem ekki róa. Samkomulag Keilis og Hafnarfjarðarbæjar fól í sér þá skilmála, sem fyrr eru nefndir, að Keilir fengi keypta aðra þá hluta sem voru í einkaeigu þótt ekki sé það sérstaklega tilgreint í yfirlýsingu þeirri sem fyrr er getið og Hafnarfjarðarbær virðist hafa gefið út vegna Hvaleyrarinnar. Um skilmálana má lesa í fyrstu fundagerðabók Keilis þar sem Jónas Aðalsteinsson útskýrir þessi mál á aðalfundinum 16. nóvember 1971. Þar kemur fram að Keilir mætti vera á Hvaleyrinni næstu fimm árin ef forsvarsmönnum hans tækist að kaupa þær eignir sem bærinn ætti. Ef bærinn þyrfti að taka landið myndi hann greiða hluta klúbbsins að frádregnum 7% ársvöxtum. Hann sagði áríðandi að „ná saman við Hafnarfj. en þó betra að gera engan samning en slæman.“ Til er handskrifað blað dagsett 5. apríl 1967. Þar segir: Sem svar við tilboði yðar dags. 29/3 - 67 um kaup á Hvaleyri vil jeg taka fram að ég er reiðubúinn til að selja minn hlut í eignum og réttindum á Hvaleyri fyrir kr. 200.000.00.Tvö hundruð þúsund krónur.Virðingarfyllst, Kristján Steingrímsson Álfask. 40. Málin þróuðust síðan á þann veg að Kristján bauð Hafnarfjarðarbæ forkaupsrétt að hálflendunni ásamt ábúðarrétti, húsum og girðingum, fyrir 175 þúsund krónur og gaf út afsal fyrir þessum eignum á þessu verði þann 16. maí 1967. Þann 28. júní 1967 sendir Keilir Guðmundi Þ. Magnússyni kaupmanni bréf… (sjá bréfið hér fyrr). Guðmundur var kallaður Guðmundur hokk og átti verslun í Hafnarfirði sem hét Framtíðin. Guðmundur var fæddur á Hvaleyri árið 1900 og átti einnig vélsmiðju í bænum en var titlaður kaupmaður í bréfum frá Keili. Hann átti hálflenduna í óskiptri sameign á móti Kristjáni Steingrímssyni en hann vildi ekki skipta henni á móti Keili. Í bréfi frá klúbbnum sem er dagsett 28. júní 1967 og stílað er á Guðmund stendur meðal annars:

Hluti af samkomulagi Keilis og Hafnarfjarðarbæjar um golfvallarstæði var að klúbburinn keypti upp allar eignir á Hvaleyri. Hér er skriflegt svar frá Kristjáni Steingrímssyni um sölu hans á sínum sinn hlut. 10


Eins og yður hefir nú þegar verið tilkynnt munnlega, erum við orðnir eigendur að eignarhluta hr. Kristjáns Steingrímssonar í Hvaleyri við Hafnarfjörð og eigum hann, á sama hátt og Kristján áður átti, í óskiptri sameign með yður að hálfu - allt í samræmi við ákvörðun bæjaryfirvalda í Hafnarfirði frá í maí s.l. Við höfum áður tilkynnt yður, að við munum nýta okkar hluta eignarinnar strax nú í sumar. Með hliðsjón af því, að eignin er í óskiptri sameign, beinum við þeim tilmælum til yðar, að við skiptum sjálfir með okkur landi, túni og órækt, innan girðingar, og slítum þannig sameign okkar á þeim hluta Hvaleyrar. Bréfið er undirritað f.h. stjórnar Keilis af Jónasi A. Aðalsteinssyni formanni. Guðmundur svaraði ekki þessu erindi Keilisfélaga sem til dæmis sést af því að þann 10. júlí 1967 sendir Jónas formaður bæjarfógetanum í Hafnarfirði ósk um að fógetinn dómkveðji tvo sérfróða og óvilhalla menn, til skoðunar og matsgerðar svo sem að neðan greinir. Og þá kemur reifan málsins: Í maí s.l. urðum við eigendur að hálfri hálflendunni Hvaleyri við Hafnarfjörð í óskiptri sameign að hálfu á móti Guðmundi Þ. Magnússyni, kaupm., Hellisgötu 16, - allt samkvæmt ákvörðun bæjaryfirvalda í Hafnarfirði. Hafnarfjarðarbær á landið allt, en hefir leigt okkur helming þess, þ.e.a.s. þann hluta, sem Kristján Steingrímsson, Álfaskeiði 40, áður hafði. Afsöl Kristjáns til bæjarins er dags. 16.5. 1967, en samningar um kaupin munu hafa átt sér stað nokkru fyrr milli þeirra aðila. Landið innan girðingar er þannig í óskiptri sameign eins og áður greinir, og beindum við því til sameiganda okkar með bréfi dags. 28. 6. 1967, að við skiptum sjálfir landinu í samræmi við greind hlutföll og slitum þannig þeirri sameign. Því bréfi hefir Guðmundur ekki svarað. Því er þess óskað, að matsmenn lýsi sjálfstætt staðháttum á landinu innan girðinga, ræktun sem órækt, skipti því landi í tvo jafna hluta og segi til um hvorn hlutann hvor aðili skuli fá.

Forsvarsmenn Keilis, með Jónas A. Aðalsteinsson formann og lögmann í broddi fylkingar, þurftu að fara fyrir dóm með hluta af landaskiptum vegna uppkaupa klúbbsins á eignum. Keilir vann málið. 11


Við mat á þessu er þess vænzt að matsmenn hafi í huga þær megin reglur, að skiptilínan sé sem beinust, að land beggja liggi að heimreið og húsum og jafnframt að lönd megi liggja sem mest saman. Í sambandi við síðast talda atriðið skal þess getið, að við eigum að mestu hús á Vesturkoti og höfum nú það land á leigu frá Hafnarfjarðarbæ. Lögð er áhersla á, að matsmenn gefi eftirtöldum mönnum sannanlega kost á að vera við er matsgerð fer fram, Guðmundi Þ. Magnússyni, fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar og undirrituðum. Nauðsynlegt er að hraða matsgjörð þessari. Vanda átti til verka og þá fengu Keilismenn uppdrátt sem er frá því fyrir stofnun klúbbsins. Hann sýnir allt girðingarnetið kringum alla skikana á Hvaleyrinni. Uppdráttinn er ekki að finna í skjalasafni Keilis. Bæjarfógetinn í Hafnarfirði kvaddi til tvo óvilhalla menn, þá Sigurgeir Guðmundsson og Sigurð Hall Stefánsson, til þess að skipta svæðinu að því er virðist þannig að Keilir fengi Vesturkotssvæðið en Guðmundur sinn part. Atburðinum er þannig lýst: Þann 25. júlí 1967 kl. 10 árdegis vorum við fyrst mættir á staðnum. Þar voru og mættir, hr. Guðm. Þorkell Magnússon, kaupm. Hellisgötu 16, Hafnarfirði, hr. lögm. Hrafnkell Ásgeirsson, Hafnarfirði, hr. Jónas Aðalsteinsson, hdl. Stekkjarflöt 16, Garðahreppi, hr. Jóhann Níelsson, hdl. Garðahreppi, hr. Sigurbergur Sveinsson, Hafnarfirði og hr. Sigurður Oddsson, byggingarfulltrúi í Hafnarfirði. Viðstöddum var lesin matsbeiðni og dómkvaðning. Dómkvaðningu á okkur sem matsmönnum var ekki mótmælt en hr. Guðm. Þ. Magnússon sagðist mótmæla matsbeiðninni og jafnframt mótmæla því og banna, að mat eða skipti á Hvaleyrarlandi færu fram.

Jónas A. Aðalsteinsson fyrsti formaður Keilis á fyrri stofnfundinum. Hluti myndar úr safni Keilis.

Ekki varð Guðmundi að ósk sinni og héldu matsmenn sínu striki þarna á vettvangi. Matsgerðin er dagsett 31. ágúst 1967. Voru 9,5 hektarar til skiptanna og fékk Guðmundur syðri hlutann, alls 4,8 hektara, en Keilir norðurhlutann, alls 4,7 hektara. Guðmundur fór sem sagt í mál við Golfklúbbinn Keili eftir þetta en hefur ef til vill ekki gert sér grein fyrir að þar var við útsjónarsama unga menn að eiga sem sumir voru starfandi lögmenn, til dæmis Jónas Aðalsteinsson sem varðist fimlega fyrir rétti. Í greinargerð sem lögð var fram í fógetarétti 30. október 1967 sést vel hvernig forsvarsmenn Keilis tókust á við sækjandann í málinu. Greinargerðin hefst á þessum orðum: „Ég sæki þing í máli þessu fyrir hönd gerðarþola og legg fram…“ og síðan eru tilgreind nokkur gögn sem ætlað er að styðja málstað Keilis sem var gerðarþolinn. Og auðvitað var þess krafist að öllum kröfum Guðmundar gerðarbeiðanda yrði hafnað „og gerðarþola tildæmdur málskostnaður að mati hins virðulega réttar.“ Bent er á að Hafnarfjarðarbær hafi nýtt sér forkaupsrétt að eignarhlutum Kristjáns Steingrímssonar og jafnframt tilkynnt Guðmundi að bærinn ætlaði sér að leigja Keili Hvaleyrina og hafi því sagt honum upp öllum hans réttindum á eyrinni. En með því að golfklúbburinn hafði þurft að kaupa eignir Kristjáns á Hvaleyri var hann orðinn sameigandi Guðmundar „að greindum eignum í óskiptu“ eins og það er orðað í greinargerðinni. Í kjölfarið fór fram mat á eigninni af hálfu dómkvaddra matsmanna enda hefði Guðmundur ekki svarað bréfi þar sem kylfingar buðu þann kost að aðilar skiptu sjálfir með 12


sér þeim túnum sem um ræddi. Matið fór fram þann 25. júlí 1967 sem fyrr segir í samræmi við landaskiptareglur. Guðmundur mótmælti niðurstöðunni „sem að sjálfsögðu er algjör fásinna, þar eð hér fór fram eina rétta leiðin til slita á réttindum að landi í óskiptri sameign,“ eins og segir í greinargerð Jónasar fyrir fógetaréttinum. Bæjaryfirvöld samþykktu matsgerðina og sögðu að kylfingum væri heimilt að yfirtaka þann hluta túnsins sem hinir dómkvöddu matsmenn höfðu talið að ætti að tilheyra Keili. Jónas Aðalsteinsson formaður reifar málsatvik í ræðu sinni á aðalfundinum 11. febrúar 1968 í kjölfar þess að Guðmundur reyndist svo ófús til skiptanna að dómkveðja þurfti matsmenn til þess eins og að framan greinir. Jónas segir að tekist hefði að kaupa hálfa hálflenduna Hvaleyri af Kristjáni Steingrímssyni en hinn helminginn hafði Guðmundur í óskiptri sameign við Kristján. Í dómsmálinu kom reyndar einnig fram að Kristján hefði ítrekað reynt að selja Guðmundi sinn hluta en án árangurs. Þegar niðurstaða lá fyrir varðandi skiptin, segir Jónas, um það hvernig Keilismenn gátu náð undir sig landi fyrir þær 9 holur sem áformaðar voru fyrir fyrsta völlinn: …tókum við það land, sem okkur var þannig úthlutað í okkar hendur með samþykki bæjarins, girtum það og settum niður 3 nýjar brautir svo brautafjöldinn varð þá þegar sá, sem hann verður endanlega. Þetta var gert í skjóli nætur sem fyrr segir. Guðmundur mætti á svæðið en ákvað þá að láta gott heita að sinni. Ekkert gerðist í málinu þangað til hann ákvað að stefna Keili í máli því sem hér er rakið. Miðað við hvernig Jónas lýsir framvindunni virðist Guðmundur hafa áttað sig á því að ekki væri mikil von til þess að hann bæri sigur úr býtum í viðureign sinni við klækjarefina í Keili en ákveðið samt að gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Hann svaraði engum bréfum og fór ekki á stúfana fyrr en Keilismenn höfðu girt sinn hluta af og stefndi þá klúbbnum fyrir dóm. Í munnlegum málflutningi sínum í dómssal heldur Jónas því eindregið fram að Guðmundur hafi með aðgerðarleysi sínu firrt sig öllum rétti og bendir á dómafordæmi máli sínu til stuðnings. Og fleira er tínt til. Gaman er að geta þess hér að ræða Jónasar fyrir rétti eða drög að henni, er til á bleikum spjöldum sem hann hefur haft sér til halds og trausts. Keilir hafði fullan sigur í málinu. Og landvinningar Keilismanna héldu áfram. Afsal Sumarliða Andréssonar fyrir Hjörtskot og Halldórskot er dagsett 4. apríl en það gilti fyrir allar fasteignir og réttindi yfir þeim „þar með talin hlaða, þak á fjárhúsi og girðingar, svo og hugsanlegar bætur vegna niðurrifs á girðingum í Halldórskoti“. Þetta með „þak á fjárhúsi“ er nokkuð athyglisvert og má spyrja hvort það hafi staðið eitt sér og án veggja en það er ekki rakið nánar í heimildinni. Kaupverðið var 50 þúsund krónur sem skyldi greiðast á fimm árum með 10 þúsund króna greiðslu 31. maí ár hvert. Og samningar við Guðmund Þ. Magnússon virðast einnig hafa tekist í apríl 1968 því þann 11. þess mánaðar er haldinn fundur í stjórn Keilis í Vesturkoti þar sem fyrir lá tilboð frá Guðmundi um kaup klúbbsins á hans hluta af fasteignum á Hvaleyri og var samþykkt að fela þeim Jónasi formanni og Jónasi Níelssyni að semja við Guðmund. Og þarna virðist ýmislegt vera að ganga upp því á sama fundi er þeim falið að semja við Helga Þórðarson um kartöflugeymslu og við Þórð Björgvin Þórðarson um skúrbyggingu, en bæði þessi mannvirki voru í landi Hvaleyrar, auk samninga við Sumarliða um hans eignir sem fyrr er tilgreint. Guðmundur Þ. Magnússon undirritaði afsal fyrir sínum hluta þann 25. júlí 1968, þ.e. 50% í hálflendunni Hvaleyri með íbúðarhúsi, öllum útihúsum, girðingum og öðru sem fylgja bæri og var kaupverð þá að fullu greitt en upphæð þess er ekki að finna í afsalinu. Nú höfðu tekist samningar við alla ábúendur á Hvaleyrartorfunni að undanskildum Ársæli í Sveinskoti en það hús var í eigu Hafnafjarðarbæjar. Samantekið hafði Golfklúbburinn Keilir því keypt hálflenduna Hvaleyri í tvennu lagi af Guðmundi Magnússyni og Kristjáni Steingrímssyni, Vesturkot af Sigurði Gíslasyni, Halldórskot og Hjörtskot af Sumarliða Andréssyni, kartöflugeymslu af Helga Þórðarsyni og skúrbyggingu af Þórði Björgvini Þórðarsyni. Allar voru eignirnar nema Vesturkot brotnar niður og fjarlægðar. Framundan var gerð golfvallar. 13


Val á vallarstæði Stofnendur Golfklúbbsins Keilis voru 123 talsins svo ljóst er að áhugi fyrir golfi hefur verið umtalsverður á þessum tíma. Fljótlega var farið að litast um eftir vallarstæði en tveir staðir komu til greina; Hvaleyrin í Hafnarfirði og spilda úr landi Vífilsstaða í Garðahreppi. Hvaleyrin varð síðan fyrir valinu þótt enn væru ábúendur á sumum smájörðunum á svæðinu en forsvarsmönnum Hafnarfjarðarkaupstaðar þótti sómi af því að nýta eyrina til útivistar eins og golfiðkunar. Kemur fram í riti klúbbsins frá 1967 að mest eigi félagsfólk í Keili Kristni Guðmundssyni bæjarstjóra að þakka en hann hafi sýnt ýmsu því mikinn skilning sem varðaði samskipti klúbbsins og bæjarfélagsins. Í fyrstu fundagerðabók Keilis skrifar Hafsteinn Hansson greinargerð þegar hann hefur sett punkt eftir fundargerð fyrsta aðalfundarins árið 1968. Hefur Hafsteinn fært fundargerðirnar inn í bókina eftir blöðum fundarritara, eins og það er orðað en sérstök gerðabók var ekki haldin fyrstu misserin. Þakkar hann Rúnari Guðmundssyni fyrir það sem varðveist hefur af fundargerðum og telur rétt að skrá í gerðabókina „nokkur atriði sem ekki hafa verið formlega skráð, en eru samt þýðingarmikill þáttur í byrjunarsögu klúbbsins“: Vil ég þá fyrst til nefna hið höfðinglega framlag Hafnarfjarðarbæjar er bæjarráð undir forustu Kristins Guðmundssonar bæjarstjóra leigðu klúbbnum Hvaleyrina, en Hvaleyrin er að fróðra manna áliti sérstaklega vel fallin til golfleiks. Þótt Hafnarfjarðarbær teldi sig hafa sagt þáverandi leigjendum á Hvaleyrartorfunni upp leigunni með löglegum fyrirvara voru ábúendur ekki á eitt sáttir með það, svo að klúbbstjórnin mátti, auk þess að greiða bændum þessum fasteignir þeirra á landinu, vinna þá á sitt mál með að þeirra (þ.e. golfklúbbsins) væri rétturinn. Hefði ekki klúbburinn átt jafn snjallan formann og raun varð á og hefði klúbburinn ekki notið jafn mikils stuðnings og velvilja þeirra bæjar- og sveitarstjóra, Kristins Guðmundssonar, Ólafs Einarssonar og Hjálmars Ólafssonar hefði þessi draumur okkar golfmanna í Keili aldrei orðið að veruleika. Ennfremur ber að þakka Magnúsi Guðmundssyni fyrrverandi Íslandsmeistara hans góða framlag við skipulagningu vallarins. Þá hefur það heldur ekki komið fram hér að framan að klúbburinn tók íbúðarhúsið Vesturkot fyrir klúbbhús og hefur þegar breytt herbergjaskipan þar í samræmi við þarfir sínar. Ársæll bóndi var strax vorið 1967 ráðinn starfsmaður á golfvellinum og ennfremur var strax það vor keypt brautar- og flatarsláttuvél. Klúbbfélagar lögðu fram sjálfboðavinnu við að hreinsa burt gamlar girðingar og við að fjarlægja ónýta kofa og drasl, ennfremur var klúbbhúsið málað. Þurfti Keilisfólk að hafa talsvert fyrir því að fá allt land sem til þurfti en það hafðist að lokum eins og síðar verður rakið og vísað er til hér að framan og golfiðkun hófst á Hvaleyri sumarið 1967, fyrst á 6 holu velli.

14


Magnús Guðmundsson frá Akureyri, sem hannaði fyrsta völlinn, teiknaði síðan 9 holu völl sem var í notkun til 1972 en þá var tekinn í notkun nýr 12 holu völlur sem Svíinn Nils Skjöld hafði verið fenginn til að teikna. Flatir voru slegnar þar sem sléttir blettir voru fyrir og golfklúbburinn fékk íbúðarhúsið að Vesturkoti undir félagsheimili. Draumurinn var þó um 18 holu völl og strax á fyrsta ári voru landvinningaumleitanir hafnar við Hafnarfjarðarbæ, meðal annars um svæði sem ekki var nýtt norðvestan við Sædýrasafnið með það að markmiði að hafa þar æfingasvæði. Þá var Hvaleyrin komin inn á aðalskipulag Hafnarfjarðar sem golfvallarsvæði sem olli þáttaskilum í starfsemi klúbbsins. Ljóst er að staðarvalið hefur varla verið tilviljun ein. Vellinum var valinn staður á svæði þar sem var að finna ævaforn tún sem gerði það að verkum, að mati forsvarsmanna Keilis, að betri brautir og flatir væri varla nokkurs staðar að finna á landinu. Jarðvegur gerður úr blöndu af mold og sandi væri frá náttúrunnar hendi eins og best varð á kosið undir golfvöll og er þess getið í riti klúbbsins frá 1984 að útlendingar sem hafi komið í heimsókn hafi gefið vellinum afar góða umsögn. Þá hafi garðyrkjustjóri lýst ánægju með umgengni á svæðinu og það hafi klúbbfélagar kunnað að meta enda hafi verið mikill metnaður lagður í fegrun og snyrtingu Hvaleyrarinnar. Meðal fleiri helstu kosta má nefna að völlurinn stendur lágt yfir sjávarmáli og því hægt að leika golf á vellinum við góðar aðstæður frá apríl og fram í október. Hörðustu golfarar leika þar allt árið. Sandur er reyndar ríkur þáttur í sögu Hvaleyrarinnar og þar voru gríðarlegar sandnámur á fyrri tíð sem Guðmundur hokk og fleiri nýttu. Til dæmis hefur verið giskað á að staðir eins og flötin á 17. holu séu í raun óhreyfðir staðir allt frá landnámi. Að minnsta kosti hefur jarðvegi þar ekki verið bylt eftir að golfvallargerð hófst á svæðinu og sáð var í flötina eins og hún var á þeim tíma. Örnefni eins og Sandbrekknatún og Sandbrekkur eru ágætt vitni um þetta. Og raunar gildir það um eyrina að mörgu leyti því þar þóttu afar ákjósanlegur námur. Jónas Aðalsteinsson man til dæmis eftir því úr formannstíð sinni að þáverandi bæjarverkfræðingur hafði gefið leyfi fyrir því að girðing væri rifin á vellinum til þess að fara mætti þar innfyrir til að sækja malarefni. Jónasi hugnaðist að sjálfsögðu ekki að hluta golfvallarins biðu slík örlög og hringdi í bæjarverkfræðinginn sem leit svæðið ekki kylfingsaugum og taldi óhugsandi að Keilisfólk gæti látið sér detta í hug að bærinn ætlaði að láta það hafa allt þetta efni! Jónas hafði þá samband við Kristin bæjarstjóra sem tók í taumana svo ekkert varð úr rýrnun Hvaleyrar af þessum sökum í þetta sinn. Raunar má finna gamlar námur á Hvaleyri og á fimmtugasta starfsári Keilis má nefna að gamlar námur mynda landslagið á 11. braut og verðandi 13. holu. Einnig er rifjað upp þegar Sigurður Héðinsson var formaður og Jóhann Bergþórsson forseti bæjarstjórnar en sá síðarnefndi var einnig umsvifamikill verktaki eins og mörgum er kunnugt. Voru þá á ferð vörubílar á vegum Jóhanns og vantaði bílstjóra þeirra að finna losunarstað fyrir múrbrot og grjót en höfðu ekki haft erindi sem erfiði. Sigurður Keilisformaður taldi felast í þessum bílförmum umtalsverða möguleika á landvinningum fyrir klúbbinn og beindi umferðinni niður að bátaskýlunum þar sem efninu var sturtað. Ekki voru fyrir hendi aðrar og formlegri heimildir til þessarar landfyllingar og mun það hafa komið sér frekar illa fyrir forseta bæjarstjórnar að hann var talinn standa fyrir þessari einföldu og nærtæku lausn við efnislosun og það í trássi við sjálfa bæjarstjórnina! Hafði hann samband við formann Keilis með þessum orðum: „Hvurn andskotann ertu búinn að gera?!!!“ Jónas formaður Keilis hafði þó haft fleiri járn í staðarvalseldinum áður en Hvaleyrin varð fyrir valinu. Til er afrit bréfs sem Jónas skrifar stjórnarnefnd ríkisspítalanna þann 15. mars 1967. Efni þess var: Umsókn um leigu lands úr Vífilsstaðalandi undir golfvöll. Þar var vísað til samtals við framkvæmdastjóra Ríkisspítalanna um að stofnfélagar hefðu falið nýkjörinni stjórn Keilis á stofnfundi að finna land undir starfsemi félagsins. Það þyrfti að vera á nokkuð stóru og ræktuðu landi en lítið væri um slík landssvæði í nágrenni þeirra sveitarfélaga sem að klúbbnum stæðu, þ.e. sem ekki væru frátekin sem byggingarland. Síðan segir:

15


Fyrst var reynt að fá land undir golfvöll Keilis við Vífilsstaði. Hér má sjá uppdrátt sem Júlíus Sólnes gerði af brautum á þeim slóðum þar sem golfvöllur GKG er nú. „Við höfum frétt á skotspónum, að þér hugsið yður að leggja niður búskap á Vífilsstöðum og því er það von okkar, að hagsmunir yðar og félags okkar falli saman að einhverju eða öllu leyti. Því snúum við okkur nú til yðar með formleg tilmæli um að fá á leigu land úr Vífilsstaðalandi undir starfssemi félags okkar. Meðfylgjandi bréfi þessu eru frumdrög um tillögu um það hvaða land væri hentugt í þessu sambandi. Uppdrátturinn var gerður af Júlíusi Sólnes verkfræðingi en hann var af formanni Keilis talinn hafa einna mesta þekkingu á golfvallargerð hérlendis á þessum tíma. Hann segir uppdráttinn fyrst og fremst hafa verið gerðan til þess að sýna hvernig golfvöllur gæti litið út á þessu svæði. Um var að ræða 9 holu völl en í bréfinu segir Jónas að ef Ríkisspítalar vildu gefa eftir eitthvað meira af landi þá væri eflaust hægt að koma fyrir 18 holu velli. En alla möguleika mætti ræða. Eini gallinn, sem stjórn Keilis sá á þessu landi, var tilbreytingarleysi í landslaginu og því þyrfti að planta þar miklum trjágróðri til þess að auka fjölbreytni á vallarsvæðinu. „Við væntum þess, ef til kemur, að þér hafið ekki á móti slíkri ræktun,“ segir Jónas og bætir við að ekki sjái Keilisfólk ástæðu til þess að ræða málið frekar í bréfinu en ítrekar umleitan sína og væntir svars við fyrsta hentugleika. Nú má spyrja hvort þarna hafi stjórnin verið búin að gera upp hug sinn og sett stefnuna á Hvaleyrina þannig að þessi ósk um viðræður við ríkisspítala um Vífilsstaði hafi meira verið í orði en á borði? Í það minnsta rifjar Sigurbergur Sveinsson árið 2016 upp fund þeirra Jónasar formanns með forstjóra Ríkisspítala í kjölfarið á bréfinu sem nefnt var hér að framan. Þeir voru mættir til fundarins að eigin mati í afar göfugum tilgangi. 16


Erindi frá Keili til Stjórnarnefndar Ríkisspítalanna um svæði undir golfvöll við Vífilsstaði. Það fékk neikvætt svar og beindu menn því sjónum sínum að Hvaleyri í Hafnarfirði. Eftir fundinn voru þeir Sigurbergur og Jónas hins vegar sammála um að forstjórinn hefði haft það álit á þeim félögum að þeir væru ekki alveg eðlilegir: Að ætla sér að slá einhverjar kúlur á svona flottri ríkisjörð! Það hefur því væntanlega ekki komið þeim á óvart svarbréfið sem stjórn Keilis fékk og innihélt afsvar frá Ríkisspítölum með bréfi dagsettu 12. 5. 1967 þar sem segir að ákveðið hafi verið að rekstri Vífilsstaðabúsins verði haldið áfram a.m.k. til vorsins 1968 og því ekki mögulegt að semja um leigu landsins að sinni. Hins vegar er áhugavert að þann 9. febrúar skrifar Jónas formaður bréf til The United States Golf Association (Golfsamband Bandaríkjanna) sem hefst á þessum orðum: Dear Sirs, We represent a golf club which is recently established in Gardahreppur, in the vicinity of Reykjavík, the capital of Iceland. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að klúbburinn var ekki formlega stofnaður fyrr en níu dögum síðar. En miðað við hversu vel gekk að koma starfsemi klúbbsins af stað strax um vorið er ágætt að nota þetta bréf til dæmis um það að forkólfarnir að stofnun Keilis voru afar áhugasamir um framgang málsins og ákefð þeirra er gott dæmi um þann metnað og dugnað sem gjarnan einkennir slíka frumkvöðla. En aftur að bréfinu. Þar er bent á að þótt golf hafi verið stundað á Íslandi frá árinu 1934 búi landsmenn að afar takmarkaðri þekkingu

17


Bréf Jónasar A. Aðalsteinssonar til Golfsambands Bandaríkjanna þar sem hann kynnir sig sem fulltrúa nýlega stofnaðs golfklúbbs á Íslandi og óskar leiðsagnar um golfvallargerð. Bréfið er skrifað nokkru áður en Keilir er stofnaður svo hendur hafa staðið talsvert langt fram úr ermum á þessum tíma.

á gerð golfvalla og þá sérstaklega flata. Síðan er tekið til þess að hvar sem Keilisfólk leiti hófanna um upplýsingar á þessum sviðum beri Bandaríska golfsambandið ævinlega á góma. Í ljósi þess óskar Jónas eftir góðum ráðum og vonast til að heyra frá forsvarsmönnum sambandsins sem fyrst. Það stóð vissulega ekki á svari frá Golfsambandi Bandaríkjanna. Það er dagsett 13. febrúar 1967. Þar segir að sambandið sinni ekki hönnun golfvalla og geti því ekki orðið að liði beinlínis á því sviði en í svarbréfinu er bent á að best sé að hafa samband við golfvallarhönnuði og fylgir því langur listi yfir slíka aðila og einnig um rit sem efnið varða auk leiðbeininga um flatagerð. Í skýrslu Jónasar A. Aðalsteinssonar formanns fyrir árið 1968 kemur fram að um vorið það ár hafi Keilir fengið í hendur allt ræktað land á Hvaleyri og þann 26. maí hafi golfvallarlagningu í meginatriðum verið lokið en þar var unnið í samræmi við teikningar Magnúsar Guðmundssonar íþróttakennara á Akureyri. Vallarnefndina skipuðu á þessum upphafstímum þeir Pétur Auðunsson og Ingólfur Helgason. Vinna Magnúsar Guðmundssonar við skipulagningu golfvallarins á Hvaleyri naut stuðnings íþróttafulltrúa ríkisins, Þorsteins Einarssonar. Hafði hann verið í samskiptum við Jóhann Níelsson hjá Keili og í bréfi Jónasar formanns til Þorsteins er vísað til þeirra samskipta og farið fram á að íþróttafulltrúinn greiði reikning frá Magnúsi að fjárhæð 26.730 krónur sem Keilismenn töldu réttmæta, eins og Jónas segir í bréfi sínu. Magnús sé væntanlegur að norðan innan fárra daga og þætti Jónasi gott ef hann mætti vísa honum til Þorsteins varðandi greiðsluna. Nefnir hann sérstaklega að verk Magnúsar þyki vel unnin og lausn hans mjög góð. Um leið er Þorsteini þakkaður atbeini hans að lausn málsins. Jónas formaður skrifar Magnúsi bréf dagsett 2. apríl 1968. Þar vísar hann til samtals við Magnús varðandi vallargerðina og lýsir almennri ánægju Keilisfélaga með tillögurnar. Segir Jónas að nú sé þess einungis beðið að framkvæmdir geti hafist á vellinunum en vægast sagt líti illa út með vorverk sunnanlands vegna mikilla frosta. ,,En vonandi kemur vorið eins og vanalega“ segir Jónas að lokum og sendir Magnúsi sínar beztu kveðjur.

18


Þróun golfvallar á Hvaleyri Í ræðu Jónasar formanns á fyrsta aðalfundinum þann 11. febrúar 1968, sem til er skrifuð í gögnum Keilis, segir: Eins og flestum ykkar er kunnugt, náðust samningar við Hafnarfjarðarbæ um að við fengjum Hvaleyri undir golfvöll. Samþykkt bæjarráðs er dags. 27. apríl og bæjarstj. 3. maí 1967. Undirbúningur að golfvallargerð á því landi sem við fengum afhent hófst þá þegar og var að flestu leyti um sjálfboðavinnu að ræða. Lögðu þar margir hönd á plóginn. Við keyptum flatarsláttuvél, brautarsláttuvél og önnur nauðsynleg golfvallartæki.Við réðum Ársæl bónda í Sveinskoti okkur til aðstoðar við framkvæmdir á vellinum og fengum jafnframt afnot af dráttarvél hans til sláttar á brautunum. Ársæll vann mjög gott starf sl. sumar og væntum við þess að við fáum notið starfskrafta hans nú næsta sumar einnig. Sá hluti Hvaleyrar, sem fyrst var tekinn í notkun var allt land Vesturkots og Halldórukots. Á þeim hluta gátum við komið fyrir 6 brautum. Síðan fengust næstu þrjár holur eftir að landaskipti voru um garð gengin og var völlurinn þá orðinn 9 holur. Það létti verulega á þeim holum sem fyrir voru enda óx aðsókn að honum verulega strax fyrsta árið. Þess

Nokkrir af frumherjunum á góðri stundu. F.v.: Pétur Auðunsson, Eiríkur Smith, Sigurbergur Sveinsson og Knútur Björnsson. Mynd úr safni Keilis. 19


má geta að fyrstu árin lögðu margir hönd á plóg og ef til vill má segja að það hafi átt við í þeirra orða fyllstu merkingu um Pétur Auðunsson, sem jafnan var kenndur við vélsmiðju sína, en hann sá lengi vel um allt viðhald á vélum og tækjum klúbbsins fyrstu árin. Jónas ræddi aðferðir við uppbyggingu flata á framhaldsstofnfundinum 1967 og sagði Keilismenn helst hallast „að því að afla beri svokallaðs Kentucky Blue Grass, sem er mjög litfögur og harðgerð grastegund og nú notuð á flatir á golfvelli við Sandgerði.“ Um þróun golfvallar á Hvaleyri segir meðal annars á vef Keilis: Sumarið 1967 var farið að leika golf á Hvaleyrinni; í fyrstu á 6 holu velli og slegnar flatir, þar sem sléttir blettir voru fyrir. Eftir landnámið á Hvaleyri og mestu byrjunarörðugleikana var skipulagður þar 9 holu völlur, sem var tilbreytingarríkur og talsvert erfiður. Svo vel hagar til á Hvaleyri, að hægt var að finna slétta bletti fyrir flatir til bráðabirgða, en fljótlega var gengið í að byggja upp teiga. Félagið eignaðist traktor og brautarsláttuvél og sömuleiðis flatarsláttuvél og eftir tíu ára fjárhagsörðugleika, er sá vélakostur nánast óbreyttur. Magnús Guðmundsson frá Akureyri, fyrrum Íslandsmeistari í golfi, teiknaði 9 holu völlinn, sem var í notkun fram í júní 1972. Þá var tekinn í notkun nýr 12 holu völlur, sem félagsmenn höfðu 1971 samþykkt að láta Svíann Nils Skjöld teikna. Ástæðan var sú, að mönnum þótti landsvæðið á Hvaleyri ekki nýtast sem skyldi og yrði hægar að fá viðbótarland fyrir 6 holur en 9. Nýi 12 holu völlurinn var í fyrstu ívið styttri en verið hafði og víða leikið á bráðabirgðaflatir. Á síðustu fjórum árum hefur verið unnið að gerð teiga og flata svo sem fjárhagslegt bolmagn leyfir, en svo dýr eru þessi mannvirki, að ofætlun hefur verið að ráðast í meira en eina flöt á ári, – enda skiptir kostnaður við hverja flöt hundruðum þúsunda. Á 10 ára afmælinu stendur uppbygging vallarins þannig, að fjórar flatir hafa verið byggðar upp eftir beztu getu; á þremur stöðum notast flatir frá náttúrunnar hendi, en fimm flatir á ennþá eftir að byggja upp. Helmingur teiganna hefur verið byggður upp, svo viðunandi má telja, – á sex stöðum er ennþá notazt við meira og minna slæma bráðabirgðateiga og fremri teiga er yfirleitt alveg eftir að gera. Bunkera eða sandglompur, sem teljast sjálfsagður hlutur í golfvallararkitektúr, á einnig að mestu leyti eftir að gera. Í upphaflegri greinargerð um golfvöll á Hvaleyri sem Sigurður Guðmundsson samdi segir hann frá því að formaður klúbbsins hafi falið honum að skipuleggja völlinn og hafi hann unnið að því sumarið 1967. Sigurður gerði þrjá uppdrætti og var sá síðasti samþykktur sem besta lausnin. Hann lýsir landinu þannig að þar sé gamalt vel gróið tún, um 25 hektarar, með sjó á þrjá vegu sem geri vallarstæðið skemmtilegt til golfiðkunar. Kveðst hann við hönnun sína hafa reynt að nýta ströndina sem best. Vegurinn að Vesturkoti, eða klúbbhúsinu, skipti landinu til helminga sem hafi nokkur áhrif á brautir 1 og 6. Síðan lýsir Sigurður hverri holu og leiðinni að henni. Vart er ástæða til að rekja allar þær lýsingar hér en þó má til gamans taka með þá níundu sem var par 3: Teigur brautarinnar er ofar í landinu, norðan við 8. braut. Flötin liggur í 138 m fjarlægð með þrjár glompur sér til varnar. Flötin er mjórri að framan, en þar eru tvær glompur sem gera „rúllubolta-menn“ gráhærða. Glompa situr svo að aftan hægramegin við flötina og er henni ætlað að gleypa „Slæsara“. Nils Skjöld kom til skjalanna þegar golf hafði verið leikið á Hvaleyri í 5 ár en hann hannaði meðal annars Grafarholtsvöll og Hvaleyrina hér á landi en hann var einnig annar hönnuða hins konunglega golfvallar við Drottningarhólm, bústað sænsku konungsfjölskyldunnar í Svíþjóð og margra fleiri rómaðra valla. Á golfvelli Keilis tók hann við boltanum af Magnúsi Guðmundssyni sem hannaði upphaflega 9 holu völlinn. Skjöld hannaði 12 holu völl. Síðar var völlurinn auðvitað stækkaður í 18 holur en þá eftir hönnun Hannesar Þorsteinssonar sem kemur við sögu Keilis á fleiri sviðum, meðal annars fyrir athyglisvert bréf sem hann skrifaði 20


klúbbnum þá aðeins 16 ára að aldri og getið er hér annars staðar í þessu riti, eða um það leyti sem hann hóf golfvallahönnun með því að setja mark sitt á völlinn á Akranesi. Skjöld kom til Íslands á eigin vegum árið 1972 og bauðst þá til þess að gefa Íslendingum góð ráð varðandi gerð golfvalla. Golfsamband Íslands blés til fundar á Hótel Loftleiðum og bauð þangað formönnum allra golfklúbba landsins og vallarnefndarmönnum þeirra. Fulltrúi Keilis á þeim fundi var Sigurður Héðinsson formaður, en Skjöld mun hafa boðist til þess að teikna golfvelli á Íslandi án endurgjalds ef Golfsambandið greiddi flug og uppihald fyrir hann og eiginkonu hans meðan þau dveldu hér á landi. GSÍ samþykkti tilboðið og eftir það vann Nils Skjöld frumteikningar og lagði til breytingar á Hvaleyrarvelli, Garðavelli Golfklúbbsins Leynis og Leiruvelli Golfklúbbs Suðurnesja. Sagt er frá þessu í ritinu Golf á Íslandi Upphafshöggið og þar kemur einnig fram að golfvöllur Keilis hafi verið stækkaður úr 9 holum í 12 veturinn 1973 samkvæmt ráðleggingum Skjölds. Eins og fyrr er sagt frá var bókað á fundi stjórnar Keilis þann 6. apríl 1972 að Sigurður Héðinsson formaður myndi fara á fund sem haldinn yrði með hinum sænska golfvallarsérfræðingi Nils Skjöld. Næst er bókað í gerðabók klúbbsins að þann 29. júní hafi verið haldinn almennur félagsfundur í Keili þar sem fundarefnið var nýskipan vallarins samkvæmt tillögum Skjölds um 12 holu völl. Á þessum fundi var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að breyta vellinum í samræmi við tillöguna og stjórninni falið að hefja framkvæmdir. Þann 13. október er síðan bókað á stjórnarfundi að teikningar af nýja vellinum hafi verið sendar til Golfsambands Íslands til staðfestingar þannig að framlag fáist til framkvæmdanna úr Íþróttasjóði. Fjallað er um komu Skjölds hingað til lands og afrakstur samvinnunnar við hann í ágætri grein í Alþýðublaðinu þann 27. maí 1972: Um miðjan mánuðinn barst golfklúbbnum Keili bréf frá sænska golfvallaarkitektinum Nils Skjold ásamt tveimur ágætis tillögum að nýju vallarskipulagi á svæði félagsins á Hvaleyri. Önnur tillagan virðist mun álitlegri, enda þótt báðar séu góðar. Þar gerir Skjold ráð fyrir 12 holum (brautum) og reynir að nýta eftir beztu getu þær náttúruhindranir og flatir, sem þegar eru fyrir. Bæði 9. og 6. flöt eiga að liggja nálægt golfskálanum, til að auðvelda mönnum að leika hálfan hring eða fullan 18 holu hring. Nýting svæðisins verður mjög góð með þessu 12 holu skipulagi auk þess sem blindholum verður útrýmt að mestu. Í dag er það einn höfuðgalli á Hvaleyrarvellinum, að mörg teighögg eru blind og svæðið illa nýtt á jöðrunum. Ágætt æfingasvæði yrði sunnan vegar, þar sem núverandi 1. braut liggur og virðist þetta atriði vera einn höfuðkostur 12 brauta tillögu Skjold. Þeir, sem þegar hafa skoðað tillöguna, eru mjög sama sinnis og ég, og er augljóst, að 12 brauta tillagan á mun meira fylgi að fagna. Samanlögð lengd brauta, þ.e. miðað við allar 18 í fullri umferð, er um 5.800 m, sem er mjög hæfileg að mínum dómi. Undanfarin ár hefur þróunin í vallargerð stefnt í þá átt að gera vellina þrengri, styttri ásamt því að flatir minnka. Þessi völlur yrði því með þeim lengstu eftir 2-4 ár. Keilismenn eru þegar farnir að leggja á ráðin um, hvenær hefjast skuli handa og almennur 21

Tveir góðir, Sigurður Héðinsson og Júlíus R. Júlíusson. Mynd úr safni Keilis.


félagsfundur tekur ákvörðun í vallarmálunum mjög bráðlega. Naumast er þó að búast við, að framkvæmdir hefjist fyrir alvöru, fyrr en í haust en breytingin ætti að vera komin í gagnið strax næsta vor. Af þessum fyrstu teikningum frá Nils Skjold, síðan hann var hér á ferð snemma í vor er full ástæða til bjartsýni um framhaldið. Ég er viss um, að það framtak, sem fólgið var í því að fá Skjold hingað á nýjan leik, eftir 15 ára fjarveru, á eftir að skapa aukna golfmenningu og áhuga hér á landi. Bygging golfvalla er kostnaðarsöm og markviss skipulagning getur sparað hundruðir þúsunda króna og ýmsar tafir á framkvæmdum. Nú bráðlega er von á tillögum Skjold að nýju vallarskipulagi á Hólsvelli í Leiru og á velli Leynis á Akranesi. Ég mun skýra frá þessum tillögum síðar og reyna að gera þeim einhver skil í þættinum. E.G. Í gögnum Keilis eru drög að bréfi sem er dagsett 15. mars 1974, skrifað á fréttaeyðublað Morgunblaðsins að öllum líkindum af þáverandi formanni Keilis, Gísla Sigurðssyni. Bréfið er á sænsku að því er virðist og þar rifjar bréfritari upp að hann hafi gengið um Hvaleyrina með Nils Skjöld og tekur fram að Keilir hafi hrint af stað framkvæmdum í samræmi við þá frábæru hönnun sem Skjöld hafði gert fyrir klúbbinn. Segir í bréfinu að Keilisfólk hafi legið yfir tillögunum og langi að leggja í púkkið nokkrar hugmyndir sem séu afrakstur þessara þungu þanka hafnfirskra kylfinga. Síðan koma hugleiðingarnar í fjórum liðum og svolítið að lokum en Skjöld er kvaddur með virktum og tekið sérstaklega fram að bréfritari óski þess að hönnuðurinn samþykki þær breytingatillögur sem Keilisfólk hafði lagt til og sendi svar sitt sem fyrst til baka enda sé áformað að hefja framkvæmdir í aprílmánuði. Ekki finnst svar frá Skjöld í gögnum Keilis en miðað við þann anda sem virðist hafa verið í samtölum hans og bréfritara á göngu þeirra um svæðið virðist hann hafa verið móttækilegur fyrir hugmyndum heimakylfinga og má gera ráð fyrir að athugasemdir þeirra hafi gengið eftir á framkvæmdatíma.

Grein í Alþýðublaðinu 27. maí 1972 um tillögur Nils Skjölds að breytingum á Hvaleyrarvelli. 22


Golfvöllurinn á Hvaleyri formlega opnaður Þann 23. júní 1967 fengu félagar í Keili svohljóðandi bréf: Golfvöllurinn á Hvaleyri hefur nú verið opnaður og er mögulegt nú þegar að leika sex (6) holur. Síðar í sumar er hugsanlegt að þrjár holur bætist við. (Klúbb)húsið er til reiðu fyrir félagsmenn og gesti þeirra og eru næg bílastæði fyrir vestan það. Félagsmenn geta fengið lykla að húsinu, gegn vægu gjaldi, hjá vallarumsjónarmanni, Ársæli Sveinssyni í Sveinskoti. Fyrstu keppnir hafa verið ákveðnar sem hér segir: 1. Bæja- og sveitastjórakeppni; sunnudaginn 9. júlí kl. 10. f.h. Keppa þar bæja- og sveitastjórar Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garða- og Bessastaðahrepps, og verða þeim til aðstoðar menn úr röðum félagsmanna. 2. Parakeppni; sunnudaginn 9. júlí kl. 1:30 e.h. Keppni þessi er að því leyti óvenjuleg, að herrann slær þar til boltinn er kominn á flöt, en daman „púttar“ (….. hefur síðasta orðið - - - auðvitað***). 3. Firmakeppni verður væntanlega haldin dagana 29. og 30. júlí. Nánar auglýst síðar. Með bréfi þessu fylgir bók með reglum fyrir golfleik, 1964-1968, samþykkt af „The Royal & Ancient Golf club of St. Andrews“, frá 1. janúar 1964. Athygli félagsmanna er sérstaklega vakin á fyrsta kafla nefndrar bókar. Við vonum, kæri félagi, að með góðri þátttöku þinni í félagsstarfseminni stuðlir þú að vexti og framgangi golfklúbbs okkar. Beindu áhuga vina þinna til starfseminnar. Að lokum óskum við þér góðs sumars á golfvellinum við Hvaleyri. Stjórnin. P.S. Til þeirra félagsmanna, sem ekki hafa ennþá komið félagsgjaldi til gjaldkera, er beint þeirri ósk að skil verði gerð sem allra, allra fyrst. Ágæt frétt um þessi fyrstu mót í Alþýðublaðinu þann 16. júlí 1967. Þar segir: SUNNUDAGINN 9. júlí s.l. fór fram sérstæð golfkeppni suður í Hafnarfirði, en þar áttust við forsvarsmenn þeirra sveitarfélaga er aðild eiga að hinum nýstofnaða golfklúbb Keili.Voru Keilismenn að vígja völl sinn á Hvaleyri við Hafnarfjörð, en s.l. vetur fékk golfklúbburinn 27 ha. land á Hvaleyri til leigu til 5 ára. Er Hvaleyrin mjög vel til þess fallin að útbúa þar golfvöll og auk þess er það öllum Hafnfirðingum mikið gleðiefni að ekki skuli vera reist iðnaðarhverfi á Hvaleyri eins og margir gengu með í kollinum. Strax og golfklúbburinn Keilir fékk þetta land til umráða réðu forráðamenn klúbbsins hinn kunna golfleikara Magnús Guðmundsson frá Akureyri til að skipuleggja svæðið og hefur hann nú skilað þremur uppdráttum og mun einn þeirra verða notaður en hann er af öllum kylfingum sem séð hafa talinn mjög skemmtilegur. Er nú þegar hafinn undirbúningur við að ganga frá svæðinu og ríkir mikill áhugi fyrir að lokið verði við svæðið sem allra fyrst. Mjög margir hafa nú þegar gerzt félagar í klúbbnum og hefur stjórn klúbbsins haft kennara á sínum vegum og t.d. í vor mætti hinn kunni kylfingur Ólafur Ágúst Ólafsson mörg kvöld til að leiðbeina byrjendum. 23


Grein í Alþýðublaðinu sem birtist 16. júlí 1967 um vígslumótið sem haldið var þann 9. júlí sama ár.

En snúum okkur að keppninni s.l. sunnudag hún var með því sniði að með hverjum forráðamanni sveitarfélags - var valinn bezti kylfingur af hverjum stað þeim til aðstoðar, þannig að með Hjálmari Ólafssyni, bæjarstjóra í Kópavogi var Þorvaldur Ásgeirsson, með Kristni Guðmundssyni, bæjarstjóri í Hafnarfirði var Stefán Rennert og aðstoðarmaður Ólafs Einarssonar, sveitarstjóra í Garðahreppi var Jóhann Eyjólfsson, og þá var Jóhann Nielsson aðstoðarmaður Eyþórs Stefánssonar oddvita Bessastaðahrepps. Strax í upphafi skiptist keppnin í tvo hópa annars vegar í Kópavog og Garðahrepp sem tóku forystu og hins vegar Hafnarfjörð og Bessastaðahrepp.Varð keppnin mjög hörð og lauk svo að Kópavogur sigraði Garðahrepp með aðeins einu höggi, en langt á eftir þeim komu síðan Bessastaðahreppur og Hafnarfjörður.

24


Annars urðu úrslit sem hér segir: Kópavogur 32 högg. Garðahreppur 33 högg. Bessastaðahreppur 40 högg. Hafnarfjörður 42 högg. Seinna þennan sama sunnudag fór siðan fram parakeppni, semi var þannig sniðin að eiginmaður inn sló kúluna inn á „green" en síðan varð eiginkonan að „pútta“. Allmörg pör tóku þátt í keppninni, sem tókst mjög vel en sigurvegarar urðu Jónas Aðalsteinsson og frú, en Jónas er einmitt formaður Keilis. Með greininni fylgir uppdráttur Magnúsar Guðmundssonar að framtíðargolfvallarsvæði Keilis.

25


Félagsstarfið fyrstu árin Í ræðu formannsins á framhaldsstofnfundinum var svolítið rætt um áhöld þau sem þarf til að iðka íþróttina enda hafði á fyrri stofnfundi verið spurst fyrir um golfkylfur og verð á slíkum tækjum. Þá vissi formaðurinn um tvo innflytjendur „golftækja“ sem voru Heildverslun Ásgeirs Ólafssonar í Reykjavík og Daníel Pétursson. Báðir aðilar höfðu brugðist vel við fyrirspurn frá Keili um hvað væri í boði og hvað það gæti kostað og vildu bjóða betri kjör ef nokkur golfsett væru pöntuð í einu: Varðandi verð má geta þess að hálft sett sem fullkomlega nægir í byrjun mun kosta frá 4,5-5 þúsund eða því bili, unglinga- og konusett kr. 2.800.- Varðandi 1/2 eða 1/1 sett má geta þess að einn fyrrverandi Íslandsmeistari spilar einungis með 1/2 setti. Í samantekt Jónasar formanns, sem áður hefur verið minnst á hér að framan í tengslum við landvinninga klúbbsins á Hvaleyri, ræðir hann lykilatriði í starfi klúbbsins fyrstu árin: Þennan mikla menningarauka, að stofna golfklúbb í sveitarfélögunum fjórum, þurfti að sjálfsögðu að kynna fyrir forystumönnum þeirra, ekki síst til að sannfæra þá um nauðsyn þess að styrkja klúbbinn duglega með fjárframlögum. Í þeim tilgangi var árleg keppni

Gamli bærinn Vesturkot fékk nýtt hlutverk sem golfskáli þegar golfvöllur Keilis var opnaður á Hvaleyri vorið 1967. Kerrugeymsla var í gamla fjósinu sem er áfast íbúðarhúsinu til hægri á myndinni. Mynd úr safni Keilis. 26


bæjarstjóra Hafnarfjarðar og Kópavogs, sveitarstjóra Garðabæjar og oddvita Bessastaðahrepps sett á stofn, keyptur stór og fallegur verðlaunabikar sem og veifur sveitarfélaganna allra til flöggunar á keppnisdögum. Hver sveitarstjórnarmaður hafði með sér einn góðan golfmann sem spilaði með viðkomandi. Enginn sveitarstjórnarmannannna kunni golf. Þetta tókst vel - sveitarstjórnarmennirnir voru allir ánægðir með þetta og styrkir streymdu í fjárþurfi sjóði klúbbsins árlega frá þeim öllum. Fyrstu keppnirnar vann Eyþór Stefánsson, oddviti Bessastaðahrepps, naut þess að vera vanur að slá túnin heima hjá sér að Akurgerði með orfi og ljá. Ólafur G. Einarsson, sveitarstjóri Garðahrepps, vann ekki keppnina fyrr en hann varð sér úti um aðstoð Íslandsmeistara í golfi, Jóhanns Eyjólfssonar. Það er gaman að sjá að þarna á öðru starfsárinu er strax farið að tala um ,,gamla völlinn“ en í ársskýrslu sinni fyrir 1968 segir Jónas frá hinni árlegu sveitar- og bæjarstjórakeppni sem hafi verið sú síðasta á gamla vellinum. Þar sigraði sem fyrr segir oddviti Bessastaðahrepps, Eyþór Stefánsson, og aðstoðarmaður hans, Jóhann Níelsson. Sá síðarnefndi hefur eflaust átt ríkan þátt í sigrinum og í desember 2016 kom hann færandi hendi í golfskála Keilis þegar hann afhenti golfklúbbnum sigurlaun sín frá þessu móti sem eflaust eru meðal þeirra allrafyrstu sem afhent voru á vegum Golfklúbbsins Keilis. Bikarinn verður að teljast frekar smár en er engu að síður stórmerkilegur gripur í sögu klúbbsins. Lét Jóhann fylgja sögunni að Eyþór oddviti hafi í keppninni hitt boltann feykivel svo eftir var tekið hversu langt hann sló. Sagði aðstoðarmaðurinn rétt sem fyrr greinir að það hefði eflaust mátt rekja til þess að oddvitinn hefði verið afar liðtækur sláttumaður með orfi og ljá sem hafi skilað sér í þessari keppni! Á þessum tíma var helsta opna golfmótið svokölluð Þotukeppni þar sem keppendur komu af öllu Reykjanessvæðinu, samtals 78 manns. Keilir átti sigurvegarann í keppni með forgjöf þar sem Geir Odds-

Bikarinn fyrir sigur í bæjarstjórakeppni Keilis 1968. Bikarinn er agnarsmár og kemst fyrir í lófa manns. Ljósm.: Magnús Hjörleifsson.

Þotukeppni Flugfélags Íslands var eitt aðalmóta Keilis á fyrstu árunum og þótti tilkomumikið þegar þotu var flogið yfir völlinn. Mynd úr safni Keilis. 27


son sigraði og Jóhann Níelsson varð annar. Alls voru haldin 12 mót á starfsárinu og segir Jónas í skýrslunni að þátttaka hafi ætíð verið ágæt og ljóst af árangri margra félaga í Keili að leikni í íþróttinni yxi hröðum skrefum. Vallarmetið þetta fyrsta starfsár 1968 átti Keilismaðurinn Sigurður Héðinsson sem hafði farið níu holur á 36 höggum eða einu höggi yfir pari vallarins. Þótti þetta hin ágætasta frammistaða hjá manni sem hóf golfiðkun sína þetta sama ár. Á fyrsta aðalfundi Keilis sem haldinn var í Sjálfstæðishúsinu í Hafnarfirði þann 11. febrúar 1968 flutti Jónas formaður skýrslu stjórnar og síðan lagði Sigurbergur gjaldkeri fram reikninga fyrir 1967 og fjárhagsáætlun 1968. Var talsvert rætt

Eiríkur Smith gerði fjölmargar auglýsingar fyrir viðburði á Hvaleyri um langa hríð. Hér má sjá nokkrar auglýsinga hans fyrir Þotukeppni Flugfélags Íslands. Þar má þekkja ýmsa valinkunna kappa. 28


um þessi mál og lagði Jóhann Níelsson til nokkrar hækkanir á gjöldum, t.d. að félagsgjaldið hækkaði úr 3.000 kr. í 3.500 kr. Jónas formaður var hins vegar á móti hækkunum og mælti gegn henni og rakti hann ástæður þess. Þá spunnust umræður um traktorsmál klúbbsins og taldi Hafsteinn Þorgeirsson að gleymst hefði meðal annars að gera ráð fyrir kaupum á nýjum traktor. Sigurbergur gjaldkeri svaraði Hafsteini með þeim orðum að traktor Ársæls (starfsmanns klúbbsins og ábúanda á Hvaleyri) væri fullnægjandi, aðeins þyrfti að borga fyrir smáviðgerð á honum og kemur vart á óvart að gjaldkerinn hafi reynst tregur til að kaupa nýjan traktor ef hægt væri að laga þann gamla enda þekktur fyrir að sníða sér stakk eftir vexti. Voru reikningarnir að lokum samþykktir með öllum greiddum atkvæðum og einnig fjárhagsáætlunin en hún var samþykkt með öllum atkvæðum nema tveimur. Þann 30. mars 1968 var haldinn fundur í stjórn Keilis þar sem mættir voru aðalmenn í stjórn og hafði þá Pétur Auðunsson tekið við af Sigurbergi Sveinssyni sem gjaldkeri en aðrir í stjórn voru Jónas Aðalsteinsson formaður og Hafsteinn Hansson ritari. Á þeim fundi var haldið áfram með „stóra traktorsmálið“ á þá lund að ákveðið var að kaupa nýjan traktor frá S.Í.S. fyrir 60-70 þúsund krónur. Þann 10. maí 1968 er bókað í fundargerð að Boði Björnsson hafi mætt á fund stjórnar en hann var þá formaður húsnefndar klúbbsins. Samið var við Boða um að reka veitingasölu og verslun í klúbbhúsinu um sumarið þetta árið auk annarra viðvika. Þar mun Guðlaug Berglind Björnsdóttir hafa verið meðal starfsfólks, systir Boða, og hefur hún rifjað upp aðstöðuna í skálanum á þeim tíma. Þar var til dæmis ekki rennandi vatn og 29

Ljósmynd frá fyrstu árunum. Iðagrænn völlurinn skartar sínu fegursta enda kjörlendi fyrir kylfinga frá náttúrunnar hendi sem naut alúðar Ársæls bónda í Sveinskoti en hann var fyrsti „greenkeeper” Keilis. Mynd úr safni Keilis.


þurfti að sækja það í brunn utan við gamla fjósið við Vesturkot. Þar var þá handvirk vatnsdæla sem notuð var til þess að dæla upp vatninu í fötur og bera það síðan inn í húsið. Vatnslögn kom ekki fyrr en síðar þegar byggt var við golfskálann. Mun vatnið hafa mælst misvel fyrir og þótti ekki alltaf henta til að hella upp á kaffi því stundum var allnokkurt saltbragð af því. Í fyrrnefndu fjósi var fyrsta kerrugeymslan á golfvellinum en hún var síðan færð þangað sem stofan var síðar í skálanum en þá voru breytingar svo skammt á veg komnar að þar var þá einungis moldargólf. Geta má sérstaklega þeirra Kristjáns Sveinssonar og Geirs Oddssonar sem lögðu gjörva hönd á plóg við breytingar og umbætur á Vesturkoti á þessum tíma enda tók húsið umtalsverðum breytingum eftir að Keilisfélagar fengu það til umráða. Þess má einnig geta að fánastöngin við Vesturkotið var engin venjuleg fánastöng heldur mastur sem Jónas formaður hafði sníkt út úr bænum sem af einhverjum ástæðum hafði það í sinni vörslu. Er talið líklegt að mastrið hafi verið úr báti í eigu Jóns Gíslasonar, annað hvort Fiskakletti eða Fagrakletti, sem átti að sökkva með því að kveikja í honum úti á sjó, utan við Hvaleyri. Það tókst reyndar ekki svo bátinn rak upp í fjöru og má enn sjá þar menjar um hann, til dæmis kjölinn og einhver byrðingsbönd. En margir muna eftir mastrinu þar sem það stóð við Vesturkotið. Á næsta fundi var Pétri gjaldkera Auðunssyni falið að semja við kvikmyndahús um sýningar á golfkvikmyndum ef takast mætti að útvega þær, eins og það er orðað. Sagt er frá slíkum myndasýningum annars staðar hér í þessu riti og virðist því hafa gengið ágætlega að finna eitthvað til að sýna. Flestar tillögur á félagsfundum Keilis voru samþykktar án mikilla mótbára en á aðalfundinum 16. febrúar 1969 höfðu skapast einhverjar umræður um ársreikninga, fjárhagsáætlun og lagabreytingu og var þá „borin upp tillaga um frestun fundar í 30 mín. meðan fundarmenn gæddu sér á kaffi og kökum. Samþykkt einróma.“ Eftir að fundur var settur að nýju hófst stjórnarkjör og lét þá fyrsti formaðurinn af embætti þegar Birgir Björnsson var kosinn í hans stað en aðeins var borin upp tillaga um Birgi á fundinum. Raunar var Pétur Auðunsson endurkjörinn í stjórn á þessum fundi en á fyrsta fundi hennar kom fram að hann baðst eindregið undan stjórnarsetu og öðrum opinberum störfum fyrir klúbbinn og varð stjórnin við þeirri ósk. Pétur hefur orðið að taka kjöri sínu eins og hverju öðru hundsbiti en hann gat þó brugðist við á meira afgerandi hátt inni á golfvellinum eins og Jóhann Níelsson rifjaði upp í desember 2016: Pétur var þá nokkuð fyrir framan Jóhann að spila á vellinum og hafði týnt bolta sínum. Pétur tók nokkurn tíma í boltaleitina, nóg til þess að Jóhann var kominn fullnálægt og sló sínum bolta alveg framundir Pétur þar sem hann rýndi í kargann. Pétri líkaði þetta augljóslega ekkert sérlega vel því hann sló bolta Jóhanns umsvifalaust aftur til baka! Þessu fylgdu engin orð og var aldrei rætt frekar. Gísli Sigurðsson gekk í raðir Keilisfélaga 1969 en hann varð síðar formaður í klúbbnum. Gísli var blaðamaður og hefur skrifað ýmislegt fróðlegt, meðal annars um Keili og Hvaleyrina, sem reifað er hér í þessari samantekt. Í 30 ára afmælisriti Keilis birtist eftir hann dýrmæt heimild um fyrstu ár Keilis undir fyrirsögninni Líf og fjör í Vesturkoti. Þetta er um sumt skemmtileg samantekt en um allt áhugaverð, engin glansmynd og fróðleg um tíðarandann, móralinn í golfskálanum, nokkrar persónur og leikendur og aðstæður sem Keilisfélagar bjuggu við og kynntust í árdaga klúbbsins. Greinin fer í heild sinni hér á eftir: Golfklúbburinn Keilir var búinn að starfa í tvö ár þegar ég gekk í raðir Keilisfélaga en frumbyggjasvipurinn setti þá mark sitt bæði á völlinn á Hvaleyri og golfskálann, sem var íbúðarhúsið í Vesturkoti. Flestir voru á sama báti í þá veru að þeir höfðu enga reynslu af golfi; voru blábyrjendur. Aðeins örfáir höfðu leikið golf annarsstaðar. Búið var þá að bæta þremur holum við þær sex, sem byrjað var með. Líklega þætti sá völlur ekki mjög góður núna, því engin tök voru á að slá utan brauta og þar var kafgresi; mátti heita að hver bolti væri týndur sem lenti út af braut. Allt var að sjálfsögðu frumstætt, völlurinn, golfskálinn í Vesturkoti og síðast en ekki sízt golfið. Þá var „square-to-square“ aðferðin það nýjasta í golfkennslu og það voru einkanlega Bandaríkjamenn sem predikuðu þessa aðferð og þá var gjarnan bent á hinn ósigrandi 30


Nicklaus sem sönnun fyrir ágæti aðferðarinnar. Allt átti að gerast með vinstri hlið og vinstri handlegg; sveiflan átti að vera geysilega upprétt og há og svo var nauðsynlegt að enda í mikilli fettu, sem með tímanum gat eyðilagt bakið. En það var ekki verið að setja það fyrir sig. Þegar byrjendur reyndu að tileinka sér þessa aðferð, sem er líklega einhver tæknilega erfiðasta aðferð til að slá golfbolta af öllum þeim sem reynt hefur verið að berja inní hinn almenna golfara, þá gerðist það sem ugglaust mátti sjá fyrir, að út úr þessu kom ekkert annað en bullandi slæs. Þá var ekki búið að finna upp surlyn eða önnur níðsterk efni sem nútíma golfboltar eru húðaðir með. Mig minnir að mest hafi þá verið leikið með Dunlopboltum og væri boltinn hittur illa eða toppaður, myndaðist bogadregin rifa og sagt var þá, að slíkir boltar væru skælbrosandi. Það var fyrir sig með eitt bros, en þegar brosin voru út um allt á boltanum, var kominn tími til að gefa honum frí. Reyndar höfðu þeir þá flestir fengið fríið löngu áður, týndir í röffinu eða komnir út í fjöru. Um og uppúr 1970 hófust golfferðir á vorin til Skotlands og margir notuðu það tækifæri til að kaupa golfsett. Með því vinsælasta þá voru kylfur frá John Letters, Slazinger og Dunlop. Það var ekki fyrr en talsvert seinna, eða um 1977 að grafítsköft byrjuðu að sjást. Golfskálinn á Hvaleyri varð strax nokkuð sér á parti meðal annarra slíkra. Þar var oft mannmargt og mikið talað, eða öllu heldur þrasað og það ekki neitt í hálfum hljóðum. Það var þrasað um hvaðeina sem viðkom golfi, ekki sízt golfreglurnar, sem enginn kunni vel. Þá varð að gilda hver gæti haft hæst og ekkert þýddi fyrir menn sem lá lágt rómur að taka þátt í þeim umræðum. Það hefði orðið upplit á kúltiveruðum Bretum, sem aldir eru upp við hvíslingar í sínum virðulegu klúbbum, ef þeim hefði gefizt kostur á að kynnast umræðum í Vesturkoti. Aðeins kom það fyrir að hendur væru látnar skipta ef skoðanir fóru ekki saman, en það var þó fátítt. Margvíslega aðstöðu vantaði í Vesturkoti, til dæmis fyrir fataskipti og gaddaskóna, þegar inn var komið í skálann.Venjan var sú að menn spörkuðu af sér skónum frammi við útidyr og svo var bara gengið yfir hrúguna. Áhættusamt þótti að fara á salernið, því ekki var alveg víst að maður kæmist út því læsingin vildi festast. Óþægilegasta endurminningin tengist þó ekki því, heldur þeirri afleitu upákomu sem varð í formannstíð minni, þegar í ljós kom að gjaldkerinn var spilafíkill og búinn að leggja sjóð klúbbsins undir og tapa honum. Allt var það fé endurgreitt, en gjaldkerinn er ekki lengur á meðal vor og blessuð sé minning hans. Frá upphafi var Keilir auðugur af litríkum karakterum. Frá fyrstu árunum og raunar miklu lengur er Júlíus R. Júlíusson, eða Júlli eins og hann var kallaður, minnisstæðastur og það var mikill mannsskaði þegar hann fórst í bílslysi í keppnisför úti í Luxemburg. Júlli var múrari og oft kom hann beint af vinnustað í sementsgallanum og fór mikinn; stundum gaf hann sér ekki tíma til að fara úr stígvélunum. En hann var fæddur íþróttamaður og fljótur að komast í fremstu röð kylfinga í þá daga. Júlli lenti eins og aðrir á kafi í röffinu annað slagið, en ég man sérstaklega hvað okkur þótti tilkomumikið að sjá hvernig hann plægði gegnum kafgresi þegar hann sló úr því; þar nutu kraftarnir sín vel. En Júlli var þar að auki afar vel heima í mörgu, minnugur og greindur, og tók af lífi og sál þátt í hávaðanum og þrasinu í golfskálanum. Við skussarnir horfðum líka á það með aðdáun og nokkurri öfund, þegar Björgvin Hólm tugþrautarkappi kom og náði meistaratökum á golfinu á undraskömmum tíma. Okkur þótti yfirnáttúrulegt hvað þeir gátu lamið langt Björgvin og Júlli. En það voru fleiri sem settu svip á Keili þótt þeir væru kannski ekki í röðum meistaraflokksmanna. Einn þeirra var Guðbjartur Jónsson - Baddi - prentsmiðjueigandi í Hafnarfirði, sem náði í baksveiflunni viðlíka langt og John Daly er nú frægur fyrir. Hjá Badda fólst golfið í löngum kýlingum; allt hitt var aukaatriði. Hann er sá eini svo vitað sé, sem hefur rifbreinsbrotnað í golfi, en það gerðist með þeim hætti að eftir ofurdræv þaut Baddi upp á staur til að sjá niðurkomuna. Staurinn var teigmerking, en Baddi var ekki alveg nógu heppinn með lendinguna á 31

Gísli Sigurðsson var um skeið formaður Keilis og sést hér munda kylfuna af mikill einbeitingu. Gísli skrifaði athyglisverða grein um félagsstarfið fyrstu árin sem birtist á 30 ára afmæli klúbbsins. Mynd úr safni Keilis.


staurinn og fékk hann í síðuna. Það var skaði og sjónarsviptir þegar Baddi lagði golfkylfunum og sneri sér að öðru. Okkur fannst líka alltaf jafn merkilegt og aðdáunarvert, þegar Sigurður Héðinsson kom af sjónum eftir langa vist norður í ballarhafi og gat alltaf gengið að sínu frábæra golfi eins og ekkert hefði í skorizt. Svo mikill var áhuginn að menn máttu eiginlega alls ekki tefja sig frá golfi með því að fara heim í kvöldmatinn og frægt var þegar Binna færði Eiríki út á Hvaleyri eins og þegar mönnum var fært á engjar hér fyrr meir. Breytingarnar á vellinum eru orðnar svo margar, að það er engin leið að átta sig á því eða muna, hvernig hann var eftir fyrstu 10, eða fyrstu 20 árin. Upphaflegi 9 holu völlurinn var stór og kröfuharður völlur. En þegar farið var í 12 holur, sem þótti umdeilanleg ákvörðun, varð að stytta völlinn frá því sem verið hafði. Þá þurfti líka að fórna æfingabrautinni á svæðinu þar sem 1. braut hefur verið undanfarin ár. Þá hafði æfingabraut verið nýmæli, a.m.k. hér syðra, því slík aðstaða var þá hvorki til í Grafarholti né á Nesinu og öðrum golfvöllum var þá ekki til að dreifa á höfuðborgarsvæðinu. Á fyrstu árum Keilis kom Ársæll bóndi í Sveinskoti við sögu; var stundum starfsmaður og svo bjó hann inni á vellinum, að vísu afgirtur, en það var alltaf sérstök stemmning í kringum Sveinskot á vorin, þegar Sæli var með lambféð. Þessi heiðursmaður, sem nú er 95 ára, er afi Hannesar Guðmundssonar, forseta Golfsambandsins. Hvaleyrin varð flatari og tilbreytingarlausari við hvert gömlu húsanna, sem hurfu, fyrst Hvaleyrarhúsið uppi á hábungunni, síðan Sveinskot og loks Vesturkot. Það var eftirminnileg stund, þegar stór hópur Keilisfélaga þrammaði í snjó á dimmu vetrarkvöldi til þess að kveikja í gamla golfskálanum í Vesturkoti. Það gekk illa að láta eldinn lifna í olíunni sem hellt hafði verið á gólfin, en um leið og það tókst varð skálinn alelda í einni svipan.

Það var oft glatt á hjalla í Vesturkoti og á golfvellinum á Hvaleyri á upphafsárunum - og er enn á 50 ára afmæli Keilis. Gísli Sigurðsson lýsir talsverðu lífi í tuskunum og að jafnvel hafi hendur verið látnar skipta þegar til dæmis var rifist um golfreglur sem enginn kunni almennilega! Mynd úr safni Keilis.

32


Nú er flest með öðrum brag og líklega telja flestir að sá bragur sé skárri en hann var. Golfklúbburinn Keilir er eins og maður sem hefur fengið dálítið slæmt uppeldi og verið í grófari kantinum á sínum yngri árum, en náð góðum þroska með árunum og eiginlega vissri fágun miðað við það sem áður var. Aldrei glymur í nýja golfskálanum af háværu rifrildi um túlkun á golfreglum. Hver veit nema við förum bráðum að tala í hvíslingum. Fleiri sögur eru til og ein þeirra segir frá því að Júlíus heitinn múrari hafi átt það til að draga múrinn á vegg og ef bíða þurfti eftir að múrinn þornaði mátulega hljóp hann út á Hvaleyri og tók nokkrar holur. Stundum var hann of lengi og allt orðið þurrt svo þá varð brjóta og byrja upp á nýtt. Ljóst er af fundagerðabók Keilis að orð Gísla Sigurðssonar voru ekki komin til af engu, að minnsta kosti ekki hvað varðaði umgengni því bókað var á stjórnarfundi sem haldinn var 13. október 1972 að ýmislegt mætti betrumbæta. Fyrsta mál á dagskrá var: Unnið við að hreinsa klúbbhúsið sem var mjög illa um gengið. Og Gísli var einmitt kosinn formaður klúbbsins á næsta aðalfundi. Samhliða umræðu um slæma umgengni er fjallað um ýmislegt sem við kemur

Júlíus R. Júlíusson í góðri sveiflu sumarið 1968. Mynd úr safni Keilis.

Unglingar á Hvaleyri kringum 1970. Þeir þóttu ekki alltaf til fyrirmyndar í Vesturkoti en meiningar eru reyndar um hvort það voru unglingarnir eða hinir eldri sem máttu ganga betur um golfskálann. Mynd úr safni Keilis. 33


unglingum í klúbbstarfinu. Ekki er alveg greinilegt hvort unglingarnir beri endilega einir og sér alla ábyrgð á umgengninni en aðkoman í klúbbhúsinu þann 13. október var þó rakin til þeirra. Töldu hinir fullorðnu fulla þörf á því að herða taumhaldið á blessuðu ungviðinu á ýmsum sviðum, til dæmis með skipan siðanefndar og/ eða umsjónar- eða ábyrgðarmanna sem bæru ábyrgð á þeim gagnvart siðanefnd eða stjórn klúbbsins. Á fundi nýskipaðrar stjórnar þann 10. desember 1972 var ákveðið að skipa unglingum leiðtoga eða forsvarsmann og var stungið upp á Sigurði Thorarensen. Boði Björnsson og Inga Magnúsdóttir tóku þó upp hanskann fyrir unga fólkið þegar um þessi mál var rætt í desember 2016 og taldi Boði að samstarfið og samskiptin við krakkana hafi verið ánægjuleg og skemmtileg þótt vissulega hafi hann þurft að setja í brýnnar öðru hverju. Inga benti einnig á að Binna, sem tók við rekstrinum, hafi einnig haft gott lag á unglingunum og náð þeim vel á sitt band. Það sama hafi gilt um Ársæl vallarvörð. Þau rifja upp að krakkarnir hafi komið nestuð að heiman út á Hvaleyri á morgnana og verið á vellinum allan daginn. Í 30 ára afmælisriti Keilis segir Sveinn Sigurbergsson frá því undir fyrirsögninni „Eins og að spila golf á tunglinu” hvernig hann upplifði fyrstu árin í starfsemi golfklúbbsins en hann fékk að fara með föður sínum, Sigurbergi Sveinssyni, sem var einn af frumkvöðlunum að stofnun Keilis, á Hvaleyri. Þar hafði Sigurbergur ásamt fleirum séð möguleika á því að hafa þar golfvöll. Sveinn telur það mikið happ að Hvaleyrin varð fyrir valinu og að samkomulag um það hafi tekist við bæjaryfirvöld og ábúendur á svæðinu. Þegar ég kom fyrst á Hvaleyrina þá var þetta sveit. Hér var búið á minnst þremur bæjum og kindur út um öll tún. Það var byrjað að útbúa lítinn 6 holu völl í kringum Vesturkot, sem var höfuðmiðstöð klúbbsins í nær aldarfjórðung. Það var mikill frumbýlingsbragur á þessu, en áhuginn var alveg ótrúlegur. Ég hafði verið að slá með félögum mínum á túnunum ofan við Öldutúnsskóla og eins á Hamarskotstúninu við Flensborg þar sem við höfðum útbúið einhverjar holur, en úti á Hvaleyri var verið að búa til alvöru golfvöll og við vildum auðvitað komast þangað. Sveinn segir föður sinn og aðra í forystusveit Keilis hafa verið með hugann við golfklúbbinn og golfvöllinn alla daga. Þeir hafi alltaf verið að reyna að finna leiðir til að efla starfið og sáu fyrir sér í upphafi að þarna yrði alvöru 18 holu völlur þótt augljóst mætti teljast að 25 hektarar dygðu tæpast til þess. Sveinn telur að það hafi verið afar skynsamlegt skref hjá stjórninni að ráða Ársæl bónda í Sveinskoti fyrstan til starfa. Girðing var umhverfis bæinn og þar hélt Ársæll kindur sínar en völlurinn umlukti bæinn síðan á allar hliðar. Hann segir fyrsta golfkennara klúbbsins, Þorvald Ásgeirsson, hafa lagt áherslu á að klúbburinn tryggði sér viðbótarland og það hafi verið hárrétt ábending. Síðan hafi fengist viðbótarsvæði „í

Sveinn Sigurbergsson fylgdi Sigurbergi föður sínum í golfinu og náði snemma góðum tökum á íþróttinni. Mynd úr safni Keilis. 34


gömlu görðunum uppi í holtinu sunnan við Hvaleyrina, þá var hægt að hefjast handa með að klára þessar 18 holur. Völlurinn var að vísu fremur stuttur, mikið af par þrjú holum en skemmtilegur engu að síður. Ég held að það hvað mikið er um stutt spil á Hvaleyrinni hafi ráðið miklu um hvað við höfum eignast marga góða kylfinga hjá Keili.“ Kylfingarnir hafi orðið að laga sig að aðstæðum á Hvaleyrinni og það viti allir að stutta spilið ráði úrslitum. Þess má til gamans geta að efni fyrirsagnarinnar með líkingunni við tunglið er sótt í umfjöllun Sveins um nýjustu viðbótina á vellinum þar sem hann liggur í hrauninu en hún er viðfangsefni síðari tíma í sögu Keilis og verður því ekki rædd frekar hér.

35


Örnefni og sögustaðir á Hvaleyri

Gamla réttin austan við golfskálann. Ljósm.: JGR.

Keilismenn hafa varðveitt gömul örnefni á og við völlinn með því að gefa öllum brautum nöfn eftir örnefnum á Hvaleyri. Þetta sást strax á fyrsta árinu og gat Jónas formaður þess í ræðu sinni á fyrsta aðalfundi klúbbsins að haft hafi verið samband við Gísla Sigurðsson lögregluþjón vegna þessara áforma og hefur Gísli eflaust haft mikla þekkingu á örnefnum og staðháttum á Hvaleyri. Ekki hafði mikið verið gert í málunum á þessum tíma en fyrirheitin voru fyrir hendi, ekki síst ef og þá þegar Keilisfólk hefði afnot af eyrinni allri. Leitast var við að hrófla ekki við neinu sem sögulegt kynni að teljast. Hlutar vallarins eru friðaðir og má þar nefna rúnasteinana, Hólinn þar sem gamli Hvaleyrarbærinn stóð og Garðinn sem er elsta mannvirkið á eyrinni. Kortið sem hér fylgir gerði Jónatan Garðarsson og það sýnir prýðisvel byggð og starfsemi, örnefni og fornar minjar sem ýmist eru enn sýnilegar eða horfnar af ýmsum ástæðum. Í ljósi þess hve mikilvæg þessi atriði eru í sögu Keilis og mikilvæg kennileiti um staðhætti og sögu á Hvaleyri er rétt að gera þeim sérstök skil í riti sem þessu. Því var Jónatan fenginn til þess að ganga með höfundi um eyrina og segja frá því helsta sem fyrir augu ber. Óhjákvæmilega verður að tala hér í áttum og því er líklega best að skilgreina áttirnar lauslega þannig að norður er í átt að Esjunni, vestur í átt að Snæfellsjökli, suður í átt að álverinu og austur í átt að athafnahverfinu á Hvaleyrarholti, þegar staðið er við golfskála Keilis þar sem hann stendur árið 2017. Við byrjum á því að ganga í austur að gömlu réttinni en hún er rétt neðan við vörðuna, sem við segjum frá síðar. Réttin er við veginn sem liggur að golfskálanum sem stendur við Steinholt. Vegurinn ber heitið Miklaholt en ekið er inn á það af Hvaleyrarbraut. Réttin er ævaforn, hlaðin úr grjóti, og enginn veit í raun hversu gömul hún er. Eitthvað hefur réttinni verið raskað og segir Jónatan að það hafi hermenn líklega gert og búið þá til garð úr grjótinu frá kvínni sem er sunnan við réttina og má greina grjótröð sem hefur verið veggur frá kvínni að réttinni. Að öllum líkindum hafa hermennirnir hlaðið vegg þennan úr grjótinu og hefur hann því ekki verið upprunalegur. Tóftir réttarinnar eru þó greinilegar þegar þarna er staðið. Ef horft er í norðvestur frá réttinni, með 36


stefnu nokkurn veginn milli Esjunnar og Snæfellsjökuls, og þá eftir hábungu Hvaleyrarinnar, sést bæjarstæði gamla Hvaleyrarbæjarins á efsta leitinu sem kalla má bæjarhól. Við göngum í átt að bæjarstæðinu. Næst verður á vegi okkar mjög gamall túngarður sem er m.a. kallaður Fornigarður sem eflaust hefur einnig gegnt landamerkjahlutverki á sínum tíma. Þessi garður markaði heimatúnið og varnaði því að lausafé kæmist inn í túnið. Fornigarður liggur samsíða gömlu þjóðleiðinni milli Innnesja og Suðurnesja, svonefndri Alfaraleið eða Suðurvegi. Garðurinn liggur nokkurn veginn í stefnuna austur/vestur og afmarkar að hluta (Suðurtún) Suðurvöll norðaustanvert við hábunguna, en hann tilheyrði Hjörtskoti. Suðurvöllur endar þar sem gamli Kotagatan lá og neðan hans stóð Sveinskot í láginni á eyrinni austanverðri. Þar er Sveinskotstún, en Ársæll Grímsson, síðasti ábúandinn á Hvaleyri, bjó í Sveinskoti. Sjá má það litla sem 37

Teikning Jónatans Garðarssonar sýnir vel hvernig umhorfs var á Hvaleyri á fyrri tíð. Keilisfólk hefur vandað sig við að vernda og skrá örnefni og minjar á svæðinu.

Jónatan Garðarsson fylgdi höfundi þessara orða um Hvaleyrina og benti á ýmsa merkilega staði. Hér er hann í gömlu réttinni austan við golfskálann. Ljósm.: JGR.


Efst á eyrinni stóð gamli Hvaleyrarbærinn og má enn sjá merki um veggi og garða þar. Ljósm.: JGR.

eftir er af Sveinskoti rétt neðan við vélageymsluna sem stendur eins og eyland á vellinum norðaustanverðum en hún er eitt af þeim mannvirkjum sem breskir hermenn skildu eftir á Hvaleyri eftir hersetu sína hér á landi í síðari heimstyrjöldinni. Þegar gengið er eftir eyrinni í góðum skilyrðum sjást vel í landslaginu margvísleg form sem gefa hugmynd um ýmiskonar mannvirki. Til dæmis má sjá gamla veginn sem lá að Vesturkoti, svokallaða Kotagötu, en hann er nú hulinn gróðri þótt glögglega megi sjá móta fyrir slóðinni í landslaginu. Ef litið er í vestur eða suðvestur þegar gengið er eftir eyrinni frá réttinni við vörðuna og út á hábunguna, þ.e. til vinstri, má sjá svæði sem kallað er Sandbrekknatún og skiptist í tvennt, syðra og nyrðra tún. Sandbrekknaheitið er ágæt heimild fyrir ástandi túnsins áður en Þorsteinn Jónsson stóð fyrir sandgræðslu á eyrinni en hann byggði þar upp þrjú kot austan og vestan við Hvaleyrarbæinn: Bindindi 1778 eða Halldórskot, Lásastaði 1781 eða Vesturkot og Ásgautskot 1785 sem fékk seinna nafnið Sveinskot. Þannig stuðlaði hann bæði að landgræðslu á Hvaleyri og öðrum náttúrunytjum og það fól í sér að ábúendur á svæðinu gátu goldið kónginum það sem kónginum bar. Þorsteinn fékk síðan ábúðarrétt til æviloka fyrir sig og afkomendur sína að launum frá kónginum. Þorsteinn virðist hafa gert sér ágæta grein fyrir því hvað þyrfti til þess að hjól atvinnulífsins og þar með framþróunar á Hvaleyri snerust svo gagn væri af. Hann endurreisti Hvaleyrarbæinn eins og sést á mynd úr Íslandsleiðangri Sir Joseph Banks frá 1772 og byggði ennfremur stóra bátasmiðju, þá stærstu á landinu að því er Jónatan Garðarsson segir. Þar voru smíðaðir fiskibátar og lét Þorsteinn bændur og búalið á Hvaleyri fá báta til afnota svo að þeir gætu róið til fiskjar og bætt þar með afkomu jarðarinnar. Því þeir fiska sem róa, segir máltækið, og til þess að róa þarf víst báta. Þorsteinn kveikti á þessu og stuðlaði þannig að því að bændur sköpuðu tekjur sem gáfu skatta og kóngurinn fékk sitt. Allir ánægðir. Jón sonur Þorsteins tók við ábúðinni 1805 en hann drukknaði 1812 í Hvaleyrarvör. Eftir það tók Bjarni Sívertsen jörðina á leigu og keypti hana af konungi 1816, en afkomendur Þorsteins misstu ábúðarréttinn. Þar sem Hvaleyrarbærinn stóð fyrrum er nú teigur en þar er hæsti punkturinn á Hvaleyrinni og umhverfis bæinn var Hvaleyrartún. Þegar gengið er aðeins lengra í sömu átt er komið að hjartalaga glompu á golfvellinum en þar nærri segir Jónatan að allar líkur bendi til að kirkja hafi staðið forðum enda segi í gömlum heimildum að kirkjan hafi staðið beint upp af Gestalág sem svo er kölluð. Við göngum því í vestur og niður í fjöru. Þar er vissulega lág í landslaginu, rétt upp af lítill vík og segir sagan að þar hafi fundist sjórekin lík erlendra sjómanna í eina tíð og er nafngiftin rakin til líkfundarins. Þar var jafnframt svonefnd Jónasarlending, sumarlending Jónasar Jónassonar bónda í Tjarnarkoti 1875-77 og Sveinskoti 1890-97. Við göngum í norður upp úr Gestaláginni og komum að gömlu skotbyrgi sem breski herinn lét byggja þarna á eyrinni. Byrgið er hlaðið og steypt og að hluta er það hulið torfhleðslu einhvers konar. Þakið er steypt og sjá má að á því hafa verið skotraufar sem nú eru fylltar steypu. Norðvestur af skotbyrginu eru fleiri byrgi sem augljóslega hafa þó verið ætluð aðeins einum hermanni hvert, hlaðin og steypt með braggalaga bárujárnsþaki eða yfirbyggingu. Hefur þá verið gert ráð fyrir að hermaðurinn skriði þarna ofan í byrgið og stæði - eða lægi - vaktina ef til þess kæmi að ráðist yrði á landið af sjó. Nokkur slík byrgi eru þarna og verða þau að teljast allmerkileg fyrirbæri. Og ekki er síður merkilegt fallbyssustæði þarna frammi á tanganum en þar var nokkuð 38


stór fallbyssa. Jónatan Garðarsson segir hinsvegar að tvennum sögum fari af því hvort þar hafi verið alvöru fallbyssa eða ekki. Allavega var þar svo að á nokkrum stöðum á landinu voru grámálaðir símastaurar í felubúningi, sem sagt dulbúnir sem fallbyssur. Þar er væntanlega komin skýringin á því að engin þjóð þorði að gera innrás á Íslandi í stríðinu, allavega ekki á Hvaleyri. Við svo búið er haldið í vestur frá byrgjunum þangað til við komum að nokkrum flötum steinum, en inn á milli þeirra eru fleiri skotbyrgi. Einn þessara steina er jafnan nefndur Rúnasteinn og er frægur af ýmsum ástæðum. Hann hefur meðal annars einnig verið kallaður Flókaklöpp, þá ekki síst vegna þess að sjálfur Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur - sá eini sanni, mun hafa rannsakað steininn á 19. öld og talið að áhafnarmeðlimir á skipi Flóka hafi fyrstir letrað nöfn sín í grjótið. Þau sannindi eru þó ekki meitluð í stein. Steinninn er friðaður sem fornminjar. Kringum hann virðist hafa verið einhvers konar hringlaga garður og má sjá menjar um hann. Á steininn er ýmislegt letrað og þarf líklega talsvert hugmyndaflug til þess að ætla honum verðugt hlutverk í norrænni menningarsögu þótt Jónas hafi getað séð þar ýmislegt merkilegt sem ekki verður fjölyrt um hér en fróðlegt er að lesa um þetta á ferlir.is:

Vestarlega á eyrinni eru mannvirki úr síðari heimsstyrjöldinni en það eru skotbyrgi, gerð úr hleðslusteini, steinsteypu, járni og torfi. Ljósm.: JGR.

„Litið var á rúnasteinana á Hvaleyrartanga. Rúnir eru vel sýnilegar á a.m.k. þremur steinanna. Fundist hafa nokkrar gamlar umsagnir um steinana og áletranirnar, sem margar hverjar virðast mjög gamlar. Jónas Hallgrímsson gengur svo langt að segja að innan um þær séu fangamerki áhafnar Hrafna-Flóka, sem kom við á Hvaleyrinni (Herjólfshöfn) á leið sinni út. Nefnir hann steininn þann Flókaklöpp.

Vestarlega á Hvaleyri er stór steinn með rúnum sem Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur nefndi Flókaklöpp enda taldi hann að Hrafna-Flóki og hans menn hefðu fyrstir letrað rúnir á steininn. Ljósm.: JGR. 39


Aðrir hafa bent á að fátt sé því til stuðnings að þarna megi merkja áletranir nefndrar skipshafnar. Bæði sýna dæmin að letur á klöppum endist ekki nema tímabundið. Þannig hafa ekki fundist eldri letursteinar á Reykjanesskaganum en frá því um 1500. Steinninn eyðist smám saman vegna veðrunar (vatn, frost og vindur) og letrið afmáist því óhjákvæmilega. Á steinunum eru hins vegar margar áletranir, sumar eldri en aðrar. Breski herinn var með aðstöðu þarna á stríðsárunum og ljóst er að einhverjir hermannanna hafa bætt við fyrri skrif. Þeir notuðu m.a. einn steinninn sem pall til að að hræra steinsteypu. Ber hann þess enn merki. Ýmis ártöl má lesa af steinunum og sumir stafirnir líkjast rúnum. Hvað sem öllu tali og vangaveltum um að áhöfn Hrafna-Flóka hafi klappað fangamörk sín á steinana, sem alls ekki er með öllu útilokað, er greinilegt letur á þeim og sumt af því eldra en annað. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi minnist ekki á Flókaklöppina í skrifum sínum um Hvaleyri í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1903 - Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902. Þar segir hann m.a. með vísan í Landnámu: "Flóki kom í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum ok kölluðu þar Hvaleyri". Síðan segir hann: "Þar hefir Herjólfur leitað lendingar og svo kennt höfnina við nafn hans: Herjólfshöfn. Á Hvaleyri er að sjá að kirkja hafi verið 1650, því á 2 ljósastökum, sem Krýsuvíkurkirkja á, stendur, að það ár hafi Helmer Dirichsen Roode, undirkaupmaður í Hafnarfirði, gefið þá Hvaleyrarkirkju.““

Hér má sjá Þórðarvik sem er kennd við mann sem þarna bjó fyrr á tímum og dró bát sinn upp í vikina og alveg upp á bakkann. Það hefur verið talsverð aflraun. Ljósm.: JGR.

Hvaleyrarbærinn hefur verið þónokkurt býli og má sjá ýmsar minjar á þessum slóðum sem tengja má við búskapinn í kotinu. Vestur af honum stóð Vesturkot, sem var um tíma notað sem golfskáli. Þessi staður var stundum nefndur Drundur sem er annað orð yfir það þegar naut leysa vind. Það hefur eflaust þótt hinn prýðilegasti viðburður á þessum árum, þ.e. á 19. öld eða þar um bil, þegar aðeins fína fólkið gat leyft sér að eiga naut og kýr. Nafngiftin hlýtur því að hafa haft á sér talsvert virðulegra yfirbragð heldur en ef íslenskur sveitabær væri kallaður þetta árið 2017. Almennt mun þó drundur hafa þróast yfir í heldur óvirðulegri merkingu eftir því sem árin hafa liðið. Þegar gengið er norður eftir eyrinni frá Drundi og út að sjó er komið að Hvaleyrarbakka en þar hafa fundist mannabein, til dæmis árið 1923 þegar Magnús Benjamínsson bóndi í Hjörtskoti fann höfuðkúpu af manni og nokkra hálsliði í bakkanum „og gróf í kistli í mónum þar hjá, fjær sjó“ eins og segir í grein Matthíasar Þórðarsonar um þetta í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1926. Yfirskriftin er Fundin á Hvaleyri bein þriggja manna, en Magnús fann síðar tvær höfuðkúpur í viðbót og fleiri bein. Jónatan Garðarsson segir söguna af því þegar Pálína Margrét Þorleifsdóttir sem hélt heimili fyrir þá þjóðfélagsþegna sem minna máttu sín í Hjörtskoti, tók til sinna ráða varðandi beinin í kistlinum á þriðja áratug síðustu aldar. Þótti henni þessum mönnum lítill sómi sýndur og vildi láta jarða leifar þeirra í vígðri mold. Leitaði hún þá til Árna Björnssonar sóknarprests í Hafnarfjarðarkirkju sem setti upp tiltekið verð fyrir þjónustu sína. Það hugnaðist Pálínu ekki svo hún leitaði til Ólafs Ólafssonar fríkirkjuprests í Hafnarfirði. Tókust samningar með þeim svo hann annaðist jarðsetningu í kirkjugarðinum í Hafnarfirði. Sagði Pálína svo frá því að eftir þetta hefði maður vitjað hennar í draumi og þakkað henni fyrir að koma þeim félögum í vígða mold. Sem kunnugt er stóð Hvaleyrinni mikil hætta af landbroti og varð það úr að Hafnarfjarðarhöfn og Hafnarfjarðarbær létu hlaða umtalsverðan varnargarð þarna á Hvaleyrarbakkanum, norðan í eyrinni. Myndar þessi garður nú fallega umgjörð og ver Hvaleyri fyrir ágangi sjávar. Þegar gengið er meðfram bakkanum norðan 40


frá og suður og austur með ströndinni er komið í svolitla geil sem kölluð er Þórðarvik og er nefnd eftir Þórði Jónssyni lóðs og kotbónda í Þórðarkoti sem síðar var nefnt Beinteinskot eftir ábúendaskipti þar. Þórður þessi mun hafa dregið bát sinn upp úr lendingunni í geilinni og alveg upp á bakkann. Þetta er talsvert bratt og hátt og má kallast þrekvirki að nokkrum manni hafi tekist að draga bát þar upp á þurrt land. Og áfram höldum við í áttina inn að Hvaleyrargranda og Hvaleyrartjörn. Rétt áður en komið er að tjörninni og grandanum, förum við um svæðið þar sem bátasmiðja Þorsteins Jónssonar stóð og þar hjá var Hvaleyrarvörin og nokkru innar á Hjallanesi var Hvaleyrarhjalli. En framundan er Hvaleyrartjörn sem þjónaði sem skipalægi á tímum Innréttinga Skúla fógeta Magnússonar. Þar voru húkkortunum eins og fiskiskipin kölluðust siglt inn og þær hafðar í vari. Yfir háveturinn voru skipin dregin á þurrt upp á Skipasand sem kallað var þar sem verbúðarskýlin eru núna að sögn Jónatans. Hvaleyrargrandi var mun lengri og meiri en hann er í dag. Hann mun hafa náð langleiðina að Flensborgarhöfn á móts við Óseyri, en þar stendur veitingahúsið Kænan. Grandinn fór illa í sjógangi á seinni hluta 18. aldar og Óseyrartjörn var smám saman fyllt upp um miðja síðustu öld. Á grandanum voru ýmis kennileiti eins og Skiphóll á móts við Hafnargarðinn en Hvaleyrartjörn var í eina tíð nefnd Herjólfshöfn. Þess má svo til gamans geta að ef staðið er á Hjallanesi á grandanum og horft eftir nesinu og upp í holtið má sjá eldgamla rétt þar sem allt eins gæti verið gerð af landnámsmönnum. En nú beygjum við til hægri eða til suðurs og göngum upp að þústinni sem myndar rústirnar af Sveinskoti - sem reyndar var kallað Sælakot í seinni tíð eftir Ársæli Grímssyni síðasta ábúanda þar og fyrsta starfsmanni Keilis, rétt neðan við gömlu vélageymsluna, steinhúsið sem enn stendur. Þar fyrir neðan er önnur þúst, aðeins minni, en það er gamli Hvaleyrarbrunnurinn. Þangað sóttu allir bændur og búalið á Hvaleyri vatn sitt um langt skeið og þurfti þá að ganga með skjólur og kyrnur að brunninum og bera í þeim vatnið heim á alla bæi. Þetta hefur verið ærinn starfi. Og nú fer að styttast í gönguferðinni því við erum komin að Hjörtskoti. Það var fyrst nokkuð neðan við síðari staðsetningu en síðast var það rétt neðan við tóftirnar af Poltzhúsi sem enn sjást. Poltzhús var timburhús byggt fyrir Legh Poltz árið 1775, en tekið niður nokkrum árum seinna og viðirnir seldir. Legh Poltz var starfsmaður Skúla Magnússonar fógeta og hafði yfirumsjón með skipaflota hans í Hafnarfirði. Það má sjá vinkillaga járnstöng eða rör þar sem hús Legh Poltz stóð en Hjörtskot er hins vegar alveg horfið. 41

Austarlega á Hvaleyrinni, nokkuð ofan við Hvaleyrartjörn, er þessi þúst sem nú hylur vatnsbrunn þann sem íbúar á eyrinni sóttu lengi vel vatn sitt í og báru heim í fötum. Ljósm.: JGR.

Þegar gengið er í átt að golfskálanum, upp brekkuna frá Hvaleyrartjörn, er komið að þessari tóft sem er allmerkileg. Þetta er Poltzhús sem var byggt árið 1776. Þar rétt fyrir neðan stóð Hjörtskot. Ljósm.: JGR.


Meðfram Suðurvelli eða Suðurtúni ofan við brunninn og Poltz-hús má sjá gamla götu og garð meðfram henni. Þetta er gamli Suðurnesjavegurinn en um hann var farið suður með sjó fyrir tíma bifreiða hér á landi. Raunar var síðan fyrsta bílnum á Íslandi, Thomsen-bílnum, ekið til Keflavíkur eftir veginum árið 1904. Ljósm.: JGR.

Varða sem reist var til minningar um ferð Hrafna-Flóka til Íslands. Á hana vantar skjöldinn sem segir á henni deili. Ljósm.: JGR.

Það var byggt árið 1829 og hét upphaflega Daðakot en fékk nafnið Hjörtskot 1868. Suðurvöllur eða Suðurtún tekur við þegar gengið er í átt að golfskála Keilis og má sjá túngarð á hægri hönd og annan á vinstri hönd. Hinum megin við hann, nær veginum, er gamli Suðurnesjavegurinn enn sjáanlegur en þess má til gamans geta að þarna lá leiðin frá Hafnarfirði til Keflavíkur framyfir aldamótin 1900. Þetta var reiðleið þá en fyrsta bílnum á Íslandi, sem kenndur var við Thomsen kaupmann, var ekið eftir þessum vegi til Keflavíkur árið 1904. Það var í fyrsta sinn sem farið var á bíl þessa leið. Við erum loks komin hringinn og endum við vörðuna sem hlaðin var til minningar um ferð Hrafna-Flóka til Íslands. Efniviðurinn í hana var fluttur á Hvaleyri frá Sveio í Noregi þaðan sem Flóki Vilgerðarson hélt af stað í för sína norður á bóginn. Sagan segir að hann hafi gefið Íslandi nafn en við upphaf ferðarinnar hafi hann fórnað þremur hröfnum og síðan haft þrjá unga hrafna með sér til að finna landið. Einn þeirra hafi snúið aftur heim, annar lent aftur niðri á skipinu en sá þriðji tekið stefnuna á landið sem síðar fékk heitið Ísland. Með Hrafna-Flóka var maður að nafni Herjólfur og heitir Herjólfshöfn eftir honum. Sagan segir að Flóki, Herjólfur og félagar hafi fundið rekinn hval á eyri við fjörðinn og það hafi orðið þeim innblástur í nafngift fyrir tangann sem þeir hafi þá nefnt Hvaleyri. Um þetta og fleira má lesa á ferlir.is og ágætt að rifja upp þessar gömlu sagnir áður en við segjum skilið við tengingar landnáms og Hvaleyrar og gefum aftur gaum að golfíþróttinni: "Víkingurinn Hrafna-Flóki kom hér að landi um 860 ásamt Þórólfi og Faxa hinum suðureyska sem Faxaós (Faxaflói) er kenndur við. Þegar Flóki ætlaði að halda aftur til Noregs eftir ársdvöl í Vatnsfirði lentu skip hans í óveðri og náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes. Herjólfur varð viðskila við félaga sína og tók land í Herjólfshöfn. Óvíst er hvar Herjólfshöfn hefur verið. Flóki og menn hans voru um veturinn í Borgarfirði en freistuðu heimfarar næsta sumar. Komu þeir í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum og kölluðu hana Hvaleyri. Þar fundust þeir Herjólfur. Áður en Flóki Vilgerðarson fór að leita Garðarhólms hlóð hann vörðu við Smjörsund í Noregi og blótaði þrjá hrafna sem áttu að vísa honum veginn yfir hafið. Árið 1997 var samskonar varða hlaðin við Hvaleyri úr grjóti frá Smjörsundi, til að minnast þessa atburðar. Hvaleyri var ein af helstu bújörðum í Hafnarfirði frá fornu fari. Fyrir siðaskiptin átti Viðeyjarklaustur Hvaleyri, sem varð síðan kóngsjörð. Þar stóð hálfkirkja uppi til 1765 sem var í eigu Viðaeyjarklausturs en þjónað frá Görðum. Útræði var frá Hvaleyri fyrr á tímum og margar hjáleigur fylgdu.

42


Í Íslendingabók segir að Flóki Vilgerðarson hafi verið “víkingr mikill; hann bjósk af Rogalandi at leita Snælands. Þeir lágu í Smjörsundi. Hann fekk at blóti miklu ok blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið visa…. ok sleit frá þeim bátinn, ok þar á Herjólf. Hann tók þar land, sem nú heitir Herjólfshöfn.” Hafnarfjörður byggir grundvöll sinn á höfninni sem hefur veitt skipum öruggt skjól um aldir. Þegar norður evrópskir sæfarar leituðu á hin gjöfulu fiskimið við Íslandsstrendur í lok miðalda þótti fjörðurinn bera af vegna náttúrulegra hafnarskilyrða. Snemma á 15. öld settu enskir farmenn upp kaupbúðir við fjörðinn og lögðu grunninn að verslunarstaðnum Hafnarfirði. Alla tíð síðan hefur verslun og sjávarútvegur stýrt vexti og viðgangi Hafnarfjarðar. Þýskir kaupmenn hröktu þá ensku í burtu seint á 15. öld. Hansakaupmenn höfðu mikil umsvif á 16. öld, allt þar til einokunarverslunin danska tók við 1602. Síðan hefur höfnin tekið sífelldum breytingum og er unnið að frekari stækkun hennar út með Hvaleyrinni. Sumir segja, þ.á.m. Jónas Hallgrímsson, að áhöfn Hrafna Flóka hafi klappað fangamörk sín á Flókaklöppina, en aðrir eru efins. Hvað sem því líður hefur mikið verið klappað á hana í gegnum tíðina og eru áletranirnar greinilega misgamlar."

Málverk sem sýnir Hvaleyrina fyrir tíma landnáms Keilis. Myndina málaði sænskur málari sem bjó á Íslandi og gekk undir listamannsnafninu Thy-Molander. Myndina gaf Magnús Guðmundsson, barnabarn Ársæls Grímssonar fyrsta starfsmanns Keilis.Talið er að myndin sé máluð í kringum 1950.

43


Upphaf golfs á Íslandi Eins og mörgum er kunnugt mátti litlu muna að Hafnarfjörður yrði höfuðborg Íslands og átti Skúli fógeti stóran þátt í því þegar hann ákvað að setja upp Innréttingar sínar (í merkingunni fyrirtæki) í Reykjavík og meira að segja „stálu“ Reykvíkingar fyrsta borgarstjóraefni sínu úr Hafnarfirði. Það var Páll Einarsson, sýslumaður og bæjarfógeti í Hafnarfirði en embætti hans fylgdi bæjarstjóraembættið eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908. Það má því nokkrum furðum sæta að Hafnfirðingar, Garðbæingar, Álftnesingar og Kópavogsbúar skyldu sætta sig við að fara til Reykjavíkur um áratugaskeið til þess að komast á golfvöll. En mælirinn var fullur þegar flytja átti golfvöll Reykvíkinga alla leið upp í Grafarholt. En hvernig skyldi þróun golfiðkunar á Íslandi hafa verið frá því hennar varð fyrst vart hér á landi þangað til Golfklúbburinn Keilir var stofnaður, svona í mjög grófum dráttum? Efnisatriði þess sem hér fer á eftir er að langmestu leyti fengið úr bók Steinars J. Lúðvíkssonar og Gullveigar Sæmundsdóttur: Golf á Íslandi - Upphafshöggið, en við gefum einkum gaum fyrstu golfklúbbunum og upphafi golfs á Íslandi en förum síðan hratt yfir sögu fram til ársins 1967: Elstu golfkylfur sem vitað er um á Íslandi og enn eru varðveittar voru í eigu Williams F. Pálssonar bónda á Halldórsstöðum í Laxárdal í Suður-Þingeyjarsýslu. Þær hanga uppi á vegg í húsakynnum Golfkúbbs Húsavíkur og eru gjöf frá honum frá árinu 1977. William mun hafa verið meðal fyrstu Íslendinga til þess að slá golfbolta með þar til gerðum kylfum hér á landi en hann átti skoska móður og kynntist golfíþróttinni þegar hann fór á unglingsaldri með henni til Skotlands en William var fæddur 12. apríl 1896 og lést 3. desember 1980. Gera má því ráð fyrir að hann hafi eignast kylfurnar kringum 1910. Einnig mun enskur laxveiðimaður hafa stundað sömu iðju á svipuðum slóðum milli þess sem hann renndi fyrir fisk í Laxá í Aðaldal. Í Reykjavík var síðan ungur piltur um þessar mundir að nota kylfur og kúlur sem hann hafði keypt í Kanada. Hér á landi má segja að hið alþjóðlega heiti íþróttarinnar hafi laumað sér inn „bakdyramegin“ í hina nýyrðasmíðandi þjóð okkar Íslendinga. Snemma á 20. öld höfðu nefnilega borist hingað vinsælar treyjur sem komust í tísku og voru kallaðar golfblússur, sérstaklega á þriðja og fjórða áratugnum. Þetta voru mittisblússur sem fengust bæði fyrir konur og karla og vegna þess að þær voru kenndar við golf, raunar áður en golfíþróttin varð almennt þekkt meðal Íslendinga, hafði þjóðin vanist heitinu þegar þar að kom að íþróttagreinin sjálf smeygði sér inn í þjóðarvitundina. Að íslenskum íðorðasið var reynt að finna greininni íslenskt heiti og var kólfleikur og fleiri orð af því tagi lögð til í umræðunni án þess að eiga erindi sem erfiði. Árið 1906 hafði Þorvaldur Thoroddsen skrifað í Skírni grein um ferðir sínar um Bretlandseyjar það sama ár þar sem hann hafði orðið vitni að golfiðkun heimamanna meðal annars í bænum St. Andrew’s og kallaði hnattleikinn golf. Fyrst í stað var golfíþróttin aðeins fyrir þá efnameiri enda áhöldin ekki fjöldaframleidd heldur handgerð og þar af leiðandi kostnaðarsamt fyrir fólk að koma sér upp nauðsynlegum búnaði. En þegar golfvellir breidd44


ust út um grundir vaknaði almenn spurn eftir golfkylfum og tilheyrandi sem varð til þess að fjöldaframleiðsla þeirra hófst og verðið lækkaði. Á Íslandi varð þó nokkur bið á því að golfíþróttin næði sér almennilega á strik, aðallega vegna þess að ekki voru hér á landi nothæf landsvæði til golfiðkunar. Fyrsta uppástungan um golfvöll sem vitað er um kom fram í Tímanum í grein sem skrifuð var af J.J. sem lagði til að grundirnar, sem sléttaðar höfðu verið fyrir tjaldborgina á alþingishátíðinni á Þingvöllum árið 1930, mætti nýta til þess að stunda þessa íþrótt hér á landi. Ekkert varð úr þessu. Það voru læknarnir Gunnlaugur Einarsson og Valtýr Albertsson sem segja má að hafi smitað Íslendinga almennt af golfbakteríunni eftir að hafa sjálfir tekið „sóttina“ á ferðum sínum um Norðurlöndin sumarið 1934. Á heimleiðinni fóru þeir um Danmörku og hittu þar meðal annarra bandarískan golfkennara, Walter Arneson, sem lýsti áhuga sínum fyrir því að koma til Íslands og kenna golf, og Svein Björnsson sendiherra og síðar forseta Íslands, sem talinn er hafa verið fyrsti Íslendingurinn til þess að ganga í golfklúbb og stunda íþróttina reglubundið. Þótti hann liðtækur kylfingur. Þegar heim var komið fundu Gunnlaugur og Valtýr mikinn meðbyr með því að stofnaður yrði golfklúbbur og golfvelli komið á fót. Fundinn var staður í landi Austurhlíðar í Laugardal sem talinn var henta vel þótt hann væri vissulega nokkuð afskekktur en þangað gekk strætisvagn á kortersfresti svo samgöngur töldust ágætar. Nú hófst undirbúningur að stofnun fyrsta golfklúbbsins og var það formlega gert á stofnfundi sem haldinn var í Oddfellowhúsinu í Reykjavík 14. desember 1934 og var stofnfélögum gefinn kostur á að ganga frá skráningu sinni fyrir 6. janúar 1935. Þegar þar að kom höfðu 57 gerst félagar og töldust því meðal stofnenda. Fyrsti golfvöllurinn hér á landi var síðan gerður í Laugardalnum árið 1935 þar sem helstu íþróttamannvirki þjóðarinnar standa nú, það er frá Laugardalslaug upp undir Laugardalshöll en golfskálinn, sem var gamall sumarbústaður, stóð þar sem norðurendi stúku Laugardalsvallar er nú árið 2017. Þetta var sex holu völlur á jafnmörgum hekturum lands, par 32 þar sem samanlögð lengd brauta var 1.130 metrar. Veðrið lék við vallargerðarmenn sem hófust handa við að slá völlinn um leið og grasspretta hófst um vorið. Slegið var með orfi og ljá. Völlurinn var vígður sunnudaginn 12. maí með ræðuhöldum, myndatöku, golfleik og veitingum. Það má síðan teljast dæmigert fyrir veðurguðina hér á Fróni sem höfðu haldið verndarhendi sinni yfir vallargerðinni að nær allt sumarið rigndi sleitulaust svo aðfenginn golfkennari sem komið hafði sérstaklega til Íslands að kenna Íslendingum golf, fyrrnefndur Walter Arneson, var nánast í náttúrulegu stofufangelsi í litlu herbergi í golfskálanum, því ekki einu sinni Íslendingar nenntu að leika golf í þessum endalausu sumarrigningum. Enda taldi Walter íslenska veðráttu henta heldur illa til golfiðkunar þótt hann væri raunar þeirrar skoðunar að íþróttina mætti stunda í nánast hvaða veðri sem er. Hafði Walter þó ýmsum hlutverkum að gegna á golfmótum sumarsins og þar á meðal var að raða keppendum eftir forgjöf og telja kjark í menn þegar þeir voru við það að bugast, eins og það er orðað í lýsingu á móti sem haldið var 18. ágúst. Það er tímanna tákn að meðal verðlauna fyrir helstu afrek í mótinu var vindlakassi sem Magnús Andrésson fékk fyrir að leika á fæstum höggum. Konur sem unnu sams konar afrek fengu konfektkassa en það voru þær Unnur Magnúsdóttir og Ágústa Johnson. Var þetta fólk þar með meðal fyrstu verðlaunahafa á stórmóti í golfi hér á landi. Síðasta golfmótið þetta árið var haldið 20. október en þá var farið að frysta. Kylfingarnir létu það ekki á sig fá. Þá hafði annar klúbbur verið stofnaður norður á Akureyri. Það var gert þann 19. ágúst 1935 þegar stofnfundur Golfklúbbs Akureyrar var haldinn að 27 mönnum viðstöddum. Fengu norðlenskir kylfingar augastað á sléttum bökkum á Oddeyri meðfram Glerá. Þar voru gerðar sex holur, alls 1.030 metrar. Lengsta brautin var 310 metrar en sú stysta 70 metrar að lengd. Holurnar voru skornar í svörðinn með hníf og útbúnir einhvers konar pottar til að setja í þær. Walter Arneson kom norður úr rigningunni fyrir sunnan, aðeins níu dögum eftir að Golfklúbbur Akureyrar var stofnaður, til að kenna klúbbfélögum golflistina. Má geta þess að á Akureyri hellirigndi á Walter og félaga nær allan tímann. 45


Og ef marka má orðatiltækið allt er þegar þrennt er þá var golfíþróttin augljóslega komin til að vera þegar þriðji golfklúbbur þjóðarinnar var stofnaður í Vestmannaeyjum þann 4. desember 1938. Þrír klúbbar komnir og enn voru tæp 30 ár þangað til Golfklúbburinn Keilir var stofnaður í Hafnarfirði 1967. Hér hefur verið lýst aðdraganda og stofnun fyrstu golfklúbbana á Íslandi árið 1934-1938 með því að stiklað var á stóru í greinargóðu riti Steinars J. Lúðvíkssonar og Gullveigar Sæmundsdóttur. Segja má að forsjónin hafi ákveðið að vökva þessar viðkvæmu rætur eins duglega og framast var unnt og eflaust hefur hún drekkt einhverjum af sprotunum þessa fyrstu mánuði. En golfið hafði skotið rótum í rakan svörð. Hafnfirðingar þurftu þó ekki að leita langt yfir skammt eftir golfvelli á þessum sokkabandsárum íþróttarinnar hér á landi sumarið 1939 þótt ekki fari miklum sögum af afrekum þeirra á Vífilstaðatúnunum þar sem völlur var gerður þetta ár, aðeins þrjár holur raunar. Einhverjir af sjúklingunum á berklaspítalanum létu þó ekki sitt eftir liggja í golfinu og léku á þessum litla velli. Þann 14. ágúst 1942 stofnaði golfhreyfingin á Íslandi sitt fyrsta sérsamband innan ÍSÍ. Þar voru á ferðinni fulltrúar fyrrnefndra þriggja golfklúbba. Tilgangurinn samkvæmt því sem ritað var í fundargerð Golfsambands Íslands þennan dag var að vinna að fullkomnun golfíþróttarinnar og útbreiðslu hennar á Íslandi, að hafa á hendi yfirstjórn golfmála á landinu og svara fyrir þau mál út á við, að samræma leikreglur og forgjafir og úrskurða um ágreining um þau atriði og koma á kappleikjum fyrir landið allt. Fyrsti formaður sambandsins var Helgi Hermann Eiríksson. Fyrsta Íslandsmótið var haldið 16. ágúst 1942 eða rétt í kjölfarið á stofnun GSÍ. Þá var auðvitað hellirigning og rok svo knattspyrnuleikjum var frestað en kylfingar settu undir sig hausinn og kláruðu mótið með sóma þar sem Gísli Ólafsson fór völlinn á fæstum höggum fyrsta daginn eða 81. Hann stóð að lokum uppi sem sigurvegari og varð þar með fyrsti Íslandsmeistarinn í golfi hér á landi. Næstu áratugi bættist við talsverður fjöldi golfklúbba og á árunum 1960-1965 var hann tvöfaldaður þegar Golfklúbbur Akraness var stofnaður. Árið eftir hófst atburðarásin sem leiddi til þess að Golfklúbburinn Keilir var stofnaður á Hvaleyrinni í Hafnarfirði. Segir frá því í bók Steinars og Gullveigar, Golf á Íslandi - Upphafshöggið, að árið 1966 hafi nokkrir áhugasamir kylfingar í Hafnarfirði og Garðahreppi stungið saman nefjum vegna þess að fyrir dyrum stóð að loka golfvellinum í Öskjuhlíð en opna nýjan í Grafarholti. Eflaust hefur Hafnfirðingum og Garðbæingum þótt full ástæða til þess að Flugleiðir skoðuðu að koma á fót áætlunarflugi í Grafarholtið því þetta var óravegalengd og óhugsandi að fara svo langt til þess að leika golf þótt íþróttin þætti eflaust afar áhugaverð, skemmtileg og góð líkamsrækt. Steinar og Gullveig segja frá því að tveir lögfræðingar og nágrannar í Garðahreppi, Jónas Aðalsteinsson og Jóhann Níelsson, hafi átt frumkvæðið að því að fundinn yrði staður fyrir nýjan golfvöll nær heimilum þeirra svo styttra væri að fara með kylfurnar. Þau nefna síðan að skömmu síðar hafi Sigurbergur Sveinsson bæst í hópinn sem þau nefna ættföður einnar þekktustu golffjölskyldu á Íslandi. Eftir að staldrað hafði verið við Vífilsstaði beindust sjónir manna að Hvaleyri enda að mörgu leyti kjöraðstæður þar til golfiðkunar. Nánar er fjallað um aðdraganda að stofnun Keilis og gerð golfvallar á Hvaleyri annars staðar á þessum blöðum.

46


Golfekkjan Í 1. tbl. Kylfingsins árið 1969, en Golfklúbbur Reykjavíkur gaf ritið út, er að finna kvæði frá Hvaleyri. Höfundar er ekki getið en hann mun vera Hafsteinn Hansson. Skrifið er skemmtilegt aflestrar og ágætt dæmi um það hvernig golfíþróttin getur gagntekið fólk - hér eiginmanninn, en eflaust getur mörg eiginkonan tekið eitthvað af smiteinkennunum til sín:

LJÓÐABRÉF FRÁ HVALEYRI Golfekkjan Ekkjan: Heim til sín karlinn minn ókominn er, enda þótt klukkan sé tólf. Þeir slíta ekki húsgögnum heima hjá sér, sem hugsa ekki um annað en golf. En hvað þýðir mér, sem er meinlaus og góð, við manninn að kvarta yfir því. Hann kom heim einn daginn meðan stormurinn stóð, svo stytti upp, þá hvarf hann á ný. Áður fyrr gjarnan hann átti það til, með áhuga líta til mín. Nú tautar hann eitthvað, sem ég ekki skil, um uppáskot, wedsa og green. Að æsa sig við hann er ekki til neins, þótt oft sé ég döpur og reið. Og sögurnar hans eru alla tíð eins, eða eitthvað á þessa leið:

47


Kylfingurinn: Með fjarka ég dræfaði á fyrstu braut, þeir fara ekki beinna en ég. Hún fannst út í röffi í lítilli laut, og lá þar hreint ósláanleg.

Á sjöttu braut átti ég andstreymi nóg, enda var keppnin þar hörð. Fugl stal víst einni, það fór önnur í sjó, svo átti ég þrjú högg í jörð.

Á annari dræfið var andskoti stutt, samt inni á brautinni var. Og hefði ég ekki þurft öll þessi pútt, ég átt hefði að jafna við par.

Ég hugsaði, miðaði og hugsaði meir og hausinn var réttur og kyrr. Ég stóð eins og Birgir og sló eins og Geir, og slæsaði meira en fyrr.

Á þriðja tíi ég tók á mig rögg, ég tíaði upp thunderbolt. Ég sveifluna vandaði, síðan kom högg, hún slæsaði langt út í holt.

Þótt þetta lagaðist ekki undireins, á áttundu fékk ég þó hitt. Með vindil frá Pétri og stöðuna hans Sveins og sveiflu frá Eiríki Smith.

Á fjórðu braut klikkaði kerfið hjá mér, ég komst inn á greenið í sjö. Ég púttaði þrisvar, já, því er nú ver, þó taldi ég alls ekki tvö.

Á níundu hárrétta hæðina fékk, ég var hér um bil viss hvar hún var. Ég hreykinn og stoltur að holunni gekk, og hún var sko — alls ekki þar.

Á fimmtu, ég annað eins sjaldan hef séð, af slæsinu rétti hún sig. Ef outofbounds höggin ég ekki tel með, þeir eiga ekki sénsa í mig.

Þar næst á fyrstu — (ekkjan): æ þegiðu nú, þetta við heyrt höfum fyrr. Farðu út á golfvöll, — nú gegnir þú, í guðsbænum vertu þar kyrr.

Eins og ráða má af inngangi kvæðisins voru karlar í miklum meirihluta þeirra sem stunduðu golfið á upphafsárum golfklúbbsins Keilis. Að því leyti hafa orðið þáttaskil og konur eru engir eftirbátar karla þegar kemur að golfiðkun þegar komið er að 50 ára afmæli Keilis árið 2017. Keilisfólk lagði enda lóð sín á vogarskálarnar í þessum efnum eins og ýmsum öðrum, til dæmis með því að halda fyrsta Íslandsmót kvenna í golfi á Hvaleyrinni 16.-18. ágúst 1967 á glænýjum velli sem þótti erfiður öllum kylfingum af báðum kynjum. En Keilir fékk lof fyrir það hversu mótshaldið var vel heppnað og strax varð ljóst að Íslandsmót kvenna í golfi var komið til að vera.

48


Rætt við Jónas A. Aðalsteinsson Jónas A. Aðalsteinsson var fyrsti formaður Keilis og gegndi því embætti fyrstu tvö árin. Hann var einnig virkur í aðdraganda stofnunar klúbbsins. Þrátt fyrir að fyrsta stjórn Keilis hafi þurft að hafa mikið fyrir því að fá land og mannvirki á Hvaleyri undir klúbbinn til að koma starfsemi hans þar fyrir segir Jónas að þetta tímabil hafa verið mjög ánægjulegt og það sé skemmtilegt sé að rifja það upp. „Það var eins við hefðum hitt á óskastundina.“ Spurður um fyrstu kynni af golfíþróttinni segir Jónas að móðursystir hans hefði farið með hann 7 ára gamlan að sjá danskan mann sýna golf á Öskjuhlíðarvellinum í Reykjavík. Hún hafi ekki verið í golfi sjálf en hafði hug á að kynna sér og ungum frænda sínum íþróttina engu að síður. Á námsárum sínum á Akureyri bjó Jónas í nágrenni við golfvöllinn þar. Hann segir að honum hafi þótt þetta óskaplega asnalegt sport á þeim tíma. Þegar golfbakterían vaknaði hjá honum var hann rétt kominn úr lögfræðinámi í Háskóla Íslands. Það atvikaðist þannig að vinir hans höfðu lært golf í Englandi og heilluðust af íþróttinni þar. Jónas var einn þeirra sem fór að fikta við golf með þeim í kjölfarið. Hann gekk í Golfklúbb Reykjavíkur. Spilað var á vellinum í Öskjuhlíðinni sem þá stóð til að loka. Á þeim tíma var verið að byrja á framkvæmdum við Grafarholtsvöllinn. Jónas bjó í Garðabænum. Hann og golffélagar hans úr nágrenninu, ekki síst vinur hans Jóhann H. Níelsson, höfðu áhuga á að kanna möguleika þess að koma upp golfaðstöðu í Garðabæ eða næstu sveitarfélögum. Þeim leist ekki vel á að fara upp í Grafarholt til að spila golf og fóru því að huga að öðrum stað. Þeim leist vel á svæðið kringum Vífilstaði. Þeir voru félagar, Jónas og Sveinn Snorrason sem var formaður Golfsambands Íslands. Jónas átti reyndar sæti í stjórn þess með Sveini um hríð. Sveini leist vel á hugmyndir um stofnun nýs golfvallar og stóð þétt við bakið á Keilismönnum í því efni. Bekkjarbróðir Jónasar úr Menntaskólanum á Akureyri var Júlíus Sólnes, golfmaður góður. Jónas bað Júlíus Sólnes að teikna golfvöll á svæðið við Vífilsstaði í tengslum við hugmyndir forvígismanna Keilis. Það var fyrsti uppdrátturinn sem gerður var af eiginlegum golfvelli þar þótt golf hefði verið leikið á svæðinu af vistmönnum á Vífilsstöðum. Það náðust ekki samningar við Ríkisspítalann, þeir höfðu aðrar hugmyndir á þeim tíma. Jónas segir að Sigurbergur Sveinsson hafi átt frumkvæðið að því að reyna að fá land undir golfvöll á Hvaleyri. Landið á Hvaleyrinni var allt í eigu Legatssjóðs Flensborgarskóla sem var undir stjórn bæjaryfirvalda í Hafnarfirði. Jarðirnar eða kotin á Hvaleyri voru síðan í ábúð ábúenda á þeim jörðum eða kotum. 49

Jónas A. Aðalsteinsson fyrsti formaður Golfklúbbsins Keilis. Ljósm.: JGR.


Frumherjar! Hér eru saman komin nokkur þeirra sem áttu veg og vanda að stofnun Golfklúbbsins Keilis og starfsemi klúbbsins fyrstu árin. F.v.: Jón Boði Björnsson, Inga Magnúsdóttir, Sigurður Héðinsson, Jónas A. Aðalsteinsson, Sigurbergur Sveinsson og Jóhann Níelsson. Ljósm.: Magnús Hjörleifsson. Stærst voru Vesturkot, Sveinskot og hálflendan Hvaleyri sem fyrrgreindir Guðmundur og Kristján áttu í óskiptri sameign. Þetta sést vel á uppdrætti Jónatans Garðarssonar af Hvaleyrartanganum. Hafnarfjarðarbær hafði reynt að kaupa landréttindi ábúendanna um langa hríð. Bærinn hafði hug á því að ná þessu landi undir byggingar. Bæjaryfirvöld náðu ekki samningum við landeigendur. Þegar við Keilismenn fórum þess á leit að reyna að kaupa landréttindi bændanna til notkunar undir golfvöll samþykkti bærinn að leyfa okkur að reyna. Ef okkur tækist það myndi Keilir fá leigusamning til nokkurra ára. Öllum að óvörum tókust samningar Keilismanna við bændur. Þýðingarmestu samningarnir í upphafi voru samningarnir við Kristján Steingrímsson, ábúanda helmings hálflendunnar Hvaleyrar og ábúandann á Vesturkoti, Sigurð Gíslason. Þeim leist báðum vel á að Hvaleyrin yrði nýtt til golfiðkunar í stað mannvirkjagerðar þeirrar sem bærinn hafði áformað. Einhvern veginn hittu Keilismenn á réttan tíma og gátu stillt málum upp þannig gagnvart ábúendunum að samningar við aðra en Guðmund ábúanda á helmingi hálflendunnar Hvaleyrar tókust á tiltölulega stuttum tíma. Raunar þurftu Keilismenn að standa í ákveðnum málaferlum varðandi skipti á hálflendunni Hvaleyri eins og rakið er á öðrum stað í þessari bók. „Dómur í því máli var einn ánægjulegasti dómurinn á mínum lögmannsferli,“ segir Jónas . Ársæll Sveinsson var bóndi á Sveinskoti. Þegar völlurinn hafði verið gerður tók hann við sem fyrsti sláttumaður klúbbsins. Hann var með traktor og sláttuvél og var fús til að hjálpa og var síðan fljótur að tileinka sér fyrstu sérhæfðu golfsláttuvélina. „Ársæll var alltaf jákvæður og tilbúinn og framlag hans stórkostlegt á upphafsárunum,“ segir Jónas. „Okkur var ekki spáð góðu gengi með klúbbinn eða völlinn í upphafi. Við kunnum ekkert í ræktun eða neinu þar að lútandi. Og fjárhagurinn var frekar bágur og því ekki hægt að ráða sérfræðinga til allra starfa. Magnús Guðmundsson arkitekt hannaði fyrsta völlinn. Hann var tvö- eða þrefaldur Íslandsmeistari. Hann var 50


kunningi minn frá Akureyri og tók verkið að sér fyrir lítið sem ekkert verð. Flest annað var unnið í sjálfboðavinnu.“ Af um það bil 100 stofnfélögum telur Jónas að um fimmtán eða þar um bil hafi vitað almennilega hvað golf var. Regluverkið var því dálítið sniðið að þessu fólki sem var að kynna sér golf og hefja þátttöku á golfvöllunum. Jónas rifjar upp hlutdeild Eiríks Smith listmálara sem gerði fjölda skemmtilegra auglýsinga fyrir klúbbinn fyrir ánægjuna eina saman. Þetta er nú sannkallaður fjársjóður og algjörlega ómetanleg eign. Varla getur annar klúbbur státað af þvílíku safni listaverka sem beinlínis tengist starfseminni. Þá er ótalið annað framlag hans og margra fleiri sem lögðu gjörva hönd á plóg. Hann nefnir einnig Svein Snorrason sem kemur enn á Hvaleyrina, kominn á tíræðisaldur þegar þetta er ritað, síðla árs 2016. Hann leikur enn golf en mun þurfa að lúta skilmálum eiginkonu sinnar sem setur mörkin við níu holur þótt hann fari stundum tólf, að því er Jónas segir. Engu breytir þótt hann hafi nánast dáið þrisvar á golfvöllum, til dæmis úti í Englandi og einu sinni á Hvaleyrinni þar sem hann bað drengi sem voru með honum að gjöra svo vel að fara nú upp í skála og sækja bíl. Margir gætu eflaust tekið undir það með Sveini að verri dauðdaga mætti hugsa sér en við golfiðkun á fallegum velli. Ekki var fyrsta formanninum ljóst hvernig völlurinn myndi þróast úr 9 holum í 18. Hann reiknaði frekar með að farið yrði lengra inn á holtið og þar niður fyrir. Hraunið hafi hins vegar reynst mikið ævintýri og völlurinn fengið ýmsar viðurkenningar. Öll þróun vallarins allt til þessa dags hafi verið til fyrirmyndar og aðdáunarverð. Jónas las til dæmis fyrir stuttu dóm í Golf Digest þar sem Hvaleyrarvöllur var talinn meðal „most exotic“ valla í heiminum. Þá var búið að leggja brautirnar í hrauninu. Reyndar áttaði hann sig ekki alveg á því að um væri að ræða Keilisvöllinn fyrr en hann sá myndir sem fylgdu greininni vegna þess að völlurinn var sagður heita Vallarvisir Golf Club. Í greininni var eindregið mælt með því að fólk sem vildi koma til Íslands að leika golf færi á Vallarvisir Golf Course. Jónas sendi blaðinu nokkrar línur á léttum nótum þar sem hann leiðrétti misskilninginn. Grein hans var birt í blaðinu til skýringar á þessum misskilningi með þökkum fyrir leiðréttinguna og segir Jónas að þetta sé eina grein hans um golf í erlendum fræðiritum! Jónas rifjar upp að stofnendur Keilis hafi aðallega verið úr Garðabæ, sem þá hét Garðahreppur, Hafnarfirði og Kópavogi. Við stofnun klúbbsins hafi verið ákveðið að félagssvæði klúbbsins næði yfir lögsagnarumdæmi þeirra sveitarfélaga og var reyndar einu sveitafélagi bætt við, Bessastaðahreppi. Engir golfklúbbar eða golf51

Ársæll Sveinsson bóndi í Sveinskoti, sem einnig var nefnt Sælakot, var fyrsti starfsmaður Keilis og talinn mikill happafengur fyrir klúbbinn. Ársæll var með kindur og skapaði það oft sérstakan og skemmtilegan blæ á golfiðkun að hafa lambfé í girðingu inni á miðjum velli. Mynd úr safni Keilis.


Auglýsingar Eiríks Smith fyrir hina ýmsu viðburði á Hvaleyrarvelli settu mikinn svip á starfsemina fyrstu árin enda listilega gerðar og ekki laust við að þær séu dýrmætur spéspegill síns tíma.

52


53


vellir voru í þessum sveitarfélögum. Í stjórn Keilis voru valdir menn úr öllum þessum sveitarfélögum. Sveitarstjórnirnar tóku þessum hugmyndum um stofnun golfklúbbs vel og tóku vel í að styrkja klúbbinn með fjárframlögum sem og gekk eftir. Í þeim tilgangi að gæta fyllsta hlutleysis í nafnvali klúbbsins var ákveðið að kenna hann ekki við neitt ákveðið sveitarfélag, t.d. Hafnarfjörð, sem að öðru jöfnu hefði verið eðlilegast. Niðurstaðan var að kenna klúbbinn við eldfjallið Keili, glæsilegt náttúrufyrirbæri, sem sæist vel frá öllum sveitarfélögum á félagssvæði klúbbsins. Þannig truflaði nafngift klúbbsins ekki styrkveitingar annarra sveitarfélaga en Hafnarfjarðar til klúbbsins þó völlurinn væri í Hafnarfirði. Jónas sér eftir sveitarstjórakeppninni: Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur og Bessastaðahreppur. Svæði þeirra sveitarfélaga var félagssvæði klúbbsins í upphafi. „Okkur þótti mikilvægt að öll bæjaryfirvöld á félagssvæðinu þekktu starfið, sæju allt fólkið sem kæmi að því og áttuðu sig á umfanginu. Það tókst með þess-ari keppni. Og fleiri jákvæð áhrif má nefna. Á 10 ára afmælinu sagði bæjarstjórinn í Hafnarfirði mér frá því að í Hafnarfirði hefði fyrir stuttu verið við að eiga þrjá eða fjóra vandræðaunglinga. Þeir voru þá 12-14 ára. Svo kynntust þeir golfinu. Með því að geta farið upp á völl og verið þar meira og minna alla daga og fengið útrás breyttust þeir á 2-3 árum í fyrirmyndarpilta. Bæjarstjórinn bætti við að peningunum sem væri varið í íþróttastarf, ekki síst í unglingastarf Keilis, væri vel varið. Enda var það starf og er enn í dag til fyrirmyndar.“ Hér var nefndur fólksfjöldi í starfsemi golfklúbba og við iðkun íþróttarinnar. Sá fjöldi er ekki alltaf sýnilegur og Jónas nefnir sögu af því þegar tveir sérfræðingar á vegum Reykjavíkurborgar voru sendir upp í Grafarholtið, eftir að þar var kominn golfvöllur, til þess að kanna hvort ekki mætti byggja þar blokkir. Þeir fóru um svæðið og komu til baka með tillögu um að vel mætti taka eins og tvær „ræmur“ af þessum golfvelli sem þar væri enda sæjust þar ekki nema einstaka menn á stangli. Þetta væri engin nýting á svæðinu og þetta fólk myndi líklega ekkert muna um þessar „rennur“. Tókst þó að koma í veg fyrir að tillögur þessar næðu fram að ganga. Þessi saga segir Jónas að renni ágæt54


um stoðum undir mikilvægi þess að íþróttahreyfingin standi vel að kynningarmálum, til dæmis með því að halda góðum tengslum við fólkið sem fer með völdin. Það telur Jónas hafa gengið vel og alltaf hafi hann mætt jákvæðu viðmóti hjá bæjaryfirvöldum. Jónas segir að frá fyrstu teighöggum á Hvaleyrinni hafi verið lögð áhersla á að golf væri ekki eingöngu fyrir svokallað heldra fólk eða efnafólk - golf væri fyrir alla. Meðal annars þess vegna var reynt að hafa félagsgjöld í Keili eins lág og unnt var strax í upphafi. Ekki er alveg ljóst hvað varð til þess að Jónas A. Aðalsteinsson valdist til formannsembættis fyrstur Keilismanna, hann sjálfur telur að það hafi bara æxlast á þennan veg. Hann segir Sigurberg Sveinsson hafa þekkt afar vel til í Hafnarfirði og það hafi verið gríðarlega mikils virði í upphafi klúbbstarfsins. Menn hafi hins vegar talið ágætt að hafa lögmann í liðinu þegar þurfti að ganga til samninga um kaup á löndum og lóðum og við úrlausn á 55


Hér eru allir formenn Keilis frá 1967-2003 saman komnir á mynd. Neðri röð f.v.: Jónas Aðalsteinsson, Birgir Björnsson, Sigurður Héðinsson, Gísli Sigurðsson, Ásgeir Nikulásson, Knútur Björnsson. Efri röð f.v.: Inga Magnúsdóttir, Jón Marinósson, Ólafur Ágúst Þorsteinsson, Jónas Ragnarsson, Guðlaugur Gíslason, Halfdán Þór Karlsson, Guðjón Sveinsson, Halldór Halldórsson, Guðmundur Friðrik Sigurðsson. Mynd úr safni Keilis. málefnalegum ágreiningi sem meðal annars rataði fyrir dómstóla eins og rakið hefur verið. Vafalaust hefði ýmsum þótt það álitaefni að taka allt þetta góða svæði undir golfvöll en bæjaryfirvöld lögðu blessun sína yfir áformin, ekki síst vegna þess að þeim hafði ekki tekist að fá landréttindi bænda keypt þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess. „Það gerði því ekkert til að lofa klúbbnum að reyna að ná þeim samningum, klúbburinn myndi verða meðfærilegri en bændur – þeir reiknuðu ekki með því að það kom krókur á móti bragði – eftir að golfvöllurinn var kominn á Hvaleyrina skiptu menn um skoðun, þ.á.m. hafnfirsk yfirvöld, allir vilja að golfvöllurinn verði áfram á Hvaleyrinni“ segir fyrsti formaður Keilis. Formenn auk Jónasar fyrsta áratuginn voru Birgir Björnsson 1969-1971, Sigurður Héðinsson 1971-1973, Gísli Sigurðsson 1973-1975, Ásgeir Nikulásson 1975-1976 og Knútur Björnsson 1976-1978.

56


Félagsstarf með vaxtaverki Það er ekki heiglum hent að fá inni í Golfklúbbnum Keili nema hafa heimilisfesti í Hafnarfirði, að minnsta kosti ekki á þessum árum. Ýmsir freistuðu þess þó og sérstaklega er gaman að lesa bréf frá ungum Skagamanni sem augljóslega hefur haft bein í nefinu þrátt fyrir ungan aldur og er ófeiminn við að tjá skoðanir sínar í bréfi til Keilis sem vélritað er á Akranesi þann 19. júlí 1968 - en spjallformið á því minnir satt að segja ekkert síður á þá möguleika sem síðar opnuðust með tölvupósti og samfélagsmiðlum. Þessi piltur átti síðar eftir að láta verulega að sér kveða á vettvangi golfíþróttarinnar sem síðar verður frá sagt. En bréf hans til Keilis er svohljóðandi: Ég heiti Hannes Þorsteinsson, og ég er 16 ára gamall. Ég skrifa þetta bréf, til að fá allar upplýsingar um það, hvort ég get gerzt meðlimur í G.K., og með hvaða skilmálum. Svo er mál með vexti, að næstkomandi haust, vetur og vor mun ég vera nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð, og þar af leiðir búseta í Reykjavík. Ég æfi golf og mundi vilja halda því áfram, þó ég skipti um búsetu þennan tíma. Þá er um tvo kosti að ræða: annaðhvort að gerast meðlimur í nærliggjandi golfklúbb, eða borga daggjald í hvert sinn sem ég hyggst æfa golf. Finnst mér seinni liðurinn vera algjörlega ómögulegur, en sá fyrri alveg sjálfsagður. Nú, þá koma tveir golfklúbbar til greina, G.R. eða G.K. Golfklúbbur Reykjavíkur hefur mjög há ársgjöld, er mér sagt, og þar sem ég hef ekki ótakmörkuð auraráð, þá er það útilokað að ganga í þann klúbb. Þá er Keilir eini klúbburinn sem til greina kemur. En ekki veit ég hvort þið takið meðlimi í klúbbinn, sem eiga lögheimili utan Hafnarfjarðar, en mér finnst nú ekkert óréttlátt þótt ég mundi fá inngöngu hjá ykkur. Nú bið ég um allar þær upplýsingar sem ég þarf til að geta gerzt meðlimur í Golfklúbbnum Keili. Jæja þetta hefur ef til vill verið heldur langt mál hjá mér, en ef þið viljið vita eitthvað um mig þá eru hér svolitlar upplýsingar. Ég er 16 ára (f. 17. 17. 1952), hef leikið golf í 3 ár, og hef eins og er 26 í forgjöf, en ég hef ekki tekið þátt í nema einni keppni í sumar, og þá gekk mér illa, en fékk samt þessa forgjöf (ég hef oft leikið völlinn hér á 82-85 höggum, par 63, s.s.s. 62). Svo vona ég að ég fái svar við spurningu minni fljótlega, og kveð því núna. Með kylfingakveðju, Hannes Þorsteinsson (sign) P.S. Ef formaðurinn les þetta, þá hefur hann eflaust séð mig í bíl með formanni Golfklúbbs Akraness núna um þann 14. þ.m. Ég er sonur formanns G.A. Þannig lýkur þessu bréfi. Hannes fær svar sem er dagsett 6. ágúst og undirritað af Jónasi A. Aðalsteinssyni formanni. Þar er Hannesi tilkynnt að hann eigi kost á því að gerast svokallaður aukameðlimur í Keili. Eini 57


Hér eru þeir Júlíus R. Júlíusson, Pétur Elíasson, Birgir Björnsson og Magnús Birgisson saman komnir við golfiðkun á Hvaleyri, líklega árið 1968. Mynd úr safni Keilis. munurinn á fullgildum og aukafélögum var sá að aukameðlimir tóku ekki þátt í meistarakeppni klúbbsins en máttu keppa á öllum öðrum mótum. Og þeir höfðu ekki kjörgengi eða kosningarétt innan klúbbsins. Augljóst er þó af svari formannsins að Keilir hefur fullan hug á því að fá þennan unga kylfing í sínar raðir, svo sem sjá má af niðurlagi bréfsins. Þar segir: Okkur þykir leitt að geta ekki orðið við ósk þinni um full félagsréttindi í Golfklúbbnum Keili, en eins og stendur koma lög klúbbsins og venjur um inntökuskilyrði í veg fyrir það. Ekki er óhugsandi að á hvoru tveggja verði þó breyting. Ef þú fellir þig við ofangreind skilyrði, býð ég þig velkominn sem aukafélaga í Golfklúbbinn Keili. Árið 1970 skrifar Birgir Björnsson formaður Keilis skýrslu um starfsemina fyrir árið 1969 til ÍBH. Þar segir hann frá því að meginverkefni stjórnar það ár hafi einkum snúið að uppbyggingu golfvallarins og breytingum á brautum, byggingu teiga og snyrtingu umhverfis. Eitthvað var keypt af vinnu við þessi verk en Birgir nefnir sérstaklega að Keilisfólk hafi tekið virkan þátt í vinnunni og sjálfboðavinna hafi numið um 500 vinnustundum. Árið 1970 hafði klúbburinn tveimur starfsmönnum á að skipa en það voru þeir Pétur Elíasson og Ársæll Grímsson. Það ár sá Keilir ásamt Golfklúbbi Suðurnesja um framkvæmd Íslandsmótsins í golfi þar sem keppendur voru 191 talsins og keppt var í 9 flokkum. Í skýrslu Birgis formanns fyrir árið 1970 kemur fram að þá hafi talsvert verið unnið í golfskálanum. Meðal annars hafi allar raflagnir verið endurnýjaðar, tvöfalt gler sett í eitthvað af gluggum hússins, loft sett í setustofu og efri hæð hússins tekin í notkun. Úti á vellinum voru teigar endurnýjaðir og stækkaðir en helsta framkvæmdin á vellinum það árið segir Birgir að hafi verið bygging flatar á þriðju brautinni. Félagar á þessu fjórða starfsári klúbbsins voru 147, þar af 24 sextán ára og yngri. Þorvaldur Ágseirsson golfkennari kenndi nokkra daga hjá klúbbnum og að auki veittu nokkrir Keilisfélagar tilsögn í sjálfboðavinnu en Birgir nafngreinir þá ekki í skýrslu sinni. 58


Margt fleira hefur verið gert á þessum tíma til þess að reyna að kynna golfíþróttina fyrir almenningi og efla félagsstarf kylfinga. Eitt af því sem nefna má til dæmis um það eru sameiginlegar kvikmyndasýningar sem Golfklúbburinn Keilir og Golfklúbbur Reykjavíkur stóðu fyrir. Um slíka sýningu segir í auglýsingu sem birtist í Alþýðublaðinu 14. janúar 1971: Eins og síðastl. vetur munu Golfklúbbur Reykjavíkur og Golfklúbburinn Keilir, gangast fyrir sýningum á golfkvikmyndum í vetur. Fyrsta sýningin verður á morgun, föstudag 15. janúar í Domus Medica við Egilsgötu. Allir velkomnir. Því miður fylgir ekki sögunni hvaða mynd var sýnd þetta vetrarkvöld en vonandi var góð mæting. Þess má geta að árið áður, eða 1. apríl 1970, var fjallað um þessar sýningar í Morgunblaðinu og er þar tilgreint að kylfingar hafi áður séð keppni á Filippseyjum en þetta kvöld ætluðu golfklúbbarnir að sýna í Skiphóli í Hafnarfirði mynd úr syrpunni Shells Wonderful World of Golf en það var mynd frá keppni í Quebec í Kanada. Að sýningu lokinni var boðið upp á kaffi veitingar og haldin innanhússkeppni í pútti. Fundargerðabók Keilis hefur orðið fyrir einhverjum skakkaföllum því ein blaðsíða, tölusett 37-38, hefur verið rifin úr henni en fundargerðir frá og með hluta aðalfundar 1970 til aðalfundar 1974 hafa verið færðar inn í bókina með sömu rithönd og er þess til dæmis getið að hluti af aðalfundargerðinni 1970 hafi verið færður í bókina í mars 1973 samkvæmt minnisblöðum frá Rúnari Guðmundssyni. Þá eru hafðar auðar síður frá 39-44 til þess að þar megi færa inn fundargerðir stjórnar sem vanti. Þessar síður eru enn auðar á 50 ára afmæli Keilis að því undanteknu að fundargerð frá 1974 hefur verið færð inn á bls. 39 fyrir mistök. Gerðabókin varðveitir ýmsar heimildir og á bls. 46 í henni er bókun frá aðalfundi sem haldinn var 16. nóvember 1971 þar sem Sigurður Héðinsson segir samninginn um Hvaleyri við Hafnarfjarðarbæ eingöngu til í bókum bæjarins. Þá steig Jónas Aðalsteinsson í púlt og reifaði téða samninga. Þar segir að tækist klúbbnum að kaupa þær eignir sem bærinn ætti þá mætti Keilir vera þar í a.m.k. næstu fimm ár. Ef bærinn þyrfti að taka landið myndi hann greiða hluta klúbbsins að frádregnum 7% ársvöxtum. Taldi Jónas að betra væri þó að gera engan samning en slæman. Þessir skilmálar eru raktir í bréfi bæjarstjóra til Keilis sem er dagsett þann 6. maí 1967 þar sem segir að samþykkt hafi verið þann 3. maí sama ár að leigja Golfklúbbnum Keili öll tún á Hvaleyrinni eftir því sem þau losna til 5 ára gegn því að leigutaki greiði kaupverð bæjarsjóðs á eignunum á staðnum með þeim skilmálum sem fyrir liggja í forkaupsréttartilboðum eða samkvæmt eignarnámsmati. Síðan segir: „Óski Hafnarfjarðarbær eða leigutaki eftir 5 ár eða síðar að framlengja ekki leigumálann ber Hafnarfjarðarbæ að greiða leigutaka með jöfnum árlegum greiðslum á þar næstu 5 árum með 7% ársvöxtum framangreint kaupverð eða væntanlegt kaup- eða bótaverð annarra eigna, sem ósamið er um að frádregnum 7% afskriftum fyrir hvert ár, sem leigutaki hefur haft landið til afnota.“ Á þessum sama fundi var talsvert rætt um völlinn og töldu sumir að ekki hefði tekist nógu vel til við hönnun hans en fengu meðal annars þau svör að hönnuðurinn væri talinn sá fremsti hér á landi. Til dæmis var lögð fram tillaga um að fundurinn samþykkti að kjósa þriggja manna nefnd sem réði golfvallaarkitekt til að skipu59

Kvikmyndasýningar nutu mikilla vinsælda í Vesturkoti og víðar á upphafsárunum og voru þá til dæmis sýndar myndir frá golfmótum um víða veröld. Á myndinni má meðal annars sjá Björgvin Þorsteinsson, margfaldan Íslandsmeistara í golfi, Svein Snorrason, Pétur Auðunsson og Jón Árnason. Mynd úr safni Keilis.


leggja völlinn og miða við að hann verði 12 holur. Töldu ýmsir þörf á þessu og var málinu vísað til stjórnar í stað þess að kjósa nefnd í málið, með breytingatillögu við þá fyrri. Að minnsta kosti er ljóst að á þessum tíma var Golfklúbburinn Keilir með svolitla vaxtarverki og Sigurður Héðinsson virðist hafa verið kosinn formaður þótt hann hefði eindregið en árangurslaust beðist undan því vegna anna. „En ekki veldur sá er varar,“ bókar Gunnar Hilmarsson ritari fundargerðarinnar að lokum í gerðabókina og hefur þau orð eftir hinum endurkjörna formanni. Gunnar þessi hefur unnið umtalsvert björgunarstarf heimilda að því er virðist ásamt Rúnari Guðmundssyni með því að færa inn minnispunkta þess síðarnefnda í gerðabókina. Stjórnin ræðir vallarmálið á fundi sínum þann 8. janúar 1972 og er það nefnt „væntanlegt nýskipulag vallarins, þ.á.m. hugsanlegan 12 holu völl“. Ekki er fleira efnislega bókað þar en ráðist var í einhverjar framkvæmdir á vellinum eins og hann var og ýmislegt tilgreint sem unnið skyldi að eins og fjárhagur leyfði. „Nokkuð var rætt um „RÖFF“ og hvernig þau skyldu slegin.“ Og fundinum lauk á þeirri bókun. Á þessum tíma var klúbbskálinn opinn á virkum dögum frá 16:00-22:00 og um helgar frá 10:00-12:00 og 14:00-19:00. Þann 6. apríl sama ár var kominn skriður á skipulagsvinnu við völlinn og bókað í fundargerð stjórnar Keilis þennan dag að formaður klúbbsins myndi mæta á fund sem haldinn yrði með sænskum vallarsérfræðingi (Skjöld) ásamt fulltrúum annarra klúbba. Rætt var um aðkomu Nils Skjölds að Hvaleyrarvelli annars staðar á þessum blöðum - þar sem sagt var frá þróun golfvallarins og verður því ekki fjölyrt nánar um þau mál hér. Keilir hefur allt frá upphafi átt kylfinga í fremstu röð, jafnt í hópi fullorðinna sem yngri kylfinga og aðeins fimm árum eftir stofnun klúbbsins, árið 1972, eignaðist klúbburinn sína fyrstu afreksmenn þegar Alda Sigurðardóttir varð telpnameistari og Sigurður Thorarensen drengjameistari. Keilir átti einnig í samstarfi við Golfklúbb Ness um skemmtikvöld sem til dæmis var auglýst í Vísi 25. mars 1976 og má þar sjá að slík skemmtun var haldin 27. mars í Iðnaðarmannahúsinu í Hafnarfirði og voru aðgöngumiðar seldir hjá Sveinbirni Björnssyni og Ottó Péturssyni. Það er gamalt stef og nýtt í starfsemi fjölmargra félagasamtaka að þau njóta mismikilla vinsælda. Stundum fjölgar svo ört að grípa þarf til takmarkana á inntöku nýrra félaga en á öðrum tímum ýmist fækkar félögum eða fleiri óskast. Og það var einmitt staðan þann 9. janúar 1973 þegar stjórn Keilis kom saman og ræddi mögulega fjölgun félaga. Þá var ákveðið að reyna þá aðferð að gefa félögum sem koma með nýja félaga í klúbbinn á árinu 1973 afslátt á félagsgjaldi 1974 sem hér segir: Þeim sem koma með 1 nýjan 0% Þeim sem koma með 2 nýja 25% Þeim sem koma með 3 nýja 50% Þeim sem koma með 4 nýja 75% Þeim sem koma með 5 nýja 100% Þess utan var samþykkt að halda tvo skemmti- og fræðslufundi og að auki fengju nýir félagar þrjár kennslustundir sem væru 30 mínútur hver. Þess má geta að síðar var bókað að tilraunin með afslátt af félagsgjaldi fyrir nýja félaga bar ekki sérlega góðan árangur en talið var að hún hefði skilað um 10-15 nýjum félögum samkvæmt því sem bókað var á næsta aðalfundi þann 4. febrúar 1974. Greiðasala hefur tíðkast í golfskála Keilis nánast frá fyrstu tíð og þann 25. mars samþykkti stjórnin samhljóða að ganga til samninga við Bryndísi Jónsdóttur, einnig þekkt sem Binna listmálarans Eiríks Smith, um reksturinn en Eiríkur var mjög virkur í Keili um árabil og eftir hann liggja fjölmargar stórskemmtilegar myndir eða auglýsingar fyrir mótshald á vegum klúbbsins. Það er dálítið gaman að þessu þar sem sagan segir að Binna hafi fært Eiríki kost á golfvöllinn svipað og þegar sláttumenn fengu nestið sitt út á engjar hér forðum því ekki hafi hann mátt vera að því að fara heim til að sækja sér næringu. Þvílíkur var golfáhuginn! Svo eru til sögur eins og sú um Eirík Smith og félaga að þeir hafi stundum gleymt sér og lent í myrkri. 60


Fór þá einn inn á flöt og kveikti á kveikjara til að hinir vissu hvert ætti að slá. Eiríkur mun einnig hafa fengið hjartaáfall við klettinn á 17. braut. Sigurður Héðinsson kom þar að honum en Eiríkur hafði fengið áfallið eftir upphafshögg allgott. Sigga er í fersku minni þegar hann heyrði Eirík segja þar sem hann lá á jörðinni: „Ég trúi ekki að ég eigi eftir að deyja hér eftir svona gott dræv!“ Eiríkur var reyndar heppinn að Sigurður var þarna í hefðbundnum erindgjörðum en hann mun einnig vel þekktur sem „brennuvargur“ því þeir Knútur læknir áttu það víst til að fara með eldi um Hvaleyrina og brenna sinu þegar þeir töldu þörf á því. Var því flestum ljóst hverjir voru á svæðinu þegar reykjarmökkinn lagði upp af golfvellinum á þessum árum. Af einhverjum sökum virðist Eiríkur Smith koma oftar við sögu en margir aðrir þegar eitthvað skondið hefur gerst á vellinum á þessum árum því til er fræg saga af því þegar hann var að spila þar sem nú, árið 2017, er 11. braut og hafði átt annað gott „dræv“. Kemur þá aðvífandi maður sem alltaf var kallaður Jói á hjólinu og hjólaði vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið allvel búinn. Jói hafði meðal annars gaman af því að fara í Sædýrasafnið og í einhverri ferðinni þangað lagði hann leið sína um golfvöllinn á Hvaleyri. Sá hann þá hvar bolti Eiríks hafði lent á góðum stað inni á „gríni“. Hann tók upp boltann en varð líklega ekki um sel þegar Eiríkur hrópaði á hann að sleppa boltanum! Hjólreiðamaðurinn hrökk við og henti boltanum frá sér í skyndingu en þá vildi svo vel til fyrir Eirík að boltinn rataði þráðbeint ofan í holuna úr höndum Jóa. Taldi Eiríkur sig þar með hafa farið holu í höggi! Rétt er að geta þess hér að sambýlið og samstarfið við Sædýrasafnið var alltaf til fyrirmyndar meðan það var og hét. Eftir að safnið var lagt niður fékk Keilir mannvirki þess til afnota og er ákveðnum staðarheitum frá tíma safnsins haldið til haga. Má þar til dæmis nefna hvalalaugina þar sem er inniaðstaða æfingasvæðisins í Hraunkoti, ísbirnirnir voru þar sem árið 2017 er púttæfingasvæði við fyrsta teig á nýja hluta vallarins í hrauninu og ljóna- og apabúrin gegna nú hlutverki áhaldahúss. Til eru ýmsar skemmtilegar sögur af dýrunum í Sædýrasafninu og samskiptum þeirra við kylfinga. Hrafnar safnsins sluppu til dæmis reglulega inn á golfvöllinn og sóttu þar golfkúlur í gríð og erg. Svo ágengir gátu hrafnarnir verið að þeir fóru hreinlega ofan í golfpoka kylfinga uppi við skála og sóttu sér golfkúlurnar þangað ef ekki var annað í boði! Gæsir safnsins voru einnig tíðum áhugasamar um golfiðkunina og áttu það til að „aðstoða“ kylfinga með því að hnýstast í bolta þeirra þar sem þeir lágu og jafnvel bæta aðeins við upphaflega högglengd með goggi sínum. Kom jafnvel fyrir að þær nytu hvatningar þeirra sem í hlut áttu og höfðu hagsmuni af því að boltinn færðist örlítið nær holu. Geitur áttu að sama skapi til að iðka svipaða iðju og gæsirnar nema hvað þær nenntu ekkert að vera að ýta boltum en vildu miklu frekar stanga kylfinga. Einna skemmtilegust af atvikum tengdum sambúð Keilis og Sædýrasafnsins er þó sagan af erlendum kylfingi, Peter Salmon, sem lék á Hvaleyri og taldi sig hafa séð kengúrur! Félagar í Keili, sem vissu mætavel að kengúrur var að finna í Sædýrasafninu, ákváðu hins vegar að kannast alls ekkert við að þessa dýrategund væri að finna hér á landi en vissulega væri hún algeng í Ástralíu. Þeir þrættu við Peter dágóða stund svo hann hélt um tíma að verulega væri farið að slá út í fyrir sér. Hið sanna kom á daginn svo Peter Salmon gat andað léttar. Í bréfi sem dagsett er 17. maí 1973 og stílað á Valdimar Örnólfsson formann íþróttanefndar ríkisins kemur fram að félagsmenn í Keili, þá 120 talsins, hefði einróma samþykkt teikningu sænska golfvallahönnuðarins Skjölds og að endanlegt skipulag 12 holu vallar lægi þar með fyrir. Þá hefðu félagsmenn í Keili lagt í framkvæmdir á vellinum sem næmu liðlega einni milljón króna. Þá lögðu íþróttayfirvöld til að Keilir félli frá hluta af því sem íþróttasjóður skuldaði klúbbnum gegn því að styrkurinn yrði greiddur á fjórum árum. Keilir samþykkti það. En síðan heyrðist ekkert frá íþróttayfirvöldum, að því er fram kemur í bréfinu. Hins vegar hafði GSÍ falið klúbbnum að halda landsmót í golfi sem hafði átt að fara fram í júlí í Vestmannaeyjum en af augljósum ástæðum, sem ekki eru nefndar í bréfinu en þar er væntanlega vísað til eldgoss í Heimaey, gætu eyjarskeggjar ekki haldið mótið. Töldu Keilisfélagar skyldu sína að hlaupa í skarðið en til þess þyrfti að 61


Myndir frá Landsmóti sem haldið var á Hvaleyri 1973.Talsverður áhugi var fyrir mótinu enda golfið í mikilli sókn. Myndir úr safni Keilis. ráðast í talsverðar framkvæmdir á Hvaleyrarvelli sem fjárráð félagsins þyldu ekki þar sem félagsgjöld dygðu einungis til þess að greiða laun fyrir vallarstörf, til áburðarkaupa, viðhalds véla og þess háttar. Er formanni íþróttanefndar ríkisins vinsamlegast bent á það í bréfinu að um 1.000 manns séu í golfklúbbum á Reykjavíkursvæðinu sem noti Hvaleyrarvöllinn meira og minna enda sé hann oft í nothæfu ástandi þegar snjór liggur yfir Grafarholtsvelli. Er því farið fram á fyrirgreiðslu af hálfu ríkisins til þessa stóra hóps. Þá er einnig tekið fram að fé til ræktunarframkvæmda sé afgreitt snemma vors því þá sé von til þess að afrakstur þeirra komi að notum seinni part sumars. Í þessu bréfi kemur berlega í ljós gamalkunnugt stef úr baráttu golfklúbbsins þar sem bent er á að til þess að nota megi golfvelli um sumar þurfi að ráðast snemma í framkvæmdir. Segir meðal annars að nauðsynlegt hafi verið að hefjast handa með jarðýtu um vorið og hafi nokkrir félagar í Keili gengið persónulega í ábyrgðir og lánað fjármuni í trausti þess að íþróttayfirvöld skildu ekki þennan fjölmenna og áhugasama hóp kylfinga eftir á köldum klaka, eins og það er orðað af Gísla Sigurðssyni formanni Keilis í beinskeyttu bréfinu. Þá hafi forsvarsmenn Keilis fengið ákveðin loforð um bráðabirgðalán ef fyrir lægi að klúbburinn fengi greidda styrki eins og gengið hafði verið út frá þegar eftirgjöfin á greiðslum frá íþróttasjóði og dreifing þeirra yfir fjögur ár var samþykkt á sínum tíma. ,,Verði umsóknir okkar árangurslausar, verður ekkert frekar hægt að framkvæma af uppbyggingu þessa vallar og fyrirsjáanlegt að Keilir verður þá að lýsa yfir uppgjöf sinni við að halda væntanlegt Íslandsmót. Ég vil fyrir hönd Keilis leyfa mér að vona í lengstu lög, að þú og aðrir drengskaparmenn innan íþróttaforustunnar, sjái svo um að til þess komi ekki,” segir Gísli í niðurlagi bréfsins. Og það var í fleiri horn að líta þetta herrans ár 1973. Ungur maður, Jón Sigurðsson, félagi í Keili var á leið til Skotlands eftir að falast hafði verið eftir plássi fyrir hann til æfinga og náms hjá Félagi skoskra golfvallar62


stjóra (Scottish golf greenkeepers association). Þar var í forsvari R.B. nokkur Moffat. Sá hafði svarað umleitaninni frá Gísla Sigurðssyni formanni Keilis með handskrifuðu bréfi þar sem hann lofar allri aðstoð við að útvega Jóni vinnu í nágrenni við golfvöllinn þar sem hann ætlar að vera við æfingar. Gísli ítrekar erindi sitt þann 8. febrúar og þann 28. febrúar sendir Moffat þau skilaboð, nú vélrituð, að hann hafi fundið starf fyrir Jón á Cathkin vellinum þar sem Moffat hefur sjálfur aðsetur. Þar getur Jón fengið starf sem aðstoðarmaður í vallarstjórn (greenkeeper assistant) en því miður fylgi starfinu ekki íbúðarhúsnæði af nokkru tagi. Þó muni klúbburinn veita alla aðstoð við húsnæðisleit en Jón muni þó sjálfur þurfa að standa straum af húsaleigu. Kaupið er 22 pund og 50 pens fyrir 40 stunda vinnuviku sem Moffat vonar að muni falla í kramið. Þá muni Jón fá leyfi til þess að stunda nám sitt á vinnutímanum enda sé skólinn, sem hann hyggist sækja, í nágrenni við Cathkin. Þetta leit allt saman ofurvel út en svo kom babb í bátinn. Gísli Sigurðsson skrifar Moffat þann 20. mars 1973. Þar segir Gísli að útlendingaeftirlitið á flugvellinum í Glasgow hafi snúið Jóni við á vellinum á grundvelli þess að hann hafi ekki fengið atvinnuleyfi í landinu. Og því sé nú þessi ungi maður staddur á Íslandi en ekki í Skotlandi sem valdi aðilum málsins talsverðum leiða. Moffat virðist þó hafa reynt ýmislegt til þess að aðstoða í málinu en allt hafi komið fyrir ekki. Gísli veltir upp þeim möguleika að Jón gæti reynt að nýta sér það sem kallað væri ,,training programmes” og þá væri nóg að þeir hefði bréf upp á það frá viðkomandi aðila. Skemmst er frá því að segja að Jón komst aldrei lengra en á flugvöllinn í Glasgow og má segja að sjaldan sé ein báran stök því hann fékk ekkert af farangri sínum sem fyrir mistök fór áfram með flugvélinni til Kaupmannahafnar. Allt nema golfsettið. Jóni var haldið í gæsluvarðhaldi allan daginn, en hann varð einmitt 19 ára þennan sama dag, og gættu hans tveir lögreglumenn. Engu skipti þótt formaður skoska golfsambandsins reyndi að fá hann leystan úr haldi og hleypt inn í landið. Jón telur ekki ólíklegt að það hafi skipt einhverju máli að á þessum tíma stóðu Íslendingar og Bretar í þorskastríði og var ekki mjög kært milli Íslands og Breska samveldisins. Honum stóð reyndar til boða að dúsa í fangelsi í hálft ár meðan sótt yrði um atvinnuleyfi og beðið eftir því en það þýddi að þá hefði Jón ekki komist í starfið og þar með námið. Þetta var fimm ára nám og aðeins úthlutað einum á fimm ára fresti. Í boði voru fínustu laun og segir Jón þetta hafa verið mikið tækifæri. 63


Hann sá fyrir sér að eftir námið yrði hann yfirgreenkeeper á Íslandi, var rosalega spenntur og hlakkaði mikið til. En skoskum yfirvöldum varð ekki haggað og Jón var sendur heim með næstu vél. Þetta varð honum svo mikið áfall og vonbrigði að hann hætti í golfinu í 20 ár þrátt fyrir að hafa verið þá með efnilegustu golfurum á landinu. Kveðst hann hafa verið fyrstur til að leika 9 holurnar á Hvaleyrinni á pari í móti þótt þá hafi verið 12 vindstig á vellinum og hann var einnig fyrsti kylfingurinn úr Keili sem valinn var til æfinga með unglingalandsliðinu í golfi. Jón heillaðist af golfinu þegar hann sá það leikið í Kanasjónvarpinu á sínum tíma. Hann smíðaði sér fyrstu kylfuna úr hamarshaus og priki og sló með þessari frumstæðu kylfu á Flensborgartúninu. Það endaði hins vegar með því að rúða brotnaði í nærliggjandi húsi og að sögn Jóns voru piltarnir þá sendir út á golfvöll. Hann segir þá sem þar voru fyrir, eldri og reyndari, hafa tekið nokkurn tíma að taka unglingana í fulla sátt en þeir síðarnefndu hafi hins vegar komið sér inn í spilamennskuna bakdyramegin með því að draga kerrurnar fyrir þá fullorðnu. Eins og fyrr segir gerði Jón langt hlé á spilamennskunni eftir áfallið í Glasgow en þegar hann sneri aftur á golfvöllinn, raunar í Setberginu, þá varð ekki aftur snúið og síðan hefur hann leikið þar upp nánast hvern einasta dag, sama hvernig viðrar.

64


Skipulagstillaga ruggar bátnum Það ágæta fólk sem velst til forsvars fyrir íþróttafélög og raunar flesta aðra félagsstarfsemi þarf oft að berjast með kjafti og klóm fyrir hagsmunum félagsmanna á ýmsum sviðum. Gísli Sigurðsson formaður Keilis óskar þess í bréfi til bæjarstjórans í Hafnarfirði þann 4. janúar 1974 að skipulagstillaga eins og sú sem kom fram árið áður verði aldrei aftur sett á dagskrá bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Gísli bendir á að „græn belti“ og útivistarsvæði þyki sjálfsögð í skipulagi bæjarfélaga og undir þau falli golfvellir. Hins vegar efar Gísli að ræktunarstarf tiltölulega fárra félaga í Keili fáist metið til fulls. Hann nefnir til samanburðar að árlegur stuðningur Akureyrarbæjar við golfvöllinn þar nemi 500 þúsund krónum. „Býst ég við, að okkur þætti mikið til um skilning ráðamanna í Hafnarfirði, ef við fengjum helming þeirrar upphæðar.“ Í bréfinu segir Gísli frá því að Reykjavíkurborg hafi dregið Íþróttasjóð ríkisins að landi þar sem hann hefði ekki nema í litlum mæli getað rækt hlutverk sitt „…og greiðir borgin nú 80% af kostnaði við hverskonar ný íþróttamannvirki og aukningu við þau, þar á meðal golfvöllinn í Grafarholti.“ Þarna er í raun komin fram ný nálgun í hlutdeild sveitarfélaga í fjármögnun framkvæmda íþróttafélaga sem breiðst hefur út, meðal annars til Hafnarfjarðar. Síðan kemur að máli sem eflaust hefur verið nokkuð eldfimt á sínum tíma þótt mörgum þyki eflaust sjálfsagt að áfengissala sé nú við lýði í veitingaskála Keilis á Hvaleyrarholti þegar þetta er skrifað árið 2017. En Gísli Sigurðsson formaður var ekki hrifinn af hugmyndinni á sínum tíma þótt hann gæti vissulega viðurkennt að Golfklúbbur Ness á Seltjarnarnesi byggi við bærilegan fjárhag vegna vínsölu þar sem þar hefði nú verið leyfð, og vísast þar til að bréfið er skrifað 1974. „Ég tel það neyðarrúræði og mjög hvimleiða fjáröflunaraðferð fyrir íþróttafélag og mun beita mér gegn því, að bar verði settur á laggirnar í Hvaleyrarskála.“ Formaðurinn telur stuðning Hafnarfjarðarbæjar við klúbbinn grátlega lítinn því ljóst sé að hann þurfi að hafa starfsmann í föstu starfi sex mánuði á ári en vandinn er þá sá að erfitt sé að fá nokkurn til að taka að sér starf upp á þau kjör að hafa það aðeins tryggt hálft árið. Því fer hann þess á leit við bæjarstjóra að Hafnarfjarðarbær útvegi starf fyrir þennan mann yfir vetrarmánuðina svo úr verði fulllt starf. Lítur hann svo á að þetta sé sjálfsögð og sanngjörn samvinna. Þá er þess óskað að bæjarsjóður hlaupi undir bagga með Íþróttasjóði á sama hátt og Reykjavíkurborg og spurt hvort möguleiki sé á því. Eflaust er það vegna þess að golfíþróttin er tiltölulega ung í Hafnarfirði að formaðurinn sér sig knúinn til þess að minna bæjarstjóra og aðra ráðamenn í Hafnarfirði á að golfvöllur sé hliðstæða annarra íþróttamannvirkja, svo sem sundlauga og fótboltavalla. Síðan er bent á að „þó lappað hafi verið uppá gamla íbúðarhúsið í Vesturkoti og það notað sem golfskáli félagsins, þá vantar með öllu aðstöðu til innanhússæfinga að vetri til; auk þess vantar alveg búningsherbergi og áhaldageymslu. Sem sagt: Þetta er eins frumstætt og hugsast getur,“ segir formaðurinn og tekur til dæmis um ástandið að klúbburinn hafi enn ekki getað greitt Kaupfélagi Hafn65


firðinga fyrir áburðinn sem hann fékk þar árið áður en hann vonar að Hvaleyrin muni engu að síður blasa við Hafnfirðingum jafn iðagræn og fyrr eða frá því að golfklúbburinn tók við umsjón hennar. „En ég vona líka sannarlega, að sú grænka og mikla fegurð, sem þar er og öllum má vera augljós, verði að einhverju leyti til komin fyrir verulega myndarlegan stuðning Hafnarfjarðarbæjar.“ Þannig lýkur bréfinu til bæjarstjórans. Ekki er ljóst af gögnum klúbbsins hvort skriflegt svar barst við þessu erindi en víst er að Hvaleyrin hefur lifað af og blasir fagurgræn nær allan ársins hring við Hafnfirðingum og öðrum þeim sem eiga leið um eyrina og nágrenni hennar eftir að golfarar hafa hugsað um hana í 50 ár. Forsvarsmenn Keilis gerðu fjórar meginathugasemdir við skipulagstillöguna sem um ræðir í bréfinu. Gagnrýni klúbbsins var í meginatriðum þessi: 1. Stórkostleg skerðing á ræktuðu útivistarsvæði á Hvaleyri þar sem golfvöllurinn var þá. Virðist þar hafa verið áformað iðnaðarsvæði á hluta golfvallarins sem Keilisfólk taldi að hlyti að finnast betri staður en á ræktuðu svæði golfiðkenda á Hvaleyri. Það leit svo á að ef til þess kæmi að skipulagstillögurnar kæmust á framkvæmdastig yrði það „stórkostlegt og óbætanlegt slys“. 2. Uppfylling víkurinnar hjá Bátalóni. Þetta atriði var ekki talið af hálfu Keilis snerta beinlínis golfvöllinn og Hvaleyrina en uppfyllingin yrði engu að síður „hrapalegt óheillaspor í þá átt að gera Hafnarfjörð ljótan,“ eins og segir í athugasemdum frá golfklúbbnum auk þess sem fjölskrúðugt fuglalíf myndi bíða mikinn skaða af framkvæmdinni. 3. Vegstæði fyrirhugaðrar tengibrautar um Hvaleyrarholt. Svo virðist sem vegi þessum hafi verið ætlað að tengja saman Straumsvík og hafnarsvæðið í Hafnarfirði en Keilisfólk benti á að vegstæðið yrði mjög dýrt, það myndi sundra golfvallar-/útivistarsvæðinu á Hvaleyri og væri algjörlega ónauðsynlegt. Auðvelt væri að finna mun hentugri leið og var vísað í meðfylgjandi uppdrátt. Auk þess myndi nálægð vegarins við golfvöllinn skapa verulega slysahættu og gera stækkun hans í fullkominn 18 hola völl óframkvæmanlega. 4. Fyrirhuguð íbúðarbyggð vestan í Hvaleyrarholti. „Miðað við fyrirhugaða stóriðju á næsta leiti, bæði í suðri og vestri, virðist staðsetning þessa íbúðarhverfis næsta óeðlileg. Þar að auki er hún ástæðulaus á sama hátt og tengibrautin,“ segir í athugasemdunum frá Keili. Í framhaldi af þessum athugasemdum er forvitnilegt að sjá umfjöllun í athugasemdunum um þær hugmyndir sem á þessum tíma voru uppi um landnýtingu í nágrenni við golfvöllinn - sem sumar hverjar gengu eftir en aðrar eru enn í umræðunni þegar Keilir fagnar 50 ára afmæli. Má þar nefna álsteypu og álvölsun en starfsemi Íslenska álfélagsins var á þessum tíma tiltölulega nýhafin og hafði staðið í um 3-4 ár, stálbræðslu sem síðar hófst á svæðinu meðal annars með þeim aukaverkunum að ljósin blikkuðu á hafnfirskum heimilum reglulega um nokkurt skeið, magnesímumklórvinnslu, olíuhreinsunarstöð og títanframleiðslu en einnig voru settar fram hugmyndir um flugvöll í Kapelluhrauni sem stjórn Keilis taldi að myndi gera svæðið óhæft til íbúðabyggðar. Hugmyndirnar um flugvöllinn lifa til dæmis góðu lífi enn árið 2017. Einnig voru vegagerð og íbúðabyggð talin hamla eðlilegri þróun og uppbyggingu Sædýrasafnsins sem þá var sagt „vísir að dýragarði“ sem ásamt golfvelli og hugsanlegu sjóminjasafni ætti að hugsa sem eina órofa heild á svæðinu sem væri kjörið til slíkra nota af náttúrunnar hendi.

66


Félagsstarf í þágu almenningsíþrótta Á þessum árum olli það stjórn Keilis, og þá einkum gjaldkeranum, talsverðum höfuðverk hversu illa gekk að innheimta félagsgjöldin. Þetta ár eru haldnir tveir aðalfundir en svo virðist sem ekki hafi verið haldinn aðalfundur 1973. Á fyrri aðalfundinum sem haldinn var í Skiphóli 4. febrúar 1974 er til dæmis bókað að þegar gjaldfrestur ársins var útrunninn hefði innan við helmingur félagsmanna staðið í skilum. Á þessum sama fundi færði formaður Keilis Ársæli Grímssyni, starfsmanni klúbbsins, mynd af Ársæli sem Eiríkur Smith hafði málað. Og þegar kom að kosningu um formannsembættið kvaðst Gísli tilbúinn að taka endurkjöri ef hann mætti tilnefna þá sem hann vildi í stjórn með sér og taldi upp þá sem til greina komu. Úr varð að Gísli var kosinn formaður og síðan í stjórn allir þeir sem hann hafði tilnefnt.

Eiríkur Smith málaði mynd af Ársæli sem honum var gefin. Mynd úr safni Keilis. 67


Síðari aðalfundur Keilis árið 1974 var haldinn í Skiphóli þann 11. desember. Þar lét Gísli af formennsku en Ásgeir Nikulásson gaf kost á sér sem eftirmaður hans og tilnefndi menn í stjórn með sér. Allt gekk það eftir. Á fundinum virðast hafa verið nokkuð líflegar umræður um ýmislegt í starfi klúbbsins, svo sem fyrirkomulag verðlauna og mætti þar til dæmis huga að breytingum eins og þeim að hafa golfbolta eða glös í verðlaun, reyna þyrfti að fjölga félögum, auka þyrfti fjárframlög frá bæjarfélögum á starfssvæði klúbbsins og Eiríkur Smith lagði til að fenginn yrði erlendur kennari að vetri til enda væri þá væntanlega auðveldara að fá slíka menn heldur en yfir sumarið. Þá nefndi Eiríkur að útbúa þyrfti vetraraðstöðu fyrir klúbbfélaga. Gísli Sigurðsson tók undir með Eiríki og nefndi að verið væri að ljúka við byggingu íþróttahús í Garðahreppi þar sem möguleiki yrði á innanhússæfingum fyrir kylfinga. Á fundinum var rætt um bágan fjárhag og samþykkt að fela stjórn Keilis að taka einnar milljónar króna lán hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Gísli formaður Sigurðsson ræddi sérstaklega um klúbb-hugtakið en hann sagðist líta á Keili sem íþróttafélag. „Klúbbur“ taldi hann að gæti valdið misskilningi og vildi kalla félagið Golffélagið Keili. Fleiri voru á sama máli og sumir á móti en Eiríkur Smith spurði þá hvort ekki þyrfti að boða nafnbreytingu á klúbbnum í fundarboði, sem augljóslega hafði ekki verið gert. Málið virðist þar með hafa dáið drottni sínum. Innanhússaðstaða hafði verið tekin í gagnið þann 2. febrúar 1975 þegar kynningarfundur var haldinn um starfsemi Keilis í golfskálanum og um 60 manns sóttu. Aðstaðan var í nýbyggðu íþróttahúsi Garðahrepps og þar gafst kylfingum kostur á að slá boltum í net. Þetta var þó ekki alveg fyrsta inniaðstaðan sem kylfingar úr Keili höfðu notið því Smurstöðin á Reykjavíkurvegi var víst notuð til æfinga þegar ekki voru bílar þar inni á gólfi. Eigandinn þar var Hafsteinn Hansson sem sinnti golfíþróttinni af miklum áhuga. Á fundinum var einnig rætt um ýmsar fyrirhugaðar framkvæmdir og kynningarstarf og tvær myndir voru sýndar á fundinum, Killarney og Maracaibo-Venezuela. Lántakan sem aðalfundurinn 11. desember 1974 hafði samþykkt var til umfjöllunar á fundi stjórnar Keilis en þeir voru um þessar mundir haldnir í Sútunarverskmiðju Sláturfélags Suðurlands samkvæmt því sem bókað er í fundargerðir. Þar sagði Ásgeir Nikulásson formaður frá samtali þeirra Stefáns Jónssonar, forseta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, um viðhorf ráðamanna í Hafnarfirði til klúbbstarfseminnar. Segir í bókuninni að ekki hafi verið annað séð en bærilegur skilningur ríkti hjá bæjaryfirvöldum í garð Keilis og að engin tormerki væru á því að bæjaryfirvöld myndu ábyrgjast lán til golfklúbbsins. Stefán áleit þó að ekki hefði verið sótt formlega um lán til Sparisjóðsins og hvatti aukinheldur til þess að klúbburinn gerði samning við Hafnarfjarðarbæ um landið, væntanlega á Hvaleyri, til 5-6 ára. Á stjórnarfundinum var ákveðið að gera þetta hvort tveggja „strax í næstu viku“ eins og það er orðað í fundargerðinni. Næst er bókað efnislega um þessi mál á stjórnarfundi 25. mars 1975 sem haldinn var í golfskálanum. Þar skýrði Knútur Björnsson frá viðræðum sínum við sparisjóðsstjóra og samkvæmt því var lántakan komin aftur á dagskrá og samhliða henni hafði Keilir fært viðskipti sín frá Samvinnubankanum yfir í Sparisjóð Hafnarfjarðar. Á stjórnarfundi 5. apríl 1975 er bókað um notkun golfbolta á æfingasvæði: Ákveðið var að leyfa aðeins æfingabolta frá G.K. sem leigjast eiga á kr. 200 pr. 50 bolta á æfingasvæði. Og baráttan hélt áfram. Í lok apríl 1975 svarar sveitarstjórinn í Garðahreppi bréfi frá Keili sem sent hafði verið hreppsnefndinni þar um miðjan sama mánuð. Nokkuð fast er kveðið að orði í bréfinu og í upphafsorðum svarbréfs sveitarstjórans segir að nefndinni hafi komið „mjög á óvart tónn þessa bréfs, sem er í mikilli mótsögn við samskipti nefndarinnar við klúbbinn á undanförnum árum og sýnir lítið þakklæti fyrir veittan stuðning við klúbbinn.“ Garðahreppur telji sig þola allan samanburð við önnur sveitarfélag hvað varði fjárframlög til íþróttastarfsemi „og telur undirritaður víst að bréfritarar hafi ekki kynnt sér þau mál í heild.“ Síðan 68


Hér má sjá mikla kappa á Sveitakeppni í golfi árið 1975. F.v.: Sigurjón R. Gíslason, Magnús Halldórsson, Júlíus R. Júlíusson, Halfdán Karlsson, Ágúst Svavarsson, Magnús Birgisson, Sigurður Héðinsson og Sigurður Thorarensen. Mynd úr safni Keilis. er rakið hvernig hreppurinn hafi stutt við íþróttastarf og þá sérstaklega golfklúbbinn, til dæmis með 40 þúsund krónum árið 1967 en þá voru raunar liðin átta ár frá því sú upphæð var reidd fram. Einhver stuðningur hafði þó síðar fengist þótt ekki tilgreindi sveitarstjórinn hann í bréfinu. Undir lokin er vísað til orða bréfritara þess efnis að Garðahreppur hafi ekki þurft að skaffa klúbbnum land undir starfsemi sína og spurt hvort land hafi fengist á Hvaleyri til frambúðar? Það er ljóst að þá eins og nú lítur hver silfrið sínum augum og löngum hafa forsvarsmenn íþróttafélaga og bæjarfélaga tekist á um fjármagn og stuðning. Í ljósi þessa er forvitnilegt að skoða tóninn í bréfinu sem vitnað er til og er dagsett 16. apríl, skrifað í nafni stjórnar Keilis af ÁN/JK. Bréfið hefst á þessum orðum: „Þar sem yður mun öllum vel kunnugt um skyldur bæjarfélaga við íþróttastarfsemi, skulu þær ekki upprifjaðar hér, en minnt á að Garðahreppur hefur til þessa ekki þurft að útvega land undir golfvöll. Garðahreppur er aðili að golfvellinum á Hvaleyri við Hafnarfjörð og verður það væntanlega áfram. En skilningur virðist hins vegar ekki vera fyrir hendi meðal ráðamanna í Garðahreppi á því, að golfvöllur er dýrt íþróttamannvirki, sem ekki verður haldið úti nema með aðstoð viðkomandi bæjarfélaga.“ Og áfram er haldið á sömu nótum en miðað við það að hreppsnefndin í Garðabæ taldi sig hafa gert vel við klúbbinn má nærri geta að hún hafi ekki verið fyllilega sammála bréfriturum sem sækja heldur í sig veðrið í bréfinu þegar þeir segja: „Sá skilningur er vissulega sumstaðar fyrir hendi að golf sé ákjósanleg almenningsíþrótt…“ og þar með gefið í skyn að því sé ekki fyrir að fara í Garðahreppi. Síðan er vísað til þess hvað gert hafði verið fyrir golfíþróttina á Akureyri, Akranesi, í Ólafsvík, Keflavík, Húsavík, Höfn í Hornafirði og Reykjavík. Námu styrkir þessir upphæðum á bilinu 120-750 þúsund krónum þar sem tölur eru nefndar. Síðan er bent á að að Garðahreppur hafi lagt fram 25 þúsund árið 1974. Í lokin segir: „Vart verður því trúað að óreyndu, að ráðamenn í Garðahreppi hafi minni metnað en aðrir, til að styðja þær almenningsíþróttir, sem 69


Verðlaunahafar á Sveitakeppni GSÍ í Grafarholti móti árið 1977. F.v.: Magnús Halldórsson, Sigurjón R. Gíslason, Sveinn Sigurbergsson, Magnús Birgisson, Júlíus R. Júlíusson, Ágúst Svavarsson, Halfdán Karlsson og Sigurður Thorarensen.

Kristín Pálsdóttir fær koss frá Hönnu Fannar keppinaut sínum. Kristín varð fyrst kvenna til að keppa fyrir hönd Íslands á erlendum vettvangi. Einnig má sjá Jakobínu Guðlaugsdóttur. Mynd úr safni Keilis.

nú þykja sjálfsagðar. Og vart verður því trúað að þetta 3000 manna bæjarfélag þokkalegra efnaðra borgara eigi erfiðara um vik en Ólafsvík eða Höfn í Hornafirði til dæmis. Í ljósi þess sem hér hefur verið nefnt, þykir okkur vægt farið í sakirnar að fara fram á tillegg af hálfu Garðahrepps, sem nemur 100-150 þúsund kr. Það sem einfaldlega er í húfi er það, að golf geti verið almenningsíþrótt. Án aðstoðar af hálfu bæjarfélaganna getur það ekki gerst.“ Samhliða því að barist var fyrir fjármunum var unnið að kynningu og markaðsstarfi fyrir Keili á þessum tíma. Vorið 1975, að því er best verður séð, var send út fréttatilkynning þar sem fram kom að starfsárið hæfist með opnu móti, Uniroyal, og síðan ræki hvert mótið annað, samtals 25 kappleikir. Þá hafði verið ráðinn enskur golfkennari, Tony Bacon, til þess að kenna golf á Hvaleyrarvelli í þriðju viku maímánaðar. Fyrirhugað var að byggja upp yngri flokka, 14 ára og yngri og 15-17 ára með sérstakri kennslu golfþrauta og sá Þorvaldur Ásgeirsson um þessa kennslu. Sérstök kynningarvika skyldi síðan haldin í byrjun júnímánaðar. Samhliða þessari tilkynningu virðast hafa verið send boðskort til íþróttafréttaritara fjölmiðlanna þar sem stjórnin bauð þeim að leika golf á Hvaleyrarvelli 1975 og vonaðist stjórnin til að sjá þá sem oftast á vellinum. Meðal þeirra sem fengu svona boðskort má nefna Björn Blöndal á Alþýðublaðinu, Steinar J. Lúðvíksson íþróttafréttaritara Morgunblaðsins, Jón Ásgeirsson og Ómar Ragnarsson á Ríkisútvarpinu, Sigurdór Sigurdórsson á Þjóðviljanum og Sigmund Ó. Steinarsson á Tímanum. Þetta herrans ár, 1975, voru árgjöldin í Keili sem hér segir: Hjón greiddu 18.000 kr., karlar 15.000, konur 10.000, unglingar 18-21 árs 10.000, 15-17 ára 7.500 kr., 12-14 ára 3.000 og undir 12 ára 1.000 kr. Gjaldkeri gat veitt fjölskyldum afslátt og nýliði greiddi þriðjung af árgjaldi á fyrsta ári. Flatargjald var

70


500 kr. Þá gátu þeir sem vildu kynnast golfíþróttinni fengið að æfa frítt á æfingarsvæði en þurftu til þess leyfi frá meðlimi í stjórn Keilis. Árið 1976 fór kona í fyrsta sinn á vegum Golfsambands Íslands til keppni erlendis. Þá bauðst GSÍ að senda tvo kylfinga, karl og konu, á opið mót í Kalmar í Svíþjóð. Jakobína Guðlaugsdóttir var í fyrstu valin til fararinnar en hún afþakkaði boðið og var þá ákveðið að bjóða Keiliskonunni og Íslandsmeistaranum 1975 og 1976, Kristínu Pálsdóttur, að keppa á mótinu. Fyrsta konan til þess að keppa í golfi fyrir hönd Íslands á erlendum vettvangi var því úr Keili.

71


Lýsi, mjöl og landbrot Margir muna eftir verksmiðju Lýsis og mjöls og „peningalyktinni“ sem fylgdi því ágæta fyrirtæki. Golfarar fóru ekki varhluta af ilminum frekar en aðrir sem voru í Hafnarfirði á tíma þessarar hvítu brækju sem fór um bæinn og smeygði sér óboðin inn í þvottinn á snúrunum og inn um alla opna og lokaða glugga og dyr sem hún mögulega fann á leið sinni. Fjallað er um lyktarmengun og margt fleira í Lesbók Morgunblaðsins 10. júlí 1977 en athyglisvert þykir Keilisfólki eflaust að á þessum tíma er rætt um landbrotið á Hvaleyrinni. Það er Keilismaðurinn Gísli Sigurðsson sem heldur á penna en hann gegndi m.a. formannsembætti Keilis um skeið. Í greininni er sagt frá því að eftir að hafnargarður var byggður í Hafnarfirði hafi straumar breyst og þá hafi landeyðingin hafist á norðanverðri eyrinni. Á löngu svæði, þar sem er um þriggja metra hár bakki, hrynur niður í sjó væn sneið á ári hverju. Sé gengið þarna eftir bökkunum, má sjá torfurnar, sem fallnar eru niður í fjörugrjótið og er varasamt að ganga tæpt, því eyðingin veldur því, að bakkinn slútir mjög. Þarna er móberg, laust í sér og stenzt engan veginn ágang sjávarins. Ársæll Grímsson, sem fram til þessa hefur búið í Sveinskoti á Hvaleyri, kveðst muna eftir fjárhúsi 50—100 metrum utar en bakkinn er nú. Golfklúbburinn Keilir hefur umráð fyrir Hvaleyrinni og sér um að halda henni í ræktun. Í þessum félagsskap hafa menn fylgzt með landeyðingunni frá ári til árs, en fjárvana íþróttafélag hefur ekki bolmagn til þeirra aðgerða, sem nauðsynlegar eru. Hinsvegar hafa menn gert skyldu sína í þá veru að vekja athygli réttra aðila á því hvert stefnir, — en þótt furðulegt megi kalla talað fyrir daufum eyrum. Sá er þessar línur ritar tók sig eitt sinn fram um að hafa samband við sjálft Náttúruverndarráð. Framkvæmdastjóra þess var sagt af hraðfara eyðingu lands á þessum fagra stað og beðið um fulltingi Náttúruverndarráðs í málinu. Þegar ekkert gerðist á einu ári eða tveimur, var erindið ítrekað með bréfi, en hvorki var bréfinu svarað né heldur, að neitt hafi verið gert. Svo sem kunnugt er, starfa náttúruverndarnefndir í einstökum byggðum og ein slík er í Hafnarfirði. Kannski var henni málið skyldast og með tilliti til þess var haft samband við formann nefndarinnar; eyðingin útskýrð fyrir honum og hann beðinn að líta á verksummerki og beita sér fyrir því að stöðva þessa sorglegu þróun. En úr þeim ranni hefur hvorki heyrst hósti né stuna. Einnig var málið gert kunnugt bæjarstjóranum í Hafnarfirði sem er maður víðsýnn og velviljaður, en ekki hefur það heldur dugað. Land sem eyðist af völdum uppblásturs, má græða upp aftur, en það land sem brotnar af ágangi sjávar, verður ekki reistvið á nýjan leik. Auðvelt er að koma í veg fyrir frekari landbrot ef áhugi á því væri meira en í nösunum. Stórvirk ýta gæti á skömmum tíma rutt fjörugrjótinu upp að bakkanum og með því myndað þann öldubrjót sem með þarf. Efsta hluta bakkans, sem slútir, þarf síðan að fella niður og sá í sárið. Kannski hafa sérfræðingar Landverndar, Náttúruverndarráðs, Náttúruverndarnefndarinnar í Hafnarfirði og bæjarstjórnarinnar þar, aðrar og betri hugmyndir um framkvæmdina og er sama hvaðan gott kemur, ef það reynist árangursríkt. En það er til lítils að hafa öll þessi fínu ráð og nefndir, ef ekki er hægt að vekja þau af værum svefni, munnlega eða bréflega, vegna landeyðingar sem blasir við hvers manns augum.

72


Talsvert hefur verið unnið við landvarnir á Hvaleyri á undanförnum árum og geta því kylfingar unað þar glaðir við íþrótt sína næstu áratugi. Ljósm.: JGR. Við lok þess tímabils sem hér hefur verið tekið til umfjöllunar, þ.e. aðdragandi, stofnun og starfsemi Golfklúbbsins Keilis fyrstu 10 árin frá 1967-1977, skrifar Knútur Björnsson bréf til Keilisfélaga þann 6. 2. 1977. Þar segir hann frá því að í tilefni af 10 ára afmæli klúbbsins 1977 verði haldin afmælishátíð og gefið verði út afmælisblað. Þá hafi sérstök nefnd verið skipuð til þess að kanna hvernig best verði að koma fyrir 18 holu golfvelli á Hvaleyrinni og ákveðið hafi verið að kaupa nýjan sérstakan golfvallatraktor. Knútur ræðir einnig um innheimtu félagsgjalda og athyglisvert er að sjá að þar er boðið upp á greiðsluskilmála sem mörgum þættu athyglisverðir á tímum rafrænna raðgreiðslna en það herrans ár 1977 var boðið upp á slíkar greiðslur í formi víxla. Afmælishátíðin sem Knútur nefnir var haldin að kvöldi föstudagsins 22. apríl í Skiphóli Hafnarfirði og voru allir félagar og velunnarar velkomnir. Fyrstu 10 árin voru liðin.

73


HEIMILDASKRÁ Helstu heimildir við skráninguna voru eftirtaldar: Afmælisrit Keilis í áranna rás. Alþýðublaðið. Ágúst Húbertsson, hringborðsumræða í desember 2016. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1926. Bréfasafn Keilis og fleiri gögn í skjalageymslu klúbbsins. Ferlir.is Fundagerðabók Keilis fyrstu árin. GolfIceland.com Inga Magnúsdóttir, hringborðsumræða í desember 2016. Jóhann Nielsson, hringborðsumræða í desember 2016. Jón Boði Björnsson, hringborðsumræða í desember 2016. Jón Sigurðsson, símaviðtal í desember 2016. Jónas Aðalsteinsson, viðtal tekið í maí 2016. Jónas Aðalsteinsson, hringborðsumræða í desember 2016. Jónatan Garðarsson, gönguferð um Hvaleyri í nóvember 2016. Kylfingurinn. Morgunblaðið. Saga Hafnarfjarðar. Sigurbergur Sveinsson, hringborðsumræða í desember 2016. Sigurður Héðinsson, hringborðsumræða í desember 2016. Steinar J. Lúðvíksson og Gullveig Sæmundsdóttir, Golf á Íslandi - Upphafshöggið.

74

Nánar er getið um heimildir og tímasetningar í textanum.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.