1 minute read

Inngangur

Jarðrækt er undirstaða landbúnaðar og matvælaframleiðslu og megintilgangur jarðræktartilrauna LbhÍ er að stuðla á sjálfbæran hátt að aukinni skilvirkni og framlegð við ræktun nytjajurta á Íslandi. Það er meðal annars gert með kynbótum og prófunum á nýjum erlendum yrkjum hérlendis, hvort sem það er af fóðurjurtum eða jurtum beint til manneldis. Yrkjaprófanir geta orðið til þess að yrki finnast sem henta betur við íslenskar aðstæður heldur en eldri yrki sem notuð eru í dag. Einnig er mikilvægt að stunda innlenda kynbótastarfssemi því íslenskar ræktunaraðstæður eru um margt ólíkar því sem gerist í nágrannalöndunum. Með innlendu kynbótastarfi er hægt að fá fram æskilega eiginleika sem leiða enn frekar til meiri og öruggari uppskeru. Áherslan er á kornkynbætur, aðallega bygg og einnig kynbætur á fjölærum fóðurjurtum í samstarfi við önnur lönd á norðlægum slóðum. Þetta eru tímafrek langtímaverkefni.

Túnrækt er og verður áfram meginstoð jarðræktar á Íslandi um ókomna framtíð. Í dag eru hverju sinni um 85% alls ræktunarlands tún og um 15% er akurlendi (mest grænfóður og korn). Algengast er að kornrækt sé stunduð í sáðskiptum og í tengslum við endurrækt túna. Tilraunir með nýjar áburðartegundir, áburðarblöndur og áburðarskammta á nytjajurtir sem og margskonar ræktunaraðferðir í þeim tilgangi að hámarka gæði og magn uppskerunnar á sjálfbæran hátt er stór partur í starfsemi Jarðræktarmiðstöðvar LbhÍ. Þá hefur lengi verið áhersla á rannsóknir með belgjurtir, aðallega smára, með það að markmiði að auka hlut þeirra í túnrækt. Belgjurtir eru hágæða fóðurjurtir sem þurfa ekki eins mikinn áburð og önnur túngrös en gefa enn ekki nægjanlega stöðuga uppskeru ein og sér.

Allar þessar rannsóknir eru með einum eða öðrum hætti liður í því að auka sjálfbærni og skilvirkni ræktunar og eru því mikilvægur þáttur í að auka fæðuöryggi á Íslandi.

This article is from: