11 minute read
Búfjárræktarferð 2015
Jón Bjarnason, Skipholti III, nemendi í búfræði við LbhÍ skrifar.
Búfjárræktarferð 2015 var farin á Suðurlandið í þetta skiptið en tíðkast hefur að fara alltaf til skiptis á Suðurland og Norðurland. Því voru tvö ár síðan nemar frá Hvanneyri voru síðast í búfjárræktarferð um Suðurland. Nefnd var skipuð til að sjá um ferðina og urðu fyrir valinu uppsveitadrengirnir Jón Óskar frá Brekku, Bragi Viðar frá Túnsbergi og Jón frá Skipholti III. Það verður að segjast að sá póll var tekinn að skoða sem mest á sem skemmstum tíma án þess að vera í stresskasti.
Lagt var af stað frá Hvanneyri kl. 10:00 að morgni föstudagsins 20 febrúar. Fyrsta stopp var hjá Líflandi á Grundartanga þar sem Helgi Eyleifur og Ásta, starfsmenn Líflands, tóku á móti okkur og sýndu okkur verksmiðjuna og þeirra starfsemi. Þó sumir hafi orðið lofthræddir við að skoða verksmiðjuna voru allir sáttir með þessa heimsókn. Næsta stopp var hjá Kraftvélum en þeir tóku á móti okkur með miklum glæsibrag og sýndu okkur tæki og tól sem þeir höfðu upp á að bjóða. Gríðarlega gaman var að keyra aðeins um í borg óttans því svo virtist að sumum hafi verið þetta mikil upplifun að sjá Reykjavík í öllu sínu veldi.
Því næst var ferðinni heitið austur fyrir fjall og kíktum við á Stóra-Ármót til Hildu og Höskuldar en þar fengum við smá innsýn í starfsemina. Við skoðuðum aðstöðuna og húsakostinn, en þar var byggt fjárhús sl. haust og virtist sem meiri áhugi hafi verið fyrir því en hinum húsunum. Dagskráin var þétt skipuð og því var haldið áfram, svo virtist sem það væru ekki allir jafn stressaðir og fararstjórar og eltu því þrír kviðmágar rútuna gangandi eftir afleggjaranum en Guð má vita hvað þeir voru að gera.
Næst var förinni heitið í Skarð í Landsveit en þar var heldur betur mikið að sjá, það er að segja glænýtt fjárhús, þar sem notast var við hugvit hreppamanna og því afar björt og flott hús. Berglind og Elli tóku vel á móti okkur og miklar kræsingar biðu okkar. Það örlaði nú á framsóknarbrag á þessum sjálfsstæðisbæ því kræsingarnar voru frá Kjötbankanum en allir vita hverjir eiga það fyrirtæki.
Næsta stopp var Krókur/Margrétarhof en því miður voru Reynir og Aðalheiður ekki við heldur tóku Anna og Hlynur á móti okkur. Það var nú ekki verra og voru þau hin hressustu. Margir voru agndofa yfir aðstöðunni sem þau hafa uppá að bjóða og ekki var hestakosturinn síðri!
Ingvar á Fjalli á Skeiðum tók svo á móti okkur í næsta stoppi, þar var gott að koma og þó sumir hafi verið orðnir þreyttir skemmtu margir sér ágætlega og var Ingvar hinn hressasti og sagði okkur frá staðnum. Fararstjórar ferðarinnar skömmuðust sín smá þegar þeir gátu varla vísað leiðina í Fjall enda þeirra heimaslóðir. Eftir þetta stopp beið okkar kvöldmatur á Kaffi-Sel þar sem vel var tekið á móti okkur og fóru allir saddir frá staðnum. Við fórum
25
svo í Félagsheimilið á Flúðum og komu allir sér vel fyrir enda okkar næturstaður. Gleðinni var svo haldið áfram og endað í Skjóli(efst í Bláskógabyggð), en þar er lítil krá og skemmtu flestir sér vel í það minnsta þeir sem gátu.
Laugardagurinn var þétt skipaður eins og öll dagskrá ferðarinnar. Mannskapnum var þó gefið smá svigrúm og því ekki lagt ýkja snemma af stað.
Fyrsta stopp var Hrafnkelsstaðir III, þar tóku Aðalsteinn og Margrét á móti okkur. Það er ekki fyrir alla að taka á móti mannskap svona „snemma“ morguns en Aðalsteinn er öllu vanur og leist bara nokkuð vel á. Hann sýndi okkur fjósið, afar snyrtilegt að koma þar og ekki var verra þegar menn komust í skófluna á liðléttingnum. Eftir þetta stopp héldum við á næsta bæ og tók því varla að koma sér fyrir í rútuna því hádegismatur beið okkar í fjárhúsunum á Hrafnkelstöðum l. Þar var í boði Kjötsúpa og veigar frá SS og Eimskip. Bændurnir Haraldur og Jóhanna sýndu okkur aðstöðuna sem er til fyrirmyndar í alla staði og allt skrúbbað í bak og fyrir. Gaman var að glugga í söguna á vinnumönnum þar á bæ, en þar hafa staldrað við ansi margir. Einnig voru mörg hross sem runnu þarna í gegn, en þarna hefur verið rekin tamningastöð til fjölda áratuga og enn verið að temja.
Næst var farið í Bryðjuholt. Þar var að sjálfssögðu tekið vel á móti okkur og sögðu Samúel og Þórunn frá þeirra störfum. Það er alltaf gott að koma í Bryðjuholt, enda allt hreint og snyrtilegt. Gaman var að þau sögðu okkur frá bókhaldinu og sýndu okkur að það væri vel hægt að reka bú ef rétt væri haldið á spöðum.
Eiríkur Ágústsson beið eftir okkur í næsta stoppi, hann sýndi okkur Flúðasveppi en eins og nafnið gefur til kynna eru þar framleiddir sveppir. Hann sagði okkur frá sögu
fyrirtækisins en allt byrjaði þetta út frá einum MJÖG bjartsýnum manni sem tók mikla sénsa en gekk heldur betur upp og hefur fyrirtækið dafnað vel og er orðið ansi stórt. Þó svo sumum hafi fundist lyktin vond voru flestir ánægðir að sjá hvernig þessi framleiðsla fór fram og þó nokkrir sem smökkuðu sveppi, en þeir gerast nú varla ferskari. Ferðinni var þá haldið út í Bláskógabyggð. Fyrst var áð í Hrosshaga en svo skemmtilega vildi til að bærinn ber nafn með rentu því þar er starfrækt tamningastöð og hrossaræktun. Sólon og Þórey sögðu okkur frá starfseminni og sýndu okkur hross í reið en óhætt er að segja að þau þurfa ekkert að ríða út í myrkri og ekki annað hægt að segja en að um gæðinga hafi verið að ræða. Veigarnar flæddu um reiðaðstöðuna og gaman var að sjá hvernig breyta má gömlum húsum í flottar hallir, en þau breyttu gömlu gróðurhúsi í fyrirmyndarhesthús. Við færðum okkur svo ofar í Bláskógabyggð og kíktum við í Gýgjarhólskoti þar sem við Lífland Grundartanga, þar urðu sumir ansi lofthræddir. skoðuðum nautgripi og sauðfé. Feðgarnir Eiríkur og Jón Hjalti sögðu okkur svo frá bænum, þar er mikil og góð aðstaða, ný vélaskemma var að rísa og hún ekkert í minni kantinum. Eftir að hafa þegið góðar veitingar var haldið á Kjóastaði 3, þar sem starfrækt er hrossarækt. Þar tóku á móti okkur Gunnar og Kristján en gaman var að sjá þegar sumir heilsuðu þeim síðarnefnda en hann var nefnilega dyravörður á kránni kvöldið áður. Kjóastaðir er nýbýli og þar eru byggingar með evrópskri fyrirmynd, virkilega flott aðstaða og veitingar. Næsta stopp var Efsti-Dalur, þar er ferðamannafjós með veitingastað. Borðuðum við kvöldverð á þessum flotta veitingastað og mega ábúendur vera stoltir af þessari starfsemi.
Þegar hér var komið við sögu var „liðið“ orðið ansi hresst, enda langur og góður dagur að kvöldi kominn. Við fórum svo aftur á Flúðir þar sem mannskapurinn pússaði skóna og skellti sér í bingógallann. Alli og Dúna á Hestakránni (Húsatóftum) biðu nefnilega eftir okkur með ball og allir skemmtu sér konunglega langt fram eftir nóttu. Ekki var leiðinlegra að sjá eldri búfræðinga mæta og virtist sem þeir hefðu engu gleymt eftir dvöl sína á Hvanneyri einhverjum árum áður.
Sunnudagsmorguninn var mörgum erfiður, en allt hófst þetta fyrir rest og skiluðu allir sér líkamlega upp í rútu.
Fyrsti áfangastaður var hjá Birnu og Rúnari á Reykjum. Þar var margt að sjá, enda nýlegt fjós með nýjum Lely A4 mjaltaþjóni. Sverrir frá VB-landbúnaði var einnig þarna til að segja okkur frá mjaltaþjóninum og svaraði mörgum spurningum frá verðandi búfræðingum. Birna og Rúnar, ásamt syni sínum Bjarna, sögðu okkur frá þessari mögnuðu og flottu aðstöðu og veittu okkur vel í mat og drykk.
Arnar Bjarni ásamt fjölskyldu og starfsfólki tók svo vel á móti okkur í Landstólpa. Landstólpi hefur upp á margt að bjóða og voru margir áhugasamir og spurðu Arnar spjörunum úr. Arnar fór svo yfir sögu fyrirtækisins og starfsemi. Sagði okkur frá því helsta sem hann hefur upp á að bjóða og sýndi okkur meðal annars teikningu af nýju fjósi sem hann er að byrja að byggja í Gunnbjarnarholti.
Skemmtileg heimsókn og svo virtist sem smá litur hafi sést á sumum eftir að þeir komust í fljótandi brauðið hjá Landstólpa.
Þá var haldið áfram og í næstu heimsókn fengum við að bera augum einn besta hest heimsins, en þá er verið að tala um Spuna frá Vesturkoti. Þórarinn og Hulda tóku vel á móti okkur, sýndu okkur aðstöðuna og Þórarinn skellti sér á bak og sýndi okkur hross í reið og þurfti hann ekkert að skammast sín á baki. Þórarinn og Hulda vissu greinilega hvernig ætti að ná okkur í gang og margir sem þurftu að halda vel í sér þangað til við stoppuðum í Jötunn-vélum hjá Finnboga og starfsmönnum hans.
Þar beið okkar matur í boði Jötuns og Finnbogi tók okkur í smá kennslustund og sagði okkur frá tækjum og tólum sem hann hafði upp á að bjóða. Þessi kennslustund var hinsvegar ansi stutt því veðrið var með leiðindi og Siggi rútubílstjóri vildi drífa sig af stað. Við vorum því miður örlítið of sein af stað því þegar við vorum undir Ingólfsfjalli lokuðu Hellisheiðin, Þrengslin og Suðurstrandarvegurinn. Urðum við Sunnlendingar að kyngja ansi miklu stolti enda búnir að dásama þennan landsfjórðung í bak og fyrir hvað veður varðar. Okkur til varnaðar vorum við náttúrulega ekki lengur í uppsveitunum en þetta eru náttúrulega gjörólík svæði. Því urðum við því miður að aflýsa komu okkar í VB-landbúnað.
Við kíktum við í Fákaseli í staðinn, þar sem Guðmar staðarhaldari tók vel á móti okkur. Hann gerði sér lítið fyrir og labbaði með okkur í gegnum staðinn og sagði okkur í stuttu máli frá fyrirkomulaginu. Við enduðum svo á því að borða hjá þeim og allt leit út fyrir að við myndum fara á sýninguna líka en þess má geta að Fákasel er ferðamannastaður sem er með sýningu til heiðurs íslenska hestinum. Við nýttum hinsvegar tækifærið þegar Þrengslin opnuðu og dúndruðumst vestur á Hvanneyri, margir voru orðnir þreyttir eftir langa helgi en þó voru sumir ekkert á þeim skónum að vilja komast heim.
Búfjárræktarferðin 2015 gekk með eindæmum vel, þó svo smá veðurofsi hafi raskað planinu í restina. Við viljum þakka Sigga rútubílstjóra fyrir vægast sagt snilldar þjónustu, en vesen er ekki til í hans orðabók. Ekki má gleyma þeim fjölmörgu sem tóku á móti okkur með glæsibrag en það er alls ekki sjálfgefið að taka á móti 60 manns á einu bretti. Að lokum þökkum við þeim fyrirtækjum sem styrktu ferðina, en án þeirra hefði hún varla verið farin.
TAKK FYRIR OKKUR!
ARON PÉTURSSON
3. mars 1992, Víðidal í Skagafirði
Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Skarð í Landssveit. Það er svo sem margt sem að kemur til greina, en ætli það sé ekki að fá að kynnast svona stóru sauðfjárbúi og að hafa fengið að sjá hvernig lífið í Landssveitinni gengur fyrir sig.
Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir
námið? Að sumu leyti. Ég til dæmis kom hingað og sá ekkert nema sauðfé en ég sé það núna að það er fleira sem búandi er með.
Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í
framtíðinni? Það hefur verið planið frá unga aldri og það hefur ekkert breyst. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Ég hugsa að búsmíði sé með þeim skemmtilegri en einnig sauðfjárrækt. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Sauðfé og helst nóg af því. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Gífurlegur glaumur og gleði þrátt fyrir veður og vinda.
BJARNI ÞÓR GUÐMUNDSS.
28. desember 1992, Svalbarði á Svalbarðsströnd
Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Breiðavað. Margt sem að stendur upp úr eftir þessa skemmtilegu dvöl og erfitt að velja eitthvað eitt, en þó stóð kannski mest upp úr símatíminn hans Jóa og stóru hugmyndirnar frá ónefndum verktaka. En þetta er frábært fólk sem býr þarna og er ég mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að vera þarna í verknámi.
Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir
námið? Hefur kannski ekki breyst mikið en þó eitthvað, maður sér meira hvað er vitlaust og hvað ekki.
Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í
framtíðinni? Bókað mál. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Bústjórn, nautgriparækt (1&2), núsmíðin og fóðurverkun Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Kýr (annað er bara hobbý og vitleysa)! Hvernig er lífið á Hvanneyri? Lífið er blautt og hvasst en talsvert blautara fyrir suma en aðra.
SANDRA BJÖRK SIGURÐARD.
20. ágúst 1987 Kópavogi
Verknámsbær og hvað stendur uppúr? Gýgjarhólskot. Það sem ég myndi halda að stæði helst upp úr er að ég var verknáms sigurvegarinn. Ég náði að vera óheppnasti verknemi ársins, sem lýsir sér þannig að ég náði að verða milli steins og sleggju (grínlaust) og næstum því puttabrjóta mig, tæpri viku seinna náði ég svo að puttabrjóta mig, ég velti liðlétting innandyra, það var því ekki hægt að nota ámoksturstæki til að rétta hann af, og náði að festa sama traktorinn á sama túninu með 2 vikna millibili. Það var þó líka mjög skemmtilegt að kynnast nýju fólki og hvernig það stundar búskapinn, það voru allir mjög tilbúnir að bjóða mig velkomna.
Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir námið?
Ég myndi halda að ég væri með augun meira opin fyrir nýjungum, bæði tækjum og vinnuaðferðum.
Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað
í framtíðinni? Ég vona það, þetta er ekki beint auðveldasti starfsferillinn til að byrja. Skemmtulegustu tímarnir í skólanum? Verklegu tímarnir standa uppúr, sama hvaða fagi það var í, þá finnst mér skemmtilegast að sjá í verki það sem við höfum verið að ræða í kennslustofunum. Hugsa að jafnvel mætti minnka bóklega námið og auka verklega fyrir minn smekk. Með hvaða bústofn myndiru vilja búa með? Ég myndi vilja hafa blandað bú, hvað er betra en að fá sér nýja mjólk á Cocoa Puffsið á leiðinni út í fjárhús á sauðburði. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Það er skrautlegt ...