1 minute read
Breytingar á vaxtartímabil og áhrif á uppskeru
Greinilegar breytingar hafa orðið á lengd vaxtartímabils en tímabilið frá sáningu til uppskeru er nú 6,3 dögum styttra en við upphaf þess tímabils sem skoðað var (Mynd 10). Þó svo bæði sáning og uppskera færist fram þá vega áhrif uppskerudags þyngst (Mynd 9). Styttra vaxtartímabil var ekki á kostnað uppskeru, þúsundkornavigtar eða rúmþyngdar en allar þessar breytur fara hækkandi eftir því sem líður á umrætt tímabil (Mynd 14). Þessi þróun er ólík því sem sést til dæmis í Finnlandi fyrir árin 19732003 þar sem vaxtartímabilið lengdist um 3,4 daga (Öfversten, Jauhiainen og Kangas, 2004) eða í norðurhluta Skotlands þar sem vaxtartímabilið lengdist um 31% á tímabilinu 1960-2003 (Reykdal o.fl., 2014).
Greining á fylgni á milli sáðdags, skriðdags og uppskerudags sýnir að sáðdagur hefur aðeins takmörkuð áhrif á skriðdag og uppskerudag (Mynd 12). Erfitt er að fullyrða um hvaða aðrir umhverfisþættir hafa úrslitaáhrif en sýnt hefur verið fram á að hitastig á vaxtartímabilinu hefur stærstu áhrifin á uppskeru í Noregi (Lillemo, Reitan og Bjørnstad, 2010). Sterk jákvæð fylgni kom fram milli hitastigs á vaxtartímabilinu og uppskeru (Mynd 16), þar sem uppskeran fylgdi að mestu breytingum í hitastigi yfir vaxtartímann. Meðalhitastig dugði þó ekki til að útskýra lága uppskeru í öllum tilfellum, til dæmis ekki árin 2013 og 2014. Aðrir veðurþættir gætu þó verið þar að verki sem áhugavert væri að skoða betur. Mjög lágar uppskerutölur fyrir árið 2013 (Mynd 16) mætti einnig ef til vill skýra með því hve almennt var sáð seint það árið (Mynd 9).