7 minute read

Niðurstöður skýrsluhalds á Hesti síðustu 10 ára

Eyjólfur Kristinn Örnólfsson bóndi á Skálpastöðum í Lundarreykjadal og sérfræðingur í Auðlindadeild LbhÍ.

Helstu eiginleikar sauðfjár, sem unnið er með í kynbótastarfinu á Íslandi eru frjósemi, mjólkurlagni, gerð og fita. Arfgengi þessara eiginleika er mishátt sem þýðir í raun að það er misjafnlega auðvelt/ erfitt að ná miklum og örum framförum í ræktun. Þegar arfgengi er frekar lágt, eins og er með frjósemiseiginleikann, þá er hægt að segja að umhverfisáhrifa gæti meira en hjá þeim eiginleikum sem hafa hærra arfgengi, eins og gerð lamba (vöðvasöfnun).

Kynbætur eru langhlaup og því er ekki hægt að alhæfa út frá einu ári sem annað hvort er með mjög góðar eða slakar niðurstöður og eins er ekki ráðlegt að alhæfa um gæði hrúta út frá örfáum gripum. Við verðum hins vegar að vera á varðbergi og skrá sem mest hjá okkur og þekkja hjörðina. Þegar það bætist við upplýsingar kynbótamats (BLUP) þá eru auknar líkur á góðum árangri.

Hér á eftir gefur að líta 10 ára meðaltöl fyrir frjósemi og sláturtölur á Hesti, frá árunum 2005-2014 með vangaveltum um kynbætur og umhverfisþætti.

Frjósemi

Á mynd 1 eru frjósemistölur fyrir annars vegar ær, tveggja vetra og eldri og hins vegar fyrir gemlinga. Frjósemin hefur verið mjög stöðug í kringum 1,9 lömb á vetrarfóðraða fullorðna á og er meðaltal þessara 10 ára 1,897 lömb á vetrarfóðraða á.

Árið 2014 sker sig hins vegar úr með 1,80 lömb á vetrarfóðraða á. Á því ári voru heyin slök eftir rigningasumar 2013. Það kemur sem sagt strax fram hve mikil áhrif umhverfisþættirnir hafa á frjósemina og því hve mikilvæg góð hey eru á ákveðnum tímum á sauðfjárbúi. Það má samt alls ekki misskilja þetta þannig að það sé hægt að bjarga öllu með góðum heyjum, nauðsyn kynbóta er eftir sem áður augljós. Frjósemi gemlinganna hefur einnig verið frekar stöðug og 10 ára meðaltalið er 1,33 lömb á borinn gemling. Frjósemi gemlinganna árið 2014 var góð þrátt fyrir að ærnar sýndu hið gagnstæða. Þar kemur til að það var til góð há sem gemlingarnir fengu og gátu því sýnt þá frjósemi sem í þeim bjó. Það eru mun meiri sveiflur í frjósemi gemlinga en fullorðinna áa því lambalát var í gemlingunum á Hesti árin 2010 og 2013. Engar skýringar hafa fundist á því á þar frekar en annars staðar.

Afurðir

Á mynd 2 má sjá meðaltöl fallþunga, gerðar og fitu sláturlamba frá Hesti árin 2005-2014. Þar má greina nokkrar sveiflur í fallþunga og sérstaklega eru stökkin niður á við áberandi árin 2007 og 2014, þar sem lömbin eru kílói léttari en árin áður. Þarna koma við sögu rigningarsumur/-haust, slök hey bættust svo við árið 2014 og ýmsir aðrir þættir spila þarna inn í. Það sem er hins vegar áberandi og styður það sem áður sagði um mismunandi arfgengi eiginleika, er að þrátt fyrir minni fallþunga ná lömbin að halda sér nokkuð vel í gerðinni. Lömbin eru holdgóð þrátt fyrir að vera létt sem sýnir að vöðvasöfnun lambanna er greinilega til staðar. Hins vegar má einnig ljóst vera að fitusöfnun lambanna á Hesti er það lítil að þegar lömbin eru eins létt og þau voru síðastliðið haust, þá eru þau með of litla fitu utan á sér og fara alltof mörg í fituflokk 1.

Í framhaldi af þessu er svo um að gera að nota samskonar tölur á heimabúi til þess að reikna út mikilvægi frjósemi, vænleika, gerðar og fitu fyrir afkomu sauðfjárbús. Forsendur eru auðvitað mismunandi milli bæja og því fer ég ekki út í mikla útreikninga hér, en hvet bændur til að skoða sitt bú og reikna. Gróft áætlað er tekjumunurinn á Hesti í góðu ári og ársins 2014, rúmlega ein og hálf milljón (590 ær og 170 gemlingar). Þar skiptir mestu um frjósemi og fallþunga, breyting á gerð og fitu skiptir mun minna máli í heildarútkomunni.

Það er því aldrei nógu oft minnst á mikilvægi þess að halda jöfnum og góðum heyjum milli ára og bregðast við með kjarnfóðurgjöf eða á annan hátt ef vitað er að gæði heysins eru slök. Þannig aukast líkurnar á að ærnar séu frjósamar og í góðum holdum að vori til að mjólka af sér og skila vænum dilkum heim að hausti.

Mynd 2. Sláturtölur á Hesti árin 2005-2014.

Við óskum Búfræðingum 2015 til hamingju með áfangann:

Landssamband Kúabænda Búnaðarsamtök Vesturlands Búnaðarsamband Suðurlands Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda Samtök ungra bænda Búnaðarsamband Eyjafjarðar

HÁKON STURLA UNNSTEINSS.

23. ágúst 1993, Ketilseyri í Dýrafirði

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Höfði I Grýtubakkahreppi. Fríin sem ég fékk og tónleikarnir sem ég fór á.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir

námið? Ekki mikið

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í

framtíðinni? Já að sjálfsögðu. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Flest allt annað en beitarfræði og nytjaskógrækt. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Sauðfé. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Það er mjög skemmtilegt, nema þegar maður verður svo óheppin að koma akkúrat þegar bekkjasystur manns eru búnar að festa bílana sína og það inná bílaplaninu. Þær eru algjörir snillingar.

ATLI GEIR SCHEVING

21. október 1993, Akureyri

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Var í verknámi í Úthlíð í Skaftártungu. Það var góður tími í alla staði hjá frábæru fólki.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir

námið? Já, ef til vill hefur það breyst að einhverju leyti, en öðru ekki.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í

framtíðinni? Já, það er nú eina vitið. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Ætli það séu ekki þeir tímar sem að falla niður og tímarnir hjá Hauki Þórðar. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Fyrst og fremst kindur. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Misjafnlega blautt eftir dögum og einstaklingum.

ÁFANGAKYNNING - Sauðfjárrækt

Í grunnáfanga um sauðfjárrækt er farið í gegnum sögu sauðfjárræktar á Íslandi og fjallað stuttlega um sauðfjárkyn og sauðfjárrækt annars staðar í heiminum. Rætt um mörk og merkingar fyrr og nú. Farið í gegnum skráningu og niðurstöður skýrsluhaldsins í sauðfjárrækt og tengsl þess við kynbótastarfið. Fjallað er um fóðrun, hirðingu og aðbúnað sauðfjár og lífeðlisfræðilega áhrifaþætti sauðkindarinnar. Nemendur kynnast ómmælingum og verklegar æfingar eru í sauðfjárdómum og líflambavali. Uppsetning og uppgjör afkvæmarannsóknar á Hesti er rædd. Í valáfanganum í sauðfjárrækt er kafað dýpra í ýmsa þætti sauðfjárræktarinnar. Farið er yfir alla helstu sauðfjársjúkdóma og forvarnir gegn þeim. Fjallað er um fjárhús og uppbyggingu þeirra með tilliti til vinnuhagræðingar við umhirðu sauðfjár. Farið er dýpra í kynbótafræði sauðfjár með það að leiðarljósi hvernig megi hagnýta sér betur allar þær skráningar sem við stundum í skýrsluhaldinu. Eins er farið í heimsókn á sauðfjárbú og farið yfir efni gæðastýringar í sauðfjárrækt svo nemendur standist undirbúningsnámsskeið gæðastýringar. Verklegt rúningsnámskeið er hluti af valáfanga í sauðfjárrækt.

BRAGI VIÐAR GUNNARSSON

25. júní 1991, Túnsbergi í Hrunamannahreppi

Verknámsbær og hvað stendur upp úr?

Syðra-Skörðugil. Eftirminnilegast var þegar allar ærnar á bænum voru sprautaðar (650 stk), og það gekk svo mikið á að við náðum því á rúmum klukkutíma. Elvar bóndi taldi þetta aldrei hafa gengið svo vel. Það er allt gert af fullum krafti á Syðra-Skörðugili :)

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir

námið? Já, ber meiri virðingu fyrir fólki sem er tilbúið að leggja fyrir sig þann starfsferil að vera bændur, annars finn ég sterkari tengsl við landbúnað eftir námið.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í

framtíðinni? Það er náttúrulega draumurinn. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Það hefur brotið daginn mikið upp að vera í verklegri hrossarækt, einnig kemur búsmíði sterk inn.

Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með?

Hrossin og kýrnar heilla, það þarf eitthvað að borga fyrir hrossin :) Hvernig er lífið á Hvanneyri? Lífið er ljúft, einstök samheldni í nemendum hérna á svæðinu.

SIGURLAUG KJARTANSD.

1. ágúst 1986, Uppalin í Nýjubúð í Eyrarsveit á Snæfellsnesi en bý að Hamraendum í Stafholtstungum í Borgarfirði

Verknámsbær og hvað stendur upp úr? Úthlíð í Skaftártungu. Margt skemmtilegt og fróðlegt sem ég gerði þar en upp úr stendur þegar ég fór með þeim að smala afréttinn sem er gríðarstór með mögnuðu landslagi og mjög djúpum giljum, sem ég held að sé mun brattari þegar maður fer upp heldur en niður.

Hefur viðhorf þitt til landbúnaðar breyst eftir

námið? Orðin harðari á því hversu mikilvægur hann er og nauðsynlegt sé að halda í þá sérstöðu sem við höfum hér á landi.

Hefur þú hugsað þér að vinna við landbúnað í

framtíðinni? Já og það væri best ef ég gæti haft landbúnaðarstörf sem aðalstarf. Skemmtilegustu tímarnir í skólanum? Þar sem myndast líflegar umræður. Ætli það sé ekki oftast í sauðfjárræktinni. Með hvaða bústofn myndirðu vilja búa með? Sauðfé og nokkra hesta. Hvernig er lífið á Hvanneyri? Viðburðaríkt.

This article is from: