1 minute read
Ættir íslenskra byggyrkja
Eins og áður sagði hafa fjögur íslensk yrki komið á markað; það er ‘Skegla’ (árið 2002), ‘Kría’ (árið 2004), ‘Lómur’ (árið 2007) og ‘Skúmur’ (árið 2008). Fyrir áframhaldandi kynbætur er mikilvægt að skilja hvaða erfðaþættir hafa áhrif á eiginleika þessara yrkja og hvaðan þeir eru upprunnir. Með þetta í huga höfum við rakið ættir íslensku byggyrkjanna eins lang aftur og hægt er, í mörgum tilfellum aftur til svo kallaðra landrasa. Áhugavert er að sjá að þrátt fyrir að tveggja raða yrkin ‘Skúmur’ og ‘Lómur’ annars vegar og sex raða yrkin ‘Skegla’ og ‘Kría’ hins vegar eigi ekki margt sameiginlegt þá deila þau skyldleika við arfgerðina IS-046 sem sameiginlegum forföður, en IS-046 er kominn af ‘Mari’ × ‘Tampar’ og ‘Sigur’ × ‘Akka’ víxlun (Myndir 18 og 19).
Sænska yrkið ‘Mari’, sem kom fyrst á markað árið 1960 (Gustafsson, Hagberg, Persson og Wiklund, 1971; Lundqvist, 2008), varð til sem afleiðing af geislun á yrkinu ‘Bonus’. ‘Mari’ ber litla úrfellingu í Mat-a geninu, en afurð þess gens er vel þekktur þátttakandi í stjórn dægursveiflunnar í byggi en þessi úrfelling virðist gera yrkið „óháð daglengd“ (e. day length neutral), sem leiðir til snemmblómstrandi svipgerðar (Gustafsson o.fl., 1971; Zakhrabekova o.fl., 2012). Auk þess hefur ‘Mari’ sterkan stöngul sem minnkar líkur þess að plantan leggist (Gustafsson o.fl., 1971; Zakhrabekova o.fl., 2012). Þetta yrki var ræktað hérlendis fram á áttunda áratug síðustu aldar með takmörkuðum árangri en hefur síðan verið notað í víxlunum í íslenska kynbótaverkefninu og var í tilraunum til 1996.
Mynd 18 Ættartré íslenskra byggyrkja – „vinstri hlið“. Yrki sem valin hafa verið til raðgreiningar á flýtigenum eru sýnd með hvítu
letri á svörtum bakgrunni. Yrki sem koma endurtekið fyrir í trénu eru merkt sérstaklega með bókstöfum.
Mynd 19 Ættartré íslenskra byggyrkja – „hægri hlið“. Yrki sem valin hafa verið til raðgreiningar á flýtigenum eru sýnd með hvítu
letri á svörtum bakgrunni. Yrki sem koma endurtekið fyrir í trénu eru merkt sérstaklega með bókstöfum.