2 minute read

Tíðarfar 2016

Tíðarfar 2016

Árið 2016 var eitt hlýjasta ár sem mælst hefur á Íslandi. Norðanlands var það á flestum veðurathugunarstöðum í öðru eða þriðja sæti, hlýrri höfðu verið árin 2014 og sums staðar líka 1933. Sunnanlands var það í sömu stöðu, hlýrri höfðu verið árin 2003 og sums staðar 1939. Á Vestfjörðum og við Breiðafjörð var nýliðið ár ótvírætt það hlýjasta frá upphafi mælinga og þar með í Stykkishólmi sem á lengsta mælisögu að baki hérlendis. Veturinn 2015-16 var þó ekki jafnhlýr og aðrir hlutar ársins. Hann byrjaði með jólaföstu eftir eindæma rigningasamt haust. Talsverðan snjó setti þá niður á Korpu síðustu daga nóvember og fyrstu daga desember. Sá snjór sjatnaði reyndar fljótt en entist að stofni til fram í miðjan mars, bæði sem hjarnskaflar og svell á túnum. Febrúar var tiltakanlega kaldur og snjór á jörðu um allt land allan mánuðinn, var reyndar mikill sums staðar norðanlands. Um miðjan mars brá til betri tíðar, snjó allan tók upp sunnanlands og vestan og víðar á láglendi. Ekki var talið að tún hefði kalið að ráði. Á Korpu kól fjölært rýgresi en ekki annað. Klaki í jörðu var nokkur en ekki mikill. Hann hvarf á Korpu um miðjan apríl en hélt velli fram um 10. maí norðanlands og í innsveitum syðra. Snjólaust var í apríl um vesturhelming landsins, en snjór þá enn víða á láglendi á norðaustanverðu landinu. Kornsáning hófst á stöku stað á sunnan- og vestanverðu landinu snemma í apríl, dæmi voru um að sáningu hefði lokið 11. dag mánaðarins. Víða var verið að sá um eða upp úr miðjum mánuðinum. Norðanlands var klaki mun meiri og þar komust menn ekki af stað fyrr en komið var nokkuð fram í maí. Sumarið var hlýtt um allt land, nálgaðist það sem best hefur verið áður. Vor og sumar var þurrt sunnanlands og vestan, allt frá apríl til og með ágúst, tafði það sprettu þar sem þurrast var undir. Norðanlands var úrkoma í ríflegu meðallagi og sprettutíð hin besta. Heyskapartíð var ágæt um land allt og korn varð skorið án sérstakra vandkvæða. Kornuppskera varð þó tæpast eins mikil og búast hefði mátt við. Kemur þar tvennt til, ekki varð sáð fyrr en langt var liðið á vor norðanlands og sunnanlands mun þurrkurinn hafa dregið úr sprettu víða. Síðustu þrír mánuðir ársins voru eindæma hlýir um allt land og vætusamir, sérstaklega þó sunnanlands og vestan. Átti haustið því mestan þátt í því gera árið að því mikla hlýindaári sem raunin varð.

This article is from: