1 minute read
Ræktun hérlendis og innflutningur sáðvöru
Sáðkorn er í nær öllum tilfellum innflutt og á hverju ári flutt inn um 1000 tonn af fræi af ýmsum byggyrkjum. Árið 2014 voru til dæmis flutt inn um 924 tonn í því sem næst jöfnum hlutföllum af tveggja og sex raða yrkjum (Mynd 2) þó sex raða byggi sé alltaf flutt inn í eilítið meira magni (upplýsingar um innflutning á sáðvöru af heimasíðu MAST - www.mast.is).
Verkefni kynbóta og yrkjaprófana hafa verið í gangi við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) frá stofnun skólans árið 2005, en þar áður hjá Rannsóknarstofnun Landbúnaðarins (RALA). Af þessum verkefnum hafa nú þegar sprottið fjögur yrki sem komist hafa á markað: ‘Skegla’ árið 2002, ‘Kría’ árið 2004, ‘Lómur’ árið 2007 og yrkið ‘Skúmur’ árið 2008. Fleiri yrki eru í prófunum og vonandi væntanleg á markað fljótlega.
Þau yrki sem flutt eru til landsins eru að mestu leyti norsk, finnsk og sænsk, auk íslensku yrkjanna. Íslensku yrkin hafa um 32% markaðshlutdeild, en önnur yrki sem vinsæl eru meðal bænda eru til dæmis ‘Filippa’, ‘Aukusti’, ‘Judit’ og ‘Wolmari’
Mynd 2 Innflutningur sáðkorns á árunum 2009 til 2014,
sundurliðað eftir raðgerð í tveggja (rauð lína) og sex raða (blá
lína). Mynd 3 Innflutt byggyrki árin 2009 til 2014 flokkuð eftir
upprunalandi. Litir vísa til upprunalands þar sem hlutfall frá
hverju landi er sýnt í sviga (gögn frá MAST) (Hilmarsson,
Göransson, Lillemo, o.fl., 2017).
(Mynd 3). Því miður er ekki vitað hvaða yrki bændur velja í akra sína og heldur ekki hvort bændur nota mismunandi yrki með ólíkum hætti eftir landshlutum og/eða jarðvegsgerðum þar til að skýrsluhald í jarðrækt var tekið upp sem skilyrði fyrir jarðbótastyrk. Skortur á nákvæmum upplýsingum um uppskeru í ökrum bænda gerir jafnframt erfitt um vik að meta yrkjaval. Niðurstöður yrkjaprófana í rannsóknum gefa þó einhverja hugmynd um mögulega uppskeru og gætu þannig auðveldað bændum val á bestu yrkjum fyrir íslenskar aðstæður.