4 minute read

Erfðalindasetur LbhÍ

Fræhvelfingin á Svalbarða þar sem fræ af íslenskum nytjaplöntum eru varðveitt.

Erfðalindasetur Landbúnaðarháskóla Íslands

Birna Kristín Baldursdóttir umsjónarmaður setursins.

Erfðalindasetur var formlega stofnað 8. maí 2009 á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands í samstarfi við erfðanefnd landbúnaðarins og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Aðsetur setursins er hjá skólanum sem einnig hefur umsjón með rekstri þess og umsýslu. Erfðanefnd landbúnaðarins hefur fastan sess í setrinu og nýtur þjónustu þess. Það er hugsað sem opinn samstarfsvettvangur allra þeirra aðila sem með einum eða öðrum hætti tengjast varðveislu og sjálfbærri nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði. Helstu verkefni setursins snúa að umsjón verkefna á vegum erfðanefndar landbúnaðarins en það er jafnframt hugsað sem staður fyrir ýmiss konar starfsemi sem tengist erfðaauðlindum, s.s. tengsla- og samskiptanet setursaðila þar sem miðla má reynslu og efla starfsemi og samskipti þeirra fjölmörgu aðila sem láta sig varðveislu og sjálfbæra nýtingu erfðaauðlinda varða, út frá hagsmunu landbúnaðar, umhverfis og menningar í víðu samhengi.

Erfðanefnd landbúnaðarins gefur út á fimm ára fresti landsáætlun um erfðaauðlindir í íslenskri náttúru og landbúnaði þar sem stefnumörkun nefndarinnar er sett fram. Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, sem Ísland er aðili að, nær til allra tegunda lífríkisins þar á meðal þeirra tegunda sem hafa hagnýtt gildi í landbúnaði og með stefnumörkun sinni vill erfðanefnd mæta þeim skuldbindingum og benda á leiðir til varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda. Í landsáætluninni er einnig samantekt á því sem hefur áunnist og má nálgast landsáætlunina á heimasíðu nefndarinnar www.agrogen.is. Mikilvægt er að varðveita erfðaauðlindir þar sem forsendur landbúnaðarframleiðslu geta breyst hratt vegna breytinga sem geta átt sér stað í umhverfinu, sem geta orðið frá náttúrunnar hendi eða af mannavöldum. Við breyttar aðstæður getur því verið þörf fyrir aðra eiginleika en nú er og á það bæði við um plöntur og dýr. Auk þess má nefna að kröfur markaðarins eftir landbúnaðarvörum eru sífellt að breytast og síðast en ekki síst er menningarsögulegt gildi erfðaauðlinda mikilvægt þar sem ræktun plantna og búfjár er hluti af menningarsögunni. Það er því vert að hafa í huga að varðveisla erfðaauðlinda er lykilstriði í varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og tapaðar erfðaauðlindir verða ekki endurheimtar.

Á undanförnum árum hefur setrið skipulagt þematengd málþing um mikilvægi erfðaauðlinda og má þar nefna rabarbara, kartöflur, íslenska geitastofninn, ferskvatnsfiska og til sendur að halda málþing um íslenska kúastofninn í júní í Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri. Umræða um innflutning á nýju kúakyni vekur upp spurningu um hver staða íslenska kúastofnsins verður ef hann leggst af sem framleiðslustofn.

Setrið sinnir samskiptum við Norræna genbankann (NordGen) og hefur umsjón

23

með íslenskum verkefnum á hans vegum eftir því sem við á. Fræ af íslenskum nytjajurtum eru varðveitt hjá Norræna genbankanum í frægeymslu á Svalbarða, meðal þeirra eru fræ af hálíngresi, skriðlíngresi, snarrót, túnvingli, vallfoxgrasi og vallarsveifgrasi. Matjurtir eru einnig varðveittar hjá genbankanum og má þar nefna kartöflur, melgresi og gulrófur. Sumar nytjajurtir þarf svo að varðveita í klónasöfnum og hefur verið leitað eftir samstarfi við grasagarða og byggðsöfn til varðveislu á t.d. rabarbara.

Á undanförnum misserum hafa verndaraðgerðir vegna íslenska geitastofnsins verið í brennidepli og hefur erfðalindasetur komið að þeim aðgerðum með ýmsum hætti.

ÁFANGAKYNNING - Hrossarækt

Hestamennska er afar stór og mikilvægur hluti bændamenningarinnar á Íslandi auk þess að vera vinsælt áhugamál í þéttbýli, atvinnugrein og svo ekki sé minnst á sívaxandi straum ferðamanna sem koma hingað til lands til þess að ferðast á hestum og njóta þessarar undraskepnu sem íslenski hesturinn er, í hans heimalandi. Því er það Landbúnaðarháskólanum bæði ljúft og skylt að bjóða nemendum í búfræðinámi upp á víðtæka fræðslu um hestinn, hestahald, tamningar og reiðmennsku.

Í nýrri námsskrá sem tekur gildi haustið 2015 verður boðið upp á fleiri áfanga tengda hrossum en verið hefur. Á fyrstu önnum námsins er boðið upp á áfanga sem nefnist Reiðmennska 1 en þar er byggt á knapamerkjum 1 og 2. Í þeim áfanga er mest áhersla lögð á grunninn í allri reiðmennsku, þ.e. ásetu knapans, jafnvægi og notkun ábendinga og lýkur áfanganum með prófi í fyrrnefndum knapamerkjum. Á vorönn fyrsta árs er boðið upp á kennslu í járningum þar sem nemendur fá bóklega fræðslu um hófa og fætur hestsins, jafnvægi og hvernig má hafa áhrif á hreyfingar hestsins með járningum. Auk þess fá nemendur verklega þjálfun í járningum. Á öðru árinu er boðið upp á áfangann Fortamningar þar sem nemendur fá bóklega fræðslu um atferli hesta og hvernig þeir læra. Auk þess fá nemendur verklega þjálfun í að umgangast og vinna með ung tryppi, leggja við þau, gera bandvön, lyfta fótum ofl. Öll kennsla í þessum áfanga miðar að því að kenna nemendum að undirbúa tryppin undir hina eiginlegu frumtamningu. Á haustönn annars árs er kenndur áfanginn Hestafræði þar sem farið er yfir fræðilega þætti reiðmennskunar. Nemendur kynnast þeim hugtökum sem bera á góma í reiðmennsku, fimiæfingar, líkamsbeyting hestsins og gangtegundir, hvernig sköpulag hestsins hefur áhrif á hreyfingar hans, kynbótastarfið auk þess sem farið er yfir fóðrun hins almenna reiðhests. Á síðustu önnum námsins er síðan boðið upp á einn umfangsmikinn verklegan áfanga þar sem nemendur þjálfa einn fullorðinn hest og frumtemja annan. Þeim áfanga lýkur með hátíðarhöldum á sumardaginn fyrsta þar sem hin eftirsótta Morgunblaðsskeifa er afhent þeim nemanda sem best hefur staðið sig í áfanganum.

Enginn hestaáhugamaður ætti því að verða fyrir vonbrigðum með það framboð af hestatengdu námi við skólann sem er í boði og eftir námið ættu nemendur að vera vel í stakk búnir til að starfa við hrossaræktarbú við hin ýmsu verk sem þar falla til.

This article is from: