1 minute read
Mikill breytileiki – meðferð útlaga
Í umræddu gagnasafni komu í nokkrum tilfellum fram gildi sem telja mætti víst að væru útlagar sem rétt hefði verið að fjarlægja úr gagnasafninu. Þrátt fyrir að þetta kæmi til tals var niðurstaðan að framkvæma greiningar með öllum gildum. Var þetta gert þar sem sá möguleiki var þrátt fyrir allt fyrir hendi að um væri að ræða raunverulegan líffræðilegan breytileiki í þeim efnivið sem prófaður var. Því hefði sú ákvörðun að sleppa þeim úr gagnasafninu leitt til vanmats á breytileika gagnasafnsins (Altman og Krzywinski, 2016). Sú ákvörðun var því tekin að í stað þess að eyða hugsanlegum útlögum væri réttara að leitast við að útskýra öfgagildi í gagnasafninu.
Meðal þess sem stakk í augu við greiningu gagnanna voru mjög háar uppskerutölur fyrir Grundargerði (GRG), en þar voru prófanir aðeins framkvæmdar árið 2004. Það ár var veðurfar
almennt gott á norðanverðu landinu og má búast við því að miðgildi séu almennt há samanborið við aðra prófunarstaði þar sem miðgildi byggjast á fleiri árum. Þessi háu gildi mætti þó einnig hugsanlega skýra með „jaðaráhrifum“ (e. border effect) (Gomez, 1972) en þau koma fram þegar tilraunareitir eru jafn breiðir og sem nemur breidd skurðar við uppskeru með stígum milli reita. Í heitum sumrum með hæfilega úrkomu þá getur plantan nýtt umfram ljós meðfram stígum til ljóstillífunar og tekið upp vatn og næringu án samkeppni sem eykur uppskeru án samsvarandi aukningar á flatarmáli reitanna. Þessi áhrif gætu hugsanlega skýrt þau háu gildi sem sjást fyrir uppskeru í Grundargili (GRG) og jafnvel fyrir Möðruvelli (MOD) (sjá Mynd 13A). Þó svo að þessi áhrif myndu ekki hafa áhrif á samanburð arfgerða innan tilraunastaðs þá gætu þessi áhrif skýrt niðurstöður þess þegar mæld uppskera rís mikið í samanburði við þúsundkornavigt og rúmþyngd (Mynd 15). Þetta vandamál mætti leysa, að minnsta kosti að hluta til, með því að sá almennt í breiðari reiti og uppskera aðeins hluta af reitnum.